30. janúar 2012

Sókn Vantrúar gegn Bjarna Randver í fjölmiðlum

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Tilkynning 1. febrúar 2012: Nú er ég búin að fletta upp nokkrum Hæstaréttardómum og sé ekki betur en mér sé heimilt að vitna í tilvitnanir í tilvitnanir í það sem Vantrú kallar innra spjallið. Sérstaklega áhugaverðir dómar í þessu sambandi er dómur nr. 472/2008, þar sem staða jafningjanets er að nokkru skilgreind í lagalegu tilliti, og dómur nr. 541/2005, sem fjallar um friðhelgi einkalífs versus rétt til að birta upplýsingar sem varða almenning. Ég kem því bloggfærslunum tveimur í fyrra horf, þ.e. set aftur inn tilvitnanir í tilvitnanir í spjallþráðinn „Söguskoðun Bjarna Randvers“. Þær eru auðkenndar með rauðum lit. Sem fyrr er heimild mín fyrir tilvitnunum í spjallþráðinn „Söguskoðun Bjarna Randvers“ á spjallborði Vantrúar, sem einungis félagar í Vantrúar höfðu aðgang að (á annað hundrað manns), skjalið Tímatafla í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (nr. 1/2010). Þetta er vinnuskjal sem ekki er opinbert en ég hef leyfi Bjarna Randvers til að vitna í. Þetta sama skjal er líka meginheimild mín fyrir hvaða umfjöllun Vantrú reyndi og tókst að ná í fjölmiðlum.

Um innra spjallið/lokuðu spjallþræðina segir félagið Vantrú í greininni Aðalfundur Vantrúar þann 18. janúar 2011:

 Ef forsíðan er andlit okkar er innra spjallið hjartað. Á það hópumst við eins og dýr að vatnsbóli (eða mý á mykjuskán) og sækjum þangað félagsskap, stuðning og styrk (eða nýjasta slúðrið og hneykslið í heimi bullukollanna). Innra spjallið lýtur eigin lögmálum sem ekkert okkar hefur stjórn á en hver sem þau eru er ljóst að þau svínvirka.“ (Feitletrun mín.)
 

Margt bendir til að búið hafi verið að ræða aðförina að Bjarna Randver Sigurvinssyni stundakennara í Háskóla Íslands um nokkurt skeið áður en félagið Vantrú kærði hann til þriggja mismunandi aðila innan HÍ. Um leið og kærurnar höfðu verið sendar var farið að huga að því hvernig mætti valda Bjarna Randveri sem mestum skaða og hluti þess líklega tilbúinn áður en hin fræga áríðandi tilkynning Reynis Harðarsonar sálfræðings, formanns Vantrúar barst. Aðalheimildi mín er skjalið Tímatafla í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (nr. 1/2010). Þetta er vinnuskjal sem ekki er opinbert en ég hef leyfi Bjarna Randvers til að vitna í.

„Við munum berjast […] í fjölmiðlum þar til fullur sigur er unninn“

lesið dagblaðÞann 8. febrúar 2010 kynnti Reynir Harðarson á spjallþræðinum um Bjarna Randver uppkast að grein til Fréttablaðsins þar sem því er m.a. ranglega haldið fram að Bjarni Randver Sigurvinsson haldi því fram í kennslu að málflutningur trúlausra gegn trúarbrögðum sé vatn á myllu haturshreyfinga. Greinin fékkst ekki birt.

 Eftir yfirlýsinguna um heilaga stríðið 12. febrúar 2010 einbeittu forsvarsmenn Vantrúar sér um hríð að því að birta greinar gegn Bjarna Randveri á eigin vef, daglega þann 15.-19. febrúar, auk þess að tjá sig ítarlega um þær, sem og aðrir félagsmenn og áhangendur félagsins. (Sjá greinar I-V í efnisflokknum Háskólinn á vef Vantrúar og umræðuþræði við þær.)

Þann 18. febrúar 2010 sendi Vantrú grein um smán HÍ til  Fréttablaðsins ásamt glærunum um „Frjálslyndu fjölskylduna“ og bréfum félagsins til Péturs Péturssonar deildarforseta en ekkert af þessu fékkst birt.

Þann 18. febrúar mætti Reynir Harðarson í viðtal hjá Ævari Kjartanssyni hjá Ríkisútvarpinu. Þessum þætti, Okkar á milli, var útvarpað 3. mars 2010 (krækt er í upptöku þættinum). Í viðtalinu er Reynir einkar yfirvegaður, hljómar einlægur og slær jafnvel á létta strengi. Hann minnist ekki sérstaklega á Bjarna Randver eða glærurnar í kúrsinum Nýtrúarhreyfingar. En í ljósi þess sem sjá má eftir Reyni annars staðar er dálítið merkilegt hve hann málar hlutskipti Vantrúarfélaga dökkum litum, þeir eru nefnilega mikil fórnarlömb:
 

 33.30 mínúta
 En við megum þola það að sko … kannski er það vegna þess að kirkjunnar menn halda úti þeim áróðri að við séum hættulegir menn og siðlausir að fólk hefur jafnvel illan bifur á Vantrú: Þetta eru orðljótir menn og bara dónar og frekjur. Ég mátti finna fyrir þessu þegar ég fór að berjast gegn Vinaleiðinni í skólum. Skólastjórinn lét hafa eftir sér í blaði að það að fetta fingur út í veru prests í skólanum væri ofstæki sem jaðraði við frekju, nei það var öfugt,  frekja sem jaðraði við ofstæki. Og hérna, það eru svo margir sem skilja ekki hvernig í ósköpunum geturðu verið á móti því að börn fái aðstoð í skólum? Það er eins og þarna fólk getur ekki … fólk skilur ekki hvað maður getur haft á móti skírn eða hvernig geturðu verið að fetta fingur út í skírn. Það er af því fólk hugsar ekki alla leið!
 […]
 34.00 mínúta
 Jújú, ef að einhver vogar sér að tjá sig um … um trúmál þá er stutt í ofstækisstimpilinn í rauninni í hvora áttina sem er, sko hvort sem þú ert að mæla með henni eða á móti henni. En ef þú ert á móti henni þá ertu siðlaus í þokkabót!

Undir lok þáttarins spyr Ævar Kjartansson hvort Reynir ætli að leggja einhverjar sérstakar áherslur, sem nýr formaður Vantrúar.

 Ævar Kjartansson: […] Nú ert þú tekinn við forystu í Vantrú - hvernig sko sérðu baráttuna fyrir þér? Það liggur þetta orð á ykkur að vera ofstækisfullir, dónalegir jafnvel í ykkar skrifum og því sem þið haldið fram. Ætlar … ert þú … hvernig ætlarðu að sigla þessari skútu?

 Reynir Harðarson: Ég svosem sigli ekki skútunni - við erum ekki með svona hírarkí eins og venjulegar stofnanir. Þetta er mjög sundurleitur en um leið samstilltur hópur og hérna hver og einn fær að gera það sem honum sýnist meira og minna. Ég ætla ekki að vera sko… þagga niður í mönnum eða breyta stíl á einn eða neinn hátt … ég ætla að halda áfram og ég ætla að hvetja menn tilsað hugsa málið og benda á villur þegar þær koma fram.

 Ævar: Er það hið gagnrýna viðhorf sem sameinar ykkur fyrst og fremst, það að vera gagnrýninn?

 Reynir: Ég held það. Og þetta er ákaflega heillandi og skemmtilegur félagsskapur. Þarna innan Vantrúar eru menn sem eru með mikla þekkingu á ólíkum sviðum, meirihluti ábyggilega háskólagenginn mmmm nokkrir sálfræðingar, það eru þjóðhátta .. eh, já, þjóðfræðingur, tölvunarfræðingar, eðlisfræðingar, stjörnufræðingar, líffræðingar og svo framvegis og svo framvegis. Og það er mjög gaman að sjá semsagt hversu samstilltur svona hópur er. Það hefur nú oft verið talað um það að trúleysingjar séu svo miklir einstaklingshyggjumenn eða skrítnir kallar, að ætla að reka þá í hóp sé eins og ætla að smala köttum. En það er ekki okkar reynsla í Vantrú, við náum ótrúlega vel saman og aldrei hefur komið upp sundurþykkja eða deilur um áherslur og hvar þær eiga að liggja. Þetta er … skútan siglir sig nokk sjálf, merkilegt.

hópur menntamannaÓneitanlega er þarna dregin upp lokkandi mynd af félaginu og Vantrú virðist vera hið ákjósanlegasta kompaní skv. lýsingu Reynis. Félagar í Vantrú eru að vísu ofsóttir af kirkjunnar mönnum og jafnvel stimplaðir siðlausir af því fólk skilur þá ekki en vilji menn vera í góðum fórnarlambafélagsskap virðist Vantrú kjörinn klúbbur gagnrýninna menntamanna þar sem aldrei kemur upp sundurþykkja. Er ekki dálítið skrítið að svoleiðis félagsskapur mæli með „all out attack“ á Bjarna Randver Sigurvinsson og skipuleggi þá árás, m.a. með „einhvern háðs-gjörning“ í janúar 2010? (Sjá tilvitnanir í orð Reynis í fyrri færslu, Bardagaaðferðir Vantrúar gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni.) Og ef Vantrúarskútan er á sjálfstýringu, af hverju þurfti þá Reynir formaður að skipuleggja aðförina gegn Bjarna Randveri og leggja sitt af mörkum til að hrinda henni í framkvæmd? Og eru orð Reynis Harðarsonar daginn eftir að viðtalið var tekið ekki dálítið á skjön við hinn rólega, viðsýna menntamann sem hljómaði í viðtalinu?

 Hversu ómerkilegir geta menn verið? Að vega að manni berskjölduðum úr launsátri í fílabeinsturni sínum með skykkju menntagyðjunnar á öxlum sér, og svara svo ekki fyrir skítkastið þegar upp um það kemst eða biðjast afsökunar.

 Eftir þessa brunnmigu guðfræðingsins hefur orðið hlandspekingur öðlast nýja merkingu í mínum huga.

 Og mærðarlegt mal um þvertrúarleg samskipti aumkunarvert aðhlátursefni og hræsnin ein.
 

Það er líka áhugavert að skoða ummæli Reynis Harðarsonar í athugasemdaslóða daginn eftir að þátturinn fór í loftið en Vantrú vakti sérstaka athygli á þættinum þann 4. mars 2010.

Þann 24. febrúar 2010 mætti Matthías Ásgeirsson fyrrverandi formaður Vantrúar í viðtal hjá vantrúarfélaganum Frosta Logasyni í útvarpsþættinum Harmageddon. Því miður hefur mér ekki tekist að hafa upp á því viðtali en efast ekki um að Matthías hafi verið álíka yfirvegaður og mikill ljúflingur og Reynir var í viðtalinu við Ævar Kjartansson.

Á spjallþræðinum „Söguskoðun Bjarna Randvers“ þann 25. febrúar 2010 talaði Reynir Harðarson svo um að auka þrýstinginn á „þessa lúða“ í gegnum fjölmiðla þegar aðalgreinaherferðinni gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni á vef félagsins væri lokið. Óli Gneisti Sóleyjarson, fyrrverandi formaður Vantrúar, stakk upp á þeim möguleika á innri vefnum að gera grein fyrir gagnrýni félagsmanna í Stúdentablaðinu og á student.is þann 26. febrúar 2010 og daginn eftir vildi Óli Gneisti greinaskrif í dagblöð sem myndu skila sér inn á póstlista allra starfsmanna HÍ.

Þann 12. mars 2010 birti DV frétt um viðbrögð Péturs Péturssonar deildarforseta við kæru Vantrúar. Traustsyfirlýsingunni í garð Bjarna Randvers Sigurvinssonar, sem finna mátti í bréfi Péturs Péturssonar til Vantrúar, er ekki getið, enda heimildin bersýnilega vefur Vantrúar. (Bréf Péturs Péturssonar var birt á vef Vantrúar 10. mars 2010 en stuðningsyfirlýsing Péturs við Bjarna Randver, hér auðkennd með fjólubláu var felld út, án þess að auðkenna það: „Niðurstaða mín er þessi: Tekið verður mið af athugasemdum félagsins Vantrúar við einstaka glærur og kynningu á því ef námskeiðið verður kennt aftur. Um þetta erum við Bjarni Randver sammála. Ég vil einnig taka það fram að hann nýtur fulls trausts míns sem kennari í trúarbragðafræði.“ Þann 14. mars endurbirti DV sömu frétt með sömu úrfellingu, undir fyrirsögninni Vantrúarmenn beygja guðfræðinga og fylgdi ljómandi falleg mynd af Reyni Harðarsyni sálfræðingi, formanni Vantrúar.

Þann 16. apríl 2010 hringdi Þórður Harðarson, formaður siðanefndar HÍ,  tvisvar í Reyni Harðarson og áttu þeir „mjög hreinskilið samtal“. Reynir kallar Þórð enda „eðalkarl“. Þórður benti Reyni á að „sáttatillaga“ siðanefndar HÍ (þar sem guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ er neydd til að sættast við Vantrú) muni verða birt á vef háskólans þar sem fjölmiðlar hafi aðgang að henni og geti vantrúarfélagar notað hana eins og þá lysti. Kennarafundur í guðfræði-og trúarbragðafræðideild hafnaði hins vegar „sáttartillögu“ Siðanefndar HÍ og breytingartillögu þann 21. apríl 2010.

TékklistiÞann 7. júní 2010 sendi Reynir Harðarson formaður Vantrúar ítarlega greinargerð, frá sjónarhóli félagsins, um kæruna og gagnrýni á Bjarna Randver Sigurvinsson á alla helstu fjölmiðla, m.a. Smuguna, Fréttablaðið og Ríkissjónvarpið. Aðeins Smugan brást við með fréttaumfjöllun. Þar birtist frétt um kæruna og eina glæru daginn eftir. Í fréttinni eru margar villur, t.d. í fyrirsögninni. Í umræðuþræði kemur fram að blaðamaðurinn studdist aðallega við 5 síðna greinargerð Vantrúar. Reynir Harðarson upplýsir að Þórður Harðarson formaður Siðanefndar HÍ sé svo vammlaus að hann hafi í hyggju að segja af sér sem formaður vegna þess hvernig guðfræði- og trúarbragðafræðideildin hafi haldið á málinu. Þorsteinn Vilhjálmsson siðanefndarfulltrúi varpar allri ábyrgðinni á töfum í málinu á guðfræði- og trúarbragðafræðideild sem hafi verið svo lengi með það. Í umræðuþræðinum kemur fram að mörgum finnst kæra Vantrúar fráleit en félagið á sér einnig málsvara. Frétt Smugunnar var svo kynnt á forsíðu Eyjunnar.

Þessi ítarlega greinargerð Reynis Harðarsonar er athyglisverð í ljósi þess að á þriðja degi eftir að hann sendi hana í fjölmiðla, þann 9. júní 2010, tilkynnti Reynir félögum sínum á spjallþræðinum „Söguskoðun Bjarna Randvers“ að Þórður Harðarson hafi beðið sig um að tilkynna ekki afsögn sína „fyrr en við hefðum heyrt frá öðrum svo fréttirnar verði ekki raktar til hans“. Væri áhugavert að vita hvort félagarnir á spjallþræðinum hafi yfirhöfuð tekið eftir þessu misræmi í gerðum og tilmælum síns formanns.

Um sumarið verður þeim forsprökkum Vantrúar sem skipulögðu og hrintu „heilaga stríðinu“ í framkvæmd smám saman ljóst að málum þeirra kunni að vera komið í óvænt efni. 21. júní 2010 segir  Reynir Harðarson, formaður Vantrúar, á spjallþræðinum um Bjarna Randver, að ef Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ svari ekki félaginu sé „mál að taka upp kyndla og heykvíslar“. Í framhaldi af því dettur spjallendum í hug að þrýsta á menntamálaráðherra og talað er um á spjallþræðinum „að ráðast á ALLA fronta samtímis, fjölmiðla, HÍ, ráðherra“ um haustið.

Í herbúðum Vantrúar er svo hljótt fram á haust. En 21. september 2010 skrifaði Reynir Harðarson formaður Vantrúar grein í Fréttablaðið þar sem hann staðhæfði aftur (með röngu) að Bjarni Randver Sigurvinsson héldi því fram að málflutningur Vantrúar fordæmdi m.a. minnihlutahópa á borð við gyðinga. Grein Reynis Harðarsonar gegn Bjarna Randveri Sigurvinssyni var einnig birt á vef Vantrúar, sjá Skinhelgi kirkjunnar.
 
 

Um hálfu ári síðar syrti verulega í álinn fyrir félagið Vantrú

Þann 28. apríl 2011 hélt Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ fund með fulltrúa/fulltrúum Vantrúar og Ingvari Sigurgeirssyni formanni siðnefndar HÍ í þessu máli. Á þeim fundi féllst Vantrú á að draga kæru sína til baka.

13. maí 2011 birtist frétt í Fréttablaðinu um þá ákvörðun Háskólaráðs að skipa óháða nefnd til að rannsaka vinnubrögð siðanefndar HÍ í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni. Dregin er fram gagnrýni á störf Þórðar Harðarsonar fyrrverandi formanns Siðanefnar HÍ í kærumálinu sem síðan hafi verið skipaður aftur formaður hennar til þriggja ára. Þó svo að rannsóknarnefndin hafi ekki enn hafið störf segir Kristín Ingólfsdóttir rektor HÍ að Þórður njóti hennar „fyllsta trausts“.
 
 

En félagar í Vantrú voru þó ekki alveg af baki dottnir og settu nú traust sitt á annars konar aðför að Bjarna Randver Sigurvinssyni

LöggaÞann 26. maí 2011 hringdi vantrúarfélagi í Bjarna Randver Sigurvinsson og sagðist hafa þurft að beita félaga sína þrýstingi til að fá að gera það áður en þeir létu til skarar skríða gegn honum. (Þessi vantrúarfélagi og fyrrum stjórnarmaður í Vantrú er fyrrverandi nemandi Bjarna Randvers.) Hann sagði Bjarna Randveri að vantrúarfélagar myndu fara til lögreglunnar á hádegi daginn eftir til að kæra hann og yrði það stórmál sem færi í alla fjölmiðla. Bjarni Randver gæti þó gert tvennt til að koma í veg fyrir það. Í fyrsta lagi verði hann að gefa upp nafn þess einstaklings sem lak gögnum af innri vef Vantrúar til hans. Sá einstaklingur muni engan skaða hljóta af því. Í öðru lagi verði Bjarni Randver að sjá til þess að öllu efni af innri vefnum (spjallþræðinum „Söguskoðun Bjarna Randvers“) verði eytt. Ef hann geri það verði hægt að leysa málið farsællega og vantrúarfélagar muni ekki beita sér gegn honum. Lekinn sé alvarlegur og hefði t.d. stórskaðað Reyni Harðarson formann Vantrúar og fyrrverandi formennina Óla Gneista Sóleyjarson og Matthías Ásgeirsson. Bjarni Randver neitaði.
 

Forsprakkar Vantrúar gerðu svo alvöru úr því að kæra til lögreglu. Skv. upplýsingum Þórðar Ingvarssonar, stjórnarmanns í Vantrú, kærðu þeir innbrot á vefþjóninn sinn og þjófnað á trúnargögnum. Mér er ókunnugt um hvort þeir kærðu einhvern tiltekinn aðila fyrir þennan þjófnað og einnig ekki ljóst hvort þeir hafi kært einhvern fyrir að dreifa þessum gögnum. Það væri ágætt ef forsvarsmenn Vantrúar upplýstu um það finnist þeim það skipta máli. 

Þann 3. desember 2011 birtist svo ítarleg fréttaskýring Barkar Gunnarssonar um kærumálið og afdrif þess í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins (dagsett 4. desember 2011) undir fyrirsögninni „Heilagt stríð Vantrúar“. Eftir að hún birtist og viðtal við Bjarna Randver Sigurvinsson í Kastljósi í kjölfarið má segja að forsprakkar Vantrúar hafi dregið hratt í land og haldi nú annars vegar fram að erindi þeirra til hinna þriggja aðila innan HÍ hafi verið sárasaklaust og hins vegar að þeir sjálfir séu hin raunverulegu fórnarlömb í málinu. Þeir telja sig hafa ekki átt greiðan aðgang að fjölmiðlum, sem passar ágætlega við fórnarlambshlutverkið sem þeir nú gegna en raunveruleg skýring er væntanlega einfaldlega sú að greinarnar sem þeir vilja koma í fjölmiðla eru of langar miðað við skilyrði sem sett eru aðsendum greinum.

Þann 29. desember 2011 birti félagið Vantrú grein á sínum vef og þykjast félagarnir illa sviknir af því að hafa ekki komið henni í Morgunblaðið:

 Vantrú fékk vilyrði fyrir því frá blaðamanninum að félagið fengi birta grein þar sem ásökunum yrði svarað og rangfærslur leiðréttar. Svar Vantrúar átti að birtast í sunnudagsblaði Morgunblaðsins þann 18. desember. Ritstjórn Morgunblaðsins hefur neitað að birta greinina og þess í stað boðið félaginu að senda inn lesendabréf og birta það undir liðnum umræðan. Við sögðum pass og birtum greinina því hér á Vantrú. (Sjá Um „Heilagt stríð“ og „einelti“ Vantrúar)
 

Nánar verður fjallað um þessa grein og fleiri greinar og ummæli félaga í Vantrú á Vefnum eftir að fréttaskýring Barkar um kærumálið og afdrif þess birtist í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins þann 4. desember 2011 síðar.

En í næstu færslu verður fjallað um fleiri aðferðir sem félagið Vantrú viðhafði í sínu „heilaga stríði“ gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni, guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands og síðar stuðningsmönnum Bjarna Randvers.
 
 

51 ummæli við “Sókn Vantrúar gegn Bjarna Randver í fjölmiðlum”

 1. Kristinn Theódórsson ritar:

  Sæl Harpa

  Þetta er svakaleg samantekt hjá þér. Vantrú kemur afar illa út úr þessum lýsingum og ekki get ég fullyrt að þær séu falskar - þótt ég vilji félaginu vel.

  Símtalið er alveg hreint skammarlegt - sýnist mér. Ekki góður dagur hjá Vantrú.

  Þú notar orð á borð við aðför og heilagt stríð í slíkum mæli að lesningin fær dálítið áróðursyfirbragð. Ég held að þú gætir gert betur hvað það snertir. En þú metur það vitaskuld bara sjálf.

  Ein spurning.

  Hefurðu enga samúð með reiði yfir því t.d. að í glærunum sé verið að fjalla um rit eftir Helga Hós sem heitir “Þjófar” og Reynir Harðarson þar tilgreindur fyrir að hafa “stolið” einhverjum tímaritum?

  Hvernig í veröldinni verður þetta atriði að fókusatriði í þessum glærum þegar það er af svo miklu að taka?

  Ef ég væri talsmaður einhvers félags sem fjallað væri um í Háskólanum og þegar kæmi að því að tala um mig væri fjallað um að ég hafi einhverntíman verið þjófkenndur þætti mér það í meira lagi sérkennilegt val á umfjöllunarefni og yrði eflaust alveg ferlega ósáttur. Þú væntanlega líka, Harpa.

  Kannski myndi ég freistast til að kæra þá umfjöllun til siðanefndar háskólans - en hefði þó vonandi geð í mér til að gefa kennara og deildarstjóra tækifæri til að lagfæra efnið fyrst.

  En sem sagt. Vertu nú svo væn að segja mér að þú skiljir að Reynir sem dæmi hafi orðið gramur yfir því að það virtist vera kennt um hann í HÍ að hann sé þjófur. Það má vera að allt sem Vantrú gerði í framhaldi hafi verið vanráðið og jafnvel ljótt, en það er einfaldlega ekki erfitt að skilja að menn hafi orðið gramir og fjasað um það á lokaða spjallinu að leita hefnda og notað um það stór orð.

  Auðvitað má hinsvegar tala um að Vantrú taki sig of alvarlega og hafi árum saman afbakað orð trúaðra og stokkið á smæstu yfirsjónir þeirra. En burt séð frá slíkum vangaveltum hljóta flestir að sjá að umrædd glæra er í meira lagi sérkennileg og eðlilegt að brugðist sé við henni með einhverjum hætti. En eins og áður segir, var etv. ekki brugðist við henni með réttum hætti.

  Að sýna þessu ekki einhvern skilning þykir mér í meira lagi ósanngjarnt.

  mbk,

 2. Hafþór Örn Sigurðsso ritar:

  Sæl Harpa,

  þetta eru vægast sagt áhugaverðir pistlar hjá þér, verst að síðan hjá þér er nánast ólæsileg vegna skrauts í textanum. Ættir alvarlega að íhuga að breyta um útlit, setja upp eitthvað einfaldara.

  Ég er búinn að vera meðlimur í Vantrú í fjölda ára og hef pínulítið gaman að því að sjá hvernig fólk sem stendur fyrir utan sér félagið.

  Það pirrar mig hinsvegar pínulítið að þú skulir nota efni úr persónulegum samtölum okkar Vantrúarmanna í þessari krossferð þinni. Datt þér aldrei í hug að spyrja okkur Vantrúarmenn hvort þú mættir birta þetta? Segjum sem svo að þessi vinkona þín segi þér að þetta sé ekki á gráu svæði, ætlar þú þá bara sísona að setja inn okkar persónulegu samskipti? Finnst þér þetta ekkert á gráu svæði siðferðislega?

  Ég vil taka skýrt fram að ég hef enga menntun í geðlæknisfræði, sálfræði eða öðrum faggreinum sem fjalla um geðraskanir… en mér finnst þetta “borderline” siðleysi.

 3. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Carlos: Ég er búin að eyða þessu. Verð því miður að eyða þínu kommenti líka, sem ábyrgðarmaður þessa bloggs. Fyrirgefðu :)

 4. Carlos ritar:

  @ Hafþór Örn,

  það er svolítið of seint að koma tannkremi aftur í túpu þegar búið er að kreista hana. Samtökin Vantrú hafa rækilega sýnt fram á það, með því að taka það sem sagt er á opinberum vettvangi, líka á persónulegu bloggi einstaklinga og gagnrýna það. Nú er efni, sem birtist á vef Vantrúar, á bloggi nafnkunnra félagsmanna og efni sem lekið hefur verið til almennings og það skoðað. Dálítið erfitt að finna að því.

  Vitaskuld væri gott að ræða líka við einstaka stjórnarmenn eða félagsmenn Vantrúar og spyrja þá hvernig á að túlka svona texta … en miðað við það að félagið ber ábyrgð á því hvað birt er á vef þess, og miðað við það að það getur stjórnað því hvað þar er í formi greina og athugasemda, þá er líkast til óþarft að flækja málið frekar, þegar ein manneskja á í hlut.

  Ekki gleyma að þetta er líka einkablogg Hörpu. Hún hefur ekki 2- 300 rannsakendur og textahöfunda á bak við sig eins og t.d. félagið Vantrú.

  Loks er athyglisvert, að Harpa bregst við skynsömum athugasemdum, sbr. það sem hún skrifar efst í þessari færslu, líka frá Vantrú. Þannig að þótt hún hafi birt eitthvað sem ekki stenst, þá leiðréttir hún texta og jafnvel lætur þá hverfa, þegar það á við. Hvað fleira er hægt að ætlast af einni manneskju?

 5. Carlos ritar:

  Varðandi 3. aths. - Til þess voru refirnir skornir, Harpa :)

 6. Guðbergur Ísleifsson ritar:

  Mér sýnist að það sé að verða efni í sérpistla hvernig Vantrúarfólk bregst við þessari umfjöllun Hörpu og annarra sem voga sér að gagnrýna framgöngu Vantrúar í þessi glærumáli. Í stað þess að gera minnstu tilraun til málefnalegrar umræðu um efni gagnrýninnar og kjarna málsins, hvað þá að horfa dálítið inn á við, fer öll orka Vantrúarfólks í að ráðast beint á persónur þeirra sem gagnrýna.

  Þetta er svo sem ekkert nýtt. Að gera lítið úr, hæða og traðka á persónum þeirra sem gagnrýna aðferðir Vantrúar er helsta dægrastytting Vantrúarfólks og mesta skemmtun eins og glögglega má sjá á mörgum greinum og umræðum á vantru.is og hinum svonefnda “spjallþræði” þar á bakvið.

  En lítil efni hefur þetta fólk á að ýja að siðleysi annarra. Þar eru þau á afar þunnum ís svo ekki sé meira sagt.

 7. Hafþór Örn Sigurðsso ritar:

  Carlos: “Dálítið erfitt að finna að því.”

  Já það var nú einmitt það sem ég var að leita svara við, hvort Hörpu fyndist í lagi að birta einkaspjall á milli manna án leyfis. Persónuelga þá myndi ég ekki gera það, mér finnst það siðlaust. En ég er enginn sérfræðingur. Þetta er bara mín tilfinning. Ég geri greinarmun á því hvað til dæmis Harpa er að segja hér og hvað hún segir í einkaspjalli við vini eða vinkonur, myndi aldrei nota svoleiðis gegn henni. Ég geri mér alveg grein fyrir að þegar hún ræðir við vini þá segir hún hluti sem hún myndi aldrei nokkurntíma birta hér á þessu opna bloggi.

  Það þarf enga 200-300 (?) rannsakendur til að komast að þessu sem ég er að benda á, aðeins almenna skynsemi og almennt siðferði. Eitthvað sem býr í okkur flestum.

  Ég hefði gaman að því að heyra hvernig Harpa myndi bregðast við ef við myndum biðja hana um að birta ekki einkaskilaboð á milli Vantrúarmanna þó hún hafi þau undir höndum og þó hún hafi “leyfi” frá Bjarna Randver til að birta þau.

  Von að hún fari ekki í langsótta vörn með því til dæmis að bera við almannahagsmunum, eða eitthvað álíka spaugilegt.

 8. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Hafþór Örn Sigurðsson: Síðan ég byrjaði að blogga um kærur Vantrúar og aðgerðir gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni hef ég:

  * eytt ummælum vantrúarfélaga sem bað mig um það;
  * eytt klausu um vantrúarfélaga sem taldi að það gæti komið sér illa fyrir sig akkúrat núna að vera getið á þessu bloggi;
  * gætt þess að nafngreina ekki sama vantrúarfélaga í seinni færslum, af sömu ástæðu;
  * eytt talsverðum tíma í bréfaskrif við vantrúarfélaga sem hafa verið eitthvað óhamingjusamir yfir einhverju sem stóð í þessum færslum;
  * eytt löngum tíma í dag í bréfaskipti við Þórð Ingvarsson um þessa lögreglukæru Vantrúar, sem ég var fyrst upplýst um í gærkvöldi, m.a. til að reyna að fá það á hreint hvað nákvæmlega var kært (miðað við upplýsingar virðist það innbrot á vefþjón Vantrúar en þær upplýsingar komu ekki beinlínis skýrt og skilmerkilega fram heldur þurfti ítrekuð bréf til að fá þetta á hreint);
  *tekið út beinar tilvitnanir í tilvitnanir í spjallþráð Vantrúar, “Söguskoðun Bjarna Randvers” meðan ég bíð eftir áliti sérfræðings í stafrænum höfundarétti á því hvort slíkar tilvitnanir séu í lagi eða ekki;

  Nú tuðar þú yfir útliti bloggsins. Það kemur ekki til greina að ég skipti út þessu lekkera kvenlega útliti fyrir Vantrú! Á stjórnsemi Vantrúar sér engin takmörk? Ef þér finnst erfitt að lesa texta í þessu umhverfi þá gætirðu prentað hann út og lesið af blaði eða bara hreinlega látið vera að lesa hann.

  Ég er orðin leið á þessum geðveikistimplum og brennimerkingartilraunum Vantrúar. Þetta er með eindæmum barnaleg hegðun! Það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að ég sé með jaðarpersónuleikaröskun (borderline) og ég efast um að þú hafir hugmynd um hvað það er. Þú getur gúgglað borderline og þú getur lesið meir en bara forsíðuna um siðblindu á mínum eigin vef, http://sidblinda.com. Frasinn sem þú bjóst til, “borderline” siðleysi er ekki til. Þegar þú ert búinn að lesa heima geturðu tjáð þig, annars skaltu sleppa því. Auk þess skil ég ekki af hverju ég á að standa einhverjum vantrúarfélaga úti í bæ skil á geðsjúkdómum sem ég er haldin eða ekki haldin (ef þú hefur mikinn áhuga á geðsjúkdómi mínum lestu þá efnisflokkinn Geðheilsa á þessu bloggi og notaðu svo google, þú kannt það er það ekki?). Minn geðsjúkdómur kemur þessum bloggfærslum ekkert við, frekar en möguleg gyllinæð þín eða tásveppir eða bara eitthvað. Ég veit að þessi stigma-árátta Vantrúar er hernaðartaktík en mér finnst hún barnaleg og hallærisleg og frábið mér slíkt.

  Ég mæli með því að þú takir frekar þátt í svívirðingaþræði félaga þinna á dylgjubloggi Matthíasar Ásgeirssonar, http://www.orvitinn.com/2012/01/24/20.45/#athugasemdir . Þar er væntanlega vettvangur sem hentar þér betur en mitt blogg.

 9. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Og ég sé að þú ert með opinn spjallþráðinn um mig á “innra spjallborði” Vantrúar, Hafþór Örn Sigurðsson, og sé á ummælum þínum að tölvupóstur frá mér til Þórðar er greinilega kóperaður þangað inn svo til samstundis. Viltu ekki upplýsa félaga þína þar, t.d. núna, um skoðanir þínar á trúnaði í persónulegum samskiptum?

 10. Hafþór Örn Sigurðsso ritar:

  Harpa Hreinsdóttir, þú segir hér fyrir ofan að EF þessi “sérfræðingur” hafi það álit að þú megið birta þessar tilvitnanir þá komir þú til með að setja þær aftur inn. Þú virðist eingöngu nota lagalegu hliðina til að ákvarða hvort það að birta einkaspjall sé á gráu svæði eða ekki, ég er að spyrja þig út í siðferðið. Er þetta virkilega svona erfitt að skilja? Er ekki augljóst að það að birta svona einkaskilaboð getur hugsanlega verið á gráu svæði siðferðislega?

  Já ég tuða yfir útliti bloggsins því þetta er nánast ólæsilegt hjá þér. Þú ert algjörlega búin að missa þig í skrauti, og þú þarft þess ekki. Það er margt áhugavert hér, tók það sérstaklega fram í fyrsta innleggi. Textinn getur auðveldlega borið sig sjálfur án þess að vera skreyttur í bak og fyrir með einhverjum krúsidúllum. Hann verður bara torlæsari. Það er auðvitað undir þér komið hvort þú farir eftir þessari ábendingu eða ekki.

  “Ég vil taka skýrt fram að ég hef enga menntun í geðlæknisfræði, sálfræði eða öðrum faggreinum sem fjalla um geðraskanir… en mér finnst þetta “borderline” siðleysi.”

  Ég stend við þetta sem ég sagði, og það er AUGLJÓST að þarna á ég við að þetta sé á mörkum þess að vera siðleysi, ekkert meira og ekkert minna. Svona útúrsnúningar að lesa meira í það sem menn segja eru pirrandi. Ef þú átt við einhvern sjúkdóm að stríða þá gangi þér vel í baráttu við hann.

  “Þið hafið ekki lært mikið af “innbrotinu”, er það?”

  Varðandi innra spjall Vantrúar og þjófnaðinn þá hélst þú þó ekki að stolin gögn af spjallinu myndi gera það að verkum að við myndum hætta að ræða málin? En það er gaman að sjá þig skrifa að þetta var þjófnaður, vona að það fái þig til að hugsa áður en þú birtir þetta aftur.

  En jæja, læt þetta duga. Ég hef komið því á framfæri sem ég vildi segja, það var ekki ætlunin að fara í umræður neinar umræður, heldur benda á hugsanlegan siðferðisbrest við það að birta einkaskilaboð á opnu bloggi… hafið það gott.

 11. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Kristinn Theódórsson:
  Þetta er úr ljóðabók Helga Hóseassonar, Þrælar og himnadraugar : orð sundurlaus og samföst um stjörnótt stóð og stjörnuþjóð, sem kom út 1997. Helgi skrifaði bara tvær bækur um ævina og á glærunum eru nokkrar tilvitnanir í ljóðabókina. Þú getur nálgast hana á Þjóðarbókhlöðu ef þú hefur áhuga.

  Bjarni Randver segist hafa notað sýnidæmi af kveðskap Helga til að greina trúarbragðagagnrýni Helga Hóseassonar sem helgimyndabrjóts og aðgerðarsinna og mótmæli hans í garð þjóðkirkjumanna og ráðamanna landsins. Án þess að Bjarni Randver nefni það þá finnst mér sjálfri að Helgi sé með ummælum sínum um Siðmennt og Reyni Harðarson einfaldlega að gerast enn meiri helgimyndabrjótur (þarna gegn Siðmennt og Reyni) til að vekja enn meiri athygli á sér og sínum málstað. (Sem er vel að merkja aðalaðferð Vantrúar í allri umræðu svo vantrúarfélagar ættu að kannast við þetta bragð þótt þeir kjósi frekar að hengja sig á Overtongluggahugtakið til skýringar á eigin hegðun.)

  Helgi var nokkuð sérsinna, eins og allir vita, og gekk ansi langt í að vekja athygli á baráttumáli sínu, afskírninni (þótt hann hafi annars verið dagfarsprúður maður). Barátta Helga var eins manns barátta þótt einhverjir hafi kosið að gerast stuðningsmenn hans eða aðdáendur, sérstaklega kannski eftir lát hans. Það að afneita Reyni og Siðmennt er líklega bara álíka athyglistrix og sumar bloggfærslur Þórðar Ingvarssonar; Allt fyrir athyglina! Ég efast um að Helgi hafi haft neitt sérstakt á móti Reyni Harðarsyni eða Siðmennt. En hann hefur kannski ekki kært sig um að verða þeirra íkon, karlinn.

  Þegar umfjöllun um Helga Hóseasson er skoðuð í samhengi og útskýringar á því hvað fór fram í kennslustundum og hvernig það tengdist markmiðum og efni námskeiðsins líta þessar glærur nokk eðlilega út. Félagið Vantrú hefur fyrir löngu fengið Greinargerð Bjarna Randvers í hendurnar (frá Ingvari siðanefndarformanni) og þú getur kannski fengið hana lánaða hjá forsvarsmönnum Vantrúar.

  Reynir Harðarson hefur að eigin sögn kynnt sér Helga Hóseasson vel og fjallað um hann. Það kemur því á óvart ef Reynir var að sjá þessi sýnidæmi í Þrælum og himnadraugum fyrst á glæru af lokuðum námskeiðsvef í Uglu. Hafði hann þá ekki lesið þessar tvær bækur Helga? Það er ekki eins og þær séu einhver leyndarmál eða huldurit!

  Það er enginn að halda því fram uppi í Háskóla að Reynir sé þjófur - það er sýnt dæmi um skrif Helga Hóseassonar þar sem Helgi heldur þessu fram og ásakar marga aðra um þjófnað með gífuryrðum - svo miklum að hverjum nemanda með lágmarksgreind ætti að vera ljóst að maðurinn er annað hvort ekki að tala í alvöru eða hann var ekki alveg heill á geði.

  Ég hef enga trú á að Reynir Harðarson sé svo ofurviðkvæmur og ofursiðavandur sem þú gefur í skyn, altént verður það ekki merkt á skrifum hans um aðra (sjá t.d. beina tilvitnun í skrif Reynis á þessari bloggfærslu um brunnmigu og hlandspeking). Og fólk sem segist hafa verið að gantast í áríðandi tilkynningu til sinna félagsmanna um heilagt stríð á mörgum vígstöðvum getur nú varla verið þekkt fyrir að fatta ekki djókinn í prósaljóði Helga!

  Svo ég svari spurningu þinni: Nei, ég sé enga ástæðu til að æsa sig yfir þessari glæru. En ég gef mér þá auðvitað að fólk hafi lágmarksþekkingu á verkum Helga Hóseassonar, verandi í Vantrú og hafandi hampað karlinum lengi.

 12. Kristinn Theódórsson ritar:

  Þetta er hin ágætasta skýring og hún hefur eflaust dugað innanbúðarmönnum við HÍ - eðlilega.

  En ég kaupi það ekki að þú skiljir alls ekki að þetta geti verið liður í því sem olli ergelsi Vantrúarmanna. Finnst þú eiga að kannast við að þetta geti litið illa út fyrir nemendum sem Vantrúarmönnum.

 13. Carlos ritar:

  Ég ætla, að gögn af einkaspjalli, sem trúnaðarmaður lekur til fjölmiðla, séu ekki stolin. Ég legg til að Harpa gangi ekki svo langt í þjónkun sinni við Vantrúarmeðlimi, að samþykkja svoleiðis rangfærslu. Annars mætti ætla að einhver utanaðkomandi hafi hakkað sig inn í spjallið, sem ekki er raunin. Vantrúarmeðlimi hefur líkast til ofboðið sorinn sem þarna viðgengst og látið Bjarna hafa gögn svo hann gæti varið sig.

 14. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Kristinn Theódórsson: Verðum við þá ekki bara að vera sammála um að vera ósammála? Annars get ég vel fallist á að þetta “geti verið liður í því sem olli ergelsi Vantrúarmanna” því mér verður æ ljósara að það þarf ekki mikið til að vantrúarmenn móðgist; þetta eru hörundsárasti félagsskapur sem ég hef haft spurnir af.

  Ég byggi mína skoðun m.a. á aldarfjórðungsreynslu sem kennari (þótt ég hafi nú aldrei verið sérlega glæruglöð) og ég-veit-ekki-hvað mörgum árum sem nemandi og gef mér að a.m.k. Reynir hefði átt að vera sæmilega lesinn í verkum Helga Hóseassonar áður en hann sá glærurnar (en er ekkert sérlega bjartsýn á að þeir hinir hafi verið það). Rökin fyrir því að Reynir Harðarson hefði átt að þekkja verk Helga Hóseassonar eru að sami Reynir hefur haldið nokkuð á lofti þekkingu sinni á Helga Hóseassyni.

  Og jafnvel þótt við gæfum okkur að Reynir fari ekki með rétt mál þegar hann segist hafa þekkt vel til Helga Hóseassonar þá leynir gróteskur stíll Helga sér ekki á þessari glæru og út í hött að skilja textann sem raunsæja sagnfræðilega staðreynd.

 15. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Carlos: Kæra Vantrúar til lögreglunnar snýst um að einhver utanaðkomandi hafi hakkað sig inn á innra spjallið félagsins. Mér tókst loksins að fá það á hreint. Þórður Ingvarsson staðfesti að Vantrú telji ekki að neinn vantrúarfélagi hafi afritað spjallþráðinn heldur hafi einhver brotist inn.

  Aftur á móti heldur Bjarni Randver Sigurvinsson því fram að afriti hafi verið komið til sín af aðila sem ofbauð spjallþráðurinn “Söguskoðun Bjarna Randvers”. Skv. upplýsingum Vantrúar hafa vantrúarfélagar einir aðgang að þessu spjalli.

 16. Helgi Ingólfsson ritar:

  Kristinn (ummæli 1 og 12):

  Benda verður á að það er ekki kennarinn, sem þjófkennir Reyni, heldur Helgi Hóseasson. Reynir verður því að sakast út í Helga, ekki háskólakennarann. Kennarinn gæti hins vegar hafa sett ummæli Helga í samhengi í kennslu sinni á óteljandi vegu, t.d. til að benda á að nafni minn hafi mögulega ekki “gengið heill til skógar”, svo vitnað sé til orða Þórðar Harðarsonar.

  —–
  En af hverju týna menn sér í smáatriðum? Af hverju ræðir enginn um “augljósa fílinn”? Mér sýnist hann sá að um árabil létu Vantrúarmenn sér ekki allt fyrir brjósti brenna, voru óhræddir töffarar sem tóku djúpt í árinni í umræðum og pönkuðust á mönnum og málefnum, oft með óvægnu orðbragði. Síðan, skyndilega, urðu þeir allir sem einn hörundsárir og hvítstroknir kórdrengir (út á við eingöngu, vel að merkja, því að inn á við virðist sami vígreifi andinn hafa lifað): Þá sveið ægilega undan umfjöllun sem virtist byggð á ekki ósvipuðum forsendum og þeirra eigin. Í kjölfarið, með viðeigandi lúðrablæstri, var tækifæri gripið og ráðist í þrautskipulagða vegferð gegn einstaklingi, í því skyni að koma höggi á andstæðinga, ímyndaða eða raunverulega, sem og til auglýsingar á félaginu, en sú brella snerist í höndunum, svo að félagið spilar sig nú sem fórnarlamb.

  Um þetta álít ég færslur Hörpu snúast. En mér kann vitaskuld að skjátlast.

  ?

 17. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Helgi: Þér skjátlast ekki :)

 18. Sveinn Þórhallsson ritar:

  Helgi og Harpa ætli það gæti ekki verið vegna þess að í hugum flestra Vantrúarmanna er, ótrúlegt nokk, munur á umfjöllun/gagnrýni/”pönk” á vefsíðu félags og bloggum einstaklinga annars vegar og háskólakennslu hins vegar og þeir gera þ.a.l. mismunandi kröfur til þessa tveggja fyrirbæra?

 19. Sveinn Þórhallsson ritar:

  Án þess að ég viti nokkuð um það, n.b.

 20. Kristinn Theódórsson ritar:

  Helgi Ingólfsson

  Mér finnst ég nú einmitt ekki hafa verið að forðast það að ræða um “augljósa fílinn”. Ég sagði sjálfur:

  “Auðvitað má hinsvegar tala um að Vantrú taki sig of alvarlega og hafi árum saman afbakað orð trúaðra og stokkið á smæstu yfirsjónir þeirra.”

  Ég kom einmitt inn á það að hér væru vopnin að snúast.

  Ég er í raun algjörlega sammála því að margt ef ekki allt hafi misfarist í kæru Vantrúar. Er ekki að verja félagið að neinu leyti hvað framkvæmd kærunnar og umfjöllunina snertir.

  En ef það á að túlka burt hvert einasta orð sem Vantrú er að kvarta yfir í glærum BR og gera sér upp algjört skilningsleysi á óánægjunni með þær, þykir mér umræðan orðin óheiðarleg og dapurleg að horfa upp á.

  Það má einfaldlega alveg halda því til haga að sumar glærurnar voru þess eðlis að þær stinga í augu og virka umdeilanlega ekki eins og fræðileg umfjöllun.

 21. Helgi Ingólfsson ritar:

  Kristinn (aths. 20):

  Þess vegna hef ég þráspurt Vantrúarmenn hvort ekki hefði átt að fara hóglegar fram út af “ergelsi” heldur en með þremur erindum/kærum (m.a. til siðanefndar, sem er grafalvarlegt mál og getur fyrirgert háskólaframa manna), hvort ekki hefði átt að taka tillit til nýframkominna upplýsinga í ferlinu (t.d. fyrirmælabréfs Bjarna um notkun glæranna) o.s.frv. Svörin hafa öll verið á einn veg: Hörkustigið af hálfu félagsins virðist hafa verið forákvarðað og því haldið til streitu hvað sem tautaði og raulaði. Virðist litlu skipta þótt það ylli háskólasamfélaginu skaða, sem raunin varð. Nýjar upplýsingar breyttu engu um. Það kalla ég sjálfhverfa óbilgirni og skrum.

  Fram kemur í rannsóknarskýrslu HÍ að Bjarni Randver hefði verið tilbúinn til að breyta glæru eða tveimur, að gefnum tilskildum forsendum. Málið snýst því að mínu mati fremur um sjálfhverft gönuhlaup Vantrúar heldur en glærurnar sem slíkar.

  —–
  Sveinn (sem ert ekki félagi í Vantrú fremur en Kristinn eða Arnold Björnsson, en sérð samt ástæðu til að nefna slíkt og um leið ástæðu til að verja gjörninga félagsins út í eitt) (aths. 18-19):

  Ég er í megindráttum að reyna að benda á (í aths. 16) að það sé ekki Háskólinn, sem skipti máli í samhenginu, heldur “TÆKIFÆRI” félagsins til að auglýsa sjálft sig við þessar kringumstæður og um leið að klekkja á einhverjum andstæðingum. Um hina þætti málsins gæti ég haft ýmislegt að segja, en það er ekki “augljósi fíllinn”.

 22. Kristinn Theódórsson ritar:

  Helgi Ingólfsson

  Nú þykir mér þú einfaldega kominn í þann túlkunarleik að gefa þér alltaf meinlegan ásetning á bakvið aðgerðir Vantrúar. Ef það þykir í góðu lagi er eðlilegt að gefa sér líka vondan ásetning á bakvið aðgerðir, glærur og tilsvör Bjarna Randvers.

  Ég held að það sé farsælast að ganga ekki út frá því að mönnum hafi gengið illt til, a.m.k. í upphafi, hvorki Bjarna né Vantrú.

  En klárlega var það kapp en ekki forsjá sem réði för hjá Vantrú og það voru mistök - að mínu mati.

  Ég er bara að benda á að það hafi alveg verið eðlilegt í ýmsum skilningi að einhverjir yrðu fúlir. Að neita því alfarið er ekki heiðarlegt, þykir mér. En málið hefði aldrei átt að fara beint til Siðanefndar. Það var stórundarlegt.

 23. Sveinn Þórhallsson ritar:

  Þú ert að benda á hvað ÞÉR finnst máli skipta “í samhenginu” Helgi, en það er ekki það sem máli skiptir. Það sem máli skiptir er það sem Vantrúarmönnum fannst skipta máli. Þeim fannst meðal annars skipta máli að um háskólakennslu væri að ræða, en ekki greinaskrif eða blogg.

 24. Guðbergur Ísleifsson ritar:

  Það þykir mér undarleg málsvörn af hálfu Kristins Theódórssonar að einhverjir innan Vantrúarhópsins hafi orðið svo fúlir út af efnistökum Bjarna á námskeiðinu að það réttlæti á einhvern hátt eða geri betur skiljanlega hina ofboðslegu og öfgafullu “All Out Attack”-árás þeirra á hann.

  Með sömu rökum mætti halda því fram að árásarmaður eigi sér málsvörn í því að hafa orðið fúll yfir því hvernig fórnarlambið horfði á hann … eða að árás nauðgarans eigi sér réttlætingu í því hvernig konan var klædd … og svo framvegis. Þetta er fullkomlega ógild vörn.

  Nú má vel vera að einhverjir innan Vantrúar hafi orðið “fúlir” þegar þeir litu í spegilinn hjá Bjarna. En það réttlætir á engan hátt árásina á hann sem gögn málsins sýna svo ekki verður um villst að var gerð af 100% illum hug.

  Einnig má benda á að Vantrúarmenn kölluðu glærurnar “gullnámu”. Það bendir ekki beint til að þeir hafi verið fúlir yfir þeim. Þvert á móti þá fögnuðu þeir innilega því sem þeir töldu vera gott tækifæri til að ráðast að Bjarna og guðfræðideild Háskólans … af slíkum illvilja og offorsi að þeim sást ekki fyrir.

  Vantrú og fylgisfólk þess félagsskapar, svo og þeir sem reyna að verja gjörðir þessa fólks og persónuárásir, ætti að sjá sóma sinn í því að biðjast afsökunar á framkomu sinni í stað þess að reyna að réttlæta hana eins og Kristinn Theódórsson hefur verið að reyna að gera hér.

 25. Kristinn Theódórsson ritar:

  Hér virðist mér allt ætla ofan í hjólförin, svo ég læt þetta verða mitt síðasta innlegg.

  Það skilja það vonandi einhverjir aðrir en Guðbergur að ég er ekki á nokkurn hátt að afsaka aðgerðir Vantrúar að öðru leyti en því að mér þykir ekki óskiljanlegt að menn hafi verið ósáttir við þessar glærur, þær eru umdeilanlegar. Að viðurkenna það eitt þykir mér alveg lágmarks sanngirni.

  Ég er þó margbúinn að taka undir að illa hafi verið stað að kærunni og fellst algjörlega á að málið sé félaginu ekki til sóma. En ég sé ekki að að þurfi að útiloka heiðarlega umfjöllun um það að Vantrú hafi geta þótt glærurnar svekkjandi.

  Glærurunar voru umdeilanlega lélegar - það er ekki óskiljanlegt að Vantrú hafi viljað fá eitthvað gert.

  Vantrú fór hinsvegar einkennilega að við það - og kann þess vegna að hafa fyrirgert allri samúð með málstaðnum.

  Ef þið skiljið þennan málflutning minn sem tilraun til að sakfella Bjarna Randver og hvítþvo Vantrú er ykkur ekki viðbjargandi.

 26. Helgi Ingólfsson ritar:

  Kristinn:

  Ég held að ég skilji sjónarmið og get tekið undir þau að marki. Ég sá eitthvað athugavert við eina eða tvær glærur sjálfur - en það var þó ekkert sem réttlætti þessa tröllauknu vandlætingu Vantrúar og umkvörtun félagsins hefði átt að fara eftir allt öðrum og hljóðlátari leiðum. Ég ásakaði ekki eða gagnrýndi félagið Vantrú fyrir meinlegan ásetning (ekki fyrr en ég fékk að kenna sjálfur á skotum einstakra en allmargra meðlima / fylgismanna þess, eins og Guðbergur). “Stóra glærumálið” sé ég frekar í líkingu við auglýsingarherferð, sem missir marks, m.a. vegna þess að varan var ekki nógu góð og herferðin olli ýmsum skaða. Hitt tel ég svo einnig umhugsunarvert að Vantrú hefur aldrei viðurkennt minnstu siðferðilegu ábyrgð í málinu, og er þó málshefjandi þess í núverandi mynd.
  —-
  Annars, ef menn vilja skoða nýja vinkla málsins, þá tel ég Guðberg Ísleifsson heldur betur velta einum slíkum upp í athugasemsd sinni við síðustu færslu Hörpu (aths. þar nr. 3, 30. jan. kl. 7.47). En ég reikna með að þetta sé punktur sem Vantrúarmenn vilji lítt ræða.

 27. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Kristinn: Mér finnst frekar lítilmannlegt af þér að hnýta í Guðberg því hann hefur komið með mjög góða punkta í þessum athugasemdaþræði.

  Ég get fallist á að utanaðkomandi aðili, eins og forkólfar Vantrúar, hafi orðið svolítið bit á glærunum um sig. En hefðu þeir skoðað hinar glærurnar almennilega (þeir fengu allan glærupakkann úr Frjálslyndu fjölskyldunni) hefðu þeir átt að geta skilið samhengið að einhverju leyti. Það er hins vegar ekkert sem bendir til þess að þeir hafi skoðað hinar glærurnar almennilega. Það eina sem þeir hafa sagt um þær er að “við gerum ekki athugasemdir” við þær.

  Nú gat t.d. Óli Gneisti Sóleyjarson spurt vin sinn sem var nemandi í námskeiðinu í hvaða samhengi glærurnar um Vantrú hefðu verið settar fram. Í fréttum af hinum fræga spjallþræði hefur komið fram að forkólfar Vantrúar (og örfáir félagsmenn) voru hissa á hve nemandinn var jákvæður í garð Bjarna en þeir virðast ekki hafa haft áhuga á að vita hvers vegna.

  Þú varst félagi í Vantrú á þessum tíma, Kristinn, og spurning hvort þú fylgdist með umræðum á spjallþræðinum “Söguskoðun Bjarna Randvers”. Þar kemur skýrt fram ætlun Óla Gneista, Reynis og Matthíasar ÁÐUR en byrjað var að semja kærurnar, svo ekki sé minnst á umræðuna eftir að kærurnar voru sendar. Þarf ekki túlkunarfræðing til að skilja að tilgangurinn var að valda guðfræði- og trúarbragðafræðideild sem mestum skaða og verkfærið til þess var að ráðast á öllum “vígstöðvum” á Bjarna Randver. Ég held því fram að þessum þremur sem ég nefndi hafi verið nákvæmlega sama um hvað stóð á glærunum, þeir litu einungis á þær sem mjög heppilegt vopn í sínum höndum (meira að segja áður en þeir sáu þær, sbr. orð Óla Gneista um væntanlega “gullnámu”. Ég get ekki sagt um hve margir vantrúarfélagar fylgdu þessum foringjum og skipuleggjendum að máli.

  Og svo Vantrú fái ekki flog yfir þessari athugasemd: Þessar upplýsingar sem ég var að nefna úr innra spjallinu eru allar aðgengilegar í fréttaskýringu Barkar Gunnarssonar í Morgunblaðinu þan 4. desember 2011.

 28. Andrés B. Böðvarsson ritar:

  Kristinn:

  Ég get ekki annað en þakkað þér fyrir þína tilraun (sem vonandi gengur, þó ég sé ekki mjög bjartsýnn) til að færa umræðuna upp á hærra plan. Ég vona að þú hættir ekki að tjá þig hér.

  Ég tek undir það að glærurnar sem fjalla um Vantrú líta ekki að öllu leyti vel út einar og sér og því ekki óeðlilegt að spurningar vakni hjá félögum og áhangendum Vantrúar (og sjálfsagt ýmsum öðrum). Burtséð frá spurningum um það hvort glærurnar hafi borist forsvarsmönnum Vantrúar með eðlilegum hætti (þær gerðu það ekki, að mínu mati) þá hefðu eðlileg fyrstu viðbrögð við efninu sem birtist á glærunum að leita skýringa hjá kennaranum og óska eftir leiðréttingum á því sem menn töldu rangt farið með. Ef kennarinn hefði ekki gefið fullnægjandi skýringar þá væri eðlilegt næsta skref að leita til yfiboðara hans (deildarforseta og/eða rektors) og síðan til siðanefndar. Eðlilegt hefði einnig verið að bíða með gagnrýni á glærurnar þar til: a)Leyfi hefði fengist fyrir birtingu þeirra. b)Skýringar hefðu verið gefnar á efni þeirra (hvort sem menn sættu sig við þær skýringar eða ekki). Vissulega hefði kennarinn getað gefið skýringar á glærunum opinberlega sem svar við umfjöllun Vantrúar, en þá ber að líta til þess að yfir honum hékk kæra til yfirboðara hans og til siðanefndar sem var í gangi á sama tíma og því eðlilegt, og í raun æskilegt, að menn bíði með að tjá sig um kæruefnið opinberlega þar til málsmeðferðinni er lokið. Vantrú var þannig í raun búin að taka af Bjarna möguleikann til að svara gagnrýninni opinberlega þar sem umfjöllunin fór fram samhliða kærumálinu.

  Grundvallaratriðið er, hinsvegar, að það er ekki hægt að líta á glærur sömu augum og heilsteypta ritsmíð á borð við ritgerð, grein eða bók. Glærur eru kennslunni til stuðnings (þó maður lendi einstaka sinnum í kennurum sem nánast lesa bara glærurnar sínar - Bjarni er ekki þannig kennari) og þess vegna vantar mann allar forsendur til að vita hvernig glærurnar voru notaðar í kennslunni nema maður hafi setið viðkomandi kennslustund (eða í það allra minnsta talað við einhvern sem sat hana). Vantrú leitaði ekki einu sinni skýringa á efninu áður en þeir hófu umfjöllun um það heldur byggðu þeir á getgátum um notkun efnisins þar sem flest allt var túlkað á versta veg.

 29. Sveinn Þórhallsson ritar:

  Grundvallaratriðið er, og þessu má ekki gleyma þó svo að sumir hér leggi mikið á sig að reyna það, að í glærunum eru það alvarlegar og ítrekaðar rangfærslur, mál manna slitið alvarlega úr samhengi þannig að merking orða þeirra breytist svo ekki sé minnst á undarleg efnistök miðað við það sem búast mætti við af hlutlægri umfjöllun í Háskóla að það er gjörsamlega ómögulegt að réttlæta það með vísun í hvernig sumir kunna eða kunna ekki að nota glærur.

  Þau rök hafa löngu verið hrakin, t.d. á bloggi Helga sjálfs þar sem háskólakennari sagði það vera ógjörning að ætla BRS einhvern tíma að “setja glærurnar í samhengi” miðað við fjölda glæra í námskeiðinu og þeirra mínútna sem hann hafði til umráða.

 30. Ólafur Tr. Magnússon ritar:

  Sveinn:

  Það er ekki rétt að í glærunum séu alvarlegar og ítrekaðar rangfærslur. Harpa rekur það ágætlega hér á þessari bloggsíðu. Ekkert hefur komið fram sem hrekur hennar túlkun á þessu leiðindamáli.

  Eftir stendur að grandvar og heiðarlegur fræðimaður stendur uppi með 2ja milljóna króna skuld vegna lögfræðikostnaðar eftir skipulagða aðför öfgasamtaka.

 31. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Þetta sífellda nagg um glærurnar ætti kannski betur heima á umræðuþráðum við bloggfærslurnar sem fjalla um glærurnar. Nú hef ég ekki hugmynd um hvernig Geir Þórarinsson hagar sinni glærunotkun í kennslu í heimspeki (þ.e. sá sem þú vísar í, Sveinn). Ef hann miðar við að lesa allt sem stendur á glærunum fyrir nemendur (sem ætti nú að vera óþarfi, gefandi sér að nemendur í HÍ eru yfirleitt læsir og er raunar hroðalega leiðinleg kennsluaðferð) eða ræða efni hverrar glæru í þaula þá kemst hann vitaskuld yfir frekar fáar glærur. Glærupakki þar sem staldrað er við stöku glærur en annað látið rúlla undir fyrirlestri kennarans er væntanlega miklu stærri. Skv. greinargerð Bjarna Randvers voru þessar glærur notaðar þannig og raunar styður mikil myndskreyting það einmitt að þær hafi margar átt að leggja áherslu á það sem kennarinn var að segja eða fanga athygli nemenda betur en alls ekki verið lesnar upp hver og ein. Nemendur hefðu svo getað kíkt á glærurnar sjálfir seinna (almennt eru háskólanemendur sjálfbjarga og færir um þetta þótt sumum háskólakennurum sé það ekki ljóst) til að glöggva sig betur á smáatriðum ef þá lysti eða ef þeir þyrftu þess.

  Annars vísa ég í sérstaka færslu um hvernig glærur eru notaðar í kennslu …

 32. Guðbergur Ísleifsson ritar:

  Alvarlegar og ítrekaðar rangfærslur?

  Mál manna slitið svo alvarlega úr samhengi þannig að merking orða þeirra breytist?

  Eftir að hafa skoðað þær glærur sem Vantrúarmenn byggðu kæru sína á (ég gerði það í fyrra þegar málið var að verða til í glaðhlakkalegum meðförum Vantrúarmanna) er mér algjörlega ómögulegt að sjá þessar svokölluðu “rangfærslur” eða að mál manna hafi verið slitið svo úr samhengi að merking orða þeirra breytist. Vissulega er um að ræða tilvitnanir sem allir vita að geta aldrei gefið fulla mynd af frumtexta, en að þær tilvitnanir sem Bjarni notar skapi rangfærslur og/eða breyti merkingu orðanna er tómur hugarburður manna sem leita að ástæðu til að fara í fýlu til að geta réttlætt hefndaraðgerð.

  Hvar nákvæmlega eru þessar rangfærslur og hvar nákvæmlega slítur Bjarni samhengið í sundur þannig að merking orðanna breytist? Á það hafa Vantrúarmenn hvergi bent með neinum óyggjandi hætti en nota þess í stað margtuggðar upphrópanir og alhæfingar sem eiga sér enga raunverulega stoð eða eru svo léttvægar að allt heilbrigt fólk sér í gegnum þær á stundinni. Samt tekur allur hópurinn undir þessa vitleysu og dreifir henni á allar mögulegar bloggsíður. Enn á ný furðar maður sig á hjarðhegðun hópsins sem fylgir Vantrú blint að málum.

  Allir sem hafa skoðað hegðun Vantrúarmann, hvort sem er á vantru.is, bloggsíðum einstakra meðlima eða í athugasemdum á öðrum bloggum sjá kristaltært að sú mynd sem Bjarni dregur upp af Vantrú á þessum tilteknu glærum er eins fagleg, vel ígrunduð, hlutlaus og sönn mynd af félaginu, hugmyndafræði þess og stefnu eins og hægt er að ætlast til af manni í hans stöðu, þ.e. sem leiðbeinanda í Háskólanum.

  (Ef gera ætti einhverjar athugasemdir við efnistök Bjarna þá myndi ég frekar segja að hann dragi úr með því að sleppa dæmum um beinar persónuárásir Vantrúarmanna á fólk sem andmælir þeim og stefnu þeirra, svæsna eineltistilburði í garð ákveðinna kristinna einstaklinga undanfarin mörg ár og hvernig þeir reyna reyna stöðugt að gera lítið úr andmælendum sínum frekar en að halda umræðunni við þá á málefnalegu plani.)

  En fyrir utan fagmennskuna í vinnslu kennsluefnisins og glæranna hvatti Bjarni þá sem sátu námskeiðið til að beita gagnrýninni hugsun varðandi efnið í heild og bendir á að hver og einn geti rannsakað málið upp á eigin spýtur og myndað sér sína eigin skoðun, t.d. með því að skoða og lesa vantru.is og einstakar bloggsíður meðlimanna.

  Á þetta ætti reyndar ekki að þurfa að benda nemendum á háskólastigi, en Bjarni gerir það samt, bæði á námskeiðinu sjálfur og síðan bréflega með tölvupósti, löngu áður en Vantrú kærði hann. Þar var Bjarni að gæta fyllsta hlutleysis. Þetta leiða Vantrúarmenn algjörlega hjá sér.Enginn Vantrúarmanna sátu námskeiðið og vita því ekkert um það annað en að á því studdist Bjarni m.a. við fyrrnefndar glærur. Þeir hafa því engar raunverulegar forsendur fyrir árásinni heldur búa þær bara til.

  Enginn þeirra sem sátu námskeiðið hafa kvartað eða gert athugasemd við kennslu Bjarna. Þvert á móti hafa komið fram vitnisburðir um að að bæði Bjarni og námskeiðið sjálft hafi verið afar faglegt í alla staði. Þess utan er Bjarni bæði virtur og vel metinn fræðimaður sem er þekktur fyrir vönduð vinnubrögð og vitnisburðurinn er að hér fari maður sem megi ekki vamm sitt vita. Þetta segja allir sem þekkja hann og hafa starfað með honum eða undir hans leiðsögn. Meira að segja sá aðili sem afhenti Vantrú glærurnar ber Bjarna og kennslu hans góða söguna.

  Á því taka Vantrúarmenn ekkert mark.

  Að gera árás á Bjarna í þeirri von að hægt verði að valda honum sem mestum skaða og mannorðsmissi, og guðfræðideildinni óbætanlegu tjóni, og byggja þá árás á uppdiktuðum og ímynduðum “rangfærslum” sem eru hvergi til staðar í kennslu hans eða glærum er svo lúaleg að maður undrast mjög hversu lengi Vantrúarfólk ætlar að halda áfram að réttlæta hana (og sig í leiðinni) í stað þess að biðjast bara opinberlega afsökunar á framferði sínu í garð Bjarna og fara svo í naflaskoðun á eigin hegðun og framkomu áður en áfram er haldið.

 33. Guðbergur Ísleifsson ritar:

  Afsakið, en þetta átti ekki allt í einu að verða feitletrað þarna hjá mér í lokin. Harpa, geturðu lagað það?

 34. Sveinn Þórhallsson ritar:

  Það er bara víst rétt Ólafur, þrátt fyrir hlutdræga umfjöllun Hörpu. Ég bendi á umfjöllun Vantrúar máli mínu til stuðnings.

  Harpa: “Nemendur hefðu svo getað kíkt á glærurnar sjálfir seinna (almennt eru háskólanemendur sjálfbjarga og færir um þetta þótt sumum háskólakennurum sé það ekki ljóst) til að glöggva sig betur á smáatriðum ef þá lysti eða ef þeir þyrftu þess.” - Einmitt, en bíddu við, vantar þá ekki allt þetta samhengi sem þið hafið sannfært sjálf ykkur um að BRS hljóti að hafa sett þær í?…

 35. Andrés B. Böðvarsson ritar:

  Sveinn:

  Hvorki ég, né Harpa, né Vantrú, né þú vitum raunverulegt samhengi kennslunnar við glærurnar. Um það eru Bjarni og nemendur hans einir til frásagnar um. Ertu samt að biðja okkur um að taka trúanlegt það samhengi sem forsvarsmenn Vantrúar geta sér til að Bjarni hafi sett glæruefnið í umfram orð Bjarna Randvers og nemenda hans um hvað samhengið hafi raunverulega verið? Ég veit ekki til þess að svo mikið sem einn nemandi sem sat umræddar kennslustundir hafi komið fram og tekið undir málflutning Vantrúar, hvorki að hluta né í heild.

 36. Sveinn Þórhallsson ritar:

  Nei ég er ekki að biðja ykkur að taka trúanlegt það sem Vantrúarmenn hafa verið að segja, en ég er að biðja ykkur að hafa í huga að þetta er ekki eins klippt og skorið og skilja mætti af þessari umfjöllun.

 37. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Sveinn: Æi, viltu ekki hætta þessu naggi á mínum umræðuþræði og færa þig eitthvert annað, þetta er óskaplega staglkenndur málflutningur og löngu búið að nefna þetta allt.

  Andrés: Ég veit raunar sitthvað um samhengi kennslunnar af því ég hef greinargerð kennarans fyrir markmiðum námskeiðsins, efni námskeiðsins og kennsluháttum við höndina, auk margra greinargerða háskólakennara um þessar frægu glærur og greinargerðir nemenda sem sátu í þessum kúrsi.

  Guðbergur: Laga þetta :)

 38. Andrés B. Böðvarsson ritar:

  Ég er kannski að tala út frá afar þröngri þekkingarfræðilegri skilgreiningu á því að vita, þ.e. að maður viti aðeins fyrir víst það sem maður hefur upplifað með skynfærunum (vissulega má deila um það hvort sú vissa sé raunveruleg vissa, Descartes, Matrix, heilar í krukku, og svoleiðis stöff - kallinn þinn ætti að kannast við slíkar pælingar) en að maður byggi aðra vitneskju sína á trausti til þeirra aðila sem bera manni vitneskjuna (t.d. að maður treysti því að allur sá fjöldi fólks sem segir að jörðin sé hnöttótt sé ekki að ljúga að manni eða haldið sömu blekkingu og maður sjálfur, og að þau gögn sem manni eru sýnd séu ekki fölsuð).

  Allavegana, Bjarni og nemendurnir voru þeir einu sem voru viðstaddir kennsluna og því þeir einu sem virkilega vita með vissu um hvað fór þar fram. Til þess að taka túlkun Vantrúar fram yfir það sem Bjarni og nemendur hans segja þyrftir þú væntanlega að líta svo á að bæði Bjarni og allir nemendur hans séu að ljúga og hafi samræmt framburð sinn.

  En það eru náttúrulega gögn sem ekki allir hafa aðgang að, býst ég við. Athyglisvert væri að sjá hvort þú gætir ekki fengið samþykki Bjarna og viðkomandi nemenda fyrir því að birta opinberlega framburði nemendanna.

 39. Sveinn Þórhallsson ritar:

  Á prófinu í námskeiðinu var spurning um Vantrú að mér skilst. Mér skilst líka að BRS hafi ekki viljað að úrlausnir nemenda á þessu prófi yrðu skoðaðar við rannsókn málsins, þó það hefði vissulega gefið góðar vísbendingar um samhengi kennslunnar. Hves vegna vildi hann það ekki, ef hann hafði ekkert að óttast?

 40. Sveinn Þórhallsson ritar:

  Annars langar mig að fá viðbrögð við því sem hlýtur að vera þversögn í máli Hörpu; Mikið talað um meint samhengi kennslunnar en svo um leið haldið fram að hann hefur bara skimað yfir sumar glærur og nemendur sjálfur átt að lesa þær betur til að skilja efnið.

 41. Andrés B. Böðvarsson ritar:

  Sveinn: Við getum líka spurt, af hverju leitaði siðanefnd ekki eftir umsögnum nemenda til að vita hvernig kennslunni var háttað? Hefði það ekki gefið betri mynd af kennsluefninu sem kæran var útaf?

  Bjarni og lögmaður hans, Ragnar Aðalsteinsson hrl, litu svo á að siðanefndin væri enn vanhæf og því ekki við því að búast að þeir sýndu henni mikinn samstarfsvilja

  Úr skýrslu óháðrar nefndar um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð:

  “Þann 26. nóvember 2010 ritaði lögmaður Bjarna Randvers á ný bréf til rektors Háskóla Íslands, en þar segir m.a.:

  „Síðan ég ritaði það bréf *19 okt.2010+ hefur borist krafa frá siðanefnd HÍ þess efnis að umbj.m. láti siðanefndinni í té afrit að prófúrlausnum nemenda á námskeiði um Nýtrúarhreyfingar sem umbj.m. kenndi haustið 2009. …
  Siðanefndin rökstyður beiðni sína með því að svör nemenda kunni að varpa ljósi á umfjöllun um það efni sem kært hefur verið (áhersla mín). …
  Það verður að viðurkennast að mér virðist að viðhorf siðanefndar HÍ sé það að umbj.m. skuli sýna fram á að hann sé saklaus að þeim ávirðingum sem talsmenn Vantrúar hafa borið á hann og lagt fyrir siðanefnd HÍ að taka afstöðu til. …
  Framanritað sýnir réttmæti þeirrar gagnrýnin sem ég setti fram á málsmeðferðarreglunum í bréfi mínu til yðar hinn 19. okt. 2010. Miðað við framkvæmd siðanefndar HÍ á málsmeðferðarreglunum er útilokað að umbj.m. geti notið réttlátrar málsmeðferðar fyrir nefndinni að óbreyttum málsmeðferðarreglum.
  …“”

  http://www.hi.is/files/skjol/stjornsysla/haskolarad/Skyrsla_um_mal_sidanefndar_HI_nr1_2010.pdf

 42. Andrés B. Böðvarsson ritar:

  Sveinn: Miðað við mína reynslu af kennslu Bjarna, sem reyndar er ekki gríðarlega mikil, þá eru þær glærur sem hann skimar yfir yfirleitt glærur sem innihalda skannaðar blaðagreinar eða blaðsíður í bókum með áherslum Bjarna (merktar með yfirstrikunarpenna) þar sem fram kemur samhengi textans, skjáskot af vefsíðum og aðrar myndir. Stundum gerist það að fjölmargar aukaefnisglærur (t.d. með áhugaverðum kvikmyndum tengdum efninu) fá enga umfjöllun vegna tímaskorts. En ég hef ekki séð hann skima yfir glærur sem varða aðalatriði. Það kæmi mér t.d. mjög á óvart hafi hann skimað yfir glærur á borð við þær þar sem Helgi Hóseason „þjófkennir“ Reyni Harðarson og þar sem talað er um vandann við málflutning fylgismanna Dawkins. Að auki má ætla að Bjarni hafi getað treyst nemendum til að setja efnið í samhengi við lesefni námskeiðsins auk þess að beita eigin gagnrýnni hugsun á efnið.

  En þetta eru auðvitað bara mínar spekúlasjónir útfrá minni takmörkuðu reynslu.

 43. Sveinn Þórhallsson ritar:

  Afhverju leitaði siðanefnd ekki eftir umsögnum nemenda spyrðu. Ég veit það ekki, ég hefði talið það eðlilegt líka - en þar er ekki við Vantrú að sakast. Þetta er bara ekki sambærilegt - í tilviki prófúrlausna var beiðni siðanefndar beinlínis hafnað, þó upplýsingar sem fram koma í þeim hefðu átt að geta gert út um þetta mál. Maður hlýtur því að spyrja sig hvað var í þessum prófaúrlausnum og fyrir hvers konar svör gaf BRS hæstu einkunnirnar?

 44. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Í þessu sambandi er vert að rifja upp að kæruatrið Vantrúar snerta ekki siðareglur HÍ og því bar siðanefnd að vísa málinu frá. Þótt Vantrú hafi látið fylgja feitletrun á ákv. pörtum einstakra siðaregla sem Vantrú taldi að hefðu verið brotnar fylgdi enginn rökstuðningur fyrir hinum meintu brotum.

  Siðanefnd gat ekki áttað sig á því við hvaða siðareglur kæra Vantrúar gæti mögulega átt. Í tíð síðari formanns siðanefndar var siðanefndarfulltrúum og lögfræðingi HÍ sett fyrir að reyna að tengja kæruna við einhverjar siðareglur (sem sagt endurvinna kæruna fyrir Vantrú) og á tímabili var Bjarna Randver sett fyrir að greina kæru Vantrúar og bregðast við henni!

  Niðurstaða óháðu nefndarinnar sem Háskólaráð lét skipa til að taka úr feril málsins innan HÍ, þ.e. hjá rektor, guðfræði- og trúarbragðafræðideild og siðanefnd er þungur áfellisdómur yfir siðanefnd.

 45. Jóhann Sigurfinnur B ritar:

  Það sem stendur nú upp úr, eftir þessa úttekt Hörpu, er öðru fremur það, að hér er um að ræða æði misráðið hópefli.

  Kristinn, fyrrum liðsmaður samtakana, hefur reynt að bera í bætifláka; einkum með því að glærurnar hafi hoggið nærri heiðri Reynis, sem var þjófkenndur af Helga Hóseassyni.
  Þeim hinum sama og Vantrúarmenn heiðruðu með hellulagningarathöfn. (…the road to hell is paved with good intentions) :)
  Það eitt og sér ætti að vera nægilegur efniviður fyrir sérhvern sómakæran kennara, þó ekki væri nema til að sýna fram á hjákátleika safnaða.

  Og vissulega hefur Vantrú marga slíka eiginleika. (Þar nægir að vísa til þess þegar Mattías sjálfur var dubbaður upp sem Che Guevara fyrir frækilega frammistöðu.)

  Sveinn Þórhallsson virðist mér öðrum fremur krefjast þess að „túlkun” Vantrúarseggja sé réttmæt. Og að það megi krefjast þess af Siðanefnd að hún skoði svör nemenda í kúrsinum! Það er hlægileg krafa, enda er siðanefnd ekki Rannsóknarréttur Vantrúarmanna. Og HÍ er ekki auglýsingastofa þeirra!

  Ég hef átt í samskiptum við Vantrúarmenn um nokkuð langt skeið. Sú vegferð var bæði skemmtileg og skrautleg. Í fyrstu fékk ég margar áminningar, síðan var mér meinað að svara á forsíðu þeirra, og öllum mínum viðbárum vísað snimmendis í hið neðra (spjallið).

  Eftir að ég hafði lagt til að Hjalta Rúnari yrði vikið úr samtökunum, enda væri hann haldinn bíflíversablæti á háu stigi sem torveldaði umræðuna um tilvist Guðs, þá var ég endanlega bannfærður. Veröld þeirra er svart/hvít. Annað hvort Biflían eða Tilviljun.

  „So it goes…” (Kurt Vonnegut).

  En nú ætti öllum sæmilega þenkjandi mönnum að vera orðið ljóst að vegferð Vantrúarmanna var hreint ekki vörðuð góðum fyrirheitum.

  Þeir ætluðu sér einfaldlega að nýta sér “veikleika” eins kennara í HÍ, í því endamiði að koma höggi á guðfræðilega kennslu. Það að Bjarni hafi orðið fyrir valinu er tilfallandi miðað við markmiðið.

  Þeir gætu betur kynnt sér siðfræði Kants, hrekkjusvínin.

  Ég vil samt taka fram að ég tel kristna guðfræði tigna dauðann, en að mínu viti er tilveran til marks um líf, öðru fremur.

  Broskall

 46. Andrés B. Böðvarsson ritar:

  Jóhann:

  Kristinn hefur öðru fremur reynt að gera pirring Vantrúarmanna á einstökum efnum skiljanlegan öðrum, að ég tel, af fullri einlægni, hvort sem maður er sammála honum eða ekki. Ég sé ekki að hann haldi uppi sérstökum vörnum fyrir Vantrú - a.m.k. stendur hann sig þá ekki vel í því.

  Sveinn var að spyrja hvers vegna Bjarni varð ekki við ósk Siðanefndar HÍ um að afhenda prófúrlausnir nemenda.

  Vantrú hefur mér svo virst innihalda alla flóruna af guðleysingjum, allt frá herskáustu trúarhöturum yfir í hófsama efahyggjumenn. Þó virðast þessir hófsömu furðu gagnrýnislausir á framgöngu forystumanna sinna í málinu, að undanskildum Kristni, sem að vísu er hættur í félagskapnum.

  Veikleiki Bjarna virðist helst vera sá að fræði hans eru kennd við Guðfræði- og trúarbragðadeild HÍ en hæglega mætti flokka námskeiðið Nýtrúarhreyfingar undir félagsfræði, n.t.t. trúarlífsfræði. Vantrú hefur lengi (eða alltaf) verið frekar uppsigað við þá deild, enda umdeilanlegt hvort prestsþjálfun (að svo miklu marki sem Guðfræðideildin annast hana) eigi að vera hlutverk ríkisháskóla.

  Varðandi kristna guðfræði þá hafna ég því alfarið að hún tigni dauðann, a.m.k. ekki umfram lífið. Eilífa lífið byrjar í þessu lífi og heldur áfram. Hinn trúaði fær nýtt líf: líf í fullri gnægð. Þannig skil ég hana a.m.k.

 47. Jóhann Sigurfinnur B ritar:

  Nú skil ég ekki hvað þú ert að þvæla þessu máli, Andrés.

  Ég hef hvergi dregið í efa einlægni Kristins.

  Spurningar Sveins tel ég ekki markverðar, eins og ég sagði.

  Vantrúarsöfnuðurinn er nákvæmlega það.
  Söfnuður.
  Afar fámennur söfnuður sjálfumglaðra kverúlanta, sem skirrast ekki við að höggva mann og annan, en þegja þunnu hljóði þegar þeir eru afhjúpaðir.

  “Veikleiki” Bjarna er tilfallandi miðað við “erindi/kæru/umkvörtun” Vantrúarmanna. Hjá þeim helgar tilgangurinn augljóslega meðulin.

  Um barnalegar eskatólogískar fabúleringar þínar varðandi ágæti trúaðra nenni ég ekki að ræða.

 48. Jóhann Sigurfinnur B ritar:

  Það er líka merkileg staðreynd (Vantrúrmenn elska staðreyndir) að á bloggsíðu Mattíasar eru fleiri ummæli um þennan þráð en hér.

  Honum þykir augljóslega ennþá ánægjulegt að láta undirsátana strjúka sér réttsælis. Blessaður Che Guevara-gaurinn…

  (broskall)

 49. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Eins gott að ég er ekki í kappi við hann Matta ;)

 50. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Æi, nú er hann búinn að loka á ip-töluna mína, blessaður. Eins gott að ég er næstum búin að blogga um Vantrú og get líklega nýtt Vefsafnið í linkana sem eftir eru. Eða skroppið yfir götuna …

 51. Andrés B. Böðvarsson ritar:

  Jóhann:

  Ég sé ekki að ég sé að þvæla málinu, þvert á móti.

  Ég var ekki að segja að þú drægir í efa einlægni Kristins.

  Það var greinilegt að þú misskildir það sem Sveinn sagði. Það var reyndar ágætlega svaraverður punktur þó ég telji hann gera helst til mikið úr honum.

  Ég tel þig hafa helst til einsleita og svarta mynd af Vantrú, þó forsvarsmenn Vantrúar hafi verið duglegir við að sverta hana sjálfir í þessu máli. Ég er með þessu alls ekki að verja vinnubrögð Vantrúar. Ég vil bara ekki mála þá svartari litum en tilefni er til.

  Um ágæti trúaðra ræddi ég ekki neitt. Ég var aðeins að halda fram „barnalegum eskatólógískum fabúleringum“ sem kristnir menn hafa trúað í tæp 2000 ár, hvort sem þú hefur smekk fyrir þeim eða ekki.

  Mætti ég auk þess biðja um ögn meiri kurteisi. Hér er fullorðið fólk að ræða málin.