Færslur frá 16. apríl 2011

16. apríl 2011

“Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar”

Þetta er bein tilvitnun í opnuviðtal við Gunnlaug Haraldsson ritara Sögu Akraness, sem birtist í nýjasta Skessuhorni (13. apríl 2011). Ég hef hugsað mér að gera þessi orð að mínum en ekki að gera vinnulagið að mínu.

HöfrungurÍ rauninni er þetta ótrúlegt viðtal, svo ekki sé meira sagt! Eins og alþjóð veit er blaðsíðan í Sögu Akraness þyngdar sinnar virði í gjaldeyri, gott ef hún var ekki verðlögð á 10.000 kall síðast þegar ég vissi, miðað við hvað búið er að greiða söguritanda sem engu skilaði af sér fyrr en um miðjan janúar á þessu ári. Hann hóf verkið 1997 og enn hefur ekkert komið út, kemur þó fram í lok viðtals að bráðlega muni fyrri tvö bindin (af þremur) birtast í firnastóru broti”.

Sem sagt: Liðin eru 14 ár og það eina sem Skagamenn hafa séð eru firnamargar fundargerðir Ritnefndar Sögu Akraness (heitir í greininni sögunefnd Akraness) og núna mynd af söguritara með margar möppur í baksýn, sem ku fullar af dýrmætum ljósritum sem nýtast hafa (munu?) við söguritunina. … hátt í 200 bréfabindi … um 500 síður í hverju bréfabindi. Þessi gögn hefur söguritari leitað uppi í skjalasöfnum, pælt í gegnum þau, afritað og slegið inn í tölvu, sumt stafrétt en gert útdrátt úr öðrum og jafnvel þýtt gömul embættisskjöl úr dönsku.” Ja, ég skal segja ykkur það! Úr dönsku!

Borið saman við simpla doktorsritgerð þá eru ætluð 3- 4 ár til að klára svoleiðis í Hugvísindadeild (t.d. er í sagnfræði- og heimspekideild  miðað við 3 ára vinnu en 4 ár í íslenskudeild), má sækja tvisvar um framlengingu í eitt ár ef gildar ástæður eru fyrir hendi. Ég kíkti á tvær svoleiðis ritgerðir uppi í hillu, önnur er um 270 síður, hin tæpar 500 síður (sú er í heldur stærra broti en gerist og gengur). Hvorug er myndskreytt. Af heimildalista verður ekki betur séð en höfundarnir hafi verið duglegir að leita, pæla o.s.fr. á skjalasöfnum og þýtt úr talsvert fleiri málum en dönsku. Saga Akraness verður rúmlega 1100 síður og brotið eins og áður sagði firnastórt. En vonandi er talsvert af myndum á þessum síðum, a.m.k. ef einhver von á að verða til þess að ímyndaður lesandi komist í gegnum hana. Raunar hef ég aldrei skilið þegar fólk gumar af lengd sinna ritsmíða. Það er líklega afleiðing af margra ára kennsluferli þar sem kennari vann stöðugt að því að fá nemendur til að bulla minna, vera kjarnyrtari og halda sig við efnið í stað þess að einblína á síðufjölda. Eða afleiðing af vefsíðugerð í meir en 15 ár þar sem maður lærir þá gullnu reglu Less is more”. (Ekki að ég brjóti hana ekki hikstalaust ef því er að skipta … og álít að hún eigi ekki við um blogg af mínu tagi þótt hún eigi kannski eitthvað við vefina sem ég slæ.)

Það má því ætla að Saga Akraness verði ígildi svona fjögurra doktorsritgerða í efnisöflun og efnistökum, miðað við þá gífurlega vinnu sem höfundur tíundar í þessu viðtali.

Í viðtalinu er slegið upp kortum af Ljóðhúsum og Akranesi + Kjalarnesi og nánast látið að því liggja að höfundurinn hafi uppgötvað samsvaranir í örnefnum og dregið af því þá ályktun að þeir Bresasynir hafi komið af þeim slóðum. Um Ljóðhús segir að hún sé stærst hinna fjölmörgu eyja í klasanum vestur af Skotlandi”. Ég held að flestir hafi heyrt talað um Suðureyjar (a.m.k. þeir sem hafa verið nemendur mínir) og óþarfi sé að kalla þær klasann vestur af Skotlandi”. Þessi örnefnasamsvörun hefur verið þekkt lengi, í fljótu bragði man ég eftir Gísla Sigurðssyni og Helga Guðmundssyni sem hafa fjallað um þetta en líklega einnig Svavar Sigmundsson og eflaust fleiri. Svo þetta er nú ekki nein stórkostleg uppgötvun Gunnlaugs! Og ályktunin um uppruna landnámsmanna á Akranesi og Kjalarnesi hefur margoft komið fram einmitt í tengslum við samsvaranir örnefnanna. En kortið í Skessuhorninu er sérteiknað og sjálfsagt nýborgað og algerlega ólæsilegt svo kannski halda einhverjir lesendur að þetta séu glæný merkistíðindi.

Höfnin á AkranesiÉg veit ekki hvaða tilgangi viðtal á heilli opnu átti að þjóna. Aflát? Það hefur a.m.k. mistekist því viðtalið einkennist af gorgeir. Þeim sem hafa nasasjón af fræðilegum vinnubrögðum finnst það e.t.v. fyndið? En ég forhertist enn í þeirri skoðun að þetta rit skuli aldrei inn fyrir mínar dyr. Það er nóg að hafa þegar greitt sinn part í þessum 100 milljónum sem bærinn er búinn að spreða í verkið, með útsvarinu sínu. (Leiðréttið mig í kommenti ef talan er röng, hugsanlega hefur Jón Bö. fengið eitthvað af þessum peningum fyrir bindin af Sögu Akraness sem hann skrifaði ekki.) Mér er ekki kunnugt hvað bærinn hefur svo blætt í myndirnar sem væntanlega skreyta verkið eða hversu mikið hann borgar Uppheimum fyrir að gefa verkið út. (Uppheimamenn eru skynsamir og gera sér örugglega grein fyrir því að þessi bók selst ekki svo varla taka þeir fjárhagslega ábyrgð sjálfir.) Þeir Skagamenn sem ég hef heyrt tjá sig um framtakið eru fjúkandi reiðir yfir þessu gæluverkefni bæjarins(nema einn, sem var í ritnefndinni árum saman, gott ef ekki formaður á tímabili,  og hefur sjálfsagt átt sinn þátt í að skaffa Gunnlaugi þetta verkefni) og ég veit ekki um neinn sem gæti hugsað sér að kaupa þetta. En bæjarapparatið fær líklega  megnið af lagernum sem einstakar stofnanir geta svo spreðað í merkisafmælisgjafir eða aðrar merkisgjafir næstu hálfu öldina.

Nú er ég sjálf að skrifa sögu, ekki Skagans heldur prjóns. Svei mér ef ég þýði ekki af ensku, dönsku og þýsku við verkið og hugsanlega verð ég að droppa á skjalasafn þegar á líður, vona þó ekki því nokkrar framfarir hafa orðið í að gera gamalt íslenskt efni aðgengilegt á vefnum og miklu meiri framfarir í að gera álíka útlent efni aðgengilegt á sama stað. Ég hef safnað heimildum á aðskiljanlegum bókasöfnum en reyndar þurft að kaupa nokkrar bækur að utan því þær eru ekki til hér á landi.

Prjónaður riddariAf heilsufarsástæðum vinnst mér hægt. En tíminn sem mun taka að skrifa um sögu prjóns frá upphafi verður þó aðeins brotabrot af þeim tíma sem tók að skrifa sögu svæðisins hér og þeirra örreytiskota sem hér voru. Og kannski er aðalmunurinn sá að ég tek ekki krónu fyrir verkið, það verður öllum aðgengilegt og hvorki hægt að mæla í blaðsíðum né broti því það birtist á vef. En að sjálfsögðu mun ég hafa  það þýðir ekkert hér um bil …” að leiðarljósi þótt ég kunni betur við að orða það svo að vel skuli vanda það sem lengi á að standa eða maður verði sæll af verkum vel.

Prjónasöguvefurinn er í fæðingu - sjá http://this.is/harpa/saga_prjons/index.html. Athugasemdir eru vel þegnar.

  

Ummæli (4) | Óflokkað, Daglegt líf, Saga prjóns