Færslur maímánaðar 2011

27. maí 2011

… einvörðungu markmið þessa samnings að framlengja verktíma, skilgreina verklok og kveða á um greiðslur til sagnaritara

Hér segir af því hvernig Gunnlaugi Haraldssyni tókst að ná nýjum samningi við Akraneskaupstað; standa ekki skil á umsömdum verkum; gera þá samkomulag við bæinn um greiðslur fyrir enn víðtækari störf; snúa samningu verksins á hvolf þannig að I. bindið varð að II. bindi og talsvert var þá ósamið af hinu nýja I. bindi og fá 4 milljónir og 767 þúsund krónur kr. fyrir allt þetta. (Ég veit ekki hve há sú upphæð er á núvirði.)Titillinn er bein tilvitnun í „Forsendur“ í samningi Akraneskaupstaðar við Gunnlaug Haraldsson síðla árs 2006.1

Saga Sögu Akraness IX
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …
Saga Sögu Akraness VII, Hvers virði saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig
Saga Sögu Akraness VIII, Ja sko mér er alveg sama og mætti sleppa þessu bókaveseni allveg
 
 
 

KisiÞann 30. nóvember 2006 skrifaði Gísli S. Einarsson bæjarstjóri undir samning við Gunnlaug Haraldsson, með fyrirvara um samþykki bæjarráðs. Bæjarráð samþykkti samninginn 7. desember sama ár. Titill þessa nýja samnings var „SAMNINGUR Saga Akraness“.2

Eins sagði í fyrri færslu aðstoðaði lögfræðingur bæjarins, Jóhannes Karl Sveinsson, við gerð samningsins og útskýrði samninginn bæði fyrir Ritnefndinni og sagnaritara. Það hefði því ekki átt að fara neitt milli mála um hvað samið var.

Í upphafi „SAMNINGS Saga Akraness“ er riftunarákvæði fyrri samnings kippt úr gildi.3  E.t.v. hefur Akraneskaupstaður til þessa nýja samnings átt endurkröfurétt á hendur Gunnlaugi Haraldssyni? En nýtt riftunarákvæði er sett í þennan samning undir lokin: „Takist ekki að ljúka verkinu innan umsaminna tímamarka, er Akraneskaupstað heimilt að rifta þessum samningi og krefjast endurgreiðslu þess sem greitt hefur verið inn á verkið, eða krefjast efnda á samingum [svo] án þess að frekari greiðslur verði inntar af hendi.“ Mér vitanlega hefur þessu ákvæði ekki verið beitt.

Til frekara öryggis, væntanlega vegna viðskipta bæjarins við Gunnlaugs til þessa, er bætt við ákvæðinu: „Telji söguritari, að vegna óviðráðanlegra ástæðna eða atvika sem varða Akranesbæ sem verkkaupa, hafi stofnast heimild til að framlengja verktíma og/eða greiða eigi hærri upphæð fyrir verkið en hér greinir, skal tafarlaust gera grein fyrir slíkum kröfum og upplýsa á fundum ritnefndar. Ef slíkur áskilnaður kemur ekki fram án ástæðulauss dráttar fellur allur réttur í þeim efnum niður.“ Líklega hefur Gunnlaugi gengið áfram vel að telja fram ástæður fyrir drætti á skilum því ég get ekki séð að þessu ákvæði hafi heldur verið beitt.

Skv. þessum nýja samningi skyldi Gunnlaugur „ljúka ritun Sögu Akraness frá landnámi til ársins 1941“ og innifalið í því var prófarkalestur, umsjón með tæknilegum atriðum útgáfu og annað sem gerði handrit hæft til útgáfu.

Skiladagar voru:

„Ritun fyrsta bindis Sögu Akraness skal lokið í umsömdu horfi eigi síðar en þann 30. mars 2007  … tilbúið til prentvinnslu eigi síðar en þann 15. september 2007.“
„Ritun annars bindis Sögu Akraness hefst 1. október 2007 og skal vera … tilbúið til prentvinnslu eigi síðar en þann 30. júní 2008.“

Í samningum kom fram:  „Að mestu er nú lokið ritun I. bindis Sögu Akraness, sem tekur til tímabilsins frá landnámi til ársins 1850 og hefur handriti sögunnar frá lokum 17. aldar verið skilað á fyrri stigum“ en „ … sagnaritari skrifi frá grunni almennan upphafskafla um söguna frá landnámi til loka 17. aldur, þ.m.t. jarðsögu, staðhátta- og örnefnalýsingu … skal tekin endanleg ákvörðun um umfang þess kafla eigi síðar en á fundi ritnefndar í desember n.k.“ (Feitletrun mín).

Á fundi Ritnefndarinnar 12. desember (60. fundur) kemur einungis fram að Gunnlaugur hafi lagt fram drög að efnisþáttum 1. bindis en ekki er gerð grein fyrir þeim drögum GH frekar en áður og engin ákvörðun bókuð. Tæpu ári síðar er almenni upphafskaflinn framan við fyrsta bindið farinn að bólgna ískyggilega út: „Kaflar II (Örnefni og búsetuminjar í landnámi Bresasona, 91 s.) og III (frá landnámi til loka 13. aldar, 135 s.) hafa verið afhentir ritnefnd“. (Sjá töflu yfir fundargerðir Ritnefndarinnar og vinnu Gunnlaugs skv. þeim á frá desember 2006 til desember 2007.)

Í samningnum kemur líka fram sú skoðun að annað bindið sé hálfklárað:  „Annað bindi … frá 1851 til ársins 1941. Umrita þarf og endurskoða kafla 18-35 og ljúka handriti þannig að heildarsamræmi sé komi á (frá 1901-1941).“ (Feitletrun mín)

Loks kom fram að söguritari skyldi nú einbeita sér að ritun sögunnar þótt hann hefði eitthvað um útlitið að segja:
Fyrir utan verksvið söguritara er gerð korta og sérfræðilegur yfirlestur á handriti. Söguritari skal þó hafa verkstjórn með þessum þáttum, þ.e. skilgreina þarfir, upplýsa ritnefnd og afla tilboða eða undirbúa samninga og fylgja þeim eftir svo sem nauðsyn krefur. Ekki skal stofnað til kostnaðar eða samningar gerðir nema ritnefnd komi þar að og að bæjaryfirvöld séu upplýst um áætlaðan kostnað og samþykki að greiða hann. (Feitletrun mín.)
 
 

Greiðslur til Gunnlaugs Haraldssonar og annar kostnaður Akraneskaupstaðar

„Akraneskaupstaður greiðir söguritara samtals 10.000.000 (með tilteknum verðbótum skv. því sem síðar greinir) fyrir verkið allt til loka, þ.m.t. öll opinber gjöld og kostnaður sem tilheyrir verkefni hans, þ.m.t. launatengd gjöld, efnis- og húsnæðiskostnaður“4 og skal innt af hendi fyrsta virka dag hvers mánaðar á meðan verkinu stendur (í fyrsta sinn 1. desember 2006).“ Akraneskaupstaður mun greiða kostnað við ferðir milli Akraness og Reykjavíkur, „þ.e. kílómetra- og veggjald [er hér átt við gjöld í Göngin?] samkvæmt reikningi.“

Tíu milljónirnar skyldu greiddar í 16 jöfnum greiðslum, 625.000 á mánuði (auk síðari verðbóta). Greiðslutímabil voru desember 2006- júní 2007 (sjö mánuðir fyrir fyrsta bindið) og október 2007 - júní 2008 (níu mánuðir vegna annars bindis). Greiðslur skyldu hefjast 1. des. 2006 og vera greitt út fyrsta virka dag hvers mánaðar. Föst laun Gunnlaugs hafa því hækkað talsvert frá fyrri grunnsamningi.5

Annar kostnaður bæjarins átti að vera vinna ritnefndar, kostnaður vegna umbrots, kortagerðar, myndvinnslu, tæknilegrar úrvinnslu o.þ.h.
 

Efndir samningsins

KisaGunnlaugur var á fullum launum frá 1. desember 2006 - 31. júní 2007 eða 7 mánuði. Þá stöðvuðust greiðslurnar.  Hann stóð ekki við samninginn, þ.e. skilaði ekki handriti að fyrsta bindinu fyrir 1. apríl og því var enn óskilað í júnílok þegar greiðslum lauk. Ritnefndin var hins vegar ósköp róleg yfir þessu og virtist trúa fram á síðustu stundu að Gunnlaugur skilaði af sér á réttum tíma. Eftir að ljóst er að hann stendur ekki í skilum eru einungis bókaðar „Almenn umræða um framgang verksins“ eða „Umræða um framgang verksins“. (Sjá töflu yfir fundargerðir Ritnefndarinnar og vinnu Gunnlaugs skv. þeim á frá desember 2006 til desember 2007.)  Fundargerðir Ritnefndarinnar voru aldrei lagðar fram í bæjarráði en hins vegar í bæjarstjórn. Það er sama sleifarlagið og áður í þeim efnum, t.d. eru fundargerðir frá 22. maí og 2. október lagðar fram í bæjarstjórn 9. október og fundargerðin 20. desember 2006 var lögð fram ásamt annarri frá 28. febrúar 2007 á bæjarstjórnarfundi þann 11. mars 2007. Þetta hefur áreiðanlega gert  bæjarstjórnarfulltrúum erfitt að  fylgjast náið með Ritnefndinni og sagnaritara.

Á sama tíma blæs út „almenni upphafskaflinn um söguna frá landnámi til loka 17. aldur, þ.m.t. jarðsögu, staðhátta- og örnefnalýsing“. Þegar þessi samningur við Gunnlaug var gerður töldu menn að það eina sem vantaði upp á I. bindið væri almennur upphafskafli (sem hafði reyndar vantað nokkuð lengi og var upphaflega hugmynd Gunnlaugs sjálfs, sem hann stakk að Ritnefndinni um leið og hún mat I. bindið fullunnið, í desember 2001). Þrátt fyrir að í nýja samningnum stæði að „Öll ákvæði fyrri samninga og samþykkta ritnefndar um efnistök, áherslur og heimildaleit skuldu halda gildi sínu“ var þessi almenni inngangskafli orðinn að sjálfstæðu bindi snemma vors 2008, ókláruðu að sjálfsögðu. Þótt það sjáist kannski ekki gjörla fyrr en í næstu færslu þá notar Gunnlaugur þetta ár til að snúa verkinu á hvolf þannig að I. bindið verður í rauninni að II. bindi og hann er byrjaður að frumsemja nýtt I. bindi. (Og seinna meir var hið nýja II. bindi stytt til muna o.m.fl. en frá því verður einnig greint síðar.) Þannig að verkið var í rauninni enn fjær því að vera tækt til útgáfu þegar þessum fyrri hluta samningstímans lauk.
 

Gunnlaugur fékk 625.000 kr. greiddar á mánuði frá desember. 2006 til og með júní 2007. Þegar greiðslur stöðvast grípur hann til þess ráðs að gera viðbótarsamning við Akraneskaupstað þar sem hann selur bænum enn meiri óunna vinnu! Þetta er svokallað „Samkomulag um viðauka við samning á milli aðila um Sögu Akraness frá 30. nóvember 2006.“6  Tillagan kom frá Ritnefndinni til bæjarráðs og bæjarráð fól bæjarritara að gera verksamning í samræmi til tillögu ritnefndar sögu Akraness“ þann 18. október 2007.7

Nú var samið um að Gunnlaugur tæki að sér „verkstjórn með ýmsum þáttum sem lúta að fullnaðarfrágangi á sögu Akraness, bindis I.“ (1. gr.) Átt var við verkstjórn yfir yfirlestri handrits, gerð korta, öllu sem snéri að grafík og myndefni, hönnun, umbroti og prófarkalestri. Önnur atriði sem samið var um voru aðallega:

„Aðilar eru sammála um að ritun II. bindis verði frestað meðan áðurnefnd prentvinnsla I. bindis er í gangi …“ (2.gr.)
„Stefnt er að því að fullnaðarfrágangi við I. bindi verði lokið þann 1. mars 2008 og það tilbúið til prentunar.“ (4. gr.)
Og rúsínan í pylsuendanum:
„Telji söguritari að forsendur séu til að byrja vinnu við II. bindi að hluta eða öllu leyti meðan unnið er að lokafrágangi I. bindis og innheimta fyrir það þóknun skv. samningi þar um skal það ákveðið sameiginlega af söguritara og ritnefndar [svo] um sögu Akraness.“ (3. gr.)

KisiGreiðslur fyrir vinnuna sem kveðið var á um í viðbótarsamningnum skyldu vera tvenn mánaðarlaun samanlögð. 33% summunnar voru greidd út 1. nóv. 2007; 33% 1. desember 2007 og eftirstöðvar átti að greiða þegar I. bindi teldist fullfrágengið til prentunar.
 

Þannig tókst Gunnlaugi Haraldssyni að fá full mánaðarlaun hálft árið og skert mánaðarlaun í tvo mánuði að auki án þess að skila meiru en 226 síðum af ófullgerðu handriti (skv. fundargerðum Ritnefndarinnar).
 

Fyrir árið 2007 fékk sagnaritarinn greiddar 4 milljónir og 767 þúsund krónur. Annar kostnaður var tæplega 3,2 milljónir og laun ritnefndar, tæp 277 þúsund; alls rúmar 8 milljónir og 200 þúsund krónur. Á núvirði er þessi upphæð rétt rúmar 11 milljónir og 238 þúsund krónur.8
 
  

1  „Öll ákvæði fyrri samninga og samþykkta ritnefndar um efnistök, áherslur og heimildaleit skuldu halda gildi sínu og er það einvörðungu markmið þessa samnings að framlengja verktíma, skilgreina verklok og kveða á um greiðslur til sagnaritara.“ Segja má að eini hluti markmiðsins sem náðist hafi verið greiðslurnar.
 

2 Hér birtist í fyrsta sinn titillinn að því verki sem kom að hluta út fyrir viku síðan, Saga Akraness I og Saga Akraness II, hvort bindi með sínum undirtitli. Ég sendi tölvupóst til Jóns Gunnlaugssonar, formanns ritnefndar, Árna Múla Jónassonar bæjarstjóra, Sveins Kristinssonar, forseta bæjarstjórnar,  Guðmundar Páls Jónssonar, formanns bæjarráðs og Jón Pálma Pálssonar, bæjarritara, mánudaginn 23. maí 2011 og spurði hvort samið hafi verið við erfingja Ólafs B. Björnssonar um leyfi til að nota þessa titla, sbr. Höfundalög 1972 nr. 73 með áorðnum breytingum, gr. 43, 51 og 52, en hef ekki fengið svar frá neinum þeirra. Líklega heyrir Ritnefndin og saga Akraness enn undir bæjarstjóra, hugsanlega undir bæjarráð einnig, svo til öryggis sendi ég öllum þessum aðilum spurninguna en þeir hafa líklega ekki mátt vera að því að svara mér ennþá.
 

3 Í fyrsta samningnum sagði: „Verkið hefst þann 1. apríl 1997 og skal lokið eigi síðar en 30. september 2001.“ Í þriðju grein þess samnings sagði: „ … ef vanefndir teljast verulegar á verktímanum er Akraneskaupstað heimilt að rifta samningi þessum og endurkrefja höfund um þær greiðslur, sem þegar hafa verið inntar af hendi.“ Vanefndir voru gífurlegar en eins og fram hefur komið virtist sagnaritarinn varinn í bak og fyrir, gerði Viðaukasamning og  Samkomulag, sem voru viðbætur við upphaflega samninginn, og hélt áfram að fá greitt. Í þessum nýja samningi segir:„Í því [samkomulagi] felst m.a. að hvorugur aðili gerir neinar kröfur á hendur hinum vegna þess tíma sem liðinn er.“ Raunar virðast menn farnir að ruglast í ríminu þegar samningar við Gunnlaug Haraldsson eru raktir því í „Forsendum“ nýja samningsins er villa í dagsetningu „þriðja samningsins“, þ.e. Samkomulagsins frá 26. ágúst 2004 (en þann dag samþykkti bæjarráð það).

4 „Hver greiðsla uppfærist miðað við þróun launavísitölu, með grunnvísitölu í nóvember 2006 (til verðtryggingar í desember)“.  Mér finnst þetta óskiljanleg setning og ef einhver getur útskýrt hana fyrir mér væri ég þakklát. En ljóst er að mánaðarlaun Gunnlaugs voru 625.000 kr. allan tímann, þau hækkuðu ekkert á árinu 2007.
 
 

5 Miðað við að launatengd gjöld séu 20% voru laun Gunnlaugs 520.000 á mánuði. Í desember 2006, þegar Gunnlaugur fékk fyrstu greiðsluna, voru meðal dagvinnulaun framhaldsskólakennara rétt rúmar 288 þúsund á mánuði. Meðalheildarlaun framhaldsskólakennara voru í október-nóvember 2006 rúm 440 þúsund. (Samanburður við desember hentar illa því þá var greidd út desemberuppbót og aðrar greiðslur fyrir ákv. vinnu alla alla haustönnina).

Í júní 2007 höfðu meðaldagvinnulaun framhaldsskólakennara hækkað í rétt rúmar 301 þúsund krónur á mánuði en meðalheildarlaun hækkað hlutfallslega minna því yfirvinna dróst saman. Þau voru í kringum 450 þúsund. Inni í meðaltalstölum um framhaldsskólakennara eru launagreiðslur allra stjórnenda framhaldsskólanna annarra en skólameistara, sem væntanlega hækka þessar tölur nokkuð. Sjá Fréttarit KOS nr. 31, s. 34. Útgefandi er Kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna.

Af þessu má draga þá ályktun að með nýja samningnum hækki Gunnlaugur talsvert í launum frá fyrri grunnsamningi (1997) því nú fékk hann greitt talsvert meir en framhaldsskólakennarar upp til hópa.
 
 

6 Upphaf samkomulagsins, „Forsendur“, er lýsandi fyrir viðskipti Akraneskaupstaðar og Gunnlaugs Haraldssonar til þessa:

„Samkomulag þetta er gert í framhaldi af fyrri samningum aðila frá 23/4 1997, 24/1 2002, 24/8 2008 [á að vera 26/8 2004] og 30/11 2006.
Söguritun á fyrsta bindi hefur dregist í tíma miðað við tímasetningar samnings frá 30/11 2006 og ljóst að tímaákvæði við upphaf ritunar bindis II getur ekki hafist fyrr en búið er að ljúka ritun og frágangi bindis nr I.“

Skrifað var undir samkomulagið þann 27. október 2007.
 

7 Í bæjarráði sátu: Karen Jónsdóttir, formaður bæjarráðs, Gunnar Sigurðsson og Guðmundur Páll Jónsson. Á þessum fundi voru einnig Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri og Jón Pálmi Pálsson, bæjarritari.
 

8 Upplýsingar um kostnað og uppreikning hans á núvirði eru fengnar frá Akraneskaupstað þann 4. maí 2011.

Ummæli (0) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

25. maí 2011

Ja sko mér er alveg sama og mætti sleppa þessu bókaveseni allveg

Í þessari færslu segir frá ýmsum breytingum sem urðu til þess að sagnaritarinn Gunnlaugur Haraldsson naut lítilla launa frá Akraneskaupstað árið 2006 og varð nánast hornreka í viðskiptum kaupstaðarins það árið. Hann missti sinn aðal verndara og velgjörðamann; Ýmsar hræringar voru í stjórn bæjarins; Meirihluta Ritnefndarinnar skipaði nýtt fólk. Þó tókst sagnaritara og Akraneskaupstað að landa samningi undir árslok 2006. Titill færslunnar er bein tilvitnun í bréf á umræðuvef bæjarins í september 2006.1

Saga Sögu Akraness VIII
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …
Saga Sögu Akraness VII, Hvers virði saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig
 

Guli vitinn og mark á AkranesiVæri sagnaritun Gunnlaugs Haraldssonar fyrir Akraneskaupstað líkt við fótbolta þá er fyrri hálfleik nú lokið. Við tekur leikhlé og í seinni hálfleik er búið að skipta út einum lykilmanni en glettilega margir þeirra sömu spila samt áfram fyrir Akranesbæ; sami öflugi liðsmaðurinn er óþreyttur í hinu liðinu, þ.e. sagnaritarinn Gunnlaugur. Ég læt lesendum eftir að meta hver staðan er.

Árið 2005 var ósköp rýrt fyrir Gunnlaug. Hann uppskar einungis rúmlega 2 milljónir 550 þúsund krónur sem á núvirði gera rúmlega 3,9 milljónir. Þetta var þó ekkert í líkingu við árið eftir, 2006, en þá náði Gunnlaugur einungis einum mánaðarlaunum, 625.000 kr. í desember. En svo vænkast hagurinn aftur árið 2007.

Árangurstengdu dreifðu greiðslurnar voru uppurnar í lok september 2005. Miðað við framgang máls til þessa hefði það ekki átt að tálma næsta samningi að árangur var enginn, þ.e. engu var skilað. En ekki bólaði á nýjum samningi nærri strax og Ritnefndin hélt ekki einu sinni fundi!

Líklegasta skýringin á hve harðnar í ári fyrir Gunnlaug er að Gísli Gíslason bæjarstjóri og formaður Ritnefndarinnar réði sig til annarra starfa. Þann 27. september 2005 var Gísli ráðinn í starf hafnarstjóra Faxaflóahafna. Sama dag samþykkti Bæjarstjórn Akraness að ráða Guðmund Pál Jónsson í starf bæjarstjóra frá og með 1. nóvember 2005. Gísli hafði verið bæjarstjóri á Akranesi í 18 ár og verið formaður Ritnefndar um sögu Akraness allan tímann. Þótt Guðmundur Páll, sem tók við tímabundið sem bæjarstjóri, hefði setið í Ritnefndinni frá því líklega í apríl 2004 reyndist hann Gunnlaugi ekki sá verndari og velgjörðarmaður sem Gísli Gíslason hafði lengst af verið.

Vorið 2006 voru bæjarstjórnarkosningar. Pólitískar sviptingar virðast raunar ætíð hafa litlu máli skipt í ritun sögu Akraness, miklu frekar skipta einstakar persónur máli. Ein af nýju bæjarfulltrúunum var Karen Jónsdóttir (fyrir Frjálslynda flokkinn, gekk seinna til liðs við Sjálfstæðisflokkinn) en hún átti eftir að setja mark sitt á sögu sögu Akraness síðar. Hrönn Ríkarðsdóttir sem hafði setið í Ritnefndinni frá  upphafi 1987 til vorsins 2002 (og myndað þar meirihluta-fjölskyldublokk með Leó Jóhannessyni og Gísla Gíslasyni, svo sem fyrr hefur verið greint frá) settist nú í bæjarstjórn og situr þar enn, fyrir Samfylkinguna; Guðmundur Páll Jónsson, sem hafði setið í Ritnefndinni sat áfram í bæjarstjórn; Sveinn Kristinsson, gamall samherji Gunnlaugs Haraldssonar, sat áfram í bæjarstjórn, fyrir Samfylkinguna o.s.fr. Þessi bæjarstjórn réði Gísla S. Einarsson, samfylkingarmann sem hafði skipt yfir í Sjálfstæðisflokkinn, sem bæjarstjóra næstu fjögur árin.

Á sama bæjarstjórnarfundi og samþykkti að ráða nýjan bæjarstjóra, þann 13. júní 2006, var skipað í nefndir, þ.á.m. ritnefnd um sögu Akraness. Jón Gunnlaugsson (D) varð formaður nefndarinnar og er það enn. Hann settist í Ritnefndina snemma árs 2004.  Leó Jóhannesson (S) sat að sjálfsögðu áfram og situr enn. En hinir þrír voru nýir: Bergþór Ólason (D), Magnús Þór Hafsteinsson (F) og Björn Gunnarsson (V). Það varð sem sagt meiriháttar uppstokkun í Ritnefndinni.

