Færslur frá 6. ágúst 2011

6. ágúst 2011

Vandinn að vinna í sjoppu

Í rauninni fjallar þessi færsla um málfar og málfarsfasisma en þó einnig um sjoppur … eða ætti ég að segja „söluturna“? Það er að því leytinu ankannalegt að sjaldnast er um turna að ræða …

Flestar konur á mínum aldri hafa reynslu af sjoppuvinnu og afgreiðslustörfum ýmiss konar. Í sólbaðinu áðan reyndi ég að rifja upp hvort ég hefði einhvern tíma lent í vandræðum í svoleiðis vinnu og mundi eftir tvennu.

Fyrra dæmið var snemma á vinnumarkaðsferlinum, líklega hef ég verið á fjórtánda ári, þegar ég vann í svokallaðri „kaupfélagssjoppu“ á Laugarvatni. Starfið var fjölþætt í meira lagi: Dæla bensíni, selja olíu, pulsur, mjólkurvörur, sælgæti, þrífa klósett, taka við tómum gaskútum o.fl.  Kúnnarnir voru miskurteisir eins og gengur en yfirleitt allt í lagi … nema Ólafur gamli Ketilsson. Feimin og óframfærin sem ég var hrökk ég í kút þegar hann hreytti í mig: „Skelerð’ekki mælt mál, stelpa?!“ eftir að ég hafði hváð oftar en honum þótti góðu hófi gegna. Karlinn bað um „sker“. Mér var lífsins ómögulegt að reikna út hvað „sker“ gæti mögulega verið. Mig minnir að vinnufélagi minn hafi loks hvíslað að mér að geðvonda gamalmennið ætlaði að kaupa skyr. Mér til málsbóta var að ég hafði aldrei fyrr á ævinni heyrt flámæli. Síðar lærði ég að meta flámæli og fannst unun að hlusta á ekta flámæltan eldri mann hér í bæ en hann er því miður dáinn fyrir mörgum árum. Þetta er svo sjaldgæfur framburður núorðið að það er ómetanlegt að hafa heyrt hann ómengaðan.

Góða helgiHitt dæmið var á háskólaárum mínum, þegar einhverri mömmunni datt í hug að senda krakkann sinn með þúsundkall í Breiðholtssjoppuna á laugardagskvöldi og átti barnið að kaupa „50 aura möndlur“ fyrir féð. Af því það var brjálað að gera á laugardagskvöldum datt mér ekki í hug að telja 2000 rauðar möndlur með matskeið ofaní poka heldur afhenti krakkanum nokkra möndlupoka og handtaldar möndlur sem stemmdu upphæðina af. Móðirin hringdi síðan gersamlega spinnegal yfir þessari leti og ómennsku afgreiðslustúlkunnar. En þessi uppákoma kemur þó efni færslunnar ekkert við, flýtur með af því þetta er blogg og blogg mega vera óskipuleg. Það er þeirra eðli.

Mér varð hugsað til afgreiðsluáranna í dag af því ég las pistilinn „Að heilsast og kveðjast“ eftir Þórð Helgason (í mogga mannsins). Mogginn býður upp á greinarstubba um íslenskt mál á sunnudagskálfinum og yfirleitt finnast mér þeir stubbar mjög fyndnir, t.d. nöldur út í hve íslenska er ófeminísk eða hve mikil spellvirki séu framin á tunguræflinum þegar fólk brúkar ekki ufsilon rétt og fleira í svoleiðis dúr. Mér fannst pistill Þórðar Helgasonar hins vegar ekkert fyndinn enda sá ég fyrir mér vesalings afgreiðslufólkið sem lenti í að afgreiða manninn, heltekinn af rétthugsun um íslenskt mál. Líklega lítið skárra að afgreiða Þórð en Óla gamla Ket (en eins og allir Laugvetningar komnir til vits og ára muna var karlinn hroðalega geðstirður).

Þórður tók sig til og settist niður með afgreiðslumanni sem vogaði sér að segja „og eigðu góða helgi“ við hann. En í gegnum textann skín þó gleði Þórðar yfir að afgreiðslumaðurinn sagðist „finna fyrir óbragði í hvert sinn sem þessi orð hrytu honum af munni“ og „var greinilega feginn að finna í mér bandamann …“ Fyrr má nú vera andskotans viðkvæmnin! Mér finnst „góða helgi“ vera ósköp sæt kveðja og sé ekki að hún sé neitt verri en „góða nótt“, ef út í það er farið, þótt hún sé vissulega yngri. Og að viðskiptavinur sjái ástæðu til að setjast niður með afgreiðslufólki sem óvart hefur ekki alveg sama orðaforða og íslenskukennari á sjötugsaldri finnst mér algerlega út úr kú. (Hér geta málhörundsárir skipt út orðtaki og sett „út í hött“ í staðinn ef þeim líður þá betur.)

Nokkrum árum síðar fór Þórður „síðla kvölds í mikilli súkkulaðiþörf inn í sjoppu eina í Kópavogi.“ Þar bauð hann gott kvöld en unglingsstúlkan sem afgreiddi tók ekki undir svo Þórður greip til eftirfarandi ráðs: „… benti henni á að ég hefði boðið gott kvöld. Stúlkan starði á mig og átti ekki orð.“ Ég er ekki hissa á því! Og það hlakkar í Þórði þegar hann lýsir því hvernig hann margþakkaði fyrir sig, án þess að fá rétt viðbrögð að eigin mati og staldraði síðan við í dyrunum og bauð góða nótt: „Við þessa óvæntu atlögu mátti glöggt sjá að stúlkan fór úr þessu litla jafnvægi sem eftir var.“ Þórði finnst þetta greinilega hafa verið ansi gott hjá sér og voða gaman, hefur líklega haft af þessu Þórðargleði. Ef ég set mig í spor afgreiðslustúlkunnar þá hefði ég væntanlega talið að maður sem léti svona væri ekki með öllum mjalla og haft örlitlar áhyggjur af því upp á hverju viðkomandi tæki næst.

Kannski má allt eins lesa pistil Þórðar Helgasonar frá sjónarhóli afgreiðslufólks: Til að róa manninn sest afgreiðslumaðurinn niður með honum og samsinnir öllu sem hann segir eða afgreiðslumaður reynir að leiða svona kúnna hjá sér og segja ekki neitt. Þannig séð er þetta góður greinarstubbur moggans sem kennir fólki í verslunum eða þjónustufyrirtækjum að fást við erfiða viðskiptavini sem fá útrás fyrir geðvonsku sína með því að hanka mann og annan á málfari eða orðanotkun.
 
 

Ummæli (6) | Óflokkað, Daglegt líf

Saga Sögu Akraness

Ég er að ganga frá ýmsu efni þessa dagana, frá útsaumsstykkjum til stafrænna hannyrða. Þar á meðal hef ég raðað saman bloggfærslum í færsluflokknum Saga Sögu Akraness og sett upp í pdf-skjal, sem vitaskuld er mun læsilegra en í þessu bloggumhverfi. Augljósar villur voru leiðréttar og fyrstu tvær færslurnar felldar betur saman en að öðru leyti var færslunum ekki breytt. Þeim fylgja svo langar og leiðinlegar töflur unnar upp úr fundargerðum ritnefndar um sögu Akraness. Pdf-skjalið er því ekki ritgerð um efnið heldur sést greinilega að ég var að kynna mér það jafnóðum og ég samdi bloggfærslurnar … aftur á móti gæti þessi texti orðið góður grunnur að grein, ritgerð eða fréttaskýringu, tel ég. Og væri þetta ekki upplögð jólagjöf, útprentuð og bundin saman með rauðum slaufum?

Plaggið má nálgast á http://harpahreins.com/Saga_Sogu_Akraness.pdf

Fréttir af Sögu Akraness eru engar ennþá en ekki er óhugsandi að gefist tækifæri til að skrifa 2. bindi Sögu Sögu Akraness einhvern tíma ;)   Bæjarstjórinn þagði þunnu hljóði í því Skessuhorni sem ég bjóst við að hann notaði til að biðja mig afsökunar, sérstaklega af því hann hélt því fram í útvarpsþætti að hann hefði alls ekki lesið bloggfærslurnar mínar sem hann þó lýsti yfir að væru þrugl, hefði einungis lesið Fjórðungsdóminn, en í honum hefur hann ekki hrakið eitt einasta atriði. Það er merkilegt hve framámenn í bæjarpólitíkinni eru duglegir að ýmist róma eða tæta niður texta sem þeir hafa alls ekki lesið … er þetta eitthvert nýtt trend? 

Það verður gaman að taka upp léttara og ábyrgðarlausara hjal á þessu bloggi nú síðsumars og ég stefni á að hvíla heimildablogg um sinn.

Ummæli (2) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness