Færslur frá 18. mars 2011

18. mars 2011

Ljósa

Í gærkvöldi las ég Ljósu eftir Kristínu Steinsdóttur í einni beit, sem er vel af sér vikið hjá ólæsri konu. Má af þessu marka hve fantagóð bókin er; meira að segja athyglisbrostin hálflesblind kvenkind sekkur inn í sögheiminn og getur ekki lagt bókina frá sér!

Ég heillaðist strax af aðalpersónunni. Það er svo ótrúlega mikið í hana spunnið og henni er svo vel lýst. Raunar á það við um allar persónurnar; þótt sumar kunni að haga sér á þann máta sem lesandi er ekki sammála þá er alltaf ljóst af hverju þær haga sér svona og allar eiga persónurnar sé málsbætur eða skýringar á gjörðum og hegðun. Þetta er sumsé ekki einföld saga um góða og vonda heldur saga um fólk af holdi og blóði, með kostum og göllum.

Gamli kvennaskólinn � Reykjav�kUppvöxtur Ljósu, myrkfælnin, kvíðaköstin og fyrstu þunglyndisköstin eru ljóslifandi. Fuglinn sem berst um í hálsinum er alveg hárétt lýsing á kvíða og þegar hann stækkar og leggst yfir Ljósu svo hún nær ekki andanum giska ég á að flestir sem reynt hafa ofsakvíðakast á eigin kroppi og sál finni mikla samsömun í þeirri lýsingu.

Nú er ekki svo að það sé eitthvert svartnætti ríkjandi í þessari bók, fjarri því. Ljósa er svo yndisleg manneskja að það er unun að fylgja henni eftir, bæði heima í sveitinni og þegar hún fer í Kvennaskólann. Ég skildi svo vel hvað hana langaði mikið í danskan kjól! Og gladdist mjög þegar hún saumaði sér fyrsta kjólinn :)  Reykjavíkurlýsingin minnti mig dálítið á Minningar Guðrúnar Borgfjörð, sem eru hér uppi í hillu og ég þyrfti að lesa aftur, svo hrifin var ég af þeim síðast.

(Myndin er af síðustu útskrift úr gamla Kvennaskólanum, vorið 1909. Sé vel að gætt sjást sporöskjulaga gluggarnir í kvistunum; þar fyrir innan bjuggu Ljósa og systir hennar Kvennaskólaveturinn.)

Ljósa heldur sjálf að ástarsorgin mikla hafi gert sig veika. En það er ljóst að höfundurinn, Kristín Steinsdóttir, kaupir ekki svo einfalda skýringu. Þess vegna er lesandinn í þeirri stöðu að samsinna Ljósu en nær jafnframt nægilegri fjarlægð til að sjá að Ljósa sér hlutina dálítið brenglaða og sýn hennar verður skrumskældari eftir því sem á söguna líður og Ljósa verður veikari.

Höfundurinn hlýtur að hafa talað mikið við geðhvarfasjúklinga og kynnt sér vel hvernig þeir upplifa sjúkdóminn. Ég er ekki geðhvarfasjúklingur en þekki mætavel til þunglyndishlutans. Þegar ég las að Ljósa gat ekki saumað, var búin að gleyma því (eða gat ekki sniðið? Minnið er eins og gatasigti!) beygði ég af. Þetta minnti mig svo mikið á þessi augnablik í lok síðasta árs þegar ég gat ekki fitjað upp af því ég var búin að gleyma hvernig maður fitjar upp. Svartnættið verður algert þegar detta úr manni síðustu hæfileikarnir, hæfileikar sem maður hefur haldið í og hangið á. Sem betur fer koma þeir aftur, bæði uppfitin hjá mér og saumaskapur Ljósu.

Þunglyndi Ljósu er lýst af næmni og miklu innsæi. Það er ekki oft sem ég hef lesið svona góðar lýsingar, t.d. á því þegar líkaminn hlýðir ekki, fæturnir bera mann ekki eða maður getur ekki komist af stað heldur er frosinn. Líkamlegum einkennum þunglyndis er svo sjaldan gaumur gefinn; þegar óendanlega þung maran leggst á mann, brenglar hreyfingar og dregur úr manni allan mátt.

Bertel Thorvaldsen og VoninManíuna þekki ég bara af afspurn og hef séð fólk í slæmum maníuköstum. Það er enn þyngri kross að bera en þunglyndi. Á tímum Ljósu, á þeim nánast lyfjalausu tímum, var manía óþolandi ástand bæði fyrir sjúklinginn og aðstandendur. - Sumir nútímaspekúlantar sjá náttúrulegt lyfjaleysi í hillingum til handa okkur geðveika fólkinu. Svoleiðis velmeinandi og ýtið lið hefði afar gott af því að lesa Ljósu! - Óvíst er hvort dárakistur hafi nokkurn tíma verið brúkaðar á Íslandi en Óttar Guðmundsson heldur því fram að eitthvað hafi verið um að smíðað væri utan um vitfirrt fólk af því engin leið var  að tjónka við það og smíðið kom í veg fyrir að sjúklingurinn gerði sjálfum séð eða öðrum mein. Aumingja Ljósa lendir í slíku heimasmíðuðu búri og því er afar vel lýst hvernig henni líður þegar kvíðinn hellist yfir hana og hún kemst ekki út. Af reynslunni af ofsakvíðaköstum gat ég vel samsamað mig Ljósu í þessum aðstæðum og lá við að ég fengi svoleiðis kast þegar ég lifði mig inn í bókina og Ljósa var föst - innikróuð - og í ofsakvíðakasti!

Kannski lýsir það Ljósu best að segja að þetta sé óendanlega falleg bók um óendanlega mikla kvöl og þjáningu. Það er ekki bara Ljósa sem þjáist heldur allir í kringum hana. En þrátt fyrir alla þjáninguna er bókin skemmtileg, oft bráðfyndin og Ljósa sjálf er mikill skörungur. Meira að segja í lokin, þegar hún er hætt að halda þræði og minnið hefur svikið hana, er hún stórbrotin.

(Styttan sýnir Bertel Thorvaldsen halla sér upp að sköpunarverki sínu, Gyðju Vonarinnar, sem oftast er bara kölluð Vonin, á íslensku. Styttan stóð á Austurvelli en er nú í Hljómskálagarðinum. Ljósa hélt mikið upp á þessa styttu en hélt reyndar að konan væri María mey og skildi ekkert í því að hún hefði annað brjóstið bert … Kannski tengist þessi stytta svolítið því að Ljósa hallar sér að voninni þegar sortinn leggst yfir, leitar skjóls í dagdraumum um það sem hefði getað orðið. En um síðir verður henni ljóst að þessi von var tálsýn.)

Ég á örugglega eftir að lesa Ljósu aftur enda nokkuð víst að hún hripar úr heilabúinu á nokkrum vikum. Það er a.m.k. ljós punktur við þessi sífelldu blakkát af þunglyndi að ég á inni þennan ágætislestur, sem glænýr sé, í vor.

Ummæli (2) | Óflokkað, Geðheilsa, Bækur, Daglegt líf