Færslur frá 9. júní 2011

9. júní 2011

glæsilegasta byggðarit og rit um sögu byggðarlags sem búið hefur verið til

Seint árið 2009 dró blikur á loft og vinsamlegt andrúmsloftið sem hafði umlukið sagnaritarann og Ritnefndina með ljúfu samþykki bæjarráða og bæjarstjórna til þessa varð skyndilega lævi blandið. Verður gerð grein fyrir þessu í færslunni. Þrátt fyrir þetta skyndilega mótlæti náði Gunnlaugur Haraldsson að skrifa undir enn einn samninginn við Akraneskaupstað og hafði hugsanlega 7,7 milljónir upp úr krafsinu þetta árið.

Titill færslunnar er bein tilvitnun í orð Sveins Kristinssonar á bæjarstjórnarfundi þann 13. október 2009

Saga Sögu Akraness XI
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I, Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II, Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III, Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV, Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI, Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …
Saga Sögu Akraness VII, Hvers virði saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig
Saga Sögu Akraness VIII, Ja sko mér er alveg sama og mætti sleppa þessu bókaveseni allveg
Saga Sögu Akraness IX, … einvörðungu markmið þessa samnings að framlengja verktíma, skilgreina verklok og kveða á um greiðslur til sagnaritara
Saga Sögu Akraness X,  Ljóst er að hér er að verða til glæsilegt rit

Fjórðungsdómur um 18 marka bók (enn ótölusett færsla en verður komið fyrir í samhengi síðar, sem og fjallað um viðbrögð bæjarstjóra, Ritnefndarinnar og sagnaritara við þeirri færslu). 
 
 
 

Persónur og leikendur fyrir utan sagnaritarann sjálfan

Þeir sem ekki eru Akurnesingar eða Skagamenn átta sig kannski ekki á því að í rauninni hafa aðalpersónur í stjórn bæjarins verið meira og minna þær sömu í aldarfjórðung og þær réðu líklega mestu um samþykkt allra samninganna við Gunnlaug Haraldsson, gera jafnvel enn. Þótt bæjarstjórnir hafi verið myndaðar með mismunandi meiri- og minnihluta í öll þess ár eru aðalpersónurnar í rauninni bara þrjár. Í kringum tvær þær fyrrnefndu má finna nokkrar aukapersónur sem eru ýmist á sviðinu eða baksviðs. Til að auðvelda lesanda að halda þræðinum í þessari færslu hef ég litað nöfn aðalpersónanna, nema þar sem krækt er í misgamlar upplýsingasíður um þær (krækjurnar eru fölbláar).
 

Aðalkarlarnir Sveinn, Gunnar og Guðmundur Páll

Sveinn Kristinsson fluttist á Skagann um líkt leyti og Gunnlaugur Haraldsson og til að byrja með voru þeir samherjar í Alþýðubandalaginu. 1994 vann Alþýðubandalagið stórsigur í bæjarstjórnarkosningum og í bæjarstjórn settust Guðbjartur Hannesson, Sveinn og Ingunn Anna Jónasdóttir.1 Sveinn hefur setið í bæjarstjórn síðan þá, fyrst fyrir Alþýðubandalagið, svo fyrir Akraneslistann2 og svo Samfylkinguna. Hann hefur oft og mörgum sinnum verið forseti bæjarstjórnar og gegnir því starfi einmitt núna. Sömuleiðis hefur hann frá því laust fyrir aldamót setið í bæjarráði og oft verið formaður þess.

Gunnar Sigurðsson settist fyrst í bæjarstjórn um leið og Sveinn, árið 1994,  fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hefur setið þar allar götur síðar. Stundum hefur Gunnar verið forseti bæjarstjórnar, hefur oftast setið í bæjarráði á sama tíma og Sveinn og Guðmundur Páll og stundum verið formaður þess.

Guðmundur Páll Jónsson settist einmitt líka í bæjarstjórn árið 1994, fyrir Framsóknarflokkinn. Guðmundur Páll hefur einstaka sinnum verið forseti bæjarstjórnar og oft formaður bæjarráðs, er einmitt formaður bæjarráðs núna. Guðmundur Páll sat um tíma í ritnefnd um sögu Akraness og var starfandi bæjarstjóri um tíma.3

Frá 1999-2005 sátu félagarnir þrír í bæjarráði. Eftir kosningar 2006 riðlaðist þessi skipan og þeir hafa ekki setið allir í einu í bæjarráði síðan en ævinlega einhver þeirra, stundum tveir félaganna saman, stundum bara einn þeirra.

