Færslur frá 19. október 2011

19. október 2011

Fallið - skrípóbók um alkóhólisma

Fékk Fallið eftir Þráin Bertelsson á því góða bókasafni í gær og las í gegn, sem tekur enga stund. (Af tilviljun sá ég að í hillu nýrra bóka var Fallið við hlið Morðs og möndlyktar Camillu Läckberg, afspyrnu lélegs reyfara og Läckberg til vansa. Sá að bækurnar eru nákvæmlega jafnstórar - öllu heldur jafnlitlar- í álíka broti, þ.e. stíf kápa um stuttan texti. Merkileg tilviljun en ekkert annað en tilviljun.)

Raunar finnst mér dálítið skrítin forsíða á bók Þráins miðað við efni. Sé ekki betur en kápumyndin sé útklippt svarthvít teikning af fræknum sundmanni að stinga sér, í rauðu hafi í átt til fagurguls titilsins, Fallsins. Líklega er þetta tilviljun.

En þá að Fallinu: Söguþráðinn þekkja flestir svo vandlega sem hann hefur verið auglýstur en hann er sá að Þráinn Bertelsson datt í það í Færeyjum, fékk flýtiinnlögn á Vog, dvaldi þar í áfengismeðferð og fór í hálfa eftirmeðferð. Þetta er ekki merkilegur söguþráður (nema kannski flýti-innlögnin veki athygli þeirra sem eru á biðlista). Þetta fall er ekki merkilegt nema frá sjónarhóli fallistans og fjölskyldu hans. Miðað við legíó fallsagna sem ég hef hlustað á gegnum tíðina er ekkert sérstakt um þetta tiltekna fall að segja og álitamál hvort það sé efni í bók eða tilefni bókar … kannski nokkrar bloggfærslur hefðu verið betur við hæfi - eða bara einföld tjáning á AA-fundum eins og við hin stundum. Ég get ekki að því gert að mér finnst felast viss athyglisýki í því að detta í það í júní og gefa út um það bók í október. (Ég er líklega svona illa innrætt af náttúrunnar hendi að láta mér detta svonalagað í hug.)

Bókin er heldur losaraleg, þ.e.a.s. hún er í mörgum stuttum köflum. Ýmist er Þráinn að velta fyrir sér ýmsum heimspekilegum viðfangsefnum meðan á meðferðinni stendur, upplýsa lesanda um eðli alkóhólisma, skotið er inn köflum með sögum af öðrum ölkum og stuttum brotum frá sjónarhóli aðstandenda. Síðastnefndu hlutarnir eru bestir, finnst mér. Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við að svona bók sé brotakennd: Alkóhólískar minningar eru alltaf brotakenndar og áfengismeðferð er það erfið að það er enginn vegur að muna hana í röklegu samhengi.

Ég hef fyrir löngu fengið mig fullsadda af sniðugum sögum af karlkyns ölkum sem röknuðu úr rotinu við ótrúlegustu aðstæður, oft í útlöndum. Svona sögur eru þjóðsögur meðal alkóhólista, hugsanlega byggðar á sannleikskornum, en aðallega er fídusinn í þessum sögum sá sami og í Íslenzkri fyndni, vantar kannski helst að viðkomandi kasti fram stöku af tilefninu. Sniðugu innskotssögurnar eru bara af körlum. Af því ég veit að það er nákvæmlega ekkert sniðugt eða skondið eða fyndið við alkóhólisma fundust mér þessar sögur heldur ómerkilegt innlegg í svona bók. Ein saga er af konu en það er ekki hreinræktuð íslenzk-fyndni-saga heldur á hún að fjalla um samsjúkling Þráins á Vogi því sú persóna er nauðsynleg málpípa sjúklingahópsins sem dvelur með Þráni. (Ég ætla rétt að vona að fulltrúar alkhóhólista  í bókinni séu uppdiktaðar persónu, aðrar en Þráinn sjálfur og þessi eina sem veitti leyfi fyrir grínsögu um sig.) 

Bókin er fyndin á köflum enda augljóst að höfundur hefur lagt sig í líma við að koma að bröndurum og sniðugheitum. Líklega gætu virkir alkóhólistar haft gaman af bröndurunum og þeir örfáu Íslendingar sem ekki hafa haft kynni af alkóhólisma í fjölskyldu sinni eða nánum vinakreðsum. Brandarnir þjóna líka stundum þeim tilgangi að sýna hve höfundurinn er vel að sér, víðlesinn og velmenntaður, t.d. að myndhverfa Vog í dáraskip eða lauma inn fyndnum þýskum heitum í eina af sniðugu sögunum. Þannig geta víðlesnir virkir alkar og þeir örfáu … o.s.fr. haft gaman af henni líka.

Þráni er þó mjög í mun að sannfæra lesandann um að hann sé einn af hinum óbreyttu enda er það meginhugsun í áfengismeðferð að allir séu þar jafningjar, hver sem staða þeirra er utan Vogs og eftirmeðferðarstöðva. (Þetta er einnig meginhugsunin í AA samtökunum.) En honum lukkast engan veginn að sýna þá auðmýkt að telja sig til hinna óbreyttu, þ.e. jafningjanna sem eru að reyna að ná tökum á sama sjúkdómi. Þráinn er afar upptekinn af því að vera þjóðþekkt persóna, telur að slúðurblöð muni jafnvel birta frétt um að hann sé í áfengismeðferð fari hann í eftirmeðferð. GRÓA Á LEITI og aðrar kjaftatífur landsins af báðum kynjum með snípinn í hálsinum munu fá raðfullnægingu við að kjamsa á því að alþingismaður sé staddur á Vogi. Ég sé ekki ofsjónum yfir þeirri gleði. (s. 116.) Mögulega væri það ekki fyrir neðan virðingu DV að birta smáfrétt um þetta en líklega þætti fáum fréttnæmt nema ríkti alger ördeyða og gúrkutíð í fjölmiðlun. Tilvitnunin í bókina sýnir í hvaða stíl hún er skrifuð. 

Hann er líka ákaflega upptekinn af því að miðla lífspeki til lesandans, molum af borðum Johns Stuart Mill, Dalai Lama, Carls Jung, Dale Carnegie, Jesú Krists o.fl. Þetta er lífspeki sem hefur nýst Þráni um ævina en allar þessar skáletruðu tilvitnanir með tilvísun í heimildir eru kannski líka til að lýsa því hvað maðurinn er víðlesinn og fróður? Þær minntu mig nú helst á algenga statusa sem fólk setur á Facebook, sér og öðrum til huggunar þann daginn. Sumar tilvitnanirnar eru velþekktar klisjur í allskonar sjálfshjálparkreðsum, s.s. verði þinn vilji (raunar bætir Al-anon fólk oft við en ekki minn) og This too shall pass, sem er íslenskuð og heimildin endursögð í löngu máli  í Fallinu.

Annað sem virkar hálfgerður tvískinnungur er þegar gert er grín að manni í einni sniðugheitasögunni fyrir að reikna út alkóhólmagn í bjór versus léttöli á fáránlegan hátt (s. 182-184.) Mórallinn í þessari sögu er vitanlega sá, að alkóhólistar eins og aðrir geta reiknað yfir sig mikil vandræði með vísindalegum aðferðum. (s. 184). En sjálfur er Þráinn upptekinn af því að reikna út hve mörg ár hann hafi verið edrú og duglegur að draga föllin frá, líklega til að peppa upp sjálfsmyndina sem er vitaskuld ekki upp á marga fiska eftir fall. Hann virðist þó sjálfur sjá að þótt edrúárin séu mörg hafi fallbrautin kannski hafist á því að telja sig ekki lengur þurfa að stunda fundi reglulega. Samt er ekki ljóst hvort hann tengir saman útreikninga sína og fræðin um fallbrautina, kannski reiknar hann sjálfur yfir sig vandræði með vísindalegum aðferðum, í umfjöllun um sín mál í bókinni?

Nú hef ég lesið töluvert af alkabókum og alkóhólískum fræðum um ævina, hef því miður gleymt því flestu vegna annars sjúkdóms. Þó minnir mig að mér hafi fundist Og svo kom sólin upp (viðtalsbók Jónasar Jónassonar við ýmsa) og Þar sem vegurinn endar (eftir Hrafn Jökulsson) standa upp úr í þessum bókmenntageira. Aðall þeirra bóka er hreinskilni og einlægni sem gerir lesandanum ljósa hina sáru kviku alkóhólismans. Af bókum sem fjalla um aðra geðsjúkdóma bera Englar alheimsins og Sýnilegt myrkur höfuð og herðar yfir bækur af þeim toganum. Fyndni og kaldhæðni koma ekki í veg fyrir að slík einlægni skili sér, s.s. sjá má í Englum alheimsins, og tilvitnanir í ýmsa heimspekinga og menningarvita ekki heldur, eins og Sýnilegt myrkur sannar. Meira að segja bækur um alkóhólisma sem ég er algerlega ósammála, t.d. Alkasamfélagið eftir Orra Harðarson, grípa lesandann af því höfundurinn hefur sannfæringu og lýsir raunum sínum eða sigrum af einlægni fyrst og fremst.

Ég hef líka lesið talsvert af bókum Þráins Bertelssonar, hugsanlega allar, og þótt óminnishegrinn hafi plokkað þær úr heilabúinu (með aðstoð raflosta og annars sjúkdóms) man ég vel að mér hugnuðust vel nokkrar af þeim bókum. Svo ekki er þessi slæmi dómur sprottinn af sérstakri andúð á rithöfundinum. Mig grunar, einhverra hluta vegna, að Þráinn taki leiðbeiningum eða ráðleggingum ekkert sérstaklega vel (þrátt fyrir yfirlýsingar um að fá fúslega lánaða dómgreind hjá öðrum, öðru gæti alki raunar ekki haldið fram sé honum í mun að vera talinn í bata). Að mínu viti hefði Fallið hugsanlega getað orðið nokkuð góð bók ef lengri tími og meiri alúð hefði verið lögð í skriftirnar og ef höfundurinn hefði haft auðmýkt og hreinskilni að leiðarljósi fremur en sjálfsupphafningu.

En Fallið … hver er tilgangurinn með þessari bók? Meðan ég var að lesa hana fannst mér alltaf að sagan væri hálfsögð, að í bókina vantaði eitthvað mikilvægt og um miðja bók varð mér ljóst hvað það var: Það vantar algerlega einlægni!  Þótt hún eigi að fjalla um þessa lífsreynslu Þráins, sem hlýtur að hafa verið sár og tekið á, snerta þær frásagnir lesandann lítið því hann er ýmist svo upptekinn af því að vera sniðugur eða vellesinn (öllu heldur vel-ítvitnandi). Á einstaka stað má þó finna einlægni og auðmýkt, s.s. þegar hann segir frá örlögum briddsfélaga sinna frá í gamla daga eða þegar hann víkur að konunni sinni. Það er allt og sumt. Fallið er heldur ekki fræðslubók um alkóhólisma því hún inniheldur enga fræðslu sem ekki er löngu aðgengileg áður, raunar mun aðgengilegri fyrir þá sem eru að feta sín fyrstu spor, ýmist sem sjúklingar eða aðstandendur.

Fallið er fyrst og fremst skrípóbók um alkóhólisma.

P.s. Ég er sammála Þráni um að það sé illt að kapellunni á Vogi skuli hafa verið lokað. En ég held að trúarlegar skoðanir hafi skipt litlu máli, skv. orðinu á götunni fóru fram talsverð viðskipti með vímuefni í þessari kapellu - enda eini staðurinn þar sem hægt var að vera í friði - og þess vegna hafi þurft að loka henni. Veit ekki hvað er satt í þessu.

   

Ummæli (19) | Óflokkað, Bækur, Daglegt líf