Færslur frá 17. mars 2011

17. mars 2011

Íslenskun psykopatiu og umræða um siðblindu á Íslandi

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda VI hluti 
 

Orðin, merking þeirra og notkun

Max ZorinEins og kom fram í síðustu færslu, „Hugtakið siðblinda og þróun þess“, má líklega rekja orðið psykopati til austurríska læknisins Ernst von Feuchtersleben, sem talaði um Psychopathieen sem sjúkdóma persónuleikans í bók sinni um geðlækningar, útgefinni 1845. En þótt hann hafi fundið upp orðið var skilningur hans á því talsvert annar en nú tíðkast. Psychopathy er samsett úr grísku orðunum psyche [ψυχή] sem þýðir sál eða líf og pathos [πάθος] sem getur þýtt ástríða, þjáning, tilfinning eða eitthvað í þá áttina.

Ég veit ekki hver elstu dæmi eru um notkun psykopati í íslenskum textum eru, reikna með að það þurfi að leita í gömlum heilbrigðisskýrslum til að finna slíkt út. Í grein Alfreðs Gíslasonar o.fl. „Lobotomia“ í Læknablaðinu 1952 er psykopati einn þeirra sjúkdóma sem þessir læknar beittu geiraskurði við. Það er elsta dæmið um psykopati sem ég fann í Læknablaðinu.

Eldra dæmi um sjúkdómshugtakið psykopati finnst þó og er það íslenskað sem sálrænt misræmi. Í grein Matthíasar Jónassonar, „Nokkur orð um Barnaverndarfélag Reykjavíkur“ í Menntamálum 1949 (22. árg. 3. tbl. 1.12. 1949), segir á s. 151: „Þá eru börn, sem þjást af sálrænu misræmi (psykopati), sem dregur úr námsgetu, þó að margir þættir greindarinnar séu góðir og traustir.“

Í Íðorðasöfnum læknisfræði og uppeldisfræði er siðblinda talin sjúkdómsheiti, samheiti er geðvilla og hvort tveggja er þýðing á psychopathy. (Sjá Orðabanka Íslenskrar málstöðvar.) Í Íslenskri orðabók, þriðju útgáfu, Edda 2002, er siðblinda kvótuð undir líffræði / læknisfræði og skýrð geðvilla, síðan er siðblindur skýrt sem er haldinn geðvillu. Í sömu orðabók er geðvilla kvótuð undir líf./lækn. og skýrð þannig: „geðræn truflun sem einkennist af ábyrgðarleysi, óeðlilegum tilfinningatengslum og hömluleysi, siðblinda.“

Elstu dæmi um geðvillu eru skv. Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, úr Furður sálarlífsins. Sálarrannsóknir og sálvísindi nútímans eftir Harald Schjelderup, sem Gylfi Ásmundsson og Þór E. Jakobsson þýddu úr dönsku og kom út 1963. Í þeirri bók er einnig elsta dæmi um orðið geðvillusjúklingur. Næstelsta dæmi telur Ritmálssafn OH úr bók Símons Jóh. Ágústssonar, Um ættleiðingu, útg. 1964, þar sem stendur á s. 94: „ … helzt eru líkindi til, að geðvilla sé að nokkru ættgeng“ og „Geðvilltir (psychopathiskir) menn og menn með áberandi andfélagslegar hneigðir.“ (s. 66).  Svo vísar Ritmálssafn OH í 4. bindi Alfræðisafns AB (Almenna bókafélagsins), sem er Mannshugurinn eftir John Rowan Wilson, Jóhann S. Hannesson íslenskaði, kom út 1966. Ritmálssafnið tiltekur dæmið þannig: „…hinir svonefndu skapgerðarkvillar, en algengust af þeim er geðvilla.“; „Geðvilltir menn sýnast greindir og eins og annað fólk, en þá virðist skorta djúpar og heitar tilfinningar …“ (bæði dæmin eru af s. 61).
 

Elstu dæmi um orðið siðblinda og lýsingarorð því tengdu, í Ritmálssafni Orðabókar Háskólans, vísa í klausurnar:

McKenna kardináli„Kenníngu einsog örlagatrúnni, þar sem einu helsta undirstöðuatriði kristins dóms, kennisetníngunni um frívilja mannsins, er hafnað með öllu, fylgir sérstök siðblinda, sem er mjög sterk í Brennunjálssögu, og lýsir sér meðal annars í því að bestu mennirnir vinna ævinlega verstu verkin.“ „Eftirmáli við Brennunjálssögu“ ársett 1945. (Halldór Kiljan Laxness sá um útgáfu Helgafells á Brennunjálssögu 1945.) Ritmálssafn OH tilgreinir dæmið úr bók Halldórs, Sjálfsagðir hlutir. Ritgerðir, sem kom út 1946, s. 362. Næstelsta dæmið um siðblindu er líka úr smiðju Halldórs:  „Vér höfum lifað að sjá sterk öfl, risin úr geðbilun stjórnmálamanna, og fullkomlega siðblind, heya örvæntíngarþrúngna baráttu fyrir útrýmíngu mannkynsins.“ („Vandamál skáldskapar á vorum dögum. Fyrirlestur í Norsk Studentersamfund í Osló 8. maí 1954.“ í Dagur í senn. Ræða og rit., útg. 1955, s. 194.)

Halldór hélt svo áfram að nota þessi orð. Í „Ræðu um Snorra“ sem birtist í Morgunblaðinu sunnudaginn 1. júlí 1979, s. 33, sagði hann: „Sérstök einkenni spekínga, sem mist hafa rétttrúnað sinn, þó þeir reyni að framfylgja honum í orði, og móralistar mundu nefna siðblinda menn, eru rík í þessum bókum [Ólafs sögu helga eftir Snorra Sturluson og Njálssögu]; en hætt við að flokkun í þá veru skýri ekki málin núna.“

Næsta ljóst er að Halldór Laxness notar orðin siðblinda/siðblind í merkingunni siðleysi/siðlaus. Hugsanlega er hann höfundur orðsins siðblinda og afleiddra orða en það er ekki fyrr en nýverið, líklega innan við áratugur síðan, að farið var að nota það í merkingunni psykopati. Í leit á Tímarit.is koma t.d. aðallega upp blammeringar á stjórnmálamenn sem sagðir eru siðblindir, stjórnmálastefnur, einstaklinga og yfirleitt flest það sem ritendum er í nöp við í það og það skiptið (meira að segja var í ritdómi hnýtt í óþarflega margar prentvillur í barnabók og spurt hvort það væri vegna lesblindu eða siðblindu). Þessi merking orðsins hefur haldist; Það þarf ekki annað en fylgjast með bloggskrifum nútímans til að sjá að einna vinsælast einmitt núna er að brigsla pólitískum andstæðingum eða þeim sem ekki eru sömu skoðunar um að siðblindu. Orðið siðblinda og siðblindur virðast í augnablikinu hafa leyst af brigsl um geðveiki (sem annars nýtur nokkuð stöðugra vinsælda sem lítillækkandi og niðurlægjandi orð um andstæðinga).

Sama máli gegnir reyndar um orðið geðvillu. Það er líka oft notað til að brennimerkja andstæðinga, í merkingunni siðleysi eða spilling. Loks hafa menn spyrt þessi tvö orð, siðblindu og geðvillu, saman í eitt, siðvilla. Það virðist þýða eitthvað svipað og siðleysi og er líklega notað sem samheiti siðblindu og geðvillu í merkingunni siðleysi. (Ég finn siðvillu hvergi í orðabók en ef ég man rétt var þetta orð brúkað um kaþólsku eftir að lútersk trú komst á hér á landi, líklega hugsað sem andheiti við siðbót.) Elsta dæmið er frá 1967 þar sem Sigurður Magnússon fjallar um lóðaúthlutanir við Þingvallavatn og segir: „… þar sem segja má, að hér hafi upphaflega miklu fremur verið um að ræða slysni en afbrot, siðvillu en siðblindu.“ („Þingvallahneykslið“. Samvinnan 61. árg. 8. tbl. 1967, s. 18.) Þessi samsetning, siðvilla, virðist hafa notið mikilla vinsælda upp á síðkastið.

Nútímadæmi um hvernig siðblindu, geðvillu og samslættinum siðvillu er slengt saman á ýmsan hátt eru:

„Vilhjálmur Bjarnason formaður félags fjárfesta sagði til að mynda: „Íslenskt fjármálakerfi var fórnarlamb siðblindu, siðvillu og geðvillu.“ Vilhjálmur átti þó hlutafé í bönkunum og er það nokkuð sérstakt að maður festi fé í siðvillu og geðvillu.“ Vefþjóðviljinn, laugardaginn 29. nóvember 2008, (höfundarlaus og titilslaus pistill).

„Athyglisvert hvað siðvillingarnir eru snöggir að skjótast út úr fylksnum sínum þegar bent er á FLokkinn. Siðblinda og siðvilla eru alvarlegt mál sem vert er að hafa áhyggjur af.“ (Athugasemd við færsluna  „Nafnlausi flokkurinn læðist með veggjum“ á Davíð Stefánsson. Svolítið frá vinstrinu, 3. 5. 2010
 

Einnig má sjá dæmi um að siðvilla sé líklega notuð í læknisfræðilegu merkingunni siðblinda eða geðvilla: “Græðgi, hroki, siðvilla og spilling. Saga Enrons fjármálahneykslisins var rakin í ágætri heimildarmynd sem sýnd var sjónvarpinu í gærkvöld. Þetta er hin klassíska dæmisaga um græðgina, hvernig hún heltekur manninn og leiðir að lokum til hruns. En hvað er líkt með íslenska bankahruninu og sögu Enron?“ „Enron=Ísland?Síðdegisútvarpið rás 2 (kynning) mánudaginn 1. mars 2009.
 

Samslátturinn siðvilla, fyrir siðblindu og geðvillu, vísar a.m.k. í síðasta dæminu til umræðu sem varð eftir að bók Babiak og Hare, Snakes in Suit. When Psychopaths Go to Work, kom út 2006.
 
 
 

Umræða um geðvillu eða siðblindu á Íslandi

Eins og nefnt hefur verið áður er umræða um siðblindu á Íslandi afskaplega af skornum skammti. Hér á eftir verður reynt að rekja helstu dæmi um slíka umfjöllun en líklega vantar eitthvað hér inn í af því ég hef takmarkaðan aðgang að prentuðum gögnum.

Jim StarkHér að ofan var vitnað í orð dr. Matthíasar Jónassonar, í tilefni af stofnun Barnaverndarfélags Reykjavíkur 1949, þar sem hann nefnir að til séu siðblind börn og kallar röskunina sálrænt misræmi (Menntamál 1949, 22. árg. 3. tbl. s. 151). Tíu árum síðar kom út bókin Erfið börn. Sálarlíf þeirra og uppeldi sem Matthías ritstýrði og Barnaverndarfélag Reykjavíkur gaf út (Hlaðbúð, Reykjavík 1959). Þetta er ákaflega merkileg bók að mínu mati og satt best að segja finnst mér hún bera af nútíma umfjöllun um sama efni. Í bókinni er kafli eftir Benedikt Tómasson, geðlækni og skólastjóra Flensborgarskóla í Hafnarfirði. Þetta er V. kafli sem heitir „Geðvilluskapgerð“ (s. 87-105) og er með bestu umfjöllun um siðblindu sem ég hef séð á íslensku, þótt hún sé meir en hálfrar aldar gömul. Vel að merkja fjallar stór hluti kaflans um geðvillu fullorðinna. Það verður ekki hjá því komist að vitna nokkuð ítarlega í orð Benedikts Tómassonar því umfjöllun hans er það rækileg, langt á undan sinni samtíð miðað við ríkjandi umræðu næstu áratugina og sett fram af skynsamlegu viti. Auk þess liggur þessi gamla bók ekki mjög á lausu.

Benedikt segir í upphafi kaflans: „Hér verður greint lítils háttar frá fyrirbæri, sem nefnist psychopathia á erlendu máli, en ég kalla geðvillu á íslenzku. Samkvæmt hefðbundinni skýrgreiningu er geðvilla eins konar bæklun eða afbrigði á skapgerð, sem einkennir einstaklinginn alla ævi eða a.m.k. frá kynþroskaskeiði og er raunverulega óháð greind. Hugtakið er þó mjög illa afmarkað og því á mörkum þess að vera nothæft, enda nota margir nútíma-geðfræðingar það ekki, en flokka fyrirbærin frá öðru sjónarmiði. … Það sem máli skiptir er, að til er hópur manna, sem eru ekki geðveikir, en eru alla ævi afbrigðilegir að skapgerð og lunderni, þjást ýmist sjálfir vegna afbrigða sinna eða baka öðrum þjáningar, nema hvorttveggja sé. Líklegast þykir, að ekki sé neinn eðlismunur á geðvilltum mönnum og mönnum, sem teljast hafa heilbrigða skapgerð, heldur mismikill stigmunur, en að vísu getur hann stundum verið ærinn. … Tekið skal skýrt fram til þess að girða fyrir misskilning, að afbrot eða ósæmilegt athæfi að almannadómi - og hvað þá aðlögunarvandkvæði barna- á ekki nærri alltaf og ef til vill sjaldnast rætur að rekja til geðvillu. Þar kemur margt til, svo sem félagslegar aðstæður og siðferðilegt andrúmsloft í uppvexti, stundaraðstæður og atvik, greindarskortur, taugaveiklun og geðveiki. Hins vegar eru geðvilltir afbrotamenn allra afbrotamanna erfiðastir viðureignar, af því að afbrotin eru sprottin af andlegri gerð þeirra, en henni er ekki auðið að breyta með neinum kunnum ráðum.“ (s. 87-88)

Síðar lýsir Benedikt persónueinkennum geðvilltra: „Höfuðeinkenni slíkra manna [geðvilltra sem eru í opinskárri andstöðu við þjóðfélagið] eru takamarkalaus eigingirni, hömluleysi og tilfinningasljóleiki eða tilfinningakuldi. Eigingjarnir og tilfinningasljóir eru þeir allir, en að öðru leyti má í aðalatriðum greina þá í tvær manngerðir, hömlulausa menn annars vegar og tilfinningakalda hins vegar. … Yfirleitt skortir tilfinningar geðvilltra manna í garð annarra alla dýpt og staðfestu. Samúð þeirra ristir grunnt, og raunverulega ást eða vináttu geta þeir ekki látið í té, enda eru þeir ótryggir félagar og fljótir að skipta um félagsskap. Þeir setja sig ekki í spor manna, sem þeir hafa gert til miska, eru blindir á tilfinningar þeirra, rétturinn er einhliða þeirra megin, og þeir hafa á reiðum höndum afsakanir fyrir breytni sinni. Ekki ætlast þeir heldur til raunverulegrar ástar eða vináttu, þó að þeim finnist öðrum mönnum skylt að láta að óskum sínum og hafi ósjaldan nærri barnalega trú á, að þeim hljóti að vera það ljúft. Þeir eru engum háðir í tilfinningum.“(s. 90)

„Hömlulausir menn eru reköld, sem festa sig aldrei við nýtilegt verk til lengdar, verður ekkert úr hæfileikum sínum, en eru byrði á vandamönnum og samfélagi, auk þess sem þeir vinna meira eða minna beint tjón. Þeir spana alla upp á móti sér, oft og einatt fremur vegna óhemjuskapar og barnalegra tiltekta en vegna afbrota, sem ekki eru alltaf stórvægileg.

