Færslur frá 12. ágúst 2011

12. ágúst 2011

Hvernig eiga miðaldra konur að haga sér á netinu?

Sumir segja að það sé vandlifað í þessum heimi. Það kann að vera rétt en ég get einnegin staðfest að það er vandbloggað! Hvað er við hæfi að kona á mínum aldri tjái sig um? Hvað má kona á mínum aldri segja á facebook og bloggi? Hver eru “takt og tone” í lífi ánetjaðra miðaldra kvenna? (Hér vantar átakanlega lífsstílsbók sem kona eins og ég gæti farið eftir. Það er ekki nóg að hafa einungis aðgang að bókum sem segja manni hvernig hægt sé að horast, forðast kolvetni, hætta að reykja, velja réttu klæðin og meiköppið, yngjastumtíuáránskurðaðgerðar o.s.fr.)

TatrabusÉg á núna tvær hálfar færslur sem stuða. Þær tengjast dálítið: Önnur er um bókina Þeir tóku allt - meira að segja nafnið mitt eftir Theu Halo. Hin er um að það sem haldið er fram í bókinni, sumsé að ákveðin þjóð endurskrifi sögu sína og þurrki út nokkur þjóðarmorð, jafnt úr eigin sögukennslu sem sögukennslu í útlöndum (aðallega BNA) sé faktískt rétt. Ég hélt að þessar staðhæfingar hlytu að vera orðum auknar en við uppflettingar á þeirri ágætu Wikipediu komst ég að því að þær standast. Hefði haft gaman af því að skoða þetta betur.

En … birti ég þessar færslur er ég víst rasisti. Svo ég ákvað að birta þær ekki.

Þá datt mér í hug að fjalla um aðra endurskrifaða sögu, nefnilega sögu Tatratröllsins á Íslandi enda tengist það (vonandi sáluga tröll) fjölskyldu minni. Ella hefði ég tæplega haft áhuga á því. Einn FB-vinur kom með hvatningu í gær eða fyrradag um að sem flestir skrifuðu inn á FB-síðu Tatrabus því athugasemdum Íslendinga væri eytt jafnóðum og því rétt að leyfa stjórnendum síðunnar að hafa eitthvað að gera. Þessari hvatningu fylgdi tengill á 6 - 8 skjámyndir af athugasemdum á https://www.facebook.com/#!/tatrabus sem öllum hafði verið eytt. Ég einhenti mér auðvitað í athugasemdir og einhverra hluta vegna hafa tatratröllin leyft mínum að standa … Kannski kunna Tékkar einkar vel við nafnið Harpa? E.t.v. hljómar fullt nafn mitt vel í eyrum stjórnenda síðunnar (nóg er af errum og errpé og hrei og e.t.v. öðru sem gleður tékknesk eyru … hvað veit ég  … nema ég gladdist auðvitað yfir að sleppa gegnum tékkið).

TatrabusSvo fékk ég bráðfyndið bréf í dag gegnum síðuna þar sem Filip nokkur Kadlec heldur því blákalt fram að bróðir minn hefði ekið á meir en 100 km hraða í veg fyrir saklausa gula Tatratröllið, á moldaslóða á Dómadalsleið, hefði svo játað að vera alger auli að keyra jeppa enda ætti hann bara Toyotu Corollu, að þeir góðu Tékkar í rútunni hefðu veitt honum áfallahjálp og læknishjálp og guðmávitahvað … og að þetta væri þvílíkur drulludeli að yrði hann á vegi Filips ætlaði hann sko að spýta á veginn fyrir framan hann (bróður minn)! Filip þessi kvaðst hafa verið farþegi í gula Tatratröllinu þegar þessi íslenski ónytjungur svínaði fyrir tröllið. (Bróðir minn svaraði bréfinu, því svari var náttúrlega umsvifalaust hent út en önnur tilraun virðist hafa tekist í bili því svarbréfið hangir enn inni. Kannski eru stjórnendur síðunnar í pásu? Altént geta áhugasamir farið á FB síðu tatratröllsins sem krækt er í hér að ofan og fundið hann Filip, frekar ofarlega á síðunni, og svar bróður míns, sparslað inn í langa bréfið Filips, er í athugasemd. Hann bað Filip vinsamlegast um að miða vinstra megin á veginn ef til þess kæmi að hann spýtti …)

TatrabusEn … nei … bloggi ég um þróun afsökunarbeiðni Tatrabus (sem er nú einkar áhugavert að skoða) eða þegar gula skrímslið var næstum búið að drepa bróður minn í fyrrasumar eða fetti fingur út í versjón Filips telst ég víst komin í stríð við tékkneska ferðaskrifstofu! Og athugasemdirnar á FB-síðunni teljast víst aggressívar. Þær eru náttúrlega frekar áberandi enda búið að henda athugasemdum frá flestum öðrum … en árásargjarnar? Tja, miðað við FB-umræðu almennt myndi ég nú ekki telja það. En sumir eru viðkvæmari en aðrir …

Svoleiðis að ég lagði frá mér byrjun á bloggi um Tatratröllin (og upprifjun á svarthvítri auglýsingu í RÚV í gamla daga og pælingar um góða kynningu á Grieg í þeirri auglýsingu og …)

Svo um hvern fjandann má kona öfugu megin við fimmtugt blogga? Væntanlega eitthvað kvenlegt og sætt og jákvætt svo viðkvæmar sálir fái ekki hland fyrir hjartað, skyldi maður ætla. Og vissulega hef ég bloggað svolítið um hannyrðir, sem hljóta andskotakornið að teljast kvenlegt og ásættanlegt bloggefni. Á hinn bóginn er ég löngu búin að sjá að vefur hentar miklu betur fyrir svoleiðis umfjöllun og er sosum með vef í bígerð - en vefur er ekki blogg.

Neyðin kennir naktri konu að spinna (að vísu kann ég ekki að spinna en ég er líka yfirleitt í fötum) og blessunarlega var því einmitt slegið föstu í dag, loksins, hver væru áhugamál kvenna! Svo nú veit ég það og ætti náttúrlega að skipuleggja næstu færslur með hin PC-réttu kvenlegu áhugamál í huga. Þau eru: Snyrtivörur, útlit, líkamsrækt og kynlíf. (Heimild: “Það eina sem konur hafa áhuga á“, Pressan.is 12. ágúst.)

Að vísu lýst mér bölvanlega á flest þessara blogg-efna svo ef lesendur geta bent mér á einhver fleiri bloggefni sem mættu teljast við hæfi miðaldra bloggynju eru tillögur vel þegnar. Ég set mörkin við bakstur og eldamennsku - það eru takmörk fyrir öllu, meira að segja hversu langt er gengið í þóknast þeim sem vita svo ofsalega vel hvernig aðrir eiga að haga sér, hugsa og tjá sig á netinu ;)

Svo reikna ég fastlega með því að þessi færsla teljist ekki pólitískt rétt og falli ekki í kramið í hjá öllum …

  

Ummæli (7) | Óflokkað, Daglegt líf