7. nóvember 2011

Bækur; morð, óhamingja, drykkja og góðir reyfarar

Ég er loksins að krafla mig upp úr helvítisdvölinni … nú hef ég fengið þrjá góða daga í röð (sem helgast að hluta af þremur góðum nóttum í röð, þökk sé ágæti svefnlyfsins sem ég tek með góðri samvisku og blæs á besserwissera á borð við Vilhjálm Ara og talibanana á Vogi). Eins og venjulega er tilfinningin svipuð og að koma úr löngu kafi og ná loksins andanum. Vonandi helst þessi bati eitthvað en ég hugsa náttúrlega bara um hálfan sólarhring í einu og hvorki kvíði né vona, s.s. kemur fram í einkunnarorðum þessa bloggs (og menn geta bara gúgull-þýtt ef þeir eru jafn slakir í grísku og ég).

Sem betur fer gat ég flesta daga lesið í þessari þunglyndisdýfu þótt ýmislegt annað færi til andskotans, eins og venjulega. Líklega get ég þó endurlesið slatta af þeim bókum sem ég las í október sem nýjar, sem er aldrei nema gott, hafi þær verið góðar.

Þegar ég er svona veik er best fyrir mig að lesa fyrirsjáanlegar bækur (formúlubækur, uppskriftarbækur), þ.e.a.s. bækur sem eru byggðar á ákveðinni forskrift og ganga upp eftir henni. Aðallega les ég morðbókmenntir, sem eru álíka einfaldar og fyrirsjáanlegar og Íslendingasögur: Sumsé skrifaðar eftir nokkuð skýrri uppskrift en gefa þó kost á smá varíöntum innan uppskriftarinnar. Ég verð alltaf dálítið skúffuð þegar formúlan er brotin og uppskriftinni fokkað, t.d. var önnur bókin eftir Anne Holt svoleiðis (sú sem kom út á íslensku fyrir skömmu, ég vil ekki upplýsa hvaða regla var brotin fyrir þá sem eiga eftir að lesa hana). Hin bókin eftir Anne Holt sem ég las, Pengemanden, gekk hins vegar ágætlega upp.

Eftir að hafa lesið norræna reyfara í hrönnum undanfarið er ég orðin dálítið leið á þeirri hefðinni, þ.e.a.s. á þeirri hefð að aðalpersónan (löggan eða blaðamaðurinn eða lögfræðingurinn) sé með allt niðrum sig í einkalífinu. Þetta eru ansi trist persónur og reyna lítið að leita sér hjálpar, eiginlega er óskiljanlegt hvernig þeim tekst að leysa flókin morðmál en geta alls ekki leyst sín eigin mál. Má nefna að ég er orðin hundleið á kvíðaköstum Anniku Bengtzon (af hverju fær hún ekki kvíðastillandi lyf hjá lækni?) og er því að hugsa um að dömpa Lizu Marklund alfarið. Það eru takmörk fyrir hvað maður nennir að lesa margar lýsingar á ofsakvíðakasti í bók eftir bók … Eða Wallander greyið: Ég rétt hafði mig á hörkunni í gegnum Den orolige mannen (sem er nýkomin út á íslensku) af því sálarflækjur Kurts taka orðið allt upp í þriðjung af bókinni. Það er alltaf allt svo helvíti “jobbigt” hjá þessum Svíum … nema kannski þeim að norðan, Paganinikontraktet eftir Kepler var fín (ég held upp á aðalpersónuna Joona Limna) en ég sá einhvers staðar ritdóm um íslensku þýðinguna þar sem hún fékk frekar slaka dóma.

Drykkjuskapur Harrys Hole hefur hins vegar minnkað að mun og bæði Lausnarinn og Snjókarlinn (las hana á ensku, The Snowman, kemur í beinu framhaldi af Lausnaranum og ætti að koma fljótlega út á íslensku) eru flottar, sú síðarnefnda enn meir spennandi. Las svo aftur Djöflastjörnuna því mér fannst undarlegt að hafa skyndilega kúvent skoðun á Nesbø en komst að því að Harry Hole í Djöflastjörnunni pirraði mig jafnmikið og þegar ég las hana fyrst enda draugfullur megnið af bókinni. Svoleiðis að það er breyttur karakter Nesbø og miklu betur samdir reyfarar sem valda nýtilkominni aðdáun minni á þeim höfundi. Aumingja Louise Rick, sem datt örsjaldan í það í fyrstu, er farin að verða kengfull hvað eftir annað í bókum Söru Blædel (sú síðasta sem ég las heitir Kun Ét Liv) og timburmannalýsingar eru farnar að minna á fyrstu bækur Nesbø. Það er dálítið síðan ég las Åse Larson bók (hún hefur ekki gefið út neina nýlega held ég) og þar er að vísu aðallöggan ansi fín en lögfræðingsgreyið, stúlkutetur sem er búið að lenda í ýmsu, er að verða geðdeildarmatur og ansi pirrandi - vonandi verður hún bara höfð í innlögn í næstu bók og fjarri vettvangi.

Mér finnst lögguparið (löggan og eiginkona hans) í bókum Läckberg vera allt í lagi, þau eru a.m.k. frekar venjulegt og hamingjusamt fólk. Vitavörðurinn var fín, kannski sérstaklega fín af því þá hafði ég ekki lesið Náttbál Johans Theorin (en eftir á finnst manni Vitavörðurinn dálítil stæling á þeirri bók). En ameríkanísering Läckberg er ekki til bóta, þ.e. Póstkortamorðin, og tilraun hennar til að skrifa ráðgátu í Agötu Christie stíl, Morð og möndlulykt, lukkast ömurlega.

Þá er það íslenska gengið. Ég er löngu hætt að hafa gaman af Arnaldi, sálarflækjur Erlends eru ömurlegar (og fyrirsjáanlegar sé maður freudískt innstilltur), bækurnar þar sem Sigurður Óli eða Elínborg eru í aðalhlutverki gera sig engan veginn og síðustu þrjár bækur Arnalds eru hundleiðinlegar, sérstaklega sú sem kom út fyrir jólin í fyrra, þar sem Arnaldur virðist vera að reyna að skrifa sig inn í einhvern fagurbókmenntastíl. Nú er miklu lofsorði lokið á nýju bókina hans svo væntanlega er hann farinn að skerpa sig eitthvað aftur, ég vona það. Raunar hefur mér lengi fundist að bækur Ævars Jósepssonar séu miklu betri en bækur Arnalds, þrátt fyrir ansi staðlaðar týpur í lögguliðinu, einnig bækur Árna Þórarinssonar. (Byttan þar reynir a.m.k. að halda sér þurri og hefur auk þess húmor, sem aumingja Harry Hole hans Nesbøs skortir átakanlega.) Yrsa hefur haft glaðsinna lögfræðing sem aðalpersónu í flestum bókunum og þótt morðgátan sé stundum ekkert til að hrópa húrra fyrir bjargar þessi persóna miklu, a.m.k. finnst mér hún oft fyndin og skemmtileg. Ég man þig, sem kom út fyrir síðustu jól, er skrifuð í klassískum Stephen King stíl, meira að segja “kvikmyndahandritsstíllinn” er fenginn að láni (í Íslendingasögunum er sama fiff oft kennt við praesens historicum en það er af því menn vilja tala svo menntamannslega um þær, í stað þess að horfa á vestraelementið eða formúlurnar í þeim). Mér fannst Ég man þig ljómandi góð íslensk King bók og minnti á sumar af hans góðu gömlu … hann hefur tapað dampinum grey karlinn og ég er löngu hætt að komast í gegnum bækurnar hans.

Af jólareyfurunum í fyrra, sem ég las náttúrlega ekki fyrr en um vorið enda ólæs megnið af vetrinum, fannst mér Snjóblinda Ragnars Jónasson langbest, líklega af því hún var annars vegar dálítið klassísk A. Christie bók, sem gekk fullkomlega upp, og hins vegar af því sækópatinn í bókinni var svo vel hannaður sækópat. Hlakka til að lesa nýju bókina hans. Næstbest fannst mér Áttblaðarósin hans Óttars Norðfjörð en er vitaskuld ósátt við nafnið af því ég er ósátt við ruglinginn á áttblaðastjörnu og áttblaðarós. Og fattaði plottið of snemma. En það verður spennandi að sjá hvernig honum tekst upp í nýju bókinni sem var að koma út.

—–

Því miður er ég búin að lesa þær þrjár bækur Johans Theorin sem hafa komið út, í fyrirhuguðum fjórleik sem gerist á Álandseyjum. (Las eina á íslensku, næstu í norskri þýðingu og þá þriðju á ensku.) Náttbál er langbest af þessum þremur. Svo krossar maður fingur og vonast eftir að sú fjórða verði á vegi mínum fljótlega. Ég mæli eindregið með Theorin. Gamli karlinn, Gerlof, sem er held ég eina persónan sem kemur fyrir í öllum bókunum og er svolítið til hliðar við mismunandi aðalpersónur, minnir mig svolítið á Gamlingjann sem skreið út um gluggann og ég er akkúrat að lesa núna.

Og Gamlinginn sem skreið út um gluggann stendur algerlega undir væntingum! Þar eru meira að segja morð, þótt þau séu nú dálítið aukaatriði en auðvelda mér náttúrlega að færa mig aðeins úr morðgeiranum um sinn. Raunar sé ég litla tengingu við Birtíng (sem einhverjir gagnrýnendur hafa hampað) en þess meiri við Forest Gump … aftur á móti má, með góðum vilja, sosum tengja Forest Gump við Birtíng og sjálfsagt mætti finna fleiri svona ferðasögur um mannkynssöguna ef menn endilega vilja. Þetta er afar fyndin bók og aðalpersónan, gamlinginn Allan Karlsson, er yndisleg! Einna helst pirrar mig að bókin er ekki nógu vel þýdd (setningar eins og “hann fraus á hendinni” - þegar ein persónan hafði glatað mótorhjólahanskanum sínum og var að aka heim, eða þegar sagt er að forseti Bandaríkjanna dvelji á heilsuhæli “til að lina lömunarveikina” eru klúður). Þetta kom mér reyndar á óvart því ég veit að þýðandinn er sérlega vandvirkur. Kannski les ég bókina bara aftur, á sænsku.

Svo er ég nýbúin að lesa Nú kveð ég þig Slétta, sem vel að merkja inniheldur ekki eitt einasta morð ;)  Bjóst fyrirfram við að ég læsi aðallega formálann og viðtalið en svo fór að ég las allar vísurnar líka og fannst gaman að. Mér finnst útgáfan á Nú kveð ég þig Slétta líka alveg sérlega vönduð og skrifaði hjá mér slatta af ritum sem vísað er í til að skoða betur við tækifæri. En sú bók höfðar líklega ekki til almennings, hún er væntanlega miðuð við fólk sem þekkir til á þessum slóðum.

Af því ég er alæta á bækur eru hér í hillu einnig Jóri. Hestar í íslenskri myndlist, sem ég hafði gaman af að skoða og Táknin í málinu eftir Sölva Sveinsson, sem ég er talsvert búin að fletta (þetta er flettibók, ekki bók til að lesa í gegn) og finnst afar áhugaverð og vel gerð. Sölvi skrifar alltaf lipurt og það er gaman að sjá hvað hann hefur verið duglegur að tína saman upplýsingar úr ýmsum áttum.

—-

Þetta var pistill um bækurnar í lífi mínu undanfarið og vangaveltur um ótrúlegar sálarkreppur og alkóhólisma í norrænum morðbókmenntum, sem mættu gjarna missa sín. Ég ætla rétt að vona að einhver smákarlaklíka fái nú ekki flog yfir þessari færslu eins og síðast þegar ég skrifaði um bók ;)

  

10 ummæli við “Bækur; morð, óhamingja, drykkja og góðir reyfarar”

 1. hildigunnur ritar:

  vá hvað ég er sammála þér með þessar leiðinda sálarflækjur - hætti einmitt að lesa Nesbø út af þeim (get semsagt byrjað aftur).

 2. Hafrún ritar:

  Velkomin upp í heiminn og takk fyrir pistilinn (og aðra pistla).
  Sífulli blaðamaðurinn, einkaspæjarinn, löggan og allt hvað það nú heitir er afspyrnu leiðinlegt fyrirbæri. Ég hef svo sem ekki gert neina úttekt á því, en dettur stundum í huga að þetta sé ódýr aðferð höfunda við að draga atburðarrásina á langinn. Að láta söguhetjuna vera svo fulla að hún sjái ekki hvorki daginn né vegin eða þær lausnir sem blasa við ódrukknum persónum.
  Andlegar krísur eru af sama toga og eru svo sem allt í lagi í hófi til að krydda persónusköpun en þegar þær eru orðnar fyrirferðarmeiri en atburðarrásin í krimmanum fer mér að leiðast all verulega. Það má þó alltaf fletta yfir nokkrar síður.
  Ég byrjaði að lesa Åse Larson í sumar og kunni af einhverjum ástæðum vel við geðsjúklinginn hennar en fannst komið meira en nóg í þriðju og síðustu bókinni sem ég las. Ég hef ekki lesið nema eina eftir Nesbø og er hikandi við að lesa meira af drykkjusögum.

 3. Harpa ritar:

  Takk Hafrún - já það er mesti munur að komast upp í heiminn. Mér finnst litla löggukonan hennar Åse Larsson skemmtilegasti karakterinn en þar sem lögfræðingurinn Rebekka virðist ætla að að lenda í öllum heimsins hörmungum líst mér ekkert á hana. Í fyrstu hremmingum var hún OK en það er búið að henda hana síðan er aldeilis ótrúlegt - ég giska á að Job sé fyrirmyndin að Rebekku! Almennt er ég annars búin að fatta að því norðar sem skandinavískir reyfarar gerast því betra. Kiruna og nágrenni virðast ávísun á þokkalegan reyfara. Las svo fantafínan reyfara á svipuðum slóðum (gerðist í Finnmörku að mig minnir) en man hvorki titil né höfund … aðalpersónan var lénsmaður sem var að fara á eftirlaun og er hamingjusamur laestidiani … trúmál í Norður-Skandinavíu eru doldið interessant skv. þessum reyfurum … og mælandi á einhverja samíska tungu sem kemur sér vel í bókinni.

  Þú getur alveg lesið þessar tvær eftir Nesbø sem ég tala um, Hole er nánast edrú allan tímann, stefnir alltaf á að fara á fund en klikkar raunar ævinlega á því, og það besta er að það er lítið talað um alkóhólisma í bókunum, a.m.k. fyllir sú umræða/lýsing ekki heilu síðurnar.

  Raunar eru flestar lögguaðalpersónur í breskum reyfurum fyllibyttur líka en það er ekki gert neitt mál úr því enda virðist það þykja nokk eðlilegt á þeim slóðum.

 4. Harpa ritar:

  Sé ég ofnota orðið “gaman” í færslunni en svona er það þegar konur setjast við blogg eftir miðnætti - konur grípa ekki Samheitaorðabókina né gera sérstakar kröfur til stílsins … þegar bloggað er beint af augum.

 5. Valdís ritar:

  Takk fyrir þetta. Ég hef lesið fæst af þessum bókum sem þú nefnir en þó einhverjar. Gamlinginn skellti mér hlæjandi og ég var ekkert að pæla í þessum þýðingarglefsum. Sennilega vegna hláturs. Það má pottþétt tengja allt við allt; hvort sem það er Gamlingjann við Birting, Birting við Forrest Gump eða Gamlingjann við Gump o.s. frv. Ég svaraði nýverið facebookvini sem póstaði: ,,Þegar leitað er markvisst og djúpt eftir óæskilegum skilaboðum þá er hætta á að frelsið verði, ekki fangað, heldur fangelsað :-) ” við greinina: ,,Pippi Longstocking books charged with racism
  www.guardian.co.uk” eitthvað á þá leið að það væru orðin til ýmis fræði um þessa markvissu leit. Mér datt þá í hug bókmenntafræði, textafræði, kynjafræði, félagsfræði, stjórnmálafræði og nú man ég ekki meir. Stundum hreinlega leiðast mér fræði og sérstaklega þegar kemur að afþreyingu. Er samt ákveðin í að lesa allar þessar bækur án þess að vera fyrst til að segja hvað þetta er eitthvað mikill Forrest Gump! Skilljú? Pís end lof

 6. hildigunnur ritar:

  Job já og hörmungar - minnir mig á aðalsöguhetjuna hennar Patriciu Cornwell, réttarmeinafræðinginn Kay Scarpetta, aldrei mátti neitt gott gerast í lífi hennar, það entist yfirleitt ekki nema einhverja kafla, allir dóu og allt klúðraðist. Gafst upp á þeim bókum fyrir mörgum árum.

 7. Harpa ritar:

  Já, ég gaf frk. Scarpetta líka upp á bátinn fyrir löngu, komin með hana og Lucy (lesbíska séníið og frænkuna) líka upp í kok auk þess sem ég hef ógeð á löngum ítölskum mataruppskriftum í morðsögum. Hef tekið ástfóstri við nokkrar aðrar kryfjukonur í staðinn, að vísu er ein þeirra alki en hefur haldið sér nokk þurri gegnum allar bækurnar (Temperance hennar Kathy Reich) -mæli líka með Mauru Isles í bókum Tess Gerritsen ef lesanda finnst gaman að lesa um krufningar. Fann líka bækur um flottan réttarmeinafræðing karlkyns, sem leysti helv. snúið mál á einhverri afskekktri Suðureyju - eyjan hét Runa en nú man ég hvorki höfund né nafn karlsins.

  Sá svo á Norræna húsinu að bókin Nesbøs sem kemur á eftir Frelsaranum heitir Marakorset á frummálinu svo annað hvort heitir hún Mörukrossinn eða Snjókarlinn þegar hún kemur út á íslensku. Vonandi ekki “Martraðarvarnarrrúnin” ;)

 8. Harpa ritar:

  … það var kannski óþarfi að splæsa þremur errum í mögulegan íslenskan titil en bleslindan og athyglisbresturinn grípur mig á kvöldin …

 9. Einar i Vesturbö ritar:

  Ég sé að ég er ferlega ósammála um glettilega marga höfunda hérna. Get upplýst svona til að byrja með að Nesböbækurnar sem gefnar eru út hér á landi byrja inni í miðjum bókaflokki. Áður voru komnar út á frummálinu Flaggermusmannen og Kakkelakkerne. Hvorug er þó til að mæla með held ég. En mér finnst Nesbö kærkomin tilbreyting frá öðrum Norðurlandareyfurum a la Arnaldur og Mankel sem ég er orðinn ferlega leiður á. Camillu Läckberg er ég ersamlega búinn að gefast upp á. Þvílík leiðindi. Byrjaði að lesa hana af því að ég er kunnugur á söguslóðunum en allt þetta helvítis væl og leiðindi fær mig til að æla. Hafi maður sæmilega kunnáttu í sænsku sést líka að hún er ferlega lélegur penni. Eins er farið með Yrsu - Ég man þig er skelfilega leiðinleg bók. Held að það sé skemmtilegra að horfa á málningu þorna. En ég er kominn með nýjasta Nesbö - þ.e. sem kemur á eftir Pansarhjerta sem kemur á eftir Snömannen sem kemur á eftir marekorset. Hún er ok.

 10. Harpa ritar:

  Ó mæ … erum við svona ósammála í morðmálum? En hvað með að slíðra sverðin og þú lánar mér Pansarhjerta og ég lána þér Nú kveð ég þig Slétta í staðinn?