Færslur frá 25. mars 2011

25. mars 2011

Siðblinda í fræðum, trúarritum og bókmenntum

31. des. 2011: Ég hef ofið siðblindufærslurnar og ætti að vera þægilegra að skoða efnið á vef heldur en í þessu bloggumhverfi. Slóðin er:

http://sidblinda.com

Þófamjúk rándýr sem læðast: Siðblinda VI hluti


Í þessari færslu verður stiklað á stóru og athygli vakin á nokkrum dæmum um siðblindu í fræðum og bókmenntum frá ýmsum tíma. Engan veginn er um tæmandi umfjöllun að ræða heldur einungis stiklur svo umfjöllunin er nokkuð brotakennd. Einnig verður aðeins minnst á íslenskar bókmenntir en þar er einungis um vangaveltur færsluhöfundar að ræða því nánast ekkert hefur verið skrifað um siðblindu í tengslum við þær.
 

Siðblindir einstaklingar hafa væntanlega verið til frá því einhvern tíma í þróunarsögu mannsins (sbr. kaflann „Þróunarfræðilegar skýringar“ í færslunni Orsakir siðblindu.) Menn hafa þóst sjá þess merki að verið sé að lýsa siðblindum í mjög gömlum textum svo snemma hefur samferðamönnum siðblindra orðið ljóst hvern mann þeir höfðu að geyma.

Oftast er vitnað til Manngerða Þeófrasosar sem elsta fræðitexta þar sem siðblindum er lýst.  Þeófrastos var frá Eresos á Lesbos, nemandi Platons og  persónulegur vinur Aristótelesar. Hann var raunvísindamaður sem reyndi að rannsaka náttúruleg fyrirbæri á hlutlægan hátt, þ.m.t. manngerðir. Ritið Manngerðir var skrifað í Aþenuborg árið 319 fyrir Krist. Ein manngerðin er sú sem sýnir blygðunarleysi og eru einkennin óneitanleg lík hugmyndum nútímamanna um siðblindu:

Sá blygðunarlausi„Blygðunarleysi - svo það sé skilgreint - er að traðka á mannorðinu fyrir skammarlegan ávinning. Sá blygðunarlausi er þannig:
   Hann fer fyrst til einhvers sem hann hefur svindlað á og biður um lán … Ef hann hefur einhvern tíma gert kjötkaupmanninum greiða, þá minnir hann á það, þegar hann kaupir í matinn, og stendur við vogina og lætur helst aukakjötbita með, en ef það tekst ekki, þá súpubein. Heppnist það, lætur hann sér vel líka, ef ekki, þá seilist hann í vömb af búðarborðinu um leið og hann hypjar sig hlæjandi á brott. … Í baðhúsinu er hann vís til að ganga að vatnskatlinum og dýfa skjólunni ofan í undir öskrum baðvarðarins og skvetta sjálfur yfir sig og segja svo að hann sé búinn að skola sig. Á leiðinni út segir hann við baðvörðinn: Ertu ennþá í fýlu? Þú færð sko enga þóknun frá mér.“

Sá blygðunarlausi er, sem sjá má af þessum dæmum, sjálfselskur, kaldlyndur, samviskulaus, ruddalegur og svífst einskis í eigin þágu. Manngerðir Þeófrastosar voru frægt rit sem barst víða. Í eftirmála að íslensku þýðingunni er rökstutt að Brynjólfur biskup Sveinsson hafi átt eintak af þeim í sínu bókasafni í Skálholti.1
 

Enn frægari en Manngerðir er vitaskuld sjálf Biblían. Þar hafa sumir þóst greina ennþá eldri lýsingar á siðblindueinkennum.
 

Fyrst er að telja lög Móse. Mósebækur (Fimmbókaritið, Torah) eru taldar samansettar frá svona 950-450 f. Kr. og sú fimmta líklega frá því um 621 f. Kr. þótt hún kunni að byggja á eldri heimildum.

Þrjóski sonurinnÍ 5. Mósebók er fjallað um þrjóskan son og segir: „Eigi maður þrjóskan son og ódælan sem hvorki vill hlýða föður sínum né móður og hlýðnast þeim ekki heldur þótt þau hirti hann, skulu faðir hans og móðir taka hann og færa hann fyrir öldunga borgarinnar á þingstaðinn í borgarhliðinu. Þá skulu þau segja við öldunga borgarinnar: „Þessi sonur okkar er þrjóskur og ódæll og hlýðir ekki áminningum okkar. Hann er bæði ónytjungur og svallari.“ Þá skulu allir karlmenn í borginni grýta hann til bana. Þú skalt uppræta hið illa úr þjóð þinni. Allur Ísrael skal frétta þetta svo að þeir óttist.“ (5. Mósebók, 21, 18-21Biblían á síðu Hins íslenzka biblíufélags.). Í Guðbrandsbiblíu, útg. 1584, er þýðingin aðeins öðru vísi og segja foreldrarnir öldungunum að hann sé „einn ölsvelgur og drykkjudári“. „Og þú skalt so í burt skilja hið vonda frá þér.“ (Biblia: Þad Er Øll Heilóg Ritning : vtlógd a Norrænu, s. 194 [190], á Bækur.is.) Það væri einkar áhugavert að vita hvað hebresku orðin í frumtextanum þýðir nákvæmlega.

Þetta telur ísraelski geðlæknirinn Bernard Mordechai Rotenberg að sé lýsing á siðblindum. Hann rökstyður mál sitt með því að benda á að ekki sé einungis talað um óhlýðinn og uppreisnargjarnan son heldur sé hegðun hans tengd drykkjuskap, ónytjungshætti og þrjósku sem tengist einmitt nútímalýsingu (þ.e. 1971) á siðblindu. Rotenberg vitnar í ýmsa skýrendur og útleggendur þessara lögmála, s.s. Philo Judaeus (20 f.Kr. - 40 e.Kr.) sem var heimpekingur og lögfræðingur í Alexandríu og taldi þrjóska soninn „leiðtoga í guðleysi“ og túlkaði sögu hans ítarlega. Sama töldu Josefus Flavius (38-100 e. Kr.) og Talmud skýrendur á 1.-6. öld. [Talmud eru skýringar rabbína á lögmálinu, Torah/ Fimmbókaritinu]. En Maimonides (1135-1204), einn þekktasti útleggjandi og túlkandi Talmud og gyðinglegra laga taldi þjófnað tengdan græðgi eða að láta stjórnast af löngun. Hugsanlega hafi hinir fyrrnefndu álitið „þrjóska soninn“ einungis sýna persónuleikavandamál en Maimonides og fylgimenn hans séð hann sem samfélagslegt vandamál að auki. Í þessum skýringum öllum sé augljóst að biblíuhugtakið „þrjóski sonurinn“ eigi við alvarlegustu hegðunareinkenni hugsanlegs glæpamanns. Á tímum Gamla testamentisins skýrði „fláttskapur“ eða „illska“ glæpsamlega hegðun. Þá var aftaka eina áhrifaríka fyrirbyggjandi meðferðin gegn illsku: „Þú skalt uppræta hið illa úr þjóð þinni.“ Rotenberg telur eftirtektarvert að bæði Talmud og nútíma geðlækningar leggi áherslu á óumbreytanlega, óleiðréttanlega náttúru þessa ástands.2
 

Annar fræðimaður, George Stein, telur sig hafa fundið lýsingu á siðblindum í Orðskviðunum, 6. kafla:
 
 

Varmennið, illmennið, talar tveimur tungum,
deplar augunum, gefur merki með fótunum
bendir fingrunum,
bruggar vélráð í hjarta sínu,
áformar ódæði, kveikir illdeilur.
Því mun ógæfan steypast yfir hann,
á augabragði kemur hrun hans
og ekkert er til bjargar.
Sex hluti hatar Drottinn
og sjö eru sálu hans andstyggð:
hrokafullt augnaráð, lygin tunga
og hendur sem úthella saklausu blóði,
hjarta sem bruggar fjörráð,
fætur sem fráir eru til illverka,
ljúgvottur sem sver meinsæri
og sá sem kveikir illdeilur meðal bræðra.

