Færslur frá 17. júní 2011

17. júní 2011

Verður tilbúið næsta sumar. Ég hef alveg þokkalega samvisku.

Í fyrri færslum hefur verið rakið í smáatriðum hvernig Akraneskaupstaður gerði tvo grunnsamninga og fjóra viðaukasamninga við Gunnlaug Haraldsson og hann stóð ekki við neinn þeirra. Til að sýna hvernig fagurgali um eigin vinnu en lítill afrakstur setja mark sitt á þau 14 ár sem Akraneskaupstaður hefur haft Gunnlaug Haraldsson í vinnu við sagnaritun verður reynt að rekja einn þráð sagnaritunarinnar, þann sem kallast nú III. bindi Sögu Akraness. Þriðja bindið er núna sá hluti sögunnar sem á að ná yfir tímabilið 1800-1900 og bæjaryfirvöld, ásamt Kristjáni Kristjánssyni öðrum aðaleiganda útgáfufyrirtækisins Uppheima, virðast óð og uppvæg vilja semja um við Gunnlaug.1 Jafnframt verður getið skýringa sagnaritarans á því hvers vegna þetta bindi er ekki fyrir löngu fullskrifað og útgefið. Til glöggvunar á vinnu og skilum Gunnlaugs almennt má benda á yfirlitstöflur unnar úr fundargerðum ritnefndar um sögu Akraness á árunum 1997-2011. 
 

Titill færslunnar er óbein tilvitnun í Gunnlaug Haraldsson í „Saga Akraness: 75 milljónir en engu skilað“ (DV 22. desember 2009) en finna má nokkurn veginn samsvarandi loforð og yfirlýsingar um skort á eftirsjá og samviskubiti Gunnlaugs í fleiru sem eftir honum er haft.

Saga Sögu Akraness XIV
Sjá einnig:
Saga Sögu Akraness I,     Á Skaganum „hafa aldrei búið neinir fyrirtaksmenn hvorki í orði né verki“
Saga Sögu Akraness II,    Framtakssemi og frumskógalögmál
Saga Sögu Akraness III,   Nefndarmenn lýstu skoðun sinni
Saga Sögu Akraness IV,   Er margritað brot úr byggðasögu 120 milljóna króna virði?
Saga Sögu Akraness V,      Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma
Saga Sögu Akraness VI,    Gunnlaugur Haraldsson ætlar að … og hyggst nú …
Saga Sögu Akraness VIIHvers virði saga Akraness er verður hver og einn að gera upp við sig
Saga Sögu Akraness VIII, Ja sko mér er alveg sama og mætti sleppa þessu bókaveseni allveg
Saga Sögu Akraness IX,    … einvörðungu markmið þessa samnings að framlengja verktíma, skilgreina verklok og kveða á um greiðslur til sagnaritara
Saga Sögu Akraness X,     Ljóst er að hér er að verða til glæsilegt rit
Saga Sögu Akraness XI,   glæsilegasta byggðarit og rit um sögu byggðarlags sem búið hefur verið til
Saga Sögu Akraness XIImikið hefði ég fagnað hverjum fimm mínútum sem mér hefðu gefist
Saga Sögu Akraness XIII, Goðsagnir um glæsileika; „Stórasta“ bók í heimi?
Fjórðungsdómur um 18 marka bók (enn ótölusett færsla en verður komið fyrir í samhengi síðar, sem og fjallað um viðbrögð bæjarstjóra, Ritnefndarinnar og sagnaritara við þeirri færslu).
 

LangisandurAf því fljótlega verður ljóst að sagnaritun Gunnlaugs og samskipti við ritnefnd um sögu Akraness (og bæjaryfirvöld) eru þvæla, þ.e.a.s. að upphaflegum áætlunum er breytt, þeim jafnvel snúið á haus, ótal vinnuplögg og minnisblöð og verkáætlanir eru lagðar fram svo skv. fundargerðum virðist sagnaritarinn á kafi í mjög skipulagðri vinnu en þó er litlu sem engu skilað og undir lokin er brugðið upp Potemkin-tjöldum í glærulíki (sýnishornum af blaðsíðum en hvorki Ritnefndin né bæjaryfirvöld virðast hafa lesið textann almennilega) þá er ekki auðvelt að greiða úr þessari flækju svo úr verði skiljanlegt samhengi. Ég fer þá leið að reyna að fylgja því sem nú kallast III. bindi eftir og nær yfir tímabilið 1801-1900. Í færslunni er þetta tímabil (sem fyrst var allt hluti I. bindis, seinna varð tímabilið frá 1850 hluti II. bindis og nú er öll nítjánda öldin í fyrirhuguðu III. bindi), umfjöllun um það og áætlaðir skiladagar litað og feitletrað svo auðveldara sé að henda reiður á þessu. Sömuleiðis eru  afsakanir höfundar þegar hann skilar ekki efni auðkenndar lit og feitletrun.

Í fyrsta samningnum sem gerður var við Gunnlaug (1997) átti hann að skrifa þrjú bindi um sögu Akraness: Fyrsta bindi um byggðasögu 1700-1900, annað bindi um atvinnuhætti og hagsögu 1900-2000 og hið þriðja um félags-og menningarsögu 1900-2000. Fyrsta bindi skyldi skila eigi síðar en 1. október 1999; öðru bindi eigi síðar en 1. október 2000 og þriðja bindi eigi síðar en 1. október 2001. (Sjá Saga Sögu Akraness V, Leggur ekki nafn sitt við bókartötur sem rumpað er saman á skömmum tíma. Hér eftir verður vísað í einstakar færslur með skammstöfuninni SSA og tölusetningu færslunnar.)

Mjög snemma, strax haustið 1998, kemur fram í máli sagnaritarans að „heimildaöflun hafi verið tímafrekari en í upphafi mátti ætla (36. fundur, nóv. 1998). Um mitt árið 2000 er stefnt að því að leggja fram handrit þáverandi fyrsta bindis á haustdögum eða í vetrarbyrjun þess árs og er haft eftir Gunnlaugi að hann hafi byrjað að skrifa það í janúar og sé nú að skrifa 5. kaflann, „þ.e. um 19. öldina, þar sem meginefnið fjallar um þróun atvinnulífs og sögu byggðarinnar.“ Strax þá var hann ári á eftir áætlun með verkið, skv. samningi. (38. fundur, júní 2000.)

Haustið 2001 er bókað að „Innan nokkurra vikna“ liggi drög að handriti til 1850 fyrir og Gunnlaugur hafi skilað 70 síðum af efni frá 19. öld. (42. fundur, október 2001.) Mánuði síðar lagði hann fram 598 síður í handriti sem nær frá 1700 til 1850 en jafnfram bréf þar sem „kemur m.a. fram að verkið hafi tafist þar sem langtum meiri tíma hafi tekið að leita uppi heimildir í skjalasöfnum, úrvinnsla gagna og heimilda fór þar af leiðandi seinna af stað og lokst að ítarleg heimildaöflun hafi leitt fjölmargt í ljós sem fyrirfram var ekki vitað og kostað töluverða vinnu að vinna úr. Á sama fundi staðfesti ritnefndin skil á 1. bindi verksins sbr. gildandi samning og mætti því ætla að ritun sögu Akraness árin 1700-1900 væri lokið árið 2001. (Raunar kom svo fram tæpu hálfu ári síðar að einn kafla hafði nú vantað inn í bindið og er merkilegt að ritnefndin skuli ekki hafa tekið eftir því þegar hún staðfesti skilin. Og svo kemur fram að í rauninni var þessu bindi ekki lokið og síðasti hluti þess, 1850-1900 var færður inn í annað bindi.)

Vorið 2002 hafði Akraneskaupstaður gert viðaukasamning við Gunnlaug svo hann var áfram á fullum launum. (Sjá SSA VI.) Gert var ráð fyrir að vinnu við sagnaritunina lyki 1. ágúst 2004. Gunnlaugur lagði fram vinnuáætlun og drög að efnisyfirliti annars bindis þar sem nú er því skipt í tvö tímabil, 1851-1900 og 1900 - 1941. (44. fundur, mars 2002) „Góður gangur er í ritun 2. bindis“ segir í fundargerð. Í október 2002 segir í fundargerð að komið sé efni á 400 síður í þetta annað bindi.

Í nóvember 2002 kemur fram að Gunnlaugur sé að vinna efni til ársins 1941 og „stefnir að því að sá þáttur verði tilbúinn í apríl eða maí“ [væntanlega vorið 2003]. (47. fundur.) Seinna í nóvember sama ár segist hann vera að vinna að þáttum varðandi verslun o.fl. Af fundargerðum er ljóst að hann hefur skilað einhverju efni því einstakir kaflar eru ræddir á þessum fundum í nóvember, að því er virðist um sögu 19. aldar.

Snemma árs 2003 „kvað [Gunnlaugur] styttast í að 2. bindi liti dagsins ljós […] í meginatriðum er búið að skrifa alla aðalkaflana til 1941.“ (49. fundur.) Í júní kemur fram að nefndarmönnum hafi verið sent fyrir fundinn um 250 síður af upphafi annars bindis, tímabilsins 1851-1900 og einungis vanti nokkra kafla í það. En ljóst er að 2. bindið verði ekki tilbúið í maí heldur í sumarlok. (50 fundur). Í  október segir Gunnlaugur að fyrir liggi samtals 853 síður sem fjalli um tímabilið 1851-1941. Einnig er bókað að Gunnlaugur ætli að ljúka 2. bindinu í desembermánuði og einhenda sér svo í 3. bindið (1942-2000 í byrjun næsta árs. (51. fundur).

Í febrúar 2004 segir að „ætlunin var að ljúka ritun II. bindis í desember en það hefur af ýmsum ástæðum ekki tekist að fullu. Lagðar voru fram 167 síður um sögu verslunar á Akranesi, væntanlega frá 1850 og vel fram yfir næstu aldamót. (52. fundur)

Í ágúst 2004 kemur fram í máli Gunnlaugs að vegna heimildaöflunar í þriðja bindi hafi hann ekki getað klárað annað bindið. Heimildaöflun í þriðja bindi er ólokið, ritun þess ekki hafin en aftur á móti er Gunnlaugur búinn að safna efni í „á annað hundrað möppur með afritum og ljósritum heimilda sem hann leggur til grundvallar sögurituninni“. Þessi möpputalning hófst haustið 2000, þá voru það 40 eða 70 möppur, ólæsilegt í fundargerð 39. fundar hvort er, og hefur verið leiðarstef í fregnum af sagnaritun Gunnlaugs síðan.2 Gunnlaugur reiknaði með að ganga endanlega frá öðru bindi í síðasta lagi í janúar 2005. (54. fundur.)

Í mars 2005 segir að Gunnlaugur hafi undanfarið verið að afla heimilda í þriðja bindi „en það er að hans sögn gríðarlegt verk og því verður ekki byrjað á því að skrifa það bindi saman fyrr en síðar.“ Hann leggur sjálfur til að nú verði lögð áhersla á að klára 1. [landnám til 1850] og 2. bindi [1850-1941] og bókað er: „mætti stefna að útgáfu 1. og 2. bindis vorið 2006“. (55. fundur.)

Snemma vors 2008 var I. bindið orðið að II. bindi  (sjá SSA IX og SSA X) og skyldi nú ná yfir tímabilið 1700-1850. II. bindið varð sjálfkrafa að III.  bindi (1850-1941) en bæði þessi nýtölusettu II. og III. bindi voru sett á ís uns sagnaritara tækist að ljúka hinu nýja I. bindi. Í „ítarlegu minnisblaði” Gunnlaugs í apríl 2008 kemur fram að „Kafli 5 Átjánda öldin (1701-1800 (390 bls.) - bíður prentvinnslu […] Kafli 6 Nítjánda öldin 1801-1850 (213 bls.) - bíður prentvinnslu“. (68. fundur.)

Í viðaukasamningi sem Akraneskaupstaður og Gunnlaugur Haraldsson undirrituðu þann 2. desember 2009 „hafa [aðilar] orðið sammála um að tímabilið 1801-1850 verði ekki í II. bindi.“ (1. gr.) Það tókst svo að koma því II. bindi nú í maí 2011; Það fjallaði um átjándu öld eingöngu.

Svo III. bindið (1800-1900) hefur skv. framansögðu verið tilbúið frá 2001, þegar ritnefnd um sögu Akraness staðfesti skil á því. Samt var það ekki tilbúið því áfram ber þetta tímabil hvað eftir annað á góma í fundargerðum Ritnefndarinnar, allt frá því að Ritnefndin uppgötvaði hálfu ári síðar að í það vantaði víst einn kafla. Síðar virðast sagnaritari, Ritnefndin og útgefandi Sögu Akraness ýmist hafa uppgötvað að ritun um þetta tímabil sé lokið eða ekki lokið.
 

Er ritun þriðja bindis lokið?

LangisandurMeginhlutar I. og II. bindis liggja fyrir í handriti (tölvu), samanlagt um 1500 bls. (A4-brot). Þó er ósaminn fyrsti kafli I. bindis, og allmarga kafla í seinni hluta II. bindis (tímabilið 1901-1941) þarf ég auðsjáanlega að umsemja og auka við á ýmsa lund vegna fjölmargra viðbótargagna sem komið hafa upp í hendur mínar á síðustu misserum við heimildaöflun og –úrvinnslu vegna III. bindis (tímabilið 1942-2000). Sú vinna hefur reynst margfalt tafsamari og umfangsmeiri en ég hafði gert mér í hugarlund og sprengt utan af sér öll uppsett tímaplön. Við slíkt er erfitt að ráða! (Gunnlaugur Haraldsson. „Meint ritstífla brestur“. Spjallþráður Akraneskaupstaðar 25. febrúar 2005.)

„Þá segist Gunnlaugur búinn að skrifa þriðja bindið. Fjórða bindið, sem nái frá aldamótunum 1900, sé hálfskrifað fram til 1941.“ („Nærri 80 milljónir í ritun sögu AkranessVísir 2. janúar 2010.)

„Gunnlaugur segir að hann sé búinn að rita sögu Akraness til ársins 1942 en þá stöðvaðist ritunin.“ („Höfundur Sögu Akraness: Kýs að svara ekki gagnrýni. Ritun til ársins 1942 er lokið“. DV 4. júní 2011.)

„Kristján Kristjánsson, annar aðaleigandi Uppheima, vill koma á framfæri: „Gunnlaugur Haraldsson þjóðháttafræðingur hefur unnið að ritun sögu Akraness síðan 1997. Þar áður fékkst Jón Böðvarsson við verkefnið - frá árinu 1987, og eitt bindi var gefið út. Eins og lesa má um í fundargerðum ritnefndar á vef Akraneskaupstaðar liggur fyrir, samkvæmt upplýsingum frá Gunnlaugi Haraldssyni m.a,. að þriðja bindið er nú þegar skrifað og söfnun efnis í það fjórða vel á veg komið.“ („Bókin um Akranes kostar 100 milljónir - 23 ár í vinnslu“, Vísir 22. nóv. 2010, orð Kristjáns eru uppfærsla dagsett 23. nóvember.)
 

Eða er ritun þriðja bindis ekki lokið? Hvenær má þá áætla ritunarlok og útgáfu?
 

„…fyrir liggur að „færa til nútíðamáls” handrit mitt að III. bindi (1801-1900) sem safnað hefur ryki í 6-7 ár.“ (Gunnlaugur Haraldsson.„Kvittað fyrir fjórðungsdóm“. Skessuhorn 8. júní 2011, s. 35.)

„Jón Gunnlaugsson, formaður ritnefndar, segir að búið sé að skrifa handrit bókarinnar að stórum hluta og það geti verið tilbúið eftir tæpt ár og jafnvel fyrr.“ („Undirbúa útgáfu þriðja bindisinsRÚV 4. júní 2011.)

„Samkvæmt Kristjáni Kristjánssyni útgefanda … gerir hann sér vonir um að þriðja bindið verði gefið út á næstu tveimur árum. („Saga Akraness kom loksins út í gær“  DV 20. maí 2011)

„Bæði Sveinn [Kristinsson] og Jón [Gunnlaugsson] formaður ritnefndar sögðust hafa fullan hug á því að þriðja bókin af Sögu Akraness myndi koma út fljótlega og sögurituninni yrði síðan lokið með fjórðu bókinni áður en langt um líður.“ („Fjölmenni á útgáfuhátíð vegna Sögu Akraness“, Skessuhorn 20. maí 2011.)3
 

Það fer sem sagt meir en tvennum sögum af því hvort III. bindi er tilbúið, næstum tilbúið eða bráðum kannski næstum tilbúið. Það er sennilega bráðum næstum jafn tilbúið og I. bindið var árið 2001!
 
 

Hróður sagnaritunar Akraneskaupstaðar hefur ekki bara borist um allt land heldur einnig út fyrir landsteinana. Það er kannski fróðlegt að sjá spá þeirra sem búa í hæfilegri fjarlægð frá Akranesi um útgáfu þriðja bindisins:

Tanken var från början att Gunnlaugur Haraldsson skulle skriva två band till. Men frågan är om han nu har fått upp farten, eller om kommunen tänker om innan den ger även det uppdraget till Gunnlaugur Haraldsson med ett tänkt slutdatum ungefär år 2033.“ („De har skrivit på Akranes historia - i 23 år“. Islandsbloggen. Nyheter och nedslag från ett avlägset grannland, 21. desember 2010.)4
 
 
 

Í næstu færslu verður fjallað um ágætan samning sem útgáfufyrirtækið Uppheimar náði við Akraneskaupstað, rakinn kostnaður bæjarins af sagnarituninni árin 2010 og 2011 og greint frá fráteknu fé í áframhaldandi sagnaritun næstu tvö árin. Loks verður fjallað um enn eina goðsögnina sem tengist þessu sagnaritunarævintýri síðara, þ.e. þá að Gunnlaugur Haraldsson sé fræðimaður, í venjulegasta nútímaskilningi þess orðs. Þessi færsla ætti að verða lokafærsla í rakningu sagnaritunar Akraness (fyrir utan yfirlitsfærslu þar sem helstu atriði verða tekin saman og reynt að skýra hvernig í ósköpunum þetta gat gerst).

Svo er að svara Ritnefndinni, bæjarstjóranum og sagnaritaranum í einni færslu. (Þeim lá heldur illt orð til bloggynju í næstnýjasta Skessuhorni. En ég er afar þakklát bæjarstjóranum fyrir að staðfesta rækilega þær kenningar sem ég hef smám saman verið að máta við viðskipti sagnaritara og Akraneskaupstaðar og gagnast einna best til að skýra þessi viðskipti eða botna í þeim.) 

1 Sjá  80. fund Ritnefndar um sögu Akraness 18. maí 2011; 81. fund sömu nefndar 7. júní 2011; lið 5 í fundargerð bæjarráðs 26, maí 2011; lið 1 í fundargerð bæjarráðs 9. júní 2011 og frétt RÚV 4. júní 2011, „Undirbúa útgáfu þriðja bindisins“.

 
 

2 Möppur og pappírsmagn ber oftar á góma í fundargerðum en hér eru gefin tvö dæmi sem sýna stolt sagnaritarans af þessari söfnun:

Heimildaöflun og úrvinnsla þeirra hefur reynst langtum tafsamari og tímafrekari en mig óraði nokkru sinni fyrir, og hafði þó talsverða reynslu að byggja á í þessum efnum. Hér er í fyrsta lagi um að ræða skjalleg gögn af öllum hugsanlegum toga sem einkum eru varðveitt í skjalasöfnum í Reykjavík og á Akranesi (t.d. gjörðabækur hreppstjóra, sveitarstjórnar, einstakra nefnda, félagasamtaka og fyrirtækja, sýslumanna og sýslunefnda, amtmanns, landshöfðingja og fleiri embætta stjórnsýslunnar, bréfabækur, bréfadagbækur, bréf og hverskyns gjörningar sömu aðila og einstaklinga, jarðaskjöl, dagbækur, örnefnalýsingar, o.s.fv., o.s.frv.). Í annan stað allt prentað og útgefið efni (bækur, skýrslur, dagblöð, tímarit o.s.frv.) þar sem Akraness er í einhverju getið, - og í þriðja lagi munnlegar heimildir og frásagnir núlifandi manna. Allar þær frumheimildir sem ég hef getað leitað uppi í skjalasöfnum, s.s. Þjóðskjalasafni, hef ég látið ljósrita til að vinna úr í starfstöð minni. Það heimildasafn telur nú um 100 bréfabindi eða tugþúsundir blaðsíðna og mun síðar varðveitast í Héraðsskjalasafni Akraness og verða aðgengilegur gagnabanki þeim sem síðar kynnu að vilja grúska í afmörkuðum viðfangsefnum. 
Gunnlaugur Haraldsson. 25. febrúar 2005. „Meint ritstífla brestur“ á spjallþræði Akraneskaupstaðar.

[Um starfsstöð sagnaritarans í Gufunesi]: Auk fjölda fræðirita er þarna til dæmis hátt í 200 bréfabindi með ljósritum skjala sem tengjast sögu Akraness, um 500 síður í hverju bréfabindi. Þessi gögn hefur söguritari leitað uppi í skjalasöfnum, pælt í gegnum þau, afritað og slegið inn í tölvu, sumt stafrétt en gert útdrátt úr öðrum, og jafnvel þýtt gömul embættisskjöl úr dönsku.
„Það þýðir ekkert hér um bil við ritun sögunnar. Spjallað við Gunnlaug Haraldsson ritara Sögu Akraness“. Skessuhorn 13. apríl 2011, s. 14. Viðtalið tók Þórhallur Ásmundsson blaðamaður.
 

 

3 Ef einhver skyldi lesa alla fréttina sem krækt er í er rétt að leiðrétta eftirfarandi: „Jón Gunnlaugsson formaður ritnefndar Sögu Akraness rakti í stuttu máli aðdraganda útgáfunnar sem er langur og spannar tímann frá 1997, þar sem alls 12 menn hafa setið í ritnefndinni og þar af þrír fallið frá á þeim tíma.“ Tveir af tólf ritnefndarmönnum frá 1997 hafa fallið frá, þeir Ólafur J. Þórðarson (d. 2004) og Jósef H. Þorgeirsson (d. 2008). Ritnefndin hefur ekki minnst annarra á þessu tímabili í sínum fundargerðum og mér vitanlega eru hin öll á lífi. Tveir þeirra sem sátu í ritnefnd frá 1987 eru látnir, þeir Halldór Jörgensson (d. 1988) og Valdimar Indriðason (d. 1995).
 

4 Tvær aðrar færslur eru um ritun Sögu Akraness á þessu bloggi: „23 år efter beslutet - nu finns Akranes historia“ frá 23. janúar 2011 og „Efter 24 års väntan - Akranes historia halvfärdig“ frá 21. maí 2011.
 
  

  

  
  
  
  
  
  
 

Ummæli (5) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness