Færslur frá 8. febrúar 2011

8. febrúar 2011

Vandinn að vera öryrki og órannsakanlegir vegir TR

ÞunglyndiÉg er öryrki vegna þunglyndis. Núverandi örorkumat nær til ársloka 2012 enda algerlega fullreynt hvort ég geti stundað vinnu/ hlutastarf/ örstarf í fyrirséðri framtíð . Ég sé ákaflega mikið eftir starfinu mínu og átti mjög erfitt með að sætta mig við það að að öllu óbreyttu get ég ekki verið íslenskukennari í fjölbraut.

En á Íslandi eru til tvö örorkukerfi. Og þau eru ekki jafn rétthá. Af því ég nýt örorkulífeyris frá mínum lífeyrissjóðum (hafandi unnið fulla vinnu árið um kring frá 18 ára aldri og unnið mér inn réttindi í þessum sjóðum með lífeyrisgreiðslum) telst ég nokkurs konar annars flokks öryrki í samfélaginu. Með því á ég við að ég get ekki fengið örorkuskírteini út á örorkumat Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins. Samt var það rækilega unnið, afgreiðslan tók 4 mánuði og ég þurfti að skila inn mjög ítarlegum gögnum, t.d. skattskýrslum síðustu þriggja ára, vottorðum, haft var samband við yfirmann minn o.fl. Læknirinn minn (sem verið hefur geðlæknirinn minn frá 2002) er yfirlæknir á einni af geðdeildum Landspítalans. Trúnaðarlæknir LSR sem afgreiddi upphaflega matið er doktor í geðlækningum og starfandi geðlæknir.

Örorkuskírteini gefur ýmsan rétt, s.s. á niðurgreiddri læknisþjónustu. Útgáfuaðili örorkuskírteina er Tryggingastofnun ríkisins sem framkvæmdaraðili Sjúkratrygginga Íslands. Til þess að fá örorkuskírteini þarf ég að sækja um örorkubætur frá TR og fara í örorkumat hjá TR, jafnvel þótt ljóst sé frá upphafi að ég eigi engan rétt á bótum frá TR vegna þess að ég þigg örorkulífeyri frá LSR (sem er vel að merkja ríkisstofnun alveg eins og hinar tvær).

UmsóknarfarganÞegar ég lét mig hafa það að fylla út umsókn, útvega nýtt vottorð og veita, með undirskrift umsóknarinnar, TR leyfi til að persónunjósna um mig á alla enda og kanta (þ.e. rjúfa lög um Persónuvernd, þótt mér væri það þvert um geð, bara til að fá örorkuskírteini) óskaði ég eftir því að ákvæði í reglugerð um örorkumat frá 1999, 4. gr., yrði látið gilda en þar er veitt undanþáguheimild frá því að umsækjandi þurfi að fara í gegnum örorkumat ef tryggingayfirlæknir telur sýnt af læknisvottorði eða öðrum gögnum að umsækjandi hafi hlotið örorku til langframa vegna læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma. Enda sendi ég með umsókninni afrit af örorkumati LSR (því upphaflega og því sem nú er í gildi) og nýtt læknisvottorð frá fyrrnefndum yfirlækni. Og tók kristaltært fram að ég gerði mér engar vonir um bætur frá TR heldur væri einungis að sækjast eftir örorkuskírteininu.

Í dag fékk ég bréf frá TR, undirritað af Kristínu Valdimarsdóttur tryggingafulltrúa, þar sem segir: „Áður en til örorkumats kemur þarf að fara fram skoðun með tilliti til staðals sem kveðið er á um í lögum um almannatryggingar. Þengill Oddsson, læknir mun boða þig til viðtals og skoðunar.“  Ég hringdi svo í þessa Kristínu til að spyrja hvort ég mætti ekki bara fara til heimilislæknis á Akranesi, þar sem ég bý, í stað þess að þvælast til Þengils þessa, sem er heimilislæknir í Mosfellsbæ, eftir því sem ég best veit. Hún upplýsti mig um það að Haraldur Jóhannsson, yfirlæknir TR hefði ákveðið að ég þyrfti að fara í þessa læknisskoðun til „þeirra“ læknis í Mosfellsbæ.

Haraldur Jóhannsson, yfirlæknir TR og formaður stjórnar Kristniboðssambandsins (SÍK), er menntaður taugalæknir. Taugalækningar kunna að vera skyldar geðlækningum en ég efast um að skörunin sé mikil. Af prédikun hans má svo ráða að þetta sé hinn vænsti maður, þótt hann taki ekkert mark á sérfræðingum í sjúkdómum eða fjölda innlagna á geðdeild eða prófun allra þunglyndislyfjaflokka á markaðnum eða tveimur raflostsmeðferðum (þessar upplýsingar eru rækilega tíundaðar í vottorðinu sem ég skilaði inn) heldur vilji að heimilislæknir í Mosfellsbæ úrskurði um hvort ég sé þunglynd eða ekki.

Þengill (hver sem hefur lesið Ísfólkið treystir lækni sem heitir Þengill? Í Ísfólkinu eru Þenglarnir af tvennum toga!) Oddsson er sérfræðingur í embættislækningum. Í ritstjórnargrein í Læknablaðinu sagði þáverandi formaður Læknafélags Íslands að læknar skuli: „prófa hvert mál ítarlega gagnvart samvisku sinni. Þar hefur Þengill Oddsson gefið gott fordæmi.“ Það er þó huggun harmi gegn að væntanlega hitti ég heimilislækni sem prófar mál mitt ítarlega gagnvart [svo!] samvisku sinni og er þekktur fyrir að „langþreyttar konur vöknuðu til lífsins við að mæta honum í Kaupfélaginu.“

Það gleður mig að þurfa ekkert að borga fyrir þetta tilhlökkunarefni. En einhver hlýtur að borga, varla er Þengill Oddsson í starfi hjá TR, á vegum Haraldar Jóhannssonar, ókeypis og af hugsjóninni einni saman. Ég veit ekki hve marga lækna TR hefur á sínum snærum (varla marga úr því svo erfitt er fyrir yfirlækni stofnunarinnar að treysta sérfræðiáliti) en einhvers staðar sá ég haft eftir stofnuninni að á nýloknu ári hefðu borist 900 nýjar umsóknir um örorkubætur til TR. [16.2.: Þetta hlýtur að vera misminni í mér því nýjar umsóknir til TR eru líklega mun fleiri á hverju ári.] Samviskuskoðanir til að berja sjúkling augum og bera hann saman við staðal hljóta að gefa prýðilega í aðra hönd og vera ágætis búbót fyrir þá fáu lækna sem Tryggingastofnun treystir.

Í þeim virta fréttamiðli Pressunni er frétt í dag þar sem það er haft eftir ónefndum lækni að það sé akkúrat ekkert mál að ljúga sér upp örorkubætur frá TR út á léttvægt þunglyndi. Miðað við þennan títtnefnda staðal TR, sem Pressan birtir og má einnig finna á heimasíðu TR, gæti vel verið eitthvað til í þessu. Staðallinn sem á að meta eitthvað sem TR kallar „andlega færni“  er ótrúlegur, svo ekki sé meira sagt, viti maður eitthvað um geðsjúkdóma. Og hann virðist ekki í neinu samræmi við það sem segir á ICD-10 kóðun WHO, staðli sem er notaður við skráningu sjúkdómsgreininga hér á landi, skv. landlæknisembættinu, að því er virðist alls staðar í heilbrigðiskerfinu nema hjá TR. Þannig að þessi „ungi maður“ sem Pressan vitnar í getur sjálfsagt logið sér út örorku ef hann hefur tíma til að skreppa til einhvers læknis sem TR treystir (og býr ekki mjög langt frá borg óttans og nærhverfum), svara nokkrum spurningum út í hött (staðlinum fræga) og geð til að afsala sér persónuvernd, bara upp á bæturnar.

Sjálf er ég að íhuga að fá úr því skorið hvort fólk neyðist í alvörunni til að lítillækka sig svo mjög einungis til að fá afgreitt örorkuskírteini og hvort geti virkilega verið að það standist lög að halda hér uppi tvöföldu örorkukerfi þar sem manni er refsað fyrir að hafa unnið sér inn bæturnar með því vera annars flokks öryrki sem ekki á rétt á örorkuskírteini.

Fylgist með … ég mun auðvitað blogga um hina spennandi heimsókn á heilsugæslustöðina í Mosfellsbæ, prófa gagnvart samvisku minni hvort ég mundi gleðjast að hitta lækninn í kuffélagi, og tíunda hversu fagmannlega þar verður (væntanlega) að verki staðið til að meta hvort ég sé í alvörunni öryrki eða hvort ég nenni kannski bara ekki að kenna meir … og dvelji upp á mitt hopp og hí í margar vikur á geðdeild árlega. Djöst for ðe fönn ofitt.

[Færslan var stytt þann 16. febrúar af því mér fannst, eftir á, að of mikið væri þar fjallað um menn á persónulegum nótum og of margt gefið í skyn.]
 

Ummæli (14) | Óflokkað, Geðheilsa