Færslur frá 15. ágúst 2011

15. ágúst 2011

Orð og kenningar

Í gær byrjuðu vangaveltur um orðið tvískynjungur á þræði eins FB-vinar míns. Ýmsar uppástungur að merkingu hafa borist enda er orðið munaðarlaus ómagi svo að segja og sárvantar merkingu! Tvískynjungur er einmitt orð sem manni finnst að ætti að vera til í íslensku. Nú þarf bara að finna því stað og skýringu.

Umræðan á FB-þræðinum minnti mig svolítið á bók sem fékkst í bókabúðinni sem ég vann einu sinni í, The Meaning of Liff eftir Douglas Adams. Þar var ágætum munaðarlausum orðum fundin merking og rökstutt að akkúrat þessi orð vantaði í ensku (þrátt fyrir að það tungumál búi reyndar ljómandi vel að orðum miðað við orðsnauð tungumál eins og íslensku). Í Wikipedia-síðunni sem titillinn krækir í er m.a. tekið dæmið Abinger sem nota á um „þann sem vaskar upp allt nema steikarpönnuna, osta-rasparann og pottinn sem súkkulaðisósan var búin til í.“ Ég reikna með að orðið Abinger gæti komið sér vel einhvern tíma í ensku heimilishaldi og vona að það og fleiri orð Douglas Adams hafi náð fótfestu í engilsaxneskri tungu.

Margir íslenskufræðingar kannast við skinnsemiskenninguna sem sett var fram í Skinnduldarbréfi. Ég hef bréfið ekki við hendina en man að í því voru ágætis útskýringar á orðatiltækjum eins og flýgur fiskisagan eða að lesa langa rollu og af hverju Grágás heitir Grágás, hvað er langhundur og tengsl þessi við hundleiðinlegur og uppruna orðsins lesbía (sem upphaflega var lespía, lespíur sátu á réttaveggjum þá réttað var á haustin). Meira að segja örnefnið Launrétt (í Laugarási) er prýðilega útskýrt í þessari grein. Skinnsemiskenningin er rökstudd með pottþéttum orðsifjafræðilegum og sögulegum rökum.

Þjóðsögulegar skýringar á orðum og orðatiltækjum hafa löngum tíðkast. Má nefna hið dularfulla örnefni Tintron en því hefur verið haldið fram að sé kallað hástöfum tin ofan í Tintron svari bergmálið tron. Ég hef ekki prófað en þykir þetta sosum ekkert ólíklegt. (Og af því ég hef búið árum saman nálægt Tintron og margoft komið að staðnum, meira að segja kíkt oní’ann telst ég fullgild örnefnaheimild, sé miðað við staðal Sagnaritans Okkar.)

HundurAðra áhugaverða skýringu las ég fyrir löngu, man ég því miður ekki hvar, á því hvernig orðalagið að rísa upp við dogg hefði orðið til í íslensku. Þetta má rekja til þess að ensk skip fórust býsna oft við Íslandsstrendur í ólgusjó fyrri tíma. Hálfdrukknuðum reknum breskum sjómönnum var bjargað heim á bæi og þeir háttaðir ofan í ylvolg rúm (stundum með heimasæturnar til að hlýja sér, alveg eins og þeim hálfdrukknuðu reknu frönsku sjómönnum eða hálfdrukknuðu reknu basknesku sjómönnum o.s.fr. enda ekki búið að finna upp hitapokann … en það er önnur saga). Þegar svoleiðis hálfdrukknaður breskur sjómaður rankaði við sér var hundgá gjarna hið fyrsta sem hann heyrði (í gamla daga var ekki búið að finna upp geltsnauða hunda, eins og allir vita). Sjómaðurinn reisti þá höfuð frá kodda og stundi: „A dog!” Kættist þá heimilisfólkið mjög enda ljóst að sjóarinn myndi hafa það af og lauk upp einum rómi: „Nú er hann risinn upp við dogg!“ Og þetta festist í málinu (af því ekki var búið að finna upp „málhreinsun“ í gamla daga, eins og allir vita).

