Færslur septembermánaðar 2011

23. september 2011

Saga Akraness og Saga Sögu Akraness

Það liggur nokkur straumur af Eyjunni inn á bloggið mitt núna, í tilefni fréttar af viðbrögðum Páls Baldvins Baldvinssonar við hótunum og ummælum míns góða bæjarstjóra o.fl. sem tengjast Sögu Akraness.

Ég bloggaði á sínum tíma færsluröð um Sögu Sögu Akraness, sem sést í færsluflokkun til hægri á þessu bloggi. En lesendum sem hingað rata af Eyjunni akkúrat núna til hægðarauka bendi ég á:

Hér má hlaða niður flestöllum færslum um Sögu Sögu Akraness í einu pdf-skjali (sem er mun þægilegra að lesa en færslurnar í bloggumhverfinu).

Hér er Fjórðungsdómur um 18 marka bók (hann er að sjálfsögðu einnig að finna í pdf-skjalinu). Ég vek athygli á því að Páll Baldvin skrifaði sinn ritdóm óháðan þessari færslu (þótt mínum ágæta bæjarstjóra hafi dottið annað í hug) og að þessi fjórðungsdómur er ekki alvöru ritdómur því ég komst aldrei yfir nema hluta Sögu Akraness I, þá gafst ég hreinlega upp á að lesa textann og horfa á stolnu myndirnar. Fjórðungsdómnum var líka aldrei annað ætlað en vera smá innskot í sögu sagnaritunarinnar og ótrúlegan peningaaustur í sagnaritara sem aldrei stóð skil skv. samningum, vangaveltur um hverjir í bæjarapparatinu bæru mesta ábyrgð á sukkinu og hvers vegna o.s.fr.

Hér er Körlunum svarað, þ.e.a.s. færsla þar sem ég svara harmatölum Ritnefndar um sögu Akraness, bæjarstjórans Árna Múla og langloku Gunnlaugs Haraldssonar, sem tóku drjúgan skerf af Skessuhorni vikuna eftir að Fjórðungsdómurinn birtist. Ég kræki í það af þeirra efni sem er aðgengilegt á vef.

Efst í færsluflokknum Saga Sögu Akraness eru svo örfáar færslur sem skrifaðar voru eftir að ég tók saman færslurnar í pdf-skjalið, þ.á.m. svar við aðsendri grein Jóns Torfasonar í Skessuhorn, þar sem hann ber blak af sagnaritara. Í þeirri færslu, Sögunni umfjölluðu, kræki ég í grein Jóns Torfasonar.

Þeir sem ekki hafa fengið sig fullsadda fyrir löngu af sápuóperunni um sögu Sögu Akraness hafa kannski einhver tímasparandi not af þessum tenglum. 

Ummæli (0) | Óflokkað, Bækur, Saga Sögu Akraness

6. september 2011

Ekki styðja SÁÁ!

Ef þetta er eina leiðin til að losna við Gunnar Smára Egilsson úr formannsstóli SÁÁ mæli ég eindregið með aðferðinni og hvet sem flesta til að segja sig úr þessum fyrrum ágæta félagsskap strax í dag! Málflutningur formanns SÁÁ einkennist nefnilega af tvennu (í þessu sem ég hef lesið eftir hann):

* Að reyna að gera annan þjóðfélagshóp að sökudólgi og viðskiptavini SÁÁ saklaus fórnarlömb þeirra sökudólga

Að kynna sér aldrei nein mál áður en hann tjáir sig stórkarlalega um þau

Fyrirsögnin er að því leytinu villandi að ég er ekki í SÁÁ og get því ekki gengið úr félaginu, því miður. Okkur hér á heimilinu hefur þótt nóg að annað hjóna greiddi í SÁÁ og hitt léti duga að kaupa álfa, geisladiska eða styðja félagið öðru vísi. Og eftir ómaklegar árásir Gunnars Smára á nafngreinda lækna sem sinna fólki með ADHD og ómerkilegar dylgjur í garð þess sjúklingahóps sagði maðurinn sig auðvitað úr SÁÁ og okkur kom saman um að álfakaupum og öðru væri sjálfhætt. Eftir að Gunnar Smári gerði framhaldsskólakerfið að sökudólgi þess að æ fleiri ungmenni leita til SÁÁ hvet ég alla aðra eindregið til að hætta að halda uppi manni sem Gunnari Smára með sínum framlögum (SÁÁ greiðir honum formannslaunin) og leggja ekki nafn sitt við SÁÁ meðan hann er í forsvari fyrir samtökin. Hvað verður næst gert að sökudólgi? Má ég stinga upp á: Öryrkjum, Þjóðkirkjunni, RÚV?

Þótt ég hafi ekki verið félagi í SÁÁ hef ég tekið nokkurn þátt í starfi samtakanna, sá t.d. mánaðarlega um AA fundi á Vogi um nokkurt skeið, fyrir mörgum árum. Og fór í meðferð hjá SÁÁ 1989 (raunar var það hinn útmálaði rítalínáskrifandi geðlæknir Grétar Sigurbergsson sem kom mér í þá meðferð og sýndi einstaka næmni í að greina alkóhólistann mig, mér tókst nefnilega að blekkja flesta aðra heilbrigðisstarfsmenn). Mér hefur verið vel til samtakanna síðan … þangað til í vor. En nú fer því fjarri að ég telji mig eiga nokkra einustu samleið með illkvittnum formanni og talsmanni SÁÁ, síst af öllu eftir að hafa lesið miðjuviðtalið í SÁÁ blaðinu sem birtist á föstudag. (Sjá SÁÁ blaðið, s. 8-9.)

Viðtalið heitir „Það skemmtilega er alltaf satt“ en er í rauninni varla viðtal heldur eintal því hinn anginn af sama meiði og Gunnar Smári, Mikael Torfason, sem „tekur viðtalið“, aktar helst sem bergmál í þessari langloku.

Í þessu „viðtali“ er innihaldið nokkurn veginn það að framhaldsskólakerfið hafi brugðist fíknum ungmennum og lausnin á vanda þeirra sé fólgin í því að nokkrir karlar komnir vel yfir miðjan aldur (þrír á fimmtugsaldri, fimm á sextugsaldri og svo Mikael Torfason sem nær einungis að vera hátt á fertugsaldri) muni messa yfir unglingunum og bjarga unga fólkinu til að: „(…) ná áttum, kynnast sjálfum sér, sættast við sig og finna hvað þeim finnst í raun gefandi og skemmtilegt […] Þetta er sambland af meðferð, skemmtun, námi, íþróttum, leiklist, vinnu og allskonar dóti.“ (Feitletrun í tilvitnun er mín.)

Af aldarfjórðungsreynslu sem framhaldsskólakennari þykir mér afar ólíklegt að unglingar líti á þessa menn öðru vísi en sem gamla karla, líklega gamla karla dauðans. Viðmið unglinga um aldur fólks er nefnilega svolítið öðruvísi en viðmið fólks á fimmtugs- og sextugsaldri. Sumir af körlunum eru sjálfsagt ágætismenn en halda menn virkilega að ræður Bubba, t.d. síbyljan um þegar hann reykti svartan afgan um árið eða yfirlýsingar hans um „þjóðfélagið í dag“ séu vænlegar til að unglingar „nái áttum, kynnist sjálfum sér o.s.fr.“? (Nema hann einskorði sig við Jeeeee í þessu fyrirhugaða björgunarstarfi, sem væri líklega mjög til bóta.)

Svo má náttúrlega líka spyrja sig að því hvernig 18 ára stúlkur sem eru fíklar samsami sig þessum gömlu körlum en það er fljótafgreitt í viðtalinu: „[…] og þegar talið berst að stelpum segir Bubbi Morthens að þær séu oft ekki jafn gallaðar og strákarnir hlæja flestir en Jón Gnarr bætir því við að þær stæri sig heldur ekki eins mikið af öllu ruglinu.“  („Strákarnir“ sem hlæja þarna eru karlarnir gömlu. Feitletrun er mín.) Skv. uppslætti í æviágripi þeirra virðast þeir flestir helst hafa unnið sér til ágætis að hafa fallið á samræmdu prófunum eða hætt í skóla eftir grunnskóla. (Raunar eru þeir flestir eða allir listamenn en það er svona meira aukaatriði, eins og þetta er sett fram á spássíu við einræðu Gunnars Smára.) Það er náttúrlega ánægjulegt að fá staðfestingu sjálfs Bubba og hinna „strákanna“ á að stelpur í meðferð séu „oft ekki jafn gallaðar“ og strákar í meðferð - þetta eru raunar nýjar fréttir fyrir mig og sjálfsagt marga aðra, hugsanlega gleðilegar fréttir?

Í viðtalinu heldur Gunnar Smári því fram að „kerfið“ sé „arfavitlaust“ og nefnir sem rök fyrir því að um 70% af árgangi fari í framhaldsskóla, vegna „óbærilegs þrýstings foreldra“ og 30% „finna sig ekki í náminu, leiðist og hætta. […] Það er ekkert að þessum krökkum. Það er hins vegar eitthvað alvarlegt að skólunum.“ (Feitletrun mín.)

Raunar eru tölur um brottfall úr framhaldsskóla mjög á reiki og fer allt eftir því hvernig talið er. Séu notuð viðmið OECD telst það brottfall ef nemandi lýkur ekki þremur árum í íslenskum framhaldsskóla. (Í Danmörku dugir að ljúka tveimur árum í framhaldsskóla til að teljast ekki brottfallinn því þar er nám til stúdentsprófs þriggja ára … þetta er því mismunandi eftir löndum. Í Noregi og Svíþjóð teljast nemendur hafa lokið framhaldsskóla hafi þeir tollað í skólanum þótt þeir hafi ekki staðist lágmarkskröfur en á Íslandi þarf að „ná“ ákveðinni lágmarkseinkunn í fögum. Samanburður milli landa, meira að segja bara Norðurlandanna, er því mjög erfiður.)

ASÍ hefur haldið því fram að rúm 30% fullorðins fólks hafi ekki lokið framhaldsskóla. Skv. OECD höfðu 64% Íslendinga á aldrinum 25-64 ára lokið framhaldsskólanámi árið 2008 og líklega byggir ASÍ á þeim tölum og aðlagar enda standast þær ekki því viðmið OECD passa ekki við Ísland. Í þeim hópi sem ekki teljast hafa lokið framhaldsskólanámi (og ASÍ telur væntanlega brottfall) eru t.d. allir sem luku verslunarprófi, gagnfræðaprófi, gagnfræðaprófi + tveggja ára framhaldsnámi o.s.fr. Skv. tölum Hagstofunnar hafa á síðustu árum um 85% fólks á aldrinum 15-19 ára verið í skóla á hverjum vetri. Inni í þeim 15% sem út af standa eru t.d. iðnnemar sem eru að ljúka starfsþjálfun á vinnustað. Samanburður við önnur Evrópulönd sýnir að skólasókn 15 til 19 ára unglinga getur tæpast verið öllu venjulegri en hér á landi, ef eitthvað er þá er hún ívið meiri en að meðaltali í OECD-löndum.

Svoleiðis að ég spyr: Hvaðan koma upplýsingar Gunnars Smára um að um 70% árgangs fari í framhaldsskóla og 30% þess hluta falli brott í framhaldsskólanámi? Fyrir utan það að þessar tölur eru bull þá þætti mér líka gaman að vita hvaðan honum kemur sú vitneskja að brottfallið stafi af því að nemendur „finni sig ekki í náminu“, leiðist og hætti. Ennfremur væri óskandi að hann upplýsti hvað er svo alvarlega að skólunum að vesalings nemendurnir hrökklast þaðan af leiðindum og villu síns vegar, þrátt fyrir að það sé „ekkert að þessum krökkum.“ Og hvernig þetta tengist starfi SÁÁ væri óskandi að formaðurinn upplýsti því ef ekkert er að þessum krökkum eru þau varla kúnnar hjá SÁÁ. (Síðast þegar ég vissi var Vogur skilgreindur sem sjúkrahús og þiggur fjármuni úr ríkissjóði sem sjúkrahús. Er Vogur kannski eitthvað annað? Æskulýðsmiðstöð? Skátabúðir? Ævintýraland?)

Kannanir sem lagðar hafa verið fyrir nemendur í íslenskum framhaldsskólum sjálfum benda til að flestir nemendur séu ánægðir með skólann sinn. (Svona kannanir eru einn liðurinn í sjálfsmati skólanna sem þeim er gert að uppfylla.) Þær kannanir er ekki hægt að nálgast opinberlega á einum stað en stundum eru birtar niðurstöður úr þeim á heimasíðum framhaldsskólanna. Það mætti ætla að rödd þeirra 30 prósenta af 70 prósentunum hans Gunnars Smára heyrðist í slíkum könnunum, væru þau til. En kannski eru greyin fallin brott áður en kannanirnar eru gerðar?

Þrátt fyrir að gengi nemenda í framhaldsskóla og menntunarstig þjóðarinnar sé með prýðilegu móti miðað við önnur Evrópulönd er ekki svo að brottfall sé ekki rætt innan veggja framhaldsskóla - slíkt var gert árlega í þennan aldarfjórðung sem ég starfaði við kennslu o.fl. innan þess kerfis og er örugglega enn rætt. Langflestir framhaldsskólar landsins bjóða upp á fjölbreytt námsúrval og námsleiðir. E.t.v. hefur farið fram hjá Gunnari Smára að annað aðalmarkmið framhaldsskólans er að mennta fólk til að vera þegnar í lýðræðissamfélagi. Hitt aðalmarkmiðið er að útskrifa fólk með formlega menntun, ýmist starfsréttindi eða stúdentspróf, sem gefur engin formleg réttindi nema til inntöku í háskóla. Hefðbundnir menntaskólar með bekkjarkerfi og einungis stúdentspróf í boði eru lítill minnihluti íslenskra framhaldsskóla. Heimurinn, þ.m.t. framhaldsskólakerfið, hefur nefnilega breyst talsvert síðan Gunnar Smári var milli tektar og tvítugs. Og ekki eru allar breytingar sjálfkrafa til hins verra.

Vinnumálastofnun, verkalýðsfélög, sveitarfélög og símenntunarmiðstöðvar hafa gengist fyrir margs konar námskeiðum eða starfi til eflingar atvinnulausum unglingum. E.t.v. hefur Gunnar Smári ekki heldur frétt af því. (Það er kannski öllu verra ef Jón Gnarr, borgarstjórinn í Reykjavík, hefur ekki heyrt af svoleiðis en mér er svo sem slétt sama um það - Reykvíkingum var nær að kjósa hann og brandarinn löngu hættur að vera fyndinn.)

Bara sem dæmi bendi ég á átakið Ungt fólk til athafna, þar sem einmitt er boðið upp á alls konar nám, skapandi starf og listir, sjálfseflingu og sálfræðilegan stuðning o.s.fr. Þetta er eitt dæmi af mörgum um verkefni sem hafa miðað að því gefa ungu fólki tækifæri til að  „ná áttum, kynnast sjálfum sér, sættast við sig og finna hvað þeim finnst í raun gefandi og skemmtilegt“, mætti í rauninni jafnvel kalla „sambland af meðferð, skemmtun, námi, íþróttum, leiklist, vinnu og allskonar dóti.“ Markhópurinn í verkefninu sem ég tengi í er fólk yngra en 25 ára og settar „hafa verið upp 5 leiðir sem til samans er ætlað að mynda yfir 2.000 ný starfs- eða námstækifæri fyrir ungt fólk“, í samstarfi við ýmsa aðila. En ég reikna raunar með að ekki hafi verið leitað sérstaklega eftir gömlum karlkyns fyllibyttum og dópistum og droppátum úr skóla til að kenna, heldur notaðar aðrar kríteríur í kennara- og leiðbeinendavali (sem útiloka svo sem alls ekki gamlar fyllibyttur o.þ.h. en gera þær ekki að aðalatriði) .

Ég nenni ekki að rekja meir bullið úr Gunnari Smára Egilssyni í viðtalinu „Það skemmtilega er satt“. Auðvitað vonast ég til að SÁÁ losi sig sem fyrst við manninn svo venjulegar gamlar fyllibyttur eins og ég geti verið þekktar fyrir að styrkja samtökin aftur. Og væri ég enn starfandi framhaldsskólakennari þætti mér helvíti hart að sitja undir ásökunum um að taka þátt í „kerfi“ sem gerði ungt fólk bókstaflega að aumingjum, fyllibyttum og dópistum, sem þeir Bubbi og hinir „strákarnir“ ætla nú að ráða bót á en auðvitað einungis ef við „Hin“ borgum. Viðtalinu við Gunnar Smára lýkur nefnilega á sníkjum.
 

Þeim sem vilja lesa frekari umfjöllun um þennan dæmalausa málflutning Gunnars Smára Egilssonar er bent á ágæta bloggfærslu Unnar H. Jóhannsdóttur, „Galinn Gunnar Smári!“ Og þeir sem nenna að setja sig inn í ruglandi sem einkennist af óskýru orsakasambandi, illa skrifuðum texta þar sem er vaðið úr einu í annað, sleggjdómum, úr sér gengnum hugmyndum „reiðra ungra manna um samfélagið í dag“ o.s.fr. er bent á að lesa „Það skemmtilega er alltaf satt“ í nýútkomnu SÁÁ blaði, sem ég tengdi í fremst í færslunni.
 
 
 
 
 
 
 
 
 

Ummæli (24) | Óflokkað, Daglegt líf