6. febrúar 2012

Einelti Vantrúar

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Til eru margar mismunandi skilgreiningar á einelti fullorðinna. Á Íslandi, eins og annars staðar, hafa menn aðallega beint sjónum að vinnustaðaeinelti og skilgreining þess er svona, í reglugerð:
 

Ámælisverð eða síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir. Hér er ekki átt við skoðanaágreining eða hagsmunaárekstur sem kann að rísa á vinnustað milli stjórnanda og starfsmanns eða tveggja eða fleiri starfsmanna enda sé skoðanaágreiningur eða hagsmunaárekstur hvorki viðvarandi né endurtekinn kerfisbundið. (Feitletrun mín.)

Nokkrar aðrar skilgreiningar á vinnustaðaeinelti/starfsmannaeinelti má sjá á vefsíðunni Einelti, á vefnum Siðblinda / geðvilla og er þar vísað í heimildir hverju sinni. Í þeim koma fram nokkurn veginn sömu aðalatriði og í þeirri sem vitnað er í hér að ofan.

Andlegt ofbeldi tengist einelti fullorðinna mjög og virðist að oft sé þetta tvennt lagt nokkurn veginn að jöfnu. Engin samþykkt íslensk skilgreining er á því hvað andlegt ofbeldi er en e.t.v. mætti nota víða skilgreiningu Patriciu Evans á illmælgi í garð einhvers (verbal abuse), hugtaki sem hefur miklu víðari skírskotun í ensku en íslensku og nálgast mjög það sem við köllum andlegt ofbeldi. Patricia Evans hefur skrifað margar bækur um efnið en hefur ekki formlega menntun sem sálfræðingur. Skilgreining hennar á „verbal abuse“ er svona (snarað á íslensku og lítillega stytt):

Illmælgi/andlegt obeldi getur falið í sér að leggja fólk í einelti, ófrægja, ómerkja eða gera lítið úr fólki, áreita, drepa málum á dreif, yfirheyra, ásaka, kenna um, virða ekki viðlits, snúast gegn, ljúga, húðskamma, spotta, niðurlægja eða tæta í sig, nota hrakyrði dulbúin sem brandara, hunsa, ógna, kalla ónefnum, æpa og bölsótast.

Þeim sem hafa sérstakan áhuga á net-einelti og andlegu ofbeldi á internetinu er bent á yfirlitssíðu Wikipediu um efnið, þar sem vísað er í ýmsar heimildir og rannsóknir á fyrirbærinu, bæði því sem beinist gegn börnum og unglingum og fullorðnum. Í greininni er líka fjallað um eltihrella á netinu (cyber-stalking).

   Í undanförnum færslum hef ég nokkuð rakið málatilbúnað Vantrúar í kærum gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni. Allt frá því að Óli Gneisti Sóleyjarson lýsti því yfir á frægu innra spjalli félagsmanna Vantrúar þann 2. september 2009 að hann hafi hvatt nemanda utan guðfræði- og trúarbragðafræðideildar til að sækja námskeiðið Nýtrúarhreyfingar í von um að það verði „gullnáma“ (sjá Börkur Gunnarsson. Heilagt stríð Vantrúar í Morgunblaðinu 4. des. 2011, s. 18, bein tilvitnun í Óla Gneista er hér auðkennd með rauðu) til þess að málinu lauk formlega af hálfu Vantrúar, þegar félagið dró kæruna til baka þann 28. apríl 2011, beittu forsprakkar og fylgismenn Vantrúar sér af megni gegn Bjarna Randveri, á þeim vígstöðum sem boðaðar voru í yfirlýsingunni um heilaga stríðið (með meðfylgjandi broskarli) , þ.e. „á vefnum, í blöðum, með bréfum og jafnvel í fjölmiðlum.“
  

„Heilagt stríð“ á Vefnum
 

Aðalvettvangur félagsins Vantrúar hefur frá stofnun verið Vefurinn og þar var hið heilaga stríð mest áberandi. Það kom aldrei til greina af hálfu Vantrúar að láta afgreiða það sem þeir kjósa oftast að kalla „erindi“ sín til siðanefndar, rektors og forseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar í friði heldur hóf félagið birtingu á fjölda greina um málið og sín „erindi“ ellefu dögum eftir að „erindin“ voru afhent, fyrsta greinin birtist 15. febrúar 2010. Undir umfjöllun félagsins Vantrúar tóku forkólfar Vantrúar á sínum bloggum og auglýstu umfjöllunina. Sem dæmi má nefna færslu Óla Gneista Sóleyjarsonar, formanns Vantrúar 2009, AF AKADEMÍSKUM VINNUBRÖGÐUM Í HÁSKÓLA ÍSLANDS, birt 25. febrúar 2010 (hér er vísað í færsluna á Vefsafninu því Óli Gneisti hefur nú eytt henni af blogginu sínu) og færslu Matthíasar Ásgeirssonar, fyrrv. formanns Vantrúar, Skondnir trúvarnarmenn, birt 26. febrúar 2010. Einn af stofnendum Vantrúar og löngum stjórnarmaður, Birgir Baldursson, var hættur að reka eigið blogg en skrifaði þess í stað greinina Helgi Hóseasson var ekki geðveikur á vef Vantrúar 26. febrúar 2010 (hún er ekki flokkuð með í sérstaka greinaflokknum um glærurnar, sem Vantrú hafði hleypt af stokkunum, en má ætla að kveikjan að henni séu nokkrar af þeim glærum sem Vantrú móðgaðist yfir). Reynir Harðarson sálfræðingur, formaður Vantrúar, tengdi svo samdægurs umfjöllun þessarar greinar og greinaflokkinn með athugasemd sem lýkur á: „Að þessu loknu er ekki úr vegi að menn kynni sér hvernig guðfræðingi nokkrum í Háskóla Íslands þótti sæma að „kynna málstað hans“ nýlátins í kennslu í kúrsinum Nýtrúarhreyfingar.“

Færsla vantrúarfélagans Valgarðs Guðjónssonar, Er svona í lagi í HÍ? sem birtist 27. apríl 2010 er áhugaverð því þar er ekki einu sinni vísað í umfjöllun Vantrúar heldur dregin upp mynd af háskólakennslu, greinilega byggð á einhliða umfjöllun Vantrúar, án þess að geta nokkurra heimilda og spurt hvort svona sé í lagi? Í umræðuþræði við færsluna kemur svo fram að meirihluti þeirra sem tjá sig veit nákvæmlega um hvaða deild færslan snýst en líklega lítið um hvað málið snýst, t.d. Pétur Tyrfingsson, formaður Sálfræðingafélags Íslands, sem segir m.a.: 

Já mér þykir þetta „allt í lagi“ að viðgangist í HÍ einmitt vegna þess að um Guðfræðideildina er að ræða. Um að gera að þessi endaleysa komi fram í dagsljósið og afhjúpi að hér má efast um akademískan standard viðkomandi deildar. Er þá hægt að ræða hvort slíkar deildir eigi yfirleitt rétt á sér.
[- - -]
Fyrirlestrar á vegum froðuguðfræðinnar um guðleysi getur aldrei verið málefnaleg eðli málsins samkvæmt því markmiðið er ekki einhver málefnaleg niðurstaða eftir samanburð röksemda eða skilningur á rökheimi „andstæðingsins“.

Greinar gegn Bjarna Randveri á vef Vantrúar og bloggum helstu forsprakka Vantrúar héldu svo áfram að birtast og birtast enn. Hér er engin ástæða til að tína þær allar til.
 

Á meðan kærandinn, þ.e. félagið Vantrú, og einstakir félagsmenn og velunnarar þess tjáðu sig heilmikið um málið gat sakborningurinn, Bjarni Randver Sigurvinsson, eðlilega ekki tjáð sig á opinberum vettvangi meðan mál hans voru til umfjöllunar bæði hjá siðanefnd HÍ og guðfræði- og trúarbragðafræðideild. (Raunar virðist siðanefnd HÍ aldrei almennilega hafa greint hver var kærður, þ.e.a.s. hvort það var stundakennarinn Bjarni Randver, umsjónarmaður námskeiðsins sem hann kenndi, Pétur Pétursson deildarforseti, eða guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ. En fyrir þessu og fleiru fimbulfambi siðanefndar verður gerð betri grein síðar.)

Félagið Vantrú lýsti sem sagt yfir heilögu stríði með broskarli og einhenti sér síðan í að fylgja áætluninni í yfirlýsingunni, sem var að hampa sínum málstað sem víðast (sjá um þetta fyrri færslur), meðan hinn kærði eða hin kærða deild gat ekki tjáð sig opinberlega.
 
 

Aðför háskólakennara að félaginu Vantrú og árás þeirra á vammlausa siðanefnd
 

Til að byrja með stóð Bjarni Randver einn í þessu máli og var ekki virtur viðlits af siðanefnd HÍ. Eftir að siðanefnd HÍ hafði lagt fram sakfellandi sáttatillögu sem guðfræði- og trúarbragðafræðideild átti að samþykkja leitaði Bjarni Randver til Guðna Elíssonar í íslensku- og menningardeild. Þeir þekktust ekkert fyrir. Guðni Elísson kynnti málið, einkum meðferð siðanefndar, fyrir öðrum kennurum á hugvísindasviði og seinna kynntu kennarar í öðrum deildum og öðrum háskólum sér þetta mál. Eins og minnst var á í síðustu færslu fylgdust vantrúarfélagar eftir mætti með iðju háskólakennara sem kynntu sér málið.

Þegar mál voru komin í algert óefni og félagið Vantrú hafði dregið kæru sína til baka þann 28. apríl 2011 lagði félagið einnig til stuðningsmanna Bjarna Randvers. Sem dæmi má nefna greinarnar á vef Vantrúar: Þrautarmein Háskóla Íslands, 5. maí 2011, Aðför Guðna Elíssonar að siðanefnd HÍ og Vantrú, 11. maí 2011, Opið bréf til 40 háskólakennara, 12. maí 2011. Í þessum greinum er ítrekað að félagið Vantrú hafi frá því að „erindin“ voru send inn verið tilbúið til sátta en Bjarni Randver Sigurvinsson hafi staðið í vegi fyrir öllum sáttatilraunum. Jafnframt eru tekin upp atriði úr fyrri umfjöllun Vantrúar um hinar frægu glærur, einkum dæmi um úrfellingar úr beinum tilvitnunum sem að mati félagsins Vantrúar eru ekki akademísk vinnubrögð. Það að siðanefnd HÍ hafi ekki vísað málinu frá í upphafi þykir Vantrú sýna að „erindi“ þeirra hafi verið réttmætt og full ástæða til að taka á því mark. Það var ekki Vantrú að kenna að siðanefndin fékk engan frið til að fjalla um þetta réttmæta erindi. Sá vægir sem vitið hefur meira segir Vantrú og þess vegna drógu forkólfar Vantrúar „erindi“ sín til baka í skiptum fyrir loforð um að óháð nefnd tæki út málarekstur innan HÍ. Má kannski segja að athugasemd Baldvins 12. maí 2011 (sem er líklega Baldvin Örn Einarsson varaformaður Vantrúar fremur en Baldvin Zarioh vantrúarfélagi og deildarstjóri á vísindasviði HÍ) við eina af þessum færslum endurspegli viðhorf Vantrúar: 

Teljum okkur vita betur en stjórnendur Háskólans? Um hvað ertu eiginlega að bulla, maður?

Það voru einmitt stjórnendur Háskólans sem voru komnir í meiri háttar vandræði út af þessu upphlaupi.

Þegar það liggur fyrir að önnur siðanefndin í málinu komi til með að losna upp án þess að geta fjallað um málið og að ekkert lát er á stanslausum áróðri og ólátum ákveðins hóps starfsfólks háskólans þá er nokkuð ljóst að siðanefnd kemur ekki til með að fá frið í þessu máli. Hún hefur ekki fengið frið í 15 mánuði og ekkert bendir til þess að það hefði breyst.

Málið var komið í algjöran hnút og við ákváðum að skera á hann með þessum hætti gegn því m.a. að ferill málsins yrði skoðaður af óháðum aðilum [feitletrun mín].

Reynir Harðarson sálfræðingur, formaður Vantrúar, lýsti því yfir í athugasemd við sömu færslu, Aðför Guðna Elíssonar að siðanefnd HÍ og Vantrú, að báðir formenn siðanefndar í þessu máli væru „vammlausir“ og gjörðir þeirra hlytu því að fría Vantrú af hvers kyns óheilindum: „Það mega vera mikil býsn ef Vantrú hefur tekist að vefja þessum vammlausu mönnum um fingur sér og nota sem strengjabrúður í ofsóknum og einelti á hendur kórdreng með geislabaug.“

Vantrúarfélagar hafa haldið því víðar fram að erindið hafi átt fullt erindi til siðanefndar, að Bjarni Randver og stuðningsmenn hans hafi hindrað eðlilegt starf siðanefndar og stundum að Vantrú hafi dregið kæru sína til baka gegn því að óháð rannsóknarnefnd skoðaði feril málsins innan Háskóla Íslands. T.d. sagði Matthías Ásgeirsson fyrrverandi formaður Vantrúar þetta í viðtali í Harmageddon þann 9. desember síðastliðinn:
 