Fyrir kosningarnar, þann 8. maí 2006, hafði Magnús Þór Hafsteinsson sent inn stutt bréf á umræðuþráð þann sem fjallað var um síðustu færslu. Bréfið bar yfirskriftina Hér má svara og hljóðar svona: Ég spyr núverandi bæjarstjóra Framsóknarflokksins [Guðmund Pál Jónsson] um gang þessa máls í pistli á www.heimaskagi.is Vonandi verður ekki fátt um svör. Baráttukveðjur, Magnús Þór Hafsteinsson  www.magnusthor.is . Hér vísar Magnús í eigin pistil á Heimaskaga, vefsetri Frjálslynda flokksins, þar sem segir undir lokin: Vonandi geta einhverjir í ritnefnd upplýst um þetta, enda hlýtur málið að vera á ábyrgð hennar. Ég sendi boltann á núverandi bæjarstjóra Framsóknarflokksins sem á sæti í ritnefnd…..   Þegar hann var sjálfur kominn í Ritnefndina vafðist fyrir honum að svara sömu spurningum en ljóst er að hann er mjög hrifinn af því sem ég hef lesið hingað til og telur tvímælalaust að hér sé afar vandað rit á ferð. Og Magnús kemur auga á þá staðreynd að verkið geti ekki orðið mjög dýrmætt heimildarit nema það sé gefið út.2

Gunnlaugur Haraldsson sagnaritari, sem var væntanlega orðinn óþreyjufullur eftir frekari launum, sendi inn greinargerð um söguritunina og ástæður fyrir drætti verksins, dagsetta 4. október 2006.3

Þá er hann þegar búinn að hrífa a.m.k. nýjan einn ritnefndarmann, eins og kemur fram í efnisgreininni hér að ofan. Þessi greinargerð hlýtur að hafa verið vel rökstudd því drifið er í að undirbúa nýjan samning við Gunnlaug og fyrsta skref er auðvitað að kalla Ritnefndina saman.  Nýja Ritnefndin hélt sinn fyrsta fund 9. október 2006. (56. fundur. Sjá töflu yfir fundi Ritnefndar og ritun sögu Akraness á tímabilinu 2005 - nóvember 2006) og fimm dögum síðar héldu þeir Jón Gunnlaugsson, Gísli S. Einarsson bæjarstjóri og Jóhannes K. Sveinsson, lögmaður Akraneskaupstaðar, fund þar sem þeir ræddu samingsgerð um ritun sögu Akraness. Jóhannesi lögmanni var falið að semja drög að samningi við Gunnlaug Haraldsson.4

Rúmum mánuði síðar útskýrði Jóhannes samninginn fyrir Ritnefndinni og Gunnlaugi (57. fundur). Þetta er líklega nýmæli í samningagerð við Gunnlaug, þ.e. að lögfræðingur bæjarins kynni efni hans bæði fyrir Gunnlaugi og ritnefnd.5

Þann 30. nóvember 2006 skrifuðu Gísli S. Einarsson bæjarstjóri og Gunnlaugur Haraldsson undir nýjan samning sem hét SAMNINGUR Saga Akraness og bæjarráð samþykkti samninginn þann 7. desember.6

Í þeim samningi var verkum skipt á tvö ákveðin tímabil. Segja má að þessi samningur hafi seinna verið klofinn af Samkomulagi seint í október 2007 þegar skrúfað hafði verið fyrir peningastreymi til sagnaritara í miðju kafi því engu hafði verið skilað. Um þetta verður fjallað í næstu færslu um sögu Sögu Akraness.
  

1 Guðmundur Jón Hafsteinsson. 26. september 2006. „ undir efniþræðinum Kútter Sigurfari á umræðuþræði Akraneskaupstaðar.
 

2 Magnús Þór Hafsteinsson. 18. september 2006. „Málin eru í farvegi á Heimaskaga, vefsetri Frjálslynda flokksins. Undir lok pistilsins segir:IV. Saga Akraness:

Um þetta mál get ég ekki sagt svo mikið enda hef ég ekki átt neina aðkomu að því á nokkurn hátt. Öll vinna liggur niðri þar sem peningarnir sem setja átti í þetta eru víst búnir. Ég settist í ritnefndina nú eftir kosningar í vor. Þessa dagana er ég að lesa handritið sem nú liggur fyrir frá höfundi til að fá betri yfirsýn yfir þetta mál. Handritið er mjög efnismikið, fyllir þrjár stórar möppur og telur hundruði blaðsíðna. Ég er mjög hrifinn af því sem ég hef lesið hingað til og tel tvímælalaust að hér sé afar vandað rit á ferð. Það þarf að ljúka þessu verkefni og gefa þetta út. Þetta ritverk mun tvímælalaust verða mjög dýrmætt heimildarit og halda nafni höfundar á lofti um ókomna framtíð. En það gerist ekki nema það verði drifið í að ganga frá því, koma því á prent og í útgáfu.“

Pistill Magnúsar voru svör hans við mörgum spurningum sem birtust á umræðuþræði Akraneskaupstaðar undir efnisþræðinum „Kútter Sigurfari. Steingrímur Guðjónsson, sem minnst var á í fyrri færslu, spurði einmitt hvað liði ritun sögu Akraness um leið og Kútter Sigurfara bar á góma og síðan bættust fleiri umræðuefni við. Steingrímur ítrekaði spurningu sína um sögu Akraness oftar en einu sinni á umræðuþræðinum en umræðan fór út um víðan völl og fólk virtist hafa mun meiri áhuga á að ræða annað.
 

3 Þetta kemur fram í „Forsendum næsta samnings við Gunnlaug en sá heitir SAMNINGUR Saga Akraness. Þar segir: Söguritunin hefur dregist eins og rakið er í hinum fyrri samningum og koma þar til ýmis atriði eins og gerð er grein fyrir í greinagerð sagnaritara um málið, dag. þann 4. október 2006. Á þessa greinargerð er hvergi minnist í fundargerðum bæjarráðs, bæjarstjórnar eða ritnefndar um sögu Akraness. Ég hef greinargerðina ekki undir höndum.  

Í fundargerðarbók Ritnefndar um sögu Akraness er þessi fundur bókaður sem 57. fundur nefndarinnar. Fundargerðina er hins vegar ekki að finna á vef Akraneskaupstaðar. Engin þeirra þriggja  fundargerða sem minnst er á í þessari efnigrein var lögð fram fyrir bæjarráð. Fundargerðir 56., 58., 59. og 60. fundar voru lagðar fram í kippu á fundi bæjarstjórnar þann 9. janúar 2007. Það er ekki fyrr undir lok árs 2007 sem farið er að leggja fundirgerðir ritnefndar um sögu Akraness fram í bæjarráði. Þetta hálfgerða sleifarlag á fundargerðum Ritnefndar kann að hafa tíðkast frá fyrstu tíð og hefur líklega gert bæjarstjórnarfulltrúum erfiðara um vik að fylgjast með Ritnefndinni og störfum sagnaritarans.
 

5 Mér er ókunnugt um hvort sérstakur lögmaður Akraneskaupstaðar aðstoðaði við gerð fyrri samnings, viðauka og samkomulags við Gunnlaug.
 

6 Í bæjarráði sátu: Karen Jónsdóttir, formaður bæjarráðs, Gunnar Sigurðsson og Sveinn Kristinsson. Þennan fund sátu einnig Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri, og Jón Pálmi Pálsson, bæjarritari. Á sama fundi bæjarráðs var beiðni Sögufélags Borgarfjarðar um styrk hafnað. Sveinn Kristinsson lagði til að félagið yrði styrkt um 100.000 kr. en tillagan var felld með tveimur atkvæðum hinna bæjarráðsfulltrúanna.
 
 
 
 
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

22. maí 2011

Hvers virði saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig

Í þessari færslu verður sagt frá þriðju samningslotu Akraneskaupstaðar og Gunnlaugs Haraldssonar um ritun sögu Akraness. Í þeirri lotu tókst Gunnlaugi að láta Akraneskaupstað greiða sér óinnunnar árangurstengdar greiðslur, dreift á 13 mánuði, án þess að skila neinu. Titill færslunnar er tilvitnun í bréf Gísla Gíslasonar bæjarstjóra og formanns ritnefndar um sögu Akraness, „Sagan“, á umþræðuþræði Akraneskaupstaðar 1. mars 2005. (Sjá nánari umfjöllun um þessa umræðu neðar í færslunni.)

Saga Sögu Akraness VII
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …

Gamli vitinn á AkranesiÞann 26. ágúst 2004 gerðu Akraneskaupstaður og Hjálmar Gunnlaugur Haraldsson með sér „Samkomulag”. Í fyrstu grein þess samkomulags er vísað í „verkáætlun, sem lögð var fram á fundi ritnefndar um sögu Akraness þann 23. ágúst s.l. “og hún „lögð til grundvallar vinnu við ritun sögu Akraness.“ Þessi verkáætlun var einmitt samin af Gunnlaugi sjálfum (sjá 53. og 54. fundargerð Ritnefndar um sögu Akraness).

Samkomulagið kvað á um að gengið yrði að fullu frá II. bindi (sem hlaut nú að eiga að ná yfir tímabilið 1850-1941 því Ritnefndin breytti tímaskiptingu í síðustu lotu) á tímabilinu ágúst 2004 til janúar 2005; gengið að fullu frá III. bindi (enn gilti samningur um að það dekkaði 1941-2000) og skrifaðir tveir kaflar framan á I. bindi (landnám til 1850) á tímabilinu janúar 2005-september 2005. (1. gr.)

Það ótrúlega í þessu samkomulagi er að með því fellst Akraneskaupstaður á að greiða Gunnlaugi árangurstengdu greiðslurnar sem samið var um í upphafi án þess að árangurinn hafi náðst. Þetta er orðað svona:

„Samkvæmt 4. grein gildandi samnings frá 23. 4. 1997 um ritun sögu Akraness er gert ráð fyrir í 2. tl. að greiða skuli fyrir skil á fullbúnu handriti ákveðnar fjárhæðir. Af þeirri fjárhæð sem greinin kveður á um er ólokið verkþáttum vegna tveggja greiðslna af þremur. Upphafleg samningsfjárhæð var 1,0 mkr. vegna II. bindis og sama fjárhæð vegna III. bindis. Uppreiknuð er fjárhæðin í ágúst 2004 kr. 1.629.461 vegna hvors bindis eða samtals kr. 2.358.922. Samkomulag er um að dreifa umræddum greiðslum á tímabilið frá 1. ágúst 2004 til 30. september 2005 þannig að mánaðarleg greiðsla verður 232.780 og uppfærast [svo] samkvæmt launavísitölu í janúar 2005 með sama hætti og kveðið er á um í gildandi samningi.“ (2. gr.)1

Meta á stöðu verksins í janúar 2005 og maí 2005. „… söguritari skuldbindur sig til að gera það sem í hans valdi stendur til að verklok verði á þeim tíma sem áætlað er.“ (2. gr.) Þetta er merkileg klausa í samningi og væri gaman að vita hvort samsvarandi ákvæði eru almennt í verktakasamningum; Má ætla að byggingarverktaki „skuldbindi sig til að gera það sem í hans valdi stendur“ til að byggja hús fyrir umsaminn tíma og sé síðan fyrirgefið takist honum það ekki? Eða garðsláttufyrirtæki að slá nokkra garða?

„Samkomulag þetta er gert á grundvelli samþykktar ritnefndar um sögu Akraness frá 25. ágúst 2005 og samþykktar bæjarráðs Akraness frá 26. ágúst s.á.“ (2. gr.)2  Hér er meinleg villa í samningnum: Átt er við samþykktir Ritnefndarinnar og bæjarráðs árið 2004! Mér finnst villan benda til þess að sá sem bjó til samkomulagið (Gísli bæjarstjóri?) hafi unnið í flaustri og velti fyrir mér hvort þessi villa ómerki samkomulagið. Altént er ekkert tvínónað við hlutina: Gísli Gíslason bæjarstjóri og formaður Ritnefndar um sögu Akraness og Gunnlaugur Haraldsson skrifa undir samdægurs, þ.e. 26. ágúst 2004.
 

Vinna Gunnlaugs á tímabilinu og starf Ritnefndarinnar

Einungis var haldinn einn fundur í Ritnefnd á þessu tímabili, þann 2. mars 2005 (55. fundur). Í fundargerð kemur fram að Gunnlaugur hefur spjallað við einstaka fundarmenn „um stöðu mála“ en annars sem fram fór í svoleiðis spjalli er ekki getið. Hann nefnir hversu „gríðarlegt verk“ heimildasöfnun fyrir þriðja bindið er enda er hann ekki byrjaður að skrifa það. Gunnlaugur stingur svo upp á því að „hefja undirbúning að forsögunni og 1. bindi og einnig 2. bindi.“

Þetta er illskiljanlegt eftir orðanna hljóðan í fundargerð. En líklega er átt við að reyna skuli að ganga frá 1. og 2. bindi til útgáfu.

Í þessu sambandi má rifja upp að Gunnlaugur hafði fengið greidda árangurstengda greiðslu fyrir 1. bindi árið 2001 enda staðfesti ritnefndin fullnægjandi skil á því þann 19. nóvember 2001. (Sjá lok yfirlitstöflu yfir fundi fyrstu lotu bæjarins og Gunnlaugs.) Á þeim sama fundi læddi Gunnlaugur hugmyndinni um stutt forspjall framan á 1. bindið að Ritnefndinni. Í næstu lotu bæjarins og Gunnlaugs samþykkti Ritnefndin þessa hugmynd um stutta forsögu og átti Gunnlaugur að ljúka henni fyrir 1. ágúst 2004. Það gerði hann ekki. 1. bindið er nákvæmlega jafn óklárað og áður, eftir föst mánaðarlaun í rúma fimm mánuði á samningi til viðbótar (í marsbyrjun 2005).

Ekkert er bókað um að Gunnlaugur hafi skilað nokkrum sköpuðum hlut svo erfitt er að gera sér grein fyrir hvort eitthvað hafi þokast áleiðis í ritun 2. bindis (sem Gunnlaugur átti að skila fullbúnu 1. október 2000, fékk svo frest með Viðaukasamningnum til 1. mars 2003 og er núna, þegar Samkomulagstíminn er tæplega hálfnaður, að hugsa um að fara að vinna að ritun seinni hluta þess.

Verkið var hvorki metið í janúar né maí 2005 eins og átti að gera samkvæmt Samkomulags-samningnum. Nema það mat hafi farið fram fyrir luktum dyrum og hvergi bókaður um það stafkrókur.

Gamli vitinn á AkranesiEn Ritnefndin lætur sig dreyma ljúfa drauma um bækur og fer á sínum eina fundi að ræða „hugmyndir að broti væntanlegrar útgáfu. Ætla má að samtals yrðu fyrstu tvö bindin um 1100 síður í ritmáli og 100 síður með myndefni.“ Kannski má rekja upphafið að draumum Ritnefndar og bæjarstjórnarmanna um glæsilegt flúrað rit í rókókóbúningi til þessa fundar? Ritnefndin taldi, á þessum fundi, að stefna mætti að „að útgáfu 1. og 2. bindis vorið 2006“. Henni varð ekki að ósk sinni.

Ritnefndin samþykkti síðan að vinna að því „að fullbúa handrit að 1. og 2. bindi (þ.e. frá landnámi og 1700-1850 annars vegar og 1850-1941 hins vegar [lok sviga vantar] og búa þau undir prentun m.v. að þau verði gefin út vorið 2006“ en annað verði látið bíða.3

Þennan fund sátu einungis fótboltaáhugamenn/einlægir stuðningsmenn ÍA, því Jósef H. Þorgeirsson var fjarverandi: Gísli Gíslason (formaður nefndarinnar), Guðmundur Páll Jónsson, Jón Gunnlaugsson og Leó Jóhannesson. Einnig mætti sagnaritarinn Gunnlaugur Haraldsson.

Nú tekur við eyða í fundarsetum Ritnefndar um sögu Akraness í rúmt ár. Næsti fundur var ekki haldinn fyrr en 9. október 2006. Nærtækasta skýringin á þessu er að almenningur á Akranesi var farinn að spyrja óþægilegra spurninga og menn veltu fyrir sér hvað dveldi Orminn langa, í sagnaritun. Besta ráðið til að forðast óþægilegar spurningar er að þegja og láta sem ekkert hafi gerst … stundum er gripið til þeirrar líkingar að menn staðhæfi að bleiki fíllinn sé ekki til þótt hann blasi við öllum. Þykir þessi aðferð einkum einkenna aðstandendur alkóhólista og annarra fíkla. Ég get mér þess til að Ritnefnd um sögu Akraness, bæjarstjórn og bæjarráð hafi, á þessu samningslotutímabili, verið búin að taka að sér aðstandendahlutverk þegar sagnaritun bar á góma og tolldu í hlutverkinu næstu árin. Mig grunar að þessi eini fundur, 2. mars 2005, hafi einungis verið haldinn af því óþægileg umræða var komin upp á umræðuvef Akraneskaupstaðar. Ella hefðu menn kosið að grafa málið í þögn.
 
 

Greiðslur Akraneskaupstaðar til Gunnlaugs Haraldssonar í þessari lotu

Ég hef kostnað við ritun Sögu Akraness einungis sundurgreindan eftir árum en ekki eftir samningslotum bæjarins og Gunnlaugs. Af því hann gerði þetta „Samkomulag“ við Akraneskaupstað seint í ágúst 2004 eru greiðslur frá 1. ágúst til áramóta 2004 taldar með „Viðbótarsamningi“, sem gerð var grein fyrir í síðustu færslu.4 En fyrir árið 2005 fékk Gunnlaugur greiddar rúmlega 2 milljónir 376 þúsund krónur, Ritnefndin fékk 38.688 kr. fyrir þennan eina fund og annar kostnaður það ár var um 135.000 kr. Samtals voru þetta rúmlega 2 milljónir 550 þúsund krónur sem á núvirði gera rúmlega 3,9 milljónir. Þótt haft sé í huga að upphæðin fyrir alla þrettán mánuðina er mun hærri telst þetta fremur vel sloppið, miðað við aðrar samningslotur við Gunnlaug. Þessar greiðslur voru skv. „Samkomulaginu“ þær árangurstengdu greiðslur sem Gunnlaugur hafði auðvitað ekki fengið því árangurinn var enginn. Líklega töldu menn að akkúrat núna myndi hann standa við sitt og sýna árangur. Svo varð ekki og ég get ekki séð að neinn afrakstur hafi orðið af þessu „Samkomulagi“, þ.e.a.s. ég get ekki séð að Gunnlaugur hafi skilað neinu.
 
 

Kurr í bæjarbúum

Steingrímur Guðjónsson vakti máls á ritun sögu Akraness á umræðuþræði bæjarvefjarins þann 23. febrúar 2005. Hann skrifaði m.a.:

„En mig langar að skrifa um menningu, Árið 1992 átti Akraneskaupstaður 50 ára afmæli og kom þá út fyrsta bindi í sögu Akranes sem Jón Böðvarsson ritaði, verulega velskrifað og framm sett, en eittvað fór í kergju og var Jón látinn víkja og annar söguritari ráðinn í hans stað.
.Í öll þessi ár, síðan að Akraneskaupstaður átti 50 ára afmælið hefur ritnefnd verið starfandi (varla launalaust) og nýr söguritari ráðinn til að taka við af Jóni…en eftir 13 ár…JÁ 13 ár sér ekki enn til annaðs bindis af sögu Akraness.
Hefði ekki verið nær að halda samninginn við Jón?
Sem íbúi bæjarins hlýt ég að spyrja hvað nefndin og söguritari hafa þegið í launa síðan 1992?
Og hvenær er von á 2 bindi af Sögu Akraness?
Hefði ekki verið ástæða til að það kæmi út 2002, tíu árum seinna en fyrsta bindið,á 60 ára afmæli kaupstaðarins, enn er ekki komið að nútímasögu í þessum bindum, eða hvað?“
 

Gísli Gíslason bæjarstjóri og formaður Ritnefndarinnar svaraði að bragði (um hádegi þann 23. febrúar 2005):

„Varðandi sögu Akraness þá hefur Gunnlaugur Haraldsson verið að vinna við það um nokkurt skeið eins og flestir þekkja. Hann hefur þegar lagt fram talsvert efni - en safnað þeim mun meira af ómetanlegum gögnum og heimildum sem hann nýtir við verkið. heimildavinnan hefur tekið mun meiri tíma en áætlað var, en af þeim texta sem Gunnlaugur hefur skilað til ritnefndarinnar þá er ljóst að vönduð heimildavinna mun skila sér í frábæru efni þegar þar að kemur. Ekki ætla ég að fara að rifja hér upp ritferil Jóns Böðvarssonar - en til að fyrirbyggja misskilning þá óskaði hann eftir lausn frá samningi sínum og því var það ekki á hendi bæjarins að halda við þann samning. Þá er að geta þess að Gunnlaugur þiggur laun samkvæmt þeim samningi sem gerður var við hann og með þeim breytingum sem á honum hafa verið gerðar - en ritnefndin sem skipuð er (undirritaður þar undanskilinn) fær nefndarlaun í samræmi við fjölda funda - en þar er um óverlulegar fjárhæðir að ræða. Vonir standa til að á þessu ári verði ákveðnum áföngum í verkefninu lokið þannig að unnt verði að koma þeim hluta í umbrot og vonandi prentun í framhaldi af því - en að svo stöddu er ekki hægt að segja meira um það að sinni.“

Ég vek athygli á því að Gísli, sem er búinn að eiga viðskipti við Gunnlaug Haraldsson síðan 1997, virðist annað hvort trúa því í alvöru eða telja sér trú um að vinna Gunnlaugs sé einkum fólgin í vandaðri heimildavinnu sem „mun skila sér í frábæru efni þegar þar að kemur“. Gunnlaugur er búinn að vera á fullum launum í hartnær sjö ár þegar Gísli skrifar bréfið og hafði skilað einu bindi sem honum tókst svo að sannfæra Ritnefndina um að þyrfti að skrifa „forsögu“ framan við svo það bindi var ekki einu sinni tilbúið. Bærinn er langt kominn með að greiða Gunnlaugi allar árangurstengdu greiðslurnar, þ.e.a.s. eina greiðslu fyrir 1. bindi sem Ritnefndin mat árið 2001 að væri fullbúið (en snérist svo hugur með aðstoð sagnaritarans) og hinum tveimur bónusunum var dreift á árin 2004 og 2005, þótt engu væri skilað. Af fundargerðum Ritnefndarinnar að dæma virðist Gísli segja ósatt um starfslok Jóns Böðvarssonar, eins og ég hef rakið í fyrri færslum. Gísla Gíslasyni kunna að þykja sporslur fyrir fundarsetur vera óverulegar en sé haft í huga að Ritnefndin hafði haldið 25 fundi meðan á „samvinnu“ hennar og Gunnlaugs hafði staðið og alla jafna fengu fjórir nefndarmenn greitt fyrir hvern fund þá held ég að venjulegir Skagamenn hefðu ekki fallist að í kostnaði bæjarins af fundarsetum væri um óverulegar fjárhæðir að ræða.5
 

Næstur tekur til máls annar íbúi Skagans, Hringur Sigurðsson, bendir á að Gísli svari alls ekki spurningum Steingríms og hefur reyndar bréf sitt á að benda á einkennilegt tímaskyn bæjarstjórans:

„Tímaskyn bæjarstjóra er með eindæmum sérkennilegt. Þannig fjallar hann um 13 ára ritstíflu Gunnlaugs sem “nokkurt skeið”. Ekki áralangt eða “alllangt skeið”! Í eðlilegu tímamæli og talmáli íslendinga teljast 13 ár vægast sagt langur tími.“ [Þarna ruglast bréfritari eitthvað því Gunnlaugur hafði fengið greitt fyrir verkið í 7 ár, þar á undan hafði Jón Böðvarsson unnið í 9 og hálft ár, fengið greitt í 4 og hálft ár.]
 

