Færslur frá 25. maí 2011

25. maí 2011

Ja sko mér er alveg sama og mætti sleppa þessu bókaveseni allveg

Í þessari færslu segir frá ýmsum breytingum sem urðu til þess að sagnaritarinn Gunnlaugur Haraldsson naut lítilla launa frá Akraneskaupstað árið 2006 og varð nánast hornreka í viðskiptum kaupstaðarins það árið. Hann missti sinn aðal verndara og velgjörðamann; Ýmsar hræringar voru í stjórn bæjarins; Meirihluta Ritnefndarinnar skipaði nýtt fólk. Þó tókst sagnaritara og Akraneskaupstað að landa samningi undir árslok 2006. Titill færslunnar er bein tilvitnun í bréf á umræðuvef bæjarins í september 2006.1

Saga Sögu Akraness VIII
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …
Saga Sögu Akraness VII, Hvers virði saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig
 

Guli vitinn og mark á AkranesiVæri sagnaritun Gunnlaugs Haraldssonar fyrir Akraneskaupstað líkt við fótbolta þá er fyrri hálfleik nú lokið. Við tekur leikhlé og í seinni hálfleik er búið að skipta út einum lykilmanni en glettilega margir þeirra sömu spila samt áfram fyrir Akranesbæ; sami öflugi liðsmaðurinn er óþreyttur í hinu liðinu, þ.e. sagnaritarinn Gunnlaugur. Ég læt lesendum eftir að meta hver staðan er.

Árið 2005 var ósköp rýrt fyrir Gunnlaug. Hann uppskar einungis rúmlega 2 milljónir 550 þúsund krónur sem á núvirði gera rúmlega 3,9 milljónir. Þetta var þó ekkert í líkingu við árið eftir, 2006, en þá náði Gunnlaugur einungis einum mánaðarlaunum, 625.000 kr. í desember. En svo vænkast hagurinn aftur árið 2007.

Árangurstengdu dreifðu greiðslurnar voru uppurnar í lok september 2005. Miðað við framgang máls til þessa hefði það ekki átt að tálma næsta samningi að árangur var enginn, þ.e. engu var skilað. En ekki bólaði á nýjum samningi nærri strax og Ritnefndin hélt ekki einu sinni fundi!

Líklegasta skýringin á hve harðnar í ári fyrir Gunnlaug er að Gísli Gíslason bæjarstjóri og formaður Ritnefndarinnar réði sig til annarra starfa. Þann 27. september 2005 var Gísli ráðinn í starf hafnarstjóra Faxaflóahafna. Sama dag samþykkti Bæjarstjórn Akraness að ráða Guðmund Pál Jónsson í starf bæjarstjóra frá og með 1. nóvember 2005. Gísli hafði verið bæjarstjóri á Akranesi í 18 ár og verið formaður Ritnefndar um sögu Akraness allan tímann. Þótt Guðmundur Páll, sem tók við tímabundið sem bæjarstjóri, hefði setið í Ritnefndinni frá því líklega í apríl 2004 reyndist hann Gunnlaugi ekki sá verndari og velgjörðarmaður sem Gísli Gíslason hafði lengst af verið.

Vorið 2006 voru bæjarstjórnarkosningar. Pólitískar sviptingar virðast raunar ætíð hafa litlu máli skipt í ritun sögu Akraness, miklu frekar skipta einstakar persónur máli. Ein af nýju bæjarfulltrúunum var Karen Jónsdóttir (fyrir Frjálslynda flokkinn, gekk seinna til liðs við Sjálfstæðisflokkinn) en hún átti eftir að setja mark sitt á sögu sögu Akraness síðar. Hrönn Ríkarðsdóttir sem hafði setið í Ritnefndinni frá  upphafi 1987 til vorsins 2002 (og myndað þar meirihluta-fjölskyldublokk með Leó Jóhannessyni og Gísla Gíslasyni, svo sem fyrr hefur verið greint frá) settist nú í bæjarstjórn og situr þar enn, fyrir Samfylkinguna; Guðmundur Páll Jónsson, sem hafði setið í Ritnefndinni sat áfram í bæjarstjórn; Sveinn Kristinsson, gamall samherji Gunnlaugs Haraldssonar, sat áfram í bæjarstjórn, fyrir Samfylkinguna o.s.fr. Þessi bæjarstjórn réði Gísla S. Einarsson, samfylkingarmann sem hafði skipt yfir í Sjálfstæðisflokkinn, sem bæjarstjóra næstu fjögur árin.

