Færslur frá 1. febrúar 2011

1. febrúar 2011

Um blogg, vef, heimildaleit og Norn

Leit á bloggs�ðumEinhverjir hafa kannski velt því fyrir sér af hverju ég skrifa þessar ógnarlöngu greinar um siðblindu og birti á blogginu. Þetta er vissulega dálítið óvenjulegt áhugamál. Kannski er aðalástæðan sú að ég fann næstum ekkert á íslensku um efnið, þegar ég ætlaði að kynna mér það seint á síðasta ári og álít að það væri ekki vitlaust að umfjöllun lægi einhvers staðar frammi. Að sjálfsögðu geri ég mér grein fyrir því að ég hef ekki forsendur til að meta siðblindu á klínískan máta eða fjalla um hana á mjög fræðilegan hátt, til þess skortir mig einfaldlega menntun og yfirsýn yfir geðsjúkdómafræði. Á móti kemur að ég hef sennilega víðara sjónarhorn en fagmaður af því ég er ekki eins bundin af einsleitum heimildum. Hin aðalástæðan, sú sem blasti við mér í upphafi, er ógurlegur athyglisbrestur og gleymska, sem hrjáir mig og fer óendanlega mikið í taugarnar á mér. Það er erfitt fyrir pottþéttar meyjur (altso í meyjarmerkinu) að vera álfar út úr hól mánuðum saman ;) Út af því gloppótta minni er fínt að skrifa niður fyrir sig sjálfa upp á seinni tíma notkun og hvað er þægilegra en eiga efni á Vef? Maður er svona hundrað sinnum fljótari að fletta upp og leita á Vefnum en í bók eða útprentuðu efni. Ég hef svo hugsað mér að láta efnið “gerjast” svolítið á blogginu og vefa það síðan og koma fyrir á mínu heimasvæði.

Auk þess má bæta og breyta vefrænu efni jafnóðum, t.a.m. ætla ég núna á eftir að splæsa upplýsingum um siðblindar konur inn í þær færslur um siðblindu þar sem þær eiga við. Var að rekast á þennan bút (en þar heldur sjálfur Hare því fram að siðblinda kvenna sé vangreind og oft greind sem önnur persónuleikaröskun - vegna ríkjandi hugmynda um kven-og karlhlutverk í samfélaginu). Ennfremur bæti ég inn í síðasta blogg tilvitnunum íslenskra leiðtoga kirkjunnar um siðblindu, sem ég var að rekast á.

Bloggið mitt er öðrum þræði gagnasafn, mismunandi vandað auðvitað. Ég sé að fólk rekst þar inn af ýmsum ástæðum; menn eru að leita að hinu og þessu og bloggfærslurnar gúgglast prýðilega. Sjá dæmi af teljaranum, sem ég tók mynd af áðan. Það gefur til kynna fjölbreytta leitarstrengi sem tengjast þessu bloggi.

Talandi um leit á vef þá er ég sannfærð um að Google.com er talsvert betri en leitin í gagnasöfnum á Hvar.is. Ég er miklu fljótari að finna greinar á scholar.google.com heldur en á hvar.is, auk þess sem scholar.google.com gefur upplýsingar á borð við hve margir tengja í viðkomandi grein (þ.e. vitna í hana) og nefnir þá staði þar sem hún er vistuð. Fyrir meir en áratug hlustaði ég á Heimi Pálsson tala um eitthvað á einhverri ráðstefnu eða fundi og mér er minnisstætt að hann hélt því fram að ekki væri lengur eftirsóknarvert að vera getið í heimildaskrá eða tilvísanaskrá rita, málið væri að “láta linka í sig”. Eins og venjulega hafði Heimir rétt fyrir sér.

Efni á vef (hvort sem um er að ræða vefsíður eða pdf-skjöl) er líka miklu þægilegra en á prenti í þeim fræðum sem menn vilja nota APA heimilda-og tilvísanakerfi. (Þá er bara vitnað í höfund, bók, útg.stað o.þ.h. en ekki í blaðsíðutal. Stundum hefur mér dottið í hug, þegar ég skoða ritgerðir á Skemmunni.is, að hægt sé að ljúga hverju sem er upp á hvern sem er því hvaða leiðbeinandi nennir að fletta gegnum bókahaug til að staðfesta eitthvað sem vitnað er í, í ritgerð? Mér dettur ekki eitt augnablik í hug að venjulegur háskólakennari hafi slíkan haug á takteinum í sínu heilabúi, einkum vegna þess að í sálfræði- og félagsvísindum virðist aðalatriðið að sviga sem mest og oftast.) Maður er skotfljótur að finna réttu staðina með leitarorði ef efnið er á tölvutæku formi.

Þegar fundist hefur álitleg grein á scholar.google.com en útgáfan er ekki opin (og útdrátturinn lofar góðu) má finna rétta tímaritið og tölublaðið á hvar.is. Í slíku bardúsi hef ég reyndar áttað mig á hve gagnagrunnar hvar.is eru takmarkaðir, þ.e. hve vantar mörg tímarit í þá. Þetta er stundum áberandi með siðblinduna en mjög áberandi þegar maður leitar að greinum um prjónafræði ýmiss konar. Oft er hægt að bjarga sér í siðblindunni með leit á http://www.free-pdf-ebooks.com/ en í prjónafræðum er þar ekki um eins auðugan garð að gresja.

Heimildir um prjónasögu er einnig erfitt að finna á bókasöfnum. Eins og er skipti ég við Þjóðarbókhlöðu, Norræna húsið og bókasafnið í Kennaraháskólanum til að viða að mér efni. En grundvallarritin tvö eru hvergi til; Ég er búin að kaupa annað en hitt er gersamlega uppselt. Næst er að kemba vefinn og leita að fornbókasölum sem hugsanlega gætu átt þá bók. Grundvallartímaritið Textile History er á vefnum en er ekki í gagnasöfnum hvar.is og því hvorki háskólaaðgangur né landsaðgangur að því. (Hver grein kostar tæplega 40 dollara og það er af og frá að ég borgi slíkt verð fyrir grein á vefnum!). Pappírsútgáfa af tímaritinu frá 1991 (eða bara tölublöðum þess árs, það er ekki hlaupið að því að sjá það) er einungis til á Þjóðminjasafninu. (Jú, ég mun auðvitað hafa samband við fólkið þar og fá að skoða og ljósrita ef mörg tölublöð eru til, það er ekkert mál að finna yfirlit yfir efni alls forðans á vefnum og vera búin að sigta út álitlegar greinar). Ein af frægari heimildum um prjónasögu er Mary Thomas’s Knitting Book. Skv. Gegni er til eitt eintak af henni á landinu - í Seyðisfjarðarskóla! Þar er hún auk þess ekki lánuð út heldur einungis til afnota á safninu. Ætli sé ekki vænlegra að leita að notuðu eintaki á Amazon.com en gera sér ferð á Seyðisfjörð að vetrarlagi (þótt ég hafi reyndar aldrei komið þangað)?

Ég ætlaði að fara að vinna aðeins í málsöguefni í morgun en festist í Norn, sem mér finnst alltaf jafnspennandi. (Og sá að ég þarf að fara á Þjóðarbókhlöðu til að fletta upp í orðabók Jakobsens, fann orðið og bls. tal í orðabókinni á vefnum en svo kom einhver helv. höfundaréttur í veg fyrir að gagnasafnið birti síður fyrir lesendur utan Bandaríkjanna …). Best að slútta þessari færslu með tilvitnun í faðirvorið, á Orkneyja- og Hjaltlandseyjanorn. Það er viss yfirbót eftir að hafa bloggað um siðblindu innan kirkjunnar ;)

  Faðirvorið á Norn

  

  

Ummæli (6) | Óflokkað, Daglegt líf, handavinna