Gísli bæjarstjóri svarar í dæmigerðum aðstandendaklisjum, þ.e. efnislega: a) Þetta er ekki satt; b) Auk þess er þetta ekkert skárra hjá öðrum; c) Auk þess er alveg hægt að afsaka þetta. Það er pínlegt að sjá hve hann, formaður Ritnefndarinnar, er óklár á samningstímabilum í þeim samningum við Gunnlaug Haraldsson sem hann hafði sjálfur skrifað undir, sem bæjarstjóri.6
 

Það myndi æra óstöðugan að rekja efni bréfs sjálfs sagnaritarans, Gunnlaugs Haraldssonar, „Meint ritstífla brestur“, sent inn á þennan umræðuþráð  25. febrúar 2005 kl. 00:54, líklega einkum til að svara Hringi Sigurðssyni sem hafði lagt orð í belg, kannski Steingrími Guðjónssyni líka. Ég hvet lesendur þessarar færslu eindregið til að lesa allt bréfið Gunnlaugs, það segir manni margt um viðhorf hans til eigin verka og viðhorf hans til alþýðu manna, þ.e.a.s. til þorra íbúa Akraness. Ég á sjálfsagt eftir að vitna oftar en einu sinni í þetta bréf þótt ég endursegi það ekki núna. Hér læt ég duga að geta aðeins þess sem hann segir um laun sín og kjör því menn gætu misskilið það:

„1) Ég hef unnið að þessum ritstörfum sem verktaki og voru mánaðarlegar greiðslur til mín við upphaf verks miðaðar við föst laun framhaldsskólakennara að viðbættri ákveðinni prósentu til að mæta svonefndum launatengdum gjöldum. Tiltekinn hluti greiðslna eða heildarfjárhæðar (20%) var hins vegar “afkastatengdur” eða skilyrtur afhendingu handrita, - trúlega í því augnamiði að koma í veg fyrir að ég fylltist “ritstíflu” á meðgöngutímanum! Ýmislegt hefur skekkt þessi viðmið á langri vegferð, en nú um stundir nemur mánaðarleg heildarfjárhæð til mín 232.780 kr. og lýkur í september n.k. Alla starfsaðstöðu með tilheyrandi kostnaði hef ég lagt mér til sjálfur að því undanskildu, að fyrir hverja ferð til Reykjavíkur til vinnu á Þjóðskjalasafni/Þjóðarbókhlöðu fékk ég í fyrstu endurgreitt fargjald með Akraborg skv. afláttarprísum sem þá giltu. Eftir daga þess góða og sártsaknaða farkosts og fara þurfti landleiðina á milli hef ég fengið greiddan akstursstyrk sem nemur 84 km (42 km hvora leið) og endurgreitt veggjald í göngin vegna slíkra ferða.“7

Frá upphafi og lengst af þáði Gunnlaugur ágæt mánaðarlaun framhaldsskólakennara með talsverða yfirvinnu + aukasporslu til að vega upp launatengd gjöld. (Sjá 8. neðanmálsgrein við færsluna Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma.) Afkastatengdu greiðslurnar komu ekki í veg fyrir að hann „fylltist “ritstíflu” á meðgöngutímanum“ því hann fékk einungis einu sinni greitt fyrir afköst, þá raunar tveimur árum eftir að hann átti að skila því bindi (sjá sömu færslu og fyrr var vísað til). Hinar tvær afkastatengdu greiðslurnar stóðu einmitt undir þeim launum sem hann var á þegar hann skrifaði bréfið. Þeim var dreift á 13 mánuði, eins og kemur fram í upphafi þessarar færslu. Afköstin, þ.e. afhending handrita, urðu samt engin.
 

Gamli vitinn á AkranesiSkagamaðurinn Hringur, sem Gunnlaugur svaraði í sínu langa bréfi (það er yfir átta síður útprentað en reyndar er lunginn úr því afrit af einni af mörgum áætlunum eða efnisskipan Gunnlaugs), þakkar strax pent fyrir í bréfinu „gleðilegt“ 22. febrúar 2005: „Það er að sönnu gleðilegt að sá sem málið varðar skuli sjá sér fært að hverfa frá önnum sínum við sagnaritun til þess að svara almúganum hér á akranes.is.  Og það gerir hann vel og skilmerkilega, enda atvinnumaður í skriftum. Hefur a.m.k. verið á kaupi við skriftirnar lengi. Það er og líka ágætt að hann stígur nú niður til pöpulsins eftir að hafa þegið milljónir úr vösum Skagamanna fyrir verkið.“

Hringur benti síðan á augljósar rökvillur í málatilbúnaði Gunnlaugs, sem hann kallar „nauðvörn“:

„Er mér alþýðumanninum stætt á öðru en að segja: Þér var nær! Þú réðst því sjálfur hvort þú skrifaðir undir!

Og svo byrjar Gunnlaugur að telja upp rökin fyrir töfinni. Hann hefur vörn sína á eftirfarandi orðum:

“Heimildaöflun og úrvinnsla þeirra hefur reynst langtum tafsamari og tímafrekari en mig óraði nokkru sinni fyrir, og hafði þó talsverða reynslu að byggja á í þessum efnum…”

En hann óraði fyrir já. Flott. Og er það þá ekki við hann að sakast? Eiga bæjarbúar að greiða fyrir hans eigið vanmat?

Þegar verktaki í byggingariðnaði tekur að sér verk og skilar því ekki á tilsettum tíma koma til dagsektir. Vegna hans eigin vanmats á aðstæðum eða ófyrirséðrar seinkunar. En Gunnlaugur, hvað gerir hann? Fer bara fram á áframhaldandi framfærslu og laun, þrátt fyrir samning um annað!!!

Kostulegt.“
 

Þann 1. mars 2005 skrifaði Steingrímur Guðjónsson aftur á umræðuþráðinn, „Sagan endalausa sem ekki er gefin út“, og sagði:

„Þakka svör frá Gísla bæjarstjóra og söguritara Gunnlaugi Haraldssyni, samkvæmt svörum á að gefa fyrsta bindi út aftur, bók Jóns Böðvarssonar ekki nógu góð, en kostaði um rúmar 9 milljónir miðað við að vera reiknuð út á vísitölu núverðis, en með öllum kostnaði s,s prentun umbrot ofl. og hún var gefin út 1992.
En miðað við að kíkja í ársskýrslur bæjarins á þessum tíma er búið að eyða rúmlega 30 milljónum í skrif Gunnlaugs Haraldssonar og eitt hadrit liggur fyrir að fyrsta bindi (aftur)án prentunarkostnaðar og öllu sem því fylgir, ,s,s fyrsta bók Jóns og fyrsta handrit Gunnlaugs á sömu sögu tæplega 40 milljónir , plús útgáfukostnaður og 2 bindi eftir enn, hljótum við bæjarbúar ekki að fara að krefjast svara frá ritnefnd?“

Svo rakti Steingrímur  tölulegar upplýsingar sem hann hafði tekið saman úr Ársskýrslum Akraness og endaði bréf sitt:

„Með útgáfukostnaði nálgumst við 50 milliónir á endurútgáfu á fyrsta bindi Sögu Akraness,, hvað er ritnefnd að hugsa?? Búið að endurrita bindi 1, en ekki gefið út.
Er þetta að verða hugsjón, hvað þarf hver bók að kosta til að standa undir sér og hversu margir kaupa?
Gaman væri að einhver úr ritnefnd svaraði.“
 

Gísli Gíslason svaraði Steingrími samdægurs, í bréfinu „Sagan“:

„Á stundum flýtur á spjallinu ýmislegt sem þörf er á að leiðrétta því eins og gengur betra að hafa það sem sannara reynist þannig að vitleysan fljóti ekki mann frá manni eins og stundum vill gerast. Undirritaður hefur aldrei sagt eitt eða annað um gæði þess ritverks sem Jón Böðvarsson gaf út, en annað má ætla af orðum Steingríms Guðjónssonar. Í öðru lagi stóð ekki til að gefa út efni frá Gunnlaugi fyrr en heildarmynd er komin á verkið. Varðandi kostnað við verkið frá upphafi er það ekki ritnefndarinnar að svara um efni þeirra samninga sem bæjarstjórn hefur gert, en samningruinn við Jón Böðvarsson var gerður árið 1987 og við Gunnlaug Haraldsson árið 1997. Um fjárhæðir samningsins fer Steingrímur nærri enda hefur því efni verið svarað áður. Hvers virði saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig.“
 

Steingrímur var væntanlega að vísa til orða Gunnlaugs þegar hann nefndi að bók Jóns Böðvarssonar væri ekki nógu góð. (Gunnlaugur sagði m.a. í „Meint ritstífla brestur“: „Í öðru lagi þótti mér að í bók Jóns hefði verið skautað býsna glannalega yfir fjölmarga þætti sögunnar, að því marki sem ég taldi mig þá þekkja til hennar, - einkum á 18. og 19. öld, - heimildanotkun og efnistök einnig gjörólík því sem ég myndi sjálfur kjósa“ og „… því sérhvert tilvik ræðst miklu fremur af aðgengi og tilurð heimilda svo og þeim kröfum sem gerðar eru um úrvinnslu þeirra. Það er hægur vandi að rumpa saman bókartötri á skömmum tíma með því einu að sanka saman gagnrýnislaust samtíningi úr áður útgefnum ritum eins og ýmsir hafa látið sér sæma og mörg eru “einnota” dæmin um í árlegu jólabókaflóði. Ég legg ekki nafn mitt við slíka iðju.“ Það þarf ekkert ofboðslegt hugmyndaflug til að lesa út úr þessu að bók Jóns hafi ekki verið nógu vandlega unnin að mati Gunnlaugs.) Gísli hefur líklega hvergi beinlínis tjáð sig um bók Jóns Böðvarssonar en auðvelt er að ráða í hug Gísla til Jóns og hans sagnaritunar, af fundargerðum og fleiru, sem ég hafi áður rakið.

Útúrsnúningar Gísla eru með ólíkindum: Hann getur ekki svarað um kostnaðinn af því hann er formaður ritnefndar og ritnefnd hefur ekkert með peningana að gera; Það er bæjarstjórnin sem á að svara og skiptir þá ekki máli að Gísli er sjálfur bæjarstjóri, situr bæjarráðs- og bæjarstjórnarfundi og skrifaði undir alla samningana við Gunnlaug, sem bæjarstjóri! Auk þess ítrekar hann að hann hafi svarað þessu áður (í bréfi sem mér hefur ekki tekist að finna á spjallþræðinum en yrði þakklát ef einhver gæti bent mér á hvar það er finna). Miðað við það sem Gísli sagði um samningstímabil í fyrra bréfi sínu trúi ég því samt vel að hann hafi haft takmarkaða hugmynd um hve miklu var búið að eyða í verkið.

Þann 20. apríl 2005 skrifaði Snorri Ö.K. bréf í hálfkæringi sem ég hirði ekki um að rekja og ári síðar (í maí 2006) sendi Magnús Þór Hafsteinsson skilaboð inn á þráðinn en um hans þátt verður fjallað síðar.

Um miðjan desember 2006 skrifaði Ásgeir Helgi Reykfjörð Gylfason bréfið „65.000.000 ISK fyrir sögu Akranes“, sem hefði getað orðið upphaf nýs umræðuþráðar. Bréfið er þannig: „Maður les það í fjölmiðlum að á endanum komi saga Akranes til með að kosta 65.000.000 krónur. Maður spyr, af hverju?“

Ásgeiri var ekki svarað.
 
 
  1 Í ágúst 2004 voru meðaldagvinnulaun framhaldsskólakennara 239.959 kr. (Sjá Fréttarit KOS nr. 32, s. 36.) Gunnlaugur var með aðeins lægri laun en það. Dagvinnulaun framhaldsskólakennara hækkuðu svo um 19 þúsund í febrúar 2005 en ég veit ekki hvort Gunnlaugur naut góðs af því, a.m.k. heldur hann því fram bréfi á umræðuþræði Akraneskaupstaðar, sem hann skrifaði seint í febrúar 2005, að hann sé enn með 232.780 kr. í mánaðarlaun.
 2  Bæjarráð, fundur nr. 2820, 26.8.2004. „1.1. Fundargerð ritnefndar um sögu Akraness frá 23.8.2004 og 25.8. 2004.
Bæjarráð samþykkir tillögu nefndarinnar og felur bæjarstjóra að afgreiða málið í samræmi við tillöguna.“ Á næsta fundi bæjarstjórnar, fundi nr. 980, 14.9. 2004, var fundargerð bæjarráðs lögð fram og þessi liður samþykktur. Bókað var að Þórður Þ. Þórðarson (sem sat í bæjarstjórn fyrir Sjálfstæðisflokkinn) og Gísli bæjarstjóri hefðu tekið til máls um 1. tl. sögu Akraness, en ekki er rakið hvað þeir sögðu.
 

Fyrrnefndan fund bæjarráðs sátu formaður bæjarráðs Guðmundur Páll Jónsson (framsóknarmaður sem einnig sat í ritnefnd um sögu Akraness), Gunnar Sigurðsson (fyrir Sjálfstæðiflokkinn) og Kristján Sveinsson (varamaður Sveins Kristinssonar, samfylkingarmanns). Bæjarstjórinn Gísli Gíslason (formaður ritnefndar um sögu Akraness) sat einnig fundinn.

Þótt viðstaddir bæjarráðsmenn hafi hver verið úr sínum flokknum áttu þeir það sameiginlegt að vera einlægir unnendur íþrótta, einkum knattspyrnu. Menn skyldu ekki vanmeta svoleiðis tengsl hér á Skaganum, til er dæmi um að hollusta við meistaraflokk ÍA hafi spillt sifjaböndum. Árið 2006 hlaut Gunnar Sigurðsson, sem lengi var formaður Knattspyrnufélags ÍA, æðstu viðurkenningu ÍA, heiðursfélagatitil. Við sömu athöfn hlaut Gísli Gíslason heiðurssilfurmerki ÍA, ásamt Guðmundi Páli Jónssyni. Gísli og Guðmundur Páll höfðu áður hlotið bandalagsmerki ÍA, árið 1996 og Gísli er núverandi formaður aðalstjórnar Knattspyrnufélags ÍA. (Raunar hugsa ég að Guðmundur Páll hafi frekar beitt sér í stuðningi við aðrar íþróttagreinar en fótbolta, innan ÍA en sjálfur sagði hann árið 1999 að aðaláhugamál hans væru „fótbolti og sund“.) Kristján Sveinsson fékk gullmerki knattspyrnufélags ÍA árið 2009.

Sveinn Kristinsson, fjarverandi aðalmaður á þessum bæjarráðsfundi, hefur mér vitanlega ekki verið orðaður við tuðruspark en hann var hins vegar gamall samherji Gunnlaugs Haraldssonar, hugsanlega vinur hans, sjá færsluna Framtakssemi og frumskógarlögmál. Þótt Gunnlaugur hafi eftir að Alþýðubandalagið lagði upp laupana um tíma helgað krafta sína vinstri-grænum (hann sat í stjórn Vinstrihreyfingarinnar-græns framboðs á Vesturlandi 1999-2000, sjá æviágrip hans sem fyrrnefnd færsla tengir í) en Sveinn hinsvegar starfað innan vébanda Akraneslistans og síðar Samfylkingarinnar, virðist ekki hafa borið skugga á vinskap þeirra Sveins. Má til þessu til marks taka að Sveinn líkti  Gunnlaugi við Snorra Sturluson og jafnaði sagnaritun hans að nokkru við byggingu Kölnardómkirkju og Versala fyrir örfáum dögum, sjá „Fjölmenni á útgáfuhátíð vegna Sögu Akraness“ á vef Skessuhornsins 20. maí 2011. (Ég hef ekki enn fengið afrit af ræðu Sveins og byggi því samlíkingu hans við Snorra Sturluson á munnlegri heimild nokkurra viðstaddra. Og kannski ætti einhver að benda Sveini Kristinssyni á að alþýða manna var ekki mjög hress yfir byggingu Versala, á sínum tíma, og afhöfðaði húsráðendur í þeirri höll þegar hún var búin að fá nóg af fjáramálaruglinu.)
 

3 Orðrétt er þetta svona í fundargerð:

„Varðandi framgang málsins m.v. framangreinda hugmynd söguritara þá mætti stefna að útgáfu 1. og 2. bindis vorið 2006.
 Með vísan til framangreinds samþykkir ritnefndin eftirfarandi:
1.  Þrátt fyrir að heimildaöflun við þriðja bindi sé orðin allnokkur er talsvert enn eftir.  Rétt er að fresta þeim verkþætti meðan öðrum verkefnum er lokið.
2.  Unnið verði að fullbúa handrit að 1. og 2. bindi (þ.e. frá landnámi til 1850 annars vegar og 1850-1941 hins vegar og búa þau undir prentun m.v. að þau verði gefin út vorið 2006.
3.  Frekari heimildaöflun og ritun 3. bindis bíði ákvörðunar næsta haust.“
 

4 Kostnaður við verkið árið 2004 skiptist þannig: Laun fyrir fundarsetur Ritnefndarmanna: 75.869; Annar kostnaður: 1.495 og greiðslur til Gunnlaugs Haraldssonar: 3.569.187 kr. Samtals eru þetta rúmlega 3 milljónir 646 þúsund sem á núvirði gera rétt rúmlega 5,8 milljónir. Langstærstur hluti upphæðarinnar rann í vasa Gunnlaugs eins og glöggt má sjá. Einhver hluti hennar hefur væntanlega verið endurgreiddur kostnaður vegna ljósritunar, myndatöku á Þjóðskjalasafni og ferða.
 

5 Núna greiðir Akraneskaupstaður almennum nefndarmönnum 9.269 kr. fyrir hvern fund sem þeir sitja. Greiðslur hafa verið með svipuðum hætti gegnum tíðina og geta áhugasamir margfaldað með þessari tölu ef þá lystir. Ofan á þessa nefndarlaun bætast núna 17,35% launatengd gjöld sem bærinn greiðir. Ritnefnd um sögu Akraness hélt 29 fundi meðan hún „starfaði með“ Jóni Böðvarssyni og var, þegar hér var komið sögu, búin að halda 54 fundi alls. Sinn 55. fund hélt hún rúmri viku eftir að þessi umræða kviknaði á vef Akraneskaupstaðar.

6 „Ekki kannast ég við það tímatal sem Hringur setur fram í spjalli sínu, en hitt er rétt vafalaust að ritun sagnfræðiegra rita tekur oft langan tíma. Má í því efni horfa til sagnaritunar ýmissa sveitarfélaga. Hvað Akranes varðar þá hefur verk Gunnlaugs dregist og fyrir því eru að sjálfsögðu skýringar af hálfu sagnaritara, sem fjallað hefur verið um í ritnefnd, bæjarráði og bæjarstjórn. Upphaflegur samningur við Gunnlaug var gerður 26. ágúst 1997. Honum átti að ljúka í september árið 2001. Sá samningur var framlengdur til 1. mars 2004, en því miður tókst ekki að ljúka því verki og því var samningnum að nýju breytt til september 2005. Gunnlaugur hafði því upphaflega fjögur ár til verksins. Framlenging samningsins er því 4 ár. Fyrir liggur eitt bindi verksins og hluti annars bindis en á bak við það og fleira liggur gríðarleg gagnaöflun. Ég hef áður svarað beiðnum hér á spjallinu um kostnað af verkinu - en sjálfsagt að taka það að nýju saman. Það hljóta allir að vera sammála um að best sé að skila vönduðu verki í takt við það sem Gunnlaugur er að gera enda mun sú saga standa um ókomin ár. Ritnefndin er jafn óþolinmóð og aðrir sem vilja sjá verkið í heild.
Gísli Gíslason, bæjarstjóri.“

Bæjarstjórinn og formaður ritnefndar fer þarna víða með rangt mál. Skrifað var undir fyrsta samningin við Gunnlaug þann 23. apríl 1997 og í honum sagði:  „Verkið hefst þann 1. apríl 1997 og skal lokið eigi síðar en 30. september 2001.“ (3. gr.) Næsti samningur við Gunnlaug („Viðaukasamningurinn“) var gerður 24. janúar 2002 og lauk 31. júlí 2004. Þriðji samningurinn („Samkomulagið“) var gerður 26. ágúst 2004 og átti að ljúka verkinu 30. september 2005. Gunnlaugur hafði því í upphafi tæp fjögur og hálft ár til verksins. Ekkert hefur verið bókað um óþolinmæði Ritnefndarinnar frá því Gunnlaugur tók við verkinu en nokkrar slíkar færslur mátti finna í fundargerðum meðan Jón Böðvarsson vann að sagnaritun, auk opinberrar yfirlýsingar sem Ritnefndin sendi frá sér á því tímabili.

Mér hefur ekki tekist að finna eldri greinargerð Gísla Gíslasonar um kostnað af verkinu á spjallþráðum Akraneskaupstaðar, þessa sem hann vísar í.

7 Akstursstyrkur er yfirleitt miðaður við akstursgjald ríkisstarfsmanna (ákvarðað af Ferðakostnaðarnefnd Fjármálaráðuneytisins) sem er nú 104 kr. á kílómetra.
 
 
 
 

Ummæli (6) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

20. maí 2011

Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …

Í þessari færslu er rakin næsta lota í viðskiptum Akraneskaupstaðar og Gunnlaugs Haraldssonar um sagnaritun. Sú lota stóð í tvö og hálft ár. Afraksturinn var afar lítill en greiðslurnar háar. Titillinn vísar í bókanir í fundargerðum, sjá t.d. töflu yfir aðalatriði funda.

Saga Sögu Akraness VI
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
 
 
 
 

Fyrsti viðaukasamningurinn

Þann 24. janúar 2002 undirrituðu Gísli Gíslason, bæjarstjóri, f.h. Akraneskaupstaðar, og Gunnlaugur Haraldsson „Viðaukasamning um ritun sögu Akraness“. Í formála Viðaukasamningins segir að bæjarstjórn Akraness hafi samþykkt á fundi sínum 11. desember 2001 að „ganga til viðræðna við hann um framlengingu verksins.“ Engin slík samþykkt er bókuð á þessum fundi bæjarstjórnar (929. fundi), einungis að fundargerð ritnefndar hafi verið lögð fram.1 Aftur á móti samþykkti bæjarráð þennan viðaukasamning Akraneskaupstaðar og Hjálmars Gunnlaugs Haraldssonar um ritun sögu Akraness á fundi 20. desember 2001 (2687. fundi).2 Annað hvort er fundargerð bæjarstjórnar eitthvað einkennilega/ónákvæmt rituð eða þessi inngangsklausa í samningnum er röng.
 
 

Kýr undir AkrafjalliÍ fyrstu grein kemur fram að þetta er „viðauki við upphaflega samninginn. Ákvæði samningsins frá 23. apríl 1997 halda gildi sínu eftir því sem við á.“ Aðallega er samið um aðra skiladaga og meiri laun til Gunnlaugs. Nú skrifar Gunnlaugur undir að II. bindi verði fullsamið og búið til prentunar eigi síðar en 1. mars 2003 og III. bindi eigi síðar en 1. maí 2004. Samið er um sams konar greiðslur, þ.e. rífleg mánaðarlaun framhaldsskólakennara með álagi vegna launatengdra gjalda og veglegan bónus þegar hvoru handriti er skilað (uppreiknaðri einni milljón á verðgildi 1997). (2. gr.)

Loks er samið um að Gunnlaugur fái þriggja mánaða laun að þessu loknu til að „fullsemja“ og ganga frá sögu tímabilsins frá landnámi til 1700 og „fella inn í verkið“. (3.gr.) Þetta er einmitt uppástunga Gunnlaugs sjálfs, sjá síðustu færslu, og átti þessi bútur að lenda framan við fyrsta bindið sem ritnefndin hafði samþykkt að væri fullunnið. Gunnlaugi voru þar með tryggðar fastar mánaðargreiðslur í tvö og hálft ár í viðbót, til áframhaldandi ritunar sögu Akraness.

Með þessum samningi tryggði Gunnlaugur sér föst mánaðarlaun líklega frá 1. janúar 2001 til 31. júlí 2004.
 
 
 

Vinna Gunnlaugs og Ritnefnd um sögu Akraness

Vinnubrögð sagnaritans Gunnlaugs eru mjög of hið sama far og meðan hann starfaði eftir fyrsta samningnum. Sjá töflu yfir aðalatriði fundargerða 2002-2004, skv. þessum samningi.

Í mars 2002 skilaði hann inn 21. kafla sem hafði vantað í 1. bindið, alls 47 blaðsíðum. Það er merkilegt í ljósi þess að Ritnefnd um sögu Akraness [hér eftir nefnd Ritnefndin] hafði staðfest fullnægjandi skil á þessu 1. bindi  meir en þremur mánuðum áður og Gunnlaugur hafði fengið greidda áfangagreiðslu fyrir einmitt þetta bindi í árslok 2001. Skýringin er væntanlega sú að Ritnefndin hafði alls ekki lesið yfir 1. bindið og hóf yfirferð yfir það seint á árinu 2002, treindi sér svo verkið vel fram yfir áramótin 2003.

Annars skilar hann fullt af áætlunum, sem eru kallaðar „drög að efnisyfirliti“; „vinnuplan að efnisskipan“; „endurskoðuð efnisskipan“; „yfirlit um verkstöðu“ og „minnisblað og verkáætlun“. Hið síðastnefnda lagði hann fram þegar ljóst var að hann gæti ekki staðið við þennan viðaukasamning og vildi semja um lengri tíma og meiri laun, við Akraneskaupstað.

