16. apríl 2011

“Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar”

Þetta er bein tilvitnun í opnuviðtal við Gunnlaug Haraldsson ritara Sögu Akraness, sem birtist í nýjasta Skessuhorni (13. apríl 2011). Ég hef hugsað mér að gera þessi orð að mínum en ekki að gera vinnulagið að mínu.

HöfrungurÍ rauninni er þetta ótrúlegt viðtal, svo ekki sé meira sagt! Eins og alþjóð veit er blaðsíðan í Sögu Akraness þyngdar sinnar virði í gjaldeyri, gott ef hún var ekki verðlögð á 10.000 kall síðast þegar ég vissi, miðað við hvað búið er að greiða söguritanda sem engu skilaði af sér fyrr en um miðjan janúar á þessu ári. Hann hóf verkið 1997 og enn hefur ekkert komið út, kemur þó fram í lok viðtals að bráðlega muni fyrri tvö bindin (af þremur) birtast í firnastóru broti”.

Sem sagt: Liðin eru 14 ár og það eina sem Skagamenn hafa séð eru firnamargar fundargerðir Ritnefndar Sögu Akraness (heitir í greininni sögunefnd Akraness) og núna mynd af söguritara með margar möppur í baksýn, sem ku fullar af dýrmætum ljósritum sem nýtast hafa (munu?) við söguritunina. … hátt í 200 bréfabindi … um 500 síður í hverju bréfabindi. Þessi gögn hefur söguritari leitað uppi í skjalasöfnum, pælt í gegnum þau, afritað og slegið inn í tölvu, sumt stafrétt en gert útdrátt úr öðrum og jafnvel þýtt gömul embættisskjöl úr dönsku.” Ja, ég skal segja ykkur það! Úr dönsku!

Borið saman við simpla doktorsritgerð þá eru ætluð 3- 4 ár til að klára svoleiðis í Hugvísindadeild (t.d. er í sagnfræði- og heimspekideild  miðað við 3 ára vinnu en 4 ár í íslenskudeild), má sækja tvisvar um framlengingu í eitt ár ef gildar ástæður eru fyrir hendi. Ég kíkti á tvær svoleiðis ritgerðir uppi í hillu, önnur er um 270 síður, hin tæpar 500 síður (sú er í heldur stærra broti en gerist og gengur). Hvorug er myndskreytt. Af heimildalista verður ekki betur séð en höfundarnir hafi verið duglegir að leita, pæla o.s.fr. á skjalasöfnum og þýtt úr talsvert fleiri málum en dönsku. Saga Akraness verður rúmlega 1100 síður og brotið eins og áður sagði firnastórt. En vonandi er talsvert af myndum á þessum síðum, a.m.k. ef einhver von á að verða til þess að ímyndaður lesandi komist í gegnum hana. Raunar hef ég aldrei skilið þegar fólk gumar af lengd sinna ritsmíða. Það er líklega afleiðing af margra ára kennsluferli þar sem kennari vann stöðugt að því að fá nemendur til að bulla minna, vera kjarnyrtari og halda sig við efnið í stað þess að einblína á síðufjölda. Eða afleiðing af vefsíðugerð í meir en 15 ár þar sem maður lærir þá gullnu reglu Less is more”. (Ekki að ég brjóti hana ekki hikstalaust ef því er að skipta … og álít að hún eigi ekki við um blogg af mínu tagi þótt hún eigi kannski eitthvað við vefina sem ég slæ.)

Það má því ætla að Saga Akraness verði ígildi svona fjögurra doktorsritgerða í efnisöflun og efnistökum, miðað við þá gífurlega vinnu sem höfundur tíundar í þessu viðtali.

Í viðtalinu er slegið upp kortum af Ljóðhúsum og Akranesi + Kjalarnesi og nánast látið að því liggja að höfundurinn hafi uppgötvað samsvaranir í örnefnum og dregið af því þá ályktun að þeir Bresasynir hafi komið af þeim slóðum. Um Ljóðhús segir að hún sé stærst hinna fjölmörgu eyja í klasanum vestur af Skotlandi”. Ég held að flestir hafi heyrt talað um Suðureyjar (a.m.k. þeir sem hafa verið nemendur mínir) og óþarfi sé að kalla þær klasann vestur af Skotlandi”. Þessi örnefnasamsvörun hefur verið þekkt lengi, í fljótu bragði man ég eftir Gísla Sigurðssyni og Helga Guðmundssyni sem hafa fjallað um þetta en líklega einnig Svavar Sigmundsson og eflaust fleiri. Svo þetta er nú ekki nein stórkostleg uppgötvun Gunnlaugs! Og ályktunin um uppruna landnámsmanna á Akranesi og Kjalarnesi hefur margoft komið fram einmitt í tengslum við samsvaranir örnefnanna. En kortið í Skessuhorninu er sérteiknað og sjálfsagt nýborgað og algerlega ólæsilegt svo kannski halda einhverjir lesendur að þetta séu glæný merkistíðindi.

Höfnin á AkranesiÉg veit ekki hvaða tilgangi viðtal á heilli opnu átti að þjóna. Aflát? Það hefur a.m.k. mistekist því viðtalið einkennist af gorgeir. Þeim sem hafa nasasjón af fræðilegum vinnubrögðum finnst það e.t.v. fyndið? En ég forhertist enn í þeirri skoðun að þetta rit skuli aldrei inn fyrir mínar dyr. Það er nóg að hafa þegar greitt sinn part í þessum 100 milljónum sem bærinn er búinn að spreða í verkið, með útsvarinu sínu. (Leiðréttið mig í kommenti ef talan er röng, hugsanlega hefur Jón Bö. fengið eitthvað af þessum peningum fyrir bindin af Sögu Akraness sem hann skrifaði ekki.) Mér er ekki kunnugt hvað bærinn hefur svo blætt í myndirnar sem væntanlega skreyta verkið eða hversu mikið hann borgar Uppheimum fyrir að gefa verkið út. (Uppheimamenn eru skynsamir og gera sér örugglega grein fyrir því að þessi bók selst ekki svo varla taka þeir fjárhagslega ábyrgð sjálfir.) Þeir Skagamenn sem ég hef heyrt tjá sig um framtakið eru fjúkandi reiðir yfir þessu gæluverkefni bæjarins(nema einn, sem var í ritnefndinni árum saman, gott ef ekki formaður á tímabili,  og hefur sjálfsagt átt sinn þátt í að skaffa Gunnlaugi þetta verkefni) og ég veit ekki um neinn sem gæti hugsað sér að kaupa þetta. En bæjarapparatið fær líklega  megnið af lagernum sem einstakar stofnanir geta svo spreðað í merkisafmælisgjafir eða aðrar merkisgjafir næstu hálfu öldina.

Nú er ég sjálf að skrifa sögu, ekki Skagans heldur prjóns. Svei mér ef ég þýði ekki af ensku, dönsku og þýsku við verkið og hugsanlega verð ég að droppa á skjalasafn þegar á líður, vona þó ekki því nokkrar framfarir hafa orðið í að gera gamalt íslenskt efni aðgengilegt á vefnum og miklu meiri framfarir í að gera álíka útlent efni aðgengilegt á sama stað. Ég hef safnað heimildum á aðskiljanlegum bókasöfnum en reyndar þurft að kaupa nokkrar bækur að utan því þær eru ekki til hér á landi.

Prjónaður riddariAf heilsufarsástæðum vinnst mér hægt. En tíminn sem mun taka að skrifa um sögu prjóns frá upphafi verður þó aðeins brotabrot af þeim tíma sem tók að skrifa sögu svæðisins hér og þeirra örreytiskota sem hér voru. Og kannski er aðalmunurinn sá að ég tek ekki krónu fyrir verkið, það verður öllum aðgengilegt og hvorki hægt að mæla í blaðsíðum né broti því það birtist á vef. En að sjálfsögðu mun ég hafa  það þýðir ekkert hér um bil …” að leiðarljósi þótt ég kunni betur við að orða það svo að vel skuli vanda það sem lengi á að standa eða maður verði sæll af verkum vel.

Prjónasöguvefurinn er í fæðingu - sjá http://this.is/harpa/saga_prjons/index.html. Athugasemdir eru vel þegnar.

  

4 ummæli við ““Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar””

 1. Hafdís Helgadóttir ritar:

  Ég er svo mikið sammála þér í þessu. Hef samt ekki séð Skessuhornið. Hafðu það gott um helgina. Kv. Hafdís

 2. Hrafn Arnarson ritar:

  Mér finnst þetta afar sérkennilegt mál amk. ef miðað er við fréttir af því í blöðum. Mörg ár og háar tölur hafa verið nefndar. Nú á byððgasaga sér ríka hefð hér á landi. Saga fjölmargra sveiarfélaga og kaupstaða hefur verið skrifuð. Það er því víða hægt að leita fyrirmynda hvað varðar efnistök, rannsóknaraðferðir og famsetningu. Flestir þeirra sem ritað hafa slíkar bækur eru menntaðir sagnfræðinga en það er auðvitað ekki án undantekninga. Kennarar og lögfræðingar og íslenskufræðingar hafa einnig látið til sín taka á þessum vettvangi. Tölurnar eru háar sem nefndar hafa verið en ég hef hvergi séð sundurliðun á kostnaði. Ég hef heldur ekki séð samanburð á kostnaði við ritun á sögu annarra staða, t.d Reykjavikur eða Akureyrar. Fróðlegt væri að heyra nánar af því. Gunnlaugur Haraldsson er þjóðháttafræðingur og stundaði nám í Svíþjóð ef mínar upplýsingar eru réttar. Hann hefur verið safnstjóri og ritað fjölda bóka,.s.s læknatal, guðfræðingatal og svo framvegis. Þjóðháttafræði er hluti þjóðfræði og hér er stutt tilvísun sem lýsir greininni :

  “Þjóðháttafræði er sá hluti þjóðfræðinnar sem fæst við verkhætti, siði og venjur. Á þjóðháttadeild Þjóðminjasafns, þar sem Árni Björnsson stjórnaði lengst af, hefur frá 1960 verið safnað heimildum um þjóðhætti með því að senda eldra fólki spurningaskrár. Á þjóðháttadeild eru nú skráðar yfir 15.000 heimildir sem fræðimenn og stúdentar leita töluvert í. Á hverju ári eru sendar út 2-3 spurningaskrár en áherslur hafa breyst að því leyti að í stað þess að safna aðallega gömlum fróðleik, er nú allt eins verið að spyrja um nútímann. Í ár erum við til dæmis annars vegar að fást við að afla heimilda um reykingu matvæla á heimilum, bæði verkunina núna og í gamla daga, og hins vegar að kenna nútímasiði tengda brúðkaupum og hvernig þeir siðir hafa breyst á seinni hluta tuttugustu aldar. Í þeirri könnun verða heimildamennirnir á aldrinum 20 til 50 ára.

  Í Háskóla Íslands er kennd þjóðfræði til 60 eininga og í Stofnun Árna Magnússonar, sem einnig er háskólastofnun, er þjóðfræðideild, en þar er áhersla fremur lögð á sögur, kvæði og tónlist. Heimilisiðnaðarskólinn hefur sinnt kennslu í þjóðlegu handverki um langt skeið og öll minjasöfn þurfa á þjóðháttafræði að halda til að vita hvernig gripirnir urðu til og voru notaðir.”

  Hverjir eru möguleikar þjóðháttafræða á Íslandi?

  “Saga vinnubragða og áhalda ætti raunar að vera hluti af allri verkmenntun. Möguleikar til kennslu og framboð á fyrirlestrum um þjóðlega siði og verkhætti, muni, minjar o.þ.h. ætti að stóraukast á næstunni í tengslum við nýjar sýningar í Þjóðminjasafninu við Suðurgötu. Söfnum fjölgar ört núna og þar er mikilvægur starfsvettvangur fyrir þjóðháttafræðinga. Sú gróska er ekki síst í tengslum við tilhneigingu byggðarlaga til að halda utan um menningarsérkenni og draga þau fram, t.d. í samkomuhaldi á borð við Humarhátíð á Höfn, þar sem heimsmeistarakeppnin í Hornafjarðarmanna fer fram, Álfaborgarsjens á Borgarfirði eystra, Orminn á Egilsstöðum o.s.frv. Þeir sem gera leikmyndir og búninga fyrir leikverk eða kvikmyndir um eldri tíð þurfa svo sannarlega á þjóðháttafræði að halda. Ferðamálafræði og þjóðfræði er góð menntunarblanda - menningarferðamennska verður sífellt útbreiddari og leiðsögumenn þurfa að kunna góð skil á lífsháttum, siðum og andlegri mennt fyrri tíma. Túrisminn á vafalítið eftir að gera mikið meira út á ýmislegt þesskonar, á svipaðan hátt og gert er í öðrum löndum. Í nágrannalöndunum hafa þjóðháttafræðingar verið ráðnir til að vinna leiðbeiningar fyrir nýbúa
  http://www.mbl.is/mm/gagnasafn/grein.html?grein_id=648579

 3. Harpa ritar:

  Ég hefði nú ráðið sagnfræðing til verksins en hvorki sænskmenntaðan þjóðháttafræðing né afgamlan íslenskufræðing. Líklegast hefði verið happadrýgst að styrkja doktorsnema í sagnfræði til verksins og ráða hann svo áfram til að vinna úr sinni doktorsritgerð. (Þetta er náttúrlega háð því að einhver doktorsnemi í sagnfræði hefði á sínum tíma haft áhuga á Skaganum og nærsveitum.)

  Samanburður við sögu Reykjavíkur og Akureyri er ekki heppilegur: Þetta hafa alltaf verið miklu stærri staðir með miklu meira umleikis. Kannski samanburður við Sögu Norðfjarðar eða Hafnar í Hornafirði væri nærtækari.

  Hvað varðar Gunnlaug þá er það eina sem ég finn um menntun hans 60 eininga ritgerð í þjóðfræði við Háskólann í Lundi, Svíþjóð, 1978. Sú heitir “Familj och hushåll bland isländska bönder : en östisländsk bygd under 1800-talet i jämförande perspektiv / av Hjalmar G. Haraldsson.” Ef þetta er lokaritgerðin hans er hann líklega með ígildi íslensks masterprófs í þjóðfræði. Aftur á móti titlar hann sig til skiptis þjóðháttfræðing, sagnfræðing, fornleifafræðing og rithöfund svo einhverjum fleirum prófum hlýtur hann að hafa lokið.

  Skoði maður höfundinn Gunnlaug Haraldsson í Gegni sést að hann hefur aðallega verið að taka saman hin og þessi starfsstéttartöl. Séu menn ekki dauðir skaffa þeir upplýsingarnar sjálfir og vinnan er þá að raða í stafrófsröð og setja upp textann. Sem dæmi má sjá undirbúningsbréf fyrir  eitt slíkt tal sem Gunnlaugur vann, http://www.fle.is/fle/upload/files/glaerur/forsida_-_pdf_ofl/bref_2__nov__2008.pdf

  Þetta er múltítaskmaður því hann hefur snarað upp lögfræðingatali, læknatali, endurskoðendatali, tannlæknatali, guðfræðingatali, nokkrum niðjatölum o.fl. á meðan hann var í fullri vinnu við að “skrifa Sögu Akraness”. Væntanlega hefur hann ekki gert þetta í sjálfboðavinnu. Það skal leiðrétt að eina bókin sem hann hefur samið, saga Garðakirkju og Akraneskirkju, kom út árið áður en hann skrifaði undir samning við Akranesbæ um Sögu Akraness. Hins vegar er sú bók samin í samvinnu við marga aðra.

  Fleiri hafa farið flatt á rosalega tímafrekri vandvirkni Gunnlaugs en Akranesbær. Sjá um viðskipti Hafnfirðinga við hann: http://www.dv.is/frettir/2011/1/7/soknarnefnd-leynir-launum-rithofundar/

  Framhaldssagan um Sögu Akraness er rakin t.d. í þessum fréttum: http://www.dv.is/frettir/2009/12/22/fengid-tugmilljonir-en-engu-skilad/ og http://www.visir.is/bokin-um-akranes-kostar-100-milljonir—23-ar-i-vinnslu/article/2010717393546

  Ritnefnd Sögu Akraness hefur haldið 78 fundi frá því hún tók til starfa (eitthvað af þeim var í tíð Jóns Böðvarssonar en megnið auðvitað eftir að Gunnlaugur tók við). Á síðasta fundi var hún þriggja manna en ég held að um tíma hafi hún verið fjölmennari, nenni ekki að gá að því. Hver fundarmaður fær greitt sérstaklega fyrir fundarsetu. Þannig að kostnaður við verkið er ekki bara verktakagreiðslur til Gunnlaugs heldur einnig fundargreiðslur til ritnefndarmanna sem drógu lappirnar í það óendanlega. Því miður man ég ekki hvað okkar góði bæjarstjóri sagði við afhendingu tveggja fyrstu bindanna, þann 18. janúar 2011, en það var einhver einstaklega óheppilega sárgrætileg tilvitnun, gott ef ekki úr Njálu, sem átti svo illa við að hún var ekki einu sinni fyndin.

  Vissulega hóf Gunnlaugur feril sinn hér á Skaganum sem safnstjóri en því starfi lauk á heldur leiðinlegan hátt. Hann vantaði því vinnu og ég reikna með að pólitískir og persónulegir vinir hans af Skagaaðli hafi séð gullið tækifæri handa honum í ritun Sögu Akraness … en líklega ekki gert sér grein fyrir hversu rosalega gullið það reyndist svo vera.

 4. Hafrún ritar:

  Maður er nú svona hér um bil orðlaus.