Sko við skulum orða þetta þannig: Formaður siðanefndar mætir til starfa og hann kíkir á glærurnar og hann sér að við erum að kæra fyrir brot á siðareglum og þúst [þ.e. þú veist] hann gæti ekki vísað þessu frá, þúst hann gæti vísað þessu frá og sagt að við segjum bara „hann var vondur“ en við vísum alveg í siðareglur og færum rök fyrir þessu. Þannig að hann lítur á þetta og honum finnst sjálfsagt eitthvað athugavert þannig að hann sem sagt fer af stað og byrjar á því sem er oft gert að bara reyna að ljúka málinu með sáttum í staðinn fyrir að dæma manninn sko og síðan fer hann bara að tala við aðilana og spyrja sko eigum við ekki að finna einhverja lausn? Og sko þetta er sem sagt það sem hann gerir. Hann talar við Pétur Pétursson hjá guðfræðideild og svo talar hann við formann Vantrúar. Og þetta gerir hann í einkasamtölum.
[- - -]
Sko stuðningsmenn Bjarna Randvers verða brjálaðir yfir því að það sé sáttatillaga þar sem eitthvað er tekið undir gagnrýni okkar. En það hefðu náttúrlega aldrei verið neinar sættir nema eitthvað hefði verið tekið undir gagnrýni okkar vegna þess að við vorum ekki sáttir. Annars er það bara þrái ég meina sáttatillaga felur í sér að það er tekið undir ég meina við hörmum eitthvað.
[…]
Bjarni Randver vill ekki harma neitt. En sko reyndar fer tvennum sögum af því vegna þess að í svarinu frá guðfræðideild kemur fram að þeir séu tilbúnir til að breyta einhverjum glærum. […]
[- - -]
Þannig að það endaði með því að í samráði við rektor þá fer bara Vantrú, við drögum málið til baka, algjörlega og í staðinn fyrir var skipuð þessi rannsóknarnefnd sem hefur verið að rannsaka málið. Svo var hún skipuð og rannsakar málið og okkur finnst það vera óttalega rugl vegna þess að …
 

Vantrú óttast fréttaskýringu í Morgunblaðinu

Fyrrnefnt viðtal Mána Péturssonar við vantrúarfélagana Matthías Ásgeirsson og Frosta Logason (sem er raunar annar af stjórnendum þáttarins Harmageddon) var tekið skömmu eftir að fréttaskýring Barkar Gunnarssonar, Heilagt stríð Vantrúar, birtist í Morgunblaðinu þann 4. desember 2011. Áður en fréttaskýringin birtist var Matthías Ásgeirsson búinn að frétta af henni og reyndi að hafa áhrif á hana, eins og kemur fram í þessu sama viðtali á Harmageddon: 

Málið er að ég þekki Börk. Við spilum fótbolta reglulega. Börkur Gunnarson er ágætur Garðbæingur. Og hérna hann sem sagt fær hérna upplýsingar frá Bjarna Randveri og þeim og hann trúir því allan tímann að við höfum bara lagt hann í einelti. Og hann er með afrit af þessu innra spjalli. Og hann er með nota bene hann er að fara að birta grein í síðasta sunnudagsmogga án þess að tala nokkurn tíma við Vantrú. Við bara fréttum útí bæ að hann sé að skrifa um okkur. Og þar sem ég þekki hann þá sendi ég honum bara tölvupóst og sagði Hey, ertu að skrifa um Vantrú? Já, segir hann. Hérna bíddu ætlarðu ekki að tala við okkur? Nei, segir hann og svo verður úr að ég fer að tala við hann. Ég næ þó örlítið að rétta okkar hlut en hann hefur bara játað fyrir mér sko þegar þarna var komið stöðu, hann var búinn að heyra þessa sögu, um vonda fólkið sem skipulagði herferð og ætlaði að leggja þennan mann í einelti og þá bara hélt hann að við værum trítilóð. Þannig að sko það, ég veit ekki hvort hann nær einhvern tímann að sko sjá ljósið í þessu máli …
 

Viðbrögð félagsins Vantrúar við fréttaskýringunni í Morgunblaðinu og umfjöllun sem af henni spratt
 

Í kjölfarið á fréttaskýringu Barkar Gunnarssonar var viðtal við Bjarna Randver Sigurvinsson í Kastljósi þann 5. desember 2011 og mikil viðbrögð urðu á Vefnum. Stjórn Vantrúar reyndi að fá birta grein til andsvara í Morgunblaðinu en tókst ekki og birti í staðinn á vef Vantrúar, sem og fleiri andsvör, eftir að þessi fréttaskýring Barkar (sem raunar var birt framhald af viku síðar, Einelti Vantrúar, þann 11. desember 2011, sú grein er ekki aðgengileg öðrum en kaupendum Morgunblaðsins).

Greinar Vantrúar heita Hvaða einelti?, eftir Egil Óskarsson, birt þann 6. desember 2011, Hvað gekk á í guðfræðideild?, birt sama dag, Banntrúarmaður svarar fyrir sig eftir Egil Óskarsson birt 9. desember 2011 (greinin er andsvar við grein Guðmundar Andra Thorssonar, Banntrúarmenn, í Fréttablaðinu 5. desember 2011), Yfirlýsing frá Vantrú, 13. desember 2011, og Um “Heilagt stríð” og “einelti” Vantrúar birtist 29. desember 2011. (Tvær síðarnefndu greinarnar eru eignaðar ritstjórn Vantrúar.) Að auki kom félagið Vantrú frétt um sín sjónarmið á Eyjunni, Einelti fjarri lagi segja Vantrúarmenn. Hafna málatilbúnaði stundakennara, þann 6. desember 2011 og í Morgunblaðið 13. desember 2011, Málið snúist um útúrsnúninga. (Mögulega hafa birst fréttir af sjónarhóli Vantrúar víðar í fjölmiðlum, ég leitaði ekki mjög nákvæmlega að slíku). Ennfremur vöktu einstakir vantrúarfélagar athygli á málstað sínum og greinum á vef Vantrúar á eigin bloggum, s.s. Matthías Ásgeirsson í Nokkrar eineltisgreinar þann 10. desember 2011 og Valgarður Guðjónsson í Kæri Guðmundur Andri, 7. desember 2011, Hið illa félag, 9. desember 2011, Já, já, háskólakennarar, þetta er í góðu lagi, 13. desember 2011 og Kennarinn sem hélt sig stjóra Liverpool, 27. desember 2011.
 

Í þessari baráttu Vantrúar „á vefnum, í blöðum, með bréfum og jafnvel í fjölmiðlum“ var ekki barist til sigurs heldur til varnar. Í flestum greinanna er dregið mjög úr aðgerðum Vantrúar í málinu gegn Bjarna Randver: Vantrú ætlaði sér aldrei í neina herferð gegn neinum; Biðlað er til skilnings lesenda á að eðlilega hafi vantrúarfélagar orðið sárir þegar þeir sáu glærurnar, fundist þær meiðandi fyrir sig, ekki sæma Háskóla Íslands og því borið upp erindi sín við þá aðila sem þeir töldu best að leita til; Vantrú virðist líta á siðanefndina/siðanefndirnar sem bandamann en telur Bjarna Randver og háskólakennara sem fylktu sér um hann (og voru orðnir á annað hundrað fyrir rest) vera óvini sína því Vantrú ásakar þessa aðila um að hafa fokkað upp málum, þ.e. komið i veg fyrir að siðanefnd fengi að starfa í þeim friði sem Vantrú segist einmitt hafa verið fylgjandi. Af þessum kennurum ber Guðni Elísson þyngsta sök í að ráðast gegn Vantrú og siðanefnd HÍ. Sem dæmi um málflutning má nefna: 

 • Öllu tali um „herferð“ Vantrúar gegn Bjarna Randveri er vísað til föðurhúsanna. Einu raunverulegu aðgerðir félagsins hafa verið að leggja fram erindi til siðanefndar Háskóla Íslands, en félagið taldi Bjarna hafa farið á svig við þær siðareglur sem HÍ hefur sett sér, og að fjalla á vefriti sínu um þá mynd sem Bjarni dró upp af félaginu á glærum sem hann notaði í kennslu sinni. (Egill Óskarsson. Banntrúarmaður svarar fyrir sig, 9. desember 2011.)
 • Kröfur Vantrúar voru ekki miklar. Félagið vildi að sýndur yrði skilningur á umkvörtunarefnum sínum og að tryggt yrði að bragarbót yrði gert á. Hvort að um formlega áminningu yrði að ræða var ekki aðalatriðið. (Egill Óskarsson. Hvaða einelti? á vef Vantrúar 6. desember 2011.)
 • Hópur háskólafólks hefur þyrlað upp miklu moldviðri í kringum þetta mál, ráðist að Vantrú og siðanefnd, svo aldrei hefur í raun tekist að fjalla um sjálft umkvörtunarefnið. Ef ekkert er að glærunum, af hverju fékk siðanefnd ekki að kafa ofan í saumana á málinu? (Um “Heilagt stríð” og “einelti” Vantrúar, á vef Vantrúar 29. desember 2011.)
   

Útskýring vantrúarfélaga á heilögu stríði og einelti

Félagið Vantrú hefur hafnað því alfarið að hafa nokkru sinni ætlað í stríð (heilagt, með broskarli) gegn Bjarna Randveri eða leggja hann í einelti, í fréttum, mörgum greinum, bloggfærslum félagsmanna og athugasemdum sem félagsmenn hafa skrifað við hin og þessi blogg. Má sem dæmi nefna orð Matthíasar Ásgeirssonar, fyrrum formanns Vantrúar, í viðtalinu í Harmageddon þann 9. desember 2011 þegar hann hann svarar fyrst spurningu Mána Péturssonar um hvort heilagt stríð hafi verið boðað:

Já, tökum þetta þrennt til sko, byrjum á hérna heilagt stríð sko. Nú er ég að fjalla um þetta allt eftir minni, sko. Við erum að tala um þessa umræðu sko, sem Bjarni Randver hefur undir höndum, og sem var stolið sko og lekið mjög víða. Hérna það, þær eru ná yfir heilt ár og þetta eru 1500 athugasemdir og sem fjöldi manna tekur á, í rauninni er þetta ekki mikið þegar þú deilir þessu á árið, sko. En svo fer hann og velur úr og sem sagt heilagt stríð kemur þannig til að þegar að hérna Vantrú er búið að senda inn þessi erindi, sem sagt við tökum okkur þarna einhverjar vikur til að semja erindið og tala um þetta og þetta er hópur fólks sem er að semja og gera athugasemdir og kommenta og svo er þetta tilbúið og hann fer og skilar þessu öllu inn ókei og þá er það komið og svo hérna byrjum við á greinaflokkunum, við setjum fyrstu greinina og þá kemur Reynir sem sagt á vefinn og segir eitthvað einsog: „Jæja, heilagt stríð er hafið“ og svo kemur hlæjandi broskarl. Gott ef næsti segir ekki eitthvað sko: „Hver ætlar að koma með mér í sjálfsmorðsárás“ og þriðji sko: „Allah Akbar“ og eitthvað. Svo AUGLJÓST HÁÐ svo augljóslega EKKI heilagt stríð að það ÞARF sko að vera eitthvað AÐ blaðamanni Morgunblaðsins að túlka þetta þannig. En sko þarna er hann kominn með fína fyrirsögn. Svo er hann sko með það að það sé skipuleg herferð. Vantrú er hópur fólks. Það var ekki ég sem kvartaði undan kennslunni heldur sko hópur í félagi. Og, ég meina, þegar hópur í félagi gerir eitthvað þá má alltaf segja að það sé skipulagt, ég meina það er fólk að taka sig saman um eitthvað. Ég veit ekki sko, efnislega held ég að málið væri nákvæmlega ekkert öðruvísi þó ég hefði einn staðið í þessu, ég meina, þetta er, það er alltaf hægt að segja ef hópur fólks gerir eitthvað, ég meina ef þið tveir takið ykkur saman um að fara í viðtal og svo segiði „Svo spyrð þú að þessu og ég að hinu“, ég meina, er það þá skipulögð herferð? Já, nei, að sjálfsögðu ekki. Það er bara fólk að leggja línurnar. Og í þessu  lögðum við línurnar fram og til baka og spáðum í, fengum viðbrögð og sögðum, bíddu við, hvað eigum við að gera, hvernig eigum við að svara, hvað haldið þið að þeir segi, er gott að gera þetta eða hitt. Eigum við að nota þetta orð eða hitt þegar við erum að semja þetta.

Máni Pétursson spyr: „En skipulögð … þegar menn eru að skipuleggja einelti er það ekki full langt gengið?“

Matthías: Já það er nefnilega tvennt í þessu. Annars vegar er það nefnilega að orðið einelti, ég get alveg, það nefnilega tengist ykkur, gaman að segja frá því. Að hérna eftir að ég var hérna hjá ykkur á sínum tíma og talaði um þetta þá hérna kom Stefán Einar Stefánsson ekkert löngu síðar og var að tala og kynna einhverja bók síðan. Og í lok þess viðtals þá rædduð þið aðeins við hann um málið. Og, ég meina, við hlustuðum á þetta viðtal og svo ræddum við það. Og hérna okkur þótti margt í því svona frekar gagnrýnivert en að … vorum svona eitthvað að ræða það sem hann sagði og hvort við ættum að svara því og ég spyr: „Hvað segið þið? Á ég að skrifa grein og svara þessu hérna á Vantrú?“ Og hann hérna sem sagt Reynir segir: „Jájá við megum ekki skilja þarna þennan mann útundan í einelti okkar“ …
[Þáttarstjórnandi stingur inn í: Hann orðaði þetta ekki alveg svona …]
Efnislega segir hann þetta. Þarna er … Þetta er EINA sem þeir hafa í höndunum um að við séum að tala um einelti gegn Bjarna Randver. Þetta er sagt í háði en með, nota bene, miðað við það sem fram kemur á glærunum sem kennt er í Háskóla Íslands er einelti, það er ein glæra um einelti. Það er eftir því að við erum dónalegir að þá er farið að tala um að við séum að leggja fólk í einelti. Og hérna þannig að þetta orð var sagt í svona samhengi og til að bæta sko gráu ofan á svart að það sé verið að nota þetta orð í eineltisumræðunni er að greinin, sem ég spurði hvort ég ætti að skrifa, og formaðurinn hvatti mig til að skrifa var aldrei skrifuð. Neinei og af hverju? Bara vegna þess þú veist að ég bara … ég er latur.

Þannig að þú veist ei … sko menn geta talað um þetta, jú það  er verið segja eitthvað inn á spjallborðinu og menn geta tekið einhver orð úr samhengi. Skoðið það sem Vantrú gerði. Var eitthvað einelti í gjörðum okkar? Þú veist, nei! Við sendum erindi til siðanefndar …
 
[- - - ]

En þetta, þetta kemur í ljós þarna um jólin og þá er allt komið í háaloft náttúrlega og við, þú veist, og nota bene hann er að dreifa punktum úr spjallinu og taka alveg STÓRKOSTLEGA úr samhengi. Ekki bara sem við vorum að tala um hérna um einelti heldur  …

Þáttarstjórnandi: „En þá er hann ekki bara að taka af persónulegum bloggsíðum heldur er hann að taka af persónulegu lokuðu spjallsvæði og taka þaðan úr samhengi og …“

Matthías: og taka þaðan …
Þáttarstjórnandi: Og mála Vantrú …
Matthías: Og mála okkur sem brjálað fólk og hérna og þarna er þetta komið í þessa stöðu og við förum og tölum við siðanefnd og bara hvað er í gangi? og hann vildi og leggja þetta fram sem mála [?] Því var hafnað. Ég hérna … Svona heldur þetta áfram og það er verið að tala um …
[ - - - ]

Þáttarstjórnandi minnist á umræðuna í vikunni (sem sprottin er af fréttaskýringu Barkar Gunnarssonar í Morgunblaðinu)

Mattías: Sko, ég er sko ýmsu vanur en það er sko svakalegt hatur í garð okkar það er sko ég hef sko sjaldan séð annað eins og þarna maður snýr því ekkert við á einhverjum smátíma. Ég meina við þurfum að tala við fólk. Við þurfum að tala við sko við þurfum að tala .. sko, til dæmis stendur bara í siðareglum Háskóla Íslands að sá sem leggur fram rökstudda ásökun um brot á siðareglum það má aldrei bitna á þeim sem færir hana fram […] Þetta hefur svo sannarlega verið brotið fram og til baka.

Fleiri forkólfar félagsins Vantrúar hafa haldið fram sömu sjónarmiðum og túlkun á atburðarás:

 • Ef samhengi athugasemdarinnar er skoðuð, þá er það rangt að Stefán Einar hafi ekki “tengst þessu máli nokkurn skapaðan hlut”, hann hafði tjáð sig um þetta mál í útvarpsviðtali. Það var stungið upp á því að birta upptöku af viðtalinu ásamt gagnrýni. Þegar Reynir segir “Go for it”, þá var hann að svara þeirri uppástungu. Það er “eineltið” sem átti að hefjast gegn Stefáni.

Það er auðvitað skiljanlegt að hvorki Bjarni Randver né blaðamaður Morgunblaðsins skilji einkahúmor á lokuðu spjallsvæði Vantrúar. En það er frekar ömurlegt að sömu menn skuli notfæra sér það í áróðri sínum gegn Vantrú. Og ég verð að segja að þegar sömu menn túlka tal um “heilagt stríð” sem alvöru, og slengja því upp í fyrirsögn, þá tel ég að það sé bara um óheiðarleg vinnubrögð að ræða. (Hjalti Rúnar Ómarsson, fyrrum stjórnarmaður í Vantrú. Ímyndað einelti á vef Vantrúar 27. desember 2011.)

 • Í þessu máli hefur BRS ekki bara látið sér nægja að verjast siðanefndarkærunni, sem hefði þó átt að vera aðalatriðið. Þvert á móti hefur aðalatriðið verið að reyna að koma höggi á félagið Vantrú og einstaka félagsmenn. Meðlimir í félaginu hafa þegar fundið fyrir því, en trúnaðargögnin virðast hafa fengið mikla og nánast kerfisbundna dreifingu um háskólasamfélagið og víðar. (Egill Óskarsson, næstötulasti greinarhöfundur á vef Vantrúar 2011. Hvaða einelti? á vef Vantrúar 6. desember 2011.)
   

Af ofantöldu sýnist mér að vantrúarfélagar haldi því fram núna þegar einelti berst í tal að Bjarni Randver Sigurvinsson, fjöldi háskólakennara og Börkur Gunnarsson blaðamaður Morgunblaðsins hafi með óskiljanlegri kergju, húmorsleysi, stolnum trúnaðargögnum og óheiðarlegum vinnubrögðum lagt félagið Vantrú í einelti. Það sé eineltið. Félagið Vantrú sé hið raunverulega fórnarlamb í þessu máli.
 

Að lokum er rétt að geta þess að Óli Gneisti Sóleyjarson, formaður Vantrúar árið 2009 sem fékk vin sinn til að afhenda sér glærurnar úr Nýtrúarhreyfingum og varð kveikjan að kærumálinu gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni, og Reynir Harðarson sálfræðingur, formaður Vantrúar 2010-2011, sem rak kærumálið gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni fyrir hönd Vantrúar, hafa hvorugir tjáð sig um málið eftir að fréttaskýring Barkar Gunnarssonar birtist og umfjöllun á Vefnum og í fjölmiðlum fylgdi í kjölfarið. Síðasta greinin sem Reynir Harðarson skrifaði á vef Vantrúar er Guðfræðilegar bollaleggingar frá 28. ágúst 2011 og síðasta athugasemd sem ég fann eftir Reyni er frá 6. október 2011. Eftir það ríkir þögnin ein af hans hálfu. Skv. upplýsingasíðu á vef Vantrúar, Um Vantrú, er Reynir Harðarson enn formaður félagsins en undanfarna mánuði virðist Matthías Ásgeirsson aðallega hafa verið í forsvari fyrir félagið Vantrú.
 
 
 
 
 
 

17 ummæli við “Einelti Vantrúar”

 1. Helgi Ingólfsson ritar:

  Á eftirfarandi hátt vill Vantrúarmaður (sjá Matthías Ásgeirsson á örvitinn.com, 06/02/12 kl. 15:53) snúa ofangreindri færslu Hörpu upp í brandara, hugsanlega til að geta byggt upp þá ímynd að hún leggi félagið í einelti:

  “Jæja, Harpa komst loks að niðurstöðu. Ég held ég sé bara sammála henni.

  Af ofantöldu sýnist mér að … Bjarni Randver Sigurvinsson, fjöldi háskólakennara og Börkur Gunnarsson blaðamaður Morgunblaðsins hafi með óskiljanlegri kergju, húmorsleysi, stolnum trúnaðargögnum og óheiðarlegum vinnubrögðum lagt félagið Vantrú í einelti. [ Bloggsíða Hörpu Hreinsdóttur, afrit tekið 6.2.2012 15:50]”

  Undir tekur Þórður nokkur Ingvarsson og uppnefnir hana “Hörpu Dörpsdóttur”. *Dæs* Ég held að ég standist þá freistingu að tala um Þórðargleði.
  —–
  Harpa, er rétt að þú ætlir að skrifa jafnmargar greinar um málið eins og félagið Vantrú birti um glærurnar?

 2. Þórður Ingvarsson ritar:

  Hahaha! Þú ert alveg kostulegur, Helgi Derpólfsson. Dörpídörp.

 3. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Helgi: Ég er nú ekki í sérstöku kappi við Vantrú um greinafjölda. Veit ekki alveg hvað þetta verða margar færslur, það verður bara að koma í ljós, en núna tel ég mig nokkurn veginn vera búin að afgreiða Vantrúarþáttinn í málinu. (Kann þó að vera að ég víki eitthvað að Vantrú síðar en það verður þá væntanlega bara í tengslum við aðra þætti málsins. Nema eitthvað nýtt og spennandi sem varðar Vantrú og þetta mál reki á fjörur mínar.)

  Svo hann Þórður uppnefnir mig Dörpsdóttur? Þetta hlýtur að eiga vera einhver verulega djúphugsuð spæling, ég kveiki ekki á þessu. Til þessa hefur maður bara séð þessar venjulegu fyrirsjáanlegu spælingar vantrúarfélaga (auli, sturluð, skrifar ómerkilega, nettar ábendingar um geðveiki af ýmsu tagi og svoleiðis). Á maður að nenna að orðaleita eða bara gefa sér að Þórður sé í rímorðaleik að hætti barna? Eða er þetta afbrigði af pómó-listsköpun?

  Gaman að heyra að Matthías Ásgeirsson skuli vera sammála mér.

 4. Jón Frímann ritar:

  Harpa. Þú stendur þig bara vel í eineltinu sjálf. Ég er að nota þína eigin skilgreiningu á einelti. Þannig að það þýðir ekkert að vera á flótta undan þessu núna.

 5. Þórður Ingvarsson ritar:

  Djúphugsuð spæling?! Úff. Þessar pælingar þínar eru jafn áhugaverðar og vangaveltur Bjarna Randvers um orðið “anarkóbóhedónisti”. Semsagt, kostulegar! Haltu þessu áfram og mundu að gera einsog félaginn þinn og “fræðimaður” Bjarni Randver og lestu aðeins það allra versta útúr öllu sem ég skil eftir mig. Bless.

 6. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Nú hef ég ekki áhuga á þessu venjulega karpi sem vantrúarfélagar og þeirra fylgismenn sækjast eftir og leggja umræðuþræði á bloggum annarra oft undir slíkt. Svoleiðis að ef menn hafa ekkert málefnalegt fram að færa er best að þeir haldi sig á eigin bloggum eða þeirra sem heillast af innihaldslausu karpi. Þetta mega þeir Jón Frímann og Þórður Ingvarsson gjarna taka til sín.

 7. Helgi Ingólfsson ritar:

  Harpa:

  Það er mögulegur frábrugðinn túlkunarmöguleiki á allþekktum ummælum Reynis Harðarsonar um “heilagt stríð”, sem Börkur Gunnarsson vitnaði til í Morgunblaðsgrein sinni í desember.

  1) Þegar rætt er um hluti í afleiddri eða óeiginlegri merkingu, þá er almenn regla að setja þá í gæsalappir. Það var ekki gert í umræddri tilvitnun. Því er sá möguleiki fyllilega opinn að túlka beri ummælin bókstaflega.

  2) Þegar um brandara er að ræða og broskalli bætt við, þá er hann að öllu jöfnu settur beint aftan við ummæli. Svo var ekki, skilst mér, gert í þessu tilfelli, heldur var slegið “enter”-merki og síðan settur inn broskall. Það væri vel hugsanlegt að túlka sem gleði yfir því að baráttan er hafin, ekki satt?

  Svona er nú víst túlkunarfræðin.

 8. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Hm … Helgi … túlkunarfræði byggð á greinarmerkjasetningu og staðsetningu broskarls? Ég er dálítið hrædd um að akademían myndi ekki skrifa upp á svoleiðis :)

  Hins vegar tel ég mig hafa rökstutt í færslunum Bardagaaðferðir Vantrúar gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni, Sókn Vantrúar gegn Bjarna Randver í fjölmiðlum og í fyrri hluta þessarar færslu að heilaga stríðið sem tilkynnt var áríðandi var háð markvisst á öllum vígstöðum og einmitt sótt fram eins og fyrirmælin í tilkynningunni voru: “Við munum berjast á vefnum, í blöðum, með bréfum og jafnvel í fjölmiðlum þar til fullur sigur er unninn.”

  Ég er ósammála Reyni Harðarsyni sálfræðingi, formanni Vantrúar, sem gaf út stríðsyfirlýsinguna, um að stundakennari við Háskóla Íslands sé “voldugur andstæðingur” sem “ráðist hafi á félagið Vantrú að ósekju” svo félagið hafi “orðið að verja heiður sinn” með þessum ósköpum. Friðsamleg lausn, eins og Vantrúarfélagar halda fram að hafi ævinlega verið ætlun þeirra, hefði líklega komið til greina. En eins og Carlos Ferrer nefndi í athugasemd þá er engu líkara en Vantrú hafi ætlað að “rota mýflugu með sleggju”.

  Hinn voldugi andstæðingurinn sem vó að heiðri Vantrúar var “Guðfræði í Háskóla Íslands”. Vantrú virðist ekki hafa tekið eftir því að glærurnar um félagið Vantrú, sem voru notaðar í einni kennslustund, voru í kúrsi sem hét Nýtrúarhreyfingar og fellur ekki einu sinni undir guðfræði!

  En mér fannst viðtalið við Matthías mjög skemmtilegt og alveg ótrúlegt að sjá hvernig Vantrúarfélagar hafa hamast við að hvítþvo sig af öllum ávirðingum og gerðum eftir að upplýst var um aðferðir þeirra. Ég hef aldrei séð “I didn’t do it - I wasn’t there” aðferðina brúkaða svo kristaltært áður. Auðvitað vissi ég fyrir að gerandi eineltis reynir oft að láta líta út fyrir að hann sé fórnarlambið en hef aldrei séð hóp manna snúa bökum saman í akkúrat þessu. Sömuleiðis hef ég aldrei séð svona botnlausa meðvirkni og hópafneitun áður. Meira að segja skynsamir menn eins og Valgarður Guðjónsson eða Kristinn Theódórsson, sem voru vitni að þessu öllu, sjá nú ekki betur en aldrei hafi neitt misjafnt verið skrafað á hinu fræga innra spjallborði (eftir að hafa staðfest að þeir hafi lesið það), að aldrei hafi verið neinar skipulegar aðgerðir í bréfum, á Vefnum og í fjölmiðlum í gangi gegn einum stundakennara sem ekki átti neitt sérstakt bakland eða stuðning og telja núna, eftir allt sem fram hefur komið, að í rauninni hafi verið um ósköp saklausa og vel skiljanlega kvörtun Vantrúar að ræða um að laga lítilsháttar nokkrar glærur!

  Mér finnst þetta afar athyglisvert og þess vegna vildi ég sýna með beinum tilvitnunum hvernig Vantrúarskútan (svo ég vitni nú í viðtal við formanninn Reyni Harðarson) hagar seglum mjög listilega eftir vindi í sínum málflutningi; endar svo á að kúvenda og breyta sér í einhverja pínulitla friðarduggu! Stýrimaðurinn á friðarduggunni er Matthías Ásgeirsson því skipstjórinn hvarf …

  Eftir þessa athugasemd er ég soldið hrædd um að Matthías sé ekki lengur sammála mér og líklega hef ég valdið Ásgeiri [Berg, vantrúarfélaga?] nokkrum vonbrigðum.

 9. Kristinn Theódórsson ritar:

  Ég vil nú ekki meina að ég hafi fullyrt að ekkert misjafnt hafi verið rætt á spjallborðinu. Sjálfur kom ég bara ekkert að þessu máli og skildi gorgeirinn í umræddum spjallþræði alltaf sem fíflagang og þus, að aðalatriðið væri að botn í málið frá siðanefnd HÍ.

  Ég skildi t.d. alltaf talið um heilagt stríð og þess háttar sem grín, þótt mönnum væri full alvara með að fá botn í málið og væru raunverulega gáttaðir á glærunum og áherslunum í þeim. Og ég minnist þess að hafa fengið staðfest að það væri ekki vilji fyrir því að BR missti vinnuna eða neitt slíkt. Sjálfur var ég síðan farinn úr félaginu í okt. 2010.

  Kannski hef ég leitt hjá mér einhverjar pælingar eða virkilega verið blindur á stemninguna, en ég vil nú líka meina að þín framsetning á þessu öllu saman sé lituð í hina áttina, Harpa. Það er nú líka næsta eðlilegt að gera ráð fyrir því.

  En hvað sem því líður er þetta mál allt hið sérstakasta.

  Ég leyfi mér samt að fullyrða að farið hafi verið af stað í upphafi í einlægri furðu yfir glærunum. Öll framvindan eftir það kann að gefa aðra mynd, en það var nú samt þannig, eftir því sem ég best veit.

  mbk,

 10. Carlos ritar:

  @ Kristinn - furða er eitt. Hvernig menn magna sig upp í að senda þrjár kvartanir til stjórnvalda HÍ (án þess að skrifa samhljóða til glæruhöfundar) og magna upp storm á VT (enska « Shitstorm ») er annað. Fleiri en ég og Harpa sjá í þeirri gjörð aðför og fyrirsát sem hefur engan friðsamlegan tilgang, hvað þá aðrar sættir en fullkomna uppgjöf.

 11. Guðbergur Ísleifsson ritar:

  Leikskólakennarinn og Vantrúarmeðlimurinn Egill Óskarsson skrifar enn eina meðvirknisgreinina á vantru.is þann 1. febrúar þar sem hann reynir að kasta ryki í augu fólks með margtuggðum Vantrúarklisjum um Bjarna Randver.

  Í þessari færslu, sem hljómar reyndar eins og hún hafi verið pöntuð af foringjanum, tekur Egill enn einu sinni dæmið fáránlega um meintan óheiðarleik Bjarna þegar hann vitnaði í ummæli Matta sem voru á þá leið að hann sagðist vera “orðinn þreyttur á trúmönnum sem halda að þeir geti vaðið uppi í þessu samfélagi, hrópandi yfirlýsingar í allar áttir. Hótandi mönnum heljarvist og eilífðar- kvölum… og móðgast svo þegar þeir eru kallaðir hálfvitar.”

  Því er haldið fram af Vantrúarfólki að tilvitnunin í þessi ummæli “Ég er orðinn þreyttur á trúmönnum sem … móðgast svo þegar þeir eru kallaðir hálfvitar” hafi allt aðra merkingu en ummælin sjálf. Vantrúarfólk vill sem sagt sjá út úr þessu að Bjarni hafi “gjörbreytt merkingu” orða Matta, “slitið þau úr samhengi” og þar með gert sig sekan um grófa fölsun.

  Þvílík firra.

  Allt óbrjálað fólk sem ekki hefur farið í heilaþvott hjá Vantrú sér að merkingin í báðum tilvikum, þ.e. upphaflegu ummælunum og tilvitnuninni, er nákvæmlega sú sama. Kjarni málsins er að Matti segist vera orðinn þreyttur á trúmönnum sem móðgast þegar þeir eru kallaðir hálfvitar. Það er punkturinn og um það snýst tilvitnunin þannig að allt tal um að merkingin hafi “gjörbreyst” er bara bull.

  Mér skilst að í þessu tilfelli hafi Bjarni reyndar verið að nota ummæli Matta fyrst og fremst sem dæmi um orðanotkun og málfar Vantrúarmeðlima. Hafi svo verið, þá er þetta vægt dæmi, enda kalla Vantrúarmeðlimir ekki bara trúmenn hálfvita, heldur hreint og beint alla sem eru þeim ósammála. Þeir eru nánast undantekningarlaust uppnefndir hálfvitar, rugludallar, geðsjúklingar, fífl og þar fram eftir götunum. Þetta vita allir sem hafa andmælt Vantrúarmeðlimum. Þeir ráðast alltaf beint á persónur með uppnefnum, svívirðingum, hótunum og hæðni. Málefnið sjálft skiptir ekki máli. Aðalatriðið er að knésetja persónuna.

  En fyrir þessa hræðilegu tilvitnun í orð Matta kærði Vantrú sem sagt Bjarna til siðanefndar Háskólans. Þetta væri fyndið ef þetta væri ekki svona innilega aumkunarvert og raun ber vitni og móttaka siðanefndar á kærunni svona sorgleg. Þessum málatilbúnaði og þvælu hefði átt að vísa frá eins og skot.

  Það sem vekur enn meiri athygli við þessa færslu Egils er þetta eina (enn sem komið er a.m.k.) komment sem gert er við hana. Það er auðvitað frá Matta, aðalmanni Vantrúar.

  Í kommentinu er Matti allt í einu farinn að “útskýra” hvað hann átti við með upphaflegu ummælunum (? - eins og það hafi ekki verið nógu skýrt). Nú segist hann hafa verið að “meina” að menn ættu ekki að kasta steinum úr glerhúsi. Hann notaði bara hin orðin til að segja það, þ.e. þessi sem Bjarni vitnaði í.

  Þessi “skýring” Matta á eigin ummælum breytir auðvitað engu um að hann sagðist vera “orðinn þreyttur á trúmönnum sem … móðgast þegar þeir eru kallaðir hálfvitar”. Orðskýringin mikla sem á að sanna sök Bjarna fellur því um sjálfa sig og Matti með - beint á nebbann eins og venjulega.

  En Matti segir líka, og það er það athyglisverðasta við færsluna: “Staðreyndin er að í áratug hefur þessi einstaklingur safnað saman ummælum eftir mig og aðra trúleysingja til að geta notað gegn okkur.” Þarna á Matti auðvitað við Bjarna Randver.

  Í þessum orðum felst nefnilega hin raunverulega ástæða fyrir aðför Vantrúar að Bjarna: Matti er að hefna sín.

  Ég hef sagt það áður að þegar ég var að fylgjast með þessu áhlaupi gegn Bjarna verða til þá fór ekkert á milli mála að Matti var aðalhöfundurinn og aðalhvatamaðurinn að því. Á einhvern óskiljanlegan hátt tókst honum að virkja alla Vantrúarhjörðina með í árásina án þess að nokkurt þeirra hafi gert minnstu athugasemd við að vera teymd út í kviksyndið. Þvert á móti þá rembast margir þeirra enn við að þjóna herra sínum þótt sokknir séu upp að herðum. Aðrir hafa hreinlega horfið eins og til dæmis “formaðurinn”.

  Maður botnar auðvitað ekkert í því hvernig þetta er hægt en Matti virðist hafa ótrúlegt vald yfir Vantrúarliðum sem hoppa, skoppa og skrækja í skilyrðislausri þjónkun og tryggð við hann. Allt sem Matti segir og gerir er rétt að mati hjarðarinnar og hún virðist fylgja honum og taka undir með hverju því sem hann segir og gerir í gagnrýnislausri blindni og skilyrðislausri tryggð.

  Nú er ég enginn sérfræðingur í svona kult- og sértrúarsöfnuðum en hygg að styrkur þeirra byggi að miklu leyti á því að “leiðtoginn” hafi einhvers konar ofurvald á meðlimum og geti hreint og beint stjórnað því hvernig þeir hugsa, koma fram, segja og gera.

  Slíkt ofurvald yfir Vantrúarsöfnuðinum virðist Matti hafa, ótrúlegt en satt. Langbestu dæmin um þessa meðvirkni er að finna á vantru.is og á heimasíðu Matta, orvitinn.com og svo auðvitað í þessari árás á Bjarna. Þar kemur hjarðhegðunin svo skýrt í ljós að maður fær nánast ofbirtu í bæði augun.

  Ég vona sannarlega að fleiri ánetjist ekki þessu rugli sem Vantrú er og velji sér heilbrigðari félagsskap, en því miður þá hefur það sýnt sig í gegnum tíðina að það getur reynst erfitt að sporna við svona sértrúarsöfnuðum eftir að þeir hafa einu sinni komist á legg.

 12. Þórður Ingvarsson ritar:

  Ég er orðinn þreyttur á Guðbergi Ísleifssyni sem er óþreytandi við að dreifa bulli, vitleysu, kjaftæði, rangfærslum, lygum og óhróðri um Vantrú og félagsmenn þess hvar sem félagsskapurinn er til umræðu, hann demóníserar félagið, reynir að gera okkur að trítilóðum ófreskjum og hann þykist svo verða móðgaður þegar hann er sagður vera geðveikur.

 13. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Ég er orðin rosalega þreytt á umræðunni um akkúrat þessa glæru - veit ekki hvað ég hef rekist á margar greinar á Örvitanum og Vantrú og athugasemdir við blogg hinna og þessara um þessa glæru. Hugsa að ég láti nýja grein á Vantrú um glæruna alveg ólesna.

  Það er ekkert óeðlilegt við það að Bjarni Randver Sigurvinsson safni upplýsingum um Vantrú og forkólfa þess félags. Ég reikna með að hann safni líka upplýsingum um Ásatrúarfélagið, Moonista, Siðmennt o.fl. samtök enda er hann sérfræðingur í trúarbragðafélagsfræði og kennir námskeið sem snúast um slíkt.

  Nú veit ég ekkert um vald Matthíasar Ásgeirssonar yfir Vantrúarfélögum. Hann er mjög áberandi í allri umræðu og má segja að hann hafi aktað sem formaður síðan einhvern tíma í október, þegar sitjandi formaður hvarf gersamlega af Vefnum og fjölmiðlum. Vantrú er að sögn Reynis Harðarsonar lausbeislaður félagsskapur og því ómögulegt að segja hvort eða í hve miklum mæli félagsmenn lúti stjórn Matthíasar.

  Ég veit líka lítið um “költ”, hef ekki haft áhuga á fyrirbærinu. En kannski er rétt að stinga hér inn tilvitnun sem ég var að lesa í athugasemd Evu Hauksdóttur við blogg Davíðs Þórs Jónssonar,
    

  ”In fact, a good way to create an extremist group, or a cult of any kind, is to sepreate members from the rest of society. The separation can occur physically or psycologically, by creating a sense of suspicion about nonmembers. With such separation, the information and views of those outside the group can be discredited, and hence nothing will disturb the process of polarization as group members continue to talk.”

  http://www.amazon.com/Going-Extremes-Minds-Unite-Divide/dp/0199754128/ref=sr_1_2?ie=UTF8&qid=1328481882&sr=8-2#reader_0199754128

 14. Carlos ritar:

  @ Þórður varðandi aths. 12

  Þú kastar steinum úr glerhúsi, góði. Nákvæmlega það sem þú vænir Guðberg um, tíðkarðu sjálfur ótæpilega. Þú og nokkrir félaga þinna úr VT.

 15. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Carlos: Í guðs bænum ekki espa upp hann Þórð - þá fyllist þessi umræðuþráður af skítkasti (á báða bóga jafnvel). Ég eyði frekari stælum Þórðar og annarra frá og með núna. Og já, mér er ljóst að hann þarf að eiga síðasta orðið í allri umræðu en það verður hann að fá að gera annars staðar.

 16. Helgi Ingólfsson ritar:

  Guðbergur segir (aths. 11):
  “…enda kalla Vantrúarmeðlimir ekki bara trúmenn hálfvita, heldur hreint og beint alla sem eru þeim ósammála. Þeir eru nánast undantekningarlaust uppnefndir hálfvitar, rugludallar, geðsjúklingar, fífl og þar fram eftir götunum. Þetta vita allir sem hafa andmælt Vantrúarmeðlimum. Þeir ráðast alltaf beint á persónur með uppnefnum, svívirðingum, hótunum og hæðni.”

  Þórður Vantrúarmaður segir (aths. 12):
  “Ég er orðinn þreyttur á Guðbergi Ísleifssyni sem er óþreytandi við að dreifa bulli, vitleysu, kjaftæði, rangfærslum, lygum og óhróðri um Vantrú og félagsmenn þess hvar sem félagsskapurinn er til umræðu, hann demóníserar félagið, reynir að gera okkur að trítilóðum ófreskjum og hann þykist svo verða móðgaður þegar hann er sagður vera geðveikur. ”

  Athyglisvert.

 17. Carlos ritar:

  @ Harpa varðandi aths. 13:

  Orðið költ er afar hlaðið orð í daglegu tali, svona álíka og geðveik/ur. Enda tala fræðimenn um nýtrúarhreyfingar. Einn af göllum við að nota orðin yfir fyrirbæri eins og VT er að þau koma úr trúarlífsfélagsfræðinni og eru notuð á trúarhreyfingar.

  VT er í eðli sínu engin trúarhreyfing og ég leyfi mér að efast um að félagið nái því að vera lífsskoðunarfélag (Siðmennt er miklu nær því að vera trúarhreyfing eða lífsskoðunarfélag). Það er hinsvegar félag aktífista (eins og Sea Shepard eða ATTAC), það hefur mjög skýra stefnu og aðgreinir sig (eins og sumar nýtrúarhreyfingar) mjög skarpt frá meginþorra guðleysingja, þ.e. í starfsaðferðum sínum og framsetningu.