Sú manngerð, sem tilfinningakuldi einkennir aðallega, getur verið miklu flóknari, torráðnari og hættulegri en hinir hömlulausu. … Langhættulegastir samfélaginu eru gáfaðir, kaldrifjaðir mannhatarar, sem hafa gott vald á sér og geta dulið það, sem þeim býr í skapi, unz þeir hremma bráð sína. Þeir geta framið þaulhugsaða glæpi, sölsað undir sig auðæfi og völd eða aflað sér frægðar á vísindalegum falskenningum. Oft tekst þeim ótrúlega vel að smjúga net réttvísinnar, og sumir sjá sér raunar hag í að fara ekki öllu lengra en lög leyfa framast. … Á hinn bóginn eru allir sammála um, að þeir séu ekki geðveikir. (Þeir geta orðið geðveikir rétt eins og aðrir menn). Þeir eru því taldir ábyrgir gerða sinna og dæmdir samkvæmt því …“ (s. 91-93)

Benedikt rekur vitaskuld einkenni geðvillu í börnum og leggur ríka áherslu á að til þess að greina hana þurfi að líta á heildarmynd og styðjast við mörg dæmi og atvik því einstök uppátæki og slæm hegðun barna séu sjaldnast geðvillu um að kenna. Hann bendir einnig á ýmsar brotalamir í uppvexti og umönnun sem geti ýtt undir andfélagslega hegðun barna en endar á taka þetta fram: „Því fer fjarri að enn hafi tekizt að rekja sundur þætti þeirrar flóknu orsakakeðju, sem veldur geðvillu, meta til dæmis gagnkvæm áhrif erfða og umhverfis.“ (s. 101) Að mati Benedikts er eina mögulega lækningin að hefja meðferð geðvilltra barna sem fyrst, að hún sé undir stjórn fagmanna og að „sjaldnast er um annað að ræða en taka þau af heimilum, sem fremi að meðferð eigi að vera meira en kák.“(s. 103)

Mér finnst umfjöllun Benediks Tómassonar vera sérstaklega skýr og skilmerkileg og að mörgu leyti í takt við nútímakenningar, t.d. kenningar Roberts D. Hare. (Mig grunar að Benedikt hafi lesið Mask of Sanity eftir Cleckley, auk þess að fylgjast vel með í evrópskri umfjöllun um geðvillu.) Textinn er líka á óvenju góðri íslensku.

Bera má umfjöllun hans saman við viðtal við Karl Strand árið 1964. Karl var þá starfandi geðlæknir í nágrenni Lundúna. Hann skilgreinir hvaða orð hann vill nota yfir mismunandi geðraskanir, t.d.  „… sturlanir - þetta er gamalt íslenzkt orð, notað yfir geðveiki … Hugsýki nota ég um taugaveiklun; það er dregið af gamla orðinu hugsjúkur … Sefasýki er hysteria, sem er ein tegund hugsýki.“  Síðan spyr blaðamaður um geðvillu: „En hvað segið þér um geðvillu (psychopathic state) - er hún geðsjúkdómur eða hugsýki?“ „Geðvilla telst hvorki sturlun eða hugsýki, heldur er hún sálrænt fyrirbæri, sem er eins konar huglæg bæklun, þar sem ábyrgðarleysi, takmörkuð skapstjórn og vanhæfni til að læra af reynslu eru megineinkenni. Af þessum geðrænu sökum skapast víðtæk félagsleg vandamál.“ (Sturlanir ættu ekki að vera feimnismál. Spjall við Karl Strand geðlækni.“ Vísir 3. júlí 1964, s. 7)

Ári síðar segir Tómas Helgason prófessor í viðtali: „- Það sem geðlæknir á fyrst og fremst við með geðveilu - sem á síðari árum hefur verið kölluð geðvilla- eru meiri háttar og varandi skapgerðargallar, sem eru svo miklir, að einstaklingurinn eða þjóðfélagið þjáist vegna þeirra, segir próf. Tómas. - En þegar tala á um geðsjúkdóma í heild, getum við sagt að þeir skiptist í meiri háttar sjúkdóma, þ.e. geðveiki eða psykosis og hins vegar minni háttar, þ.e. nevrosis, það sama og fólk kallar taugaveiglun [svo], en hefur verið íslenzkað betur með orðinu hugsýki.“ („Viðhorf til geðsjúklinga hefur breytzt mjög til batnaðar“.
Tíminn 5. maí 1965 s. 13 í II.)

Eitthvað er hugtakanotkun þessara tveggja geðlækna á reiki, annar telur geðvillu „eins konar huglæga bæklun“, hinn setur samasem-merki milli geðveilu og geðvillu, sem verður að teljast undarlegt því geðveila er tiltölulega saklaust orð, jafnvel notað um minni háttar skapgerðarbresti.

Sami ónákvæmni skilningur á geðvillu eða siðblindu er áfram á ferðinni hjá þeim sem ættu að þekkja eitthvað til: „Við viljum minna á að í langfæstum tilfellum eru geðsjúkdómar undirrót einhvers voðaverks. Það hefur líka sýnt sig að í flestum tilfellum eru aðrir þættir sem liggja að baki slíkum verkum, t.d. siðblinda eða eitthvað allt annað sem hefur ekkert með geðveiki að gera.“ („Stjórn Geðhjálpar biður fólk um að nota ekki hugtakið geðveikur án þess að sjúkdómsgreining liggi fyrir: Fæstir glæpamenn eru geðveikir“. Tíminn 22. mars 1966, s. 8.) Hið rétta er auðvitað að fæstir glæpamenn eru siðblindir og siðblinda liggur ekki í flestum tilvikum að baki voðaverkum. Aftur á móti er rétt hjá Geðhjálp að skilja milli geðveiki og siðblindu.

Alex DeLargeJakob Jónasson geðlæknir reynir einnig að skilja milli þessara hugtaka í viðtali 1981, þegar hann er spurður um muninn á „hreinni geðveiki og psykopatiskum persónueinkennum“: „Það má segja, að meirihluti geðsjúklinga fái lækningu, en meðan sjúkdómurinn varir er hann hættulegur sjúklingnum. Þá sem haldnir eru varanlegum skapgerðargalla, psykopatiskum einkennum, er hinsvegar ekki hægt að lækna. Slíkt ástand varir alla ævi, þótt slíkir menn spekist að vísu með aldrinum. Þeir eru hinsvegar hættulegri þjóðfélaginu en geðveikir …“ Jakob telur að geðveikir hættulegir glæpamenn séu fáir á Íslandi (hugsanlega er hann einungis með siðblinda glæpamenn í huga) og segir: „Á það hefur hinsvegar verið bent, að geðdeild við fangelsi þurfi ekki að vera stærri en að þar komist fyrir sex rúm. Það mundi fullnægja þörfinni hér á landi, og mikið mundi sparast við að hafa rekstur slikrar deildar og fangelsis að nokkru leyti sameiginlegan.“ („Hættulegir geðsjúklingar heyra til undantekninga“. Helgarpósturinn 18. desember 1981, s. 3.)

Áfram er þó viss ruglingur í umfjöllun geðlækna um siðblindu/geðvillu, sem t.d. sést í orðum Magnúsar Skúlasonar geðlæknis: „Þótt allir hugsandi menn, og undirritaður telur sig auðvitað í þeirra hópi (!), hafi iðulega hinar þyngstu áhyggjur af veikindum hinna sjúku og aðstæðum þeirra, þá verð ég samt að gera þá játningu, að enn meiri kvíðboga veldur mér stundum brenglun og siðblinda hinna „heilbrigðu“, sem er í raun hinn mesti þjáningavaldur sjúkra og margfalt háskalegri lífinu öllu (kannski að lyfjaframleiðendur eigi eftir að finna meðal við þessu?).“ („Geðheilsa og menning“. Morgunblaðið 21. október 1995, s. 25.) Hér virðist Magnús nota orðið siðblinda í merkingunni siðleysi og e.t.v. hefur siðblinda ekki hlotið sess sem læknisfræðilegt hugtak árið 1995 sem gæti skýrt orðalagið.

Hugmyndir Esra Péturssonar um siðblindu eru nokkuð fyndnar, að mínu mati. Hann telur geðvillu sárasjaldgæfa á Íslandi vegna þess að hún, eins og glæpahneigð almennt, hafi ræktast úr þjóðinni í mannvígum Sturlungaaldar! Þar af leiðandi séu Íslendingar einkar löghlýðnir. Sjá: „Geðveiklun og geðveiki eru sízt algengari en annars staðar og geðvilla mun minni. Geðvilla hlýtur að vera vægari hér en annars staðar. Sést það bezt á því, að alvarleg afbrot eru langtum færri, áfengisdrykkja og önnur ávanaefnanotkun er miklu minni en í flestum öðrum vestrænum löndum. Ísraelsbúar standa næstir Íslendingum í þessum menningarefnum. Geðvilla er að vísu ekki miklu fátíðari hér en annars staðar samkvæmt rannsóknum prófessors Tómasar Helgasonar [Esra vísar hér í Tómas Helgason: Epidemiology of Mental Disorders in Iceland. 1964. Munksgaard. København, bls. 151.] Hún hlýtur því að vera til stórra muna vægari. Nýverið hafa birzt greinar og verið fluttar fréttir í útvarpi vestra þar sem sýnt er svart á hvítu að Íslendingar fremja fæst alvarleg afbrot allra þjóða. Má að þessu leyti segja, að Íslendingar séu löghlýðnastir allra. … Vafalaust má rekja uppsprettu löghlýðninnar til trúar á hið fornkveðna, úr nítugasta kafla Njálu: „Með lögum skal land byggja en ólögum eyða.“ Ekki er ósennilegt að löghlýðnin nærist af ágæti löggjafarinnar og standi líka í sambandi við góða meðferð löggjafarvaldsins og löggæzlunnar. Fólksfæðin mun einhverju valda og má vera að íslenzki stofninn eigi smávegis þátt í þessu. Talið er meira um vert að Sturlungaöldin hafi hreinsað hann af mönnum með verstu glæpahneigðina. Hafi þeir þá gengið rösklega að því að útrýma hver öðrum. Loks mun lítil mengun, jafnt innri sem ytri, stuðla að betra jafnvægi í þessum efnum.“

Hugtakanotkun Esra er þessi: „Taka vil ég það fram hér, sem smá útúrdúr, að taugaveiklun virðist mér vera lélegt og villandi rangnefni. Geðveiklun er yfirgripsmeira og raunhæfara orð, sem skýrir fyrirbrigðið mun betur. Vitanlega er geðveiklun ekki sama og geðveiki, heldur miklu vægara ástand, vægara einnig en geðvilla.“ Og einkenni nokkurra geðrænna kvilla eru: „Samfara geðveiklun í mönnum er einnig aukin vöðva- og taugaspenna [hér vísar Esra í eigin grein frá 1962] og höfum við ýmsir sýnt fram á það með vöðvamælingum [electromyography). Hjá geðvilltum og hjá ungum börnum lýsir vöðvaspenna sér í óróa og eirðarleysi. Geðveikir og þunglyndir eru hins vegar stífari og stirðari og er vöðvaspenna þeirra oft samfara þrjózku. Jafnframt aukinni starfsemi og álags tauga og heila kemur í ljós allmikil aukning á vökum og hvötum í blóðrás geðveiklaðra, geðvilltra og geðveikra. Mætti ef til vill líkja því við innri mengun af þessum efnum eða sora í mannlífinu.“ Hvað varðar áhrif geðvillu í neyslu vímuefna segir hann: „Séu foreldrarnir háðir pillum, tóbaki og áfengi, er börnum þeirra meiri hætta búin af öðrum ávanaefnum til viðbótar. Séu foreldrarnir líka geðvilltir hefur það oft áhrif á börnin. Snögg umskipti, órói og eirðarleysi grípa um sig á þeim heimilum. Þar er einnig meiri glundroði og fleiri hjónaskilnaðir. … Sérgreinar hegðunarvandræða eru nokkuð fjölbreyttar, þótt geðvillustofninn sé hinn sami eða svipaður.“ („Fíkniefni. Fjögur erindi um þetta geigvænlega vandamál, haldin á fræðslufundi Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands, 4. marz s.l. Esra Pétursson, læknir. Þjóðfélagsvandamál sem skapast við neyzlu ávana- og fíkniefna“. Lesbók Morgunblaðsins 26. marz 1972, s. 1-2.)

Esra var að fjalla um samspil geðrænna kvilla, glæpahneigðar og notkun áfengis og fíkniefna. Átta árum fyrr nefnir læknirinn Ásbjörn Stefánsson svipað samspil í áfengisumræðu en er á öndverðum meiði við Esra því Ásbjörn nefnir að geðvilla fari e.t.v. vaxandi: „Þá telja ýmsir sálfræðingar og aðrir vísindamenn að geðvilla (psychopathia) hafi farið mjög vaxandi hjá almenningi, ekki sízt ungu kynslóðinni, undan farin ár. Er hér um stórhættu að ræða í sambandi við áfengisnautn sé þetta tilfellið.“ („Umferð og áfengi“. Morgunblaðið 18. október 1964, s. 8.)

Greining geðlækna á geðvillu vakti kannski mesta athygli í Geirfinns-og Guðmundarmálinu enda sagði ríkissaksóknari: „Sjaldan eða aldrei hefur verið meiri ástæða til þess en í þessu máli að afla álits geðlækna um heilsufar ákærðu …“ Í stuttu máli sagt greindu nokkrir geðlæknar alla sakborninga með geðvillu og þ.a.l. sakhæfa, í árslok 1979. (Í einni skýrslunni ber geðvillu ekki á góma en viðkomandi er greindur með „sterka andfélagslega hegðun (personality disorders, antisocial personality)“ sem jafngildir nánast geðvillugreiningu). Yfir þetta lagði læknaráð blessun sína. Skýrslur læknanna eru ákaflega athyglisverðar í ljósi þess sem síðar hefur verið upplýst um meðferð sakborninga. Ótrúlegasti sparðatíningur um aðstandendur sakborninga fylgir í flestum skýrslunum og þess vegna vitna ég ekki í þær heldur vísa í frétt af málarekstrinum þar sem helstu atriði varðandi mat læknanna á sakborningum kemur fram, sjá „Sjaldan eða aldrei hefur verið meiri ástæða til að afla álits geðlækna en í þessu máli“- segir ríkissaksóknari“. Dagblaðið föstudaginn 18. janúar 1980, s. 9.

Sálfræðingar vildu frá því a.m.k. laust fyrir aldamótin síðustu ekki tala um siðblindu eða geðvillu heldur um andfélagslega persónuleikaröskun og virðast gera því skóna að umhverfisþættir vægju töluvert í slíkri röskun. Áhrifamestur þeirra var Gylfi Ásmundsson og gætir áhrifa hans enn, t.d. í svörum á Vísindavef, á doktor.is og á persona.is, þegar siðblindu ber á góma. Hér er látið duga að vitna í svar Gylfa við spurningunni Af hverju stafar siðblinda?“: „Stundum nær þá [þegar foreldrar veita ekki leiðsögn] barnið ekki að þroska tilfinningar sínar eða temja hvatir sínar og lætur stjórnast af þeim. Síðar meir kann þessi einstaklingur að verða sjálfmiðaður, tillitslaus við aðra og hegðun hans stjórnast af því að skara eld að eigin köku. Þegar slík persónueinkenni verða mjög áberandi og afbirgðileg geta þau flokkast undir persónuleikaröskun, þar sem siðblinda er eitt megineinkennið.“ Morgunblaðið 13. júní 1998, s. 30;  Einnig útlistun Gylfa sem kemur fram í svari við spurningunni Hvað er borderline persónuleikaröskun?“: „Alþjóðleg flokkun geðsjúkdóma hefur breyst talsvert á undanförnum áratugum. Ekki á þetta síst við um persónuleikaraskanir. Fyrir fáum áratugum var þeim skipt annars vegar í psykopati, sem á íslensku var nefnd geðvilla, og hins vegar í skapgerðartruflanir af ýmsu tagi, svo voru vægari gerð og skyldari hugsýkinni. Geðvilla var gjarnan talin meðfædd, en skapgerðartruflanir orðnar til fyrir áhrif umhverfis og uppeldis. Í geðvillu fólst oftast andfélagsleg hegðun, siðblinda og samviskuleysi. Orðið psykopat var iðulega notað sem skammaryrði. Nú er það ekki notað lengur en andfélagslegur persónuleiki er sérstakur arftaki þess.“ Morgunblaðið 2. október 1999, s. 42. Þeim sem hafa áhuga á þessari orðræðu um siðblindu er bent á að fletta upp Gylfa Ásmundssyni eða andfélagslegri persónuleikaröskun í Gegni.is eða á fyrrnefndum vefjum.
 

Í „Helgispjalli“ í Morgunblaðinu sunnudaginn 5. maí 1996 reynir M [Matthías Johannessen] að skýra margt í samtíðinni með tilvísun til siðblindu. Hann rekur skilgreiningu og einkenni siðblindu úr riti norska geðlæknisins Einars Kringlen, Psykiatri og vitnar jafnframt til Oxford Textbook of Psychiatry. Matthías hefur því kynnt sér efnið vel og margt af því sem hann segir á kannski allt eins við nú á dögum, a.m.k. sé miðað við fréttaflutning og umræðu á ýmsum vefmiðlum:

„Nú kvarta margir sáran. Og ótrúlega margir virðast haldnir miklu ofnæmi fyrir samfélaginu. Ég hef spurt sjálfan mig hver ástæðan sé. Þetta er yfirleitt dómgreindargott fólk með sterka ábyrgðartilfinningu og aðhaldssamt sjálfsálit. Já, hvers vegna, hef ég spurt sjálfan mig, þolir þessi íslenzki kjarni umhverfi sitt jafn illa og raun ber vitni? Það skyldi þó ekki vera að ástæðuna sé að finna í geðlæknisfræðinni, þeim þáttum hennar sem fjalla um siðblindu eða geðvillu, eða það sem við getum kallað persónuleikabrest framtóninga sem eru hér allsráðandi orðið og hafa ekki sízt komið ár sinni vel fyrir borð í fjölmiðlum og opinberu lífi. Ég er að tala um fólk sem útlendir fræðimenn kalla sýkópata en við gætum nefnt siðblindingja. Margir þeirra sækjast eftir háum embættum og ná oft takmarki sínu í óþökk hæverskra áhorfenda sem hafa aðhald af dómgreind sinni og sjálfsvirðingu. … Samfélag sem ber slík fyrirbrigði á gullstól hlýtur sjálft að þjást af einhvers konar veruleikafirringu; blekkingu. Það virðist ekki hafa neinn áhuga á þeim fjölda fólks sem sinnir störfum sínum af dómgreindarfullri alúð og reynir að þola sitt ofnæmi möglunarlaust. Það undrast, það hneykslast en það skortir það sjálfstraust, það samvizkuleysi, sem gæti stöðvað sigurgöngu sýkópatanna. Það hefur sterkt aðhald af sjálfu sér, dómgreind sinni og sjálfsgagnrýni, eigin ótta og öryggisleysi. En það er geðugur ótti og manneskjulegt öryggisleysi. „Venjulegt“ fólk stendur svo á milli þessara hópa og heldur að það ráði ferðinni; myndi svonefnt almenningsálit. En það er rangt. Framtóningarnir ráða ferðinni í þessu oddaflugi. En spyrja má að lokum hvort ofnæmi þessa ágæta íslenzka samfélagskjarna megi ekki rekja til fyrrnefnds áreitis sem er auðvitað magnaðra í fámennu þjóðfélagi en fjölmennu, þótt sömu persónugerðir séu þar á ferð ekki síður en í okkar litla samfélagi. Sívaxandi óþol þessa fólks er að minnsta kosti eitt helzta einkenni þess skrípaleiks sem alltaf er verið að setja upp öðru hverju á íslenzka litlasviðinu(!)“.
 

Patrick BatemanFrá því bók Pauls Babiak og Roberts D. Hare, Snakes In Suit. When Psychopaths Go To Work, kom út árið 2006, hefur áhugi manna á siðblindu hér á landi vaxið mjög en nánast eingöngu áhugi á siðblindu í viðskiptalífinu. Má í því sambandi benda á ágæta grein Kristjáns G. Arngrímssonar um bók Babiak og Hare, „Snákar í jakkafötum“, í Morgunblaðinu 7. júní 2006, s. 28.

Reyndar hafði áratug fyrr verið vakin athygli á því að siðblinda skipti máli í efnahagsafbrotum en það virðist ekki hafa náð eyrum mann sérstaklega hér uppi á Íslandi. Sálfræðingarnir Ásta Bjarnadóttir og Sigurður J. Grétarsson skrifuðu greinina „Hvers vegna brjóta menn af sér í starfi?“ í Vísbendingu. Vikurit um viðskipti og efnahagsmál. 19. 4. 1996, s. 2, sem lauk á: „Og loks þarf að minnast á þá sem á íslensku eru kallaðir geðvilltir eða siðblindir. Þá skortir hæfileika til að setja sig í spor annarra og finnst sem þeir séu hafnir yfir lög og rétt. Nýlegar rannsóknir benda til þess að hjá þeim sé starfsemi óvenjudauf á heilasvæðum sem móta tilfinningaleg viðbrögð, eins og kvíða, iðrun og réttlætiskennd. Sjaldgæft er að þetta ástand sér [svo] greint hjá manni fyrr en eftir að hann hefur brotið ítrekað af sér. Reyndar er hugtakið siðblinda iðulega notað sem merkimiði á síbrotamenn, fremur en til forvarna. En næsta víst er að blygðunar- og óttaleysi er ekki alltaf til trafala í viðskiptum og sumir álíta - án þess að það sé fræðilega staðfest- að siðblindir menn njóti oft velgengni. Eðli málsins samkvæmt er erfitt að vara sig á slíkum mönnum, tunguliprum, óttalausum og blygðunarlausum, og því er sem stendur erfitt að veita önnur ráð en almenna varkárni til að verjast slíkum sendingum. Þó gæti verið til leiðsagnar að það er ekki rétt sem oft er haldið fram að flestir efnahagsbrotamenn brjóti aðeins einu sinni af sér (Weisburd, Chayet og Waring, 1990) og því óvarlegt að treysta mjög á bót þeirra og betrun.“

Jónína Benediktsdóttir vakti athygli á kenningum Hare áður en sú fræga bók sem hann skrifaði í félagi við Babiak kom út. Jónína fjallaði um grein Robert D. Hare, „Is your Boss a Psychopath“ í greininni  „Guð gaf mér peningana mína“, undirtitill „Jónína Benediktsdóttir fjallar um nýja tegund viðskiptamanna“, í Morgunblaðinu 22. ágúst 2005, s. 19. Ekki virðist sú grein hafa verið rædd neitt sérstaklega.

En eftir efnahagshrunið tóku menn smám saman við sér og áhugi á kenningum Babiak og Hare jókst hröðum skrefum. Má benda á bloggfærslu Láru Hönnu Einarsdóttur, „Snákarnir og siðblindan“ frá 14. janúar 2010 sem dæmi um slíkt. Lára Hanna vísar í þessari færslu í ýmist annað efni.  Kristján G. Arngrímsson skrifaði aðra grein, „Snákarnir okkar“, sem birtist í Fréttablaðinu 22. janúar 2010, þar sem hann lítur um öxl og metur ástand síðustu fjögurra ára í ljósi kenninga Babiak og Hare. (Grein Kristjáns er aðgengileg á samnefndri færslu Láru Hönnu Einarsdóttur þann 23. janúar 2010.)

Hannibal LecterNanna Briem geðlæknir skrifaði greinina „Um siðblindu“ í Geðvernd, 38.árg. 1.tbl. 2009 (s. 25 - 29). Grein Nönnu er besta umfjöllun um þessa alvarlegu geðröskun á íslensku frá því Benedikt Tómasson skrifaði kaflann „Geðvilluskapgerð“ í Erfið börn. Sálarlíf þeirra og uppeldi árið 1959, að mínu mati. Nanna Briem fjallar í greininni einkum um kenningar Robert D. Hare og gátlista hans fyrir siðblindu en minnist líka á siðblindu í viðskiptalífinu. Hún vakti síðan athygli svo um munaði þegar hún flutti fyrirlesturinn Siðblinda og birtingarmyndir hennar í  Háskólanum í Reykjavík þann 3. febrúar 2010, sem fjallaði að miklu leyti um siðblindu í viðskiptum. Eftir þann fyrirlestur spunnust miklar umræður í fjölmiðlum og Nanna Briem sat fyrir svörum víða. Síðan þá kannast flestir við siðblindu í viðskiptalífinu. Ég er samt ekki viss um að fólk viti mikið um siðblindu í víðara samhengi.

Enn skirrast menn ekki við að bera siðblindu eða siðvillu upp á mann og annan, þeim til hnjóðs, án þess að gera sér grein fyrir merkingu orðanna siðblinda og geðvilla. Einnig má nefna nýlegt heldur skondið dæmi í umræðu á Alþingi, þar sem verið var að ræða hvort heimspeki ætti að verða skyldufag í grunn- og framhaldsskóla og fer vel á að ljúka þessari færslu með tilvitnun í hana, til marks um að aukin umræða um siðblindu á undanförnum árum hér á landi skilar sér ekki endilega í auknum skilningi á siðblindu:

„Frú forseti. Enn og aftur get ég verið sammála mörgu sem hv. þingmaður sagði en margt af því fólki sem ég þekki og hefur hvað mesta rökhugsun og getur sett mál sitt skýrt fram og þekkir öll þessi tæki, þarf ekki að vera siðvandaðasta fólkið sem ég þekki. Aftur á móti get ég sagt að mér finnst það fólk sem ekki hefur verið mikið í borgarsamfélagi, er ekki mikið menntað og hefur stritað í sveita síns andlits, oft vera það fólk sem hefur hæstu siðferðisstaðla sem ég hef séð.

Við erum kannski farin að velta fyrir okkur spurningum sem Rousseau velti fyrir sér. Erum við óskrifað blað siðferðilega þegar við fæðumst og er einfaldlega hægt að fylla blaðið út með því að kenna fólki þessi gildi eða fæðumst við með þau? Auðvitað getum við lært þau. Það er alþekkt að þeir sem eru — afsakið frú forseti, að ég skuli sletta — síkópatar og komast hvað best upp með það eru þeir sem geta falið siðferðisbresti sína hvað best á bak við þekkinguna sem þeir hafa. Þeir þekkja hvernig á að hegða sér, hvað þeir eiga að segja. Síðan haga þeir sér á þann hátt sem brýtur öll siðferðislögmál sem við mennirnir viljum setja okkur. Spurningin er: Með því að gefa fólki þessi verkfæri, með því að kenna þeim þetta, gætum við þá verið að stuðla að siðspillingu?“ (Tryggvi Þór Herbertsson á 139. löggjafarþingi, 35. fundi 25. nóvember 2010.)
 


   Færslan er skreytt leikaramyndum sem ekkert koma textanum við. Þetta eru allt myndir af frægum siðblindum persónum kvikmyndanna, talið að ofan: Max Zorin í A View To A Kill, Patrick McKenna kardínáli í Englum og djöflum, Jim Stark í Rebel Without a Cause (raunar er á mörkunum að hann sé siðblindur en má nokkuð örugglega telja hann með andfélagslega persónuleikaröskun), Alex DeLarge í A Clockwork Orange, Patrick Bateman í American Psycho og loks sá frægasti: Hannibal Lecter í Lömbin þagna.
 
 
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Siðblinda