Færslur frá 16. febrúar 2011

16. febrúar 2011

Skólastjórar sem leggja kennara í einelti

Hlaða niður færslunni sem Word-skjali

* Möguleg siðblinda með í spilinu?

Ég ætlaði mér alltaf að skrifa um siðblindu í skólum í siðblindupistlaröðinni en fann svo ekki nægilega góðar heimildir fyrir slíku. Þó má telja afar líklegt að siðblindir sæki í störf innan skólakerfisins (reyndar staðfestir ástralski sálfræðingurinn John Clarke það í viðtali, sjá færslu um siðblinda á vinnustöðum). Þrá þeirra eftir völdum og að geta ráðskast með fólk, niðurlægt það og upphafið sjálfa sig í samræmi við stórmennskuhugmyndir um eigið ágæti ætti einmitt að gera kennarastarf þokkalega eftirsóknarvert fyrir siðblinda. Nemendur eiga erfitt með að bera hönd yfir höfuð sér og skólaumhverfið að öðru leyti (kennarastofa og annar starfsvettvangur) eru ágætis veiðilendur fyrir hin siðblindu rándýr (tel ég, eftir að hafa sett mig dálítið inn í siðblindu og af langri reynslu af skólaumhverfi).1

Þótt ekki hafi ég fundið heimildir um að skimað hafi verið fyrir siðblindu í starfsmannahópum skóla fann ég nokkrar rannsóknir á starfsmannaeinelti í skólum. Má nefna frægar rannsóknir Blase & Blase sem einkum skoðuðu einelti skólastjórnenda í garð kennara, suðurafríska rannsókn á því sama, og nýja ástralska rannsókn á starfsmannaeinelti í skólum.2 Heldur fátt er um fína drætti í íslenskum rannsóknum á starfsmannaeinelti og stjórnendaeinelti í skólum.3

Athyglisverðasta rannsóknin á skólastjóraeinelti fannst mér vera eigindleg rannsókn sem var gerð í Suður-Afríku og lýst er í greininni „The reasons for and the impact of principal-on-teacher bullying on the victims’ private and professional lives“ (Wet, Corine de. 2010) og ég ætla einkum  að fjalla um niðurstöður hennar í þessari færslu. En jafnframt styðst ég við rannsókn Blase & Blase (2002), „The Dark Side of Leadership: Teacher Perspectives of Principal Mistreatment“, og annað eftir því sem þurfa þykir.

Ég vek sérstaka athygli á að í rannsókn Blase & Blase og Fengning (2008), „The mistreated teacher: a national study“, er því haldið fram að vinnustaðaeinelti sé ótrúlega algengt, að sumir telji starf í skóla, einkum grunnskóla, vera hættulegast hvað þetta varðar (teljist til „high-risk occupations“), að skv. breskum rannsóknum o.fl. eru kennarar taldir með stærstu hópum sem verða fyrir vinnustaðaeinelti og að mjög margar af nýrri vinnustaðaeineltisrannsóknum leiði í ljós að hlutur stjórnanda í einelti er mjög stór eða milli 50-90% gerenda.

Skólastjóri leggur kennara � eineltiSkólastjóraeinelti er skilgreint sem stöðug valdníðsla skólastjóra sem hefur neikvæð áhrif á kennara. Bent er á almennt gildir um vinnustaðaeinelti að einelti stjórnanda hafi sitt að segja í að eitra vinnuumhverfið. Slíkt vinnuumhverfi er kallað „toxic workplace“ á ensku. Í rannsóknum á siðblindum á vinnustað kemur fram að örfáir slíkir, kannski bara einn siðblindur, fari létt með að eitra sinn vinnustað4 svo ekki þarf alltaf lélegan stjórnanda, þ.e. annað hvort óhóflega ráðríkan eða þann sem lætur allt danka, til að skapa eitrað vinnuumhverfi.

Mætti líka huga að kenningum Babiak og Hare5 um höggorma  í jakkafötum, þ.e. siðblinda í viðskiptalífinu, og yfirfæra á aðra vinnustaði. Má þá ætla að siðblindur starfsmaður komi sér upp öflugum verndara (patron), í skólum væri sá einna helst stjórnandinn. Af kenningum um framgöngu siðblindra á vinnustöðum má því gera því skóna að í einhverjum tilvikum standi annað hvort siðblindur starfsmaður bak við einelti stjórnanda eða að stjórnandinn sé siðblindur. Á þessa möguleika er ekki minnst í suðurafrísku rannsókninni en aftur á móti er bent á að einhverjir skólastjórnendur sem beittu einelti virtust hafa sterka sjálfsdýrkunardrætti (narcissism). Sjálfsdýrkun er talin skyld andfélagslegri persónuleikaröskun, sem siðblinda fellur undir. Auðvitað (og því miður) beita margir aðrir en siðblindir einelti á sínum vinnustað.

Í rannsókn Blase & Blase (2002) kemur fram að í öllum tilvikum þar sem skólastjórar beita einstaka kennara einelti eiga skólastjórarnir sér jafnframt eitt eða fleiri uppáhöld, sem þeir hygla með ýmsu móti. Slíkt uppáhald eða uppáhöld styðja skólastjórann í eineltinu, ýmist beint eða bak við tjöldin, og hvetja aðra kennara til að taka þátt í því.6 Þetta styður, að mínu mati, við kenningar og rannsóknir um áhrif siðblindra á vinnustað og mætti jafnvel í ljósi þeirra ætla að uppáhald skólastjórnenda hefði talsverð siðblindueinkenni.
 
 

* Skólastjóri sem leggur kennara í einelti 
 

Rétt er að geta þess að skv. fjölda rannsókna á vinnustaðaeinelti beita kvenkyns og karlkyns stjórnendur einelti í sama mæli en eru líklegri til að velja sér kvenkyns fórnarlömb fremur en karla.7

Einelti skólastjóra lýsti sér einkum í svona hegðun og aðferðum:

  • Skólastjórar hunsa hugsanir, þarfir, tilfinningar og afrek kennara
  • Skólastjórar styðja ekki við bakið á kennurum
  • Skólastjórar beita tíkarlegu orðbragði og gera opinberlega gys að kennurum (Þetta hefur verið kallað „emotional abuse“ og felst í niðrandi framkomu, sögðum og ósögðum skilaboðum, og miðar að því að fá aðra til þegjandi samþykkis eða hlýðni.8
  • Skólastjórar gagnrýna kennara að ósekju
  • Skólastjórar reyna að koma því svo fyrir að kennarar geri mistök
  • Skólastjórar reyna að einangra kennara, félagslega og faglega
  • Skólastjórar sýna skort á samlíðan
  • Skólastjórar áminna kennara skriflega að ósekju. Slík skrifleg áminning er jafnvel veitt fyrir tittlingaskít og án þess að kennara gefist kostur á andmælum eða bara að útskýra sína hlið í málinu.
  • Skólastjórar halda upp á og hygla sumum kennurum á kostnað annarra
  • Skólastjórar reyna að flæma kennara út starfi, t.d. með því að breyta starfsskilyrðum þeirra eða hóta þeim uppsögn9

Sumir kennaranna í suðurafrísku rannsókninni bentu á að þeir ættu erfitt með að sækja rétt sinn til stéttarfélags. Fulltrúar stéttarfélagsins væru nefnilega oft persónulegir vinir skólastjórnandans sem beitti eineltinu. Mér finnst ólíklegt að þessi staða stéttarfélags eigi við um Ísland. Aftur á móti kann að vera að klíkuskapur og neópótismi í þeim stofnunum eða ráðum sem eiga að sinna eftirlitsskyldu og aðhaldi með skólum skipti máli í dæmigerðu íslensku kunningjasamfélagi, t.d. skólanefndum, skólaskrifstofum, menntamálaráðuneyti eða sambærilegum eftirlitsaðilum. Slíkt gæti gert kennurum sem lagðir eru í einelti af skólastjórnendum mjög erfitt fyrir. Skv. rannsókn Fjármálaráðuneytisins á einelti í ríkisstofnunum var 76% formlegra kvartana um einelti sinnt illa eða ekki og ástæðulaust að halda að ástandið sé skárra þegar kemur að kennurum, síst af öllu ef þeir kvarta yfir einelti skólastjóra.10
 

Þættir í fari skólastjóra sem leggur kennara í einelti

Skólastjóri leggur kennara � eineltiÞessir þættir voru greindir í persónuleika skólastjórnenda sem lögðu kennara í einelti: Öfund, eyðileggjandi sjálfsdýrkunarröskun, illska, hræsni og seigla (í að halda eineltinu áfram). Þó kom í ljós að sumir skólastjórnendur höfðu sitthvað til brunns að bera svo ekki var alltaf augljóst af hverju þeir snéru þessari hliðinni að fórnarlambinu. Sumir kennarar lýstu sínum ofsóknarskólastjórum svo að þeir vildu vera einvaldar, einblíndu á stök verkefni í stað þess að hafa yfirsýn og væru veikir/lélegir stjórnendur.  En svo voru aðrir sem héldu því fram að þeirra ofsækjendur væru sérlega tunguliprir og gerðu sér fulla grein fyrir gjörðum sínum.

Einn viðmælanda lýsti því hvernig skólastjórnandi reyndi kerfisbundið að flæma hana úr starfi í sextán ár, m.a. með því að leyfa henni ekki að kenna sitt sérsvið, áminna hana formlega fyrir lítilvægar yfirsjónir og gera lítið úr henni fyrir framan aðra.

Blase & Blase nefna líka dæmi um hvernig skólastjórar leggja kennara í einelti að ósekju: „Í öðrum tilvikum sögðu kennarar frá því að gagnrýni skólastjórnenda væri viljandi óljóst orðuð og byggð á óstaðfestri gagnrýni sem þeir héldu fram að þriðji aðili, „snuðrari“ (t.d. kennari eða nemandi), hefði komið á framfæri. Sem dæmi um falskar áskanir skólastjórnenda eru ásakanir um að hafa skrópað á einhverja samkomu, að sýna neikvætt viðmót og að öskra á nemendur sína. Oft birtist óbein gagnrýni skólastjórnenda í slúðri við aðra kennara og stundum foreldra.“11
 

Af hverju leggja skólastjórar kennara í einelti?
 

Öfugt við það sem einkennir einelti meðal barna, þ.e. að helst er lagst á þá sem skera sig úr hópnum eða eru minnimáttar, þá sýnir þessi rannsókn, ásamt fleiri rannsóknum á vinnustaðaeinelti,  að einelti fullorðinna kviknar oft af öfund vegna afreka fórnarlambanna.

Fleiri rannsóknir á einelti á vinnustöðum, sem Corine de Wit vitnar til, hafa sýnt fram á sterka drætti eyðileggjandi sjálfsdýrkunarröskunar (destructive narcissism) í skapgerð/persónuleika þess sem leggur aðra í einelti. Í suðurafrísku rannsókninni kom þetta skýrt fram í óhóflegu sjálfsáliti skólastjórnendanna, hroka, hversu uppteknir þeir voru af valdi og meintum rétti sínum, sem og að þeir voru ófærir um að taka gagnrýni, sýndu öðrum ekki tillitsemi og reyndu að gera lítið úr þeim.

Nefnt var dæmi um skólastjóra sem öskraði á undirmann að hún yrði rekin af því hún gagnrýndi hann. Annað dæmi er af kennara sem á kennarafundi gagnrýndi agaleysi í skólanum en skólastjórinn skildi þetta sem gagnrýni á sig og lét hana gjalda þess. Mjög svipað dæmi er að finna í rannsókn Blase & Blase (2002): „Sem trúnaðarmaður skrifaði ég skólastjóranum bréf til að benda á að engin fagleg rök væri hægt að finna fyrir ákvörðun hans og að nemendur mínir lærðu nú ekkert. Hann skrifaði til baka: „Þú ert bara neikvæð og vilt ekki neinar breytingar. Framkoma þín er vandmálið og þú hefur skaðleg áhrif á starfsólkið og vinnuandann.“ Síðan dreifði hann bréfi sínu til allra starfsmannanna. Ég lagði inn formlega kvörtun sem fékk hann til að stoppa. Eftir það hefur ríkt kalt stríð.“12

Í suðurafrísku rannsókninni lýstu kennarar því hvernig skólastjórar hótuðu þeim uppsögn: „Komdu með uppsagnarbréfið … ég skal skrifa undir“ eða hunsuðu þá: „Hann hélt bara áfram að skrifa … hann leit ekki upp … ekki í eitt einasta skipti.“
 

* Persónueinkenni fórnarlamba eineltis skólastjórnanda

Það sem stakk í augu í niðurstöðum Corine de Wet voru óvenju miklir hæfileikar og mikill áhugi kennaranna (fórnarlambanna) á sínu starfi. Þeir höfðu allir skarað fram úr í starfi, á einn eða annan máta. Þessi rannsókn staðfestir aðrar rannsóknir á einelti fullorðinna, þ.e. að gerendur leggjast fyrst og fremst á þá sem hafa mest sjálfstraust, eru samviskusamastir og hæfastir í sínu starfi. En jafnframt eru fórnarlömbin ólíkleg til að sækja rétt sinn og vilja sýna tillitsemi. Bent hefur verið á í fyrri rannsóknum að þetta lífsviðhorf fórnarlambanna valdi því að það sé jafnvel talið mátulegt á þau að leggja þau í einelti og að hætta sé á að þau séu álitin „skipta ekki máli“ á vinnustaðnum. Í suðurafrísku rannsókninni er bent á tvö dæmi þessu til stuðnings, þar sem hæfileikaríkum kennurum voru settar skorður með því að minnka smám saman við þá kennslu í sínu eigin fagi [og láta þá kenna önnur fög].

Í öðrum rannsóknum á fórnarlömbum vinnustaðaeineltis almennt hefur komið fram að um þriðjungur þeirra er taugaveiklaðri, síður þægilegir í umgengni, samviskusamari og úthverfari persónuleikar  en þeir sem ekki eru lagðir í einelti. Kvíði eða stífni í samskiptum reyndust hins vegar vera afleiðing þess að vera lögð/lagður í einelti en ekki orsök. Það er því ekki hægt að varpa þeirri sök á fórnarlambið að það sé ekki samvinnufúst til að afsaka einelti á vinnustað.
 
 

* Afleiðingar eineltis fyrir kennarana sem skólastjórnandi leggur í einelti

Einelti skólastjóraÞví hefur verið haldið fram að einelti lami og eyðileggi starfsmenn meir en allir aðrir streituvaldar starfsins samanlagðir. Afleiðingar eineltis fyrir fórnarlömbin í rannsókn Corine de Wit reyndust vera víðtækar, bæði hvað snerti andlega og líkamlega heilsu sem og faglegt starf. Einelti hafði slæm áhrif á þátttöku fórnarlambanna í félagslífi kennara. Þau fundu til depurðar og tveir kennarar sögðust þjást af þunglyndi þótt þeir tengdu það ekki við ástandið á vinnustaðnum. En margir rannsakendur hafa einmitt komist að þeirri niðurstöðu að þunglyndi sé áberandi fylgifiskur vinnustaðaeineltis. Fórnarlömb skólastjóraeineltis fundu líka fyrir skömm, vanmætti og faglegur áhugi minnkaði.

Þótt í almennum rannsóknum á vinnustaðaeinelti hafi komið fram auknar fjarvistir fórnarlamba var sú ekki raunin í rannsókninni á kennurunum. Í  rannsókn Blase & Blase (2002) komu eftirfarandi einkenni fram hjá fórnarlömbum eineltis skólastjóra: Í fyrstu fengu fórnarlömbin áfall, áttuðu sig illa á þessu, fannst þau vera auðmýkt, fundu fyrir einsemd, traust og sjálfsmat beið hnekki, þeim fannst þau flekkuð og fundu fyrir sektarkennd. Stæði eineltið lengi komu fram ýmsir andlegir kvillar hjá fórnarlömbunum, s.s. ótti, kvíði, reiði og þunglyndi, og sállíkamlegir/líkamlegir kvillar, s.s. svefnleysi, martraðir, þráhyggjuhugsanir, krónísk þreyta, magaverkir, ógleði, líkamsþyngd óx eða minnkaði, verkir í herðum og baki, höfuðverkur eða mígreni.13
 
 

* Viðbrögð við eineltinu

Blase & Blase (2002) taka saman niðurstöður sínar um hvað eineltisfórnarlamb geti gert og eru þær í samræmi við niðurstöður fjölda rannsókna á vinnustaðaeinelti, sem þau vísa í. Í stuttu máli sagt virðast kennurum fáir vegir færir. Þau segja: „Að auki uppgötvuðum við að kennarar sem eru lagðir í einelti af skólastjórum eiga sjaldan nýtilega möguleika á leiðréttingu sinna mála. Þetta er í samræmi við aðrar rannsóknir sem hafa sýnt fram á að dæmigert viðbrögð við kvörtunum fórnarlambs yfir einelti stjórnanda eru að (a) engin svör berast frá yfirstjórn, (b) reynt er að verja stjórnendur sem sýna ruddamennsku og (c) hefnd er beint að fórnarlambinu sem kvartar. Í rauninni var okkar niðurstaða sú að kennarar reyndu sjaldan að kvarta til fræðslustjóra því þeir væntu „engrar aðstoðar“ og vegna þess að þeir „óttuðust“ hefndaraðgerðir.“14

Í yfirlitsgrein yfir aðgerðir stéttarfélaga í ýmsum löndum Evrópu og Bandaríkjunum, ásamt yfirliti yfir þau lög sem taka á eineltismálum í þessum löndum kemur fram að stéttarfélög hafa í rauninni afar lítil áhrif og „þarf kannski að endurskoða þá hugmynd að stéttarfélög séu í fararbroddi“. Í sambandi við kennarafélög er bent á lofsvert framtak  Kennarasamtaka Bandaríkjanna (American Federation of Teachers, skammstafað AFT) í að viðurkenna að  vinnustaðaeinelti skiptir máli í öryggi og heilbrigði starfsfólks og kennara. Þetta kom ekki á óvart því víðtæk könnun AFT leiddi í ljós að 34-60% kennara innan vébanda samtakanna hefðu orðið yfir einhverju einelti af hálfu samstarfsfélaga (ekki kemur fram hve stór hluti þeirra voru yfirmenn) á sínum vinnustað á síðasta hálfa árinu. Helst birtist þetta einelti í: Að vera niðurlægður eða hafður að háði og spotti (20-33%); Að verða fyrir móðgandi ummælum (15-38%); Að gerandi eineltis sýndi kúgandi eða ógnandi framkomu (10-23%); Að vera hunsaður/hunsuð eða virtur/virt að vettugi (23-40%); Að verða fyrir stríðni og kaldhæðni sem keyrir um þverbak (10-21%); Að öskrað var á fórnarlambið (15-27%).15
 
 

* Afleiðingar fyrir vinnustaðinn

Vinnustaðaeinelti í skólum hefur ekki bara áhrif á fórnarlömbin heldur allt andrúmsloft í skólanum því eineltið ýtir undir minni hollustu, sinnuleysi og meðalmennsku. Í rannsókn Corine de Wit er nefnt dæmi af kennara, konu sem hafði verið hugmyndarík og skarað fram úr en var álasað fyrir að viðra hugmyndir um hvernig mætti gera skólastarfið betra með endurskipulagningu. Hún sagði: „Ég kæfi allar nýjar hugmyndir núna. Ég get ekki lengur verið hreinskilin í að miðla hugmyndum mínum.“ Aðrir kennarar sögðu að eineltið hefði haft þau áhrif að þeir sinntu bara starfi sínu en forðuðust að taka þátt í skólastarfinu umfram það. Þessar niðurstöður eru í samræmi við aðrar rannsóknir sem gerðar hafa verið á vinnustaðaeinelti, þ.e. að það leiðir til lélegri vinnubragða, minni eldmóðs, minni skilvirkni og skertrar starfsánægju.

Þrátt fyrir eineltið hafði enginn kennaranna í rannsókn Corine de Wit ákveðið að yfirgefa starfsgreinina. Mörg eldri fórnarlömbin hfðu á orði að þau ætluðu að bíða þetta af sér því stutt væri í eftirlaunaaldur. Aðeins einn þátttakandi, sem hafði kennt í sama skólanum í 30 ár, sagði að hún hefði sótt um starf í öðrum skóla. Þetta er í andstöðu við niðurstöður kannana á vinnustaðaeinelti almennt, t.d. sögðust 50% tyrkneskra starfsmanna, sem lagðir voru í einelti á vinnustað, að þeir væru alvarlega að hugsa um að skipta um vinnu og 30% breskra eineltisfórnarlamba sögðu upp starfi sínu.

Kennararnir sem lagðir voru í einelti höfðu yfirleitt ekki reynt að standa upp í hárinu á skólastjórunum sem beittu einelti. Þeir óttuðust að eineltið myndi aukast við slíka árekstra. Þetta er í samræmi við aðrar rannsóknir þar sem bent hefur verið á „spíral þagnarinnar“, þ.e.a.s. að í stofnunum þar sem menn óttast að segja hlutina beint út er þagað yfir áreitni og einelti.

Þeir fáu sem höfðu reynt að ræða málin við skólastjóra voru kallaðir lygarar. Fórnarlömbin tóku réttilega eftir því að gerendur gerðu lítið úr andlegu ofbeldi eða afneituðu því hreint og beint. Viðbrögð gerenda við ásökunum voru að gera fórnarlömbin sjálf ábyrg, með hreytingum á borð við „Vertu ekki svona viðkvæm”“eða „Ég hef ekki hugmynd um hvað þú ert að tala um“. Þannig er vandinn gerður fórnarlambsins og gerandinn þykist stikk-frí.
 

* Hvað er til ráða?

Kennarar standa hjá � einelti skólastjóraVald geranda eineltis felst oft í því að hræða fólk til þagnar. Fórnarlömbin bentu líka á að kvartanir þeirra virtust hversdagslegar þegar þær voru slitnar úr samhengi. Aðrar rannsóknir benda á að vinnufélagar sem standa hjá og aðhafast ekkert reyna að auki að forðast fórnarlambið eins og sektin hafi að einhverju leyti flekkað þau, jafnvel þótt áður hafi þessir vinnufélagar átt vinsamleg samskipti við fórnarlambið. Ein niðurstaða rannsóknar Corine de Wit er að þátt aðgerðarlausra vinnufélaga í skólastjóraeinelti þurfi að athuga miklu betur.

Að lokum bendir Corine de Wit á að niðurstöður rannsóknar hennar á skólastjóraeinelti í Suður-Afríku, séu í fullu samræmi við fjölda alþjóðlegra rannsókna á vinnustaðaeinelti, þótt fáar þeirra hafi skoðað sérstaklega vinnustaðinn skóla. Hún  bendir einnig á að skv. nokkrum rannsóknum séu hefðbundin vinnusálfræðilegt inngrip engan veginn fullnægjandi /skili ekki árangri. Það sem þarf til að uppræta einelti í stofnun á borð við skóla eru róttækar breytingar á innviðum stofnunarinnar sjálfrar.

Corine de Wit klikkir út með þessari ályktun: Það er nauðsynlegt að efla stjórnunarmenntun fyrir skólastjórnenda, þ.m.t. menntun í að fást við ágreiningsefni. Ekki hvað síst þegar í ljós kom í rannsókninni að lélegir stjórnunarhæfileikar, skortur á reiðistjórn, öfund, eyðileggjandi sjálfdýrkun og misnotkun valds voru oft helsta orsök þess að skólastjórnendur lögðu kennara í einelti. 
  
  
  
   

1 Sjá nánar: Siðblindir á vinnustað og Siðblindir í viðskiptum. Í þeirri suðurafrísku rannsókn sem í færslunni er mjög  til umræðu (Wet, Corine de. 2010) er staðhæft að illska sé einn þeirra þátta sem greina megi í skapgerð eineltandi skólastjóra. Vitnað er í aðra rannsakendur vinnustaðaeineltis sem hafa haldið því fram að oft sýni gerendur eineltis óeðlilega hegðun og enga eftirsjá. Þeir fái jafnvel ánægju út úr því að sjá aðra þjást. Aðrir gerendur eineltis fara betur með þennan þátt í sínu skapferli og reyna að koma vel fyrir en munu eigi að síður ekki skirrast við að meiða og auðmýkja fórnarlömb sín opinberlega. (Wet, Corine de. 2010, s. 1455.) Þetta eru allt einkenni siðblindu.Þegar hrein opinber illska eða tvöfeldni í framkomu er höfð í huga auk stórmennskuhugmynda, valdaástríðu o.fl. atriða sem talin eru aðalsmerki eineltandi skólastjóra læðist auðvitað að manni sú hugmynd að verið sé að lýsa „huggulegum siðblindum“ (subclinical psychopaths, white-collar psychopaths, corporate psychopaths, secondary psychopaths, pæn psykopat eru þau orð sem oftast eru höfð um þessa tegund siðblindra). Í ljósi kenninga Babiak og Hare um siðblindu í viðskiptum og kenningar Boddy um gífurleg áhrif siðblindra starfsmanna á starfsumhverfi (sjá færslurnar sem vitnað var í hér að ofan) er freistandi að íhuga hvort skólastjóri sem beitir einelti sé í rauninni verndari (patron) siðblinds kennara eða undir sterkum áhrifum frá slíkum.

Þannig að út frá kenningum um siðblindu gæti skólastjóri sem leggur kennara í einelti verið siðblindur en allt eins kæmi til grein að svoleiðis skólastjóri væri verndari siðblinds kennara, eða einfaldlega eitt af peðunum hans.
 

2 Blase, Joseph og Blase, Jo. 2002. „The Dark Side of Leadership: Teacher Perspectives of Principal Mistreatment“ í  Educational Administration Quarterly, 38 árg. 5.tbl. s. 671-727. Desember 2002.

Blase, Joseph, Blase, Jo og Fengning Du. 2008. „The mistreated teacher: a national study“ í Journal of Educational Administration, 46.árg. 3.tbl. s. 263-30. Í þessari rannsókn kemur fram að vinnustaðaeinelti er ótrúlega algengt, að sumir telji starf í skóla, einkum grunnskóla, vera hættulegast hvað þetta varðar (teljist til „high-risk occupations“), að skv. breskum rannsóknum o.fl. eru kennarar taldir með stærstu hópum sem verða fyrir vinnustaðaeinelti og að mjög margar af nýrri vinnustaðaeineltisrannsóknum leiði í ljós að hlutur stjórnanda í einelti er mjög stór eða milli 50-90% gerenda. Sjá s. 264 og 266. En nákvæmar kannanir á því hversu algengt er að skólastjórnendur beiti kennara einelti hafa ekki verið gerðar.

Wet, de Corine. 2010. „The reasons for and the impact of principal-on-teacher bullying on the victims’ private and professional lives“ í Teaching and Teacher Education. An International Journal of Research and Studies, 26.árg. 7.tbl. s. 1347-1492. Október 2010.

Riley, Dan, Deirdre J. Duncan, John Edwards. 2011. „Staff bullying in Australian schools“ í Journal of Educational Administration, 49.árg. 1.tbl. s. 7-30. Einungis útdrátturinn var skoðaður en leigja má greinina eða kaupa ef áhugi er á. (Það vekur reyndar strax áhuga hvað niðurstöður rannsóknar Riley o.fl. eru uggvænlegar.)

Í þessari færslu er einkum stuðst við rannsókn Corine de Wet (2010) og fyrri rannsókn Blase & Blase (2002).

Greinarnar voru skoðaðar á vefnum þann 11. febrúar.
 
 

3 Til eru tvær íslenskar rannsóknir sem nálgast þetta efni ofurlítið:

Dagrún Þórðardóttir. 2006. Einelti á vinnustað. Samanburður þriggja opinberra vinnustaða. (MS verkefni í Stjórnun og stefnumótun, Viðskipta-og hagfræðideild HÍ). Skoðað á vef Vinnueftirlitsins 24. janúar 2011. Rannsókn Dagrúnar var á tveimur ótilgreindum ráðuneytum og einni ótilgreindri ríkisstofnun. Niðurstöður voru afar misjafnar því einn vinnustaðurinn skar sig ákaflega úr vegna mikils stjórnandaeineltis og skekkti allar tölur. Meginniðurstaðan var sú að í flestum tilvikum er gerandi eineltis yfirmaður þess sem fyrir eineltinu verður eða annar stjórnandi.

Einelti meðal ríkisstarfsmanna. Niðurstöður könnunar á einelti meðal ríkisstarfsmanna. Fjármálaráðuneytið ágúst 2008. Ritstjóri: Ágústa H. Gústafsdóttir. Skoðað á vef Fjármálaráðuneytisins 24. janúar 2011. Þetta var mjög viðamikil rannsókn og var meginniðurstaðan sú að rúmlega 10% ríkisstarfsmanna taldi sig hafa orðið fyrir einelti í starfi á síðustu 12 mánuðum. Hins vegar er rannsóknin gölluð að því leyti að ekki var greint milli stjórnenda og almennra starfsmanna í svörum; að ekki er hægt að skoða einstakar starfsstéttir heldur einungis flokkun eftir ráðuneytum, sem mismunandi margir og mismunandi fjölbreyttir vinnustaðir falla undir, og að áhersla er mjög á reynslu þolenda en fátæklegar niðurstöður um gerendur, t.d. er ekki greint frá kyni gerenda. Þótt í niðurstöðum segi að í 44% tilvika sé gerandi eineltis samstarfsmaður en næsti yfirmaður í 31% tilvika segja þessar tölur næsta lítið því, eins og áður var getið, eru þeir sem svara bæði venjulegir starfsmenn og yfirmenn. Í niðurstöðunum kemur fram sú sláandi staðreynd að í 76% tilvika var formlegum kvörtunum vegna eineltis ekki fylgt eftir með viðeigandi hætti.

Könnun fjármálaráðuneytisins náði að sjálfsögðu bara til framhaldsskólakennara og stjórnenda framhaldsskóla. Í könnun Dagnýjar er ekki hægt að sjá hvort þriðja stofnunin var skóli og mér þykir  fremur ólíklegt að svo hafi verið. Mér vitanlega hefur Kennarasamband Íslands ekki staðið fyrir neinni könnun á vinnustaðareinelti í skólum landsins og hvergi hafa birst upplýsingar um slíkt. Það væri samt full þörf á að rannsaka vinnustaðaeinelti í grunnskólum og framhaldsskólum miðað við niðurstöður þeirra erlendu rannsókna sem ég vísa í (og sem vísa áfram í fjölda rannsókna á vinnustaðaeinelti um allan heim).
 

4 Boddy, Clive R. 2010. „Corporate Psychopaths, Bullying and Unfair Supervision in the Workplace“ í Journal of Business Ethics 25. nóvember 2010, s. 1-13. Greinin var skoðuð á Vefnum 25. jan. 2011.
 

5 Babiak, Paul og Robert D. Hare. 2007. Snakes in Suits. When Psychopaths Go to Work. HarperCollins Publishers, New York. (Bókin kom fyrst út 2006.)
 

6  Blase & Blase (2002) s. 689-690.
 

7 Sjá yfirlit yfir þessar rannsóknir í Blase & Blase (2002), s. 678.
 

8 Sjá skilgreiningu Keashly (1998) í Blase & Blase (2002), s. 675.
 

9 Niðurstöður þessarar rannsóknar eru í samræmi við margar alþjóðlegar rannsóknir og sýna að stjórnandi sem ekki er starfi sínu vaxinn reynir oft að leggja undirmenn sína í einelti. Í suðurafrísku rannsókninni er bent á það sem skýringu að öfund sé mjög oft hvati að einelti. Persónulegur styrkur kennara og það sem hann/hún hefur afrekað í starfi gæti egnt lélegan yfirmann til að leggja þann kennara í einelti. Í sumum vinnustaðarannsóknum (sem vísað er í úr suðurafrísku rannsókninni)  hefur komið fram að gerandi eineltis reyni að gera opinberlega lítið úr því sem hann öfundar fórnarlambið af. Sjá Wet, Corine de. (2010) s. 1454 - 55. Sjá má ítarlegt yfirlit yfir eineltishegðun skólastjóra í Blase & Blase (2002) s. 686.  Á eftir yfirlitstöflunni þar fylgir texti á næstu síðum sem útskýrir einstaka þætti.
 

10 Einelti meðal ríkisstarfsmanna. Niðurstöður könnunar á einelti meðal ríkisstarfsmanna. Fjármálaráðuneytið ágúst 2008.
 

11 Blase & Blase (2002) s. 694
 

12 Blase & Blase (2002) s. 693-694
 

13 Blase & Blase (2002) s. 711 o.áfr.
 

14 Blase & Blase (2002) s. 715
 

15 Harthill, Susan. 2010. „Workplace Bullying as an Occupational Safety and Health Matter: A Comparative Analysis“ í  SelectedWorks (safni fræðigreina á vefnum). Skoðað 13. febrúar 2011.
 
 
 
 
 
 
 

Ummæli (14) | Óflokkað, Skólamál, Siðblinda