Færslur frá 21. apríl 2011

21. apríl 2011

Upplyfting Uppheima og meira um „stórvirkið“ Sögu Akraness

Svei mér ef ég get ekki sett upp enn einn greinaflokkinn - a.m.k. er ég staðráðin í að skrifa Sögu Sögu Akraness, sem er stórmerkileg, að mínu mati erkidæmi um neópótisma (sem hefur verið nefndur klíkuskapur á alþýðlegri íslensku), algeran skort á samviskubiti eða eftirsjá þótt ritun hafi dregist von úr viti og fé ausið óþrjótandi í hítina og ýmsum öðrum heillandi þáttum.

En þessi færsla er sprottin af auglýsingu útgáfufyrirtækisins Uppheima í dag: Þeir splæstu í opnu í Póstinum (vikulegum auglýsingasnepli okkar Skagamanna) og tilkynna útgáfu tveggja binda Sögu Akraness þann 19. maí (og eru með forsölutilboð, svo ég auglýsi nú fyrir hið góða útgáfufyrirtæki, í þessari færslu). Í auglýsingunni eru ekki spöruð stóru orðin! Má nefna að ritið er bæði kallað SANNKALLAÐ STÓRVIRKI og Fjársjóður öllum Akurnesingum og áhugafólki um sögu Íslands.

Fyrsta klausan segir: Þetta tímamótaverk er ótæmandi brunnur upplýsinga og fróðleiks um hvaðeina sem snertir sögu Akraness og varpar jafnfram nýju ljósi á uppruna fólks í landnámi Bresasona. (Pósturinn, miðvikudaginn 20. apríl 2011, 16. tbl., 14. árg., miðopna.)

Lewis drottninginÉg varð paff yfir að lesa enn einu sinni þessa staðhæfingu um nýja ljósið á landnámsmenn. Reikna með að þarna sé vísað í söguritara sem segir um þær rannsóknir sínar: Í þessu samhengi finnst mér tengingin við Suðureyjar afskaplega forvitnileg, bæði vegna Akraness og nálægra byggða beggja vegna Hvalfjarðar. Skýrt dæmi er hin nána samsvörun örnefna á eyjunni Lewis, eða Ljóðhúsum, við örnefni á svæðinu frá Mosfellssveit að Hafnarfjalli. … Af þessari samsvörun og ýmsu öðru finnst mér að megi draga þá ályktun að frumbyggjarnir hér um slóðir hafi komið frá þessu norræna-gelíska menningarsvæði og flutt með sér örnefni af heimaslóð líkt og þeir Íslendingar gerðu sem fluttust til Vesturheims undir lok 19. aldar. (Þórhallur Ásmundsson. Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar. Viðtal við Gunnlaug Haraldsson. Skessuhornið 15. tbl. 14. árg.  miðvikudaginn 13. apríl 2011, s. 15. Feitletrun mín.) 

[Myndin sýnir áhyggjufulla drottninguna úr hinum frægu Lewis-taflmönnum.]

Þetta er vissulega áhugavert efni en því fer fjarri að Gunnlaugur hafi uppgötvað nokkurn skapaðan hlut í þessu efni hvað þá að þarna sé varpað nýju ljósi á uppruna fólks í landnámi Bresasona. Ég reikna með að hann vísi rækilega í heimildir sínar í ritinu en það gerir hann ekki í viðtalinu heldur má nánast skilja sem svo að þetta hafi hann uppgötvað sjálfur. Sama gildir um auglýsingu Uppheima; hún er í skásta falli hártogað sannleikskorn nema svo vilji til að einhverjar tímamótauppgötvanir aðrar leynist í bókinni (sem ég hef vitaskuld ekki barið augum fremur en aðrir Skagamenn).

Árið 1955 benti Hermann Pálsson á það í bók sinni Söngvar frá Suðureyjum, s. 14, að í Ljóðhúsum sé Esjufjall og þar skammt frá Kjós, eins og á Íslandi. Hann nefnir einnig að í Kjós sé Laxá og bendir á að flestar víkur og vogar beri norræn heiti og nefnir þar á meðal Sandvík og Leirvog. [Hermann er að tala um Lewis, oft nefnd Ljóðhús í íslenskum heimildum en heitir Leòdhas á gelísku sem talið er þýða mýrlendi. Lewis er hluti af Lewis-Harris, sem er stærsta eyjan í Suðureyjaklasanum.]

Þetta tekur Helgi Guðmundsson upp í bók sinni Um Kjalnesinga sögu. Nokkrar athuganir, s. 109 (Studia Islandica 26, útg. 1967) og segir: Það má gera ráð fyrir að landnámsmenn hafi að einhverju leyti flutt með sér örnefni úr heimahögum sínum. Hann bendir svo á vandamálið að um leið og norrænir menn náðu yfirráðum yfir Lewis var gelíska tekin upp (áður var töluð péttneska á eyjunum, sem menn telja að hafi verið keltneskt tungumál, e.t.v. skylt bretónsku og welsku, en gelíska er aftur á móti önnur grein keltneskra tungumála) og því séu norræn örnefni nú mörg í gelískri mynd á Lewis. Helgi telur svo upp fjölda örnefna í 20 km loftlínu sem endurspeglast nánast í sömu mynd og sömu fjarlægðarhlutföllum frá Hafnarfjalli til Mosfellssveitar. Hann bendir á að mörg örnefnin séu ekki sjaldgæf en örnefnaraðirnar eru athyglisverðar og geta stutt það, að Landnáma fari rétt með uppruna landnámsmanna á þessum slóðum. (s. 110) Það er dálítið athyglisvert að bera þetta saman við orð Gunnlaugs í viðtalinu í Skessuhorninu, svo ekki sé meira sagt.

Helgi hefur svo fjallað nánar um þetta í bókinni Um haf innan. Vestrænir menn og íslenzk menning á miðöldum. (Háskólaútgáfan, 1997) og segir á s. 194: Af þessu verður kannski ekki dregin önnur ályktun en sú að örnefnin hafi verið gefin á svipuðum tíma á báðum stöðum. Það passar ágætlega við þá kenningu að norrænir menn hafi lagt undir sig Lewis á 9. öld og haft með sér gelíska þræla; bæði norrænan og gelískan hafi nánast strax útrýmt péttnesku (eða öllu heldur Péttunum kálað) og menn hafi jafnvel almennt verið tvítyngdir á norrænu og gelísku. Úr því péttnesku heitin voru ekki lengur til þurftu norrænu ribbaldarnir að gefa landslaginu ný nöfn og gelísku þrælarnir gerðu eins. Svo flutti slatti af norrænu ribböldunum annað, t.d. til Íslands, og tóku kannski með sér nokkra gelíska þræla eða ambáttir til karnaðar sér, jafnvel eiginkonur. Lewis hélst aftur á móti undir Noregskonungi til ársins 1266.

Bæði Helgi Guðmundsson og Hermann Pálsson hafa fjallað ítarlega um örnefni og uppruna vestrænna landnámsmanna, sjá bók Helga sem minnst var á í fyrri málsgrein og bók Hermanns, Keltar á Íslandi (Háskólaútgáfan, 1996). Báðir hafa vakið athygli á hve litlar upplýsingar eru um landnámsmenn Akraness og hve mikill munur er á á lýsingu Sturlubókar og Hauksbókar Landnámu, sem eru aðalheimildir fyrir því.

Í Sturlubók segir: Bræður tveir námu Akranes allt á milli Kalmansár og Aurriðaár; hét annar Þormóður; hann átti land fyrir sunnan Reyni og bjó að Hólmi. Ketill átti Akranes fyrir vestan og fyrir norðan Akrafell til Aurriðaár. Hans son var Jörundur hinn kristni, er bjó í Görðum; þar hét þá Jörundarholt.   

Innri HólmurÍ Hauksbók segir aftur á móti á þessa leið: Þormóður hinn gamli og Ketill Bresasynir fóru af Írlandi til Íslands … þeir voru írskir. Kalman var og írskur … [Í Sturlubók er Kalman ekki tengdur við Bresasyni en sagt á öðrum stað Maður hét Kalmar suðureyskur að ætt. Raunar segir á samsvarandi stað í Hauksbók: Maður hét Kalman suðureyskur.

Í Hauksbók er troðið inn sem víðast írskum uppruna enda taldi Haukur lögmaður sem lét skrifa bókina að hann væri sjálfur af írskum konungsættum. Sagnir um að Ásólfur alskik, sem bjó m.a. í Innra-Hólmi og var barnabarn Ketils Bresasonar, hafi verið írskur og um hans írskættuðu kraftaverk (helgisagnir) eru í útgáfu Hauks. Sömuleiðis upplýsingar um að kirkjan á Innra-Hólmi hafi verið helguð Kólumkilla, St Columba, þjóðardýrlingi Íra (sem kristnaði reyndar Suðureyjar fyrir daga norrænna íbúa þeirra). Þetta er ágætlega rakið bæði í bók Helga Guðmundssonar, Um haf innan, og í bók Hermanns Pálssonar, Keltar á Íslandi, og báðir byggja mjög á rannsóknum Jóns Jóhannessonar á Landnámu. Um helstu handrit Landnámu má lesa á Vísindavef.  Loks má geta þess að Hermann Pálsson staðhæfir að þar sem landnámsmenn voru taldir írskir hafi kristni lítt haldist eftir landnám en miklu fremur þar sem landnámsmenn voru taldir suðureyskir. Væri gaman að vita hversu sterk kristnin reyndist í landnámi Bresasona, sem gæti gefið frekari vísbendingar um uppruna landnámsmanna :)

Hugsanlega hefur Gunnlaugur söguritari fundið einhver fleiri örnefni sem styðja suðureysku speglunarörnefnakenninguna. Ég vona það því þessi fræði má rekja meir en hálfa öld aftur í tímann og geta því alls ekki borið uppi nýja auglýsta ljósið Uppheima. Tiltölulega nýlega hafa menn haldið á lofti nýrri kenningu um nafnið á Skilmannahreppi, sumsé að þar sé suðureyska árheitið Sheil grunnurinn. Reyndar er þetta ekki talið gelískt orð heldur eitt af örfáum péttneskum orðum sem varðveist hafa á Suðureyjum, m.a. á Lewis. Og um er að ræða ágiskun og ég hef aldrei heyrt rökin fyrir kenningunni um Skilmannahrepp, einungis að þau þyki heldur hæpin. En þessi kenning er a.m.k. tiltölulega ný af nálinni - ekki hálfrar aldar gömul.

Ég á enn eftir að muna hvar ég hef séð kortið sem Gunnlaugur hefur látið teikna upp á nýtt í bókina sína, sem sýnir samsvörun örnefnanna sem Helgi Guðmundsson og Hermann Pálsson hafa marg-fjallað um (og fleiri - ég mátti bara ekkert vera að því að lúsleita í bókasafninu í dag heldur greip það sem hendi var næst). Hugsanlega er kortið komið úr einhverri af bókum Magnúsar Magnússonar … hugsanlega rifjast upp fyrir mér hvar ég sá kortið og hugsanlega getur einhver lesandi upplýst málið.

Af því sem ofan hefur verið rakið er ljóst að kenning um suðureyska landnámsmenn á Akranesi og í nágrenni er hundgömul og vel þekkt. Hún hefur einnig verið vel rökstudd af virtum fræðimönnum.

Írskir dagarHvaðan kemur þá þessi mikla áhersla á að landnám hér hafi verið írskt og við skulum halda upp á írska daga á sumrin og Skagamenn þáðu minnismerki frá Írum, til minningar um írskt landnám? Sú hugmynd styðst eingöngu við Hauksbók Landnámu sem fyrir lifandis löngu var bent á að væri heldur hlutdræg þegar kæmi að Írum!

En henni hefur verið haldið mjög á lofti hér á Skaganum, t.d. í þessari klausu sem er á vef Akraneskaupstaðar undir yfirskriftinni Nánar um hina Írsku [svo] arfleifð: Írar námu land á Akranesi og í bókinni Akranes – saga og samtíð er þennan texta að finna: Litlu eftir 880 komu af Írlandi tveir bræður, þá talsvert fullorðnir, ásamt uppkomnum börnum og öðru fólki. Eiginkvenna þeirra er eigi getið. Þessir bræður voru Þormóður og Ketill Bresasynir, bornir og barnfæddir á Írlandi, en af norskum ættum. Bresasynir námu Akranes allt, Þormóður sunnan Akrafjalls og Ketill norðan. …  Og hver skyldi hafa skrifað textann í þessari 23 síðna ljósmyndabók, sem heitir reyndar Akranes: saga og samtíð og kom út 1998? Enginn annar en okkar góði söguritari, Gunnlaugur Haraldsson.

Meira að segja Jón Böðvarsson, sem ekki þótti þó skila góðu verki, skrifaði í sína útgáfu af sögu Akraness að það væri alls ekkert víst að Bresasynir væru írskir, þeir hefðu líklegast komið frá norrænu-gelísku svæði og svo telur hann nokkra möguleika, þ.á.m. Suðureyjar, Orkneyjar og Skotland. Svoleiðis að nútímaþjóðsagan um að Ketill og Þormóður hafi verið bornir og barnfæddir á Írlandi verður ekki rakin til hans og þá ekki heldur ferðamannahúllumhæið Írskir dagar. Sem hljóta að breytast í Suðureyska daga eftir að Stórvirkið birtist og þá getum við látið unglingana okkar leika Þórgunnu, Hrapp og Þjóstólf, í stað grænna írskra álfa og veifað máttugri hlutum en grænum og appelsínugulum blöðrum ;)

Þetta er orðin svo löng færsla að ég geymi mér umfjöllun um staðhæfinguna geymir yfirgripsmikla og þaulunna lýsingu á samfélagi bænda og sjómanna á átakatímum, þegar sjóþorpið Akranes byggðist upp (tilv. í fyrrnefnda auglýsingu Uppheima), þótt ég hafi verið búin að finna nokkur ansi skemmtileg dæmi um orðið sjóþorp (sem er sem sagt ekki nýyrði sem Gunnlaugur hefur fundið upp, eins og mér var sagt í dag). Sú færsla býður líka upp á spennandi tengingu við skólamál, sem er jú alltaf jafngaman að fjalla um.  

Og Saga Sögu Akraness er kapítuli útaf fyrir sig. Reyni að gera henni nokkur skil fljótlega. Biskupsglófar og útprjónaðar svissneskar dýrlingaskjóður frá miðöldum verða að bíða um stund.

  

Ummæli (4) | Óflokkað, Daglegt líf