23. janúar 2012

Stóra glærumálið og móðgelsi Vantrúar, III. hluti

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Í þessari færslu verður gerð grein fyrir nokkrum fleiri kæruatriðum í kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni vegna glæra í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar sem hann kenndi á hausmisseri 2009 í Háskóla Íslands. (Sjá einnig síðustu færslu.)

Í kæru Vantrúar vegna umfjöllunar um sig er áberandi þáttur „það sem ekki er“, þ.e.a.s. Vantrú kvartar undan að málsgreinar séu slitnar úr samhengi og félagið telur að eitthvert annað efni eða annars konar tilvitnanir ættu að koma fram á glærunum. Í kærubréfunum sjálfum segir: „Kynningu á félagsskapnum fögnum við en afskræmingu frábiðjum við okkur“ og í meðfylgjandi greinargerð er síðan bent á ýmislegt sem Vantrú telur falla undir afskræmingu. Félagsmenn í Vantrú virðast enn sama sinnis þrátt fyrir allt sem fram hefur komið um þessar glærur og kærur félagsins því í grein á vef Vantrúar sem birtist 29. desember 2011, Um “Heilagt stríð” og “einelti” Vantrúar, segir að þeir frábiðji sér „þá ósanngjörnu og meiðandi umfjöllun, sem jafnvel mætti kalla skrumskælingu á málflutningi félaga, sem birtist í glærum Bjarna Randvers.“

Má sem dæmi um þetta taka klögu undan þeim glærum sem Vantrú kallar nr. 9 og nr. 10 (sjá s. 6-7 í kærubréfinu til forseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, sjá einnig umfjöllun ritstjórnar Vantrúar um glærur 9-13 og glæru 21, VII. Guðfræði í HÍ : Um trúarleg efni, og meðfylgjandi umræðuþráð).

Kvörtun Vantrúar yfir glæru 9 er að:
 * Tilvitnanir eru „í einkablogg Matthíasar (fyrir stofnun Vantrúar!)“;
 * Það vantar eina skáletrun;
 * Veigamiklum atriðum er sleppt svo samhengi skekkist.

SkæriÍ síðustu færslu fjallaði ég um mjög einkennilegar hugmyndir forsvarsmanna Vantrúar um einkablogg sem ekki megi vitna í og vísa í þá umfjöllun. Samkvæmt upplýsingum á vef Vantrúar var vefritið Vantrú stofnað í ágúst 2003. Færslan á bloggi Matthíasar er frá 9. ágúst 2003 svo það hefur varla munað mjög mörgum dögum á stofnun Vantrúar og þessari færslu, auk þess sem á upplýsingasíðu Vantrúar kemur fram að áður höfðu einstakir stofnfélagar bloggað um sömu hugmyndafræði og þeir lögðu til grundvallar í stofnun vefrits Vantrúar.

Vissulega vantar á glærunni að skáletra orðið „Við“ eins og Matthías gerir í bloggfærslunni. Mér finnst það álíka stór glæpur og að í kærunni gleymdu Vantrúarfélagar að undirstrika nokkra stafi í sinni tilvitnun í færslu Matthíasar, þ.e. „Ekkert Undo, ekkert Copy-Paste“; Sem sagt alger sparðatíningur!

Ég get alls ekki séð að neinum veigamiklum atriðum sé sleppt úr texta Matthíasar, hvað þá að úrfellingin þjóni þeim tilgangi að „láta fullyrðingar Matthíasar virðast einfaldari en þær eru.“ Auðvitað er textinn styttur því hann á að komast á glæru. Meginatriðin halda sér en smáatriðum er sleppt.

Sama gildir um glæru 10, sem í kæru Vantrúar segir að sé „grófara [dæmi] því textinn á undan tilvitnun Bjarnastangast [svo] á við það sem hann vill sannfæra nemendur um, þar tekur Matthías fram að hann geti ekki fullyrt um „einhvern æðri mátt“.“ Haus beggja glæranna er Fullyrða vantrúarmenn um trúarleg efni? sem gefur til kynna að þetta sé eitthvað sem eigi að velta fyrir sér. Hvernig forsvarsmenn Vantrúar gátu vitað hvað kennarinn vildi sannfæra nemendur um eða yfirleitt að hann vildi sannfæra nemendur um eitthvað með þessari glæru er ofar mínum skilningi. Hér sýna Vantrúarfélagar mjög vel hvernig þeir geta í eyðurnar og spinna upp tóma vitleysu með eigin túlkun.

Í frekari umfjöllun Vantrúar um þessar glærur er bætt við: „Af hverju er leitað fanga á bloggsíðu Matthíasar og Arnar Bárðar? Matthías hefur skrifað fjöldmargar [svo] greinar á Vantrú auk þess hefur hann komið víða fram fyrir hönd félagsins.“ Þetta er eflaust alveg rétt. En Bjarni Randver vitnar víða í síðu Vantrúar og varla halda Vantrúarfélagar að þeir geti pantað í hvað er vitnað og hvað ekki af sínum skrifum, er það? Ég ítreka að um er að ræða pínulítinn bút af kennsluefni í námskeiði í Háskóla Íslands en ekki ítarlega auglýsingaherferð fyrir félagið Vantrú.

Um þessar glærur segir kennari námskeiðsins:

 Þó svo að tilvitnanirnar hafi verið margar er ekki þar með sagt að þær hafi allar verið teknar fyrir í kennslutímanum og lesnar upp. Um flestar þeirra var aðeins fjallað almennum orðum og nemendur hvattir til að leita þær uppi á netinu og kynna sér þær betur. Í þeim tilfellum þar sem ég staldraði við tiltekna tilvitnun ræddi ég um það samhengi sem hún er tekin úr. Ég tók það fram að þó svo að finna megi margvísleg viðhorf meðal vantrúarfélaga (eins og innan allra annarra trúarhreyfinga, jafnvel fastmótaðra sértrúarhópa sem viðhalda markvissu félagslegu taumhaldi) og allavega sumir þeirra hiki við að afneita tilvist vissra trúarlegra hluta eins og hvort einhvers konar „æðri máttur“ geti verið til, væri þó harla margt annað í trúarefnum sem þeir hefðu afdráttarlausa skoðun á og væru mikið til sameinaðir um. Í því sambandi greindi ég frá þeim fyrirvara sem Matthías Ásgeirsson gerði í ritdeilum sínum við sr. Örn Bárð Jónsson á Annáll.is árið 2004 þar sem hann útilokaði ekki tilvist æðri máttar þótt hann tæki fram að honum þætti það „ekki líklegt“ og teldi það raunar „fáránlega hugmynd“. En eins og víða annars staðar gekk Matthías þar mun lengra í yfirlýsingum sínum um trúarefni og hikaði ekki við að fullyrða þar um eitt og annað. Þetta er það sem ég taldi ástæðu til að árétta við nemendur með eftirfarandi tilvitnun í skrif Matthíasar á einni glærunni:

 „Aftur á móti fullyrði ég að kristnar sögur eru mýtur, Guð kristinna
manna fullkomin þverstæða og þar með ekki til og að ekkert bendir til
að Jesús hafi verið raunveruleg persóna og að það er fullkomlega
klikkað að trúa því að hann hafi framkvæmt kraftaverk, dáið á
krossinum og risið upp frá dauðum.“
 (www.gudfraedi.is/annall/ornbardur 18-8-04.)

 Sem fyrr lagði ég áherslu á að hvort hægt væri að bendla tilvitnanir á borð við þessa við trúarlega afstöðu væri komið undir því hvernig trúarhugtakið væri skilgreint. Það er hins vegar af og frá að ég hafi með tilvitnuninni viljað „sannfæra nemendur um“ að Matthías hafi verið að fullyrða um tilvistarleysi einhvers konar æðri máttar.
 (Bjarni Randver Sigurvinsson. Svar við kæru Vantrúar. Greinargerð lögð fyrir siðanefnd HÍ 2010, s. 75-76. Feitletranir eru mínar. Þetta er óopinbert skjal í vinnslu en ég hef leyfi höfundarins til að vitna í það. Hér eftir verður vísað í skjalið sem Greinargerð Bjarna Randvers.)

Flest allt sem Vantrú finnur að glærunum um sig er í þessum sama dúr: Bjarni Randver hefur ekki valið réttar tilvitnanir (skv. hugmyndum þeirra að ekki megi vitna í einkablogg, athugasemdir sem félagar í Vantrú hafa skrifað á blogg annarra, ekki neitt áður en Vantrú var formlega stofnuð o.s.fr.); Bjarni Randver fellir úr textanum eitthvað sem Vantrú þykir skipta miklu máli en eru í rauninni alger smáatriði; þar er t.d. á einum stað um að ræða orðið „Já“ sem Vantrú staðhæfir í kæru sinni, s. 9, að skipti máli upp á túlkun [!]:
 

 Í fyrstu tilvitnun sést að Bjarni sleppir upphafi textans. Það sem ekki sést er að Bjarni lengir textann í raun því það sem hann sleppir eru tveir bókstafir, í staðin [svo] koma þrír punktar. Setningin hefst á orðin „Já“. Ef það orð væri með væri ljóst að Matthías er að svara spurningu. Sú staðreynd gæti haft áhrif á túlkun nemenda.
 
 

Kæra félagsins Vantrúar vegna glæra um annað en félagið sjálft

Blekking og þekkingAðallega fóru glærur um Níels Dungal og Helga Hóseasson fyrir brjóstið á félaginu Vantrú. Sjá má glærurnar og umfjöllun um þær á vef Vantrúar, III. Guðfræði í Háskóla Íslands: Níels Dungal og Helgi Hóseasson. Í kæru Vantrúar er glærum um Níels Dungal lýst á s. 3 og Vantrú túlkar þær þannig á sömu síðu:
 

 Þar með lýkur umfjöllun um bókina Blekking og þekking. Sú mynd sem fæst af Níelsi Dungal og riti hans er að þessi prófessor í læknisfræði hafi verið með hæpnar hugmyndir um göngulag Páls postula, talið vináttu óþekkta í Nýja testamentinu (hún er reyndar hvergi nefnd á nafn þar, ólíkt Hávamálum) og verið með undarlegar hugmyndir um mátt „orkutækninnar“. Er þetta ekki háðugleg útreið og skrumskæling frekar en einleig [svo] viðleitni til að koma til skila meginboðskap höfundar?

Um þetta segir kennari námskeiðsins:
 

 Í kæru vantrúarfélaga er ég ranglega sakaður um að gera ekki grein fyrir „megingagnrýni Níels“ því að henni lýsti ég sannarlega fyrir nemendum í kennslustundinni. Hins vegar er það alveg rétt að ég dreg fram gagnrýni frá einkum Páli V.G. Kolka lækni á bók Níelsar Dungals. Slík gagnrýni verður að teljast eiga erindi til háskólanemenda og eru sýnidæmin að hluta til valin í því samhengi […]

 Í fyrsta sýnidæminu sjúkdómsgreinir Níels Dungal Pál postula út frá því nafni sem hann bar fyrir trúarleg sinnaskipti sín, nafninu Sál, og Sigurð Sigvaldason hvítasunnupredikara í Reykjavík sem hann hefur augljósa andúð á. Jafnvel þótt vel geti verið að einhver guðfræðingur hafi einhvern tímann með umdeildum hætti leitast við að sjúkdómsgreina ýmsar persónur Biblíunnar út frá nöfnum þeirra verður það að teljast athyglisvert að prófessor í læknisfræði skuli hafa verið tilbúinn að sjúkdómsgreina biblíulega persónu með þessum hætti og alhæfa út frá því um eðli trúarreynslu.
 [- - -]
 Vantrúarfélagar hafa nýtt sér þessa ritskýringur Níelsar Dungals í málflutningi sínum og er það meginástæðan fyrir að ég vek athygli á henni.[…]
 (Greinargerð Bjarna Randvers s. 35. Feitletrun mín. Bjarni vísar í dæmi af málflutningi eins af forsvarsmönnum Vantrúar, Þórðar Ingvarssonar á eigin bloggi.)

 [- - -]

 Þá er ég gagnrýndur fyrir að birta síðu úr lokakafla bókarinnar, sem jafnframt er að finna í heild á vef Vantrúar, en þar dregur Níels Dungal saman niðurstöður sínar og fullyrðir:

  Í öllu Nýja testamentinu er hvergi minnzt á vináttu …

 Þessi yfirlýsing er merkileg í ljósi þess að fjöldi ritningartexta lýsa vináttu efnislega og eru með sama merkingarsvið, svo sem kærleikurinn í samfélagi bræðranna (eða „systkinanna“ eins og það er orðað í nýjustu biblíuþýðingunni). (Greinargerð Bjarna Randvers, s. 36.)

Bjarni rekur síðan fjölmörg dæmi um þetta og dæmi um að orðið „vinur“ komi fyrir í velþekktum sögum Nýja testamentisins. (Vantrúarmönnum til aukinnar upplýsingar nefni ég að orðið „vinátta“ kemur hvergi fyrir í Hávamálum þótt tönnlast sé á orðinu „vinur“ í nokkrum vísum í Gestaþætti Hávamála.) Hvað síðasta kæruefnið varðar segir kennarinn:

 Loks er ég kærður af vantrúarfélögum fyrir að birta síðu úr lokakafla bókarinnar þar sem Níels Dungal lýsir yfir trú sinni á mátt vísindanna sem leyst hafi trúarbrögðin af hólmi […]
 [Tilvitnun í glæru.]
 Það er merkilegt að einhver geti tekið þessari tilvitnun, sem birtir bjartsýna trú höfundarins á framfarir og aukin lífsgæði fyrir tilstilli vísinda, sem neikvæðri. Sömuleiðis er einkennilegt til þess að hugsa að það er sem ýmsir vantrúarfélagar álíti að kennari við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild líti vísindi og framfarir neikvæðum augum. Það er af og frá að þetta sé „háðugleg útreið og skrumskæling“ á „meginboðskap höfundar“ því hér er um að ræða hluti sem hann dregur sjálfur fram sem þýðingarmikla fyrir málflutning sinn. Meira að segja hafa forystumenn Vantrúar sjálfir áréttað mikilvægi kaflans með því að birta hann í heild á vef félagsins til að sýna að Níels Dungal hafi verið „brimbrjótur fáfræði og endalausrar trúgirni Íslendinga“ og frumkvöðull á sviði læknisfræði og vísinda í landinu.
 (Greinargerð Bjarna Randvers, s. 38. Feitletrun mín. Hann vísar í Blekking og þekking 1948 á vef Vantrúar 2005 en ég kræki hér í nýja útgáfu af greininni á vef Vantrúar. Hún er örlítið stytt frá 2005 en þar er einungis um léttvægar orðalagsbreytingar að ræða.)
 

Hér verður ekki gerð grein fyrir gagnrýni Vantrúar á glærurnar um Helga Hóseasson enda byggist sú gagnrýni mikið til á hinu sama og rakið hefur verið í sambandi við glærur um Níels Dungal, þ.e.a.s. vanþekkingu á efni námskeiðsins og kennslu þar, misskilningi og ótrúlegri túlkunargleði á mjög hæpnum forsendum.

Að lokum er rétt að geta þess að Bjarni Randver Sigurvinsson sendi öllum nemendum sínum bréf laust fyrir próf þar sem hann sagði m.a.:
 

 Þó svo að ég vonist til þess að glærurnar sem ég bjó til fyrir ykkur komi ykkur að gagni ber að geta þess að þær eru yfirborðskenndar í mörgum efnum og þið fáið verulega fyllri mynd af öllu með því að lesa þá bókakafla og þær greinar sem eru að finna í fjölritaða lesheftinu. Þess vegna er alls ekki nóg að lesa bara glærurnar.
 (Bjarni Randver Sigurvinsson: Kveðja og velfarnaðarósk. [Bréf til nemenda í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar sem sent var á póstlista þess 6. desember 2009.], s. 25 í Greinargerð Bjarna Randvers. Feitletrun mín.)
 
 

Næst verður fjallað um hvernig félagar í Vantrú reyndu að reka á eftir kærunum og hófu ítarlega umfjöllun um þær á vef Vantrúar. Og reynt að svara þeirri spurningu hvort félagar í Vantrú hafi byrjað markvisst einelti gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni fljótlega eftir að þeir sendu inn kærurnar sínar til siðanefndar HÍ, rektors HÍ og forseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar HÍ.
 

Ég minni enn og aftur á að athugasemdir við þessa færslu á að gera undir fullu nafni. Af gefnu tilefni tek ég fram að leiðist umræðan út í nagg og níð einstaklinga hverra í annars garð verður þeim eytt.
 
 
 
 
 
 

32 ummæli við “Stóra glærumálið og móðgelsi Vantrúar, III. hluti”

 1. Hólmfríður Pétursdót ritar:

  Ég dáist að vilja þinum, nákvæmni og skýrri framsetningu á illgresinu sem þetta mál er. Það er sorglegt að það skuli hafa verið hægt að ganga svona hart fram gagnvart grandvörum, vandvirkum og vel menntuðum háskólakennara.
  Málsvarar Vantrúar hafa ausið auri og ónefnum yfir marga sem hafa reynt að ræða málin við þá, svo flestum ofbýður. Hvað sem veldur hef ég sloppið við óhroðann, þó ég hafi stundum lagt orð í belg á einkabloggi þeirra sumra.
  Með virðingu og bestu kveðjum.

 2. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Takk Hólmfríður :)

  Ég er farin að óttast að Vantrúafélagar hafi yfirgefið mig …

 3. Andrés B. Böðvarsson ritar:

  Mér sýnist að Vantrúarmenn og -konur hafi ekki smekk fyrir því að rökræða vel rökstuddar og rannsakaðar greinar þínar, Harpa, nema á vettvangi sem þeir geta ritstýrt sjálfir (þ.e. hent því sem þeim sýnist út úr umræðuþræðinum og inná lítt lesið spjallborð).

 4. Björn Erlingsson ritar:

  Takk fyrir greinargóða umfjöllun og að draga fram atriði sem varða málefnalegt innihald sem getur varpað ljósi á málstað og starfsaðferðir Vantrúar, svo ég vitni í greinina þá tekst þér að draga vel fram að í málatilbúnaði sínum,, sýna Vantrúarfélagar mjög vel hvernig þeir geta í eyðurnar og spinna upp tóma vitleysu með eigin túlkun.'’

  Takk fyrir

 5. Guðmundur Brynjólfsson ritar:

  Takk fyrir vandaða og greinargóða umfjöllun.

 6. Jóhann Sigurfinnur B ritar:

  Það má vera orðið nokkuð bert að þessi Bjarmalandsferð Vantrúarmanna er aðeins meira en stormur í vatnsglasi - þetta er fellibylur af 5. gráðu í vatnsglasi.

  Miðað við hve ákafir þeir hafa verið í athugasemdakerfum í netheimum, hafi einhver hallað að þeim orði, þá er þögn þeirra nú orðin skerandi.

  Kannski Reynir hafi smitað undirsátana?

  :)

 7. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Já, þögn Vantrúar er dálítið æpandi. Ég minnist þessi ekki að hafa heyrt (öllu heldur séð) félaga Vantrúar þegja þunnu hljóði þegar á þá er minnst á Vefnum. Hugga mig við að ég er eitthvað til umræðu á þeirra fræga lokaða spjalli ;)

 8. Helgi Ingólfsson ritar:

  Sæl Harpa.

  Eftirtektarvert atriði, sem þú rétt imprar á í lokin, er að Bjarni Randver sendi öllum nemendum kúrsins bréf fyrir prófið, þar sem hann hefur ótal fyrirvara á, segir nemendum að skoða glærur sínar gagnrýnum augum, bendir á að þær geti reynst yfirborðskenndar, hvetur nemendur til að afla sér viðbótarlesefnis um þær og leggur áherslu á að glærurnar geti ekki staðið einar og sér sem lesefni til prófsins.

  Þegar félagið Vantrú sendi inn kærur sínar tæpum 2 mánuðum síðar var félaginu, skv. mínum heimildum, ekki kunnugt um tilvist þessa “fyrirvarabréfs” Bjarna til nemenda kúrsins. Einhvern tíma í framhaldinu, meðan kærumálið var í ferli hjá HÍ, fékk Vantrú að vita af tilvist bréfsins, en lét það ekki hafa áhrif á það ferli að halda málinu streitu, þótt ég hefði talið að bréfið gerbreytti öllum forsendum kærumálanna. Mér hefur ekki tekist að komast að því á hvaða tímapunkti félaginu Vantrú varð kunnugt um þetta fyrirmælabréf Bjarna. Veist þú það, Harpa? Eða er þetta eitt af þeim atriðum sem kemur fram í spennandi framhaldi þínu?

  —–
  Í þessu sambandi vil ég benda á hyggilegar varúðarráðstafanir Bjarna við meðferð glæranna.

  1) Hann sendi fyrirmælablað þess efnis að að nemendur ættu að umgangast glærurnar af gagnrýnum huga, líta ekki á þær sem lesefni, heldur hjálpartæki, og kynna sér viðbótarefni og fylla upp í eyður.
  2) Hann ætlaði glærurnar mjög afmörkuðum hópi einum, þ.e. hinum fáu nemendum kúrsins, líklega vitandi að þær gætu misskilist af utanaðkomandi.
  3) Hann hafði glærurnar inni á lokuðu netsvæði hjá HÍ til að tryggja að óviðkomandi hefði ekki aðgang.

  Mér finnst umhugsunarefni að þessar varúðarráðstafanir hafi ekki dugað til að koma í veg fyrir margfaldar kærur.

 9. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Tja, varúðarráðstafanir? Þessar glærur voru auðvitað bara vinnuskjöl og ekki ætluð til opinberrar dreifingar. Gilti um þær það sama og almennt gildir um glærur í námskeiðum í HÍ, þ.e.a.s. þær voru ætlaðar nemendum, til stuðnings kennslunni, og geymdar á lokuðu námskeiðssvæði á Uglu (innri vef HÍ).

  Ég veit ekki hvenær eða hvort Vantrú frétti af þessu bréfi. Miðað við það sem ég hef verið að lesa undanfarið hefði Vantrú getað frétt af því gegnum Þórð Harðarson. Þórður og Þorsteinn Vilhjálmsson höfðu fengið afrit af bréfinu talsverðu áður en þriðja fulltrúanum í siðanefnd HÍ, Sigríði Þorgeirsdóttur, var kunnugt um tilvist þess. Af því nemandinn sem útvegaði Óla Gneista glærurnar vissi ekki hvað Vantrú ætlaði að gera við þær er afar ólíklegt að hann hafi upplýst Óla Gneista um þetta bréf.

 10. Þórður Ingvarsson ritar:

  Geisp.

 11. Helgi Ingólfsson ritar:

  Takk fyrir upplýsingarnar, Harpa.

  Þú ert semsagt að segja, ef ég skil þig rétt, að kæruaðilunum hefði líklega átt að vera ljós tilvist þessa fyrirvarablaðs Bjarna Randvers um notkun glæranna tiltölulega snemma í ferlinu öllu? Mögulega í mars-apríl 2010 - eða a.m.k. meðan Þórður Harðarson var formaður siðanefndar HÍ í málinu?

 12. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Nei, ég var aðallega að segja að ég vissi ekki hvort eða hvenær félagið Vantrú frétti af þessu bréfi. Mér þykir ekkert ólíklegt að Þórður Harðarson hafi upplýst þá um það en get svo sem ekki vitað það. Ég get auðvitað spurt nemandann sem lét Óla Gneista hafa þessi tvö glærusett hvort hann hafi einnegin upplýst Óla Gneista um bréfið sem Bjarni Randver sendi nemendum sínum fyrir prófið í desember en sé svo sem ekki að það skipti máli - það er ekkert víst að Óli Gneisti hefði upplýst þá aðra sem stóðu að þessum kærum um bréfið þótt hann hefði vitað af því sjálfur.

  Ég sé raunar ekki að þetta bréf hafi nokkurn tíma komið félaginu Vantrú við því enginn félagsmanna sat námskeiðið. Aftur á móti hefði verið þægilegra fyrir félagsmenn Vantrúar að vita af því og almennt eitthvað um námskeiðið úr því þeim datt í hug að kæra þetta margumrædda brotabrot af kennsluefninu.

  Aðallega finnst mér þetta bréf sýna að Bjarna Randver hefur verið óvenju umhugað um nemendur sína og sýnt þeim meiri hlýhug en oft tíðkast í HÍ.

 13. Jóhann Sigurfinnur B ritar:

  Mér sýnist sem ritstjórinn sjálfur hafi risið upp við dogg, en hann er líklega farinn að dotta á ný.

  Kannski er það drómasýki sem hrjáir forkólfa Vantrúarmanna?

  (…best að setja inn broskall)

  :)

 14. Andrés B. Böðvarsson ritar:

  Mér skilst að nemandinn sem lét Óla Gneista fá glærusettið hafi aldrei tekið prófið þannig að það er ekki víst að hann hafi fengið bréfið, eða kannski hefur hann ekki tekið eftir því.

 15. Sveinn Þórhallsson ritar:

  Kannski skiptir umtalað bréf ekki nokkru máli (þó það sé óneitanlega gott í sjálfu sér og til fyrirmyndar) ef það var sent til nemenda aðeins örfáum dögum fyrir próf.

 16. Helgi Ingólfsson ritar:

  Sveinn (aths. 15):

  Bréf þetta skiptir máli vegna þess að það sýnir svart á hvítu að glærurnar voru ekki ætlaðar á þann bókstafstrúarlega hátt, sem félagið Vantrú las í þær og byggði kærur sínar á.

  Hvort það hafi verið sent nokkrum dögum fyrir próf skiptir ekki máli hér; enginn sá sem tók prófið kærði Bjarna Randver og þvert á móti virðast nemendur námskeiðsins almennt hafa verið mjög ánægðir með kennslu hans. Þess utan er verulega líklegt – og þar vísa ég til eigin reynslu – að Bjarni hafi mun fyrr á námskeiðinu verið búin að gefa svipuð fyrirmæli munnlega, um hvernig nemendur ættu að umgangast efnið á glærunum. Kennarar ræða oft aðferðafræði glæra sinna, meðan þær eru í sýningu.

  Bréf þetta hafði hins vegar legið fyrir í tvo mánuði, þegar Vantrú sendi inn kærur sínar. Ég hefði talið eðlilegt að félagið drægi kærur sínar til baka um leið og því var efni bréfsins kunnugt, þar sem að þar með var ljóst að kennarinn sjálfur hafði varað nemendur sína við öllum mögulegum annmörkum glæranna og kærurnar því á misskilningi byggðar. En félagið Vantrú kaus að halda kærum sínum samt til streitu, sem sýnir einbeittan vilja til að ná fram niðurstöðu, væntanlega sér í vil.

  Þess vegna tel ég mikilvægt að fá að vita hvenær félaginu Vantrú var kunnugt um umrætt fyrirmælabréf Bjarna; það kynni að ákvarða hversu langan tíma félagið hélt kærum sínum til streitu, vitandi af tilvist bréfsins. Ég hef aldrei hitt á þann mann tengdan Vantrú, sem hefur viljað/þorað/getað upplýsa um þann tímapunkt þegar félagið vissi af fyrirmælabréfi Bjarna. Veist þú, Sveinn, hvenær félaginu Vantrú var kunnugt um það? Eða gætirðu komist að því – til að gera umræðuna upplýstari og fá staðreyndir málsins betur upp á borðið?

 17. Andrés B. Böðvarsson ritar:

  Sveinn, gerir þú ráð fyrir því að nemendur lesi almennt ekki póstana sína fyrir prófin? Oft senda kennarar mikilvægar tilkynningar stuttu fyrir próf og því fráleitt að hugsa sér að nemendurnir í þessu hafi annað hvort ekki lesið bréfið eða meðtekið efni þess. Raunar sýnist mér að þetta bréf hafi aðallega verið til áréttingar því sem sagt var í tímum. Mikilvægi bréfsins fyrir Bjarna er að það er skriflegt sönnunargagn um það hvaða augum Bjarni vildi að nemendur litu glærurnar og það að glærurnar voru ekki jafn veigamikill hluti af námsefninu og Vantrú vill vera láta.

 18. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Eins og Helgi bendir á þá skiptir það sköpum hvort Vantrú vissi af bréfinu áður en félagið kærði og einnig eftir að félagið hélt kærunni til streitu. Hvort Vantrú vissi af bréfinu get ég aftur á móti ekki vitað, þetta bréf hefur ekki verið til umræðu hjá félaginu svo ég viti. Hafi menn mikinn áhuga á þessu má e.t.v. snúa sér til einhvers Vantrúarfélaga eða þeirra sem hafa tekið þátt í þeirra umræðu, s.s. spjalli, sjá listann hér, og spyrja. (Þar má smella á einstök notendanöfn og er stundum gefið upp fullt nafn, blogg viðkomandi, jafnvel mynd.)

  Hvað siðanefnd varðar þá fékk Þórður Harðarson formaður þetta bréf afhent 23. mars 2010 og Þorsteinn Vilhjálmsson þann 31. mars 2010. Líklega hefur Sigríði Þorgeirsdóttur, þriðja fulltrúa í siðanefnd, ekki borist vitneskja um bréfið fyrr en það er lagt fram og bókað sem málskjal á fundi siðanefndar þann 6. maí 2010. Það er afar undarlegt að sú siðanefnd skuli hafa þvælt málin áfram eftir að hafa fengið þetta bréf og líka undarlegt að karlarnir tveir skuli ekki hafa upplýst Sigríði umsvifalaust um bréfið.

  Hvað varðar nemendur í námskeiðinu þá reikna ég með að í bréfinu sé Bjarni Randver að árétta það sem löngu hafði verið sagt í kennslustundum. Fyrir svo utan það að háskólanemar ættu að gera sér sjálfir grein fyrir því að glærur eru einungis til stuðnings námi og kennslu og engan veginn hægt að byggja próflestur eingöngu á þeim (gildir raunar líka um framhaldsskólanemendur - ég er bara ekki nógu kunnug grunnskólakennslu til að slá neinu föstu um glærunotkun þar).

 19. Sveinn Þórhallsson ritar:

  Hér taliði um að þetta bréf sýni *svart á hvítu* að glærurnar hafi ekki verið hugsaðar á einhvern ákveðinn hátt en gerið svo um leið ráð fyrir því að það hafi einungis verið árétting á því sem Bjarni hafði sagt fyrr á misserinu. Slíkar hugleiðingar eru þannig séð í lagi, en það er *svart á hvítu*-hlutinn sem skiptir máli hér. Hvað segir bréfið *svart á hvítu*?

