Færslur febrúarmánaðar 2011

26. febrúar 2011

Starfsmannaeinelti í Akranesbæ

Í sambandi við umfjöllun um siðblindu hef ég fjallað dálítið um vinnustaðaeinelti. Má nefna færslurnar Skólastjórar sem leggja kennara í einelti og Siðblindir á vinnustað en þar er nokkuð ítarleg umfjöllun um vinnustaðaeinelti almennt, sem þarf ekkert endilega að vera tengt siðblindu. Einnig ber vinnustaðaeinelti á góma í færslunum Siðblindir í kirkjunni  (þar er m.a. nefnt dæmi af presti sem beitir formanni sóknarnefndar fyrir sig til að leggja organistann í einelti) og Siðblindir í viðskiptum  (þar eru áhrif og tækni siðblindra í viðskiptafyrirtækjum útskýrð, t.d. hvernig þeir ná sér í verndara og hvernig þeir reyna að losa sig við þá sem sjá í gegnum þá, m.a. með beinu einelti eða að kynda undir einelti. Ætla má að siðblindir beiti þessari tækni almennt á vinnustöðum af  ýmsu tagi.).

Staðan á Akranesi

Höfnin á AkranesiEftir að hafa uppgötvað að skv. breskum, bandarískum og áströlskum upplýsingum eru kennarar taldir í einna mestri áhættu á að verða fyrir vinnustaðaeinelti og eftir að hafa séð umfjöllun um rannsóknir á vinnustaðaeinelti af nýlegra taginu sem leiða í ljós að hlutur stjórnenda í gerendahópi er mjög stór fór ég að velta fyrir mér hvernig ástandið væri hér í mínum góða bæ, Akranesi. Helga Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Fjölskyldustofu, var svo vinsamleg að veita mér ýmsar upplýsingar og kann ég henni bestu þakkir fyrir. Hún útskýrði líka fyrir mér hvernig stjórnsýslu bæjarins væri háttað og benti mér á dæmi um æskilega framtíðarskipan vinnustaðaeineltismála, sem sjá má í Mosfellsbæ. Ég er sammála henni um að það skipulag virkar mjög skynsamlegt en ekki jafn sannfærð um að það þurfi að ráða einhvern mannauðsstjóra í miklu minni bæ (Akranes) svo hrinda megi álíka skipulagi í framkvæmd.1  Helga sagði mér líka að í „stærri sveitarfélögum“ væri sami háttur á stjórnsýslu varðandi skóla og er hér í Akranesbæ eftir stjórnsýslubreytingar 1. jan. 2009. Lausleg úttekt mín leiðir í ljós að þessu er öfugt farið en hugsanlega hefur Helga átt við að Akranesi hentaði að máta stjórnsýslu sína við Reykjavík eða álíka „stærri sveitarfélög“ og það sé minn misskilningur að hún hafi átt við álíka stór sveitarfélög og Akranes.2
 

Rétt til að rifja upp hvað felst í vinnustaðaeinelti, skv. skilgreiningu í Reglugerð um aðgerðir gegn einelti á vinnustað, 1000/2004, 3.gr.: „Einelti: Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir.“

Og hvað er ekki einelti: „Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna enda leiði slíkur skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur ekki til þeirrar háttsemi sem lýst er hér að framan.“
 
 

Grunnskólakennari sem lagður er í einelti af skólastjóra
 

Setjum svo að ég væri grunnskólakennari hér í bæ og samstarfsmaður minn legði mig í einelti. Þá gæti ég kvartað við skólastjóra. En ef skólastjórinn stendur fyrir eineltinu? Þá gæti ég, væri ég kennari í Grundaskóla, kvartað við aðstoðarskólastjóra. Málið vandast ef ég er kennari í Brekkubæjarskóla því þar er enginn aðstoðarskólastjóri. Starfið var lagt niður vorið 2007 og þess í stað skipaðir tveir deildarstjórar, sem á heimasíðu skólans eru yfirleitt kallaðir „deildarstjórar á stigi“ til skólaársins 2010-2011 en þá ber annar starfsheitið „deildarstjóri“ og hinn er nú „deildarstjóri verkefna“. Skv. upplýsingum framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu mun hinn fyrrnefndi vera staðgengill skólastjóra og blessunarlega fær hann greitt eins og aðstoðarskólastjóri. Ég gæti því leitað til hans legði skólastjórinn mig í einelti, reikna ég með, þótt hann hafi ekki fínni titil en deildarstjóri.
 

Dugi þetta ekki, hvað ætti ég þá að gera? Einu sinni var starfandi skólanefnd hér í bæ sem fjallaði um málefni grunnskólanna og hugsanlega hefði ég, ímyndaður grunnskólakennari sem skólastjórinn legði í einelti, getað leitað til hennar, a.m.k. formanns skólanefndar, þó ekki væri nema um ráðleggingar. En 1. janúar 2009 varð róttæk breyting á stjórnsýslu Akraneskaupstaðar, ýmsar nefndir voru lagðar af (ekki þó Ritnefnd um sögu Akraness – guði sé lof!) og í staðinn komu svokölluð ráð og stofur.
 

Hverjir sinna málefnum sem snerta grunnskólann í stjórnsýslukerfi Akraneskaupstaðar?
 

GrásleppukarlarnirUndir Fjölskylduráð heyra nú öll fagleg mál sem tilheyra málaflokknum fræðslu-og uppeldismál og félagsþjónusta. Meðal verkefna ráðsins eru öll mál sem heyra undir lög nr. 66/1995 um grunnskóla. Fjölskylduráð heyrir undir „pólitíska kerfið með lýðræðislega kjörnum bæjarfulltrúum .. .Hins vegar er embættismannakerfið með bæjarstjóra í fararbroddi.  Stofnaðar hafa verið svokallaðar stofur yfir málaflokka sveitarfélagsins þ.e. Fjölskyldustofa með Helgu Gunnarsdóttur sem framkvæmdastjóra…“ 3 Nýju pólitísku ráðin voru víst hugsuð til að auka valddreifingu í stjórnsýslu bæjarins. Ætli stofunum hafi ekki verið ætlað að spara útgjöld?

Sem þykjustu grunnskólakennari sem skólastjórinn leggur í einelti get e.t.v. ég leitað til Fjölskyldustofu um úrlausn minna mála. En ég get ekki leitað til Fjölskylduráðs, skv. upplýsingum framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu, af því „svona mál heyra ekki undir pólitíska nefnd“. Í samtali okkar kom fram að engin fordæmi eru til fyrir formlegri afgreiðslu á úrlausn vinnustaðaeineltismála sem heyra undir Fjölskyldustofu og því ekkert vinnuferli ljóst. Að sögn Helgu hafa komið upp vinnustaðaeineltismál í einhverjum stofnunum sem heyra undir Fjölskyldustofu en þau hafa öll verið leyst í samræðum og samráði við hlutaðeigandi á óformlegan hátt og ekki borist á borð Fjölskyldustofu. Hugsanlega hefur þar orðið breyting á nýverið.

Hjá Fjölskyldustofu starfa margir en allir nema framkvæmdastjóri og verkefnastjóri tengjast þeir félagslega kerfinu og enginn þeirra er menntaður kennari eða skólastjóri. Í erindisbréfi framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu er ekkert sem bendir til þess að sá aðili hafi með eineltismál að gera. Það mætti skýra með því að Akraneskaupstaður hefur enga stefnu um meðferð eineltismála, hvorki vinnustaðatengd né annars eðlis.4  Að vísu hefur bærinn starfsmannastefnu, þar sem segir m.a.: “Siðareglur starfsfólks  Bæjarstjórn setur fram eftirtaldar siðareglur til leiðbeiningar fyrir starfsfólk um hvað sé við hæfi í starfi … 8.1. Að starfsfólk Akraneskaupstaðar starfar fyrst og fremst í þágu bæjarbúa, sem leggur því þá skyldu á herðar að setja almannahagsmuni ofar sérhagsmunum, hvort heldur er í sínum eigin eða einstakra hópa; …“5
 

Í þykjustunni er ég frábær kennari (og einmitt þess vegna sem skólastjórinn vill flæma mig brott með einelti því algengasta ástæðan fyrir skólastjóraeinelti er öfund). Það eru því hagsmunir nemenda og skólans að ég haldi starfi mínu. Svo ég gæti hugsanlega leitað til framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu og treyst því að hún setti almannahagsmuni ofar sérhagsmunum og muni skoða mín mál með hlutlausum hætti. En ég get ekki leitað til fjölskylduráðs af því það er pólitískt kjörið og framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu ber ekki að greina fjölskylduráði frá þessu ímynduðu erindi mínu, skv. upplýsingum Helgu Gunnarsdóttur í símtali okkar. Málaleitan mín yrði því tveggja manna tal.
 

Hugsanlega gæti framkvæmdastjóri Fjölskyldustofu leitað vil Vinnueftirlitsins eftir ráðgjöf. Líklega mundi það borga sig í skipulagi eins og Akraneskaupstaðar þar sem völd eru á ótrúlega fárra hendi þegar kemur að skólamálum og ljóst að enginn á Fjölskyldustofu hefur kennaramenntun. Fimm þjónustuaðilar með áherslu á andlega og félagslega áhættuþætti á vinnustöðum eru viðurkenndir af Vinnueftirlitinu.  Flestir þeirra rétt tæpa á einelti, sálfræðistofan Líf og sál býður námskeið og þrenns konar aðkomu að eineltismálum á vinnustað  en Úttekt úrlausn er eini aðilinn sem virðist sérhæfður í að fást við starfsmannaeinelti enda er hún rekin af menntuðum vinnustaðasálfræðingi (sem jafnframt er klínískur sálfræðingur). Þetta er líka eini þjónustuaðilinn af þessum fimm sem hefur sérstaka vefsíðu um vinnustaðaeinelti.  Það er því nokkuð augljóst að kysi framkvæmdastjóri Fjölskyldustofu utanaðkomandi ráðgjöf, til að þurfa ekki að axla ímyndaða eineltismálið ein og sjálf, myndi hún kalla eftir aðstoð Úttektar og úrlausnar.
 

Ef framkvæmdastjóri Fjölskyldustofu bregst mér þá er eini ópólitískt ráðni yfirmaðurinn þar fyrir ofan bæjarstjórinn sjálfur. Ég get að sjálfsögðu treyst því að hann fylgi 8. grein siðareglna starfsfólks svo það ætti að vera í lagi. Á hinn bóginn reikna ég með að bæjarstjórinn hafi öðrum hnöppum að hneppa en skipta sér af eineltismálum á vinnustað svo ég væri dálítið feimin við að bera mig upp við hann.
 

Skert lýðræðislegt samráð á Akranesi og ótrúlegt áhugaleysi á málefnum grunnskóla
 

AkrafjallHin svokallaða valddreifing stjórnsýslunnar hefur stórlega skert lýðræðislegt samráð hér á Akranesi og dregið mjög úr möguleikum grunnskólakennara sem skólastjóri leggur í einelti. (Sama máli gegnir auðvitað um mögulegt dæmi af skólastjóra sem kennari legði í einelti en af því slíkt er svo sárasjaldgæft, skv. rannsóknum á vinnustaðaeinelti almennt og rannsóknum á vinnustaðaeinelti í skólum, lít ég á það dæmi sem heldur fjarstæðukenndan möguleika.)

Meðan gamla skólanefndin var og hét fundaði hún þetta 6 til 10 sinnum á ári, um skólamál og starfsmannamál grunnskólanna. Fjölskylduráð er einungis þriggja manna nefnd auk eins áheyrnarfulltrúa. Það hefur haldið 60 fundi frá skipulagsbreytingunum á stjórnsýslu bæjarins 1. jan. 2009. Fundargerðir allra funda liggja á vefnum akranes.is fyrir utan þann síðasta sem var haldinn í gær.

Skv. erindisbréfi á að boða áheyrnarfulltrúa grunnskóla (skólastjóra, kennara, foreldra eða starfsfólks) á fundi sem fjalla um málefni grunnskólans og höfða til einhverra þessara aðila. Af 59 fundum hafa áheyrnarfulltrúar skólastjóra mætt á 2  (þ.e. 3,39% af fundunum) áheyrnarfulltrúi kennara á 1 fund og áheyrnarfulltrúi starfsmanna grunnskóla (mögulega kennari) á 1 fund. Að auki hafa fulltrúar Foreldrafélags Brekkubæjarskóla mætt á 2 fundi enda óskuðu þeir sjálfir eftir því að fá að ganga á fund fjölskylduráðs, og nemendaráð Grundaskóla mætti einu sinni til að ræða um skort á kastala og fleiri leiktækjum á lóð skólans. (Því erindi var reyndar ljómandi vel tekið og afgreiðslan bókuð í smáatriðum.) Það er því ekki skrítið að skólastjórar grunnskólans hafi óskað formlega eftir því að „áheyrnarfulltrúar foreldra frá báðum grunnskólunum verði boðaðir þegar málefni grunnskólanna eru til umfjöllunar hjá Fjölskylduráði. Einnig að boðaðir verði bæði aðal og varamenn áheyrnarfulltrúa starfsmanna af sama tilefni.“ Þetta erindi var samþykkt þann 21.9. 2010.6  Samt hefur nú enginn þessara verið boðaður á fund Fjölskylduráðs enn.
 

Fundargerðir Fjölskylduráðs eru óvenju stuttar og snubbóttar og geyma fátæklegar upplýsingar um málefni grunnskólanna hér á Skaganum. En þær hljóta að endurspegla raunveruleikann því í erindisbréfi Fjölskylduráðs segir að „Í tölvuskráða fundargerð skal færa … greinargóða lýsingu á hverju fundarefni“.7
 

Af lestri fundargerða Fjölskylduráðs er því nokkuð augljóst að áhugi ráðsins á málefnum grunnskólanna er sorglega lítill. Má ætla að svo sé einnig í bæjarstjórn því ráðið starfar á vegum hennar. Þann 16. 12. 2009 er t.d. bókuð ósk  Mennta-og menningarmálaráðuneytis eftir upplýsingum um hvenær sveitarfélagið hyggist hefja vinnu við mótun almennrar stefnu um leik-og grunnskólahald. Því svaraði Fjölskylduráð að sú vinna hafi ekki verið tímasett. Málið hefur ekki aftur borið á góma í Fjölskylduráði (a.m.k. ekki svo bókað sé) sem bendir til þess að ráðið hafi engan sérstakan áhuga á að láta vinna þessa vinnu, sem svo verður vart öðru vísi túlkað en að ráðinu þyki ekki mikið til skólamála koma. Engin ástæða er til að ætla að viðhorfið sé eitthvað annað á Fjölskyldustofu miðað við menntun og sérhæfingu mannafla þar og líka sé litið til þess að framkvæmdastjóri Fjölskyldustofu situr alla fundi Fjölskylduráðs (og er reyndar næstum ævinlega fundarritari).
 

Gamli vitinnÉg, sem er í þykjustunni kennari sem er lagður í einelti af skólastjóra, býst af framansögðum ástæðum ekki við sérlega miklum áhuga á mínum málum af hálfu framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu. Og ég get ekki leitað til neins annars, nema kannski bæjarstjórans, því búið er að fella niður það apparat sem ég hefði kannski getað brúkað, nefnilega skólanefnd. Enn vonlausari verða mín mál þegar ég hugsa til þess að bærinn hefur enga stefnu hvað varðar vinnustaðaeinelti og Fjölskyldustofa enga reynslu af formlegri afgreiðslu slíkra mála. Og svo er alltaf spurning hvort ég geti treyst því, í svona litlu bæjarfélagi, að þeir sem ég leita til haldi siðareglur.
 

Ég hugsa að ég taki einfaldlega þann kostinn að flytja í Mosfellsbæ!
  
 

1 Símtal við Helgu Gunnarsdóttur, framkvæmdastjóra Fjölskyldustofu kl. 15.30-15.40 25. febrúar 2011.

2 Á Akranesi búa rúmlega 6.500 manns. Í færslunni er gerð grein fyrir skipan skólamála í stjórnsýslunni þar. Ég skoðaði hvernig þessum málum er háttað í sveitarfélaginu Ísafjarðarbæ, þar sem búa  tæplega 4000 manns, í Fjarðabyggð, þar sem búa rúmlega 4.500 manns og Mosfellsbæ, þar sem búa rúmlega 8.500 manns.

Í Ísafjarðarbæ er skóla-og fjölskylduskrifstofa en starfsfólk er ekki eins einslitt og á Fjölskyldustofu Akraness, t.a.m. starfa bæði grunnskólafulltrúi og leikskólafulltrúi á þessari skrifstofu Ísafjarðarbæjar. Ég hygg að yfirmaður og sviðsstjóri skóla-og fjölskylduskrifstofu sé lærður tónmenntakennari. Þessi skrifstofa vinnur síðan í samráði við nokkra aðila, þ.á.m. fræðslunefnd. Fræðslunefnd Ísafjarðarbæjar virðist ófeimin við að funda með fulltrúum kennara, skólastjóra og foreldra, skv. fundargerðum. Ísafjarðarbær hefur samið leiðbeiningar fyrir yfirmenn og þolendur sem ná til aðgerða gegn kynferðislegri áreitni og einelti á vinnustöðum Ísafjarðarbæjar en því miður virkar krækjan í leiðbeiningarnar ekki svo ég gat ekki skoðað þær.

Í Fjarðabyggð starfar Félags-fræðslu-og frístundateymi, sem hluti af embættismannaverki bæjarins. Í teyminu er annars vegar Félagsmálastjóri og hins vegar Fræðslustjóri. Sá síðarnefndi hefur meistarapróf í skólastjórnun. Hann hefur samband við pólitískt kjörna Fræðslu- og frístundanefnd, sem er 5 manna. Loks er Fjarðabyggð aðili að Skólaskrifstofu Austurlands, sem er byggðasamlag 8 sveitarfélaga. Sú skrifstofa veitir m.a. ráðgjöf í deilumálum sem snerta skólastarf. Fjarðabyggð hefur samið ítarlega Fræðslu- og frístundastefnu. Að þeirri vinnu komu fjölmargir, m.a. fulltrúar nemenda, skólastjóra, foreldra og starfsfólks grunnskóla.

Í Mosfellsbæ kallast embættisaðili skólamála Fræðslusvið. Framkvæmdastjóri þess er lærður kennari. Hann er jafnframt starfsmaður Fræðslunefndar, sem er pólitískt skipuð 5 manna nefnd, með 5 varafulltrúum og skal fara með verkefni skólanefndar. Framkvæmdastjóri Fræðslusviðs er jafnframt forstöðumaður Skólaskrifstofu Mosfellsbæjar. Því miður eru fundargerðir Mosfellsbæjar ekki aðgengilegar á vefnum í augnablikinu svo ég get ekki áttað mig á því hversu mikið vægi fulltrúar foreldra, kennara og skólastjóra fá í starfi þessara nefnda og stofnana.
 

Kerfi þeirra þriggja bæjarfélaga sem ég skoðaði eru mjög ólík stjórnsýslukerfi Akraneskaupstaðar að því leyti að þar eru margir aðilar sem koma að skólastarfi (en slík mál eru á ótrúlega fárra hendi á Akranesi, ekki hvað síst stjórnun og eftirlit með starfsemi grunnskólanna); að greint er milli fræðslu- og frístundastarfs annars vegar og hins vegar félagslegrar þjónustu (á Akranesi er þetta á sömu hendi) og að kennaramenntaður einstaklingur heldur utan um starfið  (á Akranesi er enginn kennaramenntaður á Fjölskyldustofu).
 

3 Breyting á stjórnskipulagi Akraneskaupstaðar með gildistöku 1. janúar 2009.
 

4 Stefnur og markmið Akraneskaupstaðar.
 

5 Starfsmannastefna Akraneskaupstaðar 13. nóvember 2001.
 

6 Sjá fundargerð 48. Fundar fjölskylduráðs þriðjudaginn 21. september 2010.
 

7 Erindisbréf fjölskylduráðs Akraneskaupstaðar.

Ummæli (4) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf

24. febrúar 2011

Sýnilega myrkrið

Ég stefni hraðbyri inn í þetta “sýnilega myrkur”, svo ég vitni nú í titil bókar Strykers, sem ég var afskaplega hrifin af. Undanfarnar vikur hefur hallað undan fæti. Ekki svo að skilja að ég hafi náð neinum sérstökum bata af því þunglyndiskasti sem hófst í septemberlok. Ég komst að vísu út úr algeru grænmetisástandi upp úr áramótum en er flesta daga örmagna af svefnleysi (aukaverkun af lyfinu sem ég tek og vil nú hætta að taka), lágum blóðþrýstingi dauðans (líka aukaverkun) og þunglyndi (sem lyfið virðist virka lítt á). Ég náði meira að segja að koma mér upp einni skoðun (á því að TR og aðrir sem lítillækka geðsjúka, t.d. heimilislæknar eða þeir sem gefa sig út fyrir að vera talsmenn geðsjúkra, ættu að skammast sín) en í dag hef ég ekki einu sinni skoðun á því og hugsa bara “fari þeir og veri”.

Ráðið sem ég hef notað undanfarið er að sökkva mér rækilega ofan í eitthvað viðfangsefni, aðallega siðblindu, einelti og prjónasögu, til að forðast að fá tóm til að hugsa því þá flögra illar hugsanir og tilfinningar um heilabúið. Samt finnst mér leiðinlegt hvað ég er minnislaus og hvað allt tekur mig óskaplega langan tíma, miðað við hvernig ég var áður en veikindin urðu alvarleg. Upplifi mig svolítið sem heilaskemmda eða með Alzheimer.

Í dag er planið að komast á fætur, þ.e. klæða sig. Aukalega hef ég þau markmið að hringja á Þjóðarbókhlöðu og að fara yfir götuna og ljósrita á bókasafninu á mínum gamla vinnustað. Enn aukalegar er að komast út í búð og kaupa sígarettur. Ég hugsa að fyrsta markmiðið náist en veit ekki með hin þrjú. Það stefnir allt í að maðurinn verði aftur að taka yfir heimilisstörfin öll, eigandi þennan kramaraumingja fyrir konu.

Læknirinn viðraði nýtt plan í gær (hefur reyndar minnst á það áður). Það felst í að hætta á Marplan og hefja töku á tveimur lyfjum saman. Þessi tvö lyf gerðu gagn á sínum tíma en annað missti virknina smám saman þrátt fyrir að lyfjaskammtur væri hækkaður og hækkaður og var loks kominn upp úr öllu valdi (reyndar hélst aukaverkunin matarfíkn og ég hef aldrei verið feitari og fallegri en meðan ég var á því lyfinu). Hitt snögghætti að virka í september. Planið felst sem sagt í að hefja nýjan hring í lyfjaflórunni. Ég er ekkert sérstaklega bjartsýn á að það virki. Auk þess þarf ég að vera lyfjalaus um einhvern tíma meðan Marplanið sjatlast úr kroppnum. Það eru ekki beinlínis huggulegar framtíðarhorfur meðan ég er svona veik.

Miðað við veturinn í fyrra og það sem af er þessum vetri virðist þunglyndið fara dýpkandi með árunum og köstin teygja sig yfir æ stærri hluta ársins. Það borgar sig ekki að hugsa um það. Rifja frekar upp alla nýtilega AA-frasa og hanga á þeim. Líklega verð ég að fara að hlusta á kirkjutónlist aftur, Bach nýtist nefnilega á þunglyndi.

Klæða sig og hringja (vonandi tekst mér að slá á réttar tölur á símanum í fyrsta og tala síðan í hann) er fyrst á dagskrá - best að vinda sér í það.

P.S. Skilaboð til lesenda: Ef menn vilja senda einhverjum slóð á einstakar færslur í þessu bloggi er best að smella á titil færslunnar (sem er ljósgrænn) og þá birtist varanleg slóð akkúrat þeirrar færslu í slóðarglugga vafrans. Ég hef t.d. orðið vör við að einhverjir vilja deila færslunni um skólastjóra sem leggja kennara í einelti, sem gleður mig því ég held að þetta sé þarft innlegg í skólamálaumræðu, og þá er best að senda varanlegu slóð færslunnar því hún færist vitaskuld neðar á blogginu sjálfu eftir því sem ég bæti við öðrum færslum. Reyndar kemur hún og aðrar færslur (t.d. um siðblindu eða vísindi um sögulega tilurð íslensku lopapeysunnar) auðveldlega upp í Google og ég sé að margir nálgast efnið þaðan.

Ég hef búið til sérstakan flokk fyrir siðblindu (sjá lista yfir flokka til hægri í glugganum). Mér er fengur í athugasemdum og leiðréttingum því endanlega verður þessu efni komið fyrir á vef og væri þá gott fyrir mig að geta leiðrétt það og bæta. Kosturinn við að birta efni á bloggi jafnóðum og vinnunni vindur fram er að maður hefur aðgang að mörgum yfirlesurum - þetta er hið eina sanna “peer review” :)    

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

21. febrúar 2011

Orsakir siðblindu

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda V hluti
(finna má fyrri færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda, hér til hægri)

Ég trúi því ekki að augljós misbeiting eða einhver hversdagsleg stórfelld afglöp foreldra geti sannanlega verið meginorsök þess að barn þrói þessa flóknu röskun.1

Menn hafa lengi velt því fyrir hvers vegna til séu siðblindir í mannlegu samfélagi. Einkum hefur umræðan snúist um að hve miklu leyti félagslegar aðstæður, umönnun og uppeldi í bernsku og æsku o.fl. þess háttar skipti máli og að hve miklu leyti erfðir skipti máli. Robert D. Hare hefur reyndar haldið því fram að það þýði lítið að reyna að greina þarna á milli enda telur hann að siðblindum sé ekki viðbjargandi hver sem orsök röskunarinnar sé talin. Þeir sem telja að einhvers konar  meðferð gæti dregið úr siðblindu hafa hins vegar áhuga á hvaða meginþættir liggi að baki þessari persónuleikaröskun og í eldri heimildum slíkra áhugamanna er oft gert mikið úr félagslegum þáttum. Rannsóknir á siðblindum gáfu fyrir löngu vísbendingar um að heilastarfsemi þeirra væri öðru vísi en annars fólks en það er ekki fyrr en nýverið sem tæknin fór að leyfa sæmilega áreiðanlegar raunvísindalegar  rannsóknir á slíku, einkum með starfrænni segulómstækni (fMRI) en einnig hefur sneiðmyndataka (PET) o.fl. verið notuð í þessu skyni. Rannsóknir á tvíburum hafa miðað að því að finna út að hve miklu leyti siðblinda er arfgeng. Loks má nefna að aukinn áhugi virðist á að máta siðblindu við þróunarfræðilegar kenningar til að skýra hvers vegna siðblindir einstaklingar urðu til.

Hér á eftir verður stiklað á stóru yfir helstu kenningar og niðurstöður.
 

*Líffræðilegar orsakir
 

Heili siðblindra

Viss óreiða háir nokkuð rannsóknum á heilastarfsemi siðblindra. Til er fjöldi ólíkra rannsókna, þar sem úrtak og samanburðarhópur var valinn á mismunandi máta og fengust í sumum tilvikum frábrugðnar niðurstöður. Þótt mig skorti auðvitað grunnþekkingu í þessum fræðum ætla ég að reyna að gera grein fyrir því helsta sem virðist sæmilega ábyggilegt. Fyrst er þó líklega rétt að útskýra þá heilastarfsemi sem ber á góma, í einfaldaðri mynd:

Randkerfið - limbic systemRandkerfi: Hluti randkerfisins (limbic system) er mjög gamall, t.a.m. möndlungur. Þessi hluti randkerfisins er einn af þeim hlutum heilans sem við höfum „fengið í arf frá skriðdýrunum“, þ.e. tilheyrir þeim hluta heilans sem er gamall í þróunarsögunni og er því svipaður í fjölmörgum dýrum. Mætti segja að tilfinningar séu milljónum ára eldri en hugsanir, miðað við þróun mannsheilans. En til randkerfis teljast einnig svæði í heilaberki, nýjasta hluta spendýraheilans. Randkerfið sér um ýmsa þætti tengda tilfinningum og minni.

Möndlungur: Lykillíffæri randkerfisins er möndlungur (amygdala). Möndlungurinn er sérhæfður í tilfinningamálum, geymir tilfinningalegar minningar og ástríður. Hann gerir kleift að greina persónulega merkingu daglegra atburða sem ýmist vekja ánægju, umhyggju, spennu eða reiði. Möndlungur er uppspretta ótta og árásargirni.

Heilabörkur: Í heilaberkinum er talin vera sjálfsvitund, hömlur á tilfinningar og hvatvísi. Heilabörkurinn er mun þróaðri í mönnum en öðrum spendýrum og hann vantar alveg í margar minna þróaðar dýrategundir.  Heilabörkur er gerður ytra úr gráfyllu, sem eru gráir frumbolir taugafruma og þar fer öll skynúrvinnsla fram. Innra byrði heilabarkar er hvítfylla, mergslíðruð taugasímu sem virka líkt og ljósleiðarar til að senda og taka á móti upplýsingum. Hvítfyllan tengir heilabörk og önnur svæði heilans saman.

Talið er að taugabrautir milli ennisblaða (frontal lobes) og neðanbarkarkjarna (subcortical nuclei) stjórni og miðli mörgum hliðum mannlegs atferlis. Börkur augntóttarhluta ennisblaða (orbitofrontal cortex) heilans samhæfir starfsemi stúkunnar (thalamus), möndlungsins og heilabarkarins.2
 

Að sögn Roberts D. Hare var fyrst gerð tilraun til að mynda heilastarfsemi siðblindra árið 1997.3  Síðan hefur verið gerður mýgrútur rannsókna af því taginu. Í nýjum úttektum (jafnvel úttektum á úttektum) á öllum þeim rannsóknum sem gerðar hafa verið með starfrænni segulómun eða annarri nýrri tækni í heilamyndatöku telja menn sig hafa sýnt fram á mun í heilum og heilastarfsemi siðblindra og venjulegs fólks. Þennan mun er fyrst og fremst að finna í hluta randkerfis heilans. Svo virðist sem óeðlileg starfsemi og gerð hluta framheilablaða, þ.e. bakhliðlægs hluta framheilabarkar (dorsolateral prefrontal cortex) og augntóttarhluta ennisblaða (orbitofrontal cortex), sem og í möndlungi, tengist siðblindu og jafnframt ofbeldisfullri og andfélagslegri hegðun.4

Það helsta sem fundist hefur athugavert og hægt hefur verið að sýna fram á mörgum rannsóknum: 

 • Vanskapaður möndlungur og afbrigðileg starfsemi hans. Talið er að möndlungur skipti máli í tilfinningaviðbrögðum og tilfinninganámi, t.d. að bera kennsl á tilfinningar í svipbrigðum annarra, og bregðast við hættu.5  Skv. rannsókn Yang o.fl. voru marktæk tengsl milli stærðar möndlungs og hversu mikil siðblinda mældist, þ.e. því minni sem möndlungur var því fleiri einkenni siðblindu/sterkari siðblindu mátti greina.
 • Truflun í starfsemi ennisblaða og gagnaugablaða, t.d. minna gegnflæði blóðs og lægri efnaskipti.

Í sumum rannsóknum hefur greinst:

 • Minni gráfylla í aftari hluta ennisblaðs, sem tengist hvatastjórn, ákvarðanatöku, tilfinninganámi og hæfni til að laga hegðun sína að aðstæðum. Sumar rannsóknir hafa sýnt fram á að það sé minni gráfylla/taugagrámi á þessum svæðum í siðblindum en þeim sem ekki eru siðblindir. Ein rannsókn sýndi að frumsiðblindir (unsuccessful psychopaths, þ.e. þeir sem sátu í fangelsi) hefðu að meðaltali 22% minni gráfyllu en annars stigs siðblindir (successful psychopaths, þ.e. þeir sem dvöldu utan rimlanna) og venjulegt fólk.6
 • Aukin hvítfylla/taugahvíta í hvelatengslum (corpus callosum, sem tengir heilahvelin tvö saman). Hvífylla eru taugasímu innan á heilberki og tengja heilabörk við önnur svæði heilans. Grunur hefur leikið á að eitthvað sé bogið við hvelatengsl í siðblindum og að magn hvítfyllu skipti máli í því sambandi. Skv. úttektum á rannsóknum hefur ekki verið fyllilega sýnt fram á þetta.

Allir virðast sammála um að eitthvað sé bogið við hluta randkerfis, s.s. möndlung, ennisblöð og hvelatengsl, en nákvæmlega hvað er ekki ljóst, nema kannski helst í nýjustu rannsókn Yang á möndlungi. Menn virðast líka nýlega sammála um að það borgi sig ekki að skoða siðblinda sem einsleitan hóp heldur verði að greina milli frumsiðblindra (primary psychopaths) og annars stigs siðblindra (secondary psychopaths) í rannsóknum. Hinir fyrrnefndu fremja ofbeldissglæpi og eru oft geymdir bak við lás og slá, hinir síðarnefndu leika lausum hala í samfélaginu. Ekki er hægt að skýra muninn nema að hluta með skori á Hare-gátlistanum. Spurningin er því hvort hægt sé að skýra þennan mun með raunvísindalegum aðferðum?
 

*Boðefnaskipti í heila

Siðblindur Hannibal LechterÍ randkerfinu hefur dópamín áhrif á tilfinningar en randkerfið ræður miklu um atferli manna með áhrifum á hvatir og geðhrif. Dópamín á m.a. þátt í efnafræði ánægjunnar en losun efnisins í þann hluta randkerfisins sem hefur verið kallaður ánægjustöð (svæði rétt neðan við stúku heilans) framkallar ánægju. Ánægjustöðin verðlaunar lífsnauðsynlega starfsemi (þ.e. dópamínframleiðsla eykst) svo sem át og kynlíf en hún kemur einnig við sögu í fíkninni sem tengist alkóhóli, tóbaki og ýmsum lyfjum.7 Skortur á dópamíni í ánægjustöðinni veldur vanlíðan, kvíða, pirringi og lélegri tilfinningastjórnun.8

Skv. nýlegri rannsókn þar sem sjálfboðaliðum var gefið amfetamín og síðan teknar sneiðmyndir af heila og einnig notuð starfræn segulómun kom í ljós að ánægjustöðvar í siðblindum losuðu ferfalt meira dópamín en í þeim sem ekki voru siðblindir. Af þessu drógu rannsakendur þá ályktun að eftirsókn siðblindra eftir verðlaunum og hunsun á mögulegri hættu eða siðalögmálum, sem valdi m.a. andfélagslegri hegðun þeirra, skýrist af rugli í dópamínbúskap heilans. Sömleiðis megi skýra ásókn siðblindra í vímuefni (áfengi og fleira) með þessari ofvirkni í dópamínframleiðslu. Sé tilgátan rétt veldur sífelldur skortur á dópamíni því að siðblindir geti ekki breytt hegðun sinni eða hugsunarhætti.9 Þetta gæti líka skýrt hve auðveldlega þeim leiðist og hve mjög þeir sækjast eftir spennu í lífinu.

Menn hafa einnig velt fyrir sér hvort serótónín-búskapur sé eitthvað öðruvísi í siðblindum en öðrum. Serótónín, einnig nefnt 5-HT, er eitt af mörgum taugaboðefnum sem heilinn notar til boðskipta. Seyti (magn sem er losað) serótóníns hefur áhrif á skapferli og almenna virkni (arousal). Það stýrir einnig áti og svefni og gegnir hlutverki í skynjun sársauka. Of lítið magn serótóníns tengist hvatvísi og árásargirni, bæði hjá fólki og ýmsum öðrum dýrategundum.10 Larry Siever hefur rannsakað serótónín-framleiðslu þeirra sem haldnir eru andfélagslegri persónuleikaröskun (en siðblinda telst til hennar) og telur að eitthvað sé bogið við serótónín-upptöku þeirra sem gæti skýrt árásargirni. Hins vegar sé ekki ljóst nákvæmlega hvað sé að og þurfi að rannsaka þetta miklu betur.11
 

*Arfgengi siðblindu og áhrif félagslegra þátta
 

Í því því efni af nýrra taginu sem fjallar um siðblindu og ég hef kynnt mér eru allir á því að hún sé arfgeng. Menn eru hins vegar ekki sammála um í hve miklum mæli siðblinda ráðist af erfðum og hve stór umhverfisþátturinn er. Í bandarískri/kanadískri grein frá 2010 er sagt frá fimm rannsóknum sem allar sýna fram á að siðblinduþættir erfist. Þar voru notaðar mismunandi aðferðir til að meta siðblindu en engin þeirra nýtti þó PCL-R gátlista og mælikvarða Roberts D. Hare.12

Rannsóknum ber ekki alveg saman enda eru menn ekki alltaf að rannsaka hið sama, þ.e.a.s. sumir einbeita sér að siðblindu en aðrir skoða andfélagslega persónuleikaröskun eða jafnvel ofbeldishneigð og grófa glæpamennsku almennt.

Í nýlegri rannsókn var skoðað arfgengi og umhverfisþættir í ákveðnum sviðum siðblindu og byggt á sjálfslýsingu bandarískra miðaldra tvíbura. (Þessi sjálfsmatskvarði heitir Psychopathic Personality Inventory, skammstaða PPI og skiptist öðru vísu en gátlisti Hare.) Sviðin sem voru skoðuð voru annars vegar persónuleikaeinkennin óttalaus-drottunargjarn og hins vegar hvatvís-andfélagslegur. Niðurstöður voru að óttalaus-drottnunargjarn var hægt að skýra tiltölulega jafnt með arfgengi og umhverfisáhrifum en hvatvís-andfélagslegur virtist meir ráðast af umhverfisþáttum.13

SæðisfrumurÁ öndverðum meiði er Richard Baschetti, sem kemst að þeirri niðurstöðu að glæpahneigð og ofbeldi ráðist einkum af genum. Hann var reyndar að skoða andfélagslega persónuleikaröskun en ekki bara siðblindu. Baschetti telur sig sýna fram á að félagslegar skýringar á ofbeldi, s.s. að fátækt og atvinnuleysi auk ofbeldis annarra, séu ekkert annað en pólitísk kennisetning sem ekki standist.14 Í sama streng taka höfundar yfirlitsrannsóknar yfir rannsóknir á andfélagslegri persónuleikaröskun og telja að 56% af breytileika í andfélagslegri persónuleikaröskun og andfélagslegri hegðun sé vegna erfða, 11% megi skýra með svipuðum félagslegum aðstæðum, einkum uppeldi og fjölskyldugerð, og 31% ráðist af sérstökum ástæðum sem ekki tengist erfðum. (Sem dæmi um slikar sérstakar ástæður eru nefndar höfuðáverkar, sýkingar, félagslegir þættir utan fjölskyldu o.fl.).15

Svíar hafa staðið framarlega í rannsóknum á arfengi siðblindu eða ýmsum þáttum hennar. Þeir hafa, stundum í félagi við aðra, byggt niðurstöður sínar á langtímarannsókn á 1480 sænskum tvíburum, fæddum í Svíþjóð á árunum 1985-86. Niðurstöður Henriks Larsson o.fl. eru að sameiginlegur erfðaþáttur liggi að baki bæði siðblindum persónuleika og andfélagslegri hegðun en sú síðarnefnda stjórnist þó að einhverju leyti af umhverfisþáttum.16

Í sænskri doktorsritgerð frá 2009 gerir Mats Forsman grein fyrir rannsóknum sínum á arfgengi siðblindu. Hann byggði á sömu langtímatímarannsókn á 1480 tvíburunum. Í upphafi ritgerðarinnar segir hann: „Fyrri rannsóknir hafa gefið til kynna að u.þ.b. 40-70% af persónuleikaeinkennum siðblindu sé vegna erfða. Tvíburarannsóknir hafa þess vegna verið sérstaklega mikilvægar.“ (s. 3) Henrik Larsson hafði birt þær niðurstöður 2006 að erfðir réðu 63% af sumum kjarnaeinkennum siðblindu (kaldlyndi og yfirborðskenndu tilfinningalífi) og þáttum í andfélagslegri hegðun (óábyrgri hegðun og hvatvísi) en ekki yfirborðsmennsku og drottnunargirni. Mismunandi umhverfisþættir réðu hinum 37% (sjá s. 4-7 í ritgerð Forsman). Forsman útlistar svo fjórar rannsóknir sem hann gerði sjálfur og kemst að svipaðri niðurstöðu og Larsson (sjá s. 17) þótt með öðrum aðferðum sé.17

Niðurstaðan af þessum mismunandi rannsóknum virðist vera að megnið af kjarnaeinkennum siðblindu (persónuleikaeinkennum) stjórnist af erfðum. Jafnframt virðist mega rekja hluta af andfélagslegum þáttum siðblindu svo til eingöngu til arfgengis. Tilviljanakenndir umhverfisþættir hafa töluvert vægi en sams konar félagslegar aðstæður skýra fátt í fari siðblindra og uppruna siðblindu.
 

*Þróunarfræðilegar skýringar

Homo sapiensVaxandi áhugi virðist á vangaveltum um hvernig standi eiginlega á því að siðblindir séu til í samfélagi manna. Þessar vangaveltur byggja annars vegar á kenningu Darwins um náttúrlegt val og hins vegar á afleiddum kenningum og viðbótum við hana, sem byggjast að nokkru leyti á leikjafræði.

Í stuttu máli sagt hélt Darwin því fram að tegundir þróuðust fyrir tilstilli náttúrlegs vals, sem væri vélrænt ferli en hvorki forsjált né framsýnt. Náttúrulegt val byggir á nokkrum meginstaðreyndum, þ.e. lögmáli breytileikans (einstaklingar eru frábrugnir hver öðrum); lögmáli erfða og lögmálinu um mishraða æxlun eða mismunandi lífslíkur. Þessi lögmál stjórna því að sumir einstaklingar veljast náttúrulega fram yfir aðra, þ.e. þeir hæfustu lifa af (sem eru reyndar ekki orð Darwins heldur Herberts Spencer). Við þetta hefur seinna verið bætt baráttu fyrir lífinu, sem er starfræn ástæða fyrir þriðja lögmálinu. Sjálfur gerði Darwin greinarmun á náttúrlegu vali og kynjuðu vali, sem er barátta milli karldýra um yfirráð yfir kvendýrum, en á síðari tímum hefur þetta verið fellt saman.

Þeir sem halda fram þróunarfræðilegum kenningum um siðblindu styðja mál sitt yfirleitt á þessa leið:18

- Siðblinda sem auknar lífslíkur

Líklega þróaðist samfélag manna í sæmilega stöðugum hópum þar sem ríktu reglur, traust og gagnkvæmni (reciprocal altruism). Í svona hópi gafst færi á breytilegri aðferðarfræði (alternative strategy) sem fólst í að svindla og notfæra sér aðra út í ystu æsar.

Skv. þessum þróunarfræðilegu pælingum er ekki hægt að líta á siðblindu sem fötlun eða galla heldur skipulegan, starfrænan og  sérhæfðan hluta svipgerðar (phenotype) sem jók líkurnar á að komast af í samfélögum sem einkenndust af samvinnu.  Sumir halda því fram að þróast hafi sérstök arfgerð (genotype) siðblindra. Áhrifaríkur svindlari varð að vera sjálfselskur, kaldlyndur, heillandi og árásargjarn. Kenningin segir að þessar tvær lífsögustrategíur, þ.e. samvinna og svindl, séu tíðniháðar þar sem siðblinda er stöðug með lága tíðni. Ef margir hefðu tekið upp þessa breytni hefði samvinnumönnum fækkað að sama skapi og þeir verið meir á verði.

Úlfur � sauðagæruTil þess að það hefði borgað sig að rjúfa samstöðu eða svindla þurftu eftirfarandi skilyrði að vera fyrir hendi í mannlegu samfélagshópunum: Flestir meðlimir hópsins væru mjög hlynntir samvinnu; Það væri mögulegt að færa sig milli hópa og það reyndist mönnum dýrkeypt að fletta ofan af þeim sem ryfu samstöðuna. Má ímynda sér að ef þessi skilyrði væru ekki fyrir hendi og hópurinn kannski nokkuð jafnt samsettur af þeim sem vinna saman og þeim sem rjúfa samstöðu/svindla þá hefði slíkt valdið árangurslausum skærum milli hópanna og samvinnumennirnir hefðu þurft að vera á tánum til að sjá við svindlurunum. Ef ekki væri unnt að flytjast úr einum hóp í annan hefði það valdið bannfæringu og jafnvel dauða svindlaranna. Sama máli gilti ef enginn kostnaður hlytist af því að afhjúpa svindlarana því þá væri auðvelt að útskúfa þeim sem gæti einnig orðið þeim að bana.

Þessi þróunarfræðilega kenning um siðblindu fær stuðning af leikjafræði. Sígilt dæmi úr leikjafræði er Ógöngur fanganna eða Valþröng fanganna. Þegar þessar aðstæður koma upp í fyrsta sinn (eða fyrstu fáu skiptin) græðir sá sem svíkur félaga sinn. En þegar þetta gerist aftur og aftur borgar sig að vera samvinnufús og einnig má ætla að félaginn hafi lært á sviksemi hins.19 Skv. leikjafræðinni munu lítil, samheldin samfélög halda niðri (en ekki útrýma) sviksamri hegðun. Það sem skiptir máli í þessu er stærð samfélagsins; Það er ekki hægt að nota svindl-strategíu endurtekið gegn þeim sömu og halda áfram að ná árangri. Þess vegna er líklegt að í litlum samfélögum hafi siðblindir fyrr eða síðar fengið á sig illt orð, yfirgefið samfélagið til að forðast refsingu og haldið á nýjar veiðilendur. Færsla milli samfélaga hefði aukið líkur siðblindra á að dreifa sæði sínu sem víðast.
 

- Siðblinda sem aðlögunarhæfni

Tilfinningalegir, vitsmunalegir og atferlis-þættir siðblindra eru sérhæft og skiplagt gangverk (mechaniscm) sem ýtir undir lífvænlegra æxlunarferli og auknar lífslíkur í þróunarsögu mannsins. Hegðun eins og þjófnaðir, nauðganir og morð eru t.d. verkfæri sem siðblindir nota til að svindla; notfæra sér aðra til að hækka sig í sessi, ná auknum efnislegum gæðum og koma genum sínum áfram með sem minnstum tilkostnaði.

Í þróunarfræðilegum skilningi er það að ná ekki að makast það sama og deyja ungur. Sá sem ekki makast leggur engin gen til næstu kynslóðar. Sumt bendir til þess að siðblindir geti hámarkað æxlunarhæfni sína með því að að reyna sitt ítrasta til pörunar frá unga aldri. Þetta öfluga átak felur í sér mörg stutt og óábyrg sambönd við fjölda kvenna. Mikil áhersla á mökun (high mating effort) tengist svindl-hæfninni því siðblindir hefðu verið tilbúnir að beita prettum, ásamt kúgun, til að komast yfir maka. Lauslæti siðblindra og mörg stutt sambönd við hitt kynið eru e.t.v. merki fornar aðlögunarhæfni sem hefur viðhaldist í samfélaginu vegna þess sú aðferð stuðlar að meiri æxlun.

Siðblindir eru slæmir foreldrar. Arfgengt ástand sem léti foreldra vanrækja eða misnota afkvæmi sín myndi ekki teljast aðlögun. Þá staðreynd að siðblinda er enn að finna og þeir dóu ekki út má útskýra þannig að karlkyns siðblindir hafi frá ævafornu fari treyst á að mæðurnar önnuðust afkvæmin og hafi jafnvel í mökun veðjað á magn umfram gæði (quantity-over-quality trade off) til að tryggja sem mesta viðkomu.

Til að útskýra kynjamun í siðblindu og róf siðblindueinkenna hefur verið sett fram tveggja þrepa kenning eitthvað á þessa leið:

Siðblindir eru á ysta væng eðlilegrar dreifingar og erfðafræðilegur þáttur þeirra er annars vegar fjölgena (polygenic) og takmarkast hins vegar við kyn (sex-limited). (Kyntakmörkuð gen eru til staðar í báðum kynjum en koma fram í mismunandi svipgerð, t.d. skeggvexti karla eða brjóstum kvenna.) Ef stór hluti þeirra gena sem valda siðblindu virkjast af testósteróni eða öðru karlhormóni munu miklu fleiri karlar en konur sýna siðblindu þótt genafjöldinn sé sá sami í báðum kynjunum. Þetta felur þá einnig í sér að erfðabyrði siðblindrar konu þarf að vera meiri en karla til að röskunin (siðblindan) komi fram.
 
 
 
 
  

1 Cleckley, Hervey M. 1988, 5. útg. The Mask of Sanity, s. 24 í pdf-útgáfu af bókinni á http://www.cassiopaea.org/cass/sanity_1.PdF. (Bókin kom fyrst út 1941.) Vistað í janúar 2011.
 

2 Vilji menn lesa nánar um gerð heilans og tilfinningar bendi ég á HVELAHEILI: UPPBYGGING, sem virðast vera einhvers konar glósur og fylgja skýrar myndir með. Einnig er fínt að glugga í fjölgreindarkenningu Gardners, sjá t.d. Erla Kristjánsdóttir. 2002. „Hugtakið tilfinningagreind“ á  Doktor.is og Erla Kristjánsdóttir, óársett. 3. kennslubréf / viðbótarefni: Fjölgreindarkenningin: Yfirlitstafla, á vef Ísmenntar. Sjá einnig lokin á svari Jóns Más Halldórssonar við spurningunni „Hvernig þróaðist heilinn í hryggdýrum?“ á Vísindavef  21. 2. 2003. Skoðað 9. febrúar.2011.
 

3 Hare, Robert D. „Forty years aren’t enough: Recollections, prognostications, and random musings“ í The Psychopath: Theory, Research, and Practice, 2007, s. 15. Skoðað á Bækur Google 9. febrúar 2011.
 

4 Í umfjöllun um heilamyndatöku er einkum stuðst við eftirtaldar heimildir:

Koenigs, M., A. Baskin-Sommers, J. Zeier og J. P. Newman. 2010. „Investigating the neural correlates of psychopathy: a critical review“ í Molecular Psychiatry 7. desember 2010. Einungis var skoðaður útdráttur og yfirlitstafla yfir fyrri rannsóknir og niðustöður, þann 13. febrúar 2011.

Pridmore, Saxby, Amber Chambers og  Milford McArthur. 2005. „Neuroimaging in psychopathy“ í  Australian and New Zealand Journal of Psychiatry 39.árg 10.tbl. október 2005, s. 856–865. Skoðað á vefnum 13. febrúar 2011. (Tafla yfir fyrri rannnsóknir og niðurstöður er á s. 858-861.)

Wahlund, Katarina, Håkan Fischer, Thomas Dierks, Lars-Olof Wahlund, Maria Kristoffersen Wiberg, Tomas Jonsson og Marianne Kristiansson. 2009. „Psykopati och hjärnavbildning – en litteraturgenomgång. Med fokus särskilt på funktionell magnetisk resonanstomografi“ í  Läkartidningen 106. árg. 6.tbl., s. 361-365. Läkartidningen Förlag AB og Sveriges läkarförbund. Skoðað á vefnum 13. febrúar 2011.

Wahlund, Katarina og Marianne Kristiansson. 2009.  „Aggression, psychopathy and brain imaging — Review and future recommendations“  í International Journal of Law and Psychiatry 32.árg. 4.tbl. júlí-ágúst 2009, s. 266-271. Skoðað á vefnum 13. febrúar 2011.

Yang Y., A. Raine, K.L. Narr, P. Colletti og A.W. Toga. 2009. „Localization of deformations within the amygdala in individuals with psychopathy“ í Archive of  General  Psychiatry 66.árg. 9.tbl. september 2009, s. 986-94. Í pdf-skjalinu sem hér er krækt í eru litmyndir af heila sem sýna niðurstöðurnar. Þetta er eina greinin sem ég fann sem vitnar til rannsókna á heilastarfsemi dýra en þær rannsóknir virðast hafa leitt hið sama í ljós og heilaskönnun siðblindra.  Einnig vitna Yang og félagar í rannsóknir á heilasköðuðu fólki og sjúklingum með ákveðna gerð af flogaveiki. Skoðað á vefnum 13. febrúar 2011.
 

5 Margar atferlisrannsóknir hafa sýnt fram á að ótti kviknar ekki nærri eins glatt í siðblindum og öðrum (stundum er þetta orðað sem „óeðlileg seinkun viðbragða við óttakveikju“)  Sumir atferlissinnar, einkum David Lykken, hafa talið þennan skort á óttaviðbragði vera megineinkenni og meginorsök siðblindu. Í mjög einfölduðu máli felst röksemdafærslan í því að félagsmótun sé að mörgu leyti byggð á ótta (eða  „brennt barn forðast eldinn“) og skorti þennan ótta valdi það miklum truflunum á þroska einstaklings. Það skýri m.a. andfélagslega hegðun og jafnvel einhverja fleiri þætti siðblindu. Af því ég hef aðallega byggt á kenningum Roberts D. Hare og fylgismanna hans hef ég ekkert fjallað um kenningar Lykken og hans sporgöngumanna í þessum færslum um siðblindu en hvet áhugasama til að fletta upp greinum hans á Fræðasetri Google.
 

6 Yang, Y., A. Raine, T. Lencz, S. Bihrle, L. LaCasse og P. Colletti. 2005. „Volume reduction in prefrontal gray matter in unsuccessful criminal psychopaths“ í  Biological Psychiatry, 57.árg. 10.tbl. 2005. s. 1103-1108. Í annarri rannsókn var sýnt fram á að drekinn (hippocampus) væri öðru vísi í frumsiðblindum en annars stigs siðblindum en jafnframt sleginn sá varnagli að úrtakið hefði verið ansi lítið. Sjá Raine, A., S.S. Ishikawa, E. Arce, T. Lencz, K.H. Knuth, S. Bihrle o.fl.. 2004. „Hippocampal structural asymmetry in unsuccessful psychopaths“ í  Biological Psychiatry, 55. árg. 2.tbl. 2004, s.185-191. Skoðað á vefnum þann 10. febrúar 2011.
 

7 Þuríður Þorbjarnardóttir. 2003. „Hvað gerir dópamín?“ Svar á Vísindavef 30. 9. 2003. Skoðað á vefnum 13. febrúar 2011.
 

8 Gísli Ragnarsson. 2004. „Vímuefnafíkn er heilasjúkdómur“ á vef Lýðheilsustöðvar. Dagsett 16. 11. 2004. Skoðað á vefnum 13. febrúar 2011.
 

9Psychopaths’ Brains Wired to Seek Rewards, No Matter the Consequences“ á ScienceDaily 15. mars 1010. Í greininni er sagt frá rannsókn Joshua W. Buckholtz o.fl. sem lesa má um í Buckholtz, Joshua W.,  Michael T. Treadway, Ronald L. Cowan, Neil D. Woodward, Stephen D. Benning,  Rui Li,  M. Sib Ansari, Ronald M. Baldwin, Ashley N. Schwartzman, Evan S. Shelby, Clarence E. Smith, David Cole, Robert M. Kessler og David H. Zald. 2010. „Mesolimbic dopamine reward system hypersensitivity in individuals with psychopathic traits“ í Nature Neuroscience, 13. ágr. 2010, s. 419-421. Einungis útdrátturinn var skoðaður á vefnum og myndir sem sýna niðurstöður rannsóknarinnar. Þessar vefsíður voru skoðaðar 15. febrúar 2011.
 

10 Heiða María Sigurðardóttir. Svar við spurningunni „Hvaða tilgangi þjónar serótónín í heilanum? Hverjar eru afleiðingarnar ef starfsemi þess er raskað?“ á Vísindavef  21. 2. 2007. Skoðað á vefnum 15. febrúar 2011.
 

11 Siever, Larry J. 2002. „Neurobiology of Impulsive-Aggressive Personality-Disordered Patients“ í Psychiatric Times, 19.árg. 81.tbl., ágúst 2002. Skoðað á vefnum 15. febrúar 2011.
 

12 Sjá má yfirlit yfir 13 tvíburarannsóknir á arfgengi siðblindu í Viding, Essi og Henrik Larsson. 2010. „Genetics of Child and Adolescence Psychopathy“, í  Handbook of Child and Adolescent Psychopathy, s. 117- 119 (ritstjórar Randall T. Salekin, Donald R. Lynam). Guilford Press. Aðgengilegt á Bækur Google og skoðað 20.1. 2011.
 

13 Brook, Michael, Matthew S. Panizzon, David S. Kosson,  Elizabeth A. Sullivan,  Michael J. Lyons, Carol E. Franz, Seth A. Eisen, William S. Kremen. 2010. „Psychopathic Personality Traits in Middle-Aged Male Twins: A Behavior Genetic Investigation“ í Journal of Personality Disorders, 24.árg. 4.tbl. ágúst 2010. Einungis útdrátturinn var skoðaður á vefnum þann 15. febrúar 2011.
 

14 Baschetti, Riccardo. 2008. “Genetic evidence that Darwin was right about criminality: Nature, not nurture“ í Medical Hypotheses, 70.árg. 6.tbl. 2008, s. 1092-1102. Einungis útdrátturinn var skoðaður á vefnum þann 15. febrúar 2011.
 

15 Ferguson, Christopher J. 2010. „Genetic Contributions to Antisocial Personality and Behavior: A Meta-Analytic Review From an Evolutionary Perspective“ í The Journal of Social Psychology, 150.árg. 2.tbl. 2010, s. 160–180. Skoðað á vefnum þann 10. febrúar 2011. Mér er ekki ljóst hvers vegna 2% vantar upp á heildarsummuna 100% en reikna með að það skýrist af því tölurnar séu allar rúnnaðar af.
 

16 Larsson,  Henrik, Catherine Tuvblad, Fruhling V. Rijsdijk, Henrik Andershed, Martin Grann, Paul Lichtenstein. 2007. „A common genetic factor explains the association between psychopathic personality and antisocial behavior“  í Psychological Medicine, 37.árg. 1.tbl., jan. 2007, s. 15-26. Skoðað á vefnum 15. febrúar 2011.
 

17 Forsman, Mats. 2009. Psychopatich Personality in Adolescence - Genetic and Environmental Influences (doktorsritgerð). The Department of Medical Epidemiology and Biostatistics, Karolinska Institutet, Stockholm, Svíþjóð. Ritgerðina má nálgast á vefnum og hún var skoðuð 20.1. 2011. Sjá nánar um rannsókn og niðurstöður Forsman í neðanmálsgrein nr. 16 í færslunni Börn siðblindra.
 

18 Í samantekt á þróunarfræðilegum tilgátum um siðblindu var stuðst við :

Glenn, Andrea L. og Adrian Raine. 2009. „Psychopathy and instrumental aggression: Evolutionary, neurobiological and legal perspectives“ í  International Journal of Law and Psychiatry 32. árg. 4.tbl. júlí-ágúst 2009, s. 253–258. Skoðað á vefnum 15. febrúar 2011.

Harris, Grant T., Marnie E. Rice; N. Zoe Hilton; Martin L. Lalumière og Vernon L. Quinse. 2007. „Coercive and Precocious Sexuality as a Fundamental Aspect of Psychopathy“ í Journal of Personality Disorders 21.árg. 1.tbl. febrúar 2007, s. 1-27. Sótt af vefnum 15. febrúar 2011.

Kopenhaver, Brent. 2010. „The Psychopath: A New Subspecies of Homo Sapiens“ á Disclose tv. Truth revealed, 9. maí 2010. Skoðað á vefnum 15. febrúar 2011.

Lalumiére, Martin L., Grant T. Harris og Marnie E. Rice. 2001. „Psychopathy and Developmental Instability“ í Evolution and Human Behaviour 22. árg. 2001, s. 75-92. Skoðað á vefnum 15. febrúar 2011.

Lalumiére, Martin L., Sandeep Mishra og Grant Harris. 2008. „In Cold Blood. The Evolution of Psychopathy“ í Evolutionary Forensic Psychology. s. 176-197. Ritstjórar Duntley, J. og  T.K. Shackelford. 2008.  Oxford University Press. Sótt af vefnum af síðu Sandeep Mishra þann 12. febrúar 2011.

McKibbin, William F., Todd K. Shackelford, Aaron T. Goetz og Valerie G. Stratt. „Why Do Men Rape? An Evolutionary Psychological Perspective“ í Review of General Psychology, 12. árg., 1. tbl. 2008, s. 86-97. Skoðað á vefnum 15. febrúar 2011.

Mealey, Linda. 1995. „The Sociobiology of Sociopathy: An Integrated Evolutionary Model“ sem birtist í Behavioral and Brain Sciences 18.árg. 3.tbl. 1995, s. 523-599. Einnig má finna greinina í Evolution and the Human Mind: Modularity, Language and Meta-Cognition. 2000, s. 62-92. Ritstjórar: Carruthers, Peter og Andrew Chamberlain. Cambridge University Press. Lokauppkast að greininni var skoðað á vefnum þann 18. febrúar 2011.

Murphy, Dominic og Stephen Stich. 2000. „Darwin in the Madhouse: Evolutionary Psychology and the Classification of Mental Disorders“ í  Evolution and the Human Mind: Modularity, Language and Meta-Cognition. 2000, s. 62-92. Ritstjórar Carruthers, Peter og Andrew Chamberlain. Cambridge University Press.
 

Pitchford, Ian. 2001. „The Origins of Violence: Is Psychopathy an Adaptation?“ í The Human Nature Review 1.árg. 5. nóvember 2001, s. 28-36.
Skoðað á vefnum 15. febrúar 2011.
 

19 Um Ógöngur/Valþröng fanganna má lesa í greininni „Keisari Antarktíku“ eftir gmagnus@mbl.is í Mbl. 10. mars, 2002 og víða á erlendum vefsíðum, t.d. Prisoner’s dilemma á Wikipediu. Skoðað á vefnum 15. febrúar 2011.
 

  
 

Ummæli (2) | Óflokkað, Siðblinda

16. febrúar 2011

Skólastjórar sem leggja kennara í einelti

Hlaða niður færslunni sem Word-skjali

* Möguleg siðblinda með í spilinu?

Ég ætlaði mér alltaf að skrifa um siðblindu í skólum í siðblindupistlaröðinni en fann svo ekki nægilega góðar heimildir fyrir slíku. Þó má telja afar líklegt að siðblindir sæki í störf innan skólakerfisins (reyndar staðfestir ástralski sálfræðingurinn John Clarke það í viðtali, sjá færslu um siðblinda á vinnustöðum). Þrá þeirra eftir völdum og að geta ráðskast með fólk, niðurlægt það og upphafið sjálfa sig í samræmi við stórmennskuhugmyndir um eigið ágæti ætti einmitt að gera kennarastarf þokkalega eftirsóknarvert fyrir siðblinda. Nemendur eiga erfitt með að bera hönd yfir höfuð sér og skólaumhverfið að öðru leyti (kennarastofa og annar starfsvettvangur) eru ágætis veiðilendur fyrir hin siðblindu rándýr (tel ég, eftir að hafa sett mig dálítið inn í siðblindu og af langri reynslu af skólaumhverfi).1

Þótt ekki hafi ég fundið heimildir um að skimað hafi verið fyrir siðblindu í starfsmannahópum skóla fann ég nokkrar rannsóknir á starfsmannaeinelti í skólum. Má nefna frægar rannsóknir Blase & Blase sem einkum skoðuðu einelti skólastjórnenda í garð kennara, suðurafríska rannsókn á því sama, og nýja ástralska rannsókn á starfsmannaeinelti í skólum.2 Heldur fátt er um fína drætti í íslenskum rannsóknum á starfsmannaeinelti og stjórnendaeinelti í skólum.3

Athyglisverðasta rannsóknin á skólastjóraeinelti fannst mér vera eigindleg rannsókn sem var gerð í Suður-Afríku og lýst er í greininni „The reasons for and the impact of principal-on-teacher bullying on the victims’ private and professional lives“ (Wet, Corine de. 2010) og ég ætla einkum  að fjalla um niðurstöður hennar í þessari færslu. En jafnframt styðst ég við rannsókn Blase & Blase (2002), „The Dark Side of Leadership: Teacher Perspectives of Principal Mistreatment“, og annað eftir því sem þurfa þykir.

Ég vek sérstaka athygli á að í rannsókn Blase & Blase og Fengning (2008), „The mistreated teacher: a national study“, er því haldið fram að vinnustaðaeinelti sé ótrúlega algengt, að sumir telji starf í skóla, einkum grunnskóla, vera hættulegast hvað þetta varðar (teljist til „high-risk occupations“), að skv. breskum rannsóknum o.fl. eru kennarar taldir með stærstu hópum sem verða fyrir vinnustaðaeinelti og að mjög margar af nýrri vinnustaðaeineltisrannsóknum leiði í ljós að hlutur stjórnanda í einelti er mjög stór eða milli 50-90% gerenda.

Skólastjóri leggur kennara � eineltiSkólastjóraeinelti er skilgreint sem stöðug valdníðsla skólastjóra sem hefur neikvæð áhrif á kennara. Bent er á almennt gildir um vinnustaðaeinelti að einelti stjórnanda hafi sitt að segja í að eitra vinnuumhverfið. Slíkt vinnuumhverfi er kallað „toxic workplace“ á ensku. Í rannsóknum á siðblindum á vinnustað kemur fram að örfáir slíkir, kannski bara einn siðblindur, fari létt með að eitra sinn vinnustað4 svo ekki þarf alltaf lélegan stjórnanda, þ.e. annað hvort óhóflega ráðríkan eða þann sem lætur allt danka, til að skapa eitrað vinnuumhverfi.

Mætti líka huga að kenningum Babiak og Hare5 um höggorma  í jakkafötum, þ.e. siðblinda í viðskiptalífinu, og yfirfæra á aðra vinnustaði. Má þá ætla að siðblindur starfsmaður komi sér upp öflugum verndara (patron), í skólum væri sá einna helst stjórnandinn. Af kenningum um framgöngu siðblindra á vinnustöðum má því gera því skóna að í einhverjum tilvikum standi annað hvort siðblindur starfsmaður bak við einelti stjórnanda eða að stjórnandinn sé siðblindur. Á þessa möguleika er ekki minnst í suðurafrísku rannsókninni en aftur á móti er bent á að einhverjir skólastjórnendur sem beittu einelti virtust hafa sterka sjálfsdýrkunardrætti (narcissism). Sjálfsdýrkun er talin skyld andfélagslegri persónuleikaröskun, sem siðblinda fellur undir. Auðvitað (og því miður) beita margir aðrir en siðblindir einelti á sínum vinnustað.

Í rannsókn Blase & Blase (2002) kemur fram að í öllum tilvikum þar sem skólastjórar beita einstaka kennara einelti eiga skólastjórarnir sér jafnframt eitt eða fleiri uppáhöld, sem þeir hygla með ýmsu móti. Slíkt uppáhald eða uppáhöld styðja skólastjórann í eineltinu, ýmist beint eða bak við tjöldin, og hvetja aðra kennara til að taka þátt í því.6 Þetta styður, að mínu mati, við kenningar og rannsóknir um áhrif siðblindra á vinnustað og mætti jafnvel í ljósi þeirra ætla að uppáhald skólastjórnenda hefði talsverð siðblindueinkenni.
 
 

* Skólastjóri sem leggur kennara í einelti 
 

Rétt er að geta þess að skv. fjölda rannsókna á vinnustaðaeinelti beita kvenkyns og karlkyns stjórnendur einelti í sama mæli en eru líklegri til að velja sér kvenkyns fórnarlömb fremur en karla.7

Einelti skólastjóra lýsti sér einkum í svona hegðun og aðferðum:

 • Skólastjórar hunsa hugsanir, þarfir, tilfinningar og afrek kennara
 • Skólastjórar styðja ekki við bakið á kennurum
 • Skólastjórar beita tíkarlegu orðbragði og gera opinberlega gys að kennurum (Þetta hefur verið kallað „emotional abuse“ og felst í niðrandi framkomu, sögðum og ósögðum skilaboðum, og miðar að því að fá aðra til þegjandi samþykkis eða hlýðni.8
 • Skólastjórar gagnrýna kennara að ósekju
 • Skólastjórar reyna að koma því svo fyrir að kennarar geri mistök
 • Skólastjórar reyna að einangra kennara, félagslega og faglega
 • Skólastjórar sýna skort á samlíðan
 • Skólastjórar áminna kennara skriflega að ósekju. Slík skrifleg áminning er jafnvel veitt fyrir tittlingaskít og án þess að kennara gefist kostur á andmælum eða bara að útskýra sína hlið í málinu.
 • Skólastjórar halda upp á og hygla sumum kennurum á kostnað annarra
 • Skólastjórar reyna að flæma kennara út starfi, t.d. með því að breyta starfsskilyrðum þeirra eða hóta þeim uppsögn9

Sumir kennaranna í suðurafrísku rannsókninni bentu á að þeir ættu erfitt með að sækja rétt sinn til stéttarfélags. Fulltrúar stéttarfélagsins væru nefnilega oft persónulegir vinir skólastjórnandans sem beitti eineltinu. Mér finnst ólíklegt að þessi staða stéttarfélags eigi við um Ísland. Aftur á móti kann að vera að klíkuskapur og neópótismi í þeim stofnunum eða ráðum sem eiga að sinna eftirlitsskyldu og aðhaldi með skólum skipti máli í dæmigerðu íslensku kunningjasamfélagi, t.d. skólanefndum, skólaskrifstofum, menntamálaráðuneyti eða sambærilegum eftirlitsaðilum. Slíkt gæti gert kennurum sem lagðir eru í einelti af skólastjórnendum mjög erfitt fyrir. Skv. rannsókn Fjármálaráðuneytisins á einelti í ríkisstofnunum var 76% formlegra kvartana um einelti sinnt illa eða ekki og ástæðulaust að halda að ástandið sé skárra þegar kemur að kennurum, síst af öllu ef þeir kvarta yfir einelti skólastjóra.10
 

Þættir í fari skólastjóra sem leggur kennara í einelti

Skólastjóri leggur kennara � eineltiÞessir þættir voru greindir í persónuleika skólastjórnenda sem lögðu kennara í einelti: Öfund, eyðileggjandi sjálfsdýrkunarröskun, illska, hræsni og seigla (í að halda eineltinu áfram). Þó kom í ljós að sumir skólastjórnendur höfðu sitthvað til brunns að bera svo ekki var alltaf augljóst af hverju þeir snéru þessari hliðinni að fórnarlambinu. Sumir kennarar lýstu sínum ofsóknarskólastjórum svo að þeir vildu vera einvaldar, einblíndu á stök verkefni í stað þess að hafa yfirsýn og væru veikir/lélegir stjórnendur.  En svo voru aðrir sem héldu því fram að þeirra ofsækjendur væru sérlega tunguliprir og gerðu sér fulla grein fyrir gjörðum sínum.

Einn viðmælanda lýsti því hvernig skólastjórnandi reyndi kerfisbundið að flæma hana úr starfi í sextán ár, m.a. með því að leyfa henni ekki að kenna sitt sérsvið, áminna hana formlega fyrir lítilvægar yfirsjónir og gera lítið úr henni fyrir framan aðra.

Blase & Blase nefna líka dæmi um hvernig skólastjórar leggja kennara í einelti að ósekju: „Í öðrum tilvikum sögðu kennarar frá því að gagnrýni skólastjórnenda væri viljandi óljóst orðuð og byggð á óstaðfestri gagnrýni sem þeir héldu fram að þriðji aðili, „snuðrari“ (t.d. kennari eða nemandi), hefði komið á framfæri. Sem dæmi um falskar áskanir skólastjórnenda eru ásakanir um að hafa skrópað á einhverja samkomu, að sýna neikvætt viðmót og að öskra á nemendur sína. Oft birtist óbein gagnrýni skólastjórnenda í slúðri við aðra kennara og stundum foreldra.“11
 

Af hverju leggja skólastjórar kennara í einelti?
 

Öfugt við það sem einkennir einelti meðal barna, þ.e. að helst er lagst á þá sem skera sig úr hópnum eða eru minnimáttar, þá sýnir þessi rannsókn, ásamt fleiri rannsóknum á vinnustaðaeinelti,  að einelti fullorðinna kviknar oft af öfund vegna afreka fórnarlambanna.

Fleiri rannsóknir á einelti á vinnustöðum, sem Corine de Wit vitnar til, hafa sýnt fram á sterka drætti eyðileggjandi sjálfsdýrkunarröskunar (destructive narcissism) í skapgerð/persónuleika þess sem leggur aðra í einelti. Í suðurafrísku rannsókninni kom þetta skýrt fram í óhóflegu sjálfsáliti skólastjórnendanna, hroka, hversu uppteknir þeir voru af valdi og meintum rétti sínum, sem og að þeir voru ófærir um að taka gagnrýni, sýndu öðrum ekki tillitsemi og reyndu að gera lítið úr þeim.

Nefnt var dæmi um skólastjóra sem öskraði á undirmann að hún yrði rekin af því hún gagnrýndi hann. Annað dæmi er af kennara sem á kennarafundi gagnrýndi agaleysi í skólanum en skólastjórinn skildi þetta sem gagnrýni á sig og lét hana gjalda þess. Mjög svipað dæmi er að finna í rannsókn Blase & Blase (2002): „Sem trúnaðarmaður skrifaði ég skólastjóranum bréf til að benda á að engin fagleg rök væri hægt að finna fyrir ákvörðun hans og að nemendur mínir lærðu nú ekkert. Hann skrifaði til baka: „Þú ert bara neikvæð og vilt ekki neinar breytingar. Framkoma þín er vandmálið og þú hefur skaðleg áhrif á starfsólkið og vinnuandann.“ Síðan dreifði hann bréfi sínu til allra starfsmannanna. Ég lagði inn formlega kvörtun sem fékk hann til að stoppa. Eftir það hefur ríkt kalt stríð.“12

Í suðurafrísku rannsókninni lýstu kennarar því hvernig skólastjórar hótuðu þeim uppsögn: „Komdu með uppsagnarbréfið … ég skal skrifa undir“ eða hunsuðu þá: „Hann hélt bara áfram að skrifa … hann leit ekki upp … ekki í eitt einasta skipti.“
 

* Persónueinkenni fórnarlamba eineltis skólastjórnanda

Það sem stakk í augu í niðurstöðum Corine de Wet voru óvenju miklir hæfileikar og mikill áhugi kennaranna (fórnarlambanna) á sínu starfi. Þeir höfðu allir skarað fram úr í starfi, á einn eða annan máta. Þessi rannsókn staðfestir aðrar rannsóknir á einelti fullorðinna, þ.e. að gerendur leggjast fyrst og fremst á þá sem hafa mest sjálfstraust, eru samviskusamastir og hæfastir í sínu starfi. En jafnframt eru fórnarlömbin ólíkleg til að sækja rétt sinn og vilja sýna tillitsemi. Bent hefur verið á í fyrri rannsóknum að þetta lífsviðhorf fórnarlambanna valdi því að það sé jafnvel talið mátulegt á þau að leggja þau í einelti og að hætta sé á að þau séu álitin „skipta ekki máli“ á vinnustaðnum. Í suðurafrísku rannsókninni er bent á tvö dæmi þessu til stuðnings, þar sem hæfileikaríkum kennurum voru settar skorður með því að minnka smám saman við þá kennslu í sínu eigin fagi [og láta þá kenna önnur fög].

Í öðrum rannsóknum á fórnarlömbum vinnustaðaeineltis almennt hefur komið fram að um þriðjungur þeirra er taugaveiklaðri, síður þægilegir í umgengni, samviskusamari og úthverfari persónuleikar  en þeir sem ekki eru lagðir í einelti. Kvíði eða stífni í samskiptum reyndust hins vegar vera afleiðing þess að vera lögð/lagður í einelti en ekki orsök. Það er því ekki hægt að varpa þeirri sök á fórnarlambið að það sé ekki samvinnufúst til að afsaka einelti á vinnustað.
 
 

* Afleiðingar eineltis fyrir kennarana sem skólastjórnandi leggur í einelti

Einelti skólastjóraÞví hefur verið haldið fram að einelti lami og eyðileggi starfsmenn meir en allir aðrir streituvaldar starfsins samanlagðir. Afleiðingar eineltis fyrir fórnarlömbin í rannsókn Corine de Wit reyndust vera víðtækar, bæði hvað snerti andlega og líkamlega heilsu sem og faglegt starf. Einelti hafði slæm áhrif á þátttöku fórnarlambanna í félagslífi kennara. Þau fundu til depurðar og tveir kennarar sögðust þjást af þunglyndi þótt þeir tengdu það ekki við ástandið á vinnustaðnum. En margir rannsakendur hafa einmitt komist að þeirri niðurstöðu að þunglyndi sé áberandi fylgifiskur vinnustaðaeineltis. Fórnarlömb skólastjóraeineltis fundu líka fyrir skömm, vanmætti og faglegur áhugi minnkaði.

Þótt í almennum rannsóknum á vinnustaðaeinelti hafi komið fram auknar fjarvistir fórnarlamba var sú ekki raunin í rannsókninni á kennurunum. Í  rannsókn Blase & Blase (2002) komu eftirfarandi einkenni fram hjá fórnarlömbum eineltis skólastjóra: Í fyrstu fengu fórnarlömbin áfall, áttuðu sig illa á þessu, fannst þau vera auðmýkt, fundu fyrir einsemd, traust og sjálfsmat beið hnekki, þeim fannst þau flekkuð og fundu fyrir sektarkennd. Stæði eineltið lengi komu fram ýmsir andlegir kvillar hjá fórnarlömbunum, s.s. ótti, kvíði, reiði og þunglyndi, og sállíkamlegir/líkamlegir kvillar, s.s. svefnleysi, martraðir, þráhyggjuhugsanir, krónísk þreyta, magaverkir, ógleði, líkamsþyngd óx eða minnkaði, verkir í herðum og baki, höfuðverkur eða mígreni.13
 
 

* Viðbrögð við eineltinu

Blase & Blase (2002) taka saman niðurstöður sínar um hvað eineltisfórnarlamb geti gert og eru þær í samræmi við niðurstöður fjölda rannsókna á vinnustaðaeinelti, sem þau vísa í. Í stuttu máli sagt virðast kennurum fáir vegir færir. Þau segja: „Að auki uppgötvuðum við að kennarar sem eru lagðir í einelti af skólastjórum eiga sjaldan nýtilega möguleika á leiðréttingu sinna mála. Þetta er í samræmi við aðrar rannsóknir sem hafa sýnt fram á að dæmigert viðbrögð við kvörtunum fórnarlambs yfir einelti stjórnanda eru að (a) engin svör berast frá yfirstjórn, (b) reynt er að verja stjórnendur sem sýna ruddamennsku og (c) hefnd er beint að fórnarlambinu sem kvartar. Í rauninni var okkar niðurstaða sú að kennarar reyndu sjaldan að kvarta til fræðslustjóra því þeir væntu „engrar aðstoðar“ og vegna þess að þeir „óttuðust“ hefndaraðgerðir.“14

Í yfirlitsgrein yfir aðgerðir stéttarfélaga í ýmsum löndum Evrópu og Bandaríkjunum, ásamt yfirliti yfir þau lög sem taka á eineltismálum í þessum löndum kemur fram að stéttarfélög hafa í rauninni afar lítil áhrif og „þarf kannski að endurskoða þá hugmynd að stéttarfélög séu í fararbroddi“. Í sambandi við kennarafélög er bent á lofsvert framtak  Kennarasamtaka Bandaríkjanna (American Federation of Teachers, skammstafað AFT) í að viðurkenna að  vinnustaðaeinelti skiptir máli í öryggi og heilbrigði starfsfólks og kennara. Þetta kom ekki á óvart því víðtæk könnun AFT leiddi í ljós að 34-60% kennara innan vébanda samtakanna hefðu orðið yfir einhverju einelti af hálfu samstarfsfélaga (ekki kemur fram hve stór hluti þeirra voru yfirmenn) á sínum vinnustað á síðasta hálfa árinu. Helst birtist þetta einelti í: Að vera niðurlægður eða hafður að háði og spotti (20-33%); Að verða fyrir móðgandi ummælum (15-38%); Að gerandi eineltis sýndi kúgandi eða ógnandi framkomu (10-23%); Að vera hunsaður/hunsuð eða virtur/virt að vettugi (23-40%); Að verða fyrir stríðni og kaldhæðni sem keyrir um þverbak (10-21%); Að öskrað var á fórnarlambið (15-27%).15
 
 

* Afleiðingar fyrir vinnustaðinn

Vinnustaðaeinelti í skólum hefur ekki bara áhrif á fórnarlömbin heldur allt andrúmsloft í skólanum því eineltið ýtir undir minni hollustu, sinnuleysi og meðalmennsku. Í rannsókn Corine de Wit er nefnt dæmi af kennara, konu sem hafði verið hugmyndarík og skarað fram úr en var álasað fyrir að viðra hugmyndir um hvernig mætti gera skólastarfið betra með endurskipulagningu. Hún sagði: „Ég kæfi allar nýjar hugmyndir núna. Ég get ekki lengur verið hreinskilin í að miðla hugmyndum mínum.“ Aðrir kennarar sögðu að eineltið hefði haft þau áhrif að þeir sinntu bara starfi sínu en forðuðust að taka þátt í skólastarfinu umfram það. Þessar niðurstöður eru í samræmi við aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið á vinnustaðaeinelti, þ.e. að það leiðir til lélegri vinnubragða, minni eldmóðs, minni skilvirkni og skertrar starfsánægju.

Þrátt fyrir eineltið hafði enginn kennaranna í rannsókn Corine de Wit ákveðið að yfirgefa starfsgreinina. Mörg eldri fórnarlömbin hfðu á orði að þau ætluðu að bíða þetta af sér því stutt væri í eftirlaunaaldur. Aðeins einn þátttakandi, sem hafði kennt í sama skólanum í 30 ár, sagði að hún hefði sótt um starf í öðrum skóla. Þetta er í andstöðu við niðurstöður kannana á vinnustaðaeinelti almennt, t.d. sögðust 50% tyrkneskra starfsmanna, sem lagðir voru í einelti á vinnustað, að þeir væru alvarlega að hugsa um að skipta um vinnu og 30% breskra eineltisfórnarlamba sögðu upp starfi sínu.

Kennararnir sem lagðir voru í einelti höfðu yfirleitt ekki reynt að standa upp í hárinu á skólastjórunum sem beittu einelti. Þeir óttuðust að eineltið myndi aukast við slíka árekstra. Þetta er í samræmi við aðrar rannsóknir þar sem bent hefur verið á „spíral þagnarinnar“, þ.e.a.s. að í stofnunum þar sem menn óttast að segja hlutina beint út er þagað yfir áreitni og einelti.

Þeir fáu sem höfðu reynt að ræða málin við skólastjóra voru kallaðir lygarar. Fórnarlömbin tóku réttilega eftir því að gerendur gerðu lítið úr andlegu ofbeldi eða afneituðu því hreint og beint. Viðbrögð gerenda við ásökunum voru að gera fórnarlömbin sjálf ábyrg, með hreytingum á borð við „Vertu ekki svona viðkvæm”“eða „Ég hef ekki hugmynd um hvað þú ert að tala um“. Þannig er vandinn gerður fórnarlambsins og gerandinn þykist stikk-frí.
 

* Hvað er til ráða?

Kennarar standa hjá � einelti skólastjóraVald geranda eineltis felst oft í því að hræða fólk til þagnar. Fórnarlömbin bentu líka á að kvartanir þeirra virtust hversdagslegar þegar þær voru slitnar úr samhengi. Aðrar rannsóknir benda á að vinnufélagar sem standa hjá og aðhafast ekkert reyna að auki að forðast fórnarlambið eins og sektin hafi að einhverju leyti flekkað þau, jafnvel þótt áður hafi þessir vinnufélagar átt vinsamleg samskipti við fórnarlambið. Ein niðurstaða rannsóknar Corine de Wit er að þátt aðgerðarlausra vinnufélaga í skólastjóraeinelti þurfi að athuga miklu betur.

Að lokum bendir Corine de Wit á að niðurstöður rannsóknar hennar á skólastjóraeinelti í Suður-Afríku, séu í fullu samræmi við fjölda alþjóðlegra rannsókna á vinnustaðaeinelti, þótt fáar þeirra hafi skoðað sérstaklega vinnustaðinn skóla. Hún  bendir einnig á að skv. nokkrum rannsóknum séu hefðbundin vinnusálfræðilegt inngrip engan veginn fullnægjandi /skili ekki árangri. Það sem þarf til að uppræta einelti í stofnun á borð við skóla eru róttækar breytingar á innviðum stofnunarinnar sjálfrar.

Corine de Wit klikkir út með þessari ályktun: Það er nauðsynlegt að efla stjórnunarmenntun fyrir skólastjórnenda, þ.m.t. menntun í að fást við ágreiningsefni. Ekki hvað síst þegar í ljós kom í rannsókninni að lélegir stjórnunarhæfileikar, skortur á reiðistjórn, öfund, eyðileggjandi sjálfdýrkun og misnotkun valds voru oft helsta orsök þess að skólastjórnendur lögðu kennara í einelti. 
  
  
  
   

1 Sjá nánar: Siðblindir á vinnustað og Siðblindir í viðskiptum. Í þeirri suðurafrísku rannsókn sem í færslunni er mjög  til umræðu (Wet, Corine de. 2010) er staðhæft að illska sé einn þeirra þátta sem greina megi í skapgerð eineltandi skólastjóra. Vitnað er í aðra rannsakendur vinnustaðaeineltis sem hafa haldið því fram að oft sýni gerendur eineltis óeðlilega hegðun og enga eftirsjá. Þeir fái jafnvel ánægju út úr því að sjá aðra þjást. Aðrir gerendur eineltis fara betur með þennan þátt í sínu skapferli og reyna að koma vel fyrir en munu eigi að síður ekki skirrast við að meiða og auðmýkja fórnarlömb sín opinberlega. (Wet, Corine de. 2010, s. 1455.) Þetta eru allt einkenni siðblindu.Þegar hrein opinber illska eða tvöfeldni í framkomu er höfð í huga auk stórmennskuhugmynda, valdaástríðu o.fl. atriða sem talin eru aðalsmerki eineltandi skólastjóra læðist auðvitað að manni sú hugmynd að verið sé að lýsa „huggulegum siðblindum“ (subclinical psychopaths, white-collar psychopaths, corporate psychopaths, secondary psychopaths, pæn psykopat eru þau orð sem oftast eru höfð um þessa tegund siðblindra). Í ljósi kenninga Babiak og Hare um siðblindu í viðskiptum og kenningar Boddy um gífurleg áhrif siðblindra starfsmanna á starfsumhverfi (sjá færslurnar sem vitnað var í hér að ofan) er freistandi að íhuga hvort skólastjóri sem beitir einelti sé í rauninni verndari (patron) siðblinds kennara eða undir sterkum áhrifum frá slíkum.

Þannig að út frá kenningum um siðblindu gæti skólastjóri sem leggur kennara í einelti verið siðblindur en allt eins kæmi til grein að svoleiðis skólastjóri væri verndari siðblinds kennara, eða einfaldlega eitt af peðunum hans.
 

2 Blase, Joseph og Blase, Jo. 2002. „The Dark Side of Leadership: Teacher Perspectives of Principal Mistreatment“ í  Educational Administration Quarterly, 38 árg. 5.tbl. s. 671-727. Desember 2002.

Blase, Joseph, Blase, Jo og Fengning Du. 2008. „The mistreated teacher: a national study“ í Journal of Educational Administration, 46.árg. 3.tbl. s. 263-30. Í þessari rannsókn kemur fram að vinnustaðaeinelti er ótrúlega algengt, að sumir telji starf í skóla, einkum grunnskóla, vera hættulegast hvað þetta varðar (teljist til „high-risk occupations“), að skv. breskum rannsóknum o.fl. eru kennarar taldir með stærstu hópum sem verða fyrir vinnustaðaeinelti og að mjög margar af nýrri vinnustaðaeineltisrannsóknum leiði í ljós að hlutur stjórnanda í einelti er mjög stór eða milli 50-90% gerenda. Sjá s. 264 og 266. En nákvæmar kannanir á því hversu algengt er að skólastjórnendur beiti kennara einelti hafa ekki verið gerðar.

Wet, de Corine. 2010. „The reasons for and the impact of principal-on-teacher bullying on the victims’ private and professional lives“ í Teaching and Teacher Education. An International Journal of Research and Studies, 26.árg. 7.tbl. s. 1347-1492. Október 2010.

Riley, Dan, Deirdre J. Duncan, John Edwards. 2011. „Staff bullying in Australian schools“ í Journal of Educational Administration, 49.árg. 1.tbl. s. 7-30. Einungis útdrátturinn var skoðaður en leigja má greinina eða kaupa ef áhugi er á. (Það vekur reyndar strax áhuga hvað niðurstöður rannsóknar Riley o.fl. eru uggvænlegar.)

Í þessari færslu er einkum stuðst við rannsókn Corine de Wet (2010) og fyrri rannsókn Blase & Blase (2002).

Greinarnar voru skoðaðar á vefnum þann 11. febrúar.
 
 

3 Til eru tvær íslenskar rannsóknir sem nálgast þetta efni ofurlítið:

Dagrún Þórðardóttir. 2006. Einelti á vinnustað. Samanburður þriggja opinberra vinnustaða. (MS verkefni í Stjórnun og stefnumótun, Viðskipta-og hagfræðideild HÍ). Skoðað á vef Vinnueftirlitsins 24. janúar 2011. Rannsókn Dagrúnar var á tveimur ótilgreindum ráðuneytum og einni ótilgreindri ríkisstofnun. Niðurstöður voru afar misjafnar því einn vinnustaðurinn skar sig ákaflega úr vegna mikils stjórnandaeineltis og skekkti allar tölur. Meginniðurstaðan var sú að í flestum tilvikum er gerandi eineltis yfirmaður þess sem fyrir eineltinu verður eða annar stjórnandi.

Einelti meðal ríkisstarfsmanna. Niðurstöður könnunar á einelti meðal ríkisstarfsmanna. Fjármálaráðuneytið ágúst 2008. Ritstjóri: Ágústa H. Gústafsdóttir. Skoðað á vef Fjármálaráðuneytisins 24. janúar 2011. Þetta var mjög viðamikil rannsókn og var meginniðurstaðan sú að rúmlega 10% ríkisstarfsmanna taldi sig hafa orðið fyrir einelti í starfi á síðustu 12 mánuðum. Hins vegar er rannsóknin gölluð að því leyti að ekki var greint milli stjórnenda og almennra starfsmanna í svörum; að ekki er hægt að skoða einstakar starfsstéttir heldur einungis flokkun eftir ráðuneytum, sem mismunandi margir og mismunandi fjölbreyttir vinnustaðir falla undir, og að áhersla er mjög á reynslu þolenda en fátæklegar niðurstöður um gerendur, t.d. er ekki greint frá kyni gerenda. Þótt í niðurstöðum segi að í 44% tilvika sé gerandi eineltis samstarfsmaður en næsti yfirmaður í 31% tilvika segja þessar tölur næsta lítið því, eins og áður var getið, eru þeir sem svara bæði venjulegir starfsmenn og yfirmenn. Í niðurstöðunum kemur fram sú sláandi staðreynd að í 76% tilvika var formlegum kvörtunum vegna eineltis ekki fylgt eftir með viðeigandi hætti.

Könnun fjármálaráðuneytisins náði að sjálfsögðu bara til framhaldsskólakennara og stjórnenda framhaldsskóla. Í könnun Dagnýjar er ekki hægt að sjá hvort þriðja stofnunin var skóli og mér þykir  fremur ólíklegt að svo hafi verið. Mér vitanlega hefur Kennarasamband Íslands ekki staðið fyrir neinni könnun á vinnustaðareinelti í skólum landsins og hvergi hafa birst upplýsingar um slíkt. Það væri samt full þörf á að rannsaka vinnustaðaeinelti í grunnskólum og framhaldsskólum miðað við niðurstöður þeirra erlendu rannsókna sem ég vísa í (og sem vísa áfram í fjölda rannsókna á vinnustaðaeinelti um allan heim).
 

4 Boddy, Clive R. 2010. „Corporate Psychopaths, Bullying and Unfair Supervision in the Workplace“ í Journal of Business Ethics 25. nóvember 2010, s. 1-13. Greinin var skoðuð á Vefnum 25. jan. 2011.
 

5 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007. Snakes in Suits. When Psychopaths Go to Work. HarperCollins Publishers, New York. (Bókin kom fyrst út 2006.)
 

6  Blase & Blase (2002) s. 689-690.
 

7 Sjá yfirlit yfir þessar rannsóknir í Blase & Blase (2002), s. 678.
 

8 Sjá skilgreiningu Keashly (1998) í Blase & Blase (2002), s. 675.
 

9 Niðurstöður þessarar rannsóknar eru í samræmi við margar alþjóðlegar rannsóknir og sýna að stjórnandi sem ekki er starfi sínu vaxinn reynir oft að leggja undirmenn sína í einelti. Í suðurafrísku rannsókninni er bent á það sem skýringu að öfund sé mjög oft hvati að einelti. Persónulegur styrkur kennara og það sem hann/hún hefur afrekað í starfi gæti egnt lélegan yfirmann til að leggja þann kennara í einelti. Í sumum vinnustaðarannsóknum (sem vísað er í úr suðurafrísku rannsókninni)  hefur komið fram að gerandi eineltis reyni að gera opinberlega lítið úr því sem hann öfundar fórnarlambið af. Sjá Wet, Corine de. (2010) s. 1454 - 55. Sjá má ítarlegt yfirlit yfir eineltishegðun skólastjóra í Blase & Blase (2002) s. 686.  Á eftir yfirlitstöflunni þar fylgir texti á næstu síðum sem útskýrir einstaka þætti.
 

10 Einelti meðal ríkisstarfsmanna. Niðurstöður könnunar á einelti meðal ríkisstarfsmanna. Fjármálaráðuneytið ágúst 2008.
 

11 Blase & Blase (2002) s. 694
 

12 Blase & Blase (2002) s. 693-694
 

13 Blase & Blase (2002) s. 711 o.áfr.
 

14 Blase & Blase (2002) s. 715
 

15 Harthill, Susan. 2010. „Workplace Bullying as an Occupational Safety and Health Matter: A Comparative Analysis“ í  SelectedWorks (safni fræðigreina á vefnum). Skoðað 13. febrúar 2011.
 
 
 
 
 
 
 

Ummæli (14) | Óflokkað, Skólamál, Siðblinda

14. febrúar 2011

Orðabækur, einelti og öryrkinn sonur minn

Ég er örmagna! Ferð til borgar óttans er tímafrek, erfið og konu eins og mér kólnar inn á beini. Mun ég nú rekja þessa lífsreynslu enda hef ég nánast aldrei neina lífreynslu að rekja svo það er um að gera að nýta tækifærið þegar fátæklega lífið er ekki alveg eins fátæklegt ;)

Til þess að hitta lækni í Mosfellsbæ klukkan tíu þarf Skagakona eins og ég að taka strætó rétt rúmlega hálf-átta. Og ég var náttúrlega illa sofin og það voru slydduél og krapaelgur og, eins og sumir heimilislæknar myndu orða það, óvingjarnlegar félagslegar aðstæður. Sem betur fer er kaffið í sjoppunni í Mosfellsbæ harla gott og afgreiðslustúlkan sérlega almennileg. Svo ég dundaði mér í einn og hálfan tíma við að fylla út örorkumatsstaðal TR og lesa vel rannsókn á því hvernig skólastjórar beita kennara einelti. Þetta er eina rannsóknin á slíku en hún var vel rökstudd og vísaði í heimildir um rannsóknir á einelti út og suður, birtist auk þess í ritrýndu tímariti. Þótt rannsóknin væri gerð í S-Afríku sá ég ekki betur en aðstæður, þ.e. gjörðir eineltara og staða fórnarlambs, væru glettilega sambærilegar við Ísland og kannski full þörf á að kynna þetta. Mun blogga um niðurstöður rannsóknar á einelti skólastjórnenda mjög bráðlega en ekki í kvöld.

Unglingur sem mælist öryrkiÞað gekk nú ekkert alltof vel að fylla út örorkumatsstaðal TR. Ég get ekki ímyndað mér hvers lags geðveiki þarf til að skora þar auðveldlega 10 stig eða meira í skerðingu á andlegri færni - nema náttúrlega sjúklega lygaáráttu (mythomania) sem ég veit ekki hvort TR viðurkennir tæka til örorku. Ég lenti t.d. í vandræðum með spurninguna “Þarf hvatningu til að fara á fætur og klæða sig” sem gefur 2 stig. Sko, það kemur fyrir að ég kemst ekki á fætur. En engum hér á heimilinu dettur í hug að hvetja mig til að fara á fætur enda mundi það ekki þýða og heimilismenn eru nokkuð verseraðir sem aðstandendur sjúklings með “endurtekna djúpa geðlægð án sturlunareinkenna”. Aftur á móti er það svo að sonur minn tvítugur þarf stöðuga, harkalega hvatningu á hverjum morgni til að komast á lappir og í skólann. Hann myndi sumsé auðveldlega skora 2 stig á þessum örorkumatsstaðli. Af því 10 stig duga til að teljast a.m.k. 75% öryrki (skv. upplýsingum á staðlinum sjálfum) reiknaði sonurinn alveg sjálfur út áðan að hann væri 15% öryrki. Í rauninni er það fréttnæmt og athyglisvert og jafnvel rannsóknarvert að líklega eru yfir 90% íslenskra unglinga á aldrinum 16 - 20 ára 15% öryrkjar, skv. matsstaðli TR.

Hjarta með vængiÉg hitti svo þann góða mosfellska lækni Þengil. Í ljós kom að þetta var einstakt ljúfmenni og afar þægilegt að tala við hann. Ég trúi því vel að konur í Mosfellssveit hafi hrest (fyrrum hrezts) við að hitta hann í kaupfélaginu! Ánægjulegt var að hitta mann í starfi fyrir TR sem var kurteis og hafði gott viðmót. Viðtalið var mjög ítarlegt en aftur á móti fór hann ekkert fram á örorkumatsstaðalinn fræga - hins vegar rétti ég honum útfyllt eintak, fyrst ég var hvort sem búin að fylla þetta út í sjoppunni, og veifaði framan í hann þeim tveimur 100% örorkumötum sem ég á nú þegar. Læknirinn spurði m.a. um hvort ég ætti áhugamál og ég hváði og lenti í mestu vandræðum, út af hugfötlun og óminni, en stundi svo upp að ég ætti þessi dæmigerðu fegurðardrottningaráhugamál, sumsé ferðalög og lestur góðra bóka. Kunni ekki við að nefna sögu prjóns og siðblindu en gat þess að ég prjónaði töluvert (það er svo ljómandi kvenlegt og öryrkjalegt) og reyndi yfirleitt á haustin að byrja í línudansi. Datt ekkert fleira í hug … enda partur af endurtekinni … o.s.fr. að vera nokkurn veginn skítsama um allt og hafa ekki áhuga á neinu.

Svo glaptist ég í annað sinn til að taka Mosfellsstrætó sem byrjar á að aka lengst upp í sveit og stoppa þar í korter, með opnar dyr og slökkt á miðstöð og ég næstum frosin í hel! Samt fattaði ég hvorum megin götunnar æskilegra væri að taka strætó en hélt að sá sem kæmi fyrr (öfugu megin götunnar) myndi taka 7 mínútna rúnt um bæinn og aka svo til Reykjavíkur. Ég hafði rangt fyrir mér.

Gegnköld komst ég loks á Þjóðarbókhlöðu og eftir að hafa hitað upp með lútsterku Macciato datt ég í orðabækur! Fann heilan fjársjóð í orðabók yfir norskar mállýskur og gagnlegt efni í orðabók Jakobsens yfir Norn og í nokkrum færeyskum orðabókum. Núna var það hitt aðaláhugamálið, sumsé orðið “prjónn” og sögnin “prjóna”. Þetta eru verulega merkilegar niðurstöður, finnst mér,  og ég hugsa að ég sendi henni Guðrúnu Kvaran þær þegar ég er búin að pikka þær inn (við höfum aðeins ræðst við um “prjóna” og “pjone” o.fl. þess háttar út af fyrirspurn minni til Orðabókar HÍ). Norska mállýskubókin var gullakista!

Því miður átti Þjóðarbókhlaða hins vegar ekki tímarit frá 1971 þar sem er sennilega merkileg grein um viðhorf biblíunnar til siðblindu (hvar er rökstutt að týndi sonurinn hafi verið siðblindur og líklega eitthvað fleira merkilegt) - ég panta bara ljósrit í millisafnaláni. Greinin er eftir ísraelskan sálfræðing sem hefur fundið upp sérstaka geðlækningaraðferð m.a. byggða á gamla testamentinu og skrifað um hana 10 bækur sem hafa verið þýddar á alls lags tungumál. Ég hef reyndar engan áhuga á að prófa þessa aðferð við endurtekinni djúpri o.s.fr.  en það verður spennandi að sjá hvernig svo virtur og frægur maður rekur viðhorf biblíunnar til siðblindu, ég verð að viðurkenna það. Ekki samt eins spennandi og öll afbrigðin af “prjóna” í norskum mállýskum …

NærfötMér var orðið hlýtt og veðrið orðið skaplegt þegar ég hraðgekk niður í Norræna hús. Þar fann ég ýmsar álitlegar bækur fyrir ólæsa, t.d. rosalega flotta og risastóra myndskreytta bók um konungleg brúðkaup í Svíþjóð frá dögum Gústavs Vasa. Helv. flott dress og tilbehör sem þetta lið átti og nærmyndir af útsaumnum. Einnig má nefna líklega mjög spennandi bók sem heitir Gomul Føroysk heimaráð og kom út 1959. Það er örugglega eitthvert gott trix gegn þunglyndi í þeirri bók! (Vona samt að maður eigi að ekki drekka steinolíu eða álíka.) Bók um sögu nærfatnaðar (Underkläder. En kultuhistora) var sjálftekin að láni, sömuleiðis Folkligt dråktskick i Västra Vingåker och Österåker og  Landbokvinnen. Rok og kærne - grovbrød og vadmel. Svo kippti ég með tveimur reyfurum (öðrum eftir Åsu Larsson) ef ég skyldi verða læs á næstunni. Kona þarf reyndar að vera illa læs ef hún getur ekki lesið Åsu Larsson! Og ég skilaði vel að merkja öllum siðblindubókunum svo nú geta áhugasamir fengið lánaðar Sjarmør og tyrann og fleira siðblindukyns á því ágæta bókasafni Norræna hússins.

Svo kom maðurinn og sótti mig, ég fékk far heim með þremur skólastjórnendum (bauðst til að kenna þeim hæstsetta að einelta kennara en hann afþakkaði pent) og hrundi hér inn um dyrnar einhvern tíma um fjögurleytið - kúguppgefin! Og kötturinn sjúklega vanræktur í allan dag …

Mikið sem ég er fegin að þurfa ekki að fara til borgar óttans aftur fyrr en eftir meir en viku!

Í kvöld ætla ég að reyna að horfa á Poirot á danska (það gerist allt svo hægt í þeim þáttum að meira að segja athyglisbrostin kona getur fylgst með) og prjóna minn háleist (reyndar rek ég upp álíka og ég prjóna því ég ruglast í einfaldasta munstri, sem er skýrt sjúkdómseinkenni en ekki spurt um á örorkumatsstaðli TR).

Þetta átti að vera stutt bloggfærsla en mér er greinilega fyrirmunað að stilla málæði í hóf í spjallbloggi og almennt og yfirleitt verður bloggið mitt  áframt ætlað vellæsum. Er ekki viss um að ég hefði mig sjálf í gegnum svona bloggfærslur hjá öðrum eins og á stendur fyrir mér núna  ;)

Færsla um orsakir siðblindu er í gerjun …
 

Ummæli (7) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

11. febrúar 2011

Steindór og Vilhjálmur um örorku og geðlyf: Athugasemd

Núna er voða mikið í tísku að vit fyrir öðrum og segja öðrum hvað þeir eigi að gera og hvernig þeir eigi að hugsa. Angi af þessu eru fasískir tilburðir til að stjórna klæðaburði kvenna (aðallega) á ýmsum aldri. Annar angi er stanslaus áróður velmeinandi fólks gegn geðlyfjum og tjáning geðvondra um öryrkja, auðvitað ekki hvað síst horn í síðu geðsjúkra öryrkja. Það væri í rauninni ofsalega huggulegt ef þetta fólk, sem alltaf hefur vit á hvað aðrir eiga að gera, hvernig þeir eiga að haga sér og hvernig þeir eiga að hugsa, myndi kannski eilítið snúa sér að sjálfu sér og uppeldi á sér.

Í hópi velmeinandi manna eru þeir Steindór J. Erlingsson og Vilhjálmur Ari Arason. Þeir tjá sig báðir um örorku og geðlyf í dag en virðast ekki hafa kynnt sér þau mál sérlega vel heldur grípa á lofti klisju hér og klisju þar og draga af þeim þá ályktun að geðlyf séu til lítils gagns og örorku af völdum geðsjúkdóma sé betra að leysa á annan máta, eða eins og Vilhjálmur Ari orðar það: “Skynsamlegast er að verkalýðsfélögin og starfsmannasamböndin komi þessu fólki [hann reiknar með að þunglyndi og kvíðaraskanir stafi að hluta til af atvinnuleysi] strax til hjálpar með boði um starfsendurhæfingu og mati sem byggist á fjölþáttaendurhæfingu, sálfræðihjálp, félagsráðgjöf og sjúkraþjálfun. Ef myndarlega er staðið að þessu verkefni mætti komast hjá örorku vegna kvíða og þunglyndis í mörgum tilfellum og sem virðast svo allt of algengar sjúkdómsgreiningar í dag.” (Feitletrun er mín. Það er dálítið ótrúlegt að sjá starfandi heimilislækni láta þetta út úr sér á prenti, ég viðurkenni það.)

Steindór fer vægar í sakirnar, notfærir sér viðtengingarhátt og “hvort” og “mögulega” til að koma sínum áróðri á framfæri: “Þegar þessi niðurstaða er höfð í huga er eðlilegt að spyrja hvort að langvarandi neysla geðlyfja geti mögulega aukið vanda þeirra sem kljást við geðraskanir. Bandaríski rannsóknablaðamaðurinn Robert Whitaker svarar þessari spurningu játandi í bókinni Anatomy of an Epidemic sem út kom á síðasta ári. Það er ekki að ástæðulausu því á undanförnum tuttugu árum hefur örorka vegna geðraskana þrefaldast í Bandaríkjunum á sama tíma og ávísun geðlyfja hefur aukist gríðarlega. Bók Whitakers, sem er vel rökstudd, hefur komið af stað hörðum deilum í Bandaríkjunum enda finnst mörgum geðlæknum hann vega að starfsheiðri þeirra.” [Feitletrun er mín. Í rauninni er stutti pistillinn hans Steindórs fyrst og fremst purkunarlaus auglýsing fyrir fyrirlestur þessa amríska höfundar.]

Báðir þeir velmeinandi vitna í heimildir máli sínu til stuðnings en sleppa því að geta mögulegra skýringa sem ýmist eru listaðar eða ekki listaðar í þessum heimildum. Mig langar að benda á nokkrar - margar úr einmitt sömu greinum og þeir Vilhjálmur og Steinþór vitna í.

Sigurður Thorlacius  (fyrrum yfirlæknir TR) og Sigurjón B. Stefánsson skrifa grein sem heitir “Algengi örorku á Íslandi 1. desember 2002” í Læknablaðið 1. tbl. 90. árg. 2004  Þar kemur fram að: “Ef horft er til fyrstu sjúkdómsgreiningar á örorkumati sem meginforsendu örorku, þá eru algengustu forsendur örorku á Íslandi í desember 2002 geðraskanir og stoðkerfisraskanir. Niðurstöður frá Noregi, Svíþjóð og Stóra-Bretlandi eru sambærilegar (21, 22, 26). Á Íslandi hefur algengi örorku vegna geðraskana aukist verulega hjá báðum kynjum frá því árið 1996 og geðraskanir eru algengasta orsök örorku. Því væri vert að skoða örorku vegna geðraskana nánar.” Þetta rekja þeir að hluta til hins fræga örorkumatsstaðals sem TR tók upp 1999 og  gefa í skyn sem  helst ráð gegn fjölgun öryrkja að trúa ekki vottorðum annarra lækna heldur einungis lækna TR (vísa í samanburð við Bretland og segja: “Þar hefur mun stærri hluti umsækjanda verið boðaður í viðtal og skoðun hjá lækni á vegum tryggingastofnunarinnar heldur en hér, þannig að matsferlið hefur þar verið hlutlægara. Frá og með mars 2003 hefur hins vegar verið mun algengara en áður hér á Íslandi að umsækjendur um örorkubætur séu boðaðir í viðtal og skoðun hjá lækni. Forvitnilegt verður að sjá hvort það kemur til með að hafa áhrif á tíðni örorku hér.”) [Feitletrun er mín.]

Aftur á móti kemur skýrt fram í grein sömu höfunda sem þeir skrifuðu í Geðvernd árið eftir (sjá Lyndisraskanir og örorka. Geðvernd 2005, 34(1):41-2) að Tryggingastofnun flokkar þroskaheftingu með geðröskunum. Þeir telja upp algengi örorku vegna mism. geðraskana, í prósentum af fjölda Íslendinga (dálítið skrítin framsetning finnst mér) og stærstu flokkarnir eru:

 • Lyndisraskanir: Konur: 0,99 ;  Karlar, 0,40
 • Þroskahefting: Konur: 0,42  ;  Karlar 0,44
 •  Geðklofi og hugvilluraskanir: Konur: 0,25 ; Karlar:  0,29
  (Sjá töfluna “Algengi örorku vegna mismunandi geðraskana 1. desember 2002″ í fyrrnefndri grein.)

Þannig að í hópi 1245 nýrra öryrkja á aldrinum 16-66 ára, sem áttu á bótum frá TR, árið 2003, var ”geðröskun” fyrsta greining hjá 320 og þar af lyndisröskun fyrsta greining hjá 142.

Niðurstaða Sigurðar og Sigurjóns er: Þrátt fyrir ný og betri meðferðarúrræði fer örorka af völdum geðraskana vaxandi. Til að ráða bót á ástandinu þurfi fyrst og fremst félagslegar úrbætur. Sjálf sé ég ekki að félagslegar úrbætur dragi stórkostlega úr algengi þroskaheftingar eða geðsjúkdóma og geðraskana en e.t.v. eiga höfundar við að aðrir en TR gætu haldið fólki með “geðröskun” uppi.

Í nýjustu grein þeirra félaga, Sigurðar Thorlacius og Sigurjóns B. Stefánssonar, sem þeir skrifa í félagi við Stefán Ólafsson og Kristin Tómasson, kemur fram að fjöldi þeirra sem þiggur örorkubætur frá TR vegna geðrænna- og hegðunarraskana hafi aukist úr 14% kvk. örorkuþega í 30% og úr 20% karlkyns örorkuþega í 35%, á árabilinu 1990-2007. (Sjá “Increased incidence of disability due to mental and behavioural disorders in Iceland 1990–2007” í Journal of Mental Health, apríl 2010, 19.árg, 2.tbl, s. 176-183.) Því miður hafa alþýðukonur einungis aðgang að útdrættinum svo mér er ekki ljóst hvort enn er verið að telja þroskahefta með, inni í þessum prósentutölum.

Skýringar í þetta sinn eru fjölþættar, t.d. aukin áfengis- og vímuefnaneysla auk fjölgunar í ýmsum flokkum hegðunarraskana. Líklegast skýringin er talin sú að breyttar þjóðfélagslegar aðstæður fái fólk til að sækja um örorkustyrk v. geðrænna raskana fyrr en áður.

Ef við snúum okkur að lyfjanotkun vegna geðrænna sjúkdóma og raskana er ljóst að neysla geðlyfja hefur aukist mjög á undanförnum áratugum. Sennilega er einfaldasta skýringin á því sú að almennileg geðlyf sem nýttust mörgum, SSRI-lyfin, komu ekki á Íslandsmarkað fyrr en 1988. Á það benda Tómas Helgason, Helgi Tómasson og Tómas Zoega auðvitað í grein sinni “Antidepressants and public health in Iceland” í The British Journal of Psychiatry (2004) 184: 157-162. Þeir benda líka á að djúp geðlægð (oft kölluð þunglyndi) sé næsthelsta orsök skertra lífsgæða og örorku í þróuðum löndum heimsins og að sala geðlyfja hafi stóraukist í slíkum löndum.

Á Íslandi jókst sala þunglyndislyfja úr 8,4 dagsskömmtum á hverja 1000 íbúa árið 1975, í 72,7 dagsk.á 1000 íbúa árið 2000, sem þýðir að 8,7% fullorðinna á Íslandi neyti slíkra lyfja. En læknisheimsóknum og innlögnum hefur ekki fækkað. Niðurstaðan í greininni er að betri meðferð þurfi að finna til að lina þjáningar vegna þunglyndis og tengdra sjúkdóma.

Ef maður lætur nú eftir sér að skoða gögn yfir lyfjaneyslu Íslendinga almennt er best að leita fanga í Notkun lyfja á Íslandi 1988-1999, eftir Eggert Sigfússon, Rit heilbrigðis- og tryggingmálaráðuneytisins, útg. 2000. Þar er yfirlitstafla á s. 5 þar sem koma fram dagskammtar á 1000 íbúa  á þessu árabili. Þar má m.a.sjá eftirtalda aukningu í lyfjaneyslu miðað við árið 1989 annars vegar og 1999 hins vegar:

 • Hjarta- og æðasjúkdómalyf: 1989: 147,50 - 1999: 213,90:     Hækkun um 45%
 • Þvagfæralyf, kvensjúkdómalyf og kynhormónar: 72,44 (1989) - 127,75 (1999):   Hækkun um 76,35%
 • Tauga-og geðlyf: 128,61 (1989) - 225,53 (1999):  Hækkun um 75,36%

Í  flokki tauga- og geðlyfja (N)eru einnig talin ýmis lyf sem ekki eru notuð við geðsjúkdómum, á borð við flogaveikilyf, lyf við parkinsonssjúkdómi, mígrenilyf, hjálparefni til að hætta reykingum o.fl. Þunglyndislyf eru því bara hluti tauga-og geðlyfjaneyslu.

Það er gott að hafa í huga að inni í tölfræði sem byggir á mati Tryggingastofnunar ríkisins eru þroskaheftir flokkaðir með geðsjúkdómum og geðröskunum. Einnig er gott að skoða lyfjaneyslu almennt til að sjá t.d. að  aukning hjarta- og æðasjúkdómalyfja hefur verið gífurleg án þess að menn séu að gera því skóna að fólk taki þessi lyf að gamni sínu og geti batnað öðruvísi, gott ef verkalýðsfélagið getur ekki bara læknað það eða einhver amrískur bókarhöfundur … Og af hverju hefur enginn áhyggjur af  rosalegri aukningu í þvagfæralyfjum, kvensjúkdómalyfjum og kynhormónum - sem í prósentutölum jafnast á við aukningu tauga-og geðlyfja? Væri ekki hægt að spara í þeim flokki með dálítið sósíaldemókratískara umhverfi og amerískum sjálfshjálparbókum? Jafnvel afhenda lyfjaþegum hreyfiávísun í staðinn fyrir resept?

Í allri þessari tölfræði og stundum misskilningi manna byggðri á henni finnst mér algerlega gleymast að hafa í huga þær þjóðfélagsbreytingar sem orðið hafa gífurlegar á síðustu örfáum áratugum. Mér finnst t.d. tiltölulega augljóst að börn eta hlutfallslega minna af lyfjum en fullorðnir. Þegar aldurssamsetning þjóðar breytist, þá eykst eðlilega neysla þess sem fullorðnir nota umfram börn þegar fullorðnir verða fleiri í hundraðsflokki.

Annað sem blasir við er að með þéttbýlismyndun eru miklu fleiri sjúkdómar greindir. Sennilega lifðu einhverjir fatlaðir, geðsjúkir o.þ.h. í skjóli fjölskyldu sinnar á landsbyggðinni árum saman, jafnvel alla sína ævi án þess að leita læknis eða fá formlega greiningu. Læknar voru enda ekki á hverju strái. Og sennilega er ekkert svo voðlega langt síðan slíkir lífshættir án sjúkdómsgreiningar tíðkuðust.

Loks má nefna að með aukinni þekkingu verður auðveldara að greina sjúkdóma svo ekki ætti að koma á óvart þótt fleiri sjúklingar greinist. Mér finnst mjög líklegt að geðrænir sjúkdómar á borð við djúpa geðlægð eða geðhvarfasýki hafi verið mjög vangreindir áður fyrr, þótt ekki sé litið um öxl nema tíu- tuttugu ár … hvað þá fyrir lengra síðan.

Í samanburði á 10 - 20 ára tímabili þarf að gæta að ýmsu svonalöguðu. Og það er ábyrgðarhluti að reyna að stuðla að því að veikt fólk hætti að taka lyfin sín eða leita til geðlækna. Það ættu þeir Steindór og Vilhjálmur að hafa í huga.
 
 

Ummæli (10) | Óflokkað, Geðheilsa

8. febrúar 2011

Vandinn að vera öryrki og órannsakanlegir vegir TR

ÞunglyndiÉg er öryrki vegna þunglyndis. Núverandi örorkumat nær til ársloka 2012 enda algerlega fullreynt hvort ég geti stundað vinnu/ hlutastarf/ örstarf í fyrirséðri framtíð . Ég sé ákaflega mikið eftir starfinu mínu og átti mjög erfitt með að sætta mig við það að að öllu óbreyttu get ég ekki verið íslenskukennari í fjölbraut.

En á Íslandi eru til tvö örorkukerfi. Og þau eru ekki jafn rétthá. Af því ég nýt örorkulífeyris frá mínum lífeyrissjóðum (hafandi unnið fulla vinnu árið um kring frá 18 ára aldri og unnið mér inn réttindi í þessum sjóðum með lífeyrisgreiðslum) telst ég nokkurs konar annars flokks öryrki í samfélaginu. Með því á ég við að ég get ekki fengið örorkuskírteini út á örorkumat Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Samt var það rækilega unnið, afgreiðslan tók 4 mánuði og ég þurfti að skila inn mjög ítarlegum gögnum, t.d. skattskýrslum síðustu þriggja ára, vottorðum, haft var samband við yfirmann minn o.fl. Læknirinn minn (sem verið hefur geðlæknirinn minn frá 2002) er yfirlæknir á einni af geðdeildum Landspítalans. Trúnaðarlæknir LSR sem afgreiddi upphaflega matið er doktor í geðlækningum og starfandi geðlæknir.

Örorkuskírteini gefur ýmsan rétt, s.s. á niðurgreiddri læknisþjónustu. Útgáfuaðili örorkuskírteina er Tryggingastofnun ríkisins sem framkvæmdaraðili Sjúkratrygginga Íslands. Til þess að fá örorkuskírteini þarf ég að sækja um örorkubætur frá TR og fara í örorkumat hjá TR, jafnvel þótt ljóst sé frá upphafi að ég eigi engan rétt á bótum frá TR vegna þess að ég þigg örorkulífeyri frá LSR (sem er vel að merkja ríkisstofnun alveg eins og hinar tvær).

UmsóknarfarganÞegar ég lét mig hafa það að fylla út umsókn, útvega nýtt vottorð og veita, með undirskrift umsóknarinnar, TR leyfi til að persónunjósna um mig á alla enda og kanta (þ.e. rjúfa lög um Persónuvernd, þótt mér væri það þvert um geð, bara til að fá örorkuskírteini) óskaði ég eftir því að ákvæði í reglugerð um örorkumat frá 1999, 4. gr., yrði látið gilda en þar er veitt undanþáguheimild frá því að umsækjandi þurfi að fara í gegnum örorkumat ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma. Enda sendi ég með umsókninni afrit af örorkumati LSR (því upphaflega og því sem nú er í gildi) og nýtt læknisvottorð frá fyrrnefndum yfirlækni. Og tók kristaltært fram að ég gerði mér engar vonir um bætur frá TR heldur væri einungis að sækjast eftir örorkuskírteininu.

Í dag fékk ég bréf frá TR, undirritað af Kristínu Valdimarsdóttur tryggingafulltrúa, þar sem segir: „Áður en til örorkumats kemur þarf að fara fram skoðun með tilliti til staðals sem kveðið er á um í lögum um almannatryggingar. Þengill Oddsson, læknir mun boða þig til viðtals og skoðunar.“  Ég hringdi svo í þessa Kristínu til að spyrja hvort ég mætti ekki bara fara til heimilislæknis á Akranesi, þar sem ég bý, í stað þess að þvælast til Þengils þessa, sem er heimilislæknir í Mosfellsbæ, eftir því sem ég best veit. Hún upplýsti mig um það að Haraldur Jóhannsson, yfirlæknir TR hefði ákveðið að ég þyrfti að fara í þessa læknisskoðun til „þeirra“ læknis í Mosfellsbæ.

Haraldur Jóhannsson, yfirlæknir TR og formaður stjórnar Kristniboðssambandsins (SÍK), er menntaður taugalæknir. Taugalækningar kunna að vera skyldar geðlækningum en ég efast um að skörunin sé mikil. Af prédikun hans má svo ráða að þetta sé hinn vænsti maður, þótt hann taki ekkert mark á sérfræðingum í sjúkdómum eða fjölda innlagna á geðdeild eða prófun allra þunglyndislyfjaflokka á markaðnum eða tveimur raflostsmeðferðum (þessar upplýsingar eru rækilega tíundaðar í vottorðinu sem ég skilaði inn) heldur vilji að heimilislæknir í Mosfellsbæ úrskurði um hvort ég sé þunglynd eða ekki.

Þengill (hver sem hefur lesið Ísfólkið treystir lækni sem heitir Þengill? Í Ísfólkinu eru Þenglarnir af tvennum toga!) Oddsson er sérfræðingur í embættislækningum. Í ritstjórnargrein í Læknablaðinu sagði þáverandi formaður Læknafélags Íslands að læknar skuli: „prófa hvert mál ítarlega gagnvart samvisku sinni. Þar hefur Þengill Oddsson gefið gott fordæmi.“ Það er þó huggun harmi gegn að væntanlega hitti ég heimilislækni sem prófar mál mitt ítarlega gagnvart [svo!] samvisku sinni og er þekktur fyrir að „langþreyttar konur vöknuðu til lífsins við að mæta honum í Kaupfélaginu.“

Það gleður mig að þurfa ekkert að borga fyrir þetta tilhlökkunarefni. En einhver hlýtur að borga, varla er Þengill Oddsson í starfi hjá TR, á vegum Haraldar Jóhannssonar, ókeypis og af hugsjóninni einni saman. Ég veit ekki hve marga lækna TR hefur á sínum snærum (varla marga úr því svo erfitt er fyrir yfirlækni stofnunarinnar að treysta sérfræðiáliti) en einhvers staðar sá ég haft eftir stofnuninni að á nýloknu ári hefðu borist 900 nýjar umsóknir um örorkubætur til TR. [16.2.: Þetta hlýtur að vera misminni í mér því nýjar umsóknir til TR eru líklega mun fleiri á hverju ári.] Samviskuskoðanir til að berja sjúkling augum og bera hann saman við staðal hljóta að gefa prýðilega í aðra hönd og vera ágætis búbót fyrir þá fáu lækna sem Tryggingastofnun treystir.

Í þeim virta fréttamiðli Pressunni er frétt í dag þar sem það er haft eftir ónefndum lækni að það sé akkúrat ekkert mál að ljúga sér upp örorkubætur frá TR út á léttvægt þunglyndi. Miðað við þennan títtnefnda staðal TR, sem Pressan birtir og má einnig finna á heimasíðu TR, gæti vel verið eitthvað til í þessu. Staðallinn sem á að meta eitthvað sem TR kallar „andlega færni“  er ótrúlegur, svo ekki sé meira sagt, viti maður eitthvað um geðsjúkdóma. Og hann virðist ekki í neinu samræmi við það sem segir á ICD-10 kóðun WHO, staðli sem er notaður við skráningu sjúkdómsgreininga hér á landi, skv. landlæknisembættinu, að því er virðist alls staðar í heilbrigðiskerfinu nema hjá TR. Þannig að þessi „ungi maður“ sem Pressan vitnar í getur sjálfsagt logið sér út örorku ef hann hefur tíma til að skreppa til einhvers læknis sem TR treystir (og býr ekki mjög langt frá borg óttans og nærhverfum), svara nokkrum spurningum út í hött (staðlinum fræga) og geð til að afsala sér persónuvernd, bara upp á bæturnar.

Sjálf er ég að íhuga að fá úr því skorið hvort fólk neyðist í alvörunni til að lítillækka sig svo mjög einungis til að fá afgreitt örorkuskírteini og hvort geti virkilega verið að það standist lög að halda hér uppi tvöföldu örorkukerfi þar sem manni er refsað fyrir að hafa unnið sér inn bæturnar með því vera annars flokks öryrki sem ekki á rétt á örorkuskírteini.

Fylgist með … ég mun auðvitað blogga um hina spennandi heimsókn á heilsugæslustöðina í Mosfellsbæ, prófa gagnvart samvisku minni hvort ég mundi gleðjast að hitta lækninn í kuffélagi, og tíunda hversu fagmannlega þar verður (væntanlega) að verki staðið til að meta hvort ég sé í alvörunni öryrki eða hvort ég nenni kannski bara ekki að kenna meir … og dvelji upp á mitt hopp og hí í margar vikur á geðdeild árlega. Djöst for ðe fönn ofitt.

[Færslan var stytt þann 16. febrúar af því mér fannst, eftir á, að of mikið væri þar fjallað um menn á persónulegum nótum og of margt gefið í skyn.]
 

Ummæli (14) | Óflokkað, Geðheilsa

7. febrúar 2011

Úðrun og framtaksleysi

Ég fann svar frá mínum góða lækni í ruslamöppunni póstforritsins - var búin að gleyma því að póstur frá Landspítalanum er ævinlega flokkaður sem rusl og lendir innan um Viagraauglýsingar, tilboð um háskólagráður o.m.fl. En þar með hef ég leyfi til að æfa jafnvægislist í lyfjatöku og reyna að finna hinn gullna meðalveg milli þess að vera ekki með áberandi þunglyndiseinkenni og þess að geta sofið á nóttunni. Spennandi! (NOT!)

Í meir en viku hef ég ekki haft mig í neitt hollt og gott, s.s. göngutúra og prjón. Er ekki nema rétt byrjuð á háleistunum (ekki hvítu), sem m.a. stafar af því að ég missti algerlega áhuga á að horfa á sjónvarp - var þó aðeins farin að bera slíkt við. Sömuleiðis hurfu lestrarhæfileikarnir og ég lenti á Andrésblaðastiginu aftur. Nenni ekki að lista upp dæmigerð þunglyndiseinkenni einu sinni enn.

Sé efnið nógu afmarkað og snefill af áhuga fyrir hendi get ég ríslað mér við það - glöggir lesendur sjá að aðallega er ég að gúggla og glósa um siðblindu. Samt ætti ég, miðað við heimsóknir og leitarorð á blogginu, að skrifa meira um prjónasögu en treysti mér ekki í það. Áhugi á prjónlesi er nefnilega meiri en áhugi á siðblindu. Skrítið!

Í siðblindu-heimilda-skönnun hef ég rekið mig á það hve greinar félagsvísindamanna eru áberandi illa stílaðar; þeim virðist fyrirmunað að orða hugsun sína í skýru og ljósu máli. Sálfræðingar, geðlæknar og líffræðingar eru skárri. Þó má telja það sjálfum Hare til lasts hvað hann ofnotar helv. þrítekningarnar (huggulegt stílbragð en einungis í hófi): Hann reynir alltaf að segja sama hlutinn á þrjá mismunandi vegu. Kannski hefur hann lesið Brennu-Njáls sögu og er undir áhrifum af Njáli, sem þurfti að láta þrísegja sér mikilvægar fréttir? Hvað félagsvísindatorfið varðar hef ég fyrir löngu tekið eftir þessu í íslenskum greinum og bókum en hélt að útlendingar væru skárri. Nú sé ég að landinn hefur lært af amríkönum. Svo eru fræðilegar greinar útsparslaðar í fræðiorðum sem ég hef ekki hugmynd um hvað kallast á íslensku og kostar oft mikla leit að grafa það upp. (Get þó flett upp grískum stofnum í manninum og komist þannig að því hvað orðin þýða bókstaflega en þrautin er þyngri að finna rétta íðorðið á íslensku.)  Gamli málfarsbankinn sem geymir íðorðaskrár er ansi tómur.  Meira en hálf vinnan við siðblindufærslurnar er því fólgin í því að koma efninu á skikkanlega íslensku. Vonandi hefur það tekist þótt mig gruni að sauðslegir unglingar myndu ekki skilja færslurnar ;)   Gat ekki stillt mig um að koma þessu að …

FordómarÍ leiðinni rekst ég á ýmislegt áhugavert sem snertir önnur efni. Má nefna að ég sá vísað í empíriskar rannsóknir sem sýna að sú staðreynd að þunglyndi er mjög oft argengt eykur fordóma almennings en minnkar þá ekki, eins og maður gæti haldið. Gáfulegar umræður við manninn leiddu í ljós að líklega hefur fólk síður fordóma gegn einhverju sem það telur að geti ekki komið fyrir sig, t.d. að einhver verði þunglyndur í kjölfar áfalls, slyss eða álíka, en fordómar fólks aukist þegar því verður ljóst að það fær kannski engu ráðið um geðræna sjúkdóma á borð við þunglyndi. Fólk telur jú alltaf að slys og áföll hendi aðra en sig. Mér þótti þetta með að upplýsingar um genetískar orsakir þunglyndis auki fordóma afar athyglisvert.

Sjálfri hefur mér þótt viss huggun í því fólgin að ég valdi ekki þennan sjúkdóm, ég gat á engan hátt komið í veg fyrir hann og ég valdi auðvitað engan veginn að verða öryrki af völdum hans. En nú velti ég því fyrir mér hvort opinberar yfirlýsingar um þetta hafi kannski aukið fordóma fólks útí bæ? Ekki svo að skilja að ég verði nokkru sinni vör við slíka fordóma, búandi í tiltölulega litlu plássi þar sem alls konar fólk spyr elskulega um líðan mína eða þakkar mér fyrir að tala opinskátt um þunglyndið. Kannski voru empírísku rannsóknirnar gerðar í stórborgum?  (Ég efast reyndar ekki augnablik um botnlausa fordóma Íslendinga í garð geðsjúkra, eftir að hafa séð niðurstöður einhverrar könnunar á því hvernig nágranna fólk vill ekki eiga. Minnir að fólk með geðræna sjúkdóma hafi skorað hæst á þessum ekki-lista. Reyni að hugga mig við að margir eru sauðslegir að upplagi.)

Í lok þessa snakkbloggs vil ég koma því að ég hef aukið við siðblindufærslurnar: Í fyrstu færslu eru nú komnar krækjur í tvær heimildamyndir (breska og ástralska) um siðblindu, sem Lára Hanna Einarsdóttir klippti saman úr bútum á YouTube og kom fyrir á sama svæði. Í síðustu færslu, um siðblindu í viðskiptaheiminum hefur verið bætt við fimm krækjum í íslenskt sjónvarps-og útvarpsefni frá því í fyrra, þegar Nanna Briem vakti svo mikla athygli á siðblindu í viðskiptum. Sömuleiðis eru þetta efni framreitt af Láru Hönnu. Ég kann henni bestu þakkir fyrir að benda mér á það og leyfa mér að krækja í það. Sérstaklega ætti síðarnefnda efnið að nýtast þeim sem eru að leita að efni um siðblindu á íslensku.

Svo bíð ég spennt eftir texta um siðblinda dverga sem afkomandi minn hefur boðist til að semja … ;)

En þá er það sturta dagsins … og vonandi hef ég mig í labbitúr í dag - sem ku vera svo einkar hollt fyrir sálina og jafnvel líkamann einnig.

Ummæli (8) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf

5. febrúar 2011

Siðblindir í viðskiptum

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda, IV hluti

(Finna má aðrar færslur um siðblindu í efnisflokknum Siðblinda,  sjá efnisflokka hér til hægri.) 
 

Þar sem siðblindir einstaklingar hafa fengið að leika lausum hala er mikilvægt að hreinsa til með því að afhjúpa þá og lögsækja þar sem það á við. Siðblinda er áhugavert, en um leið mjög alvarlegt, óhugnalegt og hættulegt fyrirbæri, og það þarf ekki sérfræðing í geðlækningum til að segja manni að siðblinda sé ekki eftirsóknarverð í fyrirtækjum, hvað þá í samfélagi manna.1
 
 

Snakes in Suit eftir Babiak og HareSiðblinda í viðskiptum er eiginlega sú eina birtingarmynd siðblindu sem vakið hefur einhverja athygli hér á landi, ekki hvað síst í kjölfar efnahagshrunsins. Má nefna að Nanna Briem geðlæknir, sem vitnað er til í upphafsorðum, og fleiri hafa gert siðblindu í viðskiptalífinu góð skil og ættu áhugasamir endilega að kynna sér það efni.2

[Viðbót 7. febrúar: Þeim sem vilja hlusta /horfa á íslenskt ljósvakamiðlaefni um siðblindu í viðskiptum og hugsanleg tengsl hennar við efnahagshrunið er bent á þetta: Fréttaaukinn 10. janúar 2010; Fréttir Stöðvar 2 - 3. febrúar 2010Mbl-Sjónvarp - 3. febrúar 2010;  Víðsjá 3. febrúar 2010;  Spegillinn 3. febrúar 2010.  Þetta efni fjallar einkum um Nönnu Briem og þá athygli sem hún vakti á siðblindu í viðskiptalífinu snemma árs 2010. Ég þakka Láru Hönnu Einarsdóttur kærlega fyrir að benda mér á efnið og fyrir að hafa gert það aðgengilegt.] 

Siðblinda í fyrirtækjum hefur talsvert verið rannsökuð og er víða fjallað um hana, gott ef hún hefur ekki verið í tísku undanfarinn áratug. Frægasta bókin um þetta er bók þeirra Pauls Babiak og Roberts D. Hare, Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work. (Upphaflega átti bókin reyndar að heita When Psychopaths Go to Work: Cons, Bullies and the Puppetmaster, þar sem þrjár helstu gerðir siðblindra í fyrirtækjum eru taldar upp í titlinum.3) Robert D. Hare er helsti sérfræðingur heims í siðblindu, s.s. ætti að vera ljóst hafi menn lesið fyrri bloggfærslur mínar um efnið, og Paul Babiak er iðnaðar- og fyrirtækjasálfræðingur.

Babiak hafði rekist á 8 siðblinda einstaklinga í vinnu sinni sem ráðgjafi ýmissa fyrirtækja. Þessir einstaklingar áttu farsælan starfsferil að baki þrátt fyrir að mælast með umtalsverða siðblindu á kvarða Hare (PCL-R), sjö þeirra mældust með um eða yfir 29 stig, sá áttundi náði því ekki alveg. (Skorin náðu frá 24,3 stigum til 32,9.).4 Hann hafði samband við Robert D. Hare og þeir slógu sér saman.  Þeir Babiak og Hare rannsökuðu síðan 203 stjórnendur í ýmsum fyrirtækjum vestanhafs og prófuðu mælitækið B-360° sem þeir voru að þróa. Í ljós kom að algengi siðblindu var talsvert meira en almennt mælist í samfélaginu eða 3,5% meðal stjórnendanna en er venjulega talað um 1% siðblinda, jafnvel tæplega það, meðal þorra almennings.5  Siðblinda í viðskiptalífinu reyndist hafa jákvæð tengsl við álit manna innan fyrirtækjanna á persónutöfrum eða hvernig stjórnendurnir komu fyrir en neikvæð tengsl við mat annarra á ábyrgð og hegðun, t.d. samstarfshæfni og færni í stjórnun.6
 

Höggormar í jakkafötum

Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu niðurstöðum þeirra Babiak og Hare í bókinni Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work, ásamt því að tæpa á kenningum annarra þar sem þar á við.

Í formála nefna þeir að frá síðasta áratug liðinnar aldar hafa fyrirtæki lagt æ meiri áherslu á samkeppni, skilvirkni, hraða og gróða og í því augnamiði varpað skrifræðisveldinu gamla fyrir róða. Fyrirtækin reiða sig á bráðabirgðaráðstafanir, hafa færri lögfræðinga, einfaldara kerfi, meira frjálsræði starfsmanna til ákvarðana og minni skriffinnsku. Vald sumra fyrirtækja er orðið nær takmarkalaust, auðæfin ævintýraleg og siðfræðilegir staðlar og gildi eru fyrir borð borin. Þetta er hluti skýringarinnar á því af hverju siðblindir sækjast eftir störfum, helst stjórnunarstöðum, í fyrirtækjum og af hverju þeir geta auðveldlega hreiðrað þar um sig.

*Menn glepjast á að ráða siðblinda til starfa í fyrirtækjum af því að:

 • Sumir kjarnaþættir siðblindu kunna að virðast töfrandi í starfsumsókn og auka möguleika á ráðningu, t.d. hve siðblindir eru heillandi og duglegir að kjafta sig gegnum starfsviðtöl. Auk þess falsa þeir oft meðmælin sem þeir framvísa.
 • Sumir starfsmannastjórar halda að siðblindueinkennin séu merki um „forustuhæfileika“ (hæfileika til að fá aðra á sitt band og láta þá hlíta fyrirmælum) en í rauninni eru þetta hneigðin til þvingunar, drottnunar og ómældrar stjórnsemi.
 • Í síbreytilegu viðskiptaumhverfi vantar leiðtoga til að hrista upp í fólki og drífa verkin af. Sjálfselska, kaldlyndi og tilfinningaleysi urðu allt í einu eftirsóknarverðir eiginleikar.
 • Siðblindir hrífast  af þessu nýja viðskiptaumhverfi og laðast að viðskiptum þar sem hraði, mikil áhætta og mikill gróði er í boði.7

   

*Sömu aðferðir henta siðblindum innan fyrirtækis og í samskiptum við fólk almennt. Greina má háttalag þeirra í þrenns konar ferli:

 • Þeir meta aðstæður: Þetta gera þeir fyrstu mánuðina í starfi. Þeir greina umhverfi sitt, hasla sér völl og  tengjast áhrifamönnum innan fyrirtækisins (verndurum og peðum). 
 • Þeir taka yfir og byrja að ráðskast: Þetta gera þeir t.d. með því að fegra mannorð sitt, gera lítið úr öðrum, dreifa röngum upplýsingum, ýta undir deilur, afbrýðisemi og samkeppni milli hinna svo allir verði of uppteknir til að geta haft auga með þeim siðblinda. Á þessu stigi gera þeir oft einhverja að sérstökum trúnaðarmönnum sínum til að treysta vináttuböndin (en segja þeim náttúrlega ekki satt).
 • Þeir yfirgefa svæðið eða  þeir færast upp metorðastigann og hrifsa völdin af verndara sínum.8


 

*Siðblindir byrja á að sannfæra aðra um heiðarleika, heilindi og einlægni sína. Síðan snúa þeir sér að því að sjá út fólkið í fyrirtækinu:

Peðin eru þeir sem hafa eitthvað sem svikahrappurinn ágirnist. Það geta verið mörg peð í fyrirtækinu sem þjóna mismunandi tilgangi; ráða yfir upplýsingum, peningum, sérfræðiþekkingu, hafa áhrif, sambönd o.s.fr. Siðblindur einbeitir sér að því að finna peð sem allra fyrst. Mörg peð eru svo blinduð af svikahrappnum að þau láta honum í té hvað sem er, sama hversu óviðeigandi eða hneykslanleg bónin er. Eitt helsta bragð hins siðblinda er að biðja um vinargreiða sem er aldrei endurgoldinn.

Verndararnir eru háttsettir einstaklingar sem bera blak af siðblindum, oft áhrifamiklir forstjórar sem taka hæfileikaríka starfsmenn undir verndarvæng sinn og hjálpa þeim að komast til metorða í fyrirtækinu. Reynsla Babiak og Hare er að gervi hins fullkomna starfsmanns og framtíðarleiðtoga hafi verið svo sannfærandi að margir í stjórnendateyminu létu heillast þótt þeir hefðu ekki haft náin kynni af þeim siðblindu. Þessi háttsettu stjórnendur gerðust verndarar þeirra. Þegar samband verndara og skjólstæðings er einu sinni komið á er erfitt að brjóta það á bak aftur. Valdamiklir verndarar verja siðblinda fyrir gagnrýni annarra.

Óvirkir áhorfendur eru fjöldi samstarfsmanna og millistjórnenda sem hinn siðblindi hefur engan áhuga á af því hann telur ekki að þeir gagnist sér. Þeir í góðri aðstöðu til að sjá hvað er í gangi því sá siðblindi skiptir sér ekkert af þeim. En flest fólk hugsar einungis um sitt. Óvirku áhorfendurnir segja eftir á: „Ég skipti mér bara af mínu“, „enginn vildi hlusta á mig“ og „það er ekki mitt að skerast í leikinn“.

Flónin: Þegar hið sanna eðli hins siðblinda verður ljóst, sem m.a. kemur fram í því að hinn fyrrum heillandi vinnufélagi hunsar fólk og verður kuldalegur, rennur upp fyrir peðunum að þau voru aldrei annað en flón. Þeim finnst þau hafa verið svikin og flekkuð. Það er erfitt að horfast í augu við að sú persóna sem þau treystu hvað best skuli bregðast þeim svo purkunarlaust. Skömmin og sneypan  koma í veg fyrir að þau segi frá.

Verndaranum, sem hélt  hlífiskildi yfir hinum siðblinda fyrir efasemdum og ásökunum annarra starfsmanna og hækkaði hann í tign, fól honum flóknari verkefni og leyfði honum að leika lausum hala innan fyrirtækisins, finnst líka að hann hafi verið ginntur. Því miður verður verndarinn að flóni, glatar áliti sínu í fyrirtækinu og tapar oft starfi sínu því sá siðblindi hefur allan tímann búið í haginn fyrir sjálfan sig og hreppir stöðuna.9


 

*Siðblindum yfirmönnum má aðallega skipta í tvo flokka: Þá sem beita stjórnsemi og þá sem beita fantabrögðum. Ekki er ljóst hvort líffræðilegur munur í heila eða mismunandi aðstæður í uppvexti veldur þessum mismun.

 • Siðblindur stjórnandiStjórnsamir blekkingameistarar notfæra sé aðra í eftirsókn eftir frægð, auðæfum, valdi og stjórn. Þeir eru svikulir, sjálfselskir, yfirborðskenndir, drottnunargjarnir og mjög oft lygarar. Þeim er alveg sama um afleiðingar eigin hegðunar og leiða hugann sjaldan að því hvað framtíðin ber í skauti sér. Þeir axla aldrei ábyrgð, þrátt fyrir ýmis loforð um að skila af sér, ná markmiðum eða standa við persónulega greiða. Þegar þeir eru ásakaðir kenna þeir öðrum um vandamálin. Þeir eru ruddalegir og harðbrjósta við þá einstaklinga sem hafa ekkert að bjóða þeim því þeim finnst þeir sjálfir vera æðri og í fullum rétti. Þeir hugsa aldrei um skaðann sem þeir valda fólki eða stofnunum. Í samskiptum virðast þeir oft gersneyddir mannlegum tilfinningum, sérstaklega samlíðan. Afsökunarbeiðni er þeim framandi því þeir upplifa ekki eftirsjá eða sektarkennd. Þrátt yfir þetta ganga samskipti við aðra ótrúlega vel, aðallega vegna einstakrar færni þeirra til að heilla fólk og semja sannfærandi sögur til að hafa áhrif á aðra. Þeir eru mjög leiknir í að lesa í fólk og aðstæður og haga framkomu sinni eftir því. Þeir geta skrúfað sjarmann á og af eftir því hvað hentar hverju sinni. Af því þeim tekst svo vel að dylja sína dökku drætti ná þeir auðveldlega trausti fólks og síðan hafa þeir gagn af fólki eða svíkja það. Það er eins og þeim finnist gaman að blekkja fólk, ná tangarhaldi á öðrum og fá þá til að gera ýmislegt fyrir sig.
 • Fantar eru siðblindir sem reiða sig á hótanir, þvingun, ógnun og ofbeldi til að drottna yfir öðrum og ná því sem þeir ásælast. Fáum dylst að slíkur einstaklingur er árásargjarn og frekar kvikindislegur. Það er borin von að hann heilli fórnarlömbin til undanláts svo hann reiðir sig á fautaskap eða einelti í staðinn. Siðblindur af þessu taginu er harðbrjósta við aðra, leitar markvisst að tækifærum til að taka þátt í deilum og er oftast upp á kant við aðra. Hann lætur sig réttindi og tilfinningar annarra engu skipta og brýtur oft óskráðar reglur um félagslega hegðun. Ef hann fær ekki sitt fram verður hann hefnigjarn, bruggar öðrum launráð og notar hvert tækifæri til að ná sér niðri á þeim. Oft ræðst hann harkalega á einstaklinga sem eru fremur lítils ráðandi. Óljóst er hvort föntunum er eðlislæg nautn af því að traðka á öðrum eða hvort þeir hafi lært að þetta sé árangursríkasta leiðin til að ná sínu fram. Því er eins farið með þá og hina stjórnsömu yfirmenn, að þeir finna ekki fyrir eftirsjá, sektarkennd eða samlíðan með öðrum. Af því þeir gera sér enga grein fyrir því hvernig þeir skaða aðra og jafnvel sjálfa sig eru siðblindir fantar sérstaklega hættulegir á vinnustað.
 • Leikbrúðustjórnendur eru sjaldgæfastir og hættulegastir:  Þeir sýna bæði stjórnsama drætti og fantabrögð en fara fínt í hvort tveggja. Þeir eru leiknir í að stjórna fólki og  kippa í spotta bak við tjöldin. Þannig ná þeir valdi á  þeim sem standa neðar í virðingarstiga fyrirtækisins. Aðferðir þeirra minna á Stalín og Hitler sem umkringdu sig hlýðnum fylgismönnum og stjórnuðu heilu þjóðunum gegnum þá. Siðblindir leikbrúðustjórnendur bæla harkalega niður fyrstu merki uppreisnar og víla ekki fyrir sér að ráðast á stuðningsmenn sína líka. Í augum þeirra mega bæði leikbrúður og fórnarlömb missa sín enda skynja þeir þau ekki sem manneskjur af holdi og blóði heldur verkfæri. Babiak og Hare telja að siðblindir leikbrúðustjórnendur í fyrirtækjum sýni öll merki um sígilda hættulega siðblinda.10

*Afleiðingar þess að hafa siðblinda yfirmenn í fyrirtækjum:

Áströlsk rannsókn, sem gerð var árið 2008 til að skoða hvaða áhrif siðblindir stjórnendur hefðu á starfsanda innan fyrirtækja og hollustu starfsmanna við fyrirtækið, sýndi sláandi niðurstöður. Siðblindir millistjórnendur höfðu afar neikvæð áhrif á alla þætti sem snerta viðhorf starfsmanna til félagslegrar ábyrgðar fyrirtækisins, s.s. hvort þar tíðkaðist sanngjörn og umhverfisvæn starfsemi sem kæmi samfélaginu til góða, og hvort verk starfsmanna væru metin að verðleikum. Sem dæmi um hið síðasttalda má nefna að rúm 80% töldu að verk þeirra væru metin að verðleikum þar sem millistjórnandi var „eðlilegur“ en einungis tæp 25% töldu svo vera ef millistjórnandinn var siðblindur.11

Clive Buddy, sem einnig stóð að fyrrnefndri rannsókn, komst að því að áhrif siðblindra í einelti eru margföld miðað við fjölda þeirra. Hann segir: „Þar sem siðblindir eru á vinnustað er einelti marktækt algengara en ella. Einnig er yfirmaðurinn talinn óréttlátur við starfsmenn og áhugalaus um tilfinningar þeirra. [Þetta er án tillits til þess hvort yfirmaðurinn er siðblindur eða ekki.] Niðurstaðan er sú að 1% almennra starfsmanna, þ.e. þeir sem eru siðblindir, stendur fyrir 26% af einelti á vinnustað.“12

Andrew Fastow fjármálastjóri EnronHvað varðar fjárhag og rekstur fyrirtækja sem siðblindum hugnast (hratt, áhættusamt en gróðavænlegt umhverfi þar sem gjarna ríkir óreiða) má sem dæmi „nefna Enron, sem varð gjaldþrota 2001 og um 20.000 manns misstu vinnuna. Við gjaldþrotið kom í ljós gríðarlegt fjármálamisferli, sem hafði lengi falið hvernig var ástatt fyrir fyrirtækinu og kom því loks í þrot. Fyrirtækin líta í hina áttina ef harðsvíruð og siðlaus aðgerð er arðbær, verðlauna hana jafnvel. Þeir sem auka gróða fyrirtækisins eru gerðir að stjörnum, þó að aðferðirnar hafi verið mjög áhættusamar og jafnvel siðlausar. Við slíkar aðstæður standa allar dyr opnar hinum siðblindu. … Sá siðblindi hefur enga tryggð við fyrirtækið, bara við sjálfan sig. Þessu síðastnefnda lýsir Andrew Fastow hjá einum stjórnanda í Enron, en hann hafði sem markmið að græða sjálfur sem mest án þess að hafa minnstu áhyggjur af fyrirtækjunum eða fólkinu.“13


[Myndin er af Andrew Fastow, aðalfjármálastjóra Enron-samsteypunnar. Árið 2004 var hann dæmdur í sex ára fangelsi fyrir fjársvik, þrátt fyrir að hafa tekist að heilla saksóknara upp úr skónum.]
 

Robert D. Hare telur að það séu til margs konar fjárglæframenn og ástæður fyrir fjársvikum geti tengst bágum efnahag, þrýstingi frá samfélaginu eða félögunum, sérstökum ástæðum, tækifærum sem bjóðast o.s.fr. En hvítflibba-siðblindir eru oft mjög flæktir í alls kyns óvenju gróft og gróðavænlegt brask. Þeir berast ómælt á meðan fórnarlömb þeirra glata sparifé sínu, virðingu og heilsu; hljóta „efnahagslega dauðarefsingu“ eins og einn fulltrúi laganna orðaði það. Vegna þess að glæpir þeirra felast ekki í líkamlegu ofbeldi fá þeir tiltölulega væga dóma og lágar sektir og eru snemma látnir lausir úr fangelsi. Féð sem þeir sölsuðu undir sig fæst sjaldan endurheimt svo fórnarlömbin og almenningur stendur sem þrumulostinn og sannfærður um að glæpir borgi sig svo sannarlega þegar þeir eru framdir af mönnum sem breiða yfir kléna samvisku með persónutöfrum, sjálfselsku og blekkingu.14


 

*Hvað verður um siðblinda stjórnendur?

Afdrif þeirra átta stjórnenda sem Paul Babiak greindi siðblinda voru þessi: Aðeins einn þeirra missti starfið en yfirgaf fyrirtækið með veglegan starfslokasamning og réði sig í hærri stöðu hjá keppinautnum; Tveir hlutu framgang í hærri stöður í samruna fyrirtækisins við annað; Einn slapp óhultur gegnum samruna fyrirtækja af því hann var valinn í hóp þeirra sem færðust yfir og fékk að velja hverjir fylgdu með (stuðningsmenn sína) í nýja fyrirtækið og hverjum var sagt upp (þeim sem höfðu séð í gegnum hann); Tveir hafa hlotið stöðuhækkun og eru enn í sínum gömlu fyrirtækjum; Einn „hvarf“ þegar fyrirtækinu var lokað; Einn átti farsælan starfsferil, endaði sem aðstoðarforstjóri og fór svo á eftirlaun.15

Stein Bagger segist vera siðblindurSé horft á alla þá siðblindu stjórnendur sem Robert D. Hare og Paul Babiak höfðu rannsakað árið 2008 þá héldu allir nema nema þessi eini (sem Babiak talar um) völdum sínum innan fyritækjanna. Sumir stigu til hærri metorða, aðrir sátu sem fastast enda höfðu þeir góða aðstöðu til að notfæra sér fyrirtækin í eigin þágu. Því miður virðast fyrirtæki reyna að hylma yfir vesenið eða losna bara við það úr eigin ranni, ganga jafnvel svo langt að skrifa meðmælabréf handa hinum siðblinda, sem auðveldar honum að svíkja út hærri stöðu. Þrátt fyrir efnahagskreppuna er enn þörf á reyndum stjórnendum sem hafa bolmagn til að taka að sér endurreisn fyrirtækja og snúa ástandinu til betri vegar. Svoleiðis menn eru vandfundnir. En þetta er upplagt tækifæri fyrir siðblinda; Þeir geta smogið inn í fyrirtækin á fölskum forsendum og gefið sig út fyrir að vera „lausnin“ á vanda þeirra. Aðgangur að menntun verður æ greiðari og því fylgja vafasamar gráður sem siðblindir kaupa á netinu og punta með starfsferilsskrárnar. Nú er engin skömm af því að hafa misst vinnuna, eins og áður þótti, enda hafa jafnvel frábærir stjórnendur þurft að ganga atvinnulausir um hríð. Því er auðvelt fyrir siðblinda að kenna samdrætti um til að útskýra hve stutt þeir hafa tollað í mörgu starfinu.16

[Myndin er af Stein Bagger, forstjóra danska fyrirtækisins IT Factory. Hann er reyndar ekki gott dæmi um niðurstöður Babiak og Hare því árið 2009 var hann dæmdur í sjö ára óskilorðsbundið fangelsi fyrir ævintýraleg fjársvik og skjalafals. Stein Bagger hefur sjálfur haldið því fram að hann sé siðblindur.]

*Atriði sem gætu bent til að stjórnandi eða starfsmaður fyrirtækis sé siðblindur:

 • Viðkomandi getur ekki stjórnað teymi - hópvinna með siðblindum er fyrirfram vonlaus;
 • Viðkomandi getur ekki deilt með sér - t.d. upplýsingum og hrósi;
 • Viðkomandi kemur misjafnlega fram við  fólk - af því siðblindir skipta fólki í verndara, peð, flón og lögreglu;
 • Viðkomandi getur ekki sagt satt - sjúkleg lygaárátta er aðalsmerki siðblindra;
 • Viðkomandi getur ekki sýnt hógværð;
 • Viðkomandi getur ekki tekið skömmum - hann  tekur ekki ábyrgð á eigin mistökum (heldur kennir öðrum um);
 • Viðkomandi sýnir ófyrirséða hegðun - maður veit aldrei hvar maður hefur siðblindan;
 • Viðkomandi getur ekki brugðist rólega við - siðblindir stökkva upp á nef sér;
 • Viðkomandi getur aldrei brugðist öðruvísi við en reiður/árásargjarn.1

*Hvernig lágmarka má hættu á að ráða siðblindan stjórnanda eða starfsmann í fyrirtækið:

 • Taka ítarleg viðtöl við umsækjendur;
 • Biðja um sýnishorn af fyrri verkum;
 • Einblína á hegðun og framkomu;
 • Biðja um útskýringar á smáatriðum /gaumgæfa smáatriði;
 • Vera vakandi fyrir eðlilegum tilfinningaviðbrögðum;
 • Ákveða ekki ráðninguna einsamall/einsömul;
 • Sannreyna meðmæli;
 • Spyrjast fyrir hjá fyrri vinnuveitanda;
 • Nota B-Scan.18

    


1 Nanna Briem. 2009. „Um siðblindu“ í Geðvernd, 38.árg. 1.tbl. 2009, s. 28 
 2 Sjá Nanna Briem. 2009. „Um siðblindu“, Geðvernd, 38.árg. 1.tbl. 2009, s. 25 - 29; Nanna Briem. 2010. „Siðblinda“, ritstjórnagrein í Læknablaðinu 96.árg. 6.tbl. 2010; Nanna Briem. 2010. Siðblinda og birtingarmyndir hennar, myndband af fyrirlestri sem hún hélt í Háskólanum í Reykjavík þann 3. febrúar 2010; Nanna Briem. Maí 2010. Um siðblindu (glærusýning). Sjá einnig Kristján G. Arngrímssonar. 2006.„Snákar í jakkafötum“ í Mbl. 7. júní 2006 og Jón Sigurður Karlsson. 2011. „Siðræn sjónskerðing og siðblinda“ í Vefriti Sálfræðingafélags Íslands. Pistlar um ýmis málefni frá sjónarhorni sálfræðinnar 3. 1. 2011. Vefsíður skoðaðar í janúar 2011.
 3 Hercz, Robert. 2001. „PSYCHOPATHS AMONG US“, skoðað á vefsvæði Roberts D. Hare þann 3. febrúar 2011. Birtist upphaflega í Saturday Night Magazine 8. september 2001.
 

4 Babiak, Paul. 2004. „From Darkness Into the Light: Psychopathy in Industrial and Organizational Psychology“ í The Psychopath: Theory, Research, and Practice, s. 415.
Ritstjórar: Hugues Hervé og John C Yuille. Lawrence Erlbaum Assiociates, Inc., New Jersey.  Aðgengilegt á Google bækur. Skoðað 4. febrúar 2011.
 

5 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007. Snakes in Suits. When Psychopaths Go to Work. HarperCollins Publishers, New York, s. 193. (Bókin kom fyrst út 2006.)

Aðra kannanir hafa leitt svipað í ljós eða jafnvel uggvænlegri niðurstöðu, t.d. bresk könnun þar sem bornir voru saman þrír hópar: Geðsjúkir ofbeldismenn í Broadmoor gæslufangelsinu í Englandi (karlmenn), hópur sjúklinga af geðsjúkrahúsum (rúmlega helmingurinn karlmenn) og hópur háttsettra stjórnenda (karlmanna) í fyrirtækjum. Ekki var notaður PCL-R kvarði Hare’s heldur annars konar mælitæki. Niðurstaðan var sú að stjórnendahópurinn sýndi mestu kjarnaeinkenni siðblindu en aftur á móti lítil merki um andfélagslega hegðun. Af því mælt var öðruvísi en Hare gerir er ekki hægt að gefa upp neina tölu um siðblindu í þessum þremur hópum en sjá má töflu yfir einstaka persónuleikaþætti, þ.m.t. þá sem heyra til kjarnaeinkenna siðblindu, í rannsókninni. Sjá  Board, B J, and Fritzon, K. 2005. „Disordered personalities at work“ í Psychology, Crime and Law, 11.árg., 1.tbl., s. 17- 32. Skoðað 4. febrúar 2011.
 

6 Babiak, Paul. 2010. „Corporate psychopathy: Talking the walk“ í Behavioral Sciences & the Law, 28.árg. 2.tbl., s. 174– 193, mars/apríl 2010. Einungis útdrátturinn var skoðaður, þann 3. febrúar 2011.
 

7 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. xi-xiii.
 

8 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 88-148.
 

9 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s 111-141.
 

10 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s 185-193
 

11 Boddy, Clive R., Richard K. Ladyshewsky og Peter Galvin: 2010. „The Influence of Corporate Psychopaths on Corporate Social Responisbility and Organizational Commitment to Employees“ í Journal of Business Ethics, 97.árg. 1.tbl. 2010, s. 1-19. Skoðað 4. febrúar 2011.
 

12 Boddy, Clive R. 2010. „Corporate Psychopaths, Bullying and Unfair Supervision in the Workplace“ í Journal of Business Ethics, 97.árg. 1.tbl, s. 1-13. Skoðað 25. jan. 2011.
 

13 Nanna Briem. 2009. „Um siðblindu“ í Geðvernd, 38.árg. 1.tbl. 2009, s. 27-28. Tilvitnun í Fastow er tekin úr Deutschman, Alan. „Is Your Boss a Psychopath?í Fast Company 96.tbl. júlí 2005, s. 44-51. Skoðað 3. febrúar 2011.

Það er áhugavert í þessu sambandi að lesa hugleiðingar Guðjóns Viðars Valdimarssonar um hvort og þá hvernig skuli í endurskoðun taka á þáttum sem varða siðferði og fyrirtækjamenningu. Hann nefnir ekki siðblindu en minnist á Enron og segir: „Þegar menning viðkomandi fyrirtækis gengur út á árangur og árangursmat og árangursmatið hefur afgerandi áhrif á framtíð og starfsferi [svo!] starfsmanna. Þessi þáttur samtvinnaður við vísvitandi tregðu yfirstjórnar til að vilja vita nákvæmlega hvernig viðkomandi náði markmiðum sínum væru viss einkenni þessara [svo!] fyrirtækjamenningar. Hjá Enron fyrirtækinu hafði sú menning skapast að allir starfmenn yrðu að ná árlegum markmiðum sínum. Það í sjálfu sér er nú ekki óhófleg krafa en það sem var sérstakt var að það var nánast hægt að ábyrgast [svo!] að náði starfsmaður ekki markmiðum sínum þá var hann annað hvort rekinn strax eða settur til hliðar. Þegar starfsmenn standa frammi fyrir slíku þá munu þeir leita allra leiða til að búa svo hlutina að þessi markmið náist því þeirra starfsframi og öryggi fjölskyldu þeirra er í húfi. Stjórnendur Enron vildu helst ekki vita annað en hvort viðkomandi hafði náð markmiðum sínum eða ekki.

Það var óskrifuð regla að meðölin helguðu tilganginn en einnig að stjórnendur vildu hafa það sem á ensku heitir “Plausible deniability” þ.e.a.s. að getað [svo!] vísað ábyrgð frá sér með þeim rökum að þeir hafi ekkert vitað og treyst undirmönnum sínum.

Við lestur rannsóknarskýrslurnar [svo!] [átt er við rannsóknarskýrslur Alþingis eftir bankahrunið] kemur það ítrekað fram hjá stjórnmálamönnum að þeir telja að forsvarsmenn bankanna hafi logið að sér og þess vegna hafi þeir ekki viljað grípa til þeirra aðgerða sem eftir á að hyggja, hefðu talist eðlilegar. Spurningin er sú hvort það sé viðunandi skýring að maður hafi ekki vitað betur. Getur þá skipstjóri strandaðs skips vísað frá sér ábyrgð vegna þess að undirmenn viðkomandi hafi logið eins og þeir voru langir til?“

Sjá  Guðjón Viðar Valdimarsson. „Menning og siðferði fyrirtækja sem liður í innri endurskoðun“ í Fréttabréfi Félags um innri endurskoðun, 1.tbl. september 2010, s. 2. Guðjón er faggiltur innri endurskoðandi (CIA) og tölvuendurskoðandi (CISA) og starfar hjá Seðlabanka Íslands. Skoðað 4. febrúar 2011.
 

14 Hare, Robert D. í viðtali við Dick Carozza. 2008. „Interview with Dr. Robert D. Hare and Dr. Paul Babiak. These Men Know ‘Snakes in Suits’: Identifying Psychopathic Fraudsters“ í Fraud Magazine, júlí-ágúst 2008. Skoðað á vefsetri Roberts D. Hare 4. febrúar 2011.

Sjá einnig: Robert Hare í viðtali við Robert Hercz 2001: „Fjölmargir hvítflibba-glæpamenn eru siðblindir“, segir Bob Hare. „En þeir dafna vel því persónueinkennin sem skilgreina siðblindu eru í rauninni mikils metin. Og hvað gerist þegar þeir nást? Það er slegið á puttana á þeim, þeim er bannað að stunda viðskipti í hálft ár og þeir endurgreiða okkur ekki þessar 100 milljónir dollara. Mér hefur alltaf fundist hvítflibbaglæpir jafnslæmir eða verri en sumir ofbeldisglæpir.“ Hercz, Robert. 2001. „PSYCHOPATHS AMONG US“, skoðað á vefsvæði Roberts D. Hare þann 3. febrúar 2011. Birtist upphaflega í Saturday Night Magazine, 8. september 2001.
 

15 Babiak, Paul. 2004. „From Darkness Into the Light: Psychopathy in Industrial and Organizational Psychology“ í The Psychopath: Theory, Research, and Practice, s. 426.
Ritstjórar: Hugues Hervé og John C Yuille. Lawrence Erlbaum Assiociates, Inc., New Jersey.  Aðgengilegt á Google bækur. Skoðað 4. febrúar 2011.
 

16 Hare, Robert D. í viðtali við Dick Carozza. 2008. „Interview with Dr. Robert D. Hare and Dr. Paul Babiak. These Men Know ‘Snakes in Suits’: Identifying Psychopathic Fraudsters“ í Fraud Magazine, júlí-ágúst 2008. Skoðað á vefsetri Roberts D. Hare 4. febrúar 2011.
 

17 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 248-258
 

18 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007, s. 209-238.

B-Scan er stytting á Business Integrity Scan. Þetta er verkfæri sem þeir Babiak og Hare eru enn að þróa en nokkrar tilraunaútgáfur hafa þegar verið prófaðar. Þótt ekki sé um að ræða klíníska greiningu á siðblindu þá mælir B-Scan hegðun, viðhorf og dómgreind sem tengjast siðferði fyrirtækja. Um B-Scan má t.d. lesa í kafla Paul Babiak, „From Darkness Into the Light: Psychopathy in Industrial and Organizational Psychology“ í The Psychopath: Theory, Research, and Practice, s. 423-426. Aðgengilegt á Google bækur.

B-Scan er ekki enn komið á markað en mönnum býðst að prófa verkfærið ókeypis. Sjá „Business-Scan (B-SCAN) by P. Babiak, Ph.D. & R. D. Hare, Ph.D.“ á B-SCAN. MHS.  Vefsíður skoðaðar 4. febrúar 2011.
 
 
 
 

Ummæli (4) | Óflokkað, Siðblinda

1. febrúar 2011

Um blogg, vef, heimildaleit og Norn

Leit á bloggs�ðumEinhverjir hafa kannski velt því fyrir sér af hverju ég skrifa þessar ógnarlöngu greinar um siðblindu og birti á blogginu. Þetta er vissulega dálítið óvenjulegt áhugamál. Kannski er aðalástæðan sú að ég fann næstum ekkert á íslensku um efnið, þegar ég ætlaði að kynna mér það seint á síðasta ári og álít að það væri ekki vitlaust að umfjöllun lægi einhvers staðar frammi. Að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því að ég hef ekki forsendur til að meta siðblindu á klínískan máta eða fjalla um hana á mjög fræðilegan hátt, til þess skortir mig einfaldlega menntun og yfirsýn yfir geðsjúkdómafræði. Á móti kemur að ég hef sennilega víðara sjónarhorn en fagmaður af því ég er ekki eins bundin af einsleitum heimildum. Hin aðalástæðan, sú sem blasti við mér í upphafi, er ógurlegur athyglisbrestur og gleymska, sem hrjáir mig og fer óendanlega mikið í taugarnar á mér. Það er erfitt fyrir pottþéttar meyjur (altso í meyjarmerkinu) að vera álfar út úr hól mánuðum saman ;) Út af því gloppótta minni er fínt að skrifa niður fyrir sig sjálfa upp á seinni tíma notkun og hvað er þægilegra en eiga efni á Vef? Maður er svona hundrað sinnum fljótari að fletta upp og leita á Vefnum en í bók eða útprentuðu efni. Ég hef svo hugsað mér að láta efnið “gerjast” svolítið á blogginu og vefa það síðan og koma fyrir á mínu heimasvæði.

Auk þess má bæta og breyta vefrænu efni jafnóðum, t.a.m. ætla ég núna á eftir að splæsa upplýsingum um siðblindar konur inn í þær færslur um siðblindu þar sem þær eiga við. Var að rekast á þennan bút (en þar heldur sjálfur Hare því fram að siðblinda kvenna sé vangreind og oft greind sem önnur persónuleikaröskun - vegna ríkjandi hugmynda um kven-og karlhlutverk í samfélaginu). Ennfremur bæti ég inn í síðasta blogg tilvitnunum íslenskra leiðtoga kirkjunnar um siðblindu, sem ég var að rekast á.

Bloggið mitt er öðrum þræði gagnasafn, mismunandi vandað auðvitað. Ég sé að fólk rekst þar inn af ýmsum ástæðum; menn eru að leita að hinu og þessu og bloggfærslurnar gúgglast prýðilega. Sjá dæmi af teljaranum, sem ég tók mynd af áðan. Það gefur til kynna fjölbreytta leitarstrengi sem tengjast þessu bloggi.

Talandi um leit á vef þá er ég sannfærð um að Google.com er talsvert betri en leitin í gagnasöfnum á Hvar.is. Ég er miklu fljótari að finna greinar á scholar.google.com heldur en á hvar.is, auk þess sem scholar.google.com gefur upplýsingar á borð við hve margir tengja í viðkomandi grein (þ.e. vitna í hana) og nefnir þá staði þar sem hún er vistuð. Fyrir meir en áratug hlustaði ég á Heimi Pálsson tala um eitthvað á einhverri ráðstefnu eða fundi og mér er minnisstætt að hann hélt því fram að ekki væri lengur eftirsóknarvert að vera getið í heimildaskrá eða tilvísanaskrá rita, málið væri að “láta linka í sig”. Eins og venjulega hafði Heimir rétt fyrir sér.

Efni á vef (hvort sem um er að ræða vefsíður eða pdf-skjöl) er líka miklu þægilegra en á prenti í þeim fræðum sem menn vilja nota APA heimilda-og tilvísanakerfi. (Þá er bara vitnað í höfund, bók, útg.stað o.þ.h. en ekki í blaðsíðutal. Stundum hefur mér dottið í hug, þegar ég skoða ritgerðir á Skemmunni.is, að hægt sé að ljúga hverju sem er upp á hvern sem er því hvaða leiðbeinandi nennir að fletta gegnum bókahaug til að staðfesta eitthvað sem vitnað er í, í ritgerð? Mér dettur ekki eitt augnablik í hug að venjulegur háskólakennari hafi slíkan haug á takteinum í sínu heilabúi, einkum vegna þess að í sálfræði- og félagsvísindum virðist aðalatriðið að sviga sem mest og oftast.) Maður er skotfljótur að finna réttu staðina með leitarorði ef efnið er á tölvutæku formi.

Þegar fundist hefur álitleg grein á scholar.google.com en útgáfan er ekki opin (og útdrátturinn lofar góðu) má finna rétta tímaritið og tölublaðið á hvar.is. Í slíku bardúsi hef ég reyndar áttað mig á hve gagnagrunnar hvar.is eru takmarkaðir, þ.e. hve vantar mörg tímarit í þá. Þetta er stundum áberandi með siðblinduna en mjög áberandi þegar maður leitar að greinum um prjónafræði ýmiss konar. Oft er hægt að bjarga sér í siðblindunni með leit á http://www.free-pdf-ebooks.com/ en í prjónafræðum er þar ekki um eins auðugan garð að gresja.

Heimildir um prjónasögu er einnig erfitt að finna á bókasöfnum. Eins og er skipti ég við Þjóðarbókhlöðu, Norræna húsið og bókasafnið í Kennaraháskólanum til að viða að mér efni. En grundvallarritin tvö eru hvergi til; Ég er búin að kaupa annað en hitt er gersamlega uppselt. Næst er að kemba vefinn og leita að fornbókasölum sem hugsanlega gætu átt þá bók. Grundvallartímaritið Textile History er á vefnum en er ekki í gagnasöfnum hvar.is og því hvorki háskólaaðgangur né landsaðgangur að því. (Hver grein kostar tæplega 40 dollara og það er af og frá að ég borgi slíkt verð fyrir grein á vefnum!). Pappírsútgáfa af tímaritinu frá 1991 (eða bara tölublöðum þess árs, það er ekki hlaupið að því að sjá það) er einungis til á Þjóðminjasafninu. (Jú, ég mun auðvitað hafa samband við fólkið þar og fá að skoða og ljósrita ef mörg tölublöð eru til, það er ekkert mál að finna yfirlit yfir efni alls forðans á vefnum og vera búin að sigta út álitlegar greinar). Ein af frægari heimildum um prjónasögu er Mary Thomas’s Knitting Book. Skv. Gegni er til eitt eintak af henni á landinu - í Seyðisfjarðarskóla! Þar er hún auk þess ekki lánuð út heldur einungis til afnota á safninu. Ætli sé ekki vænlegra að leita að notuðu eintaki á Amazon.com en gera sér ferð á Seyðisfjörð að vetrarlagi (þótt ég hafi reyndar aldrei komið þangað)?

Ég ætlaði að fara að vinna aðeins í málsöguefni í morgun en festist í Norn, sem mér finnst alltaf jafnspennandi. (Og sá að ég þarf að fara á Þjóðarbókhlöðu til að fletta upp í orðabók Jakobsens, fann orðið og bls. tal í orðabókinni á vefnum en svo kom einhver helv. höfundaréttur í veg fyrir að gagnasafnið birti síður fyrir lesendur utan Bandaríkjanna …). Best að slútta þessari færslu með tilvitnun í faðirvorið, á Orkneyja- og Hjaltlandseyjanorn. Það er viss yfirbót eftir að hafa bloggað um siðblindu innan kirkjunnar ;)

  Faðirvorið á Norn

  

  

Ummæli (6) | Óflokkað, Daglegt líf, handavinna