Færslur janúarmánaðar 2011

30. janúar 2011

Siðblindir í kirkjunni

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, IV hluti

(Finna má aðrar færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda, sjá Flokka hér til hægri.) 
 

Að hafa siðblindan prest eða leiðtoga í kirkjunni er eins og að afhenda siðblindum óútfyllta ávísun1
 
 
Umfjöllun á Norðurlöndunum

Á Norðurlöndunum hafa komið út a.m.k. þrjár bækur sem fjalla um siðblindu innan kirkjunnar. Allar hafa þær vakið mikla athygli en eru þó ófinnanlegar í íslenskum bókasöfnum, hvað þá að þær hafi verið þýddar. Ég hef þessar bækur ekki undir höndum og verð því að styðjast við tilvitnanir á vefsíðum og greinar um þær. Mér finnst mjög einkennilegt hve hljótt hefur verið um bækurnar hér á landi.
 

*Árið 1989 kom út norska bókin Maktmennesket i menigheten eftir Edin Løvås. Höfundurinn er velþekktur prédikari í Noregi og starfandi prestur í Norska heimatrúboðinu (Misjonsforbundet) í Edin Løvåsáratugi. Þetta eru nokkurs konar reikningsskil á ágætum möguleikum dæmigerðra siðblindra  til „tortímandi tjáningar“ í venjulegum kristnum söfnuðum. Kristnir söfnuðir eru „vettvangur þar sem svona fólk á auðveldast með að beita valdi sínu“, segir hann. „Eftir 40 ár sem sálusorgari er ég skelfingu lostinn  yfir þeirri miklu þjáningu sem siðblindir valda kristnum einstaklingum, hópum og söfnuðum. Ég er líka skelkaður yfir hve lítið bæði kristnir og fagfólk á þessu sviði talar hreint og vafningalaust um þetta. … Ég tel að þetta sé risastórt vandamál sem sópað er undir teppið. Það er eins og dreginn sé allur máttur úr forystumönnum [kirkjunnar]. Stundum velti ég fyrir mér hvort hirðarnir séu ekki jafn hræddir og hjörðin og sé sú raunin ásaka ég engan. Því ekkert (fyrir utan sjálfan djöfulinn) er eins ógnvekjandi og þegar þessir „skæðu vargar“ þröngva sér inn á ykkur (sbr. Postulasöguna 20:29).“2

„Siðblindir eru menn sem hafa lífsskoðun, mannskilning og viðhorf sem leiðir til þess að þeir eru sífellt á höttunum eftir valdi. Þeir hafa óendanlega þörf til að stýra hjörtum og hugsunum annarra. Kristnir söfnuður er vettvangur þar sem þeim veitist létt að hrinda þessu valdi í framkvæmd. Siðblindir eru venjulega klárir og heillandi og þeir beita öllum sínum áhrifum og orku í valdabaráttuna.“3

Ástæðurnar fyrir því hve sá siðblindi nær sterkum tökum innan kirkjunnar eru einkum þrjár, skv. Løvås. Í fyrsta lagi geti sá siðblindi sett fram kröfur um kærleika, auðmýkt, þolinmæði og umburðarlyndi. Kristið fólk er alið upp í því að fyrirgefa og þola þjáningu. Prédikarar og prestar hafa hamrað á því að kærleikurinn, þolinmæðin og umburðarlyndið sé takmarkalaust, án þess að bæta við að hægt er að misnota fólk í nafni kærleika og þolinmæði; Önnur skýring er sú að fólk hefur tamið sér í of miklum mæli að vera óvirkir áheyrendur í kirkjum. Tjáningin kemur svo til eingöngu úr kórdyrum, frá altarinu og úr prédikunarstólnum. Flestir samþykkja athugasemdalaust það sem prédikarinn boðar. Þeir setja sig í spor „sauðanna sem fylgja hirðinum“ og í þessu tilviki á það ekki við Jesús, heldur prestinn eða skilning þeirra. Skv. Løvås eru flestir þannig uppaldir að það er ofar þeirra skilningi að einhver skuli „prédika Krist af eigingirni og ekki af hreinum hug“ (Filippíbréfið 1:17).  Enn ein skýringin á því hve auðvelt er fyrir siðblinda að ná völdum í kristnum samfélögum er kannski að þeir leita oft í Biblíuna í röksemdafærslu sinni. Þeir geta vísað í ritningarstaði á borð við  „Hlýðið leiðtogum ykkar og verið þeim eftirlát.“ (Hebreabréfið 13:17).4

Løvås telur að sá siðblindi búi sér oft til einfalt guðfræðikerfi með aragrúa af ósveigjanlegum reglum. „Því neyðir hann svo upp á fólk og krefst óskoraðrar hlýðni undir því yfirskini að hann haldi trúna við bókstafinn, rétta guðfræði og rétt lögmál. Af því að valdinu stafar af honum veldur hann ótta og hann brýtur andstöðu á bak aftur. Þeim sem hann nær á vald sitt finnst að mótmæli jafngildi því að þeir séu á móti sjálfum Guði almáttugum.“5

Kaflafyrirsagnir í bókinni lýsa valdsmönnum innan kirkjunnar (maktmennesket i menigheten): Þeir verða að vera miðpunktur athyglinnar;  Þeir eru stöðugt til í slaginn;  Sektarkenndin er helsta vopn þeirra (þeir láta aðra fá samviskubit); Þeir brjóta niður sjálfsálit (annarra); Þeir skilja ekki þarfir annarra; Þeir hafa mikla þörf fyrir örvun. (Innst inni leiðist þeim. Þeir elska dramatík og að vera í miðju hringiðunnar.); Þeir hafa óraunhæfar væntingar; Þeir blekkja flesta;  Þeim hugnast vel stigskipt valdakerfi; Þeir ráðast á minni máttar.6

Siðblindir munu ekki breytast. „Lausnin er sem sagt ekki sú að bíða eftir neins konar breytingu eða þess að valdsmennirnir skáni. Hinn þekkti norski sálfræðingur Tollak B Sirnes segir: „Flestar rannsóknir á árangri meðferða siðblindra sýna að líkur á bata eru litlar.“7

Løvås telur að það sé engin önnur leið fær en að rjúfa samskipti við slíkan valdsmann. Hinn kosturinn er að leggjast í mikil bréfaskipti, rökræður eða samningagerð við þá og virðist Løvås ekki telja að það skili árangri.  Ef á að reka þá, segir hann,  verður það að gerast á óvéfengjanlegan löglegan hátt - allt annað er gagnslaust.

Hlutverk okkar hinna ætti fyrst og fremst að vera að vernda minni máttar og ekki að gefa þeim sterka nein tækifæri. Því meir sem við hræðumst að stöðva valdsmann, því minna tillit sýnum við þeim sem valdmaðurinn tætir í sig. Og þeim líður illa. Þeirra hlutskipti er að þjást í hljóði því ef þeir vekja máls á því sem er erfitt mun þeim líða enn verr. Þeir geta auðvitað gert kollega sína að trúnaðarmönnum og fengið stuðning og skilning en fáir kollegar þora að halda opinskátt með þeim þegar nauðsyn ber til. Fórnarlömbin stríða oft við mikla tilfinningaörðugleika, svefnleysi og líkamlega kvilla. Enn verra er að þau byrja oft að skilgreina sig eins og valdsmaðurinn lítur á þau, nefnilega veikgeðja, móðursjúk, óguðleg, sjálfselsk o.þ.h.8
 

*Presturinn Raimo Mäkelä, framkvæmdarstjóri Finnsku biblíustofnunarinnar (Finska Bibelinstitutet / Sumoen Raamattuopisto), gaf 1997 út örstutta bók (einungis 78 síður), Naamiona terve miele, Raimo Mäkeläsem á dönsku heitir Magtmisbrug i menigheden, á norsku Psykopatenes makt: hvordan du kan bli fri en hefur hvorki verið þýdd á sænsku né íslensku. Bókin hefur verið endurprentuð átta sinnum og selst í yfir 16.000 eintökum. Hún hefur komið út í Þýskalandi, Noregi og Danmörku og árið 2005 var verið að þýða hana á rússnesku, ensku og kínversku.

 Raimo Mäkelä reynir ekki að draga fjöður yfir það að vandamál sem tengjast sjálfsdýrkunarpersónuleikaröskun (Narcissistic Personality Disorder) sé einnig að finna innan kirkjunnar - og bætir við að hugtakanotkun sé dálítið ruglingsleg enda talar hann alltaf um siðblindu (psykopati) síðar í viðtalinu, sem ég vitna í. Grunnþátturinn í siðblindu er valdafíkn. Siðblindir geta verið kappsamir og metnaðargjarnir en þegar allt kemur til alls er sjálf valdabaráttan þeim mikilvægust; að ráða yfir hverri manneskjunni af annarri eða hreppa hverja stöðuna eftir aðra. Bæði lútherska þjóðkirkjan og fríkirkjur höfða til svona fólks og oft kemst það í stjórnunarstöður.

Mörg ár, jafnvel fast að áratug, tekur að átta sig á svona manni. Gróft meðaltal er kannski tvo ár, þá ættu viss merki að vera farin að sjást. Oft er viðkomandi þá á miðjum aldri.

Raimo MäkeläÞað að maður með siðblindueinkenni geti starfað óáreittur í kristnu samfélagi um langt skeið á sér sínar skýringar. Kirkjustarfi fylgir myndugleiki sem er frjór jarðvegur fyrir þann sem þyrstir í völd. Hann getur lært rétta tungutakið, kennt um trú og guðspjöllin af sannri trúfestu og verið strangur. Það tekur tíma að síast inn að hann telur sig alls ekki sjálfan bundinn af þeim reglum sem hann prédikar. Hann er er ósvífinn en ekki svo ósvífinn að manni blöskri eða trúi varla sínum eigin eyrum og augum. Kristnar hugsjónir fela í sér að vera góður, að halda friðinn og hlýða. Enginn býst við því að kristinn leiðtogi komi illa fram við aðra.

Hinn siðblindi deilir fólki í þrjá hópa. Eðlisávísunin segir honum hverjir standa með honum eða hverja hann getur munstrað í sitt lið. Allt snýst um hann sjálfan. Fyrsti hópurinn er fólk sem hann getur ráðskast með og heillað, fólk sem dáist endalaust að honum og verður hirð í kringum hann. Hann fer um þetta fólk silkihönskum og þetta er liðið sem segir: „Hann gæti aldrei gert neitt af sér!“„Við trúum aldrei neinu illu upp á hann!“ Næsti hópur er fólk sem sér í gegnum þann siðblinda. Hann getur ekki ráðskast með það og hann þolir ekki þetta fólk. Þriðji hópurinn eru fórnarlömbin, þau sem hann mun traðka á. Þetta eru oftast góðar manneskjur sem vilja halda friðinn. Hann er stundum almennilegur við þetta fólk en getur augnabliki síðar umhverfst í djöful í mannsmynd.

Reynsla fólks í söfnuðinum og álit manna verður því mjög mótsagnakennt. Þess vegna er lítið gagn af því að fá utanaðkomandi ráðgjafa því það eina sem hann festir hönd á er að þarna séu skiptar skoðanir.

Vegna sterkrar ráðningarfestu er erfitt að losa sig einfaldlega við hinn siðblinda, sama hversu langt hann gengur. Þar er sjaldan beinlínis um lögbrot að ræða, það er hægt að beita valdníðslu á svo ótal aðra vegu. En óheiðarleikinn og ofbeldisfull hegðun eru auðsjáanleg.

Að sumu leyti er siðblindum vissulega vorkunn. Hann er aumkunarverður. Hann sér aldrei sök hjá sjálfum sér heldur telur alla aðra breyta rangt. Hann skortir samhygð og samvisku. Hann iðrast einskis. Samt finnst Mäkelä óþarft að vorkenna siðblindum heldur eigi að hugsa um fórnarlömb þeirra. Ástandið mun aldrei skána. Maður á að berjast á móti og ekki láta traðka á sér en gangi það ekki er um að gera að segja upp starfi og fara, það er ekki vesalmennska heldur nauðsyn til að lifa af. Hann segir:„… sem sálusorgari get ég aldrei hvatt neinn til að vera um kyrrt í slíkri þjáningu og helvíti [sem samvistir við siðblindan geta verið]…. Flýðu!“9
 

*Árið 2007 kom út í Danmörku bókin Forklædt.  Pæne psykopater og deres ofre eftir Irene Rønn Lind. Hún er menntaður kennari, fjölskylduráðgjafi og hefur lokið cand.pæd.psyk.aut. gráðu. Irene Rønn LindLokaritgerð hennar, 2001, fjallaði einmitt um „pæne psykopater“. Irene er starfandi sálfræðingur og hefur setið í sóknarnefnd á Sjálandi. Bók hennar virðist hafa vakið mikla athygli. Hugtakið „pæne psykopater“ hef ég áður þýtt sem „snotrir siðblindir“ en mætti líka notast við „huggulegir siðblindir“ (á ensku eru notuð „successful psychopath“, „subclinical psychopath“ o.fl. orð yfir þetta sama, þ.e.a.s. siðblindan sem tekst að taka þátt í samfélaginu og halda sig utan fangelsismúranna).

Irene Rønn Lind heldur því fram að fyrirgefning og opnar dyr kirkjunnar geri hana að hreinasta gósenlandi fyrir siðblinda. Hún segir: „Hin jákvæðu gildi sem ríkja í kirkjunni, s.s. fyrirgefning og náungakærleikur, gera siðblindum auðvelt fyrir í innan kirkjunnar. Hin jákvæðu gildi virka nánast eins og óútfyllt ávísun fyrir hinn siðblinda og aðferðir hans. Þetta þýðir að hann fær oft að valsa óáreittur í mörg ár uns fólk fær endanlega nóg.

Hagur siðblindra er góður í kirkjusamfélaginu og það skapar vandamál því aðfarir hins siðblinda fá aukið vægi í hinu trúræna. Þetta gerir aðstæður í kirkjunni ólíkar aðstæðum á venjulegum vinnustað. Þegar maður nær tangarhaldi á sambandi fólks við guð öðlast maður ríkulegt vald.

Sá siðblindi mun hafa áhrif á söfnuðinn. Nærvera hans mun skaða trúnaðinn, umhyggjuna og tiltrúna. Fólki reynist erfitt að sýna trúnaðartraust því það hræðist að það sem það upplýsir verði notað gegn því. Hinn siðblindi mun alltaf sitja um að snúa vandamálum safnaðarins gegn safnaðarfólkinu sjálfu.“10

Hún vitnar í skoðun danskra vinnustaðasálfræðinga sem hafa getið sér til að u.þ.b. 10% stjórnenda í atvinnulífinu séu umtalsvert siðblindir. Irene Rønn Lind telur að hlutfallið sé svipað innan dönsku kirkjunnar en tekur fram að auðvitað sé um ágiskun að ræða. 11

Á sóknarnefndarfundum sýnir hinn siðblindi ógnandi framkomu og heitir fólki glötun. Hann þolir ekki gagnrýni, finnur ekki til samviskubits og allt sem hann gerir er einungis í eigin þágu.12

Irene Rønn Lind hefur sýnt tengsl hins siðblinda við söfnuðinn í svona töflu:

siðblindur prestur og söfnuðurinn

 Og hún lýsir því svona hvernig hegðun hins siðblinda gæti skarast við verkefni prests:

Siðblindur prestur13

  

Dæmi um bágt ástand í kirkjunni

Í inngangi bókar sinnar rekur Irene Rønn Lind nokkur dæmi úr dönskum fjölmiðlum sem sýna eyðileggjandi atferli einstaklinga. Hún tekur fram að ekki sé hægt að fullyrða að einstaklingarnir sem við sögu koma séu siðblindir en segir að þessi dæmi sýni hvernig siðblindur gæti hagað sér.

Dæmi VII er um frétt sem birtist á forsíðu Kristilegs dagblaðs í 4. apríl 2001. Fyrirsögnin var „Kirkjur Kaupmannahafnar kærðar fyrir einelti“. Í tveimur greinum og í leiðara blaðsins var lýst einelti og áreitni í 8 kirkjum þar í borg sem tilkynnnt hafði verið til Vinnuverndar (Arbejdstilsynet). Í leiðaranum var vísað til kirkjuráðstefnu og staðhæft að í fjórðu hverju sóknarkirkju í Danmörku ríkti ófriður. Irene hringdi samdægurs í blaðamanninn sem skrifaði greinarnar og komst að því að í þeim 8 tilvikum þar sem hafði verið tilkynnt um einelti og áreiti mátti rekja helminginn til sömu manneskjunnar.14

Af flokkadráttum og eineltismálum í kirkjum Kaupmannahafnar voru þau alvarlegustu í Stefánskirkjunni. Þar logaði allt í illdeilum: Tveimur prestum (Anne Braad og Ivar Larsen) líkaði engan veginn við þriðja prestinn (Lull Ross); kórinn hafði verið rekinn munnlega en starfaði samt áfram; sóknarnefndin var klofin í afstöðu sinni og organistinn var kominn í langt veikindaleyfi vegna áfallastreitu sem stafaði einkum af einelti fyrstnefndu prestanna tveggja. Organistinn, Ole Olesen, hafði þá starfað í Stefánskirkjunni í tæp 30 ár. Það var hann sem kærði til Vinnuverndar.

Presturinn sem átti undir högg að sækja hafði skrifað Kirkjumálaráðuneytinu bréf og beðið um úttekt á vinnuumhverfinu í kirkjunni. Hún hafði líkað skrifað sóknarnefndinni og tilkynnt að hún yrði fyrir einelti. Presturinn Ivar Larsen, sem virðist aðallega hafa verið stuðningsmaður sr. Anne Braad, hafði á hinn bóginn mætt á fund sóknarnefndar til að upplýsa hana um hver væru fyrstu skrefin til að reka prest vegna samstarfsörðugleika. Kórinn beið eftir formlegum uppsagnarbréfum. Um stöðu kórsins sagði Anne Braad: „Ég veit ekkert um lagagreinar og lagalega framkvæmd. En við höfum verið að vinna í því að reka kórinn í heilt ár og enn hefur ekki orðið af því. … Sennilega er það ekki hægt.“ Aðspurð hvort ekki væri stuðlað að lélegu vinnuumhverfi með að reka fólk og láta það svo halda áfram að vinna, svaraði hún: „Maður verður að reyna. Svo getur maður vonað að þau hætti sjálf.“ Fyrrum kórmeðlimur sagði í uppsagnarbréfi sínu, sem sent var til allrar sóknarnefndarinnar, prófasts og biskups: „Mér varð fljótlega ljóst að kirkjan og starfsmönnum hennar er stýrt af klíku, hópi manna sem hafa þvingað sitt í gegn með því að þegja yfir eða gefa rangar upplýsingar, beita ásökunum og ógnandi framkomu. Þær ákvarðanirnar sem þrýst var í gegn hafa á ýmsan máta ekki verið til að bæta daglegt starf í kirkjunni.“15

Siðblindur presturFimm árum síðar voru deilumálin í Stefánskirkjunni enn óleyst. Lull Ross var hætt og einungis tveir prestar starfandi við kirkjuna, þau Anne Braad og Ivar Larsen. Vinnueftirlitið taldi sig ekkert geta gert því einelti og áreiti félli utan verksvið þess. Svona mál yrðu málsaðilar að leysa sjálfir. Biskup Kaupmannahafnar vildi ekki tjá sig um málið, sagði einungis: „Þetta eru nýjar fréttir fyrir mig. Ég hef hvorki heyrt um kærurnar frá kirkjunum né frá Vinnueftirlitinu. En ég mun auðvitað skoða  málið með opnum huga.“ Organistinn hafði býsna lítið getað unnið og aðallega verið í veikindaleyfi. Það sem gerst hafði í málum hans til þessa: Hann reyndi ná sáttafundi með prestum kirkjunnar en sóknarnefndin svaraði ekki erindi hans (2001); Sóknarnefndin reyndi að reka organistann því hann gæti ekki sinnt starfinu vegna veikinda en organistinn leitaði þá til umboðsmanns („sætteombudsmand“ sem samsvarar umboðsmanni Alþingis hér á landi) (2002); Haldinn var fundur með þáverandi kirkjumálaráðherra sem krafðist þess að deiluaðilar fyndu lausn á málinu (2005); Formlegar sáttaumleitanir, að kröfu umboðsmanns,  milli presta og organista fóru út um þúfur (2005); Organistinn kom til starfa í 6 vikur en gafst upp (sumarið 2005); Sóknarnefndin vinnur í að losna við organistann með því að endurskipuleggja stöðu organista (sumarið 2006).

Sérfræðingur í stjórnun sagði um þessi mál: Sáttaumleitanir geta oft leyst deilur en einungis ef báðir aðilar vilja leysa þær, annars gerist ekkert. Í venjulegu vinnuumhverfi hefði ósættið aldrei náð svona langt, það væri örugglega búið að reka annan aðilann.16

Sennilega er það tilviljun að dæmið um siðblindan í kirkjunni í norsku bókinni Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden er líka um samskipti prests og organista. Þetta er sönn saga og segir frá konu, organistanum Ragnhildi, sem prestur kominn á efri ár kúgaði til að hætta störfum. Presturinn kom fyrir sem blíður og indæll maður, sagði brandara og virtist frjálslyndur af presti að vera. Hann hafði líka einlægan áhuga á söng og mátti heyra sterka raust hans yfirgnæfa aðra í kirkjusöng. Dag nokkurn fékk Ragnhildur bréf frá sóknarnefndinni þar sem kvartað var yfir tónlistarvali hennar. Ragnhildur hafði nokkru fyrr álpast til að segja prestinum að sálmur sem fluttur var við barnaskírn væri tæpast viðeigandi. Hún hringdi í vinkonu sína í sóknarnefndinni og vinkonan kom þá af fjöllum, sóknarnefndin hafði alls ekkert fjallað um tónlistarval í kirkjunni á sínum fundum. Þegar hún ræddi svo málin við prestinn kom fram að hann hafði haft samband við formann sóknarnefndar og að hann liti á það sem ögrun við sig þegar hún léki  eitthvað í kirkjunni sem hún hefði ekki áður borið undir hann. Ragnhildur fór að átta sig á prestinum, að hann léki tveimur skjöldum; héldi t.d. við konu sem var starfsmaður safnaðarins. En sjálf varð hún taugaóstyrk og lá andvaka á næturnar af því henni fannst hún órétti beitt.

Næst kom skrifleg kvörtun yfir að Ragnhildur hefði fært til hluti í kirkjunni, farið þannig út fyrir valdsvið sitt og brotið af sér í starfi. Á skipulagsfundum kirkjunnar leit presturinn ekki við henni og lét allar hennar tillögur sem vind um eyru þjóta. Hann var líka vanur að gera grín að tillögum annarra og tilkynna að hann myndi leysa málin sjálfur svo enginn þorði að mótmæla honum á þessum fundum.

Ragnhildur þurfti svo að taka sér frí vegna veikinda í fjölskyldunni. Presturinn tilkynnti strax að þetta yrði launalaust frí því það þyrfti að borga afleysingarmanni og hún samþykkti það. Fríið varð nokkrum dögum lengra en til stóð í upphafi en Ragnhildur lét vita á skrifstofu prestsins. Þegar hún kom aftur heim lá bréf í póstkassanum þar sem henni var tilkynnt að stöðuhlutfall hennar hefði verið lækkað niður í nokkrar klukkustundir á viku. Þegar hún spurði prestinn út í þetta svaraði hann pirraður að þetta væri ákvörðun sóknarnefndar.  Hins vegar kom í ljós að sóknarnefnd hafði aldrei fjallað um þetta mál heldur hafði presturinn fengið formann sóknarnefndar til að skrifa bréfið.

Ragnhildur hafði ekki krafta til að standa í þessu lengur og taldi að ef hún fylgdi málum eftir yrði hún stimpluð sem upphafsmaður illinda sem myndi eyðileggja starfsferil hennar innan kirkjunnar. Hún sagði upp og réði sig í aðra sókn.17
    

Hvernig er staðan á Íslandi?

Ég get ekki fundið nein dæmi þess að hættuna á að siðblindir sæki í störf innan Þjóðkirkjunnar hafi einu sinni borið á góma. Eina dæmið þar sem siðblinda í kirkjunni er beinlínis nefnd á nafn er að prestur segist hafa sagt fyrrum biskupi árið 1996 að hann væri psykopat. Í bæklingnum Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum. Framkvæmdaáætlun fyrir kirkjuna er minnst á andfélagslega ofbeldismenn: „Þeir skiptast almennt í tvo flokka: - Hinir andfélagslegu sem hafa litla sjálfstjórn, eru uppstökkir og ofbeldishneigðir við flestar aðstæður. - Hinir dæmigerðu sem beita einungis maka sinn og börn ofbeldi.“18  Önnur dæmi um að kirkjunnar menn eða Þjóðkirkjan sem stofnun hafi brúkað orðið siðblindur (eða andfélagslegur persónuleiki, víðara hugtak sem nær m.a. yfir siðblindan) hefur mér ekki tekist að finna. E.t.v. eru Þjóðkirkjunni þessi hugtök og þessar manngerðir enn ókunnar.

[Viðbót 1. febrúar 2011. Ég hef rekist á örfá dæmi í viðbót þar sem siðblindu ber á góma í máli kirkjunnar þjóna. Þau eru:

 • Karl Sigurbjörnsson: „Það er því miður alveg áreiðanlegt að trú er í sjálfu sér engin trygging fyrir siðgæði og sönnum dyggðum. Siðlausa og siðblinda menn er eins að finna meðal trúaðra og guðlausra. Allt mannlegt eðli hneigist til sjálfshyggju og eigingirni.“ í pistlinum „Krossinn — páskarnir“ sem fluttur var í Dómkirkjunni þann 23. mars 2008. Heimild: Wikitilvitnun;
 • Sr. Ólafur Þ. Hallgrímsson: „Kæra Siðmenntarfólk, þetta er ekki siðmennt, heldur einhvers konar siðblinda. Af henni höfum við nóg. Þjóðin þarf í sameiningu að finna veginn út úr ógöngunum, þrönga veginn, veginn til lífsins, veg Jesú Krists, sem sjálfur er »vegurinn, sannleikurinn og lífið«. (Jóh. 14).“ Sr. Ólafur vísar til þess að Siðmennt sé andsnúin kristinfræðikennslu í skólum. Heimild: Pistill Ólafs birtur á síðu Vantrúar;
 • Sr. Birgir Ásgeirsson í „Blindu“, prédikun flutt 14. október 2007: „Einhver versta blinda sem til er, er siðblinda. Það er sú blinda, sem leiðir maninn frá því, sem er honum helgast af hjarta og hann getur tileinkað sér að grundvallaratriði, þ.e. það sem varðar tilvist hans, sannfæringu, heill og hamingju hvað mest.“ Heimild: Prédikun Birgis birtist á Trúin og lífið
 • Sr. Gunnþór Þ. Ingason í „Dýrkun Guðs á Dagverðarnesi“, prédikun flutt 15. ágúst 2010: „Hroki, sjálfumgleði og siðblinda í fjármálaumsýslu leiddu til efnahagshruns í íslensku samfélagi. Auðmýkt, sem sýnir sig í gagnrýnu og heiðarlegu endurmati og iðrun, er leið til endurreisnar og nýrra hátta svo framarlega sem hún gerist farvegur Guðs anda, líknar hans og lausnar fyrir einlæga bæn og lifandi trú í Jesú nafni.“ Heimild: Prédikun Gunnþórs birtist á Trúin og lífið.

Af þessum tilvitnunum má ráða að hr. Karl er hinn eini sem hugsanlega skilur hugtakið siðblinda. Hann er þó ansi svartsýnn þegar hann heldur því fram að allt mannlegt eðli hneigist til sterkustu kjarnaeinkenna siðblindu. Sr. Ólafur fer greinilega mjög villur vega í skilningi sínum á þessari geðröskun og efast má um að sr. Birgir og sr. Gunnþór skilji um hvað þeir eru að tala, Gunnþór slær að vísu fram klisjunni „siðblinda í fjármálaumsýslu“ en lækninginn sem hann boðar bendir til að hann skilji hana ekki. Reyndar virðast allir þrír prestarnir halda að lækning við siðblindu sé fólgin í betri og meiri kristnun þjóðarinnar. Ég held að engir geðlæknar og sálfræðingar séu sammála þessu einfeldningslega viðhorfi til lækningar siðblindu.]

Siðblindur presturÁ hinn bóginn hefur ekki skort á deilur og úlfúð innan Þjóðkirkjunnar undanfarinn einn og hálfan áratug miðað við fregnir í fjölmiðlum, ekkert síður en í Kaupmannahöfn upp úr aldamótunum. Ég nefni nokkur dæmi - og tek það skýrt fram að ég er ekki að gera því skóna að neinir sem málin varða séu siðblindir, þetta eru einungis dæmi um deilur, uppsagnir og ásakanir um einelti. Þau eru öll studd fréttum í fjölmiðlum en ég kýs að tengja ekki í heimildir að sinni enda kannast flestir lesendur sjálfsagt við mörg þessara mála. 

Í a.m.k. þremur tilvikum hefur organista verið sagt upp störfum, ýmist vegna óánægju prests/ presta eða sóknarnefnda. Stundum hafa sóknarnefndir fylkt sér bak við organistann og gegn prestinum, stundum hefur sóknarnefnd stutt prestinn. Prestur og djákni hafa lent í útistöðum og sóknarnefnd klofnað. Prestar hafa oft lent í útistöðum við söfnuði. Prestar hafa deilt um hver ráði einstökum kirkjum. Prestur ásakaði sóknarbörn sín um að kenna börnum sínum að leggja sig í einelti. Tiltölulega nýlega ásakaði prestur fjölmiðla landsins um að leggja alla Þjóðkirkjuna í einelti … o.s.fr. Og nú er loksins verið að rannsaka ásakanir og kærur um kynferðislegt ofeldi og kynferðislega misbeitingu fyrrverandi biskups, mál sem ráðamenn í Þjóðkirkjunni hafa gert sitt besta til að stinga undir stól allt þar til í fyrra.

Þjóðkirkjan er auðvitað í vissri klemmu þegar svona mál koma upp. Það er ekki hlaupið að því að segja upp ríkisstarfsmönnum.19  Aftur á móti virðist hún hafa verið treg til að grípa til þeirra ráða sem hún þó hafði / hefur, s.s. formlegra áminninga, sem eru undanfari uppsagnar. Helsta ráð Þjóðkirkjunnar virðist hafa verið að taka einstaka presta úr umferð með því t.d. að fá þeim annað embætti eða bara annað brauð.

Þjóðkirkjan hefur þó nýverið reynt að stemma stigu við því að hver sem er geti ráðið sig sem prestur í sókn. Að loknu Kirkjuþingi síðasta var starfsreglum sóknarnefnda og presta breytt og gert óheimilt að ráða einstakling til að sinna börnum og ungmennum undir 18 ára aldri hafi menn hlotið refsidóm vegna brota á barnaverndarlögum, kynferðisbrot eða önnur ofbeldisverk. Augljóst er að prestar komast ekki hjá því að sinna aldurshópnum undir 18 ára aldri, t.d. í fermingarfræðslu, svo í raun takmarkar þessi breyting ráðningu hvers sem er í prestsstarf. Aftur á móti undanskilur kirkjan dóm skv. 217. gr. almennra hegningarlaga; þar er fjallað um „minni háttar“ ofbeldi þar sem dæma má í sekt eða 6 mánaða til eins árs fangelsi. Þetta er afar einkennilegt, finnst mér, því ef kenningar þeirra norrænu rithöfunda sem ég hef rakið hér að ofan standast þá hefur Þjóðkirkjan skilið eftir víðan möskva fyrir þá hugsanlegu siðblindu sem sækjast eftir störfum innan hennar, t.d. preststarfi.20
 
 

Niðurstaða mín er að það sé  undarlegt hve íslenska Þjóðkirkjan hefur látið umræðu um siðblindu meðal kirkjunnar þjóna og hrikalegar afleiðingar hennar algerlega fram hjá sér fara;  Ekki hvað síst í ljósi þess hve mikil umræða hefur verið á Norðurlöndunum og að þar hafi verið gefnar út 3 bækur um efnið, s.s. rakið hefur verið, þar sem höfundar eru allir sammála um að kirkjan höfði sérstaklega til siðblindra. Það er ósennilegt að eitthvað annað eigi við Ísland.
 
 


1 Tilvitnun í Irene Rønn Lind í Friborg, Kira: „Magtmennesket i kirken. (Den pæne psykopat)“ í Kritisk.dk Evangelist set med kritiske øje. Útg. ár vantar en skv. textanum er hann skrifaður 2007. Skoðað 27. janúar 2011.         2 Løvås, Edin. 1999.  Formáli að Den farliga maktmänniskan (sænskri þýðingu á bókinni hans) á Sola Scriptura. Fyrstu 19 kaflana (af 23) má lesa á þessum vef; kaflar 1-10 og 11-19. Stytt endursögn af sænsku þýðingunni er á blogginu Tankar kring Livet. Funderingar kring livet i stort…, færslan er frá 11. nóv. 2007.  Góð endursögn (á norsku) á helstu kenningum Løvås, settum í samhengi við fleiri kenningar um óhæfa valdsmenn innan kirkjunnar, er í pistli Gunnars Elstad, óársettum, Vanskelige medarbeidere.  Skoðað 27. janúar 2011.  

3 Løvås, Edin. 1999. 1.kafli.

4 Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 202-203. Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden. H. Aschehoug & Co (W. Nygaard), Oslo. (Þetta er aukin og endurbætt útgáfa frá 1997.)

5 Løvås, Edin. 1999. 15. kafli.

6 Tilvitnanir í Edin Løvås og endursögn á texta hans í Elstad, Gunnar. Án ártals. Vanskelige medarbeidere, s. 3

7 Løvås, Edin. 1999. 7. kafli

8 Tilvitnanir í Eden Løvås og endursögn á texta hans í  Elstad, Gunnar. Án ártals. Vanskelige medarbeidere, s. 3

9  Fernström, Kristina. 2005. Viðtal við Raimo Mäkelä. „Psykopaterna finns mitt i bland oss. Fly för livet“ í  Kyrkpressen, fimmtudaginn 10. 2. 2005, nr. 6, s. 16-17. Fontana Media, Församlingsförbundet, Finnlandi. Sjá má ritdóm um dönsku þýðinguna: Dalsgaard, Lone. 2004.  „Magtmisbrug i menigheden“ á Udfordringen.dk, 25. 3. 2004. Skoðað 27. janúar 2011.

10 Thuesen, Janni. 2007. Viðtal við Irene Rønn Lind. „Kirkens pæne psykopater“, Kristendom.dk, 7. maí 2007. Skoðað 27. janúar 2011.

11 Tilvitnun í Irene Rønn Lind í Larsen, Ole. „Psykolog: Pæne psykopater stortrives i kristne miljøer“ á Domino Kristent livsstils magazine, 5. febrúar 2010 (sænsk þýðing á sömu grein er hér). Skoðað 27. janúar 2011. Ath. að Hare, Robert og Paul Babiak greindu 3,5% af yfirmönnum stórfyrirtækja siðblinda [talið er að 1% manna séu siðblind] og nota niðurstöðurnar sem rök fyrir því að siðblindir sækist mjög eftir stjórnunarstöðum í viðskiptafyrirtækjum og víðar. Sjá Hare og Babiak. 2007. Snakes in Suits. When Psychopaths Go to Work. HarperCollins Publishers, New York, s. 193. (Bókin kom fyrst út 2006.) Svo virðist sem Danir noti annað viðmið og greini miklu stærra hlutfall fólks siðblint. Það gæti stafað af því að á Norðurlöndunum þarf lægra skor á siðblindugátlista Hare (PCL-R) til að uppfylla siðblindu en líklegri skýring er að Danir telji ýmis önnur einkenni andfélagslegrar persónuleikaröskunar til siðblindu.   

12 Thuesen, Janni. 2007.  „Kirken tiltrækker pæne psykopater“, Kristendom.dk, 7. maí 2007. Skoðað 27. janúar 2011.

13 Friborg, Kira. 2007.  „Magtmennesket i kirken. (Den pæne psykopat)“ á Kritisk.dk. Evangelist set med kritiske øjne. Skoðað 27. janúar 2011.

Ef menn vilja lesa meira um kenningar Irene Rønn Lind má benda á grein Dorte Toudal Viftrup, sálfræðings sem situr í sóknarnefnd í Hvítasunnusöfnuðinum danska, „Psykopater på kirkens talerstol…“ á Baptistkirken.dk, 4. maí 2008. Skoðað 27. janúar 2011.

14 Lind, Irene Rønn. 2007. Inngangur að Forklædt. Pæne psykopater og deres ofre, s. 13-14. Credo Forlag, Kaupmannahöfn. Skoðað 29. janúar 2011.

15 Leiðarinn og greinarnar í Kristeligt dagblad  4. apríl 2001 eru: „Krig i kirken“, „Københavnske kirker meldt for mobning“ eftir Bente Clausen og „Stefanskirken - intrigernes holdeplads“ eftir sama höfund. Skoðað 29. janúar 2011.

16 Clausen, Bente. „Organist betales for at holde sig væk“  í Kristeligt dagblad 23. júní 2006. Skoðað 29. janúar 2011.

17 Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 200-202. Þessi frásögn í  Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden byggir á raunverulegu máli innan norsku kirkjunnar. Sjá má dómsorð í málinu, AD 1995 nr 40, á Lagen.nu. Í raunveruleikanum var organistanum sagt upp en hún vann málið og henni voru dæmdar skaðabætur. Skoðað 29. janúar 2011.

18 Kirkjan mótmælir ofbeldi gegn konum. Framkvæmdaáætlun fyrir kirkjuna. 2003, s. 41. Þjóðkirkjan/Skálholtsútgáfan og Lútherska heimssambandið. Um skýrsluna segir hr. Karl Sigurbjörnsson í formála, s. 5,  að hún sé „staðfærð og gefin út sem verkfæri fyrir presta og djákna og söfnuði íslensku kirkjunnar til að auka skilning á því alvarlega vandamáli sem ofbeldi gegn konum er og til að styrkja kirkjuna í því  að mótmæla því og vinna að upprætingu þess.“ Tilvitnunin í færslunni er tekin úr Viðauka: „II. Aðstoð við fólk sem liðsinnir þolendum ofbeldis. B. Að bera kennsl á menn sem berja.“ Lýsingin sem fylgir er einungis á karlmönnum í seinni flokknum. Aftur á móti eru talin þar upp hegðunareinkenni sem eiga vel við siðblinda en þau eru skýrð með lélegri sjálfsmynd.

Í þessu sambandi má nefna að sárasjaldgæft er að konur sem eru beittar ofbeldi leiti til kirkjunnar. Í niðurstöðum könnunar sem kynntar voru  í síðustu viku og var gerð árið 2008 kom í ljós að einungis 8 af 638 aðstoðarbeiðnum kvenna sem voru beittar ofbeldi af maka eða fyrrverandi maka  (eða 2,1% svara) var til prests eða starfsmanns trúfélags. Ef konur höfðu verið beittar ofbeldi af öðrum og beðið um hjálp reyndust 3 af 965 hjálparbeiðnum (0,5%) vera til prests eða starfsmanns trúfélags.  (Sjá Elísabet Karlsdóttir og Ásdís A. Arnalds. Rannsókn á ofbeldi gegn konum. Reynsla kvenna á aldrinum 18-80 ára á Íslandi. Desember 2010, s. 69. Rannsóknastofnun í barna-og fjölskylduvernd og Félags- og tryggingamálaráðuneytið.) 12 árum áður var algengara að konur sem voru beittar heimilisofbeldi leituðu til prests, skv. Skýrslu dómsmálaráðherra um orsakir, umfang og afleiðingar heimilisofbeldis og annars ofbeldis gegn konum og börnum. (Lögð fyrir Alþingi á 121. löggjafarþingi 1996-97). Dóms-og kirkjumálaráðuneytið, febrúar 1997, s. 34. Í símakönnun vorið 1996, sem skýrslan segir frá, sögðust 20,5% kvenna sem höfðu verið beittar heimilisofbeldi hafa leitað til prests. Einungis rúmur helmingur þeirra var ánægður með þá aðstoð sem þær fengu (56,5%). Það er eflaust umhugsunarefni fyrir Þjóðkirkjuna af hverju traust kvenna, sem búa við ofbeldi, til presta hafi minnkað svo mjög á þessum 12 árum sem liðu milli kannananna.

Skýrslurnar voru skoðaðar á vefnum 29. janúar 2011.
 

19 Sjá t.d. „Prestar nær ósnertanlegir vegna æviráðningar. Ónothæfir prestar fylla fjölbýlishús - ef svo heldur fram sem horfir“ á  DV 23. mars 2000, s. 4  og „Telur of erfitt að segja upp ríkisstarfsmönnum“ í Fréttablaðinu 20. jan. 2011, visir.is. Skoðað 29. janúar 2011.

20 Starfsreglur um breytingu á starfsreglum um sóknarnefndir nr. 732/1998 og starfsreglum um presta nr. 735/1998. Kirkjuþing, kirkjan.is. Guðmundur Þór Guðmundsson setti inn 19.11. 2010 og Almenn hegningarlög 1940 nr. 19 í  Lagasafn. Íslensk lög, 1. október 2010. Hvort tveggja skoðað 29. janúar 2011.
 
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Siðblinda

29. janúar 2011

Spjall

History of HandknittingÉg er ekki nógu dugleg að skrifa færslur um dittinn og dattinn þessa dagana … eiginlega hefur Facebook mikið til tekið við í svoleiðis tjáningu. En af því einhverjir karlkyns eru óhressir með siðblindubirtingarbloggfærslurnar (nefni engin nöfn en get upplýst að einn sagði við mig í gær: Af hverju geturðu ekki átt skárri áhugamál, safnað frímerkjum eða eitthvað eins og aðrir gera?) þá er vert að skella inn einni spjallfærslu. Þótt ekki sé nema til að fullvissa mína góðu karla að ég bardúsa ýmislegt annað.

Ég hef t.d. verið ansi dugleg að safna heimildum um prjónles og sögu þess undanfarið. Hef æxlað mér grundvallarritið, History of Handknitting, eftir enska sérann Richard Rutt, þefað uppi og ljósritað slatta af greinum og hlaðið niður slatta af prjónabókum. Er einmitt komin með flestar gagnrýnisgreinar Irene Turnau (hún gagnrýnir Rutt og hefur rannsakað prjónasögu Evrópu gaumgæfilega). En mér finnst ég ekki orðin nógu frísk ennþá til að fara að fjalla um svo merkilegt og flókið efni sem saga prjóns er. Það verður að bíða um stund.

L�ður yfir viktor�anska meySvo hefur svefninn nýlega lagast. Um áramót hafði ég sofið 3 heilar nætur frá því einhvern tíma í nóvember. Var satt best að segja orðin eins og undin tuska enda gat ég mjög takmarkað sofið á daginn og fimm tíma svefn á sólarhring vikum saman gerir konu bæði ljóta - las þetta í blaði - og framtakslausa. Eiginlega líður manni alla daga eins og maður sé grúttimbraður, sem er ekki líðan að mínu skapi.  (Svefnleysið er aukaverkun af þunglyndislyfinu svo ég átti um tvo kosti að velja og báða illa, alveg eins og karlarnir í Íslendingasögunum.) En um miðjan janúar hitti ég minn góða lækni og honum hafði þá dottið í hug enn eitt ráðið / lyfið, sem merkilegt nokk virkaði! Sef nánast allar nætur. Svoleiðis að nú vinn ég í að henda út svefnlyfi og róandi lyfi og halda mig við þetta ágæta geðklofalyf - sem ég hef nú einu sinni tekið að staðaldri gegn þunglyndi og það virkaði ekki baun í þeim tilgangi. Ókosturinn er sá að lyfið lækkar blóðþrýsting og þegar það bætist ofan á lækkunina sem þunglyndislyfið veldur og að frá náttúrunnar hendi er ég með afar lágan blóðþrýsting þá verð ég auðvitað eins og mær á Viktoríutímunum; sundlar og sé svart ef ég stend snöggt upp en hef ekki lagt í yfirlið enda enginn með axlaskúfa hér heima dagslaglega og við eigum auk þess ekki ilmsölt á þessu heimili.

Upp úr áramótum varð ég læs og hef síðan gaddað í mig reyfara af stakri ánægju. (Og mér til yndisauka var einn siðblindur í bók Yrsu og einn siðblindur í Snjóbirtu Ragnars Jónssonar, sem ég kláraði í gærkvöldi.) Uhmmm … það er svo gaman að lesa um morðin!   Eitthvað kíki ég í annars konar bækur, ætla t.d. að byrja á Hreinsun í kvöld. Hef borið það við að spila á mitt pjanoforte og alls ekki gengið neitt illa, virðist þokkalega spilahæf. Aftur á móti held ég að ég hafi prjónað yfir mig þessar vikur sem ég gat fátt annað og nenni því lítið að grípa í hannyrðir akkúrat núna. Svo hef ég að mestu tekið yfir þrif og þvotta á heimilinu - í FB-umræðu nýverið var niðurstaðan sú að slík iðja gæfi innhverfri íhugun ekkert eftir, a.m.k. væri afar gott að hugleiða á meðan.

Það sem ég klikka helst á er að fara út að labba og koma mér upp einhverju sósíal samvær. Hef samt ekki vott af samviskubiti þess vegna, með hægðinni hefst þetta. Ég ætti að kíkja á kaffihús með vinkonu minni, mæta á fundi í ónefnda félaginu, taka jafnvel þátt í prjónaklúbbi … ganga jafnvel í kór … en hef ekki treyst mér í svoleiðis ennþá.

Yngri sonurinn á tvítugsafmæli í dag, von er á gestum og svo hafði ég hugsað mér að fara á tónleika í eftirmiddaginn. Þetta verður góður dagur.  

Ummæli (10) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

27. janúar 2011

Siðblindir á vinnustað

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, IV hluti

(Finna má aðrar færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda, sjá Flokka hér til hægri.)

   

Siðblinda á vinnustöðum

Einelti á vinnustaðSiðblindir finnast á flestum vinnustöðum og er afar líklegt að maður rekist einhvern tíma á einn slíkan, annað hvort samverkamann eða stjórnanda. Robert D. Hare telur að þeir sækist einkum eftir vinnu í viðskiptum, stjórnmálum, löggæslu, lögfræðistofum, trúarlegum stofnunum og fjölmiðlum: „Þeir hafa rándýrseðli og bráðina er einkum að finna í ákveðnu umhverfi“. John Clarke bætir við að siðblindir gætu vel þrifist í kennslu.1

Þótt siðblindir kunni að sækjast sérstaklega eftir störfum þar sem þeim gefst kostur á að komast til metorða er þá líka að finna í „rútínu“störfum og störfum sem krefjast menntunar og reynslu. En vafasamt er að þeir uppfylli skilyrði til starfans, frammistaðan byggist á að þjóna undir sjálfan sig, hvorki sé hægt að reiða sig á þá né treysta þeim og þeir gætu stundað ólöglegt athæfi.2

Ef marka má fjölda rannsókna og bóka, hefur áhugi manna mjög beinst að siðblindum í viðskiptalífinu, sérstaklega siðblindum stjórnendum. Stór fyrirtæki eru einkar heppileg fyrir siðblindan persónuleika sem hefur félagslega færni til að blekkja þorra fólks. Siðblindir sækjast eftir störfum þar sem mikið er umleikis, stöðum, störfum og stofnunum sem bjóða upp á völd, mannaforráð, virðingarstöður og eignir auk persónulegra kynna sem þeir geta grætt á.3

Ég hef hins vegar meiri áhuga á siðblindum samstarfsmönnum og siðblindum innan stofnana sem snerta fjölda fólks, jafnvel þorra fólks. Þessi færsla og þær næstu bera þeim áhuga vitni.Vegna þess að siðblindum er nákvæmlega sama um tilfinningar annarra og þá skortir algerlega samvisku þá kemur hegðun þeirra oft fram í einelti. Því fjallar þessi færsla talsvert um einelti þótt auðvitað sé langt í frá að allir gerendur eineltis séu siðblindir.
 

Hvernig þekkir maður siðblinda samstarfsfélaga?

Robert D. Hare hefur marghamrað á því, í bókum og greinum, að það sé öllum nauðsynlegt að þekkja siðblindu svo menn geti varað sig á siðblindum einstaklingum. Þetta á einnig við um siðblindu á vinnustað. En mönnum er jafnframt tekinn vari fyrir að bera siðblindu beinlínis upp á nokkurn mann. Í sama streng taka flestir sem skrifa um siðblindu, þ.e.a.s. að nauðsynlegt sé að sem flestir þekki einkenni hennar en varað er við að stimpla aðra opinberlega sem siðblinda. Þó sjást þau viðhorf að það sé einfaldlega ljótt að greina vinnufélaga sinn siðblindan og megi því ekki ræða slíkt. Rökin eru aðallega þau að siðblinda sé ekki skilgreind í DSM-IV (Greiningar- og tölfræðihandbók fyrir geðræna sjúkdóma, sem Amerísku geðlæknasamtökin gefa út), að um mistúlkun gæti verið að ræða og að í orðinu „siðblindur“ felist ákveðið brennimark sem erfitt sé að losna við.4  Á móti kemur að svo virðist sem leikmenn séu ekkert alltof vel að sér um siðblindu; samkvæmt breskri rannsókn gátu einungis tæp 40% almennings greint siðblindan einstakling af stuttri persónulýsingu og einfaldri atburðarás. (Til samanburðar má nefna að rúm 97% sama hóps greindi rétt þunglyndi og 61% geðklofa eftir sams konar lýsingum).5

Munurinn á siðblindum og venjulegu fólki felst ekki hvað síst í  hneigð siðblindra til að notfæra sér fólk á ósanngjarnan og miskunnarlausan máta. Siðblindum er einfaldlega alveg sama þótt orð þeirra og gerðir særi fólk svo lengi sem þeir ná því fram sem þeir vilja og þeir eru mjög leiknir í að fela þessa staðreynd. Af því þeir eru svo flinkir í að stjórna og hagræða hlutunum er ekki furða þótt afar erfitt sé að koma auga á hinn siðblinda persónuleika undir heillandi og aðlaðandi yfirborðinu.

Einelti á vinnustaðEn þetta liggur ekki jafn vel fyrir öllum siðblindum.  Sumir hafa ekki nægilega félags- eða samskiptahæfileika til að umgangast aðra hnökralaust. Þess í stað reiða þeir sig á hótanir, þvingun, ógnun og ofbeldi til að drottna yfir öðrum og ná fram því sem þeir ásælast. Fáum dylst að slíkur einstaklingur er árásargjarn og frekar kvikindislegur.  Það er borin von að hann heilli fórnarlömbin til undanláts svo hann treystir á einelti í staðinn.6  Siðblindur af þessu taginu er harðbrjósta í garð annarra, leitar markvisst að tækifærum til að taka þátt í deilum og er oftast upp á kant við aðra. Hann lætur sig réttindi og tilfinningar annarra engu skipta og brýtur oft óskráðar reglur um félagslega hegðun. Ef hann nær ekki sínu fram gerist hann hefnigjarn, bruggar öðrum launráð og notar hvert tækifæri til að ná sér niðri á þeim. Oft ræðst hann harkalega á einstaklinga sem eru fremur lítils megnandi.7
 

Nokkur einkenni siðblindra á vinnustað og víðar

 • Þeir sveiflast milli þess að vera afar aðlaðandi, glaðir og kátir og síspjallandi til þess umhverfast í einræðisherra.  Svoleiðis gerræði kemur flestu venjulegu fólki til að líta í eigin barm. Flestir vita að það þarf tvo til að úr verði ósætti en sú staðreynd á ekki við þegar við siðblindan er að etja enda er hvort tveggja, töfrarnir og yfirgangurinn, meðvituð hegðun hins siðblinda.
 • Þeir auðmýkja og niðurlægja aðra kerfisbundið til að drepa niður sjálfsöryggi þeirra og tekst oft vel upp. Á vinnustað þekkja stjórnendur oft aðeins hina heillandi hlið siðblindingjans meðan samstarfsmenn kynnast gjarna stjórnsemi hans og yfirgangi. Kvarti samstarfsmenn fá þeir gjarna stimpilinn væluskjóður eða klöguskjóður.
 • Þeir koma ævinlega deilum af stað og þeir eru sérfræðingar í að leggja aðra í einelti eða standa fyrir flokkadráttum. Þeir skipta gjarna fólki í þá sem þeim líkar við og þá sem þeir hafa andúð á en sú skipting er handahófskennd eftir því hvernig liggur á þeim siðblinda þann daginn.
 • Þeir vilja ákveða og ná fram vilja sínum og þeir ljúga og snúa málum til að þetta gangi eftir. Skapsmunir og viðbrögð þeirra eru óútreiknanleg og oft yfirgengileg. Þeir hrópa, hóta og gætu gripið til líkamlegs ofbeldis. Viðbrögðin eru gjarna ósanngjörn og líkjast barnalegri þrjósku. Eftir reiðikast, sem oft virðist út í bláinn, halda þeir sínu striki  eins og ekkert hafi í skorist.
 • Þeir eru ákaflega viðkvæmir fyrir gagnrýni og viðurkenna aldrei eigin mistök af þeirri einföldu ástæðu að þeir telja sig aldrei gera mistök. Þeir eru snillingar í að kenna öðrum um, jafnvel þótt slíkt hljómi órökrétt og sé algerlega út í hött. Þeir krefjast þess að aðrir samþykki þá eins og þeir eru, finnst það reyndar sjálfsagt, og telja að aðrir þurfi að laga sig að þeim. Þetta einkenni kemur í veg fyrir hvers konar lækningu á siðblindu því það er alveg sama hversu mörg dæmi eða rök borin eru á borð; aldrei mun siðblindur fást til að fallast á að hann sé ábyrgur eigin gerða. Siðblindur lærir ekki af eigin mistökum því hann telur að hann sé gallalaus og hann spáir sjaldan í hvort hann sé að breyta rétt eða rangt. Þetta viðhorf gegnsýrir oft vinnuumhverfið.
 • Þeir eru mjög stjórnsamir og gagnrýnir (en þola sjálfir ekki reglur, skuldbindingar eða stefnumótun) og eru sjaldan ánægðir með annarra verk. Gagnrýni þeirra er oft alls ekki byggð á rökum. Þeir eru tortryggnir í garð annarra og yfirleitt líkar þeim við afar fáa, ef nokkurn. Í fjölskyldum banna þeir gjarna umræðu um hvers lags vandamál. Í atvinnulífinu túlka þeir umræðu um vandamál sem vantraustsyfirlýsingu.
 • Þeir lifa lífi sínu án þess að hugsa um óskir eða þarfir annarra, af þeirri einföldu ástæðu að þá skortir hæfileikann til að finna sektarkennd, reiði eða samúð. Þá skortir nefnilega algerlega hæfileikann til samlíðunar með öðrum. Þeim er alveg sama þótt öðrum líði illa. Skyldur og ábyrgð eru þeim merkingarlaus.
 • Þeir GETA verið elskulegir og sýnt umhyggju en einungis þegar þeir sjálfir vilja ná einhverju fram. Venjulega er stór munur á því sem hinn siðblindi segir og því sem hann svo gerir. Þá vantar tilfinningadýpt en geta tjáð tilfinningar í innantómum orðum.
 • Þeir eru oft órólegir, hvatvísir, pirraðir, reiðir, gera algerlega ósanngjarnar kröfur og grípa jafnvel til ofbeldis. Sumir læra með tímanum að stilla sig um ofbeldi en því er þó aldrei treystandi.
 • Þeir upplifa tilfinningar oft sem veikleika. Tengsl þeirra við aðra byggja á gerðum en ekki tilfinningum. Þeir eru oft niðurlægjandi og montnir í samskiptum við aðra, sérstaklega þá sem þeir telja sér óæðri. Siðblindir eru gjarna ofurviðkvæmir fyrir gagnrýni, öfundsjúkir og hallir undir vald. Þess vegna skrúfa þeir upp sjarmann þegar þeir umgangast fólk sem þeir telja sér æðra.
 • Þeir ljúga og svíkja og sama hversu margar sannanir þú hefur þá ýmist gera þeir lítið úr þeim, neita þeim eða kenna öðrum um. En þú uppgötvar þetta ekki fyrr en þú kynnist siðblindingjanum nánar. Í upphafi treystirðu honum örugglega, ert heilluð / heillaður af honum og finnst hann mjög skilningsríkur.8
   
   

Einelti

Einelti er stórt vandamál á mörgum vinnustöðum. Þar eru siðblindir mjög virkir gerendur. Skv. rannsókn Ástralans Clive Buddy eru áhrif siðblindra í einelti margföld miðað við fjölda þeirra. Hann segir: „Þar sem siðblindir eru á vinnustað er einelti marktækt algengara en ella. Einnig er yfirmaðurinn talinn óréttlátur við starfsmenn og áhugalaus um tilfinningar þeirra. [Þetta er án tillits til þess hvort yfirmaðurinn er siðblindur eða ekki.] Niðurstaðan er sú að 1% starfsmanna, þ.e. þeir sem eru siðblindir, standa fyrir 26% af einelti á vinnustað.“ Hann kallar þessa siðblindu starfsmenn „corporate psychopaths“ enda var hann að rannsaka starfsmenn í fyrirtækjum. Til að teljast siðblindur þurfti að skora 75% eða hærra á siðblindukvarða Hare (PCL-R).9
 

Til eru margar skilgreiningar á einelti. Sjá má tvær slíkar hér:

Á Íslandi er einelti á vinnustað skilgreint þannig:
 
Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir. Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna enda sé skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur hvorki viðvarandi né endurtekinn kerfisbundið. [Var upphaflega: leiði slíkur skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur ekki til þeirrar háttsemi sem lýst er hér að framan.]10
Eftirfarandi skilgreining á einelti virðist vera notuð nokkuð víða í Evrópu: Einelti í vinnu er þegar einhver er áreittur, móðgaður, útlokaður félagslega eða þegar reynt er að hafa neikvæð áhrif á vinnu einhvers. Ef á að kalla ákveðna hegðun eða ferli „einelti“ þá þarf það að vera síendurtekið og stöðugt (t.d. vikulega) og vara í ákveðinn tíma (t.d. í sex mánuði).Einelti er stigmagnandi ferli þar sem sá sem fyrir verður lendir í lakari stöðu og verður skotspónn kerfisbundinnar, neikvæðrar félagslegrar hegðunar annarra. Ekki er hægt að kalla það einelti ef upp kemur „ágreiningur milli tveggja aðila“ ef tilvikið er einstök uppákoma og ekki er um valdaójafnvægi að ræða.11 

Einnig er til fjöldi lista yfir hvers konar athæfi gerendur eineltis beita. Hér eru 2 dæmi um svoleiðis lista, sem eiga jafnt við einelti af hálfu stjórnanda sem einelti af hálfu samstarfsmanns.

Birtingarmyndum sem þolendur eineltis merktu við, í könnun á einelti meðal ríkisstarfsmanna, er hér snúið upp á gerendur:
 

 • Að hunsa faglegt álit og sjónarmið
 •  Að úthluta verkefnum sem eru ekki samboðin hæfni
 • Að liggja á upplýsingum sem hafa áhrif á mat
 • Að gagnrýna vinnu starfsmanns óhóflega
 • Að úthluta verkefnum með óraunhæfum markmiðum
 • Að fylgjast óeðlilega mikið með störfum starfsmanns
 • Að gera lítið úr eða hæðast að persónu einhvers
 • Að koma af stað slúðri / orðrómi um einhvern
 • Að sjá til þess að einhver er félaglega sniðgenginn
 • Að standa fyrir hrekkjum, óeðlilega mikilli stríðni eða hæðni í garð einhvers
 • Að hóta líkamlegu ofbeldi eða valdbeitingu
 • Að beita einhvern líkamlegu ofbeldi 12
   
   
   
   
   

Einelti á vinnustað
 

Rayner og Höel (1997) hafa skilgreint vinnustaðareinelti með eftirfarandi hætti:Ógnun sem beinist gegn faglegri hæfni. Athugasemdir sem endurspegla lítilsvirðingu; ásakanir um vanhæfni í starfi, gera lítið úr frammistöðu; auðmýkja og þá sérstaklega fyrir framan aðra.Ógnun sem beinist að persónu einstaklingsins. Uppnefna, móðga, ráðast að þolanda með hrópum og öskrum; kúga til undirgefni; Kynferðislegt áreiti og líkamlegt ofbeldi; nota niðrandi orð um aldur, útlit, klæðaburð og hátterni; breiða út illgirnislegar lygar/kjaftasögur um þolanda og jafnvel að hringja heim til hans/hennar í tíma og ótíma.Einangra og útiloka. Tilburðir í þá átt að hindra og standa í vegi fyrir að þolandi fái notið réttmætra tækifæra (sem öllum eru ætluð), stuðla að líkamlegri og/eða félagslegri einangrun; hamla upplýsingastreymi til þolanda, o.s.frv.Óhóflegt vinnuálag. Markvisst unnið að því að íþyngja með vinnu og stuðla þannig að álagi og streitu; t.d. með því að leggja fyrir verkefni sem verður að klára á styttri tíma en mögulegt er og/eða „drekkja“ í verkefnum; trufla þolanda og skaprauna þegar síst varir og illa stendur á; gera óraunhæfar, vitlausar og tilviljunarkenndar kröfur um frammistöðu, o.s.frv.

Taka fólk á taugum. Stara á þolandann með ógnvekjandi svip og taka í gegn með látum ef verður á mistök; þrúgandi þögn; auðsýna tómlæti og fyrirlitningu; klifa stöðugt á mistökum/yfirsjónum; æpa ásakanir fyrir framan aðra; stuðla með ásetningi að óförum og/eða mistökum.13
 

Tíðni eineltis á vinnustað og þolendur eineltis

Íslenskar rannsóknir sýna yfirleitt fram á að 8 - 10 % starfsmanna á vinnustað hafi orðið fyrir einelti skv. íslensku skilgreiningunni.14  Skv. þeim virðist lítill sem enginn munur á hlutfalli kvenna og karla sem verða fyrir einelti. Niðurstöður fjölmennustu rannsóknarinnar voru t.d. að rúmlega 10% ríkisstarfsmanna telja sig hafa orðið fyrir einelti í starfi á síðustu 12 mánuðum en ekki mældist marktækur munur milli kynja.  Aftur móti verða konur verða meira fyrir barðinu á einum geranda en karlar mörgum.15  Könnun sem mældi einelti meðal fólks á mörgum fjölbreyttum vinnustöðum sýndi að tæplega 11% töldu sig hafa orðið fyrir einelti á sl. ári, allt frá einu sinni í mánuði til nokkrum sinnum í viku en ekki mældist munur eftir kynjum.16

Í afar fjölmennri og víðtækri norskri rannsókn, 1996, var enginn munur á því hvort karlar eða konur urðu fyrir einelti. Sama kom fram í sænskri rannsókn 1996.17

Tíðni eineltis á vinnustað mælist fremur lág á Norðurlöndunum miðað við t.d. Bretland, svo ekki sé minnst á Ameríku og einelti virðist stórkostlegt vandamál í Ástralíu.

Einelti getur brotið fólk niður bæði á sál og líkama. Fórnarlömb eineltis bera oft merki áfallastreitu um langa hríð þótt þau yfirgefi vinnustaðinn. Efni færslunnar býður ekki upp á umfjöllun um þolendur. Hafi menn áhuga á slíku má benda á BS ritgerð Guðrúnar Maríu Þorsteinsdóttur, júní 2010, sem heitir Einelti á vinnustöðum: áhrif á líðan og heilsu og er aðgengileg á vefnum.
 

Gerendur eineltis

Einelti á vinnustaðÞað er dálítið undarlegt að í hinni stóru könnun fjármálaráðuneytisins, 2008, skuli ekki hafa verið skoðað kyn gerenda, a.m.k. eru hvergi birtar niðurstöður um slíkt. En í flestum tilfellum var gerandi samstarfsmaður (44% tilvika) en næsti yfirmaður í 31% tilfella.

Í könnun meðal starfsmanna í VR, 2001, kom fram að gerandinn var oftast samstarfsmaður, yfirmaður í nokkrum tilvikum og undirmaður í 3 tilvikum. Gerendur voru oftar karlmenn, 24 karlar á móti 18 konum, og gerendur voru oftast einir að verki. 7 karlmenn viðurkenndu að hafa lagt aðra í einelti.

Í  könnun meðal starfsmanna ríkisstofnana (tveggja ráðuneyta og einnar ótilgreindrar stofnunar), 2006,  kom fram að í flestum tilfellum er gerandi eineltis yfirmaður þess sem fyrir eineltinu verður eða annar stjórnandi. Þar mældist afar mikill munur milli stofnana og mætti kannski skrifa þann mun að miklu leyti á yfirmann / yfirmenn þeirra.

Í íslenskri rannsókn sem gerð var meðal starfmanna banka og sparisjóða, 2002, kom í ljós að 8% höfðu orðið fyrir einelti. Algengast var að bankaritarar hefðu verið beittir einelti (11,2%)  en sjaldgæfast að yfirmenn væru lagðir í einelti (3,8% þeirra). Yfir 80% þeirra sem tóku þátt í rannsókninni voru konur og því enginn kynjamunur mældur í niðurstöðum.18

Í norskum og sænskum rannsóknum frá 1996 voru karlmenn oftar gerendur eineltis (49% tilvika), 30% fórnarlamba sögðu að konur hefðu lagt sig í einelti og 20% höfðu orðið fyrir barðinu á bæði konum og körlum. Auk þess kom fram að karlkyns þolendur eineltis höfðu oftast verið lagðir í einelti af körlum meðan konur voru lagðar í einelti af báðum kynjum, oftast þó af öðrum konum. Bent var á að kynjaskipt starfsumhverfi gæti þarna skipt máli.19
 

Gerendur eineltis eru flokkaðir á mismunandi máta og mismunandi nákvæmlega. Hér er tiltölulega einföld flokkun (bresk):

*Stjórnanda-einelti (Corporate bullying)[Ath. að „Corporate bully“ er alveg eins notað yfir starfsmann í fyrirtæki sem leggur samstarfsmenn sína í einelti] er þegar vinnuveitandi kemst upp með að misnota starfsmann af því hann veit að lagagreinar taka ekki á þessu og erfitt er að fá aðra vinnu, t.d.:
- neyðir starfsmanninn til að vinna 60/70/80 tíma á viku og gerir líf hans að helvíti ef hann mótmælir þessu;
- svíkur starfsmann um réttmæt frí eða veikindarétt
- njósnar um starfsmenn, t.d. hlustar á símtöl þeirra
- yfirheyrir starfsmenn um veikindi um leið og þeir snúa úr veikindaleyfi
- lítur á starfsmann sem þjáist af streitu vegna lélegs vinnuumhverfis og eineltis, sem aumingja
- „hvetur“ aðra starfsmenn til að ljúga upp á kollega sína
- „hvetur“ starfsmenn til að lækka starfshlutfall; hver sem andmælir fær aldeilis að finna til tevatnsins.

*Stofnanaeinelti (Institutional bullying) er sambærilegt stjórnandaeinelti og verður þegar einelti er orðið inngróið og samþykkt sem hluti vinnustaðarmenningar. Fólk er fært til í starfi, skammtímavinnusamningar koma í stað langtímavinnusamninga og því fylgir hótun um að „samþykkja þetta eða…“, vinnuálag er aukið, vinnuskipulagi breytt, hlutverkum á vinnustað er breytt o.s.fr. - allt án þess að stjórnandi ráðfæri sig við nokkurn mann.

*Kúnna-einelti (Client bullying) er þegar starfsmenn eru lagðir í einelti af þeim sem þeir þjóna. T.d. eru kennarar lagðir í einelti og á þá ráðist af nemendum og foreldrum þeirra, hjúkrunarkonur af sjúklingum og fjölskyldum þeirra, bankafólk, afgreiðslumenn, starfsmenn í byggingariðnaði o.fl. er lagður í einelti af viðskiptavinum. Oft krefst viðskiptavinurinn meints réttar síns (t.d. til betri þjónustu) á móðgandi eða niðurlægjandi hátt, jafnvel með líkamlegu ofbeldi. Kúnna-einelti getur líka falist í því að starfsmenn leggi viðskiptavini eða skjólstæðinga í einelti.

*Rað-einelti (Serial bullying) er þegar alla truflun á vinnustað má rekja til eins einstaklings, sem leggst á hvern starfsmanninn á fætur öðrum og gerir sitt besta til að tortíma þeim. Þetta er algengasta form eineltis; umfjöllun um einelti lýsir gjarna og skilgreinir rað-eineltisgeranda, sem sýnir dæmigerð einkenni um siðblinduhegðun. Flest fólk þekkir a.m.k. einn sem fellur undir lýsingu á rað-eineltara; flest fólk áttar sig ekki á að viðkomandi er siðblindur (socialized psychopath eða sociopath).

Einelti á vinnustað*Hópeinelti (Gang bullying) er raðeineltir ásamt vinnufélögum. Ef eineltirinn er úthverfur (extrovert) er hann líklegur til að leiða eineltið fyrir allra augum, t.d. gæti hann tekið til að hrópa og öskra. Ef eineltirinn er innhverfur (introvert) þá heldur hann sig til hlés, kyndir undir ólætin en tekur ekki virkan þátt sjálfur og er því erfiðara að bera kennsl á hann. Algeng aðferð slíkrar persónu er að segja öllum mismunandi sögu - venjulega um hvað aðrir hafa víst sagt um þá - og hvetja síðan hvern og einn til að trúa því að hann sé sá eini sem hermi satt og rétt frá. Innhverfir eineltarar eru hættulegastir. Helmingur fólksins í hópnum er fegið tækifærinu til að haga sér illa, völd og stjórn vekja því ánægju, því líkar að vera undir verndarvæng geranda eineltisins og hreppa hrós hans. Hinn helmingur hópsins er þvingaður til að taka þátt, venjulega af ótta við að verða ella næstu fórnarlömb. Ef eitthvað fer úrskeiðis verður einn af þessum sem voru þvingaðir útnefndur sökudólgur og varpað fyrir reið fórnarlömb eineltisins sem snúast til varnar. Rað-eineltarar hafa mikla unun af því að kynda undir ósætti og fylgjast með öðrum deila, sérstaklega þeim sem gætu annars dregið neikvæðar upplýsingar um rað-eineltarana fram í dagsljósið.

*Rafrænt einelti (Cyber bullying) er misnotkun á tölvupósti, spjallborðum á netinu eða fleiru til að senda illskeytapósta (flame mails). Rað-eineltarar (serial bullies) hafa fáa samskiptahæfileika, stundum enga og ópersónulegt eðli tölvupósta hentar vel til að hrinda af stað deilum.

   

Í umhverfi þar sem einelti er normið verða flestir á endanum annað hvort að gerendum eða fórnarlömbum. Það eru fáir sem standa hjá því flestir sogast inn í þetta fyrr eða síðar. Þetta snýst um að lifa af: Annað hvort verðurðu gerandi eineltis og kemst hjá því að verða fórnarlamb eða þú mótmælir eineltinu og neitar að taka þátt í því, sem mun leiða til þess að þú verður lögð / lagður í einelti, áreittur, trampað á þér og loks gerður að sökudólgi uns heilsa þín lætur undan og þú brotnar saman, kemst svo að því að þú verður óvænt látinn víkja vegna niðurskurðar eða þér er sagt upp að ósekju.20

Þetta síðasttalda í bresku greininni sem vitnað er í hljómar ansi napurt. En staðreyndin er sú að fórnarlömbum eineltis veitist erfitt að sækja rétt sinn. Í stóru könnuninni á einelti meðal  ríkisstarfsmanna kom t.d. fram að formlegum kvörtunum um einelti var ekki fylgt eftir með viðeigandi hætti í 76% tilvika.

Í leiðbeiningum Alþjóðasamtaka umboðsmanna (hugtakið „ombudsman“ hefur mismunandi merkingu eftir löndum en mætti segja að það samsvaraði oft því sem við köllum „umboðsmann Alþingis“ - sjá nánar Ombudsman á Wikipedia) er vakin sérstök athygli á því að venjulegar aðgerðir og verklagsreglur í eineltismálum henti ekki ef gerandi er siðblindur.21 Robert Hare bendir á að siðblindum takist oft vel að tala sig út úr vandræðum. Þeir segi t.d. „Ég hef lært mína lexíu“; „Þú hefur orð mitt fyrir því að þetta gerist ekki aftur“; „Þetta var bara einn stór misskilningur“; „Treystu mér“. 22 Það má því ætla að þegar siðblindur leggur samstarfsmann sinn eða undirmann í einelti endi slíkt með því að starfsmaðurinn hætti eða sé látinn hætta en eineltarinn haldi stöðunni. Siðblindum tekst nefnilega oft að gera aðra að sökudólgum og snúa málunum sér í hag. Reyndar mælir Hare eindregið með því að fólk flýi siðblinda, einnig í starfi; reyndu að forðast siðblindan samstarfsmann þinn eins og unnt er. Ef ástandið er óbærilegt skaltu reyna að fá flutning í starfi eða grípa til þess örþrifaráðs að hætta í vinnunni.23

    

Niðurstaðan af umfjöllun í þessari færslu er því að siðblindu er að finna víðast hvar á vinnustöðum, að þeir standi fyrir ótrúlega stórum hluta eineltis miðað við hve fáir þeir eru, að siðblindir geta eitrað verulega út frá sér á vinnustað og að það sé ótrúlega erfitt að eiga við eineltismál þegar gerandinn er siðblindur -  ekki hve síst vegna þess að sá mun reyna að snúa málum sér í hag, kenna fórnarlambinu um og halda því fram að sjálfur sé hann lagður í einelti (jafnvel af fórnarlambinu). Þeir sem huga að einelti á vinnustað, t.d. yfirvöld og stéttarfélög, ættu að kynna sér siðblindu og hvaða áhrif siðblindir hafa á umhverfi sitt.
 


1 Tilvitnun í Robert D. Hare í Gettler, Leon. 2003. „Psychopath in a suit“, The Age.com.au; Clarke, John (viðtal). 2007. „Talking Business with Peter Switzer“, Quantas Inflight Entertainment, s. 27. (Clarke er ástralskur sálfræðingur sem  skrifaði bókina Working With Monsters: How to Identify and Protect Yourself from the Workplace Psychopath, útg. 2009, auk fjölda greina um efnið.) McCulloch, Barbara. 2010. „Dealing with Bullying Behaviours in the Workplace: What Works - A Practitioner’s View“ í Journal of the International Ombudsman Association, okt. 2010, s. 47-48.  International Ombudsman Association. Einnig má nefna Tunbrå, Lars-Olof. 2003, s. 9. Psykopatiska chefer - lika farliga som charmiga. Liber Ekonomi, Malmö, Svíþjóð. Tunbrå bætir reyndar við að til séu norskar heimildir um að siðblindum takist ekki að klífa mjög hátt upp metorðastigann á vinnustöðum en tekur fram að slíkt hafi ekki verið sannað með rannsóknum.
 2 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 97. Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work. HarperCollins Publishers, New York. (Bókin kom fyrst út árið 2006.)
 3 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 270.
 

4 Caponecchia, C., & Wyatt, A. 2007. „The Problem With ‘Workplace Psychopaths’“ í  Journal of Occupational Health and Safety, 23. árg.,5. tbl., s. 403-406. Ástralía og Nýja-Sjáland.
Skoða má greinina í flýtiminni Google.com. Fyrstu rökin munu falla um sjálf sig því í næstu útgáfu af DSM (árið 2013) verður siðblinda talin sérstakur undirflokkur andfélagslegra persónuleikaraskana.
 

5 Furnham, Adrian, Yasmine Daoud og Viren Swami. 2009. „‘How to spot a psychopath’  Lay theories of psychopathy“ í Social Psychiatry and Psychiatric Epidemiology
The International Journal for Research in Social and Genetic Epidemiology and Mental Health Services, 44. árg. 6. tbl. s. 464 - 472, júní 2009.  Greinin var skoðuð á Vefnum 25. jan. 2011. Höfundar nefna til skýringar að líklega sé annars vegar um að ræða misskilning eða mistúlkun almennings á geðröskuninni siðblindu og hins vegar skort á upplýsingum um hana. Misskilningurinn stafi fyrst og fremst af því hvernig fjölmiðlar hafi slegið upp siðblindum glæpamönnum og hvernig þeir eru túlkaðir í kvikmyndum. Almenningur hafi því fengið ranga mynd af fyrirbærinu. Niðurstöður rannsóknarinnar hvetji til þess að mennta fólk betur í einkennum siðblindu.
 

6 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 39.
 

7 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 189.
 

8 Anni Løndal de Lichtenberg (danskur blaðamaður). Tekið af „Psykopati“ á Psykologihuset.dk, í janúarbyrjun 2011.
 

9 Boddy, Clive R. 2010. „Corporate Psychopaths, Bullying and Unfair Supervision in the Workplace“ í Journal of Business Ethics (25. nóvember 2010), s. 1-13. Greinin var skoðuð á Vefnum 25. jan. 2011.

Úrtakið í rannsókn Clive Boddy voru 346 velmenntaðir menn í ýmsum viðskiptatengdum starfsgreinum, í Perth, Ástralíu. Þar sem siðblindir voru ekki á vinnustað töldu menn sig hafa orðið vitni að  einelti gegn öðrum að meðaltali 9 sinnum á ári (sjaldnar en mánaðarlega) en þar sem siðblindur var á vinnustað var tíðnin 64,4 sinnum á ári (oftar en vikulega). Það skal ítrekað að verið var að skoða siðblinda í hópi allra starfsmanna en ekki siðblinda stjórnendur eingöngu. Aftur á móti kom fram að væri siðblindur starfsmaður á vinnustaðnum hafði slíkt yfirleitt slæm áhrif á stjórnunarstíl yfirmannsins. Ekki er ólíklegt að siðblindir sækist eftir yfirmannsstöðum eins og þeir mögulega geta og Boddy vitnar síðan í Babiak og Hare sem hafa rannsakað stjórnendur viðskiptafyrirtækja sérstaklega: „Hare og Babiak fundu út að af 7 háttsettum stjórnendum fyrirtækja (af um 200) sem greindust siðblindir voru 2 einnig gerendur eineltis. Þeir benda á að þetta háa hlutfall (þ.e. að u.þ.b. 29% af siðblindum stjórnendum fyrirtækja séu einnig gerendur eineltis) sé staðfest í öðrum rannsóknum.“

10  Reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað nr. 1000/2004
 

11 Dagrún Þórðardóttir. 2006, s. 15.  Einelti á vinnustað. Samanburður þriggja opinberra vinnustaða (MS verkefni í Stjórnun og stefnumótun, Viðskipta-og hagfræðideild HÍ). Skoðað á vef Vinnueftirlitsins  24. janúar 2011.
 

12  Einelti meðal ríkisstarfsmanna. Niðurstöður könnunar á einelti meðal ríkisstarfsmanna. Fjármálaráðuneytið ágúst 2008, s. 17-18. Ritstjóri: Ágústa H. Gústafsdóttir. Skoðað á vefnum 24. janúar 2011. Ath. að birtar voru niðurstöður um reynslu þolenda sem í þessari bloggfærslu er snúið upp á gerendur.
 

13Einelti á vinnustað“ á  Úttekt og úrlausn (upphaflega grein í tímaritinu FYRIRTÆKIÐ, 1.tbl., maí 2003). Skoðað á vefnum 24. janúar 2011.
14 Dagrún Þórðardóttir. 2006. Einelti á vinnustað. Samanburður þriggja opinberra vinnustaða. Tafla með niðurstöðum íslenskra rannsókna á einelti á vinnustöðum er á s. 52. Tafla, sem sýnir tíðni eineltis á vinnustöðum skv. niðurstöðum rannsókna í fjölda landa, er á s. 43-45.
 

15  Einelti meðal ríkisstarfsmanna. Niðurstöður könnunar á einelti meðal ríkisstarfsmanna. Fjármálaráðuneytið, ágúst 2008, s. 6.
 

16  „BA verkefni um einelti meðal félagsmanna VR. Einn af hverjum tíu hefur orðið fyrir einelti“ í  VR blaðinu 23. árg. 6. tbl., okt. 2001, s. 6-7. Verzlunarmannafélag Reykjavíkur. Skoðað á vefnum 24. janúar 2011. (Í blaðagreininni er sagt frá könnun sem Hanna Lilja Jóhannsdóttir gerði í samvinnu við VR vorið 2001.)
 

17 Einarsen, Ståle. 2000. „Harassment and bullying at work: A review of the Scandinavian Approach“ í Aggression and Violent Behavior, 5. árg. 4. tbl. júlí-ágúst 2000, s. 379-401. Skoðað á vefnum 24. janúar 2011.
 

18  Guðbjörg Linda Rafnsdóttir og Kristinn Tómasson. „Einelti á vinnustað, vinnuskipulag og líðan starfsmanna“ í Læknablaðinu 2004, 90. árg. 12. tbl., s. 847-51. Skoðað á vefnum 24. janúar 2011. Hér að ofan er vísað í hinar rannsóknirnar sem eru nefndar í bloggfærslunni.

19 Einarsen, Ståle. 2000 . „Harassment and bullying at work: A review of the Scandinavian Approach“.
 

20Bullying“ á síðu Human Capital In Business, sem umræðuefni mánaðarins (Topic of the Month). Fram kemur að efnið sé fengið frá UK National Workplace Bullying Advice Line en hvorki höfundar né útgáfutíma er getið. Skoðað á vefnum 25. janúar 2011.
 

21 McCulloch, Barbara. 2010. „Dealing with Bullying Behaviours in the Workplace: What Works - A Practitioner’s View“ í Journal of the International Ombudsman Association, okt. 2010, s. 47-48.  International Ombudsman Association.  Skoðað á vefnum 22. janúar 2011.
 

22 Hare, Robert D. 1999, s. 64. Without Concience. The Disturbing World of Psychopaths Among Us. The Guilford Press, New York. (Fyrst gefin út 1993.)
 

23 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 313.
 
 
 
 
 
 
 

Ummæli (2) | Óflokkað, Siðblinda

21. janúar 2011

Börn siðblindra

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, III hluti

(Finna má aðrar færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda, sjá Flokka hér til hægri.) 

Ath. að margt sem kemur fram í þessari færslu á almennt við um börn sem eru vanrækt eða beitt ofbeldi. Sumt á sérstaklega við börn foreldra með andfélagslega persónuleikaröskun, sem er miklu víðtækara hugtak en siðblinda. (Krækt er í grein Gylfa Ásmundssonar um persónuleikaraskanir, sem birtist í Geðvernd 1999, 28(1), s. 28-33). Í færslunni hér á eftir er tekið fram  þegar sérstaklega er fjallað um siðblinda foreldra og börn þeirra.

Börn sem eru vanrækt eða beitt ofbeldi

Barn beitt ofbeldiÞegar misbrestur verður á umönnun og uppeldi barns flokkast það ýmist undir ofbeldi eða vanrækslu. Mun algengara er að börn séu vanrækt en að þau séu beitt ofbeldi. Þegar ofbeldi er beitt gerir foreldrið barninu eitthvað til skaða. Þegar börn eru vanrækt getur skortur á viðeigandi umönnun valdið skaðanum.

Vanræksla getur verið með ýmsu móti, almenn, líkamleg, sálræn eða andleg og ekki síst tilfinningaleg.

Ofbeldi getur líka verið margháttað, svo sem andlegt , líkamlegt eða kynferðislegt.1

Það er öllum ljóst hvað felst í líkamlegu ofbeldi.  Kynferðisleg misnotkun á börnum er, skv. umboðsmanni barna: „… það þegar börn eru fengin til að taka þátt í kynferðislegu athæfi eða leik, með einhverjum sem hefur meiri völd eða er hærra settur en þau.“ 2 Andlegt ofbeldi kemur oft fram í neikvæðum viðhorfum, t.d. að sett er út á útlit eða skap barnsins, barnið uppnefnt og kallað fífl, hálfviti o.þ.h.; neikvæðum tilfinningum og óraunhæfum kröfum foreldra til barns; barnið er ekki metið sem sjálfstæður einstaklingur heldur haft til að sinna þörfum foreldris; barnið verður vitni að heimilisofbeldi; barnið er hrætt með hótunum, öskrum eða blótsyrðum; barninu er hafnað, þ.e. neitað um hjálp eða ekki tekið mark á því og að barnið sé einangrað frá félagsskap annarra barna. Sumir fræðimenn telja að andlegt ofbeldi rífi börn niður meir en líkamlegt ofbeldi.3

Mamma sem hefur verið beitt ofbeldiBörn og unglingar sem búa við heimilisofbeldi þjást af stöðugum kvíða, ótta, reiði, stjórnleysi, vanmætti og ringulreið. „Þau læra takmarkað um hvað einkennir venjulegt heimilislíf, því á heimilinu búa þau e.t.v. með föður sem er nokkuð sjálfmiðaður og illa sveigjanlegur og leysir gjarna ágreining með valdbeitingu. Á móti getur síðan móðirin verið svo yfirþyrmd af ofbeldinu, og því að „lifa af“ að hjá henni er lítið öryggi eða skjól að finna. Tilfinningalega má því segja að mörg þessara barna og unglinga séu heimilislaus.“4

Afleiðingum ofbeldis og vanrækslu barna hefur verið skipt í tvo meginflokka og kölluð úthverf vandamál og innhverf vandamál. Úthverf eru hegðunarvandamál af ýmsum toga en innhverf vandamál eru t.d. þunglyndi og kvíði. „Algengara er að úthverf vandamál komi fram hjá drengjum en innhverf hjá stúlkum. Jafnframt er algengara að drengir fái aðstoð en stúlkur, þar sem vandamál þeirra eru sýnilegri en vandamál stúlkna.“

„Langtímaáhrif ofbeldis og vanrækslu geta komið fram á ýmsan máta, til dæmis í langvarandi þunglyndi eða kvíða, áfengis- og fíkniefnaneyslu og persónuleikatruflunum. Auk þess eru kynlífsvandamál afar algeng á fullorðinsárum hjá börnum sem hafa verið áreitt kynferðislega eða verið beitt kynferðislegu ofbeldi. Jafnframt er fólk sem hefur orðið fyrir ofbeldi eða vanrækslu í barnæsku, líklegra til að vanrækja eða beita börn sín ofbeldi en aðrir foreldrar.“ 5 Það virðist skipta máli hvenær á ævinni barn er beitt mestu ofbeldi. Niðurstöður nokkurra rannsókna benda til þess að þrálátur misbrestur í uppeldi hafi sterkari og ótvíræðari áhrif á unglinga en tímabundinn misbrestur í uppeldi yngri barna.6

Aths. Það er dálítið merkilegt að í þeim örfáu íslensku rannsóknum sem gerðar hafa verið á málum sem borist hafa inn á borð barnaverndar eða  rannsóknum á sálrænum kvillum barna er hvergi minnst á siðblindu sem mögulegan orsakaþátt. Eins og kom fram í fyrri færslu þá greinist fjórðungur þeirra sem berja konurnar sínar siðblindur, skv. erlendum rannsóknum. Má þá ekki ætla að ofbeldi gegn börnum hér á landi megi að talsverðu leyti skrifa á reikning siðblindu foreldris? Kannski er þetta hirðuleysi um siðblindu aðeins angi af almennu áhugaleysi um siðblindu hér á landi - að undanskildum áhuga á siðblindum forstjórum viðskiptafyrirtækja.
 

Börn sem alast upp hjá siðblindu foreldri

Það er alltaf erfitt að alast upp hjá siðblindri móður eða siðblindum föður. Yfirleitt er um að ræða einstæðar siðblindar mæður eða siðblindan föður sem drottnar yfir fjölskyldunni; en báðir foreldrar eru ekki siðblindir, því siðblindum kemur illa saman. Það síðasta sem sjálfselsk, krefjandi og kaldlynd manneskja óskar sér er önnur af sama tagi.(Ég sé nú reyndar ekkert því til fyrirstöðu að um geti verið að ræða einstæðan siðblindan föður eða siðblinda móður í hjónabandi - minni þó á þá staðreynd að miklu fleiri karlar greinast siðblindir en konur.)

Helstu einkenni slíks uppeldis og afleiðingar þess eru:

*Börn eru vanrækt
Hrætt barnRobert D. Hare segir að skeytingarleysi um velferð barna gangi sem  rauður þráður í gegnum rannsóknarskýrslur hans um siðblindu. Siðblindir líta á börn sem óþægindi eða fyrirhöfn. Hann nefnir tvö dæmi um þetta.

Diane Downs [Sú kona skaut 3 börn sín til að losna við þau af því hún vildi ganga í augun á manni sem ekki kærði sig um börn. Eitt barnanna lést af skotsárunum en hin tvö lifðu af.] skildi ung börn sín oft alein eftir heima þegar engin barnapía fékkst. Nágrannarnir sögðu að börnin, frá 15 mánaða til sex ára, hefðu verið svöng, tilfinningalega svelt og almennt afrækt (þau sáust oft úti að leika sér á veturna án þess að vera í skóm eða yfirhöfnum). Downs lýsti því yfir að hún elskaði börnin sín en kaldlynt hirðuleysi um líkamlega og andlega velferð þeirra bendir til annars.

Hitt dæmið er ónefnd siðblind kona í einni af rannsóknum Hare. Hún og maðurinn hennar skildu eins mánaðar gamalt barn sitt eftir hjá drykkfelldum vini. Vinurinn datt í það og dó áfengisdauða. Þegar hann raknaði úr rotinu var hann búinn að gleyma að hann væri að passa og fór. Foreldrarnir snéru aftur heim átta tímum síðar og þá höfðu yfirvöld sótt barnið í sína vörslu. Móðirin varð æf og ásakaði yfirvöld um að svipta barnið ást og væntumþykju - og hélt þeirri skoðun til streitu jafnvel eftir að henni var sagt að barnið væri alvarlega vannært.8

*Börn verða óörugg og ráðvillt

Óörugg l�til stúlkaSiðblindur skiptir sífellt skapi og ekki er hægt að spá fyrir um orð hans og gerðir. Það skapar ótryggt og taugatrekkjandi andrúmsloft á heimilinu. Það sem barnið má gera einn daginn er kannski bannað daginn eftir. Annað veifið er dóttirin litla prinsessan hennar mömmu, sem fær flottar gjafir og hrós, en svo sætir hún skyndilega rætnum árásum af því hún segir að gerir eitthvað sem siðblindri móðurinni líkar ekki. Svoleiðis ófyrirsjáanleg og óútreiknanleg hegðun foreldris veldur því að barnið veit ekki sitt rjúkandi ráð. Stöðugar árásir brjóta niður sjálfsöryggið. Barnið lærir að tilfinningar þess skipta engu máli: „Þrátt fyrir að mamma fari illa með mig á mér samt sem áður að þykja vænt um hana.“ Barn sem hefur upplifað líkamlegt og andleg ofbeldi í bernsku og lært að tilfinningar þess eru einskis virði mun glíma við lélega sjálfsmynd það sem eftir er ævinnar. Stúlku sem hefur orðið að sætta sig við auðmýkingu, svik og ofbeldi í uppvextinum er hætt við að sækja í sams konar fórnarlambshlutverk þegar hún verður fullorðin. (Forward 1988) 9

*Börn taka á sig alla sök

Það er ekki óalgengt  að börn verði skotspónn fyrir reiði mömmu eða pabba og að vonbrigði þeirra bitni á börnunum. Barn er alveg til í að taka að sér  hlutverk svarta sauðsins vegna þess að það er háð foreldrunum  Barnið er viðkvæmt af því mest af öllu þráir það væntumþykju eða viðurkenningu foreldranna og vill allt til vinna svo foreldið sé ánægt með það. Það skilur ekki að til einskis er streðað, að það er eitthvað bogið við mömmu eða pabba en ekki barnið sjálft.

*Börn fyllast innibyrgðri reiði og sýna árásarhneigð

Strákar úr ofbeldisfullum fjölskyldum geta sýnt sömu hegðun og þeir ólust upp við. Hjá stelpum sést þessi reiði oftar sem kvíði, þunglyndi eða sjálfsfyrirlitning .10

*Skv. rannsóknum hafa ekki greinst sérstök tengsl milli siðblindu og kynferðislegrar misnotkunar. Siðblindir eru ekki líklegri en aðrir glæpamenn til að beita börn eða fullorðna kynferðislegu ofbeldi. Þótt sumir sem skrifa um siðblindu vilji hafa sifjaspell og kynferðislega misnotkun barna með í umfjölluninni er því sleppt hér. 11
 

Langtímaáhrif þess að alast upp hjá siðblindu foreldri

Í viðamikilli bandarískri tvíburarannsókn var skoðuð geðheilsa barna og unglinga sem áttu foreldri /foreldra með andfélagslegar persónuleikaraskanir (minnt skal á að andfélagsleg persónuleikaröskun er yfirheiti yfir margs konar raskanir og siðblinda er einungis ein af mörgum sem fellur þar undir). Meginniðurstaðan var að andfélagsleg persónuleikaröskun foreldra eykur horfurnar á fjölda ytri og innri raskana hjá börnum og unglingum, allt til fullorðinsára í sumum tilvikum. Ætla má að hluti hinna andfélagslegu foreldra hafi verið siðblindur og niðurstöðurnar eigi því einnig við áhrif siðblindra á börn sín. Ytri (úthverfar) raskanir eru t.d. athyglisbrestur með ofvirkni (ADHD), hegðunaröskun (CD - notað um einkenni andfélagslegrar persónuleikaröskunar hjá börnum) og andstöðu- / mótþróaþrjóskuröskun. Innri (innhverfar) raskanir eru t.d. alvarlegt þunglyndi og kvíði af ýmsu tagi. Það er áhugavert að ekki er aðeins um aukna hættu á andfélagslegri hegðun hjá börnum slíkra foreldra að ræða heldur einnig öðrum geðveilum. Svoleiðis að foreldri með andfélagslega persónleikaröskun hefur víðtæk áhrif á geðheilsu barna sinna, í sumum tilvikum til langframa.

Unglingur verður vitni að ofbeldiAf einstökum geðveilum má nefna að líkurnar á athyglisbresti með ofvirkni eða alvarlegu þunglyndi voru meiri hjá í 17 ára aldurshópnum  en 11 ára ef faðirinn hafði andfélagslega persónuleikaröskun. Líkur á athyglisbresti með ofvirkni hjá 11 ára aldurshópnum voru meiri en hjá 17 ára ef móðirin hafði andfélagslega persónuleikaröskun. Sambærilegar auknum líkum vegna móður á ADHD í 11 ára aldurshópi voru auknar líkur á áfengisvandamálum (ofdrykkju eða alkóhólisma) í 17 ára aldurshópnum vegna áhrifa föður.  Þetta bendir til þess að áhrif  foreldra sem haldnir eru andfélagslegri persónuleikaröskun séu misjöfn eftir aldursskeiði. Áhrif móður eru e.t.v. sterkari þegar barnið er yngra og móðirin líklegri til að sjá aðallega um umönnun þess. Áhrif andfélagslegs föður eru meir áberandi á unglinga.12
 

Við skilnað og í forræðisdeildum ætti að hafa í huga

Titillinn krækir  í þýðingu mína á fyrirlestri /grein Irene Rønn Lind, frá 2008. Hún er starfandi sálfræðingur í Danmörku og höfundur bókarinnar Forklædt. Psykopater og deres ofre, sem kom út 2007. Fyrirlestur hennar, „Den pæne psykopat“, birtist á vefsetri samtakanna Barnets Tarv Nu, sem eru dönsk samtök þeirra sem breyta vilja barnalögum, þ.e.a.s. lögum um foreldrarétt og forræðismál. Fyrirlesturinn er þýddur og birtur með leyfi Irene Rønn Lind. Ég ákvað að þýða „den pæne psykopat“ sem „snotur siðblindur“ þótt til greina komi líka „huggulegur siðblindur“.

  
Er siðblinda arfgeng?

Á Íslandi virðist hafa verið sterk tilhneiging til þess að kenna umhverfisþáttum um marga geðsjúkdóma og geðraskanir, a.m.k. síðasta áratuginn. Þetta kemur vel fram í þeim íslensku greinum og ritgerðum sem ég vísa í í þessari færslu. Kannski kristallast þetta viðhorf í svari Gylfa heitins Ásmundssonar, sálfræðings, við spurningunni Eru geðsjúkdómar ættgengir? þar sem hann segir: „Í hinum vægari geðsjúkdómum, hugsýki (neurosis) og persónuleikaröskun (personality disorder), eru erfðir greinilega mun veigaminni þáttur og umhverfisáhrif skipta þar meira máli. Skapferli og persónuleiki ganga vissulega í arf að vissu marki, en uppeldi og aðstæður allar móta þessa þætti í fari mannsins og ráða oftast meiru um aðlögun hans og hvort sú aðlögun verður farsæl eða sjúkleg.“ 13

GenÍ því því efni af nýrra taginu sem fjallar um siðblindu og ég hef kynnt mér eru allir á því að hún sé arfgeng. Menn eru hins vegar ekki sammála um í hve miklum mæli siðblinda ráðist af erfðum og hve stór umhverfisþátturinn er. Í bandarískri / kanadískri  grein er sagt frá fimm rannsóknir sem allar sýna fram á að siðblinduþættir erfist. Þar voru notaðar mismunandi aðferðir til að meta siðblindu en engin þeirra nýtti þó  PCL-R gátlista og mælikvarða Roberts D. Hare.14

Í sænskri doktorsritgerð frá 2009 gerir Mats Forsman grein fyrir rannsóknum sínum á arfgengi siðblindu. Hann byggði á langtímatímarannsókn á 1480 tvíburum, fæddum í Svíþjóð á árunum 1985-86. Í upphafi ritgerðarinnar segir hann: „Fyrri rannsóknir hafa gefið til kynna að u.þ.b. 40-70% af persónuleikaeinkennum siðblindu sé vegna erfða. Tvíburarannsóknir hafa þess vegna verið sérstaklega mikilvægar.“ (s. 3) 15. Annar Svíi, Henrik Larsson,  rannsakaði sömu gögn og Forsman og birti þær niðurstöður 2006  að erfðir réðu 63% af sumum kjarnaeinkennum siðblindu (kaldlyndi og yfirborðskenndu tilfinningalífi) og þáttum í andfélagslegri hegðun (óábyrgri hegðun og hvatvísi) en ekki yfirborðsmennsku og drottnunargirni. Tilviljanakenndir umhverfisþættir réðu hinum 37%  (sjá s. 4 í ritgerð Forsman). Forsman útlistar svo fjórar rannsóknir sem hann gerði sjálfur og kemst að svipaðri niðurstöðu og Larsson (sjá s. 17) þótt með öðrum aðferðum sé.16
 

Margir telja að hægt sé að draga úr einkennum siðblindu sé gripið nógu snemma í taumana, á unglingsaldri, jafnvel barnsaldri. Um þetta verður ekki fjallað hér heldur verður minnst á þessar kenningar í færslu um hvort eða hvernig hægt sé að lækna / bæta siðblindu. (Sú færsla bíður um sinn.) Það er því nokkuð augljóst að mikilvægt er að greina siðblindueinkenni sem fyrst í börnum og unglingum svo beita megi þau einhvers konar meðferð til að draga úr siðblindunni.
  1 Freydís Jóna Freysteinsdóttir. 2002. „Hefur slæmt uppeldi (foreldrar hóta þér sífellt einhverju illu) áhrif á framtíð þína?Vísindavefurinn 6.3.2002. Skoðað 20.1.2011.     2 Umboðsmaður barna. „Kynferðisofbeldi“ á barn.is. Skoðað 20.1. 2011.  

3 Guðbjörg María Árnadóttir. 2010. Áhrif fjölskyldugerðar á lífsgæði og öryggi barna, s. 15-16.  (BA-ritgerð í félagsráðgjöf.) Skoðað 20.1.2011.

 
4 Vilborg G. Guðnadóttir, fyrrum framkvæmdarstjóri Kvennaathvarfs. 2001. „Ofbeldi gegn börnum og unglingum“ skoðað á doktor.is 20.1. 2011.

  
5 Freydís Jóna Freysteinsdóttir.2002  „Hefur slæmt uppeldi (foreldrar hóta þér sífellt einhverju illu) áhrif á framtíð þína?“. Vísindavefurinn 6.3.2002. Skoðað 20.1.2011.
 

6 Sjá Halldór Sig. Guðmundsson. 2006. Hegðun, líðan og félagslegar aðstæður 11-18 ára barna innan barnaverndar á Íslandi. Sjónarhorn barna, foreldra, kennara og starfsmanna barnaverndar, s. 37. (Meistaraprófsritgerð í félagsráðgjöf.) Skoðað 20.1. 2011.
 

7 Tranberg, Peter. Psykopati - en forståelse af forstyrrelsens natur, óársett en líklega frá 2002, s. 28. (Cand.pæd.psych-ritgerð). Skoðað 15.1. 2011.
 

8 Hare, Robert D. 1999. Without Concience. The Disturbing World of Psychopaths Among Us, s. 62-63The Guilford Press, New York. (Fyrst gefin út 1993.)
 

9 Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000. Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden, s. 189- 190. H. Aschehoug & Co (W. Nygaard), Oslo. (Þetta er aukin og endurbætt útgáfa frá 1997.) Tilvitnun þeirra er í Susan Forward, sem skrifaði bókina Man who hate women and women who love them (fyrst útg. 1986, gefin úr í norskri þýðingu 1988, Menn som hater kvinner og kvinnene som elsker dem).
 

10 Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000. Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden, s. 189- 190.

 
11 Olver, Mark E. og Stephen C. P. Wong. 2006. Psychopathy, Sexual Deviance, and Recidivism Among Sex Offenders í Sexual Abuse: A Journal of Research and Treatment, 18 tbl. 1. hefti 2006, s.  65-82. Gefið út af Association for the Treatment of Sexual Abusers (ATSA).  Útgáfa á vefnum skoðuð 20.1. 2011. Í inngangsköflum er fjallað ítarlega um fyrri rannsóknir á efninu.

 
12 Herndon, Ryan W. og William G. Iacono. 2005. „Psychiatric disorder in the children of antisocial parents“  í Psychological Medicine, 2005, 35, s. 1815-1824. Cambridge University Press. Útgáfa á vefnum skoðuð 20.1. 2011.

Herndon og Iacono rannsökuðu 11 ára tvíbura (958 stráka, 1042 stelpur), 17 ára tvíbura (1332 pilta, 1434 stúlkur) og  kynforeldra þeirra í persónulegum viðtölum. Viðföngin voru fengin úr langtíma tvíburarannsókn á fjölskyldum í Minnesóta. Þeir athuguðu tengsl andfélagslegra foreldra og geðrænna kvilla í börnum þeirra. Kvillarnir sem þeir skoðuðu voru: Athyglisbrestur með ofvirkni (AHDH); hegðunarröskun; andstöðu-/mótstöðuþrjóskuröskun; alvarlegt þunglyndi; almenn kvíðaröskun; ofkvíðaröskun /semdarröskun; aðskilnaðarkvíði; nikótínfíkn; áfengisfíkn og áfengismisnotkun og misnotkun annarra vímuefna. Þeir skoðuð áhrif móður sérstaklega og áhrif föður sérstaklega, sem og hver þessi áhrif voru á hvorn aldurshóp fyrir sig. Niðurstöður þeirra eru að andfélagslegt foreldri hefur víðtæk áhrif á geðheilsu barns /barna og þeir birta töflur yfir slíkt í hvorum aldurshópi.  Meginniðurstöður þeirra voru raktar í þessari færslu. Þeir Herndon og Iacono rekja niðurstöður annarra rannsókna á sama efni en geta þess að þær rannsóknir hafi verið takmarkaðar því einungis hafi verið rannsökuð börn sem heilbrigðiskerfið hafði afskipti af og foreldar þeirra.

 
13 Gylfi Ásmundsson. 2002. „Eru geðsjúkdómar ættgengir?“  Vísindavefurinn 12.3.2002. Skoðað 19.1.2011.
 

14 Lalumiére, Martin L., Sandeep Misrha og Grant T. Harris. 2008. „In Cold Blood. The Evolution of Psychopathy“ í  Evolutionary forensic psychology: Darwinian foundations of crime and law,  s. 187-189. Ristjórar J. Duntley og  T. K. Shackelford. Oxford University Press, New York. Kaflinn er aðgengilegur á Vefnum og var skoðaður 20.1. 2011.

 
Það er kannski tímanna tákn að einn höfundanna, Grant T. Harris, komst að þveröfugri niðurstöðu árið 1998, þ.e.a.s. að umhverfisþættir vægju mjög þungt í þróun siðblindu. Sjá Grant, T. Harris. 1998. „Psychopathy Might Be An Adaption, Not A Disorder“ í í fréttabréfi The Mental Health Centre Penetanguishene (geðsjúkrahúss í Ontario, Kanada). Skoðað 20.1. 2010.
 

15 Sjá má yfirlit yfir 13 tvíburarannsóknir á arfgengi siðblindu í Viding, Essi og Henrik Larsson. 2010. „Genetics of Child and Adolescence Psychopathy“, í Handbook of Child and Adolescent Psychopathy, s. 117- 119 (ritstjórar Randall T. Salekin, Donald R. Lynam). Guilford Press. Aðgengilegt á books.google.com og skoðað 20.1. 2011.
 

16 Forsman, Mats. 2009. Psychopatich Personality in Adolescence - Genetic and Environmental Influences (doktorsritgerð). The Department of Medical Epidemiology and Biostatistics, Karolinska Institutet, Stockholm, Svíþjóð. Ritgerðina má nálgast á vefnum og hún var skoðuð 20.1. 2011.
Forsman byggir á langtímrannsókn á sænskum tvíburum en í henni var gögnum safnað þegar tvíburarnir voru orðnir 8-9 ára, 13-14 ára, 16-17 ára og 19-20 ára. Börn og foreldrar svöruðu spurningalistum sem sendir voru í pósti þegar krakkarnir voru á þessum aldri. Hann gerði fjórar mismunandi rannsóknir á gögnunum sem fyrir lágu.

Hann og flestir af nýrri rannsakendum hafa þáttað saman einstök atriði af gátlista Hare. Þættirnir eru: Yfirborðskenndur persónuleiki / drottunargirni (innifalið í þeim þætti eru stórmennskuhugmyndir um eigið ágæti. lygalaupur, falskur og slóttugur; hér eru fyrstu 4 kjarnaeinkenni siðblindu í PCL-R tekin saman); Kaldlyndi / yfirborðskennt tilfinningalíf (ásamt skorti á sektarkennd og samhygð, þ.e. einkenni 5, 6 og 7 tekin saman) og af listanum yfir hegðun: Hvatvísi og ábyrgðarleysi ásamt spennufíkn (þ.e. einkenni 1, 7 og 8 af gátlista Hare).
Forsman kemst að þeirri niðurstöðu erfðir ráði mestu um kjarnaeinkennin  kaldlyndi og yfirborðskennt tilfinningalíf og  umhverfi skipti þar engu máli. Einnig réðu erfðir óábyrgri hegðun og hvatvísi. En þetta átti ekki við um yfirborðskenndan persónuleika og drottnunargirni.  Erfðafræðileg tengsl eru svo  milli kjarnaeinkenna siðblindu og ytri raskana / atferlisraskana. Umhverfisáhrif skýrðu aftur á móti að hluta  tengsl milli ytri raskana og andfélagslegrar hegðunar. Siðblindur persónuleiki á unglingsárum spáði fyrir um andfélagslega hegðun á fullorðinsárum, vegna erfða, en andfélagsleg hegðun á unglingsárum spáði ekki fyrir um siðblindan persónuleika.

Hann vísar m.a. í Larsson, Henrik, H. Andershed og P. Lichtenstein. 2006. „A genetic factor explains most of the variation in the psychopathic personality“ í  Journal of Abnormal Psychology 2006, 115, s. 221-30 og kemst að sömu niðurstöðu og þeir.

Ummæli (2) | Óflokkað, Siðblinda

16. janúar 2011

Í hjónabandi með siðblindum

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er: http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, III hluti

(Finna má aðrar færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda, sjá Flokka hér til hægri.) 
 

Ath. að margt af því sem kemur fram í færslunni um fórnarlömb ofbeldis, lýsingar á ofbeldi, afleiðingar ofbeldis o.s.fr. á við margar fleiri en þær sem búa með siðblindum. Þetta eru einkenni sem koma fram í ofbeldissamböndum almennt. Má t.d. ætla að aðstandendur alkóhólista kannist hér við fjöldamargt, sem og fleiri. Langt gengnir alkóhólistar þróa enda með sér talsvert af siðblindueinkennum. (En á hinn bóginn eiga þeir möguleika á að ná bata, sem gildir ekki um siðblinda, eftir því sem best er vitað nú.) 

* „Ég veit hann fer illa með mig en ég elska hann.“

Sambúð með siðblindum einstaklingi byrjar oft sem spennandi og eldheitt ástarsamband. Konan [að sjálfsögðu getur þetta einnig átt við karl en af því siðblindar konur eru miklu færri en karlar er þolandi siðblinds eintaklings oftast kvenkennd í þessari færslu] er  blinduð og upp með sér af gullhömrum þess siðblinda, áhuga hans og kappsemi og fellst á allar uppástungur hans og áætlanir. Þegar siðblindur finnur konu sem honum líkar, sem dáist að honum og elskar hann og mótmælir honum ekki, fyllist hann oft þrá til að tryggja sér slíka manneskju. Margar sem hafa búið með siðblindum lýsa upphafi sambandins eins og vera veiddar í net.

Þegar sambúðin versnar er dæmigert að maður voni stöðugt að makinn muni bæta sig. þegar hann sýnir ást og ástúð er létt að fyrirgefa og halda að allt verði nú betra. En það verða ekki nein kraftaverk sem láta hann hætta að fara illa með makann. Hann gæti sagt slíkt, lofað því, já meira að segja grátið og beðið sér griða. En orð og loforð hafa lítið vægi, það hefur mörg konan sem hefur lifað í ofbeldissambandi fengið að reyna. Það er bara spurning um tíma hvenær hann er aftur kominn í stríðsham. (Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 182-183.)

Kona sem fer í samband við siðblindan verður fyrst og fremst að verða undirgefin undir algera stjórn hans. Sumar konar eru fastar í þeirri fögru blekkingu að ef þær haldi út nógu mikla þjáningu þá verði allt fullkomið að lokum. Hver og ein telur að hún sé sú eina sem þolir misbeitingu hans, elski hann og tolli hjá honum. Fyrr eða síðar muni hann svo skilja hve frábær hún er. Þetta er hin bjartsýna trú á að hið góða muni sigra hið illa. Á móti kemur að hinn siðblindi getur ráðskast með vonir hennar með því að vera vingjarnlegur skamma stund og ýtt þannig undir væntingar hennar um að allt muni breytast. Með því að leika sér að von konunnar tryggir sá siðblindi að konan verði áfram háð honum því þessi hegðun hans styrkir óskir hennar að gera honum til hæfis. (Tranberg, Peter. Óársett, s. 61.)

Konur sem halda stíft í hefðbundin kvenhlutverk í sínum samböndum við karla lenda í miklu veseni ef einhver þeirra er siðblindur. Á hinn bóginn getur siðblindur maður kvæntur konu sem vill fyrst og fremst vera „góð eiginkona“ lifað afar þægilegu lífi. Heimilið verður honum griðastaður og öryggisnet þaðan sem hann getur hrint áætlunum sínum í framkvæmd og staðið látlaust í öðrum skammtímasamböndum við aðrar konur. Langþjáð eiginkonan veit venjulega hvað er í gangi en henni finnst að hún verði að halda heimilinu saman, sérstaklega ef börn eru í spilinu. Hún kann að trúa því að ef hún leggi harðar að sér eða bara bíði þetta af sér þá muni eiginmaður hennar breytast til batnaðar. Á sama tíma ýtir hlutskiptið sem hún hefur valið sér undir sektartilfinningu hennar og sjálfsásakanir um að óhamingja sambandsins sé henni að kenna. Þegar hann hunsar hana, misnotar eða svíkur hana gæti hún sagt við sjálfa sig: „Ég ætla að leggja mig enn meira fram, eyða meiri orku í sambandið, hugsa betur um hann er nokkur önnur kona gæti nokkru sinni gert. Og þegar mér tekst þetta mun hann sjá hve ég er honum mikils virði. Hann mun koma fram við mig eins og drottningu.“ (Hare, Robert D., s. 152-153.) Sjá Dæmi 4.
 

* Andlegt ofbeldi, hótanir og sjúkleg afbrýðisemi

Andlegt ofbeldiKonur sem eru beittar líkamlegu ofbeldi eru oft beittar andlegu ofbeldi í leiðinni. Og einnig er til í dæminu að siðblindur beiti einungis andlegu ofbeldi. Það getur falist í stöðugum yfirheyrslum, auðmýkjandi ummælum, sjúklegri afbrýðisemi og stjórnunartaktík. Margar konur segja að andlega ofbeldið sé verra en vera lamin. (Tjora, E. 1996. „Kvinnemishandling, et alvorlig helseproblem“ í Medicinsk årbog 1996,s. 23-31. Norli, Oslo. Tilvitnun í Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 183.)  Smáræði eins og að kaffið sé kalt getur leyst úr læðingi reiði hins siðblinda. Þeir hafa ofboðslega þörf fyrir stjórn og allt sem fellur utan þess regluverks sem þeir hafa sett er ögrandi. Í ofbeldisfullu sambandi óttast fórnarlambið sífellt átök. Konan eyðir miklum tíma í að haga öllu eftir því sem makinn vill svo hann geti ekki fundið neitt að henni, heimilishaldinu eða matseldinni.

Andlegt ofbeldi er til þess að brjóta niður sjálfsálit konunnar og tryggja þörf ofbeldismannsins fyrir völd og stjórn. Til þessa notar hann gjarna beinar eða óbeinar hótanir: „Ef þú reynir að fara frá mér drep ég þig“ eða „Ef þú heldur ekki kjafti núna veit ég ekki hvað ég geri“. Hann kann að hóta konuninni með drápi, að hún verði brotin niður líkamlega og andlega eða verði misþyrmt og afmynduð svo enginn annar karl muni nokkru sinni líta við henni.

Annað merki um stjórnunaráráttu sem fer úr böndunum er þegar konan verður að gera grein fyrir hverri krónu sem hún eyðir, jafnvel að karlinn kaupi öll hennar föt og ráði hverju hún klæðist.

Sjúkleg afbrýðisemi er algeng í ofbeldissamböndum. Öll samskipti við aðra, þótt það sé bara að skiptast á nokkrum orðum við póstinn, eru túlkuð sem tilraun til framhjáhalds, að fara bak við hann. Þetta er oft hrein yfirvörpun því hinn siðblindi er ósjaldan ótrúr sjálfur. Hin sjúklega afbrýðisemi kemur t.d. fram í yfirheyrslum um með hverjum hún hafi verið og hvað að gera. Endurteknar ásakanir sem varða fyrri sambönd og kynlífsupplifanir eru líka algengar.

Einangrun tengist sjúklegri afbrýðisemi og þörf fyrir stjórn. Karlinn reynir að hindra konuna í að hitta vini og fjölskyldu, fara eina út eða ferðast eina. Þetta getur jafnvel komið fram í „vingjarnlegum“ athugasemdum eins og „Ég elska þig svo heitt að ég vil ekki að neitt komi fyrir þig“. Fólk sem er nánast haldið föngnu, hvort það hefur verið tekið í gíslingu eða er í gíslingu í eigin hjónabandi, finnur oft fyrir sterkum sálfræðilegum tengslum við ofbeldismanninn.

Andlegt ofbeldi felst oft í niðurlægingu. Makinn kallar konuna kannski „hóru“, „tussu“  eða álíka og heldur því fram að hún sé ljót og lítt aðlaðandi, léleg í rúminu eða heimsk. Kynlífið gæti líka verið niðurlægjandi vegna þess að konan er þvinguð til að taka þátt í kynlífsathöfnum sem hún vill ekki. (Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 183-185.)

Konur sem búa með siðblindum mönnum venjast því oft að sambandið einkennist af dramatík og rifrildi. Eða þær reyna að gleyma öllum slæmu uppákomunum og einbeita sér að þeim fáu góðu. Það er auðvitað erfitt að viðurkenna fyrir sjálfri sér að maður hafi gert svona mistök í makavali. Margar konur hafa reynt „að elska hinn siðblinda frískan“ en það er vonlaust verk. Að reyna að opna augu makans er unnið fyrir gýg. Það þýðir  heldur ekkert að nota lærða samskiptatækni á siðblindan því hún krefst heiðarleika og samvinnu. Siðblint fólk skortir hæfileikann til að skilja hvernig öðrum líður. Fyrir siðblindum er mikilvægast að vinna hverja orustu. Þess vegna er svo erfitt að finna lausn á vandanum sem bæði geta sætt sig við.(Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 188.)
 

* Varnaðarviðbrögð fyrir þig sjálfa

Susan Forward, sem skrifaði bókina Man who hate women and women who love them (fyrst útg. 1986, gefin úr í norskri þýðingu 1988, Menn som hater kvinner og kvinnene som elsker dem) hefur gert eftirfarandi gátlista fyrir konur sem grunar að þær séu beittar andlegu ofbeldi (tilv. tekin úr Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 180-181):

 • Að hafa á tilfinningunni að það sé sífellt verið að tékka á þér.
 • Afbrýðisemi makans keyrir úr hófi og hann virðist hafa þörf fyrir að eiga þig með húð og hári.
 • Makinn talar stöðugt niður til þín.
 • Makinn er alltaf með skammir og hótanir.
 • Makinn beitir þöggun, þ.e. dregur sig ískalt í hlé og talar ekki við þig klukkustundum eða dögum saman.
 • Makinn hefur gaman af því að gera særandi gys að þér við aðra, tala t.d. hástöfum um galla þína eða segir öðrum hvað þú sért vonlaus í rúminu.
 • Þú upplifir ruglandi framkomu, þ.e. makinn er ýmist undurgóður eða umhverfist algerlega, af litlu eða engu tilefni.
 • Þú ert alltaf sökudólgurinn.
 • Þú ert byrjuð að tipla á tánum kringum makann, þorir ekki að viðra skoðanir þínar og segir ekkert að óhugsuðu máli, til að forðast reiðiköst og þöggun.

Ef þú kannast við einhver af þessum einkennum kann að vera að þú sért í ofbeldissambandi. Reyndu að safna kjarki til að tala við einhvern sem þú treystir um þetta. Þú getur líka talað við fagmenn eins og lækni, sálfræðing, prest, geðhjúkrunarfræðing eða félagsráðgjafa. Það getur verið erfitt að tala um þetta og kannski er best að nefna einstök dæmi til að aðrir eigi betra með að skilja ástandið. Loks má nefna hið dularfulla bragð þeirra sem beita andlegu ofbeldi, sem kallast „Gaslighting“ („Gaslýsing“). Nafnið er fengið úr leikritinu Gas Light, frá 1938, sem seinna voru gerðar kvikmyndir eftir. Leikritið fjallar um eiginmann sem reynir að gera konu sína vitfirrta með því t.d. að færa til hluti á heimilinu og halda því fram hana misminni eða hún taki feil þegar hún nefnir breytingarnar. Titillinn vísar til þess að eiginmaðurinn dimmir gasljósin á heimilinu smám saman og reynir að telja konu sinni trú um að slíkt sé alls ekki raunin heldur sé hún að ímynda sér þetta.

„Gaslýsing“ þýðir því að alls konar rangar upplýsingar eru gefnar fórnarlambinu í því augnamiði að fá það til að efast um eigið minni og skynjun; fá fórnarlambið til að efast um eigin geðheilsu. Þær sem hafa búið með siðblindum efast stundum um að þær muni upplifun sína rétt enda eru siðblindir miklir blekkingameistarar. Meira að segja þeir sem hafa barið eiginkonur sínar (eða aðrar konur) kunna að afneita því algerlega og ásaka þær um tilbúning og geðveiki. Sjá nánar um  „Gaslighting“ á Wikipedu og á Encounters of the Psychopathic Kind.  
 

* Konur sem vilja búa með siðblindum

Til er í dæminu að fólk ani með opin augu inn í samband við einstakling sem allir vita að er siðblindur. J. R. Meloy (1993. Violent Attachments. Tilvitnanir í Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 203 - 204) hefur sérstakalega rannsakað hvaða sálfræðilegir þættir valdi því að sumar bindast mjög ofbeldisfullum siðblindum sem þær hafa verið margvaraðir við. Hvað rekur þær áfram sem af fúsum og frjálsum vilja bindast morðingjum og afbrotamönnum? Við heyrum af konum sem beinlínis vilja giftast slíkum mönnum og stofna með þeim fjölskyldu um leið og þeim verður sleppt úr fangelsi. [Á Norðurlöndunum er sennilega frægast dæmi um slíkt konan sem giftist Peter Lundin.] Meloy telur hluta svarsins felast í ómeðvitaðri samsömun með  hinum siðblinda.

Hann talar annars vegar um masókíska samsömun, sem feli í sér að  bindast persónu sem endurgeldur að miklu leyti með árásargirni og slæmri meðhöndlun. Þetta telur Meloy að tengist slæmu uppeldi í bernsku þar sem barn hafi yfirfært sársaukafulla meðferð af hendi foreldra á að hún tákni að barnið sé foreldrunum einhvers virði, sé pabba eða mömmu einhvern veginn nátengt. Til að vera í sambandi við ofbeldisfullan siðblindan verður hinn aðilinn að lúta algerri stjórn hins siðblinda. Makinn umbreytir þessu í tilfinninguna um að hafa stjórn yfir hinum siðblinda. Árásargjarnt atferli hins siðblinda verður þannig endurupplifun af bernskutengslum við lélega foreldra. Móðganirnar / brotin verða sönnun þess að það eru sterk bönd við persónu sem hefur a.m.k. áhuga á manni jafnvel þótt persónan sé andstyggileg.

Hitt sem Meloy nefnir er sadistísk samsömun með ofbeldi hins siðblinda. Einhverjir þeirra sem tengjast siðblindum virðast ómeðvitað hafa ánægju af sadisma hans gegn öðrum. Þekkt dæmi úr kvikmyndum er samband Bonnie við Clyde.

Lokkandi siðblindurUpphafning og afneitun virðast líka vera ráða afar miklu hjá þeim sem bindast siðblindum vitandi vits. Það er eins og konan sé algerlega blind fyrir hve sá siðblindi er hættulegur og niðurlægjandi. Það er eitthvað við siðblinda hegðun sem virkar ákaflega lokkandi og æsandi. Þetta fær konuna til að trúa blekkingum og lygum hins siðblinda. Hún afneitar hættumerkjunum sem sjást í fortíð þess siðblinda og núinu einnig og skrumskælir veruleikann þannig að hann passi við eigin hugmyndir um þennan spennandi mann. Sjá Dæmi 5 og Dæmi 6.

Susan Forward (1988, s. 36 - 37, tilvitnun í Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 204) hefur gert lista yfir hvernig konur í afneitun draga oft  fjöður yfir hegðun siðblindra maka: „Já, hann hefur verið þrisvar kvæntur áður en enginn hefur skilið hann á sama hátt og ég geri.“;  „Ég veit að hann hefur farið illa út úr viðskiptum en hann hefur líka átt samstarfsaðila í röðum sem hafa svikið út úr honum peninga.“;  „Hann talar mjög illa um fyrrverandi eiginkonu sína en það er nú eiginlega ekki svo skrítið því hún var hræðilega gráðug og sjálfselsk.“;  „Ég veit að hann drekkur of mikið en hann er í erfiðri aðstöðu núna og um leið og það lagast veit ég að hann hættir.“;  „Hann gerði mig verulega hrædda þegar hann reiddist en akkúrat núna er hann undir gífurlegu álagi.“;  „Hann varð alveg  bálreiður þegar ég var honum ósammála en engum líkar jú að aðrir séu ósammála þeim.“;  „Hann getur alls ekki gert að því að hann hefur svona erfitt skap, hann átti mjög óhamingjusama æsku“. „Hann gerði þetta bara af því …“ er sem sagt sígild leið makans til að draga úr eða afsaka til að viðhalda upphafningu sinni af hinum árásargjarna siðblinda.
 

* Fjölskylduráðgjöf

Margar konur sem illa er farið með reyna árangurslaust að leita eftir fjölskylduráðgjöf. Siðblindur maki er venjulega á móti hvers konar meðferð eða ráðgjöf frá utanaðkomandi. Fallist hann á ráðgjöf er það einungis vegna þess að hann telur sig græða eitthvað á því. Og stundum gerir hann það. Þegar fundað er með ráðgjafanum kann fórnarlambið að upplifa að árásarmaðurinn lýsi sinni kæru fjölskyldu með jákvæðu og skilningríku orðalagi. Spurningar um andlegt ofbeldi eru fljótafgreiddar með því að þetta hafi nú verið allt í gríni og fórnarlambið skorti kímnigáfu. Fórnarlambið þorir fyrir sitt leyti ekki að segja frá hvernig ástandið raunverulega er innan veggja heimilisins af ótta við hefnd þegar þau koma heim. Þannig kemur sá siðblindi fyrir sem hæfileikaríkur og sannfærandi og fórnarlambið sem lítilhæf og framtakslaus manneskja. Margar konur hafa upplifað fjölskylduráðfgjöf sem niðurlægingu. Valdajafnvægi í sambandi sem einkennist af ofbeldi er þannig að venjuleg fjölskylduráðgjöf og tilraunir til að sætta fólk hafa ekkert að segja. Slíkt nýtist fyrst og fremst til að laga ósamkomulag milli maka sem standa jafnfætis. (Tjora, 1996, tilvitnun í Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 189.)  Sjá Dæmi 7  (sem á reyndar einnig vel við kaflann um líkamlegt ofbeldi, hér á eftir).
 
 

* Líkamlegt ofbeldi / Heimilisofbeldi

Í meðhöndlun / meðferð kvenna sem hafa verið beittar ofbeldi eða verið nauðgað eða barna sem hafa verið kynferðislega misnotuð kemur reglulega fram að árásarmaðurinn hefur siðblinda þætti eða er siðblindur. Árásarmennirnir sjá ekki eigin galla, kenna fórnarlömbunum alfarið um og óska sjálfir hvorki eftir sambandi [við meðferðaraðila] né meðferð. (Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 14.)

Robert D. Hare segir: „Í nýlegri rannsókn könnuðum við hóp manna með PCL listanum (gátlista yfir siðblindu), sem voru þátttakendur ýmist af fúsum og frjálsum vilja eða tilneyddir í meðferðarprógrammi fyrir þá sem berja eiginkonur sínar. Við fundum út að 25% karlmannanna í hópnum voru siðblindir, sem er sambærilegt við þá útkomu sem fæst þegar fangar eru prófaðir. Við vitum ekki hve hátt hlutfallið er í hópi þeirra manna sem ekki sækja meðferðarprógramm en ég reikna með að það sé a.m.k. jafnhátt.“ (Hare, Robert D., 1999, s. 94.)

Siðblindur snákurSálfræðingurinn Neil S. Jacobson komst að athyglisverðum niðurstöðum þegar hann tók samtöl 60 hjóna þar sem karlinn hafði beitt ofbeldi upp á myndbönd og mældi hjartslátt karlanna í leiðinni. Flestir karlanna æstust upp í þessum samræðum og hjartslátturinn varð örari. En í um 20% karlanna hægði á hjartslætti, þrátt fyrir að þeir væru sýnilega reiðir og árásargjarnir. Jacobsen dró þá ályktun að þeir væru siðblindir og lækkun hjartsláttartíðni bæri vott um að þeir einblíndu á heppilega leið til ná stjórninni og héldu aftur af æsingnum. „Eftir að hafa skoðað myndböndin af þessum gaurum sá ég fyrir mér líkindin með höggormi, blínandi á bráð sína, tilbúinn að ráðast á hana.“ (Tilvitnun í Cooke, David J., Adelle E. Forth og Robert D. Hare. 1997. Psychopathy: Theory, Research, and Implications for Society, 130)  Þessir karlar voru herskáastir ofbeldismannanna og og lítilsvirtu konur sínar mest, að mati Jacobson.  (Dutton, Donald G. og Susan K. Golant. 1997. The Batterer: A Psychological Profile, s. 28.)

Sú vísbending að allt að fjórðungur þeirra sem berja eiginkonur sínar séu siðblindir setur meðferðarprógrömmum talsverðar skorður. Þetta er vegna þess að hegðun siðblindra verður illa haggað. Fjárhagslegur stuðningur til að reka meðferðarprógrömm er venjulega af skornum skammti og langur biðlisti eftir slíkri meðferð. Siðblindir fara líklega ekki ótilneyddir í meðferð, þeir hafa engan áhuga á að breyta hegðun sinni og þeir gera sennilega lítið annað en fylla pláss sem betur væri varið fyrir aðra.

Auk þess hafa siðblindir efalaust truflandi áhrif á svona meðferð. (Sjá Dæmi 7.) En kannski eru verstu afleiðingarnar af því að senda siðblindan í meðferð af þessu tagi sú falska öryggiskennd sem kann að vakna í  fórnarlambinu, eiginkonu árásarmannsins. „Hann er í meðferð. Hann ætti að verða skárri núna“ gæti hún hugsað og dregið enn lengur að skilja við hann. (Hare, Robert D., 1999, s. 94.)
 

Afleiðingar hjónabands eða sambúðar með siðblindum

Fórnarlamb siðblindsOft koma sterkustu andlegu viðbrögðin ekki í ljós fyrr en eftir að fórnarlamb valdníðslunnar er sloppið  úr sambandinu. Og það eykur erfiðleikana hversu algengt er að fólki sem hefur búið með siðblindum sé ekki trúað þegar það segir sögu sína. Þetta upplifir það sem nýja árás, sérstaklega af hálfu opinberra stofnana og heilbrigðisþjónustunnar. Fjölskylda, vinir, nágrannar eða kunningjar sem frétta af árásum eða áreitni eiga oft erfitt með að taka þetta trúanlegt. „Svona almennilegur og velheppnaður maður getur alls ekki hafa slegið konuna sína“ eru dæmigerð viðbrögð. Tvöfeldnin í hegðun hins siðblinda, sem oft kemur trúverðugur og jákvæður fyrir utan heimilisins, gerir utanaðkomandi erfitt fyrir að sjá í gegnum hann. (Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 185-188). Ekki bætir úr skák að fórnarlömbin skilja þetta ekki sjálf, þau spyrja sig í sífellu: „Hvernig gat ég verið svona vitlaus? Hvernig gat ég fallið fyrir þessari ótrúlega yfirlætislegu steypu?“ (Hare, Robert D. 1999, s. 124-125)

Konur sem sleppa úr sambandi við siðblinda þjást af ýmsum kvillum, stundum lengi á eftir. Þeirra algengastir eru:

 • Depurð og þunglyndi
 • Kvíði
 • Viðvarandi líkamlegir verkir
 • Endurupplifanir
 • Firring
 • Líkamlegir skaðar
 • Misnotkun vímuefna

(Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 177-178)

   
Næsta færsla mun fjalla um börn siðblindra. 

[Viðbót 1. febrúar 2011: Nokkur umræða er á athugasemdaþræði við þessa færslu um af hverju almennt sé haldið fram að miklu fleiri karlar en konur séu siðblindir - og ég fylgi þessari almennu skoðun í bloggfærslunum um siðblindu. Robert Hare heldur því reyndar fram að hugsanlega sé þetta vegna þess að siðblindar konur séu greindar öðruvísi vegna viðtekinna skoðana á hlutverki og framkomu kynjanna. Hann segir að ef karl og kona sýni öll kjarnaeinkenni siðblindu muni læknir líklega greina karlinn siðblindan eða með andfélagslega persónuleikaröskun en konuna með sefapersónuleikaröskun (histrionic PD) eða sjálfsdýrkunarpersónuleikaröskun (narcissistic PD) því konan sýnir kannski fá andfélagsleg hegðunareinkenni. Ekki er ólíklegt að hún reyni að herma eftir þeirri staðalímynd kynsystra sinna sem þykir eftirsóknarverð og láti lítið fyrir sér fara, virki hlý, ástrík og undirgefin. Hare nefnir engar tölur um hlutfall siðblindra kvenna í þessu sambandi. Sjá Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 101-102. Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work. HarperCollins, New York. Bókin kom fyrst út árið 2006.]  
  
  
 

Helstu heimildir

Cooke, David J., Adelle E. Forth og Robert D. Hare. 1998. Psychopathy: Theory, Research, and Implications for Society. Kluwer Academic Publishers, Dordrecht, Hollandi. Skoðað á books.google.com. 
 

Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000. Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden. H. Aschehoug & Co (W. Nygaard), Oslo. (Þetta er aukin og endurbætt útgáfa frá 1997.)

Dutton, Donald G. og Susan K. Golant. 1997. The Batterer: A Psychological Profile. Basic Books, New York. (Fyrst gefin út 1995.) Skoðuð á books.google.com.

Encounters of the Psychopathic Kind 

Forward, Susan. 1988. Menn som hater kvinner og kvinnene som elsker dem (norsk þýðing á Man who hate women and women who love them, fyrst útg. 1986).  Tilvitnanir í Forward, S. eru úr Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000.

Hare, Robert D. 1999. Without Concience. The Disturbing World of  Psychopaths Among Us. The Guilford Press, New York. (Fyrst gefin út 1993.)

Tranberg, Peter.  Psykopati - en forståelse af forstyrrelsens natur, óársett.   
  
  
  
  
  
 

Ummæli (24) | Óflokkað, Siðblinda

14. janúar 2011

Fórnarlömb siðblindra: Konur

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er: http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, III hluti

(Finna má aðrar færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda, sjá Flokka hér til hægri.)

Fórnarlömb siðblindra: Konur, makar og börn

Ef við treystum niðurstöðum Roberts Hare o.fl. um að siðblindir séu um 1% fólks1 og gerum ráð fyrir að a.m.k. 5 manns tengist hverjum þeirra nánum böndum þá er augljóst að hver og einn siðblindur veldur miklum skaða. Seinna fjalla ég verður fjallað um siðblinda á ýmsum sviðum samfélagsins. En næstu færslur eru um áhrif siðblindra á þá sem standa þeim næst, þ.e. elskendur, maka, börn; byrjað á ástkonum. Almennt gildir að siðblindir reyna að ná algeru valdi yfir minni máttar.

Siðblindir leita sér ekki hjálpar af sjálfsdáðum enda sjá þeir ekki að neitt sé að sér. En innan velferðarkerfisins rekst fólk óbeint á hina siðblindu, gegnum alla þá sem siðblindir hafa áreitt og alla þá sem bera varanlegan skaða eftir þá reynslu.

Með því að þekkja einkenni siðblindu getur maður betur áttað sig á slíkum einstaklingum þegar maður hittir þá, til að geta vikið sér undan. Sé maður þegar fastur í vef hins siðblinda er tvennt sem kemur til greina: Að láta hart mæta hörðu við hinn siðblinda eða forða sér. Hvort tveggja tekur tíma, er erfitt, sársaukafullt og jafnvel hættulegt en borgar sig þegar til lengri tíma er litið.

Með aukinni þekkingu má vonast til að færri hafni í greipum siðblindra og að allir sem þegar eru fastir í heljargreipum þeirra geri sér það ljóst og sleppi.2
 

Konur

Hvernig konur höfða einkum til siðblindra og hvað ber að varast?

* Svo virðist sem siðblindir sækist fyrst og fremst eftir konum sem á einhvern hátt eiga undir högg að sækja, eru einmana eða veikar fyrir á einhvern hátt (t.d. andlega). Kaldlynd misnotkun hinna einmana er aðalsmerki siðblindra.3   Sjá Dæmi 1.

* Bent hefur verið á að þeir hafi óhugnalega gott auga fyrir konum sem eru móðurlegar í eðli sínu, þ.e.a.s. sem vilja hjálpa og aðstoða aðra af bestu getu. Margar slíkar konur vinna við umönnunarstörf, s.s. hjúkrun, félagsráðgjöf eða annars konar ráðgjöf - og hættir til að leita að góðmennsku í öðrum og yfirsjást eða draga úr um leið göllunum. „Hann á vissulega við vandamál að stríða en ég get hjálpað honum“ eða „Hann átti svo erfiða bernsku, allt sem hann þarfnast er einhver sem vill faðma hann“. Þessar konur munu líklega þola mikla misnotkun í þeirri staðföstu trú sinni að þær geti hjálpað; þær eru tilbúnar til að láta skilja sig eftir tilfinningalega, sálarlega og efnahagslega máttvana.4   Sjá Dæmi 2.

* Góðmennska fer í taugarnar á siðblindum og þeir reyna oft að nappa góðar konur.5

* Robert Hare vitnar í grein sem birtst í New Woman tímaritinu [bresku tímariti sem kemur ekki lengur út]  og hét „The Con Man’s New Victim“. Í greininni var bent á þann ófyrirséða möguleika að konur sem stæðu fjárhagslega á eigin fótum, sem er núorðið afar algengt, gætu orðið siðblindum að bráð þegar þær eru í leit að elskhuga. Siðblindir sitji um svoleiðis konur sem jafnframt eru á einhvern hátt viðkvæmar fyrir, á börum, í heilsurækt og í félagsstarfi. Þótt svindlarinn þekki konurnar auðveldlega úr í mannþrönginni, fellur hann sjálfur inn í hvaða hóp sem er. Benda má á að hann lítur oft vel út, er heillandi, málglaður, sjálfsöruggur, vill ráðskast með fólk og er vafalaust hægt að verða ástfangin af honum.6
Fyrir utan það að þekkja einkenni siðblindu og gæta sín á mönnum sem konur hitta augliti til auglitis borgar sig að hafa einnig eftirfarandi í huga:

Hannibal the cannibalSumir siðblindir, sérstaklega þeir sem sitja í fangelsi, notfæra sér einkamáladálka, segir Robert Hare.  Sjá Dæmi 3. Nú veit ég ekki hvað einkamáladálkar eru mikið notaðir nútildags en í staðinn hafa komið tölvusamskipti. Með Netinu hafa veiðilendur hinna siðblindu margfaldast. Donna Anderson skrifaði bókina Love Fraud—How marriage to a sociopath fulfilled my spiritual plan um hjónaband sitt og siðblinda svindlarans James Montgomery. Þau kynntust í gegnum tölvupóst. Hann rúði hana inn að skinni í þessu hjónabandi. Tíu árum eftir skilnaðinn (árið 2009) komst Donna að því að James var enn að reyna að stofna til kynna við konur á Netinu.7 Það er því full ástæða til að vara konur við, í samskiptum og kynnum á Facebook eða spjallrásum.
 

Siðblindir hafa reyndar oftast ekki áhuga á langtímasamböndum. Sá siðblindi yfirgefur fórnarlambið þegar hann hefur haft af því nægt gagn og gæði, enda er hann spennufíkill og leiðist auðveldlega. Þegar um ástarsamband er að ræða hefur sá siðblindi oftast hafið samband við næsta fórnarlamb áður en hann slítur fyrra sambandi. Stundum er hann með þrjár í takinu; Eina sem hann var að skilja við, eina sem er haldið heitri og þá þriðju sem hann er að byrja að bera víurnar í. Fórnarlambið sem er snögglega yfirgefið hefur oft verið algerlega grunlaust um að fleiri séu í myndinni.8  Og sú yfirgefna fyllist stundum vantrú, reiði, vonleysi, finnst hún einskis virði og hefur á tilfinningunni að sér hafi verið hent á haugana.9
 

Næsta færsla verður: Í hjónbandi með siðblindum
 

1 Margar rannsóknir hafa verið gerðar á glæpamönnum í fangelsum en á seinni árum hafa menn beint sjónum sínum að samfélaginu almennt og reynt að meta hversu algeng siðblinda er innan þess. Nefna má rannsóknina Psychopathic Traits in a Large Community Sample: Links to Violence, Alcohol Use, and Intelligence, sem Craig S. Neumann og Robert D. Hare gerðu og birtist í Journal of Consulting and Clinical Psychology, 2008, 76(5), s. 893-899. Greinin er aðgengileg á Vefnum. Skoðað var tilviljanakennt úrtak úr annarri fjölmennari rannsókn (MacArthur Violence Risk Study (Monahan et al., 2001), alls 514 manns, af báðum kynjum, jafnt hvítir sem  „Bandaríkjamenn af afrískum uppruna“ og notuð skimunarútgáfan af greiningarlykli Hare (PCL-SV). Niðurstöðurnar voru flestir skoruðu 3 stig eða lægra á siðblindukvarðanum en að 1-2% þáttakenda skoruðu meir en 12 stig, sem gefur til kynna einkenni um siðblindu. (Ath. að skimunarútgáfan PCL-SV er annar kvarði en PCL-R, sá fyrrnefndi nær frá 0 - 24 og þeir sem skora 18 stig og hærra eru sambærilegir þeim sem skora 30 stig og hærra á PCL-R.) Enginn munur mældist eftir kynþætti. Þetta er í samræmi við niðurstöður annarra sambærilegra rannsókna.

2 Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 13. Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden. H. Aschehoug & Co (W. Nygaard), Oslo. (Þetta er aukin og endurbætt útgáfa frá 1997.)

3 „Sumir siðblindir eru tækifærissinna árásargjörn rándýr sem er alveg sama hvern þeir misnota. Aðrir eru þolinmóðari og bíða eftir fullkomnu, saklausu fórnarlambi sem villist á veg þeirra. Í báðum tilvikum hefur sá siðblindi fyrst og fremst í huga hvernig megi nýta fórnarlambið til fjár, valda, kynlífs eða áhrifa. Sumir siðblindra hafa gaman af áskorun meðan aðrir einbeita sér að því að leggjast á fólk sem er viðkvæmt fyrir. Siðblindur getur metið veikar hliðar fórnarlambsins og mun nota sér þær til að draga það á tálar.“ Basic manipulative strategy of a psychopath í Psychological manipulation, Wikipedia. 

4 Robert D. Hare. 1999. „Flies in the Web“, 9. kafli í Without Concience. The Disturbing World of  Psychopaths Among Us, s. 149. Peter Tranberg segir um þetta: „Í sambandi við mál Peters Lundin þá fékk ég á tilfinninguna að slatti af kvenkyns kunningjum hans léti stjórnast af Móður-Theresu þráhyggju, því þær vildu bjarga „aumingja manninum“ frá grimmu fangelsisumhverfinu og kenna honum að gjalda gagnkvæma ást. Í hans augum er þetta markmið merki um veikleika og í grundvallaratriðum ómögulegt að uppfylla.“ Tranberg, Peter. Psykopati - en forståelse af forstyrrelsens natur, óársett, s. 61.

5 „Siðblindum sjúklingum hættir til að finna til öfundar í garð þeirra sem eru góðir og sýna árásargirni gegn gæskunni sem þeir skynja til að losna við þessar óþægilegu tilfinningar [öfundsýkina]“ segir í „Psychological Defenses“, Personality Characteristics and Treatment Prognosis á vef American Medical Network (en textinn fjallar um persónuleikaraskanir af ýmsum toga).
 „Öfund er mest áberandi í sjúklingi sem hatar gæskuna sjálfa“, segir J. Reid Meloy í bókinni The Psychopathic Mind - Origins, Dynamics and Treatment, 1988, s. 105. Meloy útskýrir þetta þannig að öfundin sé ekki meðvituð því hún ógni stórmennskuhugmyndum hins siðblinda um eigið ágæti. En hann reynir að eyðileggja góðmennskuna, í ferli sem hefst á meðvituðu hugsuninni „Ég verð að fá“ og endar á meðvituðu hugsuninni „Þetta var einskis virði“. Tilvitnanir í Meloy eru teknar úr lokariterð danska sálfræðingsins Peter Tranberg, Psykopati - en forståelse af forstyrrelsens natur, óársett, s. 55. 

6 Robert D. Hare. 1999. „Flies in the Web“, 9. kafli í Without Concience. The Disturbing World of  Psychopaths Among Us, s. 153.

7 Sjá „James Montgomery. Using the Internet to meet and defraud women“ á Lovefreud.com.
Fundið hefur verið upp sérstakt hugtak yfir siðblinda sem nýta netið til að komast yfir fórnarlömb, annað hvort til að svindla af fólki fé eða komast yfir konur, sem er hugtakið Cyberpath.  Sjá t.d. bloggfærsluna „The successful psychopath“ og „Cyberpath“ á Enpsychopedia.  

8  „Basic manipulative strategy of a psychopath“ í Psychological manipulation, Wikipedia.

9 Hartoonian, Linda S og  Liane J. Leedom. „The aftermath of psychopathy as experienced by romantic partners, family members and other victims“ í Aftermath. Surviving Psychopathy.  

  

  
 

Ummæli (1) | Óflokkað, Siðblinda

11. janúar 2011

Dásemdir læsis

Prjónaður heiliUndanfarna mánuði hef ég verið ólæs í þeim skilningi að ég hef ekki getað haldið þræði í bók og gleymt jafnharðan því sem ég las. Fyrir svona mánuði síðan komst ég upp á lag með að skanna vefsíður og vefmiðla … svo tókst að skanna bækur og taka úr þeim punkta og skoða í þeim myndirnar, ekki mikið meira.

Af þessu hefur leitt að ég hef einkum lesið (og skrifað) um tvö áhugamál mín, sem hafa undanfarið verið saga prjónatækninnar og siðblinda. Þarf varla að taka fram hve hamingjusöm ég varð þegar ég fann frétt um konu sem samþættir einmitt þetta tvennt: Áhuga á geðveilum og áhuga á prjónaskap! Sú er geðlæknir og hefur lagt á sig að prjóna heilan heila … ég sé reyndar strax í hendi mér að heilaprjón er bráðsniðug aðferð til að nýta afganga. Til vinstri sést prjónaði heilinn, smella má á myndina til að glöggva sig betur á stykkinu (eða heilanum) og fréttina um geðlækninn sem prjónaði hann má lesa hér.

En í gærkvöldi las ég heila bók, var reyndar enga stund að því enda bókin stutt og ég gjörkunnug efninu. Þetta var stór áfangi! Bókin sú arna heitir Sýnilegt myrkur. Frásögn um vitfirringu og er eftir William Stryker (kom út núna fyrir jólin í ritröðinni Lærdómsrit bókmenntafélagsins). Höfundurinn er heimsþekktur rithöfundur, sennilega kannast flestir við bók hans (eða myndina sem gerð var eftir bókinni) Sophie’s Choice. Hana hef ég ekki lesið og ekki séð myndina af því ég veit söguþráðinn og er of viðkvæm sál fyrir svoleiðis.

Satt best að segja bjóst ég ekki við sérlega miklu fyrirfram, fordómafull sem ég er, auk þess sem undirfyrirsögnin, “Frásögn um vitfirringu” truflaði mig. En bókin kom gleðilega á óvart: Þetta er fantagóð bók um þunglyndi, sem ég mæli mjög með. Reyndar tekur höfundurinn það skýrt fram að ekki sé hægt að lýsa þunglyndi fyrir þeim sem aldrei hafa veikst af sjúkdómnum. Samt er þetta ein besta lýsing sem ég hef lesið en ég get náttúrlega ekki gert mér í hugarlund hvernig einhver sem ekkert þekkir til þessa hryllilega sjúkdóms upplifir eða skilur bókina. Það eina sem mér fannst að henni var að hún er ekki nógu vel þýdd og enskan skín ansi mikið í gegn. (Þetta kom mér líka á óvart, ég hélt að kröfurnar sem gerðar eru til Lærdómsrita bókmenntafélagsins væru mjög miklar.)

Tvíefld eftir að hafa komist gegnum Sýnilegt myrkur á engri stund skellti ég mér í Af heimaslóðum. Brot af sögu Helgu og Árna Péturs í Miðtúni og samfélagsins við Leirhöfn á Melrakkasléttu, eftir Níels Árna Lund. Mér fannst fyrsti fjórðungurinn frekar skemmtilegur en það sem eftir er bókarinnar er tæplega áhugavert fyrir aðra en þá sem þekkja þetta fólk. Ég veit bara hvaða fólk þetta er, sumt, get ekki sagt að ég þekki það neitt. Svo ég lagði frá mér bókina og fór að skoða dúkkulísufræði (Pigedrømme - om danske påklædninsdukkers historie … frábær myndabók) og prjónafræði (Kvardagsstrik. Kulturskattar fra fillehaugen … einnig frábær bók með hellingi af myndum). Í kvöld verður gerð atlaga að reyfara.

Eiginlega varð ég svolítið móðguð yfir hvað Níels Árni Lund skautar framhjá forfeðrum mínum. Ég meina: Það voru bara tvö hús á Raufarhöfn snemma í sögunni, í öðru bjuggu langafi hans og amma - seinna afi hans og amma  og í hinu langafi minn og langamma - auk afa og ömmu seinna. Og langafi Níelsar var bróðir langömmu minnar - þannig að hann hefði nú mátt minnast meir á mitt fólk en bara í setningunni: “Þetta þykir nokkuð fínt fólk, bráðmyndarlegt og yfir því mikil reisn.” (s. 36) Ekki svo að skilja að ég sé ekki sammála þessari lýsingu á langafa og langömmu og er ekki frá því að yfirbragðið hafi erfst allar götur síðan ;)

Gr�mur LaxdalEn ég las samviskusamlega um Grím Laxdal, bróður langömmu sem fluttist til Vesturheims. Hafði einstaklega kvikindislegt gaman af því hvernig Níels Árni reynir að draga úr vísbendingum um að karlinn hafi verið alki og fannst athyglisvert að sjá hvað hægt er að kóa mörgum kynslóðum seinna. T.d. lá það orð á Grími Laxdal meðan hann bjó á Íslandi að hann hefði verið nokkuð drykkfelldur (sem kæmi mér ekkert á óvart að liggi kannski í þessum Laxdals-genum þvers og kruss). Um Grím segir í bókinni: “Grímur var orðlagt glæsimenni og mikill persónuleiki … Það fylgir sumum frásögnum um Grím að honum hafi þótt sopinn góður hér heima á Íslandi og verið talinn nokkur bóhem. Varlegt getur verið að treysta slíkum sögum; í þeim efnum getur fjöðrin orðið að hænsnahópi fyrr en varir. Vel má hins vegar vera að hann hafi á sínum yngri árum neytt víns umfram aðra, en víst er að hann hefði ekki notið þeirrar virðingar í Vesturheimi, eftir að fjölskyldan flutti þangað sem fjöldi staðreynda ber vitni um, ef hann hefði látið Bakkus stjórna lífi sínu.” Svo er vitnað í konu hans, Sveinbjörgu, sem sagði víst þegar hún var spurð út í hegðun eiginmannsins “að horfa skyldi einnig á björtu hliðarnar - og “líttu til annarra”. Átti þar við að aðrir hefðu það ekki betra en hún. “(s. 38)

Af áratuga reynslu af ölkum og aðstandendum af öllu tagi sá ég strax að Sveinbjörg var meðvirkari en allt sem meðvirkt er, af þessum orðum að dæma. Svolítið seinna í bókinni er vitnað í barnabarn þeirra vestra sem segir: “Já það er rétt að lengst af bjuggu þau lítið saman Grímur og Sveinbjörg en ástæða þess gæri hafa verið fjármálalegum ástæðum og einnig hitt að þau eignuðust í raun aldrei neitt heimili … Amma og afi bjuggu alltaf hjá börnum sínum en ekki alltaf á sama tíma.” (s. 53) Sama barnabarn segir líka: “Með aldrinum varð hann bráðari í skapi. Honum líkaði ekki líkamleg vinna og gafst upp á heimilinu og hélt til hjá börnum sínum.” (s. 42) Aftur á móti er snyrtilega breitt yfir þetta ástand í minningargrein um Sveinbjörgu: “Frú Sveinbjörg var um flest mikil gæfukona; hún naut um langa ævi samvistar ágæts eiginmanns, börn þeirra mönnuðust vel …” (s. 55).

Af þessum tilvitnunum er nokkuð augljóst hvernig var ástatt fyrir þeim Grími og Sveinbjörgu. En lýsingin í bókinni minnti mig dálítið á þá sem ekki mega heyra á það minnst að Jónas Hallgrímsson hafi verið langt genginn alkóhólisti þegar hann lést (þótt krufningarskýrslan sé til … minnir að megi lesa hana í Tímanum og tárinu hans Óttars Guðmundssonar) eða eru uppfullir af þeirri hugmynd að Kristján Fjallaskáld hafi óvart drukkið sig í hel út af ástarsorg (og þ.a.l. beri einhver stúlkukind á Hólsfjöllum alla sök á dauða skáldins) eða einhverjum álíka bábiljum. Ég get ekki séð að það kasti neinni rýrð á Jónas að hann hafi verið veikur alki; snilldarverk hans á sviði skáldskapar og náttúrufræði verða enn rismeiri ef maður veit að maðurinn hafði ekki fulla starfsorku. Og Grímur langömmubróðir minn var jafn merkilegur maður þótt hann hafi sennilega verið alki, sem meðvirka eiginkonan gafst að lokum upp á.

(Myndin er af Grími og Þórði syni hans. Sjá má stærri mynd með því að smella á þá litlu. Þetta var vissulega glæsimenni og Níels Árni getur verið stoltur af langafa sínum!)

  

Ummæli (0) | Óflokkað, Bækur, Daglegt líf, handavinna

9. janúar 2011

Á hverju þekkist siðblindur og hvernig kemst maður heill frá slíkum kynnum

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, II. hluti  
 

(Finna má aðrar færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda, sjá Flokka hér til hægri.)

 

Ted BundyÁ Vefnum má finna fjölda sjálfshjálparhópa fyrir fórnarlömb siðblindu og ýmsa gátlista svo fólk geti áttað sig á því sem fyrst að það á við siðblindan einstakling að etja eða er komið í mismunandi náin tengsl við slíkan. Ég reyni hér að halda mig við sæmilega áreiðanlegar útgáfur á svoleiðis varúðarlistum og valdi þrjár nokkuð ólíkar. Ráðlegg lesendum að lesa gegnum þær allar; þeir sem hafa kynnst siðblindum einstaklingi áður munu eflaust kannast við margt í þessum listum.

Myndin er af Ted Bundy, frægasta raðmorðingja Bandaríkjanna, sem var líflátinn 1989. Hann þótti einstaklega viðkunnalegur maður, sem er oft lýsandi fyrir siðblinda einstaklinga, þ.e. að oft er flagð undir fögru skinni. Sjá nánar um Bundy í greinarstubbi á íslensku Wikipediu eða langri umfjöllun á ensku Wikipediu 
 

Þessi færsla  yrði alltof löng ef allur textinn væri settur á eina síðu. Því er fyrst birtur listi aðalgúrúins, hins kanadíska Roberts D. Hare, en krækt er í undirsíður með hinum tveimur listunum (sem ég hef þýtt á íslensku). Þeir eru:
 

Sænskur gátlisti (höfundarlaus). Sá sænski er stuttur og neðan við hann er krækt í gagnvirkt próf, á sænsku, sem fólk getur tekið til að fá vísbendingu um hvort það er í tygjum við eða umgengst siðblindan náunga.

Bandarískur gátlisti yfir hvers konar raddbeiting og líkamstjáning einkennir siðblindu. Sjálfri finnst mér þessi listi áhugaverðastur.
 
 

Hér fer á eftir listi Roberts Hare yfir hvernig sýna skal varúð og þekkja siðblinda einstaklinga, jafnframt því sem ráðlagt er hvernig lágmarka megi skaðann af kynnum við slíka. Listinn er undirgreinin „A Survival Guide, s. 4-5 í This Charming Psychopath. How to spot social predators before they attack á vefútgáfu Psychology Today. (Greinin birtist 1. janúar  1994 og vefútgáfan var síðast endurskoðuð 1. júní 2010.) Raunar er þetta útdráttur úr 13. kafla, „A Survival Guide“, í Without Conscience: The Disturbing World of the Psychopaths Among Us eftir  Robert Hare, fyrst útg. 1993.
 

Leiðarvísir til að komast af

Þótt enginn sé algerlega ónæmur fyrir vélabrögðum hins siðblinda þá eru nokkur atriði sem hægt er að hafa í huga til að lágmarka skaðann sem hann gæti valdið þér.

* Gerðu þér grein fyrir við hvað við er að etja. Þetta hljómar auðvelt en getur í rauninni verið mjög erfitt. Allar heimsins fræðibækur gera þig ekki ónæma(n) fyrir eyðileggjandi áhrifum siðblindra. Allir, þar á meðal sérfræðingar, geta látið hrífast, blekkjast og staðið ráðvilltir eftir. Flinkur siðblindingi getur leikið konsert á hjartastrengi hvers sem er.

*Ekki falla fyrir sýndarmennsku eða leikmunum (props). Það er ekki auðvelt að komast fram hjá heillandi brosi, aðlaðandi líkamstjáningu og  hröðu tali hins dæmigerða siðblindingja því allt þetta blindar okkur sýn á raunverulega ætlan hans. Mörgum finnst erfitt að höndla hið ákafa „rándýrsaugnaráð“ siðblindra. En hið starandi augnaráð er fremur forleikur að sjálfsfullnægju og leikur að valdi en venjulegur áhugi eða samúðarfull umhyggja fyrir viðmælandanum.1)

Blátt auga[Í kaflanum í Without Conscience: The Disturbing World of the Psychopaths Among Us, s. 208, bætir Hare við: „Sumum finnst kalt augnaráð hins siðblinda vera einkar óþægilegt og líður eins og bráð andspænis rándýri. Aðrir verða gagnteknir, jafnvel agndofa, komast á vald hans og skilja lítt eigin viðbrögð.  Hver sem sálfræðileg merking augnaráðsins kann að vera  þá er á hreinu að sterkt augnsamband er mikilvægur þáttur í hæfileikum sumra siðblindra til að ráðskast með og drottna yfir öðrum.“ Ráðið er að loka augunum eða snúa sér undan og einbeita sér að því hvað viðkomandi er í rauninni að segja.]

* Ekki bera blöðkur fyrir báðum augum. Byrjaðu hvert samband með augun opin. Eins og gildir með okkur öll þá byrja flestir siðblindir sjónhverfingamenn og flagarar á að fela sínar myrku hliðar og skarta sínu besta. En svo myndast sprungur í grímunni sem þeir bera. Samt er erfitt að sleppa úr blekkingavef þeirra án þess að skaðast fjárhagslega og tilfinningalega.2)

* Vertu á varðbergi á hættuslóðum. Sumar aðstæður eru sem klæðskerasniðnar fyrir siðblinda: Barir fyrir einhleypa, lystiskipaferðir, flugvellir í útlöndum o.s.fr. Á svona stöðum er fórnarlambið oft einmana og í leit að skemmtun, spennu eða félagsskap. Venjulega er einhver til í að veita slíkt en endurgjaldið sem krafist er getur komið á óvart.

* Þekktu sjálfa(n) þig. Siðblindir eru flinkir í að finna veikar hliðar og notfæra sér þær samviskulaust. Besta vörnin gegn þessu er að þekkja sína eigin veikleika og vera sérstaklega á verði gegn þeim sem einbeitir sér að akkúrat þeim.
 
 

Því miður þá kemur jafnvel stakasta varúð ekki endilega í veg fyrir að þú lendir í viljasterkum siðblindingja. Það eina sem þú getur gert í þeirri stöðu er að reyna að lágmarka skaðann. Það er ekki auðvelt en hér eru nokkrar leiðir sem gætu hjálpað:

* Leitaðu þér faglegrar hjálpar. Vertu viss um að fagmaðurinn sem þú leitar til hafi þekkingu á fræðum um siðblindu og hafi reynslu í að fást við siðblinda.

* Ekki ásaka sjálfa(n) þig. Það skiptir ekki máli hvaða ástæður urðu til þess að þú tengdist siðblindum einstaklingi heldur er mikilvægt að þú axlir ekki ábyrgð á viðmóti hans og hegðun. Siðblindir leika sama leikinn eftir sömu reglum við alla - sínum eigin reglum.

Samskipti við siðblinda* Gerðu þér grein fyrir hvert er fórnarlambið. Siðblindir reyna oft að láta líta svo út að þeir þjáist og fórnarlambið sé syndaselurinn sem valdi þjáningunni. Ekki eyða samúð þinni á þá.

* Áttaðu þig á því að þú ert ekki ein(n). Flestir siðblindir skilja eftir sig slóð fórnarlamba. Sá siðblindi sem særði þig hefur örugglega valdið fleirum sorg.

* Farðu varlega í valdatafl. Hafðu í huga að siðblindir hafa sterka þörf fyrir sálarlegt og líkamlegt vald yfir öðrum. Það þýðir ekki að þú eigir ekki að gæta réttar þíns en það er sennilega erfitt að gera það án þess að eiga á hættu alvarlegt tilfinningastríð eða líkamsskaða.

* Settu skýr mörk. Þótt valdatafl við siðblindingja sé varasamt þá gætirðu sett bæði þér og þeim siðblinda mörk til að gera líf þitt auðveldara og hefja hina erfiðu leið frá fórnarlambi til sjálfstæðrar manneskju.

* Ekki búast við dramatískum breytingum. Að mestu leyti er persónuleiki hins siðblinda sem meitlaður í stein.

* Lágmarkaðu skaðann. Undir lokin  finnst flestum fórnarlamba siðblindra  þau sjálf vera hálfrugluð og vonlaus og eru sannfærð um að vandamálin séu aðallega þeim að kenna. En því meir sem þú gefur eftir því meir verðurðu (mis)notuð vegna óseðjandi eftirsóknar hins siðblinda í vald og stjórn yfir öðrum.

* Notaðu sjálfshjálparhópa. Þegar þú hefur fengið grunsemdir þínar um siðblindu staðfestar þá veistu að framundan er löng og torsótt leið. Vertu viss um að þú fáir allan þann tilfinningalega stuðning sem þú getur nýtt þér.
 
 

1) Orðlaus samskipti siðblindra hefur verið rannsökuð. Í ósögðum skilaboðum felst ýmis hegðun, t.d. svipbrigði, bendingar og raddbeiting. Rime, Bouvy og Roillon (1978) uppgötvuðu að siðblindir hafa tilhneigingu til að ota sér inn á persónulegt svið spyrjanda með því að halla sér fram og með því að halda löngu augnsambandi. Af því augnsamband er venjulega talið andstætt við óheiðarleika getur verið að þessi samskiptanálgun sé hluti af verkfærasafni siðblindra, hannað til að sannfæra aðra um að þeim sé treystandi.“ Louth, Shirley M;, Williamson, Sherrie; Alpert, Murray; Pouget, Enirique R; Hare, Robert D. Acoustic Distinctions in the Speech of Male Psychopaths“ í Journal of Psycholinguistic Reseach, 27. árg., 3. tbl., 1998. Skoðað á Vefnum í janúar 2011. 

Robert D. Hare vitnar í konu sem siðblindur hafði svindlað á: „Ég fylgdist ekki með öllu sem hann sagði en hann sagði allt mjög fallega. Hann hefur svo yndislegt bros.“ Without Conscience. The Disturbing World of the Psychopaths Among Us, s. 146. 

2) Formáli bókarinnar Without Conscience. The Disturbing World of the Psychopaths Among Us eftir Robert D. Hare (fyrst útg. 1993) hefst þannig: „Siðblindir eru rándýr í samfélagi manna, sem heilla, ráðskast með og ryðja sér vægðarlaust braut gegnum lífið og skilja eftir sig slóð af brotnum hjörtum, væntingum og tómum veskjum. Þeir svífast einskis í eigin þágu, enda samviskulausir og ófærir um að setja sig í annarra spor. Reglur mannlegra samskipta eru fótum troðnar án minnstu sektarkenndar eða eftirsjár.“ (S. xi, hér er einnig stuðst við þýðingu Nönnu Briem í „Um siðblindu“, Geðvernd, 38. tbl. 2009.)
 

Sjá einnig fyrri færslu: Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda I. hluti
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Ummæli (2) | Óflokkað, Siðblinda

6. janúar 2011

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, I. hluti

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:http://sidblinda.com

Borgarnóttin

Þófamjúk rándýr sem læðast
með logandi glyrnum
í lævísu myrkri
-og skógur með kvikum trjám

(Hannes Sigfússon) 

 

Inngangur

ÚlfurÞessi færsla og fleiri eru skrifaðar fyrst og fremst sem glósur fyrir mig sjálfa því mér hættir til að gleyma býsna hratt því sem ég les þessa dagana. Fróðleikinn um siðblindu hyggst ég nota í ákveðnum skrifum en vonast til að einhverjir fleiri en ég hafi áhuga á fyrirbærinu, jafnvel að þessi skrif nýtist einhverjum sem víti til varnaðar, því talið er að allir kynnist siðblindum einstaklingum einhvern tíma á lífsleiðinni og slíkir geta valdið ómældum skaða. Þá má nefnilega finna allstaðar, í öllum stéttum og störfum.

Siðblinda (áður kölluð geðvilla) er notað um það sem á ensku kallast psychopathy, psykopati á skandinavískum málum (nú orðið oftast dyssociale personlighedsforstyrrelse eða sociopat á dönsku, haft innifalið í antisocial personlighetsstörning á sænsku)  o.s.fr. Orðið er samsett úr grísku orðunum psyche, sem þýðir sál og pathos, sem þýðir þjáning/ kvöl. Varla er þó átt við að siðblindir þjáist á sálinni heldur að þeir valdi öðrum miklum þjáningum. Pathos getur líka þýtt sjúkdómur og vissulega hafa siðblindir sjúka sál þótt ekki teljist þeir geðveikir. Ég blogga meir um orðalag tengt siðblindu síðar.

Þegar menn heyra orðið erlenda orðið „sækópat“  sjá flestir fyrir sér fræga morðingja kvikmyndasögunnar, s.s. Hannibal Lechter í Lömbin þagna eða Alex í Clockwork Orange. Fólk gerir sér sennilega ekki grein fyrir því að einungis lítill hluti glæpamanna greinist siðblindur (um 20% fanga greinast siðblindir) en siðblindir einstaklingar eru taldir á bilinu 0,5 - 1% fólks utan fangelsismúranna, skv. Robert D. Hare.1)  Svipað algengi kemur út úr breskri rannsókn á almennu þýði.2)  Skandinavískar tölur eru hærri.3) Það þýðir t.d. að hér á þeim góða Skaga eru sennilega milli 30 -50 siðblindir einstaklingar, miðað við bandarískar og breskar rannsóknir. Fjöldinn á Íslandi er á bilinu 1500 - 3000 manns. 4)

Siðblinda er ekki geðveiki heldur ein alvarlegasta persónuleikaröskunin sem fyrirfinnst. Hún er almennt talin ólæknandi enda telja siðblindir sig hreint ekki þurfa lækningar við, sama hversu miklum skaða þeir valda öðrum.

Ég fékk mikinn áhuga á siðblindu fyrir skömmu en komst að því að ekki hefur verið skrifað mikið á íslensku um fyrirbærið. Nanna Briem, geðlæknir hefur einna mest fjallað um þetta efni og má nefna grein hennar  „Um siðblindu“, sem birtist í 38. tbl. Geðverndar 2009, s. 25 - 29 (greinin er aðgengileg á netinu hér ) og leiðarann „Siðblinda“ í Læknablaðinu 96. tbl. 2010 (á netinu hér) , einnig eftir Nönnu Briem. Sjá má frægan fyrirlestur Nönnu Briem, Siðblinda og birtingarmyndir hennar, sem hún hélt í Háskólanum í Reykjavík þann 3. febrúar 2010 og horfa má á á netinu.  Loks er handhægt að skoða glærusýningu Nönnu, Um siðblindu, til að fá yfirlit yfir efnið.

Aðrar íslenskar heimildir eru af skornum skammti, einna helst að finna megi greinar eða örstuttar tilvísanir í dagblöðum eftir að menn beindu sjónum sínum að siðblindu stjórnenda í viðskiptalífinu. Um slíkt hefur verið skrifað töluvert á erlendum málum, þar af er frægust bókin Snakes in Suits: When Psychopaths Go to Work, eftir Robert Hare og  P. Babiak, sem kom út árið 2006. (Sjá má stutta umfjöllun Kristjáns G. Arngrímssonar um þessa bók, „Snákar í jakkafötum“ í Mbl. 7. júní 2006.)

En ég hef meiri áhuga á siðblindum einstaklingum almennt. Þeir eru nefnilega fjöldamargir, eins og áður sagði, en þrátt fyrir alls konar vandræði og skaða sem þeir valda öðrum kemst einungis lítill hluti þeirra í kast við lögin. Miklu stærri hluti siðblindra eru karlar, þótt siðblindar konur finnist líka, og því er ævinlega notað orðið „hann” hér þegar talað er um siðblindan einstakling. [Viðbót 1. febrúar 2011: Robert Hare hefur síðar haldið því fram að hugsanlega sé þetta vegna þess að siðblindar konur séu greindar öðruvísi vegna viðtekinna skoðana á hlutverki og framkomu kynjanna. Hann segir að ef karl og kona sýni öll kjarnaeinkenni siðblindu muni læknir greina karlinn siðblindan eða með andfélagslega persónuleikaröskun en konuna með sefapersónuleikaröskun (histrionic PD) eða sjálfsdýrkunarpersónuleikaröskun (narcissistic PD) því konan sýnir kannski fá andfélagsleg hegðunareinkenni. Ekki er ólíklegt að hún reyni að herma eftir þeirri staðalímynd kynsystra sinna sem þykir eftirsóknarverð og láti lítið fyrir sér fara, virki hlý, ástrík og undirgefin. Hare nefnir engar tölur um hlutfall siðblindra kvenna í þessu sambandi. Sjá Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 101-102. Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work. HarperCollins, New York. Bókin kom fyrst út árið 2006.]  

[Viðbót 7. febrúar: Lára Hanna Einarsdóttir hefur klippt saman (úr bútum á YouTube) heimildarmyndir um siðblindu og skal bent á:

Ég þakka Láru Hönnu kærlega fyrir verkið og að benda mér á þetta og leyfa krækjur í efnið.] 

  
Einkenni siðblindu

Hervey CleckleyÞað hafa margir sett fram greiningarlykla fyrir siðblindu.5)  Sá sem fyrstur gat sér verulega frægð fyrir umfjöllun um hana var geðlæknirinn Hervey Cleckley, í bók sinni The Mask of Sanity sem kom út 1941. Hún var byggð á rannsóknum hans á siðblindum föngum og er enn talin til grundvallarrita í siðblindufræðum og marg-endurútgefin. Bókina er hægt að nálgast á Vefnum.  Myndin til hægri er af Cleckley.

Cleckley taldi eftirfarandi 16 einkenni í hegðun siðblindra einstaklinga 6)

 1. Yfirborðskenndir persónutöfrar og góð greind
 2. Engin blekkjandi eða óraunhæf hugsun
 3. Engin taugaveiklun eða hugsýki
 4. Ekki hægt að treysta
 5. Óheiðarleiki og fals
 6. Skortur á eftirsjá og skömm
 7. Fljótfær andfélagsleg hegðun
 8. Léleg dómgreind og lærir ekki af reynslunni
 9. Sjúkleg sjálfselska og vanhæfni til að elska
 10. Vanmáttur í að bregðast við sterkum tilfinningum
 11. Ákveðinn skortur á innsæi
 12. Skortur á viðbrögðum í almennum félagslegum tengslum
 13. Ótrúleg og ógeðfelld hegðun þegar áfengi er drukkið og stundum edrú
 14. Hótanir um sjálfsvíg leiða sjaldan til sjálfsvígs
 15. Kynlíf er ópersónulegt, hversdagslegt og ekki litað af ástríðu
 16. Vangeta til að fylgja eftir markmiðum í lífinu

Sálfræðingurinn Robert D. Hare hefur varið stórum hluta starfsævi sinnar í rannsóknir á siðblindu. Um hana hefur hann skrifað fjölda greina og bóka. Frægust bóka hans er líklega Without Conscience: The Disturbing World of the Psychopaths Among Us, sem kom fyrst út 1993.

Hare byggði að einhverju leyti á gátlista Cleckleys og hannaði sérstakt greiningartæki til að greina siðblinda einstaklinga, PLC-R („the pscyhopathy check list“ eða gátlista yfir siðblindu) ásamt fleiru. Vel að merkja leggur Hare þunga áherslu á að einungis reynt fagfólk geti greint siðblindu og handbókin um notkun listans er ekki afhent hverjum sem er (m.a. vegna þess að siðblindir fangar gætu þá lært á viðtalstæknina og logið til um svörin). Greiningin felst í hálf-stöðluðum viðtölum, ítarlegri skoðun á sögu  viðkomandi o.fl. en grunnurinn að greiningunni er þessi gátlisti. Þótt Hare taki almenningi vara fyrir að greina aðra siðblinda opinberlega (því slíkt sé einungis á færi reyndra fagmanna) er honum mjög í mun að fólk þekki einkenni siðblindu vel, til að það geti varað sig á siðblindum einstaklingum í samfélaginu.

Gr�ma siðblinduÍ PCL-R eru talin upp 20 einkenni sem eru dæmigerð fyrir siðblinda einstaklinga. „Helmingur einkennanna eru svokölluð kjarnaeinkenni siðblindu og hafa með tilfinningalíf og samskipti við aðra að gera. Hinn helmingurinn lýsir lífsstíl og andfélagslegri hegðun … Fyrir hvert einkenni er gefið 0-1-2 stig; 0 ef einkennið er ekki til staðar, 2 ef það er afgerandi til staðar og 1 ef það er einungis til staðar að hluta til. Til verður þá litróf frá 0 - 40, þar sem mest siðblindu einstaklingarnir eru með 40 stig, venjulegir þjóðfélagsþegnar með undir 5 stigum, og næst 0 stigum líklega ekki aðrir en helgustu dýrlingar. Til að fá  siðblindugreiningu þarf 30 stig (25 stig sums staðar, t.d. á Norðurlöndunum.“7)  (Nanna Briem, 2009, s. 25-26.)

Það dugir sem sagt ekki að hafa einhver einkenni af listanum því siðblinda er heilkenni, þ.e.a.s. fjöldi tengdra einkenna. Og auðvitað eru margir sem hafa einhver neðantalinna einkenna, án þess að vera siðblindir.

Einkennin í greiningarkvarða/ gátlista Roberts D. Hare8) eru þessi:  (Íslenska þýðingin er að stórum hluta byggð á grein Nönnu Briem, 2009, s. 26)

Factor 1
Aggressive narcissism

 1. Glibness/superficial charm
 2. Grandiose sense of self-worth
 3. Pathological lying
 4. Cunning/manipulative
 5. Lack of remorse or guilt
 6. Emotionally shallow
 7. Callous/lack of empathy
 8. Failure to accept responsibility for own actions
Þáttur 1
Ógnandi sjálfsdýrkun

 1. Tungulipurð / yfirborðskenndir persónutöfrar
 2. Stórmennskuhugmyndir um eigið ágæti
 3. Lygalaupur
 4. Slóttugur, falskur, drottnunargjarn
 5. Skortir á eftirsjá eða sektarkennd
 6. Yfirborðskennt tilfinningalíf
 7. Kaldlyndur / skortir samhygð 9)
 8. Ábyrgðarlaus um eigin hegðun (kennir öðrum um)
Factor 2
Socially deviant lifestyle

 1. Need for stimulation/proneness to boredom
 2. Parasitic lifestyle
 3. Poor behavioral control
 4. Promiscuous sexual behavior
 5. Lack of realistic, long-term goals
 6. Impulsiveness
 7. Irresponsibility
 8. Juvenile delinquency
 9. Early behavioral problems
 10. Revocation of conditional release
Þáttur 2
Afbrigðilegur félagslegur lífstíll

 1. Spennufíkill / leiðist auðveldlega
 2. Sníkjudýr (á öðrum eða „kerfinu“)
 3. Léleg sjálfstjórn
 4. Lauslæti
 5. Skortir raunsæ langtímamarkmið
 6. Hvatvísi
 7. Ábyrgðarleysi
 8. Afbrot á unglingsárum
 9. Hegðunarvandamál í æsku
 10. Brot á skilorði
Traits not correlated with either factor

 1. Many short-term marital relationships
 2. Criminal versatility
Einkenni sem tengjast hvorugum þættinum

 1. Mörg skammtíma ástarsambönd
 2. Fjölskrúðugur afbrotaferill

  

Þáttur 1 mælir svokölluð kjarnaeinkenni siðblindu og snýr að tilfinningalífi og samskiptum við aðra. Þáttur 2 lýsir lífsstíl og andfélagslegri hegðun. Loks eru tvo einkenni sem tilheyra hvorugum meginþáttanna.  Siðblindur einstaklingur mun skora hátt á báðum aðalþáttunum meðan sá sem er haldin andfélagslegri persónuleikaröskun skorar einungis hátt í þætti 2.

„Meðalstigafjöldi [bandarískra] karlkyns- og kvenkyns glæpamanna eru 22 og 19 stig. Einstaklingur með stig á bilinu 10 - 19 er með væga siðblindu, ef stigafjöldinn er á bilinu 20 -29 [24] eru  siðblindueinkennin töluverð …“ (Nanna Briem, 2009, s. 26). Áréttað skal að í Svíþjóð og Danmörku duga 25 stig til að teljast með fulla siðblindu. Því miður veit ég ekki hvernig þessu er varið á hinum Norðurlöndunum.

Ég þýddi útlistun Robert D. Hare á hvernig nokkur aðaleikenni siðblindu koma fram, sjá Nánari útlistun á sumum einkennum siðblindu í gátlista Roberts D. Hare (PLC).

Svo bendi ég á norska síða, „Kjenntegn på psykopati“, á doktoronline sem telur einkenni siðblindu nokkuð öðru vísi enda byggir greiningin ekki á gátlista Hare heldur annars amerísks geðlæknis.

    

Ég reikna með að blogga fleiri færslur um siðblindu og hugsanlega endar þetta efni einhvern tíma á vefsíðum.

Sjá einnig Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, II. hluti.

   

Tilvísanir (því miður gengur ekki að krækja í akkeri í þessu bloggumhverfi svo uppsetningin er dálítið óhöndugleg).

1. Hare, Robert D. 1999, bls. tal vantar. Without Conscience: The Disturbing World of the Psychopaths Among Us. Guilford Press, New York.

2. Coid J, Yang M, Ullrich S, Roberts A, Hare RD. 2009. „Prevalence and correlates of psychopathic traits in the household population of Great Britain“ í
International  Journal of  Law and Psychiatry. 2009 Mar-Apr;32(2):65-73. Hér er vitnað í PubMed útdráttinn,  skoðaður 6. jan. 2011.

3. Sjá t.d. Poulsen, Henrik Day. 2004. „Hverdagens psykopater“ í Psykiatri-Information 2004/1, útg. af PsykiatriFonden: „Der er en klar overvægt af mænd, idet man regner med, at 2-4% af alle mænd, men kun ca. 1% af alle kvinder, er psykopater. Det vil med andre ord sige, at man kan regne med, at der i Danmark findes omkring 200.000 psykopater …“ og

DYSSOCIAL PERSONLIGHEDSFORSTYRRELSE, á NetPsykiater.dk, skoðað 6. janúar 2011: „I alt skønnes det at ca. tre procent af mændene og en procent af kvinderne har denne personlighedsforstyrrelse“ og

Personlighetsstörningar - kliniska rigtlinjer för utredning och behandling, Svensk psykiatri nr .9, 2006, útg. af Svenska psykiatriska Föreningen och Gothia, s. 59: „Prevelansen af antisocial personlighettstörning  i normalbefolkningen har rapporteras til 1-3%.“

Líkast til liggur munurinn á meintu algengi í mismunandi flokkunarkerfum. Hugsanleg en ekki líkleg skýring er að á Norðurlöndunum er gerð krafa um lægra skor á PCL-R greiningarlykli Roberts D. Hare en í Bandaríkjunum (sjá tilvísun nr. 7).

4. Nanna Briem. 2009. „Um Siðblindu“ í Geðvernd 38. tbl., s. 25.

5. Sjá t.d. Hervé, Hugues. 2004. „Psychopathic subtypes: Historical and Contemporary Perspectives“ í The Psychopath: Theory, Research, and Practice, s. 431-460. Routledge, Bandaríkjunum, Skoðað á Google bækur þann 6. janúar 2011.

6. Cleckley, Hervey M. 1988, 5. útg. The Mask of Sanity, s. 338-339 í pdf-skjali af bókinni

7. Svo virðist að glæpamenn í fangelsum í Svíþjóð, Kanada og Bretlandi skori lægra á gátlista Hare yfir siðblindu en bandarískir glæpamenn  þótt þeir hafi að öðru leyti jafnsterk einkenni siðblindu og forspárgildi greiningarinnar fyrir endurteknum glæpum sé hið sama. Sjá um þetta t.d.  Hare, Robert D., Danny Clark,  Martin Grann; David Thornton, „Psychopathy and the predictive validity of the PCL-R: an international perspective“ í Behavioral Sciences & the Law, okt. 2000, 18. árg., 5. tbl., s. 623-645. Sjá einkum s. 625. Skoðað á Vefnum (pdf.skjal) þann 6. janúar 2011.

8.  Hare, Robert D. 1999, s. 33-34. Sjá einnig PCL-R listann og umfjöllun á Wikipediu.

Gátlisti og greiningaraðferð Hare hefur ekki verið viðurkennd í þeim tveimur greiningarkerfum geðlæknisfræðinnar sem einkum er stuðst við í hinum vestræna heimi, þ.e. evrópska kerfið frá Heilbrigðisstofnun Sameinuðu þjóðanna (WHO) og kerfi Bandarísku geðlæknasamtakanna (APA). Þessi greiningarkerfi gera ráð fyrir andfélagslegri persónuleikaröskun en Hare og fleiri hafa haldið því fram að siðblinda sé tiltölulega fámennur undirflokkur hennar. (Sjá um þessi greiningarkerfi síðuna „Antisocial personality disorder“ á Wikipediu.) Bandarísku geðlæknasamtökin gefa út Greiningar- og tölfræðihandbók fyrir geðræna sjúkdóma (Diagnostic and Statistical Manual of Mental Disorders) og er nú notuð útgáfan DSM-IV. Þar er fjallað um andfélagslega persónuleikaröskun en það er miklu víðari skilgreining en siðblindugreiningarlykill Roberts Hare.

Aftur á móti er þessi Greiningarhandbók í endurskoðun og er stefnt að útgáfu DSM-5 í maí 2013. Skilgreiningu á andfélagslegri persónuleikaröskun hefur verið gerbreytt í drögum að DSM-5 og segir:  „The work group is recommending that this disorder be reformulated as the Antisocial/Psychopathic Type“ og telur svo upp höfuðeinkenni í lista Hare. Sjá „301.7 Antisocial Personality Disorder“ í  American Psychiatric Association DSM-5 Development, skoðað 6. jan. 2011.

Það má því ætla að greiningarlykill Hare muni hafa æ meiri áhrif á næstu árum.

9. „Empathy“ er ýmist þýtt sem samhygð eða samkennd (samlíðan kæmi líka til greina). Átt er við hæfileikann til að finna til samkenndar með öðru fólki þegar það upplifir tilfinningar eins og t.d. gleði eða sorg. Venjulegt fólk ber ekki aðeins kennsl á slíkar tilfinningar annarra heldur getur líka fundið þær hjá sjálfu sér; samglaðst eða samhryggst.
 

Ummæli (15) | Óflokkað, Siðblinda

3. janúar 2011

Ekki sama öryrki og öryrki

Þunglyndi eftir Van GoghÉg er 100% öryrki og hef verið metin svo til loka árs 2012 (ekki þar fyrir - ég myndi fagna því mjög að þurfa ekki að vera öryrki og batna eitthvað fyrir þann tíma … öfugt við það sem einhverjir virðast halda þá “gerast” menn ekki öryrkjar að gamni sínu).

Nú datt mér í hug að gott væri að eignast örorkuskírteini því það veitir af afslátt af  læknisþjónustu og fleiru. Þess vegna hringdi ég í LSR því ég þigg örorkulífeyri þaðan (sem eru áunnin réttindi mín í þessum lífeyrissjóði). Rétt er að taka fram að það tekur um fjóra mánuði að afgreiða örorkuumsókn hjá LSR, senda þarf inn margvísleg gögn og ítarlegt læknisvottorð og öryrkjamatið er framkvæmt af trúnaðarlækni, sem vill svo til að er sérfræðingur í mínum sjúkdómi. LSR gefur ekki út örorkuskírteini en vísaði á Tryggingarstofnun ríkisins.

Ég hringdi þangað áðan og tók um hálftíma að ná sambandi við manneskju af holdi og blóði. Sú svaraði því til að Tryggingastofnun ríkisins gæfi eingöngu út örorkuskírteini fyrir öryrkja á sínum vegum, þ.e.a.s. þá sem þiggja örorkulífeyri frá TR. Ég sagði henni að ég ætti náttúrlega engan rétt á örorkubótum frá TR af því ég sæki örorkulífeyri úr mínum lífeyrissjóði. Konan svaraði því til að ég ætti samt að sækja um örorkulífeyri hjá TR, það gerðu margir sem ekki ættu neinn rétt á fébótum en vildu öðlast réttindi; Ekki væri nóg að senda afrit af örorkumati LSR því læknar TR yrðu að meta hvert tilvik fyrir sig og annað ekki tekið gilt. Það tæki 6 - 8 vikur að afgreiða umsóknina.

Mér finnst ákaflega merkilegt að hjá TR skuli starfa læknar sem eru æðri öðrum sérfræðilæknum eða trúnaðarlæknum sem meta örorku fyrir hönd lífeyrissjóða. Þetta hljóta að vera miklir læknasnillingar.

Nú er talsvert mál að sækja um svonalagað, þarf að senda vottorð (ég átta mig reyndar ekki á hver er munurinn á læknisvottorði og “skoðun hjá sérfræðilækni” en hvort tveggja þarf að uppfylla), tekjuáætlun, umsókn, fylla út fáránlegan sjálfsmatslista ( sjá Spurningalisti vegna færniskerðingar ) o.fl. 

Auk þess veitir umsækjandi TR leyfi til víðtækra persónunjósna um sig, með undirskriftinni á umsókninni (heimilar “Tryggingastofnun og umboðsmönnum að afla upplýsinga um tekjur hjá skattyfirvöldum, lífeyrissjóðum, Atvinnuleysistryggingasjóði, Vinnumálastofnun og sambærilegum stofnunum erlendis, þegar við á, með rafrænum hætti eða á annan hátt”).  Til samanburðar má nefna að LSR hefur ekki aðgang að slíkum gögnum en lætur umsækjanda sjálfan senda inn afrit af skattframtali síðustu þriggja ára, sem er í sjálfu sér vesen en miklu skárra en leyfa öðrum að snuðra í svoleiðis gögnum, “með rafrænum hætti eða á annan hátt”.

Miðað við allt vesenið og skotleyfið sem maður gefur á sitt einkalíf held ég að ég sleppi frekar þessu öryrkjakorti. En mér finnst fáránlegt að í “velferðarkerfinu” skuli ekki vera sama Jón og séra Jón; að öryrki sé ekki sama og öryrki og TR skuli akta sem einhvers konar einkaleyfisskrifstofa fyrir öryrkjaskírteini. Er ekki réttara að kalla öryrkjaskírteini “öryrkjaskírteini TR”? Er þetta ekki eitthvað sem hann Gutti þyrfti að huga að?

Ummæli (11) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf