Færslur júlímánaðar 2011

20. júlí 2011

Nú skaltu rökstyðja eða biðjast afsökunar!

Ég er orðin þreytt á að sitja undir órökstuddum blammeringum Árna Múla Jónassonar bæjarstjóra Akraneskaupstaðar og finnst engan veginn við hæfi hvað hann segir í nafni síns embættis!  Þessi grein mín birtist í Skessuhorni í dag:

Árni Múli Jónasson bæjarstjóri:  Bentu á þruglið eða biðstu afsökunar!

Í Skessuhorni 13. júlí sl. fjallar Árni Múli Jónasson bæjarstjóri Akraneskaupstaðar um ritdóm Páls Baldvins Baldvinssonar um Sögu Akraness. Orðrétt er þar haft eftir bæjarstjóranum: „Mér sýnist Páll af einhverjum óútskýrðum ástæðum hafa ákveðið að éta gagnrýnislaust upp þruglið sem bloggari einn hér í kaupstaðnum hefur staðið fyrir linnulítið undanfarnar vikur.“

Ég geri ráð fyrir að umræddur bloggari sé ég sjálf því ég hef rakið sögu sagnaritunar um Akranes, aðallega frá 1956 til dagsins í dag, í 15 tölusettum bloggfærslum og byggt á rituðum heimildum sem flestar eru opinber gögn Akraneskaupstaðar. Einnig hef ég skrifað yfirlitsfærslu yfir sagnaritunina 1987-2011, skrifað eina færslu um hluta Sögu Akraness I eftir Gunnlaug Haraldsson og eina færslu til að svara hörðum viðbrögðum við þeirri færslu, þ.á.m. orðum Árna Múla Jónassonar bæjarstjóra sem voru algerlega órökstudd. Þessar 18 færslur í færsluflokknum Saga Sögu Akraness birtust frá apríllokum til júníloka nú í ár.

Fundargerðir ritnefndar, bæjarstjórnar og bæjarráðs eru vissulega oft illa orðaðar og má stundum finna í þeim mál- og stafsetningarvillur en mér finnst nokkuð langt gengið að kalla þær þrugl. Sama gildir um aðrar beinar tilvitnanir í færsluflokknum Saga Sögu Akraness á harpa.blogg.is, t.d. í bæjarstjórnarmenn og Árna Múla sjálfan. Ég reikna með að Árni Múli bæjarstjóri eigi við færsluflokkinn í heild úr því hann talar um „þruglið … linnulítið undanfarnar vikur.“

Bæjarstjóri Akraneskaupstaðar getur ekki verið þekktur fyrir að fara með fleipur og vega að mannorði mínu.

Þess vegna á Árni Múli Jónasson bæjarstjóri að rökstyðja með dæmum að bloggfærslur mínar séu þrugl.  Geti hann ekki gert það ætti hann að biðja mig afsökunar á orðum sínum á síðum Skessuhorns, sem er miðillinn sem hann hefur sjálfur kosið að tjá sig í. 

Ummæli (7) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness