12. maí 2011

Nefndarmenn lýstu skoðun sinni

Saga Sögu Akraness III
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, „Framtakssemi og frumskógalögmál“
 
 

Ritnefnd um sögu Akraness

Fyrsti fundur Ritnefndar um sögu Akraness var haldinn 14. október 1987. Líklega hefur þá engan órað fyrir að þessi nefnd ætti eftir að starfa næstu 24 árin að verkefninu og hún starfar enn, fundaði síðast 17. janúar 2011.

Í fyrstu ritnefndinni sátu: Gísli Gíslason, bæjarstjóri og formaður nefndarinnar, Gunnlaugur Haraldsson (f. alþýðubandalagið), Hrönn Ríkarðsdóttir (f. alþýðuflokkinn), Halldór Jörgensson (f. framsóknarflokkinn)  og Valdimar Indriðason (f. sjálfstæðisflokkinn).

Þótt ritnefndin hafi verið pólitískt skipuð frá upphafi var hún merkilega stöðug næstu árin og jafnvel áratugina. Frá upphafi heyrði nefndin beint undir bæjarstjórnina og þrátt fyrir ýmsar stjórnsýslubreytingar Akraneskaupstaðar er svo enn. Allar aðrar nefndir hafa verið sameinaðar og felldar undir svið og stofur kaupstaðarins en Ritnefnd um sögu Akraness hefur lifað af allar slíkar breytingar. Hana hefur dagað uppi í kerfinu eins og hvert annað nátttröll, þótt hún hafi (kannski því miður) ævinlega verið með lífsmarki og sé enn.

Sólsetur á AkranesiVið fyrstu sýn virðist ritnefndin hafa verið prýðilega skipuð, þ.e. hana skipuðu fulltrúar jafnt meiri- sem minnihlutans í bæjarstjórn og formaðurinn var ópólitískur bæjarstjóri. En það borgar sig að skoða hana frá fleiri sjónarhornum. Hið fyrsta sem stingur í augu er aldursskiptingin. Annars vegar voru tveir eldri menn, Valdimar á sjötugsaldri og Halldór kominn hátt á áttræðisaldur, og hins vegar þriggja manna yngri hópur; Gísli, Gunnlaugur og Hrönn, öll á fertugsaldri.

Halldór Jörgensson var útfararstjóri bæjarins, þótti vandaður maður og sögufróður.1 Valdimar Indriðason var áhrifamaður í bænum, hafði setið á þingi og var tengdasonur Ólafs Bj. Björnssonar, sem skrifaði Sögu Akraness I og II á sjötta áratugnum og stofnaði Prentverk Akraness. Valdimar átti hlut í þessari prentsmiðju bæjarins og þegar 1. bindi af sögu Jóns Böðvarssonar var prentað þar var sonur Valdimars framkvæmdastjóri prentsmiðjunnar.  Þekking Valdimars á sögu Akraness á tuttugustu öld var óumdeild.

Gísli er lögfræðingur að mennt, Gunnlaugur þjóðháttafræðingur og Hrönn menntuð í sögu og spænsku. En þessi þriggja manna yngri blokk í nefndinni tengdist ýmsum böndum, hafði líklega svipaða lífssýn og tengdist öll vinstri mönnum í bænum, þáverandi alþýðubandalagi (en seinna gengu forkólfar þess margir í samfylkinguna), ýmist beint eða fjölskyldutengslum.2

Eftir bæjarstjórnarkosningar 1990 tók Leó Jóhannesson sæti Gunnlaugs og hefur setið manna lengst í Ritnefnd um sögu Akraness, situr þar enn.3

Ritnefndin hefur aldrei fengið erindisbréf þrátt fyrir að hafa starfað í 24 ár.4  En formaður nefndarinnar, Gísli Gíslason, sagði þremur vikum eftir að nefndin hafði haldið sinn fyrsta fund að hlutverk nefndarinnar yrði að afla gagna og fara yfir þau og fylgja verkinu eftir“.
 
 

Samstarf Jóns Böðvarssonar og Ritnefndar um sögu Akraness

Í meginmáli þessarar færslu er sagan rakin í aðalatriðum en nánari upplýsingar er að finna í neðanmálsgreinum.

Fyrsti fundur ritnefndarinnar og Jóns var haldinn um miðjan október 1987 og virtist samstarfið ganga nokkuð snurðulaust fyrsta kastið. Að vísu kom fljótlega í ljós að ritnefndin afkastaði ekki þeim fáu verkefnum sem hún tók að sér. T.d. var Gunnlaugi Haraldssyni forstöðumanni Byggðasafns Akraness og nærsveita í Görðum á Akranesi falið að taka saman lista yfir þær skriflegu heimildir sem til væru á Byggðasafninu en á næsta fundi þremur vikum síðar sagðist hann ekki hafa haft tækifæri til þess og var samþykkt að þeir Jón ynnu verkið sameiginlega síðar. Óljóst er hvort þessi listi var einhvern tíma gerður. Annað smotterí sem nefndin tók að sér í upphafi var að útbúa skrá yfir félög og félagasamtök í bænum sem kynnu að geta veitt upplýsingar, útbúinn var spurningalisti fyrir slíkt en hálfu ári síðar tilkynnt að Jón yrði að taka þetta verk að sér.

Jón gerði lista yfir háskólaritgerðir sem gætu nýst við söguritunina (um 70 talsins), stakk upp á að taka infrarauða loftmynd af Akranesi (sem hann lét gera með fjárhagsstuðningi Landsbanka Íslands og sýndi sú mynd vel merkileg ummerki fornrar akuryrkju undir Akrafjalli en engin viðbrögð nefndarinnar eru bókuð þegar hann sýndi þeim myndina), gerði nefndinni grein fyrir vinnuáætlun sinni o.s.fr.

Næsta lítið og óskipulega er bókað um verk Jóns. En sumarið 1989 vill nefndin breyta vinnutilhögun hans af því vinnan í heimildaöflun gengur hraðar en áætlað var og fer svo að skipta sér af fyrirhuguðum efnistökum í ritun: „Sýndist mönnum sitt hvað í því efni, en ákveðið var að ræða þau mál mun ítarlegar þegar nær dregur að ritun hefjist.“ (6. fundur 23. júní 1989.) Árið eftir tekur nefndin sér það bessaleyfi að breyta efnisskiptingu frá því sem kveðið var á í samningnum við Jón. Breytingin fólst í því að lengja umfjöllunartíma 1. bindis um 283 ár. Rökin fyrir þessari breytingu sjást ekki, nema ef vera skyldi að „gagnaöflun gengur betur en í upphafi var áætlað“ (5. fundur 10. okt. 1988). Eftir þessa breytingu á efnisskiptingu herðir nefndin æ meir tökin á Jóni. Nefndin virtist álíta sig verkstjóra yfir verkinu og fór að umgangast Jón Böðvarsson eins og starfsmann nefndarinnar en ekki sjálfstæðan sagnaritara.5

Frá því í októberlok 1990 þar til seint í ágúst 1991 var enginn fundur haldinn og er enga skýringu á því að finna. Fundargerðir eru ruglingslegar og óljósar og því ekki ljóst hve miklu Jón skilaði fyrir desemberbyrjun 1990 eða hvers vegna nefndin hélt ekki fund í mars 1991 þegar handrit fyrsta bindis átti að liggja fyrir.

Í ágúst 1991 gerði Jón grein fyrir hvernig bókin skiptist, var gagnrýndur fyrir efnistök og sagt að láta duga að ljósrita myndir sem honum litist á „svo nefndin viti til hvers á að taka afstöðu“. Á næstu fundum er ljóst að Jón er alltaf öðru hvoru að senda eitthvert efni eða leggja fram, óljóst er í fundargerðum hve mikið þetta efni var en má vel skiljast að nefndin var hundóánægð með það.

Eftir að ritnefndin hafði ákveðið að lengja sögutíma fyrsta bindis um rúm 280 ár frá því sem samningur kvað á um var farið að panta ákveðin umfjöllunarefni og vildi nefndin ráða hvernig umfjöllun væri. Miðað við fundargerðir settu nefndarmenn fram álit sitt munnlega á fundum og er erfitt að sjá að vinnubrögð þeirra falli að 2. gr. samnings Akraneskaupstaðar við Jón Böðvarsson þar sem sagt var um hlutverk fulltrúa bæjarins: „… meti þeir verkþátt ófullnægjandi skulu þeir tilgreina á hvern hátt honum er áfátt og skilgreina hvernig skuli úr bæta“ (feitletrun mín).6

Undir lok ágúst 1992 er verkið loksins nokkurn veginn tilbúið til útgáfu. Nefndarmenn velja titilinn, AKRANES, undirtitill skyldi síðan að vera í samræmi við efni hvers bindis. Ekki er þess getið að Jón hafi átt þátt í nafngiftinni. Hörpuútgáfan hafði gefið málið frá sér og samþykkti nefndin að mæla með drögum að samningi við Prentverk Akraness. „Valdimar Indriðason tók ekki þátt í lokafgreiðslu málsins“ segir í fundargerð enda var hann nátengdur prentsmiðjurekstrinum. (18. fundur.) Nefndin fundaði tvisvar í september og ákvað að taka tilboði Magnúsar H. Ólafssonar (arkitekts á Akranesi) í hönnun kápu og kjalar. Jón var ekki boðaður á þá fundi en hugmyndir Magnúsar voru ræddar á næsta fundi, 9. okt. 1992, sem Jón var viðstaddur.  Fljótlega eftir það fór bókin í prentun og kom út í 27. nóvember 1992.

Flugeldar á AkranesiTil að gera langa sögu stutta má segja að samskipti Ritnefndar um sögu Akraness og Jóns Böðvarssonar einkennist eftir þetta af nöldri, rexi og hótunum af hálfu nefndarinnar vegna þess að Jón skili efni seint og illa. Hann fékk heldur ekki greidda krónu eftir 1992 (raunar líklega ekkert eftir 1991) en ritnefndin þáði að sjálfsögðu áfram sín nefndarlaun fyrir fundina sem hún hélt, ýmist með sjálfri sér eða Jóni.7

Það er ákaflega undarlegt hvernig nefndin hélt dauðahaldi í Jón Böðvarsson næstu þrjú árin (1993-1996) því heimild til uppsagnar samnings Akraneskaupstaðar og Jóns var skýrt og ótvírætt bundin því að Jón uppfyllti ákveðnar skyldur innan ákveðinna tímamarka og þær skyldur uppfyllti hann ekki þegar líða tók á verkið.8 Sömuleiðis er skrítið að Jón skuli ekki sjálfur hafa sagt upp samningnum. Að vísu gerði engin grein í samningnum beinlínis ráð fyrir þeim möguleika en samningum má yfirleitt segja upp og ekkert fékk hann greitt. Það hefur þurft mikið langlundargeð til að vinna með fólki sem var orðið honum svo augsýnilega andsnúið, var það jafnvel frá upphafi. Fyrir utan það sem lesa má úr fundargerðum um hug nefndarmanna til Jóns má benda á hvernig formaður nefndarinnar, bæjarstjórinn Gísli Gíslason, notar tækifærið í minningargrein um Valdimar Indriðason til að hnýta í Jón Böðvarsson og minnist ég þess satt best að segja ekki að hafa séð ámóta dæmi.9

Þann 23. febrúar 1997 hélt ritnefndin fund þar sem formaðurinn tilkynnti að Jóni hefðu verið send samningsdrög um starfslok. (30. fundur.) Tveimur dögum síðar skrifuðu Gísli Gíslason bæjarstjóri og Jón Böðvarsson undir „Samkomulag um niðurfellingu samnings dags. 31. ágúst 1987 um ritun sögu Akraness.“ [Viðbót 16. maí: Um þetta vinnulag sagði Gísli Gíslason á umræðuþræði Akraneskaupstaðar 23. febrúar 2005: „Ekki ætla ég að fara að rifja hér upp ritferil Jóns Böðvarssonar - en til að fyrirbyggja misskilning þá óskaði hann eftir lausn frá
samningi sínum og því var það ekki á hendi bæjarins að halda við þann samning.“ Ég get ekki séð af fundargerðum að Jón hafi óskað eftir lausn frá samningi sínum en aftur á móti er augljóst af því sem ofan var rakið og neðanmálsgreinum að Gísli gerði sitt besta til að losna við Jón og tókst það að lokum. Líklega hefur hann haft fullan stuðning ritnefndarinnar við þá iðju.]

 

Starfslokasamningur Jóns, greiðslur og kostnaður við útgáfu Akranes. Frá landnámi til 1885

Í samkomulaginu sem skrifað var undir var kveðið á um að „allt sem unnið hefur verið við ritun samkvæmt samningum [verður] eign Akraneskaupstaðar þ.m.t. gögn í vörslu Jóns sem hann hefur safnað vegna verkefnisins“ (2. gr.) og „Fyrirliggjandi handritsdrög að öðru bindi bókarinnar Akraness verður eign Akraneskaupstaðar samkvæmt samkomulagi þessu og hefur Akraneskaupstaður rétt á að fara með það handrit að vild í samræmi við lög um höfundarrétt. Nær heimild kaupstaðarins til þess að nota handritið allt eða hluta þess og að gefa það út án sérstakrar greiðslu til Jóns og gerir hvorugur aðila kröfur á hendur hinum vegna þess.“ (3 gr.)10

Greiðslur til Jóns Böðvarssonar fyrir vinnu við ritun sögu Akraness hef ég ekki nákvæmlega sundurliðaðar en svo virðist sem honum hafi verið greitt við undirritun samnings árið 1987, árið 1988, árið 1990 og árið 1991.11 Akraneskaupstaður skuldbatt sig til að kaupa eintök af Akranes. Frá landnámi til 1885 af Prentverki Akraness fyrir 550.000 kr. haustið 1992. Heildarkostnaður Akraneskaupstaðar vegna ritunar og útgáfu á sögu Akraness á árunum 1987-1992 er upphæð sem uppreiknuð á núvirði er rétt rúmlega 15 milljónir og 223 þúsund krónur. Þetta er, skv. mínum upplýsingum, allur kostnaður við verkið fyrir utan ritnefndarlaun frá upphafi til ársins 1997, þegar nefndin fór að starfa með Gunnlaugi Haraldssyni, nýjum sagnaritara.
 
 

Bókin Akranes. Frá landnámi til 1885

Ritnefnd um sögu Akraness ákvað að samið yrði við Prentverk Akraness um útgáfu og lá mjög á svo bókin næði að koma út árið 1992 sem var afmælisár kaupstaðaréttinda bæjarins. Það hafðist og bókin kom út 27. nóvember 1992.12

Saga AkranessMér finnst þetta óvenju ljót bók, ef ég á að segja eins og er. Kápan (smelltu á litlu myndina til hliðar til að sjá stærri) er afar óaðlaðandi. Akrafjallið er nánast „geðbilað að sjá“ eins og skáldið sagði, í ælugrænum og brúnum litum og rauði liturinn á Akranes tónar einstaklega illa við hina litina. Einhverjar svarthvítar pennateikningar hafa verið límdar ofan í kápumyndina, í algeru ósamræmi við fjall, himin og haf og til að kóróna smekkleysið eru límdar illa undirlýstar ljósmyndir af Langasandi á forsíðu, og Kútter Sigurfara í dumbungi á baksíðu.

Myndir sem skreyta textann virðast annað hvort ljósritaðar eða ljósmyndaðar úr öðrum bókum en ekki hafa verið unnið með frummyndir. Þær eru óskýrar og grófkornóttar. Tilvísanir í myndaskrá styðja þetta, t.d. „Úr Heynesbók - Skip sett fram. Mynd tekin úr Sögu Íslands IV., 144 blaðsíða“ eða „Sölvafjara. Ljósmyndari: Guðmundur Þ. Ólafsson. Úr  Íslenskum sjávarháttum I., 223. blaðsíða.“ Sumt er dálítið sorglegt að sjá, t.d. mynd á s. 267 og tilvísunina „Hallgrímur Jónsson hreppstjóri. Mynd tekin úr Sögu Alþingis II, 90. blaðsíðu“ þegar nákvæmlega sama mynd er í Akraneskirkju 1896-1996 ásamt ágripi af sögu Garða og Garðakirkju á Akranesi eftir Gunnlaug Haraldsson, útg. 1996, s. 87, þar sem kemur fram í myndaskrá að Byggðasafnið í Görðum á frummyndina sjálfa!

Ég nefni þessi atriði til að benda á að það sem snéri að Ritnefndinni, Akraneskaupstað og Prentverki Akraness í útgáfu bókarinnar virtist unnið af litlum metnaði, jafnvel hroðvirkni.

Gísli Gíslason skrifaði formála að bókinni og segir þar m.a.: „Nú er að nýju ráðist í ritun sögu Akraness með þeim efnistökum sem Jón Böðvarsson hefur valið og mun velja hverju hinna þriggja binda sem ætlun er að gefa út.“ (s. 8.) Eftir að hafa lesið gegnum fundargerðirnar finnst mér þessi staðhæfing um val Jóns nú hljóma eins og hver annar brandari. Í aðfaraorðum Jóns segir: „Ritnefnd hefur starfað með mér og hafa allir nefndarmenn haft áhrif á bókartexta er birtist hér. Talvert öðru vísi væri hann hefði nefndin legið á liði sínu. Skoðanir reyndust skiptar um einstök efnistök og áherslur en samstarfsvilji slíkur að eining varð um allar niðurstöður. Ég þakka ritnefnd fyrir gagnlegar athugasemdir og ábendingar meðan ritsmíð þessi var í vinnslu.“ (s. 9). Svo þakkar Jón ýmsum utan ritnefndar fyrir yfirlestur, prófarkalestur og ráðgjöf og telur loks upp hóp manna, þar á meðal Gunnlaug Haraldsson og Valdimar Indriðason, sem „sömdu nokkra myndatexta“. (s. 9-10.)

Of langt mál yrði að telja hér upp efnisþætti í þessari 336 síðna bók en bent á að þeir eru raktir í stórum dráttum í ritdómum sem vísað er í. Það væri nær að líta á efnisþættina síðar, til samanburðar, þegar bækur hins sagnaritarans, Gunnlaugs Haraldssonar, líta dagsins ljós eftir rúma viku. Kann að verða fróðlegt að bera saman textann því Gunnlaugur sá ástæðu til að skrifa um sama tímabil og Jón gerði skil (og reyndar hafði Ólafur Bj. Björnsson fjallað um suma þætti þess enn áður). Samanburður á vel auglýstum íburði nýju útgáfunnar, sem er kostaður af Akraneskaupstað, og þeirrar fátæklegu umgjörðar sem texta Jóns Böðvarssonar var búinn verður líka fróðlegur.

Ritdómar um Akranes. Frá landnámi til 1885 voru fremur lofsamlegir. Sagan þótti fróðleg, vera lipurlega skrifuð, sýna yfirgripsmikla þekkingu höfundar, tengja Akranes vel við sögu þjóðarinnar o.fl. Það sem fundið var að í blaðadómum var helst að höfðingjar fengju of mikið vægi og of lítið væri fjallað um alþýðu manna eða að bókin væri ekki nógu fræðileg.13

Jón Þ. Þór var einmitt sá sem fann að þessu síðarnefnda í blaðadómi og hann skrifaði seinna ritdóm um bókina í Sögu. Tímarit Sögufélags 1993, s. 273-275. Hann byrjar á að nefna að Jón noti nýstárlega aðferð í byggðasöguritun og á þar við að Jón skrifi söguna fremur sem safn þátta en samfellda byggðasögu. „Höfundur leggur sig lítt eftir því að rekja sögu sveitarinnar í smáatriðum á fyrri öldum …“, segir Jón Þ. Þór og finnur síðan að því að Jón Böðvarsson hafi ekki gaumgæft frumheimildir nægilega, einkum fornbréf og annála. En hann getur þess að þetta sé „í samræmi við það sem segir í inngangi, að ritinu sé ekki ætlað að vera fræðileg úttekt, heldur eigi það aðeins að leggja grunn að sögu Ytri-Akraneshrepps og síðan Akraneskaupstaðar.“ Jón Þ. Þór er ekki sáttur við þetta markmið heldur telur að „nákvæm greining á lífi, kjörum og lífsháttum fyrri alda karla og kvenna [hefði] vafalaust verið vænlegri til að efla lesendum skilning á byggð á Akranesi nútímans en frásagnir af kænsku Þorleifs Þórðarsonar og veldi Stefánunga. Sú rannsókn hefði kostað mikla þolinmæði, ekki síst vegna þess hve óaðgengilegar margar undirstöðuheimildir sögu vorrar eru, en vafalaust skilað meiri feng.“ 

En Jón Þ. Þór segir síðan að kaflinn um sögu höfðingja á Görðum á Sturlungaöld sé „bráðskemmtilegur“ og að þar „setur Jón fram ný sjónarmið, túlkar sögu þess mikla róstutímabils á annan hátt en áður hefur verið gert og bregður skemmtilegri birtu yfir sögusviðið. Sama máli gegnir að nokkru leyti um kaflann um afkomendur Þórðar lögmanns Guðmundssonar og um útgerð og umsvif Brynjólfs biskups.“

Niðurstaða Jóns Þ. Þór er að „rit þetta sé á margan hátt fróðlegt og á köflum bráðskemmtilegt aflestrar. Það uppfyllir hins vegar ekki ströngustu kröfur sem gera verður til fræðirita um íslenska byggðasögu.“14
 
 
Fyrri færslur:

Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldri búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, „Framtakssemi og frumskógarlögmál“

Framhaldsfærslur:

Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …
 
 
 


1 Halldór Jörgensen lést snemma vors 1988 og sæti hans tók  Ólafur J. Þórðarson.

2 Kona Gísla og Hrönn eru systradætur. Tengslin milli Hrannar og Gunnlaugs eru ekki augljós. En þau áttu það þó sameiginlegt að hafa numið sín fræði í Lundi í Svíþjóð, líklega þó ekki á sama tíma. Fjölskyldutengsl við alþýðubandalagið verða ekki rakin hér.

3 Leó er mágur Gísla Gíslasonar og þau Leó og Hrönn eru systrabörn. Tengslin í yngri blokkinni ritnefndarinnar (sem voru Gísli, Leó og Hrönn) urðu því enn nánari 1990 og virtist engum þykja neitt athugavert við það. Þau tengsl vörðu lengi því Gísli Gíslason bæjarstjóri var formaður Ritnefndar um sögu Akraness til 2006. Þá hvarf hann jafnt úr ritnefnd sem bæjarstjórastóli. Hrönn Ríkarðsdóttir hvarf úr ritnefndinni árið 2002. Hún varð formaður Menningarmála-og safnanefndar bæjarins í vetrarbyrjun 2003 og hefur setið í bæjarstjórn fyrir Samfylkinguna frá 2006 til dagsins í dag. Leó Jóhannesson situr enn í ritnefndinni.

4 Munnleg heimild: Leó Jóhannesson 6. maí 2011.
 

5 Á 7. fundi, 23. ágúst 1990 „varð nefndin sammála um [feitletrun mín] að ganga út frá eftirfarandi skiptingu:
  a) Fyrsta bindi: frá landnámi til 1885.
  b) Annað bindi: frá 1885 - 1941
  c) Þriðja bindi: frá 1941.“

Það er augljóst að Ritnefnd um sögu Akraness hafði ekkert umboð til að fara að ritstýra verkinu á þennan hátt eða hefja sjálfa sig á stall yfir söguritara miðað við samninginn sem Akraneskaupstaður og Jón Böðvarsson höfðu gert með sér. Hlutverk ritnefndar var „umsjón með verkinu“ og að „meta verkþætti“ skv. samningi en ekki ritstjórn og fyrirskipanir.

Á næsta fundi er bókað: „Nefndin var sammála um framhald vinnu við verkefni sitt [feitletrun mín]:
  a) Jóni Böðvarssyni var falið að hefja ritun fyrsta bindis með það sem markmið að ritun þess verði lokið í marsmánuði 1991.
  b) Stefnt verði að útgáfu 1. bindis í janúar 1992.
  c) Ritun annars bindis hefjist á árinu 1991.
  d) Stefnt verði að útgáfu annars bindis árið 1992.“
Tímasetningar eru í samræmi við samninginn sem var gerður við Jón en nú er verkið orðið verk ritnefndarinnar. Jóni er sett fyrir að senda fundarmönnum fyrstu kaflana til yfirlestrar fyrir desemberbyrjun. (8. fundur, 30. okt. 1990)

Svo kemur dularfull þögn um verkið í tæpt ár.
 

6 Sumar athugasemdir og spurningar eru beinlínis hlægilegar og sýna kannski fyrst og fremst fáfræði nefndarmanna. Á fundi 20. ágúst 1991 (9. fundi) gagnrýndi Valdimar Indriðason að hlutur fornra heimilda sé of viðamikill og spurði „hvort fjalla eigi um sögu Akraness sem landnámsbæjar eða Akranes sem bæ. Einnig vildi hann vita hvernig Jón hygðist byrja söguna.“ Þetta er undarleg spurning í ljósi þess að verið var að ræða fyrsta bindið, tímabilið frá landnámi til 1885. Varla hefur Valdimar talið að „bærinn Akranes“ hafi staðið um aldir eða verið í upphafi „landnámsbær“? „Leó spurði um kaflaskipti og hve margar blaðsíður væru í hverjum kafla.“ Jón gerði á þessum fundi grein fyrir skipulaginu, svarar því „að í bókinni yrðu um 10 kaflar sem yrðu að meðaltali 15-30 bls. hver“ og andmælti Valdimari með því að hamra á heimildagildi fornra rita og að þáttur þeirra væri síst of stór.

Byrjað var að ræða útgáfumál á sama fundi. Bragi Þórðarson eigandi Hörpuútgáfunnar mætti á fundinn og Gísli sagði að nefndin þyrfti næsta hluta handritsins hið bráðasta.

Nefndin fundar síðan nokkuð ört, ræðir um textann með og án Jóns Böðvarssonar og ákveður hvernig myndefni eigi að vera, án samráðs við hann. (Sjá 11. fund, 16. sept. 1991.) Í október sama ár er rætt um efni og útgáfumál 1. bindis, án Jóns, og bókað „Enn vantar heildarsýn yfir verkið.“  18. nóvember er ljóst að Jón hefur sent drög að handriti og „Nefndarmenn greindu frá afstöðu sinni til þeirrar vinnu sem þegar hefur verið innt af hendi og fannst verkið ganga of hægt. Ljóst væri að úttgáfudagur í janúar væri úr sögunni og væri það slæmt. Einnig var þess getið að nauðsynlegt væri að hafa í 1. bindi kafla um útgerð Brynjólfs biskups og um skiptingu Akraneshreppanna. Ákveðið var að Jón myndi bæta tveimur framan nefndum köflum við og ljúka vinnu við handritið fyrir jól. Nauðsynlegt er að stytta ýmsa kafla verulega og lagfæra aðra kafla til þess að nefndin geti síðan farið yfir heildstætt handrit.“ (13. fundur nefndarinnar, 1991.)

Snemma í janúar 1992 var fundað um „framlagt handrit I bindis“, án Jóns. Ekki kemur fram hvenær handritinu var að fullu skilað en ljóst er að nefndarmenn hafa þá ekki farið yfir það. Tæpum hálfum mánuði seinna var fundað með Jóni, nefndarmenn komu á framfæri athugasemdum og hin sígilda umræða nefndarinnar um efni og efnistök fór fram, án þess að bókað sé hvað rætt var.

Jón virðist endurskrifa kafla ofan í nefndina af stöku jafnaðargeði en alltaf er samt eitthvað að. Þann 13. mars 1992 var enn „farið yfir ýmis atriði í fyrirliggjandi handriti. Kaflann um Lögmannsættina má stytta og kveða skýrar að orði um ýmis atriði svo sem um Akranes á upplýsingaöld, Guðnýju Böðvarsdóttur o.fl.“ Sjálfri er mér raunar óskiljanlegt hvernig „kveða má skýrar að orði um Guðnýju Böðvarsdóttur“, sem einkum er þekkt fyrir hverjum hún var gift, við hvern hún hélt og hverjir voru synir hennar en næsta fátt vitað um hana sjálfa sem persónu. Um leið og Jón gerði karlmönnum í lífi Guðnýjar (sem allir bjuggu í öðrum sveitum nema pabbi hennar) betri skil væri hann fallinn í gryfjuna „of viðamikill hlutur fornra heimilda“ sem ekki tengdist Akranesi beint, hvorki sem „bæ“ né „landnámsbæ“. Samstarf sagnaritara við nefndina hefur verið vandasamt.
 

7 Ritnefndin hélt 8 fundi á árunum 1993-1996. Allir ritnefndarfulltrúar fengu greitt fyrir hverja fundarsetu nema formaður nefndarinnar, þ.e. bæjarstjórinn Gísli. Í fundargerðum kemur fram að Jón skilar smám saman handriti að öðru bindi sögunnar og endurvinnur kafla í samræmi við óskir nefndarinnar en sem fyrr eru skil Jóns afar ónákvæmt bókuð í fundargerðum nefndarinnar. Þann 15.7. 1993 kemur fram að Gísli Gíslason og Valdimar Indriðason hafa fundað prívat með Jóni en ekki kemur fram hvað þeim fór á milli. Á þeim fundi er bókað: „Sögunefndin lýsir yfir mikilli óánægju með framgang verksins hjá söguritara og felur formanni að gera bæjarráði grein fyrir stöðu mála … ritnefndin leggur til að söguritara verði skrifað og það skilyrði sett að kaflaskiptingu 2. bindis og fyrsta hluta efnis verði skilað til nefndarinnar fyrir 10. september n.k. Ritnefndin getur ekki fallist á það sjónarmið söguritara að útgáfu 1. bindis verði seinkað.“ (22. fundur.) Vorið eftir er ljóst að Jón hefur skilað einhverju því talað er um að viðbótarefni vanti en jafnframt er bókað: „Saga vinnu við 2. bindi: Formaðurinn lýsti óánægju nefndarmanna með þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið. Aðrir nefndarmenn tóku undir orð formanns.“ (23. fundur.) Mánuði síðar er bókað að meginuppistaða 2. bindis sé nánast komin, í nóvember hefur Jón sent 70 blaðsíður í viðbót en Gísla Gíslasyni er falið að gera bæjarráði grein fyrir stöðunni og óska eftir heimild til að gera breytingar á samningi um ritun sögunnar. Tæpu ári síðar, 5. september 1995, fundaði ritnefndin næst og lá þá fyrir handrit að öðru bindi sem nefndin og Jón voru sammála um að væri ekki tilbúið til útgáfu og vinna þyrfti talsvert í einstökum atriðum; „nefndarmenn lýstu skoðun sinni á handritinu og einstökum atriðum. Söguritari greindi frá sinni hlið mála.“ (26. fundur) Í september 1995 fór nefndin yfir hluta 2. bindis og var Leó falið að ganga frá athugasemdum um einstök atriði. (27. fundur.) Ári síðar, í sept. 1996 er nefndin enn í sömu sporum: „Farið var yfir ýmis atriði varðandi fyrirliggjandi handrit og gerðar ýmsar athugasemdir við það.“ En á sama fundi var rætt um útgáfu og ákveðið að Jón Böðvarsson léti safna myndum í ritið. (28. fundur) Loks hefur einhver ákvörðun verið tekin á fundi nefndarinnar 10. nóv. 1996 en fundargerð er, eins og margar fyrri, á stofnanakenndu hrognamáli og erfitt að ráða í hvað raunverulega gerðist á þessum fundi. M.a. er samþykkt að fela Gísla Gíslasyni að ræða við söguritara „á grundvelli umræðanna [svo] á fundinum“ og næst skuli fundað „þegar þær viðræður hafi átt sér stað.“ Söguritari hefur ekki skilað fullbúnu handriti og ekkert verður af útgáfu 2. bindis á þessu ári. „Ítarleg umræða varð meðal nefndarmanna um stöðu mála og kom enn fram almenn óánægja með framgang mála.“

Á 30. fundi nefndarinnar, 23. febrúar 1997, gerði Gísli Gíslason grein fyrir „stöðu mála gagnvart Jóni Böðvarssyni og að honum hafi verið send samningsdrög um starfslok.“ Á þann fund mætti Gunnlaugur Haraldsson, nýr sagnaritarakandídat Ritnefndar um sögu Akraness.
 

8 Í 4. gr. samningsins bæjarins við Jón segir: „Hafi handritið ekki verið afhent fyrir umsaminn tíma … getur verkkaupi gefið verksala frest í minnst 30 daga og síðan rift samningnum hafi handriti ekki verið skilað að fresti liðnum.“ Þessu ákvæði hefði mátt beita fyrir útgáfu 1. bindis, en handriti að 1. bindi skyldi skilað fyrir 1. apríl 1991, skv. 3. gr. Hugsanlega hefur breytingin sem nefndin gerði sjálf á verkþáttaskipulaginu, þ.e.a.s. sú að krefjast þess að 1. bindið næði til ársins 1885 í stað ársins 1602 sem um var samið að einhverju leyti ómerkt þennan samning? En bærinn gerði aldrei nýjan samning svo það er ótrúlegt að svo hafi verið. Ég fann engar heimildir fyrir því að Jón Böðvarsson hefði haldið eða látið halda allt að 6 opinbera fyrirlestra um söguritunina hér á Akranesi (sem kveðið var á um í 6. gr. samningsins) og man ekki eftir slíkum fyrirlestrum sjálf. Það er aldrei minnst á þessa fyrirlestra í fundargerðum ritnefndar og óljóst hvort fyrirlestrahald heyrði undir hana. Hvort Akranesbær lét tryggingarvíxilinn falla á Jón (eða hótaði honum því), á þeim forsendum að hann efndi ekki skyldur sínar (sbr. 8. gr. samningsins), veit ég ekki, um það segja fundargerðir ritnefndar ekkert.
 

9 „Fundir þessarar nefndar [Ritnefndar um sögu Akraness] verða mér alltaf minnisstæðir. Annars vegar vegna feikilegrar þekkingar Valdimars á sögu bæjarins og áhuga hans á að minna yngri samferðamenn sína á hve merkileg sú saga er og hins vegar vegna orðaskipta hans og söguritara þegar Valdimar vildi að afköst söguritara væru meir en raun ber vitni. Nú er það okkar, sem sjáum á bak Valdimar, að knýja söguritara úr sporunum. Af hálfu sögunefndarinnar er send kveðja og því heitið að ljúka því verki, sem Valdimar vildi að yrði skilað til bæjarbúa.“ Minningargrein Gísla Gíslasonar bæjarstjóra um Valdimar Indriðason, Morgunblaðinu 18. janúar 1995, s. 36. [Feitletun mín. Bæjarstjórinn fer undarlega með orðtakið „að knýja sporum“.]
 

10 Af handriti Jóns, sem þarna er kallað „drög að handriti“ er það að frétta að 4. maí 1997 sagðist Gísli Gíslason hafa „aflað söguritara [Gunnlaugi Haraldssyni] ýmissa gagna frá Jóni Böðvarssyni, þ.m.t. drög að handriti 2. bindis.“ (31. fundur Ritnefndar um Sögu Akraness). Þar sem handrit Jóns Böðvarssonar hefur ekki skilað sér til Héraðsskjalasafns Akraness reikna ég með að það sé enn í fórum Gunnlaugs.
 

11 Jón fékk 554.000 kr. við undirritun 1987 og 1988 fékk hann 574.000 kr. (upphæð áfangagreiðsla var verðtryggð, sjá umfjöllun um samning Akraneskaupstaðar og og Jóns í síðustu færslu). 1989 var ekkert greitt. Árið 1990 er heildarkostnaður við söguritunina um 2 milljónir og níu þúsund og gengur ekki upp að það sé fjórföld greiðsla til Jóns. Þetta hljóta að vera þrjár greiðslur  til hans og annar kostnaður sem ég sé ekki skv. fundargerðum hver gæti verið. Árið 1991 er heildarkostnaður við verkið 1.652.595, sem gætu verið tvöföld greiðsla til Jóns auk einhver annars kostnaðar. Árið 1992 er heildarkostnaður 841.955 kr. Þar af eru 550.000 kr. greiðslur fyrir eintök af Akranes. Frá landnámi til 1885 sem Akraneskaupstaður skuldbatt sig til að kaupa af Prentverki Akraness. Greiðsla til Jóns getur ekki verið innifalin í því sem eftir er og hlýtur sú upphæð að hafa verið greidd fyrir annað sem tengdist útgáfunni. Af þessu dreg ég þá ályktun að Jón hafi fengið greiddar 7 greiðslur af þeim 11 sem um var samið í upphafi. Árin 1993-1996 er enginn kostnaður Akraneskaupstaðar af söguritun bókfærður. Upplýsingar um kostnað og uppreikning upphæðanna á núvirði eru fengnar frá Akraneskaupstað þann 4. maí 2011.
 

12  Í „Samningi um útgáfu á Sögu Akraness“, sem Akraneskaupstaður og Prentverk Akraness undirrituðu 2. september 1992, segir: „Akraneskaupstaður skal skila fullbúnu handriti, myndum, kortum og annast hönnun á kápu og kili. Ritnefnd um Sögu Akraness og söguritari annast myndasöfnun og prófarkalestur og ber Akraneskaupstaður kostnað af þeim þætti. Útgefandi greiðir annan kostnað við útgáfuna … Uppsetning bókarinnar og útlit skal unnið í samráði við söguritara og ritnefnd um Sögu Akraness.“ (1. grein.) „Akranesbær skuldbindur sig til að kaupa eintök af hverju bindi bókarinnar … fyrir sem nemur 550.000 kr. …[og] heitir að dreifa ekki eintökum af bókunum fyrr en öll bindin eru komin út.“ (3. gr.) Þetta gekk vitaskuld ekki eftir, þ.e. einungis fyrsta bindið af þeim þremur sem samið var um útgáfu á kom út. Í 3. grein samningsins segir: „Upplag bókarinnar skal vera a.m.k. 1000-1500 eintök og skal við útgáfuna miðað við að brot bókarinnar og uppsetning verði með svipuðum hætti og safn til iðnsögu á Íslandi.“ [Átt er við ritröðina Safn til iðnsögu Íslendinga.]
 

13 Sjá: Gunnlaugur A. Jónsson. „Af höfðingjum á Skaganum“ í DV 17. des. 1992; Sigurjón Björnsson. „Upphaf Akranessögu“ í Morgunblaðinu 13. feb. 1993; Jón Þ. Þór. „Brautryðjendur og framkvæmdamenn“ í Tímanum 11. mars 1993 og Ólafur Ásgeirsson. „Höfðingjar sitja á Akranesi“ í Morgunblaðinu 5. maí 1993.
 

14 Á Íslenska söguþinginu í lok maí 1997 var m.a. fjallað um hvernig skyldi rita byggðasögu. Þar komst Jón Hjaltason að þveröfugri niðurstöðu um hvernig eigi að skrifa byggðasögu við Jón Þ. Þór í þessum ritdómi. Jón Hjaltason telur að best sé að fjalla um valda einstaklinga en forðast smásmugulega upptalningu jafnvel þótt sagnfræðingar kunni að telja slíkt fræðilegt. Hann sagði: „… ber okkur að vanda málfar og textagerð langt umfram alla þá áherslu sem lögð er á tilvísanaskrár. Auðvitað er krafan um allslags skrár lítið annað en eigingjörn ósk okkar sagnfræðinga um að félagar okkar leggi okkur upp í hendur heimildir að eigin verkum. … Langflestir lesenda hirða ekkert um slíkar skrár, áhugi þeirra beinist allur að kjarnatriðinu, sem er textinn sjálfur, hvort sem hann birtist í grein eða bók. Ritverkið er ekki dæmt eftir neðanmálsnótum heldur þeirri skynsemi sem höfundur sýnir, ritfærni og hvernig honum tekst að færa viðfangsefnið að veruleika lesandans. Þá á ég við þá einföldu staðreynd sem ég hef imprað á áður, að þegar skrifuð er saga þorps eða borgar, héraðs eða þjóðríkis, verður höfundurinn að átta sig á því að það voru einstaklingar er skópu þá sögu … Ég hef stundum sagt … að besta kaupstaðasagan væri ævisaga nokkurra vel valinna einstaklinga.“ (Jón Hjaltason. 1997. „Hvernig á að skrifa byggðasögu?“ Íslenska söguþingið 1997. Ráðstefnurit II. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og Sagnfræðingafélag Íslands, Reykjavík 1998, s. 293.)

Ég get skoðunar Jóns Hjaltasonar hér vegna þess að hann hefur sjálfur uppskorið mikið hrós fyrir Sögu Akureyrar sem hann hefur skrifað í mörgum bindum og vegna þess að Gunnlaugur Haraldsson nefndi einmitt hluta Sögu Akureyrar sem æskilega fyrirmynd þegar hann tók við sagnarituninni af Jóni Böðvarssyni árið 1997.
 
 
 
 

2 ummæli við “Nefndarmenn lýstu skoðun sinni”

 1. Þorvaldur Lyftustjór ritar:

  Einkar áhugaverður lestur og gleður mitt gamla hjarta. Að vísu sýnir það þess kvykyndislega eðli en við það verður að sitja.
  Meira! Meira!!

 2. Harpa ritar:

  Mér fannst þetta sjálfri frekar sorgleg saga. Merkilegt að Jón Böðvarsson, sem gat unnið með allskonar sveitarstjórnarmönnum á Suðurnesjum, hjálpað þeim nóg til að halda friðinn og stofna og reka saman FS; sem gat unnið með fjórum mismunandi menntamálaráðherrum nægilega til þess að halda Safni til Iðnsögu Íslendinga gangandi; sem gat unnið með allskonar iðnsamböndum og iðnaðarmönnum (e.t.v. er svoleiðis vandasamasta samstarf sem hægt er að hugsa sér ) o.s.fr. - skuli ekki hafa getað unnið með Ritnefnd um Sögu Akraness. Segir þetta okkur eitthvað um Ritnefndina? Eða Jón?

  Kann að vera að Jón hafi átt bágt með að koma orðum á blað (það viðurkennir hann sjálfur) en hann var óumdeild fyrirlestrarstjarna. Af hverju flutti hann aldrei fyrirlestur hér á Skaganum? Var hann því sjálfur andvígur? (Mér finnst það afar ólíkleg skýring.) Eða vildu ráðamenn, t.d. ritnefnd og bæjarstjóri, ekki að hann flytti fyrirlestra og heillaði einhverja söguþyrsta Skagamenn upp úr skónum? Það væri afar áhugavert að vita skýringuna á þessu en hana finn ég hvergi í heimildum. Kannski helst að einhver fulltrúi ritnefndar geti upplýst það.

  En gott er nú að heyra, Þorvaldur minn, að þú varðveitir enn kvykyndið í þér :) Þegar maður missir kvikindisháttinn algerlega þá breytist maður annað hvort í dýrling eða lík (nema hvort tveggja sé) og ekki er það sérlega eftirsóknavert. Ég hef enn Míu litlu mína helstu fyrirmynd í lífinu og sú fyrirmynd hefur oft fleytt mér yfir hyldýpið.