17. maí 2011

Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma

Titill færslunnar er óbein tilvitnun í orð Gunnlaugs Haraldssonar um eigin sagnaritun í bréfinu „Meint ritstífla brestur“ á umræðuþræði Akraneskaupstaðar 25. febrúar 2005.

Saga Sögu Akraness V

Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
 
 

Munir við ByggðasafniðÞað virðist nokkuð augljóst að upp úr áramótum 1997 voru einhverjir ráðamenn í bænum búnir að ákveða að ráða Gunnlaug Haraldsson sem arftaka Jóns Böðvarssonar í sagnaritun. Á þeim tíma var Gunnlaugur atvinnulaus, einungis með einhver verkefni í stéttartalaritun og ritun Æviskráa MA-stúdenta. Á fyrsta fundi ritnefndar það ár, þann 23. febrúar, kemur fram að rætt hafi verið við Gunnlaug um að taka við sagnarituninni. Gunnlaugur mætti enda sjálfur á fundinn og lagði fram hugmyndir sínar og Gísli Gíslason, formaður ritnefndar, tilkynnti að Jóni Böðvarssyni hefðu verið send samningsdrög um starfslok.

Nýlega staðfesti Gunnlaugur enn og aftur sjálfur að ritnefndin hafi átt upptökin að ráðningu hans: „Árið 1997 leitaði sögunefnd Akraness til mín um að ljúka því skrefi sem stigið hafði verið með bók Jóns og prjóna við hana samantekt mína“1 en aftur á móti hefur eitthvað skolast til hjá honum með hvaða hætti það bar: „Fyrst nokkrar sögulegar staðreyndir: Árið 1997 kom ritnefnd að máli við mig og falaðist eftir því að ég tæki að mér að halda áfram því verki sem Jón Böðvarsson cand. mag. og fyrrum skólameistari hóf 10 árum fyrr, en hafði þá nýlega sagt sig frá.“2  Eins og margoft hefur komið fram í fyrri færslum skrifaði Jón Böðvarsson undir samkomulag um starfslok þann 24. mars 1997. Gunnlaugur mætti hins vegar galvaskur á fund Ritnefndarinnar mánuði fyrr og var þá búinn að skipuleggja sagnaritun sína í talsverðum smáatriðum; lagði fram drög að efnisskrá fyrir þrjú bindi af Sögu Akraness á fundinum.

Í síðustu færslu voru rifjuð upp náin fjölskyldutengsl meirihluta ritnefndarinnar og náin tengsl eins úr þeim meirihluta við Gunnlaug Haraldsson. Sé þetta haft í huga og að Gunnlaugur var svo sem hvorki atvinnumaður í sagnaritun né vel menntaður í sagnfræði er ekki óeðlilegt að hvarfli að manni að þarna hafi meirihlutaklíkan í ritnefndinni ráðið vin sinn til starfa enda maðurinn atvinnulaus. Þótt hugdettan sé ekki óeðlileg eru svoleiðis vinnubrögð afar óeðlileg, ámælisverð og í rauninni ótrúlegt að bæjarstjórn skuli hafa samþykkt tiltækið.3 Af hverju í ósköpunum auglýsti bærinn ekki starf sagnaritara og valdi úr umsóknum eftir menntun og reynslu?
 

Samningurinn fyrsti

Akraneskaupstaður og Hjálmar Gunnlaugur Haraldsson gerðu með sér samning um ritun sögu Akraness þann 23. apríl 1997.

Í samningum kemur fram að bærinn felur Gunnlaugi að rita þriggja binda sögu Akraness sem nái yfir tímabilið 1700-2000.4 Áætlað var að hvert bindi yrði 450-500 síður „í stóru broti“ [fram kemur að átt er við A-4 stærð eða aðeins minna en það] (7. gr.).

Í ljósi þess sem síðar varð er þriðja grein samningsins kannski merkilegust og mikilvægust. Samningurinn var tímabundinn: „Verkið hefst þann 1. apríl 1997 og skal lokið eigi síðar en 30. september 2001.“ Í sömu grein er kveðið á um í hvers konar standi eigi að afhenda handrit og skiladagar einstakra binda eru fastsettir.5 Jafnframt eru ákvæði um að verði dráttur á skilum skuli stöðva greiðslur til söguritara.

Riftunarákvæðið í 3. grein hlýtur að gilda enn því allir aðrir samningar sem síðar hafa verið gerðir við Gunnlaug Haraldsson eru viðbótarsamningar við hinn upphaflega. Þar segir: „ … ef vanefndir teljast verulegar á verktímanum er Akraneskaupstað heimilt að rifta samningi þessum og endurkrefja höfund um þær greiðslur, sem þegar hafa verið inntar af hendi.“6 Eins og öllum er kunnugt voru vanefndir gífurlegar og raunar hefur Gunnlaugur ekki enn skilað nema brotabroti af því verki sem hann tók að sér með undirritun þessa samnings.7 Hvers vegna aldrei hefur verið látið reyna á þetta ákvæði er mér ráðgáta. Núna, rúmum fjórtán árum eftir að samningurinn var gerður, er mögulegt að lögfræðingar teldu riftunarákvæðið ógilt vegna tómlætis verkkaupa (Akraneskaupstaðar) en það væri vissulega gaman að fá álit lögfróðra manna á þessu.

