Færslur frá 13. október 2011

13. október 2011

Af þunglyndi, reynslu og mismunandi niðurstöðu um lausnir.

Ég hef ekki getað bloggað um nokkurt skeið vegna þunglyndis. Raunar hef ég verið ansi veik í meir en ár núna án hlés en slíkt hefur ekki gerst áður. Öll lyfjaráð eru fullprófuð, sem og raflækningar, nálastungur o.fl. HAM meðferð sem ég sótti í fyrravor nýttist prýðilega til að fást við kvíða og ég nota þær aðferðir sem ég lærði þar enn þann dag í dag, þegar þarf en raunar leggst þunglyndið yfir kvíðann svo ég fæ yfirleitt ekki ofsakvíðaköst eða einkenni almennrar kvíðaröskunar nema ég sé sæmilega frísk af þunglyndi. HAM virkar hins vegar ekki baun á þunglyndið.

Fyrir skömmu ákvað ég að prófa nýtt ráð og fór í sólarlandaferð. Ég fór til Krítar, í fimmta sinn, dvaldi á stað sem ég gjörþekki, í kompaníi við indæla danska ellilífeyrisþega, á rólegum slóðum og himnesku veðri. Það kom ekki í veg fyrir að á þriðja degi dvalarinnar fékk ég slæmt þunglyndiskast, sem versnaði og versnaði uns svo var komið að ég sá að annað hvort yrði ég að leggja allt undir til að komast heim eða reikna með að koma heim í kistu. Mér tókst að breyta miðunum og stytti ferðina um viku. Niðurstaðan var sú að sól og hiti virkar ekki til bóta á mitt þunglyndi og þar með er sú aðferð einnig prófuð. Að vísu kom fram merkileg breyting sem ég hef aldrei áður upplifað: Sólarhringsferli líðanar snérist á hvolf! Ég sný öfugt við flesta þunglyndissjúklinga að því leytinu að mér líður skást á morgnana og verst seinni part dags og á kvöldin. Á Krít varð þetta öfugt, morgnar og framyfir miðjan dag voru helvíti en kvöldin skást. Umsnúningur yfir í venjulegt horf tók nokkra daga eftir heimkomu.

Síðar ætla ég að reyna að lýsa dæmigerðri líðan í djúpu þunglyndi eins og ég lifi í núna en læt það bíða að sinni.

Ég hef fylgst undanfarið með bloggi Steindórs J. Erlingssonar, Hugleiðingar um lífið og tilveruna, en hann hefur upp á síðkastið verið duglegur að blogga um eigið þunglyndi, lyf og geðlækna. Steindór skrifar vel og það er margt merkilegt sem hann segir, a.m.k. hefur margt vakið mig til umhugsunar og mér þótti hans eigin reynslusaga afar vel sögð og áhugaverð enda erum við líklega að glíma við sama eða svipaðan sjúkdóm og höfum um margt reynslu af sömu læknisráðum og sömu heilbrigðisstofnunum. En við erum, sýnist mér, algerlega ósammála um niðurstöðurnar af þessari lífsreynslu og þeirri þekkingu sem við höfum aflað okkur.

Í næstu færslum ætla ég að velta því fyrir mér hvernig geti staðið á því að við Steindór höfum komist að svo ólíkri niðurstöðu þrátt fyrir að mörgu leyti svipaða reynslu.

Ég held að eitt sem gæti útskýrt þessar mismunandi niðurstöður sé misgömul reynsla okkar beggja af áfengismeðferð. Ég fór í slíka meðferð vorið 1989 og hef stundað AA fundi allar götur síðan. Á þeim tíma var ég mjög þunglynd, hafði skömmu áður fengið greininguna “skammdegisþunglyndi” hjá geðlækni og tók henni fagnandi því ég gat að hluta afsakað drykkju með henni. Þegar ég horfi um öxl hef ég líklega verið með kvíðaraskanir og þunglyndiseinkenni frá unglingsárum en er af þeirri kynslóð að slíkt var ekki viðurkennt og auk þess alin upp við að menn eigi alltaf að harka af sér og láta ekki eins og aumingjar. (Ég get sosum ekki séð að þau viðhorf og uppeldi sem þá tíðkuðust skipti neinu máli fyrir mig í dag, þetta var almennt viðhorf og ég er löngu búin að gera upp fortíðina.) Áfengismeðferðin og veran í AA breytti mjög miklu í lífi mínu og líðan. Það er auðvitað augljóst að bara það að losna við hið dæmigerða alkaþunglyndi er mikil frelsun og AA eru stórkostleg mannræktarsamtök. Ég valdi mér ekki það hlutskipti að verða alkóhólisti, lít svo á að það sé arfgengur sjúkdómur sem ég get ekki borið ábyrgð á (og til lítils að fara að kenna einhverjum langfeðgum eða langmæðrum um röng gen). Ég ber hins vegar ábyrgð á lausninni, þ.e. að fást við sjúkdóminn, sem er aðallega fólgið í því að sækja fundi.

Svo fékk ég níu nokkuð góð ár eftir áfengismeðferðina og gat útskýrt niðursveiflur með síðhvörfum eða hafa ekki unnið nógu vel í mínum málum eða með öðrum alkaklisjum. Svo veiktist ég illa, fór á bráðamóttöku geðdeildar og var samstundis lögð inn. Síðan hefur sjúkdómurinn versnað með hverju árinu. Ég vann eins lengi og ég gat, var komin í skert starfshlutfall, var búin að leggja öll skemmtilegu aukastörfin á hilluna en loks var svo komið að ég varð óvinnufær með öllu, í desember 2009. Eftir langt veikindaleyfi, þar sem ég hélt dauðahaldi í vonina um að geta snúið aftur til starfa, þótt ekki væri nema í pínulítið hlutastarf, var ég metin 100% öryrki og eins og staðan er í dag er ekki í sjónmáli að ég geti unnið nokkurn skapaðan hlut. Nám, tómstundastarf eða annað þess háttar er líka út úr myndinni.

Það er talsvert styttra síðan Steindór J. Erlingsson fór í þá áfengismeðferð sem skilaði honum árangri og e.t.v. vara þau hughrif og frelsið undan alkaþunglyndinu ennþá honum til betri líðanar. Hugsanlega mótast viðhorf hans einnig af því sem maður lærir í slíkri meðferð, sá lærdómur var mér a.m.k. ofarlega í huga lengi eftir meðferðina. Það má segja að ég hafi trúað kennisetningum SÁÁ meira og minna allt til þess að ég varð svo veik vorið 1998 að ég gat nánast ekki talað og upplifði ofsakvíðaköst með tilheyrandi andnauð í fyrstu sinnin, a.m.k. svo ég muni. Þá hringdi ég náttúrlega fyrst á Vog, fékk að tala við lækni, sagði honum hvað ég hefði verið lengi edrú, lýsti svo líðan minni stamandi fyrir honum í símann og maðurinn sagði: “Iss, þetta eru bara síðhvörf - komdu inn á Vog og þú verður farin að hlæja að þessu eftir tvo daga!” Hefði ég farið að ráðum Einars læknis á Vogi væri ég ekki ofar moldu í dag. Sem betur fer var maðurinn minn ekki jafn heilaþveginn og ég (við Steindór eigum það sameiginlegt að eiga frábæra maka) og keyrði mig á bráðamóttöku geðdeildar.

En sem sagt: Mögulega getur mismunandi trú okkar Steindórs á fræði þau sem SÁÁ boðar skýrt að einhverju leyti mismunandi niðurstöður okkar um geðlyf og geðlækna. Og mögulega stafar mismunandi trúarsannfæringin af mismunandi löngum tíma sem liðinn er frá áfengismeðferð og því að þekking og viðhorf mótast á mjög löngum tíma innan AA samtakanna. Mætti segja að eftir því sem maður stundar þau samtök lengur og kynnist fleira fólki sem nýtir sér fjölbreyttari aðferðir til að axla ábyrgðina á sjúkdómnum alkóhólisma verði maður víðsýnni og taki ekki alveg eins mikið mark á “mainstream” hugmyndafræðinni sem er boðuð í meðferð og eftirmeðferðarstarfi. (Þetta á kannski einkum við um SÁÁ en ég hef þó grun um að svipað sé uppi á teningnum á Teigi.)

Til að slútta umfjöllun í bili vil ég gera athugasemd við nýjustu færslu Steindórs, “Enn um varasama geðlækna” þar sem hann heldur því fram að hann hafi vitneskju um geðlækni sem beinlínis banni sjúklingi sínum að prófa HAM-meðferð. Ég á afar bágt með að trúa þessu fyrir svo utan það að sjúklingurinn þarf auðvitað ekker leyfi læknisins til að skrá sig í hugræna atferlismeðferð fremur en hann þyrfti læknisleyfi til að skrá sig í Boot Camp eða jóga-námskeið eða prjónanámskeið eða hvað annað sem hann teldi að gæti gagnast sér til betri líðanar. Ef Steindór fer ekki þarna með fleipur er full ástæða til að láta Geðlæknafélagið vita af þessum geðlækni (en draga má þá ályktun af færslunni að læknirinn starfi á Íslandi) og að hann banni HAM. En er ekki líklegra að umræddur geðlæknir hafi ráðlagt sjúklingnum að láta HAM eiga sig í bili og byggi það á læknisfræðilegum forsendum? Stundum eru sjúklingar nefnilega svo veikir að það borgar sig fyrir þá að fara sér hægt og forðast áreynslu, sem HAM-meðferð óneitanlega er (hún krefst þess að sjúklingur leggi sitt af mörkum, annars virkar hún ekki).

  

Ummæli (3) | Óflokkað, Geðheilsa