1. júní 2011

Fjórðungsdómur um 18 marka bók

Það er ekki áhlaupsverk að lesa Sögu Akraness eftir Gunnlaug Haraldsson. Hvort bindi er gríðarlega þungt, hið fyrra er 18 merkur enda prentað á 150 gramma glanspappír. Stærðin er u.þ.b. 25 sinnum 35 cm. Af þessu má ráða að einungis aflraunamenn lesa bókina í fangi sér, flestir þurfa sæmilega stöndugt borð við lesturinn. Ég las um fjórðung Sögu Akraness I. bindi. Frá landnámstíð til 1700 og gafst þá upp. Þessi umfjöllun er því ekki hefðbundinn ritdómur um verkið (bindin tvö) enda er ég ekki sagnfræðingur (það er höfundurinn reyndar ekki heldur) og treysti mér ekki til að meta nema afmarkaða þætti. Mætti því kalla færsluna fjórðungsdóm því hún byggir á lesnum fjórðungi og flettingum I. bindis; ég hætti við að opna seinna bindið.

Helstu niðurstöður mínar eru að meðferð heimilda er mjög ábótavant, myndir eru oft rangt merktar eða notaðar í heimildaleysi, umfjöllun um landnámsmenn eru studdar vægast sagt hæpnum rökum og niðurstaðan er, að mínu mati, tært bull.

Afar fallegar ljósmyndir prýða kápur beggja bókanna og í þeim er fjöldi gullfallegra ljósmynda sem Friðþjófur Helgason hefur tekið. Þess er hins vegar ekki getið í myndaskrá hvenær myndirnar voru teknar eins og venja er. Sömuleiðis eru kort Hans H. Hansen mjög vönduð og vel gerð. Mörg þeirra eru „myndkort“, þ.e.a.s. örnefni og fleira eru merkt inn á gríðarlega stórar loftmyndir (sem yfirleitt þekja heila opnu). Þetta er verulega glæsilegt en erfitt er að lesa dökkt letur á dökkum grunni (dökkgrænum, dökkbrúnum, jafnvel næstum svörtu bergstáli Akrafjalls, sjá t.d. kortið á s. 151 og myndkortið á síðum 104-105). Á stöku stað hefur þess verið gætt að nota hvítt letur á dökku grunnana. Almennt eru kortin sem Hans hefur gert mjög skýr og gott að átta sig á þeim. Ég held samt að myndkortin séu einungis fyrir mjög staðkunnugt fólk eða fólk sem hefur brennandi áhuga á öllum kennileitum umhverfisins allt í kringum Akrafjall því vitaskuld tekur maður ekki með sér 18 marka bók í labbitúr eða fjallgöngu. Væri mun handhægara fyrir þá sem vilja kynnast umhverfinu öðru vísi en úr bók liggjandi á eldhúsborðinu að útbúa sín eigin myndkort úr Kortasjá Landmælinga. Reyndar er langt frá því hver þúfa merkt á þau kort en t.d. eru skerin kringum Akranes og örnefni í Akrafjalli jafn vel merkt og í bók Gunnlaugs og þónokkuð af öðrum örnefnum líka.

Uppspunnið sýnishorn af s�ðu � Sögu AkranessÞrátt fyrir þessi fallegu og vönduðu kort og ljósmyndir Friðþjófs er heildaryfirbragð þessa fyrsta bindis ekki fallegt og geri ég nánari grein fyrir því síðar. Kannski er best fyrir lesendur að smella á litlu myndina hér til hliðar og sjá uppspunna eftirlíkingu af dæmigerðri síðu í bók Gunnlaugs, vilji þeir sjá sundurgerðina og smekklausan íburðinn. (Á hinni uppspunnu síðu má sjá dýrlingamynd af vefnum, eina myndanna sem Gunnlaugur stal af Hurstwic en ég hef aftur á móti fullt leyfi til að nota einmitt í þessum tilgangi og gullfallega ljósmynd, tekna af Atla Harðarsyni sem gaf mér leyfi til að nota hana. Nærbuxnafjólubláu innskotsgreinina samdi ég sjálf upp úr Hversu Noregr byggðist, sömu efnisgrein og Gunnlaugur telur ótvírætt sanna konunglegan uppruna Bresasona.) 

Hönnun Sögu Akraness I og II var í höndum Gunnlaugs Haraldssonar og Egils Baldurssonar. Fyrir umsjón mynda og umbrots er skráður Gunnlaugur Haraldsson.

Venjulega er það svo þegar fjallað er um bækur að fyrst er fjallað um textann, síðar annað, s.s. myndir, uppsetningu, meðferð heimilda, prófarkalestur o.þ.h. Fjórðungsdómurinn minn snýr nánast öfugt við þetta. Prófarkalestur er með ágætum.
 

Meðferð heimilda er mjög ábótavant

Í II hluta Sögu Akraness I, „Frá landnámi til loka þrettándu aldar“, er mjög víða vitnað beint í Íslenzk fornrit, ýmist innan gæsalappa eða í inndregnum klausum. Hvergi er notuð sama stafsetning og í heimildum heldur eru allar tilvitnanir með nútímastafsetningu og greinarmerkjasetningu breytt. Fáeinar stikkprufur leiddu í ljós villu í beinni tilvitnun: Í tilvitnun í Sturlubók Landnámu á s. 174 bætir Gunnlaugur Kjarrá inn í textann um Kalman svo beina tilvitnunin verður þannig: „En síðan nam hann land fyrir vestan Hvítá á milli Kjarrár og Fljóta“ í stað „En síðan nam hann land fyrir vestan Hvítá á milli ok Fljóta“ (ÍF I, s. 81). Allt annar maður, Hrosskell „nam Hvítársíðu milli Kjarrár ok Fljóta“ segir í ÍF I, s. 83. Og raunar birtist sú beina tilvitnun á móti í opnunni, s. 175. Svona villur, þ.e. að geta ekki vitnað beint í rit orðrétt og stafrétt og ruglast á blaðsíðum og persónum, eru alvarlegur galli á fræðilegum skrifum.

Í heimildaskrá er getið hins fræga fyrirlestrar Hallgríms Jónssonar, sem hann flutti 13. janúar 1889, enda vitnar sagnaritari í hann í formála. En skráningin er svona: „Hallgrímur Jónsson. 1977: „Lífið í Skaganum síðastliðin 100 ár.“ Borgfirzk blanda I. Sagnir og fróðleikur úr Mýra- og Borgarjarðarsýslum. Akran., s. 9-34.“ Eftir allar yfirlýsingar sagnaritara um þá feikilegu vinnu sem hann hefur lagt í öflun frumheilda er afar undarlegt að hann noti ekki handrit Hallgríms Jónssonar sem heimild (það er reyndar geymt á Héraðsskjalasafni bæjarins) heldur prentaða útgáfu í Borgfirzkri blöndu!

Í lestri kaflans „Frá landnámi til loka þrettándu aldar“ varð ég áþreifanlega vör við notkun yfirlitsritsins Íslensks söguatlass I. Ég veit að þetta er ágætis bók, krakkarnir í fjölbraut nota hana mikið, en er þetta tæk aðalheimild í fræðilegum texta?

Sólkonungurinn Lúðv�k XIVÍ heimildaskrá yfir óprentaðar heimildir eru taldar upp fjórar Vefsíður [svo]. Ein þeirra er http://www.wikipedia.org og er hvað eftir annað vísað í http://www.wikipedia.org úr texta bókarinnar og myndaskrám. Nú ekki svo að ég hafi neitt á móti Wikipediu og finnst í sjálfu sér óþarfi að banna framhaldsskólanemendum að nota undirsíður af því vefsetri sem heimildir í sínum heimildaritgerðum.

En í fyrsta lagi er er Wikipedia ekki ein vefsíða (ekki frekar en Bókasafn Akraness telst ein heimild). Í öðru lagi heitir vefsetrið Wikipedia og ber að vitna í titil þess (alveg eins og venjan er að vitna í titil ritsafns en ekki heimilisfang bókasafnsins þar sem það ritsafn er geymt). Þessi skráning í heimildaskrá er því algerlega galin. Enn galnari eru tilvísanir í neðanmálsgreinum, t.d. á s. 167 þar sem segir „Í þessum kafla er einkum stuðst við eftirtaldar heimildir: Almgren, Bertil, 1967;[…] www.wikipedia.org; Þorvaldur Thoroddsen, 2003(1), s. 25-28.“ Vísað er rétt í ritin en í hvaða síðu eða síður á Wikipediu er sagnaritari að vísa?

[Myndin sýnir Sólkonunginn, Lúðvík XIV. Frakklandskonung, sem reisti Versali.]

Venjan er sú þegar vísað er í vefsíður eða vefsetur að láta þess getið hvenær gögnin voru skoðuð. Það er hvergi gert í tilvísunum Gunnlaugs til heimilda úr texta og í myndaskrá.

Í heimildaskrá yfir óprentaðar heimildir er einnig að finna Heimildir í fórum höfundar. Ein þeirra er Þorsteinn Jónsson: Hús og býli á Akranesi (óársett handrit). Þetta kom Þorsteini Jónssyni nokkuð á óvart enda hefur hann aldrei veitt Gunnlaugi Haraldssyni leyfi til að ljósrita handrit sitt.

  

   

Myndir, myndastuldur, ónákvæm skráning mynda og myndaval

Myndir á Vefnum eru ekki almenningseign fremur en í bókum. Nokkurn veginn sömu reglur gilda um hvort tveggja. Raunar eru til myndir og myndasöfn á Vefnum þar sem menn hafa afsalað sér höfundarétti og þær eru til ókeypis afnota (stundum kallað „public domain“ eða „creative commons“ aðgangur.)
 

 • Ég reikna með að mynd 259, sem er einfalt kort yfir Bretlandseyjar, á ensku nema álímdur miði, sleppi sem almenningseign en tilvísunin í myndaskrá er jafnvitlaus og úr textanum, þ.e. „Suðureyjar (The Hebrides). http://www. wikipedia.org.“ [Rétta slóðin er http://en.wikipedia.org/wiki/Hebrides, síðan heitir „Hebrides“ og er á Wikipedia.]
 • Mynd 365 er skráð í myndaskrá „Tveir prestar. http://www.propheties.it.“ Ég fann ekki málverkið sem myndin er klippt úr á þeirri síðu en slóðin vísar á Propheties On Line. The largest library about Nostradamus for free.
 • Ekki er nokkur leið að rekja mynd 262, skráð „Víkingar. http://www.icelandcoaches.“
 • Jafnerfitt yrði fyrir þann sem tekur skráningu Gunnlaugs bókstaflega að finna Lewis taflmennina frægu, „266. Lewis chessmen frá 12. öld. The British Museum, London. http://www.wikipedia.org.“
 • Svo ekki sé talað um mynd 328 „Frá Borgarfirði. http://www.mbl.is.“
 • Aftur á móti var ekkert mál að finna mynd 268 af heilögum Finan á http://www.financlan.net, sem er vefsetur Finan fjölskyldunnar í Bandaríkjunum, Finan family history en hún er óvenjulegt val á heimild um heilagan Finan.

Gunnlaugur hefur stolið myndum af vefnum, a.m.k. myndum nr. 277, 278, 283, 288, 326 og 329 af vefsetri Hurstwic (sem eru víkingasamtök í Bandaríkjunum -leiðrétt 4. júní 2011). Sumar eru í eigu Dover Publications sem veittu Hurstwic leyfi til að birta þær. Aðrar eru í eigu Hurstwic. Ég bar þetta undir umsjónarmann vefsetursins (William R. Short prófessor), sem er kunningi minn, og var hann ekki par hrifinn af þessu ráðslagi sagnaritarans.

Inni í örnefnakaflanum mikla er auðvitað fjallað um Akranes. Þar er falleg myndaopna, s. 88-89. Sumar myndirnar eru eignaðar Árna Böðvarssyni en aðrar eru höfundalausar, einungis vísað til Ljósmyndasafns Akraness um þær. Það tók mig um fimm mínútur að finna höfundana á vef Ljósmyndasafnins: Mynd 147 er tekin af Magnúsi Ólafssyni; 148 tekin af Haraldi Böðvarssyni, 149 og 150 teknar af Árna Böðvarssyni (sú síðari ein af best þekktu myndum hans, handlituð). Það er undarlegt að hafa svo eina mynd svarthvíta (nr. 152, eignuð Árna) þegar hinar myndirnar eru í sepia-tónum (þ.e. brún-hvítar), utan þeirrar frægu handlituðu, og eyðileggur heildarsvip opnunnar. Á næstu síðu er svo nýleg ljósmynd 153, líklega Friðþjófs Helgasonar, en hún hefur fallið niður í myndaskrá. Höfundarlausu myndina á sömu síðu, nr. 154, tók Ólafur Frímann Jónsson.

Litlu framar er mynd 134 eignuð Auði Sæmundsdóttur en er tekin af Þorsteini Jósepssyni. Og mynd 133, eignuð Árna Böðvarssyni og sögð af Ljósmyndasafninu er ekki til á því safni enda sést greinilega á henni að hún er skönnuð úr dagblaði því speglað prentið skín alls staðar í gegn.

Þessi dæmi ættu að sýna að valt er að treysta myndaskrá Gunnlaugs, jafnvel þótt um gamlar myndir af Akranesi sé að ræða.

Sólkonungurinn Lúðv�k XIVAlmennt má segja að lítið sem ekkert hafi verið unnið með þessar gömlu myndir, þær eru margar yfirlýstar og óskýrar og hefði vel mátt gera töluvert við þær. Myndirnar eru líka grófkornóttar og læðist að manni sá grunur að þær hafi verið sóttar af vef Ljósmyndasafns Akraness í stað þess að skanna frummyndirnar í sæmilega hárri upplausn sem hentaði prenti á slíkan gæðapappír.

Aðrar gamlar ljósmyndir eru fengnar héðan og þaðan, t.d. frá Daniel Bruun. Það er undarlegt að sjá mynd af henni Svanfríði Jónasdóttur vinnukonu í Lundarbrekku í Bárðardal skreyta umfjöllun um „Vistarbandið“ í III hluta „Tímabilið 1300-1700“. Myndin var tekin 1897, tölsett 376 í bók Gunnlaugs.  Og illa er farið með góða mynd Daniels Bruun, líklega tekna 1896, þegar útklipptur bútur úr henni með prjónandi stúlkubarni og eldri konu birtist með myndatextanum „Lítið magn barst af sjóvettlingum og sokkum í verslun útgerðarinnar“ á 17. öld. (Mynd 545 í bók Gunnlaugs.) Þær eru samt prýðilega klæddar, stöllur, gott ef ekki með sirzsvuntur og stúlkan á dönskum kjól innanundir. Ég hef oft rekið mig á hugmyndir unglinga um að til sé óskilgreindur tími, „í gamla daga“ sem nái frá landnámi fram undir 1980. En mér kemur á óvart að sagnaritara finnist ekkert athugavert við að skreyta umfjöllun sína með meir en 200 árum yngri ljósmyndum.

Þegar þetta blandast svo allt saman í einn kokteil: Litskrúðugar myndir af vefnum, ljósmyndir Friðþjófs og kort Hans, gamlar ljósmyndir héðan og þaðan, ljósmyndir úr handritum og teikningar að auki er yfirbragðið einkar sundurlaust. Þegar ofan á bætast mismunandi letur og rammagreinar í pastellitum verður sundurgerðin æpandi. Ég vísa aftur í uppspunna sýnishornasíðu sem gefur góða mynd af yfirbragðinu. [Myndin að ofan til vinstri sýnir teikningu Thackeray af Sólkonungnum og klæðum hans.]
 

   

  

Örnefnaupptalning, hnýtt í fyrri sagnaritara og beinn ritstuldur

I. hluti bókarinnar ber yfirskriftina „Örnefni og búsetuminjar í landi Bresasona“. Ég reyndi að lesa hann. Gunnlaugur hefur haft aðgang að mun betri gögnum en Jón Böðvarsson á sínum tíma, t.d. skrám um fornleifar og minjastaði sem unnar voru eftir 1997, auk þess sem hann hefur að eigin sögn gengið þvers og kruss meira eða minna um allt landnámið; beitt sömu aðferð og Lundarstúdentum þótti vænlegust til árangurs í svæðisrannsóknum 1976-78 og væntanlega með sama hugarfari (sjá síðasta hluta færslunnar Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“ og tilheyrandi neðanmálsgreinar).

Þetta skilar sér í Sögu Akraness I því svo úir og grúir af örnefnaupptalningu að lesandi eins og ég (sem hef reyndar áhuga á örnefnum en vil gjarna sjá áfram skóginn fyrir trjánum) gefst fljótlega upp á að reyna að lesa textann heldur grípur niður í hann á stöku stað, af síminnkandi áhuga. Sem dæmi má nefna að í kaflanum Vestur af bæ (sem er undirkafli 1.1. Katanes, sem er undirkafli 1. Frá Kalmansá til Kúludalsár, sem er undirkafli I Örnefni og búsetuminjar í landnámi Bresason) eru talin upp 34 skáletruð örnefni í texta sem er innan við tveir dálkar að lengd (á hverri blaðsíðu eru þrír textadálkar). Fleiri örnefni í Kataneslandi eru talin upp í öðrum undirköflum.

Ó-örnefnafróður lesandi veltir því fyrir sér hver sé munurinn á Björgvinsstykki, „tveggja dagsláttu spildu á hæðardragi á mörkum Leynis og Gamlatúns“ (vísað er í: „Þessa spildu gaf Jón Ólafsson bóndi einhverju sinni Björgvini bróður sínum“) og Björgvinslandi en um það segir: „Milli Smáholta og Skollholts, rétt austan við Klafastaðamerkin, er 25 dagsláttu landspilda, sem gefin var úr jörðinni, svonefnt Björgvinsland.“ Gæti kannski hjálpað lesanda að á Björgvinsstykki „stóð hesthús, Beggakofi, byggt um 1930 en nú fallið. Upp af Björgvinsstykki og austast í Leyni, en vestan gamla túngarðsins, er votlent stykki, Fífustykki, sem ávallt var hvítt af fífu, áður en það var gert að túni.“ (s. 17.) Er áhugavert að vita að hesthúsið Beggakofi stóð á Björgvinsstykki í Katastaðalandi um hríð og einu sinni var stykki hvítt af fífu kallað Fífustykki og er enn kallað svo þótt orðið sé grænt tún? Er þetta ekki ekki texti sem á betur heima í örnefnaskráar-bæklingi en í Sögu Akraness?

[Fyrir ókunnuga lesendur færslunnar: Núverandi eigandi Kataness- og Klafastaðajarða er Faxaflóahafnir sf, sem leigja ýmsum stóriðjufyrirtækjum landið. Þessi örnefni eru sem sagt í nágrenni Norðuráls og Járnblendiverksmiðjunnar.]

Aðrir örnefnakaflar eru svipaðir, þ.e.a.s. engu smáatriði sleppt og afraksturinn er upptalning sem myndi æra óstöðugan, nema náttúrlega bóndann á bænum reikna ég með. Hér hefði verulega þurft á ritstjórn að halda, sem hefði getað stuðlað að áherslu á aðalatriði og kannski raðað restinni í neðanmálsgreinar, töflur eða viðauka.

Í formála nefnir Gunnlaugur að hann notist við svonefndar rammagreinar sem annars vegar geymi ítarefni og hins vegar tímasettar frásagnir af stökum viðburðum. Þessar rammagreinar er að finna víða í bókinni. Þær eiga það sameiginlegt að vera í flestar í pastellitum, þ.e. eru ljósfjólubláar, myntugrænar, fölbláar, ferskjubleikar og dökkrjómagular, með skáletruðum texta.

Á fyrstu síðu er einmitt ein ljósfjólublá rammagrein sem ber yfirskriftina „Tilurð Akrafjalls og Eiðisvatns“. Þetta er bein tilvitnun í Svæðisskipulag sveitarfélaganna sunnan Skarðsheiðar 1992-2012, s. 10 (frásögn Halldórs  Kristjánssonar á Heynesi). Sama þjóðsaga er í bók Jóns Böðvarssonar, s. 82. Þar endursagði Jón hana sjálfur og með fullri virðingu fyrir Halldóri Kristjánssyni á Heynesi og svæðisskipulaginu er sagan betur sögð í útgáfu Jóns, þar sem hún endar „En skessurnar verða að sitja til tröllaragnarökkurs í bát sínum sem heitir Reynisskip.“

Margar fleiri rammagreinar í Sögu Akraness I er einnig að finna í bók Jóns Böðvarssonar, efnislega en ekki endilega orðréttar. Beri maður þær saman sést oft talsverður munur milli skrásetjarans Gunnlaugs og sagnamannsins Jóns. Í ritdómum um bók Jóns Böðvarssonar var honum einmitt hrósað sérstaklega fyrir rammagreinarnar, „Talsvert er um sérstakar frásagnir í innfelldum römmum, sem gefa frásögninni líf og lit“; „…sérstök ástæða er til að nefna ramma og spássíugreinar, sem notaðar eru til að skýra einstök atriði í meginmáli. Hygg ég að mörgum lesanda muni þykja fengur að þessu efni, þótt sjálfum hafi mér alltaf leiðst slíkur framsetningarmáti.“ Rammagreinar Jóns Böðvarssonar voru ljósgráar enda ekki splæst í þann íburð sem einkennir bók Gunnlaugs en standa fyllilega fyrir sínu lesi menn texta á annað borð. Og það var óvitlaust af Gunnlaugi að herma þessa hugmynd eftir.

Sólkonungurinn Lúðv�k XIVStundum eyðir Gunnlaugur óþarfa púðri í að hnýta í forvera sinn, Jón Böðvarsson, í örnefnakaflanum og víðar. Má sem dæmi taka tilvísun við litla pastelfjólubláa innskotsgrein sem segir frá reimleikum í Leyni, s. 72:

Skv. frásögn Sigurbjarna Guðnasonar frá Gerði (f. 1935) í apríl 2007. - Í Jón Böðvarsson 1992, s. 84, segir eftirfarandi: „Draugar voru á Langanesi inn við Leyni.“ Ekki er vísað til heimildar né raktar sögur af draugagangi. Enginn staðkunnugur, sem höfundur (GH) hefur spurt um þetta örnefni, hefur heyrt þess getið. 

