Færslur frá 29. janúar 2011

29. janúar 2011

Spjall

History of HandknittingÉg er ekki nógu dugleg að skrifa færslur um dittinn og dattinn þessa dagana … eiginlega hefur Facebook mikið til tekið við í svoleiðis tjáningu. En af því einhverjir karlkyns eru óhressir með siðblindubirtingarbloggfærslurnar (nefni engin nöfn en get upplýst að einn sagði við mig í gær: Af hverju geturðu ekki átt skárri áhugamál, safnað frímerkjum eða eitthvað eins og aðrir gera?) þá er vert að skella inn einni spjallfærslu. Þótt ekki sé nema til að fullvissa mína góðu karla að ég bardúsa ýmislegt annað.

Ég hef t.d. verið ansi dugleg að safna heimildum um prjónles og sögu þess undanfarið. Hef æxlað mér grundvallarritið, History of Handknitting, eftir enska sérann Richard Rutt, þefað uppi og ljósritað slatta af greinum og hlaðið niður slatta af prjónabókum. Er einmitt komin með flestar gagnrýnisgreinar Irene Turnau (hún gagnrýnir Rutt og hefur rannsakað prjónasögu Evrópu gaumgæfilega). En mér finnst ég ekki orðin nógu frísk ennþá til að fara að fjalla um svo merkilegt og flókið efni sem saga prjóns er. Það verður að bíða um stund.

L�ður yfir viktor�anska meySvo hefur svefninn nýlega lagast. Um áramót hafði ég sofið 3 heilar nætur frá því einhvern tíma í nóvember. Var satt best að segja orðin eins og undin tuska enda gat ég mjög takmarkað sofið á daginn og fimm tíma svefn á sólarhring vikum saman gerir konu bæði ljóta - las þetta í blaði - og framtakslausa. Eiginlega líður manni alla daga eins og maður sé grúttimbraður, sem er ekki líðan að mínu skapi.  (Svefnleysið er aukaverkun af þunglyndislyfinu svo ég átti um tvo kosti að velja og báða illa, alveg eins og karlarnir í Íslendingasögunum.) En um miðjan janúar hitti ég minn góða lækni og honum hafði þá dottið í hug enn eitt ráðið / lyfið, sem merkilegt nokk virkaði! Sef nánast allar nætur. Svoleiðis að nú vinn ég í að henda út svefnlyfi og róandi lyfi og halda mig við þetta ágæta geðklofalyf - sem ég hef nú einu sinni tekið að staðaldri gegn þunglyndi og það virkaði ekki baun í þeim tilgangi. Ókosturinn er sá að lyfið lækkar blóðþrýsting og þegar það bætist ofan á lækkunina sem þunglyndislyfið veldur og að frá náttúrunnar hendi er ég með afar lágan blóðþrýsting þá verð ég auðvitað eins og mær á Viktoríutímunum; sundlar og sé svart ef ég stend snöggt upp en hef ekki lagt í yfirlið enda enginn með axlaskúfa hér heima dagslaglega og við eigum auk þess ekki ilmsölt á þessu heimili.

Upp úr áramótum varð ég læs og hef síðan gaddað í mig reyfara af stakri ánægju. (Og mér til yndisauka var einn siðblindur í bók Yrsu og einn siðblindur í Snjóbirtu Ragnars Jónssonar, sem ég kláraði í gærkvöldi.) Uhmmm … það er svo gaman að lesa um morðin!   Eitthvað kíki ég í annars konar bækur, ætla t.d. að byrja á Hreinsun í kvöld. Hef borið það við að spila á mitt pjanoforte og alls ekki gengið neitt illa, virðist þokkalega spilahæf. Aftur á móti held ég að ég hafi prjónað yfir mig þessar vikur sem ég gat fátt annað og nenni því lítið að grípa í hannyrðir akkúrat núna. Svo hef ég að mestu tekið yfir þrif og þvotta á heimilinu - í FB-umræðu nýverið var niðurstaðan sú að slík iðja gæfi innhverfri íhugun ekkert eftir, a.m.k. væri afar gott að hugleiða á meðan.

Það sem ég klikka helst á er að fara út að labba og koma mér upp einhverju sósíal samvær. Hef samt ekki vott af samviskubiti þess vegna, með hægðinni hefst þetta. Ég ætti að kíkja á kaffihús með vinkonu minni, mæta á fundi í ónefnda félaginu, taka jafnvel þátt í prjónaklúbbi … ganga jafnvel í kór … en hef ekki treyst mér í svoleiðis ennþá.

Yngri sonurinn á tvítugsafmæli í dag, von er á gestum og svo hafði ég hugsað mér að fara á tónleika í eftirmiddaginn. Þetta verður góður dagur.  

Ummæli (10) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf