Færslur frá 24. febrúar 2011

24. febrúar 2011

Sýnilega myrkrið

Ég stefni hraðbyri inn í þetta “sýnilega myrkur”, svo ég vitni nú í titil bókar Strykers, sem ég var afskaplega hrifin af. Undanfarnar vikur hefur hallað undan fæti. Ekki svo að skilja að ég hafi náð neinum sérstökum bata af því þunglyndiskasti sem hófst í septemberlok. Ég komst að vísu út úr algeru grænmetisástandi upp úr áramótum en er flesta daga örmagna af svefnleysi (aukaverkun af lyfinu sem ég tek og vil nú hætta að taka), lágum blóðþrýstingi dauðans (líka aukaverkun) og þunglyndi (sem lyfið virðist virka lítt á). Ég náði meira að segja að koma mér upp einni skoðun (á því að TR og aðrir sem lítillækka geðsjúka, t.d. heimilislæknar eða þeir sem gefa sig út fyrir að vera talsmenn geðsjúkra, ættu að skammast sín) en í dag hef ég ekki einu sinni skoðun á því og hugsa bara “fari þeir og veri”.

Ráðið sem ég hef notað undanfarið er að sökkva mér rækilega ofan í eitthvað viðfangsefni, aðallega siðblindu, einelti og prjónasögu, til að forðast að fá tóm til að hugsa því þá flögra illar hugsanir og tilfinningar um heilabúið. Samt finnst mér leiðinlegt hvað ég er minnislaus og hvað allt tekur mig óskaplega langan tíma, miðað við hvernig ég var áður en veikindin urðu alvarleg. Upplifi mig svolítið sem heilaskemmda eða með Alzheimer.

Í dag er planið að komast á fætur, þ.e. klæða sig. Aukalega hef ég þau markmið að hringja á Þjóðarbókhlöðu og að fara yfir götuna og ljósrita á bókasafninu á mínum gamla vinnustað. Enn aukalegar er að komast út í búð og kaupa sígarettur. Ég hugsa að fyrsta markmiðið náist en veit ekki með hin þrjú. Það stefnir allt í að maðurinn verði aftur að taka yfir heimilisstörfin öll, eigandi þennan kramaraumingja fyrir konu.

Læknirinn viðraði nýtt plan í gær (hefur reyndar minnst á það áður). Það felst í að hætta á Marplan og hefja töku á tveimur lyfjum saman. Þessi tvö lyf gerðu gagn á sínum tíma en annað missti virknina smám saman þrátt fyrir að lyfjaskammtur væri hækkaður og hækkaður og var loks kominn upp úr öllu valdi (reyndar hélst aukaverkunin matarfíkn og ég hef aldrei verið feitari og fallegri en meðan ég var á því lyfinu). Hitt snögghætti að virka í september. Planið felst sem sagt í að hefja nýjan hring í lyfjaflórunni. Ég er ekkert sérstaklega bjartsýn á að það virki. Auk þess þarf ég að vera lyfjalaus um einhvern tíma meðan Marplanið sjatlast úr kroppnum. Það eru ekki beinlínis huggulegar framtíðarhorfur meðan ég er svona veik.

Miðað við veturinn í fyrra og það sem af er þessum vetri virðist þunglyndið fara dýpkandi með árunum og köstin teygja sig yfir æ stærri hluta ársins. Það borgar sig ekki að hugsa um það. Rifja frekar upp alla nýtilega AA-frasa og hanga á þeim. Líklega verð ég að fara að hlusta á kirkjutónlist aftur, Bach nýtist nefnilega á þunglyndi.

Klæða sig og hringja (vonandi tekst mér að slá á réttar tölur á símanum í fyrsta og tala síðan í hann) er fyrst á dagskrá - best að vinda sér í það.

P.S. Skilaboð til lesenda: Ef menn vilja senda einhverjum slóð á einstakar færslur í þessu bloggi er best að smella á titil færslunnar (sem er ljósgrænn) og þá birtist varanleg slóð akkúrat þeirrar færslu í slóðarglugga vafrans. Ég hef t.d. orðið vör við að einhverjir vilja deila færslunni um skólastjóra sem leggja kennara í einelti, sem gleður mig því ég held að þetta sé þarft innlegg í skólamálaumræðu, og þá er best að senda varanlegu slóð færslunnar því hún færist vitaskuld neðar á blogginu sjálfu eftir því sem ég bæti við öðrum færslum. Reyndar kemur hún og aðrar færslur (t.d. um siðblindu eða vísindi um sögulega tilurð íslensku lopapeysunnar) auðveldlega upp í Google og ég sé að margir nálgast efnið þaðan.

Ég hef búið til sérstakan flokk fyrir siðblindu (sjá lista yfir flokka til hægri í glugganum). Mér er fengur í athugasemdum og leiðréttingum því endanlega verður þessu efni komið fyrir á vef og væri þá gott fyrir mig að geta leiðrétt það og bæta. Kosturinn við að birta efni á bloggi jafnóðum og vinnunni vindur fram er að maður hefur aðgang að mörgum yfirlesurum - þetta er hið eina sanna “peer review” :)    

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf