Færslur júnímánaðar 2011

29. júní 2011

Sagan öll?

Hér eru dregnar saman helstu niðurstöður um sagnaritun á vegum Akraneskaupstaðar frá 1987. Kaupstaðurinn hefur á tæpum 24 árum greitt sem svarar 125 milljónum á núvirði fyrir að láta tvísemja þann hluta sögunnar sem gerist einkum í Hvalfjarðarsveit, þ.e. um tímabilið frá landnámi til 1800.1

Af AkrafjalliLengst af voru hér á Akranesi nokkur tómthús og verbúðir og heldur fámennt, t.d. bjuggu samtals 67 manns á Skaganum seint á 18. öld og voru allir búendur leiguliðar Ólafs Stephensen á Innra-Hólmi.Það segir sig náttúrlega sjálft að ekki er hægt að ætlast til að miklum sögum fari af slíkum stað. Enda hafa sagnaritarar bæjarins gripið til þess að skrifa um „Akranes hið forna“, þ.e. meint landnám Ketils og Þormóðs Bresasona, ásamt Skilmannahreppi Bekans. Þá má leita í fornbókmenntir, sögu Skálholtsstóls og biskupa þar og fjalla um mikilmenni í Innri-Akraneshreppi, sem og frægan smáglæpamann úr Ytri-Akraneshreppi til að ná upp einhverjum sögudampi. Eitthvað fleira úr nágrenninu má tína til, s.s. þjóðsögur. Aftur á móti er spurning hvort þetta sé það merkilegt fyrir okkur Skagamenn, sem borgum brúsann, að þurfi að tvísegja, jafnvel þrísegja ef talinn er með sá fróðleikur sem birtist í Sögu Akraness I og II eftir Ólaf B. Björnsson, útg. 1956 og 1959 á kostnað höfundar.

Eftir þessi 23 ár og 125 milljónir hafa íbúar í Hvalfjarðarsveit sem sagt eignast viðamikla úttekt á sinni sögu. Við greiðendurnir eigum nokkra smábúta innan um, um fólk sem tengdist Görðum (raunar aðallega afkomendur þess fólks utan Akraness, jafnvel í öðrum landsfjórðungum) og eitthvað svolítið um kotin sem á Skipaskaga var að finna (aðallega samt um eigendur þeirra utan Skagans, jafnvel í öðrum landsfjórðungum), stutta jarðsögu svæðisins sem finna má víða annars staðar (jarðsagan kringum Akrafjall hefur ekki breyst nýlega) og fróðleik um nokkur örnefni í kaupstaðnum (sem raunar má einnig finna annars staðar).

Titill færslunnar vísar til þess að þetta er lokafærsla í Sögu Sögu Akraness - í bili.
 

Af hverju ætli Akraneskaupstaður hafi í tæp 24 ár verið svona rausnarlegur í söguritun nágrannasveitarfélaganna? Því verður reynt að svara í þessari færslu og draga fram aðalatriðin í þeirri rándýru sorgarsögu. Vísað er í ítarlegri færslu um einstök atriði í Sögu Sögu Akraness með skammstöfuninni SSA og tölusetningu. Jafnframt vek ég athygli á því að færsluflokkurinn Sagu Sögu Akraness er einungis saminn af áhuga á þeirri sögu; Ég tengist einstaklingum sem um hefur verið rætt ekki nokkurn skapaðan hlut.3
 
 

Árið 1987 bjuggu rúmlega 5.400 manns á Akranesi og hafði bærinn vaxið mjög hratt á nokkrum áratugum. Í apríl það ár samþykkti bæjarstjórn að fela þáverandi bæjarstjóra að semja við einhvern um að skrifa sögu Akraness. Miða átti við þrjú bindi, hvert um 300 síður og skyldi gefa þau út á 50 ára afmæli Akraneskaupstaðar, 1. janúar 1992. Bæjarstjórinn réð Jón Böðvarsson cand. mag til verksins síðsumars 1987 og ritnefnd var skipuð. Jón Böðvarsson var þekktur fræðimaður, jafnt á sviði íslensku sem sagnfræði, ættaður úr Innri-Akraneshreppi og hafði dvalist þar hvert sumar sem barn og unglingur. Auk þess var hann reyndur leiðsögumaður og má ætla að hann hafi þekkt þetta svæði, „Akranes hið forna“, eins og lófann á sér. Launagreiðslur sem samið var um við Jón benda til að sagnaritunin hafi verið hugsuð sem hlutastarf og greiðslur áttu á vera árangurstengdar (SSA II).

Ritnefnd virtist í allra fyrstu þokkalega jákvæð í garð Jóns en snemma varð ljóst að það var lítið lið í ritnefndarmönnum, t.d. var Gunnlaugi Haraldssyni um megn að taka saman skrá um heimildir um sögu Akraness sem til voru á Byggðasafninu en var þó forstöðumaður Byggðasafnsins. Ritnefndin fór fljótlega að ráðskast með Jón og komst snemma á þá skoðun að verkið, ritun sögu Akraness væri sitt verk en ekki hans án þess að hafa hugsað sér að lyfta litlaputta í efnisöflun. Þetta gerðist frekar hratt og við lestur fundargerða veltir maður því fyrir sér hver hefði loft allt lævi blandið. Af fundargerðunum að dæma skín talsverð vanþekking ritnefndarmanna á efninu í gegnum ráðsmennsku þeirra. Ótrúlega náin tengsl voru milli yngra fólksins í ritnefndinni sem myndaði meirihluta frá miðju sumri 1990 án þess að bænum, hvað þá bæjarstjóranum sem var jafnframt formaður Ritnefndarinnar fyrstu átta árin, fyndist neitt athugavert við það (SSA III og Upplýsingar úr fundargerðum Ritnefndar um Sögu Akraness frá upphafi til starfsloka Jóns Böðvarssonar sagnaritara, þ.e. 1987-1997. Sjá einnig um hugmyndafræði lítils hóps Íslendinga sem lærði í háskólanum í Lundi í Svíþjóð, seint í SSA I).

Trönur á BreiðinniTil að byrja með vann Jón Böðvarsson af kappi en þegar kom að skilum efnis varð dráttur á verkinu og drógust skilin æ meir sem tímar liðu. Raunar þurfti hann að margskrifa efnið sem hann þó skilaði því ritnefndin var ævinlega óánægð með það og kann það að hafa valdið einhverju um dráttinn. Einungis tókst að koma út einu bindi af sögunni 1992 og það náði frá landnámi til 1885. Jón skilaði handriti að öðru bindinu þegar gerður var við hann starfslokasamningur snemma árs 1997. Það bindi nær frá 1885-1942 og hefur verið í vörslu Gunnlaugs Haraldssonar frá því Gísli Gíslason afhenti honum það í febrúar 1997. Jón virðist ekkert hafa fengið greitt eftir árið 1991 og hefur að líkindum fengið greidda 2/3 af þeirri upphæð sem samið var um í upphafi (og mér sýnist að hann hafi einmitt unnið 2/3 af verkinu). Kostnaður Akraneskaupstaður af þessari sagnaritun, að meðtöldum útgáfukostnaði bókarinnar sem kom út, er rúmlega 15 milljónir, uppreiknað á núvirði. Textinn í bók Jóns er lipurlega skrifaður en umbúnaður útgáfunnar afar fátæklegur. (SSA III).
 

Svo virðist sem Gísli Gíslason bæjarstjóri hafi ráðið Gunnlaug Haraldsson, sem þá var atvinnulaus (SSA IV og nmgr. 8 við SSA XV ), sem sagnaritara áður en starfslokasamningur við Jón Böðvarsson var gerður. Gunnlaugur átti að skrifa þrjú bindi sem næðu yfir 1700-2000. Starfið var ekki auglýst og engin augsjáanleg skýring er á því að Gunnlaug Haraldsson var ráðinn, hafandi hvorki menntun í sagnfræði né reynslu af fræðilegum skrifum (SSA XV). Möguleg skýring er að með ráðningunni hafi Alþýðubandalagsmenn í bæjarstjórn og víðar gert sínum manni greiða (SSA V). Önnur möguleg skýring er að á meðan Gunnlaugur sat sjálfur í Ritnefndinni (1987-1990) hafi honum tekist að sannfæra nefndarmenn um að hann væri snillingur.

Í upphafi virtist Gunnlaugur vinna af kappi. Hann gaf fögur fyrirheit, þ.e. lagði fram lista, minnisatriði, verkáætlanir og eigin „hugleiðingar“ um vinnu sína (Sjá Upplýsingar úr fundargerðum Ritnefndar um Sögu Akraness 1997-2011). Hann skilaði meira að segja þó nokkru af texta í upphafi, að vísu löngu á eftir áætlun. Þegar samningstíma lauk taldi Ritnefndin að fyrsta bindi af þeim þremur sem hann átti að skila væri fullunnið en hafði reyndar rangt fyrir sér í því (SSA V).  Þá var gerður viðbótarsamningur við Gunnlaug um nýja skiladaga og átti verkinu að ljúka 2004. Hann skilaði heldur ekki af sér í lok þess samningstíma (SSA VI). Næst tókst honum að fá Akraneskaupstað til að semja um að greiða út árangurstengdu/afraksturstengdu greiðslurnar sem samið var um í upphafi, jafnað niður á rúmt ár, þótt árangurinn/afraksturinn væri enn enginn (SSA VII). Í rauninni er þarflaust að rekja þessi viðskipti nánar enda eru þau rakin í einstökum færslum í Sögu Sögu Akraness. Alls gerðu Akraneskaupstaður og Gunnlaugur Haraldsson með sér tvo grunnsamninga og fjóra viðbótarsamninga. Gunnlaugur stóð aldrei í skilum þótt ævinlega hafi verið kveðið á um ákveðna skilafresti. Árin 2008 og 2009 var hann svo farinn að fá veglegar greiðslur gegn framvísun reikninga (sjá nmgr. 6 við SSA XV). Mér er ókunnugt um fyrir hvað þeir reikningar voru.
 

Frá upphafi var Gunnlaugur á ágætum launum við sagnaritunina enda skyldi hann hafa hana að aðalstarfi, skv. fyrri grunnsamningi (fyrsta samningnum) sem væntanlega gilti allt til 2006. Því fór fjarri að hann stæði við að hafa ritun sögu Akraness að aðalstarfi en e.t.v. hefur Ritnefndin aldrei tekið eftir því (SSA XII). Í báðum grunnsamningum við Gunnlaug Haraldsson voru riftunarákvæði og ákvæði um endurgreiðslukröfu Akraneskaupstaðar stæði sagnaritari ekki skil á verkum skv. tímasetningum í samningunum (SSA V og SSA IX). Þessum ákvæðum var aldrei beitt.
 

Þegar viðskipti Gunnlaugs við Akraneskaupstað og vinnulag hans er skoðað (sjá Upplýsingar úr fundargerðum Ritnefndar um Sögu Akraness 1997-2011) vekur það auðvitað furðu að maðurinn skuli ekki fyrir löngu hafa verið leystur frá störfum, krafinn um endurgreiðslu þess fjár sem ekki hafði verið unnið fyrir, starfið auglýst og reynt að ráða hæfan mann í verkið. Og af hverju sögðu bæjarbúar ekki neitt?
 
 

Ég held að skýringarnar séu eitthvað á þessa leið:

Gunnlaugur Haraldsson virðist hafa talsvert háar hugmyndir um eigið ágæti.4 Hann hefur ekki hið minnsta samviskubit yfir að hafa þegið ágætis laun og greiðslur frá Akraneskaupstað í 14 ár án þess að skila neinu sem tækt var í prentsmiðju fyrr en í janúar 2011. Sjálfur segir hann að þetta sé vegna þess hversu vel hann vandi sín verk.Þetta finnst mér sýna meira kaldlyndi en venjulegu fólki er tamt; flestir myndu nú skammast sín að þiggja slíkar fjárhæðir án þess að skila afrakstri. Sömuleiðis hikar hann ekki við að kenna öðrum um drátt á skilum, þ.e. firrir sjálfan sig allri ábyrgð á „hinu langa hlé 2005-2006“.6

Höfrungur gamliÞessi tröllatrú Gunnlaugs á eigin verðleika og fagurgali um framtíðaráform sem ekki stóðust7 virðist hafa villt Ritnefndinni sýn frá upphafi. Af aðdáunarverðri tungulipurð tókst Gunnlaugi hvað eftir annað að afsaka eða skýra hvers vegna hann skilaði ekki á tilsettum tíma. (Oftast er afsökunin tímafrek leit í frumheimildum, sjá t.d. yfirlit í SSA XIV.) Ritnefndin varð sem peð í höndum sagnaritara, a.m.k. spurðu nefndarmenn engra óþægilegra spurninga og voru ekki með neitt vesen þótt verk drægist úr hömlu heldur beitti nefndin sér þæg og góð hvað eftir annað fyrir að frekari samningar væru gerðir þegar greiðslur til sagnaritara stöðvuðust og gerir raunar enn. Ritnefndin var það blinduð af töfrum sagnaritarans að hún virtist ekki einu sinni taka eftir því að það vantaði kafla inn í eina „fullgerða“ handritið sem hún hefur staðfest skil á skv. fundargerðum.8

Gunnlaugur kom sér ekki bara upp peðum sem voru dugleg að gera það sem fyrir þau var lagt, s.s. styðja að viðbótarsamningar væru gerðir um meira fé og leggja eftirlitshlutverk sitt svo til alveg á hilluna, heldur einnig voldugum verndara frá upphafi, bæjarstjóranum sjálfum, sem vildi svo heppilega til að var einmitt formaður Ritnefndarinnar. Bæjarstjórinn mælti með því að gerðir væru samningar við Gunnlaug og skrifaði svo sjálfur undir þá. (Gísli Gíslason skrifaði undir fyrsta grunnsamninginn og tvo viðbótarsamninga.)

Verkið var aldrei unnið fyrir opnum tjöldum: Fundargerðir Ritnefndarinnar bárust seint og illa, ýmist til bæjarráðs eða bæjarstjórnar; fjárveitingar og nýir samningar voru samþykkt svo lítið bar á. Væntanlega hafa einhverjir vitað hvernig í málum lá en þeir voru óvirkir áhorfendur, stóðu hjá og töldu hugsanlega ekki í sínum verkahring að skerast í leikinn. Þegar almenningur gerðist svo djarfur að fara að spyrja út í alla þessa peninga og hvað liði ritun sögu Akraness gekk verndarinn, Gísli Gíslason, fram fyrir skjöldu og varði sinn umbjóðanda, Gunnlaug Haraldsson.9

Þannig gekk þetta til síðla árs 2005. Þá varð sá uggvænlegi atburður að Gunnlaugur sagnaritari sá á bak sínum verndara til annarra starfa. Jafnframt varð töluverð nýliðun í stjórn bæjarins (SSA VIII). En Gunnlaugur náði aftur fótfestu og nýr grunnsamningur var gerður, í þetta sinn útbúinn og útskýrður af lögmanni Akraneskaupstaðar (SSA IX). Það kom þó fyrir lítið, áfram skilaði sagnaritarinn engu sem tækt væri til útgáfu og komst upp með það.
 

Í rauninni dugir um framhaldið að vísa í einstakar færslur um gang sögu Sögu Akraness eða Upplýsingar úr fundargerðum Ritnefndar um Sögu Akraness 1997-2011 til að sjá að áfram var ekki staðið við samning og viðbótarsamninga. Gunnlaugur virðist stjórnsamur maður, svo mjög að Ritnefndin kom ekki með neinar yfirlýsingar í dúr við þær sem hún sendi frá sér þegar Jón Böðvarsson reyndi að starfa með henni, né bókaði neitt í líkingu við það sem þá var bókað um drátt á skilum. Eftir því sem sagnaritun Gunnlaugs spannaði fleiri ár varð æ erfiðara að hafa yfirsýn yfir verkið. Að auki breytti Gunnlaugur áætlunum og ruglaði kannski Ritnefndina þannig í ríminu. Eftir að hann náði aftur góðu tangarhaldi á Ritnefndinni og bæjarstjórnarmönnum 2006 var t.d. samið við hann um aukið vinnuframlag þótt hann hefði alls ekki skilað því sem hann var frá upphafi ráðinn til að vinna.10
 

Þegar rennur loks upp fyrir þeim bæjarstjórnarmönnum sem bera hvað mesta ábyrgð á fjáraustri í sagnaritarann allan tímann frá 1997 að þeir hafa verið gabbaðir grípa þeir til þess fyrirséða ráðs að mæra sagnaritarann. Þá blómstra nýjar goðsagnir, sem bætast við þá að Gunnlaugur sé fræðimaður, nefnilega að verkið sé svo ofurvandlega unnið að ekki sé skrítið að vinnslutíminn hafi verið svona ógnarlangur. Yfirlýsingar helstu bæjarstjórnarmanna virðast gefnar að handritunum ólesnum. Sjálfur hafði sagnaritarinn gripið til þess ráðs að klæða verk sitt í óskaplega íburðarmikinn búning; hann breytti sinni hernaðarlist og hóf að sýna einstakar síður í tilvonandi verki, t.d. á glærum, glæsilegar og litskrúðugar. Bæjarstjórnarmenn eygðu von til að afsaka fjárausturinn úr sjóðum bæjarins í verk þar sem afraksturinn var sorglega lítill (SSA XI og SSA XIII) með því að útmála glæsileika verksins. Haldið var áfram að greiða Gunnlaugi myndarlega, gegn framvísun reikninga þegar allir viðbótarsamningar voru útrunnir (SSA XV, nmgr. 6).
 

Þegar handritum fyrri tveggja bindanna var loks skilað eftir 14 ára starf sagnaritarans voru gerðar kröfur um prentgæði sem alla jafna hafa einungis tíðkast í prentun listaverkabóka (SSA XV og Fjórðungsdómur um 18 marka bók).  Enn á eftir að meta hvort stóryrtar yfirlýsingar í auglýsingum standist, t.d. að í þessum bókum sé að finna nýjar hugmyndir sem varði Íslandssöguna alla. Lausleg athugun mín á hluta fyrra bindisins bendir til þess að heldur hafi verið kastað höndum til verksins þótt prentunin sé dýr (Fjórðungsdómur um 18 marka bók og  Körlunum svarað).

Gamli HöfrungurÞótt þeir bæjarstjórnarmenn sem setið höfðu alla sagnaritunartíð Gunnlaugs (SSA IX) hafi vitað hvernig nýir og nýir samningar voru undirritaðir og greiðslur ekki skornar við nögl í meir en áratug en litlu sem engu skilað gilti það ekki um bæjarbúa. Eins og kemur fram í mörgum færslum í Sögu Sögu Akraness fór þetta að mestu fram bak við tjöldin og fundargerðir ritnefndar um sögu Akraness rötuðu seint og illa á vef Akraneskaupstaðar. Svo er enn. Þessum fundargerðum var gjarna safnað saman og þær lagðar fyrir bæjarráð eða bæjarstjórn nokkrar saman í kippu. Nýir bæjarstjórnarmenn áttu þess vegna kannski líka erfitt með að átta sig á hvernig verkið hefði gengið fyrir sig. Til að flækja málin var og er staða ritnefndar um sögu Akraness afskaplega óljós í stjórnsýslu bæjarins.

Þeir einu úr hópi bæjarstjórnarmanna sem hafa andæft samningagerð við Gunnlaug Haraldsson opinberlega eru: Sigríður Guðmundsdóttir, sem greiddi atkvæði gegn fyrsta samningum (SSA IV, nmgr. 9) og Karen Jónsdóttir, sem neitaði að semja meir við manninn eftir að hafa áttað sig á vinnubrögðum hans og hversu mikið fé bærinn hafði greitt honum, árið 2009 (SSA XI). Af orðum og gerðum Gísla S. Einarssonar bæjarstjóra má ráða að hann hafi séð í gegnum Gunnlaug en ekki verið í aðstöðu til að neita að gera frekari samninga við hann (SSA XI). Mögulegir persónutöfrar og tungulipurð Gunnlaugs Haraldssonar hafa sem sagt ekki hrifið alla.
 
 

Á hvað minnir Saga Sögu Akraness?

Fyrsti hlutinn er sorgleg meðferð nokkurra oflátunga í ritnefnd á fræðimanni. Síðari og lengri hlutinn er dæmi um hvernig einum manni tekst að gera bæjarstjórnendur að sínum strengjabrúðum. Sú saga minnir óneitanlega á meintar stórstjörnur útrásarinnar sem skutust eins og súpernóvur upp á fjármálahimininn fyrir hrunið. Menn kepptust við að mæra þá sem mestu fjármálasnillinga heimsins en svo kom í ljós að aldrei var nein innistæða fyrir því lofi þótt umgjörðin væri vissulega stórkostleg þegar best lét. Saga Sögu Akraness minnir líka á „Nýju fötin keisarans“, sem er ágæt dæmisaga um meðvirkni. Og ákveðnar kenningar, oft tengdar viðskiptum og hruni stórfyrirtækja, falla eins og flís við rass að þessari sögu sagnaritunar Akraneskaupstaðar.

Og hvað gerist svo? Ég spái því að ráðamenn Akraneskaupstaðar haldi að sér höndum um sinn og skrifi svo undir nýjan samning við Gunnlaug Haraldsson með haustinu. Ef þeir þurfa að velja milli þess að játa stórfelld mistök, þ.e. að hafa látið blekkjast árum saman, annars vegar, og hins vegar að reyna að halda haus og lofa verk sagnaritarans enn meir og enn hærri raustu hygg ég að þeir velji seinni kostinn. Því hver vill standa uppi sem flón? Og ég spái því að okkar tiltölulega nýráðni bæjarstjóri, Árni Múli Jónasson, gerist hinn nýi verndari Gunnlaugs Haraldssonar enda hefur hann þegar sýnt tilburði til þess. Gangi kenningar fullkomlega upp fær Gunnlaugur Haraldsson líklega duglega launahækkun í næsta samningi við Akraneskaupstað og verður falin enn meiri ábyrgð á ritun Sögu Akraness. 

1. Byggt á „Saga Akraness, samantekt 1987-2011“, plaggi fengnu frá Akraneskaupstað 4. maí 2011, að viðbættum þeim tæpum fimm milljónum sem Akraneskaupstaður greiddi væntanlega Uppheimum ehf. við fyrir 236 eintök af hvoru bindi af Sögu Akraness um það leyti sem bækurnar komu út, 19. maí 2011, skv. samningi Akraneskaupstaðar við Uppheima efh. Sjá SSA XV.
 
 

2 Sjá tilvitnun í fyrirlestur Hallgríms Jónssonar í „Frá Akranesi“. Ísafold 27. mars 1889 og SSA I. Væri óskandi að Hallgrímur hefði aldrei flutt fyrirlesturinn „Lífið í Skaganum síðastliðin 100 ár“ (þótt hann næði að safna með honum 30 kr. í byggingu barnaskólahúss sem bráðvantaði) því síðan virðist sagnariturum mjög í mun að reka slyðruorðið af Skaganum; koma Akranesi á Íslandssögukortið, ef svo má segja, og þarf að seilast ansi langt til þess.
 
 

3 Má segja að ég þekki svolítið einn úr ritnefndinni og þann eiganda Uppheima sem býr á Akranesi því ég var um skeið samkennari þeirra. Sagnaritarana Jón Böðvarsson og Gunnlaug Haraldsson þekki ég ekki, ekki heldur formann Ritnefndarinnar frá 2006, Jón Gunnlaugsson. Sumum öðrum persónum, t.d. þeim sem setið hafa í einn og hálfan áratug í bæjarstjórn, er ég nægilega málkunnug til að heilsa á götu. Tveir sem við sögu koma voru nemendur mínir fyrir langa löngu. Ég hef einu sinni tekið í höndina á Árna Múla Jónassyni, nýja bæjarstjóranum, þegar ég var kynnt fyrir honum fyrir tilviljun en man ekkert eftir honum úr íslenskudeild HÍ þótt við höfum væntanlega verið samtíða þar fyrir óralöngu. Sem sagt: Ég stend alveg utan við sagnaritunarævintýri bæjarins og er því mjög fegin. Nema að því leytinu að ásamt öðrum Skagamönnum borga ég af því brúsann. Mér hefur þótt saga Sögu Akraness einkar áhugaverð þær vikur sem ég hef eytt í að setja mig inn í hana, ekki hvað síst seinni og stærsti hluti hennar. Nú er kominn tími á bloggsumarleyfi en eftir það hyggst ég koma þessum færslum fyrir í einu pdf-skjali sem hlaða má niður. Væri því ágætt að fá ábendingar og leiðréttingar fyrir haustið.
 
 

4 Sjá t.d. margítvitnað bréf Gunnlaugs Haraldssonar á spjallþræði Akraneskaupstaðar, 23. febrúar 2005, „Meint ritstífla brestur“, viðtalið „Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar“ í Skessuhorni 13. apríl 2011, s. 14-15 og grein Gunnlaugs „Kvittað fyrir fjórðungsdóm“, dags. 5. júní 2011, birtist í Skessuhorni 8. júní 2011 s. 34-35.

Einnig má af formála Sögu Akraness I ráða að Gunnlaugur telur sig hafa unnið merka heimildarannsókn og komist að niðurstöðum sem enginn annar hafði uppgötvað áður:
„Af heimilda- og tilvísanaskrám má ráða, að víða hefur verið leitað fanga, enda byggir ritið að verulegu leyti á minni eigin rannsókn og túlkun frumheimilda. Mín sýn á heimildasnauð tímabil í sögu byggðarinnar og tilgátur þar að lútandi t.d. um landnámið, þróun elstu byggðar og mikilvægi sjósóknar í því samhengi, hafa sömuleiðis kallað á víðtæka efnisleit til stuðnings þeim hugmyndum. Þá hef ég markvisst reynt að kemba öll helstu skjalasögn, þ.á.m. stjórnsýsluembætta landsins á fyrri öldum, og afritað hvaðeina, sem komið hefur í hendur varðandi sögu Akraness.“ Gunnlaugur Haraldsson. 2011. Formáli að Sögu Akraness I, s. 10.
 
 

5 Sjá t.d. „Saga Akraness: 75 milljónir en engu skilað“ í DV 22. desember 2009 og fyrrnefnt viðtal í Skessuhorni. Einnig bergmála þessar staðhæfingar í orðum bæjarstjórnarmanna, sjá síðari hluta SSA XIII.
 
 

6 „Vegna þessa verklags [að gefa verkið út sem eina heild við verklok en það hefur sem kunnugt er ekki tekist] hlutu óhjákvæmilega ýmsir þeir sem álengdar stóðu að fyllast óþolinmæði og jafnvel efasemdum um að ég lyki verkinu nokkru sinni. Ekki bætti úr skák það langa verkhlé sem varð 2005-2006.“ „Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar. Spjallað við Gunnlaug Haraldsson ritara Sögu Akraness.“ Skessuhorn 13. apríl 2011, s. 14.

Sama kemur fram í formála Gunnlaugs að Sögu Akraness I (enda er þetta svokallaða viðtal í Skessuhorni að talsvert stórum hluta formálinn að fyrsta bindinu): „Ekki bætti úr skák það langa verkhlé, sem varð 2005 til 2006, þar sem hverfa þurfti frá hálfköruðu lokabindi verksins.“ Saga Akraness I, s. 9.

Gunnlaugi láist að geta þess að verkhléð var einmitt vegna þess að hann hafði ekki staðið skil á verkum skv. þeim þremur samningum sem Akraneskaupstaður hafði gert við hann.
 
 
 

7 Sjá má glöggt muninn á því sem Gunnlaugur segist vera að vinna og því sem hann skilar með því að skoða Upplýsingar úr fundargerðum Ritnefndar um Sögu Akraness 1997-2011.
 
 
 

8 Sjá t.d. SSA XIV þar sem sorgarsaga núverandi óútgefins III. bindis er rakin og Upplýsingar úr fundargerðum Ritnefndar um Sögu Akraness 1997-2011.
 
 
 

9 Sjá SSA VII og bréf Gísla Gíslasonar á spjallþræði Akraneskaupstaðar í febrúar 2005.
 
 
 

10  Sjá SSA IX og „Að því búnu og lokinni nauðsynlegri umritun og uppfærslu á ýmsum þáttum ritsins var mér falin umsjón með prentvinnslu þess, þ.e. hönnun, umbroti, kortagerð, ljósmyndun, vinnslu myndrita, myndaritstjórn, prófarkalestri og öðrum verkþáttum, svo að afhenda mætti ritið  fullfrágengið í hendur útgefanda.“ Gunnlaugur Haraldsson. 2011. Formáli að Sögu Akraness I, s. 9.
 

Ummæli (8) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

24. júní 2011

Körlunum svarað

Í þessari færslu verður brugðist við ásökunum og harmi nokkurra karla vegna Fjórðungsdóms um 18 marka bók (hér eftir kallaður Fjórðungsdómur); Útdráttur úr honum birtist í Skessuhorni 1. júní sl. en lengri útgáfan á þessu bloggi.1 Ég reikna með að allir séu karlarnir nettengdir og því óþarft að leggja Skessuhorn undir svör mín. Myndin hér að neðan er teiknuð af Bjarna Þór Bjarnasyni og birtist í sama Skessuhorni, s. 6. Hún er birt með leyfi Bjarna Þórs og ritstjóra Skessuhorns. Smelltu á myndina til að sjá stærri útgáfu.
 

Að sjálfsögðu byrja ég á að svara bæjarstjóranum sjálfum, sem tjáir sig undir fyrirsögninni „Stórfurðuleg atlaga að fræðimannsheiðri. Árni Múli Jónasson bæjarstjóri um framkomna gagnrýni á sögu Akraness“. (s.2) Greinin byrjar svona:

„Mér finnst þetta vera furðulegur sparðatíningur og algerlega tilefnislaus atlaga að fræðimannsheiðri höfundar Sögu Akraness. Með þessari ómaklegu gagnrýni eru í raun einnig settir undir sama hatt þeir sem höfðu það hlutverk að fylgjast með ritun sögunnar, þ.e. þeir sem setið hafa í ritnefnd um söguna og fleiri sem unnið hafa með höfundinum,“ segir Árni Múli Jónasson bæjarstjóri …

Saga Akraness og VersalirÞað er misskilningur Árna Múla að Fjórðungsdómurinn sé sparðatíningur. Þvert á móti er í honum að finna mjög alvarlegar ásakanir um grundvallarmistök í heimildanotkun. Þau eru t.d. að vitna rangt í heimildir (þ.e. ekki stafrétt og jafnvel ekki orðrétt), að misskilja og mistúlka heimildir, að stela myndum og öðrum fróðleik, að vísa rangt til heimilda (einkum mynda) og að enginn greinarmunur er gerður á hvað séu tækar heimildir í sagnfræðirit og hvað ekki (sem sést t.d. í notkun „http://www.wikipedia.org“ og Íslensks söguatlass sem fullgildra heimilda).

Það er líka misskilningur hjá Árna Múla að um fræðimannsheiður sé að tefla. (Sjá síðari hluta færslu XV í Sögu Sögu Akraness. Hér eftir verður vísað til einstakra færsla með skammstöfuninni SSA og tölusetningu.) Sá fræðimannsheiður hlotnast Gunnlaugi Haraldssyni ekki fyrr en þessi bindi verða metin ásættanlegur sagnfræðitexti af fræðimönnum í sagnfræði.

Ég er alveg sammála Árna Múla um ábyrgð Ritnefndarinnar. En mér finnst ekki að draga eigi prófarkalesara, kortagerðarmann, ljósmyndara, umbrotsmann eða umsjónarmann myndvinnslu til ábyrgðar fyrir fúskinu sem ég benti á, nema þá kannski helst að sá síðasttaldi hafi ekki unnið almennilega upp gamlar myndir af Skaganum og umbrotsmaður hafi ekki góðan smekk. Það eru smáatriði. Í Fjórðungsdóminum mínum kemur einmitt fram hrós fyrir glæsileg kort Hans H. Hansen, fallegar ljósmyndir teknar af Friðþjófi Helgasyni og ágætan prófarkalestur. Svoleiðis að ég held að þarna hafi bæjarstjórinn kannski eitthvað misskilið eða mislesið.

Fjórðungsdómurinn var náttúrlega alls ekki tilefnislaus færsla eins og Árni Múli lætur liggja að. Ég var þegar talsvert komin á veg með að skrifa færsluflokkinn Sögu Sögu Akraness þegar ég kíkti í bækurnar hans Gunnlaugs. Og ég kíkti ekki á þessar bækur fyrr en ég áttaði mig á því með lestri fundargerða að Árni Múli, formaður Ritnefndarinnar, forseti bæjarstjórnar og formaður bæjarráðs ætluðu að hunsa algerlega bréf sem ég sendi þeim viku áður.2 Ferill sagnaritara og sagnaritunar, ótrúlegt lof um þetta „stórvirki“, þar sem Árni Múli Jónasson bæjarstjóri nefndi Njálu og Eglu til hliðsjónar handritunum að verkum Gunnlaugs og Sveinn Kristinsson forseti bæjarstjórnar nefndi Versali og Kölnardómkirkju þegar þessi verk voru útgefin (sjá SSA XIII), og alger hunsun á þeirri ósk að bíða dóms sagnfræðinga var tilefni þess að ég fékk Sögu Akraness I og Sögu Akraness II lánaðar til að líta á gripina. Ég opnaði þær ekki með jákvæðum hug en mig grunaði samt aldrei að það sem ég sæi væri jafnhörmulegt og raun bar vitni.

Við SlippinnEnn einn misskilningur Árna Múla er að ég hafi leitað með logandi ljósi að villum. Þess gerðist engin þörf því þær eru svo margar og augljósar. Auk þess þótti mér bindi I svo leiðinlegt að ég gafst fljótlega upp á að reyna að lesa það, eins og ég nefndi einmitt í Fjórðungsdómnum og datt ekki í hug að eyða tíma mínum að óþörfu. Ég geri nefnilega þá kröfu til texta að hann sé sæmilega stílaður en ekki samhengislaus rökleysa og hef lítinn áhuga á litskrúðugum glanspappír einum saman. (Hefði ég aðallega áhuga á því síðarnefnda læsi ég auðvitað frekar Söguna alla, Skakka turninn, og Hús og híbýli og væri ekkert að sökkva mér ofan í bækur til að lesa góðan texta.)

Árni Múli er menntaður lögfræðingur. Honum ætti því að vera kunnugt um höfundalög og stafrænan höfundarétt. Það vekur furðu mína að hann kalli það sparðatíning að finna að því að efni sé stolið og gefið út undir merkjum Akraneskaupstaðar. Árni Múli er líka með BA próf í íslensku. Þess vegna er ég einnig mjög hissa á að honum finnist allt í lagi að vitna ekki stafrétt í heimildir og taka „http://www.wikipedia.org“ gilda sem heimild. Sömuleiðis reikna ég með að hann hafi næga undirstöðu til að meta hvernig er farið með heimildir varðandi Bresasyni og kenningar þeirra Hermanns Pálssonar og Helga Guðmundssonar. Er maður með BA próf í íslensku virkilega að halda því fram að efnistök Gunnlaugs hvað þetta varðar séu góð og gild? Í grein Skessuhorns kemur fram að Árni Múli hafi menntun í sögu og ég giska því á að sagnfræði sé aukagrein hans til BA prófs. Finnst honum, í ljósi þeirrar menntunar, allt í lagi að nota Íslenskan Söguatlas sem heimild hvað eftir annað? Og að rangfeðra myndir? Og taka upplýsingar frá öðrum (sjá svar mitt við langloku Gunnlaugs Haraldssonar hér að neðan) um áteiknuð hús á kort frá 1901 án þess að geta þess sérstaklega?

Ég er í rauninni ennþá meira hissa en Árni Múli Jónasson bæjarstjóri sjálfur: Hvernig getur menntaður maður haldið því fram að þessi vinnubrögð séu bara allt í lagi? Er kannski allt í lagi að stela svo lengi sem enginn kærir? Sú meðferð heimilda sem ég lýsti í Fjórðungsdómnum væri ekki tekin gild í heimildaritgerð á fyrsta ári í framhaldsskóla.

Í rauninni er ekki hægt að svara Árna Múla meir en þetta því hann hefur svo upp svipaða lofrollu og lýst var í SSA XIII. Honum finnst ég líklega heldur vond kona að skrifa svona „niðurrifskennda og tilefnislausa gagnrýni“, eins og hann kallar Fjórðungsdóminn, um bækurnar Gunnlaugs og bæjarsins, í stað þess að taka þátt í halelújakórnum. Á eftir lofrollunni birtist ævintýraleg draumsýn bæjarstjórans um hlutverk þessa framúrskarandi góða, fræðilega og skemmtilega rits, að hans mati. Af því ekki eru allir lesendur bloggsins míns áskrifendur Skessuhorns læt ég draumsýnina um mátt og megin Sögu Akraness I og II fylgja:

Þetta flotta og skemmtilega verk gefur okkur Skagamönnum og þeim sem búa hér í nágrenni við okkur fullt af tækifærum til að styrkja menninguna, söguþekkinguna, ræturnar og sjálfsmyndina hjá okkur öllum, ekki síst hjá unga fólkinu, og verða okkur til ánægju og skemmtunar með ýmsum hætti. Í þessu felast líka margvíslegir möguleikar til að gera bæinn okkar áhugaverðari og eftirsóknarverðari sem búsetukost og til að draga til okkar innlenda og erlenda ferðamenn. Það er undir okkur sjálfum komið að nýta þessi tækifæri og ef okkur tekst það vel mun ekki verða deilt um þann kostnað sem sögurituninni fylgdi.
 
 

Yfirlýsingu frá Ritnefnd um Sögu Akraness“ (s. 2 í fyrrnefndu Skessuhorni) er að finna á Vefnum. Í yfirlýsingunni kemur m.a. fram að nefndin fagni öllum vinsamlegum ábendingum og uppbyggilegri gagnrýni en að nefndin „harmar hins vegar þau stóryrði sem viðhöfð voru um höfundinn og verk hans í blaðagrein í Skessuhorni þann 1. júní 2011 og vísar til föðurhúsa“. Inn á milli er skotið: „Hafa skal það sem sannara reynist.“

Garðar og kirkjugarðurinn á AkranesiÉg tek undir orð sr. Ara, alveg eins og Ritnefndin, en bendi á að öll er málgreinin svona: „En hvatki er missagt er í fræðum þessum, þá er skylt at hafa þat heldr, er sannara reynist.“3 Ættu þessi orð að vera Ritnefndinni hvatning til að fá óháðan velmenntan sagnfræðing til að taka út bindi I og II af Sögu Akraness áður en gengið verður til frekara samninga við Gunnlaug Haraldson því sjálf hefur nefndin alls ekki axlað eftirlitshlutverk sitt og eru nefndarmenn illa í stakk búnir til að meta hvað missagt kann að vera í Sögu Akraness.4 Ég ráðlegg Ritnefndinni vinsamlega og í uppbyggilegum blíðlegum tóni að fara yfir yfirlitstöflur unnar úr fundargerðum ritnefndar um sögu Akraness á árunum 1997-2011, skoða hverju sagnaritari hefur skilað, bera saman við það sem sagnaritari hefur sagst vera búinn að vinna og skoða sína eigin vinnu: Ritnefndin ætti sem sagt að líta í eigin barm og hætta að haga sér eins og meðvirkur aðstandandi. Hennar hlutverk er eftirlit með verkinu en ekki að beita sér aðallega fyrir að auknu fé úr sjóðum bæjarins sé veitt til uppihalds Gunnlaugi Haraldssyni.5

Einnig er ritnefndinni góðfúslega bent á að fá að skoða handritið að þriðja bindinu vel og þiggja ráðgjöf sérfróðra í mati á því áður en hún lætur hvarfla að sér að ganga til frekari samninga við Gunnlaug. Loks bendi ég á að þessi yfirlýsing Ritnefndarinnar kostaði rúmar 64.000 krónur, sem fólk eins og ég borgar með útsvarinu sínu. Mér finnst því fé illa varið.6
 
 

Gunnlaugur Haraldsson, höfundur þeirrar Sögu Akraness I og II sem Fjórðungsdómurinn fjallar um skrifar ægilega langa grein (eina og hálfa opnu) sem heitir „Kvittað fyrir fjórðungsdóm“, s. 34-35 í Skessuhorni. [Viðbót 27. júní: Ég tók eftir því núna áðan að langhundur Gunnlaugs er kominn á vef Skessuhorns, dagsettur 20. júní, og kræki hér með í hann, svo menn geti lesið um „rætni og meinbægni“ bloggynju í þessum „fáu línum“ sem hann kveðst hafa hripað. Venjulega gerir Skessuhorn þá kröfu að menn skrifi í hæsta lagi eina og hálfa síðu, með 12 p. letri á A-4 síðu, í aðsenda grein en sagnaritarinn hefur fengið undanþágu.] Mun ég reyna að tína út aðalatriðin í máli Gunnlaugs og svara þeim.

Það er ljóst að Gunnlaugur kann engin skil á höfundarétti mynda á Vefnum. Sömuleiðis virðist hann ekki gera sér neina grein fyrir reglum um tilvísanir í efni á Vefnum né vera fær um að meta heimildagildi slíks efnis. Hann skrifar:

Taldi ég fullnægjandi að greina tryggilega frá uppruna þeirra [mynda af Vefnum] með vísan til vefsíðna, t.d. með http://www.valhs.org í Mynda og myndritaskrá (sjá s. 567-568), á sama hátt og ég vísaði í veftexta í fáein skipti. (s. 34.)

Í Fjórðungsdómnum eru nefnd nægilega mörg dæmi sem sýna að Gunnlaugur vísar alls ekki á fullnægjandi hátt til mynda og jafnframt gerð nokkur grein fyrir höfundarétti stafræns efnis á Vefnum. Ég reikna með að „veftextinn“ sem Gunnlaugur nefnir sé heimildin „http://www.wikipedia.org“ því aðrar vefheimildir sá ég ekki vísað í úr texta, í þeim hluta I. bindisins sem ég skoðaði.

Um ófeðraðar og rangfeðraðar myndir segir Gunnlaugur: „Myndirnar tala sínu máli, svo að mér þótti óþarfi að rekja myndefnið eitthvað frekar en gert er í myndatexta.“ Síðan talar hann um óvissu í höfundum gamalla mynda og telur rök fyrir því að ljósmynd sem hann eignaði Auði Sæmundsdóttur en er tekin af Þorsteini Jósepssyni vera að myndin sé eignuð Árna Böðvarssyni í grein um Auði Sæmundsdóttur í Árbók Akurnesinga 2006, s. 122.7 Jafnframt nefnir Gunnlaugur sína sígildu afsökun, tímaskort.8

Til að spara Gunnlaugi dýrmætar mínútur bendi ég vingjarnlega á það er allt rangt sem hann rekur um mynd 133, sem hann segist hafa fengið af Ljósmyndasafni Akraness en er þar ekki; Hún er ekki tekin af Árna Böðvarssyni eins og Gunnlaugur segir í myndaskrá heldur Hansínu Guðmundsdóttur; Myndatexti við þá mynd er heldur ekki réttur því húsið sem sést á myndinni er Skagabraut 40 en ekki Suðurgata 40 eins og segir í bók Gunnlaugs.9

Um kort sem ég minnist á í Fjórðungsdómnum hefur Gunnlaugur langt mál en aðalatriðin eru væntanlega:

Við þá kortagerð [vinnukort ýmis sem Gunnlaugur segist hafa unnið á árunum 1999-2004] lagði ég m.a. til grundvallar áðurnefndan uppdrátt Ólafs og Knuds og endurgerð hans sem ég vann á fyrsta starfsári mínu við Byggðasafnið í Görðum (1979-1980) með því að nafngreina og merkja inn öll íbúðarhús, sem voru í byggð 1901. Þessi endurgerði uppdráttur hefur síðan hangið uppi í sýningarsal safnsins, en ekki uppdráttur Þorsteins Jónssonar, eins og Harpa staðhæfir. Við vinnslu þessa uppdráttar leitaði ég fyrir mér í ýmsum heimildum. Þar trónaði efst hliðstæð endurgerð, sem Ólafur B. Björnsson vann 1958 og birti í tímariti sínu Akranesi, XVII. árg., 2. hefti, apríl-júní 1958 (s. 102-103). Af öðrum heimildum get ég nefnt vélritað og óársett handrit Þorsteins Jónssonar, Hús og býli á Akranesi, sem hann tók trúlega saman 1978 […] Til glöggvunar jók ég einnig við nokkrum eldri bæja- og verbúðaheitum, t.d. Vestra- og Syðra-Sandgerðis (sem lögðust af vegna landbrots á 18. öld), Hestbúð og Leirárbúð. (s. 34)

Gunnlaugur hefur eitthvað mislesið Fjórðungsdóminn því ég staðhæfði ekki að uppdráttur Þorsteins Jónssonar héngi uppi á Byggðasafninu, einungis að uppdrátturinn væri á Byggðasafninu og hafði fyrir því orð Jóns Allanssonar, forstöðumanns Byggðasafnsins og arftaka Gunnlaugs í því starfi.

Ég skoðaði trélitaða kortið hans Gunnlaugs uppi á Byggðasafni þann 17. júní (af því ég var stödd þar hvort sem var af öðru tilefni), skrapp svo á bókasafnið og bar saman kortið í Sögu Akraness I við kortið í Hús og býli á Akranesi og kortið hans Ólafs B. Björnssonar. Niðurstaðan er sú að trélitaða kortið á Byggðasafninu sem sýna á byggðina árið 1901 virðist byggt á uppdrætti Þorsteins Jónssonar af Akranesi 1898 en kortið í Sögu Akraness I er byggt á korti Ólafs B. Björnssonar af Akranesi 1901.10 

Ég bið því Gunnlaug Haraldsson afsökunar á því að hafa haldið því fram að hann hefði stolið upplýsingum frá Þorsteini Jónssyni. Hið rétta er að hann stal þessum upplýsingum frá Ólafi B. Björnssyni því Ólafs er að engu getið í myndaskrá og þetta hefti Akraness með korti Ólafs B. Björnssonar er ekki einu sinni að finna í heimildaskrá Sögu Akraness I. Svo bendi ég á að inn á kortið í bókinni hefur Gunnlaugur einnig bætt húsinu Bræðratungu, sem var ekki byggt fyrr en 1905.11
 

Svoleiðis að þegar allt kemur til alls er myndkort Gunnlaugs Haraldssonar nr. 6 sem á að sýna Skipaskaga og hluta Garðalands árið 1901 byggt á korti Ólafs B. Björnssonar án þess að geta hans að neinu og splæst þar í nokkrum húsum frá 18. öld án þess þau séu sérstaklega auðkennd frá öðrum húsum á kortinu og a.m.k. einu húsi sem var ekki byggt fyrr en 1905. Hversu marktækt er svona kort fyrir þá sem vilja leita sér upplýsinga síðarmeir? Á hinn bóginn lítur kortið sjálft gullfallega út sem er Hans H. Hansen að þakka.
 

Gunnlaugi Haraldssyni finnst leitt að ég skuli „ekki hafa húmor“ fyrir efnistökum hans, t.d. rökum sóttum í Fornaldarsögur Norðurlanda og Guðbrand Vigfússon:

Því kryddi fannst mér ómögulegt að að sneiða hjá, enda þarf vart „sæmilega fróðan mann“ til að sjá hversu vonlítið það er í byrjun 21. aldar að fá vissu fyrir fæðingarstað og uppruna Bresasona. (s. 35)

Það er alveg rétt hjá Gunnlaugi að ég kom ekki auga á húmorinn í þessu enda brúkar hann einmitt þessi rök til að kasta rýrð á fræðimanninn Jón Böðvarsson (sjá Fjórðungsdóminn) sem mér fannst einstaklega ófyndið. Af því önnur meginuppgötvun sú sem Gunnlaugur Haraldsson þykist hafa gert er einmitt uppruni Bresasona hvarflaði ekki að mér að líta bæri á þá uppgötvun sem brandara. (Sjá t.d. orð Guðmundar Páls Jónssonar í SSA XI og auglýsingar Uppheima um I. bindi Sögu Akraness.) Er þá hin meginuppgötvunin, þessi um miklu meiri fiskneyslu Íslendinga á landnámsöld til þrettándu aldar en fræðimenn hafa almennt talið sem varpa ku nýju ljósi á sögu allrar þjóðarinnar (sjá SSA XV), líka brandari? Er Saga Akraness I þá fyrst og fremst duglega myndskreytt brandarabók á glanspappír?
 

Gunnlaugur segir ásakanir mínar um hugmyndastuld og vera léttvægar (að vísu skautar hann snyrtilega fram hjá líklegum svoleiðis stuldi frá sjálfri mér). Í rökum hans má lesa að Gunnlaugur er afar einangraður maður, eiginlega svo vorkunn er að:

Vafalaust hefði mátt bæta fleirum í þann hóp fræðimanna, sem fjallað hafa um þetta efni [samsvörun örnefnaraðar á Lewis og Kjalarnesi og Kjós], þótt ég þekki ekki til þeirra rannsókna. Er þá meðtalin sú Landafundasýning sem Harpa nefnir. Um hana hafði ég hvorki vitneskju né sá á sínum tíma. Mér er því óskiljanlegt hvernig ég átti að vitna til þess korts Gísla Sigurðssonar prófessors, sem prýddi sýninguna. Yfir slikri skyggnigáfu bý ég hreint ekki. Hins vegar dreg ég ekki í efa, að það kort var vel unnið og áreiðanlega að einhverju marki byggt á rannsóknum Magne Oftedal. (s. 35) 

Ég hélt satt að segja að þúsund ára afmæli Vínlandslandsfundar hefði ekki farið fram hjá nokkrum manni, slík var umræðan árið 2000. Stór þáttur í hátíðahöldum vegna þessa afmælis var Landafundasýningin í Þjóðminjahúsinu. Hún fékk svo að standa næstu tvö árin.12
 

Gamli vitinn á SkagatáHörmuleg meðferð heimilda, sem getið er í Fjórðungsdómnum, telur Gunnlaugur að eigi við að hann hafi „bersýnilega, fyrir misgáning“ bætt inn orði í beina tilvitnun í Íslensk fornrit. Ég tek undir með honum að vonandi sé svoleiðis ónákvæmni ekki „beinlínis dæmigerð fyrir heimildameðferð“ hans en um það veit ég ekki því ég fletti einungis upp þremur tilvitnunum í Íslenskum fornritum. Það er hörmulegra finnst mér að geta haft eina einustu beina tilvitnun í Íslensk fornrit stafrétt eftir en það er mýgrútur af slíkum dæmum. Það er algerlega óafsakanlegt enda kýs Gunnlaugur að nefna þetta ekki í sínum langhundi. Sömuleiðis svarar hann því ekki hvers vegna hann vitnar ekki í frumheimild fyrir tilvitnun í fyrirlestur Hallgríms Jónssonar heldur í Borgfirska blöndu.

Í lok hinnar löngu greinar Gunnlaugs kemur svo á daginn að við erum hjartanlega sammála um eitt atriði. Gunnlaugur skrifar:

 Ég tek heilshugar undir þessa ráðleggingu Hörpu [um að Akraneskaupstaður fá sæmilega fróðan mann til að taka út þessi tvö bindi Gunnlaugs og meta vinnubrögð hans áður en frekari samningar verði gerðir við hann], því eigi dómar hennar við rök að styðjast má það sannarlega vera áhyggjuefni og hættuspil fyrir ritnefnd og bæjarstjórn að fela mér að búa meira af samsetningi mínum til prentunar. […] Því sýnist mér hyggilegt, að áður en í það verk verður ráðist [að semja um þriðja bindið] leggi „sæmilega fróður maður“ mat á það, sem út er gefið og ekki verður afturkallað. (s. 35)

Ég fagna þessari niðurstöðu Gunnlaugs enda er um langþráð tækifæri hans til að geta kallað sig fræðimann að tefla. Nú treysti ég því að Gunnlaugur sannfæri Ritnefndina og bæjarráð, sem hvor tveggju hafa ævinlega reynst honum til þjónustu reiðubúin, um að fá óháðan fræðimann í þetta mat, þ.e.a.s. sagnfræðing sem er hvorki tengdur þeim flokksforkólfum, ættum né nefndum sem hingað til hafa skipað hirð sagnaritans, ausið í hann fé og mært hann meir en mestu smjaðrarar í hópi hirðskálda kunnu við í sínu konungalofi forðum tíð.

Jafnframt skora ég á Gunnlaug Haraldsson að afhenda slíkum óháðum fræðimanni handritið að þriðja bindinu (sem hann segir tilbúið) til yfirlestrar, mats og ráðgjafar áður áður en hann svo mikið sem ljáir máls á því að skrifa undir samning um útgáfu þess bindis við Akraneskaupstað.
 
  1 Greinar karlanna er allar að finna í Skessuhorni 8. júní 2011 og er einungis vísað til blaðsíðutala í þessari færslu.
 
 

2 Mánudaginn 23. maí 2011 sendi ég bréf í tölvupósti til allra helstu karlanna í bæjarapparatinu sem höndlað hafa samningagerð við Gunnlaug og samþykkt fé honum til handa einhvern tímann síðustu fjórtán árin, þ.e. Árna Múla Jónassonar, bæjarstjóra Akraneskaupstaðar, Jóns Gunnlaugssonar, formanns ritnefndar um sögu Akraness, Sveins Kristinssonar, forseta bæjarstjórnar, Guðmundar Páls Jónsonar, formanns bæjarráðs og Jóns Pálma Pálssonar, bæjarritara. Í bréfinu fór ég fram á að frekari samningsgerð við Gunnlaug Haraldsson yrði frestað uns Saga Akraness I og II hefði verið ritdæmd í fræðilegu tímariti. Ég benti á að í ljósi hins langa tíma sagnaritunar til þessa lægi tæplega mikið á að gera nýjan samning. Einnig benti ég á að flestir íbúar Akraness væru líklega búnir að fá sig fullsadda af kostnaði við vinnuna til þessa.

Þessu bréfi svaraði bæjarstjórinn Árni Múli Jónasson undir eins og sagði að erindi mitt yrði „að sjálfsögðu tekið til umfjöllunar með viðeigandi hætti hjá Akraneskaupstað.“ Þá ég hváði útskýrði hann í öðru bréfi: „Með viðeigandi hætti þýðir hér að erindið fari til kynningar og umfjöllunar hjá viðeigandi nefndum og ráðum, þ.e. miðað við efni þess og verkaskiptingu nefnda og ráða hjá kaupstaðnum. Í þessu tilviki reikna ég helst með að erindið fari til bæjarráðs og/eða Akranesstofu til umfjöllunar.“ Svör Árna Múla eru frá 23. maí 2011.

Lesendum til upplýsingar þá fer Akranesstofa með stjórn menningar- og safnamála, markaðs- og kynningarmála og verkefna á sviði ferðaþjónustu. Ritnefndin heyrir ekki undir hana því skv. skipuriti Akraneskaupstaðar heyrir Ritnefndin ekki undir neinn sérstakan aðila og hefur aldrei fengið erindisbréf. Í áranna rás hefur hún stundum verið sérstakt verkefni bæjarstjórans sjálfs, oftast heyrt að einhverju leyti undir bæjarráð og einstaka sinnum þurft að lúta vilja bæjarstjórnar. Ég veit ekki hvaðan bæjarstjórinn fékk þá flugu í höfuðið að bréf um ritun sögu Akraness hefði eitthvað með Akranesstofu að gera en honum er að því leytinu vorkunn að þessi Ritnefnd er nátttröll frá síðustu öld og varð útundan þegar stjórnssýsla bæjarins var einfölduð 2009. Þess vegna er Ritnefndin meira eða minna sjálfráð, eftirlitslaus og lítið tengd stjórnsýslu bæjarins nema þegar hún þarf að fara fram á aukið fé handa sagnaritaranum.

Af fundargerð bæjarráðs varð svo strax ljóst að ekki yrði minnsta mark tekið á bréfi mínu. Sama sást í fundargerð ritnefndar um sögu Akraness þegar sú fundargerð rataði loks á vefinn, raunar óvenju snemma (en það hefur verið talsvert algengt að fundargerðir Ritnefndar rati ekki á Vefinn fyrr en nokkrum vikum, jafnvel mánuðum, eftir að fundir eru haldnir í þeirri nefnd).
 
 
 

3 Ari fróði Þorgilsson. Formáli að Íslendingasögu. Tekið úr útgáfu Guðna Jónssonar, Íslendingasögur I, Íslendingasagnaútgáfan 1978, s. 1.
 
 
 

4 Í ritnefnd um sögu Akraness sitja þrír Sjálfstæðismenn: Jón Gunnlaugsson, formaður nefndarinnar og umdæmisstjóri VÍS á Akranesi, Guðjón Guðmundsson framkvæmdarstjóri Dvalarheimilisins Höfða og Bergþór Ólason fjármálastjóri Loftorku í Borgarnesi; fulltrúi Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs er Björn Gunnarsson, svæfingalæknir á HVE og loks situr Leó Jóhannesson framhaldsskólakennari fyrir Samfylkinguna. Flestir þeirra hafa setið mörg ár í Ritnefndinni, Leó á metið en hann hefur setið í ritnefnd um sögu Akraness síðan 1990. Hann er jafnframt sá eini nefndarmanna sem hefur einhverja menntun í sögu, samsvarandi íslenskri BA gráðu í faginu. Í fundargerðum ritnefndar kemur hvergi fram að nefndin hafi kallað sagnfræðing til ráðuneytis. (Gunnlaugur Haraldsson virðist hafa fengið sagnfræðing til að lesa yfir hluta handrits af I. bindinu (í október 2007). Óljóst er á hvaða stigi það handrit var. Einnig þakkar Gunnlaugur tveimur sagnfræðingum veitta aðstoð í formála að fyrsta bindinu. Annar þeirra var jafnframt prófarkalesari verksins.)
 
 
 

5 Sé verið að hugsa um framfærslu eingöngu er það væntanlega Reykjavíkurborg sem ber ábyrgð á framfærslu Gunnlaugs Haraldssonar því þar hefur hann verið búsettur frá 2003.
 
 

6 Hver óbreyttur nefndarmaður fær greiddar 9.269 kr. fyrir fundarsetu og formaður nefndarinnar fær 17.509 kr. fyrir fundarsetuna. Ofan á þessar greiðslur bætast við 17,35% launatengd gjöld sem Akraneskaupstaður greiðir. Mér finnst að fé Akraneskaupstaðar hefði mátt verja betur en í að semja þessa yfirlýsingu. Þetta var 81. fundur ritnefndar um sögu Akraness. Mér finnst einnig að verja mætti fé okkar útsvarsgreiðenda betur en að reka þessa fimm manna nefnd, sem ekki sinnir neinu eftirlitshlutverki heldur minnir meir á klappstýrur, í meir en áratug (raunar allt frá árinu 1997 þegar Gunnlaugur Haraldsson tók við sem sagnaritari; áratuginn á undan var ritnefndin meir í hlutverki nöldurskjóða).
 

7 Vissulega er skemmtileg grein eftir Auði Sæmundsdóttur í þessari Árbók Akurnesinga, „Dagur í lífi sveitakonu“. Og undir ljósmyndinni af kúnum á Jaðarsbakka stendur Á.B. Hins vegar gæti sú merking allt eins verið ritstjórans, Kristjáns Kristjánssonar, sem hefur kannski fundist þessi mynd eiga vel við efni greinarinnar. Hvað sem því líður tel ég nú öllu traustara að byggja á upplýsingum Ljósmyndasafns Akraness og afsökun / skýring Gunnlaugs er afar langsótt, svo ekki sé meira sagt.
 
 
 

8 Gunnlaugur skrifar: „Hugsanlega hefðu mér nægt 20 mínútur til viðbótar við að sannreyna uppruna þeirra fjögurra mynda sem Harpa tiltekur í grein sinni. Á það reyndi hins vegar aldrei. Og víst er um það, að mikið hefði ég fagnað hverjum fimm mínútum, sem mér hefðu gefist til viðbótar til að þrautkanna sérhvert þeirra fjölmörgu atriða, sem ég var í vafa um við samningu þessa rits.“ (s. 34). Í ljósi þess að það tók Gunnlaug Haraldsson 14 ár að koma saman handritum að fyrri tveimur bindunum um sögu Akraness er þessi yfirlýsing auðvitað sprenghlægileg.
 
 
 

9 Sjá „Úr myndasafni Helga Dan“. Árbók Akurnesinga 1. árg. 2001, s. 160. Ritstjóri Kristján Kristjánsson. Þessar upplýsingar koma líka fram í Ásmundur Ólafsson. 2006. „‚Nú er bjart um Skipaskaga - skín á nes og vör‘ Örnefni við Akranes - Gönguferð með sjónum“. Lionsklúbbur Akraness 40 ára, s. 12. Síðarnefndu heimildina er að finna í heimildaskrá Sögu Akraness I. bindi en þá fyrrnefndu ekki.

Lesendur sem ekki hafa skoðað Sögu Akraness I hefðu kannski gaman af að kíkja á ljósmynd Hansínu Guðmundsdóttur í Ljósmyndasafni Akraness, sem tekin er nokkrum mínútum síðar en myndin sem birtist í bók Gunnlaugs (en á myndinni í Ljósmyndasafninu eru konurnar tvær fremst á myndinni í bókinni komnar niður á Langasand). Ég ráðlegg Gunnlaugi (vingjarnlega) að fara nú rækilega yfir skráningu gamalla mynda af Akranesi, í þessu bindi og þeim sem hann hyggst skrifa einhvern tíma í framtíðinni, sem og annað efni. Eiginlega er það svo að um leið og maður fer að skoða efnið eitthvað nánar (í þessu tilviki hluta I. bindis) kemur í ljós urmull af villum til viðbótar þeim sem sjást glöggt við fyrstu sýn.
 
 
 

10 Þetta sést greinilega séu borin saman bæjarheitin Brekkukot og Brekkubær; Þorsteinn hefur Brekkukot norðar en Brekkubæ, sama sést á korti því sem Gunnlaugur segist hafa gert og hangir uppi á Byggðasafninu, en Ólafur B. Björnsson snýr þessu öfugt, þ.e. Brekkubær er nyrðra húsið og sama sést á korti Gunnlaugs í Sögu Akraness I.
 
 
 

11 Á yfirliti sem skýrir tölusetningar á  trélitaða kortinu á Byggðasafninu er svo merkt „89 Hábær I“ og „90 Hábær II (Bræðratunga)“. Þorsteinn Jónsson segir í fjölritinu Hús og býli á Akranesi: „1905 byggir Eyjólfur timburhús á gamla Hábæjarstæðinu og nefnir hann Bræðratungu.“ Ártal og blaðsíðutal vantar. Ólafur B. Björnsson merkir þetta hús (væntanlega torfbæ) sem Hábæ II á sitt kort en Gunnlaugur hefur auðkennt Hábæ II sem íbúðarhús en ekki „torfhús“ (hann kallar torfbæi „torfhús“ í skýringum við litatákn) á trélitaða kortið sitt á Byggðasafninu og er ómögulegt að vita hvort eða hvað hann hefur fyrir sér í því. Í þessu sambandi mætti einnig ræða aldur íbúðar á Hóli II, öðru nafni Hjarðarhóli, miðað við upplýsingar Ólafs B. Björnssonar í „Hversu Akranes byggðist. 5. kafli. Vorhugur og vélaöld gengur í garð“. Akranes 1959 1. hefti (jan.-mars), s. 50 en ég læt hér staðar numið í ókeypis yfirferð yfir kort Gunnlaugs Haraldssonar.
 
 
 

12 Eiginlega minnir þessi einangrun Gunnlaugs mig mest á Múmínpabba í vitanum! Gunnlaugur hefur sjálfur lýst hversu einmanalegt og einangrað starf hins mikla sagnaritara er og það að hafa ekki orðið var við Landafundasýninguna er bara angi af þeirri mýtu: „mega þeir [sagnaritarar] sæta því hlutskipti að sitja einmana og aflokaðir við iðju sína og eru oftast nær einir til frásagnar um það tímafreka puð sem liggur að baki þeim texta sem um síðir mætir lesendanum.“ Gunnlaugur Haraldsson. 25. febrúar 2005. „Meint ritstífla brestur“ á spjallþræði Akraneskaupstaðar.
 

