Færslur frá 11. janúar 2011

11. janúar 2011

Dásemdir læsis

Prjónaður heiliUndanfarna mánuði hef ég verið ólæs í þeim skilningi að ég hef ekki getað haldið þræði í bók og gleymt jafnharðan því sem ég las. Fyrir svona mánuði síðan komst ég upp á lag með að skanna vefsíður og vefmiðla … svo tókst að skanna bækur og taka úr þeim punkta og skoða í þeim myndirnar, ekki mikið meira.

Af þessu hefur leitt að ég hef einkum lesið (og skrifað) um tvö áhugamál mín, sem hafa undanfarið verið saga prjónatækninnar og siðblinda. Þarf varla að taka fram hve hamingjusöm ég varð þegar ég fann frétt um konu sem samþættir einmitt þetta tvennt: Áhuga á geðveilum og áhuga á prjónaskap! Sú er geðlæknir og hefur lagt á sig að prjóna heilan heila … ég sé reyndar strax í hendi mér að heilaprjón er bráðsniðug aðferð til að nýta afganga. Til vinstri sést prjónaði heilinn, smella má á myndina til að glöggva sig betur á stykkinu (eða heilanum) og fréttina um geðlækninn sem prjónaði hann má lesa hér.

En í gærkvöldi las ég heila bók, var reyndar enga stund að því enda bókin stutt og ég gjörkunnug efninu. Þetta var stór áfangi! Bókin sú arna heitir Sýnilegt myrkur. Frásögn um vitfirringu og er eftir William Stryker (kom út núna fyrir jólin í ritröðinni Lærdómsrit bókmenntafélagsins). Höfundurinn er heimsþekktur rithöfundur, sennilega kannast flestir við bók hans (eða myndina sem gerð var eftir bókinni) Sophie’s Choice. Hana hef ég ekki lesið og ekki séð myndina af því ég veit söguþráðinn og er of viðkvæm sál fyrir svoleiðis.

Satt best að segja bjóst ég ekki við sérlega miklu fyrirfram, fordómafull sem ég er, auk þess sem undirfyrirsögnin, “Frásögn um vitfirringu” truflaði mig. En bókin kom gleðilega á óvart: Þetta er fantagóð bók um þunglyndi, sem ég mæli mjög með. Reyndar tekur höfundurinn það skýrt fram að ekki sé hægt að lýsa þunglyndi fyrir þeim sem aldrei hafa veikst af sjúkdómnum. Samt er þetta ein besta lýsing sem ég hef lesið en ég get náttúrlega ekki gert mér í hugarlund hvernig einhver sem ekkert þekkir til þessa hryllilega sjúkdóms upplifir eða skilur bókina. Það eina sem mér fannst að henni var að hún er ekki nógu vel þýdd og enskan skín ansi mikið í gegn. (Þetta kom mér líka á óvart, ég hélt að kröfurnar sem gerðar eru til Lærdómsrita bókmenntafélagsins væru mjög miklar.)

Tvíefld eftir að hafa komist gegnum Sýnilegt myrkur á engri stund skellti ég mér í Af heimaslóðum. Brot af sögu Helgu og Árna Péturs í Miðtúni og samfélagsins við Leirhöfn á Melrakkasléttu, eftir Níels Árna Lund. Mér fannst fyrsti fjórðungurinn frekar skemmtilegur en það sem eftir er bókarinnar er tæplega áhugavert fyrir aðra en þá sem þekkja þetta fólk. Ég veit bara hvaða fólk þetta er, sumt, get ekki sagt að ég þekki það neitt. Svo ég lagði frá mér bókina og fór að skoða dúkkulísufræði (Pigedrømme - om danske påklædninsdukkers historie … frábær myndabók) og prjónafræði (Kvardagsstrik. Kulturskattar fra fillehaugen … einnig frábær bók með hellingi af myndum). Í kvöld verður gerð atlaga að reyfara.

Eiginlega varð ég svolítið móðguð yfir hvað Níels Árni Lund skautar framhjá forfeðrum mínum. Ég meina: Það voru bara tvö hús á Raufarhöfn snemma í sögunni, í öðru bjuggu langafi hans og amma - seinna afi hans og amma  og í hinu langafi minn og langamma - auk afa og ömmu seinna. Og langafi Níelsar var bróðir langömmu minnar - þannig að hann hefði nú mátt minnast meir á mitt fólk en bara í setningunni: “Þetta þykir nokkuð fínt fólk, bráðmyndarlegt og yfir því mikil reisn.” (s. 36) Ekki svo að skilja að ég sé ekki sammála þessari lýsingu á langafa og langömmu og er ekki frá því að yfirbragðið hafi erfst allar götur síðan ;)

Gr�mur LaxdalEn ég las samviskusamlega um Grím Laxdal, bróður langömmu sem fluttist til Vesturheims. Hafði einstaklega kvikindislegt gaman af því hvernig Níels Árni reynir að draga úr vísbendingum um að karlinn hafi verið alki og fannst athyglisvert að sjá hvað hægt er að kóa mörgum kynslóðum seinna. T.d. lá það orð á Grími Laxdal meðan hann bjó á Íslandi að hann hefði verið nokkuð drykkfelldur (sem kæmi mér ekkert á óvart að liggi kannski í þessum Laxdals-genum þvers og kruss). Um Grím segir í bókinni: “Grímur var orðlagt glæsimenni og mikill persónuleiki … Það fylgir sumum frásögnum um Grím að honum hafi þótt sopinn góður hér heima á Íslandi og verið talinn nokkur bóhem. Varlegt getur verið að treysta slíkum sögum; í þeim efnum getur fjöðrin orðið að hænsnahópi fyrr en varir. Vel má hins vegar vera að hann hafi á sínum yngri árum neytt víns umfram aðra, en víst er að hann hefði ekki notið þeirrar virðingar í Vesturheimi, eftir að fjölskyldan flutti þangað sem fjöldi staðreynda ber vitni um, ef hann hefði látið Bakkus stjórna lífi sínu.” Svo er vitnað í konu hans, Sveinbjörgu, sem sagði víst þegar hún var spurð út í hegðun eiginmannsins “að horfa skyldi einnig á björtu hliðarnar - og “líttu til annarra”. Átti þar við að aðrir hefðu það ekki betra en hún. “(s. 38)

Af áratuga reynslu af ölkum og aðstandendum af öllu tagi sá ég strax að Sveinbjörg var meðvirkari en allt sem meðvirkt er, af þessum orðum að dæma. Svolítið seinna í bókinni er vitnað í barnabarn þeirra vestra sem segir: “Já það er rétt að lengst af bjuggu þau lítið saman Grímur og Sveinbjörg en ástæða þess gæri hafa verið fjármálalegum ástæðum og einnig hitt að þau eignuðust í raun aldrei neitt heimili … Amma og afi bjuggu alltaf hjá börnum sínum en ekki alltaf á sama tíma.” (s. 53) Sama barnabarn segir líka: “Með aldrinum varð hann bráðari í skapi. Honum líkaði ekki líkamleg vinna og gafst upp á heimilinu og hélt til hjá börnum sínum.” (s. 42) Aftur á móti er snyrtilega breitt yfir þetta ástand í minningargrein um Sveinbjörgu: “Frú Sveinbjörg var um flest mikil gæfukona; hún naut um langa ævi samvistar ágæts eiginmanns, börn þeirra mönnuðust vel …” (s. 55).

Af þessum tilvitnunum er nokkuð augljóst hvernig var ástatt fyrir þeim Grími og Sveinbjörgu. En lýsingin í bókinni minnti mig dálítið á þá sem ekki mega heyra á það minnst að Jónas Hallgrímsson hafi verið langt genginn alkóhólisti þegar hann lést (þótt krufningarskýrslan sé til … minnir að megi lesa hana í Tímanum og tárinu hans Óttars Guðmundssonar) eða eru uppfullir af þeirri hugmynd að Kristján Fjallaskáld hafi óvart drukkið sig í hel út af ástarsorg (og þ.a.l. beri einhver stúlkukind á Hólsfjöllum alla sök á dauða skáldins) eða einhverjum álíka bábiljum. Ég get ekki séð að það kasti neinni rýrð á Jónas að hann hafi verið veikur alki; snilldarverk hans á sviði skáldskapar og náttúrufræði verða enn rismeiri ef maður veit að maðurinn hafði ekki fulla starfsorku. Og Grímur langömmubróðir minn var jafn merkilegur maður þótt hann hafi sennilega verið alki, sem meðvirka eiginkonan gafst að lokum upp á.

(Myndin er af Grími og Þórði syni hans. Sjá má stærri mynd með því að smella á þá litlu. Þetta var vissulega glæsimenni og Níels Árni getur verið stoltur af langafa sínum!)

  

Ummæli (0) | Óflokkað, Bækur, Daglegt líf, handavinna