Efni sem Gunnlaugur skilaði á þessum samningstíma var, eins og áður sagði, kaflinn sem vantaði í 1. bindi, 250 síður af 2. bindi (í júní 2003 en það bindi átti að vera tilbúið í maí sama ár) og loks 167 síður af 2. bindi (í febrúar 2004).

Gunnlaugur hélt nefndinni vel upplýstri um allt sem hann var að vinna að, hversu mörgum blaðsíðum af heimildum hann hefði safnað og hvað hann hefði hugsað sér að gera næst. Nefndin virðist hafa fallist á þetta án þess að sjá neinn afrakstur en mikið af áætlunum.

Breytingar á Ritnefndinni voru nokkrar á þessum tíma. Eftir bæjarstjórnarkosningar 2002 fer samfylkingarmaðurinn Hrönn Ríkarðsdóttir út og inn kemur sjálfstæðismaðurinn Sigurður Sverrisson. Sæti hans tekur svo sjálfstæðismaðurinn Jón Gunnlaugsson snemma árs 2004. Þótt vægi Samfylkingarinnar minnkaði í Ritnefndinni og vægi hinnar nátengdu fjölskyldublokkar Gísla, Hrannar og Leós, virtist það ekki skipta neinu sérstöku máli. Ég veit lítil deili á Sigurði Sverrissyni nema hann virðist hafa verið áhugamaður um íþróttir, jafnvel fleiri en knattspyrnu. Jón Gunnlaugsson, sem hefur setið í Ritnefndinni síðan 2004 og er núverandi formaður hennar, hefur unnið fyrir VÍS til fjölda ára. Hann hafði skrifað rit um ÍA í samvinnu við Sigurð Sverrisson og annan mann þegar hér var komið sögu. Það rit kom út í tveimur bindum árin 1984-1986 og heitir Skagamenn skoruðu mörkin. Saga knattspyrnunnar á Akranesi (útg. Hörpuútgáfan á Akranesi). Það má sjálfsagt deila um hversu mikið svona rit telur í reynslu í sagnfræðiritun og ég veit ekki hvort Jón Gunnlaugsson hefur nokkra formlega menntun í sagnfræði.

Allt frá 1987 til 2002 var Ritnefndin annars vegar skipuð fjölskyldublokkinni Gísla, Leó og Hrönn og hins vegar tveimur eldri mönnum, jafnvel öldungum. Þegar öldungarnir dóu voru skipaðir aðrir öldungar í staðinn, yfirleitt virtir menn í bæjarfélaginu og taldir búa yfir góðri þekkingu á sinni tíð og jafnvel eitthvað aftur í tímann. Má rekja þetta þannig: Halldór Jörgensson sat í fyrstu ritnefndinni tæpt hálft ár, þegar hann dó tók Ólafur J. Þórðarson sæti hans. Valdimar Indriðason sat í fyrstu ritnefndinni, þegar hann dó tók Jósef H. Þorgeirsson sæti hans. En nú víkur svo við að þegar Ólafur J. Þórðarson dó, árið 2004, var ekki skipaður öldungur í hans stað heldur framsóknarmaður litlu eldri en hinir nefndarmennirnir, Guðmundur Páll Jónsson. Hann var umsvifamikill í pólitík, fyrir Framsóknarflokkinn, og varð seinna um tíma bæjarstjóri hér í bæ. Guðmundur Páll átti það einmitt sameiginlegt með Jóni Gunnlaugssyni að hafa brennandi áhuga á íþróttum og vera fæddur og uppalinn á Skaganum. Aftur á móti er hann líklega ekkert menntaður í sagnfræði, hefur samvinnuskólapróf frá Bifröst.

Svoleiðis að Ritnefndin breyttist úr fjölskylduhópi með minnihluta vísra öldunga í nefnd þar sem flestir áttu það sameiginlegt að hafa mikinn áhuga á íþróttum, ekki hvað síst fótbolta. Þeir Gísli Gíslason og Leó Jóhannesson voru báðir liðtækir íþróttamenn á sínum tíma og afkomendur þeirra og skyldmenni hafa gert það einkar gott í fótboltanum. Leikni í knattspyrnu hefur löngum þótt góð ávísun á frama hér á Skaganum en er kannski ekki sérlega vænleg til að meta gæði sagnaritunar.

Gunnlaugi Haraldssyni tókst áfram jafn vel að heilla nefndarmenn upp úr skónum, sama úr hvaða flokki þeir komu, þótt sjálfur hafi hann ekki verið orðaður við knattspyrnuiðkun mér vitanlega. Hann virðist hafa ómælda persónutöfra þegar kemur að því að selja vinnu sína og þótt hann skilaði litlu sem engu virtist Ritnefndin trúa því að hann væri í alvöru á kafi í vinnu í sagnaritun fyrir Akranesbæ. Ritnefndin lék hlutverk peðanna sem valda sinn hrók. Því studdi Ritnefndin Gunnlaug í lok samningstímans að gera nýjan samning svo hann gæti verið áfram á launum frá Akraneskaupstað.
 
 

Kostnaður af þessari samningslotu Akraneskaupstaðar við Gunnlaug

Hross undir AkrafjalliLaun Ritnefndarinnar (nefndarmenn fengu greidda hverja fundarsetu nema Gísli Gíslason, bæjarstjóri og formaður nefndarinnar) voru fyrir árin 2001-2004 tæplega 211 þúsund kr. Laun Gunnlaugs og endurgreiddur kostnaður við efnisöflun og ferðir voru tæplega 11 og hálf milljón. Annar kostnaður var rúmlega 592 þúsund. Alls kostaði sagnaritunin 12 milljónir og 278 þúsund krónur á árunum 2001-2004, sem á núvirði er rétt tæpar 20 milljónir og 174 þúsund krónur.3
 

Ég hef kostnað við ritun Sögu Akraness einungis sundurgreindan eftir árum en ekki eftir samningslotum bæjarins og Gunnlaugs. Af því hann gerði svo  „Samkomulag“ við Akraneskaupstað seint í ágúst 2004 (sjá Hvers virði er saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig) eru greiðslur frá 1. ágúst til áramóta 2004 taldar með „Viðbótarsamningi“. 

Afraksturinn af þessari vinnu var hálfkarað handrit að 2. bindi sögunnar og kafli sem hafði vantað inn í 1. bindið. Ekki var hægt að gefa út 1. bindið því Gunnlaugur hafði sannfært Ritnefndina um að framan á það vantaði forspjall, sem honum hafði auðvitað ekki auðnast að byrja á á samningstímanum.

Í rauninni má segja að rúmar 20 milljónir í viðbót hafi ekki skilað neinu að ráði til útgáfu á Sögu Akraness. Hið meinta ritverk hafði nú kostað um 50 milljónir, vinnan hafði staðið í sex og hálft ár, enn var ekkert tilbúið til útgáfu og raunar var verkið einungis tæplega hálfnað, miðað við samninginn sem gerður var í upphafi.
 
 
 
 
 
 


1 Á þessum fundi bæjarstjórnar var rætt talsvert um fjármál og sátu þrír sjálfstæðismenn hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar bæjarsins en forsvarsmaður þeirra, Gunnar Sigurðsson, lét bóka: „Það er dapurleg staðreynd að nú þegar tekjur Bæjarsjóðs Akraness hafa ekki í annan tíma verið meiri og álögur á bæjarbúa aldrei verið jafnháar, þá er skuldastaðan verri en nokkru sinni áður.“ Einn þremenninganna, Jón Gunnlaugsson, settist svo í Ritnefnd um sögu Akraness snemma árs 2004.
 

2 Í bæjarráði sátu Guðmundur Páll Jónsson, Sveinn Kristinsson, forseti bæjarstjórnar og Gunnar Sigurðsson. Auk þeirra sátu fundinn bæjarstjórinn Gísli Gíslason og bæjarritarinn Jón Pálmi Pálsson. Sveinn Kristinsson var gamall samherji Gunnlaugs Haraldssonar frá Alþýðubandalagsárunum en nú orðinn samfylkingarmaður, Gunnar Sigurðsson var sjálfstæðismaður og Guðmundur Páll var framsóknarmaður. Guðmundur Páll tók seinna sæti í Ritnefnd um sögu Akraness (í lok ágúst 2004).

Þann 8. janúar 2002 (á 930. fundi) samþykkti svo bæjarstjórn þessa fundargerð bæjarráðs og hefur þá væntanlega sjálfkrafa lagt blessun sína yfir að ganga til samninga við Gunnlaug Haraldsson.
 

3 Upplýsingar um kostnað og uppreikning hans á núvirði eru fengnar frá Akraneskaupstað 4. maí 2011.
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

17. maí 2011

Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma

Titill færslunnar er óbein tilvitnun í orð Gunnlaugs Haraldssonar um eigin sagnaritun í bréfinu „Meint ritstífla brestur“ á umræðuþræði Akraneskaupstaðar 25. febrúar 2005.

Saga Sögu Akraness V

Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
 
 

Munir við ByggðasafniðÞað virðist nokkuð augljóst að upp úr áramótum 1997 voru einhverjir ráðamenn í bænum búnir að ákveða að ráða Gunnlaug Haraldsson sem arftaka Jóns Böðvarssonar í sagnaritun. Á þeim tíma var Gunnlaugur atvinnulaus, einungis með einhver verkefni í stéttartalaritun og ritun Æviskráa MA-stúdenta. Á fyrsta fundi ritnefndar það ár, þann 23. febrúar, kemur fram að rætt hafi verið við Gunnlaug um að taka við sagnarituninni. Gunnlaugur mætti enda sjálfur á fundinn og lagði fram hugmyndir sínar og Gísli Gíslason, formaður ritnefndar, tilkynnti að Jóni Böðvarssyni hefðu verið send samningsdrög um starfslok.

Nýlega staðfesti Gunnlaugur enn og aftur sjálfur að ritnefndin hafi átt upptökin að ráðningu hans: „Árið 1997 leitaði sögunefnd Akraness til mín um að ljúka því skrefi sem stigið hafði verið með bók Jóns og prjóna við hana samantekt mína“1 en aftur á móti hefur eitthvað skolast til hjá honum með hvaða hætti það bar: „Fyrst nokkrar sögulegar staðreyndir: Árið 1997 kom ritnefnd að máli við mig og falaðist eftir því að ég tæki að mér að halda áfram því verki sem Jón Böðvarsson cand. mag. og fyrrum skólameistari hóf 10 árum fyrr, en hafði þá nýlega sagt sig frá.“2  Eins og margoft hefur komið fram í fyrri færslum skrifaði Jón Böðvarsson undir samkomulag um starfslok þann 24. mars 1997. Gunnlaugur mætti hins vegar galvaskur á fund Ritnefndarinnar mánuði fyrr og var þá búinn að skipuleggja sagnaritun sína í talsverðum smáatriðum; lagði fram drög að efnisskrá fyrir þrjú bindi af Sögu Akraness á fundinum.

Í síðustu færslu voru rifjuð upp náin fjölskyldutengsl meirihluta ritnefndarinnar og náin tengsl eins úr þeim meirihluta við Gunnlaug Haraldsson. Sé þetta haft í huga og að Gunnlaugur var svo sem hvorki atvinnumaður í sagnaritun né vel menntaður í sagnfræði er ekki óeðlilegt að hvarfli að manni að þarna hafi meirihlutaklíkan í ritnefndinni ráðið vin sinn til starfa enda maðurinn atvinnulaus. Þótt hugdettan sé ekki óeðlileg eru svoleiðis vinnubrögð afar óeðlileg, ámælisverð og í rauninni ótrúlegt að bæjarstjórn skuli hafa samþykkt tiltækið.3 Af hverju í ósköpunum auglýsti bærinn ekki starf sagnaritara og valdi úr umsóknum eftir menntun og reynslu?
 

Samningurinn fyrsti

Akraneskaupstaður og Hjálmar Gunnlaugur Haraldsson gerðu með sér samning um ritun sögu Akraness þann 23. apríl 1997.

Í samningum kemur fram að bærinn felur Gunnlaugi að rita þriggja binda sögu Akraness sem nái yfir tímabilið 1700-2000.4 Áætlað var að hvert bindi yrði 450-500 síður „í stóru broti“ [fram kemur að átt er við A-4 stærð eða aðeins minna en það] (7. gr.).

Í ljósi þess sem síðar varð er þriðja grein samningsins kannski merkilegust og mikilvægust. Samningurinn var tímabundinn: „Verkið hefst þann 1. apríl 1997 og skal lokið eigi síðar en 30. september 2001.“ Í sömu grein er kveðið á um í hvers konar standi eigi að afhenda handrit og skiladagar einstakra binda eru fastsettir.5 Jafnframt eru ákvæði um að verði dráttur á skilum skuli stöðva greiðslur til söguritara.

Riftunarákvæðið í 3. grein hlýtur að gilda enn því allir aðrir samningar sem síðar hafa verið gerðir við Gunnlaug Haraldsson eru viðbótarsamningar við hinn upphaflega. Þar segir: „ … ef vanefndir teljast verulegar á verktímanum er Akraneskaupstað heimilt að rifta samningi þessum og endurkrefja höfund um þær greiðslur, sem þegar hafa verið inntar af hendi.“6 Eins og öllum er kunnugt voru vanefndir gífurlegar og raunar hefur Gunnlaugur ekki enn skilað nema brotabroti af því verki sem hann tók að sér með undirritun þessa samnings.7 Hvers vegna aldrei hefur verið látið reyna á þetta ákvæði er mér ráðgáta. Núna, rúmum fjórtán árum eftir að samningurinn var gerður, er mögulegt að lögfræðingar teldu riftunarákvæðið ógilt vegna tómlætis verkkaupa (Akraneskaupstaðar) en það væri vissulega gaman að fá álit lögfróðra manna á þessu.

Vert er að geta síðasta ákvæðisins í 3. grein, einnig í ljósi sögunnar: „Höfundur mun hafa ritun sögu Akraness að meginverkefni meðan á gildistíma samningins stendur og mun hann ekki taka að sér verkefni, sem leitt getur til þess að verkefnum samkvæmt þessum samningi verði ekki sinnt.“ Sömuleiðis get ég ekki séð að þetta ákvæði hafi fallið úr gildi. Söguritari vann seinna að mýgrút annarra verkefna meðan hann gerði hvern viðbótarsamninginn á fætur öðrum við Akraneskaupstað, eins og fjallað verður um síðar.

Greiðslur til höfundar eru tíundaðar í 4. grein. Fyrir allt verkið átti hann að fá 14,9 milljónir sem skiptust þannig: Við undirritun samnings fékk söguritari 5% upphæðarinnar, 745.000 kr. en væri síðan á föstum 206.574 kr. mánaðarlaunum í fjögur og hálft ár (54 mánuði, frá 1. apríl 1997 út september 2001). Upphæðin var verðtryggð og skyldi uppfærast einu sinni á ári. Þetta voru verktakagreiðslur, þ.e.a.s. var innifalinn í þeim kostnaður vegna launatengdra gjalda.8 Við skil á hverju handritanna þriggja sem ritnefnd samþykkti átti Gunnlaugur síðan að fá eina milljón. Sú upphæð var einnig verðtryggð.

Gunnlaugur skyldi leggja til alla vinnuaðstöðu og áhöld til ritunar verksins en Akraneskaupstaður endurgreiða honum kostnað við ljósritun og ferðir innanlands. (5. gr.)
 
 

Samskipti við ritnefnd og vinnulag Gunnlaugs í sagnarituninni

Samskipti Ritnefndar um sögu Akraness [hér eftir kölluð Ritnefndin] og Gunnlaugs Haraldssonar voru ólíkt ljúfari en samskipti sömu nefndar og Jóns Böðvarssonar höfðu verið. Á þeim tíma sem Gunnlaugur vann eftir þessum fyrsta samningi hélt nefndin fjórtán fundi. Fundargerðir hennar eru aðgengilegar á vef Akraneskaupstaðar frá 15. febrúar 2001 en til hægðarauka hef ég tekið saman aðalatriði þessara fjórtán funda í töflu sem ég mæli með að áhugasamir unnendur sögu Sögu Akraness skoði.

Svo sem fyrr var nefnt var Ritnefndin sennilega löngu búin að ákveða að ráða Gunnlaug áður en samningur bæjarins við hann var formlega gerður. Hann byrjaði ekki með tvær hendur tómar því á fyrsta fundi eftir undirritun samnings (31. fundi, maí ‘97) afhenti Gísli Gíslason honum ýmis gögn frá Jóni Böðvarssyni, þar á meðal handrit að 2. bindi sögu Jóns, sem vantaði eitthvað á og nefndin var ekki sátt við.

Gunnlaugur lagði fram heilmikið af hugmyndum, áætlunum og listum, ásamt „hugleiðingum“ sínum „um vinnu sína“, á árunum 1997-98. Árið 1999 skilaði hann loks einhverju, þ.e. drögum að efnisyfirliti fyrsta bindis, skv. fundargerð 13. október 1999 (37. fundur). Í samningnum var áskilið að hann skilaði handriti að fyrsta bindi fyrir 1. október 1999. Þessi vanskil virðast ekki valda Ritnefndinni neinum sérstökum áhyggjum, það er ekki fyrr en um mitt næsta ár, í júní 2000, sem er bókað: „Tímaáætlun er um einu ári á eftir áætlun en stefnt er að því að vinna þann tíma upp og leggja fram handritið af 1. bindi á haustdögum eða í vetrarbyrjun.“ Svo varð ekki heldur lét sagnaritari duga að leggja fram „sýnishorn af efni sem yrði í 1. bindi“ og „tillögu að framsetningu á því sem gert verður“, í lok nóvember 2000 (39. fundur). Nefndin er ekkert að bögga hann á þeim fundi heldur „… lýstu [nefndarmenn] almennt yfir jákvæðu viðhorfi til þeirrar framsetningar sem Gunnlaugur kynnti. Fram komu einnig athugasemdir um að nauðsynlegt væri að ljúka vinnu við 1. bindi sem fyrst og hefja vinnu við 2. og 3. bindi.“ Raunar átti Gunnlaugur að vera búinn að skila 2. bindi fyrir 1. október þetta ár og 1. bindi meir en ári áður.

Það er óskiljanlegt hvernig Ritnefndin bregst eftirlitshlutverki sínu gersamlega eins og rakið hefur verið. Hún virðist hafa einhverja glýju í augum þegar vinnubrögð Gunnlaugs ber á góma. E.t.v. hafa nefndarmenn trúað því í alvöru að hann bæri miklu betra skynbragð á sagnaritun en Jón Böðvarsson, þrátt fyrir að vera miklu minna menntaður og með miklu minni reynslu. Kannski voru þetta eftirhreytur af hugmyndafræði (öllu heldur sjálfsdýrkun) íslenskra námsmanna í Lundi á áttunda áratugnum, kannski tókst sagnaritaranum sjálfum svona vel að sannfæra nefndina.

Skoðanir hans sjálfs á hvernig skuli rita byggðasögu eru skýrar:

Gunnlaugur segir að í raun séu um tvær leiðir að velja við ritun héraðssögu. Önnur leiðin, og sú auðveldari, sé að einskorða hana við samantekt og úrvinnslu á því ritaða og prentaða efni sem þegar liggur fyrir. Með þeirri aðferð sé þó litlu sem engu aukið við það sem áður var vitað og því efamál hvort slík útgáfa þjóni einhverjum tilgangi. Hin leiðin sé að afla frumheimilda eins og kostur er og ráðast í metnaðarfullt og krefjandi starf, þar sem leitast er við að rifja sem best upp löngu gleymda sögu. Gunnlaugur segir að þá þýði ekkert „hérumbil“ og fara verði alla leið í þeim efnum, reyna að viða að sér öllum þeim gögnum sem fyrirfinnast.9

Þarf náttúrlega enginn að fara í grafgötur um að Gunnlaugur hefur kosið erfiðari leiðina í sinni sagnaritun. Árið 2005 orðaði hann álit sitt enn skýrar (þá orðinn 4-6 árum á eftir áætlun með verkið, eftir því hvernig á það er litið):

Þetta er því miður ekki einsdæmi sögu íslenskrar sagnaritunar, heldur öllu fremur sígild og bitur reynsla nær allra þeirra sveitarfélaga, fyrirtækja og annarra aðila sem fyrr og síðar hafa ráðist í að láta skrá lítt eða ekki rannsökuð efni eða sögu sína. Hrekkur þá skammt að mæla digurbarkalega á spjallrásum að vísa með stóryrðum í einhvern órökstuddan meðaltalstíma til “bókarskrifta á Íslandi” … því sérhvert tilvik ræðst miklu fremur af aðgengi og tilurð heimilda svo og þeim kröfum sem gerðar eru um úrvinnslu þeirra. Það er hægur vandi að rumpa saman bókartötri á skömmum tíma með því einu að sanka saman gagnrýnislaust samtíningi úr áður útgefnum ritum eins og ýmsir hafa látið sér sæma og mörg eru “einnota” dæmin um í árlegu jólabókaflóði. Ég legg ekki nafn mitt við slíka iðju …10

Áfram hélt svo samkvæmisleikur Gunnlaugs og Ritnefndarinnar; Hann segir nefndinni hvað hann hafi verið að bardúsa og hvað hann hafi hugsað sér að gera og fer svo að mjatla efni í nefndina í skömmtum frá febrúar árið 2001. Ritnefndin er svo sem ekkert að æsa sig, þótt aðeins sé farið að nefna að nauðsynlegt sé að ljúka vinnu við 1. bindi sem fyrst eða að æskilegt sé að ákveðin markmið, ótilgreind, náist fyrir næsta fund eða eitthvað ámóta saklaust.

Munir á ByggðasafniÞann 15. október 2001 er bókað: „Gunnlaugur gerði grein fyrir stöðu mála. Efni vegna 19. aldar er nú um 5-600 síður, en vinna þarf það efni frekar og skipta því í tvö bindi og miða við 1850. Sá tími, sem gert var ráð fyrir að færi í ritunina, er að líða og var m.a. rætt um ýmislegt því tengt.“ Þetta er merkileg bókun! Í fyrsta lagi var „sá tími sem gert var ráð fyrir að færi í ritunina” ekki að líða heldur löngu liðinn! Gunnlaugur átti að skila fyrsta bindi, um byggðasögu 1700-1900, fyrir 1. okt. 1999, öðru bindi um atvinnuhætti og hagsögu 1900-2000 fyrir 1. okt. 2000 og þriðja bindi um félags-og menningarsögu 1900-2000 fyrir 1. okt. 2001. Ég minnist þess að ekki hafa séð jafnstórkostlegan úrdrátt í opinberri fundargerð og þessa bókun Ritnefndarinnar! Aftur á móti voru fastar mánaðargreiðslur til Gunnlaugs væntanlega um það bil að stöðvast. Hitt, þ.e. að Gunnlaugur ákveði allt í einu þegar samningstíminn er liðinn að skipta fyrsta bindinu í tvennt, án þess að Ritnefndin svo mikið sem æmti, er líka stórmerkilegt. Höfðu almennir nefndarmenn aldrei lesið samninginn sem Akraneskaupstaður gerði við Gunnlaug? Í samningnum er nefnilega skipulagið og skiptingin talin afar nákvæmt upp enda líklega einmitt samin af Gunnlaugi handa Ritnefndinni snemma árs 1997. (Sennilegt er að formaður Ritnefndarinnar hafði lesið samninginn því hann skrifaði sjálfur undir hann, fyrir hönd bæjarins.)

Það sem Ritnefndin hafði séð af verkinu hægunna, þegar hér var komið sögu, þ.e. samningstíma var lokið, var: „Sýnishorn af efni í 1. bindi“ (22.11. 2000); 150 s. sýnishorn af 1. bindi (15.2. 2001); 302 s. af 1. bindi (30.5. 2001); 112 s. um lok 18. aldar og 70 s. efnis frá 19.öld, þ.e. efni í 1. bindi (15. 10. 2001). Handhægara er e.t.v. að skoða þetta í töflunni yfir aðalatriði í fundargerðum.

Enn einn fundinn heldur Ritnefndin eftir miðjan nóvember 2001. Fundargerðin er merkileg því í henni er að nokkru gerður upp afraksturinn af fjögurra ára vinnu Gunnlaugs. Feitletranir í fundargerð eru mínar.

„1. Gunnlaugur lagði fram efnisyfirlit að 1. bindi ásamt 598 síðum í handriti sem nær frá 1700 til 1850.
 

2. Lagt fram bréf Gunnlaugs, dags. 19. nóvember, um ritun sögunnar.  Í bréfi Gunnlaugs kemur m.a. fram að verkið hafi tafist þar sem langtum meiri tíma hafi tekið að leita uppi heimildir í skjalasöfnum, úrvinnsla gagna og heimilda fór þar af leiðandi  seinna af stað og loks að ítarleg heimildaöflun hafi leitt fjölmargt í ljós sem fyrirfram var ekki vitað og kostað töluverða vinnu að vinna úr.

Þarna sést upphafshlekkur langrar afsökunarkeðju því svipaðar afsakanir hefur söguritari notað æ síðan.

Þá kom fram í bréfi Gunnlaugs að nú sé föstum greiðslum til hans lokið, en árangurstengdar greiðslur ógreiddar.  Verði því að taka ákvörðun sem fyrst með hvaða hætti vinnunni verði haldið áfram.  Gunnlaugur  telur einnig rétt að rita forsöguna, þ.e. frá landnámi til 1700, sem kunni að taka 3 mánuði að skrifa.  Í bréfinu kemur fram að um 24-30 mánuði taki að búa annað efni til prentunar.

Það er áreiðanlega rétt hjá Gunnlaugi að árangurstengdar greiðslur voru ógreiddar. Nærtækasta skýringin á því er auðvitað að árangurinn, afraksturinn, hafði enginn verið. Hann átti að fá eina milljón fyrir hvert bindi sem hann skilaði á réttum tíma en hafði engu skilað fyrr en á þessum fundi. Núna skilaði hann loksins ókláruðu fyrsta bindi, miðað við samning, tveimur árum of seint. Ég vek athygli á því snjallræði Gunnlaugs að ota „forsögunni“ að nefndinni, þ.e. einhverjum stuttum pistli frá landnámi til 1700. Ritnefndin gleypti þá beitu í upphafi næstu samningslotu, sem varð til þess að ekki var einu sinni hægt að gefa út þetta svokallaða fyrsta bindi sögunnar því þar með vantaði upphafið framan á það. Hafandi sýnt Ritnefndinni Sögu Akureyrar, væntanlega I. bindi, nánast í upphafi verksins (33. fundi) var hann búinn að leggja línurnar fyrir einmitt þetta form.

Gunnlaugur vék svo af fundi en nefndin hélt áfram störfum og bókaði:

„3. Rætt var um stöðu málsins. Ritnefndin staðfesti skil á 1. bindi verksins sbr. gildandi samning.  Nefndin er sammála um að það efni sem skilað hefur verið sé gott og lofi góðu um heildarverkið. Nefndin telur mikilvægt að verkinu verði haldið áfram og leggur til við bæjarráð að samningur bæjarins við söguritara verði framlengdur.

Gunnlaugur hafði vissulega lagt fram efnisyfirlit yfir 1. bindi og 589 síður í handriti „sem nær frá 1700-1850“. En við þetta er það að athuga að skil voru rúmum tveimur árum á eftir áætlun miðað við samninginn. Ennfremur var 1. bindið skilgreint í samningi sem byggðasaga 1700-1900. Hvernig Ritnefndin gat staðfest að þetta sem Gunnlaugur skilaði væru „skil á 1. bindi verksins sbr. gildandi samning“ er ofar mínum skilningi. Formaður Ritnefndarinnar, bæjarstjórinn, er lögfræðingur að mennt þannig að þetta hlýtur einhvern veginn að hafa verið löglegt og í samræmi við samninginn, er það ekki?
 
 

Greiðslur til Gunnlaugs Haraldssonar á þessu tímabili og annar kostnaður

Gunnlaugi voru greidd full mánaðarlaun frá 1. apríl 1997 út september 2001. Að auki fékk hann endurgreiddan kostnað vegna efnisöflunar og ferða. Líklega hefur hann fengið eina árangurstengda greiðslu greidda (jafnvirði einnar milljónar á verðlagi apríl 1997) árið 2001. Alls greiddi Akraneskaupstaður Gunnlaugi 16 milljónir og rétt tæp 700 þúsund króna á árunum 1997-2001. Að auki er bókaður annar kostnaður við ritun sögu Akraness 1998 og 1999, samtals 263.325 kr. Kostnaður vegna nefndarlauna ritnefndar er fyrir árið 2001 33.168 kr. (fyrri upphæðir nefndarlauna liggja ekki fyrir). Samanlagður kostnaður Akranesbæjar af söguritun í fyrstu atrennu Gunnlaugs var því tæpar 17 milljónir en séu upphæðirnar uppreiknaðar á núvirði er þessi tala 32 milljónir og rúmlega 670 þúsund krónur. Bróðurparturinn af henni eru laun og endurgreiddur kostnaður til Gunnlaugs.11

Til samanburðar má nefna að heildarkostnaður Akraneskaupstaðar við ritun sögu bæjarins af hálfu Jóns Böðvarssonar var rétt rúmlega 15 milljónir og 223 þúsund á núvirði, fyrir utan laun ritnefndar. Fyrir þá upphæð fékkst ein bók útgefin, Akranes. Frá landnámi til 1885, og ófullgert handrit að næsta bindi (alls áttu þetta að verða þrjú bindi). Kostnaður af vinnu Gunnlaugs Haraldssonar 1997-2001 var tvöfalt meiri. Fyrir þá upphæð fékkst ófullgert handrit að fyrsta bindi af þremur sem um hafði verið samið.

Fyrri færslur:

Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldri búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, „Framtakssemi og frumskógarlögmál“
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma

Framhaldsfærslur:

Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …

  

  


1 „Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar. Spjallað við Gunnlaug Haraldsson ritara Sögu Akraness“. Skessuhornið 13. apríl 1997, s. 14.Jón Böðvarsson skrifaði undir samkomulag um starfslok þann 24. mars 1997. En frétt um að Jóni hefði verið sagt upp birtist talsvert fyrr, í DV 12. mars 1997 („Söguritara sagt upp“). Nokkur Þórðargleði skín í gegnum fyrirsögn Skagablaðsins  tveimur dögum eftir að Jón skrifaði undir samninginn: „Skrásetjarinn settur af“ (Sjá Dagur-Tíminn 26. mars 1997) og má velta fyrir sér hvaðan slík gleði var ættuð. Orð Gísla Gíslasonar á umræðuþræði Akraneskaupstaðar 23. febrúar 2005 eru illskiljanleg í þessu ljósi: „Ekki ætla ég að fara að rifja hér upp ritferil Jóns Böðvarssonar - en til að fyrirbyggja misskilning þá óskaði hann eftir lausn frá samningi sínum og því var það ekki á hendi bæjarins að halda við þann samning.“

Mikil hamingja virðist hafa ríkt yfir ráðningu hins nýja sagnaritara skv. fréttum. Gunnlaugur var sagður „maður öllum hnútum kunnugur … hefði til dæmis skrifað sögu Akraneskirkju og farist það afburðavel úr hendi” („18 milljónir í ritun sögu Akraness“. DV 28. apríl 1997), „… er Akurnesingum að góðu kunnur fyrir farsæl störf um árabil við Byggðasafn Akraness og nærsveita og fyrir vandað verk við ritun sögu Akraneskirkju, svo nokkuð sé nefnt.“ („Ritun sögu Akraness“. Morgunblaðið 30. apríl 1997.)
 

2 Gunnlaugur Haraldsson. „Meint ritstífla brestur“. Umræðuþráður Akraneskaupstaðar þann 25. febrúar 2005.
 

3 Enn ótrúlegra er það aðstandandahlutverk sem Ritnefndin og bæjarstjórn léku seinna árum saman, þegar ljóst varð að sagnaritarinn skilaði litlu sem engu. Á Akranesi var ekki bleikur fíll í stofunni: Bleiki fíllinn dvaldi á grænum engjum hugvísindanna!
 

4  Þetta kemur fram í 1. gr. samningsins. Þar er einnig kveðið á um „efnisskipan í aðalatriðum“. Sú efnisskipan er það nákvæmlega tíunduð að þetta hljóta að vera tillögur Gunnlaugs sjálfs sem hann lagði fram á fundi Ritnefndar um sögu Akraness í febrúar 1997 (á 30. fundi nefndarinnar).

Í grófum dráttum var skiptingin þannig: Fyrsta bindi skyldi fjalla um byggðasögu 1700-1900, annað bindi um atvinnuhætti og hagsögu 1900-2000 og hið þriðja um félags-og menningarsögu 1900-2000. Ekki verður séð af efnisskipan af hverju þótti nauðsynlegt að endurrita um tímabilið 1700-1885, sem Jón Böðvarsson hafði gert skil í Akranes. Frá landnámi til 1885. En Gunnlaugur Haraldsson skrifaði í bréfinu „Meint ritstífla brestur“ á umræðuþræði Akraneskaupstaðar þann 25. febrúar 2005: „Í öðru lagi þótti mér að í bók Jóns hefði verið skautað býsna glannalega yfir fjölmarga þætti sögunnar, að því marki sem ég taldi mig þá þekkja til hennar, - einkum á 18. og 19. öld, - heimildanotkun og efnistök einnig gjörólík því sem ég myndi sjálfur kjósa“ svo nokkuð örugglega er þessi hugmynd um endurskrif komin frá Gunnlaugi sjálfum.

Eftir tiltölulega smásmugulega upptalningu samningsins á efnisþáttum (sem líkist efnisgrind að  skólaritgerðum) segir: „Framangreind efnisskrá er ekki tæmandi og mun því í meðförum höfundar og ritnefndar, sem Akraneskaupstaður skipar, taka einhverjum breytingum meðan á vinnu við söguritun stendur.“ Það er óvenjulegt að þessi klausa í 1. gr. samningsins varð að áhrínsorðum. Ath. að ekki skyldi rugla saman „efnisskrá“ og þeim bindum sem áskilið var að skyldi skilað.
 

5  Fyrsta bindi skyldi skila eigi síðar en 1. október 1999; öðru bindi eigi síðar en 1. október 2000 og þriðja bindi eigi síðar en 1. október 2001.
 

6  Jafnframt segir í riftunarákvæði: „Akraneskaupstað er einnig heimilt að stöðva greiðslur til höfundar ef einhverjar ástæður verða til þess að höfundur verður ófær um að sinna verkinu eða að ritnefnd telur að verkáætlun samkvæmt 6. grein samningsins standist ekki í svo veigamiklum atriðum að varði annað hvort riftun samningsins eða frestun greiðslna þar til úr hefur verið bætt.“

Í verkáætlun í 6. grein samningsins er talið upp að heimildaöflun fyrir allt verkið skuli standa frá apríl 1997 til janúar 1999; ritun 1. bindis hefjist þá og verði lokið „eigi síðar en ágúst-sept. 1999“; þá hefjist ritun 2. bindis sem verði lokið í ágúst -september 2000 og loks er reiknað með að ritun 3. bindis verði lokið í ágúst-sept. 2001 svo verklok verði 1. október það ár (sbr. 3.gr.). Öll bindin komi út í einu árið 2001.
 

7 Þann 18. janúar 2011 afhenti Gunnlaugur Haraldsson Árna Múla Jónassyni bæjarstjóra Akraneskaupstaðar fyrri tvö handritin af verki sínu. Þau koma út ekki á morgun heldur hinn, undir nöfnunum Saga Akraness. 1. bindi. Frá landnámi til 1700 og Saga Akraness. 1. bindi. Átjánda öldin.
 

8 Miðað við að launategnd gjöld séu um 20% voru mánaðarlaun Gunnlaugs án launatengdra gjalda um 170.000. Í apríl 1997 voru meðaldagvinnulaun framhaldsskólakennara 110.483 kr. Í þann tíð unnu framhaldsskólakennarar mikla yfirvinnu og var meðaltal heildarmánaðalauna þeirra á sama tíma 182.945 kr. Inni í þessu meðaltali eru laun stjórnenda í framhaldsskólum, annarra en skólameistara, sem kann að hækka tölur eitthvað. Sjá „BHM hópur 2 (HÍK/F)“ Fréttabréf KOS nr. 18, júní 1998, s. 22. Útg. Kjararannsóknarnefnd opinberra starfsmanna. Gunnlaugur hefur skv. þessu þegið meðallaun framhaldsskólakennara með talsverða yfirvinnu í 54 mánuði. Ofan á það áttu síðan að bætast veglegar árangurstengdar greiðslur.
 

9 „Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar. Spjallað við Gunnlaug Haraldsson ritara Sögu Akraness.“ Skessuhornið 13. apríl 1997, s. 14.
 

10 Gunnlaugur Haraldsson. „Meint ritstífla brestur“. Umræðuþráður Akraneskaupstaðar þann 25. febrúar 2005.
 

11 Upplýsingar um kostnað og uppreikning hans á núvirði eru fengnar frá Akraneskaupstað 4. maí 2011.
 
 
 
 

Ummæli (13) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

16. maí 2011

Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?

Saga Sögu Akraness IV 

Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
 
 

Kútter SigurfariÍ næstu færslum verður reynt að komast að því hvernig stendur á því að Akraneskaupstaður hefur eytt tæpum 105 milljónum í ritun sögu Akraness eftir að atrennu með Jóni Böðvarssyni lauk.

Kostnaður við Akranes. Frá landnámi til 1885 var, eins og sagði í síðustu færslu, rétt rúmlega 15 milljónir og 223 þúsund á núvirði, fyrir utan laun ritnefndar.1 Heildarkostnaður Akraneskaupstaðar við ritun Sögu Akraness frá 1987 til dagsins í dag er á núvirði 120.065.065 kr.  Fyrir þessa upphæð fáum við bæjarbúar tvöfalda útgáfu af sögu svæðisins frá landnámi til 1800, þ.e. útgáfu Jóns Böðvarssonar og útgáfu Gunnlaugs Haraldssonar. Virðist ævintýrinu hvergi nærri lokið því á fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árin 2012 og 2013 er gert ráð fyrir 4,2 milljónum hvort ár í söguritunina endalausu.2

En það verður að segja hverja sögu eins og hún gengur og verður aðalpersónan nú leidd fram á sjónarsviðið: Sagnaritarinn sjálfur.
 
 

Gunnlaugur Haraldsson

Hjálmar Gunnlaugur Haraldsson er Austfirðingur en kvæntist konu af Skaganum. Hann stundaði nám í sögu og latínu við HÍ „um tíma veturinn 1973-74“ en lauk fil.kand prófi í þjóðháttafræði og fornleifafræði við Lundarháskóla í Svíþjóð 1978. Síðan stundaði hann framhaldsnám í miðaldafornleifafræði við sama skóla 1991-92 en heimild mín, Æviskrár MA-stúdenta, hermir ekki hvort hann lauk einhverri formlegri gráðu þá. [Hann skilaði „4. árs prófritgerð“, líklega svokallaðri D-ritgerð sem er hluti af sænskri fil.mag gráðu. Fil.mag er þriggja anna mastersnám, tvær annir í kúrsum og ritgerð að auki. Gráðan samsvarar því ekki íslensku meistaraprófi, hvorki MA né gömlu cand.mag. gráðunni. Líklega hefur Gunnlaugur ekki lokið nema hluta náms til fil.mag gráðu.]

Gunnlaugur hafði fjölbreytta starfsreynslu, var m.a. kennari við Gagnfræðaskólann á Akranesi 1974-75. Eftir fil.kand próf starfaði hann sem minjavörður Austurlands og forstöðumaður Safnastofnunar Austurlands í rúmt ár en var ráðinn í 3/4 starf sem forstöðumaður Byggðasafns Akraness og nærsveita í Görðum á Akranesi [hér eftir kallað Byggðasafnið] þann 1. nóv. 1979.3 Jafnframt varð hann stundakennari við Brekkubæjarskóla á Akranesi veturinn 1979-1980 og var stundakennari í þjóðháttafræði við HÍ á árunum 1984-1989.

Gunnlaugur var afar virkur í félagsmálum og stjórnmálum hér í bæ (og víðar) á árunum 1980-90. Hann hafði verið formaður Alþýðubandalagsfélags Fljótdalshéraðs 1978-79 og varð formaður Alþýðubandalagsfélags Akraness og nágrennis 1980. Í stjórn þess félags sat hann í fjögur ár, þar af formaður í 2 ár. Hannn var varafulltrúi í bæjarstjórn Akraness 1986-90 og varaþingmaður Alþýðubandalagsins í Vesturlandskjördæmi 1987-91. Í Æviskrám MA-stúdenta segir að hann hafi setið í ritnefnd um sögu Akraness frá 1987 til júní 1991 en þar er augljóslega rangt farið með því Leó Jóhannesson tók sæti Gunnlaugs í ritnefndinni í júní 1990.4
 

Þegar Gunnlaugur skrifaði undir samning um sagnaritun fyrir Akraneskaupstað, þann 23. apríl 1997, voru ritverk hans fyrir utan námsritgerðir, greinar í blöð og stutta bæklinga eða texta í ljósmyndabækur um Akranes: Æviskrár MA-stúdenta I-V ; Lögfræðingatal 1736-1992 I-IV og  Viðskipta-og hagfræðingatal 1877-1997 I-III  Gunnlaugur var ritstjóri þessara rita. Æviskrár MA-stúdenta vann hann frá grunni en stéttartölin eru öll endurskoðaðar útgáfur eldri stéttartala. Enn eitt ámóta stéttartalið í ritstjórn Gunnlaugs kom út seint á árinu 1997, þ.e. Tannlæknatal 1854-1997 (og raunar dróst útgáfa síðasta bindis Lögfræðingatals sennilega þar til seint á árinu 1997).

GarðarEina bók hafði Gunnlaugur ritað, Akraneskirkja 1896-1996 ásamt ágripi af sögu Garða og Garðakirkju á Akranesi. Útgefandi var Akraneskirkja og bókin kom út í ágúst 1996, á aldarafmæli kirkjunnar. Ég fann einungis einn ritdóm um bókina.5

Tildrög þess að Gunnlaugur Haraldsson var ráðinn af sóknarnefnd Akraneskirkju til að skrifa sögu hennar eru mér ekki kunn. Hann var í fullu starfi sem forstöðumaður Byggðasafnsins auk þess að vinna meðfram að ritstjórn stéttartala ýmiss konar, eins og áður hefur verið rakið. Um miðjan maí 1995 hafði Gunnlaugur Haraldsson ákveðið að fara í launalaust leyfi frá starfi sínu á Byggðasafninu, líklega vegna ritstarfa fyrir sóknarnefnd Akraneskirkju.6

Á fundi Menningarmála-og safnanefndar Akraneskaupstaðar 5. sept. 1995 er fyrsta mál á dagskrá bréf frá Gunnlaugi Haraldssyni þar sem hann segir upp starfi sínu sem forstöðumaður safnsins. Síðar á sama fundi er bókað: „Bréf frá Endurskoðunarskrifstofu Jóns Þórs Hallssonar sem hefur yfirfarið reikninga safnsins frá jan-okt 1995. Þar er bent á að útlit sé á að verulega verði farið fram úr áætlun. Gunnlaugur Haraldsson taldi skýringu á þeim mismun sem fram kemur stafa af því hvernig færslur færu fram hjá aðalbókara.“ Síðan var samþykkt að til að fá botn í málið myndu formaður Menningarmála-og safnanefndar, Guðrún Geirsdóttir, Eirný Valsdóttir sem sat í nefndinni og Gunnlaugur Haraldsson ganga á fund aðalbókara. Ég leitaði í næstu fundargerðum Menningarmála-og safnanefndar til að reyna að finna hvort niðurstaða hefði fengist í þessu máli en fann ekkert bókað meir um það.7

Gunnlaugur var því líklega í aðalstarfi við að skrifa bókina um Akraneskirkju frá því sumarið 1995 til þess er bókin kom út seint í ágúst 1996. Eftir það vann hann að ritun nokkurra stéttartala, sem áður var getið.

Á fundi Ritnefndar um sögu Akraness seint í febrúar 1997 (30. fundi) tilkynnti Gísli Gíslason, formaður nefndarinnar og bæjarstjóri Akraneskaupstaðar, að Jóni Böðvarssyni hefðu verið send samningsdrög um starfslok. Þá hefur þegar verið rætt við Gunnlaug Haraldsson um að taka að sér áframhaldandi vinnu við verkið því hann mætti á þennan fund, lagði fram yfirlit yfir umfang og tímaskeið átján annarra byggðasagna og „Gunnlaugur lagði einnig fram drög að efnisskrá fyrir þrjú bindi að Sögu Akraness.“ Nefndin fór yfir drög að verkáætlun fyrir verkið og ræddi um ýmsa þætti sem vörðuðu útgáfu. Gísla var falið að vinna áfram að málinu.8

Þann 22. apríl 1997 samþykkti bæjarstjórn Akraness að ráða Gunnlaug Haraldsson til að ljúka ritun sögu Akraness9 og daginn eftir skrifuðu þeir Gísli Gíslason bæjarstjóri og Gunnlaugur Haraldsson undir „Samning um ritun Sögu Akraness“.

Um þennan samning, efndir hans og fleira verður fjallað í næstu færslu.
 

Fyrri færslur:

Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldri búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, „Framtakssemi og frumskógarlögmál“
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni

Framhaldsfærslur:

Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú … 

1 Formaður Ritnefndar um sögu Akraness, Gísli Gíslason bæjarstjóri, þáði ekki laun fyrir fundarsetur. Upphæðir sem greiddar voru í nefndarlaun 1987-1996 liggja ekki fyrir en bent skal á núverandi nefndarlaun sem Akraneskaupstaður borgar, þ.e. að almennur nefndarmaður fær greiddar 9.269 kr. fyrir hvern fund. Ofan á þá upphæð bætast 17,35% launatengd gjöld sem bærinn borgar. Nefndin hélt 29 fundi á þessu tímabili og í henni sátu fjórir almennir nefndarmenn.

2 Upplýsingar um kostnað eru fengnar frá Akraneskaupstað 4. maí 2011.

3 Ráðningu Gunnlaugs Haraldssonar ber að með nokkuð undarlegum hætti miðað við bókanir í fundargerðum stjórnar Byggðasafns Akraness og nærsveita. Á s. 38. í fundagerðarbók hennar segir að fundur sé haldinn „þann oktober ´79 [en dagsetningu vantar]  Fundar menn voru eftirtalin: Þórarinn Ólafsson, Sveinn Guðmundsson, Ragnheiður Þórðardóttir, Þorsteinn Jónsson og Anton Ottesen.“

Aðalmál fundarins var hvort „tímabært væri að ráða forstöðumann að safninu.“ Kemur fram að til þessa hafi fjárhagur  verið of þröngur til svo mætti verða en nú sé að rætast úr „en spurning væri hvort hér yrði um að ræða heilt eða hálft starf. … Samþ. var að fela framkvæmdastj. að athuga fjárhagsgrundvöll fyrir að ráða starfsmann að safninu og ef sú athugun yrði jákvæði skildi [svo] auglýsa eftir þjóðháttarfræðing [svo] til starfsins.“ (s. 38-39 í fundargerðabók.)

Á síðu 39 er síðan límdur gulur miði neðan við fundargerðina. Hann er dagsettur 22.10. ‘79 og á honum stendur:
„Gunnlaugur Haralds ráða hann.
3/4 stöðu frá 1/11 ‘79.
Sveini falið að tala við hann-
laun 300.000 -
Tekjur áætlaðar ‘79 6,000,000 -
Ákveðið að auglýsa
eftir þjóðháttafræðing.
Sveinn taki á móti upplýsingum.“

Fundargerðina í október ritaði Anton Ottesen og sama rithönd virðist vera á litla gula miðanum.
 

4 Upplýsingar um Gunnlaug Haraldsson og beinar tilvitnanir eru úr MA-stúdentar 1973. Æviskrár MA-stúdenta V. Ritstjóri Gunnlaugur Haraldsson. Steinholt 1994, s. 496-497.

5 Sjá: Sigurjón Björnsson. „Kristnihald á Skaga“ í Morgunblaðinu 18. september 1996. Í frétt af ráðningu Gunnlaugs sem sagnaritara, „18 milljónir í ritun sögu Akraness“, DV 28. apríl 1997, segir að Gunnlaugur hafi „til dæmis skrifað sögu Akraneskirkju og farist það afburðavel úr hendi.“ Þar er vitnað í einhverja ónafngreinda bæjarstjórnarmenn, ekki þó fulltrúa sjálfstæðisflokksins í bæjarstjórn.

Saga Akraneskirkju var síðan endurrituð í Kirkjum Íslands 13. bindi, sem Þjóðminjasafn Íslands, Húsafriðunarnefnd, Biskupsstofa og Borgarfjarðarprófasdæmi stóðu að og kom út 2009. Sérprentið sem ég á úr þessu bindi, Akraneskirkja, er gefið út af Hinu íslenska bókmenntafélagi og höfundar eru Björk Ingimundardóttir, Sigríður Björk Jónsdóttir, Lilja Árnadóttir, Guðmundur L. Hafsteinsson og Gunnar Bollason. Þessi útgáfa er mun árennilegri fyrir leikmann utan þjóðkirkju (eins og ég er) því bók Gunnlaugs er að stórum hluta saga sóknarnefnda og starfsfólks kirkjunnar, auk ítarlegrar forsögu sem ég hef reyndar lesið víðar áður, t.d. í  Akranes. Frá landnámi til 1885 Jóns Böðvarssonar. Hafi menn einungis áhuga á sögu þessarar gullfallegu kirkju og gripum hennar, en minni áhuga á smáatriðum og sóknarnefnd,  er Akraneskirkja ólíkt þægilegri; styttri, skorinorðari og fallegri. Það er auðvitað fráleitt að bera útlit svo misgamalla bóka saman, báðar eru reyndar prentaðar á vandaðan pappír en í nýrri sögunni er mikið af litmyndum en fáar slíkar í bók Gunnlaugs enda var litprentun eitthvað dýrari þegar sú bók kom út. Það litla sem hægt er að segja í samanburði mynda er að augljóst er að ekki hefur verið mikið lagt í myndvinnslu í bók Gunnlaugs (þótt sú tækni hafi verið sæmilega aðgengileg 1997). Það sést m.a. með því að bera saman gamlar myndir í báðum bókunum, t.d. mynd Sigfúsar Eymundssonar, merkt Þjms. SEy 81. Hún er afar vel unnin á s. 18 í Akraneskirkju en  algerlega óunnin á s. 144 í bók Gunnlaugs.

Ritnefnd af hálfu sóknarnefndar Akraneskirkju, sem starfaði með Gunnlaugi að Akraneskirkju 1896-1996 ásamt ágripi af sögu Garða og Garðakirkju á Akranesi, var skipuð Braga Þórðarsyni, Þjóðbirni Hannessyni og Þorgils Stefánssyni. Enginn úr ritnefnd skrifar formála heldur hefst bókin á formála söguritara, Gunnlaugs Haraldssonar, ávarpsorðum eftir herra Ólaf Skúlason biskup Íslands og ávarpsorðum sr. Björns Jónssonar sóknarprests. Í þeim eina ritdómi sem ég fann og gat hér að ofan er lýsing á efni bókarinnar.
 

6 Sjá fundargerð Menningarmála-og safnanefndar Akraneskaupstaðar 18. maí 1995. Um þetta ber heimildum ekki alveg saman því í Árbók Hins íslenzka fornleifafélags 1995 segir á s. 152:
„Gunnlaugur Haraldsson safnstjóri fékk launalaust leyfi frá 1. ágúst en sagði síðan starfi sínu lausu í desember. Var Guttormi Jónssyni, sem starfað hefur lengi við safnið, falið að veita því forstöðu um sinn.“ Í fréttinni „Byggðasafn Akraness: Forstöðumaðurinn var kominn í annað starf“ í DV 15. desember 1995 segir: „Í frétt um Byggðasafn Akraness hér í blaðinu 12. desember kom fram að Gunnlaugur Haraldsson hefði sagt starfi sínu lausu frá og með 5. des. sem forstöðumaður safnsins. Gunnlaugur hefur verið í launalausu fríi hjá Byggðsafninu frá 1. september og var fyrir allnokkru búinn að taka ákvörðun um að segja upp starfi sínu sem forstöðumaður safnsins enda kominn í annað starf. Hann sagði því ekki upp starfi sínu vegna skýrslu endurskoðanda byggðasafnsins.“ (Vísað er í fréttina „Deilur um reikninga byggðasafnsins“ á baksíðu DV  þann 12. des. 1995.)
 

7 Í stjórn Menningarmála- og safnanefndar sátu Guðrún Geirsdóttir, Jósef H. Þorgeirsson, Hörður Pálsson, Eirný Valsdóttir og Ástríður Andrésdóttir.
 

8 Í Ritnefnd um Sögu Akraness sat sami kjarni yngra fólks og áður er getið, Gísli Gíslason, Hrönn Ríkharðsdóttir og Leó Jóhannesson. Í stað Valdimars Indriðasonar sem lést árið 1995 hafði sest Jósef H. Þorgeirsson, sem mætti á sinn fyrsta fund þann 5. sept. 1995 (26. fund ritnefndarinnar) og Ólafur J. Þórðarson sat enn í nefndinni. Í neðanmálsgreinum 2 og 3 við síðustu færslu, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni, var fjallað um hversu náin fjölskyldubönd þeirra Gísla, Hrannar og Leós eru. Við þetta má bæta hversu nánir þeir Leó og Gunnlaugur Haraldsson voru:

Leó og Gunnlaugur Haraldsson eru jafngamlir, báðir fæddir 1951. Leó útskrifaðist úr MA árið 1972, Gunnlaugur árið 1973. Þeir stunduðu báðir nám við Háskólann í Lundi á árunum 1975-’78 (Leó hóf sitt nám þar 1974). Leó útskrifaðist með fil.kand próf í sagnfræði og uppeldisfræði og Gunnlaugur með fil.kand próf væntanlega í þjóðháttafræði (hann lærði þjóðháttafræði og norræna fornleifafræði frá 1975 í Lundi) árið 1978. Sjá „MA-stúdentar 1972“ og „MA-stúdentar 1973“ í Æviskrám MA stúdenta V, s. 411-412 og s. 495-497. Ritstjóri Gunnlaugur Haraldsson. Steinholt 1994 og Kenntaratal á Íslandi V, s. 521, útg. 1988. Sænsk fil.kand gráða er lægsta háskólagráða í húmanískum greinum, samsvarar íslenskri BA gráðu. Yfirleitt ljúka menn henni á þremur árum.

Það er frekar líklegt að þessi tveir hafi tekið einhvern þátt í starfi „Félags þjóð- og fornleifafræðinema“, sem minnst var á í fyrstu færslu um sögu Sögu Akraness, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“, þótt hvorugur geti þess í Æviskrám MA-stúdenta V. Og það er meir en líklegt að báðir hafi smitast af hugmyndum sem lágu að baki stofnun þessa félags á sínum tíma, sem m.a. voru að íslenskar sagnfræði-, þjóðfræði- og fornleifafræðirannsóknir til þessa hefðu verið fúsk og ekki byggðar á réttri hugmyndafræði (sjá tilvitnanir í yfirlýsingar hópsins sem vann að svæðisrannsókn sunnan Skarðsheiðar o.fl., í tilvísanaskrá við sömu færslu). Hugsanlega hefur eimt eftir af þessum hugmyndum meðal námsmanna í Lundi eitthvað áfram. Mér er ekki kunnugt um hvenær Hrönn Ríkarðsdóttir stundaði sitt nám við Lundarháskóla (hún er fædd 1954) eða hvaða gráðu í sögu hún lauk þar og get því ekkert fullyrt um hennar sögusýn.

Leó tók á sínum tíma sæti Gunnlaugs í Ritnefnd um Sögu Akraness. Báðir sátu í nefndinni fyrir alþýðubandalagið.

9 Á þessum 843. fundi bæjarstjórnar Akraness 22. apríl 1997 greiddu Guðbjartur Hannesson, Sveinn Kristinsson, Guðmundur Páll Jónsson, Gunnar Sigurðsson, Sigríður Gróa Kristjánsdóttir, Pétur Ottesen, Ingvar Ingvarsson og Bryndís Tryggvadóttir öll atkvæði með því að gera samninginn við Gunnlaug Haraldsson. Sigríður Guðmundsdóttir greiddi atkvæði á móti.
 
 
 
 
 
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

12. maí 2011

Nefndarmenn lýstu skoðun sinni

Saga Sögu Akraness III
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, „Framtakssemi og frumskógalögmál“
 
 

Ritnefnd um sögu Akraness

Fyrsti fundur Ritnefndar um sögu Akraness var haldinn 14. október 1987. Líklega hefur þá engan órað fyrir að þessi nefnd ætti eftir að starfa næstu 24 árin að verkefninu og hún starfar enn, fundaði síðast 17. janúar 2011.

Í fyrstu ritnefndinni sátu: Gísli Gíslason, bæjarstjóri og formaður nefndarinnar, Gunnlaugur Haraldsson (f. alþýðubandalagið), Hrönn Ríkarðsdóttir (f. alþýðuflokkinn), Halldór Jörgensson (f. framsóknarflokkinn)  og Valdimar Indriðason (f. sjálfstæðisflokkinn).

Þótt ritnefndin hafi verið pólitískt skipuð frá upphafi var hún merkilega stöðug næstu árin og jafnvel áratugina. Frá upphafi heyrði nefndin beint undir bæjarstjórnina og þrátt fyrir ýmsar stjórnsýslubreytingar Akraneskaupstaðar er svo enn. Allar aðrar nefndir hafa verið sameinaðar og felldar undir svið og stofur kaupstaðarins en Ritnefnd um sögu Akraness hefur lifað af allar slíkar breytingar. Hana hefur dagað uppi í kerfinu eins og hvert annað nátttröll, þótt hún hafi (kannski því miður) ævinlega verið með lífsmarki og sé enn.

Sólsetur á AkranesiVið fyrstu sýn virðist ritnefndin hafa verið prýðilega skipuð, þ.e. hana skipuðu fulltrúar jafnt meiri- sem minnihlutans í bæjarstjórn og formaðurinn var ópólitískur bæjarstjóri. En það borgar sig að skoða hana frá fleiri sjónarhornum. Hið fyrsta sem stingur í augu er aldursskiptingin. Annars vegar voru tveir eldri menn, Valdimar á sjötugsaldri og Halldór kominn hátt á áttræðisaldur, og hins vegar þriggja manna yngri hópur; Gísli, Gunnlaugur og Hrönn, öll á fertugsaldri.

Halldór Jörgensson var útfararstjóri bæjarins, þótti vandaður maður og sögufróður.1 Valdimar Indriðason var áhrifamaður í bænum, hafði setið á þingi og var tengdasonur Ólafs Bj. Björnssonar, sem skrifaði Sögu Akraness I og II á sjötta áratugnum og stofnaði Prentverk Akraness. Valdimar átti hlut í þessari prentsmiðju bæjarins og þegar 1. bindi af sögu Jóns Böðvarssonar var prentað þar var sonur Valdimars framkvæmdastjóri prentsmiðjunnar.  Þekking Valdimars á sögu Akraness á tuttugustu öld var óumdeild.

Gísli er lögfræðingur að mennt, Gunnlaugur þjóðháttafræðingur og Hrönn menntuð í sögu og spænsku. En þessi þriggja manna yngri blokk í nefndinni tengdist ýmsum böndum, hafði líklega svipaða lífssýn og tengdist öll vinstri mönnum í bænum, þáverandi alþýðubandalagi (en seinna gengu forkólfar þess margir í samfylkinguna), ýmist beint eða fjölskyldutengslum.2

Eftir bæjarstjórnarkosningar 1990 tók Leó Jóhannesson sæti Gunnlaugs og hefur setið manna lengst í Ritnefnd um sögu Akraness, situr þar enn.3

Ritnefndin hefur aldrei fengið erindisbréf þrátt fyrir að hafa starfað í 24 ár.4  En formaður nefndarinnar, Gísli Gíslason, sagði þremur vikum eftir að nefndin hafði haldið sinn fyrsta fund að hlutverk nefndarinnar yrði að afla gagna og fara yfir þau og fylgja verkinu eftir“.
 
 

Samstarf Jóns Böðvarssonar og Ritnefndar um sögu Akraness

Í meginmáli þessarar færslu er sagan rakin í aðalatriðum en nánari upplýsingar er að finna í neðanmálsgreinum.

Fyrsti fundur ritnefndarinnar og Jóns var haldinn um miðjan október 1987 og virtist samstarfið ganga nokkuð snurðulaust fyrsta kastið. Að vísu kom fljótlega í ljós að ritnefndin afkastaði ekki þeim fáu verkefnum sem hún tók að sér. T.d. var Gunnlaugi Haraldssyni forstöðumanni Byggðasafns Akraness og nærsveita í Görðum á Akranesi falið að taka saman lista yfir þær skriflegu heimildir sem til væru á Byggðasafninu en á næsta fundi þremur vikum síðar sagðist hann ekki hafa haft tækifæri til þess og var samþykkt að þeir Jón ynnu verkið sameiginlega síðar. Óljóst er hvort þessi listi var einhvern tíma gerður. Annað smotterí sem nefndin tók að sér í upphafi var að útbúa skrá yfir félög og félagasamtök í bænum sem kynnu að geta veitt upplýsingar, útbúinn var spurningalisti fyrir slíkt en hálfu ári síðar tilkynnt að Jón yrði að taka þetta verk að sér.

Jón gerði lista yfir háskólaritgerðir sem gætu nýst við söguritunina (um 70 talsins), stakk upp á að taka infrarauða loftmynd af Akranesi (sem hann lét gera með fjárhagsstuðningi Landsbanka Íslands og sýndi sú mynd vel merkileg ummerki fornrar akuryrkju undir Akrafjalli en engin viðbrögð nefndarinnar eru bókuð þegar hann sýndi þeim myndina), gerði nefndinni grein fyrir vinnuáætlun sinni o.s.fr.

Næsta lítið og óskipulega er bókað um verk Jóns. En sumarið 1989 vill nefndin breyta vinnutilhögun hans af því vinnan í heimildaöflun gengur hraðar en áætlað var og fer svo að skipta sér af fyrirhuguðum efnistökum í ritun: „Sýndist mönnum sitt hvað í því efni, en ákveðið var að ræða þau mál mun ítarlegar þegar nær dregur að ritun hefjist.“ (6. fundur 23. júní 1989.) Árið eftir tekur nefndin sér það bessaleyfi að breyta efnisskiptingu frá því sem kveðið var á í samningnum við Jón. Breytingin fólst í því að lengja umfjöllunartíma 1. bindis um 283 ár. Rökin fyrir þessari breytingu sjást ekki, nema ef vera skyldi að „gagnaöflun gengur betur en í upphafi var áætlað“ (5. fundur 10. okt. 1988). Eftir þessa breytingu á efnisskiptingu herðir nefndin æ meir tökin á Jóni. Nefndin virtist álíta sig verkstjóra yfir verkinu og fór að umgangast Jón Böðvarsson eins og starfsmann nefndarinnar en ekki sjálfstæðan sagnaritara.5

Frá því í októberlok 1990 þar til seint í ágúst 1991 var enginn fundur haldinn og er enga skýringu á því að finna. Fundargerðir eru ruglingslegar og óljósar og því ekki ljóst hve miklu Jón skilaði fyrir desemberbyrjun 1990 eða hvers vegna nefndin hélt ekki fund í mars 1991 þegar handrit fyrsta bindis átti að liggja fyrir.

Í ágúst 1991 gerði Jón grein fyrir hvernig bókin skiptist, var gagnrýndur fyrir efnistök og sagt að láta duga að ljósrita myndir sem honum litist á „svo nefndin viti til hvers á að taka afstöðu“. Á næstu fundum er ljóst að Jón er alltaf öðru hvoru að senda eitthvert efni eða leggja fram, óljóst er í fundargerðum hve mikið þetta efni var en má vel skiljast að nefndin var hundóánægð með það.

Eftir að ritnefndin hafði ákveðið að lengja sögutíma fyrsta bindis um rúm 280 ár frá því sem samningur kvað á um var farið að panta ákveðin umfjöllunarefni og vildi nefndin ráða hvernig umfjöllun væri. Miðað við fundargerðir settu nefndarmenn fram álit sitt munnlega á fundum og er erfitt að sjá að vinnubrögð þeirra falli að 2. gr. samnings Akraneskaupstaðar við Jón Böðvarsson þar sem sagt var um hlutverk fulltrúa bæjarins: „… meti þeir verkþátt ófullnægjandi skulu þeir tilgreina á hvern hátt honum er áfátt og skilgreina hvernig skuli úr bæta“ (feitletrun mín).6

Undir lok ágúst 1992 er verkið loksins nokkurn veginn tilbúið til útgáfu. Nefndarmenn velja titilinn, AKRANES, undirtitill skyldi síðan að vera í samræmi við efni hvers bindis. Ekki er þess getið að Jón hafi átt þátt í nafngiftinni. Hörpuútgáfan hafði gefið málið frá sér og samþykkti nefndin að mæla með drögum að samningi við Prentverk Akraness. „Valdimar Indriðason tók ekki þátt í lokafgreiðslu málsins“ segir í fundargerð enda var hann nátengdur prentsmiðjurekstrinum. (18. fundur.) Nefndin fundaði tvisvar í september og ákvað að taka tilboði Magnúsar H. Ólafssonar (arkitekts á Akranesi) í hönnun kápu og kjalar. Jón var ekki boðaður á þá fundi en hugmyndir Magnúsar voru ræddar á næsta fundi, 9. okt. 1992, sem Jón var viðstaddur.  Fljótlega eftir það fór bókin í prentun og kom út í 27. nóvember 1992.

Flugeldar á AkranesiTil að gera langa sögu stutta má segja að samskipti Ritnefndar um sögu Akraness og Jóns Böðvarssonar einkennist eftir þetta af nöldri, rexi og hótunum af hálfu nefndarinnar vegna þess að Jón skili efni seint og illa. Hann fékk heldur ekki greidda krónu eftir 1992 (raunar líklega ekkert eftir 1991) en ritnefndin þáði að sjálfsögðu áfram sín nefndarlaun fyrir fundina sem hún hélt, ýmist með sjálfri sér eða Jóni.7

Það er ákaflega undarlegt hvernig nefndin hélt dauðahaldi í Jón Böðvarsson næstu þrjú árin (1993-1996) því heimild til uppsagnar samnings Akraneskaupstaðar og Jóns var skýrt og ótvírætt bundin því að Jón uppfyllti ákveðnar skyldur innan ákveðinna tímamarka og þær skyldur uppfyllti hann ekki þegar líða tók á verkið.8 Sömuleiðis er skrítið að Jón skuli ekki sjálfur hafa sagt upp samningnum. Að vísu gerði engin grein í samningnum beinlínis ráð fyrir þeim möguleika en samningum má yfirleitt segja upp og ekkert fékk hann greitt. Það hefur þurft mikið langlundargeð til að vinna með fólki sem var orðið honum svo augsýnilega andsnúið, var það jafnvel frá upphafi. Fyrir utan það sem lesa má úr fundargerðum um hug nefndarmanna til Jóns má benda á hvernig formaður nefndarinnar, bæjarstjórinn Gísli Gíslason, notar tækifærið í minningargrein um Valdimar Indriðason til að hnýta í Jón Böðvarsson og minnist ég þess satt best að segja ekki að hafa séð ámóta dæmi.9

Þann 23. febrúar 1997 hélt ritnefndin fund þar sem formaðurinn tilkynnti að Jóni hefðu verið send samningsdrög um starfslok. (30. fundur.) Tveimur dögum síðar skrifuðu Gísli Gíslason bæjarstjóri og Jón Böðvarsson undir „Samkomulag um niðurfellingu samnings dags. 31. ágúst 1987 um ritun sögu Akraness.“ [Viðbót 16. maí: Um þetta vinnulag sagði Gísli Gíslason á umræðuþræði Akraneskaupstaðar 23. febrúar 2005: „Ekki ætla ég að fara að rifja hér upp ritferil Jóns Böðvarssonar - en til að fyrirbyggja misskilning þá óskaði hann eftir lausn frá
samningi sínum og því var það ekki á hendi bæjarins að halda við þann samning.“ Ég get ekki séð af fundargerðum að Jón hafi óskað eftir lausn frá samningi sínum en aftur á móti er augljóst af því sem ofan var rakið og neðanmálsgreinum að Gísli gerði sitt besta til að losna við Jón og tókst það að lokum. Líklega hefur hann haft fullan stuðning ritnefndarinnar við þá iðju.]

 

Starfslokasamningur Jóns, greiðslur og kostnaður við útgáfu Akranes. Frá landnámi til 1885

Í samkomulaginu sem skrifað var undir var kveðið á um að „allt sem unnið hefur verið við ritun samkvæmt samningum [verður] eign Akraneskaupstaðar þ.m.t. gögn í vörslu Jóns sem hann hefur safnað vegna verkefnisins“ (2. gr.) og „Fyrirliggjandi handritsdrög að öðru bindi bókarinnar Akraness verður eign Akraneskaupstaðar samkvæmt samkomulagi þessu og hefur Akraneskaupstaður rétt á að fara með það handrit að vild í samræmi við lög um höfundarrétt. Nær heimild kaupstaðarins til þess að nota handritið allt eða hluta þess og að gefa það út án sérstakrar greiðslu til Jóns og gerir hvorugur aðila kröfur á hendur hinum vegna þess.“ (3 gr.)10

Greiðslur til Jóns Böðvarssonar fyrir vinnu við ritun sögu Akraness hef ég ekki nákvæmlega sundurliðaðar en svo virðist sem honum hafi verið greitt við undirritun samnings árið 1987, árið 1988, árið 1990 og árið 1991.11 Akraneskaupstaður skuldbatt sig til að kaupa eintök af Akranes. Frá landnámi til 1885 af Prentverki Akraness fyrir 550.000 kr. haustið 1992. Heildarkostnaður Akraneskaupstaðar vegna ritunar og útgáfu á sögu Akraness á árunum 1987-1992 er upphæð sem uppreiknuð á núvirði er rétt rúmlega 15 milljónir og 223 þúsund krónur. Þetta er, skv. mínum upplýsingum, allur kostnaður við verkið fyrir utan ritnefndarlaun frá upphafi til ársins 1997, þegar nefndin fór að starfa með Gunnlaugi Haraldssyni, nýjum sagnaritara.
 
 

Bókin Akranes. Frá landnámi til 1885

Ritnefnd um sögu Akraness ákvað að samið yrði við Prentverk Akraness um útgáfu og lá mjög á svo bókin næði að koma út árið 1992 sem var afmælisár kaupstaðaréttinda bæjarins. Það hafðist og bókin kom út 27. nóvember 1992.12

Saga AkranessMér finnst þetta óvenju ljót bók, ef ég á að segja eins og er. Kápan (smelltu á litlu myndina til hliðar til að sjá stærri) er afar óaðlaðandi. Akrafjallið er nánast „geðbilað að sjá“ eins og skáldið sagði, í ælugrænum og brúnum litum og rauði liturinn á Akranes tónar einstaklega illa við hina litina. Einhverjar svarthvítar pennateikningar hafa verið límdar ofan í kápumyndina, í algeru ósamræmi við fjall, himin og haf og til að kóróna smekkleysið eru límdar illa undirlýstar ljósmyndir af Langasandi á forsíðu, og Kútter Sigurfara í dumbungi á baksíðu.

Myndir sem skreyta textann virðast annað hvort ljósritaðar eða ljósmyndaðar úr öðrum bókum en ekki hafa verið unnið með frummyndir. Þær eru óskýrar og grófkornóttar. Tilvísanir í myndaskrá styðja þetta, t.d. „Úr Heynesbók - Skip sett fram. Mynd tekin úr Sögu Íslands IV., 144 blaðsíða“ eða „Sölvafjara. Ljósmyndari: Guðmundur Þ. Ólafsson. Úr  Íslenskum sjávarháttum I., 223. blaðsíða.“ Sumt er dálítið sorglegt að sjá, t.d. mynd á s. 267 og tilvísunina „Hallgrímur Jónsson hreppstjóri. Mynd tekin úr Sögu Alþingis II, 90. blaðsíðu“ þegar nákvæmlega sama mynd er í Akraneskirkju 1896-1996 ásamt ágripi af sögu Garða og Garðakirkju á Akranesi eftir Gunnlaug Haraldsson, útg. 1996, s. 87, þar sem kemur fram í myndaskrá að Byggðasafnið í Görðum á frummyndina sjálfa!

Ég nefni þessi atriði til að benda á að það sem snéri að Ritnefndinni, Akraneskaupstað og Prentverki Akraness í útgáfu bókarinnar virtist unnið af litlum metnaði, jafnvel hroðvirkni.

Gísli Gíslason skrifaði formála að bókinni og segir þar m.a.: „Nú er að nýju ráðist í ritun sögu Akraness með þeim efnistökum sem Jón Böðvarsson hefur valið og mun velja hverju hinna þriggja binda sem ætlun er að gefa út.“ (s. 8.) Eftir að hafa lesið gegnum fundargerðirnar finnst mér þessi staðhæfing um val Jóns nú hljóma eins og hver annar brandari. Í aðfaraorðum Jóns segir: „Ritnefnd hefur starfað með mér og hafa allir nefndarmenn haft áhrif á bókartexta er birtist hér. Talvert öðru vísi væri hann hefði nefndin legið á liði sínu. Skoðanir reyndust skiptar um einstök efnistök og áherslur en samstarfsvilji slíkur að eining varð um allar niðurstöður. Ég þakka ritnefnd fyrir gagnlegar athugasemdir og ábendingar meðan ritsmíð þessi var í vinnslu.“ (s. 9). Svo þakkar Jón ýmsum utan ritnefndar fyrir yfirlestur, prófarkalestur og ráðgjöf og telur loks upp hóp manna, þar á meðal Gunnlaug Haraldsson og Valdimar Indriðason, sem „sömdu nokkra myndatexta“. (s. 9-10.)

Of langt mál yrði að telja hér upp efnisþætti í þessari 336 síðna bók en bent á að þeir eru raktir í stórum dráttum í ritdómum sem vísað er í. Það væri nær að líta á efnisþættina síðar, til samanburðar, þegar bækur hins sagnaritarans, Gunnlaugs Haraldssonar, líta dagsins ljós eftir rúma viku. Kann að verða fróðlegt að bera saman textann því Gunnlaugur sá ástæðu til að skrifa um sama tímabil og Jón gerði skil (og reyndar hafði Ólafur Bj. Björnsson fjallað um suma þætti þess enn áður). Samanburður á vel auglýstum íburði nýju útgáfunnar, sem er kostaður af Akraneskaupstað, og þeirrar fátæklegu umgjörðar sem texta Jóns Böðvarssonar var búinn verður líka fróðlegur.

Ritdómar um Akranes. Frá landnámi til 1885 voru fremur lofsamlegir. Sagan þótti fróðleg, vera lipurlega skrifuð, sýna yfirgripsmikla þekkingu höfundar, tengja Akranes vel við sögu þjóðarinnar o.fl. Það sem fundið var að í blaðadómum var helst að höfðingjar fengju of mikið vægi og of lítið væri fjallað um alþýðu manna eða að bókin væri ekki nógu fræðileg.13

Jón Þ. Þór var einmitt sá sem fann að þessu síðarnefnda í blaðadómi og hann skrifaði seinna ritdóm um bókina í Sögu. Tímarit Sögufélags 1993, s. 273-275. Hann byrjar á að nefna að Jón noti nýstárlega aðferð í byggðasöguritun og á þar við að Jón skrifi söguna fremur sem safn þátta en samfellda byggðasögu. „Höfundur leggur sig lítt eftir því að rekja sögu sveitarinnar í smáatriðum á fyrri öldum …“, segir Jón Þ. Þór og finnur síðan að því að Jón Böðvarsson hafi ekki gaumgæft frumheimildir nægilega, einkum fornbréf og annála. En hann getur þess að þetta sé „í samræmi við það sem segir í inngangi, að ritinu sé ekki ætlað að vera fræðileg úttekt, heldur eigi það aðeins að leggja grunn að sögu Ytri-Akraneshrepps og síðan Akraneskaupstaðar.“ Jón Þ. Þór er ekki sáttur við þetta markmið heldur telur að „nákvæm greining á lífi, kjörum og lífsháttum fyrri alda karla og kvenna [hefði] vafalaust verið vænlegri til að efla lesendum skilning á byggð á Akranesi nútímans en frásagnir af kænsku Þorleifs Þórðarsonar og veldi Stefánunga. Sú rannsókn hefði kostað mikla þolinmæði, ekki síst vegna þess hve óaðgengilegar margar undirstöðuheimildir sögu vorrar eru, en vafalaust skilað meiri feng.“ 

En Jón Þ. Þór segir síðan að kaflinn um sögu höfðingja á Görðum á Sturlungaöld sé „bráðskemmtilegur“ og að þar „setur Jón fram ný sjónarmið, túlkar sögu þess mikla róstutímabils á annan hátt en áður hefur verið gert og bregður skemmtilegri birtu yfir sögusviðið. Sama máli gegnir að nokkru leyti um kaflann um afkomendur Þórðar lögmanns Guðmundssonar og um útgerð og umsvif Brynjólfs biskups.“

Niðurstaða Jóns Þ. Þór er að „rit þetta sé á margan hátt fróðlegt og á köflum bráðskemmtilegt aflestrar. Það uppfyllir hins vegar ekki ströngustu kröfur sem gera verður til fræðirita um íslenska byggðasögu.“14
 
 
Fyrri færslur:

Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldri búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, „Framtakssemi og frumskógarlögmál“

Framhaldsfærslur:

Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …
 
 
 


1 Halldór Jörgensen lést snemma vors 1988 og sæti hans tók  Ólafur J. Þórðarson.

2 Kona Gísla og Hrönn eru systradætur. Tengslin milli Hrannar og Gunnlaugs eru ekki augljós. En þau áttu það þó sameiginlegt að hafa numið sín fræði í Lundi í Svíþjóð, líklega þó ekki á sama tíma. Fjölskyldutengsl við alþýðubandalagið verða ekki rakin hér.

3 Leó er mágur Gísla Gíslasonar og þau Leó og Hrönn eru systrabörn. Tengslin í yngri blokkinni ritnefndarinnar (sem voru Gísli, Leó og Hrönn) urðu því enn nánari 1990 og virtist engum þykja neitt athugavert við það. Þau tengsl vörðu lengi því Gísli Gíslason bæjarstjóri var formaður Ritnefndar um sögu Akraness til 2006. Þá hvarf hann jafnt úr ritnefnd sem bæjarstjórastóli. Hrönn Ríkarðsdóttir hvarf úr ritnefndinni árið 2002. Hún varð formaður Menningarmála-og safnanefndar bæjarins í vetrarbyrjun 2003 og hefur setið í bæjarstjórn fyrir Samfylkinguna frá 2006 til dagsins í dag. Leó Jóhannesson situr enn í ritnefndinni.

4 Munnleg heimild: Leó Jóhannesson 6. maí 2011.
 

5 Á 7. fundi, 23. ágúst 1990 „varð nefndin sammála um [feitletrun mín] að ganga út frá eftirfarandi skiptingu:
  a) Fyrsta bindi: frá landnámi til 1885.
  b) Annað bindi: frá 1885 - 1941
  c) Þriðja bindi: frá 1941.“

Það er augljóst að Ritnefnd um sögu Akraness hafði ekkert umboð til að fara að ritstýra verkinu á þennan hátt eða hefja sjálfa sig á stall yfir söguritara miðað við samninginn sem Akraneskaupstaður og Jón Böðvarsson höfðu gert með sér. Hlutverk ritnefndar var „umsjón með verkinu“ og að „meta verkþætti“ skv. samningi en ekki ritstjórn og fyrirskipanir.

Á næsta fundi er bókað: „Nefndin var sammála um framhald vinnu við verkefni sitt [feitletrun mín]:
  a) Jóni Böðvarssyni var falið að hefja ritun fyrsta bindis með það sem markmið að ritun þess verði lokið í marsmánuði 1991.
  b) Stefnt verði að útgáfu 1. bindis í janúar 1992.
  c) Ritun annars bindis hefjist á árinu 1991.
  d) Stefnt verði að útgáfu annars bindis árið 1992.“
Tímasetningar eru í samræmi við samninginn sem var gerður við Jón en nú er verkið orðið verk ritnefndarinnar. Jóni er sett fyrir að senda fundarmönnum fyrstu kaflana til yfirlestrar fyrir desemberbyrjun. (8. fundur, 30. okt. 1990)

Svo kemur dularfull þögn um verkið í tæpt ár.
 

6 Sumar athugasemdir og spurningar eru beinlínis hlægilegar og sýna kannski fyrst og fremst fáfræði nefndarmanna. Á fundi 20. ágúst 1991 (9. fundi) gagnrýndi Valdimar Indriðason að hlutur fornra heimilda sé of viðamikill og spurði „hvort fjalla eigi um sögu Akraness sem landnámsbæjar eða Akranes sem bæ. Einnig vildi hann vita hvernig Jón hygðist byrja söguna.“ Þetta er undarleg spurning í ljósi þess að verið var að ræða fyrsta bindið, tímabilið frá landnámi til 1885. Varla hefur Valdimar talið að „bærinn Akranes“ hafi staðið um aldir eða verið í upphafi „landnámsbær“? „Leó spurði um kaflaskipti og hve margar blaðsíður væru í hverjum kafla.“ Jón gerði á þessum fundi grein fyrir skipulaginu, svarar því „að í bókinni yrðu um 10 kaflar sem yrðu að meðaltali 15-30 bls. hver“ og andmælti Valdimari með því að hamra á heimildagildi fornra rita og að þáttur þeirra væri síst of stór.

Byrjað var að ræða útgáfumál á sama fundi. Bragi Þórðarson eigandi Hörpuútgáfunnar mætti á fundinn og Gísli sagði að nefndin þyrfti næsta hluta handritsins hið bráðasta.

Nefndin fundar síðan nokkuð ört, ræðir um textann með og án Jóns Böðvarssonar og ákveður hvernig myndefni eigi að vera, án samráðs við hann. (Sjá 11. fund, 16. sept. 1991.) Í október sama ár er rætt um efni og útgáfumál 1. bindis, án Jóns, og bókað „Enn vantar heildarsýn yfir verkið.“  18. nóvember er ljóst að Jón hefur sent drög að handriti og „Nefndarmenn greindu frá afstöðu sinni til þeirrar vinnu sem þegar hefur verið innt af hendi og fannst verkið ganga of hægt. Ljóst væri að úttgáfudagur í janúar væri úr sögunni og væri það slæmt. Einnig var þess getið að nauðsynlegt væri að hafa í 1. bindi kafla um útgerð Brynjólfs biskups og um skiptingu Akraneshreppanna. Ákveðið var að Jón myndi bæta tveimur framan nefndum köflum við og ljúka vinnu við handritið fyrir jól. Nauðsynlegt er að stytta ýmsa kafla verulega og lagfæra aðra kafla til þess að nefndin geti síðan farið yfir heildstætt handrit.“ (13. fundur nefndarinnar, 1991.)

Snemma í janúar 1992 var fundað um „framlagt handrit I bindis“, án Jóns. Ekki kemur fram hvenær handritinu var að fullu skilað en ljóst er að nefndarmenn hafa þá ekki farið yfir það. Tæpum hálfum mánuði seinna var fundað með Jóni, nefndarmenn komu á framfæri athugasemdum og hin sígilda umræða nefndarinnar um efni og efnistök fór fram, án þess að bókað sé hvað rætt var.

Jón virðist endurskrifa kafla ofan í nefndina af stöku jafnaðargeði en alltaf er samt eitthvað að. Þann 13. mars 1992 var enn „farið yfir ýmis atriði í fyrirliggjandi handriti. Kaflann um Lögmannsættina má stytta og kveða skýrar að orði um ýmis atriði svo sem um Akranes á upplýsingaöld, Guðnýju Böðvarsdóttur o.fl.“ Sjálfri er mér raunar óskiljanlegt hvernig „kveða má skýrar að orði um Guðnýju Böðvarsdóttur“, sem einkum er þekkt fyrir hverjum hún var gift, við hvern hún hélt og hverjir voru synir hennar en næsta fátt vitað um hana sjálfa sem persónu. Um leið og Jón gerði karlmönnum í lífi Guðnýjar (sem allir bjuggu í öðrum sveitum nema pabbi hennar) betri skil væri hann fallinn í gryfjuna „of viðamikill hlutur fornra heimilda“ sem ekki tengdist Akranesi beint, hvorki sem „bæ“ né „landnámsbæ“. Samstarf sagnaritara við nefndina hefur verið vandasamt.
 

7 Ritnefndin hélt 8 fundi á árunum 1993-1996. Allir ritnefndarfulltrúar fengu greitt fyrir hverja fundarsetu nema formaður nefndarinnar, þ.e. bæjarstjórinn Gísli. Í fundargerðum kemur fram að Jón skilar smám saman handriti að öðru bindi sögunnar og endurvinnur kafla í samræmi við óskir nefndarinnar en sem fyrr eru skil Jóns afar ónákvæmt bókuð í fundargerðum nefndarinnar. Þann 15.7. 1993 kemur fram að Gísli Gíslason og Valdimar Indriðason hafa fundað prívat með Jóni en ekki kemur fram hvað þeim fór á milli. Á þeim fundi er bókað: „Sögunefndin lýsir yfir mikilli óánægju með framgang verksins hjá söguritara og felur formanni að gera bæjarráði grein fyrir stöðu mála … ritnefndin leggur til að söguritara verði skrifað og það skilyrði sett að kaflaskiptingu 2. bindis og fyrsta hluta efnis verði skilað til nefndarinnar fyrir 10. september n.k. Ritnefndin getur ekki fallist á það sjónarmið söguritara að útgáfu 1. bindis verði seinkað.“ (22. fundur.) Vorið eftir er ljóst að Jón hefur skilað einhverju því talað er um að viðbótarefni vanti en jafnframt er bókað: „Saga vinnu við 2. bindi: Formaðurinn lýsti óánægju nefndarmanna með þau vinnubrögð sem viðhöfð hafa verið. Aðrir nefndarmenn tóku undir orð formanns.“ (23. fundur.) Mánuði síðar er bókað að meginuppistaða 2. bindis sé nánast komin, í nóvember hefur Jón sent 70 blaðsíður í viðbót en Gísla Gíslasyni er falið að gera bæjarráði grein fyrir stöðunni og óska eftir heimild til að gera breytingar á samningi um ritun sögunnar. Tæpu ári síðar, 5. september 1995, fundaði ritnefndin næst og lá þá fyrir handrit að öðru bindi sem nefndin og Jón voru sammála um að væri ekki tilbúið til útgáfu og vinna þyrfti talsvert í einstökum atriðum; „nefndarmenn lýstu skoðun sinni á handritinu og einstökum atriðum. Söguritari greindi frá sinni hlið mála.“ (26. fundur) Í september 1995 fór nefndin yfir hluta 2. bindis og var Leó falið að ganga frá athugasemdum um einstök atriði. (27. fundur.) Ári síðar, í sept. 1996 er nefndin enn í sömu sporum: „Farið var yfir ýmis atriði varðandi fyrirliggjandi handrit og gerðar ýmsar athugasemdir við það.“ En á sama fundi var rætt um útgáfu og ákveðið að Jón Böðvarsson léti safna myndum í ritið. (28. fundur) Loks hefur einhver ákvörðun verið tekin á fundi nefndarinnar 10. nóv. 1996 en fundargerð er, eins og margar fyrri, á stofnanakenndu hrognamáli og erfitt að ráða í hvað raunverulega gerðist á þessum fundi. M.a. er samþykkt að fela Gísla Gíslasyni að ræða við söguritara „á grundvelli umræðanna [svo] á fundinum“ og næst skuli fundað „þegar þær viðræður hafi átt sér stað.“ Söguritari hefur ekki skilað fullbúnu handriti og ekkert verður af útgáfu 2. bindis á þessu ári. „Ítarleg umræða varð meðal nefndarmanna um stöðu mála og kom enn fram almenn óánægja með framgang mála.“

Á 30. fundi nefndarinnar, 23. febrúar 1997, gerði Gísli Gíslason grein fyrir „stöðu mála gagnvart Jóni Böðvarssyni og að honum hafi verið send samningsdrög um starfslok.“ Á þann fund mætti Gunnlaugur Haraldsson, nýr sagnaritarakandídat Ritnefndar um sögu Akraness.
 

8 Í 4. gr. samningsins bæjarins við Jón segir: „Hafi handritið ekki verið afhent fyrir umsaminn tíma … getur verkkaupi gefið verksala frest í minnst 30 daga og síðan rift samningnum hafi handriti ekki verið skilað að fresti liðnum.“ Þessu ákvæði hefði mátt beita fyrir útgáfu 1. bindis, en handriti að 1. bindi skyldi skilað fyrir 1. apríl 1991, skv. 3. gr. Hugsanlega hefur breytingin sem nefndin gerði sjálf á verkþáttaskipulaginu, þ.e.a.s. sú að krefjast þess að 1. bindið næði til ársins 1885 í stað ársins 1602 sem um var samið að einhverju leyti ómerkt þennan samning? En bærinn gerði aldrei nýjan samning svo það er ótrúlegt að svo hafi verið. Ég fann engar heimildir fyrir því að Jón Böðvarsson hefði haldið eða látið halda allt að 6 opinbera fyrirlestra um söguritunina hér á Akranesi (sem kveðið var á um í 6. gr. samningsins) og man ekki eftir slíkum fyrirlestrum sjálf. Það er aldrei minnst á þessa fyrirlestra í fundargerðum ritnefndar og óljóst hvort fyrirlestrahald heyrði undir hana. Hvort Akranesbær lét tryggingarvíxilinn falla á Jón (eða hótaði honum því), á þeim forsendum að hann efndi ekki skyldur sínar (sbr. 8. gr. samningsins), veit ég ekki, um það segja fundargerðir ritnefndar ekkert.
 

9 „Fundir þessarar nefndar [Ritnefndar um sögu Akraness] verða mér alltaf minnisstæðir. Annars vegar vegna feikilegrar þekkingar Valdimars á sögu bæjarins og áhuga hans á að minna yngri samferðamenn sína á hve merkileg sú saga er og hins vegar vegna orðaskipta hans og söguritara þegar Valdimar vildi að afköst söguritara væru meir en raun ber vitni. Nú er það okkar, sem sjáum á bak Valdimar, að knýja söguritara úr sporunum. Af hálfu sögunefndarinnar er send kveðja og því heitið að ljúka því verki, sem Valdimar vildi að yrði skilað til bæjarbúa.“ Minningargrein Gísla Gíslasonar bæjarstjóra um Valdimar Indriðason, Morgunblaðinu 18. janúar 1995, s. 36. [Feitletun mín. Bæjarstjórinn fer undarlega með orðtakið „að knýja sporum“.]
 

10 Af handriti Jóns, sem þarna er kallað „drög að handriti“ er það að frétta að 4. maí 1997 sagðist Gísli Gíslason hafa „aflað söguritara [Gunnlaugi Haraldssyni] ýmissa gagna frá Jóni Böðvarssyni, þ.m.t. drög að handriti 2. bindis.“ (31. fundur Ritnefndar um Sögu Akraness). Þar sem handrit Jóns Böðvarssonar hefur ekki skilað sér til Héraðsskjalasafns Akraness reikna ég með að það sé enn í fórum Gunnlaugs.
 

11 Jón fékk 554.000 kr. við undirritun 1987 og 1988 fékk hann 574.000 kr. (upphæð áfangagreiðsla var verðtryggð, sjá umfjöllun um samning Akraneskaupstaðar og og Jóns í síðustu færslu). 1989 var ekkert greitt. Árið 1990 er heildarkostnaður við söguritunina um 2 milljónir og níu þúsund og gengur ekki upp að það sé fjórföld greiðsla til Jóns. Þetta hljóta að vera þrjár greiðslur  til hans og annar kostnaður sem ég sé ekki skv. fundargerðum hver gæti verið. Árið 1991 er heildarkostnaður við verkið 1.652.595, sem gætu verið tvöföld greiðsla til Jóns auk einhver annars kostnaðar. Árið 1992 er heildarkostnaður 841.955 kr. Þar af eru 550.000 kr. greiðslur fyrir eintök af Akranes. Frá landnámi til 1885 sem Akraneskaupstaður skuldbatt sig til að kaupa af Prentverki Akraness. Greiðsla til Jóns getur ekki verið innifalin í því sem eftir er og hlýtur sú upphæð að hafa verið greidd fyrir annað sem tengdist útgáfunni. Af þessu dreg ég þá ályktun að Jón hafi fengið greiddar 7 greiðslur af þeim 11 sem um var samið í upphafi. Árin 1993-1996 er enginn kostnaður Akraneskaupstaðar af söguritun bókfærður. Upplýsingar um kostnað og uppreikning upphæðanna á núvirði eru fengnar frá Akraneskaupstað þann 4. maí 2011.
 

12  Í „Samningi um útgáfu á Sögu Akraness“, sem Akraneskaupstaður og Prentverk Akraness undirrituðu 2. september 1992, segir: „Akraneskaupstaður skal skila fullbúnu handriti, myndum, kortum og annast hönnun á kápu og kili. Ritnefnd um Sögu Akraness og söguritari annast myndasöfnun og prófarkalestur og ber Akraneskaupstaður kostnað af þeim þætti. Útgefandi greiðir annan kostnað við útgáfuna … Uppsetning bókarinnar og útlit skal unnið í samráði við söguritara og ritnefnd um Sögu Akraness.“ (1. grein.) „Akranesbær skuldbindur sig til að kaupa eintök af hverju bindi bókarinnar … fyrir sem nemur 550.000 kr. …[og] heitir að dreifa ekki eintökum af bókunum fyrr en öll bindin eru komin út.“ (3. gr.) Þetta gekk vitaskuld ekki eftir, þ.e. einungis fyrsta bindið af þeim þremur sem samið var um útgáfu á kom út. Í 3. grein samningsins segir: „Upplag bókarinnar skal vera a.m.k. 1000-1500 eintök og skal við útgáfuna miðað við að brot bókarinnar og uppsetning verði með svipuðum hætti og safn til iðnsögu á Íslandi.“ [Átt er við ritröðina Safn til iðnsögu Íslendinga.]
 

13 Sjá: Gunnlaugur A. Jónsson. „Af höfðingjum á Skaganum“ í DV 17. des. 1992; Sigurjón Björnsson. „Upphaf Akranessögu“ í Morgunblaðinu 13. feb. 1993; Jón Þ. Þór. „Brautryðjendur og framkvæmdamenn“ í Tímanum 11. mars 1993 og Ólafur Ásgeirsson. „Höfðingjar sitja á Akranesi“ í Morgunblaðinu 5. maí 1993.
 

14 Á Íslenska söguþinginu í lok maí 1997 var m.a. fjallað um hvernig skyldi rita byggðasögu. Þar komst Jón Hjaltason að þveröfugri niðurstöðu um hvernig eigi að skrifa byggðasögu við Jón Þ. Þór í þessum ritdómi. Jón Hjaltason telur að best sé að fjalla um valda einstaklinga en forðast smásmugulega upptalningu jafnvel þótt sagnfræðingar kunni að telja slíkt fræðilegt. Hann sagði: „… ber okkur að vanda málfar og textagerð langt umfram alla þá áherslu sem lögð er á tilvísanaskrár. Auðvitað er krafan um allslags skrár lítið annað en eigingjörn ósk okkar sagnfræðinga um að félagar okkar leggi okkur upp í hendur heimildir að eigin verkum. … Langflestir lesenda hirða ekkert um slíkar skrár, áhugi þeirra beinist allur að kjarnatriðinu, sem er textinn sjálfur, hvort sem hann birtist í grein eða bók. Ritverkið er ekki dæmt eftir neðanmálsnótum heldur þeirri skynsemi sem höfundur sýnir, ritfærni og hvernig honum tekst að færa viðfangsefnið að veruleika lesandans. Þá á ég við þá einföldu staðreynd sem ég hef imprað á áður, að þegar skrifuð er saga þorps eða borgar, héraðs eða þjóðríkis, verður höfundurinn að átta sig á því að það voru einstaklingar er skópu þá sögu … Ég hef stundum sagt … að besta kaupstaðasagan væri ævisaga nokkurra vel valinna einstaklinga.“ (Jón Hjaltason. 1997. „Hvernig á að skrifa byggðasögu?“ Íslenska söguþingið 1997. Ráðstefnurit II. Sagnfræðistofnun Háskóla Íslands og Sagnfræðingafélag Íslands, Reykjavík 1998, s. 293.)

Ég get skoðunar Jóns Hjaltasonar hér vegna þess að hann hefur sjálfur uppskorið mikið hrós fyrir Sögu Akureyrar sem hann hefur skrifað í mörgum bindum og vegna þess að Gunnlaugur Haraldsson nefndi einmitt hluta Sögu Akureyrar sem æskilega fyrirmynd þegar hann tók við sagnarituninni af Jóni Böðvarssyni árið 1997.
 
 
 
 

Ummæli (2) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

8. maí 2011

Framtakssemi og frumskógalögmál

Saga Sögu Akraness II 
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“ 
 

Titill þessarar færslu er bein tilvitnun í titil greinar Gunnlaugs Haraldssonar sem birtist í Dögun í des. 1980, sjá nánar í tilvitnanaskrá hér að neðan. [Ég fjarlægði gæsalappir því þær koma í veg fyrir að færslan birtist sé smellt á krækju á blogggátinni, hvers vegna veit ég ekki.] Þetta er að mörgu leyti lýsandi titill fyrir þá sögu sem hér er að hefjast en á þó hugsanlega betur við síðari færslur. Ég þekki Gunnlaug Haraldsson ekki neitt en sé að hann hefur verið framsýnn maður.

Ég bætti dálitlum upplýsingum við lok síðustu færslu, þ.e. um söfnun Þorsteins Jónssonar og afraksturinn af svæðisrannsóknum sunnan Skarðsheiðar. Þetta er smotterí en kosturinn við skrif á vef er að þau skrif má laga og leiðrétta jafnóðum, ólíkt greinum á pappír. Ég vonast líka til að fá leiðréttingar og athugasemdir við bloggfærslur um Sögu Sögu Akraness því upp úr þeim hyggst ég skrifa grein og er því vel þegið að rangfærslur hafi sem flestar verið leiðréttar þegar að því kemur.
 

Pólitík að tjaldabaki

Þegar ég fór að grúska í upphafi að ritun sögu Akraness hinni nýrri komu í ljós alls konar þræðir sem lágu í ýmsar áttir og krulluðust saman hér og þar og augljóst að hægt væri að skrifa langa sögu um þá. Það geri ég ekki en finnst nauðsynlegt að geta nokkurra atriða og persóna sem kunna að hafa haft áhrif á gang sögunnar. Eitt sem skiptir talsverðu máli þegar ritun sögu Akraness hefst er hvernig menn röðuðust í pólitískar fylkingar og létu pólitík stjórna skoðun sinni á mönnum og málefnum.  

Sauðfé við AkrafjallUpp úr 1980 virðist Alþýðubandalaginu hér í bæ hafa vaxið mjög fiskur um hrygg. Ég fletti gegnum bunka af Dögun, blaði Alþýðubandalagsins á Akranesi, og Vesturlandsblaðinu, málgagni Alþýðubandalagsins á Vesturlandi, frá því laust fyrir 1980 og svolítið fram yfir 1990. Kosturinn við þessi blöð var einkum að þau komu sjaldan út á ári og ég hafði mjög gaman af því að skoða myndirnar af fólkinu, sama fólkið er nefnilega símyndað í blöðunum tveimur og skemmtilega hárprúðir margir á þessum tíma. Umfjöllunin var yfirleitt of hið sama far og í þeim Þjóðvilja sem ég ólst upp við.

Fólkið sem einna mest er myndað og talað við í þessum blöðum, líklega framvarðasveit Alþýðubandalagsmanna hér í bæ, hefur sumt snúið sér að öðru en sumt er enn í pólitík. En merkilegt er hve fáar persónur koma fyrir aftur og aftur. Þeir karlar sem virtust einna mest áberandi voru: Guðbjartur Hannesson, Jóhann Ársælsson, Engilbert Guðmundsson, Sveinn Kristinsson og Gunnlaugur Haraldsson. Nokkrar konur komu einnig talsvert oft fyrir í blöðunum, einkum Ragnheiður Þorgrímsdóttir, Guðrún Geirsdóttir og Ingunn Jónasdóttir. Síðastnefndi karlinn, sem er aðalpersóna þessarar sögu, Gunnlaugur Haraldsson, var ritstjóri Dögunar 1979-87 og ritstjóri Vesturlandsblaðsins 1982-87, auk þess að vera formaður Alþýðubandalagsfélags Akraness og nágrennis árin 1980-82.

Mér fannst líka merkilegt að sjá hvernig þeir sem oftast komu við sögu í þessum blöðum röðuðu sér nánast kerfisbundið í hvers konar störf sem tengdust skólum, menntun, söfnum eða annarri menningu hér í bæ, annað hvort í nefndir eða innan stofnananna sjálfra, helst í stjórnunarstöður, fyrir utan það auðvitað að reyna að komast til valda í bæjarstjórn.

Þeir Engilbert Guðmundsson og Gunnlaugur Haraldsson virðast hafa verið miklir samherjar laust upp úr 1980. A.m.k. eyðir Engilbert vel rúmlega heilli síðu (af takmörkuðum síðufjölda) í að verja Gunnlaug eftir að sá fyrrnefndi hafði í Dögun veist annars vegar að tannlækni bæjarins fyrir að byggja of stórt hús (að mati stéttvísra Alþýðubandalagsmanna þeirra tíma) og hins vegar að nýráðnum forstöðumanni dvalarheimilis aldraðra fyrir að vera af alkunnri íhaldsætt. Vörn Engilberts byggist aðallega á því að þá sem gagnrýndu Gunnlaug skorti húmor og fer hann um það mörgum orðum. Sjálfur hafði Gunnlaugur skrifað álíka langa grein til að bera af sér sömu sakir ári áður (blaðið kom sjaldan út) og segir þar m.a.: „Það er allavega augljóst mál, að launþegarhópar búa við mismunandi aðstöðu til að semja um kaup sitt og kjör. Tannlæknar eru aðeins hluti þess hóps, sem greinilegra forréttinda nýtur við verðlagningu á þjónustu sinni við neytendur. Gæti t.d. ekki verið að svo horfi víðar í heilbrigðiskerfinu, dómskerfinu og öðru opinberu kerfi? Og að ekki sé nú minnst á þá aðila sem sjálfstætt starfa og óþarft er að telja upp hér.“1
 
 

Ingimundur Sigurpálsson var ráðinn bæjarstjóri Akraneskaupstaðar árið 1982, einkum með fulltingi sjálfstæðismanna í bæjarstjórn. Ráðning hans dró dilk á eftir sér því fulltrúi Alþýðubandalagsins, Engilbert Guðmundsson, sleit þess vegna meirihlutasamstarfi við Sjálfstæðismenn og Alþýðuflokk. Bæjarstjórnin hélt eigi að síður velli og Ingimundur var bæjarstjóri næstu fjögur árin. Þegar nýr meirihluti Alþýðubandalags og Framsóknarflokks tók við völdum vorið 1986 samþykktu Alþýðubandalagsmenn áframhaldandi ráðningu hans, hugsanlega til að geta myndað meirihluta með Framsóknarflokknum. Fulltrúar Alþýðubandalagsins í meirihlutabæjarstjórn 1986 voru Guðbjartur Hannesson og Jóhann Ársælsson og varafulltrúi var Gunnlaugur Haraldsson. Engilbert Guðmundsson hóf störf við alþjóðleg þróunarmál um líkt leyti og hætti afskiptum af stjórnmálum.

Virtist Ingimundur reikna með að starfa áfram sem bæjarstjóri, a.m.k. var hann þess sinnis seint í september 1986, en vorið eftir réði hann sig sem bæjarstjóra í Garðabæ. Þrír umsækjendur sóttu um auglýsta stöðu bæjarstjóra á Akranesi, óskuðu allir nafnleyndar. Þann fyrsta september 1987 var Gísli Gíslason ráðinn sem nýr bæjarstjóri en hann hafði áður starfað sem bæjarritari á Akranesi um tveggja ára skeið.

Sinn síðasta dag í embætti skrifaði Ingimundur undir samning við Jón Böðvarsson þar sem Jóni var falið að rita sögu Akraness.
 

Jón Böðvarsson
 

Kýr við AkrafjallJón Böðvarsson (1930-2010) fæddist í Reykjavík en báðir foreldrar hans voru úr Innri-Akraneshreppi. Jón var á hverju sumri í sveit hjá afa sínum í Gerði í Innri-Akraneshreppi til 16 ára aldurs. Hann þekkti því mætavel til á þessum slóðum. Jón var cand.mag. í íslenskum fræðum og einnig menntaður í sögu. Hann var löngu landsþekktur árið 1987, hafði getið sér afar gott orð sem kennari, landvörður og leiðsögumaður, var einn af frumkvöðlunum í stofnun áfangaskóla og fjölbrautaskóla, var skólameistari FS, fyrsti heiðursfélagi Skólameistarafélags Íslands og margt fleira. Árið 1987 starfaði Jón sem ritstjóri Safns til Iðnsögu Íslendinga. Sá bókaflokkur var hans eigin hugmynd, hann fékk leyfi frá skólameistarastörfum í FS 1985 til að hrinda hugmyndinni í framkvæmd og kom fyrsta bókin út 1986, sú næsta 1988 og alls urðu þær 12 talsins. Þegar litið er yfir æviferil Jóns Böðvarssonar virðist hann hafa verið maður sem átti nokkuð gott með að vinna með öðrum, vera góður leiðtogi og afar hugmyndaríkur. Hann hafði trausta menntun í íslensku og sögu og feikilega reynslu af ferðum um landið og utan lands. Á yngri árum var Jón virkur í Fylkingunni og Sósíalistaflokknum en hafði þegar hér var komið sögu hætt afskiptum af pólitík.

Á hinn bóginn hafði Jón ekki mikið skrifað sjálfur þegar hann var ráðinn til að skrifa sögu Akraness. Hann hafði séð um útgáfu á ýmsum ritum, var lunkinn við að ritstýra öðrum og drífa áfram iðnsöguverkefnið en hafði einungis gefið út ljóðabók og leiðsögubók auk verka sem tengdust íslenskukennslu eða hans íslenskunámi. Það gekk meira að segja þjóðsaga um hversu stirt honum væri um skrif og sjálfur sagði hann löngu seinna: „Þannig er að setji ég tvær setningar á blað er ég varla búinn að því þegar ég fer að breyta þeim og aldrei verð ég ánægður.“2

Ingimundur bæjarstjóri hefur því varla ráðið Jón Böðvarsson til verksins af því hann hefði afkastað svo miklu í riti áður heldur væntanlega vegna annarra kosta hans (sem voru raktir að nokkru hér að ofan).
 
 

Samningurinn við Jón Böðvarsson um ritun sögu Akraness

Samningurinn sem Ingimundur Sigurpálsson, bæjarstjóri á Akranesi, og Jón Böðvarsson undirrituðu þann 31. ágúst 1987 var í stórum dráttum þannig:

Í 1. gr. kemur fram að Jóni er falið að rita þrjú bindi um sögu Akraness, „alls um 900 blaðsíður í Skírnisbroti“ sem komi út 1992. Bindin skuli skiptast þannig:

   I. bindi fjalli um tímabilið frá landnámi til einokunar.
  II. bindi fjalli um tímabilið frá 1602 til 1942.
 III. bindi fjalli um sögu Akraneskaupstaðar.

Í samningum er síðan kveðið nánar á um 10 verkþætti í sögurituninni. Fram kemur að Jóni er í sjálfsvald sett í hvaða röð hann skilar einstökum verkþáttum. (2. gr.) Verkið hefjist 1. sept. 1987 og skuli lokið fyrir árslok 1992. Skráningu og öflun allra heimilda skal þó lokið fyrir 1. apríl 1990 og ritun I. bindis á að vera lokið fyrir 1. apríl 1991 enda stefnt að því að gefa það út 1. janúar 1992. (3. gr.) Jóni ber að lesa prófarkir án endurgjalds (5. gr.), leggja til alla vinnuaðstöðu utan Akraness og standa straum af öllum kostnaði vegna verksins, þ.m.t. ferðkostnaði, ljósritun, ljósmyndun og öðrum eðlilegum kostnaði sem Jón telur nauðsynlegan (7. gr.). Jón skal halda eða láta halda allt að sex opinbera fyrirlestra á Akranesi um söguritunina í samráði við „þá sem verkkaupi [Akraneskaupstaður] setur til umsjónar með verkinu.“ (6. gr.)

Akraneskaupstaður velur aðila sem „meta hvern verkþátt og skila áliti eigi síðar en sex vikum eftir afhendingu. Telji þeir verkið fullunnið skal greiða verktaka … Meti þeir verkþátt ófullnægjandi skulu þeir tilgreina á hvern hátt honum er áfátt og skilgreina hvernig úr skuli bæta. … Rísi ágreiningur milli samningsaðila um gæði verkþáttar, sem ekki tekst að leysa, skal ágreiningur lagður undir mat tveggja sagnfræðinga sem verkkaupi [Akraneskaupstaður] og verksali [Jón Böðvarsson] velja og skuldbinda samningsaðilar sig til að hlíta úrskurði þeirra.“ (2. gr.)

Í samningnum er skýrt kveðið á um að standist ekki skil sé heimilt að segja honum upp: „Hafi handritið ekki verið afhent fyrir umsaminn tíma … getur verkkaupi gefið verksala frest í minnst 30 daga og síðan rift samningnum hafi handriti ekki verið skilað að fresti liðnum.“

Jafnframt er kveðið á um að „frumhandrit“ sé „eign verksala“ en verður ekki öðru vísi skilið en það eigi við „fullgert handrit“ (4. gr.) og að „Allar safnaðar heimildir verða eign verkkaupa jafnskjótt og verkþáttur er greiddur eða vinna stöðvast af öðrum orsökum“ (9. gr.)

Greiðslur eru tíundaðar í 8. gr. samningsins. Fyrir allt verkið á Akraneskaupstaður að greiða 5.540.000 kr. (miðað v. 1. júlí 1987 en í undirgreinum kemur fram að upphæðin er verðtryggð, þ.e. tengd ákv. launaflokki BHMR).

Við undirritun greiðir Akraneskaupstaður Jóni 10% samningsupphæðar, þ.e. 554.000 kr., en síðan 9% við skil hvers verkþáttar. Til að tryggja að Jón uppfylli skyldur sínar leggur hann fram tryggingarvíxil fyrir sömu upphæð og hann fékk við undirritun, 554.000 kr. Í hvert sinn sem Jón fær greitt fyrir unninn verkþátt á að endurnýja tryggingarvíxilinn og hækka upphæðina í samræmi við sömu verðtryggingu og launin, þ.e. upphæðin skal tengd sama launaflokki BHMR.3
 
 
 

Það er afar áhugavert að bera þennan samning saman við vinnubrögðin sem beitt var eftir að Ritnefnd um Sögu Akraness tók að starfa með söguritara. En ritnefndin, ritun sögunnar, efndir samningsins, greiðslur til Jóns, útgáfa og viðtökur bókarinnar verða að bíða næstu færslu.

Fyrri færsla:

Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldri búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“

Framhaldsfærslur:

Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …
 


1 Gunnlaugur Haraldsson. 1980. „Framtakssemi og frumskógalögmál - Síðbúin fréttaskýring“. Dögun  3. árg. 5. tbl.  22. des. 1980, s. 4 og s. 10. Engilbert Guðmundsson. 1981. „Af útúrsnúningameisturum.“ Dögun 4. árg., 7. tbl. 18. des. 1981, s. 7 og s. 10. 
 

2 Upplýsingar um Jón Böðvarsson eru fengnar úr Guðrún Guðlaugsdóttir. 2009. Sá á skjöld hvítan.Viðtalsbók við Jón Böðvarsson. Bókaútgáfan Hólar. Bein tilvitnun í Jón Böðvarsson er á s. 9.

Athyglisvert er að Jón minnist ekki einu orði á ritun sögu Akraness í þessari viðtalsbók. Rit hans, Akranes. Frá landnámi til 1885, er talið upp í ritaskrá og í bókinni er ein mynd af því þegar forseta Íslands, frú Vigdísi Finnbogadóttur, var afhent fyrsta eintakið af bókinni [ranglega nefnt Saga Akraness frá landnámi til 1885]. Á myndinni eru Indriði Valdimarsson, Jón, Steinunn Ólafsdóttir, Vigdís og Gísli Gíslason. Jón talar um ýmislegt í ævi sinni í þessari bók, jákvætt og neikvætt, sigra og vonbrigði og er ekkert alltaf sáttur, en liggur þó ekki illt orð til nokkurs manns, fremur að hann segi kost og löst í Íslendingasagnastíl um andstæðinga sína. Um samskipti við Ritnefnd um sögu Akraness og þá vinnu sem hann innti af hendi fyrir Akraneskaupstað kýs hann að þegja.
 

3 Upphafsgreiðslan til Jóns við undirritun samnings, 554.000 kr. árið 1987, er rúmlega tvær milljónir króna á núvirði. Heildargreiðslan, um fimm og hálf milljón 1987, væru tæp tuttugu og ein milljón á núvirði. Því fer fjarri að Jóni hafi verið greidd sú upphæð. En nánari grein fyrir launum Jóns og kostnaði við ritun og útgáfu sögunnar verður gerð síðar. Það er alltaf mjög erfitt, nánast ógerlegt, að bera saman launakjör milli margra áratuga en til samanburðar má nefna að mánaðarlaun skólameistara í mars 2010 voru tæp 660.000 kr., árslaun slíkra því tæpar 8 milljónir (en árið 1987 var Jón í leyfi úr skólameistarastöðu FS). Miðað við þennan samanburð, sé haft í huga að samningstíminn var rúm 5 ár og innifalinn í greiðslum til Jóns var kostnaður sem hlaust af vinnu verksins, sést að Jón var langt í frá í fullu starfi við ritun sögu Akraness. En ítrekað er að samanburðinum ber að taka með fyrirvara, hann er einungis til að gefa lesendum einhverja hugmynd um hvað þessar tölur í samningnum þýða.
 
 
 

Ummæli (3) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

4. maí 2011

Ætti ég að blogga um …

Enn vinn ég að næstu færslu um SSA (Sögu Sögu Akraness) og er sammála þeim þrautreynda söguritara að heimildaleit og úrvinnsla heimilda getur verið tímafrek. Reikna þó með að geta hnoðað saman næstu færslu fyrir helgi … ekki að liggi neitt á … ekki að málið sé glænýtt …

En útaf ákv. vísu sem ég fékk á FB (takk fyrir hana, S.) fór ég aðeins að spá í hvort ég ætti kannski að blogga um eitthvað annað. Blogga svokallað milliblogg (MB). Þá eru helstu kostirnir náttúrlega:

Sjúkdómablogg, sem ég nenni ekki því FB virkar svo ágætlega fyrir heilsufarsstatusa og ekkert hefur breyst.

Endursagnarblogg af ýmsu tæi. Lesendum ætti að vera ljóst að ég er mjög höll undir svoleiðis blogg, sumum, einkum sumum afkomendum, jafnvel til skapraunar. Endursagnarblogg í dag gæti verið sígild og síendurtekin umræða um besserwissara í málefnum geðsjúklinga. Liggur beint við að fjalla um Steinþór vísindasagnfræðing, sem enn og aftur vill beina því til okkar pilluætanna hve heimskar við erum að falla fyrir útspekúleruðum geðlæknum sem eru nánast á mála hjá illum amrískum lyfjaframleiðendum. (Sjá grein í Tímariti félagsráðgjafa.) En ég nenni ekki að hrekja málflutning Steinþórs (sem er snýttur úr málflutningi Héðins) einu sinni enn og ákvað að leyfa honum að hafa sína andlyfja skoðun einu sinni í friði. Á hinn bóginn kætti mig nokkuð að sjá leiðbeiningar félagsráðgjafa til þeirra sem vilja skrifa í hið ritrýnda tímarit (og virðast afar stoltir af  RIT-rýningunni):  

Málfar og textameðferð. Vandað skal til röklegrar samningu texta, málfars og frágangs. Eingöngu er tekið við handritum sem eru vandlega yfirfarin hvað varðar stafsetningu, stafavillur/brengsl og meðferð íslensks máls. Mælst er til að greinarhöfundar hafi að lokinni samningu fengið nákvæman yfirlestur á handrit sitt, bæði málfar og textameðferð áður en það er sent til ritstjórnar.

Veit ekki hvort þessi tilvitnun fellur undir eiðs-svanbergslegt blogg (ESB-blogg) eða bara kvikindislegan húmor.

OMG-blogg (sem einnig mætti kalla je-dúdda-mía blogg eða ég-get-svo-svaaaarið’að-blogg), yfirleitt um hvað allt er á leiðinni til andskotans í þjóðfélaginu nútildags. Svona blogg býður upp á ýmsa möguleika, frá lélegri íslenskukunnáttu unga fólksins á þessum síðustu og verstu tímum til blammeringa á pólitíkusa, sem bloggari brigslar þá í leiðinni um að vera siðblindir, siðlausir, siðvilltir, geðveikir, þroskaheftir, veruleikafirrtir eða eitthvað álíka (fer eftir orðaforða bloggara). 

Ýmis stílafbrigði af OMG-bloggum standa til boða, t.d. að hafa greinaskil að lokinni hverri málsgrein eða raða færslunni saman nær eingöngu úr afrituðum bútum úr bloggum annarra, fréttum úr vefmiðlum, jafnvel YouTube-myndböndum. Hvort tveggja gerir sig vel, hið fyrrnefnda staðfestir hve bloggara er mikið niðri fyrir og hvernig þarf að stoppa til að taka andköf, hið síðarnefnda staðfestir að bloggari standi ekki einn í sinni hneykslan eða kemur í stað heimildaskráa og tilvísanaskráa (sem ég viðurkenni fúslega að eru hallærislegar í sumu bloggumhverfi, t.d. mínu eigin).

Blogg beinskeytta byltingarmannsins (BBB-blogg); í dæmigerðu BBB-bloggi í dag gæti ég fjallað um hve andstyggilegt og ljótt var að kála Osama bin Laden og tengt það einhvern veginn við að ísbjörn var felldur í Rekavík, sem er líka ljótt.

BBB-blogg byggjast á svipaðri aðferðafræði og sú ágæta bók 1066 And All That þar sem atburðir í Bretlandssögu eru flokkaðir klárlega í góða og vonda (Which was a Good Thing eða Which was a Bad Thing) og er að því leytinu ákaflega þægileg til að mynda sér söguskoðun. Í BBB-færslu um Ósama væri rétt að benda á hve helv. kaninn hefur alltaf verið mikið ógeð og helst að tengja við Ísland úr Nató-herinn burt eða Víetnam-stríðið eða að fæðingarvottorð Óbama sé örugglega falsað. Um leið yrði að tengja við krúttið Knút og vesalings landflótta grænlenska bangsa í sjálfsvígssunds-hugleiðingum sem lenda á því illa Íslandi þar sem morðóð og byssuglöð löggan plaffar þá niður og fær kikk út úr öllu saman, sem mætti svo tengja við almenna fyrirlitningu á dómskerfinu hér á landi, útrásarvíkinga og óhæfi sérstaks saksóknara, ásamt því að vorkenna fótboltaliði á Vestfjörðum sem glaptist til að hafa ísbjörn í sínum einkennisfána.

BBB-blogg eru stundum dálítið lík OMG bloggum en má styðjast við, í greiningu, að þau síðarnefndu minna oftast dálítið á kerlingaklúbba fyrri tíma, þar sem húsmæður hittust í eldhúsinu, með rúllur í hárinu og keðjureyktu og fóru með ég-get-so-svaaarið’að! - eða afbrigðið ég-get-so-GUÐ-svaaarið’að! (þetta var reyndar fyrir mína tíð en bloggynja er sæmilega lesin og vídjófróð). BBB-blogg eru aftur á móti frekar tengd byltingarmanni án málstaðar, t.d. uppgjafa allaballa sem reynir að ríghalda í þá gömlu góðu (löngu liðnu) tíma þegar heimsmyndin var svarthvít og tiltölulega einfalt að hafa hina einu réttu skoðun og þótti sú hin eina rétta skoðun almennt smart í ákveðnum kreðsum.

Blogg-um-blogg (BUB-blogg) eru löngu sígild. Þá er náttúrlega bloggað um blogg af ýmsu tagi, þau flokkuð í blogggreinar og undirblogggreinar, kastað smá skít í stutt-skítkasts-blogg (oft kennd við moggann) og fárast svolítið yfir hve FB hefur gengið af blogginu dauðu og hve öllu fer aftur (ó-temora-ó-móres-fílingurinn).

Þetta er dæmigert BUB-blogg, ég sé það núna.

  

Ummæli (6) | Óflokkað, Daglegt líf