Til að spara Gunnlaugi örlítinn tíma í að setja sig inn í kenningar fleiri fræðimanna bendi ég honum góðfúslega á ritið From Starafjall to Starling Hill. An investigation of the formation and development of Old Norse place-names in Orkney sem unnið er upp úr doktorsritgerð Berit Sandnes frá 2003 og gefið út af  Scottish Place-Name Society 2010. Þar kemur fram að örnefnin Akranes (Aikerness) Garð og Garða (Garth, Garith o.fl.), Kvíar (Quoys, Curqoy, Fealquoy o.fl.) Mela (The Mello), Bakka (Croo Back) og mörg fleiri, meira að segja tvo hólma (Aikerness Holmies) má einnig finna á litlu svæði á Vesturey í Orkneyjum (Evie héraðinu á Westray). Væri kannski hægt að teikna kort af þeim líka, þó ekki væri nema til að undirstrika brandarann um uppruna Bresasona. Myndir af svæðinu má sjá hér. Sömu örnefni finnast víðar á Bretlandseyjum og náttúrlega í Noregi, Færeyjum og víðar um Norðurlönd.
 
 
 
 
 

Ummæli (4) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

21. júní 2011

Nýjar hugmyndir sem varða sögu þjóðarinnar allrar

Hér segir af  samningi forlagsins Uppheima við Akraneskaupstað, greiðslum til Gunnlaugs Haraldssonar árin 2009, 2010 og fé sem þegar hefur verið ákveðið að veita í frekari sagnaritun. Einnig er pælt í af hverju ráðamenn bæjarins halda að Gunnlaugur Haraldsson sé fræðimaður. Niðurstaðan er að það sé enn ein goðsögnin sem leikur um þessa löngu sagnaritun, kostaða af útsvari okkar bæjarbúa. Sé eitthvert sannleikskorn í þeirri goðsögn má e.t.v. flokka Gunnlaug Haraldsson með alþýðufræðimönnum. Fyrirsögnin er óbein tilvitnun í auglýsingar, fréttatilkynningu og orð Gunnlaugs Haraldssonar, sjá neðanmálsgrein nr. 10.
 

Saga Sögu Akraness XV,
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I,     Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II,    Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III,   Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV,    Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V,      Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI,    Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …
Saga Sögu Akraness VIIHvers virði saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig
Saga Sögu Akraness VIII, Ja sko mér er alveg sama og mætti sleppa þessu bókaveseni allveg
Saga Sögu Akraness IX,    einvörðungu markmið þessa samnings að framlengja verktíma, skilgreina verklok og kveða á um greiðslur til sagnaritara
Saga Sögu Akraness X,     Ljóst er að hér er að verða til glæsilegt rit
Saga Sögu Akraness XI,    glæsilegasta byggðarit og rit um sögu byggðarlags sem búið hefur verið til
Saga Sögu Akraness XII,   mikið hefði ég fagnað hverjum fimm mínútum sem mér hefðu gefist
Saga Sögu Akraness XIIIGoðsagnir um glæsileika; „Stórasta“ bók í heimi?
Saga Sögu Akraness XIV,   Verður tilbúið næsta sumar. Ég hef alveg þokkalega samvisku.
Fjórðungsdómur um 18 marka bók (enn ótölusett færsla en verður komið fyrir í samhengi síðar, sem og fjallað um viðbrögð bæjarstjóra, Ritnefndarinnar og sagnaritara við þeirri færslu).
 

Þann 18. janúar 2011 skrifuðu Árni Múli Jónasson bæjarstjóri (f.h. Akraneskaupstaðar) og Þorleifur Örnólfsson framkvæmdastjóri (f.h. Uppheima efh) undir samning um útgáfu á tveimur bindum af Sögu Akraness eftir Gunnlaug Haraldsson.1 (Gunnlaugur afhenti handritin samdægurs og þau voru loks gefin út 19. maí 2011.) Svo virðist sem a.m.k. þremur aðilum hafi gefist kostur á að bjóða í verkið en Uppheimar hrepptu hnossið.2

Uppheimar eru bókaforlag sem stofnað var á Akranesi og annar aðaleigandi þess er Kristján Kristjánsson, búsettur hér í bæ. Strax í febrúar 2007 hafði Kristján mætt á fund Ritnefndarinnar og kynnt hugmyndir sínar um útgáfu bóka Gunnlaugs en það árið héldu menn einmitt að nú væri þetta alveg að hafast. (Sjá Saga Sögu Akraness X. Hér eftir verða einstakar færslur sem vísað er í skammstafaðar SSA og tölusetning.) En auðvitað gekk það ekki eftir. Kristján ætti að vera vel kunnugur Gunnlaugi Haraldssyni, ef marka má orð Gunnlaugs. Kristján var héraðsskjalavörður Héraðsskjalasafns Akraness árin 2000-2005 og Gunnlaugur hefur einmitt gert mikið úr því hve duglegur hann hefur verið að afla frumheimilda af skjalasöfnum. Meðan Gunnlaugur bjó enn á Skaganum (hann flutti héðan árið 2003 og hefur síðan búið í Reykjavík) hafa þeir kannski talið sig kollega í rithöfundastétt.3

Við Byggðasafnið � GörðumÍ samningi Akraneskaupstaðar og Uppheima kemur fram að bindin tvö eru afhent fullbúin til prentunar að undanskilinni kápu. „Innifalið í því er litgreining og stilling á myndefni fyrir prentun, umbrot og prófarkalestur og er staðfesting frá prentsmiðju um nauðsynleg prentgæði verkanna áskilin.“ (2. gr.) Gefa skyldi út 800 eintök af hvoru bindi (4. gr.). Akraneskaupstaður greiddi duglega með verkinu, rétt rúmar 7,8 milljónir, með virðisaukaskatti. Í þeirri upphæð fólst tveggja milljón króna beinn styrkur vegna útgáfu bókarinnar, kostnaður af hönnun kápu, auglýsingar- og kynningarkostnaður og að bærinn skuldbatt sig að kaupa 236 eintök af hvoru bindi. (5. gr.)4

Í fylgiskjali með samningnum kemur fram að Prentsmiðjan Oddi hafði gert Uppheimum tilboð sem hljóðaði upp á tæplega 8,5 milljónir án virðisaukaskatts fyrir að prenta þessi 800 eintök af hvorri bók í fjórlit á 150 gr. pappír með harðri kápu og saumaðri í kjöl.
 

Skv. upplýsingum Hagstofunnar bjuggu 6.600 manns á Akranesi á fyrsta ársfjórðungi 2011. Uppheimar þurfa ekki að selja mörg eintök til að koma út á sléttu og er ekki ólíklegt að forlagið hafi jafnvel eygt hagnaðarvon. A.m.k. virðist útgefandanum Kristjáni Kristjánssyni mjög í mun að semja sem fyrst um útgáfu þriðja bindisins og hefur til þess stuðning ritnefndar um sögu Akraness og bæjarráðs, s.s. rakið var í síðustu færslu (sjá SSA XIV). Hvers vegna svo mjög liggur á er óljóst því líklega liggja sölutölur ekki að fullu fyrir (það er rétt rúmur mánuður síðan bækurnar komu út) og enginn ritdómur um verkið hefur birst í fjölmiðlum, hvað þá í ritrýndu tímariti.
 

Í fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar fyrir árin 2012 og 2013 er gert ráð fyrir 4,2 milljónum króna hvort ár í ritun sögu Akraness. Þessar fjárhæðir eru ekki sundurgreindar. Í ljósi sögunnar sem ég hef rakið undanfarið er ljóst að þær milljónir hrökkva skammt til að greiða sagnaritara og útgáfufyrirtækinu Uppheimum fyrir þriðja bindið af Sögu Akraness.5
 
 
 

Greiðslur til Gunnlaugs Haraldssonar og kostnaður Akraneskaupstaðar

Akraneskaupstaður greiddi Gunnlaugi Haraldssyni tæpar 15,5 milljónir árin 2008 og 2009. Þessi háa fjárhæð gengur alls ekki upp miðað við síðasta samning bæjarins við Gunnlaug. (Sjá seinni hluta SSA X og SSA XI.)6

Árið 2010 fékk Gunnlaugur einungis rúmlega 550.000 kr. greiddar frá Akraneskaupstað og var búinn að fá rétt rúma milljón árið 2011 þegar Akraneskaupstaður veitti mér nú í maíbyrjun þær upplýsingar sem ég hef notað til þessa. Kostnaður bæjarins af Ritnefndinni var rúmar 200.000 kr. árið 2010 og komin upp í 64.000 kr. í maíbyrjun 2011. Annar kostnaður bæjarins vegna söguritunar var tæpar þrjár milljónir árið 2010 og kominn í rétt rúmar 5,8 milljónir í maíbyrjun 2011. Þá var auðvitað eftir að greiða þessar tæpu 5 milljónir fyrir eintökin sem keypt voru af Uppheimum því það átti ekki að gera fyrr en við afhendingu, væntanlega 19. maí þegar bindin komu út. Alls var kostnaður Akranesbæjar af sagnaritun árið 2010 og fyrstu fjóra mánuðina 2011 því rúmar 10,7 milljónir, á núvirði tæpar 10,8 milljónir.
 
 
 

Er Gunnlaugur Haraldsson fræðimaður?

Áður hefur verið gerð grein fyrir tveimur goðsögnum sem umlykja hina dýru og seinunnu sagnaritun Gunnlaugs Haraldssonar, þ.e. að verkið sé glæsilegast verka (sjá SSA XIII) og að höfundur hafi verið á kafi í merkilegri rannsóknarvinnu frumgagna allan þennan tíma (sjá fyrrnefnda SSA XIII og SSA XII) Enn ein kenningin sem haldið er á lofti meðal bæjarstjórnarmanna er að Gunnlaugur Haraldsson sé fræðimaður, eiginlega svo mikill fræðimaður að það sé aðför að heiðri hans að benda á hve hluti I. bindisins er hroðalega illa unninn (sjá Fjórðungsdóm um 18 marka bók). Er þetta satt eða er þetta bara enn ein goðsögnin sem ritun sögu Akraness er sveipuð?
 

Ég hygg að í munni margra sé greint milli tvenns konar fræðimanna: Fræðimanna sem undirgangast kröfur akademískra útgefenda (skrifa greinar í ritrýnd tímarit; skrifa bækur sem eru ritrýndar af lærðum kollegum) og hrærast þannig í fræðimannasamfélagi. Á hinn bóginn eru alþýðufræðingar eða alþýðufræðimenn, sem skrifa greinar, bækur o.þ.h. fyrir alþýðu manna eða safna og miðla fróðleik af einhverju tagi.
 

Gunnlaugur Haraldsson er ekkert sérlega skólagenginn maður. Hann hefur gráðu í þjóðháttafræði sem samsvarar íslenskri BA gráðu (lægstu háskólagráðu) og eins árs háskólanám í fornleifafræði á meistarastigi (sjá SSA IV). Það er því hæpið að kalla hann lærdómsmann eða vísindamann á grundvelli menntunar.
 

Gunnlaugur Haraldsson hefur ekki skrifað eina einustu grein í ritrýnt tímarit né hafa birst dómar um verk hans í slíkum ritum.7

Flest rita Gunnlaugs eru annars eðlis en sagnfræðileg; Þau eru langflest stéttartöl eða ættartöl af einhverju tagi. Þegar hann var ráðinn til að skrifa sögu Akraness, 1997, hafði hann einungis samið eina bók, Akraneskirkja 1896-1996 ásamt ágripi af sögu Garða og Garðakirkju á Akranesi (hér tel ég 5 bls. texta í ljósmyndabók um Akranes ekki til bókarskrifa), lítilsháttar fengist við greinaskrif,  í sjómanndagsblað, héraðsrit o.þ.h. og svo ritstýrt ættfræði- og stéttartölum, sem fyrr var minnst á. Bók Gunnlaugs um Akraneskirkju er að stórum hluta upptalning og smávegis kynning á prestum, sóknarnefndum og starfsfólki auk byggingarsögu og sögu muna kirkjunnar og hefur væntanlega verið ætluð fremur þröngum lesendahópi. Útgefandi var Akraneskirkja og bókin kom út í ágúst 1996. Ég fann bara einn ritdóm um sögu Akraneskirkju, í Morgunblaðinu í september 1996, og ekki er hægt að finna neinn ritdóm um hana í ritrýndu tímariti, raunar ekki einu sinni í Kirkjuritinu. Morgunblaðsdómurinn er afar jákvæður enda dæmir gagnrýndandinn, Sigurjón Björnsson, yfirleitt mjög jákvætt.

Þrátt fyrir þennan skort á athygli eða ritdómum um sögu kirkjunnar og skort á öðrum sagnfræðiverkum (utan nokkurra greina eða ritstjórnar stéttaratala og ættartala, sem fyrr var nefnt og mætti kannski kalla alþýðusagnfræði) héldu ónafngreindir bæjarstjórnarmenn því fram þegar Gunnlaugur var ráðinn til að skrifa sögu Akraness að hann hefði „til dæmis skrifað sögu Akraneskirkju og farist það afburðavel úr hendi“ (feitletrun mín).
 

Gunnlaugur hefur verið iðinn við ritstjórn stéttartala, ættartala o.þ.h. áfram, meðfram því að skrifa ekki sögu Akraness, a.m.k. skila engu tæku til prentunar á tímabilinu febrúar 1997 til janúar 2011, þegar hann skilaði loks handritum að þeim tveimur bindum Sögu Akraness sem gefin voru út 19. maí síðastliðinn. (Sjá yfirlit yfir hjáverk Gunnlaugs í SSA XII.) Þrátt fyrir litla menntun og engin akademísk skrif hefur goðsögnin um hinn mikla fræðimann vaxið og dafnað, a.m.k. meðal bæjarstjórnarmanna. Sagnaritarinn sjálfur hefur einnig gefið þessu undir fótinn með sífelldum yfirlýsingum um sína miklu vísindalegu rannsóknarvinnu sem áður hefur verið vitnað til og einnig með því að virðast sjálfur telja sig í hópi fræðimanna.9
 

Nú hefur loksins litið dagsins ljós verk eftir Gunnlaug sem hann og bæjarstjórnarmenn telja mjög fræðilegt verk.Samkvæmt auglýsingum, fréttatilkynningu og orðum sagnaritarans sjálfs eru þar settar fram nýjar hugmyndir sem varða sögu þjóðarinnar allrar.10  Má því telja fullvíst að óskað verði eftir að það verk verði gagnrýnt í ritrýndu tímariti, t.d. Sögu: tímariti Sögufélags, og verður spennandi að sjá þá dóma því enginn sagnfræðingur hefur tekið verkið út á vegum bæjarins og því mjög á huldu ennþá hversu mikla lukku margauglýst sagnfræðilegt gildi verksins vekji meðal sérfræðinga.
 

Það ætti að vera alveg ljóst af framansögðu að Gunnlaugur Haraldsson hefur ekki enn uppfyllt nein skilyrði til þess að kallast fræðimaður í akademískum skilningi.  Það er goðsögn að hann sé slíkur fræðimaður.
 
 

Byggðasafnið � GörðumVissulega má kalla Gunnlaug Haraldsson alþýðufræðimann. En slíkir fræðimenn leggja oftast nokkurt kapp á að koma fróðleik sínum til skila. Ég nefni sem dæmi um fræga alþýðufræðimenn þá Þórð Tómasson í Skógum og Árna Óla. Óumdeildur alþýðufræðimaður hér á Akranesi var Ólafur B. Björnsson, höfundur bókanna Saga Akraness I (útg. 1957) og Saga Akraness II (útg. 1959), auk þess sem Ólafur gaf út tímaritið Akranes í fjölda ára.

Gunnlaugur hefur ekki skrifað eina grein í Árbók Akurnesinga, ársrit sem Uppheimar hafa gefið út frá árinu 2001 í ritstjórn Kristjáns Kristjánssonar; Ég man ekki til þess að hafa séð nokkra grein eftir Gunnlaug um eitthvað sem snertir annað en hans eigin erfiðu sagnaritun í Skessuhorni; Gunnlaugur hefur ekki flutt neinn opinn fyrirlestur fyrir bæjarbúa um eitthvað sem snertir sögu Akraness;  Hann hefur ekki flutt neinn útvarpsþátt um eitthvað sagnavert af Akranesi svo ég viti til: Í stuttu máli sagt hefur Gunnlaugur alls ekki miðlað bæjarbúum neinu af sínum fróðleik um sögu Akraness í þessi 14 ár sem hann hefur þegið laun fyrir að skrifa þá sögu.
 

Raunar má finna dæmi þess að Gunnlaugur hafi þvert á móti reynt að koma í veg fyrir að aðrir gætu nýtt gögn í eigu Akraneskaupstaðar til að auka þekkingu bæjarbúa á eigin sögu. Þar er ég einkum með í huga örnefnakort, sem þrír góðir og gegnir Skagamenn merktu inn á fyrir nokkrum árum og afhentu Gunnlaugi. Á þessu korti voru t.d. merkt öll sker í kringum Akranes. Landmælingar Íslands (sem eru til húsa á Akranesi) og Akraneskaupstaður gerðu með sér samstarfssamning um söfnun og skráningu örnefna árið 2009. Fengnar voru örnefnalýsingar sem til voru hjá Árnastofnun og „óskað var eftir örnefnum frá Sögu Akraness en ekki fékkst aðgangur að gögnunum.“ Landmælingar Íslands gripu þá einfaldlega til þess ráðs að leita aftur til þessara ágætu Skagamanna og þeir teiknuðu öll örnefnin aftur inn á kort, fyrir stofnunina. Því hafa bæjarbúar og aðrir haft aðgang að þessari þekkingu um bæinn og umhverfi hans um nokkurt skeið þrátt fyrir að sagnaritari bæjarins hafi reynt að koma í veg fyrir slíkt.11 
 

Gunnlaugur Haraldsson hefur sem sagt ekkert gert til að auka áhuga bæjarbúa á eigin sögu eða fræða þá eða aðra um einstaka þætti sögunnar og hefur reynt að koma í veg fyrir að aðrir gætu frætt íbúa Akraness um umhverfi sitt.
 
 
 
 
Ég hef nú í mörgum færslum rakið atrennur að ritun sögu Akraness á seinni hluta síðustu aldar og þessari öld. Næsta færsla verður svar við greinum bæjarstjórans og Gunnlaugs Haraldssonar, sem og yfirlýsingu ritnefndar um sögu Akraness, sem birtust í Skessuhorni 8. júní síðastliðinn. Að því búnu skrifa ég yfirlitsfærslu sem þar sem stiklað verður á stóru yfir ritun sögu Akraness og reynt að varpa ljósi á heildarmynd þessarar sorgarsögu. 
1 Bæjarstjórn samþykkti samninginn einróma 26. janúar 2011.
 
 2  Á bæjarstjórnarfundi 25. maí 2010 sagði Gísli S. Einarsson bæjarstjóri:„…og að öðru leyti er þetta nánast tilbúið að öllu leyti. Það er búið að gera kröfur um pappírsgæði og prentgæði og allt það sem þessu viðkemur og ég veit ekki hvort ég gæti gert nægilega vel grein fyrir þessu annað heldur en það að það eru hugmyndir uppi um á hvern hátt megi fá verulega upp í kostnað við útgáfuna og það byggist auðvitað  á því hvernig væntanlega verður boðið í verkið. Það eru þrír … þrjár prentsmiðjur sem að geta gert þetta hér á landi … það eru svipað margir aðilar sem geta hannað útgáfuna og síðan er velt upp þeim möguleika sem kannski yrði kostnaðarsamastur fyrir Akraneskaupstað að þetta verk yrði sett í þann búning að sem flestir bæjarbúar gætu eignast það en það þýðir töluverðan kostnað væntanlega fyrir Akraneskaupstað.

En að öðru leyti þá er það tilboð sem er vænlegast …  það fjallar þá um það eða að hugmyndin er sú að er sú að Akraneskaupstaður fái tiltekinn fjölda eintaka og síðan verði ákveðinn hluti af fjölda … af sölu fjölda eintaka sem að gengur til Akraneskaupstaðar.“ (Skrifað eftir hljóðupptöku sem fylgir fundargerð á vef Akraneskaupstaðar.)
 
 

3 12. október 1996 kom löng grein í helgarblaði Dagblaðsins Vísis-DV um sex rithöfunda sem þá voru búsettir á Akranesi. Þetta voru þeir Hannes Sigfússon, Gyrðir Elíasson, Kristín Steinsdóttir, Kristján Kristjánsson, Guðrún Eiríksdóttir og Gunnlaugur Haraldsson (en þá var Akraneskirkja 1896-1996 eftir Gunnlaug nýkomin út). Sjá „Sex rithöfundar búsettir á Akranesi: Þar sem andinn kemur yfir menn“. Óneitanlega er Gunnlaugur talinn upp í góðum félagsskap þarna en aftur á móti kemur hann ekkert við sögu í greininni því hann var fjarverandi þegar viðtölin við rithöfundana voru tekin.
 
 

4 Í fylgiskjali 1 með samningnum kemur fram að senda á kynningarbækling í fjölpósti til allra fyrirtækja og heimila í póstnúmerum 300, 3001, 301 og 311 og markpóst til 2500 aðila. Einnig verði keypt opnuauglýsing vegna útgáfu og heilsíða vegna forsölu í Póstinum (vikulegu dagskrár- og auglýsingablaði sem dreift er á Akranesi og víðar). Loks skyldi kaupa tvær heilsíður í Skessuhorni (vikublaði sem dreift er um Vesturland). Í auglýsinga- og kynningarkostnað greiddi Akraneskaupstaður 700.000 kr.

Afrit af þessum samningi er fengið frá Akraneskaupstað þann 4. maí 2011.
 
 

5 Upplýsingar um fjárhagsætlun Akraneskaupstaðar 2012 og 2013 eru fengnar frá Akraneskaupstað 4. maí 2011.
 
 

6 Ragnheiði Þórðardóttur þjónustu og upplýsingarstjóra Akraneskaupstaðar, tókst að svara fyrirspurn minni í dag, 24. júní,  og benti jafnframt á að ég hefði spurst fyrir þann 5. júní en ekki 3. júní (eins og mig minnti sjálfa). Kann ég henni bestu þakkir fyrir leiðréttingu á þessari dagsetningu. Ég hafði í ítrekun spurninga minna einfaldað þær eins og kostur var, ef það mætti létta Akraneskaupstað vinnuna við að finna svörin. Í svari Ragnheiðar í dag (sem hún sendir bæjarstjóranum og fjármálastjóra bæjarins afrit af) segir:

„Svar við a) er nei.  Ekki hafa verið gerðir fleiri samningar við Gunnlaug Haraldsson.
Svar við b) er já.   Greiðslur til Gunnlaugs Haraldssonar árin 2008 og 2009 voru gegn framvísun reikninga.“

Þá er það sem sagt pappírslega komið á hreint og kann ég Akraneskaupstað náttúrlega bestu þakkir fyrir að hafa það af að finna þessar upplýsingar á einungis 18 dögum. Hvers vegna bærinn var að borga honum Gunnlaugi 15,5 milljónir gegn framvísun reikninga árin 2008-9 er afar óskiljanlegt. Reikninga fyrir hvaða vinnu? Reyndar held ég að hluti þessarar upphæðar sé greiðsla skuldar þeirrar er getið er í samningnum sem Akraneskaupstaður og Gunnlaugur undirrituðu 2. desember 2009. Bendir svarið því til þess að forsvarsmenn Akraneskaupstaðar nú (meðan bæjarritari er í sumarleyfi) viti ekki einu sinni nákvæmlega af hverju Gunnlaugi var greitt svo mikið fé. Líklega þýðir ekkert að spurja þetta fólk hvort það viti fyrir hvað reikningarnar voru. 
 
 
 

7 Þessi staðhæfing byggir annars vegar á þeim verkum sem eru skráð á Gunnlaug Haraldsson í Gegni, hins vegar á æviágripi DV í tilefni af fimmtugsafmæli hans þar sem fram koma helstu störf og rit og æviágripi hans í MA-stúdentar 1973, s. 495-497 í Æviskrám MA stúdenta V, útg. 1994, í hans eigin ritstjórn. Í tveimur síðartöldu heimildunum er sú villa að Gunnlaugur segist hafa setið í ritnefnd um sögu Akraness frá sept. 1987 til júní 1991 en hið rétta er að hann veik úr Ritnefndinni í júní 1990 og Leó Jóhannesson tók sæti hans. 
 
 

8 Hvers vegna ritnefnd sóknarnefndar Akraneskirkju ákvað að ráða sannfærðan og harðskeyttan Alþýðubandalagsmann, sem var ekki kunnur af neinum sagnfræðiskrifum, til verksins er nokkur ráðgáta. Sjálfur segir Gunnlaugur Haraldsson í formála þessarar bókar: „Á vordögum 1995 fór ritnefndin þess á leit við mig að ég ritaði sögu kirkjunnar. Til þess vandasama verks gekk ég þó með hálfum huga, enda alls ófróður um íslenska kirkjusögu, svo og almennt safnaðarstarf á vegum Akraneskirkju fyrr og síðar.“ (s. 7.) Í ritnefnd sóknarnefndarinnar sátu þrír menn, þ.á.m. Þjóðbjörn Hannesson, formaður sóknarnefndar.

Eftir því sem ég best veit fylgdi Þjóðbjörn framsóknarflokknum að málum en hann er reyndar bróðir Guðbjarts Hannessonar, núverandi velferðarráðherra en þáverandi bæjarstjórnarmanns á Akranesi, fyrir Alþýðubandalagið. Á lista Alþýðubandalagsins fyrir bæjarstjórnarkosningarnar 1994 má sjá myndir af nokkrum persónum sem áður hafa verið nefndar í rakningu sögu Sögu Akraness, t.a.m. Guðbjarti Hannessyni, Sveini Kristinssyni, núverandi forseta bæjarstjórnar Akraneskaupstaðar, Ingunni Önnu Jónasdóttur, systur Árna Múla Jónassonar núverandi bæjarstjóra og eiginkonu Engilberts Guðmundssonar sem varði Gunnlaug dyggilega snemma á níunda áratug síðustu aldar (sjá SSA II), Guðrúnu Geirsdóttur, sem varð svo formaður Menningarmála- og safnanefndar bæjarins, auk náttúrlega Gunnlaugs sjálfs.

Eins og kom fram í færslunni SSA IV uppgötvaðist einhvers konar bókhaldsóreiða eða fjármálaóreiða í rekstri Byggðasafnsins við yfirferð reikninga safnsins frá janúar til október. Þetta kom til tals á fundi sem er ódagsettur í fundargerðarbók Menningarmála- og safnanefndar en hefur væntanlega verið haldinn 5. desember 1995: „Bréf frá Endurskoðunarskrifstofu J.Þ.H. sem hefur yfirfarið reikninga safnsins frá jan-okt. ‘95. Þar er bent á að útlit sé á að verulega verði farið fram úr áætlun. Gunnlaugur Haraldsson taldi skýringu á þeim mismun sem fram kemur þar, stafaði [svo] af því hvernig færslur færu fram hjá aðalbókara.“  [Líklega er þarna vitnað í bréf Gunnlaugs Haraldssonar því sjálfur var hann ekki viðstaddur fundinn, skv. undirritunum fundarmanna.] Þann 20. janúar 1996 fundaði framkvæmdastjórn Byggðasafnsins með bæjarritara. Þar var m.a. bókað: „Eigendur greiði með sérstöku framlagi á þessu ári yfirdrátt á tékkareikningi, skuld við Bæjarsjóð Akraness og viðskiptaskuldir í réttu hlutfalli við framlög eigenda til rekstrar.“  Þann 7. febrúar 1996 er bókað á fundi stjórnar Byggðasafnsins: „Eignaraðilar komi sér saman um að greiða upp skammtímaskuldir safnsins að upphæð kr. 7.710.406,00 í sömu hlutföllum og framlög þeirra hafa verið á undanförnum árum. Framlag þetta verði fært undir árinu 1995 og ársreikningur safnsins verði tekinn upp og leiðréttur í samræmi við þessa niðurstöðu.“ [7,7 milljónir árið 1995 samsvarar um 17 milljónum á núvirði miðað við vísitölu neysluverðs í maí 1995 og maí 2011.]  Á sama fundi var ákveðið að semja við Akraneskaupstað „um að kaupstaðurinn tæki að sér allar fjárreiður og bókhald safnsins […] Fastari reglur verði settar um eftirfylgni fjárhagsáætlunar á hverjum tíma, þannig að forstöðumanni verði ekki heimilt að stofna til kostnaðar umfram samþykkta fjárhagsætlun á hverjumt tíma […] Stjórn Byggðasasfnins og forstöðumanni verði óheimilt að stofna til skulda við lánastofnanir og viðskiptaaðila í nafni safnsins …“ 

Gunnlaugur Haraldsson fór í launalaust leyfi til að skrifa sögu Akraneskirkju í maí árið 1995 og sagði lausu starfi sínu sem forstöðumaður Byggðasafnsins með bréfi sem lagt var fram á sama fundi og bréfið frá endurskoðendunum var tekið fyrir, líklega þann 5. desember 1995.

Það er áhugavert að skoða tengsl fólksins sem kemur við sögu í þessari neðanmálsgrein en skv. frétt  sem krækt er í úr SSA IV var ráðning Gunnlaugs sem sagnaritara kirkjunnar og uppsögn hans algerlega ótengd þessari miklu fjármálaóreiðu á Byggðasafninu árið 1995.
 

9  „Að síðustu áleit ég þann verktíma sem mér var ætlaður allt of knappan miðað við þær kröfur sem ég taldi að gera bæri til þessarar söguritunar, þ.e. rúm fjögur ár. Taldi raunhæfara að miða við 8-10 ár og studdist í því efni við ráðleggingar nokkurra kunningja minna í fræðimannastétt sem tekist hafa á við hliðstæð viðfangsefni, - og sömuleiðis vitnisburð úr formálum margra útgefinna rita um byggða- og héraðssögu.“ Gunnlaugur Haraldsson. 25. febrúar 2005. „Meint ritstífla brestur“ á spjallþræði Akraneskaupstaðar.

Má allt eins skilja orð Gunnlaugs sem svo að hann telji sig sjálfan í fræðimannastétt, eigi þar a.m.k. nokkra kunningja sem ráðleggja honum. Ég veit náttúrlega ekki hverjir þeir eru; Er hann að tala um Jón Þ. Þór? Guðjón Friðriksson? Jón Hjaltason?

Nefna má að Gunnlaugur sýndi Ritnefndinni snemma Sögu Akureyrar eftir Jón Hjaltason (líklega I. bindið) sem hugsanlega fyrirmynd að eigin sagnaritun. Þarna er ólíkum saman að jafna því þótt það tæki Jón Hjaltason 17 ár að skrá sögu Akureyrar (sem er reyndar ólíkt stærri bær en Akranes og hefur verið svo um aldir og gæti jafnvel hafa gerst þar meira) þá komu út fimm bindi á þessu tímabili, að jafnaði á þriggja ára fresti, auk þess sem Jón flutti fjölda fyrirlestra tengda efninu á Akureyri og víðar, skrifaði margar greinar og hagaði sér almennt eins og góðum fræðimanni sæmdi. Bækurnar urðu vinsælar, eitt bindið var tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna og gott ef útgáfan stóð ekki undir sér. Jón Hjaltason er cand.mag í sagnfræði. 
 
 

10  „Nýjar hugmyndir sem varða sögu þjóðarinnar allrar eru settar fram í lýsingu á þróun og uppbyggingu samfélagsins“ (opnuauglýsing í Póstinum 20. apríl 2011); 
„Í lýsingu á þróun og uppbyggingu samfélagsins eru settar fram hugmyndir sem varða sögu landsins alls“ ( „Saga Akraness kemur út á morgun“. Skessuhorn 18. maí 2011, s. 4); 
„Ég hef grun um, er þess reyndar fullviss, að sjávarútvegurinn gegndi miklu þýðingarmeira hlutverki í hagkerfi landsmanna á miðöldum en menn hafa almennt talið hingað til, þ.e. allt frá landnámstíð.“ ( „Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar. Spjallað við Gunnlaug Haraldsson ritara Sögu Akraness.“ Skessuhorn 13. apríl 2011, s. 15.)
 