Vert er að geta síðasta ákvæðisins í 3. grein, einnig í ljósi sögunnar: „Höfundur mun hafa ritun sögu Akraness að meginverkefni meðan á gildistíma samningins stendur og mun hann ekki taka að sér verkefni, sem leitt getur til þess að verkefnum samkvæmt þessum samningi verði ekki sinnt.“ Sömuleiðis get ég ekki séð að þetta ákvæði hafi fallið úr gildi. Söguritari vann seinna að mýgrút annarra verkefna meðan hann gerði hvern viðbótarsamninginn á fætur öðrum við Akraneskaupstað, eins og fjallað verður um síðar.

Greiðslur til höfundar eru tíundaðar í 4. grein. Fyrir allt verkið átti hann að fá 14,9 milljónir sem skiptust þannig: Við undirritun samnings fékk söguritari 5% upphæðarinnar, 745.000 kr. en væri síðan á föstum 206.574 kr. mánaðarlaunum í fjögur og hálft ár (54 mánuði, frá 1. apríl 1997 út september 2001). Upphæðin var verðtryggð og skyldi uppfærast einu sinni á ári. Þetta voru verktakagreiðslur, þ.e.a.s. var innifalinn í þeim kostnaður vegna launatengdra gjalda.8 Við skil á hverju handritanna þriggja sem ritnefnd samþykkti átti Gunnlaugur síðan að fá eina milljón. Sú upphæð var einnig verðtryggð.

Gunnlaugur skyldi leggja til alla vinnuaðstöðu og áhöld til ritunar verksins en Akraneskaupstaður endurgreiða honum kostnað við ljósritun og ferðir innanlands. (5. gr.)
 
 

Samskipti við ritnefnd og vinnulag Gunnlaugs í sagnarituninni

Samskipti Ritnefndar um sögu Akraness [hér eftir kölluð Ritnefndin] og Gunnlaugs Haraldssonar voru ólíkt ljúfari en samskipti sömu nefndar og Jóns Böðvarssonar höfðu verið. Á þeim tíma sem Gunnlaugur vann eftir þessum fyrsta samningi hélt nefndin fjórtán fundi. Fundargerðir hennar eru aðgengilegar á vef Akraneskaupstaðar frá 15. febrúar 2001 en til hægðarauka hef ég tekið saman aðalatriði þessara fjórtán funda í töflu sem ég mæli með að áhugasamir unnendur sögu Sögu Akraness skoði.

Svo sem fyrr var nefnt var Ritnefndin sennilega löngu búin að ákveða að ráða Gunnlaug áður en samningur bæjarins við hann var formlega gerður. Hann byrjaði ekki með tvær hendur tómar því á fyrsta fundi eftir undirritun samnings (31. fundi, maí ‘97) afhenti Gísli Gíslason honum ýmis gögn frá Jóni Böðvarssyni, þar á meðal handrit að 2. bindi sögu Jóns, sem vantaði eitthvað á og nefndin var ekki sátt við.

Gunnlaugur lagði fram heilmikið af hugmyndum, áætlunum og listum, ásamt „hugleiðingum“ sínum „um vinnu sína“, á árunum 1997-98. Árið 1999 skilaði hann loks einhverju, þ.e. drögum að efnisyfirliti fyrsta bindis, skv. fundargerð 13. október 1999 (37. fundur). Í samningnum var áskilið að hann skilaði handriti að fyrsta bindi fyrir 1. október 1999. Þessi vanskil virðast ekki valda Ritnefndinni neinum sérstökum áhyggjum, það er ekki fyrr en um mitt næsta ár, í júní 2000, sem er bókað: „Tímaáætlun er um einu ári á eftir áætlun en stefnt er að því að vinna þann tíma upp og leggja fram handritið af 1. bindi á haustdögum eða í vetrarbyrjun.“ Svo varð ekki heldur lét sagnaritari duga að leggja fram „sýnishorn af efni sem yrði í 1. bindi“ og „tillögu að framsetningu á því sem gert verður“, í lok nóvember 2000 (39. fundur). Nefndin er ekkert að bögga hann á þeim fundi heldur „… lýstu [nefndarmenn] almennt yfir jákvæðu viðhorfi til þeirrar framsetningar sem Gunnlaugur kynnti. Fram komu einnig athugasemdir um að nauðsynlegt væri að ljúka vinnu við 1. bindi sem fyrst og hefja vinnu við 2. og 3. bindi.“ Raunar átti Gunnlaugur að vera búinn að skila 2. bindi fyrir 1. október þetta ár og 1. bindi meir en ári áður.

Það er óskiljanlegt hvernig Ritnefndin bregst eftirlitshlutverki sínu gersamlega eins og rakið hefur verið. Hún virðist hafa einhverja glýju í augum þegar vinnubrögð Gunnlaugs ber á góma. E.t.v. hafa nefndarmenn trúað því í alvöru að hann bæri miklu betra skynbragð á sagnaritun en Jón Böðvarsson, þrátt fyrir að vera miklu minna menntaður og með miklu minni reynslu. Kannski voru þetta eftirhreytur af hugmyndafræði (öllu heldur sjálfsdýrkun) íslenskra námsmanna í Lundi á áttunda áratugnum, kannski tókst sagnaritaranum sjálfum svona vel að sannfæra nefndina.

Skoðanir hans sjálfs á hvernig skuli rita byggðasögu eru skýrar:

Gunnlaugur segir að í raun séu um tvær leiðir að velja við ritun héraðssögu. Önnur leiðin, og sú auðveldari, sé að einskorða hana við samantekt og úrvinnslu á því ritaða og prentaða efni sem þegar liggur fyrir. Með þeirri aðferð sé þó litlu sem engu aukið við það sem áður var vitað og því efamál hvort slík útgáfa þjóni einhverjum tilgangi. Hin leiðin sé að afla frumheimilda eins og kostur er og ráðast í metnaðarfullt og krefjandi starf, þar sem leitast er við að rifja sem best upp löngu gleymda sögu. Gunnlaugur segir að þá þýði ekkert „hérumbil“ og fara verði alla leið í þeim efnum, reyna að viða að sér öllum þeim gögnum sem fyrirfinnast.9

Þarf náttúrlega enginn að fara í grafgötur um að Gunnlaugur hefur kosið erfiðari leiðina í sinni sagnaritun. Árið 2005 orðaði hann álit sitt enn skýrar (þá orðinn 4-6 árum á eftir áætlun með verkið, eftir því hvernig á það er litið):

Þetta er því miður ekki einsdæmi sögu íslenskrar sagnaritunar, heldur öllu fremur sígild og bitur reynsla nær allra þeirra sveitarfélaga, fyrirtækja og annarra aðila sem fyrr og síðar hafa ráðist í að láta skrá lítt eða ekki rannsökuð efni eða sögu sína. Hrekkur þá skammt að mæla digurbarkalega á spjallrásum að vísa með stóryrðum í einhvern órökstuddan meðaltalstíma til “bókarskrifta á Íslandi” … því sérhvert tilvik ræðst miklu fremur af aðgengi og tilurð heimilda svo og þeim kröfum sem gerðar eru um úrvinnslu þeirra. Það er hægur vandi að rumpa saman bókartötri á skömmum tíma með því einu að sanka saman gagnrýnislaust samtíningi úr áður útgefnum ritum eins og ýmsir hafa látið sér sæma og mörg eru “einnota” dæmin um í árlegu jólabókaflóði. Ég legg ekki nafn mitt við slíka iðju …10

Áfram hélt svo samkvæmisleikur Gunnlaugs og Ritnefndarinnar; Hann segir nefndinni hvað hann hafi verið að bardúsa og hvað hann hafi hugsað sér að gera og fer svo að mjatla efni í nefndina í skömmtum frá febrúar árið 2001. Ritnefndin er svo sem ekkert að æsa sig, þótt aðeins sé farið að nefna að nauðsynlegt sé að ljúka vinnu við 1. bindi sem fyrst eða að æskilegt sé að ákveðin markmið, ótilgreind, náist fyrir næsta fund eða eitthvað ámóta saklaust.

Munir á ByggðasafniÞann 15. október 2001 er bókað: „Gunnlaugur gerði grein fyrir stöðu mála. Efni vegna 19. aldar er nú um 5-600 síður, en vinna þarf það efni frekar og skipta því í tvö bindi og miða við 1850. Sá tími, sem gert var ráð fyrir að færi í ritunina, er að líða og var m.a. rætt um ýmislegt því tengt.“ Þetta er merkileg bókun! Í fyrsta lagi var „sá tími sem gert var ráð fyrir að færi í ritunina” ekki að líða heldur löngu liðinn! Gunnlaugur átti að skila fyrsta bindi, um byggðasögu 1700-1900, fyrir 1. okt. 1999, öðru bindi um atvinnuhætti og hagsögu 1900-2000 fyrir 1. okt. 2000 og þriðja bindi um félags-og menningarsögu 1900-2000 fyrir 1. okt. 2001. Ég minnist þess að ekki hafa séð jafnstórkostlegan úrdrátt í opinberri fundargerð og þessa bókun Ritnefndarinnar! Aftur á móti voru fastar mánaðargreiðslur til Gunnlaugs væntanlega um það bil að stöðvast. Hitt, þ.e. að Gunnlaugur ákveði allt í einu þegar samningstíminn er liðinn að skipta fyrsta bindinu í tvennt, án þess að Ritnefndin svo mikið sem æmti, er líka stórmerkilegt. Höfðu almennir nefndarmenn aldrei lesið samninginn sem Akraneskaupstaður gerði við Gunnlaug? Í samningnum er nefnilega skipulagið og skiptingin talin afar nákvæmt upp enda líklega einmitt samin af Gunnlaugi handa Ritnefndinni snemma árs 1997. (Sennilegt er að formaður Ritnefndarinnar hafði lesið samninginn því hann skrifaði sjálfur undir hann, fyrir hönd bæjarins.)

Það sem Ritnefndin hafði séð af verkinu hægunna, þegar hér var komið sögu, þ.e. samningstíma var lokið, var: „Sýnishorn af efni í 1. bindi“ (22.11. 2000); 150 s. sýnishorn af 1. bindi (15.2. 2001); 302 s. af 1. bindi (30.5. 2001); 112 s. um lok 18. aldar og 70 s. efnis frá 19.öld, þ.e. efni í 1. bindi (15. 10. 2001). Handhægara er e.t.v. að skoða þetta í töflunni yfir aðalatriði í fundargerðum.

Enn einn fundinn heldur Ritnefndin eftir miðjan nóvember 2001. Fundargerðin er merkileg því í henni er að nokkru gerður upp afraksturinn af fjögurra ára vinnu Gunnlaugs. Feitletranir í fundargerð eru mínar.

„1. Gunnlaugur lagði fram efnisyfirlit að 1. bindi ásamt 598 síðum í handriti sem nær frá 1700 til 1850.
 

2. Lagt fram bréf Gunnlaugs, dags. 19. nóvember, um ritun sögunnar.  Í bréfi Gunnlaugs kemur m.a. fram að verkið hafi tafist þar sem langtum meiri tíma hafi tekið að leita uppi heimildir í skjalasöfnum, úrvinnsla gagna og heimilda fór þar af leiðandi  seinna af stað og loks að ítarleg heimildaöflun hafi leitt fjölmargt í ljós sem fyrirfram var ekki vitað og kostað töluverða vinnu að vinna úr.

Þarna sést upphafshlekkur langrar afsökunarkeðju því svipaðar afsakanir hefur söguritari notað æ síðan.

Þá kom fram í bréfi Gunnlaugs að nú sé föstum greiðslum til hans lokið, en árangurstengdar greiðslur ógreiddar.  Verði því að taka ákvörðun sem fyrst með hvaða hætti vinnunni verði haldið áfram.  Gunnlaugur  telur einnig rétt að rita forsöguna, þ.e. frá landnámi til 1700, sem kunni að taka 3 mánuði að skrifa.  Í bréfinu kemur fram að um 24-30 mánuði taki að búa annað efni til prentunar.

Það er áreiðanlega rétt hjá Gunnlaugi að árangurstengdar greiðslur voru ógreiddar. Nærtækasta skýringin á því er auðvitað að árangurinn, afraksturinn, hafði enginn verið. Hann átti að fá eina milljón fyrir hvert bindi sem hann skilaði á réttum tíma en hafði engu skilað fyrr en á þessum fundi. Núna skilaði hann loksins ókláruðu fyrsta bindi, miðað við samning, tveimur árum of seint. Ég vek athygli á því snjallræði Gunnlaugs að ota „forsögunni“ að nefndinni, þ.e. einhverjum stuttum pistli frá landnámi til 1700. Ritnefndin gleypti þá beitu í upphafi næstu samningslotu, sem varð til þess að ekki var einu sinni hægt að gefa út þetta svokallaða fyrsta bindi sögunnar því þar með vantaði upphafið framan á það. Hafandi sýnt Ritnefndinni Sögu Akureyrar, væntanlega I. bindi, nánast í upphafi verksins (33. fundi) var hann búinn að leggja línurnar fyrir einmitt þetta form.

Gunnlaugur vék svo af fundi en nefndin hélt áfram störfum og bókaði:

„3. Rætt var um stöðu málsins. Ritnefndin staðfesti skil á 1. bindi verksins sbr. gildandi samning.  Nefndin er sammála um að það efni sem skilað hefur verið sé gott og lofi góðu um heildarverkið. Nefndin telur mikilvægt að verkinu verði haldið áfram og leggur til við bæjarráð að samningur bæjarins við söguritara verði framlengdur.

Gunnlaugur hafði vissulega lagt fram efnisyfirlit yfir 1. bindi og 589 síður í handriti „sem nær frá 1700-1850“. En við þetta er það að athuga að skil voru rúmum tveimur árum á eftir áætlun miðað við samninginn. Ennfremur var 1. bindið skilgreint í samningi sem byggðasaga 1700-1900. Hvernig Ritnefndin gat staðfest að þetta sem Gunnlaugur skilaði væru „skil á 1. bindi verksins sbr. gildandi samning“ er ofar mínum skilningi. Formaður Ritnefndarinnar, bæjarstjórinn, er lögfræðingur að mennt þannig að þetta hlýtur einhvern veginn að hafa verið löglegt og í samræmi við samninginn, er það ekki?
 
 

Greiðslur til Gunnlaugs Haraldssonar á þessu tímabili og annar kostnaður

Gunnlaugi voru greidd full mánaðarlaun frá 1. apríl 1997 út september 2001. Að auki fékk hann endurgreiddan kostnað vegna efnisöflunar og ferða. Líklega hefur hann fengið eina árangurstengda greiðslu greidda (jafnvirði einnar milljónar á verðlagi apríl 1997) árið 2001. Alls greiddi Akraneskaupstaður Gunnlaugi 16 milljónir og rétt tæp 700 þúsund króna á árunum 1997-2001. Að auki er bókaður annar kostnaður við ritun sögu Akraness 1998 og 1999, samtals 263.325 kr. Kostnaður vegna nefndarlauna ritnefndar er fyrir árið 2001 33.168 kr. (fyrri upphæðir nefndarlauna liggja ekki fyrir). Samanlagður kostnaður Akranesbæjar af söguritun í fyrstu atrennu Gunnlaugs var því tæpar 17 milljónir en séu upphæðirnar uppreiknaðar á núvirði er þessi tala 32 milljónir og rúmlega 670 þúsund krónur. Bróðurparturinn af henni eru laun og endurgreiddur kostnaður til Gunnlaugs.11

Til samanburðar má nefna að heildarkostnaður Akraneskaupstaðar við ritun sögu bæjarins af hálfu Jóns Böðvarssonar var rétt rúmlega 15 milljónir og 223 þúsund á núvirði, fyrir utan laun ritnefndar. Fyrir þá upphæð fékkst ein bók útgefin, Akranes. Frá landnámi til 1885, og ófullgert handrit að næsta bindi (alls áttu þetta að verða þrjú bindi). Kostnaður af vinnu Gunnlaugs Haraldssonar 1997-2001 var tvöfalt meiri. Fyrir þá upphæð fékkst ófullgert handrit að fyrsta bindi af þremur sem um hafði verið samið.

Fyrri færslur:

Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldri búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, „Framtakssemi og frumskógarlögmál“
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma

Framhaldsfærslur:

Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …

  

  


1 „Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar. Spjallað við Gunnlaug Haraldsson ritara Sögu Akraness“. Skessuhornið 13. apríl 1997, s. 14.Jón Böðvarsson skrifaði undir samkomulag um starfslok þann 24. mars 1997. En frétt um að Jóni hefði verið sagt upp birtist talsvert fyrr, í DV 12. mars 1997 („Söguritara sagt upp“). Nokkur Þórðargleði skín í gegnum fyrirsögn Skagablaðsins  tveimur dögum eftir að Jón skrifaði undir samninginn: „Skrásetjarinn settur af“ (Sjá Dagur-Tíminn 26. mars 1997) og má velta fyrir sér hvaðan slík gleði var ættuð. Orð Gísla Gíslasonar á umræðuþræði Akraneskaupstaðar 23. febrúar 2005 eru illskiljanleg í þessu ljósi: „Ekki ætla ég að fara að rifja hér upp ritferil Jóns Böðvarssonar - en til að fyrirbyggja misskilning þá óskaði hann eftir lausn frá samningi sínum og því var það ekki á hendi bæjarins að halda við þann samning.“

Mikil hamingja virðist hafa ríkt yfir ráðningu hins nýja sagnaritara skv. fréttum. Gunnlaugur var sagður „maður öllum hnútum kunnugur … hefði til dæmis skrifað sögu Akraneskirkju og farist það afburðavel úr hendi” („18 milljónir í ritun sögu Akraness“. DV 28. apríl 1997), „… er Akurnesingum að góðu kunnur fyrir farsæl störf um árabil við Byggðasafn Akraness og nærsveita og fyrir vandað verk við ritun sögu Akraneskirkju, svo nokkuð sé nefnt.“ („Ritun sögu Akraness“. Morgunblaðið 30. apríl 1997.)
 

2 Gunnlaugur Haraldsson. „Meint ritstífla brestur“. Umræðuþráður Akraneskaupstaðar þann 25. febrúar 2005.
 

3 Enn ótrúlegra er það aðstandandahlutverk sem Ritnefndin og bæjarstjórn léku seinna árum saman, þegar ljóst varð að sagnaritarinn skilaði litlu sem engu. Á Akranesi var ekki bleikur fíll í stofunni: Bleiki fíllinn dvaldi á grænum engjum hugvísindanna!
 

4  Þetta kemur fram í 1. gr. samningsins. Þar er einnig kveðið á um „efnisskipan í aðalatriðum“. Sú efnisskipan er það nákvæmlega tíunduð að þetta hljóta að vera tillögur Gunnlaugs sjálfs sem hann lagði fram á fundi Ritnefndar um sögu Akraness í febrúar 1997 (á 30. fundi nefndarinnar).

Í grófum dráttum var skiptingin þannig: Fyrsta bindi skyldi fjalla um byggðasögu 1700-1900, annað bindi um atvinnuhætti og hagsögu 1900-2000 og hið þriðja um félags-og menningarsögu 1900-2000. Ekki verður séð af efnisskipan af hverju þótti nauðsynlegt að endurrita um tímabilið 1700-1885, sem Jón Böðvarsson hafði gert skil í Akranes. Frá landnámi til 1885. En Gunnlaugur Haraldsson skrifaði í bréfinu „Meint ritstífla brestur“ á umræðuþræði Akraneskaupstaðar þann 25. febrúar 2005: „Í öðru lagi þótti mér að í bók Jóns hefði verið skautað býsna glannalega yfir fjölmarga þætti sögunnar, að því marki sem ég taldi mig þá þekkja til hennar, - einkum á 18. og 19. öld, - heimildanotkun og efnistök einnig gjörólík því sem ég myndi sjálfur kjósa“ svo nokkuð örugglega er þessi hugmynd um endurskrif komin frá Gunnlaugi sjálfum.

Eftir tiltölulega smásmugulega upptalningu samningsins á efnisþáttum (sem líkist efnisgrind að  skólaritgerðum) segir: „Framangreind efnisskrá er ekki tæmandi og mun því í meðförum höfundar og ritnefndar, sem Akraneskaupstaður skipar, taka einhverjum breytingum meðan á vinnu við söguritun stendur.“ Það er óvenjulegt að þessi klausa í 1. gr. samningsins varð að áhrínsorðum. Ath. að ekki skyldi rugla saman „efnisskrá“ og þeim bindum sem áskilið var að skyldi skilað.
 

5  Fyrsta bindi skyldi skila eigi síðar en 1. október 1999; öðru bindi eigi síðar en 1. október 2000 og þriðja bindi eigi síðar en 1. október 2001.
 

6  Jafnframt segir í riftunarákvæði: „Akraneskaupstað er einnig heimilt að stöðva greiðslur til höfundar ef einhverjar ástæður verða til þess að höfundur verður ófær um að sinna verkinu eða að ritnefnd telur að verkáætlun samkvæmt 6. grein samningsins standist ekki í svo veigamiklum atriðum að varði annað hvort riftun samningsins eða frestun greiðslna þar til úr hefur verið bætt.“

Í verkáætlun í 6. grein samningsins er talið upp að heimildaöflun fyrir allt verkið skuli standa frá apríl 1997 til janúar 1999; ritun 1. bindis hefjist þá og verði lokið „eigi síðar en ágúst-sept. 1999“; þá hefjist ritun 2. bindis sem verði lokið í ágúst -september 2000 og loks er reiknað með að ritun 3. bindis verði lokið í ágúst-sept. 2001 svo verklok verði 1. október það ár (sbr. 3.gr.). Öll bindin komi út í einu árið 2001.
 

7 Þann 18. janúar 2011 afhenti Gunnlaugur Haraldsson Árna Múla Jónassyni bæjarstjóra Akraneskaupstaðar fyrri tvö handritin af verki sínu. Þau koma út ekki á morgun heldur hinn, undir nöfnunum Saga Akraness. 1. bindi. Frá landnámi til 1700 og Saga Akraness. 1. bindi. Átjánda öldin.
 

8 Miðað við að launategnd gjöld séu um 20% voru mánaðarlaun Gunnlaugs án launatengdra gjalda um 170.000. Í apríl 1997 voru meðaldagvinnulaun framhaldsskólakennara 110.483 kr. Í þann tíð unnu framhaldsskólakennarar mikla yfirvinnu og var meðaltal heildarmánaðalauna þeirra á sama tíma 182.945 kr. Inni í þessu meðaltali eru laun stjórnenda í framhaldsskólum, annarra en skólameistara, sem kann að hækka tölur eitthvað. Sjá „BHM hópur 2 (HÍK/F)“ Fréttabréf KOS nr. 18, júní 1998, s. 22. Útg. Kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna. Gunnlaugur hefur skv. þessu þegið meðallaun framhaldsskólakennara með talsverða yfirvinnu í 54 mánuði. Ofan á það áttu síðan að bætast veglegar árangurstengdar greiðslur.
 

9 „Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar. Spjallað við Gunnlaug Haraldsson ritara Sögu Akraness.“ Skessuhornið 13. apríl 1997, s. 14.
 

10 Gunnlaugur Haraldsson. „Meint ritstífla brestur“. Umræðuþráður Akraneskaupstaðar þann 25. febrúar 2005.
 

11 Upplýsingar um kostnað og uppreikning hans á núvirði eru fengnar frá Akraneskaupstað 4. maí 2011.
 
 
 
 

13 ummæli við “Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma”

 1. Ólafur Sveinsson ritar:

  Jón Bö sagði sig ekki “frá. Sá góði maður var hreinlega rekinn.

 2. Harpa ritar:

  Í færslum II og III, um sögu Sögu Akraness, rakti ég viðskipti bæjarins (einkum Ritnefndar um sögu Akraness) og Jóns Böðvarssonar. Ég sé ekki betur en honum hafi verið gert nánast ókleift að vinna þá vinnu sem hann var ráðinn til. Sjálf heyrði ég kjaftasögur um að hann ynni ekki neitt og skilaði engu, meðan ég bjó á Skaganum til vors 1996, en sé þær sögur í talsvert öðru ljósi eftir að hafa lesið fundargerðir Ritnefndarinnar og samninginn við Jón. Jóni var gert að skrifa undir starfslokasamning, um það held ég að sé engin spurning. Hann átti ekki frumkvæði að því sjálfur eftir því sem ég best get séð. Á hinn bóginn gæti ég trúað að hann hefði verið feginn að sleppa við frekara “samstarf” við Ritnefndina. Og það sem Akraneskaupstaður fékk út úr samningnum við Jón var í þokkalegu samræmi við það sem Jóni var greitt. (Sjá t.d. niðurlag þessarar færslu). Sama verður ekki sagt um afrakstur fyrsta samningsins við Gunnlaug, sem ég var að segja frá í þessari færslu, né síðari samninga við Gunnlaug (sem ég á eftir að rekja).

  Sem Skagamanni finnst mér helvíti blóðugt að Akraneskaupstaður skuli á núvirði hafa greitt um 105 milljónir fyrir þau 2 bindi Gunnlaugs sem koma út á fimmtudaginn, eftir rúmlega 14 ára starf hans að sagnaritun fyrir bæinn! Hefði viljað að útsvarinu mínu væri varið í annað.

 3. Máni Atlason ritar:

  Samkvæmt Hagstofunni er 4.781 íbúi á Akranesi 18 ára eða eldri. Ritunin hefur því kostað hvern útsvarsgreiðanda u.þ.b. 22.000 krónur að núvirði. Og ef fólk vill eiga söguna þá þarf það væntanlega að borga svona 20.000 í viðbót fyrir sitt eintak.

  Dettur einhverjum í hug að hinn almenni bæjarbúi myndi samþykkja að eyða 22.000 krónum af sínu fé í að styrkja þessa sagnaritun?

 4. Harpa ritar:

  Það fer nú hver að verða síðastur að eignast hálfa söguna (þessi tvö bindi, sem ná til 1800) fyrir tuttuguþúsundkall rúman: Hægt var að kaupa bæði bindin saman í forsölu á 21.900 kr. en forsölu hlýtur að ljúka á morgun því þá koma snuddurnar út. Þær munu kosta 16.900 kr. hvort bindi en ef maður kaupir bæði bindin saman kostað þau 27.900 kr. Heimild: Opnuauglýsing Uppheima í Póstinum 20. apríl 2011. (Akraneskaupstaður greiddi auglýsinguna).

  Í þessu sambandi gætu Skagamenn horft til síldarsögunnar miklu; Silfur hafsins - Gull Íslands. Öll þrjú bindin kostuðu um 30.000 þegar bókin kom út, laust fyrir jól 2007. Fyrir nokkrum vikum var verið að bjóða allt verkið á 9.900 kr. Síldarsagan mikla dekkar þó talsvert stærri og mikilvægari þátt í Íslandssögunni en saga eins byggðarlags, jafnvel þótt um sjálft Akranes sé að ræða, og er líklegt að sú fyrrnefnda hafi átt stærri lesendahóp.

  Nei, ég held að hinn almenni bæjarbúi muni ekki kaupa Sögu Akraness. Enda eru bara prentuð 800 eintök af hvoru bindi og þar af kaupir Akranesneskaupstaður 236 eintök af hvoru bindi.

 5. Hafdís Helgadóttir ritar:

  Ég dáist að því að þú skulir geta tekið þetta saman og sett í ritað mál. Mér finnst nú bara erfitt að blogga stundum ! Er alltaf að hugsa til þín en hef mig í að hringja en það kemur að því. Finnst þú ótrúlega dugleg í öllum þessum pistlum þínum. Kv. Hafdís

 6. Hrafn Arnarson ritar:

  Þeir sem vilja eignast tvö fyrstu bindin þurfa að borga 42 þúsund. Þeir sem vilja ekki eignast tvö fyrstu bindin þurfa að borga 22 þúsund og að auki væntanleg bókarkaup bæjarins deild með fjölda skattgreiðenda. Hvernig verður með bindi þrjú og fjögur?=)

 7. Harpa ritar:

  Í tuttugu-og-tvö-þúsund-kallinum eru innifalin bókarkaup bæjarins (en bærinn kaupir 236 eintök af hvoru bindi, upplagið er 800 eintök af hvoru bindi). Alls styrkir bærinn útgáfuna um 7,8 milljónir. Prentkostnaður er 8,5 milljón. Svoleiðis að bókaforlagið Uppheimar þarf að selja um 40-50 sett til að koma út á sléttu. Ekkert annað forlag vildi koma nálægt útgáfu þessa rits.

  Raunar þurfa þeir sem vilja eignast fyrstu tvö bindin að greiða fyrir þau 27.900 kr. því forsölu er lokið. Þannig að sé hlutur útsvarsgreiðandi bæjarbúa og verð ritsins hálfa (bindin tvö ná ekki nema til aldamótanna 1800) lagt saman gerir það ekki 42.000 kr. heldur tæpar 50.000 kr.

  Ég vona að bindi þrjú og fjögur komi ekki út ef vinnulag og fjáraustur Akraneskaupstaðar á að vera áfram með svona hætti (enda þá líklegt, í ljósi sögunnar, að sú útgáfa yrði kringum árið 2021). Mér finnst full ástæða til að beita ákvæðinu í samningnum fyrsta sem aldrei hefur verið felldur úr gildi, þ.e. að krefja höfundinn um endurgreiðslu vegna vanefnda og láta hann skila inn öllum sínum gögnum.

  Á hinn bóginn sé ég ekki betur en Sagnaritarinn Okkar hafi eignast nýjan velgjörðamann og verndara, eftir að hafa horft á sjónvarpsfréttir í gær ;)

 8. Hjalti ritar:

  Ég hef kannski ekki lesið þetta allt en mér finnst alveg vanta upplýsingar um tekjurnar. Gjöldin er tíunduð en hvernig er með styrki og annað sem hefur komið í verkið. Ef svona verk eru gerð á annað borð þá þarf að gera þau almennilega og það kostar. Stundum er það fólk sem kastar stærstu steinunum áskrifendur að launum frá hinum opinbera. Þeir sem stjórna sveitarfélögum taka ákvarðanir um hvernig útgjöldum er varið. Íbúarnir verða að hafa aðhald á sínum fulltrúum og hefði það nú aldeilis mátt betur fara t.d. á árunum fyrir 2007. Og þar er örugglega ekki starf sem þetta efst á listanum.

 9. Hjalti ritar:

  Bæta má við hvernig allt er í okkar þjóðfélagi, peningar renna frá hinu opinbera ríki og bæ. Tugir milljarðar í tónleikahús, er það góð fjárfesting? Eitthvað yfir 10 milljarðar í Héðinsfjarðargöng, er það góð fjárfesting? Einhverjir ómældir milljarðar í Landeyjarhöfn, er það góð fjárfesting? Mörg hundruð milljónir á hverju ári til stjórnmálaflokkana, er það góð fjárfesting? Svona mætti endalaust telja.

 10. Harpa ritar:

  Það hafa engir styrkir fengist í verkið. Og engar greiðslur aðrar en þær sem Akraneskaupstaður hefur innt af hendi. (Eina undantekningin er innrauða myndin sem Jón Böðvarsson fékk Landsbankann til að styrkja myndatöku á enda þurfti hann sjálfur að greiða allan kostnað við sína efnisöflun skv. samningi.)

  Tví- eða þrískrifuð sama saga, þ.e. um tímabilið landnám til 1800, fyrir bæjarfélag sem var ekki einu sinni til á þessu tímabili (hér voru nokkur örreytiskot, hjáleigur og þurrabúðir en aðalfúttið var í kringum höfðingja í nágrenninu, sem er búið að margskrifa um) er ekki 120 milljón króna virði, finnst mér. Ekki einu sinni þótt henni sé pakkað í prinsessubúning.

 11. Gunnar Magnússon ritar:

  Tví eða þrískrifuð saga um bæjarfélag sem er ekki til. Þú ert óborganlegur snillingur Harpa. Meina þetta - þetta er ekki kaldhæðni. Finnst þessi umfjöllun þín frábær.

 12. Karen Jónsdóttir ritar:

  Frábært framtak Harpa að rita söguna um Sögu Akraness!!

 13. Harpa ritar:

  Takk fyrir, þið öll. Karen: Þín verður getið og þú mátt vera stolt af því að reyna að opna augu karlanna, þótt það hafi ekki tekist! Ég er, sem Skagamaður, stolt af þér!