Færslur frá 28. mars 2011

28. mars 2011

Leikfimi

Leikfimikennari barst aðeins í tal á fésinu í gær … og svo horfði ég á hinar flinku fimleikastúlkur Skagans hoppa og skoppa á æfingu áðan, meðan ég beið eftir manninum sem stakk í mig nálum. Svoleiðis að ég fór að hugsa um leikfimi - eins og hún var.

Svo háttaði til á Laugarvatni á mínum uppvaxtarárum þar (og gerir kannski enn) að nemendur í öllum hinum skólunum voru æfingafóður fyrir íþróttakennaranema. Í þá tíð var Íþróttakennaraskólinn eins árs nám og þurfti ekki stúdentspróf til að komast inn í hann. (Sem leiddi auðvitað til botnlausrar fyrirlitningar menntskælinga á Þrótturum, nema þeirra menntskælinga sem höfðu hugsað sér að fara í Þróttó eftir stúdentspróf. Enda praktískt að þurfa bara eitt ár til að fá full kennararéttindi á báðum skólastigum, sérstaklega fyrir þá sem hefðu kannski átt erfitt uppdráttar í háskólanámi.). En svo ég spæli ekki elskulega bekkjarbræður mína frá því í denn held ég mig að mestu við árin í Héró, þ.e. í 2. bekk (samsvarar 8./9. bekk grunnskóla) og landsprófi (samsvarar 9./10. bekk), í lýsingunni. Ég stundaði nám í Héraðsskólanum 1972-74 og svo tók Menntó við. Leikfimikennslan breyttist ekkert.

Það þótti ekki við hæfi á áttunda áratugnum að karlmenn kenndu stelpum íþróttir. Þess vegna sáum við einungis karl-þróttara í árlegum gömludansa-námskeiðum, sem hugsanlega voru bara tíðkuð á menntaskólaaldri. Þess meir sást af Þróttóstelpum. Þær sprönguðu um í einhvers konar tvískiptum fimleikagöllum,rauðum og svörtum, í sérhönnuðum leikfimitátiljum.  Líklega var þetta að rússneskri fyrirmynd. Í hverjum tíma kenndu svona 3-4 af tegundinni. Við nemendurnar áttum að vera í “leikfimibol”, teygjuflík sem líktist helst viktoríönskum sundbol með stuttum ermum og skálmarlausum. Svo voru allar berfættar (ekki búið að finna upp fótsveppi á þessum árum).

Í upphafi tíma sátum við upp við rimlana meðan Þróttóstelpur lásu kladda. Það var bannað að kíkja í kladdann. Það var bannað að segjast vera með hausverk af því Þróttó hafði ákveðið að þetta héti “höfuðverkur”. Eina leyfilega orðalagið yfir að vera á túr var “ég er forfölluð”. Ég átti afar bágt með að fara ekki að hlæja á fullorðinsárum þegar karlmenn tilkynntu forföll á fund eða álíka … Hefði stelpa höfuðverk eða var forfölluð sat hún alklædd og horfði á. (Það var ekki búið að finna upp þá skoðun að konur / unglingsstúlkur gætu hreyft sig verandi á blæðingum.) Hinar forfölluðu pössuðu úr og hringi hinna og var sérstök kúnst að halda úrunum aðskildum svo þau “segulmögnuðust” ekki.

Leikfimitímar hófust á að mynda beina röð eftir hæð. Ég var venjulega næstminnst og því næstfremst í röðinni. Svo kallaði ein Þróttóstelpan skipandi: “Standið rétt, fætur saman, áfram gakk, einn-tveir, einn-tveir” o.s.fr. Sem sagt hergöngulag. Og ekki gleyma að horfa í hnakkann á þeirri sem var fyrir framan. (Svo við hljótum að hafa verið aðeins niðurlútar, svona eftir á séð). Ýmis varíantar voru á hringöngum um salinn, eins og að ganga á tánum, ganga á jörkunum (þarna lærði ég orðið “jarki”, sem ég hef aldrei heyrt notað utan íþróttasalarins á Laugarvatni). Svo voru hlaupnir nokkrir hringir. Og Þróttóstelpurnar höfðu dómaraflautur sem þær brúkuðu óspart.

Að því búnu demonstreruðu Þróttstelpurnar í fimleikagöllunum sínum nokkrar gólfæfingar og við áttum svo að gera eins. Þetta voru þessar dæmigerðu æfingar, gerðar til að fá harðan maga, grennra mitti, styrkari læri og fleira kvenlegt. Bannað að segja voff í hundastellingunni - þá var rekið út. Svo voru dregin fram áhöld og byrjað að hoppa yfir hest og yfir kistu (bannað að segja “ég þori því ekki” - í Þróttó höfðu menn ekki heyrt af staðbundinni norðlenskri málvenju og ég mátti þakka fyrir að vera ekki rekin út, það átti nefnilega að segja “ég þori það ekki”.) Yfirleitt var algerlega bannað að segja nokkurn skapaðan hlut við þessar Þróttóstelpur. Og uppi á svölum sat sjálf Mínerva og beindi hvössum sjónum að þeim og okkur undirsátunum. Mátti ekki á milli sjá hvorar voru hræddari við hana.  … Kollhnísar á dýnu voru fastur liður, líka að standa á höfði (af því “haus” fannst ekki í orðaforða leikfiminnar) eða á höndum. Ég var vonlaus í þessu öllu, með grindhoraða handleggi og alger veimiltíta. Var líka of horuð til að uppfylla “standið rétt, fætur saman” herskylduna.

Einstaka sinnum var boltaleikur. Það var alltaf blak. Mikið ofboðslega hata ég blak! Fyrrnefndir handleggir og píanófingur og gleraugu fyrir mínus 7 eru ekki gott veganesti í blaki. Í menntó söfnuðum við undirskriftum og heimtuðum að fá körfubolta eins og strákarnir. Körfubolti var mun skárri. Já, og það var kosið í lið og það er ekkert gaman að vera alltaf kosin síðust. Reyndar grunaði mig þó alltaf innst inni að blakhæfileikar væru heldur lítils virði, í námi og í lífinu, en þetta var samt leiðinlegt.

Sumar Þróttóstelpurnar reyndu að vera almennilegar svo lítið bæri á en þær þurftu að fara sérlega vel með það til að lækka ekki í einkunn fyrir æfingakennsluna hjá Mínervu. Aðrar Þróttóstelpur beinlínis nutu þess að leika herforingja; mér er sérstaklega ein minnisstæð enda var hún, í nemendastelpnahópnum, aldrei kölluð annað en Gribban. Hún fékk svo síðar enn meir krassandi viðurnefni í öðru starfi.

Að koma inn í þennan herskóla, úr litlum sveitaskóla þar sem allir voru saman í leikfimi og yfirleitt farið í einhverja skemmtilega leiki, eins og skota (afbrigði af brennó) eða slagbolta eða Tarzan-leik eða  bara farið út og búið til snjóhús eða risasnjókerling … og ég spilaði fótbolta með hinum krökkunum … var auðvitað horror.

Árangurinn af kennslunni var að ég lét mig hafa það að taka stúdentspróf í leikfimi (man að eitt prófatriðið var að hoppa jafnfætis yfir körfubolta, sem var pís of keik en eitt helvítis atriðið var að standa á höndum sem ég gat náttúrlega ekki - en hvenær í ósköpunum nýtist það manni að standa á höndum?). Svoleiðis að ég er sem sagt stúdent í leikfimi. Aftur á móti varð  ég mér út um vottorði í sundi, sem var enn verra upplifelsi en leikfimikennslanþví þar var ég nánast blind og sá hvorki leikin sundtök fimleikaklæddu Þróttóstelpnanna á bakkanum, né sundlaugarbakkann, með ofnæmi fyrir klórpollinum sem aktaði sem sundlaug og sá fram á að meðaleinkunn á stúdentsprófi myndi hrapa gífurlega ef ég tæki stúdentspróf í sundi. Þannig að ég er illa menntað kvikindi án stúdentsprófs í sundi.

Aðalárangurinn af þessari kennslu var þó að ég fékk æfilangt ógeð á lyktinni í íþróttasölum, læt mig ekki dreyma um að stíga tá oní sundlaug og hef mikla fordóma í garð íþróttakennara, sérstaklega hvað varðar vitsmuni þeirra. Samt hef ég kynnst íþróttakennurum síðar meir sem voru alls ekki algerlega dúmm.

Sem betur fer hefur íþróttakennsla skánað heilmikið frá gullaldarárum Íþróttakennaraskólans á Laugarvatni ;) En ég velti því stundum fyrir mér hvað hafi orðið af öllum þessum Þróttóstelpum. Lifðu þær af venjulegt skólaumhverfi og íþróttaumhverfi utan Laugarvatns?

  

Ummæli (7) | Óflokkað, Skólamál, Daglegt líf