Í ljósi þess að Langisandur er næsta „vík“ við Leyni er svo sem ekkert óhugsandi að örnefnið Langanes hafi verið til og átt við hluta Sólmundarhöfða eða skerin þar á milli, en hafi verið horfið í gleymskunnar dá þegar Gunnlaugur ræddi við staðkunnuga fyrir fjórum árum.
[Myndin til vinstri er af Sólkonungnum.]

Annað dæmi í umfjöllun um örnefni í landi Gerðis [Gunnlaugur gefur samheitið Þorgrímsgerði í fyrirsögn] þar sem segir í bók Gunnlaugs, s.47 og 50:

Tilgáta er um að Gerði hafi upphaflega heitið Bresagerði, en óljós sögn er um að svo heiti „rúst í Gerðislandi í mýrarflóa miðja vegu milli fjöru og fjalls út við Másstaðamerki“. 

Tilvísun við þessa málsgrein hljóðar þannig: „Jón Böðvarsson, 1992, s. 25, 43 og 67, með tilvísun í Bjarna Jónsson, bónda í Gerði (d. 1958). Tilgáta þessi verður að teljast afar hæpin enda byggir hún á veikum grunni. Sigurbjarni Guðnason (f. 1935), fæddur og uppalinn í Gerði, kannast ekki við þetta örnefni á jörðinni, hvorki á þessum stað né öðrum, skv. viðtali við höfund 2007.“

Ég veit ekki hvort það er viljandi að hafa fæðingarár Sigurbjarna en dánarár Bjarna í þessari tilvísun. Bjarni var afi Jóns Böðvarssonar, var bóndi í Gerði mestalla sína ævi og fæddist 1874.

Fyrsta dæmið um hvernig Gunnlaugur kastar eigu sinni á verk annarra fann ég í örnefnahluta I. bindisins. Þar er um beinan ritstuld að ræða. Á opnu s. 93-94 er „Tölvugert myndkort eða tilgátumynd af […] Skipaskaga og hluta Garðalands. Bræddur er saman uppdráttur Ólafs Jónssonar búfræðings og Knuds Zimsen verkfræðings frá 1. janúar 1901 við loftmynd frá 2002 […] nafngreind eru öll íveruhús, sem þá voru í byggð, og þekkt örnefni staðsett.“ Myndkort 6 er sagt vera unnið af Hans H. Hansen landfræðingi og kortagerðarmanni eftir forsögn Gunnlaugs Haraldssonar. En það var Þorsteinn Jónsson sem merkti hvert einasta hús inn á kortið. Bæði má finna þetta kort með númeruðum húsum og meðfylgjandi lista yfir þau, ásamt upplýsingum um hvert og eitt, í fyrstu tveimur greinum Þorsteins Jónssonar sem bera yfirskriftina „Þættir úr sögu Akraness. Heimildaöflun til sögu Akraness“ í blaðinu Umfangi sem var gefið út á Akranesi árið 1978 og svo hefur þetta sama kort, með merkingum Þorsteins Jónssonar, verið geymt á Byggðasafninu (sem Gunnlaugur veitti forstöðu á árunum 1979-95). Líklega er þessar upplýsingar einnig að finna í óársettu handriti Þorsteins Jónssonar, Hús og býli á Akranesi, sem Gunnlaugur hefur komist yfir á dularfullan hátt, eins og fyrr var nefnt. Þorsteinn Jónsson staðfesti að hann hefði ekki verið spurður leyfis fyrir að nota verk sitt, þ.e. nöfn húsanna á kortinu og hugsanlega líka einhver örnefni (hann safnaði hvoru tveggju árið 1978).

Fleira verður ekki sagt um smásmugulega upptalningu Gunnlaugs á örnefnum sem bændur og aðrir staðkunnugir fræddu hann um, óþarfa skítkast í Jón Böðvarsson og ritþjófnað. Aftur á móti sé ég í hendi mér að textinn og kortin gætu nýst prýðilega sem grunnur fyrir aðra sem vilja gera göngukort eða örnefnakort af einstökum hlutum þessa svæðis kringum Akrafjall. Það er hins vegar spurning um hversu mikið erindi svona framsettur fróðleikur á í Sögu Akraness, sem væntanlega á að höfða til íbúa á Akranesi fyrst og fremst.
  

    

Konunglegur og suðureyskur uppruni hinna einu sönnu kristnu landnámsmanna Akraness, hugmyndastuldur og þvælingur heimilda

Það sem ég taldi mig hafa eitthvert vit á fyrirfram var II. hluti Sögu Akraness I sem heitir „Frá landnámi til loka þrettándu aldar“. En af því sagnaritara er svo í mun að sanna ágæti, ættgöfgi, frumkvæði og suðureyskan uppruna Bresasona reyndist texti hans stundum ansi þvælinn.

Um textann almennt má segja svipað og örnefnakaflann, þ.e. stíllinn er stirður og vitnað er í heimildir hægri vinstri (sem lítur ágætlega út þangað til maður áttar sig á að aðalheimildir eru Íslenskur söguatlas I og http://www.wikipedia.org, auk ýmissa binda Íslenzkra fornrita, endurstafsettra). Oft er erfitt að átta sig á hvernig Gunnlaugur hefur hrært saman umfjöllun úr ýmsum áttum en þetta dæmi á s. 68 held ég að sé alveg örugglega aðallega eftir hann og sýni stíl hans prýðilega, með skyldubundinni fótnótu sparslað í:

Enn um sinn verða þó tilgátur um landnám og elstu byggð í einstökum héruðum landsins einungis smíðaðar úr tiltækum efniviði. Verður því með engu móti tekið undir þá staðhæfingu, sem oft er  viðruð, að Íslendingar þekki sögu sína „tiltölulega vel allt frá upphafi.“8 Nær er að ætla, að því marki verði seint náð, þar sem engar vísindalegar aðferðir hafa reynst færar um að greina með vissu  þau forsögulegu fyrirbæri, sem leiddu til landnáms Íslands, þar með talið hvaða fólk og frá hvaða löndum það lagði upp í þá för. 

Af því Gunnlaugur Haraldsson hefur svo lítið álit á fyrri söguþekkingu lesenda sinna byrjar hann á algerum byrjunarreit, viðrar gamlar heimildir sem nefna Thule, fjallar um írska munka auk þess að gera samviskusamlega og smásmugulega grein fyrir landvinningum norrænna á Bretlandseyjum og upphafi víkingaferða. Fræðslan er sumstaðar svo algerlega á byrjendastigi að fullorðnum lesanda fallast hendur, t.d. „Keltar voru indóevrópskur þjóðastofn upprunninn í Mið-Evrópu, þar sem þeir voru mjög áberandi og áhrifamiklir fram yfir Krists burð.“ (s. 167.) Alþýðukona eins og ég veltir því fyrir sér hvort Keltar skeri sig úr að þessu leyti: Eru flestir þjóðarstofnar í Evrópu ekki af indóevrópskum uppruna? Oftar er getið undantekninganna finnsk-úgrískra þjóða og Baska ef indóevrópskt upplag ber á góma.

Gunnlaugur tekur upp hugmynd Jóns Böðvarssonar o.fl. og hefur atburðaannál aftan við einstaka hluta sögunnar. Í „Atburðaannaál frá landnámstíð til 1300“ á s. 267 sést nokkurn veginn hvað fyrir honum vakir:

820/50 Norskur maður, Bersi Helgason, leggst í víking eða flytur vestur um haf. Hann sest að á eyjunni Ljóðhúsum í Suðureyjum og kvænist gelískri konu. Meðal barna þeirra eru Þormóður og Ketill, sem einnig kvænast gelískum konum. […]

880/890 Ketill og Þormóður Bresasynir bregða búi á Ljóðhúsum vegna landþrengsla og innanlandsófriðar og ákveða að freista landnáms á Íslandi. Þeir nema sameiginlega land á Akranesi og skipta með sér landnáminu vestan Urriðaár og Kalmansár. Þormóður byggir sér bæ sunnan Akrafjalls og nefnir Hólm, en Ketill vestan fjalls og nefnir Holt eða Garða. Skyldfólki og fylgdarliði þeirra er úthlutað jarðnæði. […]

Aukið aðstreymi fólks og vaxandi eftirspurn eftir jarðnæði. Skipting landnáma og myndun stórjarða hefst. Bresasynir úthluta jörðum næst landnámssetrum sínum og síðan norðan og austan fjalls. Meðal nýbýlinga eru suðureyskir menn, Bekan, Kalman, Kjaran og Katan.

Fyrst er að gera þá Ketil og Þormóð að einhverju leyti merkilega eða sæmilega ættaða. Gunnlaugur rökstyður konunglegan uppruna þeirra með tilvitnun í orðsifjar, sem ýmist benda til að Bresi sé af gelískum rótum runnið eða sé tvímynd af norræna orðinu Bersi „en svo er faðir þeirra nefndur í fornum sagnaþætti um upphaf byggðar í Noregi.“ (s. 183.) Gunnlaugur vísar þarna í stuttan þátt í Fornaldarsögum Norðurlanda, „Frá niðjum Fornjóts“ sem er upphafið á Hversu Noregr byggðist. Þar segir: „Jötunbjörn inn gamli var faðir Raums konungs, föður Hrossbjarnar, föður Orms skeljamola, föður Knattar, föður þeira Þórólfs hálma ok Ketils raums. Synir Þórólfs váru þeir Helgi, faðir Bersa, föður Þormóðs, föður Þórlaugar, móður Tungu-Odds“ o.s.fr. Af því sagnaritarinn tekur þessa klausu sem sannleika er ekki úr vegi að geta þess að í sömu efnisgrein kemur fram að í þessu slekti sem tengdist Raumi konungi var Eysteinn konungur illráði sem „setti Inn-Þrændum hund sinn fyrir konung, er Saurr hét“. Mætti ekki draga einhverja ályktun um konunglegan uppruna búrtíka Bresasona af sömu efnisgrein?

Fornaldarsögur Norðurlanda hafa hingað til ekki þótt áreiðanlegar heimildir en Gunnlaugur heldur ótrauður sínu striki og vitnar einnig í Guðbrand Vigfússon sem staðfestir að Bresasynir „voru komnir af Jötna-Birni, og í forneskju ættaðir úr Raumsdal og kemur þar saman ætt þeirra og Ingimundar gamla, svo að menn sjá af þessu, hvernig skilja á það, þegar menn eru kallaðir írskir og þvíumlíkt, að þeir eru Norðmenn, sem eru bornir og barnfæddir á Írlandi.“ Guðbrandur Vigfússon var barn síns tíma og trúði því að Íslendingasögurnar og önnur forn fræði væru heilagur sannleikur. Textinn sem þessi klausa er úr heitir „Um tímatal í íslendingasögum í fornöld“ og birtist í Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju árið 1856. Satt best að segja er ótækt að nota Guðbrand Vigfússon sem heimild í rökstuðningi fyrir konunglegum norrænum uppruna Bresasona! (Raunar hugsa ég að Gunnlaugur Haraldsson hafi ekki hugmynd um hver Guðbrandur Vigfússon var eða hvenær hann skrifaði þetta. Nákvæmlega þessa tilvitnun er nefnilega að finna í Sögu Akraness I eftir Ólaf B. Björnsson, útg. 1957, s. 16. Gunnlaugur hefur áður seilst til orða Guðbrands um að Bresasynir hafi verið „bornir og barnfæddir á Írlandi“ í stuttu textunum sem hann skrifaði í tvær ljósmyndabækur um Akranes og komu út 1987 og 1998. Textinn um þá bornu og barnfæddu á Írlandi gengur svo aftur á upplýsingasíðu bæjarins enda forsenda Írskra daga.)

Loðv�k sextándiÞótt allir sem eitthvað þekkja til íslenskra fornbókmennta viti að Fornaldarsögur Norðurlanda séu almennt taldar lygisögur og að Guðbrandur Vigfússon var barn síns tíma og trúði því að fornbókmenntir okkar væru heilagur sannleikur notar Gunnlaugur þetta bull m.a. til að kasta rýrð á Jón Böðvarsson í neðanmálsgrein: „Megi eitthvað marka þessi ættartengsl, stenst vart þessi umsögn: „Niðurstöður af framanskráðu eru: Uppruni Bresasona er ókunnur og ættsmáir hafa þeir talist.“ Jón Böðvarsson, 1992, s. 93.“ Gunnlaugur getur þess ekki að skömmu síðar bætir Jón við: „Hvorki má af ofanskráðu né heimildafátækt þá ályktun draga að Bresasynir hafi verið litlir bógar.“ (s. 94 í bók Jóns.)

[Til tilbreytingar er hér til vinstri birt mynd af Lúðvík XVI. Frakklandskonungi, sem tók við búi í Versölum af afa sínum. Það fór illa fyrir honum.]

Sem sagt: Með tilvísun til Fornaldarsagna Norðurlanda og túlkunar Guðbrands Vigfússonar eru Þormóður og Ketill Bresasynir af konunglegum norrænum ættum. En þá er að gera þá suðureyska einnig og komast framhjá tengingunni við Írland (sem var innifalin í rökum Guðbrands Vigfússonar fyrir konunglega  ætterninu).

Þetta gerir Gunnlaugur með því að vitna í kenningar Hermanns Pálssonar og Helga Guðmundssonar um samsvaranir milli örnefna í Ljóðhúsum (Lewis) á Suðureyjun og örnefna hér á suðvesturhorninu. Hermann Pálsson benti á þessa samsvörun 1955 og Helgi Guðmundsson hefur margítrekað hana. (Svo minnir mig að Guðbrandur gamli Vigfússon hafi eitthvað orðað hana líka en ég er ekki viss.) Magne Oftedal birti kort yfir norræn örnefni í Ljóðhúsum í tímaritsgrein 1954. Þótt Gunnlaugur vitni í Hermann og Helga gætir hann þess að nefna ekki grundvöll kenninga þeirra, sem byggir á samsvarandi röð örnefna.

Rúsínan í pylsuendanum er kortið á s. 173 þar sem sýndar eru samsvaranir norrænna örnefna á Ljóðhúsum og örnefna á svæðinu frá Melasveit til Leirvogsár í Mosfellssveit. Gunnlaugur vakti sérstaka athygli á kortinu í opnuviðtali í Skessuhorninu ekki alls fyrir löngu og mátti nánast af því viðtali skilja að Gunnlaugur hefði sjálfur uppgötvað þessar samsvaranir; þannig virðist hann hafa kynnt efnið fyrir bæjarstjórnarmönnum hér á Akranesi ef marka má orð Guðmundar Páls Jónssonar á bæjarstjórnarfundi. (þau orð eru rakin í Sögu Sögu Akraness XI en einnig má hlusta á bæjarstjórnarfund 13. október 2009, umræðuna á 45.-55. mínútu hljóðupptökunnar.)

Kortið er mynd 268 og um hana segir í Mynda- og myndritaskrá, s. 567: „Ljóðhús í Suðureyjum og Akranes - Kjalarnes (örnefnakort). Gunnlaugur Haraldsson / Hans H. Hansen. Heimild: Oftedal, Magne, 1954.“ Gunnlaugur nefnir ekki einu orði að svona kort, sem sýndi samsvörun örnefna á Lewis og á svæðinu frá Melasveit suður í Mosfellssveit (e.t.v. hafa þó örlítið færri örnefni verið merkt inn á það og örugglega ekki örnefni á sömu stöðum og Gunnlaugur merkir á sitt kort) hékk uppi á Landafundasýningu í Þjóðmenningarhúsinu frá árinu 2000 fram yfir mitt ár 2002. Það kort var unnið af Gísla Sigurðssyni íslenskufræðingi og sýndi hina áhugaverðu örnefnaröð sem finna má bæði á Lewis og aðallega í Kjós og Kjalarnesi. Ég man ekki nægilega vel eftir því korti (sem ætla má að flestir skólakrakkar og margir fullorðnir á Skaganum hafi barið augum á sínum tíma) til að staðhæfa að eftirlíking Gunnlaugs sé ritþjófnaður. En ótvíræður hugmyndastuldur er þetta úr því Gísla er að engu getið í sambandi við kortið.

Fræðimenn sem hafa fjallað um þessa örnefnasamsvörun hafa vakið athygli á að örnefnin eru í sömu röð (í u.þ.b. 20 km loftlínu) frá Melum og yfir Kjalarnes og Kjós, annars vegar, og hins vegar í Ljóðhúsum, og talið hugsanlegt að þetta tengist Helga bjólan, landnámsmanni á Kjalarnesi, sem var sonur Ketils flatnefs en sæmilega öruggt er talið að Ketill hafi dvalið á Suðureyjum (ýmist herma heimildir að hann hafi ríkt þar í umboði Haralds hárfagra eða hann hafi flúið til Suðureyja undan ofríki Haralds hárfagra, óvíst er hins vegar hvort Helgi bjólan bjó sjálfur einhvern tíma á Suðureyjum). Skv. þessari hugsanlegu kenningu sem varðar örnefni á Kjalarnesi og í Kjós er einungis Akranesinni því kenningin byggir á samsvarandi röð örnefnanna en ekki hinum algengu örnefnum sjálfum (þau finnast víða, t.d. á Hjaltlandi, í Skotlandi og í Noregi). Kort Gunnlaugs sýnir því ekki nokkurn skapaðan hlut sem ekki var löngu vitað um og merking algengu örnefnanna inn á landnám Bresasona er í engu samræmi við örnefnakenningu Hermanns Pálssonar og Helga Guðmundssonar því þau eru ekki í samsvörunarröðinni sem er grundvöllur kenningarinnar, fyrir utan þetta eina örnefni, „Akranes“. Að draga þá ályktun af þessu korti að Bresasynir hafi verið frá Ljóðhúsum er algert rugl, eiginlega samsvarandi því og að draga þá ályktun af örnefnunum „Subway“ og „Kentucky Fried“ í Mosfellsbæ að íbúar þar séu komnir af amerískum landnemum.

Kýr eða kúgildiMögulegan annan hugmyndastuld má finna á s. 211, í þetta sinn frá sjálfri mér.

Sumrin 2003-2004 vann ég vef sem heitir Fornar sögur og fólkið í landinu. Daglegt líf á þjóðveldisöld. Einn undirkafli vefjarins fjallar um verðgildi, sem löngum hefur vafist fyrir nemendum mínum og þess vegna ákvað ég að sýna verðgildi þessa tíma á myndrænan hátt, sjá undirsíðu af Verðlag“. Mér datt fyrst í hug hve merkilegt það væri að Gunnlaugur Haraldsson hefði fengið akkúrat sömu hugmynd, sem sjá má á mynd 305, „Kúgildi. Gunnlaugur Haraldsson/Egill Baldursson“ segir í myndaskrá. Á myndinni er: Kýr (ljósmynd) = 6 ær (ljósmynd) =20 kubbar (brúnleit teikning, sem á líklega að tákna 120 álnir vöruvaðmáls) = síldarbeinsmynstur (bláleit teikning sem á að sýna 240 fiska í stafla en það er ekki augljóst). Svo áttaði ég mig á því að þetta er sama kýrin og á myndinni sem ég nota á annarri síðu, þar hreinsaða og svarthvíta en Gunnlaugur og Egill hafa ekki haft fyrir neinni myndvinnslu. Hér til hliðar er upphaflega myndin, sú sem er fremst í myndrænu dæmi Gunnlaugs. Kindurnar eru líka teknar af vefnum, kannski úr frétt Sunnlenska fréttablaðsins en ég átta mig ekki á hvaðan hræðilega ljótu teikningarnar eru ættaðar. Ég man sjálf ekki hvaðan myndin af kúnni kemur.

Þannig að sé þetta ekki stuldur þá hefur Gunnlaugur Haraldsson óvart fengið sömu hugmynd og ég um myndræna útskýringu verðgildis á þjóðveldisöld og síðan fyrir tilviljun valið nákvæmlega sömu myndina til að tákna kúgildi.

Eftir að hafa tileinkað sér hugmyndir Hermanns Pálssonar og Helga Guðmundssonar og kastað eigu sinni á kortahugmynd Gísla Sigurðssonar og rangtúlkað hvort tveggja setur Gunnlaugur nú allt sitt traust á Hauksbók Landnámu til þess að geta teiknað upp mynd af niðjum Ketils Bresasonar (s. 188, myntugræn ættartafla, nánast sama tafla og er í bók Jóns Böðvarssonar s. 95 og eflaust víðar) þar sem Eðna Ketilsdóttir og sonur hennar Ásólfur alskik fá inni. Á hinn bóginn segist Gunnlaugur ekki trúa Hauksbók um Eðnu og Ásólf enda viðtekin skoðun fræðimanna: „Allt mun þetta vera tilbúningur Hauks“ (s. 188). Samt er haldið í Eðnu og Ásólf og slegið úr og í:

Hafa þær [eiginkonur Bresasona] þó að líkindum verið gelískar, eins og Hauksbók gefur vísbendingu um með nöfnum þriggja barna Bresasona, þ.e. Kjölvarar Þorðmóðsdóttur, Eðnu (ír. Eithne eða Ethne) og Gufa [svo] (ír. Guba, Gubán) Ketilsbarna. (s. 184.)

Sturlubók getur Eðnu ekki og sýnir það, hversu Haukur var fróðari öðrum Landnámuhöfundum um gelíska landnema. (s. 188.)

Eðna Ketilsdóttir var eins og fyrr segir gift kona á Írlandi áður en faðir hennar ákvað að flytjast búferlum til Íslands, og varð honum því ekki samferða. Eiginmaður hennar var sagður írskur að kyni […] en þeirra hjóna er hvergi getið í öðrum miðaldaritum en í Hauksbók. Flest bendir til þess, að tilvist þeirra beggja sé lærður samsetningur Hauks. (s. 188.) 

Þetta vesen með tilvist Eðnu Ketilsdóttur og hennar sonar, Ásólfs, kemur ekki í veg fyrir að Ásólfur alskik fái veglega umfjöllun og er texti um hann myndskreyttur með glansmynd af írska munkinum Aidan, fyrsta ábóta á Lindisfarne (d. 651). Á sömu síðu er glansmynd af dökkleitum heilögum Finan sem tók við af Aidan á Lindisfarne en myndatextinn fjallar að stórum hluta um Jörund Ketilsson hinn kristna. Á síðu 255 er Ásólfur orðinn fyrsti íslenski dýrlingurinn:

Jafn líklegt er [og að Jörundur hafi gerst einsetumaður og munkur], að Ásólfur alskik systursonur hans hafi gert tilraun til hins sama á Innra-Hólmi svo framarlega sem hann hafi verið annað en þjóðsagnapersóna. Verður hann að teljast fyrsti innlendi dýrlingurinn, en helgi hans mun hafa horfið smám saman þegar upp kom helgi biskupanna Þorláks Þórhallssonar og Jóns Ögmundssonar.
[Í lok málsgreinarinnar vísar Gunnlaugur í Björn Þorsteinsson, 1980, s. 109, sem sjálfsagt hefur haldið þessu fram í Íslenzkri miðaldasögu.] 

Nú er svo komið rökfærslu að Bresasynir eru af norsku konungakyni, samt örugglega fæddir og uppaldir í Suðureyjum, örugglega kvæntir gelískum konum og út af öðrum er kominn fyrsti íslenski dýrlingurinn. Næsta skref er að gera þá að aðalmönnunum á svæðinu og losna við þá Bekan og Kalman, sem fengu skika úr landnámi þeirra. Kalman er ekki svo mikið vandamál því hann flutti hvort eð er annað og Gunnlaugur gerir sér lítinn mat úr honum. Aftur á móti verður Bekan stærra vandamál og næstu tilvitnanir eru líka gott dæmi um óhóflegar endurtekningar í bókinni.

Í fyrsta lagi mætti stroka Bekan út, halda því fram að hann hefði aldrei verið til:

Hennar [jarðarinnar Bekansstaða] getur í Landnámabók sem bústaðar Bekans og er nálgægt miðju þess landsvæðis, sem sagnaritarar 13. aldar áætluðu að hann hefði fengið til umráða úr landnámi Ketils Bresasonar, fyrir norðan Berjadalsá. Þótt fullvíst megi telja að sú frásögn sé hreinn tilbúningur þarf ekki að efast um að bæjarnafnið sjálft er ævafornt og líklega frá öndverðri landnámstíð
[…]. (s. 127). 

Á hinn bóginn er Bekan írskt nafn og styrkir gelískan uppruna Bresasona (því miður ekki suðureyskan þótt sagnaritari gefi það í skyn). Þetta verður Bekan til lífs:

Þá eru í Sturlubók og Hauksbók nær samhljóða frásagnir af Bekan nokkrum „er nam land inn frá Berjadalsá til Aurriðaár og bjó á Bekansstöðum í landnámi Ketils“ (vísað í Íslenzk fornrit I, s. 67). Sturlubók nafngreinir hann raunar Beigan, en réttari nafnmyndin er eflaust Bekan (á írsku Beccán). Þótt uppruna Bekans sé ekki getið leikur naumast vafi á, að hann var annað hvort írskur eða suðureyskur. Athyglisvert er samt, að þessa skuli ekki getið í Hauksbók, jafn augljóslega sem höfundur hennar lagði sig fram um að tilgreina uppruna allra vestrænna manna. (s. 174. 

Fyrst nauðsynlegt er að halda í Bekan er rétt að hamra enn einu sinni á gelískum rótum hans en gera hann að nokkurs konar undir-landnámsmanni, gefa jafnframt til öryggis í skyn að kannski hafi hann samt ekki verið til:

Þess er fyrr getið, að skv. Sturlubók og Hauksbók „nam“ Bekan allt land í landnámi Ketils frá Berjadalsá að Urriðaá og bjó á Bekansstöðum. […] Engin gerð Landnámabókar getur um uppruna Bekans, en tvímælalaust er mannsnafnið af írskum eða gelískum rótum Mannsnafnið Beccán var algengt á Írlandi til forna. Ekki verður vefengt að einhver Bekan eða Beccán hafi verið meðal þeirra manna, sem þáðu jarðnæði af Katli. Sá maður tók sér væntanlega snemma bólfestu þar sem síðar hét á Bekansstöðum. Hins vegar er afar ósennilegt, að sá maður hafi verið nafngreindur í frumgerð Landnámu. Bekan getur því varla hafa talist landnámsmaður í eiginlegri merkingu þess orðs, þar sem hann helgaði sér ekki land með sama rétti og þeir menn sem höfundar Frum-Landnámu leituðust við að skrásetja. Um Bekan gátu hafa geymst munnmæli fram á 13. öld eða nafn hans staðið í rituðum ábúendaskrám [svo]. Líklega höfðu sagnaritarar þó eingöngu bæjarnafnið Bekansstaði við að styðjast þegar rekja þurfti landnámssögu Skilmannahrepps. Frásögnina af „landnámi“ Bekans ber því að skoða sem dæmigerða örnefnaskýringu og lærðan tilbúning sagnaritara. Með því að eigna Bekani allt land milli Berjadalsár og Urriðaár (Djúpár) fékkst einfaldlega prýðileg skýring á „landnámi“ þess hluta Skilmannahrepps. (s. 187)

Ég reikna með að hinar fornu rituðu ábúendaskrár frá því um 1200 eða fyrr hljóti að vera í vörslu sagnaritara því ég hef aldrei heyrt um tilvist þeirra áður. Líklega gleðja þessar upplýsingar fræðimenn sem hingað til hafa staðið á því fastar en fótunum að einungis örfá íslensk rit séu þekkt fyrir 1200 og ekkert þeirra er ábúendaskrá (þótt auðvitað sé mögulegt að telja Íslendingabók Ara fróða eða Landnámu sem vísi að ábúendaskrá - en miðað við umfjöllun Gunnlaugs til þessa er hann væntanlega að meina önnur rit, óuppgötvuð af öðrum). 

Annað í kaflanum um landnám og íbúa svæðisins fram undir 1300 er nokkuð í sama dúr, sífelldar endurtekningar, slegið úr og í, til skiptis tekið mark á Hauksbók, Sturlubók eða Melabók Landnámu eftir því hvað hentar sagnararitara hverju sinni o.s.fr. Á endanum er hann búinn að færa landnám Bresasona aftur til 880-90 í stað 900 (með afar hæpnum rökum og algeru skilningsleysi á hvernig tími líður í Íslendingasögunum, þær eru nefnilega ekki sagðar eins og ársrit eða annáll), hefur látið Ketil setjast að í Holti, sem seinna hét Jörundarholt eða í Görðum (með tilvísun í Melabók og þess að setningabútur hafi fallið niður í Sturlubók, Hauksbók ekki talin með hér því það myndi rústa tilgátunni) og gert þá bræður Bresasyni bæði kristna og kirkjurækna:

Mjög líklega reistu hinir kristnu frumbyggjar Ketill og Jörundur sér kirkju eða lítið guðshús í námunda við landnámsbæinn og hlutu þar jafnvel sjálfir leg um síðir. (s. 221.)

Bresasynir reisa kirkjur á landnámssetrum sínum og helga þær heilögum Kólumkilla (St. Columba), einum dáðasta dýrlingi á Suðureyjum. (s. 267.) 

Við þetta síðasttalda mætti gera þá athugasemd að bæði Hauksbók og Sturlubók Landnámu telja upp sex landnámsmenn sem voru þegar skírðir við komuna til landsins, þeirra á meðal Jörund Ketilsson. Konum bregður lítt fyrir í sagnaritun Gunnlaugs en er ómögulegt að ímynda sér að hin meinta gelíska mamma Jörundar hafi kannski kristnað hann?

Engar heimildir eru fyrir því að Bresasynir hafi verið kristnir og náttúrlega ekki heldur fyrir því að þeir hafi látið reisa kirkjur. Skv. Sturlubók Landnámu var kirkjan á Innra-Hómi (bæ Þormóðs) reist eftir dauða Ásólfs alskik og er ómögulegt að vita hversu löngu seinna það var. (ÍF I, s. 64.)  Skv. Hauksbók var kirkjan reist af Halldóri, syni Illuga rauða, eftir lát Ásólfs, og helguð Kolumkilla. Engar öruggar heimildir eru um kirkju í Görðum fyrr en um 1200. Sú kirkja var helguð Lárentíusi og Sebastian.
  

    

Hér hefur því sagnaritari bæjarins spunnið ótrúlegan þráð úr allra handa heimildum og gert þá áður lítt þekktu Bresasyni að glæsimennum mestum! Þeir eru orðnir af norsku konungakyni, fæddir og uppvaxnir í Ljóðhúsum á Suðureyjum, meiriháttar landnámsmenn í fjórðungnum, kristnir kirkjubyggjendur og annar er meira að segja afi fyrsta íslenska dýrlingsins! Það munar um minna!

Nú er ekki svo að ég hafi neitt á móti sögulegum skáldskap - en ég kann betur við að hann sé þokkalega læsilegur.

 


  

Er ekki úr vegi að birta í blálokin lungann úr nýjustu fundargerð ritnefndar um sögu Akraness, frá 18. maí sl.:

Þeir Kristján og Gunnlaugur kynntu hið nýja ritverk. Ljóst er að þetta verk er glæsilegt og efnistök og allur frágangur er til fyrirmyndar.Eftirfarandi samþykkt var gerð.
 Ritnefnd fer þess á leit við bæjarráð Akraness að gengið veriði til samninga við söguritara um að búa til prentunar fyrirliggjandi handrit sett að þriðja bindi Sögu Akraness. Þ.e. tímabilið 1801 - 1900. Nefndin telur nauðsynlegt að taka þessa ákvörðun fljótt í ljósi aðstæðna höfundar og væntingar þeirra sem keypt hafa fyrstu bindin. 

Má og upplýsa lesendur þessarar færslu um að bæjarráð tók strax jákvætt í erindið, þann 26.5. 2011 (sjá 5. lið fundargerðar sem krækt er í).
 
 
 

23 ummæli við “Fjórðungsdómur um 18 marka bók”

 1. Máni Atlason ritar:

  Mér fannst parturinn um wikipedia bestur.

 2. Margrét Sigurðardótt ritar:

  Þarna er margt merkilegt. Sem bókagerðarkona hef ég vanist því að útgefendur ritstýrðu verkum sínum af fagmennsku. Prentuð verk eiga að standast tímans tönn og eru lesin í áratug (ef ekki árhundruð).
  Undarlegt þykir mér einnig að ritnefnd telji nauðsynlegt að taka þessa ákvörðun fljótt í ljósi aðstæðna höfundar! Þetta bendir til meðvirkni og að aðstæður verktaka séu teknar fram fyrir fagleg vinnubrögð.

 3. Harpa ritar:

  Útgefendur eru skráðir Uppheimar (bókaforlag) og Akraneskaupstaður. Uppheimar fengu verkið í hendur umbrotið, prófarkalesið, myndstýrt og alles, þ.e. sáu einungis um að prenta verkið. Fyrir auglýsingar, keypt eintök og í beinan styrk til Uppheima (2 milljónir) greiddi Akraneskaupstaður 7,8 milljónir. Prentunin á glanspappírinn kostaði Uppheima 8,5 milljónir.

  Ritstjórn hefur væntanlega átt að vera í höndum ritnefndar um sögu Akraness, pólitískt skipaðri nefnd bæjarins, sem tók til starfa 1987 og hefur starfað frá 1997 með sagnaritaranum Gunnlaugi Haraldssyni. Í þeirri nefnd sitja núna svæfingalæknir á sjúkrahúsinu, forstöðumaður dvalarheimilis aldraðra, þ.e. Höfða, þjónustustjóri VÍS á Akranesi (formaður nefndarinnar), fjármálastjóri og framhaldsskólakennari. Af þessum er einungis kennarinn með menntun í sögu, nánar tiltekið með fil.kand próf í sagnfræði og uppeldisfræði (samsvarar íslenskri BA gráðu) úr Lundarháskóla.  Þessi kennari hefur setið í ritefndinni frá 1990, þ.e. í 24 ár. Frá 2002 hefur hann verið sá eini í nefndinni sem hefur einhverja menntun í sögu og dálitla menntun í íslensku (eins árs nám).

  Sagnaritarinn hefur enga menntun í sagnfræði. Hann hefur fil. kand próf í þjóðháttafræði og þjóðfræði og lauk hluta af námi til fil.mag (þriggja anna framhaldsnámi eftir fil. kand, samsvarar ekki íslenskri MA gráðu) í fornleifafræði en lauk ekki gráðunni.

  Enginn matsmaður, þ.e. enginn sagnfræðingur, hefur tekið þetta verk út á vegum bæjarins eða komið að því á fyrri stigum fyrir hönd bæjarins. Einn sagnfræðingur las yfir II og III kafla verksins, skv. formála Gunnlaugs Haraldssonar. Nú þekki ég þann sagnfræðing og leyfi mér að efast um að hann hafi lagt blessun sína yfir þetta bull sem ég hef rakið hér að ofan. Ómögulegt er að segja í hvaða ástandi það handrit sem sá fékk var og hans vegna vona ég að það hafi ekki verið þvælan sem ég fór yfir … og að einhver von sé til þess að seinni hluti II kafla sé skárri (eftir að landnámi sleppir).

  Verk Gunnlaugs Haraldssonar hafa frá 1997 til dagsins í dag kostað Akraneskaupstað um 105 milljónir. Langstærsti hluti þeirrar upphæðar eru greiðslur til Gunnlaugs, sem hefur gert sex samninga við bæinn, oftast framlengingarsamninga því upphaflega átti hann að skila fullbúnu verki (þá þremur bindum) árið 2001. Nú virðist þurfa að hraða mjög sjöundu samningsgerðinni við Gunnlaug. Ég hef aldrei hitt Gunnlaug Haraldsson og veit ekki hverjar hans sérstöku aðstæður eru. En í ljósi viðskipta hans við Akraneskaupstað frá 1997 til 2007, eftir því sem þau verða rakin gegnum fundargerðir, samninga og brot á samningum (þ.e. verki er ekki skilað) giska ég á að sérstöku aðstæðurnar séu fjárskortur. Ég er ekki komin lengra í að rekja Sögu Sögu Akraness en rek hana auðvitað til enda, á blogginu mínu. Miðað við afraksturinn á ég ekki fóður undir fat! Einnig má hafa í huga að Saga Akraness I og II eftir Ólaf B. Björnsson (útg. 1957 og 1959) dekkar talsvert af Sögu Akraness II eftir Gunnlaug Haraldsson og dálítið af Sögu Akraness I eftir Gunnlaug Haraldsson og að Jón Böðvarsson skrifaði Akranes. Frá landnámi til 1885; sú bók kom út 1992. Í samanburði er augljóst að bæði Ólafur B. Björnsson og Jón Böðvarsson eru ólíkt ritfærari menn en Gunnlaugur Haraldsson og langtum fróðari um fornar bókmenntir og sögu landnáms. 

  Það væri óneitanlega gaman að fá upplýst frá bókaforlaginu Uppheimum hversu mörg eintök af Sögu Akraness hafa verið seld (fyrir utan þau tæplega 240 eintök af hvoru bindi sem bærinn skuldbatt sig til að kaupa).

  Ég er hjartanlega sammála þér um ótrúlega meðvirkni: Bendi á að bæjastjórinn jafnaði sagnarituninni við ritun Njálu og Eglu, þegar hann veitti handritum þessara tveggja binda viðtöku í janúar, forseti bæjarstjórnar hefur gefið í skyn að hin langa sagnaritun eigi sér samsvörun í byggingu Versala og Kölnardómkirkju og herma munnlegar heimildir að hann hafi einnegin líkt sagnaritara við Snorra Sturluson við sama tækifæri, þegar bækurnar komu út og haldið var upp á það þann 19. maí sl. (Raunar má að mínu mati einnig útskýra viðbrögð bæjarstjóra og bæjarstjórnarmanna með hliðsjón af öðrum kenningum en meðvirkni en ég læt það vera á opinberu bloggi.)

 4. Elín Sigurðardóttir ritar:

  Getur verið að Þættir úr sögu Akraness e. Þorstein Jónsson byggi á Hversu Akranes byggðist e. Ólaf B. Björnsson í tímaritinu Akranes 1942-56? Þetta eru mjög flottar greinar hjá Ólafi og allar til á prenti.

 5. GKS ritar:

  Eftir lestur þessarar greinar verð ég að segja eftirfarandi.

  Ef einungis helmingur þess sem hér er ritað er sannleikanum samkvæmur þá er ég feginn að ég skuli ekki greiða útsvar á Akranesi lengur og hef ekki gert í 21 ár.

  Hlakka til að sjá umfjöllun um annað bindið

 6. Harpa ritar:

  Ég á einungis ljósrit úr fyrstu tveimur Þáttum úr sögu Akraness e. Þorstein Jónsson. Í þeim fyrsta nefnir hann einmitt Ólaf B. Björnsson og tímaritið Akranes og segir “Þar skrifaði hann marga þætti úr sögu Akraness og forðaði þannig dýrmætum fróðleik frá glötun.” Síðan segir Þorsteinn stuttlega frá Sögu Akraness I og II eftir Ól. B. Björnsson. Í stuttum kafla sem kemur eftir örnefnakorti, “Örnefni á Akranesi” segir Þorsteinn einungis að þetta sé “skrá yfir þau örnefni á Akranesi sem skjalfest hafa verið” og óvíst hvort hann byggir bara á Ól. B. Björnssyni eða fleirum - hann vísar einungis beint í Sögu Akraness I, ákv. síður, í umfjöllun um fiskimið.

  Markmið Þorsteins með þessum þáttum var greinilega að safna fleiri örnefnum eða bjarga þeim frá glötun því hann biður Skagamenn um að leiðrétta ef rangt er farið með og senda endilega skilaboð, myndir eða hringja (í foreldra hans) ef þeir hafi frekari upplýsingar. Endar bera þættirnir undirtitilinn Heimildasöfnun til sögu Akraness.

  Þorsteinn hélt svo ljósmyndasýningu í Bókhlöðunni, 1978, og fékk sýningargesti af eldri kynslóðinni til að merkja inn á stórt kort allan þann örnefnafróðleik og fróðleik um hús á Skaganum sem þeir bjuggu yfir. Sýndar voru gamlar ljósmyndir sem Þorsteinn hafði látið stækka. Þetta gerði hann allt í sjálfboðavinnu en Akranesbær keypti af honum ljósmyndirnar í lok sýningarinnar og náði hann þannig að dekka kostnaðinn við stækkun þeirra. Kortið afhenti hann Byggðasafninu og þar er það enn.

  Ég veit eiginlega ekkert um blaðið Umfang (ég er ekki sagnaritari bæjarins, skilurðu ;) og er ekki fædd og uppalin á Akranesi) nema að Indriði Valdimarsson (Indriðasonar) gaf það út og að fjórða tölublað 1978 var 12 síður. Það er ekki mikil vitneskja.

  Ég hef svolítið flett tímaritinu Akranesi en man ekki eftir akkúrat þessum þáttum, sem þú nefnir. En ég er alveg sammála þér að þetta er skemmtilegt tímarit og mjög fróðlegt. Því miður er ekki hægt að fá það lánað á Bókasafninu heldur bara hægt að lesa á safninu og ég hef eiginlega ekki getað setið mikið á safni og lesið í nokkuð langan tíma.

  Aftur á móti hef ég margoft lesið uppáhaldshluta úr Sögu Akraness I og II (Ólafs B. Björnsson) og þykir einna áhugaverðust umfjöllun um einstök hús og íbúa þeirra í gegnum tíðina. Hann segir svo skemmtilega frá að maður fær strax áhuga á fólkinu … jafnvel þótt ættuð sé úr allt öðrum landsfjórðungi eins og ég er.

 7. Harpa ritar:

  Umfjöllun um annað bindi og restina af fyrsta bindi verða aðrir að taka að sér. Ég fékk því miður nóg af þessum fyrsta fjórðungi og skilaði bókunum í dag. Það hvarflar ekki að mér að kaupa þær.

 8. Ólafurn N. Sigurðsso ritar:

  Þetta er helvíti góð aftaka Harpa mín :)

 9. AKP ritar:

  Sæl Harpa!

  Mér finnst þetta svo graf alvarlegt sem þú ert að benda á - að það er eiginlega fyndið…

 10. Erling O. Vignisson ritar:

  Þetta er bara smá umsögn - nokkurskonar stöðumat eða þriðjungsdómur, því þegar ég kom að “Örnefnaupptalning, hnýtt í fyrri sagnaritara og beinn ritstuldur” þá stóð ég upp og sótti mér göróttan drykk áður en ég hélt áfram við lesturinn. Eins og staðan er núna, þegar ég hef lesið þriðjung, kæmi mér á óvart ef bindi III og IV kæmu nokkurntíma út ;-) Jæja… áfram með smjörið.

 11. Þórður Eiríksson ritar:

  Sammála Mána.
  Vonandi færðu áhugann á ritrýninni aftur á næstu árum,
  gott að einhver taki það að sér. Hefði verið sérstaklega
  gott ef einhver af ritstjórunum hefði gert það.

 12. Elín Sigurðardóttir ritar:

  Kortið af Skipaskaga er í 2. hefti Akraness 1958:102. Inn á það hefur “ég” merkt með tölum öll hús, sem til eru á Akranesi 1900. Spurning hvort að þessi “ég” sé Ólafur B. Björnsson. Það er erfitt að vinna svona verk svo að öllum líki. Ég hlakka til að lesa þessar bækur.

 13. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Takk fyrir ábendinguna, Elín. Ég hlakka til að kíkja á þetta í Akranesi (tímaritinu). Ég get ekki gáð hvort Gunnlaugur nefnir tímaritið Akranes í heimildaskrá prentaðra heimilda því ég er búin að skila bókinni en eflaust hefur hann kíkt í það því ég reikna með að mynd Árna Böðvarssonar sem hann segist hafa af Ljósmyndasafninu sé einmitt skönnuð úr einhverju hefti Akraness (myndin með speglaða prentletrinu sem ekki er til í Ljósmyndasafninu). En það skiptir ekki öllu máli í sambandi við kortið með innmerktu húsunum á Akranesi hvort hann tekur einhverjar upplýsingar frá Ólafi B. Björnssyni; Ritþjófnaðurinn er sá sami því hann eignar sjálfum sér upplýsingarnar, þ.e. vísar ekki í heimild fyrir nöfnum og teikningum húsanna á kortinu, og enn er höfundaréttur á verkum Ólafs B. Ef það er það sem þú ert að reyna að koma að.

  Sem leiðir hugann að titlum bóka Gunnlaugs: Akraneskaupstaður hefur staðfest að ekki hafi verið leitað leyfis erfingja Ólafs B. Björnssonar fyrir notkun titlanna Saga Akraness I og Saga Akraness II, sem skv. höfundalögum eru ótvíræð eign erfingjanna, sjá

  “VI. kafli. Ýmis ákvæði.
  51. gr. Nú hefur höfundur notað sérstakan titil, gervinafn eða merki á
  birtu verki, og er öðrum þá óheimilt að birta verk með sams konar
  auðkenni eða svo áþekku, að líklegt sé, að villst verði á verkunum eða
  höfundum þeirra.”

  (Ég hef svo ekki nokkra einustu hugmynd um hvort lögerfingjar Ólafs B. Björnssonar láti sig þetta nokkru skipta en bendi einungis á þessa lagagrein.)

  Ég vona að þú hafir meiri skemmtun af lestri Sögu Akraness I og II eftir Gunnlaug Haraldsson en ég, Elín.

 14. Sandra ritar:

  Þakka þér fyrir að gera opinbert dekur á ákveðnum einstakling sem fær alla þessa summu fyrir hvílíka bullið. Móðurforeldrar og ættingjar mínir er Akurnesingar og hef ég hlustað á margar staðreyndir um Skagan og umhverfi hans og hljóma þær margar á aðra lund. Kjarnakona þú ert!! Haltu áfram góðri gagnrýni.

 15. Rakel Bára Þorvaldsd ritar:

  Sæl Harpa

  Ég hef eina leiðréttingu varðandi textann þinn, það virðist vera um ásláttarvillu að ræða:

  [Fyrir ókunnuga lesendur færslunnar: Núverandi eigandi Kataness- og Kalastaðajarða er Faxaflóahafnir sf, sem leigja ýmsum stóriðjufyrirtækjum landið. Þessi örnefni eru sem sagt í nágrenni Norðuráls og Járnblendiverksmiðjunnar.]

  Þarna geri ég ráð fyrir að þú eigir við KaTastaðajörð, en ekki KaLastaðajörð, eftir því sem ég best veit hafa foreldrar mínir ekki selt jörðina Kalastaði ;-)

 16. Harpa ritar:

  Ó! Takk! Ég biðst innilega afsökunar og laga þetta eins og skot. Gott að foreldrar þínir eiga enn Kalastaði ;)   Þarna átti að standa Klafastaða …

 17. Harpa ritar:

  Elín: Fyrir þig hljóp ég yfir götuna og athugaði hvernig gögn Ólafs B. Björnssonar eru skráð í heimildaskrá Gunnlaugs í Sögu Akraness I. Skráningin er svona:

  Ólafur B. Björnsson. 1948: „Hversu Akranes byggðist.“ Akranes VII. árg. 1948, 1.-12. tbl., s. 12-15.
  Ólafur B. Björnsson, 1953-1954: „Saga byggðar sunnan Skarðsheiðar.“ Akranes XII. árg. 1953, 4.-6. tbl., s.54-55, 66;
  7.-9. tbl., s. 85-86; 10.-12. tbl., s. 127-128; XIII. árg. 1954, 1.-3. tbl., s. 20-21, 32-33, 4.-6. tbl., s. 55-57, 69-70; 7.-9. tbl.,
  s. 91-93; 10.-12. tbl., s. 125-128.
  Ólafur B. Björnsson. 1957: Saga Akraness I. Fyrstu jarðir á Skaga. Sjávarútvegurinn. Fyrri hluti. Akranesi.
  Ólafur B. Björnsson. 1958: „Er forn hoftóft í Görðum?“ Akranes XVII. árg., 1. hefti 1958, s. 10.
  Ólafur B. Björnsson, 1959: Saga Akraness II. Sjávarútvegurinn síðari hluti. Verzlunin. Akranesi.

  Má því ætla, skv. heimildaskrá, að kort Gunnlaugs sem ég tala um í færslunni tengist ekki því korti sem þú nefnir að hafi birst í 2. hefti Akraness 1958:102.

 18. Steingrímur Kristins ritar:

  Sæl Harpa, það er ekki oft ég gef mér tíma til að lesa ritdóma, hvað þá svona langan eins og þú skrifar um „ritverk“ Gunnlaugs Haraldssonar þjóðháttafræðings. Ég hefi ekki lesið skrif hans og því ekki dómbær á ritdóm þinn. En mér dettur í hug þátt bæjarstjórnar í þessu máli, sem samkvæmt „fundargerð“ hælir verkinu í bak og fyrir (örugglega án þekkingar). Var einhver þeirra búinn að lesa bókina áður en áframhaldandi fjáraustur var samþykktur? Kostnaðurinn við þetta verk er með ólíkindum, sem og hvað lítið hefur borist til minna eyrna mótmæli vegna þess arna. Gæti þó verið að það hafi farið fram hjá mér. Varðandi ritstuld og birtingar á ljósmyndum án þess að höfunda sé getið, svo og leyfi til birtinga þeirra, er því miður alltof algegnt. Frá mér hefur verið stolið til birtingar í blöðum, tímaritum og bókum tugum ljósmynda frá Ljósmyndasafni mínu í gegn um tíðina, svo ég þekki vel til. Svo það hlakkar ósjálfrátt innra með mér þegar maður less svona gagnrýni á „meintan“ þjóf. Og svo: Hversu náin tengsl á þessi maður við bæjarstjórnina? -
  Gangi þér vel á þínu sviði Harpa.
  Steingrímur Kristinsson Siglufirði

 19. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Þetta er ekki eiginlegur ritdómur heldur einungis dómur um hluta I. bindis, þ.e. þann hluta sem ég tel mig fullfæra um að meta. Ég reikna með að sagnfræðingar meti annað, vona það a.m.k. Hvað varðar spurningar þínar, Steingrímur:
  Ritnefnd um sögu Akraness hlýtur að hafa átt að vera eftirlitsaðili með verkinu. Nefndin hefur samt aldrei fengið erindisbréf svo þetta eftirlitshlutverk er ekki skjalfest. Í ritnefndinni hafa setið á sagnaritaratímum Gunnlaugs Haraldssonar (1997 til dagsins í dag) einn maður með sagnfræðimenntun (sænska fil.kand gráðu frá Lundaháskóla) og kona með einhverja sagnfræðimenntun, e.t.v. samskonar próf, úr sama skóla. (Þau eru reyndar systrabörn. Þessi maður er jafnframt skólabróðir Gunnlaugs úr MA og stundaði nám samtíða Gunnlaugi í Lundi, tók einmitt við sæti Gunnlaugs í Ritnefndinni árið 1990 en Gunnlaugur sat þar fyrir Alþýðubandalagið frá 1987.) Formaður ritnefndar frá 1987-2005 var Gísli Gíslason bæjarstjóri. Hann er lögfræðingur að mennt. (Hann er reyndar mágur sagnfræðimenntaða mannsins sem ég nefndi.)

  Formaður bæjarráðs sem segir í frétt RÚV í dag að bréf mitt með ábendingum “hafi engin áhrif á það hvert framhaldið verði á ritun og útgáfu á sögu Akraness” sat sjálfur í Ritnefndinni um skeið. (Sjá http://www.ruv.is/frett/undirbua-utgafu-thridja-bindisins)  Ég sendi það bréf 23. maí til formanns ritnefndar, formanns bæjarráðs, forseta bæjarstjórnar og bæjarstjóra. Þá hafði ég ekki séð bækurnar en fengið afrit af ræðu formanns Ritnefndar flutta á útgáfuhátíð þeirra þar sem fram kom að hraðað yrði samningum við sagnaritarann um næstu bindi. Í því bréfi ráðlagði ég einfaldlega að flýta sér hægt, í ljósi sögu sagnaritunarinnar, og bíða eftir dómi í ritrýndu tímariti, t.d. Sögu.

  Forseti bæjarstjórnar, sem benti á að seint hefðu Versalir og Kölnardómkirkja risið hefðu menn spáð i verktímann, í ræðu sinni á sömu útgáfuhátíð, er fyrrum flokksbróðir Gunnlaugs Haraldssonar í Alþýðubandalaginu gamla og starfaði náið með honum, ef marka má blöð Alþýðubandalagsins bæði á Akranesi og Vesturlandi (en Gunnlaugur ritstýrði þeim einmitt um skeið).

  Hinn ópólitíski bæjarstjóri okkar, sem benti á að enginn hefði spurt um ritunartíma Njálu og Eglu þegar hann veitti handritunum viðtöku úr hendi Gunnlaugs í janúar, og sagði útkomnu bækurnar “hverrar krónu virði” í sjónvarpsfréttum um útgáfuhátíðina, er nátengdur gamla Alþýðubandalaginu hér á Skaganum fjölskylduböndum. Hann er jafnframt með BA próf í íslensku og ég hlýt því að álykta að hann hafi lesið Njálu og Eglu. Bæjarstjórinn hefur einungis starfað í 9 eða 10 mánuði og e.t.v. ekki náð að setja sig inn í ýmsa málaflokka hér á Skaganum ennþá.

  Ritnefndin heyrir, að því er virðist, undir bæjarráð og/eða beint undir bæjarstjóra. Fundargerðir ritnefndar hafa gegnum tíðina verið lagðar fram seint og illa, ýmist fyrir bæjarráð eða bæjarstjórn. Fundargerðir Ritnefndar frá 17. janúar og 18. maí birtust á vef Akraneskaupstaðar nú í lok maí. Bæjarbúar hafa því ekki átt auðvelt með að fylgjast grannt með gangi sagnaritunar eða störfum ritnefndar.

  Með fundargerð nýjasta bæjarstjórnarfundar, 31.5. 2011, hefur láðst að leggja fram hljóðritun af fundinum (eins og tíðkast hefur í nokkur ár). Þess vegna veit ég ekki hvað liðurinn “14.13. 1104148 - Saga Akraness - upplýsingar og gögn um ritun” þýðir og ekki heldur hvort Hrönn Ríkarðsdóttir (sem sat í Ritnefndinni 1987-2002) eða Guðmundur Páll Jónsson (sem sat í Ritnefndinni 2004-2005) tóku til máls um þessi gögn eða annað (bókað er að þau hafi tekið til máls um einhverja kippu af málum þar sem þessi liður var innifalinn). Ég hef óskað eftir upplýsingum um þetta og beðið um að hljóðskráin verði aðgengileg.

  Undir alla samninga við Gunnlaug nema einn viðaukasamning hafa bæjarstjórar skrifað, þ.e. undir þrjá þá fyrstu skrifaði Gísli Gíslason bæjarstjóri fyrir hönd bæjarins, undir tvo skrifaði Gísli S. Einarsson bæjarstjóri, annan með fyrirvara um samþykki bæjarráðs, hinn með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar (bæjarráð hafði þegar samþykkt þann samning en Gísla S. hefur líklega ekki þótt það duga) og undir einn skrifaði bæjarritari. Ég reikna með að gangi Akranesbær til samninga við Gunnlaug enn og aftur muni Árni Múli Jónasson bæjarstjóri undirrita þann samning, spurning hvort hann telur sig þurfa samþykki bæjarráðs, bæjarstjórnar eða hvors tveggja fyrir undirritun.

  Ég vona að þú finnir einhver svör við spurningum þínum í þessum pistli, Steingrímur. Satt best að segja virðist stuðningur bæjarstjórnarmanna við Gunnlaug ganga þvert á flokka núorðið og hafa verið um nokkurt skeið þótt upphaflega megi e.t.v. rekja hann til fjölskyldutengsla ritnefndarmanna og tengsla við Alþýðubandalagið og afleidda vinstri flokka. Líkleg skýring á þessu er að sömu mennirnir, t.d. núverandi forseti bæjarstjórnar (Samfylkingarmaður) og formaður bæjarráðs (Framsóknarmaður), sem og leiðtogi Sjálfstæðisflokksins hafa setið í bæjarstjórn og bæjarráði meira eða minna í þessi 14 ár sem skrif Gunnlaugs hafa varað. Þegar búið er að spandera 105 milljónum í verk hans er erfitt að snúa við: Þegar menn eru búnir að leggja svo mikið undir að þeir geta ekki hugsað sér að tapa summunni þá halda þeir áfram að leggja undir frekar en að pakka. (Ég held að þetta sé einmitt vel þekkt bragð í rekstri spilavíta.)

  Hið sorglega er að það erum við, bæjarbúar, sem borgum ævintýrið. Á Akranesi búa um 7000 manns svo það munar alveg um 105 milljónir í rekstri bæjarins, jafnvel þótt þeim sé dreift á 14 ár.

 20. Héðinn Ó.Skjaldarson ritar:

  Ef Wikipedia er notuð sem heimild er það brot á reglum sem háskólarnir nota í heimildavinnu, þar sem ég hef stundað nám á hug og félagsvísindasviði HA, þá er okkur nemendum bannað að nota Wikipedia sem heimild, eingöngu ritrýndar síður eru heimilar, Wikipedia er samsafn af greinum og efni úr mörgum áttum og þar er ekkert ritrýnt efni, því er notkun í sagnfræðilegum tilgangi harla léleg heimildavinna og fengi falleinkunn hjá prófessorum við háskólana.

 21. Harpa ritar:

  Ég hef haft spurnir af því að einnig sé bannað að nota Wikipediu sem heimild í heimildaritgerðum í framhaldsskólum. Það kann þó að vera misjafnt eftir fögum og skólum.

 22. Vilhjálmur Örn Vilhj ritar:

  Dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson, (nafnið mitt langa komst ekki allt fyrir í nafnaskráningu bloggsins þíns), fornleifafræðingur skrifar frá Danmörku:

  Þakka þér fyrir Harpa, að gefa okkur þessa gerð Nýju fata Keisarans.

  Án þess að hafa lesið bækur Gunnlaugs, sýnist mér að þú gerir athugasemdum þínum það vel skil, að ég er nærri sannfærður um að þú sért ekki að veitast að fræðimannsheiðri Gunnlaugs að ósekju.

  Ég rak þó augun í ummæli þín um kortið góða á síðu 173, sem þú vilt heiðra Gísla Sigurðsson fyrir. Ég sé enga ástæðu til þess. Kortið á síðu 173 byggir, eins og Gunnlaugur bendir á, á grein Magne Oftedals í Norsk tidsskrift for sprogvidenskap XVII, s. 363-409 og það gerði kort Gísla líka, svo bæði kortin má þakka Magne heitnum Oftedal. Ætli Gísli hafi þakkað Oftedal eða getið hans? Við getum því ekki talað um hugmyndastuld Gunnlaugs frá Gísla.

  Grein Oftedal hefur áður sést í vafasamri notkun á Íslandi, þar sem menn sem aðhyllast “keltneskan” uppruna Íslendinga nota örnefni sem líklega eru ættuð frá Suðureyjum sem “sönnun” þess að þeir sem gáfu slík nöfn á Íslandi hafi verið “keltar”. Það eina sem þessi nöfn sýna, er að landnámsmenn á þessu svæði og víðar á suðvesturhorni Íslands hafi verið ættaðir frá Skosku eyjunum. Örnefnin, norsk eða “gelísk” að uppruna, segja ekkert um DNA í fólki sem innleiddi þessi örnefni á Íslandi.

  Ógagnrýnin myndanotkun og þvælurök þau, sem þú nefnir úr 1. hefti sögu Gunnlaugs Haraldssonar, hefur maður svo sem áður séð á Íslandi. Saga Íslands var þessu marki brennd, misjafnlega þó, því höfundar margir og misgóðir fræðimenn. Ég man í svipinn eftir kaflanum um heimsókn Kólumbusar til Íslands eftir Guðrúnu Ásu Grímsdóttur. Ég skrifaði síðar athugasemdir í Lesbók um það. Ég hef einnig orðið þess heiðurs aðnjótandi, að mynd eftir mig af miðaldainnsigli sem upphaflega birtist við grein mína í tímariti var notuð án leyfis í Sögu Íslands af sjálfum útverði lögfræðinnar og réttvísinnar á Íslandi, Sigurði Líndal.

  Það breytir því þó ekki, að ég tel að gagnrýni þín sé góð og að hlusta beri á hana. Vonandi eru pólítíkusarnir uppi á Skaga ekki algjörlega siðlausir.

 23. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Eitt af því sem hrjáir mig er minnisleysi. Þess vegna skrifa ég, m.a. blogg. Ég mundi ekki hvar ég hefði séð þetta kort áður sem Gunnlaugur er að hluta að kópíera, þ.e. samanburðarkort milli Lewis og Kjósar/Kjalarness (aðallega). Þess vegna skrifaði ég Gísla Sigurðssyni sem upplýsti mig um að hann hefði útbúið svona kort fyrir Landafundasýninguna og byggt það á korti Oftedals (Ljóðhúsapartinn) og kenningum um samsvörunina (væntanlega 20 km loftlínuna og samsvörunarröðina, sem Hermann Pálsson og Helgi Guðmundsson hafa bent á). Mér láðist að spyrja Gísla hvort hann hefði sett Oftedal í heimild fyrir neðan helminginn af sínu korti enda skipti það ekki máli í minni umfjöllun og ég reyni að týna mér ekki í smáatriðum. Gísli bauðst meira að segja til að senda mér ljósrit af korti Oftedals ef ég væri að hugsa um að útbúa svona kort sjálf (hann hélt ég væri enn að kenna). Og ég reikna með að Gísli láti sig engu máli skipta að Gunnlaugur notaði hugmyndina hans um gerð samanburðarkorts.

  Kortið af Ljóðhúsum er hugmynd Oftedals byggð á rannsóknum hans. Samsvörunarkenningin er Hermanns Pálssonar og seinna hefur Helgi Guðmundsson gert henni góð skil. Hugmyndin að því að nota þessar tvær hugmyndir saman, þ.e. byggja á korti Oftedals um Ljóðhús og kenningum þeirra sem ég nefndi um Kjós/ Kjalarnes er Gísla því mér vitanlega hefur ekki annar birt svona samsvörunarkort. Það kort var mjög frægt því margir skoðuðu Landafundasýninguna. Þess vegna finnst mér að geta eigi hugmyndasmiðs samanburðarkorts, þ.e. Gísla. Athugaðu að ég kalla þetta ekki ritstuld heldur hugmyndastuld og tek fram í færslunni að Gunnlaugur geti Hermanns, Helga og Oftedals. Svo ég sé ekki alveg yfir hverju þú ert að kvarta. Ég kom því meira að segja að, að Gunnlaugur skrumskælir kenninguna í sinni útgáfu því þar er náttúrlega engin 20 km loftlína heldur merkt inn öll þau mögulegu örnefni í nágrenni Akraness sem mögulega gætu átt samsvörun einhvers staðar á Lewis, sum afar algeng og finnast miklu víðar á gelísku málsvæði en í Ljóðhúsum.

  Það kann að gleðja þig að nú hafa eyjaskeggjar (í Stjórnarvogi í Ljóðhúsum) endurprentað hina góðu grein Oftedals og kortið með, sjá http://www.stornowaygazette.co.uk/news/local-headlines/new_publication_on_village_place_names_in_lewis_1_120964
  En svo virðist sem þeir hafi ekki reynt að spegla þau við Akranes ;)

  Og enn einu sinni get ég þess að þessi færsla er ekki ritdómur heldur einungis byggð á flettum og lesnum fjórðungi af I. bindi Sögu Akraness. Rúmri viku áður en ég barði rit Gunnlaugs augum skrifaði ég helstu körlum í bæjarapparatinu kurteislegt bréf (að mínu mati) þar sem ég fór fram á að ekki yrði hraðað frekari samningagerð við Gunnlaug fyrr en birst hefðu ritdómar um bindin tvö í ritrýndu tímariti, t.d. Sögu. Bætti við að annað sæmdi ekki margauglýstu sagnfræðilegu gildi verksins. En af því það kurteisa bréf var ekki tekið til greina ákvað ég að fá bækurnar lánaðar og skoða þá þætti sem ég treysti mér til að meta sjálf, sem voru sem sagt myndir, myndvinnsla, útlit, heimildanotkun, stafrænn höfundaréttur og umfjöllun sem tengist fornbókmenntum. Reyndi líka að meta örnefnakaflann af því ég hef áhuga á örnefnum.

  Væntanlega munu einhverjir sagnfræðingar einhvern tíma skrifa dóma um þessar bækur. Hugsanlega er allt annað en þessi fjórðungur sem ég einbeitti mér að í þokkalegu lagi - um það get ég ekki dæmt (sérstaklega af því ég gafst upp og gat ekki hugsað mér að fletta bókinni meir, opnaði ekki seinna bindið).

  Ég mun einmitt gera grein fyrir helstu pólitíkusum á Skaganum í næstu færslu og aðkomu þeirra að þessu 14 ára ævintýri með Gunnlaugi, jafnvel rifja aðeins upp afskipti þeirra áratuginn á undan, með Jóni Böðvarssyni.

  P.s. Hafirðu áhuga á norrænum staðanöfnum á skosku landsvæði er frekar skemmtileg og tiltölulega nýleg grein hér: http://uhi.academia.edu/AndrewJennings/Papers/106935/One_Coast_Three_Peoples