  Jú, það segir að leiðbeiningar um hvernig nemendum bæri að nálgast þessar fleiri hundruðir glæra bárust þeim allavega tveimur dögum fyrir próf. Ekki viku fyrir próf, ekki mánuði fyrir próf eða nokkrum mánuðum, heldur tveimur dögum. Það kann vel að vera að það hafi aðeins verið árétting á einhverju sem Bjarni Randver sagði fyrr um haustið 2009 - en þetta tiltekna bréf sannar ekkert um það, *svart á hvítu* og það ætti því ekki að telja Bjarna Randveri það sérstaklega til tekna í þessu tiltekna máli að hafa sent það þarna rétt fyrir próf.

  Með öðrum orðum þó að félagsmenn í Vantrú hefðu vitað af þessu bréfi þegar þeir sendu erindi/kæru/kvörtun til Háskólans þá hefðu þeir væntanlega líka vitað hvenær það var sent. Ef þetta bréf er jafnframt eina skriflega staðfestingin á því hvernig Bjarni Randver hugsaði þetta, þá er alls ekki fáránlegt að komast að þeirri niðurstöðu að það hafi borist nemendum allt, allt of seint þegar tekið er tillit til gríðarlegs fjölda glæra í námskeiðinu, hlekki í sjálfum glærunum o.þ.h. Það hefði, að mínu mati, ekki verið nein sérstök ástæða til að hætta við erindi/kvörtun/kæru vegna þessa bréfs þegar félagsmönnum Vantrúar þótti á sér brotið. Undir eðlilegum kringumstæðum hefði sannleikurinn um áherslur Bjarna Randvers einfaldlega komið í ljós við rannsókn.

  Bréfið skiptir því bara engu máli í þessari umræðu.

 20. Sveinn Þórhallsson ritar:

  Svona í stuttu máli - ef þið gætuð grafið upp bréf eða tilkynningu frá Bjarna Randveri til nemenda sinna þar sem sömu leiðbeiningar koma fram sem sent var fyrri hluta misserisins, helst í upphafi námskeiðsins, þá fyrst væruði með eitthvað í höndunum að mínu mati (og þegar ég segi “eitthvað” þá meina ég eitthvað sambærilegt við það sem þið teljið ykkur hafa í höndunum núna með umræddu bréfi - þá fyrst væri ástæða til að kanna það hvort félagsmenn í Vantrú hafi vitað af slíkum leiðbeiningum þegar þeir sendur erindi/kvörtun/kæru til Háskólans).

  En það er ljóst að það er alveg ástæðulaust gera mikið úr þessu bréfi. Það er alveg ástæðulaust að hlaupa upp til handa og fóta og draga erindi/kvörtun/kæru til baka eða vísa henni frá þegar maður sér þetta tiltekna bréf sem sent var rétt fyrir próf - því það eitt og sér sannar ekkert nema það að nemendur fengu þessar leiðbeiningar allavega rétt fyrir próf. Það sannar ekkert um að þeir hafi fengið þær fyrr.

 21. Sveinn Þórhallsson ritar:

  Helgi

  Ég get ekki komist að þeim upplýsingum sem þú biður mig um frekar en þú, því ég er ekki meira félagsmaður í Vantrú en þú. Auk þess skipta þær upplýsingar engu máli í þessari umræðu, eins og ég hef fyrr sagt.

 22. Helgi Ingólfsson ritar:

  Sæll, Sveinn, og takk fyrir svörin.

  Við erum augljóslega alveg á öndverðum meiði um gildi þess fyrirmælabréfs sem Bjarni Randver sendi nemendum sínum um varkárni við notkun glæranna.

  Ef ég skil þig hins vegar rétt (aths. 20), þá myndu málin horfa öðruvísi við, ef nemandi/nemendur úr námskeiðinu stigju fram og staðfestu að Bjarni hefði munnlega hvatt þau, meðan á námskeiðinu stóð, til að umgangast þær af gagnrýni og kynna sér efni þeirra rækilegar upp á eigin spýtur?

  —–
  Þar sem ég veit að a.m.k. einhverjir framámenn Vantrúar fylgjast með þessum umræðuþræði, þá skora ég á þá í nafni upplýstrar umræðu að svara eftirfarandi spurningum:

  a) Á hvaða tímapunkti vissu þeir, sem lögðu fram erindin/kærurnar fyrir hönd Vantrúar, að Bjarni Randver hefði látið fylgja bréf til nemenda námskeiðsins um það hvernig glærurnar skyldu notaðar?

  b) Þegar vitneskja um fyrirmælabréf Bjarna Randvers lá fyrir hjá Vantrúarmönnum, kom þá aldrei til umræðu (t.d. á spjallvefum félagsins) að breyta erindunum/kærunum eða draga þau til baka?

 23. Sveinn Þórhallsson ritar:

  Helgi

  Ef nemendur úr námskeiðinu myndu stíga fram og staðfesta það að þetta bréf væri aðeins árétting á því sem Bjarni Randver hafði lagt áherslu á við þá munnlega þá fyrst væruði með það í höndunum sem þið teljið ykkur vera með núna í formi þessa tiltekna bréfs, já (allavega frekar, það væri augljóslega langbest að til væru skrifleg fyrirmæli).

  En þá þarf að skoða hvort þau fyrirmæli skipti máli; þ.e. hvort þau réttlæti glærunotkun Bjarna Randvers.

  Þessu, sem og þeim spurningum sem þú varpar til félagsmanna í Vantrú hefur þegar verið svarað, af Vantrúarmönnum, m.a. á þinni eigin síðu. Hvað sem þér eða mér finnst um það skiptir bara engu máli - það sem skiptir máli er hvað þeim sem sendu erindið/kvörtunina/kæruna til Háskólans fannst og svo í framhaldi hvort þetta álit þeirra ætti við rök að styðjast skv. siðareglum Háskólans.

 24. Helgi Ingólfsson ritar:

  Blessaður, Sveinn:

  Þú varst í aths. 21 að segja að þú gætir ekki komist að þessum upplýsingum, þar sem þú værir ekki félagi í Vantrú. Þess vegna ávarpaði ég framámenn í Vantrú til svara í aths. 22.

  Svo segir þú í aths. 23 að þessu hafi þegar verið svarað - sem ég kannast ekki við. Hvar og hvenær á þessu að hafa verið svarað? Og ef þessu hefur verið svarað, geturðu þá ekki bara upplýst okkur um svörin?

  Ef þú getur ekki svarað beint, þá standa spurningar mínar til framámanna í aths. 22 óhaggaðar. Ég er bara að biðja um upplýsingar, ekki álit eða mat á mikilvægi þeirra.

 25. Helgi Ingólfsson ritar:

  Sveinn:

  Ég biðst velvirðingar - ég gruflaði og grófst fyrir í bloggi mínu og sé að félagsmaður í Vantrú (sem ég verð þá að taka sem svaranda fyrir félagið, þótt viðkomandi sé ekki í forsvari/ábyrgðarstöðu þar) gat ekki svarað fyrri spurningunni nákvæmlega - sagði þó að þeir í Vantrú hefðu ekki frétt af þessu bréfi fyrr en “löngu eftir” að þeir sendu erindi sitt inn - en hefur svarað seinni spurningu minni á þann veg að ekki hafi komið til tals að draga kæruna til baka út af þessu bréfi.

  Endurtek, Sveinn: Ég biðst velvirðingar.

  En ég er þó engu nær hvað “löngu eftir” þýðir (mánuður? þrír mánuðir? hálft ár? ár?)

  Þannig má heita ljóst að Vantrú telur bréfið ekki hafa skipt neinu máli í ferlinu öllu, hvenær sem þeim varð það ljóst.

 26. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Ég sá á tveggja manna tali Matthíasar Ásgeirssonar og Þórðar Ingvarssonar, á bloggi Matthíasar, orvitinn.com, að þeim er ekki vel ljóst hvernig kennslu er háttað í hugvísindum. Þeim ofbýður magn námsefnis í einum kúrsi og Matthías segir: “Í engu tilviki þurfti ég að lesa eitt þúsund og sjö hundruð (1700) glærur á tveim sólarhringum!” Mögulega hefur þú misskilið skilaboðin í bréfinu á sama hátt, Sveinn. Svo ég árétta að nemendum í hugvísindagreinum og félagsvísindagreinum ætti að vera ljóst frá upphafi að þeir ættu að lesa námsefnið allt með gagnrýnu hugarfari og festa sér aðalatriði í minni. Þessi árétting um glærurnar er í rauninni óþörf. Glærurnar voru auðvitað ekki fyrst lagðar fram tveimur dögum fyrir próf eins og Matthías virðist halda. (Hann ætti raunar að vita hið sanna því Óli Gneisti Sóleyjarson hafði þær út úr vini sínum þann 1. október 2009, eftir að fjallað hafði verið um Frjálslyndu fjölskylduna og stuðst þ.á.m. við þær 174 glærur sem liggja á vef Vantrúar án leyfis, í þremur kennslustundum í septemberlok) .

  Orð Bjarna Randvers um glærurnar voru einungis fyrsta ábendingin til nemenda fyrir próf. Sjálf sé ég ekki beinlínis ástæðu til að benda nemendum á þetta, nemendum hefði mátt vera algerlega augljóst til hvers glærurnar voru og þeirra takmörkun a.m.k. hafi þessir nemendur sótt tíma og stundað nám í námskeiðinu. Ég efast stórlega um að kennarar í hugvísindagreinum tilkynni skriflega og sérstaklega í upphafi námskeiðs að glærur einar og sér séu ekki nóg til að læra, það er svo augljóst. Þeir gætu allt eins tilkynnt skriflega og sérstaklega að það ætti að læra heima.

  Félagið Vantrú hefur aldrei gert neitt úr þessu bréfi og ég efast um að það hefði skipt nokkru máli hvort félaginu var kunnugt um það fyrr eða seinna. Ætlun Vantrúar og hvernig henni var hrint í framkvæmd verður gerð skil í næstu færslu(m).

  En af því sviðsljósinu hefur nú verið beint að þessu bréfi skal ég birta það í heild í næstu athugasemd. Birtingin er með leyfi Bjarna Randvers Sigurvinssonar.

 27. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Bréf Bjarna Randvers Sigurvinssonar til nemenda í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar haustið 2009, sent þann 6. desember 2009 undir fyrirsögninni Kveðja og velfarnaðarósk:

  Ég vil nota tækifærið áður en að prófinu kemur til að þakka ykkur fyrir þátttökuna og samveruna í námskeiðinu um nýtrúarhreyfingar og ég vona að þið hafið haft gagn af því. Svo gjarnarn hefði ég viljað vera með ykkur lengur í námskeiðinu og fara dýpra í ýmislegt en ég tel samt varla hafa mátt sleppa neinu sem ég tók fyrir. Þó eru nokkur atriði sem mig langar að árétta að lokum:

  (1) Þó svo að ég vonist til að glærurnar sem ég bjó til fyrir ykkur komi ykkur að gagni ber að gæta þess að þær eru yfirborðskenndar í mörgum efnum og þið fáið verulega fyllri mynd af öllu með því að lesa þá bókakafla og þær greinar sem eru að finna í fjölritaðar lesheftinu. Þess vegna er alls ekki nóg að lesa bara glærurnar.

  (2) Nauðsynlegt er að nálgast allt sem tengist fræðigreininni með bæði gagnrýnu og hlutlægu hugarfari. Það gildir ekki aðeins um þær trúarhreyfingar sem til umfjöllunar eru í námskeiðinu heldur einnig kennsluna hjá mér og sjálft kennsluefnið. Jafnvel þótt ég leitist við að vera hlutlægur í kennslunni eru hvorki ég né höfundar lesefnisins hlutlausir því að félagslegur bakgrunnur okkar, umhverfi og skoðanir setja óhjákvæmlega mark sitt á framsetningu okkar og áherslur. Þess vegna skiptir máli að þið látið ekki mata ykkur gagnrýnilaust heldur kynnið ykkur sjálf hlutina og sannreynið þá. Það sem skiptir máli á prófinu er að þið sýnið þekkingu á viðfangsefninu sem grundvölluð er á lesefninu og kennslunni og færni til að vinna með hana og greina.

  (3) Hafa ber í huga að það er ekki nóg að lesa bara um trúarhreyfingar sem kunna að virka að ýmsu leyti framandi því að maður fær fyllri sýn á þær þegar maður jafnframt kynnist fólkinu sem tilheyrir þeim og sér hvernig það ræktar trúna og á hvaða forsendum. Þó svo að nauðsynlegt sé að kunna skil á sögu viðkomandi trúarhreyfinga, starfsháttum þeirra og trúfræði og þekkja þá gagnrýni sem þær hafa sætt þá getur það allt saman virkað fáránlegt og óskiljanlegt fyrir þá sem ekki reyna að setja sig í spor viðkomandi fólks og skoða heiminn út frá forsendum þess. Um er að ræða fólk af holdi og blóði sem þarf í sínu félagslega samhengi að finna sér stað í tilverunni og því sem því er dýrmætast. Þó svo að nauðsynlegt sé að kunna skil á gagnrýninni þarf að gera sér grein fyrir því að það geta verið margar hliðar á hlutunum og áhersla á gagnrýnina eina getur reynst villandi. Ég sakna þess að hafa ekki getað farið betur ofan í sum þau atriði sem komu við sögu í námskeiðinu til að veita fyllri sýn á þau en ég treysti því að þið bæði hafið þetta í huga og lesið ykkur betur til um þessi atriði bæði í sjálfu lesefninu til prófs og umfram það.

  (4) Megin viðfangsefni námskeiðsins er að veita yfirsýn yfir þann hluta trúarbragðaflórunnar sem trúarbragðafræðingar hafa flokkað sem nýtrúarhreyfingar í víðtækri merkingu þess orðs en þekking á grunnskilgreiningum trúarlífsfélagsfræðinnar á trúarhugtakinu (þröngar og víðar innihaldsskilgreiningar (substantive definitions) og hlutverkaskilgreiningar/virkniskilgreiningar (functional definitions), trúarbrögðum, trúarhópum og trúarhreyfingum (kirkja (church), kirkjudeild (denomination), sértrúarhópur (sect) og einstaklingsmiðlæg aðdáendahreyfing (cult)) er forsenda þeirrar yfirsýnar. Þetta eru hlutir sem þið þurfið að hafa á hreinu.

  (5) Ef þið viljið fá námskeið sem fara dýpra í einhver afmörkuð atriði sem tekin hafa verið fyrir í nýtrúarhreyfinganámskeiðinu, svo sem varðandi galdra, hindúisma eða jóga, ættuð þið endilega að hafa samband við Pétur Pétursson prófessor sem hefur umsjón með þessu námi. Vissulega er Guðfræði- og trúarbragðafræðideildin aðþrengd með fjármagn en eftir því sem eftirspurnin eykst eftir námskeiðum eru meiri líkur á því að fjármagn fáist fyrir þau, jafnvel í því magni að hægt sé að ráða gistikennara erlendis frá sem sérhæft hafa sig á viðkomandi sviðum. Þess má þó geta að framundan eru í boði námskeið um kínversk trúarbrögð og Kóraninn og er verið að vinna í því að fá gistikennara í ýmsum öðrum trúarbrögðum.

  Að lokum óska ég ykkur velfarnaðar í próflestrinum og sjálfu prófinu. Sjálfur mun ég koma til ykkar í prófið a.m.k. einu sinni. Ef þið þurfið einhverja [svo] hluta vegna að hafa samband við mig getið þið hringt í mig í síma […]

  Kveðja

  Bjarni Randver

 28. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Sveinn: Ég mun gera grein fyrir skoðunum nemenda sem sátu námskeiðið síðar.

 29. Arnar G. Jónsson ritar:

  Ég held að vantrúarmenn vilji fyrst og fremst ekki standa í stappi við veikan einstakling. Ég hef lesið bloggið þitt lengi og séð ýmis skrif þín um veikindi þau sem þú ert að glíma við. Það er líklega hvorki þeim né þér til framdráttar að fara út í einhverjar spjall langlokur sem gætu komið þér enn frekar úr jafnvægi.

  Bestu kveðjur!

  Arnar

 30. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Kærar þakkir fyrir umhyggjuna, Arnar. En þú hefur líklega ekki góða þekkingu á veikindum eins og mínum, þótt þú hafir lesið mínar eigin lýsingar á þeim. Ég er haldin “djúpri endurtekinni geðlægð án sturlunareinkenna”, sem á mannamáli þýðir mjög slæmt þunglyndi án þess að það skerði vitsmuni eða valdi nokkurs konar geðrofi. Svoleiðis að meint tillitsemi félaga í Vantrú væri þá byggð á misskilningi og þjóðtrú: Ég er ekki skyni skroppin þótt ég sé haldin þessum alvarlega sjúkdómi fremur en t.d. manneskja með ólæknandi sykursýki eða einhver sem situr í hjólastól. Miðað við að formaður Vantrúar hefur réttindi sem klínískur sálfræðingur og starfar væntanlega sem slíkur í Barnavernd Reykjavíkurborgar og að varaformaðurinn hefur BA próf í sálfræði finnst mér voðalega ólíklegt að stjórn Vantrúar sé haldin þeim firrum og hjátrú um þunglyndi sem þú eignar þeim.

 31. Jóhann Sigurfinnur B ritar:

  Vorkunnsemi þín, Arnar, eða sú sem þú telur Vantrúarmenn hafa, er ekkert minna en viðurstyggileg.

  Og það af margvíslegum ástæðum. Þá er ég ekki að vísa til innistæðulausrar sjálfumgleði þinnar.

  Þú átt bersýnilega bágt.

  Það er aumkunarvert að forystumenn Vantrúar skuli ekki sýna sig hér.

  Líklega eru þeir að bíða eftir frekari biflíversum frá Mofa og Jóni Vali, blessaðir…

 32. Helgi Ingólfsson ritar:

  Arnar G. Jónsson:

  Ummæli þín (nr. 29) um “að vantrúarmenn vilji fyrst og fremst ekki standa í stappi við veikan einstakling” eru með því lúalegra sem ég hef lengi séð, fyrir utan að vera ósannindi. Á prívatsíðu Vantrúarmanns er einmitt haldið úti um þessar mundir “spjall langlokum”, sem einkennast af hæðni og rætni í garð Hörpu og fleiri. Það er öll umhyggjusemin!