Færslur frá 18. janúar 2012

18. janúar 2012

Stóra glærumálið og móðgelsi Vantrúar, I. hluti

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Eins ég gat um í næstsíðustu færslu kærði félagið Vantrú stundakennarann Bjarna Randver Sigurvinsson fyrir siðanefnd Háskóla Íslands vegna örlítils hluta af kennsluefni í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar sem hann kenndi í guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands á haustönn 2009. Um leið sendi Vantrú kvörtunarbréf til háskólarektors og til deildarforseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar.

Óli Gneisti Sóleyjarson, einn af stofnendum Vantrúar, fékk hluta glæra í námskeiðinu frá vini sínum. Það er ekki óalgengt að nemendur skiptist á glærum í Háskóla Íslands og það hvarflaði ekki að nemandanum, vini Óla Gneista, sem sat námskeiðið að glærurnar yrðu það vopn í höndum Vantrúar sem raun varð. Þá hefði hann aldrei látið þær af hendi enda var þessum nemanda vel til kennarans og taldi sig hafa haft mikið gagn af námskeiðinu. Líklega gera menn því almennt ekki skóna að tveggja manna netspjall milli vina og kennslugögn af lokuðu svæði á Uglu væru svo birt á spjallsvæði sem 200 manns hafa aðgang að, hvað þá að þetta yrði rót illinda sem enn sér ekki fyrir endann á.

Til hvers eru glærur?

Allir kennarar vita að glærur eru notaðar með ýmsum hætti. Fyrir daga PowerPoint skjásýninga og skjávarpa voru glærur notaðar heldur sparlega en núorðið skipa þær æ hærri sess í kennslu. Glærur eru stundum glósur, stundum stikkorð til að draga fram aðalatriði, stundum til að ögra og skapa þannig umræðu eða fá nemendur til að líta námsefnið undir öðru sjónarhorni, stundum til að skýra námsefnið, stundum til að festa námsefni í minni o.m.fl. Eftir tilkomu skjávarpa og með greiðum aðgangi að hvers kyns efni á Vefnum reyna kennarar gjarna að ná athygli nemenda með myndskreytingum eða myndum á glærunum.

Til eru viðmiðunarreglur um glærugerð sem kenndar eru í kennslufræði en ég hef aldrei hitt þann kennara sem fer eftir þeim, t.d. þeirri gullnu reglu að aldrei skuli fleiri atriði en sjö á hverri glæru.

Hver kennari túlkar svo sínar glærur með sínum hætti í kennslustund og miðar auðvitað glærugerðina við sína kennslu og ekki annað. Sé ekki um að ræða glærusýningu sem á að nýtast í fjarkennslu (stundum er einnig talað inn á svoleiðis glærusýningar eða kennslustund í staðnámi er tekin upp og fylgir) er nánast útilokað að meta kennslu út frá glærum eingöngu enda hefur það aldrei tíðkast (raunar engum dottið það í hug nema Vantrú).
 

Hver væru eðlileg viðbrögð þætti fólki eitthvað athugavert við kennsluefni?

Mat á kennsluÞað er væntanlega mismunandi eftir skólastigum hverjir sæju mögulega ástæðu til að kvarta undan kennsluefni. T.a.m. gætu foreldrar kvartað ef um væri að ræða leikskóla, grunnskóla og fyrstu ár framhaldsskóla. Nemendur gætu einnig kvartað á þessum skólastigum en eftir að 18 ára aldri er náð væri einna helst að búast við kvörtunum frá nemendunum sjálfum. Í framhaldsskólum eru lagðar reglulegar kennslukannanir fyrir nemendur, í Háskóla Íslands er kennslukönnun lögð fyrir í lok hvers námskeiðs hjá öllum kennurum (eftir því sem ég best veit, þetta á altént við hugvísindagreinar). Í svona könnunum gefst nemendum færi á að meta kennslu og gera athugasemdir við einstaka þætti hennar ef þeir vilja og það undir nafnleynd.

Í framhaldsskólum er það skýrt að kennari ber ábyrgð á kennslu og námsmati. Ég veit ekki hvort það er kveðið jafn skýrt á um þetta í Háskóla Íslands en eðlilegustu viðbrögðin við því ef kennsluefni þykir í einhverju ábótavant eru væntanlega að tala um það við kennarann sjálfan, til vara mætti snúa sér til deildarforseta viðkomandi deildar. Það er væntanlega ekki ástæða til að snúa sér til siðanefndar Háskóla Íslands vegna kennsluefnis nema menn séu þess fullvissir að kennari hafi brotið siðareglur sama háskóla. Má ætla að slíkt sé afar sjaldgæft því á árunum 2007-2010 tók siðanefnd Háskóla Íslands einungis fjögur mál til umfjöllunar (en vísaði öðrum fjórum frá) og lauk í rauninni aðeins þremur þeirra. Óvíst er að þessi þrjú hafi snúið að kennslu því siðanefnd hefur heykst á því að birta útdrætti úr sínum úrskurðum eins og henni ber að gera og því í rauninni ekki hægt að vita um hvað þessi mál snérust (sjá færsluna Ekki-málið sem Siðanefnd HÍ tókst Ekki að leysa).
 

Hverjir geta skipt sér af kennsluefni?

Hér að ofan hefur verið gengið út frá því að nemendur Háskóla Íslands kvörtuðu undan kennslu eða kennsluefni. Ég reikna með að það heyri til algerra undantekninga að félagsskapur úti í bæ kvarti undan umfjöllun um sig í námskeiði sem enginn félagsmanna sat, hvað þá kæri slíka umfjöllun til siðanefndar HÍ. Ef þetta tíðkaðist mætti ímynda sér að útrásarvíkingar eða Samtök sauðfjárbænda kærðu umfjöllun um sig í hagfræðikúrsum, skáld kærðu umfjöllun um sig í bókmenntafræðikúrsum eða stykkju upp á nef sér yfir hvernig rit þeirra væru flokkuð og greind eftir bókmenntastefnum o.s.fr. Það sér hver maður að þetta væri út í hött og hlyti að byggjast á þeim misskilningi að umfjöllun um viðkomandi væri einhvers konar kynning eða auglýsing sem lyti sömu reglum og auglýsingabransinn. Svoleiðis kynningar og auglýsingar eru ekki í verkahring Háskóla Íslands og hafa hingað til ekki verið tengdar akademísku námi og akademískri kennslu.
 

Hafði félagið Vantrú forsendur til að meta glærurnar sem fóru svo mjög fyrir brjóstið á einstökum félagsmönnum?

Það er spurninginSvarið við þessu hlýtur að vera neitandi. Einungis einn félagsmanna hafði tekið svipað námskeið áður og það er ekki ástæða til að ætla að hann hafi átt hlut að máli þegar ákveðið var að kæra kennarann og kvarta undan glærunum. Margir sem hafa setið í stjórn Vantrúar hafa stundað háskólanám til lengri eða skemmri tíma og hafa því reynslu sem nemendur. Ég veit ekki til þess að neinn þeirra hafi reynslu af háskólakennslu (og vonast til að Vantrúarfélagar leiðrétti mig ef þetta er rangt).

Af þessu leiðir að kæra og klögumál Vantrúar byggjast á vanþekkingu og misskilningi, meðal annars þeim misskilningi að ætlun Bjarna Randvers hafi verið að standa fyrir sérstakri kynningu eða auglýsingu á félaginu.

Það kom ekki í veg fyrir að Vantrú sendi kvartanir sínar til siðanefndar HÍ, forseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ og rektors HÍ, dags. 4. febrúar 2010, og að formaðurinn, Reynir Harðarson sálfræðingur, setti sig í stellingar Churchill o.fl. og tilkynnti á lokuðum spjallþræði félagsins þann 12. febrúar 2010:

 Áríðandi tilkynning

 Kæru félagar. Klukkan 15:00 í dag lýstum við yfir heilögu stríði á hendur Bjarna Randveri og Guðfræði í Háskóla Íslands. Okkur ber skylda til að verja heiður okkar þegar á okkur er ráðist af svo voldugum andstæðingi að ósekju. Við munum berjast á vefnum, í blöðum, með bréfum og jafnvel í fjölmiðlum þar til fullur sigur er unninn. broskarl

 (Sjá skjámynd af ummælum Reynis á vef Vantrúar.)
 

Þess ber að geta að félagar í Vantrú hafa lagt þunga áherslu á að þessari áríðandi tilkynningu hafi fylgt broskarl.
 
 

Til að stytta svolítið einstakar bloggfærslur í þessari færsluröð verður ekki haldið lengra að sinni. Næst mun ég reyna að gera grein fyrir nokkrum þeim klögumálum Vantrúar sem varða þessar glærur og reyna að setja þær í samhengi við efni námskeiðsins. Ég ítreka að athugasemdum sem ekki eru gerðar undir fullu nafni verður eytt.
 
 
 
 

Ummæli (30) | Óflokkað, Vantrú og siðanefnd HÍ