Það má sjá ljómandi fallega mynd af þessum körlum saman, ásamt Gísla Gíslasyni bæjarstjóra og formanni Ritnefndarinnar í 18 ár (frá upphafi til 2005) og brosmildum bæjarstjóra í Leeds (sem kemur þessari sögu samt ekkert við) við frétt Morgunblaðsins 31. október 2005, „Bæjarráðið heimsækir fiskkaupendur“ .
 
 

Ritnefndin og orð aðalkarlanna

Írskir dagar á AkratorgiRitnefndin hélt aðeins þrjá fundi árið 2009 og virðist hafa látið sér duga eitt minnisblað frá Gunnlaugi Haraldssyni og einn kafla, líkast til 1. kaflann í I. bindið (jarðfræðikaflann) sem vantað hafði mjög lengi. (Sjá töflu unna úr fundargerðum Ritnefndarinnar árin 2009-2011.) Í fundargerð 16. júní 2009 segir að Gunnlaugur og nefndin hafi gengið á fund bæjarstjóra [Gísla S. Einarssonar] og orðið hafi fjörugar umræður. Næst ætlaði Ritnefndin að kynna verkið bæjarráði. Fer engum sögum af því hvernig sú kynning var, a.m.k. er ekkert bókað um sagnaritun í fundargerðum bæjarráðs fyrr en í septemberlok: „Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra ásamt formanni ritnefndar að ganga til samninga við H. Gunnlaug Haraldsson um að hann skili verkefninu til Akraneskaupstaðar til prentunar.“ Þann fund bæjarráðs sátu Karen Jónsdóttir formaður, Gunnar Sigurðsson, varaformaður, Hrönn Ríkharðsdóttir aðalmaður, Gísli S. Einarsson bæjarstjóri o.fl.

Í október barst þessi fundargerð bæjarráðs til bæjarstjórnar og þá tóku til máls um ritun sögu Akraness þeir Sveinn Kristinsson, Guðmundur Páll Jónsson og bæjarstjórinn Gísli S. Einarsson. Það er athyglisvert að heyra hvað þeir fyrrnefndu, hoknir af reynslu af viðskiptum við sagnaritarann, sögðu, hér skrifað upp eftir hljóðupptöku af bæjarstjórnarfundinum 13. október 2009, ca.45-55 mínútu:

Sveinn Kristinsson:

Ég er ánægður með þetta, ég held að nú sé farið að sjá fyrir endann á þessu mikla verki. Þetta hefur tekið langan tíma og kostað mikla peninga að mörgum finnst. Og eflaust hefur þetta kostað mikla peninga. Og ég hef nú kannski ekki verið þolinmóðasti maðurinn í þessu, svo ég segi það bara hreint út hér. Ég er búinn að fylgjast lengi með þessu verki …ég hef fengið hluta af þessu verki og skoðað þetta vel. Og verði það gefið út í þeirri mynd sem allt horfir að það verði þá getum við Skagamenn verið stoltir af því. Það sem ég hef séð af þessu … ég held að þetta sé það glæsilegasta byggðarit og rit um sögu byggðarlags sem búið hefur verið til! Það er að svo mörgu leyti öðruvísi heldur en þessi hefðbundnu rit sem í þessum málaflokki hafa verið skrifuð. Margt áhugavert tínt til sem kannski eru ekki beint neitt rosalega mikilvæg söguleg atvik heldur varpa svona ákveðnu ljósi yfir mannlíf, menningu, lifnaðarhætti í kannski einhverju smáu sem skiptir svo miklu máli þegar langt er liðið og getur lýst upp fyrir okkur fortíðina og það líf sem okkar forfeður lifðu. Ég hlakka til að sjá þetta. Ég vona að þetta takist þrátt fyrir kreppu að gera þetta sem fyrst. Fagna þessu.4

Guðmundur Páll Jónsson:

Varðandi ritun sögu Akraness þá tek ég undir allt sem kom fram hér hjá síðasta ræðumanni. Og þetta er orðin löng ganga en það sem hefur verið birt okkur bæjarfulltrúum og það … ég held ég sé ekki að brjóta neinn trúnað ef ég leyfi mér að segja það í þessari umræðu að það skuli koma fram og verður gaman að fá að lesa betur og fara yfir þegar þetta rit kemur út að við … að söguritari hefur náð að fara í uppruna okkar jafnvel betur en nokkurn tíma áður hefur verið gert. Það að ýmis örnefni hér í nágrenni okkar … að söguritari hefur áttað sig og rannsakað það þegar að Bresabræður komu. Hann er búinn að finna hvaðan þeir komu! Og örnefni hér … tökum eins og dæmi eins og Esjuna. Það er komið úr því umhverfi sem þeir komu. Og nánast í þeirri röð og í þeirri eyju sem þeir sjálfsagt komu frá. Þetta er í rauninni alveg stórmerkilegt! Við höfum velt fyrir okkur miklu. Af hverju nafnið Akranes er dregið og ýmis örnefni sem hér eru. Við fáum jafnvel bara skýringar á því í þessari söguritun … með hvaða hætti þetta varð til í okkar umhverfi. Og þetta er stórkostlegt! Þannig að þó að þetta hafi tekið langan tíma og þolinmæði og snarpt [svo] orðaskipti átt sér stað þá styð ég eindregið að það sé gengið þannig frá að söguritari skili þessu verki eins og það nú er í prentun og síðan tekur ný bæjarstjórn ákvörðun um framhaldið. Vissulega var fyrr ætlunin að vera með söguna nánast til … alveg fram að tímanum í dag en það verður ekki hluti af þessum samningi en mjög mikilvægur tími af sögu okkar sem þarna verður gengið frá.5

Gísli S. Einarsson bæjarstjóri:

Síðan bara aðeins þetta með ritun sögu Akraness. Það sem hefur staðið í mönnum að það er samningsupphæðin sem verið er að fjalla um. Hún er … það er býsna erfitt … og síðan sá tími sem er verið að tala um að skila verkinu á. Ég get tekið undir hvert orð um vöndun verksins. En kostnaðurinn er býsna mikill. Og það er ýmislegt sem hefur farið úr böndum, ekki endilega í höndum söguritara heldur þeirra sem eru að vinna við umbrot og annað slíkt. Það hafa komið fyrir mikil óhöpp sem er verið að sækja eftir að Akraneskaupstaður borgi. Og það eru svona þungu hlutirnir í þessu en ég ætla ekkert að fara nánar í þetta mál. En það stendur sem hér er sagt að bæjarstjóra og formanni ritnefndar var falið að ganga til samninga. Og sá samningur hlýtur að koma hér. Eða þá að menn lýsa því að þeir geti ekki gert þetta. En hann hlýtur að koma til afgreiðslu BÆJAR-STJÓRNAR. Það er bara svoleiðis.6

Á þriðja og síðasta fundi ársins, 26. nóvember 2009, bókaði Ritnefndin: „Nýtt samkomulag hefur verið gert við söguritara um framgang verksins og var hún [svo] kynnt og samþykkt samhljóða.“ (Sjá töflu unna úr fundargerðum ritnefndar um sögu Akraness á tímabilinu 2009-2011.) Í sömu fundargerð var bókað að „sú áætlun sem gerð hafi verið og kynnt bæjarráði hafi ekki gengið eftir.“ Svo virðist sem Ritnefnd hefði nú umboð til að semja við Gunnlaug án afskipta bæjarstjórnar og bæjarráðs, öðru vísi verður klausan um hið nýja samkomulag ekki skilin. Það er reyndar alls ekki í samræmi við bókanir bæjarráðs og bæjarstjórnar og ómögulegt að sjá í hvers umboði Ritnefndin hafði skyndilega öðlast þetta samningsgerðarvald.
 

Bæjarráð fjallar aftur um samningagerð við Gunnlaug Haraldsson þann 27. nóvember 2009 og þar er bókað: „Tillaga að verkáætlun varðandi ritun Sögu Akranes [svo]. Bæjarstjóra heimilað að undirrita samning í samræmi við minnisblað sem lagt var fram á fundinum.“7 Málið er samt aftur tekið upp í bæjarráði þann 3. desember og þar bókað: „Viðauki við samning um ritun sögu Akraness. Bæjarráð staðfestir samninginn fyrir sitt leyti og vísar til afgreiðslu bæjarstjórnar og endurskoðunar fjárhagsáætlunar 2009.“En daginn áður, 2. desember,  hafði Gísli S. Einarsson skrifað undir samning við Gunnlaug, sá hét  „Viðauki, Samningur um ritun sögu Akraness.“ með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar. 

Það er engin skýring auðsæ á því hvers vegna málið fór tvisvar fyrir bæjarráð og var svo vísað til bæjarstjórnar þótt á fyrri fundinum hafi bæjarráð veitt bæjarstjóra heimild til að undirrita samning við Gunnlaug Haraldsson. Líkleg skýring, að mínu mati, er að Gísli S. Einarsson hafi neitað að undirrita samninginn einungis í umboði bæjarráðs (eins og þó hafði tíðkast til þessa) og viljað að bæjarstjórn tæki afstöðu til málsins. Orð hans á bæjarstjórnarfundi í október (sjá hér að ofan) styðja þá skýringu. Og málið fór fyrir bæjarstjórn í desember 2009. 

  

Karen reynist óþægur ljár í þúfu

Kólga yfir AkrafjalliKaren Jónsdóttir settist í bæjarstjórn fyrir Frjálslynda og óháða vorið 2006 en skipti yfir í Sjálfstæðisflokkinn á miðju kjörtímabilinu. Hún var formaður bæjarráðs allt kjörtímabilið.9  Frá bæjarstjórnarkosningum 2010 hefur hún verið varabæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins. Karen hafði ekki haft áberandi afskipti af pólitík fyrir 2006 og tengist ekki gamla Alþýðbandalaginu, rótgrónum Skagaættum eða knattspyrnuklíkum á Akranesi. Til að byrja með samþykkti hún, eins og hinir í bæjarráði, samninga við Gunnlaug Haraldsson. Þegar kom að því að gera sjötta samninginn við Gunnlaug (séu allar viðbætur og samkomulög talin með) neitaði Karen að samþykkja og lét bóka á bæjarstjórnarfundi 15.12.2009:

Í rúm 10 ár hefur núverandi sagnaritari þegið greiðslur frá Akraneskaupstað. Samtals að upphæð 73.337.692.- m.v. uppreiknaða vísitölu, fyrir það eitt að rita sögu Akraneskaupstaðar. Þau tæp 4 ár sem ég hef setið hér sem bæjarfulltrúi þá hafa verið gerðir í það minnsta 3 samningar um verklok.
Í gegnum tíðina hafa bæjarfulltrúar og nefndarmenn í góðri trú samþykkt/keypt þau rök sem sagnaritari hefur lagt á borð fyrir þá í þeirri trú að senn líði að verklokum. Nú er svo komið að ég hef misst alla tiltrú á orðum sagnaritarans og get því ekki greitt atkvæði með nýjum samningi.10

Verið var að ræða samþykkt bæjarráðs frá 3.12. 2009 um viðauka við samning um ritun sögu Akraness og hafði Karen verið forfölluð á þeim fundi bæjarráðs, sem og fundinum á undan þar sem bæjarráð hafði heimilað bæjarstjóra að ganga til samninga. Ákvörðun bæjarráðs á þessum tveimur fundum var því í höndum Gunnars Sigurðssonar varaformanns bæjarráðs, Hrannar Ríkharðsdóttur aðalmanns og Eydísar Aðalbjörnsdóttur varamanns. Líklega voru aðalkarlarnir, Hrönn og hugsanlega fleiri búin að ákveða fyrir fundinn að þessi viðaukasamningur rynni í gegn því bæjarstjóri hafði undirritað hann með fyrirvara þann 2. des., bæjarráð samþykkt undirritaða samninginn þann 3. des. og staða Karenar gegn gömlu klíkunni því gersamlega vonlaus. Það sýnir mikið hugrekki að láta bóka þessa yfirlýsingu, í ljósi stöðu hennar og í ljósi þess að almennt og yfirleitt virðist samþykkt þöggun um sagnaritun Gunnlaugs hafa ríkt nokkur ár á undan, a.m.k. meðal stjórnarmanna bæjarins og Ritnefndarinnar (sem kemur m.a. fram í því að Ritnefndin heldur æ færri fundi og æ minna er bókað í fundargerðir).

Enginn annar tók til máls um þennan lið á fundinum og allir hinir bæjarstjórnarmennirnir greiddu atkvæði með samningsgerðinni við Gunnlaug: Karen ein greiddi atkvæði á móti.11 Fregnir af  bókun Karenar rötuðu í fjölmiðla og hafa æ síðan birst nokkuð reglulega fréttir af sögunni dýru.12
 
 
 

Nýr samningur Akraneskaupstaðar og Gunnlaugs Haraldssonar
 

Þann 2. desember 2009 rituðu Gísli S. Einarsson bæjarstjóri, f.h. Akraneskaupstaðar, og Gunnlaugur Haraldsson undir plagg sem heitir „Viðauki, Samningur um ritun sögu Akraness“.  Þar kemur fram að II. bindið dekkar nú einungis öldina 1700-1800.

Í 1. grein segir að Gunnlaugur Haraldsson skuldbindi sig til að „ljúka vinnu við ritun I. og II. bindi [svo] Sögu Akraness. Í því felst auk ritunar sögunnar öll verkumsjón með verkinu og frágangi til prentunar. Skuldbindur hann sig til að afhenda Akraneskaupstað í einu lagi við verklok diskling [svo] með I. og II. bindi sögu Akraneskaupstaðar tilbúnum til prentunar.“

Einnig segir að Akraneskaupstaður greiði „Agli Baldurssyni og Helga Magnússyni fyrir umbrotsvinnu, prófakralestur [svo] og nafnaskrárgerð skv. sérstökum samningi við þá þar um.“ (Ég hef ekki afrit af samningi við Helga Magnússon en í síðustu færslu var gerð grein fyrir samningi og viðbótarsamningi við Egil Baldursson.)

„Verklok á I. og  II. bindi eru 15. júlí 2010 […]“ (2. gr.)

„Fyrir að ljúka við I. og II. bindi í samræmi við framangreint og við afhendingu disklings […] greiðir Akraneskaupstaður Hjálmari Gunnlaugi Haraldssyni kr. 2.250.000,- miðað við launavísitölu í nóvember 2009. gr. [svo]“.  Síðar kemur fram að greiðslurnar skuli verðbættar skv. breytingum á vísitölu.
 
 

Gamli HöfrungurSvo undarlega vill til að í upphafi þessa samnings kemur fram að Akraneskaupstaður skuldi Gunnlaugi „fyrir vinnu á tímabilinu apríl-september 2009, samtals kr. 4.124.725.“ Þegar hafi bærinn greitt upp í skuldina 1,5 milljón en við þessa undirritun verði greidd 1 milljón og þann 14. janúar 2010 verði afgangurinn greiddur.

Sé gert ráð fyrir að Gunnlaugur hafi árið 2008 fengið greitt eftir „SAMNINGUR Saga Akraness“ frá 30. nóv. 2006 og viðaukasamkomulagi við hann frá 27. október 2007 (sjá færsluna … einvörðungu markmið þessa samnings að framlengja verktíma, skilgreina verklok og kveða á um greiðslur til sagnaritara) og vel rúmlega það, svo sem giskað var á í síðustu færslu (Ljóst er að hér er að verða til glæsilegt rit) er engin leið að sjá af fundargerðum bæjarins og Ritnefndar hvernig bærinn stofnaði til þessarar rúmlega fjögurra milljón króna skuldar eða hvaða vinnu Gunnlaugur innti af hendi. Þetta hljóta að vera greiðslur gegn framvísun reikninga, en reikninga fyrir hvað?13
 
 

Árið 2009 fékk Gunnlaugur greiddar rúmlega 7,7 milljónir frá Akraneskaupstað en ekki nema rúm 550.000 kr. árið 2010 svo reikna má með að allur kostnaður vegna þessa samnings hafi verið bókfærður á árið 2009. Það verður að teljast undarlegt hafi hann fengið þessar rúmu 2,2 milljónir greiddar út við undirritun samningsins í desemberbyrjun 2009 úr því þær voru hugsaðar sem árangurstengd greiðsla fyrir skil, í síðasta lagi 15. júlí 2010, svo væntanlega má skýra þessa háu greiðslu til Gunnlaugs árið 2009 af einhverri bókhaldstilhögun bæjarins. Samt má í þessu sambandi einnig benda á að Gunnlaugur stóð ekki í skilum árið 2010, þ.e. hann afhenti ekki handrit af I. og II. bindi tilbúnu í prentsmiðju fyrir miðjan júlí eins og samið var um. (Sjá töflu unna úr fundargerðum ritnefndar um sögu Akraness á tímabilinu 2009-2011.) Og jafnvel þótt hann hafi fengið greidda þessa dularfullu skuld að fullu og alla samningsupphæðina er meir en ein milljón af þessum rúmu 7,7 milljón sem hann fékk frá bænum óútskýrð.

Annar kostnaður 2009 var rúmlega 300.000 (en tæplega 3 milljónir árið 2010 svo greiðslur til Egils Baldurssonar eru væntanlega bókfærðar á árið 2010, hugsanlega einhverjar greiðslur til Helga Magnússonar einnig.) Kostnaður vegna Ritnefndarinnar var rúm 170.000 árið 2009.

Kostnaður Akraneskaupstaðar vegna ritunar Sögu Akraness var alls 8,2 milljónir árið 2009 sem gerir rúmlega 8,9 milljónir á núvirði.14
 
 
 
 


   1 Eins og allir vita er Guðbjartur Hannesson núna velferðarráðherra. Ingunn Anna Jónasdóttir er eiginkona Engilberts Guðmundssonar sem bar á góma í færslunni Framtakssemi og frumskógarlögmál og systir núverandi ópólitísks ráðins bæjarstjóra, Árna Múla Jónassonar.

Gunnlaugur Haraldsson snérist hins vegar til liðs við vinstri-græna þegar Alþýðubandalagið leið undir lok, var í stjórn Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs á Vesturlandi 1999-2000, var varaformaður þegar hún hugsaði sér til sigurs í bæjarstjórnarkosningum á Akranesi það árið en náði engum manni inn og skipaði 10. sæti U-lista Vinstri hreyfingarinnar-græns framboðs fyrir alþingiskosningarnar vorið 2003. Um frekari pólitísk afrek Gunnlaugs Haraldssonar veit ég ekki.

  

2 1998 var Akraneslistinn sameiginlegt framboð Alþýðubandalagsins, Alþýðuflokks og Kvennalista. 2002 var Akraneslistinn listi Samfylkingarinnar á Akranesi.

  

3 Guðmundur Páll var upphaflega í Bandalagi jafnaðarmanna, skipaði t.d. lista þeirra á Vesturlandi fyrir þingkosningar 1983. Á þeim lista var einnig Hrönn Ríkarðsdóttir. Hún gekk svo til liðs við Alþýðuflokkinn og sat væntanlega fyrir hann í ritnefnd um sögu Akraness 1987-2002. Hrönn hefur setið í bæjarstjórn fyrir Samfylkinguna frá 2006 og er núverandi varaformaður bæjarráðs.
 

  

4 Sveinn Kristinsson var væntanlega búinn að fylgjast með þessu verki frá 1997 því hann var búinn að sitja í bæjarstjórn og oft í bæjarráði allan tímann sem sagnaritun Gunnlaugs hafði varað. Erfitt er að vita nákvæmlega hversu mikið hann hafði séð af verkinu. Ljóst er af fyrri fundargerðum Ritnefndar að Gunnlaugur hafði kynnt verkið fyrir bæjarstjórn en miðað við fundargerðir Ritnefndarinnar hefur sú kynning væntanlega verið mikið til á glærum og sýnt hvernig einstakar blaðsíður litu út, auk þess sem urmull minnisblaða og yfirlit verkstöðu höfðu líklega ratað til forseta bæjarstjórnar og formanns bæjarráðs í þessi 12 ár sem sagnaritunin hafði nú varað. Hugsanlega hefur Sveinn lesið einhvern hluta verksins en orð hans gætu allt eins bent til þess að hann hafi skoðað einstakar síður á glærum. Ritnefndin hafði í áranna rás fengið smá parta úr verkinu afhenta og af því þetta var pólitískt skipuð nefnd frá upphafi má ætla að nefndarmenn hafi kannski látið þessar parta ganga til sinna flokksbræðra í bæjarstjórn. Hvergi er óþolinmæði Sveins bókuð í fundargerðum (bæjarstjórnar eða bæjarráðs) í öll þessi ár svo hann hefur væntanlega látið hana í ljós annars staðar en á slíkum fundum.
 
 

5 Guðmundur Páll Jónsson hafði setið jafnlangan tíma og Sveinn í bæjarstjórn og oft í bæjarráði. Guðmundur Páll hafði einnig setið í ritnefnd um sögu Akraness um skeið. Gunnar Sigurðsson var forseti bæjarstjórnar en virðist hafa verið fjarverandi á þessum fundi.

   

6 Þann 30. nóvember 2006 skrifuðu Gísli S. Einarsson bæjarstjóri og Gunnlaugur Haraldsson undir nýjan samning sem hét „SAMNINGUR Saga Akraness“. Þann samning hafði lögmaður bæjarsins útbúið, sjá færsluna Ja sko mér er alveg sama og mætti sleppa þessu bókaveseni allveg, og Gísli S. skrifaði undir með fyrirvara um samþykki bæjarráðs (sem ekki hafði tíðkast í undirskriftum fyrri samninga). Eftir það var gert „Samkomulag um viðauka við samning á milli aðila um Sögu Akraness frá 30. nóvember 2006.“ sem bæjarritarinn, Jón Pálmi Pálsson, undirritaði fyrir hönd bæjarins þann 27. október 2007 (sjá sömu færslu). Gísli S. Einarsson var pólitískt ráðinn bæjarstjóri, með fulltingi Sjálfstæðisflokksins og Frjálslyndra-óháðra.

   

7 Á þessum fundi var Karen Jónsdóttir formaður bæjarráðs fjarverandi en viðstödd voru: Gunnar Sigurðsson, varaformaður, Hrönn Ríkharðsdóttir, aðalmaður, Eydís Aðalbjörnsdóttir, varamaður,
Rún Halldórsdóttir, áheyrnarfulltrúi og Gísli S. Einarsson, bæjarstjóri.
 

8 Á þessum fundi var Karen Jónsdóttir formaður bæjarráðs einnig fjarverandi og viðstödd voru þau sömu og talin voru hér að ofan.

9  Árin 2006-2010 var Karen formaður bæjarráðs en eftirtaldir sátu með henni í bæjarráði: 2006-2007 þeir Gunnar Sigurðsson og Sveinn Kristinsson; 2007-2008 þeir sömu, þ.e. Gunnar Sigurðsson og Sveinn Kristinsson; 2008-2009 Gunnar Sigurðsson og Rún Halldórsdóttir; 2009-2010 Gunnar Sigurðsson og Hrönn Ríkharðsdóttir.

Nú sitja í bæjarráði Akraneskaupstaðar: Guðmundur Páll Jónsson formaður, Hrönn Ríkarðsdóttir varaformaður og Þröstur Þór Ólafsson aðalmaður, sem kom nýr í bæjarstjórn fyrir Vinstri hreyfinguna - grænt framboð í síðustu bæjarstjórnarkosningum.

   

10  Á tveimur stöðum er orðalag í upplesinni bókun Karenar öðruvísi, sbr. 26:35 mínútu o.áfr. í hljóðskrá af fundinum en það er ekkert sem skiptir efnislega máli.

   

11  Gunnar Sigurðsson var forseti bæjarstjórnar en auk hans og Karenar Jónsdóttur skipuðu þau Guðmundur Páll Jónsson, Sveinn Kristinsson, Hrönn Ríkharðsdóttir, Eydís Aðalbjörnsdóttir, Rún Halldórsdóttir, Sæmundur Víglundsson og Þórður Þ. Þórðarson bæjarstjórn Akraneskaupstaðar og sátu þennan fund.

Einungis einu sinni áður hafði samningsgerð Akraneskaupstaðar við Gunnlaug Haraldsson verið mótmælt. Það var í upphafi, á fundi bæjarstjórnar Akraness 22. apríl 1997, en þá greiddi Sigríður Guðmundsdóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins, atkvæði gegn fyrsta samningnum því henni þótti kostnaðurinn of mikill. Öll hin, þau Guðbjartur Hannesson, Sveinn Kristinsson, Guðmundur Páll Jónsson, Gunnar Sigurðsson ,Sigríður Gróa Kristjánsdóttir, Pétur Ottesen, Ingvar Ingvarsson og Bryndís Tryggvadóttir, greiddu atkvæði með því að gera fyrsta samninginn við Gunnlaug Haraldsson.

Enginn hefur mótmælt tillögum um samningagerð eða annað sem snertir sagnaritun Gunnlaugs Haraldssonar frá því Karen lét bóka þessi ummæli og studdi ekki sjötta samninginn (annan viðbótarsamning við síðari grunnsamninginn).
 
 
 

12 Sem dæmi um frétt af þessari bókun o.fl. má taka „Saga Akraness: 75 milljónir en engu skilað“ í DV 22. des. 2009. Þar má líka sjá ljómandi góða mynd af Karen Jónsdóttur.

Orðlaust samkomulag bæjarstjórnenda um að annað hvort þegi menn þunnu hljóði um sagnaritun Gunnlaugs Haraldssonar eða fjalli einungis um hana með hástigs-lýsingarorðum virðist enn í gildi ef marka má nýleg viðbrögð bæjarstjóra og Ritnefndarinnar í síðasta Skessuhorni (þann 8. júní). Svona háttalag hefur oft  verið kennt við meðvirkni en til eru fleiri kenningar, tengdar viðskiptum og stjórnmálum, sem gætu skýrt þetta. Skemmtilegasta nýyrðið um hástigslýsingarorðanotkun um verk af þessu tagi er „makedóníska heilkennið“.

   

13 Ég sendi fyrirspurn til Ragnheiðar Þórðardóttur,  þjónustu- og upplýsingarstjóra Akraneskaupstaðar, í tölvupósti föstudaginn 5. júní [leiðrétt dags. 23. júní] um hvort vantaði inn í þau gögn sem ég fékk frá Akraneskaupstað þann 4. maí sl., þ.e. hvort gæti verið að vantaði einn samning við Gunnlaug, og/eða hvort þessar upphæðir skýrðust af greiðslu gegn framvísun reikninga. Ég á nefnilega bágt með að skilja hvernig hann gat fengið greiddar rúmar 7,7 milljónir bæði árið 2008 og 2009, miðað við þau gögn sem ég hef undir höndum.

Í svari Ragnheiðar, sem barst 6. júní, kemur fram að erindinu sé vísað til bæjarritara. Bæjarritari er í sumarfríi til 30. júní.

Ég skrifaði Ragnheiði aftur og benti á Upplýsingastefnu Akraneskaupstaðar og Upplýsingalög, þar sem kemur fram að Akranesbær hefur að hámarki 20 daga frest til að svara mér. Væntanlega getur einhver flett í gegnum möppuna á skrifstofu bæjarritara fljótlega og svarað þessu erindi. Ragnheiður ætlaði að reyna að athuga það, skv. öðru bréfi þann 6. júní. 

Ég verð því sem stendur að túlka gögnin þannig að árið 2008 hafi Gunnlaugur fengið greitt skv. samningi frá 30. nóvember 2006 og viðaukasamningi frá 27. október 2007 þar til annað kemur í ljós. Það stendur að vísu út af u.þ.b. ein og hálf milljón, sem er óskýrð árið 2008. Og raunar stóð hann hvorki við samninginn né viðaukasamninginn árið 2008.

Þessi rúmlega 4 milljóna skuld fyrir vinnu árið 2009 er alveg óútskýrð. En þetta skýrist væntanlega allt þegar Akraneskaupstaður hefur tíma til að svara erindi mínu, sem verður í síðasta lagi 23. júní. Ég mun að sjálfsögðu leiðrétta þessa færslu séu skýringar á greiðslum til Gunnlaugs aðrar en ég get mér til núna.
 
 
 

14 Upplýsingar um kostnað og uppreikning hans á núvirði eru fengnar frá Akraneskaupstað þann 4. maí 2011. Sama gildir um samninga þá sem minnst hefur verið á til þessa í færsluflokknum Saga Sögu Akraness.
 
 
 
 

Ummæli (1) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness