Færslur frá 19. ágúst 2011

19. ágúst 2011

Bókmenntablogg fyrir bæjarstjórann

Enn eitt innleggið í Sögu Sögu Akraness

Þá ber svo til að sveinn kemur að Reini velríðandi með töluverðu fasi, og flytur Jóni Hreggviðssyni þau boð að mæta fyrir rétti útá Skaga hjá sýslumanni að viku liðinni. […] Réttur var settur í stofu sýslumanns og Jón Hreggviðsson ákærður um að hafa á Þíngvöllum við Öxará móðgað vora allrahæstu tign og majestet og greifa útí Holstinn, vorn allranáðugasta arfakóng og herra, með ósæmilegu orðaspjátri í þá veru að þessi vor herra hafi nú tekið sér þrjár frillur fyrir utan hans ektaskap. […] Síðan var réttinum slitið og uppkveðinn dómur í málinu á þá leið að Jón Hreggviðsson skyldi greiða konúnginum þrjá ríxdali innan mánaðar, en koma húð fyrir þar gjald þryti.
(Halldór Laxness. Íslandsklukkan, þriðja útg. Helgafell 1969, s. 13-14.)

Hér á Skaganum er Jóni Hreggviðssyni, „afrekum“ hans og lífssögu gjarna hampað, sbr. þennan fróðleiksmola á síðu Akraneskaupstaðar, þar sem Jón Hreggviðsson er kallaður „einn frægasti sonur Akraness“ (orðalag sem raunar minnir óþægilega á Öldurdals frægasti sonur en sjálfsagt er ekki hægt að gera þá kröfu til þeirra sem skrifa á vef bæjarins að þeir hafi lesið Bör Börsson).

Nú höfum við Skagamenn eignast annan okkar frægastan son, að vísu tvímælalaust ættleiddan, af hvurjum? Líklega af bæjarstjórnarmönnum, ekki hvað síst okkar ágæta bæjarstjóra, Árna Múla Jónassyni. Nútímaútgáfan af Íslandsklukkunni er skrifuð svona:

Það er vegið þannig að æru fólks að okkur fannst fullt erindi til að skoða þetta. Einstaklingar eru þjófkenndir og sakaðir um sögufals og við vonum að Páll Baldvin sé maður að meiri, viðurkenni mistök sín og biðjist afsökunar,“ segir Árni Múli Jónasson, bæjarstjóri á Akranesi, um bréf sem lögmaður bæjarins og tveggja einstaklinga, þeirra Gunnlaugs Haraldssonar, höfundar Sögu Akraness, og Kristjáns Kristjánssonar, útgefanda bókarinnar, sendi Páli Baldvini Baldvinssyni, bókagagnrýnanda Fréttatímans, þar sem krafist er leiðréttingar og afsökunarbeiðni á fimmtán ummælum Páls í bókadómi hans um fyrsta bindi Sögu Akraness sem birtist í Fréttatímanum 8. júlí síðastliðinn. […]  Í bréfinu fær Páll Baldvin tvær vikur til að verða við beiðni lögmannsins um leiðréttingu og afsökunarbeiðni, ellegar verði leitað annarra leiða til að rétta hlut þremenninganna, til að mynda fyrir dómstólum.
(„Kaupstaður, höfundur og útgefandi vilja leiðréttingu og afsökunarbeiðni“. Fréttatíminn 19.08 2011.)

Blessunarlega fara Árni Múli og félagar ekki fram á að komi húð fyrir þar afsökunarbeiðni þryti svo að því leytinu er hinn yfirlýsingaglaði og ofursómakæri bæjarstjóri okkar aðeins í takt við nútímann.

Eins og aðrir áhugamenn um Sögu Sögu Akraness fylgist ég spennt með framhaldinu og hef raunar þegar óskað upplýsinga frá Akraneskaupstað um hvur hafi og muni borga þjónustu lögmannsins, sem og í hvers umboði okkar ágæti bæjarstjóri akti því bæjarstjórn er í fríi og ekki þykir mér líklegt að þorri Skagamanna styðji yfirlýsingar og hótanir bæjarstjórans um lögsókn. (Þó gætu einhverjir eflaust sætt sig við einhvern hluta nýjustu yfirlýsingar Árna Múla um ágæti Sögu Akraness, þ.e. að hún sé „bullandi fín“.)

Af því þetta er bókmenntafærsla er við hæfi að ljúka henni á kvæðisbroti eftir föður bæjarstjórans okkar, með vinsamlegri ábendingu um að í vísunni er rætt um sýslumenn en ekki gagnrýnendur:

Og sýslumenn tók hann ef gleiðir þeir gerðust
og gaf þeim að líta pístólur
og skjálfandi lét þá að fótum sér falla
en fátækum gaf hann rúsínur.

(Úr „Landsreisu Jörundar“ eftir Jónas Árnason.)
 
 
 
 
 
 

Ummæli (2) | Óflokkað, Saga Sögu Akraness