 

11  „Örnefnaskráning. Sumarvinna 2010“, glæra 15. Landmælingar Íslands. Útprentun dags. 9.6. 2010.
Landmælingar Íslands ákváðu að fyrsta verkefni í nýju örnefnatóli 2009 yrði örnefnaskráning á Akranesi. Á sömu glæru kemur fram að heimildamenn sem gáfu vinnu sína [í annað sinn] voru Ásmundur Ólafsson, Bragi Magnússon og Þórður Árnason.

Þessi örnefni má skoða á Velkomin til Akraness (visitakranes.is) og á Kortasjá Landmælinga Íslands (ath. að það þarf að þysja út kortið til að örnefni sjáist) en merkilegt nokk eru fá örnefni merkt inn á kortið af Akranesi á heimasíðu Akraneskaupstaðar.
 

Í sambandi við fastheldni Gunnlaugs á gögn í eigu Akraneskaupstaðar sem hann hefur komist yfir má einnig nefna að ekki hefur hann skilað handriti Jóns Böðvarssonar af sögu Akraness 1885-1941 enn á Héraðsskjalasafnið. Þetta handrit afhenti Gísli Gíslason, þáverandi bæjarstjóri og formaður ritnefndar um sögu Akraness, Gunnlaugi í febrúar 1997. Það væri óneitanlega gaman að geta skoðað handrit Jóns Böðvarssonar, hafi maður áhuga á sögu bæjarins, og ótrúlegt hve Gunnlaugur liggur á því í mörg ár í ljósi þess að honum þótti þetta um þá bók Jóns sem kom út: „Í öðru lagi þótti mér að í bók Jóns hefði verið skautað býsna glannalega yfir fjölmarga þætti sögunnar, að því marki sem ég taldi mig þá þekkja til hennar, - einkum á 18. og 19. öld, - heimildanotkun og efnistök einnig gjörólík því sem ég myndi sjálfur kjósa.“ (Gunnlaugur Haraldsson. 25. febrúar 2005. „Meint ritstífla brestur“ á spjallþræði Akraneskaupstaðar.) Svo tæplega er handrit Jóns Böðvarssonar af öðru bindinu um sögu Akraness það mikils virði fyrir Gunnlaug Haraldsson að hann þurfi að „hafa það í láni“ miklu lengur en í 14 ár!
 
 
 
 
 
 
 

Ummæli (2) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

17. júní 2011

Verður tilbúið næsta sumar. Ég hef alveg þokkalega samvisku.

Í fyrri færslum hefur verið rakið í smáatriðum hvernig Akraneskaupstaður gerði tvo grunnsamninga og fjóra viðaukasamninga við Gunnlaug Haraldsson og hann stóð ekki við neinn þeirra. Til að sýna hvernig fagurgali um eigin vinnu en lítill afrakstur setja mark sitt á þau 14 ár sem Akraneskaupstaður hefur haft Gunnlaug Haraldsson í vinnu við sagnaritun verður reynt að rekja einn þráð sagnaritunarinnar, þann sem kallast nú III. bindi Sögu Akraness. Þriðja bindið er núna sá hluti sögunnar sem á að ná yfir tímabilið 1800-1900 og bæjaryfirvöld, ásamt Kristjáni Kristjánssyni öðrum aðaleiganda útgáfufyrirtækisins Uppheima, virðast óð og uppvæg vilja semja um við Gunnlaug.1 Jafnframt verður getið skýringa sagnaritarans á því hvers vegna þetta bindi er ekki fyrir löngu fullskrifað og útgefið. Til glöggvunar á vinnu og skilum Gunnlaugs almennt má benda á yfirlitstöflur unnar úr fundargerðum ritnefndar um sögu Akraness á árunum 1997-2011. 
 

Titill færslunnar er óbein tilvitnun í Gunnlaug Haraldsson í „Saga Akraness: 75 milljónir en engu skilað“ (DV 22. desember 2009) en finna má nokkurn veginn samsvarandi loforð og yfirlýsingar um skort á eftirsjá og samviskubiti Gunnlaugs í fleiru sem eftir honum er haft.

Saga Sögu Akraness XIV
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I,     Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II,    Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III,   Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV,   Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V,      Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI,    Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …
Saga Sögu Akraness VIIHvers virði saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig
Saga Sögu Akraness VIII, Ja sko mér er alveg sama og mætti sleppa þessu bókaveseni allveg
Saga Sögu Akraness IX,    … einvörðungu markmið þessa samnings að framlengja verktíma, skilgreina verklok og kveða á um greiðslur til sagnaritara
Saga Sögu Akraness X,     Ljóst er að hér er að verða til glæsilegt rit
Saga Sögu Akraness XI,   glæsilegasta byggðarit og rit um sögu byggðarlags sem búið hefur verið til
Saga Sögu Akraness XIImikið hefði ég fagnað hverjum fimm mínútum sem mér hefðu gefist
Saga Sögu Akraness XIII, Goðsagnir um glæsileika; „Stórasta“ bók í heimi?
Fjórðungsdómur um 18 marka bók (enn ótölusett færsla en verður komið fyrir í samhengi síðar, sem og fjallað um viðbrögð bæjarstjóra, Ritnefndarinnar og sagnaritara við þeirri færslu).
 

LangisandurAf því fljótlega verður ljóst að sagnaritun Gunnlaugs og samskipti við ritnefnd um sögu Akraness (og bæjaryfirvöld) eru þvæla, þ.e.a.s. að upphaflegum áætlunum er breytt, þeim jafnvel snúið á haus, ótal vinnuplögg og minnisblöð og verkáætlanir eru lagðar fram svo skv. fundargerðum virðist sagnaritarinn á kafi í mjög skipulagðri vinnu en þó er litlu sem engu skilað og undir lokin er brugðið upp Potemkin-tjöldum í glærulíki (sýnishornum af blaðsíðum en hvorki Ritnefndin né bæjaryfirvöld virðast hafa lesið textann almennilega) þá er ekki auðvelt að greiða úr þessari flækju svo úr verði skiljanlegt samhengi. Ég fer þá leið að reyna að fylgja því sem nú kallast III. bindi eftir og nær yfir tímabilið 1801-1900. Í færslunni er þetta tímabil (sem fyrst var allt hluti I. bindis, seinna varð tímabilið frá 1850 hluti II. bindis og nú er öll nítjánda öldin í fyrirhuguðu III. bindi), umfjöllun um það og áætlaðir skiladagar litað og feitletrað svo auðveldara sé að henda reiður á þessu. Sömuleiðis eru  afsakanir höfundar þegar hann skilar ekki efni auðkenndar lit og feitletrun.

Í fyrsta samningnum sem gerður var við Gunnlaug (1997) átti hann að skrifa þrjú bindi um sögu Akraness: Fyrsta bindi um byggðasögu 1700-1900, annað bindi um atvinnuhætti og hagsögu 1900-2000 og hið þriðja um félags-og menningarsögu 1900-2000. Fyrsta bindi skyldi skila eigi síðar en 1. október 1999; öðru bindi eigi síðar en 1. október 2000 og þriðja bindi eigi síðar en 1. október 2001. (Sjá Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma. Hér eftir verður vísað í einstakar færslur með skammstöfuninni SSA og tölusetningu færslunnar.)

Mjög snemma, strax haustið 1998, kemur fram í máli sagnaritarans að „heimildaöflun hafi verið tímafrekari en í upphafi mátti ætla (36. fundur, nóv. 1998). Um mitt árið 2000 er stefnt að því að leggja fram handrit þáverandi fyrsta bindis á haustdögum eða í vetrarbyrjun þess árs og er haft eftir Gunnlaugi að hann hafi byrjað að skrifa það í janúar og sé nú að skrifa 5. kaflann, „þ.e. um 19. öldina, þar sem meginefnið fjallar um þróun atvinnulífs og sögu byggðarinnar.“ Strax þá var hann ári á eftir áætlun með verkið, skv. samningi. (38. fundur, júní 2000.)

Haustið 2001 er bókað að „Innan nokkurra vikna“ liggi drög að handriti til 1850 fyrir og Gunnlaugur hafi skilað 70 síðum af efni frá 19. öld. (42. fundur, október 2001.) Mánuði síðar lagði hann fram 598 síður í handriti sem nær frá 1700 til 1850 en jafnfram bréf þar sem „kemur m.a. fram að verkið hafi tafist þar sem langtum meiri tíma hafi tekið að leita uppi heimildir í skjalasöfnum, úrvinnsla gagna og heimilda fór þar af leiðandi seinna af stað og lokst að ítarleg heimildaöflun hafi leitt fjölmargt í ljós sem fyrirfram var ekki vitað og kostað töluverða vinnu að vinna úr. Á sama fundi staðfesti ritnefndin skil á 1. bindi verksins sbr. gildandi samning og mætti því ætla að ritun sögu Akraness árin 1700-1900 væri lokið árið 2001. (Raunar kom svo fram tæpu hálfu ári síðar að einn kafla hafði nú vantað inn í bindið og er merkilegt að ritnefndin skuli ekki hafa tekið eftir því þegar hún staðfesti skilin. Og svo kemur fram að í rauninni var þessu bindi ekki lokið og síðasti hluti þess, 1850-1900 var færður inn í annað bindi.)

Vorið 2002 hafði Akraneskaupstaður gert viðaukasamning við Gunnlaug svo hann var áfram á fullum launum. (Sjá SSA VI.) Gert var ráð fyrir að vinnu við sagnaritunina lyki 1. ágúst 2004. Gunnlaugur lagði fram vinnuáætlun og drög að efnisyfirliti annars bindis þar sem nú er því skipt í tvö tímabil, 1851-1900 og 1900 - 1941. (44. fundur, mars 2002) „Góður gangur er í ritun 2. bindis“ segir í fundargerð. Í október 2002 segir í fundargerð að komið sé efni á 400 síður í þetta annað bindi.

Í nóvember 2002 kemur fram að Gunnlaugur sé að vinna efni til ársins 1941 og „stefnir að því að sá þáttur verði tilbúinn í apríl eða maí“ [væntanlega vorið 2003]. (47. fundur.) Seinna í nóvember sama ár segist hann vera að vinna að þáttum varðandi verslun o.fl. Af fundargerðum er ljóst að hann hefur skilað einhverju efni því einstakir kaflar eru ræddir á þessum fundum í nóvember, að því er virðist um sögu 19. aldar.

Snemma árs 2003 „kvað [Gunnlaugur] styttast í að 2. bindi liti dagsins ljós […] í meginatriðum er búið að skrifa alla aðalkaflana til 1941.“ (49. fundur.) Í júní kemur fram að nefndarmönnum hafi verið sent fyrir fundinn um 250 síður af upphafi annars bindis, tímabilsins 1851-1900 og einungis vanti nokkra kafla í það. En ljóst er að 2. bindið verði ekki tilbúið í maí heldur í sumarlok. (50 fundur). Í  október segir Gunnlaugur að fyrir liggi samtals 853 síður sem fjalli um tímabilið 1851-1941. Einnig er bókað að Gunnlaugur ætli að ljúka 2. bindinu í desembermánuði og einhenda sér svo í 3. bindið (1942-2000 í byrjun næsta árs. (51. fundur).

Í febrúar 2004 segir að „ætlunin var að ljúka ritun II. bindis í desember en það hefur af ýmsum ástæðum ekki tekist að fullu. Lagðar voru fram 167 síður um sögu verslunar á Akranesi, væntanlega frá 1850 og vel fram yfir næstu aldamót. (52. fundur)

Í ágúst 2004 kemur fram í máli Gunnlaugs að vegna heimildaöflunar í þriðja bindi hafi hann ekki getað klárað annað bindið. Heimildaöflun í þriðja bindi er ólokið, ritun þess ekki hafin en aftur á móti er Gunnlaugur búinn að safna efni í „á annað hundrað möppur með afritum og ljósritum heimilda sem hann leggur til grundvallar sögurituninni“. Þessi möpputalning hófst haustið 2000, þá voru það 40 eða 70 möppur, ólæsilegt í fundargerð 39. fundar hvort er, og hefur verið leiðarstef í fregnum af sagnaritun Gunnlaugs síðan.2 Gunnlaugur reiknaði með að ganga endanlega frá öðru bindi í síðasta lagi í janúar 2005. (54. fundur.)

Í mars 2005 segir að Gunnlaugur hafi undanfarið verið að afla heimilda í þriðja bindi „en það er að hans sögn gríðarlegt verk og því verður ekki byrjað á því að skrifa það bindi saman fyrr en síðar.“ Hann leggur sjálfur til að nú verði lögð áhersla á að klára 1. [landnám til 1850] og 2. bindi [1850-1941] og bókað er: „mætti stefna að útgáfu 1. og 2. bindis vorið 2006“. (55. fundur.)

Snemma vors 2008 var I. bindið orðið að II. bindi  (sjá SSA IX og SSA X) og skyldi nú ná yfir tímabilið 1700-1850. II. bindið varð sjálfkrafa að III.  bindi (1850-1941) en bæði þessi nýtölusettu II. og III. bindi voru sett á ís uns sagnaritara tækist að ljúka hinu nýja I. bindi. Í „ítarlegu minnisblaði” Gunnlaugs í apríl 2008 kemur fram að „Kafli 5 Átjánda öldin (1701-1800 (390 bls.) - bíður prentvinnslu […] Kafli 6 Nítjánda öldin 1801-1850 (213 bls.) - bíður prentvinnslu“. (68. fundur.)

Í viðaukasamningi sem Akraneskaupstaður og Gunnlaugur Haraldsson undirrituðu þann 2. desember 2009 „hafa [aðilar] orðið sammála um að tímabilið 1801-1850 verði ekki í II. bindi.“ (1. gr.) Það tókst svo að koma því II. bindi nú í maí 2011; Það fjallaði um átjándu öld eingöngu.

Svo III. bindið (1800-1900) hefur skv. framansögðu verið tilbúið frá 2001, þegar ritnefnd um sögu Akraness staðfesti skil á því. Samt var það ekki tilbúið því áfram ber þetta tímabil hvað eftir annað á góma í fundargerðum Ritnefndarinnar, allt frá því að Ritnefndin uppgötvaði hálfu ári síðar að í það vantaði víst einn kafla. Síðar virðast sagnaritari, Ritnefndin og útgefandi Sögu Akraness ýmist hafa uppgötvað að ritun um þetta tímabil sé lokið eða ekki lokið.
 

Er ritun þriðja bindis lokið?

LangisandurMeginhlutar I. og II. bindis liggja fyrir í handriti (tölvu), samanlagt um 1500 bls. (A4-brot). Þó er ósaminn fyrsti kafli I. bindis, og allmarga kafla í seinni hluta II. bindis (tímabilið 1901-1941) þarf ég auðsjáanlega að umsemja og auka við á ýmsa lund vegna fjölmargra viðbótargagna sem komið hafa upp í hendur mínar á síðustu misserum við heimildaöflun og –úrvinnslu vegna III. bindis (tímabilið 1942-2000). Sú vinna hefur reynst margfalt tafsamari og umfangsmeiri en ég hafði gert mér í hugarlund og sprengt utan af sér öll uppsett tímaplön. Við slíkt er erfitt að ráða! (Gunnlaugur Haraldsson. „Meint ritstífla brestur“. Spjallþráður Akraneskaupstaðar 25. febrúar 2005.)

„Þá segist Gunnlaugur búinn að skrifa þriðja bindið. Fjórða bindið, sem nái frá aldamótunum 1900, sé hálfskrifað fram til 1941.“ („Nærri 80 milljónir í ritun sögu AkranessVísir 2. janúar 2010.)

„Gunnlaugur segir að hann sé búinn að rita sögu Akraness til ársins 1942 en þá stöðvaðist ritunin.“ („Höfundur Sögu Akraness: Kýs að svara ekki gagnrýni. Ritun til ársins 1942 er lokið“. DV 4. júní 2011.)

„Kristján Kristjánsson, annar aðaleigandi Uppheima, vill koma á framfæri: „Gunnlaugur Haraldsson þjóðháttafræðingur hefur unnið að ritun sögu Akraness síðan 1997. Þar áður fékkst Jón Böðvarsson við verkefnið - frá árinu 1987, og eitt bindi var gefið út. Eins og lesa má um í fundargerðum ritnefndar á vef Akraneskaupstaðar liggur fyrir, samkvæmt upplýsingum frá Gunnlaugi Haraldssyni m.a,. að þriðja bindið er nú þegar skrifað og söfnun efnis í það fjórða vel á veg komið.“ („Bókin um Akranes kostar 100 milljónir - 23 ár í vinnslu“, Vísir 22. nóv. 2010, orð Kristjáns eru uppfærsla dagsett 23. nóvember.)
 

Eða er ritun þriðja bindis ekki lokið? Hvenær má þá áætla ritunarlok og útgáfu?
 

„…fyrir liggur að „færa til nútíðamáls” handrit mitt að III. bindi (1801-1900) sem safnað hefur ryki í 6-7 ár.“ (Gunnlaugur Haraldsson.„Kvittað fyrir fjórðungsdóm“. Skessuhorn 8. júní 2011, s. 35.)

„Jón Gunnlaugsson, formaður ritnefndar, segir að búið sé að skrifa handrit bókarinnar að stórum hluta og það geti verið tilbúið eftir tæpt ár og jafnvel fyrr.“ („Undirbúa útgáfu þriðja bindisinsRÚV 4. júní 2011.)

„Samkvæmt Kristjáni Kristjánssyni útgefanda … gerir hann sér vonir um að þriðja bindið verði gefið út á næstu tveimur árum. („Saga Akraness kom loksins út í gær“  DV 20. maí 2011)

„Bæði Sveinn [Kristinsson] og Jón [Gunnlaugsson] formaður ritnefndar sögðust hafa fullan hug á því að þriðja bókin af Sögu Akraness myndi koma út fljótlega og sögurituninni yrði síðan lokið með fjórðu bókinni áður en langt um líður.“ („Fjölmenni á útgáfuhátíð vegna Sögu Akraness“, Skessuhorn 20. maí 2011.)3
 

Það fer sem sagt meir en tvennum sögum af því hvort III. bindi er tilbúið, næstum tilbúið eða bráðum kannski næstum tilbúið. Það er sennilega bráðum næstum jafn tilbúið og I. bindið var árið 2001!
 
 

Hróður sagnaritunar Akraneskaupstaðar hefur ekki bara borist um allt land heldur einnig út fyrir landsteinana. Það er kannski fróðlegt að sjá spá þeirra sem búa í hæfilegri fjarlægð frá Akranesi um útgáfu þriðja bindisins:

Tanken var från början att Gunnlaugur Haraldsson skulle skriva två band till. Men frågan är om han nu har fått upp farten, eller om kommunen tänker om innan den ger även det uppdraget till Gunnlaugur Haraldsson med ett tänkt slutdatum ungefär år 2033.“ („De har skrivit på Akranes historia - i 23 år“. Islandsbloggen. Nyheter och nedslag från ett avlägset grannland, 21. desember 2010.)4
 
 
 

Í næstu færslu verður fjallað um ágætan samning sem útgáfufyrirtækið Uppheimar náði við Akraneskaupstað, rakinn kostnaður bæjarins af sagnarituninni árin 2010 og 2011 og greint frá fráteknu fé í áframhaldandi sagnaritun næstu tvö árin. Loks verður fjallað um enn eina goðsögnina sem tengist þessu sagnaritunarævintýri síðara, þ.e. þá að Gunnlaugur Haraldsson sé fræðimaður, í venjulegasta nútímaskilningi þess orðs. Þessi færsla ætti að verða lokafærsla í rakningu sagnaritunar Akraness (fyrir utan yfirlitsfærslu þar sem helstu atriði verða tekin saman og reynt að skýra hvernig í ósköpunum þetta gat gerst).

Svo er að svara Ritnefndinni, bæjarstjóranum og sagnaritaranum í einni færslu. (Þeim lá heldur illt orð til bloggynju í næstnýjasta Skessuhorni. En ég er afar þakklát bæjarstjóranum fyrir að staðfesta rækilega þær kenningar sem ég hef smám saman verið að máta við viðskipti sagnaritara og Akraneskaupstaðar og gagnast einna best til að skýra þessi viðskipti eða botna í þeim.) 

1 Sjá  80. fund Ritnefndar um sögu Akraness 18. maí 2011; 81. fund sömu nefndar 7. júní 2011; lið 5 í fundargerð bæjarráðs 26, maí 2011; lið 1 í fundargerð bæjarráðs 9. júní 2011 og frétt RÚV 4. júní 2011, „Undirbúa útgáfu þriðja bindisins“.

 
 

2 Möppur og pappírsmagn ber oftar á góma í fundargerðum en hér eru gefin tvö dæmi sem sýna stolt sagnaritarans af þessari söfnun:

Heimildaöflun og úrvinnsla þeirra hefur reynst langtum tafsamari og tímafrekari en mig óraði nokkru sinni fyrir, og hafði þó talsverða reynslu að byggja á í þessum efnum. Hér er í fyrsta lagi um að ræða skjalleg gögn af öllum hugsanlegum toga sem einkum eru varðveitt í skjalasöfnum í Reykjavík og á Akranesi (t.d. gjörðabækur hreppstjóra, sveitarstjórnar, einstakra nefnda, félagasamtaka og fyrirtækja, sýslumanna og sýslunefnda, amtmanns, landshöfðingja og fleiri embætta stjórnsýslunnar, bréfabækur, bréfadagbækur, bréf og hverskyns gjörningar sömu aðila og einstaklinga, jarðaskjöl, dagbækur, örnefnalýsingar, o.s.fv., o.s.frv.). Í annan stað allt prentað og útgefið efni (bækur, skýrslur, dagblöð, tímarit o.s.frv.) þar sem Akraness er í einhverju getið, - og í þriðja lagi munnlegar heimildir og frásagnir núlifandi manna. Allar þær frumheimildir sem ég hef getað leitað uppi í skjalasöfnum, s.s. Þjóðskjalasafni, hef ég látið ljósrita til að vinna úr í starfstöð minni. Það heimildasafn telur nú um 100 bréfabindi eða tugþúsundir blaðsíðna og mun síðar varðveitast í Héraðsskjalasafni Akraness og verða aðgengilegur gagnabanki þeim sem síðar kynnu að vilja grúska í afmörkuðum viðfangsefnum. 
Gunnlaugur Haraldsson. 25. febrúar 2005. „Meint ritstífla brestur“ á spjallþræði Akraneskaupstaðar.

[Um starfsstöð sagnaritarans í Gufunesi]: Auk fjölda fræðirita er þarna til dæmis hátt í 200 bréfabindi með ljósritum skjala sem tengjast sögu Akraness, um 500 síður í hverju bréfabindi. Þessi gögn hefur söguritari leitað uppi í skjalasöfnum, pælt í gegnum þau, afritað og slegið inn í tölvu, sumt stafrétt en gert útdrátt úr öðrum, og jafnvel þýtt gömul embættisskjöl úr dönsku.
„Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar. Spjallað við Gunnlaug Haraldsson ritara Sögu Akraness“. Skessuhorn 13. apríl 2011, s. 14. Viðtalið tók Þórhallur Ásmundsson blaðamaður.
 

 

3 Ef einhver skyldi lesa alla fréttina sem krækt er í er rétt að leiðrétta eftirfarandi: „Jón Gunnlaugsson formaður ritnefndar Sögu Akraness rakti í stuttu máli aðdraganda útgáfunnar sem er langur og spannar tímann frá 1997, þar sem alls 12 menn hafa setið í ritnefndinni og þar af þrír fallið frá á þeim tíma.“ Tveir af tólf ritnefndarmönnum frá 1997 hafa fallið frá, þeir Ólafur J. Þórðarson (d. 2004) og Jósef H. Þorgeirsson (d. 2008). Ritnefndin hefur ekki minnst annarra á þessu tímabili í sínum fundargerðum og mér vitanlega eru hin öll á lífi. Tveir þeirra sem sátu í ritnefnd frá 1987 eru látnir, þeir Halldór Jörgensson (d. 1988) og Valdimar Indriðason (d. 1995).
 

4 Tvær aðrar færslur eru um ritun Sögu Akraness á þessu bloggi: „23 år efter beslutet - nu finns Akranes historia“ frá 23. janúar 2011 og „Efter 24 års väntan - Akranes historia halvfärdig“ frá 21. maí 2011.
 
  

  

  
  
  
  
  
  
 

Ummæli (5) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

14. júní 2011

Goðsagnir um glæsileika; „Stórasta“ bók í heimi?

Frá því árið 2009 hafa þeir gamalreyndu bæjarstjórnarmenn sem fjallað var um í færslunni glæsilegasta byggðarit og rit um sögu byggðarlags sem búið hefur verið til, einn bæjarstjóri (hinn bæjarstjórinn virðist beggja blands þegar hann tjáir sig um verkið) og örfáir fleiri sammælst um að hamra á glæsileika Sögu Akraness og urðu lýsingarnar æ hástemmdari eftir því sem biðtíminn eftir útgáfunni lengdist. Þannig hafa þeir reynt að stinga dúsu í bæjarbúa sem kunna að vera óánægðir með fjáraustur í sagnaritarann og skapa ímynd eða goðsögn, með því að skrýða gripinn, ritin sjálf, pelli og purpura. Þessi færsla er aðallega beinar tilvitnanir í tímaröð sem sýna þessa ímyndarþróun og einnig hina afsökunina fyrir fjáraustri og óralöngum meðgöngutíma verksins, sem er hversu mikil fræðimennska og uppgötvanir byggðar á frumheimildum séu í því fólgnar

Saga Sögu Akraness XIII
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I,     Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II,    Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III,   Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV,   Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V,     Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI,    Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …
Saga Sögu Akraness VIIHvers virði saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig
Saga Sögu Akraness VIII, Ja sko mér er alveg sama og mætti sleppa þessu bókaveseni allveg
Saga Sögu Akraness IX,    … einvörðungu markmið þessa samnings að framlengja verktíma, skilgreina verklok og kveða á um greiðslur til sagnaritara
Saga Sögu Akraness X,     Ljóst er að hér er að verða til glæsilegt rit
Saga Sögu Akraness XI,   glæsilegasta byggðarit og rit um sögu byggðarlags sem búið hefur verið til
Saga Sögu Akraness XIImikið hefði ég fagnað hverjum fimm mínútum sem mér hefðu gefist

Fjórðungsdómur um 18 marka bók (enn ótölusett færsla en verður komið fyrir í samhengi síðar, sem og fjallað um viðbrögð bæjarstjóra, Ritnefndarinnar og sagnaritara við þeirri færslu).
 

F�flar � túniUpphafið að upphafningunni má rekja til ritnefndar um sögu Akraness, eftir að vonir manna um útgáfu fyrstu tveggja bindanna vorið 2008 brugðust. Gunnlaugur Haraldsson brá nefnilega á það ráð um mitt árið 2008 að sýna Ritnefndinni einstakar blaðsíður (væntanlega á glærum) en ekki einungis minnisblöð um verkstöðu, nýjar vinnuáætlanir eða eitthvað svoleiðis gamalt og þreytt (sbr. töflu unna úr fundargerðum Ritnefndarinnar árið 2008).

Feitletranir í beinum tilvitnunum eru mínar. Nöfn helstu einstaklinga eru auðkennd með litum og feitletrun. Titill færslunnar byggir að hluta á fagnaðarorðum forsetarfrúarinnar þegar Íslendingar stóðu sig vel í handbolta um árið. Athugið að einstaklingarnir sem vitnað er í voru ekki búnir að lesa bækurnar þegar þeir sögðu þetta; langflestir þeirra hafa væntanlega einungis séð örlítið brot af bindi I eða II, sumir jafnvel einungis nokkrar blaðsíður á glærum. Ritnefndin hefur sennilega lesið eitthvað af textanum á ýmsum stigum á þessum 14 árum en vitaskuld varð töluverð endurnýjun í ritnefndinni sem tímar liðu. Undantekningar eru nýjustu tvenn ummælin, þ.e. yfirlýsingar ritnefndarinnar og bæjarstjórans í næstnýjasta Skessuhorni (miðvikudaginn 8. júní 2011); Ég býst við að báðir aðilar hafi lesið eitthvað af bindunum tveimur þegar þau orð eru skrifuð, jafnvel bæði bindi I og II. 

Þá taka við yfirlýsingar bæjarstjórnarmanna og bæjarstjóra:

 • Og verði það gefið út í þeirri mynd sem allt horfir að það verði þá getum við Skagamenn verið stoltir af því. Það sem ég hef séð af þessu … ég held að þetta sé það glæsilegasta byggðarit og rit um sögu byggðarlags sem búið hefur verið til!
  (Sveinn Kristinsson á bæjarstjórnarfundi 13. október 2009.)
 • Kostnaðurinn er fjárans nógur en það sem ég hef séð af bókinni er geysilega falleg vinna.
  (Gísli S. Einarsson bæjarstjóri í frétt DV  „Saga Akraness: 75 milljónir en engu skilað“, 22. desember 2009.)
   
   
 • Þetta er eitt hið glæsilegasta verk sem hefur verið unnið á þessu sviði á landinu - ég hef orð prófarkalesarans fyrir því sem að var að skila núna öllum yfirlestrinum og hann er búinn að vera … hefur haft svona verk með höndum fyrir mörg sveitarfélög og hann fullyrti við mig -og hann bað mig ekkert fyrir það - að þetta væri það glæsilegasta verk sem  unnið hefði verið á þennan veg af öllum svei … fyrir öll sveitarfélög á landinu.“
  (Gísli S. Einarsson bæjarstjóri á bæjarstjórnarfundi 25. maí 2010.) 
    
   
 • Þetta er mikið verk og vandað og þegar Akurnesingar og aðrir landsmenn munu fá það í hendur munu menn sjá að þar hefur ekki verið kastað til höndunum heldur hygg ég að þarna sé um einhverja og verði um einhverja glæsilegustu byggðasögu sem rituð hefur verið og gefin út á Íslandi.
  (Sveinn Kristinsson á bæjarstjórnarfundi 25. janúar 2011.)
   
   
 •  … en ég segi um þessa sögu og ég er svo sannfærður um og var sosum farinn að sannfærast þegar ég sá þegar ég sá verkið á síðustu metrunum að þetta verk er hverrar krónu virði og ég er næstum því viss um að einhvern tíma á eftir að tala um það hvað það hafi verið ódýrt!
  (Árni Múli Jónasson bæjarstjóri í fréttum Ríkissjónvarpsins 20. maí 2011.)
   
   
 • Sveinn Kristinsson, forseti bæjarstjórnar sagði þegar hann handlék bækurnar tvær og lofaði um leið, að Þjóðverjar hefðu aldrei byggð Kölnarkirkju ef þeir hefðu vitað hvað það tæki langan tíma og hvað þá að Versalir hefðu þá nokkurn tíma verið byggðir.
  („Fjölmenni á útgáfuhátíð vegna Sögu Akraness“. Skessuhornið 25. maí, s. 16.)
   
   
   

Það helst nokkuð í hendur að því meir sem menn róma glæsileika ritsins því meiri verður líka áherslan á fræðimennsku sagnaritarans, Gunnlaugs Haraldssonar, og einmanalegt starf hins misskilda fræðimanns eða rithöfundar í tæpan einn og hálfan áratug sem megi skýra með mikilli rannsóknarvinnu, merkum uppgötvunum og fræðilegri vandvirkni. Í svoleiðis samhengi beri ekki að horfa í tíma eða peninga. Raunar má rekja þennan anga umræðunnar allt til ársins 2005 þótt hún verði ekki verulega áberandi fyrr en í vetrarbyrjun 2009.
 

 • Hann [Gunnlaugur Haraldsson] hefur þegar lagt fram talsvert efni - en safnað þeim mun meira af ómetanlegum gögnum og heimildum sem hann nýtir við verkið. Heimildavinnan hefur tekið mun meiri tíma en áætlað var, en af þeim texta sem Gunnlaugur hefur skilað til ritnefndarinnar þá er ljóst að vönduð heimildavinna mun skila sér í frábæru efni þegar þar að kemur.
  (Gísli Gíslason bæjarstjóri og formaður ritnefndar um sögu Akraness, á spjallþræði Akraneskaupstaðar 23. febrúar 2005.)
   
   
 • Það hljóta allir að vera sammála um að best sé að skila vönduðu verki í takt við það sem Gunnlaugur er að gera enda mun sú saga standa um ókomin ár.
  (Gísli Gíslason bæjarstjóri og formaður ritnefndar um sögu Akraness á spjallþræði Akraneskaupstaðar 23. febrúar 2005.)
   
   
 •  … að söguritari hefur náð að fara í uppruna okkar jafnvel betur en nokkurn tíma áður hefur verið gert. Það að ýmis örnefni hér í nágrenni okkar … að söguritari hefur áttað sig og rannsakað það þegar að Bresabræður komu. Hann er búinn að finna hvaðan þeir komu! Og örnefni hér … tökum eins og dæmi eins og Esjuna. Það er komið úr því umhverfi sem þeir komu. Og nánast í þeirri röð og í þeirri eyju sem þeir sjálfsagt komu frá. Þetta er í rauninni alveg stórmerkilegt! Við höfum velt fyrir okkur miklu. Af hverju nafnið Akranes er dregið og ýmis örnefni sem hér eru. Við fáum jafnvel bara skýringar á því í þessari söguritun … með hvaða hætti þetta varð til í okkar umhverfi. Og þetta er stórkostlegt!
  (Guðmundur Páll Jónsson á bæjarstjórnarfundi 13. október 2009.)
   
   
 • En það er nú eins og það er að hugverk eru oft litin öðrum augum en steinsteypa og járn … Rithöfundur sem að skrifar … hugmyndir manna um kaup rithöfundar eru kannski aðrar en um kaup verkfræðings sem hefur oft ekkert lengri skólagöngu eða býr ekkert almennt yfir meiri þekkingu en rithöfundurinn.
  (Sveinn Kristinsson á bæjarstjórnarfundi 25. maí 2010.)
   
   
 • Spurður hvort honum finnist réttlætanlegt að bæjarfélagið greiði hátt í hundrað milljónir fyrir ritun sögu Akranesskaupstaðar segir Árni Múli [Jónasson bæjarstjóri] erfitt að leggja á það mat og bendir á að aðeins eru örfáir mánuðir síðan hann tók við sem bæjarstjóri. „Ég hef ekki grænan grun um hvað er eðlilegt í þessu sambandi. Við viljum bara fara að koma þessu út og gleðja bæjarbúa. Það sem ég hef séð af þessu verki heillaði mig. Það er greinilegt að þetta er ekki hrist fram úr erminni,“ segir Árni Múli.
  („Bókin um Akranes kostar 100 milljónir - 23 ár í vinnslu.“ Vísir 22. nóvember 2010.)
   
   
 • En þó að ávinningurinn verði ekki mældur í krónum, vaðmáli og evrum er hann engu að síður mjög mikill; fyrir menninguna og skemmtunina sem hún veitir og ekki síður fyrir það hvernig svona saga styrkir samkenndina og sjálfsmyndina. Ég hef t.d. af  einhverjum ástæðum aldrei heyrt nokkurn mann tala um ritunarkostnaðinn af Njálssögu eða Egilssögu eða þá Heimskringlu. Ég ætla þó ekki að gerast svo djarfur að halda því fram að Njála og Egla muni falla í skugga Akranesssögu þessarar, enda veit ég Gunnlaugur myndi ekki telja það við hæfi, en ég hef fengið örlítinn smjörþef af innihaldi og útliti þessa verks og treysti mér til að fullyrða að það er unnið af mikilli fagmennsku og hæfni að þar liggur afar mikill metnaður að baki, hvort sem litið er til texta eða heimildaöflunar, korta eða ljósmynda. Allt saman framúrskarandi flott og það hafa miklu fleiri en ég séð og vottað.
  (Ávarp Árna Múla Jónassonar bæjarstjóra sem hann flutti þegar hann veitti viðtöku handritum að I og II bindi Sögu Akraness, dagsett 18. janúar 2011.)1
   
   
 • … en við sáum sem fengum að sjá brot af þessu að hér var bara komið mjög mikið af merkilegum gögnum sem eru bæði uppfræðandi fyrir okkur og okkar framtíð.
  (Gunnar Sigurðsson á bæjarstjórnarfundi 25. janúar 2011.)
   
   
 • Þá hafa  miklar grunnrannsóknir farið fram og það munu þeir sem að eignast bókina eða sjá að handbragð hefur verið vandað bæði varðandi ritun bókarinnar, útlit hennar og þau önnur gögn sem í henni eru.
  (Sveinn Kristinsson á bæjarstjórnarfundi 25. janúar 2011.)
   
   
 • Í viðtali sem þessu verður aðeins tæpt á örlitlu broti af því gífurlega mikla efni, sem Gunnlaugur hefur dregið saman á rúmlega 1100 blaðsíður í firnastóru broti og brátt mun birtast lesendum í tveimur bindum af Sögu Akraness.
  („Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar. Spjallað við Gunnlaug Haraldsson ritara Sögu Akraness.“ S
  kessuhornið 13. apríl 2011. Þess ber að geta að Gunnlaugur las sjálfur yfir viðtalið, leiðrétti, breytti og bætti áður en það birtist.)
   
   
 • Þetta tímamótaverk er ótæmandi brunnur upplýsingar um hvaðeina sem snertir sögu Akraness og varpar skíru ljósi á uppruna fólks í landnámi Bresasona. Í lýsingu á þróun og uppbyggingu samfélagsins eru settar fram hugmyndir sem varða sögu landsins alls. […] Bindið í heild [II bindi] geymir yfirgripsmikla og þaulunna lýsingu á samfélagi bænda og sjómanna á átakatímum þegar sjóþorpið Akranes byggðist upp.
  („Saga Akraness kemur út á morgun“. Skessuhornið 18. maí 2011. Þessi texti virðist að miklu leyti unninn upp úr auglýsingum útgáfufyrirtækisins Uppheima.)

   
   
 • Þeir Kristján [Kristjánsson útgefandi] og Gunnlaugur [Haraldsson sagnaritari] kynntu hið nýja ritverk. Ljóst er að þetta verk er glæsilegt og efnistök og allur frágangur er til fyrirmyndar.
  (Fundargerð ritnefndar um sögu Akraness 18. maí 2011.)
   
   
 • [Innskot fréttamanns: Og Árni segir að það sé margt í þessu mikla ritverki sem muni koma mörgum á óvart.]  Hér voru landnámsmenn af keltneskum uppruna og örnefni og annað sem þeir skildu eftir sig, ef svo má segja, hérna eru ótrúlega lík ýmsu því sem eru á eyjum á því svæði.
  (Árni Múli Jónasson bæjarstjóri í fréttum Ríkissjónvarpsins 20. maí 2011.)
   
   
 • Árni Múli Jónasson bæjarstjóri sagði t.d. lesninguna bæði fróðlega og skemmtilega fyrir fólk á öllum aldri, ekkert síður unga en gamla. Þetta væri brunnur sem fólk myndi sækja í og ausa úr. „Þennan brunn þarf ekki að byrgja fyrir börnunum, um að gera að lofa þeim að detta ofan í hann, sagði bæjarstjórinn í gamansömum tón um leið og líkti vinnu höfundarins Gunnlaugs Haraldssonar og þeim sem að honum stóðu [svo] við stórvirki.“
  („Fjölmenni á útgáfuhátíð vegna Sögu Akraness“. Skessuhornið 25. maí 2011, s. 16.)
   
   
 • Árni Múli sagði í samtali við Skessuhorn að hann stæði við það sem hann hefði áður sagt um Sögu Akraness að ritið væri framúrskarandi gott, fræðilegt og skemmtilegt. „Ég er mikill áhugamaður um sögu og hef menntun á því sviði og hef skoðað mörg sagnfræðileg verk áþekk Sögu Akraness. Ég tel mig hafa dómgreind, þekkingu og menntun til að geta fullyrt að Saga Akraness stendur þeim flestum ef ekki öllum framar, bæði hvað varðar efni, texta og framsetningu. … Ég stend við öll þau stóru orð sem ég hef áður haft um þetta glæsilega verk, að það sé höfundinum og þeim sem að því koma til sóma og samfélaginu okkar til upplyftingar og framdráttar,“ segir Árni Múli Jónasson bæjarstjóri.
  („Stórfurðuleg atlaga að fræðimannsheiðri. Árni Múli Jónasson bæjarstjóri um framkomna gagnrýni á sögu Akraness.“ Skessuhornið 8. júní 2011, s. 2.)
   
   
 • Saga Akraness bindi I-II eftir Gunnlaug Haraldson, er stórt og glæsilegt verk sem lengi hefur verið beðið eftir. … Vandað var til verksins af fremsta megni. En vegna hins gríðarlega umfangs er þess að vænta að finna megi á því einhverja missmíði. … Nefndin lýsir yfir fullu trausti á verðleika höfundar til fræðistarfa og hvetur bæði hann og bæjaryfirvöld til að halda verki áfram.
  („Yfirlýsing frá Ritnefnd um Sögu Akraness.“ Skessuhornið 8. júní 2011, s. 2. Sjá má sömu yfirlýsingu í fundargerð Ritnefndarinnar frá 7. júní 2011)

  
 

Gamli vitinn � hr�ðarbylÖnnur sjónarmið um verkið og vinnu Gunnlaugs hafa sjaldan verið viðruð opinberlega af Skagamönnum og einungis í undantekningartilvikum af ráðamönnum bæjarins. Þó gerðist almenningur svo djarfur að tjá sig á  spjallþræði Akraneskaupstaðar árið 2005, eins og áður hefur verið minnst á. Einnig má benda á þessi orð til mótvægis lofræðunni sem rakin hefur verið:
 
 

Mér þykir þetta svo dýrt að tungan á mér er bólgin. Ég fékk þær skýringar frá höfundi að heimildir frá fyrri tímum hafi einfaldlega verið rangar. Ég get ekki annað en tekið skýringarnar trúanlegar. Við ákváðum að greiða honum áfram í þeirri von að þetta sé lokahnykkurinn. Ég er viss um að við fáum bókina núna.
(Gísli S. Einarsson bæjarstjóri í „Saga Akraness: 75 milljónir en engu skilað“. DV 22. desember 2009.)
 
 

Þetta er búið að vera í gangi í 12 ár og það finnst mér ansi langur tími. Hann hefur hins vegar ekki skilað af sér því sem honum bar. Auðvitað hefur höfundurinn fært fram sín rök en ég er búin að missa alla trú á hans skýringum. Bókin er orðin ansi dýr og ég vil hætta að borga höfundi laun. Að halda áfram finnst mér bara bruðl en auðvitað er það óskandi að þetta væri klárað. Ég efast um að þetta verði einhvern tímann tilbúið til prentunar og því get ég ekki samþykkt að setja meiri peninga í þetta. Mér finnst nóg komið.
(Karen Jónsdóttir, bæjarfulltrúi í „Saga Akraness: 75 milljónir en engu skilað“. DV 22. desember 2009.)
 

Mér finnst tíminn sem þetta hefur tekið vera ótrúlega langur og ekki hægt að afsaka það.
(Stefán Teitsson bæjarbúi á Akranesi í frétt Stöðvar 2, sem krækt í við fréttina  „Nærri 80 milljónir í ritun sögu Akraness“. Vísir 2. janúar 2010.)
 

Mér finnst þetta dáldið skrýtið - dáldið mikill peningur í eina bók.
(Júlía Björk Elvarsdóttir bæjarbúi á Akranesi í sömu frétt og getið er hér að ofan.)
 
 
 
 

Í næstu færslum verður einkum fjallað um orð og efndir sagnaritarans, en einnig tæpt á samningi bæjarins við útgáfufyrirtækið, greiðslum til Gunnlaugs allra síðustu ár, gerð grein fyrir misvísandi upplýsingum um stöðu verksins núna og einhverjum orðum eytt í að svara breiðsíðunni sem ritnefnd, bæjarstjóri og sagnaritari opnuðu á bloggynju og lögðu undir talsvert pláss í síðasta Skessuhorni. Að því búnu má skrifa yfirlitsfærslu(r) yfir sagnaritun Akranesbæjar til dagsins í dag og ganga síðan frá bloggfærslum í Saga Sögu Akraness í þægilegra umbrotið form, t.d. pdf-skrá. 1 Handrit af ávarpi bæjarstjóra er fengið frá Akraneskaupstað þann 4. maí 2011. Vísað er til annarra heimilda jafnóðum í texta færslunnar.
 
 

Ummæli (2) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

11. júní 2011

mikið hefði ég fagnað hverjum fimm mínútum sem mér hefðu gefist

Í þessari færslu eru rakin önnur störf, einkum ritstjórn og skrif ýmissa stéttartala sem Gunnlaugur Haraldsson sinnti dyggilega meðan hann átti að vera að skrifa sögu Akraness. Mér þykir líklegt að hann hafi fengið sæmilega greitt fyrir vinnu sína. Um launakjör hans hjá öðrum en Akraneskaupstað veit ég þó ekkert.

Titill færslunnar er bein tilvitnun í langa grein Gunnlaugs Haraldssonar,  „Kvittað fyrir fjórðungsdóm“, sem birtist í Skessuhorninu 8. júní, s. 34-35. Hann afsakar þar ófeðraðar og rangt feðraðar ljósmyndir í Sögu Akraness I með tímaskorti (sjá færsluna Fjórðungsdómur um 18 marka bók) og öll er málsgreinin svona: „Og víst er það, að mikið hefði ég fagnað hverjum fimm mínútum, sem mér hefðu gefist til viðbótar til að þrautkanna sérhvert þeirra fjölmörgu atriða, sem ég var í vafa um við samningu þessa rits.“ (s. 34, feitletrun mín.)
 

Saga Sögu Akraness XII
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …
Saga Sögu Akraness VII, Hvers virði saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig
Saga Sögu Akraness VIII, Ja sko mér er alveg sama og mætti sleppa þessu bókaveseni allveg
Saga Sögu Akraness IX, … einvörðungu markmið þessa samnings að framlengja verktíma, skilgreina verklok og kveða á um greiðslur til sagnaritara
Saga Sögu Akraness X, Ljóst er að hér er að verða til glæsilegt rit
Saga Sögu Akraness XI, glæsilegasta byggðarit og rit um sögu byggðarlags sem búið hefur verið til

Fjórðungsdómur um 18 marka bók (enn ótölusett færsla en verður komið fyrir í samhengi síðar, sem og fjallað um viðbrögð bæjarstjóra, Ritnefndarinnar og sagnaritara við þeirri færslu).
 
 

Horft úr slippnumSamkvæmt fyrsta samningnum sem Akraneskaupstaður gerði við Hjálmar Gunnlaug Haraldsson skyldi hann „hafa ritun sögu Akraness að meginverkefni meðan á gildistíma samningsins stendur og mun hann ekki taka að sér verkefni, sem leitt getur til þess að verkefnum samkvæmt þessum samningi verði ekki sinnt.“ (3.gr., feitletrun mín.) Sá samningur hét SAMNINGUR UM RITUN SÖGU AKRANESS, var undirritaður 23. apríl 1997 og áttu endanleg verklok að vera 30. september 2001. Þá átti Gunnlaugur að hafa skilað þremur bindum sem segðu sögu Akraness frá 1700-2000 og voru aðilar sammála um að öll þrjú bindi verksins væru gefin út í einu lagi árið 2001. (6. gr.)

Í síðari aðalsamningnum við Gunnlaug, SAMNINGUR Saga Akraness, sem var undirritaður 30. nóvember 2006, er enga samsvarandi grein að finna. (Hinir fjórir samningarnir sem hafa verið gerðir við Gunnlaug eru allt viðbótarsamningar af einhverju tagi.)  Ég geri mér ekki grein fyrir hvort þessi nýi aðalsamningur 2006 kippti hinum eldri alveg úr sambandi eða hvort einhver ákvæði eldri aðalsamnings giltu áfram.

Gunnlaugur hefur mátt vera hamhleypa til verka ef hann átti að uppfylla það sem hann skrifaði undir í fyrsta aðalsamningnum, sem var sem sagt í gildi til nóvemberloka 2006, þ.e. hafa ritun sögu Akraness sem aðalstarf en ritstýra eða semja um leið eftirtalin rit. Vinnan meðfram að þessum ritum eða verkum sem tíunduð eru hér að neðan hafa líklega átt að vera hjáverk í frístundum. Rétt er að taka fram að Gunnlaugur hefur hlotið góða dóma fyrir stéttartöl sín, ættatöl og viðlíka; hann þykir afar vandvirkur en í einstaka ritdómi er fundið að full mikilli smámunasemi í ættrakningum.

Gunnlaugur hefur til þessa ekki staðið skil á neinum samningi sem Akraneskaupstaður hefur gert við hann og e.t.v er eftirfarandi listi yfir aukavinnuna hans einhver skýring á því. (Þessar upplýsingar eru fengnar úr Gegni og fréttum dagblaða. Vel getur verið að Gunnlaugur hafi haft einhver fleiri aukastörf sem ekki er getið opinberlega eða mér hafa yfirsést við samantektina.)
 
 
 

Útgáfuár Verk / vinna Annað Greiðslur
Akraneskaupstaðar
til Gunnlaugs 
hvert ár
fyrir að rita
Sögu Akraness, 
ekki uppreiknað 
á núvirði
1997 A) Tannlæknatal: 1854-1997.   B) Viðskipta- og hagfræðingatal 1877-1996  I-III A) 435 síður.   B) 1390 síður, byggt á eldra Viðskipta-og hagfræðingatali
 
2.604.166 kr.
1998 A) Longætt : niðjatal Richards Long verslunarstjóra í Reyðarfjarðarkaupstað, Þórunnar Þorleifsdóttur og Kristínar Þórarinsdóttur
I-III.   B) Akranes saga og samtíð
A) 1618 síður. Í ritröðinni Austfirskar ættir.   B) 23 síður
Texti við ljósmyndabók, ljósmyndir Friðþjófs Helgasonar
2.936.626 kr.
1999       3.039.774 kr.
2000 Læknar á Íslandi I-III  
 
1725 síður
Byggir á eldri læknatölum.
3.331.412 kr.
2001     4.786.900.kr.
2002 A) Guðfræðingatal I-II.   B) Gunnlaugur gerist dómkvaddur matsmaður í máli Genis og Þorsteins Jónssonar ættfræðings gegn Íslenskri erfðagreiningu. A) 1028 síður
Á níunda hundrað æviskrár íslenskra presta og erlendra guðfræðinga af íslenskum uppruna er að finna í þessari  bók.   B) Helgi Þorbergsson, skiptastjóri Genis og samstarfsmaður Gunnlaugs, sagði um verkið „að það væri gífurleg vinna og ljóst að hún tæki mikinn tima.“ „Genis krefur íslenska erfðagreiningu um 600 milljónir“, DV, 11. jan. 2002.
3.812.254. kr.
2003 Saga Hafnarfjarðarkirkju
(líklega einnig saga Garðakirkju á Álftanesi). Gunnlaugur var ráðinn til starfa af sóknarnefnd Hafnarfjarðarkirkju árið 2003 til að skrifa söguna en hefur engu skilað. Sjá krækju í frétt í næsta dálki. 
„‚Ég tók þetta að mér fyrir fast verð og ég skila mínu fyrir sumarið. Eftir að ég skila af mér handritinu þá er minni vinnu lokið. Þá er þeirra að koma þessu í prent,‘ segir Gunnlaugur en hann segist þiggja sex milljónir króna í verktakagreiðslur vegna verksins.“ (Sjá frétt DV 7. jan. 2011, „Sóknarnefnd leynir launum rithöfundar“.) 4.093.036 kr.
2004         3.569.187 kr.
2005 Lögfræðingatal V 1995-2004. 525 síður 2.376.447 kr.
2006         625.000 kr.
2007 A)Tannlæknatal 1854-2007.   B) Æviskrár MA-stúdenta VI. bindi. MA stúdentar 1974-1978. A) 594 síður (ég reikna með að þetta sé aukin og endurbætt útgáfa sama rits frá 1997)   B) 608 síður 4.476.009 kr.
2008 Niðjatal Björgvins Vigfússonar og Stefaníu Stefánsdóttur á Ketilsstöðum í Jökulsárhlíð  80 síður 
Samantekt efnis: Rúnar Guðmundsson og Gunnlaugur Haraldsson
(Líklega bara smábæklingur sem óvíst er nema hafi verið unninn í sjálfboðavinnu.)
7.775.867 kr.
2009 7.721.287 kr.
2010 Löggiltir endurskoðendur 1, 
Æviskrár endurskoðenda: 1929-2010. 
Bókin er 424 síður og var gefin út 
í tilefni 75 ára afmælis Félags löggiltra endurskoðenda.
552.710 kr.
2011         1.041.936 kr.
 • Alls hefur Akranesbær greitt Gunnlaugi Haraldssyni 53.033.611 kr. á þessum 14 árum.
 • Alls er kostnaður bæjarins af verkinu, þ.e. greiðslur til Gunnlaugs, ritnefndarinnar, umbrotsmanna, f. myndvinnslu, prófarkalestur o.fl. 73.451.143 kr. (líklega eru greiðslur til útgáfufyrirtækisins Uppheima ekki nema að hluta inni í þessari tölu). 
 • Ef heildarkostnaður hvers árs er uppreiknaður á núvirði og árlegur kostnaður síðan lagður saman er sú tala, þ.e. kostnaður Akraneskaupstaðar af sagnaritun Gunnlaugs með öllu, tæpar 105 milljónir króna.

(Tölur um greiðslur og uppreikning á núvirði eru fengnar frá Akraneskaupstað þann 4. maí 2011, sem og upplýsingar um alla samninga við Gunnlaug Haraldsson sem nefndir hafa verið til þessa.)

 

Ummæli (1) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

9. júní 2011

glæsilegasta byggðarit og rit um sögu byggðarlags sem búið hefur verið til

Seint árið 2009 dró blikur á loft og vinsamlegt andrúmsloftið sem hafði umlukið sagnaritarann og Ritnefndina með ljúfu samþykki bæjarráða og bæjarstjórna til þessa varð skyndilega lævi blandið. Verður gerð grein fyrir þessu í færslunni. Þrátt fyrir þetta skyndilega mótlæti náði Gunnlaugur Haraldsson að skrifa undir enn einn samninginn við Akraneskaupstað og hafði hugsanlega 7,7 milljónir upp úr krafsinu þetta árið.

Titill færslunnar er bein tilvitnun í orð Sveins Kristinssonar á bæjarstjórnarfundi þann 13. október 2009

Saga Sögu Akraness XI
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …
Saga Sögu Akraness VII, Hvers virði saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig
Saga Sögu Akraness VIII, Ja sko mér er alveg sama og mætti sleppa þessu bókaveseni allveg
Saga Sögu Akraness IX, … einvörðungu markmið þessa samnings að framlengja verktíma, skilgreina verklok og kveða á um greiðslur til sagnaritara
Saga Sögu Akraness X,  Ljóst er að hér er að verða til glæsilegt rit

Fjórðungsdómur um 18 marka bók (enn ótölusett færsla en verður komið fyrir í samhengi síðar, sem og fjallað um viðbrögð bæjarstjóra, Ritnefndarinnar og sagnaritara við þeirri færslu). 
 
 
 

Persónur og leikendur fyrir utan sagnaritarann sjálfan

Þeir sem ekki eru Akurnesingar eða Skagamenn átta sig kannski ekki á því að í rauninni hafa aðalpersónur í stjórn bæjarins verið meira og minna þær sömu í aldarfjórðung og þær réðu líklega mestu um samþykkt allra samninganna við Gunnlaug Haraldsson, gera jafnvel enn. Þótt bæjarstjórnir hafi verið myndaðar með mismunandi meiri- og minnihluta í öll þess ár eru aðalpersónurnar í rauninni bara þrjár. Í kringum tvær þær fyrrnefndu má finna nokkrar aukapersónur sem eru ýmist á sviðinu eða baksviðs. Til að auðvelda lesanda að halda þræðinum í þessari færslu hef ég litað nöfn aðalpersónanna, nema þar sem krækt er í misgamlar upplýsingasíður um þær (krækjurnar eru fölbláar).
 

Aðalkarlarnir Sveinn, Gunnar og Guðmundur Páll

Sveinn Kristinsson fluttist á Skagann um líkt leyti og Gunnlaugur Haraldsson og til að byrja með voru þeir samherjar í Alþýðubandalaginu. 1994 vann Alþýðubandalagið stórsigur í bæjarstjórnarkosningum og í bæjarstjórn settust Guðbjartur Hannesson, Sveinn og Ingunn Anna Jónasdóttir.1 Sveinn hefur setið í bæjarstjórn síðan þá, fyrst fyrir Alþýðubandalagið, svo fyrir Akraneslistann2 og svo Samfylkinguna. Hann hefur oft og mörgum sinnum verið forseti bæjarstjórnar og gegnir því starfi einmitt núna. Sömuleiðis hefur hann frá því laust fyrir aldamót setið í bæjarráði og oft verið formaður þess.

Gunnar Sigurðsson settist fyrst í bæjarstjórn um leið og Sveinn, árið 1994,  fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hefur setið þar allar götur síðar. Stundum hefur Gunnar verið forseti bæjarstjórnar, hefur oftast setið í bæjarráði á sama tíma og Sveinn og Guðmundur Páll og stundum verið formaður þess.

Guðmundur Páll Jónsson settist einmitt líka í bæjarstjórn árið 1994, fyrir Framsóknarflokkinn. Guðmundur Páll hefur einstaka sinnum verið forseti bæjarstjórnar og oft formaður bæjarráðs, er einmitt formaður bæjarráðs núna. Guðmundur Páll sat um tíma í ritnefnd um sögu Akraness og var starfandi bæjarstjóri um tíma.3

Frá 1999-2005 sátu félagarnir þrír í bæjarráði. Eftir kosningar 2006 riðlaðist þessi skipan og þeir hafa ekki setið allir í einu í bæjarráði síðan en ævinlega einhver þeirra, stundum tveir félaganna saman, stundum bara einn þeirra.

Það má sjá ljómandi fallega mynd af þessum körlum saman, ásamt Gísla Gíslasyni bæjarstjóra og formanni Ritnefndarinnar í 18 ár (frá upphafi til 2005) og brosmildum bæjarstjóra í Leeds (sem kemur þessari sögu samt ekkert við) við frétt Morgunblaðsins 31. október 2005, „Bæjarráðið heimsækir fiskkaupendur“ .
 
 

Ritnefndin og orð aðalkarlanna

Írskir dagar á AkratorgiRitnefndin hélt aðeins þrjá fundi árið 2009 og virðist hafa látið sér duga eitt minnisblað frá Gunnlaugi Haraldssyni og einn kafla, líkast til 1. kaflann í I. bindið (jarðfræðikaflann) sem vantað hafði mjög lengi. (Sjá töflu unna úr fundargerðum Ritnefndarinnar árin 2009-2011.) Í fundargerð 16. júní 2009 segir að Gunnlaugur og nefndin hafi gengið á fund bæjarstjóra [Gísla S. Einarssonar] og orðið hafi fjörugar umræður. Næst ætlaði Ritnefndin að kynna verkið bæjarráði. Fer engum sögum af því hvernig sú kynning var, a.m.k. er ekkert bókað um sagnaritun í fundargerðum bæjarráðs fyrr en í septemberlok: „Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra ásamt formanni ritnefndar að ganga til samninga við H. Gunnlaug Haraldsson um að hann skili verkefninu til Akraneskaupstaðar til prentunar.“ Þann fund bæjarráðs sátu Karen Jónsdóttir formaður, Gunnar Sigurðsson, varaformaður, Hrönn Ríkharðsdóttir aðalmaður, Gísli S. Einarsson bæjarstjóri o.fl.

Í október barst þessi fundargerð bæjarráðs til bæjarstjórnar og þá tóku til máls um ritun sögu Akraness þeir Sveinn Kristinsson, Guðmundur Páll Jónsson og bæjarstjórinn Gísli S. Einarsson. Það er athyglisvert að heyra hvað þeir fyrrnefndu, hoknir af reynslu af viðskiptum við sagnaritarann, sögðu, hér skrifað upp eftir hljóðupptöku af bæjarstjórnarfundinum 13. október 2009, ca.45-55 mínútu:

Sveinn Kristinsson:

Ég er ánægður með þetta, ég held að nú sé farið að sjá fyrir endann á þessu mikla verki. Þetta hefur tekið langan tíma og kostað mikla peninga að mörgum finnst. Og eflaust hefur þetta kostað mikla peninga. Og ég hef nú kannski ekki verið þolinmóðasti maðurinn í þessu, svo ég segi það bara hreint út hér. Ég er búinn að fylgjast lengi með þessu verki …ég hef fengið hluta af þessu verki og skoðað þetta vel. Og verði það gefið út í þeirri mynd sem allt horfir að það verði þá getum við Skagamenn verið stoltir af því. Það sem ég hef séð af þessu … ég held að þetta sé það glæsilegasta byggðarit og rit um sögu byggðarlags sem búið hefur verið til! Það er að svo mörgu leyti öðruvísi heldur en þessi hefðbundnu rit sem í þessum málaflokki hafa verið skrifuð. Margt áhugavert tínt til sem kannski eru ekki beint neitt rosalega mikilvæg söguleg atvik heldur varpa svona ákveðnu ljósi yfir mannlíf, menningu, lifnaðarhætti í kannski einhverju smáu sem skiptir svo miklu máli þegar langt er liðið og getur lýst upp fyrir okkur fortíðina og það líf sem okkar forfeður lifðu. Ég hlakka til að sjá þetta. Ég vona að þetta takist þrátt fyrir kreppu að gera þetta sem fyrst. Fagna þessu.4

Guðmundur Páll Jónsson:

Varðandi ritun sögu Akraness þá tek ég undir allt sem kom fram hér hjá síðasta ræðumanni. Og þetta er orðin löng ganga en það sem hefur verið birt okkur bæjarfulltrúum og það … ég held ég sé ekki að brjóta neinn trúnað ef ég leyfi mér að segja það í þessari umræðu að það skuli koma fram og verður gaman að fá að lesa betur og fara yfir þegar þetta rit kemur út að við … að söguritari hefur náð að fara í uppruna okkar jafnvel betur en nokkurn tíma áður hefur verið gert. Það að ýmis örnefni hér í nágrenni okkar … að söguritari hefur áttað sig og rannsakað það þegar að Bresabræður komu. Hann er búinn að finna hvaðan þeir komu! Og örnefni hér … tökum eins og dæmi eins og Esjuna. Það er komið úr því umhverfi sem þeir komu. Og nánast í þeirri röð og í þeirri eyju sem þeir sjálfsagt komu frá. Þetta er í rauninni alveg stórmerkilegt! Við höfum velt fyrir okkur miklu. Af hverju nafnið Akranes er dregið og ýmis örnefni sem hér eru. Við fáum jafnvel bara skýringar á því í þessari söguritun … með hvaða hætti þetta varð til í okkar umhverfi. Og þetta er stórkostlegt! Þannig að þó að þetta hafi tekið langan tíma og þolinmæði og snarpt [svo] orðaskipti átt sér stað þá styð ég eindregið að það sé gengið þannig frá að söguritari skili þessu verki eins og það nú er í prentun og síðan tekur ný bæjarstjórn ákvörðun um framhaldið. Vissulega var fyrr ætlunin að vera með söguna nánast til … alveg fram að tímanum í dag en það verður ekki hluti af þessum samningi en mjög mikilvægur tími af sögu okkar sem þarna verður gengið frá.5

Gísli S. Einarsson bæjarstjóri:

Síðan bara aðeins þetta með ritun sögu Akraness. Það sem hefur staðið í mönnum að það er samningsupphæðin sem verið er að fjalla um. Hún er … það er býsna erfitt … og síðan sá tími sem er verið að tala um að skila verkinu á. Ég get tekið undir hvert orð um vöndun verksins. En kostnaðurinn er býsna mikill. Og það er ýmislegt sem hefur farið úr böndum, ekki endilega í höndum söguritara heldur þeirra sem eru að vinna við umbrot og annað slíkt. Það hafa komið fyrir mikil óhöpp sem er verið að sækja eftir að Akraneskaupstaður borgi. Og það eru svona þungu hlutirnir í þessu en ég ætla ekkert að fara nánar í þetta mál. En það stendur sem hér er sagt að bæjarstjóra og formanni ritnefndar var falið að ganga til samninga. Og sá samningur hlýtur að koma hér. Eða þá að menn lýsa því að þeir geti ekki gert þetta. En hann hlýtur að koma til afgreiðslu BÆJAR-STJÓRNAR. Það er bara svoleiðis.6

Á þriðja og síðasta fundi ársins, 26. nóvember 2009, bókaði Ritnefndin: „Nýtt samkomulag hefur verið gert við söguritara um framgang verksins og var hún [svo] kynnt og samþykkt samhljóða.“ (Sjá töflu unna úr fundargerðum ritnefndar um sögu Akraness á tímabilinu 2009-2011.) Í sömu fundargerð var bókað að „sú áætlun sem gerð hafi verið og kynnt bæjarráði hafi ekki gengið eftir.“ Svo virðist sem Ritnefnd hefði nú umboð til að semja við Gunnlaug án afskipta bæjarstjórnar og bæjarráðs, öðru vísi verður klausan um hið nýja samkomulag ekki skilin. Það er reyndar alls ekki í samræmi við bókanir bæjarráðs og bæjarstjórnar og ómögulegt að sjá í hvers umboði Ritnefndin hafði skyndilega öðlast þetta samningsgerðarvald.
 

Bæjarráð fjallar aftur um samningagerð við Gunnlaug Haraldsson þann 27. nóvember 2009 og þar er bókað: „Tillaga að verkáætlun varðandi ritun Sögu Akranes [svo]. Bæjarstjóra heimilað að undirrita samning í samræmi við minnisblað sem lagt var fram á fundinum.“7 Málið er samt aftur tekið upp í bæjarráði þann 3. desember og þar bókað: „Viðauki við samning um ritun sögu Akraness. Bæjarráð staðfestir samninginn fyrir sitt leyti og vísar til afgreiðslu bæjarstjórnar og endurskoðunar fjárhagsáætlunar 2009.“En daginn áður, 2. desember,  hafði Gísli S. Einarsson skrifað undir samning við Gunnlaug, sá hét  „Viðauki, Samningur um ritun sögu Akraness.“ með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar. 

Það er engin skýring auðsæ á því hvers vegna málið fór tvisvar fyrir bæjarráð og var svo vísað til bæjarstjórnar þótt á fyrri fundinum hafi bæjarráð veitt bæjarstjóra heimild til að undirrita samning við Gunnlaug Haraldsson. Líkleg skýring, að mínu mati, er að Gísli S. Einarsson hafi neitað að undirrita samninginn einungis í umboði bæjarráðs (eins og þó hafði tíðkast til þessa) og viljað að bæjarstjórn tæki afstöðu til málsins. Orð hans á bæjarstjórnarfundi í október (sjá hér að ofan) styðja þá skýringu. Og málið fór fyrir bæjarstjórn í desember 2009. 

  

Karen reynist óþægur ljár í þúfu

Kólga yfir AkrafjalliKaren Jónsdóttir settist í bæjarstjórn fyrir Frjálslynda og óháða vorið 2006 en skipti yfir í Sjálfstæðisflokkinn á miðju kjörtímabilinu. Hún var formaður bæjarráðs allt kjörtímabilið.9  Frá bæjarstjórnarkosningum 2010 hefur hún verið varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Karen hafði ekki haft áberandi afskipti af pólitík fyrir 2006 og tengist ekki gamla Alþýðbandalaginu, rótgrónum Skagaættum eða knattspyrnuklíkum á Akranesi. Til að byrja með samþykkti hún, eins og hinir í bæjarráði, samninga við Gunnlaug Haraldsson. Þegar kom að því að gera sjötta samninginn við Gunnlaug (séu allar viðbætur og samkomulög talin með) neitaði Karen að samþykkja og lét bóka á bæjarstjórnarfundi 15.12.2009:

Í rúm 10 ár hefur núverandi sagnaritari þegið greiðslur frá Akraneskaupstað. Samtals að upphæð 73.337.692.- m.v. uppreiknaða vísitölu, fyrir það eitt að rita sögu Akraneskaupstaðar. Þau tæp 4 ár sem ég hef setið hér sem bæjarfulltrúi þá hafa verið gerðir í það minnsta 3 samningar um verklok.
Í gegnum tíðina hafa bæjarfulltrúar og nefndarmenn í góðri trú samþykkt/keypt þau rök sem sagnaritari hefur lagt á borð fyrir þá í þeirri trú að senn líði að verklokum. Nú er svo komið að ég hef misst alla tiltrú á orðum sagnaritarans og get því ekki greitt atkvæði með nýjum samningi.10

Verið var að ræða samþykkt bæjarráðs frá 3.12. 2009 um viðauka við samning um ritun sögu Akraness og hafði Karen verið forfölluð á þeim fundi bæjarráðs, sem og fundinum á undan þar sem bæjarráð hafði heimilað bæjarstjóra að ganga til samninga. Ákvörðun bæjarráðs á þessum tveimur fundum var því í höndum Gunnars Sigurðssonar varaformanns bæjarráðs, Hrannar Ríkharðsdóttur aðalmanns og Eydísar Aðalbjörnsdóttur varamanns. Líklega voru aðalkarlarnir, Hrönn og hugsanlega fleiri búin að ákveða fyrir fundinn að þessi viðaukasamningur rynni í gegn því bæjarstjóri hafði undirritað hann með fyrirvara þann 2. des., bæjarráð samþykkt undirritaða samninginn þann 3. des. og staða Karenar gegn gömlu klíkunni því gersamlega vonlaus. Það sýnir mikið hugrekki að láta bóka þessa yfirlýsingu, í ljósi stöðu hennar og í ljósi þess að almennt og yfirleitt virðist samþykkt þöggun um sagnaritun Gunnlaugs hafa ríkt nokkur ár á undan, a.m.k. meðal stjórnarmanna bæjarins og Ritnefndarinnar (sem kemur m.a. fram í því að Ritnefndin heldur æ færri fundi og æ minna er bókað í fundargerðir).

Enginn annar tók til máls um þennan lið á fundinum og allir hinir bæjarstjórnarmennirnir greiddu atkvæði með samningsgerðinni við Gunnlaug: Karen ein greiddi atkvæði á móti.11 Fregnir af  bókun Karenar rötuðu í fjölmiðla og hafa æ síðan birst nokkuð reglulega fréttir af sögunni dýru.12
 
 
 

Nýr samningur Akraneskaupstaðar og Gunnlaugs Haraldssonar
 

Þann 2. desember 2009 rituðu Gísli S. Einarsson bæjarstjóri, f.h. Akraneskaupstaðar, og Gunnlaugur Haraldsson undir plagg sem heitir „Viðauki, Samningur um ritun sögu Akraness“.  Þar kemur fram að II. bindið dekkar nú einungis öldina 1700-1800.

Í 1. grein segir að Gunnlaugur Haraldsson skuldbindi sig til að „ljúka vinnu við ritun I. og II. bindi [svo] Sögu Akraness. Í því felst auk ritunar sögunnar öll verkumsjón með verkinu og frágangi til prentunar. Skuldbindur hann sig til að afhenda Akraneskaupstað í einu lagi við verklok diskling [svo] með I. og II. bindi sögu Akraneskaupstaðar tilbúnum til prentunar.“

Einnig segir að Akraneskaupstaður greiði „Agli Baldurssyni og Helga Magnússyni fyrir umbrotsvinnu, prófakralestur [svo] og nafnaskrárgerð skv. sérstökum samningi við þá þar um.“ (Ég hef ekki afrit af samningi við Helga Magnússon en í síðustu færslu var gerð grein fyrir samningi og viðbótarsamningi við Egil Baldursson.)

„Verklok á I. og  II. bindi eru 15. júlí 2010 […]“ (2. gr.)

„Fyrir að ljúka við I. og II. bindi í samræmi við framangreint og við afhendingu disklings […] greiðir Akraneskaupstaður Hjálmari Gunnlaugi Haraldssyni kr. 2.250.000,- miðað við launavísitölu í nóvember 2009. gr. [svo]“.  Síðar kemur fram að greiðslurnar skuli verðbættar skv. breytingum á vísitölu.
 
 

Gamli HöfrungurSvo undarlega vill til að í upphafi þessa samnings kemur fram að Akraneskaupstaður skuldi Gunnlaugi „fyrir vinnu á tímabilinu apríl-september 2009, samtals kr. 4.124.725.“ Þegar hafi bærinn greitt upp í skuldina 1,5 milljón en við þessa undirritun verði greidd 1 milljón og þann 14. janúar 2010 verði afgangurinn greiddur.

Sé gert ráð fyrir að Gunnlaugur hafi árið 2008 fengið greitt eftir „SAMNINGUR Saga Akraness“ frá 30. nóv. 2006 og viðaukasamkomulagi við hann frá 27. október 2007 (sjá færsluna … einvörðungu markmið þessa samnings að framlengja verktíma, skilgreina verklok og kveða á um greiðslur til sagnaritara) og vel rúmlega það, svo sem giskað var á í síðustu færslu (Ljóst er að hér er að verða til glæsilegt rit) er engin leið að sjá af fundargerðum bæjarins og Ritnefndar hvernig bærinn stofnaði til þessarar rúmlega fjögurra milljón króna skuldar eða hvaða vinnu Gunnlaugur innti af hendi. Þetta hljóta að vera greiðslur gegn framvísun reikninga, en reikninga fyrir hvað?13
 
 

Árið 2009 fékk Gunnlaugur greiddar rúmlega 7,7 milljónir frá Akraneskaupstað en ekki nema rúm 550.000 kr. árið 2010 svo reikna má með að allur kostnaður vegna þessa samnings hafi verið bókfærður á árið 2009. Það verður að teljast undarlegt hafi hann fengið þessar rúmu 2,2 milljónir greiddar út við undirritun samningsins í desemberbyrjun 2009 úr því þær voru hugsaðar sem árangurstengd greiðsla fyrir skil, í síðasta lagi 15. júlí 2010, svo væntanlega má skýra þessa háu greiðslu til Gunnlaugs árið 2009 af einhverri bókhaldstilhögun bæjarins. Samt má í þessu sambandi einnig benda á að Gunnlaugur stóð ekki í skilum árið 2010, þ.e. hann afhenti ekki handrit af I. og II. bindi tilbúnu í prentsmiðju fyrir miðjan júlí eins og samið var um. (Sjá töflu unna úr fundargerðum ritnefndar um sögu Akraness á tímabilinu 2009-2011.) Og jafnvel þótt hann hafi fengið greidda þessa dularfullu skuld að fullu og alla samningsupphæðina er meir en ein milljón af þessum rúmu 7,7 milljón sem hann fékk frá bænum óútskýrð.

Annar kostnaður 2009 var rúmlega 300.000 (en tæplega 3 milljónir árið 2010 svo greiðslur til Egils Baldurssonar eru væntanlega bókfærðar á árið 2010, hugsanlega einhverjar greiðslur til Helga Magnússonar einnig.) Kostnaður vegna Ritnefndarinnar var rúm 170.000 árið 2009.

Kostnaður Akraneskaupstaðar vegna ritunar Sögu Akraness var alls 8,2 milljónir árið 2009 sem gerir rúmlega 8,9 milljónir á núvirði.14
 
 
 
 


   1 Eins og allir vita er Guðbjartur Hannesson núna velferðarráðherra. Ingunn Anna Jónasdóttir er eiginkona Engilberts Guðmundssonar sem bar á góma í færslunni Framtakssemi og frumskógarlögmál og systir núverandi ópólitísks ráðins bæjarstjóra, Árna Múla Jónassonar.

Gunnlaugur Haraldsson snérist hins vegar til liðs við vinstri-græna þegar Alþýðubandalagið leið undir lok, var í stjórn Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs á Vesturlandi 1999-2000, var varaformaður þegar hún hugsaði sér til sigurs í bæjarstjórnarkosningum á Akranesi það árið en náði engum manni inn og skipaði 10. sæti U-lista Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs fyrir alþingiskosningarnar vorið 2003. Um frekari pólitísk afrek Gunnlaugs Haraldssonar veit ég ekki.

  

2 1998 var Akraneslistinn sameiginlegt framboð Alþýðubandalagsins, Alþýðuflokks og Kvennalista. 2002 var Akraneslistinn listi Samfylkingarinnar á Akranesi.

  

3 Guðmundur Páll var upphaflega í Bandalagi jafnaðarmanna, skipaði t.d. lista þeirra á Vesturlandi fyrir þingkosningar 1983. Á þeim lista var einnig Hrönn Ríkarðsdóttir. Hún gekk svo til liðs við Alþýðuflokkinn og sat væntanlega fyrir hann í ritnefnd um sögu Akraness 1987-2002. Hrönn hefur setið í bæjarstjórn fyrir Samfylkinguna frá 2006 og er núverandi varaformaður bæjarráðs.
 

  

4 Sveinn Kristinsson var væntanlega búinn að fylgjast með þessu verki frá 1997 því hann var búinn að sitja í bæjarstjórn og oft í bæjarráði allan tímann sem sagnaritun Gunnlaugs hafði varað. Erfitt er að vita nákvæmlega hversu mikið hann hafði séð af verkinu. Ljóst er af fyrri fundargerðum Ritnefndar að Gunnlaugur hafði kynnt verkið fyrir bæjarstjórn en miðað við fundargerðir Ritnefndarinnar hefur sú kynning væntanlega verið mikið til á glærum og sýnt hvernig einstakar blaðsíður litu út, auk þess sem urmull minnisblaða og yfirlit verkstöðu höfðu líklega ratað til forseta bæjarstjórnar og formanns bæjarráðs í þessi 12 ár sem sagnaritunin hafði nú varað. Hugsanlega hefur Sveinn lesið einhvern hluta verksins en orð hans gætu allt eins bent til þess að hann hafi skoðað einstakar síður á glærum. Ritnefndin hafði í áranna rás fengið smá parta úr verkinu afhenta og af því þetta var pólitískt skipuð nefnd frá upphafi má ætla að nefndarmenn hafi kannski látið þessar parta ganga til sinna flokksbræðra í bæjarstjórn. Hvergi er óþolinmæði Sveins bókuð í fundargerðum (bæjarstjórnar eða bæjarráðs) í öll þessi ár svo hann hefur væntanlega látið hana í ljós annars staðar en á slíkum fundum.
 
 

5 Guðmundur Páll Jónsson hafði setið jafnlangan tíma og Sveinn í bæjarstjórn og oft í bæjarráði. Guðmundur Páll hafði einnig setið í ritnefnd um sögu Akraness um skeið. Gunnar Sigurðsson var forseti bæjarstjórnar en virðist hafa verið fjarverandi á þessum fundi.

   

6 Þann 30. nóvember 2006 skrifuðu Gísli S. Einarsson bæjarstjóri og Gunnlaugur Haraldsson undir nýjan samning sem hét „SAMNINGUR Saga Akraness“. Þann samning hafði lögmaður bæjarsins útbúið, sjá færsluna Ja sko mér er alveg sama og mætti sleppa þessu bókaveseni allveg, og Gísli S. skrifaði undir með fyrirvara um samþykki bæjarráðs (sem ekki hafði tíðkast í undirskriftum fyrri samninga). Eftir það var gert „Samkomulag um viðauka við samning á milli aðila um Sögu Akraness frá 30. nóvember 2006.“ sem bæjarritarinn, Jón Pálmi Pálsson, undirritaði fyrir hönd bæjarins þann 27. október 2007 (sjá sömu færslu). Gísli S. Einarsson var pólitískt ráðinn bæjarstjóri, með fulltingi Sjálfstæðisflokksins og Frjálslyndra-óháðra.

   

7 Á þessum fundi var Karen Jónsdóttir formaður bæjarráðs fjarverandi en viðstödd voru: Gunnar Sigurðsson, varaformaður, Hrönn Ríkharðsdóttir, aðalmaður, Eydís Aðalbjörnsdóttir, varamaður,
Rún Halldórsdóttir, áheyrnarfulltrúi og Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri.
 

8 Á þessum fundi var Karen Jónsdóttir formaður bæjarráðs einnig fjarverandi og viðstödd voru þau sömu og talin voru hér að ofan.

9  Árin 2006-2010 var Karen formaður bæjarráðs en eftirtaldir sátu með henni í bæjarráði: 2006-2007 þeir Gunnar Sigurðsson og Sveinn Kristinsson; 2007-2008 þeir sömu, þ.e. Gunnar Sigurðsson og Sveinn Kristinsson; 2008-2009 Gunnar Sigurðsson og Rún Halldórsdóttir; 2009-2010 Gunnar Sigurðsson og Hrönn Ríkharðsdóttir.

Nú sitja í bæjarráði Akraneskaupstaðar: Guðmundur Páll Jónsson formaður, Hrönn Ríkarðsdóttir varaformaður og Þröstur Þór Ólafsson aðalmaður, sem kom nýr í bæjarstjórn fyrir Vinstri hreyfinguna - grænt framboð í síðustu bæjarstjórnarkosningum.

   

10  Á tveimur stöðum er orðalag í upplesinni bókun Karenar öðruvísi, sbr. 26:35 mínútu o.áfr. í hljóðskrá af fundinum en það er ekkert sem skiptir efnislega máli.

   

11  Gunnar Sigurðsson var forseti bæjarstjórnar en auk hans og Karenar Jónsdóttur skipuðu þau Guðmundur Páll Jónsson, Sveinn Kristinsson, Hrönn Ríkharðsdóttir, Eydís Aðalbjörnsdóttir, Rún Halldórsdóttir, Sæmundur Víglundsson og Þórður Þ. Þórðarson bæjarstjórn Akraneskaupstaðar og sátu þennan fund.

Einungis einu sinni áður hafði samningsgerð Akraneskaupstaðar við Gunnlaug Haraldsson verið mótmælt. Það var í upphafi, á fundi bæjarstjórnar Akraness 22. apríl 1997, en þá greiddi Sigríður Guðmundsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, atkvæði gegn fyrsta samningnum því henni þótti kostnaðurinn of mikill. Öll hin, þau Guðbjartur Hannesson, Sveinn Kristinsson, Guðmundur Páll Jónsson, Gunnar Sigurðsson ,Sigríður Gróa Kristjánsdóttir, Pétur Ottesen, Ingvar Ingvarsson og Bryndís Tryggvadóttir, greiddu atkvæði með því að gera fyrsta samninginn við Gunnlaug Haraldsson.

Enginn hefur mótmælt tillögum um samningagerð eða annað sem snertir sagnaritun Gunnlaugs Haraldssonar frá því Karen lét bóka þessi ummæli og studdi ekki sjötta samninginn (annan viðbótarsamning við síðari grunnsamninginn).
 
 
 

12 Sem dæmi um frétt af þessari bókun o.fl. má taka „Saga Akraness: 75 milljónir en engu skilað“ í DV 22. des. 2009. Þar má líka sjá ljómandi góða mynd af Karen Jónsdóttur.

Orðlaust samkomulag bæjarstjórnenda um að annað hvort þegi menn þunnu hljóði um sagnaritun Gunnlaugs Haraldssonar eða fjalli einungis um hana með hástigs-lýsingarorðum virðist enn í gildi ef marka má nýleg viðbrögð bæjarstjóra og Ritnefndarinnar í síðasta Skessuhorni (þann 8. júní). Svona háttalag hefur oft  verið kennt við meðvirkni en til eru fleiri kenningar, tengdar viðskiptum og stjórnmálum, sem gætu skýrt þetta. Skemmtilegasta nýyrðið um hástigslýsingarorðanotkun um verk af þessu tagi er „makedóníska heilkennið“.

   

13 Ég sendi fyrirspurn til Ragnheiðar Þórðardóttur,  þjónustu- og upplýsingarstjóra Akraneskaupstaðar, í tölvupósti föstudaginn 5. júní [leiðrétt dags. 23. júní] um hvort vantaði inn í þau gögn sem ég fékk frá Akraneskaupstað þann 4. maí sl., þ.e. hvort gæti verið að vantaði einn samning við Gunnlaug, og/eða hvort þessar upphæðir skýrðust af greiðslu gegn framvísun reikninga. Ég á nefnilega bágt með að skilja hvernig hann gat fengið greiddar rúmar 7,7 milljónir bæði árið 2008 og 2009, miðað við þau gögn sem ég hef undir höndum.

Í svari Ragnheiðar, sem barst 6. júní, kemur fram að erindinu sé vísað til bæjarritara. Bæjarritari er í sumarfríi til 30. júní.

Ég skrifaði Ragnheiði aftur og benti á Upplýsingastefnu Akraneskaupstaðar og Upplýsingalög, þar sem kemur fram að Akranesbær hefur að hámarki 20 daga frest til að svara mér. Væntanlega getur einhver flett í gegnum möppuna á skrifstofu bæjarritara fljótlega og svarað þessu erindi. Ragnheiður ætlaði að reyna að athuga það, skv. öðru bréfi þann 6. júní. 

Ég verð því sem stendur að túlka gögnin þannig að árið 2008 hafi Gunnlaugur fengið greitt skv. samningi frá 30. nóvember 2006 og viðaukasamningi frá 27. október 2007 þar til annað kemur í ljós. Það stendur að vísu út af u.þ.b. ein og hálf milljón, sem er óskýrð árið 2008. Og raunar stóð hann hvorki við samninginn né viðaukasamninginn árið 2008.

Þessi rúmlega 4 milljóna skuld fyrir vinnu árið 2009 er alveg óútskýrð. En þetta skýrist væntanlega allt þegar Akraneskaupstaður hefur tíma til að svara erindi mínu, sem verður í síðasta lagi 23. júní. Ég mun að sjálfsögðu leiðrétta þessa færslu séu skýringar á greiðslum til Gunnlaugs aðrar en ég get mér til núna.
 
 
 

14 Upplýsingar um kostnað og uppreikning hans á núvirði eru fengnar frá Akraneskaupstað þann 4. maí 2011. Sama gildir um samninga þá sem minnst hefur verið á til þessa í færsluflokknum Saga Sögu Akraness.
 
 
 
 

Ummæli (1) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

6. júní 2011

Ljóst er að hér er að verða til glæsilegt rit

Hér segir af því  hvernig Gunnlaugur Haraldsson fékk 7,8 milljónir greiddar frá Akraneskaupstað árið 2008 (upphæð sem mér gengur illa að koma heim og saman), margkynnti stöðu verksins og sýndi Ritnefndinni glærur en skilaði einungis 4. kafla I. bindis til Ritnefndarinnar. Skv. Gunnlaugi var II. bindið (1700-1850) nánast fullsamið þetta árið en Ritnefndin virðist ekki hafa barið það efni augum árið 2008. Einnig segir hvernig vonin um útgefna bók glæddist hjá Akraneskaupsstað seint á árinu 2007 og vonarneistinn blakti langt fram á haustið 2008. Segir og frá samningum við undirverktaka.

Titill færslunnar er bein tilvitnun í bókun ritnefndar um sögu Akraness 25. júní 2008. (Því miður er eitthvert óstand á vefþjóni heimasíðunnar minnar svo menn verða að sýna eilitla biðlund eftir töflum unnum úr fundargerðum, sem vísað er í úr flestum færslum um sögu Sögu Akraness, og myndskreytingum.)

Saga Sögu Akraness X
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …
Saga Sögu Akraness VII, Hvers virði saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig
Saga Sögu Akraness VIII, Ja sko mér er alveg sama og mætti sleppa þessu bókaveseni allveg
Saga Sögu Akraness IX, … einvörðungu markmið þessa samnings að framlengja verktíma, skilgreina verklok og kveða á um greiðslur til sagnaritara

Fjórðungsdómur um 18 marka bók (enn ótölusett færsla en verður komið fyrir í samhengi síðar, sem og fjallað um viðbrögð bæjarstjóra, Ritnefndarinnar og sagnaritara við þeirri færslu). 

 
 

Upprifjun

Síðasta færsla um sögu Sögu Akraness fjallaði um hvernig Akraneskaupstaður gerði nýjan grunnsamning við Gunnlaug Haraldsson (undirritaður þann 30. nóvember 2006) en Gunnlaugur stóðst ekki skil á I. bindi skv. samningi og stöðvuðust því greiðslur til hans í lok júní 2007. Bærinn gerði samt viðaukasamning við Gunnlaug þann 27. október 2007 um að Gunnlaugur tæki að sér aukna vinnu, þ.e.a.s. hefði yfirumsjón með grafískri hönnun, umbroti, vali og söfnun myndefnis o.fl. svo I. bindið (sem hann hafði sem sé ekki staðið við að skila) yrði tilbúið í prentsmiðju. Skv. viðaukasamningnum voru Gunnlaugi tryggð samanlögð tveggja mánaða laun, skipt í þrennt (greidd 1. nóv. og 1. des. 2007 og síðasta greiðslan yrði þegar I. bindi yrði skilað).

Sól og AkrafjallSeint á árinu 2007 töldu menn sig sjá að fyrsta bindið færi loks að verða tilbúið. I. bindi náði nú yfir tímann frá landnámi til 1700 og er því væntanlega annað þeirra rita sem tókst að gefa út í maí 2011.

Ritnefndin hafði staðfest skil á I. bindi í nóv. 2001 (en þá náði það frá 1700-1850), hafði fengið 21. kaflann sem vantaði víst inn í þetta bindi í aprílbyrjun 2003, hafði fallist á hugmynd Gunnlaugs um að breyta I. bindinu þannig að skrifaður yrði stuttur forsögukafli um tímabilið landnám til 1700, sem síðan bólgnaði út svo I. bindið varð að sögu landnáms-1700. Í byrjun október 2007 hafði ritnefndin fengið afhenta annan kafla, um örnefni og búsetuminjar í landnámi Bresasona (91 síðu) og þriðja kafla, frá landnámi til loka 13. aldar (135 síður). En enn vantaði fyrsta kaflann, um jarðsögu, og síðasta kaflann, um tímabilið 1300-1700.

Ritnefndin fylltist samt bjartsýni og ráðamenn kaupstaðarins urðu bjartsýnir líka: Sjá t.d. frétt SkessuhornsinsSaga Akraness væntanleg“ frá 9. nóvember 2007. Loksins var kannski bráðum hægt að senda eitthvað í prentsmiðju! Svo það var drifið í gera samninga við undirverktaka.
 
 

Samningar um umbrot og myndvinnslu

Akraneskaupstaður og Egill Baldursson gerðu með sér „Samkomulag um gerð hönnun, umbrot og grafíska vinnu vegna sögu Akraness, I. bindis.. [svo]“ og undirrituðu 10. nóvember 2007. Í því samkomulagi kom fram að Egill skyldi útbúa bókina til prentunar í nánu samstarfi við Gunnlaug Haraldsson. Innifalið var hönnun bókar, vinnsla á grafísku efni höfundar, umbrot og gerð skjals (700 s.) til prentsmiðju.

„Umsjónarmaður verkkaupa er Gunnlaugur Haraldsson söguritari og mun hann hafa umsjón með framvindu verksins og staðfesta framvindu þess, m.a. með áritun reikninga til greiðslu.“ (4. gr.)

Heildarþóknun fyrir verkið var 2.486.000 kr. og var allur kostnaður við verkið innifalinn í þeirri upphæð. (2. gr.) Líklega hefur þessi upphæð verið greidd árið 2007.
 

Sömu aðilar undirrituðu „VIÐBÓTAR SAMKOMULAG“ þann 25. september 2008, „sem helgast af mun meira umfangi og flóknara verki en lagt var til grundvallar upphaflegu samkomulagi á milli aðila“. Þá samþykkti Akraneskaupstaður að „greiða Agli Baldurssyni 700 kr. á mynd, án vsk., vegna myndvinnslu vegna ljósmynda sem verða í bókinni“ og að þóknun fyrir umbrot og gerð pdf-skjala sem send yrðu til prentsmiðju yrðu 3.360 kr. fyrir hverja síðu í bókinni.1
 
 

Samningur um kortagerð

Þann 1. nóvember 2007 undirrituðu Akraneskaupstaður og Fixlanda ehf (Hans H. Hansen) „Samkomulag um gerð korta vegna sögu Akraness“. Í þvi samkomulagi segir m.a.:

 • Fixlanda útbýr kortin í endanlega mynd eftir fyrirsögn GH svo þau verðir tilbúin til prentunar. (1. gr.)
 • Fjöldi korta, stærð, frágangur og efnistök eru ákveðin af höfundi Sögu Akraness (GH) (2.gr.) […]
 • Umsjónarmaður verkkaupa er Gunnlaugur Haraldsson söguritari og mun hann hafa umsjón með framvindu verksins og staðfesta framvindu verksins, m.a. með áritun reikninga. (4. gr.)
 • Áætlaður verktími er 1. nóvember 2007 - 31. desember 2007. (5. gr.)
 • Heildarþóknun fyrir verkið er 3.360.000 kr. án vsk. (3. gr.) en að auki skal Akraneskaupstaður greiða kostnað við viðbótargögn, birtingargjöld vegna grunnkorta fenginna frá Landmælingum Íslands o.fl. sem er áætlað 200.000 kr. (7. gr.)
 • Akraneskaupstaður verður eigandi að kortunum og hefur að fullu ráðstöfunarrétt og birtingarrétt á þeim. (8. gr.)

Í fylgiskjölum kemur fram að gert er ráð fyrir vinnu við kort sem tengist umfjöllun allt til ársins 1850.

Óljóst er hvenær þetta var greitt. Varla getur nema brot af þessu verið innifalið í greiðslum 2007 (sé gert ráð fyrir að um 2,5 milljónir hafi farið í að greiða Agli Baldurssyni og annar kostnaður bókfærður það ár var alls 3,2 milljónir). Annar kostnaður árið 2008 var rúmlega 5 milljónir en í þeirri upphæð hljóta einnig að felast greiðslur fyrir prófarkalestur og einhverjar greiðslur til Egils Baldurssonar. Ætli megi ekki ætla að Fixlanda ehf hafi fengið greitt árið 2008 og hugsanlega einnig árið 2010, jafnvel 2011.
 
 

Pólitískar hræringar í bænum

Á miðju kosningatímabilinu, í maí 2008, gekk Karen Jónsdóttir, fulltrúi óháðra á F-lista, í Sjálfstæðisflokkinn. (Þetta tengist úlfúð sem kom upp þegar flokksbróðir hennar, Magnús Þór Hafsteinsson, var á móti því að Akraneskaupstaður veitti palestínskum ekkjum og börnum þeirra heimili og aðstoð á Akranesi en kemur annars ekki þessari sögu við og verður því ekki rakið nánar.) Við þessi flokksskipti náði Sjálfstæðisflokkurinn hreinum meirihluta í bænum. Fyrir leikendur í sögu Sögu Akraness hafði þetta fremur lítil áhrif, einna helst þessi; Guðmundur Páll Jónsson hvarf úr bæjarráði (en sat áfram í bæjarstjórn), í hans stað kom Rún Halldórsdóttir; Karen var áfram formaður bæjarráðs; Gunnar Sigurðsson var áfram forseti bæjarstjórnar, Sveinn Kristinsson sat áfram í bæjarstjórn (þessir höfðu verið í bæjarstjórn árum saman, sem og Guðmundur Páll, ýmist í meiri-eða minnihluta enda hver í sínum flokknum) o.s.fr.

Þótt kosið væri upp á nýtt í ritnefnd um sögu Akraness voru sömu menn kosnir í hana, nema Jósef H. Þorgeirsson tók sæti Magnúsar Þórs Hafsteinssonar. Eftir lát Jósefs síðla ársins 2008 tók Guðjón Guðmundsson sæti hans. Jósef hafði setið áður í ritnefnd um sögu Akraness en Guðjón kom nýr inn í nefndina.
 
 

Framgangur verksins

F�flar � túniÞótt Gunnlaugur Haraldsson hefði ekki enn uppfyllt fyrri helming nýja grunnsamningsins frá 30. nóvember 2006, þ.e.a.s hann var ekki búinn að skila fyrsta kaflanum (jarðsöguhlutanum) í fyrsta bindið og ekki heldur síðasta kaflanum (um tímabilið 1300-1700), skv. fundargerðum Ritnefndarinnar, virðast greiðslur vegna loka samningar I. bindis og frágangs II. bindis hafa byrjað að berast árið 2008.2 Jarðsögukaflinn í I. bindinu var enn ófrágenginn 2. apríl 2008 og er raunar illmögulegt að skilja annað en hann sé sá 1. kafli sem Ritnefndin fór loks yfir 5. mars 2009. Lokakaflanum í I. bindi, þ.e. efni um 1300-1700, skilaði hann Ritnefndinni 8. desember 2008. (Það bindi átti, skv. viðaukasamkomulaginu að vera tilbúið til prentunar 1. mars 2008.)

Fram eftir árinu 2008 er Gunnlaugur að útlista verkstöðu o.þ.h. fyrir Ritnefndinni og sýna henni hvernig einstakar blaðsíður í I. bindi komi til með að líta út. Til þess notar hann t.d. glærur. Ritnefndin er ákaflega hrifin. Að vísu skilar hann engu á árinu nema 4. kafla I. bindis (kaflanum um tímabilið 1300-1700) og að vísu verður fljótlega ljóst að verkið tefst en Ritnefndin er æðrulaus sem fyrr. Bókað er: Úr því sem komið er geta verklok ekki orðið fyrr en í lok sumars í ár þann 2. apríl 2008 og í árslok, þann 12. desember, er bókað: Verkið hefur tafist vegna annríkis undirverktaka. Sjá töflu unna upp úr fundargerðum Ritnefndarinnar árið 2008.

Skv. ítarlegu minnisblaði Gunnlaugs um stöðuna, sem hann lagði fram 2. apríl 2008, er II. bindið langt komið og staða einstakra kafla þannig:

 • 5. kafli 1701-1800 (390 s.) bíður prentvinnslu
 • 6. kafli 1800-1850 (215 s.) bíður prentvinnslu
 • 7. kafli Samantekt (4-5 s.) ósamið.

Aldrei kemur fram í fundargerðum Ritnefndarinnar að nefndarmenn hafi fengið þessa kafla annars bindis til yfirlestrar, jafnvel þótt leitað sé fram til ársins 2011. Það er erfitt að meta hvort Ritnefndin lét duga árið 2008 að skoða sýnishorn á glærum (af köflum í I. bindi) eða hvort ritnefndarmenn fóru einhvern tíma yfir II. bindið án þess að um þá iðju væri bókaður stafur. (Í útgáfunni 2011 var II. bindið orðið að tímabilinu 1700-1800 en var árið 2008 hugsað sem 1700-1850). Þessu geta væntanlega bara sagnaritari og Ritnefndarmenn svarað og væri óskandi að þeir gerðu það, t.d. í athugasemd við þessa færslu.

Mögulega hefur annríki undirverktaka í umbroti og prófarkalestri að einhverju leyti stafað af því að kröfur um flottara útlit hafi verið settar fram, sbr. viðaukasamning við Egil Baldursson umbrotsmann, sem rakinn var hér að ofan.
 
 

Greiðslur til Gunnlaugs Haraldssonar og annar kostnaður Akraneskaupstaðar 2008

Árið 2008 greiddi Akraneskaupstaður Gunnlaugi Haraldssyni tæplega 7,8 milljónir. Annar kostnaður var rúmlega 5 milljónir, laun Ritnefndarinnar tæp 300.000 kr. Alls var kostnaður bæjarins af sögurituninni þetta árið 13 milljónir og rúm 200 þúsund, sem á núvirði eru rétt rúmar 16 milljónir.3

Það er dálítið erfitt að sjá hvernig upphæðin til Gunnlaugs skiptist, miðað við mínar upplýsingar. Segjum sem svo að síðari hluti grunnsamningsins (Samningur. Saga Akraness, undirritaður 30. nóv. 2006) hafi byrjað að virka, þ.e. að Gunnlaugur hafi fengið greiðslur fyrir II. bindið í 9 mánuði (upphaflega 625.000 kr. á mánuði en einhverjar verðbætur hljóta að hafa bæst við) væru það 5.225.000 kr. + einhverjar verðbætur. Að auki má ætla að hann hafi fengið síðustu greiðsluna vegna viðaukasamningsins á þeim forsendum að I. bindi hefði verið skilað í desember 2008 (þótt svo virðist sem enn hafi vantað framan á það jarðsögukaflann). Sú upphæð var 412.000 kr. með einhverjum verðbótum. Inni í greiðslum til Gunnlaugs gætu líka verið endurgreiðslur ferðakostnaðar vegna ferða milli Reykjavíkur og Akraness. Að öðru leyti átti framlag Akraneskaupstaðar að takmarkast við útlagðan kostnað sem sérstaklega er stofnað til og samþykktur á grundvelli ákvæða 1. gr. samningsins (3. gr.)  en í fyrstu greininni segir: Ekki skal stofnað til kostnaðar eða samningar gerðir nema ritnefnd komi þar að og að bæjaryfirvöld séu upplýst um áætlaðan kostnað og samþykki að greiða hann.

Sól á SkaganumEkkert er bókað í fundargerðum Ritnefndarinnar um neinn aukakostnað nema 2. apríl 2008 en þá hyggst formaður nefndarinnar ræða um ráðningu tveggja prófarkalesara, sem Gunnlaugur Haraldsson leggur til, við bæjaryfirvöld. Gæti greiðsla fyrir prófarkalestur verið skýringin á 2,5 milljónunum sem bæjarráð samþykkti þann 29.5. 2008?3 Í fljótu bragði sýnist mér það ansi rausnarlega borgaður prófarkalestur en engin önnur skýring fæst á fjárbeiðninni úr fundargerðum Ritnefndarinnar, hvað þá að einhver skýring fylgi samþykkt bæjarráðs. Á fundum bæjarráðs og bæjarstjórnar 2008 er ekki getið um neinn aukakostnað annan en þann sem nefndur hefur verið í neðanmálsgreinum. En þær samanlagt fimm milljónir sem Akranesbær greiddi í annan kostnað árið 2008 hljóta að vera einhverjar greiðslur til Fixlanda, til Egils Baldurssonar og til prófarkalesara.

Ég finn ekkert sem skýrir fyrir hvað Gunnlaugur fékk tæpar 7,8 milljónir því ég get ekki séð að hann hafi getað fengið nema kannski vel rúmar 6 milljónir í launagreiðslur (áætluð tala um ágiskaðar verðbætur á 5.225.000 + 412.000 = 5.637.000 kr. frá 2006) og hann hefur þurft að aka ansi oft milli Reykjavíkur og Akraness til að skýra þá einu og hálfu milljón sem virðist bera á milli sem endurgreiddan aksturskostnað.

Enn dularfyllra verður málið þegar rúmu 7,7 milljónirnar sem hann fékk árið 2009 eru hafðar í huga.2 En umfjöllun um söguritun það árið og skyndilegt andóf innan bæjarstjórnar, sem vakti athygli í fjölmiðlum, bíður næstu færslu.
 
 
 
  
1 Á fundi bæjarráðs 11.9. 2008 er bókað:
„22. Samningur við Egil Baldursson vegna Sögu Akraness.
Bæjarráð fellst á samningsupphæðina og vísar fjármögnun til endurskoðunar fjárhagsáætlunar 2008.“Í bæjarráði sátu Karen Jónsdóttir, formaður, Gunnar Sigurðsson og Rún Halldórsdóttir. Þennan fund sátu einnig Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri, og Jón Pálmi Pálsson, bæjarritari.
 
 2 Ég sendi fyrirspurn til Ragnheiðar Þórðardóttur,  þjónustu- og upplýsingarstjóra Akraneskaupstaðar, í tölvupósti á föstudaginn (3. júní), um hvort vantaði inn í þau gögn sem ég fékk frá Akraneskaupstað þann 4. maí sl., þ.e. hvort gæti verið að vantaði einn samning við Gunnlaug. Ég á nefnilega bágt með að skilja hvernig hann gat fengið greiddar rúmar 7,7 milljónir bæði árið 2008 og 2009, miðað við þau gögn sem ég hef undir höndum. Í svari Ragnheiðar, sem barst í dag (6. júní), kemur fram að erindinu sé vísað til bæjarritara. Bæjarritari er í sumarfríi til 30. júní. Ég skrifaði Ragnheiði aftur og benti á Upplýsingastefnu Akraneskaupstaðar og Upplýsingalög, þar sem kemur fram að Akranesbær hefur að hámarki 20 daga frest til að svara mér. Væntanlega getur einhver flett í gegnum möppuna á skrifstofu bæjarritara fljótlega og svarað þessu erindi og Ragnheiður ætlar víst að reyna að koma því í kring, skv. bréfi nú í eftirmiddag. Ég verð því sem stendur að túlka gögnin þannig að árið 2008 hafi Gunnlaugur fengið greitt skv. samningi frá  30. nóvember 2006 og viðaukasamningi frá 27. október 2007 þar til annað kemur í ljós. Það stendur að vísu út af u.þ.b. ein og hálf milljón, sem er óskýrð, og náttúrlega óútskýrð 4 milljóna skuld fyrir vinnu árið 2009 … en þetta skýrist væntanlega allt þegar Akraneskaupstaður hefur tíma til að svara erindi mínu, vonandi í tæka tíð áður en ég klára næstu færslu, um árið 2009. Ég mun að sjálfsögðu leiðrétta þessa færslu séu skýringar á greiðslum til Gunnlaugs aðrar en ég get mér til núna.
 
 

3 Á fundi bæjarráðs 29.5. 2008 er bókað:
„1. Viðræður við Jón Gunnlaugsson, formann sögunefndar Akraness.
Bæjarráð samþykkir að verja viðbótarfjárveitingu að fjárhæð 2,5 millj. króna  til sögu Akraness vegna útgáfu I bindis.  Formanni sögunefndar og bæjarritara falið að hafa umsjón með útgjöldunum í samræmi við umræður á fundinum.  Fjárveitingu vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar 2008.“

Sama fólk og nefnt var í 1. neðanmálsgrein sat fundinn.
 
 

4 Upplýsingar um greiðslur og uppreikning á núvirði eru fengnar frá Akraneskaupstað þann 4. maí 2011. Sama gildir um þá samninga sem nefndir hafa verið til þessa.
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness

1. júní 2011

Fjórðungsdómur um 18 marka bók

Það er ekki áhlaupsverk að lesa Sögu Akraness eftir Gunnlaug Haraldsson. Hvort bindi er gríðarlega þungt, hið fyrra er 18 merkur enda prentað á 150 gramma glanspappír. Stærðin er u.þ.b. 25 sinnum 35 cm. Af þessu má ráða að einungis aflraunamenn lesa bókina í fangi sér, flestir þurfa sæmilega stöndugt borð við lesturinn. Ég las um fjórðung Sögu Akraness I. bindi. Frá landnámstíð til 1700 og gafst þá upp. Þessi umfjöllun er því ekki hefðbundinn ritdómur um verkið (bindin tvö) enda er ég ekki sagnfræðingur (það er höfundurinn reyndar ekki heldur) og treysti mér ekki til að meta nema afmarkaða þætti. Mætti því kalla færsluna fjórðungsdóm því hún byggir á lesnum fjórðungi og flettingum I. bindis; ég hætti við að opna seinna bindið.

Helstu niðurstöður mínar eru að meðferð heimilda er mjög ábótavant, myndir eru oft rangt merktar eða notaðar í heimildaleysi, umfjöllun um landnámsmenn eru studdar vægast sagt hæpnum rökum og niðurstaðan er, að mínu mati, tært bull.

Afar fallegar ljósmyndir prýða kápur beggja bókanna og í þeim er fjöldi gullfallegra ljósmynda sem Friðþjófur Helgason hefur tekið. Þess er hins vegar ekki getið í myndaskrá hvenær myndirnar voru teknar eins og venja er. Sömuleiðis eru kort Hans H. Hansen mjög vönduð og vel gerð. Mörg þeirra eru „myndkort“, þ.e.a.s. örnefni og fleira eru merkt inn á gríðarlega stórar loftmyndir (sem yfirleitt þekja heila opnu). Þetta er verulega glæsilegt en erfitt er að lesa dökkt letur á dökkum grunni (dökkgrænum, dökkbrúnum, jafnvel næstum svörtu bergstáli Akrafjalls, sjá t.d. kortið á s. 151 og myndkortið á síðum 104-105). Á stöku stað hefur þess verið gætt að nota hvítt letur á dökku grunnana. Almennt eru kortin sem Hans hefur gert mjög skýr og gott að átta sig á þeim. Ég held samt að myndkortin séu einungis fyrir mjög staðkunnugt fólk eða fólk sem hefur brennandi áhuga á öllum kennileitum umhverfisins allt í kringum Akrafjall því vitaskuld tekur maður ekki með sér 18 marka bók í labbitúr eða fjallgöngu. Væri mun handhægara fyrir þá sem vilja kynnast umhverfinu öðru vísi en úr bók liggjandi á eldhúsborðinu að útbúa sín eigin myndkort úr Kortasjá Landmælinga. Reyndar er langt frá því hver þúfa merkt á þau kort en t.d. eru skerin kringum Akranes og örnefni í Akrafjalli jafn vel merkt og í bók Gunnlaugs og þónokkuð af öðrum örnefnum líka.

Uppspunnið sýnishorn af s�ðu � Sögu AkranessÞrátt fyrir þessi fallegu og vönduðu kort og ljósmyndir Friðþjófs er heildaryfirbragð þessa fyrsta bindis ekki fallegt og geri ég nánari grein fyrir því síðar. Kannski er best fyrir lesendur að smella á litlu myndina hér til hliðar og sjá uppspunna eftirlíkingu af dæmigerðri síðu í bók Gunnlaugs, vilji þeir sjá sundurgerðina og smekklausan íburðinn. (Á hinni uppspunnu síðu má sjá dýrlingamynd af vefnum, eina myndanna sem Gunnlaugur stal af Hurstwic en ég hef aftur á móti fullt leyfi til að nota einmitt í þessum tilgangi og gullfallega ljósmynd, tekna af Atla Harðarsyni sem gaf mér leyfi til að nota hana. Nærbuxnafjólubláu innskotsgreinina samdi ég sjálf upp úr Hversu Noregr byggðist, sömu efnisgrein og Gunnlaugur telur ótvírætt sanna konunglegan uppruna Bresasona.) 

Hönnun Sögu Akraness I og II var í höndum Gunnlaugs Haraldssonar og Egils Baldurssonar. Fyrir umsjón mynda og umbrots er skráður Gunnlaugur Haraldsson.

Venjulega er það svo þegar fjallað er um bækur að fyrst er fjallað um textann, síðar annað, s.s. myndir, uppsetningu, meðferð heimilda, prófarkalestur o.þ.h. Fjórðungsdómurinn minn snýr nánast öfugt við þetta. Prófarkalestur er með ágætum.
 

Meðferð heimilda er mjög ábótavant

Í II hluta Sögu Akraness I, „Frá landnámi til loka þrettándu aldar“, er mjög víða vitnað beint í Íslenzk fornrit, ýmist innan gæsalappa eða í inndregnum klausum. Hvergi er notuð sama stafsetning og í heimildum heldur eru allar tilvitnanir með nútímastafsetningu og greinarmerkjasetningu breytt. Fáeinar stikkprufur leiddu í ljós villu í beinni tilvitnun: Í tilvitnun í Sturlubók Landnámu á s. 174 bætir Gunnlaugur Kjarrá inn í textann um Kalman svo beina tilvitnunin verður þannig: „En síðan nam hann land fyrir vestan Hvítá á milli Kjarrár og Fljóta“ í stað „En síðan nam hann land fyrir vestan Hvítá á milli ok Fljóta“ (ÍF I, s. 81). Allt annar maður, Hrosskell „nam Hvítársíðu milli Kjarrár ok Fljóta“ segir í ÍF I, s. 83. Og raunar birtist sú beina tilvitnun á móti í opnunni, s. 175. Svona villur, þ.e. að geta ekki vitnað beint í rit orðrétt og stafrétt og ruglast á blaðsíðum og persónum, eru alvarlegur galli á fræðilegum skrifum.

Í heimildaskrá er getið hins fræga fyrirlestrar Hallgríms Jónssonar, sem hann flutti 13. janúar 1889, enda vitnar sagnaritari í hann í formála. En skráningin er svona: „Hallgrímur Jónsson. 1977: „Lífið í Skaganum síðastliðin 100 ár.“ Borgfirzk blanda I. Sagnir og fróðleikur úr Mýra- og Borgarjarðarsýslum. Akran., s. 9-34.“ Eftir allar yfirlýsingar sagnaritara um þá feikilegu vinnu sem hann hefur lagt í öflun frumheilda er afar undarlegt að hann noti ekki handrit Hallgríms Jónssonar sem heimild (það er reyndar geymt á Héraðsskjalasafni bæjarins) heldur prentaða útgáfu í Borgfirzkri blöndu!

Í lestri kaflans „Frá landnámi til loka þrettándu aldar“ varð ég áþreifanlega vör við notkun yfirlitsritsins Íslensks söguatlass I. Ég veit að þetta er ágætis bók, krakkarnir í fjölbraut nota hana mikið, en er þetta tæk aðalheimild í fræðilegum texta?

Sólkonungurinn Lúðv�k XIVÍ heimildaskrá yfir óprentaðar heimildir eru taldar upp fjórar Vefsíður [svo]. Ein þeirra er http://www.wikipedia.org og er hvað eftir annað vísað í http://www.wikipedia.org úr texta bókarinnar og myndaskrám. Nú ekki svo að ég hafi neitt á móti Wikipediu og finnst í sjálfu sér óþarfi að banna framhaldsskólanemendum að nota undirsíður af því vefsetri sem heimildir í sínum heimildaritgerðum.

En í fyrsta lagi er er Wikipedia ekki ein vefsíða (ekki frekar en Bókasafn Akraness telst ein heimild). Í öðru lagi heitir vefsetrið Wikipedia og ber að vitna í titil þess (alveg eins og venjan er að vitna í titil ritsafns en ekki heimilisfang bókasafnsins þar sem það ritsafn er geymt). Þessi skráning í heimildaskrá er því algerlega galin. Enn galnari eru tilvísanir í neðanmálsgreinum, t.d. á s. 167 þar sem segir „Í þessum kafla er einkum stuðst við eftirtaldar heimildir: Almgren, Bertil, 1967;[…] www.wikipedia.org; Þorvaldur Thoroddsen, 2003(1), s. 25-28.“ Vísað er rétt í ritin en í hvaða síðu eða síður á Wikipediu er sagnaritari að vísa?

[Myndin sýnir Sólkonunginn, Lúðvík XIV. Frakklandskonung, sem reisti Versali.]

Venjan er sú þegar vísað er í vefsíður eða vefsetur að láta þess getið hvenær gögnin voru skoðuð. Það er hvergi gert í tilvísunum Gunnlaugs til heimilda úr texta og í myndaskrá.

Í heimildaskrá yfir óprentaðar heimildir er einnig að finna Heimildir í fórum höfundar. Ein þeirra er Þorsteinn Jónsson: Hús og býli á Akranesi (óársett handrit). Þetta kom Þorsteini Jónssyni nokkuð á óvart enda hefur hann aldrei veitt Gunnlaugi Haraldssyni leyfi til að ljósrita handrit sitt.

  

   

Myndir, myndastuldur, ónákvæm skráning mynda og myndaval

Myndir á Vefnum eru ekki almenningseign fremur en í bókum. Nokkurn veginn sömu reglur gilda um hvort tveggja. Raunar eru til myndir og myndasöfn á Vefnum þar sem menn hafa afsalað sér höfundarétti og þær eru til ókeypis afnota (stundum kallað „public domain“ eða „creative commons“ aðgangur.)
 

 • Ég reikna með að mynd 259, sem er einfalt kort yfir Bretlandseyjar, á ensku nema álímdur miði, sleppi sem almenningseign en tilvísunin í myndaskrá er jafnvitlaus og úr textanum, þ.e. „Suðureyjar (The Hebrides). http://www. wikipedia.org.“ [Rétta slóðin er http://en.wikipedia.org/wiki/Hebrides, síðan heitir „Hebrides“ og er á Wikipedia.]
 • Mynd 365 er skráð í myndaskrá „Tveir prestar. http://www.propheties.it.“ Ég fann ekki málverkið sem myndin er klippt úr á þeirri síðu en slóðin vísar á Propheties On Line. The largest library about Nostradamus for free.
 • Ekki er nokkur leið að rekja mynd 262, skráð „Víkingar. http://www.icelandcoaches.“
 • Jafnerfitt yrði fyrir þann sem tekur skráningu Gunnlaugs bókstaflega að finna Lewis taflmennina frægu, „266. Lewis chessmen frá 12. öld. The British Museum, London. http://www.wikipedia.org.“
 • Svo ekki sé talað um mynd 328 „Frá Borgarfirði. http://www.mbl.is.“
 • Aftur á móti var ekkert mál að finna mynd 268 af heilögum Finan á http://www.financlan.net, sem er vefsetur Finan fjölskyldunnar í Bandaríkjunum, Finan family history en hún er óvenjulegt val á heimild um heilagan Finan.

Gunnlaugur hefur stolið myndum af vefnum, a.m.k. myndum nr. 277, 278, 283, 288, 326 og 329 af vefsetri Hurstwic (sem eru víkingasamtök í Bandaríkjunum -leiðrétt 4. júní 2011). Sumar eru í eigu Dover Publications sem veittu Hurstwic leyfi til að birta þær. Aðrar eru í eigu Hurstwic. Ég bar þetta undir umsjónarmann vefsetursins (William R. Short prófessor), sem er kunningi minn, og var hann ekki par hrifinn af þessu ráðslagi sagnaritarans.

Inni í örnefnakaflanum mikla er auðvitað fjallað um Akranes. Þar er falleg myndaopna, s. 88-89. Sumar myndirnar eru eignaðar Árna Böðvarssyni en aðrar eru höfundalausar, einungis vísað til Ljósmyndasafns Akraness um þær. Það tók mig um fimm mínútur að finna höfundana á vef Ljósmyndasafnins: Mynd 147 er tekin af Magnúsi Ólafssyni; 148 tekin af Haraldi Böðvarssyni, 149 og 150 teknar af Árna Böðvarssyni (sú síðari ein af best þekktu myndum hans, handlituð). Það er undarlegt að hafa svo eina mynd svarthvíta (nr. 152, eignuð Árna) þegar hinar myndirnar eru í sepia-tónum (þ.e. brún-hvítar), utan þeirrar frægu handlituðu, og eyðileggur heildarsvip opnunnar. Á næstu síðu er svo nýleg ljósmynd 153, líklega Friðþjófs Helgasonar, en hún hefur fallið niður í myndaskrá. Höfundarlausu myndina á sömu síðu, nr. 154, tók Ólafur Frímann Jónsson.

Litlu framar er mynd 134 eignuð Auði Sæmundsdóttur en er tekin af Þorsteini Jósepssyni. Og mynd 133, eignuð Árna Böðvarssyni og sögð af Ljósmyndasafninu er ekki til á því safni enda sést greinilega á henni að hún er skönnuð úr dagblaði því speglað prentið skín alls staðar í gegn.

Þessi dæmi ættu að sýna að valt er að treysta myndaskrá Gunnlaugs, jafnvel þótt um gamlar myndir af Akranesi sé að ræða.

Sólkonungurinn Lúðv�k XIVAlmennt má segja að lítið sem ekkert hafi verið unnið með þessar gömlu myndir, þær eru margar yfirlýstar og óskýrar og hefði vel mátt gera töluvert við þær. Myndirnar eru líka grófkornóttar og læðist að manni sá grunur að þær hafi verið sóttar af vef Ljósmyndasafns Akraness í stað þess að skanna frummyndirnar í sæmilega hárri upplausn sem hentaði prenti á slíkan gæðapappír.

Aðrar gamlar ljósmyndir eru fengnar héðan og þaðan, t.d. frá Daniel Bruun. Það er undarlegt að sjá mynd af henni Svanfríði Jónasdóttur vinnukonu í Lundarbrekku í Bárðardal skreyta umfjöllun um „Vistarbandið“ í III hluta „Tímabilið 1300-1700“. Myndin var tekin 1897, tölsett 376 í bók Gunnlaugs.  Og illa er farið með góða mynd Daniels Bruun, líklega tekna 1896, þegar útklipptur bútur úr henni með prjónandi stúlkubarni og eldri konu birtist með myndatextanum „Lítið magn barst af sjóvettlingum og sokkum í verslun útgerðarinnar“ á 17. öld. (Mynd 545 í bók Gunnlaugs.) Þær eru samt prýðilega klæddar, stöllur, gott ef ekki með sirzsvuntur og stúlkan á dönskum kjól innanundir. Ég hef oft rekið mig á hugmyndir unglinga um að til sé óskilgreindur tími, „í gamla daga“ sem nái frá landnámi fram undir 1980. En mér kemur á óvart að sagnaritara finnist ekkert athugavert við að skreyta umfjöllun sína með meir en 200 árum yngri ljósmyndum.

Þegar þetta blandast svo allt saman í einn kokteil: Litskrúðugar myndir af vefnum, ljósmyndir Friðþjófs og kort Hans, gamlar ljósmyndir héðan og þaðan, ljósmyndir úr handritum og teikningar að auki er yfirbragðið einkar sundurlaust. Þegar ofan á bætast mismunandi letur og rammagreinar í pastellitum verður sundurgerðin æpandi. Ég vísa aftur í uppspunna sýnishornasíðu sem gefur góða mynd af yfirbragðinu. [Myndin að ofan til vinstri sýnir teikningu Thackeray af Sólkonungnum og klæðum hans.]
 

   

  

Örnefnaupptalning, hnýtt í fyrri sagnaritara og beinn ritstuldur

I. hluti bókarinnar ber yfirskriftina „Örnefni og búsetuminjar í landi Bresasona“. Ég reyndi að lesa hann. Gunnlaugur hefur haft aðgang að mun betri gögnum en Jón Böðvarsson á sínum tíma, t.d. skrám um fornleifar og minjastaði sem unnar voru eftir 1997, auk þess sem hann hefur að eigin sögn gengið þvers og kruss meira eða minna um allt landnámið; beitt sömu aðferð og Lundarstúdentum þótti vænlegust til árangurs í svæðisrannsóknum 1976-78 og væntanlega með sama hugarfari (sjá síðasta hluta færslunnar Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“ og tilheyrandi neðanmálsgreinar).

Þetta skilar sér í Sögu Akraness I því svo úir og grúir af örnefnaupptalningu að lesandi eins og ég (sem hef reyndar áhuga á örnefnum en vil gjarna sjá áfram skóginn fyrir trjánum) gefst fljótlega upp á að reyna að lesa textann heldur grípur niður í hann á stöku stað, af síminnkandi áhuga. Sem dæmi má nefna að í kaflanum Vestur af bæ (sem er undirkafli 1.1. Katanes, sem er undirkafli 1. Frá Kalmansá til Kúludalsár, sem er undirkafli I Örnefni og búsetuminjar í landnámi Bresason) eru talin upp 34 skáletruð örnefni í texta sem er innan við tveir dálkar að lengd (á hverri blaðsíðu eru þrír textadálkar). Fleiri örnefni í Kataneslandi eru talin upp í öðrum undirköflum.

Ó-örnefnafróður lesandi veltir því fyrir sér hver sé munurinn á Björgvinsstykki, „tveggja dagsláttu spildu á hæðardragi á mörkum Leynis og Gamlatúns“ (vísað er í: „Þessa spildu gaf Jón Ólafsson bóndi einhverju sinni Björgvini bróður sínum“) og Björgvinslandi en um það segir: „Milli Smáholta og Skollholts, rétt austan við Klafastaðamerkin, er 25 dagsláttu landspilda, sem gefin var úr jörðinni, svonefnt Björgvinsland.“ Gæti kannski hjálpað lesanda að á Björgvinsstykki „stóð hesthús, Beggakofi, byggt um 1930 en nú fallið. Upp af Björgvinsstykki og austast í Leyni, en vestan gamla túngarðsins, er votlent stykki, Fífustykki, sem ávallt var hvítt af fífu, áður en það var gert að túni.“ (s. 17.) Er áhugavert að vita að hesthúsið Beggakofi stóð á Björgvinsstykki í Katastaðalandi um hríð og einu sinni var stykki hvítt af fífu kallað Fífustykki og er enn kallað svo þótt orðið sé grænt tún? Er þetta ekki ekki texti sem á betur heima í örnefnaskráar-bæklingi en í Sögu Akraness?

[Fyrir ókunnuga lesendur færslunnar: Núverandi eigandi Kataness- og Klafastaðajarða er Faxaflóahafnir sf, sem leigja ýmsum stóriðjufyrirtækjum landið. Þessi örnefni eru sem sagt í nágrenni Norðuráls og Járnblendiverksmiðjunnar.]

Aðrir örnefnakaflar eru svipaðir, þ.e.a.s. engu smáatriði sleppt og afraksturinn er upptalning sem myndi æra óstöðugan, nema náttúrlega bóndann á bænum reikna ég með. Hér hefði verulega þurft á ritstjórn að halda, sem hefði getað stuðlað að áherslu á aðalatriði og kannski raðað restinni í neðanmálsgreinar, töflur eða viðauka.

Í formála nefnir Gunnlaugur að hann notist við svonefndar rammagreinar sem annars vegar geymi ítarefni og hins vegar tímasettar frásagnir af stökum viðburðum. Þessar rammagreinar er að finna víða í bókinni. Þær eiga það sameiginlegt að vera í flestar í pastellitum, þ.e. eru ljósfjólubláar, myntugrænar, fölbláar, ferskjubleikar og dökkrjómagular, með skáletruðum texta.

Á fyrstu síðu er einmitt ein ljósfjólublá rammagrein sem ber yfirskriftina „Tilurð Akrafjalls og Eiðisvatns“. Þetta er bein tilvitnun í Svæðisskipulag sveitarfélaganna sunnan Skarðsheiðar 1992-2012, s. 10 (frásögn Halldórs  Kristjánssonar á Heynesi). Sama þjóðsaga er í bók Jóns Böðvarssonar, s. 82. Þar endursagði Jón hana sjálfur og með fullri virðingu fyrir Halldóri Kristjánssyni á Heynesi og svæðisskipulaginu er sagan betur sögð í útgáfu Jóns, þar sem hún endar „En skessurnar verða að sitja til tröllaragnarökkurs í bát sínum sem heitir Reynisskip.“

Margar fleiri rammagreinar í Sögu Akraness I er einnig að finna í bók Jóns Böðvarssonar, efnislega en ekki endilega orðréttar. Beri maður þær saman sést oft talsverður munur milli skrásetjarans Gunnlaugs og sagnamannsins Jóns. Í ritdómum um bók Jóns Böðvarssonar var honum einmitt hrósað sérstaklega fyrir rammagreinarnar, „Talsvert er um sérstakar frásagnir í innfelldum römmum, sem gefa frásögninni líf og lit“; „…sérstök ástæða er til að nefna ramma og spássíugreinar, sem notaðar eru til að skýra einstök atriði í meginmáli. Hygg ég að mörgum lesanda muni þykja fengur að þessu efni, þótt sjálfum hafi mér alltaf leiðst slíkur framsetningarmáti.“ Rammagreinar Jóns Böðvarssonar voru ljósgráar enda ekki splæst í þann íburð sem einkennir bók Gunnlaugs en standa fyllilega fyrir sínu lesi menn texta á annað borð. Og það var óvitlaust af Gunnlaugi að herma þessa hugmynd eftir.

Sólkonungurinn Lúðv�k XIVStundum eyðir Gunnlaugur óþarfa púðri í að hnýta í forvera sinn, Jón Böðvarsson, í örnefnakaflanum og víðar. Má sem dæmi taka tilvísun við litla pastelfjólubláa innskotsgrein sem segir frá reimleikum í Leyni, s. 72:

Skv. frásögn Sigurbjarna Guðnasonar frá Gerði (f. 1935) í apríl 2007. - Í Jón Böðvarsson 1992, s. 84, segir eftirfarandi: „Draugar voru á Langanesi inn við Leyni.“ Ekki er vísað til heimildar né raktar sögur af draugagangi. Enginn staðkunnugur, sem höfundur (GH) hefur spurt um þetta örnefni, hefur heyrt þess getið. 

Í ljósi þess að Langisandur er næsta „vík“ við Leyni er svo sem ekkert óhugsandi að örnefnið Langanes hafi verið til og átt við hluta Sólmundarhöfða eða skerin þar á milli, en hafi verið horfið í gleymskunnar dá þegar Gunnlaugur ræddi við staðkunnuga fyrir fjórum árum.
[Myndin til vinstri er af Sólkonungnum.]

Annað dæmi í umfjöllun um örnefni í landi Gerðis [Gunnlaugur gefur samheitið Þorgrímsgerði í fyrirsögn] þar sem segir í bók Gunnlaugs, s.47 og 50:

Tilgáta er um að Gerði hafi upphaflega heitið Bresagerði, en óljós sögn er um að svo heiti „rúst í Gerðislandi í mýrarflóa miðja vegu milli fjöru og fjalls út við Másstaðamerki“. 

Tilvísun við þessa málsgrein hljóðar þannig: „Jón Böðvarsson, 1992, s. 25, 43 og 67, með tilvísun í Bjarna Jónsson, bónda í Gerði (d. 1958). Tilgáta þessi verður að teljast afar hæpin enda byggir hún á veikum grunni. Sigurbjarni Guðnason (f. 1935), fæddur og uppalinn í Gerði, kannast ekki við þetta örnefni á jörðinni, hvorki á þessum stað né öðrum, skv. viðtali við höfund 2007.“

Ég veit ekki hvort það er viljandi að hafa fæðingarár Sigurbjarna en dánarár Bjarna í þessari tilvísun. Bjarni var afi Jóns Böðvarssonar, var bóndi í Gerði mestalla sína ævi og fæddist 1874.

Fyrsta dæmið um hvernig Gunnlaugur kastar eigu sinni á verk annarra fann ég í örnefnahluta I. bindisins. Þar er um beinan ritstuld að ræða. Á opnu s. 93-94 er „Tölvugert myndkort eða tilgátumynd af […] Skipaskaga og hluta Garðalands. Bræddur er saman uppdráttur Ólafs Jónssonar búfræðings og Knuds Zimsen verkfræðings frá 1. janúar 1901 við loftmynd frá 2002 […] nafngreind eru öll íveruhús, sem þá voru í byggð, og þekkt örnefni staðsett.“ Myndkort 6 er sagt vera unnið af Hans H. Hansen landfræðingi og kortagerðarmanni eftir forsögn Gunnlaugs Haraldssonar. En það var Þorsteinn Jónsson sem merkti hvert einasta hús inn á kortið. Bæði má finna þetta kort með númeruðum húsum og meðfylgjandi lista yfir þau, ásamt upplýsingum um hvert og eitt, í fyrstu tveimur greinum Þorsteins Jónssonar sem bera yfirskriftina „Þættir úr sögu Akraness. Heimildaöflun til sögu Akraness“ í blaðinu Umfangi sem var gefið út á Akranesi árið 1978 og svo hefur þetta sama kort, með merkingum Þorsteins Jónssonar, verið geymt á Byggðasafninu (sem Gunnlaugur veitti forstöðu á árunum 1979-95). Líklega er þessar upplýsingar einnig að finna í óársettu handriti Þorsteins Jónssonar, Hús og býli á Akranesi, sem Gunnlaugur hefur komist yfir á dularfullan hátt, eins og fyrr var nefnt. Þorsteinn Jónsson staðfesti að hann hefði ekki verið spurður leyfis fyrir að nota verk sitt, þ.e. nöfn húsanna á kortinu og hugsanlega líka einhver örnefni (hann safnaði hvoru tveggju árið 1978).

Fleira verður ekki sagt um smásmugulega upptalningu Gunnlaugs á örnefnum sem bændur og aðrir staðkunnugir fræddu hann um, óþarfa skítkast í Jón Böðvarsson og ritþjófnað. Aftur á móti sé ég í hendi mér að textinn og kortin gætu nýst prýðilega sem grunnur fyrir aðra sem vilja gera göngukort eða örnefnakort af einstökum hlutum þessa svæðis kringum Akrafjall. Það er hins vegar spurning um hversu mikið erindi svona framsettur fróðleikur á í Sögu Akraness, sem væntanlega á að höfða til íbúa á Akranesi fyrst og fremst.
  

    

Konunglegur og suðureyskur uppruni hinna einu sönnu kristnu landnámsmanna Akraness, hugmyndastuldur og þvælingur heimilda

Það sem ég taldi mig hafa eitthvert vit á fyrirfram var II. hluti Sögu Akraness I sem heitir „Frá landnámi til loka þrettándu aldar“. En af því sagnaritara er svo í mun að sanna ágæti, ættgöfgi, frumkvæði og suðureyskan uppruna Bresasona reyndist texti hans stundum ansi þvælinn.

Um textann almennt má segja svipað og örnefnakaflann, þ.e. stíllinn er stirður og vitnað er í heimildir hægri vinstri (sem lítur ágætlega út þangað til maður áttar sig á að aðalheimildir eru Íslenskur söguatlas I og http://www.wikipedia.org, auk ýmissa binda Íslenzkra fornrita, endurstafsettra). Oft er erfitt að átta sig á hvernig Gunnlaugur hefur hrært saman umfjöllun úr ýmsum áttum en þetta dæmi á s. 68 held ég að sé alveg örugglega aðallega eftir hann og sýni stíl hans prýðilega, með skyldubundinni fótnótu sparslað í:

Enn um sinn verða þó tilgátur um landnám og elstu byggð í einstökum héruðum landsins einungis smíðaðar úr tiltækum efniviði. Verður því með engu móti tekið undir þá staðhæfingu, sem oft er  viðruð, að Íslendingar þekki sögu sína „tiltölulega vel allt frá upphafi.“8 Nær er að ætla, að því marki verði seint náð, þar sem engar vísindalegar aðferðir hafa reynst færar um að greina með vissu  þau forsögulegu fyrirbæri, sem leiddu til landnáms Íslands, þar með talið hvaða fólk og frá hvaða löndum það lagði upp í þá för. 

Af því Gunnlaugur Haraldsson hefur svo lítið álit á fyrri söguþekkingu lesenda sinna byrjar hann á algerum byrjunarreit, viðrar gamlar heimildir sem nefna Thule, fjallar um írska munka auk þess að gera samviskusamlega og smásmugulega grein fyrir landvinningum norrænna á Bretlandseyjum og upphafi víkingaferða. Fræðslan er sumstaðar svo algerlega á byrjendastigi að fullorðnum lesanda fallast hendur, t.d. „Keltar voru indóevrópskur þjóðastofn upprunninn í Mið-Evrópu, þar sem þeir voru mjög áberandi og áhrifamiklir fram yfir Krists burð.“ (s. 167.) Alþýðukona eins og ég veltir því fyrir sér hvort Keltar skeri sig úr að þessu leyti: Eru flestir þjóðarstofnar í Evrópu ekki af indóevrópskum uppruna? Oftar er getið undantekninganna finnsk-úgrískra þjóða og Baska ef indóevrópskt upplag ber á góma.

Gunnlaugur tekur upp hugmynd Jóns Böðvarssonar o.fl. og hefur atburðaannál aftan við einstaka hluta sögunnar. Í „Atburðaannaál frá landnámstíð til 1300“ á s. 267 sést nokkurn veginn hvað fyrir honum vakir:

820/50 Norskur maður, Bersi Helgason, leggst í víking eða flytur vestur um haf. Hann sest að á eyjunni Ljóðhúsum í Suðureyjum og kvænist gelískri konu. Meðal barna þeirra eru Þormóður og Ketill, sem einnig kvænast gelískum konum. […]

880/890 Ketill og Þormóður Bresasynir bregða búi á Ljóðhúsum vegna landþrengsla og innanlandsófriðar og ákveða að freista landnáms á Íslandi. Þeir nema sameiginlega land á Akranesi og skipta með sér landnáminu vestan Urriðaár og Kalmansár. Þormóður byggir sér bæ sunnan Akrafjalls og nefnir Hólm, en Ketill vestan fjalls og nefnir Holt eða Garða. Skyldfólki og fylgdarliði þeirra er úthlutað jarðnæði. […]

Aukið aðstreymi fólks og vaxandi eftirspurn eftir jarðnæði. Skipting landnáma og myndun stórjarða hefst. Bresasynir úthluta jörðum næst landnámssetrum sínum og síðan norðan og austan fjalls. Meðal nýbýlinga eru suðureyskir menn, Bekan, Kalman, Kjaran og Katan.

Fyrst er að gera þá Ketil og Þormóð að einhverju leyti merkilega eða sæmilega ættaða. Gunnlaugur rökstyður konunglegan uppruna þeirra með tilvitnun í orðsifjar, sem ýmist benda til að Bresi sé af gelískum rótum runnið eða sé tvímynd af norræna orðinu Bersi „en svo er faðir þeirra nefndur í fornum sagnaþætti um upphaf byggðar í Noregi.“ (s. 183.) Gunnlaugur vísar þarna í stuttan þátt í Fornaldarsögum Norðurlanda, „Frá niðjum Fornjóts“ sem er upphafið á Hversu Noregr byggðist. Þar segir: „Jötunbjörn inn gamli var faðir Raums konungs, föður Hrossbjarnar, föður Orms skeljamola, föður Knattar, föður þeira Þórólfs hálma ok Ketils raums. Synir Þórólfs váru þeir Helgi, faðir Bersa, föður Þormóðs, föður Þórlaugar, móður Tungu-Odds“ o.s.fr. Af því sagnaritarinn tekur þessa klausu sem sannleika er ekki úr vegi að geta þess að í sömu efnisgrein kemur fram að í þessu slekti sem tengdist Raumi konungi var Eysteinn konungur illráði sem „setti Inn-Þrændum hund sinn fyrir konung, er Saurr hét“. Mætti ekki draga einhverja ályktun um konunglegan uppruna búrtíka Bresasona af sömu efnisgrein?

Fornaldarsögur Norðurlanda hafa hingað til ekki þótt áreiðanlegar heimildir en Gunnlaugur heldur ótrauður sínu striki og vitnar einnig í Guðbrand Vigfússon sem staðfestir að Bresasynir „voru komnir af Jötna-Birni, og í forneskju ættaðir úr Raumsdal og kemur þar saman ætt þeirra og Ingimundar gamla, svo að menn sjá af þessu, hvernig skilja á það, þegar menn eru kallaðir írskir og þvíumlíkt, að þeir eru Norðmenn, sem eru bornir og barnfæddir á Írlandi.“ Guðbrandur Vigfússon var barn síns tíma og trúði því að Íslendingasögurnar og önnur forn fræði væru heilagur sannleikur. Textinn sem þessi klausa er úr heitir „Um tímatal í íslendingasögum í fornöld“ og birtist í Safn til sögu Íslands og íslenskra bókmennta að fornu og nýju árið 1856. Satt best að segja er ótækt að nota Guðbrand Vigfússon sem heimild í rökstuðningi fyrir konunglegum norrænum uppruna Bresasona! (Raunar hugsa ég að Gunnlaugur Haraldsson hafi ekki hugmynd um hver Guðbrandur Vigfússon var eða hvenær hann skrifaði þetta. Nákvæmlega þessa tilvitnun er nefnilega að finna í Sögu Akraness I eftir Ólaf B. Björnsson, útg. 1957, s. 16. Gunnlaugur hefur áður seilst til orða Guðbrands um að Bresasynir hafi verið „bornir og barnfæddir á Írlandi“ í stuttu textunum sem hann skrifaði í tvær ljósmyndabækur um Akranes og komu út 1987 og 1998. Textinn um þá bornu og barnfæddu á Írlandi gengur svo aftur á upplýsingasíðu bæjarins enda forsenda Írskra daga.)

Loðv�k sextándiÞótt allir sem eitthvað þekkja til íslenskra fornbókmennta viti að Fornaldarsögur Norðurlanda séu almennt taldar lygisögur og að Guðbrandur Vigfússon var barn síns tíma og trúði því að fornbókmenntir okkar væru heilagur sannleikur notar Gunnlaugur þetta bull m.a. til að kasta rýrð á Jón Böðvarsson í neðanmálsgrein: „Megi eitthvað marka þessi ættartengsl, stenst vart þessi umsögn: „Niðurstöður af framanskráðu eru: Uppruni Bresasona er ókunnur og ættsmáir hafa þeir talist.“ Jón Böðvarsson, 1992, s. 93.“ Gunnlaugur getur þess ekki að skömmu síðar bætir Jón við: „Hvorki má af ofanskráðu né heimildafátækt þá ályktun draga að Bresasynir hafi verið litlir bógar.“ (s. 94 í bók Jóns.)

[Til tilbreytingar er hér til vinstri birt mynd af Lúðvík XVI. Frakklandskonungi, sem tók við búi í Versölum af afa sínum. Það fór illa fyrir honum.]

Sem sagt: Með tilvísun til Fornaldarsagna Norðurlanda og túlkunar Guðbrands Vigfússonar eru Þormóður og Ketill Bresasynir af konunglegum norrænum ættum. En þá er að gera þá suðureyska einnig og komast framhjá tengingunni við Írland (sem var innifalin í rökum Guðbrands Vigfússonar fyrir konunglega  ætterninu).

Þetta gerir Gunnlaugur með því að vitna í kenningar Hermanns Pálssonar og Helga Guðmundssonar um samsvaranir milli örnefna í Ljóðhúsum (Lewis) á Suðureyjun og örnefna hér á suðvesturhorninu. Hermann Pálsson benti á þessa samsvörun 1955 og Helgi Guðmundsson hefur margítrekað hana. (Svo minnir mig að Guðbrandur gamli Vigfússon hafi eitthvað orðað hana líka en ég er ekki viss.) Magne Oftedal birti kort yfir norræn örnefni í Ljóðhúsum í tímaritsgrein 1954. Þótt Gunnlaugur vitni í Hermann og Helga gætir hann þess að nefna ekki grundvöll kenninga þeirra, sem byggir á samsvarandi röð örnefna.

Rúsínan í pylsuendanum er kortið á s. 173 þar sem sýndar eru samsvaranir norrænna örnefna á Ljóðhúsum og örnefna á svæðinu frá Melasveit til Leirvogsár í Mosfellssveit. Gunnlaugur vakti sérstaka athygli á kortinu í opnuviðtali í Skessuhorninu ekki alls fyrir löngu og mátti nánast af því viðtali skilja að Gunnlaugur hefði sjálfur uppgötvað þessar samsvaranir; þannig virðist hann hafa kynnt efnið fyrir bæjarstjórnarmönnum hér á Akranesi ef marka má orð Guðmundar Páls Jónssonar á bæjarstjórnarfundi. (þau orð eru rakin í Sögu Sögu Akraness XI en einnig má hlusta á bæjarstjórnarfund 13. október 2009, umræðuna á 45.-55. mínútu hljóðupptökunnar.)

Kortið er mynd 268 og um hana segir í Mynda- og myndritaskrá, s. 567: „Ljóðhús í Suðureyjum og Akranes - Kjalarnes (örnefnakort). Gunnlaugur Haraldsson / Hans H. Hansen. Heimild: Oftedal, Magne, 1954.“ Gunnlaugur nefnir ekki einu orði að svona kort, sem sýndi samsvörun örnefna á Lewis og á svæðinu frá Melasveit suður í Mosfellssveit (e.t.v. hafa þó örlítið færri örnefni verið merkt inn á það og örugglega ekki örnefni á sömu stöðum og Gunnlaugur merkir á sitt kort) hékk uppi á Landafundasýningu í Þjóðmenningarhúsinu frá árinu 2000 fram yfir mitt ár 2002. Það kort var unnið af Gísla Sigurðssyni íslenskufræðingi og sýndi hina áhugaverðu örnefnaröð sem finna má bæði á Lewis og aðallega í Kjós og Kjalarnesi. Ég man ekki nægilega vel eftir því korti (sem ætla má að flestir skólakrakkar og margir fullorðnir á Skaganum hafi barið augum á sínum tíma) til að staðhæfa að eftirlíking Gunnlaugs sé ritþjófnaður. En ótvíræður hugmyndastuldur er þetta úr því Gísla er að engu getið í sambandi við kortið.

Fræðimenn sem hafa fjallað um þessa örnefnasamsvörun hafa vakið athygli á að örnefnin eru í sömu röð (í u.þ.b. 20 km loftlínu) frá Melum og yfir Kjalarnes og Kjós, annars vegar, og hins vegar í Ljóðhúsum, og talið hugsanlegt að þetta tengist Helga bjólan, landnámsmanni á Kjalarnesi, sem var sonur Ketils flatnefs en sæmilega öruggt er talið að Ketill hafi dvalið á Suðureyjum (ýmist herma heimildir að hann hafi ríkt þar í umboði Haralds hárfagra eða hann hafi flúið til Suðureyja undan ofríki Haralds hárfagra, óvíst er hins vegar hvort Helgi bjólan bjó sjálfur einhvern tíma á Suðureyjum). Skv. þessari hugsanlegu kenningu sem varðar örnefni á Kjalarnesi og í Kjós er einungis Akranesinni því kenningin byggir á samsvarandi röð örnefnanna en ekki hinum algengu örnefnum sjálfum (þau finnast víða, t.d. á Hjaltlandi, í Skotlandi og í Noregi). Kort Gunnlaugs sýnir því ekki nokkurn skapaðan hlut sem ekki var löngu vitað um og merking algengu örnefnanna inn á landnám Bresasona er í engu samræmi við örnefnakenningu Hermanns Pálssonar og Helga Guðmundssonar því þau eru ekki í samsvörunarröðinni sem er grundvöllur kenningarinnar, fyrir utan þetta eina örnefni, „Akranes“. Að draga þá ályktun af þessu korti að Bresasynir hafi verið frá Ljóðhúsum er algert rugl, eiginlega samsvarandi því og að draga þá ályktun af örnefnunum „Subway“ og „Kentucky Fried“ í Mosfellsbæ að íbúar þar séu komnir af amerískum landnemum.

Kýr eða kúgildiMögulegan annan hugmyndastuld má finna á s. 211, í þetta sinn frá sjálfri mér.

Sumrin 2003-2004 vann ég vef sem heitir Fornar sögur og fólkið í landinu. Daglegt líf á þjóðveldisöld. Einn undirkafli vefjarins fjallar um verðgildi, sem löngum hefur vafist fyrir nemendum mínum og þess vegna ákvað ég að sýna verðgildi þessa tíma á myndrænan hátt, sjá undirsíðu af Verðlag“. Mér datt fyrst í hug hve merkilegt það væri að Gunnlaugur Haraldsson hefði fengið akkúrat sömu hugmynd, sem sjá má á mynd 305, „Kúgildi. Gunnlaugur Haraldsson/Egill Baldursson“ segir í myndaskrá. Á myndinni er: Kýr (ljósmynd) = 6 ær (ljósmynd) =20 kubbar (brúnleit teikning, sem á líklega að tákna 120 álnir vöruvaðmáls) = síldarbeinsmynstur (bláleit teikning sem á að sýna 240 fiska í stafla en það er ekki augljóst). Svo áttaði ég mig á því að þetta er sama kýrin og á myndinni sem ég nota á annarri síðu, þar hreinsaða og svarthvíta en Gunnlaugur og Egill hafa ekki haft fyrir neinni myndvinnslu. Hér til hliðar er upphaflega myndin, sú sem er fremst í myndrænu dæmi Gunnlaugs. Kindurnar eru líka teknar af vefnum, kannski úr frétt Sunnlenska fréttablaðsins en ég átta mig ekki á hvaðan hræðilega ljótu teikningarnar eru ættaðar. Ég man sjálf ekki hvaðan myndin af kúnni kemur.

Þannig að sé þetta ekki stuldur þá hefur Gunnlaugur Haraldsson óvart fengið sömu hugmynd og ég um myndræna útskýringu verðgildis á þjóðveldisöld og síðan fyrir tilviljun valið nákvæmlega sömu myndina til að tákna kúgildi.

Eftir að hafa tileinkað sér hugmyndir Hermanns Pálssonar og Helga Guðmundssonar og kastað eigu sinni á kortahugmynd Gísla Sigurðssonar og rangtúlkað hvort tveggja setur Gunnlaugur nú allt sitt traust á Hauksbók Landnámu til þess að geta teiknað upp mynd af niðjum Ketils Bresasonar (s. 188, myntugræn ættartafla, nánast sama tafla og er í bók Jóns Böðvarssonar s. 95 og eflaust víðar) þar sem Eðna Ketilsdóttir og sonur hennar Ásólfur alskik fá inni. Á hinn bóginn segist Gunnlaugur ekki trúa Hauksbók um Eðnu og Ásólf enda viðtekin skoðun fræðimanna: „Allt mun þetta vera tilbúningur Hauks“ (s. 188). Samt er haldið í Eðnu og Ásólf og slegið úr og í:

Hafa þær [eiginkonur Bresasona] þó að líkindum verið gelískar, eins og Hauksbók gefur vísbendingu um með nöfnum þriggja barna Bresasona, þ.e. Kjölvarar Þorðmóðsdóttur, Eðnu (ír. Eithne eða Ethne) og Gufa [svo] (ír. Guba, Gubán) Ketilsbarna. (s. 184.)

Sturlubók getur Eðnu ekki og sýnir það, hversu Haukur var fróðari öðrum Landnámuhöfundum um gelíska landnema. (s. 188.)

Eðna Ketilsdóttir var eins og fyrr segir gift kona á Írlandi áður en faðir hennar ákvað að flytjast búferlum til Íslands, og varð honum því ekki samferða. Eiginmaður hennar var sagður írskur að kyni […] en þeirra hjóna er hvergi getið í öðrum miðaldaritum en í Hauksbók. Flest bendir til þess, að tilvist þeirra beggja sé lærður samsetningur Hauks. (s. 188.) 

Þetta vesen með tilvist Eðnu Ketilsdóttur og hennar sonar, Ásólfs, kemur ekki í veg fyrir að Ásólfur alskik fái veglega umfjöllun og er texti um hann myndskreyttur með glansmynd af írska munkinum Aidan, fyrsta ábóta á Lindisfarne (d. 651). Á sömu síðu er glansmynd af dökkleitum heilögum Finan sem tók við af Aidan á Lindisfarne en myndatextinn fjallar að stórum hluta um Jörund Ketilsson hinn kristna. Á síðu 255 er Ásólfur orðinn fyrsti íslenski dýrlingurinn:

Jafn líklegt er [og að Jörundur hafi gerst einsetumaður og munkur], að Ásólfur alskik systursonur hans hafi gert tilraun til hins sama á Innra-Hólmi svo framarlega sem hann hafi verið annað en þjóðsagnapersóna. Verður hann að teljast fyrsti innlendi dýrlingurinn, en helgi hans mun hafa horfið smám saman þegar upp kom helgi biskupanna Þorláks Þórhallssonar og Jóns Ögmundssonar.
[Í lok málsgreinarinnar vísar Gunnlaugur í Björn Þorsteinsson, 1980, s. 109, sem sjálfsagt hefur haldið þessu fram í Íslenzkri miðaldasögu.] 

Nú er svo komið rökfærslu að Bresasynir eru af norsku konungakyni, samt örugglega fæddir og uppaldir í Suðureyjum, örugglega kvæntir gelískum konum og út af öðrum er kominn fyrsti íslenski dýrlingurinn. Næsta skref er að gera þá að aðalmönnunum á svæðinu og losna við þá Bekan og Kalman, sem fengu skika úr landnámi þeirra. Kalman er ekki svo mikið vandamál því hann flutti hvort eð er annað og Gunnlaugur gerir sér lítinn mat úr honum. Aftur á móti verður Bekan stærra vandamál og næstu tilvitnanir eru líka gott dæmi um óhóflegar endurtekningar í bókinni.

Í fyrsta lagi mætti stroka Bekan út, halda því fram að hann hefði aldrei verið til:

Hennar [jarðarinnar Bekansstaða] getur í Landnámabók sem bústaðar Bekans og er nálgægt miðju þess landsvæðis, sem sagnaritarar 13. aldar áætluðu að hann hefði fengið til umráða úr landnámi Ketils Bresasonar, fyrir norðan Berjadalsá. Þótt fullvíst megi telja að sú frásögn sé hreinn tilbúningur þarf ekki að efast um að bæjarnafnið sjálft er ævafornt og líklega frá öndverðri landnámstíð
[…]. (s. 127). 

Á hinn bóginn er Bekan írskt nafn og styrkir gelískan uppruna Bresasona (því miður ekki suðureyskan þótt sagnaritari gefi það í skyn). Þetta verður Bekan til lífs:

Þá eru í Sturlubók og Hauksbók nær samhljóða frásagnir af Bekan nokkrum „er nam land inn frá Berjadalsá til Aurriðaár og bjó á Bekansstöðum í landnámi Ketils“ (vísað í Íslenzk fornrit I, s. 67). Sturlubók nafngreinir hann raunar Beigan, en réttari nafnmyndin er eflaust Bekan (á írsku Beccán). Þótt uppruna Bekans sé ekki getið leikur naumast vafi á, að hann var annað hvort írskur eða suðureyskur. Athyglisvert er samt, að þessa skuli ekki getið í Hauksbók, jafn augljóslega sem höfundur hennar lagði sig fram um að tilgreina uppruna allra vestrænna manna. (s. 174. 

Fyrst nauðsynlegt er að halda í Bekan er rétt að hamra enn einu sinni á gelískum rótum hans en gera hann að nokkurs konar undir-landnámsmanni, gefa jafnframt til öryggis í skyn að kannski hafi hann samt ekki verið til:

Þess er fyrr getið, að skv. Sturlubók og Hauksbók „nam“ Bekan allt land í landnámi Ketils frá Berjadalsá að Urriðaá og bjó á Bekansstöðum. […] Engin gerð Landnámabókar getur um uppruna Bekans, en tvímælalaust er mannsnafnið af írskum eða gelískum rótum Mannsnafnið Beccán var algengt á Írlandi til forna. Ekki verður vefengt að einhver Bekan eða Beccán hafi verið meðal þeirra manna, sem þáðu jarðnæði af Katli. Sá maður tók sér væntanlega snemma bólfestu þar sem síðar hét á Bekansstöðum. Hins vegar er afar ósennilegt, að sá maður hafi verið nafngreindur í frumgerð Landnámu. Bekan getur því varla hafa talist landnámsmaður í eiginlegri merkingu þess orðs, þar sem hann helgaði sér ekki land með sama rétti og þeir menn sem höfundar Frum-Landnámu leituðust við að skrásetja. Um Bekan gátu hafa geymst munnmæli fram á 13. öld eða nafn hans staðið í rituðum ábúendaskrám [svo]. Líklega höfðu sagnaritarar þó eingöngu bæjarnafnið Bekansstaði við að styðjast þegar rekja þurfti landnámssögu Skilmannahrepps. Frásögnina af „landnámi“ Bekans ber því að skoða sem dæmigerða örnefnaskýringu og lærðan tilbúning sagnaritara. Með því að eigna Bekani allt land milli Berjadalsár og Urriðaár (Djúpár) fékkst einfaldlega prýðileg skýring á „landnámi“ þess hluta Skilmannahrepps. (s. 187)

Ég reikna með að hinar fornu rituðu ábúendaskrár frá því um 1200 eða fyrr hljóti að vera í vörslu sagnaritara því ég hef aldrei heyrt um tilvist þeirra áður. Líklega gleðja þessar upplýsingar fræðimenn sem hingað til hafa staðið á því fastar en fótunum að einungis örfá íslensk rit séu þekkt fyrir 1200 og ekkert þeirra er ábúendaskrá (þótt auðvitað sé mögulegt að telja Íslendingabók Ara fróða eða Landnámu sem vísi að ábúendaskrá - en miðað við umfjöllun Gunnlaugs til þessa er hann væntanlega að meina önnur rit, óuppgötvuð af öðrum). 

Annað í kaflanum um landnám og íbúa svæðisins fram undir 1300 er nokkuð í sama dúr, sífelldar endurtekningar, slegið úr og í, til skiptis tekið mark á Hauksbók, Sturlubók eða Melabók Landnámu eftir því hvað hentar sagnararitara hverju sinni o.s.fr. Á endanum er hann búinn að færa landnám Bresasona aftur til 880-90 í stað 900 (með afar hæpnum rökum og algeru skilningsleysi á hvernig tími líður í Íslendingasögunum, þær eru nefnilega ekki sagðar eins og ársrit eða annáll), hefur látið Ketil setjast að í Holti, sem seinna hét Jörundarholt eða í Görðum (með tilvísun í Melabók og þess að setningabútur hafi fallið niður í Sturlubók, Hauksbók ekki talin með hér því það myndi rústa tilgátunni) og gert þá bræður Bresasyni bæði kristna og kirkjurækna:

Mjög líklega reistu hinir kristnu frumbyggjar Ketill og Jörundur sér kirkju eða lítið guðshús í námunda við landnámsbæinn og hlutu þar jafnvel sjálfir leg um síðir. (s. 221.)

Bresasynir reisa kirkjur á landnámssetrum sínum og helga þær heilögum Kólumkilla (St. Columba), einum dáðasta dýrlingi á Suðureyjum. (s. 267.) 

Við þetta síðasttalda mætti gera þá athugasemd að bæði Hauksbók og Sturlubók Landnámu telja upp sex landnámsmenn sem voru þegar skírðir við komuna til landsins, þeirra á meðal Jörund Ketilsson. Konum bregður lítt fyrir í sagnaritun Gunnlaugs en er ómögulegt að ímynda sér að hin meinta gelíska mamma Jörundar hafi kannski kristnað hann?

Engar heimildir eru fyrir því að Bresasynir hafi verið kristnir og náttúrlega ekki heldur fyrir því að þeir hafi látið reisa kirkjur. Skv. Sturlubók Landnámu var kirkjan á Innra-Hómi (bæ Þormóðs) reist eftir dauða Ásólfs alskik og er ómögulegt að vita hversu löngu seinna það var. (ÍF I, s. 64.)  Skv. Hauksbók var kirkjan reist af Halldóri, syni Illuga rauða, eftir lát Ásólfs, og helguð Kolumkilla. Engar öruggar heimildir eru um kirkju í Görðum fyrr en um 1200. Sú kirkja var helguð Lárentíusi og Sebastian.
  

    

Hér hefur því sagnaritari bæjarins spunnið ótrúlegan þráð úr allra handa heimildum og gert þá áður lítt þekktu Bresasyni að glæsimennum mestum! Þeir eru orðnir af norsku konungakyni, fæddir og uppvaxnir í Ljóðhúsum á Suðureyjum, meiriháttar landnámsmenn í fjórðungnum, kristnir kirkjubyggjendur og annar er meira að segja afi fyrsta íslenska dýrlingsins! Það munar um minna!

Nú er ekki svo að ég hafi neitt á móti sögulegum skáldskap - en ég kann betur við að hann sé þokkalega læsilegur.

 


  

Er ekki úr vegi að birta í blálokin lungann úr nýjustu fundargerð ritnefndar um sögu Akraness, frá 18. maí sl.:

Þeir Kristján og Gunnlaugur kynntu hið nýja ritverk. Ljóst er að þetta verk er glæsilegt og efnistök og allur frágangur er til fyrirmyndar.Eftirfarandi samþykkt var gerð.
 Ritnefnd fer þess á leit við bæjarráð Akraness að gengið veriði til samninga við söguritara um að búa til prentunar fyrirliggjandi handrit sett að þriðja bindi Sögu Akraness. Þ.e. tímabilið 1801 - 1900. Nefndin telur nauðsynlegt að taka þessa ákvörðun fljótt í ljósi aðstæðna höfundar og væntingar þeirra sem keypt hafa fyrstu bindin. 

Má og upplýsa lesendur þessarar færslu um að bæjarráð tók strax jákvætt í erindið, þann 26.5. 2011 (sjá 5. lið fundargerðar sem krækt er í).
 
 
 

Ummæli (23) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness