Færslur frá 5. apríl 2011

5. apríl 2011

OMG, skjaldarmerki og annað snakk

OMGSíðan ég hætti að skoða umræður um Æseif, vonda karla, góðar konur sem eru fótum troðnar í karlasamfélagi, Ómægod-hneykslunarblogg kerlinga af báðum kynjum, illa þjóðhöfðingja sem teljast réttdræpir (soldið mismunandi eftir bloggurum og effbéurum hverjir það nákvæmlega eru og sýnist reyndar sitt hverjum) og annað af sama tagi finn ég stóran mun á mér! Reyndar eru ekki nema rétt tveir sólarhringar sem ég hef staðið við þetta (hef oft ákveðið svona áður en dett alltaf “óvart” og “óforvarendis” í sorann) en það er greinilega gott fyrir sálina að slökkva á vælinu og úthúðuninni og hneyksluninni. 

Sumt blogg og sumir umræðuþræðir á FB minna mig samt skemmtilega mikið á ekta Raufarhafnarbúa (þ.m.t. skyldmenni) sem tala í ekta Raufarhafnartónfalli. Hef tekið eftir að ég les þau blogg ósjálfrátt (inni í mér) með slíkri norðlenskri syngjandi, þar sem málsgrein endar jafnvel áttund hærra, sem gerir hneykslun og skítkast miklu skemmtilegra. Kannski ég ætti að lesa þau upphátt? (Ef ég dett aftur í sorann …). Lesendum færslunnar er bent á að ég hef hvergi heyrt þetta tónfall og þessa ítónun nema á Raufarhöfn, heyrist t.d. ekki á ættingjum frá Kópaskeri, hvað þá þegar vestar dregur.

Mér finnst ég vera dálítið að hressast. Kannski er það ímyndun en það er þá ágætis ímyndun. Kannski virkar lyfið sem ég et núna (hef reyndar ekki mikla trú á því), kannski virka nálastungurnar, kannski er bara helvítis kastið að láta undan síga af eigin líffræðilegum ástæðum?

En ég sætti mig við það að gera allt óendanlega hægt og óendanlega lítið í einu. Þetta lærist. Núna er ég t.d. að dunda mér við að klippa runna í garðinum og tek einn runna á dag, það hentar prýðilega og ég næ örugglega að klippa fyrir maíbyrjun :)   Skipti helgarþrifum á þrjá daga (þegar ég var frísk, fyrir löngu, skveraði ég þeim af með annarri hendi á tveimur tímum), les pínulítið, skrifa pínulítið og geri yfirleitt allt í örskömmtum. Enda hef ég loksins fengið kort upp á að ég eigi að ör-yrkja. Það er miklu fínna að eiga svona kort heldur bara einhverja pappírsbleðla í möppu, skal ég segja ykkur. Og það er fínt að geta þó gert sitt lítið af hverju.

Sem stendur er ég aðallega að setja mig inn í tákn, byrja náttúrlega á að komast inn í kirkjuleg tákn enda hangir það saman við heimildaleit um biskupshanska og jafnvel biskupssokka. Ofan á það bættust svo litafræði um biskupshanska og kardínálahanska og jafnvel prestahanska frá því laust fyrir 1000 og frameftir. Í leiðinni tók ég eftir hvað þessir biskupar hafa verið ansi hlýlega klæddir, í hverju fatinu yfir öðru svo nútíma útivistarfræðingur hefði orðið hreykinn af! (Allir sem eitthvað hafa stundað göngur og fjallgöngur vita hvað er óskaplega mikilvægt að vera í mörgum spjörum hverri yfir annarri … þetta virðast kaþólskir biskupar hafa uppgötvað fyrir löngu enda eflaust skítkalt í kirkjum fyrr á tímum). Í dag fann ég mynd af biskupssokkum sem mér finnst dálítið hæpin - vissulega er þetta gamalt prjónles en ég á bágt með að trúa að kaþólskur biskup hafi látið sig hafa það að ganga með “Blessun Allah”, prjónað út með kúfísku letri um ökklann. Þótt islömsk blessunarorð hafi ekki truflað spænska konungaætt er kannski doldið annað mál með kirkjuna … en e.t.v. var biskupinn einföld og góð sál og hélt að þarna væri kominn smart munsturborði gerður með hinni spánnýju tækni?

Skjaldarmerki de la CerdaSkjaldamerki de la Cerda hvenærSvo ætlaði ég að teikna upp munstur af frægum “líksvæflum” (er ekki enn komin með tækniorðið á hreint en þessir tveir svæflar voru undir höfðum líka í kistu í steinþró …) en lenti í vandræðum því heimildum ber ekki saman um litina. Ég hef áttað mig á því að þessi lita-ágreiningur hlýtur að stafa af skjaldarmerki ættarinnar. Og nú er ég að reyna að finna út hvunær kastelíska konungsættin breytti úr rauðum ljónum yfir í fjólublá ljón. Svona getur áhuga á hannyrðum skaffað manni alls konar aukaáhugamál. 

Einhvern tíma var ég búin að setja mig svolítið inn í þessa ætt og datt þá í hin og þessi drömu sem ekki gefa Íslendingasögunum neitt eftir en því miður hef ég gleymt því mestöllu og þarf að endurlesa. 

Það hjálpaði reyndar svolítið til þegar mér datt í hug í dag að athuga hvað fleira hefði verið í steinþrónum og fann út að hann Fernando de la Cerda (dáinn 1275) var klæddur í ljómandi fínan ofinn kyrtil (eiginlega kaftan) munstraðan með skjaldarmerkinu, með perlusaumaðan hatt með bútum úr skjaldarmerkinu og perlusaumað belti með … giskið! En vefnaðurinn er voðalega upplitaður og sker svo sem ekki úr um hvort ljónin hafa einhvern tíma verið fjólublá eða rauð. Síðast þegar ég var að skoða þetta datt ég svo í forvera hans, Alfonso X af Kastelíu, sem var óskaplega merkilegur kóngur; þýddi stjörnufræði úr arabísku og einhverja heimspeki líka o.s.fr. … en kemur því miður ekki hannyrðum neitt við. Fernando de la Cerda var einhvers konar óekta barn, átti samt að taka við ríkinu en dó á besta aldri og varð aldrei kóngur. Þetta slekti var svo einhvern veginn skylt henni Elenor sem var móðir Ríkharðs ljónshjarta … og mig minnir að a.m.k. ein verulega vond kona hafi verið með í ættardrömunum.

Hvergi nokkurs staðar á hinum víða veraldarvef eða í bókum sem ég hef skoðað finn ég myndir af hönskunum Maföldu litlu, sem var holað í aðra steinþróna með hinum Fernandó-inum og öðrum svæflinum. Lýsing bendir til að þetta hafi verið ómerkilegir hvítir prjónaðir línhanskar og auk þess einstaklega illa farnir en það væri samt gaman að berja þá augum.  

Lífið er sem sagt skárra en verið hefur um langt skeið. Að vísu er ég kramaraumingi líkamlega og verð að leggja mig á daginn eins og litlu börnin. Og nætursvefn er alltaf jafn spennandi ófyrirsjáanlegur - sumar nætur eru OK, aðrar nætur ekki.

Ummæli (1) | Óflokkað, Geðheilsa, Daglegt líf