Færslur frá 1. febrúar 2012

1. febrúar 2012

Aðrar aðgerðir Vantrúar gegn Bjarna Randveri og stuðningsmönnum hans

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

  
 

Svo virðist sem ekki þurfi mikið til að baka sér óvild forkólfa Vantrúar og jafnvel vinna menn sér það eitt til óhelgis að styðja Bjarna Randver Sigurvinsson eftir að mál Vantrúar gegn honum tók á sig æ furðulegri mynd í meðförum siðanefndar HÍ (en gerð verður betri grein fyrir þætti siðanefndar síðar). Hér verða rakin dæmi um þetta.

Leggja fleiri í einelti?

Frægt dæmi, sem m.a. er rakið í fréttaskýringu Barkar Gunnarssonar, Heilagt stríð Vantrúar, í Morgunblaðinu 4. desember 2011, s. 20 (hér er krækt í greinina á mbl.is), er þegar Vantrúarfélaginn Frosti Logason hafði tekið viðtal við Stefán Einar Stefánsson viðskiptasiðfræðing og guðfræðing í útvarpsþættinum Harmageddon þar sem þetta mál bar á góma, þann 11. mars 2010 (hér er krækt í hljóðskrá með viðtalinu á vef Vantrúar. Vantrú hefur nú gert þessa hljóðskrá óaðgengilega). Stefán Einar sagði m.a.:

Kennarinn sem þarna á í hlut upp í Háskóla er sérfræðingur í nýtrúarhreyfingum, ekki bara hérlendis heldur erlendis á því sviði og ég hef sótt fyrirlestra þar sem hann tekur til umfjöllunar þennan félagsskap Vantrú, útskýrir með hvaða aðferðafræði hann hefur greint þá, þeirra umfjöllun og annað og ég held að þeir séu þarna [Frosti grípur hér fram í fyrir Stefáni]

Stefán Einar rekur svo í viðtalinu fyrri samskipti sín við félagsmann í Vantrú og raunar er það ekkert leyndarmál að sumir stjórnarmenn í Vantrú og Stefán Einar hafa lengi eldað grátt silfur saman. Útgáfu Matthíasar Ásgeirssonar fyrrum formanns Vantrúar á dæminu sem Stefán Einar nefnir í þessu viðtali má sjá á bloggfærslu hans Sértrúarsöfnuðurinn Stefán Einar þann 17. mars 2010 og styðja félagar Matthíasar hann dyggilega í umræðuþræðinum við færsluna.

Á spjallþræði Vantrúar „Söguskoðun Bjarna Randvers“ var rætt um Stefán Einar og viðtalið og honum ekki vandaðar kveðjurnar. Í umræðunni er „stungið upp á að hefja líka einelti gegn Stefáni Einari Stefánssyni […]. Reynir [Harðarson sálfræðingur, formaður Vantrúar] skrifar strax: „Go for it. Megum ekki skilja svona plebba útundan í einelti okkar.““ (Börkur Gunnarsson í Morgunblaðinu 4. des. 2011, s. 20. Ég auðkenndi beina tilvitnun Barkar í orð Reynis með rauðu.) Nú er mér ekki kunnugt um hvort vantrúarfélagar eyddu miklum tíma og orku í að leggja Stefán Einar Stefánsson líka í einelti en af orðum Reynis Harðarsonar mætti skilja að hann liti á hið áður boðaða „heilaga stríð“ sem einelti og vilji bæta Stefáni Einari við sem fórnarlambi.

Í grein Barkar er á sömu síðu vitnað í bréf Reynis Harðarsonar til Siðanefndar HÍ 4. janúar 2011: „Ég hafna því alfarið að um einelti af okkar hálfu sé að ræða, hvað þá heilagt stríð. … Þetta er hreinn þvættingur og meiðyrði.“
 

Eftir að greinin birtist hafa vantrúarfélagar lagt sig í líma í að sverja af sér einelti og „heilagt stríð í alvöru“ en verður gerð betri grein fyrir því í næstu færslu.
 

Njósnir

Í fyrrnefndri grein Barkar Gunnarssonar er sagt frá því að Baldvin Zoriah, deildarstjóri á vísindasviði í HÍ og félagi í Vantrú, hafi lekið „upplýsingum af framgangi málsins [kæru Vantrúar í meðförum siðanefndar HÍ] á innri vef þeirra.“ (Morgunblaðið 4. des. 2011, s. 20.) Talsverð óformleg samskipti formanns siðanefndar, Þórðar Harðarsonar, og Reynis Harðarsonar formanns Vantrúar eru löngu kunn, sem og upplýsingagjöf hins fyrrnefnda til Reynis og verður þeim gerð betri skil síðar á þessu bloggi. Mögulega hefur Vantrú haft eða ætlað sér að nota fleiri starfsmenn HÍ í sína þágu, um það get ég ekkert fullyrt að svo stöddu.

En annars konar vöktun var einnig viðhöfð. Matthías Ásgeirsson, fyrrverandi formaður Vantrúar, stundaði nám í tölvufræði til BS-gráðu í Háskóla Íslands veturinn 2010-2011. Hann hafði að sjálfsögðu eigið háskólanetfang sem nemandi og virðist hafa farið í reglulega göngutúra um Háskólalóðina. Matthías hefur að eigin sögn haft eitthvert eftirlit með því hvað Bjarni Randver Sigurvinsson aðhafðist, sjá færsluna Í skrifstofu á þriðju hæð á bloggi Matthíasar, Örvitanum, þann 20. janúar 2011 þar sem segir m.a.:
 

Í kvöld sat hann á þriðju hæð aðalbyggingar Háskóla Íslands og dundaði sér í tölvunni á skrifstofu doktorsins. Þar hefur hann verið af og til síðustu mánuði og unnið að málsvörn sinni, leitað á netinu að skrifum sem hann gæti snúið út úr og mistúlkað eins og honum er einum lagið (eins og mörgum öðrum með sama heilkenni!). […]

Reiknistofnun Háskóla Íslands rekur tölvukerfi HÍ og hefur hver útstöð (borðtölva) fasta rekjanlega ip-tölu og sérstakt heiti. Að auki er kerfið þannig uppbyggt að með einni einfaldri Unix/Linux skipun er hægt að inna nafnaþjón (DNS-þjón) háskólanetins eftir því hvaða notandi er skráður fyrir hverri ip-tölu. Föstudaginn 21. janúar 2011 kl. 17:37 birti Matthías þessa athugasemd við sömu færslu: 

Halló Guðni. Halló Höskuldur. Halló Gauti. Hvernig hafið þið það? Af hverju segið þið aldrei hæ?

Matthías lætur með þessu vita að hann hafi borið kennsl á Guðna Elísson prófessor, Höskuld Þráinsson prófessor og Gauta Kristmannsson dósent þegar þeir heimsóttu einn af öðrum bloggið hans skömmu áður af skrifstofum sínum.

Guðni Elísson hafði fyrr um daginn sent póst á hóp kennara þar sem hann benti þeim á greinina „Í skrifstofu á þriðju hæð“ Þegar Benedikt Hjartarson aðjunkt fór inn á vefinn skömmu eftir heimsóknir Guðna, Höskuldar og Gauta uppfærði Matthías færsluna og bætti inn staðfestingu á að borin hafi verið kennsl á Benedikt. (Matti - 21/01/11 17:37 #) Haft var samband við aðra kennara sem höfðu fengið póstinn frá Guðna og þeir beðnir að fara ekki að svo stöddu inn á blogg Matthíasar.

Morguninn eftir bað Guðni Bergljótu S. Kristjánsdóttur prófessor að fara inn á blogg Matthíasar af heimili sínu og vottaði Matthías komu hennar nokkrum mínútum síðar:
 

Halló Bergljót. Velkomin. (Matti - 22/01/11 12:04 #)
 

Haft var samband við aðra starfsmenn af Hugvísindasviði HÍ sem ekki höfðu fengið fyrrnefndan tölvupóst Guðna Elíssonar, fyrst Ástráð Eysteinsson forseta Hugvísindasviðs og síðan Pétur Knútsson dósent og þeir beðnir að fara inn á blogg Matthíasar Ásgeirssonar. Matthías staðfesti heimsókn þeirra inn á bloggið skömmu síðar. 

Sæll Ástráður, gaman að sjá þig. Hæ Pétur, nice to see you! (Matti - 22/01/11 16:05 #)

Bergljót S. Kristjánsdóttir, Ástráður Eysteinsson og Pétur Knútsson skoðuðu Örvitann, blogg Matthíasar Ásgeirssonar, úr heimilistölvum sínum en þær eiga það allar sammerkt að vera þjónustaðar af Reiknistofnun HÍ. Ekkert þeirra hafði nokkurn tíma farið inn á þetta blogg áður. (Þess ber að geta að Reiknistofnun HÍ útvegar nemendum og kennurum hugbúnað til að tengjast háskólanetinu gegnum heimilistölvur. Þetta er m.a. til þess að nemendur og kennarar geti skoðað greinar í tímaritum þar sem aðgangur er takmarkaður við HÍ. Mögulega eru slíkar tölvur skráðar eins og hver önnur útstöð á háskólanetinu og því jafn auðvelt að finna ip-tölur og eigendur þeirra og væru þær á Háskólasvæðinu.)

Á vef Vantrúar var staðfest að ip-tala skrifstofutölvu Péturs Péturssonar prófessors var vöktuð. Þegar skrifstofutölva Péturs var notuð og farið inn á spjallþráð vefjar Vantrúar sem opinn er almenningi, þann 20. janúar 2011, komu upp eftirfarandi skilaboð:
Skjámynd af vef Vantrúar

Þótt uppfletting notenda og ip-talna á neti HÍ, þ.m.t. mögulega á heimilistölvum kennara sem tengjast neti HÍ, sé sáraeinföld þá virtust einhverjir fyllast aðdáun á hæfileikum Matthíasar til að snuðra uppi ip-tölur og vakta innkomu á eigið blogg eða vef Vantrúar. Má þar nefna Steindór J. Erlingsson sem spyr: „Ertu að grínast eða þekkir þú ip-tölu Bjarna?“ Og Matthías svarar að bragði: „Ekkert grín. Þarna sat hann, kíkti tvisvar á þessa færslu.“

Það er ótrúleg elja sem Matthías Ásgeirsson sýnir að fletta upp ip-tölum allra kennara Hugvísindasviðs og heimilistölva einhverra þeirra að auki! Það hlýtur hann að hafa gert úr því hann þekkti jafnt ip-tölur prófessora og aðjúnkta og kennara í mismunandi deildum. Á vorönn 2012 eru skráðir kennarar á Hugvísindasviði 106 talsins og má ætla að svipaður fjöldi hafi starfað þar á vorönn 2011. Hafi Matthías líka lagt á sig að fletta upp öllum þeim sem starfa á skrifstofum hinna fjögurra deilda sem tilheyra Hugvísindasviði hækkar talan umtalsvert.

Að mínu mati er aðalspurningin ekki hvort þetta sé löglegt eða ólöglegt heldur: Af hverju í ósköpunum að leggja á sig að snuðra uppi allar þessa ip-tölur? Var þetta einhvers konar tilraun til að sýna háskólakennurum „mátt sinn og megin? Leika Lísbet Salander fyrir félaga sína og blogglesendur? Eða hvað?

(Heimild mín fyrir ofangreindum heimsóknum og prufum háskólakennara á Örvitanum og vef Vantrúar er Ýmis skjöl frá hinum kærða. Vegna kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (kærumál nr. 1/2010), s. 53-55. Þetta er óopinbert skjal í vinnslu, sem ég vitna í með leyfi höfundar, Bjarna Randvers Sigurvinssonar.)

Ég reikna svo með að neðanmálsgrein við bloggfærslu Matthíasar Ásgeirssonar, Sáttfýsi, þann 28. apríl 2011, eigi að vera dæmi um hið fræga skopskyn vantrúarfélaga, sem félagarnir taka svo undir á stuttum umræðuþræði - eða til að ganga í augun á einhverjum?

Næsta færsla verður líklega síðasta færslan um aðgerðir félagsins Vantrúar gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni. Í henni verður velt upp þeirri spurningu hvort um skipulagt gróft einelti gegn Bjarna Randver hafi verið að ræða eða skiljanlegt erindi Vantrúar til þeirra aðila sem félagið taldi rétt að kvarta, undan meiðandi glærum um sig o.fl.. Einnig verður drepið á viðbrögð vantrúarfélaga við fréttaskýringu Barkar Gunnarssonar.
 
 
 
 

Ummæli (38) | Óflokkað, Vantrú og siðanefnd HÍ