Orðskviðirnir í Biblíunni á síðu Hins íslenzka biblíufélags.

Eirn Skaalkur er skadsamligur/ hann geingur med a rangsnunum Munne/
bender með Augunum/  teiknar með Footunum /
vijsar með Fingrunum/ 
Stundar auallt nockuð illt og fraleitt í sijnu Hiarta / 
og kiemur upp með þrætur. 
Þar fyrer mun hans Ohamingia að honum ouørum koma/
hann mun hastarliga sundurmarenn verða/ 
suo þar verður eingen Hialp.
Þessa Sex Hlute hatar DROTTIN/ 
og hinn siøunde er fyrer honum andstyggeligur/
Drambsöm Augu/ Falska Tungu/ 
Hendur þær eð uthella saklausu Blode/
Hiarta það sem omgeingur með vondum Hreckium/ 
Fætur þa sem flioter eru til skaðræðes/ 
Fals Vott þann sem diarfliga framber Lyge. 
Og hann sem er Brædra a medal Reiser sundurþycke.Biblia: Þad Er Øll Heilóg Ritning : vtlógd a Norrænu, s. 573 [569], á Bækur.is.

Stein vitnar í guðfræðiprófessorinn McKane sem skrifaði að „eesh belial“ (varmennið/skálkurinn) væri sá sem eyðir fremur en sá sem er einskis nýtur (ein orðsifjaskýring á „belial“ er „sá sem er einskis nýtur/ einskis virði“). Í honum býr djúpstæð illska. Hann er haldinn þráhyggju um að skaða meðbræður sína. Hann kveikir illdeilur og orð hans hafa eyðandi reiði logandi elds. (Proverbs: A New Approach; 1970, SCM Press) Þessi lýsing Biblíunnar á „belial“ fellur fellur vel að árásárgjörnum siðblindum manni.Flest af einkennum DSM-IV staðalsins yfir andfélaglega persónuleikaröskun má finna í þessari lýsingu. Rabbínarnir túlkuðu orðið belial þannig að beli þýddi „án“ og Ya-al þýddi „ok“, sem þýðir að belial er sá sem lifir án helsis Torah (hinna heilögu gyðinglegu laga). Í DSM-IV er einmitt talað um síendurtekið tillitsleysi og brot á rétti annarra. Annað sem greiningarlykilinn nefnir er að geta ekki hagað sér í samræmi við norm samfélagsins, sviksemi, hvatvísi, pirring  og árásargirni, skort á eftirsjá o.s.fr.  Líklega eru fimm af sjö megineinkennum andfélagslegrar persónuleikaröskunar skv. skilgreiningu DSM-IV  nefnd eða gefin í skyn í þessum biblíutexta. Textinn er reyndar styttri (93 orð) en samtantekt DSM-IV á ASPD (127 orð). Siðblind persónuleikaröskun hlýtur að hafa verið alvarlegt vandamál í Ísrael til forna úr henni eru gerð svo góð skil í Biblíunni, segir Georg Stein.3
 
 

Í skáldskap hafa menn talið ýmislegt til lýsingu siðblindra í gegnum tíðina, t.d. Þúsund og eina nótt, þar sem Shahryar sá sem lét lífláta eiginkonur sínar eftir brúðkaupsnóttina, er talinn siðblindur. Í Kantaraborgarsögum Chaucers (1340?-1400) þykjast menn sjá lýsingar á siðblindum, einkum í :
 
 

What, trowe ye, that whiles I may preche,
And wynne gold and silver for I teche,
That I wol lyve in poverte wilfully?
Nay, nay, I thoghte it nevere, trewwly!
For I wol preche and begge in sondry landes;
I wol nat do no labour with myne handes,
Ne make baskettes, and lyve therby,
By cause I wol nat beggen ydelly.
I wol noon of the apostles countrefete;
I wol have moneie, wolle, chese, and whete,
Al were it yeven of the povereste page,
Or of the povereste wydwe in a village,
Al sholde hir children sterve for famyne.
Nay, I wol drynke licour of the vyne,
And have a joly wenche in every toun.
But herkneth, lordynges, in conclusioun –
Youre likyng is that I shal telle a tale.
Now have I dronke a draughte of corny ale,
By god, I hope I shal yow telle a thyng
That shal be reson been at youre likyng.
For though myself be a ful vicious man,
A moral tale yet I yow telle kan,
Which I am wont to preche for to wynne.
 Geoffrey Chaucer. „The Pardoner’s Prologue“, línur 439-460.  The Canterbury talesAflátssalinn
„Hvað! haldið þið virkilega að meðan ég predika 
og ávinn mér gull og silfur með ræðum mínum, 
þá vilji ég endilega búa við fátækt? 
Nei, nei! Það hefur mér aldrei dottið í hug! 
Ég vil predika og betla hvar sem ég kem. 
Ég vil ekki vinna með höndunum, 
eða riða körfur eins og heilagur Páll, 
þegar betlið gefur svona mikið af sér! 
Ég fylgi ekki dæmi postulanna; 
ég vil peninga, ull, og ost, og hveiti, 
jafnvel þótt fátækasti vikastrákurinn láti það af hendi 
eða örsnauðasta ekkjan í þorpinu - 
rétt sama þó börnin hennar séu að farast úr hungri! 
Nei, ég vil drekka vínberjasafa*   
og í hverju plássi er snotur hnáta! 
En heyrið mig, lagsmenn góðir, nú í lokin: 
þið óskið eftir ég segi ykkur sögu, og í Himnaföðurs [svo!] nafni, 
fyrst ég hef nú fengið dreitil af maltöli, 
þá vona ég að geta sagt ykkur sögu 
sem hugnast! 
Má vera ég sé syndumspilltur maður,
en ég get þó sagt ykkur uppbyggilega sögu - 
eina af þeim sem ég predika í hagnaðarvon.“* [„licour of the vyne“ í frumtexta, virðist afar ónákvæmt þýtt]

„Inngangur að sögu aflátssala“. Kantaraborgarsögur, s. 243. Erlingur E. Halldórsson þýddi. Mál og menning 2003. Þýðing Erlings er sett upp í prósa en ég raðaði textanum upp til samræmis við frumtexta.

 Á síðunni „Fictional portrayals of psychopaths in literature“ á  Transwiki, Wikipedia,  er talinn upp fjöldi fleiri dæma úr evrópskum en einkum engilsaxneskum bókmenntum.
 
 
 
Siðblinda í íslenskum bókmenntum


 

Egill Skallagr�mssonÍ íslenskum bókmenntum hefur siðblindu enginn gaumur verið gefinn. Næsta augljóst er þó að Egill Skallagrímsson uppfyllir bæði greiningarlykil Hare og DSM-IV, líklega einnig ICD-10, til að teljast verulega siðblindur. Þetta er að því leyti eftirtektarvert að Egill er eina aðalpersóna Íslendingasagna sem ekki er einhliða (týpa) heldur margbrotin persóna. Það er vitaskuld erfitt að sjúkdómsgreina einstaklinga eftir sögulegum heimildum, hvað þá skáldskap, en Egill er það skýrt dæmi að ég nefni hann sérstaklega.Hann sýnir feikileg hegðunarvandræði sem barn og unglingur og kemur þá strax fram að hann er algerlega samviskulaus. Í grimmdarverkum blöskrar mönnum hans, t.d. í ferðinni á Kúrlandi, og kölluðu víkingar þó ekki allt ömmu sína í þeim efnum. Kaldlyndi og ágirnd eru ríkjandi þættir í fari Egils. Í þau fáu skipti í Egils sögu sem hann virðist sorgmæddur má allt eins túlka þau dæmi sem gremju yfir því að hann fær ekki það sem hann telur að sér beri, hvort sem um er að ræða Ásgerði, bætur eftir bróður sinn eða fé Ljóts hins bleika. Þegar Egill missir son sinn og kemst í mikla geðshræringu er allt eins líklegt að hann sé fjúkandi reiður yfir að hafa misst erfingja enda þoldi hann ekki hinn son sinn, friðsaman og sáttfúsan Þorstein. Sonatorrek, hið fræga kvæði sem raunar er óvíst hvort hafi fylgt Egils sögu frá upphafi, er aðallega ásakanir á hendur Óðni fyrir að hafa svipt Egil erfingja. Undir lok sögunnar, þegar Egill er örvasa gamalmenni, er hann jafngrimmur og fyrr, drepur tvo þræla og felur silfur sitt til að enginn fái notið þess, sem er náttúrlega ágætt dæmi um þá sjálfselsku og eiginhagsmunasemi sem einkennir siðblinda.4
 

Það er auðvitað spurning hvaða ályktanir um þekkingu íslenskra miðaldamanna á siðblindum má af lýsingu Egils draga. En mér finnst líklegt að höfundur Egils sögu hafi haft náin kynni af siðblindum einstaklingi og stuðst við þau í samningu Eglu. Siðblinda er meðfædd persónuleikaröskun og því líklegt að hún lýsi sér svipað á mismunandi skeiðum sögunnar og við mismunandi aðstæður. Það væri einkar spennandi að skoða dæmi um lýsingar persóna og hegðun þeirra í veraldlegum samtíðarsögum með tilliti til siðblindu, t.d. Sturlungu (einkum Íslendingasögu Sturlu Þórðarsonar) því mörgum þykja þær raunsæjar og þær eru skrifaðar á svipuðum tíma og atburðir henda.

Norski geðlæknirinn Jon Geir Høyersten hefur skrifað um persónuleikaraskanir í Íslendingasögunum og þá sérstaklega Brennu-Njáls sögu. Hann segir, í viðtali, um Hallgerði langbrók: „Hallgerður var einstaklega afbrýðisöm kona og lét stjórnast af þeim kenndum. Hún var einnig gráðug og bæði vildi og reyndi að komast yfir það sem aðrir áttu og mátu … Hún var mjög sjálfhverf og hugsaði fyrst og fremst um eigin hagsmuni en það eru lýsandi einkenni siðblindu (e. sociopathy) eða Narkissisma.“5 Ég hef ekki aðgang að grein sem Høyersten hefur skrifað um efnið en mér þykir þessi siðblindugreining hans á Hallgerði dálítið vafasöm þegar haft er í huga hjónaband hennar og Glúms. Á hinn bóginn kemur langrækni, sem margir telja að einkenni siðblinda, prýðilega fram í síðustu samskiptum þeirra Gunnars á Hlíðarenda og ekki þarf að leita lengi að dæmum um ruddalega og sjálfselska hegðun Hallgerðar.
 

Af því nú nálgast páskar má rifja upp Passíusálma sr. Hallgríms Péturssonar. Þar er ekki minnst á siðblindu. En skv. lúterskri guðfræði verða menn að viðurkenna og játa syndir sínar og veikleika. Með iðrun verður mannssálin móttækileg fyrir náð og huggun. Hallgrímur var vel að sér í sinnar tíðar guðfræði og í Passíusálmunum kemur fram að iðrun, þ.e. hæfileikinn til eftirsjár, sé guðs gjöf og ekki öllum gefin, þ.e. ekki á valdi einstaklingins. Kannski hefur sr. Hallgrímur kynnst mönnum sem ekki gátu fundið til eftirsjár? Mér finnst áhugavert að skoða þessi tvö erindi úr 12 Passíusálmi með siðblindu í huga:
 
 

20.
Ekki er í sjálfs vald sett,
sem nokkrir meina,
yfirbót, iðrun rétt
og trúin hreina.

21.
Hendi þig hrösun bráð,
sem helgan Pétur,
undir Guðs áttu náð
hvort iðrast getur.

Af seinni tíma íslenskum bókmenntum er freistandi að benda á Bjart í Sumarhúsum sem, eins og Egill Skallagrímsson, er algerlega siðblind persóna, skoðað út frá helstu greiningarlyklum siðblindu. Bjartur er samviskulaus og hugsar einungis um eigin hag, sem kristallast í ósk hans um kindur á fæti. Hann er til í að fórna fjölskyldu sinni fyrir eign. Sú eina persóna sem Bjartur virðist bera einhverjar taugar til er Ásta Sóllilja. En það kemur ekki í veg fyrir að hann áreiti hana kynferðislega á barnsaldri og reki hana barnunga að heiman. Eiginlega er Ásta Sóllilja eign/hlutur í augum Bjarts, hið eina sem hann hefur getað náð frá Rauðsmýrarfólkinu. Tilfinningar hans, annað en ósk um eignarhald, virðast rista grunnt. Til að lokka Ástu Sóllilju aftur til sín er Bjartur til í að leggja ýmislegt á sig svo sem að „yrkja nútímaljóð“.  Í lok þessarar miklu sögu hefur Bjartur ekkert breyst og lemur enn hausnum við steininn í sinni meintu sjálfstæðisbaráttu. Bjartur er í rauninni skólabókardæmi um uppreisnarmann án málstaðar.6

Ég hef ekki hugmynd um hvort Halldór Laxness vissi mikið um psykopati þegar hann skrifaði Sjálfstætt fólk, sem kom út 1934-1935. Það væri auðvitað gaman að kanna hvað leynist í bóksafninu á Gljúfrasteini. En Halldór var afar góður mannþekkjari og eiginlega er ómögulegt annað en ímynda sér að hann hafi haft lifandi fyrirmynd að Bjarti, siðblindan mann sem hann hafi kynnst nokkuð vel eða fylgst vel með. Það er því í sjálfu sér hlálegt hvernig sumir hafa gert andhetjuna hinn siðblinda  Bjart að sínu átrúnaðargoði og fyrirmynd allar götur síðan Sjálfstætt fólk kom út. Sjálfur á Halldór Laxness að hafa kallað Bjart þurs og afglapa.7
 

Með aukinni reyfarmenningu hér á landi hafa birst fleiri siðblindingjar. Af  glænýjum bókum má nefna Ég man þig eftir Yrsu Sigurðardóttur, þar sem ein aðalpersónan hefur siðblindugreiningu og hagar sér í samræmi við það, og Snjóblindu Ragnars Jónassonar, þar sem ein aðalpersónan er greinilega sköpuð með hliðsjón af nýjustu siðblinduumfjöllun. Báðar þessar bækur komu út fyrir síðustu jól (2010).

Andrés ÖndAð lokum skal minnst á áhugaverða (en e.t.v. umdeilda) greiningu á frægri teiknimyndapersónu, Andrési Önd: „Við persónuleikagreiningu á Andrési komu eftirfarandi þættir í ljós: Hann er skapbráður, latur, svikull, frekur, þjófóttur og afskaplega mikill heigull. Hann er vondur við börn og á stundum einnig grimmur við dýr. Andrés er samkvæmt þessum einkennum haldinn siðblindu eða sociopathy.“8


 


1 Þeófrastos. Manngerðir. Íslensk þýðing eftir Gottskálk Þór Jensson sem einnig ritar inngang. Hið íslenzka bókmenntafélag, Reykjavík 2007. Kaflinn um blygðunarleysi er nr. IX,  á s. 92-93.Í eftirmála segir Gottskálk: „Önnur vísbendingin er frá ofanverðri sautjándu öld: Í bókasafni Brynjólfs Sveinssonar biskups í Skálholti var samkvæmt bókaskrá frá árinu 1674 (AM 281 fol) eitt stórt bindi (fólíó) með verkum Þeófrastosar, Theophrasti opera, græce. Útgáfan, sem helst virðist geta fallið lýsingunni á bók Brynjólfs, er Theophastri Opera frá árinu 1541 (Basel), eitt bindi í fólíó með gríska textanum án latneskrar þýðingar. Þar í hafa og verið fimmtán fyrstu manngerðirnar, en ekki er þar með sagt hvort nokkur Íslendingur hafi lesið þær.“ (s. 178).

Teikningin er eftir Francis Howell. Þessar teikningar birtust upphaflega í enskri útgáfu, The Characters of Theophrastos, London 1824. Í undirtitli þeirrar útgáfu segir að bókin sé „skreytt lyndislestrarmyndum“ (illustrated by phsysiognomical sketches) og kveðst Howell teikna þær í ljósi áralangrar athuganir á andlitsfalli og skapgerð manna. (s.189)
 
 

2 Rotenberg, Bernard Mordechai. 1971. „The Biblical Conception of Psychopathy: The Law of the Stubborn and Rebellious Son“. Journal of the History of Behavioral Sciences. 7.árg. 1. tbl. 1971, s. 29-38.
 
 

3 Stein, George. 2009. „Was the scoundrel (belial) of the Book of Proverbs a psychopath? - psychiatry in the Old Testament“. The British Journal of Psychiatry 194. árg. 1.tbl. 2009, s. 33.
 
 

4 Óttar Guðmundsson geðlæknir hefur greint Egil Skallagrímsson með „geðhvarfasýki með alvarlegum þunglyndistímabilum og tímabundnu oflæti.“ Óttar Guðmundsson. Kleppur í 100 ár. JPV útgáfa 2007, s. 10. Ég er ekki geðlæknir en hef kennt Egils sögu á að giska 40 sinnum og finnst þessi greining afar hæpin. Torfi H. Tulinius hefur skrifað talsvert um Egils sögu, þ.á.m. bókina Skáldið í skriftinni - Snorri Sturluson og Egils saga.  Hið íslenska bókmenntafélag 2004. Torfi kemst að þeirri meginniðurstöðu að Egils saga sé skáldsaga sem Snorri hafi skrifað sem nokkurs konar yfirbót og byggt á ævi sinni; „Snorri hafi með sögunni viljað bæta fyrir þær syndir sem hann drýgði í deilum sínum við Sighvat bróður sinn og Sturlu son hans. Hann hafi séð hlutskipti sitt og Egils í ljósi sögu Gamla testamentisins af Davíð konungi. Allir þrír hafi misst frumburð sinni og túlkað það sem refsingu fyrir að hafa lagt á ráð um dauða sinna nánustu keppinauta.“ (Kynning á bókinni á síðu Hins íslenska bókmenntafélags.) Ég hef sömu skoðun á niðurstöðum Torfa og geðgreiningu Óttars. Sjálf óf ég fyrir margt löngu vef um Egils sögu þar sem m.a. má finna síðu þar sem einkenni andfélagslegrar persónuleikaröskunar eru mátaðar við Egil, sjá „Var Egill andfélagslegur persónuleiki?“, samin 2000. Þessi síða er barn síns tíma og eftir siðblindupælingar undanfarið myndi ég auðvitað greina Egil eftir gátlista Hare og kenningum annarra fræðimanna um siðblindu.
 

5 „Persónuleikaraskanir í Njálu“. Fréttablaðið 13. ágúst 2005, s. 20
 

6 „… hinn siðblindi er uppreisnarmaður án málstaðar, pólitískur æsingamaður án slagorðs, byltingarmaður án áætlunar; með öðrum orðum, uppreisn hans er í því augnamiði að ná takmarki sem einungis þjónar honum einum; hann er ófær um að leggja sig fram í annarra þágu. Öll fyrirhöfn hans, skiptir ekki máli hvaða gervi hún klæðist, er til þess gerð að uppfylla stundarþarfir hans og óskir.“ 

Lindner, Robert M. 1944. Rebel Without a Cause: The Hypnoanalysis of a Criminal Psychopath. Útgáfa Other Press, LLC, 2003 er aðgengileg á Bækur Google. Ath. að kvikmyndin Rebel Without a Cause á ekkert sameiginlegt með þessari bók nema titilinn.
 
 

7 Illugi Jökulsson. 2009. „Grein: Skrímslið í Sumarhúsum.“ Færsla 21. ágúst 2009 á Trésmiðju, bloggi Illuga.
 
 

8. Matthías Matthíasson, nemi í sálfræði. Úr Samfélagstíðindum, blaði þjóðfélagsfræðinema í Háskóla Íslands, 12, 1992. Birtist í „Hver ertu, Andrés?“  Morgunblaðið 11. júní 2004, s. 6.
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Siðblinda