20. júlí 2011

Nú skaltu rökstyðja eða biðjast afsökunar!

Ég er orðin þreytt á að sitja undir órökstuddum blammeringum Árna Múla Jónassonar bæjarstjóra Akraneskaupstaðar og finnst engan veginn við hæfi hvað hann segir í nafni síns embættis!  Þessi grein mín birtist í Skessuhorni í dag:

Árni Múli Jónasson bæjarstjóri:  Bentu á þruglið eða biðstu afsökunar!

Í Skessuhorni 13. júlí sl. fjallar Árni Múli Jónasson bæjarstjóri Akraneskaupstaðar um ritdóm Páls Baldvins Baldvinssonar um Sögu Akraness. Orðrétt er þar haft eftir bæjarstjóranum: „Mér sýnist Páll af einhverjum óútskýrðum ástæðum hafa ákveðið að éta gagnrýnislaust upp þruglið sem bloggari einn hér í kaupstaðnum hefur staðið fyrir linnulítið undanfarnar vikur.“

Ég geri ráð fyrir að umræddur bloggari sé ég sjálf því ég hef rakið sögu sagnaritunar um Akranes, aðallega frá 1956 til dagsins í dag, í 15 tölusettum bloggfærslum og byggt á rituðum heimildum sem flestar eru opinber gögn Akraneskaupstaðar. Einnig hef ég skrifað yfirlitsfærslu yfir sagnaritunina 1987-2011, skrifað eina færslu um hluta Sögu Akraness I eftir Gunnlaug Haraldsson og eina færslu til að svara hörðum viðbrögðum við þeirri færslu, þ.á.m. orðum Árna Múla Jónassonar bæjarstjóra sem voru algerlega órökstudd. Þessar 18 færslur í færsluflokknum Saga Sögu Akraness birtust frá apríllokum til júníloka nú í ár.

Fundargerðir ritnefndar, bæjarstjórnar og bæjarráðs eru vissulega oft illa orðaðar og má stundum finna í þeim mál- og stafsetningarvillur en mér finnst nokkuð langt gengið að kalla þær þrugl. Sama gildir um aðrar beinar tilvitnanir í færsluflokknum Saga Sögu Akraness á harpa.blogg.is, t.d. í bæjarstjórnarmenn og Árna Múla sjálfan. Ég reikna með að Árni Múli bæjarstjóri eigi við færsluflokkinn í heild úr því hann talar um „þruglið … linnulítið undanfarnar vikur.“

Bæjarstjóri Akraneskaupstaðar getur ekki verið þekktur fyrir að fara með fleipur og vega að mannorði mínu.

Þess vegna á Árni Múli Jónasson bæjarstjóri að rökstyðja með dæmum að bloggfærslur mínar séu þrugl.  Geti hann ekki gert það ætti hann að biðja mig afsökunar á orðum sínum á síðum Skessuhorns, sem er miðillinn sem hann hefur sjálfur kosið að tjá sig í. 

7 ummæli við “Nú skaltu rökstyðja eða biðjast afsökunar!”

 1. Svala ritar:

  Bæjarstjórinn gerir fyrst og fremst sjálfan sig kjánalegan með þessum ummælum. Ætlaði bærinn ekki líka að lögsækja Pál Baldvin fyrir neikvæðan ritdóm, eða skoða það?

  Þeir skjóta bara sjálfa sig í fótinn með þessari vitleysu.

 2. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Árni Múli er lögfræðingur að mennt og segist hafa falið lögfræðingi Akraneskaupstaðar (sem ég veit ekki hver er) að athuga möguleika á málsókn á hendur Páli Baldvini. Bæjarstjórinn hlýtur að hafa eygt einhverja möguleika á málsókn sjálfur. Ég held að lögsókn vegna ritdóms hafi aldrei áður verið beitt hér á landi svo þetta var merkileg og söguleg yfirlýsing hjá Árna Múla, gæti jafnvel ratað í framhald Sögu Akraness einhvern tíma ;)

  Aftur á móti skil ég ekki af hverju Árni Múli er, sem bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, að blanda mínu bloggi inn í reiðilesturinn um Pál Baldvin, í lítilsvirðingartóni, hafandi áður ásakað mig um hitt og þetta í reiðilestri um bloggfærsluna Fjórðungsdómur um 18 marka bók. Bæjarstjórinn hefur ekki hrakið eina einustu staðhæfingu sem ég hef haldið fram eða rökstutt á nokkurn hátt hvað sé bogið við bloggfærslur mínar. Það eina sem komið hefur fram er að honum finnist sjálfum bækur Gunnlaugs Haraldssonar frábærar, sem er út af fyrir sig gaman fyrir Gunnlaug og Árna Múla en engan veginn forsenda fyrir því að mín umfjöllun í færsluflokknum Saga Sögu Akraness sé þrugl. Fyrir svo utan það að daginn eftir að þessi orð Árna Múla bæjarstjóra birtust í Skessuhorni hélt hann því fram í útvarpsþætti að hann hefði ekki lesið bloggfærslurnar nema Fjórðungsdóminn. Skv. því er hann að kalla ólesið efni þrugl. Ég hlakka til að sjá rökstuðning hans fyrir því hvað er þrugl í þessum færslum og hvernig hann getur greint þruglið án þess að lesa þær.

 3. Þröstur Haraldsson ritar:

  Sæl Harpa, þú lætur ekki deigan síga sem er gott. Mér datt í hug að kíkja í orðabók og athuga hvað þrugl getur þýtt. Þar eru nefndar tvær merkingar: 1. óskýrt tal, tuldur, 2. rugl, þvættingur. Varla verður þú sökuð um að tala óskýrt eða tuldra svo bæjarstjórinn hlýtur að nota orðið í merkingunni rugl eða þvættingur. Það hlýtur hann að geta rökstutt, er það ekki?

 4. Harpa Jónsdóttir ritar:

  Gott hjá þér nafna! Annars tek ég undir það sem Svala systir segir, bæjarstjórinn er sér og bænum til skammar þessu máli öllu.

 5. hildigunnur ritar:

  Harpa rokkar! stöndum með þér.

 6. Arngrímur Vídalín ritar:

  Þetta eru alveg lygileg viðbrögð við eðlilegri gagnrýni. Maður ætti nú varla annað eftir sem höfundur/útgefandi en að kæra gagnrýnendur sína, hvað þá drulla svona rækilega og ómálefnalega yfir þá á opinberum vettvangi! Ánægður með þig, Harpa.

 7. Haukur Dór Bragason ritar:

  Ég las greinina þína í Skessuhorni og varð ánægður með þig.