Þórbergur Þórðarson hafði mikinn áhuga á orðum. Í greininni „Tumma Kukka“ (sem finna má í Eddu Þórbergs Þórðarsonar, fyrst útgefinni 1941 og ég fann ekki upplýsingar um hvort eða hvar greinin hefði birst áður) eru ýmsar frábærar skýringar á finnskum orðum. Einna fyrst reynir hann að greina orðið ravintola:

Afþvíað ég hef gugtað við málfræðiiðkanir í hartnær þrjá áratugi hefur smámasaman vaxið innra með mér óviðráðanleg ástríða til að gera mér grein fyrir, hvernig orðin í tungum þjóðanna séu hugsuð. Rafintóla! endurtók ég nú með sjálfum mér, - það hlýtur að vera hús, sem eitthvað er gert í með rafmagni og tólum, líklega hóruhús með rafmagnsaðgerðum á eftir. En þegar ég mjakast nær þessari kitlandi byggingu, sé ég, að undir Rafintola stendur með miklu smærra letri: Restaurant. Þetta fannst mér fyndið: Rafintóla - Restaurant! Bara að Restaurant sé nú ekki veiðibrella til að narra mann inn til að gera hitt fyrir peninga einsog á sæluhúsunum í París.

Svartleitt blómOg þegar „ef til vill dularfyllsta og furðulegasta atvikið í lífi“ Þórbergs henti, þegar hann leit í glugga bókabúðar og sá „skruddudjöful“ með titlinum Tumma Kukka skáldaði Þórbergur afar sorglega sögu um stúlkuna Tummu Kukku, sem var „borin og barnfædd í Norður-Finnlandi, útivið hafið, þar sem miðsumarsólin sezt ekki á næturnar og karlmennirnir berjast með rýtingum.“ Og orti um sorgleg örlög hennar vísukorn sem löngum hefur verið sungið á samkomum íslenskunema undir lagi eftir Bellmann, mætti jafnvel kalla einkennissöng íslenskudeildar HÍ (a.m.k. til skamms tíma):
 

Hún trausta Tumma Kukka,
hún tók uppá þeim fjanda’að sukka.
En lægst komst hennar lukka,
er lagðist hún með Kristófer.
Þau sváfu þar á sænum
og sungu’um ást í morgunblænum.
Á grundarmöttli grænum
nú grætur hún það, sem liðið er.
Sem liðið er,
sem löngu liðið er.

Sorglegt ;(  Ævisögu Tummu Kukku má annars lesa í smáatriðum í samnefndri grein í Eddu Þórbergs Þórðarsonar og ekki vil ég spilla fyrir rómantískum orðsifjafræðingum með frekari upplýsingum um hana.

Þórbergur var raunar ekki bara lunkinn í að finna út hvað finnsk orð merktu, með samanburðarmálfræði að vopni, heldur áttaði hann sig einnig á gífurlegum áhrifum íslensku á önnur mál. Þetta er rakið í neðanmálsgrein í „Tummu Kukku“:

Ég hef lengi furðað mig á því, að fræðimenn og ættjarðarelskendur, sem haldið hafa og halda á lofti mikilleik norrænnar menningar, skuli ekki hafa komið auga á það, hvernig áhrif hennar hafa fyrr á öldum teygt sig svo að segja útyfir allan heim. Ég hef t.d. fundið fornnorræna orðstofna í japanskri tungu. Læt ég mér í þetta sinn nægja að benda þar á sem dæmi nafnið á hinum nýfráfarna utanríkismálaráðherra japana: Matzouka. Þetta er æfagamalt, norrænt viðurnefni á kvenmanni, matsújoka = mat sú jóka(t) = sú sem jók ekki mat, matarspillir, eyðsluhít. Slíkt heiti virðist og hæfa sæmilega ráðherra í morð-og tortímingar-ráðuneyti. […] Dálítið öðru vísi er hugsað íslenzka orðið Bak kú, sbr. (Rekavík) bak Látur, sem geymzt hefur í nafni rússneska héraðsins Bakú (annað k-ið fallið burt vegna samruna orðanna).

Í meginmáli rökstyður Þórbergur að bærinnn og héraðið Guadalajara á Spáni, sé að öllum líkindum „forníslenzkt kvenmannsheiti, lagað að stafsetningu og framburði eftir spænskri tungu úr Godala-Jara, þ.e. Jarþrúður frá Goðdölum (í Skagafirði), sem einhvern tíma í fyrndinni hefur flutzt til Spánar og setzt að í umræddu héraði, reist sér þar bæ, sem fengið hefur nafn hennar og síðar einnig orðið heiti héraðsins.“

*

Þessar skemmtilegu kenningar um orð og orðsifjar hafa smám saman verið að rifjast upp fyrir mér undanfarið, síðan ég las síðuviðtal við Þorvald Friðriksson í síðasta Skessuhorni. En ég fjalla um hans kenningar og möguleg áhrif þeirra á hvernig útsvarinu okkar Skagamanna verður ráðstafað næstu árin í næstu færslu.

  
  
 

Ummæli (4) | Óflokkað, Daglegt líf