21. febrúar 2011

Orsakir siðblindu

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda V hluti
(finna má fyrri færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda, hér til hægri)

Ég trúi því ekki að augljós misbeiting eða einhver hversdagsleg stórfelld afglöp foreldra geti sannanlega verið meginorsök þess að barn þrói þessa flóknu röskun.1

Menn hafa lengi velt því fyrir hvers vegna til séu siðblindir í mannlegu samfélagi. Einkum hefur umræðan snúist um að hve miklu leyti félagslegar aðstæður, umönnun og uppeldi í bernsku og æsku o.fl. þess háttar skipti máli og að hve miklu leyti erfðir skipti máli. Robert D. Hare hefur reyndar haldið því fram að það þýði lítið að reyna að greina þarna á milli enda telur hann að siðblindum sé ekki viðbjargandi hver sem orsök röskunarinnar sé talin. Þeir sem telja að einhvers konar  meðferð gæti dregið úr siðblindu hafa hins vegar áhuga á hvaða meginþættir liggi að baki þessari persónuleikaröskun og í eldri heimildum slíkra áhugamanna er oft gert mikið úr félagslegum þáttum. Rannsóknir á siðblindum gáfu fyrir löngu vísbendingar um að heilastarfsemi þeirra væri öðru vísi en annars fólks en það er ekki fyrr en nýverið sem tæknin fór að leyfa sæmilega áreiðanlegar raunvísindalegar  rannsóknir á slíku, einkum með starfrænni segulómstækni (fMRI) en einnig hefur sneiðmyndataka (PET) o.fl. verið notuð í þessu skyni. Rannsóknir á tvíburum hafa miðað að því að finna út að hve miklu leyti siðblinda er arfgeng. Loks má nefna að aukinn áhugi virðist á að máta siðblindu við þróunarfræðilegar kenningar til að skýra hvers vegna siðblindir einstaklingar urðu til.

Hér á eftir verður stiklað á stóru yfir helstu kenningar og niðurstöður.
 

*Líffræðilegar orsakir
 

Heili siðblindra

Viss óreiða háir nokkuð rannsóknum á heilastarfsemi siðblindra. Til er fjöldi ólíkra rannsókna, þar sem úrtak og samanburðarhópur var valinn á mismunandi máta og fengust í sumum tilvikum frábrugðnar niðurstöður. Þótt mig skorti auðvitað grunnþekkingu í þessum fræðum ætla ég að reyna að gera grein fyrir því helsta sem virðist sæmilega ábyggilegt. Fyrst er þó líklega rétt að útskýra þá heilastarfsemi sem ber á góma, í einfaldaðri mynd:

Randkerfið - limbic systemRandkerfi: Hluti randkerfisins (limbic system) er mjög gamall, t.a.m. möndlungur. Þessi hluti randkerfisins er einn af þeim hlutum heilans sem við höfum „fengið í arf frá skriðdýrunum“, þ.e. tilheyrir þeim hluta heilans sem er gamall í þróunarsögunni og er því svipaður í fjölmörgum dýrum. Mætti segja að tilfinningar séu milljónum ára eldri en hugsanir, miðað við þróun mannsheilans. En til randkerfis teljast einnig svæði í heilaberki, nýjasta hluta spendýraheilans. Randkerfið sér um ýmsa þætti teng