Færslur frá 4. apríl 2011

4. apríl 2011

Fegursta tvíbanda silkiprjónið og vangaveltur um brugðið prjón

Saga prjóns I

Ath. að umfjöllun um þetta efni hefur verið færð á vef, sjá Sögu prjóns.

Ég ætlaði reyndar að halda beint áfram í fyrstu prjónuðu sokkana en snérist hugur og ákvað að gera grein fyrir tveimur merkilegum prjónabútum fyrst.

Richard Rutt telur í bók sinni The History of Hand Knitting langlíklegast að prjón sé upprunnið í hinu islamska Egyptalandi. Árið 641 náði Amr ibn al-As völdum í Egyptalandi og ríkti þar í umboði kalífans í Medína (sem hét Umar og var persónulegur vinur og ráðgjafi Múhameðs spámanns, þótt það komi prjónasögu kannski ekki mikið við). Amr ibn al-As gerði Fustat að höfuðborg ríkisins en þar er nú Kaíró.1

Silkiprjón Fritz IkléMunstur silkiprjón Fritz IkléÍ Fustat fannst prjónabútur sem komst í eigu Dr. Fritz Iklé (1877-1946) sem bjó í Basel í Sviss. Iklé átti stórt einkasafn austurlenskra muna, sérstaklega gott úrval af glervörum og austurlenskum ofnum mottum og teppum en einnig annan textíl. Þessi merkilegi prjónabútur er nú glataður en varðveist hefur góð lýsing á honum í Mary Thomas’s Knitting Book, útg. 1938, og svarthvít ljósmynd.

Búturinn var aðeins 6,5 cm breiður, prjónaður úr silki og prjónið afar fíngert, u.þ.b. 15 lykkjur á cm. Munstrið var dökk-vínrautt á gullnum bakgrunni og prjónið austrænt snúið prjón. Aðferðin er hefðbundið tvíbandaprjón sem sást vel á röngunni. Mary Thomas segir að munstrið hafi verið prjónað á hvolfi, þannig hafi lykkjurnar snúið, en litla ljósmyndin sem hún birtir í sinni bók snýr rétt. „Ekkert glæsilegra sýnishorn af tvíbanda silkiprjóni hefur fundist: Þetta ber af öllu enn þann dag í dag“, skrifar hún.2

Iklé aldursgreindi prjónlesið frá 7.-9. öld. Rutt bendir á að engar leifar af islömsku prjónlesi hafi verið taldar yngri en frá því um 1100 en auðvitað er ekki hægt að ganga úr skugga um hvort greining Iklé var rétt því stykkið er nú týnt og tröllum gefið.

Til hægri sést litla svarthvíta ljósmyndin sem bók Mary Thomas varðveitir. Til vinstri er lítil mynd af munstrinu, sé smellt á hana opnast miklu stærri mynd. Ég teiknaði munstrið upp eftir svarthvítri smágerðri munsturteikningu Richard Rutt á s. 33 í bók hans en reyndi að sýna litina rétta, miðað við lýsingu Mary Thomas.

Þótt menn hafi komist upp á lagið með að prjóna tvíbanda munstur fyrir um 900 árum, jafnvel fyrr, þá virðist nánast allt prjónles hafa verið prjónað í hring, þ.e.a.s. menn kunnu einungis að prjóna slétt prjón. Elstu dæmi um brugðnar lykkjur eru á sokkum Elenoru af Toledo, frá 1562 eða fáum árum fyrr. Á sokkunum hennar eru brugðnu lykkjurnar til skrauts. E.t.v. hafa menn komist upp á lag með að prjóna slétt og brugðið fram og til baka til prjóna hæl á sokk en engin sönnun þess hefur fundist. Frá því prjón varð til var því allt prjónles lengi vel rörlaga og ætti stykkið að vera flatt þurfti að klippa prjónlesið í sundur (líkt og menn gera við opnar lopapeysur nú á tímum). Yfirleitt sjást skil milli umferða vel á þeim stykkjum sem hafa varðveist en þau elstu eru reyndar flest sokkar. Ekki er vitað hve margir prjónar voru notaðir til að byrja með og ekki heldur hvers konar prjónar. Ýmislegt bendir til þess að þeir hafi haft króka á öðrum eða báðum endum, svipað því áhaldi sem nú er notað við tyrkneskt hekl og margir kannast við, en um það er þó ekkert vitað með vissu.

mynsturprjón � egypskum bútRutt nefnir samt dæmi af þremur bútum sem virðast hafa verið prjónaðir fram og til baka, sem þýðir þá auðvitað að kenningunni um að brugðið prjón sé miklu yngra en slétt er þar með kollvarpað eða hann geri ráð fyrir að menn hafi prjónað slétt fram og til baka. (Líkt og Kaffe Fassett hefur kynnt svo rækilega nú á tímum, í myndprjóni. Mig minnir að Fassett hafi sagst hafa lært aðferðina af júgóslavískum sveitakonum.) 

Dæmin sem Rutt nefnir eru tveir bútar í safni Carl Johann Lamm í Kulturhistoriska Museet í Lundi í Svíþjóð og einn bútur í Victoria & Albert safninu í London. Í The History of Hand Knitting er svarthvít mynd af öðrum bútnum í sænska safninu, á réttunni og röngunni. Sænsk-varðveittu prjónabútarnir eru í mörgum litum og prjónaðir úr ullargarni, með tvíbandaprjóni. En einnig eru íprjónuð munstur úr ólituðu bómullargarni. Á röngunni virðist að hvíta bómullargarnið sé notað í myndprjón (intarsia) en ekki tvíbandaprjón. Alveg eins er búturinn í safni Victoriu og Alberts, segir Rutt, hann er prjónaður með tvíbandaprjóni úr marglitu ullargarni en ólituð bómull einnig notuð og þeir hluta mynstursins prjónaðir með myndprjóni fram og til baka.3

Myndin er skönnuð úr bók Rutt og litla myndin krækir í miklu stærri mynd. Með því að rýna í stóru myndina af röngunni má skilja hvað Rutt á við.
 

Næst vind ég mér örugglega í islömsku sokkana :) Og enn og aftur auglýsi ég eftir leiðréttingum á tækniorðaforða, t.d. íslenskun á „Cross Eastern Stitch“ og „intarsia“ þýði ég þetta rangt. Er til eitthvert íslenskt prjónaorðasafn? 1 Rutt, Richard. 1989. The History of Hand Knitting. Interweave Press, Colorado,  s. 32-33. (Bókin kom fyrst út 1987.)

Sjá einnig „History of Muslim Egypt“ á Wikipedia hafi lesendur almennan sögulegan áhuga.
 

2 Thomas, Mary. Mary Thomas’s Knitting Book. Dover Publications, New York 1972, s. 19. (Bókin var fyrst gefin út af Hodder and Stoughton, Ltd., London 1938.)
 

3 Rutt, Richard. 1989, s. 36-39. Mér finnst þetta dálítið ótrúlegt því þetta þýðir að hefðbundið tvíbandaprjón er prjónað fram og til baka og mynsturprjón á stöku stað; Af hverju er ekki allt stykkið prjónað með mynsturprjóni? En ég þarf að verða mér út um litmynd sem til er af sambærilegu plaggi á V&A safninu til að sjá hvort þetta hafi verið praktísk aðferð því það ræðst auðvitað af því hversu símynstrað stykkið er.
 

Ummæli (0) | Óflokkað, handavinna, Saga prjóns