27. maí 2011

… einvörðungu markmið þessa samnings að framlengja verktíma, skilgreina verklok og kveða á um greiðslur til sagnaritara

Hér segir af því hvernig Gunnlaugi Haraldssyni tókst að ná nýjum samningi við Akraneskaupstað; standa ekki skil á umsömdum verkum; gera þá samkomulag við bæinn um greiðslur fyrir enn víðtækari störf; snúa samningu verksins á hvolf þannig að I. bindið varð að II. bindi og talsvert var þá ósamið af hinu nýja I. bindi og fá 4 milljónir og 767 þúsund krónur kr. fyrir allt þetta. (Ég veit ekki hve há sú upphæð er á núvirði.)Titillinn er bein tilvitnun í „Forsendur“ í samningi Akraneskaupstaðar við Gunnlaug Haraldsson síðla árs 2006.1

Saga Sögu Akraness IX
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …
Saga Sögu Akraness VII, Hvers virði saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig
Saga Sögu Akraness VIII, Ja sko mér er alveg sama og mætti sleppa þessu bókaveseni allveg
 
 
 

KisiÞann 30. nóvember 2006 skrifaði Gísli S. Einarsson bæjarstjóri undir samning við Gunnlaug Haraldsson, með fyrirvara um samþykki bæjarráðs. Bæjarráð samþykkti samninginn 7. desember sama ár. Titill þessa nýja samnings var „SAMNINGUR Saga Akraness“.2

Eins sagði í fyrri færslu aðstoðaði lögfræðingur bæjarins, Jóhannes Karl Sveinsson, við gerð samningsins og útskýrði samninginn bæði fyrir Ritnefndinni og sagnaritara. Það hefði því ekki átt að fara neitt milli mála um hvað samið var.

Í upphafi „SAMNINGS Saga Akraness“ er riftunarákvæði fyrri samnings kippt úr gildi.3  E.t.v. hefur Akraneskaupstaður til þessa nýja samnings átt endurkröfurétt á hendur Gunnlaugi Haraldssyni? En nýtt riftunarákvæði er sett í þennan samning undir lokin: „Takist ekki að ljúka verkinu innan umsaminna tímamarka, er Akraneskaupstað heimilt að rifta þessum samningi og krefjast endurgreiðslu þess sem greitt hefur verið inn á verkið, eða krefjast efnda á samingum [svo] án þess að frekari greiðslur verði inntar af hendi.“ Mér vitanlega hefur þessu ákvæði ekki verið beitt.

Til frekara öryggis, væntanlega vegna viðskipta bæjarins við Gunnlaugs til þessa, er bætt við ákvæðinu: „Telji söguritari, að vegna óviðráðanlegra ástæðna eða atvika sem varða Akranesbæ sem verkkaupa, hafi stofnast heimild til að framlengja verktíma og/eða greiða eigi hærri upphæð fyrir verkið en hér greinir, skal tafarlaust gera grein fyrir slíkum kröfum og upplýsa á fundum ritnefndar. Ef slíkur áskilnaður kemur ekki fram án ástæðulauss dráttar fellur allur réttur í þeim efnum niður.“ Líklega hefur Gunnlaugi gengið áfram vel að telja fram ástæður fyrir drætti á skilum því ég get ekki séð að þessu ákvæði hafi heldur verið beitt.

Skv. þessum nýja samningi skyldi Gunnlaugur „ljúka ritun Sögu Akraness frá landnámi til ársins 1941“ og innifalið í því var prófarkalestur, umsjón með tæknilegum atriðum útgáfu og annað sem gerði handrit hæft til útgáfu.

