Færslur frá 6. júní 2011

6. júní 2011

Ljóst er að hér er að verða til glæsilegt rit

Hér segir af því  hvernig Gunnlaugur Haraldsson fékk 7,8 milljónir greiddar frá Akraneskaupstað árið 2008 (upphæð sem mér gengur illa að koma heim og saman), margkynnti stöðu verksins og sýndi Ritnefndinni glærur en skilaði einungis 4. kafla I. bindis til Ritnefndarinnar. Skv. Gunnlaugi var II. bindið (1700-1850) nánast fullsamið þetta árið en Ritnefndin virðist ekki hafa barið það efni augum árið 2008. Einnig segir hvernig vonin um útgefna bók glæddist hjá Akraneskaupsstað seint á árinu 2007 og vonarneistinn blakti langt fram á haustið 2008. Segir og frá samningum við undirverktaka.

Titill færslunnar er bein tilvitnun í bókun ritnefndar um sögu Akraness 25. júní 2008. (Því miður er eitthvert óstand á vefþjóni heimasíðunnar minnar svo menn verða að sýna eilitla biðlund eftir töflum unnum úr fundargerðum, sem vísað er í úr flestum færslum um sögu Sögu Akraness, og myndskreytingum.)

Saga Sögu Akraness X
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …
Saga Sögu Akraness VII, Hvers virði saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig
Saga Sögu Akraness VIII, Ja sko mér er alveg sama og mætti sleppa þessu bókaveseni allveg
Saga Sögu Akraness IX, … einvörðungu markmið þessa samnings að framlengja verktíma, skilgreina verklok og kveða á um greiðslur til sagnaritara

Fjórðungsdómur um 18 marka bók (enn ótölusett færsla en verður komið fyrir í samhengi síðar, sem og fjallað um viðbrögð bæjarstjóra, Ritnefndarinnar og sagnaritara við þeirri færslu). 

 
 

Upprifjun

Síðasta færsla um sögu Sögu Akraness fjallaði um hvernig Akraneskaupstaður gerði nýjan grunnsamning við Gunnlaug Haraldsson (undirritaður þann 30. nóvember 2006) en Gunnlaugur stóðst ekki skil á I. bindi skv. samningi og stöðvuðust því greiðslur til hans í lok júní 2007. Bærinn gerði samt viðaukasamning við Gunnlaug þann 27. október 2007 um að Gunnlaugur tæki að sér aukna vinnu, þ.e.a.s. hefði yfirumsjón með grafískri hönnun, umbroti, vali og söfnun myndefnis o.fl. svo I. bindið (sem hann hafði sem sé ekki staðið við að skila) yrði tilbúið í prentsmiðju. Skv. viðaukasamningnum voru Gunnlaugi tryggð samanlögð tveggja mánaða laun, skipt í þrennt (greidd 1. nóv. og 1. des. 2007 og síðasta greiðslan yrði þegar I. bindi yrði skilað).

Sól og AkrafjallSeint á árinu 2007 töldu menn sig sjá að fyrsta bindið færi loks að verða tilbúið. I. bindi náði nú yfir tímann frá landnámi til 1700 og er því væntanlega annað þeirra rita sem tókst að gefa út í maí 2011.

Ritnefndin hafði staðfest skil á I. bindi í nóv. 2001 (en þá náði það frá 1700-1850), hafði fengið 21. kaflann sem vantaði víst inn í þetta bindi í aprílbyrjun 2003, hafði fallist á hugmynd Gunnlaugs um að breyta I. bindinu þannig að skrifaður yrði stuttur forsögukafli um tímabilið landnám til 1700, sem síðan bólgnaði út svo I. bindið varð að sögu landnáms-1700. Í byrjun október 2007 hafði ritnefndin fengið afhenta annan kafla, um örnefni og búsetuminjar í landnámi Bresasona (91 síðu) og þriðja kafla, frá landnámi til loka 13. aldar (135 síður). En enn vantaði fyrsta kaflann, um jarðsögu, og síðasta kaflann, um tímabilið 1300-1700.

Ritnefndin fylltist samt bjartsýni og ráðamenn kaupstaðarins urðu bjartsýnir líka: Sjá t.d. frétt SkessuhornsinsSaga Akraness væntanleg“ frá 9. nóvember 2007. Loksins var kannski bráðum hægt að senda eitthvað í prentsmiðju! Svo það var drifið í gera samninga við undirverktaka.
 
 

Samningar um umbrot og myndvinnslu

Akraneskaupstaður og Egill Baldursson gerðu með sér „Samkomulag um gerð hönnun, umbrot og grafíska vinnu vegna sögu Akraness, I. bindis.. [svo]“ og undirrituðu 10. nóvember 2007. Í því samkomulagi kom fram að Egill skyldi útbúa bókina til prentunar í nánu samstarfi við Gunnlaug Haraldsson. Innifalið var hönnun bókar, vinnsla á grafísku efni höfundar, umbrot og gerð skjals (700 s.) til prentsmiðju.

„Umsjónarmaður verkkaupa er Gunnlaugur Haraldsson söguritari og mun hann hafa umsjón með framvindu verksins og staðfesta framvindu þess, m.a. með áritun reikninga til greiðslu.“ (4. gr.)

Heildarþóknun fyrir verkið var 2.486.000 kr. og var allur kostnaður við verkið innifalinn í þeirri upphæð. (2. gr.) Líklega hefur þessi upphæð verið greidd árið 2007.
 

Sömu aðilar undirrituðu „VIÐBÓTAR SAMKOMULAG“ þann 25. september 2008, „sem helgast af mun meira umfangi og flóknara verki en lagt var til grundvallar upphaflegu samkomulagi á milli aðila“. Þá samþykkti Akraneskaupstaður að „greiða Agli Baldurssyni 700 kr. á mynd, án vsk., vegna myndvinnslu vegna ljósmynda sem verða í bókinni“ og að þóknun fyrir umbrot og gerð pdf-skjala sem send yrðu til prentsmiðju yrðu 3.360 kr. fyrir hverja síðu í bókinni.1
 
 

Samningur um kortagerð

Þann 1. nóvember 2007 undirrituðu Akraneskaupstaður og Fixlanda ehf (Hans H. Hansen) „Samkomulag um gerð korta vegna sögu Akraness“. Í þvi samkomulagi segir m.a.:

  • Fixlanda útbýr kortin í endanlega mynd eftir fyrirsögn GH svo þau verðir tilbúin til prentunar. (1. gr.)
  • Fjöldi korta, stærð, frágangur og efnistök eru ákveðin af höfundi Sögu Akraness (GH) (2.gr.) […]
  • Umsjónarmaður verkkaupa er Gunnlaugur Haraldsson söguritari og mun hann hafa umsjón með framvindu verksins og staðfesta framvindu verksins, m.a. með áritun reikninga. (4. gr.)
  • Áætlaður verktími er 1. nóvember 2007 - 31. desember 2007. (5. gr.)
  • Heildarþóknun fyrir verkið er 3.360.000 kr. án vsk. (3. gr.) en að auki skal Akraneskaupstaður greiða kostnað við viðbótargögn, birtingargjöld vegna grunnkorta fenginna frá Landmælingum Íslands o.fl. sem er áætlað 200.000 kr. (7. gr.)
  • Akraneskaupstaður verður eigandi að kortunum og hefur að fullu ráðstöfunarrétt og birtingarrétt á þeim. (8. gr.)

Í fylgiskjölum kemur fram að gert er ráð fyrir vinnu við kort sem tengist umfjöllun allt til ársins 1850.

Óljóst er hvenær þetta var greitt. Varla getur nema brot af þessu verið innifalið í greiðslum 2007 (sé gert ráð fyrir að um 2,5 milljónir hafi farið í að greiða Agli Baldurssyni og annar kostnaður bókfærður það ár var alls 3,2 milljónir). Annar kostnaður árið 2008 var rúmlega 5 milljónir en í þeirri upphæð hljóta einnig að felast greiðslur fyrir prófarkalestur og einhverjar greiðslur til Egils Baldurssonar. Ætli megi ekki ætla að Fixlanda ehf hafi fengið greitt árið 2008 og hugsanlega einnig árið 2010, jafnvel 2011.
 
 

Pólitískar hræringar í bænum

Á miðju kosningatímabilinu, í maí 2008, gekk Karen Jónsdóttir, fulltrúi óháðra á F-lista, í Sjálfstæðisflokkinn. (Þetta tengist úlfúð sem kom upp þegar flokksbróðir hennar, Magnús Þór Hafsteinsson, var á móti því að Akraneskaupstaður veitti palestínskum ekkjum og börnum þeirra heimili og aðstoð á Akranesi en kemur annars ekki þessari sögu við og verður því ekki rakið nánar.) Við þessi flokksskipti náði Sjálfstæðisflokkurinn hreinum meirihluta í bænum. Fyrir leikendur í sögu Sögu Akraness hafði þetta fremur lítil áhrif, einna helst þessi; Guðmundur Páll Jónsson hvarf úr bæjarráði (en sat áfram í bæjarstjórn), í hans stað kom Rún Halldórsdóttir; Karen var áfram formaður bæjarráðs; Gunnar Sigurðsson var áfram forseti bæjarstjórnar, Sveinn Kristinsson sat áfram í bæjarstjórn (þessir höfðu verið í bæjarstjórn árum saman, sem og Guðmundur Páll, ýmist í meiri-eða minnihluta enda hver í sínum flokknum) o.s.fr.

Þótt kosið væri upp á nýtt í ritnefnd um sögu Akraness voru sömu menn kosnir í hana, nema Jósef H. Þorgeirsson tók sæti Magnúsar Þórs Hafsteinssonar. Eftir lát Jósefs síðla ársins 2008 tók Guðjón Guðmundsson sæti hans. Jósef hafði setið áður í ritnefnd um sögu Akraness en Guðjón kom nýr inn í nefndina.
 
 

Framgangur verksins

F�flar � túniÞótt Gunnlaugur Haraldsson hefði ekki enn uppfyllt fyrri helming nýja grunnsamningsins frá 30. nóvember 2006, þ.e.a.s hann var ekki búinn að skila fyrsta kaflanum (jarðsöguhlutanum) í fyrsta bindið og ekki heldur síðasta kaflanum (um tímabilið 1300-1700), skv. fundargerðum Ritnefndarinnar, virðast greiðslur vegna loka samningar I. bindis og frágangs II. bindis hafa byrjað að berast árið 2008.2 Jarðsögukaflinn í I. bindinu var enn ófrágenginn 2. apríl 2008 og er raunar illmögulegt að skilja annað en hann sé sá 1. kafli sem Ritnefndin fór loks yfir 5. mars 2009. Lokakaflanum í I. bindi, þ.e. efni um 1300-1700, skilaði hann Ritnefndinni 8. desember 2008. (Það bindi átti, skv. viðaukasamkomulaginu að vera tilbúið til prentunar 1. mars 2008.)

Fram eftir árinu 2008 er Gunnlaugur að útlista verkstöðu o.þ.h. fyrir Ritnefndinni og sýna henni hvernig einstakar blaðsíður í I. bindi komi til með að líta út. Til þess notar hann t.d. glærur. Ritnefndin er ákaflega hrifin. Að vísu skilar hann engu á árinu nema 4. kafla I. bindis (kaflanum um tímabilið 1300-1700) og að vísu verður fljótlega ljóst að verkið tefst en Ritnefndin er æðrulaus sem fyrr. Bókað er: Úr því sem komið er geta verklok ekki orðið fyrr en í lok sumars í ár þann 2. apríl 2008 og í árslok, þann 12. desember, er bókað: Verkið hefur tafist vegna annríkis undirverktaka. Sjá töflu unna upp úr fundargerðum Ritnefndarinnar árið 2008.

Skv. ítarlegu minnisblaði Gunnlaugs um stöðuna, sem hann lagði fram 2. apríl 2008, er II. bindið langt komið og staða einstakra kafla þannig:

  • 5. kafli 1701-1800 (390 s.) bíður prentvinnslu
  • 6. kafli 1800-1850 (215 s.) bíður prentvinnslu
  • 7. kafli Samantekt (4-5 s.) ósamið.

Aldrei kemur fram í fundargerðum Ritnefndarinnar að nefndarmenn hafi fengið þessa kafla annars bindis til yfirlestrar, jafnvel þótt leitað sé fram til ársins 2011. Það er erfitt að meta hvort Ritnefndin lét duga árið 2008 að skoða sýnishorn á glærum (af köflum í I. bindi) eða hvort ritnefndarmenn fóru einhvern tíma yfir II. bindið án þess að um þá iðju væri bókaður stafur. (Í útgáfunni 2011 var II. bindið orðið að tímabilinu 1700-1800 en var árið 2008 hugsað sem 1700-1850). Þessu geta væntanlega bara sagnaritari og Ritnefndarmenn svarað og væri óskandi að þeir gerðu það, t.d. í athugasemd við þessa færslu.

Mögulega hefur annríki undirverktaka í umbroti og prófarkalestri að einhverju leyti stafað af því að kröfur um flottara útlit hafi verið settar fram, sbr. viðaukasamning við Egil Baldursson umbrotsmann, sem rakinn var hér að ofan.
 
 

Greiðslur til Gunnlaugs Haraldssonar og annar kostnaður Akraneskaupstaðar 2008

Árið 2008 greiddi Akraneskaupstaður Gunnlaugi Haraldssyni tæplega 7,8 milljónir. Annar kostnaður var rúmlega 5 milljónir, laun Ritnefndarinnar tæp 300.000 kr. Alls var kostnaður bæjarins af sögurituninni þetta árið 13 milljónir og rúm 200 þúsund, sem á núvirði eru rétt rúmar 16 milljónir.3

Það er dálítið erfitt að sjá hvernig upphæðin til Gunnlaugs skiptist, miðað við mínar upplýsingar. Segjum sem svo að síðari hluti grunnsamningsins (Samningur. Saga Akraness, undirritaður 30. nóv. 2006) hafi byrjað að virka, þ.e. að Gunnlaugur hafi fengið greiðslur fyrir II. bindið í 9 mánuði (upphaflega 625.000 kr. á mánuði en einhverjar verðbætur hljóta að hafa bæst við) væru það 5.225.000 kr. + einhverjar verðbætur. Að auki má ætla að hann hafi fengið síðustu greiðsluna vegna viðaukasamningsins á þeim forsendum að I. bindi hefði verið skilað í desember 2008 (þótt svo virðist sem enn hafi vantað framan á það jarðsögukaflann). Sú upphæð var 412.000 kr. með einhverjum verðbótum. Inni í greiðslum til Gunnlaugs gætu líka verið endurgreiðslur ferðakostnaðar vegna ferða milli Reykjavíkur og Akraness. Að öðru leyti átti framlag Akraneskaupstaðar að takmarkast við útlagðan kostnað sem sérstaklega er stofnað til og samþykktur á grundvelli ákvæða 1. gr. samningsins (3. gr.)  en í fyrstu greininni segir: Ekki skal stofnað til kostnaðar eða samningar gerðir nema ritnefnd komi þar að og að bæjaryfirvöld séu upplýst um áætlaðan kostnað og samþykki að greiða hann.

Sól á SkaganumEkkert er bókað í fundargerðum Ritnefndarinnar um neinn aukakostnað nema 2. apríl 2008 en þá hyggst formaður nefndarinnar ræða um ráðningu tveggja prófarkalesara, sem Gunnlaugur Haraldsson leggur til, við bæjaryfirvöld. Gæti greiðsla fyrir prófarkalestur verið skýringin á 2,5 milljónunum sem bæjarráð samþykkti þann 29.5. 2008?3 Í fljótu bragði sýnist mér það ansi rausnarlega borgaður prófarkalestur en engin önnur skýring fæst á fjárbeiðninni úr fundargerðum Ritnefndarinnar, hvað þá að einhver skýring fylgi samþykkt bæjarráðs. Á fundum bæjarráðs og bæjarstjórnar 2008 er ekki getið um neinn aukakostnað annan en þann sem nefndur hefur verið í neðanmálsgreinum. En þær samanlagt fimm milljónir sem Akranesbær greiddi í annan kostnað árið 2008 hljóta að vera einhverjar greiðslur til Fixlanda, til Egils Baldurssonar og til prófarkalesara.

Ég finn ekkert sem skýrir fyrir hvað Gunnlaugur fékk tæpar 7,8 milljónir því ég get ekki séð að hann hafi getað fengið nema kannski vel rúmar 6 milljónir í launagreiðslur (áætluð tala um ágiskaðar verðbætur á 5.225.000 + 412.000 = 5.637.000 kr. frá 2006) og hann hefur þurft að aka ansi oft milli Reykjavíkur og Akraness til að skýra þá einu og hálfu milljón sem virðist bera á milli sem endurgreiddan aksturskostnað.

Enn dularfyllra verður málið þegar rúmu 7,7 milljónirnar sem hann fékk árið 2009 eru hafðar í huga.2 En umfjöllun um söguritun það árið og skyndilegt andóf innan bæjarstjórnar, sem vakti athygli í fjölmiðlum, bíður næstu færslu.
 
 
 
  
1 Á fundi bæjarráðs 11.9. 2008 er bókað:
„22. Samningur við Egil Baldursson vegna Sögu Akraness.
Bæjarráð fellst á samningsupphæðina og vísar fjármögnun til endurskoðunar fjárhagsáætlunar 2008.“Í bæjarráði sátu Karen Jónsdóttir, formaður, Gunnar Sigurðsson og Rún Halldórsdóttir. Þennan fund sátu einnig Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri, og Jón Pálmi Pálsson, bæjarritari.
 
 2 Ég sendi fyrirspurn til Ragnheiðar Þórðardóttur,  þjónustu- og upplýsingarstjóra Akraneskaupstaðar, í tölvupósti á föstudaginn (3. júní), um hvort vantaði inn í þau gögn sem ég fékk frá Akraneskaupstað þann 4. maí sl., þ.e. hvort gæti verið að vantaði einn samning við Gunnlaug. Ég á nefnilega bágt með að skilja hvernig hann gat fengið greiddar rúmar 7,7 milljónir bæði árið 2008 og 2009, miðað við þau gögn sem ég hef undir höndum. Í svari Ragnheiðar, sem barst í dag (6. júní), kemur fram að erindinu sé vísað til bæjarritara. Bæjarritari er í sumarfríi til 30. júní. Ég skrifaði Ragnheiði aftur og benti á Upplýsingastefnu Akraneskaupstaðar og Upplýsingalög, þar sem kemur fram að Akranesbær hefur að hámarki 20 daga frest til að svara mér. Væntanlega getur einhver flett í gegnum möppuna á skrifstofu bæjarritara fljótlega og svarað þessu erindi og Ragnheiður ætlar víst að reyna að koma því í kring, skv. bréfi nú í eftirmiddag. Ég verð því sem stendur að túlka gögnin þannig að árið 2008 hafi Gunnlaugur fengið greitt skv. samningi frá  30. nóvember 2006 og viðaukasamningi frá 27. október 2007 þar til annað kemur í ljós. Það stendur að vísu út af u.þ.b. ein og hálf milljón, sem er óskýrð, og náttúrlega óútskýrð 4 milljóna skuld fyrir vinnu árið 2009 … en þetta skýrist væntanlega allt þegar Akraneskaupstaður hefur tíma til að svara erindi mínu, vonandi í tæka tíð áður en ég klára næstu færslu, um árið 2009. Ég mun að sjálfsögðu leiðrétta þessa færslu séu skýringar á greiðslum til Gunnlaugs aðrar en ég get mér til núna.
 
 

3 Á fundi bæjarráðs 29.5. 2008 er bókað:
„1. Viðræður við Jón Gunnlaugsson, formann sögunefndar Akraness.
Bæjarráð samþykkir að verja viðbótarfjárveitingu að fjárhæð 2,5 millj. króna  til sögu Akraness vegna útgáfu I bindis.  Formanni sögunefndar og bæjarritara falið að hafa umsjón með útgjöldunum í samræmi við umræður á fundinum.  Fjárveitingu vísað til endurskoðunar fjárhagsáætlunar 2008.“

Sama fólk og nefnt var í 1. neðanmálsgrein sat fundinn.
 
 

4 Upplýsingar um greiðslur og uppreikning á núvirði eru fengnar frá Akraneskaupstað þann 4. maí 2011. Sama gildir um þá samninga sem nefndir hafa verið til þessa.
 
 

Ummæli (0) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness