Færslur frá 16. janúar 2011

16. janúar 2011

Í hjónabandi með siðblindum

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er: http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, III hluti

(Finna má aðrar færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda, sjá Flokka hér til hægri.) 
 

Ath. að margt af því sem kemur fram í færslunni um fórnarlömb ofbeldis, lýsingar á ofbeldi, afleiðingar ofbeldis o.s.fr. á við margar fleiri en þær sem búa með siðblindum. Þetta eru einkenni sem koma fram í ofbeldissamböndum almennt. Má t.d. ætla að aðstandendur alkóhólista kannist hér við fjöldamargt, sem og fleiri. Langt gengnir alkóhólistar þróa enda með sér talsvert af siðblindueinkennum. (En á hinn bóginn eiga þeir möguleika á að ná bata, sem gildir ekki um siðblinda, eftir því sem best er vitað nú.) 

* „Ég veit hann fer illa með mig en ég elska hann.“

Sambúð með siðblindum einstaklingi byrjar oft sem spennandi og eldheitt ástarsamband. Konan [að sjálfsögðu getur þetta einnig átt við karl en af því siðblindar konur eru miklu færri en karlar er þolandi siðblinds eintaklings oftast kvenkennd í þessari færslu] er  blinduð og upp með sér af gullhömrum þess siðblinda, áhuga hans og kappsemi og fellst á allar uppástungur hans og áætlanir. Þegar siðblindur finnur konu sem honum líkar, sem dáist að honum og elskar hann og mótmælir honum ekki, fyllist hann oft þrá til að tryggja sér slíka manneskju. Margar sem hafa búið með siðblindum lýsa upphafi sambandins eins og vera veiddar í net.

Þegar sambúðin versnar er dæmigert að maður voni stöðugt að makinn muni bæta sig. þegar hann sýnir ást og ástúð er létt að fyrirgefa og halda að allt verði nú betra. En það verða ekki nein kraftaverk sem láta hann hætta að fara illa með makann. Hann gæti sagt slíkt, lofað því, já meira að segja grátið og beðið sér griða. En orð og loforð hafa lítið vægi, það hefur mörg konan sem hefur lifað í ofbeldissambandi fengið að reyna. Það er bara spurning um tíma hvenær hann er aftur kominn í stríðsham. (Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 182-183.)

Kona sem fer í samband við siðblindan verður fyrst og fremst að verða undirgefin undir algera stjórn hans. Sumar konar eru fastar í þeirri fögru blekkingu að ef þær haldi út nógu mikla þjáningu þá verði allt fullkomið að lokum. Hver og ein telur að hún sé sú eina sem þolir misbeitingu hans, elski hann og tolli hjá honum. Fyrr eða síðar muni hann svo skilja hve frábær hún er. Þetta er hin bjartsýna trú á að hið góða muni sigra hið illa. Á móti kemur að hinn siðblindi getur ráðskast með vonir hennar með því að vera vingjarnlegur skamma stund og ýtt þannig undir væntingar hennar um að allt muni breytast. Með því að leika sér að von konunnar tryggir sá siðblindi að konan verði áfram háð honum því þessi hegðun hans styrkir óskir hennar að gera honum til hæfis. (Tranberg, Peter. Óársett, s. 61.)

Konur sem halda stíft í hefðbundin kvenhlutverk í sínum samböndum við karla lenda í miklu veseni ef einhver þeirra er siðblindur. Á hinn bóginn getur siðblindur maður kvæntur konu sem vill fyrst og fremst vera „góð eiginkona“ lifað afar þægilegu lífi. Heimilið verður honum griðastaður og öryggisnet þaðan sem hann getur hrint áætlunum sínum í framkvæmd og staðið látlaust í öðrum skammtímasamböndum við aðrar konur. Langþjáð eiginkonan veit venjulega hvað er í gangi en henni finnst að hún verði að halda heimilinu saman, sérstaklega ef börn eru í spilinu. Hún kann að trúa því að ef hún leggi harðar að sér eða bara bíði þetta af sér þá muni eiginmaður hennar breytast til batnaðar. Á sama tíma ýtir hlutskiptið sem hún hefur valið sér undir sektartilfinningu hennar og sjálfsásakanir um að óhamingja sambandsins sé henni að kenna. Þegar hann hunsar hana, misnotar eða svíkur hana gæti hún sagt við sjálfa sig: „Ég ætla að leggja mig enn meira fram, eyða meiri orku í sambandið, hugsa betur um hann er nokkur önnur kona gæti nokkru sinni gert. Og þegar mér tekst þetta mun hann sjá hve ég er honum mikils virði. Hann mun koma fram við mig eins og drottningu.“ (Hare, Robert D., s. 152-153.) Sjá Dæmi 4.
 

* Andlegt ofbeldi, hótanir og sjúkleg afbrýðisemi

Andlegt ofbeldiKonur sem eru beittar líkamlegu ofbeldi eru oft beittar andlegu ofbeldi í leiðinni. Og einnig er til í dæminu að siðblindur beiti einungis andlegu ofbeldi. Það getur falist í stöðugum yfirheyrslum, auðmýkjandi ummælum, sjúklegri afbrýðisemi og stjórnunartaktík. Margar konur segja að andlega ofbeldið sé verra en vera lamin. (Tjora, E. 1996. „Kvinnemishandling, et alvorlig helseproblem“ í Medicinsk årbog 1996,s. 23-31. Norli, Oslo. Tilvitnun í Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 183.)  Smáræði eins og að kaffið sé kalt getur leyst úr læðingi reiði hins siðblinda. Þeir hafa ofboðslega þörf fyrir stjórn og allt sem fellur utan þess regluverks sem þeir hafa sett er ögrandi. Í ofbeldisfullu sambandi óttast fórnarlambið sífellt átök. Konan eyðir miklum tíma í að haga öllu eftir því sem makinn vill svo hann geti ekki fundið neitt að henni, heimilishaldinu eða matseldinni.

Andlegt ofbeldi er til þess að brjóta niður sjálfsálit konunnar og tryggja þörf ofbeldismannsins fyrir völd og stjórn. Til þessa notar hann gjarna beinar eða óbeinar hótanir: „Ef þú reynir að fara frá mér drep ég þig“ eða „Ef þú heldur ekki kjafti núna veit ég ekki hvað ég geri“. Hann kann að hóta konuninni með drápi, að hún verði brotin niður líkamlega og andlega eða verði misþyrmt og afmynduð svo enginn annar karl muni nokkru sinni líta við henni.

Annað merki um stjórnunaráráttu sem fer úr böndunum er þegar konan verður að gera grein fyrir hverri krónu sem hún eyðir, jafnvel að karlinn kaupi öll hennar föt og ráði hverju hún klæðist.

Sjúkleg afbrýðisemi er algeng í ofbeldissamböndum. Öll samskipti við aðra, þótt það sé bara að skiptast á nokkrum orðum við póstinn, eru túlkuð sem tilraun til framhjáhalds, að fara bak við hann. Þetta er oft hrein yfirvörpun því hinn siðblindi er ósjaldan ótrúr sjálfur. Hin sjúklega afbrýðisemi kemur t.d. fram í yfirheyrslum um með hverjum hún hafi verið og hvað að gera. Endurteknar ásakanir sem varða fyrri sambönd og kynlífsupplifanir eru líka algengar.

Einangrun tengist sjúklegri afbrýðisemi og þörf fyrir stjórn. Karlinn reynir að hindra konuna í að hitta vini og fjölskyldu, fara eina út eða ferðast eina. Þetta getur jafnvel komið fram í „vingjarnlegum“ athugasemdum eins og „Ég elska þig svo heitt að ég vil ekki að neitt komi fyrir þig“. Fólk sem er nánast haldið föngnu, hvort það hefur verið tekið í gíslingu eða er í gíslingu í eigin hjónabandi, finnur oft fyrir sterkum sálfræðilegum tengslum við ofbeldismanninn.

Andlegt ofbeldi felst oft í niðurlægingu. Makinn kallar konuna kannski „hóru“, „tussu“  eða álíka og heldur því fram að hún sé ljót og lítt aðlaðandi, léleg í rúminu eða heimsk. Kynlífið gæti líka verið niðurlægjandi vegna þess að konan er þvinguð til að taka þátt í kynlífsathöfnum sem hún vill ekki. (Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 183-185.)

Konur sem búa með siðblindum mönnum venjast því oft að sambandið einkennist af dramatík og rifrildi. Eða þær reyna að gleyma öllum slæmu uppákomunum og einbeita sér að þeim fáu góðu. Það er auðvitað erfitt að viðurkenna fyrir sjálfri sér að maður hafi gert svona mistök í makavali. Margar konur hafa reynt „að elska hinn siðblinda frískan“ en það er vonlaust verk. Að reyna að opna augu makans er unnið fyrir gýg. Það þýðir  heldur ekkert að nota lærða samskiptatækni á siðblindan því hún krefst heiðarleika og samvinnu. Siðblint fólk skortir hæfileikann til að skilja hvernig öðrum líður. Fyrir siðblindum er mikilvægast að vinna hverja orustu. Þess vegna er svo erfitt að finna lausn á vandanum sem bæði geta sætt sig við.(Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 188.)
 

* Varnaðarviðbrögð fyrir þig sjálfa

Susan Forward, sem skrifaði bókina Man who hate women and women who love them (fyrst útg. 1986, gefin úr í norskri þýðingu 1988, Menn som hater kvinner og kvinnene som elsker dem) hefur gert eftirfarandi gátlista fyrir konur sem grunar að þær séu beittar andlegu ofbeldi (tilv. tekin úr Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 180-181):

 • Að hafa á tilfinningunni að það sé sífellt verið að tékka á þér.
 • Afbrýðisemi makans keyrir úr hófi og hann virðist hafa þörf fyrir að eiga þig með húð og hári.
 • Makinn talar stöðugt niður til þín.
 • Makinn er alltaf með skammir og hótanir.
 • Makinn beitir þöggun, þ.e. dregur sig ískalt í hlé og talar ekki við þig klukkustundum eða dögum saman.
 • Makinn hefur gaman af því að gera særandi gys að þér við aðra, tala t.d. hástöfum um galla þína eða segir öðrum hvað þú sért vonlaus í rúminu.
 • Þú upplifir ruglandi framkomu, þ.e. makinn er ýmist undurgóður eða umhverfist algerlega, af litlu eða engu tilefni.
 • Þú ert alltaf sökudólgurinn.
 • Þú ert byrjuð að tipla á tánum kringum makann, þorir ekki að viðra skoðanir þínar og segir ekkert að óhugsuðu máli, til að forðast reiðiköst og þöggun.

Ef þú kannast við einhver af þessum einkennum kann að vera að þú sért í ofbeldissambandi. Reyndu að safna kjarki til að tala við einhvern sem þú treystir um þetta. Þú getur líka talað við fagmenn eins og lækni, sálfræðing, prest, geðhjúkrunarfræðing eða félagsráðgjafa. Það getur verið erfitt að tala um þetta og kannski er best að nefna einstök dæmi til að aðrir eigi betra með að skilja ástandið. Loks má nefna hið dularfulla bragð þeirra sem beita andlegu ofbeldi, sem kallast „Gaslighting“ („Gaslýsing“). Nafnið er fengið úr leikritinu Gas Light, frá 1938, sem seinna voru gerðar kvikmyndir eftir. Leikritið fjallar um eiginmann sem reynir að gera konu sína vitfirrta með því t.d. að færa til hluti á heimilinu og halda því fram hana misminni eða hún taki feil þegar hún nefnir breytingarnar. Titillinn vísar til þess að eiginmaðurinn dimmir gasljósin á heimilinu smám saman og reynir að telja konu sinni trú um að slíkt sé alls ekki raunin heldur sé hún að ímynda sér þetta.

„Gaslýsing“ þýðir því að alls konar rangar upplýsingar eru gefnar fórnarlambinu í því augnamiði að fá það til að efast um eigið minni og skynjun; fá fórnarlambið til að efast um eigin geðheilsu. Þær sem hafa búið með siðblindum efast stundum um að þær muni upplifun sína rétt enda eru siðblindir miklir blekkingameistarar. Meira að segja þeir sem hafa barið eiginkonur sínar (eða aðrar konur) kunna að afneita því algerlega og ásaka þær um tilbúning og geðveiki. Sjá nánar um  „Gaslighting“ á Wikipedu og á Encounters of the Psychopathic Kind.  
 

* Konur sem vilja búa með siðblindum

Til er í dæminu að fólk ani með opin augu inn í samband við einstakling sem allir vita að er siðblindur. J. R. Meloy (1993. Violent Attachments. Tilvitnanir í Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 203 - 204) hefur sérstakalega rannsakað hvaða sálfræðilegir þættir valdi því að sumar bindast mjög ofbeldisfullum siðblindum sem þær hafa verið margvaraðir við. Hvað rekur þær áfram sem af fúsum og frjálsum vilja bindast morðingjum og afbrotamönnum? Við heyrum af konum sem beinlínis vilja giftast slíkum mönnum og stofna með þeim fjölskyldu um leið og þeim verður sleppt úr fangelsi. [Á Norðurlöndunum er sennilega frægast dæmi um slíkt konan sem giftist Peter Lundin.] Meloy telur hluta svarsins felast í ómeðvitaðri samsömun með  hinum siðblinda.

Hann talar annars vegar um masókíska samsömun, sem feli í sér að  bindast persónu sem endurgeldur að miklu leyti með árásargirni og slæmri meðhöndlun. Þetta telur Meloy að tengist slæmu uppeldi í bernsku þar sem barn hafi yfirfært sársaukafulla meðferð af hendi foreldra á að hún tákni að barnið sé foreldrunum einhvers virði, sé pabba eða mömmu einhvern veginn nátengt. Til að vera í sambandi við ofbeldisfullan siðblindan verður hinn aðilinn að lúta algerri stjórn hins siðblinda. Makinn umbreytir þessu í tilfinninguna um að hafa stjórn yfir hinum siðblinda. Árásargjarnt atferli hins siðblinda verður þannig endurupplifun af bernskutengslum við lélega foreldra. Móðganirnar / brotin verða sönnun þess að það eru sterk bönd við persónu sem hefur a.m.k. áhuga á manni jafnvel þótt persónan sé andstyggileg.

Hitt sem Meloy nefnir er sadistísk samsömun með ofbeldi hins siðblinda. Einhverjir þeirra sem tengjast siðblindum virðast ómeðvitað hafa ánægju af sadisma hans gegn öðrum. Þekkt dæmi úr kvikmyndum er samband Bonnie við Clyde.

Lokkandi siðblindurUpphafning og afneitun virðast líka vera ráða afar miklu hjá þeim sem bindast siðblindum vitandi vits. Það er eins og konan sé algerlega blind fyrir hve sá siðblindi er hættulegur og niðurlægjandi. Það er eitthvað við siðblinda hegðun sem virkar ákaflega lokkandi og æsandi. Þetta fær konuna til að trúa blekkingum og lygum hins siðblinda. Hún afneitar hættumerkjunum sem sjást í fortíð þess siðblinda og núinu einnig og skrumskælir veruleikann þannig að hann passi við eigin hugmyndir um þennan spennandi mann. Sjá Dæmi 5 og Dæmi 6.

Susan Forward (1988, s. 36 - 37, tilvitnun í Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 204) hefur gert lista yfir hvernig konur í afneitun draga oft  fjöður yfir hegðun siðblindra maka: „Já, hann hefur verið þrisvar kvæntur áður en enginn hefur skilið hann á sama hátt og ég geri.“;  „Ég veit að hann hefur farið illa út úr viðskiptum en hann hefur líka átt samstarfsaðila í röðum sem hafa svikið út úr honum peninga.“;  „Hann talar mjög illa um fyrrverandi eiginkonu sína en það er nú eiginlega ekki svo skrítið því hún var hræðilega gráðug og sjálfselsk.“;  „Ég veit að hann drekkur of mikið en hann er í erfiðri aðstöðu núna og um leið og það lagast veit ég að hann hættir.“;  „Hann gerði mig verulega hrædda þegar hann reiddist en akkúrat núna er hann undir gífurlegu álagi.“;  „Hann varð alveg  bálreiður þegar ég var honum ósammála en engum líkar jú að aðrir séu ósammála þeim.“;  „Hann getur alls ekki gert að því að hann hefur svona erfitt skap, hann átti mjög óhamingjusama æsku“. „Hann gerði þetta bara af því …“ er sem sagt sígild leið makans til að draga úr eða afsaka til að viðhalda upphafningu sinni af hinum árásargjarna siðblinda.
 

* Fjölskylduráðgjöf

Margar konur sem illa er farið með reyna árangurslaust að leita eftir fjölskylduráðgjöf. Siðblindur maki er venjulega á móti hvers konar meðferð eða ráðgjöf frá utanaðkomandi. Fallist hann á ráðgjöf er það einungis vegna þess að hann telur sig græða eitthvað á því. Og stundum gerir hann það. Þegar fundað er með ráðgjafanum kann fórnarlambið að upplifa að árásarmaðurinn lýsi sinni kæru fjölskyldu með jákvæðu og skilningríku orðalagi. Spurningar um andlegt ofbeldi eru fljótafgreiddar með því að þetta hafi nú verið allt í gríni og fórnarlambið skorti kímnigáfu. Fórnarlambið þorir fyrir sitt leyti ekki að segja frá hvernig ástandið raunverulega er innan veggja heimilisins af ótta við hefnd þegar þau koma heim. Þannig kemur sá siðblindi fyrir sem hæfileikaríkur og sannfærandi og fórnarlambið sem lítilhæf og framtakslaus manneskja. Margar konur hafa upplifað fjölskylduráðfgjöf sem niðurlægingu. Valdajafnvægi í sambandi sem einkennist af ofbeldi er þannig að venjuleg fjölskylduráðgjöf og tilraunir til að sætta fólk hafa ekkert að segja. Slíkt nýtist fyrst og fremst til að laga ósamkomulag milli maka sem standa jafnfætis. (Tjora, 1996, tilvitnun í Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 189.)  Sjá Dæmi 7  (sem á reyndar einnig vel við kaflann um líkamlegt ofbeldi, hér á eftir).
 
 

* Líkamlegt ofbeldi / Heimilisofbeldi

Í meðhöndlun / meðferð kvenna sem hafa verið beittar ofbeldi eða verið nauðgað eða barna sem hafa verið kynferðislega misnotuð kemur reglulega fram að árásarmaðurinn hefur siðblinda þætti eða er siðblindur. Árásarmennirnir sjá ekki eigin galla, kenna fórnarlömbunum alfarið um og óska sjálfir hvorki eftir sambandi [við meðferðaraðila] né meðferð. (Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 14.)

Robert D. Hare segir: „Í nýlegri rannsókn könnuðum við hóp manna með PCL listanum (gátlista yfir siðblindu), sem voru þátttakendur ýmist af fúsum og frjálsum vilja eða tilneyddir í meðferðarprógrammi fyrir þá sem berja eiginkonur sínar. Við fundum út að 25% karlmannanna í hópnum voru siðblindir, sem er sambærilegt við þá útkomu sem fæst þegar fangar eru prófaðir. Við vitum ekki hve hátt hlutfallið er í hópi þeirra manna sem ekki sækja meðferðarprógramm en ég reikna með að það sé a.m.k. jafnhátt.“ (Hare, Robert D., 1999, s. 94.)

Siðblindur snákurSálfræðingurinn Neil S. Jacobson komst að athyglisverðum niðurstöðum þegar hann tók samtöl 60 hjóna þar sem karlinn hafði beitt ofbeldi upp á myndbönd og mældi hjartslátt karlanna í leiðinni. Flestir karlanna æstust upp í þessum samræðum og hjartslátturinn varð örari. En í um 20% karlanna hægði á hjartslætti, þrátt fyrir að þeir væru sýnilega reiðir og árásargjarnir. Jacobsen dró þá ályktun að þeir væru siðblindir og lækkun hjartsláttartíðni bæri vott um að þeir einblíndu á heppilega leið til ná stjórninni og héldu aftur af æsingnum. „Eftir að hafa skoðað myndböndin af þessum gaurum sá ég fyrir mér líkindin með höggormi, blínandi á bráð sína, tilbúinn að ráðast á hana.“ (Tilvitnun í Cooke, David J., Adelle E. Forth og Robert D. Hare. 1997. Psychopathy: Theory, Research, and Implications for Society, 130)  Þessir karlar voru herskáastir ofbeldismannanna og og lítilsvirtu konur sínar mest, að mati Jacobson.  (Dutton, Donald G. og Susan K. Golant. 1997. The Batterer: A Psychological Profile, s. 28.)

Sú vísbending að allt að fjórðungur þeirra sem berja eiginkonur sínar séu siðblindir setur meðferðarprógrömmum talsverðar skorður. Þetta er vegna þess að hegðun siðblindra verður illa haggað. Fjárhagslegur stuðningur til að reka meðferðarprógrömm er venjulega af skornum skammti og langur biðlisti eftir slíkri meðferð. Siðblindir fara líklega ekki ótilneyddir í meðferð, þeir hafa engan áhuga á að breyta hegðun sinni og þeir gera sennilega lítið annað en fylla pláss sem betur væri varið fyrir aðra.

Auk þess hafa siðblindir efalaust truflandi áhrif á svona meðferð. (Sjá Dæmi 7.) En kannski eru verstu afleiðingarnar af því að senda siðblindan í meðferð af þessu tagi sú falska öryggiskennd sem kann að vakna í  fórnarlambinu, eiginkonu árásarmannsins. „Hann er í meðferð. Hann ætti að verða skárri núna“ gæti hún hugsað og dregið enn lengur að skilja við hann. (Hare, Robert D., 1999, s. 94.)
 

Afleiðingar hjónabands eða sambúðar með siðblindum

Fórnarlamb siðblindsOft koma sterkustu andlegu viðbrögðin ekki í ljós fyrr en eftir að fórnarlamb valdníðslunnar er sloppið  úr sambandinu. Og það eykur erfiðleikana hversu algengt er að fólki sem hefur búið með siðblindum sé ekki trúað þegar það segir sögu sína. Þetta upplifir það sem nýja árás, sérstaklega af hálfu opinberra stofnana og heilbrigðisþjónustunnar. Fjölskylda, vinir, nágrannar eða kunningjar sem frétta af árásum eða áreitni eiga oft erfitt með að taka þetta trúanlegt. „Svona almennilegur og velheppnaður maður getur alls ekki hafa slegið konuna sína“ eru dæmigerð viðbrögð. Tvöfeldnin í hegðun hins siðblinda, sem oft kemur trúverðugur og jákvæður fyrir utan heimilisins, gerir utanaðkomandi erfitt fyrir að sjá í gegnum hann. (Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 185-188). Ekki bætir úr skák að fórnarlömbin skilja þetta ekki sjálf, þau spyrja sig í sífellu: „Hvernig gat ég verið svona vitlaus? Hvernig gat ég fallið fyrir þessari ótrúlega yfirlætislegu steypu?“ (Hare, Robert D. 1999, s. 124-125)

Konur sem sleppa úr sambandi við siðblinda þjást af ýmsum kvillum, stundum lengi á eftir. Þeirra algengastir eru:

 • Depurð og þunglyndi
 • Kvíði
 • Viðvarandi líkamlegir verkir
 • Endurupplifanir
 • Firring
 • Líkamlegir skaðar
 • Misnotkun vímuefna

(Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000, s. 177-178)

   
Næsta færsla mun fjalla um börn siðblindra. 

[Viðbót 1. febrúar 2011: Nokkur umræða er á athugasemdaþræði við þessa færslu um af hverju almennt sé haldið fram að miklu fleiri karlar en konur séu siðblindir - og ég fylgi þessari almennu skoðun í bloggfærslunum um siðblindu. Robert Hare heldur því reyndar fram að hugsanlega sé þetta vegna þess að siðblindar konur séu greindar öðruvísi vegna viðtekinna skoðana á hlutverki og framkomu kynjanna. Hann segir að ef karl og kona sýni öll kjarnaeinkenni siðblindu muni læknir líklega greina karlinn siðblindan eða með andfélagslega persónuleikaröskun en konuna með sefapersónuleikaröskun (histrionic PD) eða sjálfsdýrkunarpersónuleikaröskun (narcissistic PD) því konan sýnir kannski fá andfélagsleg hegðunareinkenni. Ekki er ólíklegt að hún reyni að herma eftir þeirri staðalímynd kynsystra sinna sem þykir eftirsóknarverð og láti lítið fyrir sér fara, virki hlý, ástrík og undirgefin. Hare nefnir engar tölur um hlutfall siðblindra kvenna í þessu sambandi. Sjá Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 101-102. Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work. HarperCollins, New York. Bókin kom fyrst út árið 2006.]  
  
  
 

Helstu heimildir

Cooke, David J., Adelle E. Forth og Robert D. Hare. 1998. Psychopathy: Theory, Research, and Implications for Society. Kluwer Academic Publishers, Dordrecht, Hollandi. Skoðað á books.google.com. 
 

Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000. Sjarmør og tyrann. Et innsyn i psykopatenes og ofrenes verden. H. Aschehoug & Co (W. Nygaard), Oslo. (Þetta er aukin og endurbætt útgáfa frá 1997.)

Dutton, Donald G. og Susan K. Golant. 1997. The Batterer: A Psychological Profile. Basic Books, New York. (Fyrst gefin út 1995.) Skoðuð á books.google.com.

Encounters of the Psychopathic Kind 

Forward, Susan. 1988. Menn som hater kvinner og kvinnene som elsker dem (norsk þýðing á Man who hate women and women who love them, fyrst útg. 1986).  Tilvitnanir í Forward, S. eru úr Dahl, Alv A. og Aud Dalsegg. 2000.

Hare, Robert D. 1999. Without Concience. The Disturbing World of  Psychopaths Among Us. The Guilford Press, New York. (Fyrst gefin út 1993.)

Tranberg, Peter.  Psykopati - en forståelse af forstyrrelsens natur, óársett.   
  
  
  
  
  
 

Ummæli (24) | Óflokkað, Siðblinda