Skiladagar voru:

„Ritun fyrsta bindis Sögu Akraness skal lokið í umsömdu horfi eigi síðar en þann 30. mars 2007  … tilbúið til prentvinnslu eigi síðar en þann 15. september 2007.“
„Ritun annars bindis Sögu Akraness hefst 1. október 2007 og skal vera … tilbúið til prentvinnslu eigi síðar en þann 30. júní 2008.“

Í samningum kom fram:  „Að mestu er nú lokið ritun I. bindis Sögu Akraness, sem tekur til tímabilsins frá landnámi til ársins 1850 og hefur handriti sögunnar frá lokum 17. aldar verið skilað á fyrri stigum“ en „ … sagnaritari skrifi frá grunni almennan upphafskafla um söguna frá landnámi til loka 17. aldur, þ.m.t. jarðsögu, staðhátta- og örnefnalýsingu … skal tekin endanleg ákvörðun um umfang þess kafla eigi síðar en á fundi ritnefndar í desember n.k.“ (Feitletrun mín).

Á fundi Ritnefndarinnar 12. desember (60. fundur) kemur einungis fram að Gunnlaugur hafi lagt fram drög að efnisþáttum 1. bindis en ekki er gerð grein fyrir þeim drögum GH frekar en áður og engin ákvörðun bókuð. Tæpu ári síðar er almenni upphafskaflinn framan við fyrsta bindið farinn að bólgna ískyggilega út: „Kaflar II (Örnefni og búsetuminjar í landnámi Bresasona, 91 s.) og III (frá landnámi til loka 13. aldar, 135 s.) hafa verið afhentir ritnefnd“. (Sjá töflu yfir fundargerðir Ritnefndarinnar og vinnu Gunnlaugs skv. þeim á frá desember 2006 til desember 2007.)

Í samningnum kemur líka fram sú skoðun að annað bindið sé hálfklárað:  „Annað bindi … frá 1851 til ársins 1941. Umrita þarf og endurskoða kafla 18-35 og ljúka handriti þannig að heildarsamræmi sé komi á (frá 1901-1941).“ (Feitletrun mín)

Loks kom fram að söguritari skyldi nú einbeita sér að ritun sögunnar þótt hann hefði eitthvað um útlitið að segja:
Fyrir utan verksvið söguritara er gerð korta og sérfræðilegur yfirlestur á handriti. Söguritari skal þó hafa verkstjórn með þessum þáttum, þ.e. skilgreina þarfir, upplýsa ritnefnd og afla tilboða eða undirbúa samninga og fylgja þeim eftir svo sem nauðsyn krefur. Ekki skal stofnað til kostnaðar eða samningar gerðir nema ritnefnd komi þar að og að bæjaryfirvöld séu upplýst um áætlaðan kostnað og samþykki að greiða hann. (Feitletrun mín.)
 
 

Greiðslur til Gunnlaugs Haraldssonar og annar kostnaður Akraneskaupstaðar

„Akraneskaupstaður greiðir söguritara samtals 10.000.000 (með tilteknum verðbótum skv. því sem síðar greinir) fyrir verkið allt til loka, þ.m.t. öll opinber gjöld og kostnaður sem tilheyrir verkefni hans, þ.m.t. launatengd gjöld, efnis- og húsnæðiskostnaður“4 og skal innt af hendi fyrsta virka dag hvers mánaðar á meðan verkinu stendur (í fyrsta sinn 1. desember 2006).“ Akraneskaupstaður mun greiða kostnað við ferðir milli Akraness og Reykjavíkur, „þ.e. kílómetra- og veggjald [er hér átt við gjöld í Göngin?] samkvæmt reikningi.“

Tíu milljónirnar skyldu greiddar í 16 jöfnum greiðslum, 625.000 á mánuði (auk síðari verðbóta). Greiðslutímabil voru desember 2006- júní 2007 (sjö mánuðir fyrir fyrsta bindið) og október 2007 - júní 2008 (níu mánuðir vegna annars bindis). Greiðslur skyldu hefjast 1. des. 2006 og vera greitt út fyrsta virka dag hvers mánaðar. Föst laun Gunnlaugs hafa því hækkað talsvert frá fyrri grunnsamningi.5

Annar kostnaður bæjarins átti að vera vinna ritnefndar, kostnaður vegna umbrots, kortagerðar, myndvinnslu, tæknilegrar úrvinnslu o.þ.h.
 

Efndir samningsins

KisaGunnlaugur var á fullum launum frá 1. desember 2006 - 31. júní 2007 eða 7 mánuði. Þá stöðvuðust greiðslurnar.  Hann stóð ekki við samninginn, þ.e. skilaði ekki handriti að fyrsta bindinu fyrir 1. apríl og því var enn óskilað í júnílok þegar greiðslum lauk. Ritnefndin var hins vegar ósköp róleg yfir þessu og virtist trúa fram á síðustu stundu að Gunnlaugur skilaði af sér á réttum tíma. Eftir að ljóst er að hann stendur ekki í skilum eru einungis bókaðar „Almenn umræða um framgang verksins“ eða „Umræða um framgang verksins“. (Sjá töflu yfir fundargerðir Ritnefndarinnar og vinnu Gunnlaugs skv. þeim á frá desember 2006 til desember 2007.)  Fundargerðir Ritnefndarinnar voru aldrei lagðar fram í bæjarráði en hins vegar í bæjarstjórn. Það er sama sleifarlagið og áður í þeim efnum, t.d. eru fundargerðir frá 22. maí og 2. október lagðar fram í bæjarstjórn 9. október og fundargerðin 20. desember 2006 var lögð fram ásamt annarri frá 28. febrúar 2007 á bæjarstjórnarfundi þann 11. mars 2007. Þetta hefur áreiðanlega gert  bæjarstjórnarfulltrúum erfitt að  fylgjast náið með Ritnefndinni og sagnaritara.

Á sama tíma blæs út „almenni upphafskaflinn um söguna frá landnámi til loka 17. aldur, þ.m.t. jarðsögu, staðhátta- og örnefnalýsing“. Þegar þessi samningur við Gunnlaug var gerður töldu menn að það eina sem vantaði upp á I. bindið væri almennur upphafskafli (sem hafði reyndar vantað nokkuð lengi og var upphaflega hugmynd Gunnlaugs sjálfs, sem hann stakk að Ritnefndinni um leið og hún mat I. bindið fullunnið, í desember 2001). Þrátt fyrir að í nýja samningnum stæði að „Öll ákvæði fyrri samninga og samþykkta ritnefndar um efnistök, áherslur og heimildaleit skuldu halda gildi sínu“ var þessi almenni inngangskafli orðinn að sjálfstæðu bindi snemma vors 2008, ókláruðu að sjálfsögðu. Þótt það sjáist kannski ekki gjörla fyrr en í næstu færslu þá notar Gunnlaugur þetta ár til að snúa verkinu á hvolf þannig að I. bindið verður í rauninni að II. bindi og hann er byrjaður að frumsemja nýtt I. bindi. (Og seinna meir var hið nýja II. bindi stytt til muna o.m.fl. en frá því verður einnig greint síðar.) Þannig að verkið var í rauninni enn fjær því að vera tækt til útgáfu þegar þessum fyrri hluta samningstímans lauk.
 

Gunnlaugur fékk 625.000 kr. greiddar á mánuði frá desember. 2006 til og með júní 2007. Þegar greiðslur stöðvast grípur hann til þess ráðs að gera viðbótarsamning við Akraneskaupstað þar sem hann selur bænum enn meiri óunna vinnu! Þetta er svokallað „Samkomulag um viðauka við samning á milli aðila um Sögu Akraness frá 30. nóvember 2006.“6  Tillagan kom frá Ritnefndinni til bæjarráðs og bæjarráð fól bæjarritara að gera verksamning í samræmi til tillögu ritnefndar sögu Akraness“ þann 18. október 2007.7

Nú var samið um að Gunnlaugur tæki að sér „verkstjórn með ýmsum þáttum sem lúta að fullnaðarfrágangi á sögu Akraness, bindis I.“ (1. gr.) Átt var við verkstjórn yfir yfirlestri handrits, gerð korta, öllu sem snéri að grafík og myndefni, hönnun, umbroti og prófarkalestri. Önnur atriði sem samið var um voru aðallega:

„Aðilar eru sammála um að ritun II. bindis verði frestað meðan áðurnefnd prentvinnsla I. bindis er í gangi …“ (2.gr.)
„Stefnt er að því að fullnaðarfrágangi við I. bindi verði lokið þann 1. mars 2008 og það tilbúið til prentunar.“ (4. gr.)
Og rúsínan í pylsuendanum:
„Telji söguritari að forsendur séu til að byrja vinnu við II. bindi að hluta eða öllu leyti meðan unnið er að lokafrágangi I. bindis og innheimta fyrir það þóknun skv. samningi þar um skal það ákveðið sameiginlega af söguritara og ritnefndar [svo] um sögu Akraness.“ (3. gr.)

KisiGreiðslur fyrir vinnuna sem kveðið var á um í viðbótarsamningnum skyldu vera tvenn mánaðarlaun samanlögð. 33% summunnar voru greidd út 1. nóv. 2007; 33% 1. desember 2007 og eftirstöðvar átti að greiða þegar I. bindi teldist fullfrágengið til prentunar.
 

Þannig tókst Gunnlaugi Haraldssyni að fá full mánaðarlaun hálft árið og skert mánaðarlaun í tvo mánuði að auki án þess að skila meiru en 226 síðum af ófullgerðu handriti (skv. fundargerðum Ritnefndarinnar).
 

Fyrir árið 2007 fékk sagnaritarinn greiddar 4 milljónir og 767 þúsund krónur. Annar kostnaður var tæplega 3,2 milljónir og laun ritnefndar, tæp 277 þúsund; alls rúmar 8 milljónir og 200 þúsund krónur. Á núvirði er þessi upphæð rétt rúmar 11 milljónir og 238 þúsund krónur.8
 
  

1  „Öll ákvæði fyrri samninga og samþykkta ritnefndar um efnistök, áherslur og heimildaleit skuldu halda gildi sínu og er það einvörðungu markmið þessa samnings að framlengja verktíma, skilgreina verklok og kveða á um greiðslur til sagnaritara.“ Segja má að eini hluti markmiðsins sem náðist hafi verið greiðslurnar.
 

2 Hér birtist í fyrsta sinn titillinn að því verki sem kom að hluta út fyrir viku síðan, Saga Akraness I og Saga Akraness II, hvort bindi með sínum undirtitli. Ég sendi tölvupóst til Jóns Gunnlaugssonar, formanns ritnefndar, Árna Múla Jónassonar bæjarstjóra, Sveins Kristinssonar, forseta bæjarstjórnar,  Guðmundar Páls Jónssonar, formanns bæjarráðs og Jón Pálma Pálssonar, bæjarritara, mánudaginn 23. maí 2011 og spurði hvort samið hafi verið við erfingja Ólafs B. Björnssonar um leyfi til að nota þessa titla, sbr. Höfundalög 1972 nr. 73 með áorðnum breytingum, gr. 43, 51 og 52, en hef ekki fengið svar frá neinum þeirra. Líklega heyrir Ritnefndin og saga Akraness enn undir bæjarstjóra, hugsanlega undir bæjarráð einnig, svo til öryggis sendi ég öllum þessum aðilum spurninguna en þeir hafa líklega ekki mátt vera að því að svara mér ennþá.
 

3 Í fyrsta samningnum sagði: „Verkið hefst þann 1. apríl 1997 og skal lokið eigi síðar en 30. september 2001.“ Í þriðju grein þess samnings sagði: „ … ef vanefndir teljast verulegar á verktímanum er Akraneskaupstað heimilt að rifta samningi þessum og endurkrefja höfund um þær greiðslur, sem þegar hafa verið inntar af hendi.“ Vanefndir voru gífurlegar en eins og fram hefur komið virtist sagnaritarinn varinn í bak og fyrir, gerði Viðaukasamning og  Samkomulag, sem voru viðbætur við upphaflega samninginn, og hélt áfram að fá greitt. Í þessum nýja samningi segir:„Í því [samkomulagi] felst m.a. að hvorugur aðili gerir neinar kröfur á hendur hinum vegna þess tíma sem liðinn er.“ Raunar virðast menn farnir að ruglast í ríminu þegar samningar við Gunnlaug Haraldsson eru raktir því í „Forsendum“ nýja samningsins er villa í dagsetningu „þriðja samningsins“, þ.e. Samkomulagsins frá 26. ágúst 2004 (en þann dag samþykkti bæjarráð það).

4 „Hver greiðsla uppfærist miðað við þróun launavísitölu, með grunnvísitölu í nóvember 2006 (til verðtryggingar í desember)“.  Mér finnst þetta óskiljanleg setning og ef einhver getur útskýrt hana fyrir mér væri ég þakklát. En ljóst er að mánaðarlaun Gunnlaugs voru 625.000 kr. allan tímann, þau hækkuðu ekkert á árinu 2007.
 
 

5 Miðað við að launatengd gjöld séu 20% voru laun Gunnlaugs 520.000 á mánuði. Í desember 2006, þegar Gunnlaugur fékk fyrstu greiðsluna, voru meðal dagvinnulaun framhaldsskólakennara rétt rúmar 288 þúsund á mánuði. Meðalheildarlaun framhaldsskólakennara voru í október-nóvember 2006 rúm 440 þúsund. (Samanburður við desember hentar illa því þá var greidd út desemberuppbót og aðrar greiðslur fyrir ákv. vinnu alla alla haustönnina).

Í júní 2007 höfðu meðaldagvinnulaun framhaldsskólakennara hækkað í rétt rúmar 301 þúsund krónur á mánuði en meðalheildarlaun hækkað hlutfallslega minna því yfirvinna dróst saman. Þau voru í kringum 450 þúsund. Inni í meðaltalstölum um framhaldsskólakennara eru launagreiðslur allra stjórnenda framhaldsskólanna annarra en skólameistara, sem væntanlega hækka þessar tölur nokkuð. Sjá Fréttarit KOS nr. 31, s. 34. Útgefandi er Kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna.

Af þessu má draga þá ályktun að með nýja samningnum hækki Gunnlaugur talsvert í launum frá fyrri grunnsamningi (1997) því nú fékk hann greitt talsvert meir en framhaldsskólakennarar upp til hópa.
 
 

6 Upphaf samkomulagsins, „Forsendur“, er lýsandi fyrir viðskipti Akraneskaupstaðar og Gunnlaugs Haraldssonar til þessa:

„Samkomulag þetta er gert í framhaldi af fyrri samningum aðila frá 23/4 1997, 24/1 2002, 24/8 2008 [á að vera 26/8 2004] og 30/11 2006.
Söguritun á fyrsta bindi hefur dregist í tíma miðað við tímasetningar samnings frá 30/11 2006 og ljóst að tímaákvæði við upphaf ritunar bindis II getur ekki hafist fyrr en búið er að ljúka ritun og frágangi bindis nr I.“

Skrifað var undir samkomulagið þann 27. október 2007.
 

7 Í bæjarráði sátu: Karen Jónsdóttir, formaður bæjarráðs, Gunnar Sigurðsson og Guðmundur Páll Jónsson. Á þessum fundi voru einnig Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri og Jón Pálmi Pálsson, bæjarritari.
 

8 Upplýsingar um kostnað og uppreikning hans á núvirði eru fengnar frá Akraneskaupstað þann 4. maí 2011.

Lokað er fyrir ummæli.