Á sama bæjarstjórnarfundi og samþykkti að ráða nýjan bæjarstjóra, þann 13. júní 2006, var skipað í nefndir, þ.á.m. ritnefnd um sögu Akraness. Jón Gunnlaugsson (D) varð formaður nefndarinnar og er það enn. Hann settist í Ritnefndina snemma árs 2004.  Leó Jóhannesson (S) sat að sjálfsögðu áfram og situr enn. En hinir þrír voru nýir: Bergþór Ólason (D), Magnús Þór Hafsteinsson (F) og Björn Gunnarsson (V). Það varð sem sagt meiriháttar uppstokkun í Ritnefndinni.

Fyrir kosningarnar, þann 8. maí 2006, hafði Magnús Þór Hafsteinsson sent inn stutt bréf á umræðuþráð þann sem fjallað var um síðustu færslu. Bréfið bar yfirskriftina Hér má svara og hljóðar svona: Ég spyr núverandi bæjarstjóra Framsóknarflokksins [Guðmund Pál Jónsson] um gang þessa máls í pistli á www.heimaskagi.is Vonandi verður ekki fátt um svör. Baráttukveðjur, Magnús Þór Hafsteinsson  www.magnusthor.is . Hér vísar Magnús í eigin pistil á Heimaskaga, vefsetri Frjálslynda flokksins, þar sem segir undir lokin: Vonandi geta einhverjir í ritnefnd upplýst um þetta, enda hlýtur málið að vera á ábyrgð hennar. Ég sendi boltann á núverandi bæjarstjóra Framsóknarflokksins sem á sæti í ritnefnd…..   Þegar hann var sjálfur kominn í Ritnefndina vafðist fyrir honum að svara sömu spurningum en ljóst er að hann er mjög hrifinn af því sem ég hef lesið hingað til og telur tvímælalaust að hér sé afar vandað rit á ferð. Og Magnús kemur auga á þá staðreynd að verkið geti ekki orðið mjög dýrmætt heimildarit nema það sé gefið út.2

Gunnlaugur Haraldsson sagnaritari, sem var væntanlega orðinn óþreyjufullur eftir frekari launum, sendi inn greinargerð um söguritunina og ástæður fyrir drætti verksins, dagsetta 4. október 2006.3

Þá er hann þegar búinn að hrífa a.m.k. nýjan einn ritnefndarmann, eins og kemur fram í efnisgreininni hér að ofan. Þessi greinargerð hlýtur að hafa verið vel rökstudd því drifið er í að undirbúa nýjan samning við Gunnlaug og fyrsta skref er auðvitað að kalla Ritnefndina saman.  Nýja Ritnefndin hélt sinn fyrsta fund 9. október 2006. (56. fundur. Sjá töflu yfir fundi Ritnefndar og ritun sögu Akraness á tímabilinu 2005 - nóvember 2006) og fimm dögum síðar héldu þeir Jón Gunnlaugsson, Gísli S. Einarsson bæjarstjóri og Jóhannes K. Sveinsson, lögmaður Akraneskaupstaðar, fund þar sem þeir ræddu samingsgerð um ritun sögu Akraness. Jóhannesi lögmanni var falið að semja drög að samningi við Gunnlaug Haraldsson.4

Rúmum mánuði síðar útskýrði Jóhannes samninginn fyrir Ritnefndinni og Gunnlaugi (57. fundur). Þetta er líklega nýmæli í samningagerð við Gunnlaug, þ.e. að lögfræðingur bæjarins kynni efni hans bæði fyrir Gunnlaugi og ritnefnd.5

Þann 30. nóvember 2006 skrifuðu Gísli S. Einarsson bæjarstjóri og Gunnlaugur Haraldsson undir nýjan samning sem hét SAMNINGUR Saga Akraness og bæjarráð samþykkti samninginn þann 7. desember.6

Í þeim samningi var verkum skipt á tvö ákveðin tímabil. Segja má að þessi samningur hafi seinna verið klofinn af Samkomulagi seint í október 2007 þegar skrúfað hafði verið fyrir peningastreymi til sagnaritara í miðju kafi því engu hafði verið skilað. Um þetta verður fjallað í næstu færslu um sögu Sögu Akraness.
  

1 Guðmundur Jón Hafsteinsson. 26. september 2006. „ undir efniþræðinum Kútter Sigurfari á umræðuþræði Akraneskaupstaðar.
 

2 Magnús Þór Hafsteinsson. 18. september 2006. „Málin eru í farvegi á Heimaskaga, vefsetri Frjálslynda flokksins. Undir lok pistilsins segir:IV. Saga Akraness:

Um þetta mál get ég ekki sagt svo mikið enda hef ég ekki átt neina aðkomu að því á nokkurn hátt. Öll vinna liggur niðri þar sem peningarnir sem setja átti í þetta eru víst búnir. Ég settist í ritnefndina nú eftir kosningar í vor. Þessa dagana er ég að lesa handritið sem nú liggur fyrir frá höfundi til að fá betri yfirsýn yfir þetta mál. Handritið er mjög efnismikið, fyllir þrjár stórar möppur og telur hundruði blaðsíðna. Ég er mjög hrifinn af því sem ég hef lesið hingað til og tel tvímælalaust að hér sé afar vandað rit á ferð. Það þarf að ljúka þessu verkefni og gefa þetta út. Þetta ritverk mun tvímælalaust verða mjög dýrmætt heimildarit og halda nafni höfundar á lofti um ókomna framtíð. En það gerist ekki nema það verði drifið í að ganga frá því, koma því á prent og í útgáfu.“

Pistill Magnúsar voru svör hans við mörgum spurningum sem birtust á umræðuþræði Akraneskaupstaðar undir efnisþræðinum „Kútter Sigurfari. Steingrímur Guðjónsson, sem minnst var á í fyrri færslu, spurði einmitt hvað liði ritun sögu Akraness um leið og Kútter Sigurfara bar á góma og síðan bættust fleiri umræðuefni við. Steingrímur ítrekaði spurningu sína um sögu Akraness oftar en einu sinni á umræðuþræðinum en umræðan fór út um víðan völl og fólk virtist hafa mun meiri áhuga á að ræða annað.
 

3 Þetta kemur fram í „Forsendum næsta samnings við Gunnlaug en sá heitir SAMNINGUR Saga Akraness. Þar segir: Söguritunin hefur dregist eins og rakið er í hinum fyrri samningum og koma þar til ýmis atriði eins og gerð er grein fyrir í greinagerð sagnaritara um málið, dag. þann 4. október 2006. Á þessa greinargerð er hvergi minnist í fundargerðum bæjarráðs, bæjarstjórnar eða ritnefndar um sögu Akraness. Ég hef greinargerðina ekki undir höndum.  

Í fundargerðarbók Ritnefndar um sögu Akraness er þessi fundur bókaður sem 57. fundur nefndarinnar. Fundargerðina er hins vegar ekki að finna á vef Akraneskaupstaðar. Engin þeirra þriggja  fundargerða sem minnst er á í þessari efnigrein var lögð fram fyrir bæjarráð. Fundargerðir 56., 58., 59. og 60. fundar voru lagðar fram í kippu á fundi bæjarstjórnar þann 9. janúar 2007. Það er ekki fyrr undir lok árs 2007 sem farið er að leggja fundirgerðir ritnefndar um sögu Akraness fram í bæjarráði. Þetta hálfgerða sleifarlag á fundargerðum Ritnefndar kann að hafa tíðkast frá fyrstu tíð og hefur líklega gert bæjarstjórnarfulltrúum erfiðara um vik að fylgjast með Ritnefndinni og störfum sagnaritarans.
 

5 Mér er ókunnugt um hvort sérstakur lögmaður Akraneskaupstaðar aðstoðaði við gerð fyrri samnings, viðauka og samkomulags við Gunnlaug.
 

6 Í bæjarráði sátu: Karen Jónsdóttir, formaður bæjarráðs, Gunnar Sigurðsson og Sveinn Kristinsson. Þennan fund sátu einnig Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri, og Jón Pálmi Pálsson, bæjarritari. Á sama fundi bæjarráðs var beiðni Sögufélags Borgarfjarðar um styrk hafnað. Sveinn Kristinsson lagði til að félagið yrði styrkt um 100.000 kr. en tillagan var felld með tveimur atkvæðum hinna bæjarráðsfulltrúanna.
 
 
 
 
 
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness