Færslur frá 3. mars 2011

3. mars 2011

Sagt skilið við viðbjóðinn

Ég hef asnast til að eyða tíma, athygli og orku í að fylgjast með vefmiðlum og bloggsíðum undanfarið. Afraksturinn er sá að annars vegar sogaðist ég ofan í drullupyttina sjálf og fór að kommentara á alls konar umræður á FB eða jafnvel á annarra blogg, hins vegar minnkaði trú mín á mannkyninu hröðum skrefum. Ég varð neikvæð og pirruð. (Á ekki hund en þótti  æ vænna um köttinn.) Í gærkvöldi sá ég að þetta gengi ekki lengur og ákvað að hefja nýtt og jákvæðara líf. Þetta er sennilega eitthvað á annað-hundraðasta tilraunin í nýju lífi en það er alltaf jafn ágætt að snúa af villu síns vegar um stund ;)

Allir sem eru vanir að byrja nýtt líf vita að því fylgir uppgjör við fyrra lífið. Svoleiðis að þessi færsla fjallar um viðbjóðinn sem ég nú legg að baki. Þessi færsla er síst skárri en þær sem ég er að gagnrýna, athugið það. ;)

SlúðrariMér blöskar hvernig umræða á Vefnum fer fram. Sérstaklega FB-komment sem vefmiðlar bjóða upp á eða nafnlaus komment. Eins og venjulega gengur DV hart fram í að rægja mann og annan í svokölluðum „fréttum“ og trylla velmeinandi og rétthugsandi alþýðuna sem fær umsvifalaust „blod på tanden“ eins og frændur okkar segja. Fréttafyrirsögn á dv.is á borð við „Þrífættur öryrkjadvergur nauðgar grunnskólabarni“ eða „Kallaði konuna sína tussu á bílastæði“ kæmi mér ekki á óvart. Og ég er viss um að heitar umræður götudómstólsins fylgdu á eftir. Vísan sem hefst svona: „Sögusmetta, rægirófa / rýkur út um alla móa …“ hefur aldrei átt betur við en núna einkum þegar lesendum „fréttanna“ gefst færi á að dreifa þeim um fésbókarsíðuna sína með því að smella á einn takka. Þannig er tryggt að krassandi fyrirsagnir og úthúðun berist enn hraðar um netheima en væru þær einungis bundnar við vefmiðilinn sjálfan.

Konur slúðraÍ gamla daga var aðalógeðið svokallað barnaland.is sem breyttist síðan í er.is og híma nafnleysingjar af báðum kynjum þar í skjóli moggans. Ég hef ekki kíkt inn á þennan vef í nokkur ár svo ég veit ekki hvort sami sorahugsunarhátturinn og svívirðingarnar eru enn þar við lýði. En moggabloggið er nógu slæmt svo ég býst ekki við að barnaland.is hafi skánað neitt þótt greint hafi verið milli subbuskapar „mæðranna“ og blessaðra barnanna, með nafnbreytingu. Og kannski er þessi vefur ennþá aðalheimild DV? Eyjan hýsir svo kverúlanta sem nöldra yfir útvarpsstöðvum, málfari annarra, kvenfjandsamlegu viðhorfi, skorti á konum hér og þar o.s.fr. Miðað við framgöngu kvenna í dómstóli götunnar finnst mér sjálfri reyndar að þær séu fullmargar og fulláberandi og væri til bóta að þær héldu sig aðeins til hlés.

Þann tíma sem ég hef fylgst með sóðaskapnum hefur umræðan m.a. snúist um að jarða öryrkja sem lenti í klippimaskínu framagjarns fréttamanns á Stöð 2, dylgjur um jeppaeign spunnar út frá mynd af alvarlegu bílslysi, kennara sem var nýlega hengdur fyrir bloggara og stuðningsyfirlýsingar við geranda grófs starfsmannaeineltis, þ.m.t. kynferðislegrar áreitni. Viðhorf blóðþyrstu alþýðunnar eru ófyrirsjáanleg en hún hallast yfirleitt á sömu sveifina, hvernig sem sveifin sú snýr í það og það skiptið.

Þegar maður fylgist sæmilega grannt með verður smám saman ljóst að oft er það sama fólkið sem er að tjá sig um allt mögulegt. Það kommenterar við fréttir, rekur jafnvel sjálft moggablogg með örfærslum sem snúast um hvað einhver í fréttunum sé mikill aumingi og idjót og kommenterar á önnur moggablogg um hvað eigendur þeirra séu mikil fífl. Vinsælt er að brigsla hver öðrum um geðveiki til að hamra á andúð sinni. Sennilega er þessi hópur langt innan við þúsund manns (sem betur fer!). En þessum fámenna hópi tekst ótrúlega vel að lita umræðuna á vefnum og heldur sjálfur sennilega að hann sé þjóðin og þjóðin sé hann. 

dómariEinni tröppu ofar telja sig sumir bloggarar, ýmist af því þeir geta skrifað þokkalega íslensku, eru hreyknir af því að halda sjálfir ranglega að þeir skrifi þokkalega íslensku eða eru sannfærðir um að þeir séu annað hvort femínistar eða byltingarmenn nema hvort tveggja sé. En í rauninni er það lið litlu skárra. Má nefna sem dæmi að sá sem kom ummælum kennarans í Flensborg ötullega á framfæri við Fjarðarpóstinn og dv.is stendur sjálfur að fjölmiðli sem birtir millifyrirsagnir á borð við „Íslenskur friðargæsluliði nauðgaði ljósmynd af Hillary Clinton með deyjandi barn í höndunum“ og hefur hlotið dóm fyrir að bíta konu, starfsmann Alþingis, í öxlina af því hún var fyrir honum og honum lausir skoltarnir. Mér finnast klögumál hans yfir að lögreglan leggi hann í einelti (þegar hún hirðir hann drukkinn) eða að KENNARI (fyrrverandi kennarinn hans sem hann telur sig e.t.v. eiga óuppgerðar sakir við, hefur kannski fengið lágt á prófi?) skuli skrifa ljótt í kommentadræsu vera dálítið yfirgengileg, af byltingarhetju að vera. (Seint hefðu Stalín og Che og hinar fyrirmyndirnar lotið svo lágt …) Og síðari klagan er dálítið eins og að kasta grjóti úr glerhúsi.  En það vantar svo sem ekki að yfirlýstir femínistar, alþýðuheimspekingar og dómstóll götunnar bíti á agnið - kokgleypa það raunar.

Grunnskólakennari sem ver Flensborgarkennarann (í ágætum pistli), á forsendum málfrelsis, hefur sjálfur skrifað um íþróttaþjálfara barna og unglinga á þessa leið: „Þá er ég alveg tilbúinn að leyfa allskyns prestum og prelátum að reyna að troða vafasömum hugmyndum inn í kollinn á börnunum áður en ég samþykki það að siðblindum, lygasjúkum boltabullum sé treyst fyrir þeim.“   Bróðir hans, sem kennir núna  siðfræði einhvers staðar að því er ég hygg, var svo vinsamlegur að beina til mín þessum ummælum á komentum fyrir nokkrum árum (þá starfandi á sambýli fyrir þroskahefta):„Það er spurning hvor hefur stopult minni, grunnskólastjórinn austan sanda eða geðveika kerlingarálftin ofan af Skaga sem búin er að láta stuða heilann á sér svo oft að auk þess að lykta af reyk langar leiður er hún er hætt að kunna á Google … Ef ég væri þú væri ég líka þunglyndur, því ef þetta er til marks um þína góðu daga - þá held ég svei mér þá að haglabyssuhlaupið sé besti munnbitinn á þeim vondu.“ (Sjá kommentadræsu við Geðveikt gaman.) Þeir bræður voru geðveikt uppteknir af mér og mínum skrifum á sínum tíma en eins og lesendur þessarar færslu átta sig væntanlega á þá fór ég ekki að ráðum yngri bróðurins. En kom ekki auga á yfirlýstan beittan húmor hans.

trollariSvoleiðis að mér finnst bæði sókn og vörn fyrir málfrelsi á bloggum vera hræsni í mörgum tilvikum og sama illmennskan eða aumingjadómurinn er stundum að baki hvort sem menn telja sig til götudómstólsins eða hafna yfir hann. Og þessi mín bloggfærsla er í rauninni ekkert skárri ;)   En nú verður sagt bless við götuskríl af allra handa tagi og trúss sitt bundið við þá sem hafa eitthvað að segja, þá sem hafa raunverulega jákvæða sýn á aðra og þá sem skrifa fyndin og skemmtileg blogg. Það er gott manni.

Hvað get ég gert til að dragast ekki ofan í drulludíkið sem ég var að lýsa? Svarið er tiltölulega einfalt: Hætta að lesa dv.is, hætta að lesa FB-kommentadræsur um upphrópunarfréttir í ýmsum fjölmiðlum, grisja duglega í mínum FB-vinahópi, forðast uppsláttarblogg af mogga- og eyjutagi og byrja að hlusta á rás 1. Ég er hef þegar hafið þetta nýja líf og hlustaði m.a. á ágæta umfjöllun um Beverly Gray og Nancy Drew bækurnar áðan, sem var afar lítið í stíl við þá marxískt-kristevu-barnabókmenntafræði sem ég lærði fyrir löngu og var því hikstalaust haldið fram að þetta væru fínar bækur. Og bleikar prinsessubækur væru góðar!  Mikið óskaplega var ég glöð að uppgötva að í barnabókafræðum hefur tekist að berja niður afdankaðan vinstrisinnaðan feminísma, með dashi af Freud, og byrjað að hugsa um hvort bækurnar höfði til lesenda. Mikið ljómandi verður gaman að lifa þegar þetta tekst líka á öðrum sviðum :)

Bloggynja hyggst dunda sér við hollari viðfangsefni í nýja lífinu, á borð við prjónaskap og pælingar um siðblindu. Og hugsa vel um köttinn … 
  
  
  
  
 

Ummæli (10) | Óflokkað, Daglegt líf