9. febrúar 2012

Hvað sögðu nemendur og kennarar um kennslu og glærur Bjarna Randvers?

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Sjö nemendur sem setið höfðu þann fræga kúrs Nýtrúarhreyfingar á haustmisseri 2009 skrifuðu greinargerðir um reynslu sína af kennslu Bjarna Randvers Sigurvinssonar. Fyrsta greinargerðin var skrifuð í desember 2010 en hinar í maí 2011. Tvær greinargerðanna voru sendar inn að frumkvæði nemendanna sjálfra en hinar að beiðni háskólakennara um að nemendur lýstu reynslu sinni. Siðanefnd HÍ var afhent a.m.k. fyrsta greinargerðin (sem nemandinn skrifaði að eigin frumkvæði). Ég veit ekki hvort siðanefndin fékk hinar greinargerðirnar en siðanefnd óskaði sjálf aldrei eftir greinargerðum frá nemendum í námskeiðinu. Hefði þó mátt ætla að nemendur væru tilbúnir að greina heiðarlega frá reynslu sinni, hafandi lokið þessu námskeiði og fengið einkunn í því. Aftur á móti datt þeirri siðanefnd sem laut forystu Ingvars Sigurgeirssonar prófessors í kennaradeild Menntavísindasviðs HÍ í hug að fá aðgang að prófúrlausnum nemenda [!] en hafði þá fengið niðurstöður kennslukönnunar í Nýtrúarhreyfingum í hendurnar og ýmis önnur gögn um kúrsinn. Næstu færslur verða um siðanefnd HÍ og hennar störf og verður hún ekki meir til umræðu hér.

Heimild mín fyrir greinargerðum nemenda og háskólakennara er Greinargerðir og andmæli. Vegna kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (kærumál nr. 1/2010). Þetta er óopinbert skjal í vinnslu en ég hef leyfi Bjarna Randvers Sigurvinssonar fyrir að vitna í það. Að sögn Bjarna Randvers gáfu nemendur og háskólakennarar leyfi fyrir því að vitnað væri opinberlega í greinargerðir sínar. Í færslunni kýs ég að nafngreina ekki nemendur í hópi greinargerðahöfunda.
 

Í greinargerðum nemenda gengur sem rauður þráður vottun þeirra um að Bjarni Randver hafi sérstaklega gætt hlutleysis í umfjöllun, svo mjög að eftir var tekið, sem og reynt að leggja þunga áherslu á gagnrýna hugsun og sjálfstætt eigið mat nemenda á því efni sem til umfjöllunar var. Sem dæmi má nefna þessa klausu úr bréfi nemanda sem kom úr annarri deild en tók þennan kúrs og nokkra aðra í guðfræði-og trúarbragðafræðideild, skrifað í desember 2010 (nemandinn var ekki jafnhrifinn af kúrsunum sem hann sat hjá öðrum kennurum í deildinni):
 

 Þar fann ég að kvað við annan tón, þar sem megináherslur Bjarna í þessum þremur námskeiðum voru að nota gagnrýna hugsun og hann hvatti ávallt til þess að málefnin væru skoðuð frá sem flestum sjónarhornum. Hann hvatti nemendur til að kynna sér sjálfir vel það efni sem til umfjöllunar var. Hann benti á heimasíður, bækur, blaðageinar [svo], sjónvarpsþætti, kvikmyndir og sá m.a. til þess að nemendur gætu heimsótt kirkjudeildir og trúarhópa. Þær bækur og kvikmyndir sem hann benti nemendum á gerði hann okkur einkar aðgengilegar með því að hafa bækurnar meðferðis í tíma og við fengum þar með beinan aðgang að viðkomandi ritum. Á mínum námsferli innan HÍ upplifði ég hvergi eins góða leiðsögn um ýtarefni og aðgengi að gögnum eins og undir leiðsögn Bjarna Randvers. Þar að auki var hann alltaf reiðubúin [svo] að veita nemendum aðgang að gagnasafni sínu og spjalli um viðkomandi málefni […].
 [- - -]
 Ég lít svo á að það sé Háskólanum til sóma að hafa slíkan kennara. Mann sem hefur yfirgripsmikla þekkingu á efninu, sem og góðan aðgang að heimildum. Mann sem er ávalt reiðubúninn að ræða málin fordómalaust við nemendur.
 

Nemendum virðist hafa komið talsvert á óvart að einmitt þessi kennari hafi verið kærður fyrir „siðleysi“ í kennslu, þ.e. það sem félagið Vantrú taldi siðleysi byggt á túlkun félagsmanna á örlitlum hluta kennsluefnis. Í maí 2011 skrifar annar nemandi:
 

 Mér er kunnugt um ásakanir þær er Bjarni Randver situr undir að ósekju. Sem nemandi varð ég ekki vör við neitt í kennslu Bjarna Randvers, framkomu hans eða orðavali sem gæti rennt stoðum þær. Þvert á móti er það mat mitt, að kennarinn hafi verið málefnalegur í allri kennslu sinni og umræðu um trúarbrögð, trúfélög, samtök, lífsskoðanir, stefnur og strauma, hverju nafni sem það gengur undir. Engu var slegið fram án rökstuðnings, ekkert sagt sem ekki var hægt að vísa til í efni kennara, jafnt glærum sem öðru kennsluefni. Mér þykja þær ásakanir furðu sæta er Bjarni Bjarni Randver sætir og er kunnugt um að aðrir nemendur er sátu námskeiðið eru einnig forviða yfir málinu í heild sinni. Sé ekki unnt að stunda kennslu við æðstu menntastofnun íslensku þjóðarinnar, án þess að eiga á hættu að fá kæru fyrir það eitt að segja sannanlega og málefnalega frá viðfangsefnum, aðstæðum og atburðum, þá tel ég að verið sé að vega að trúfrelsi, málfrelsi, skoðanafrelsi, akademískum vinnubrögðum og gagnrýninni hugsun. Illa mun komið fyrir æðstu menntastofnun þjóðarinnar, þegar ekki er talið æskilegt að ræða efni, þótt málefnalega sé með farið, sem hagsmunahópar telja að varpi óæskilegu ljósi á sig og sína. Hvar er þá gagnrýnin hugsun og akademísk vinnubrögð? Er hér verið að fórna akademískum heilindum fyrir popúlisma?

Eins og þessi nemandi bendir á er viss hætta fólgin í því ef háskólakennsla á að litast af þjónkun við þá aðila sem eru til umfjöllunar í kennslunni. Þá verði akademísk vinnubrögð fyrir bí. Raunar virðast allir nemendur sem skiluðu inn greinargerðum vera sama sinnis. Og allir ljúka þeir miklu lofsorði á kennslu einmitt þessa kennara, yfirburðaþekkingu hans á viðfangsefninu (nýtrúarhreyfingum) og stöðuga hvatningu til að skoða mál frá sem flestum hliðum. Það er dálítið merkilegt að enginn nemandi sér ástæðu til að taka hið minnsta undir gagnrýni félagsins Vantrúar. Hafi félagið Vantrú átt sér einhvern málsvara í hópi nemendanna hefur sá a.m.k. ekki þorað að stíga fram og senda umsögn þar að lútandi.

Einn nemandinn tekur fram að hann sé guðleysingi og hafi verið vel kunnugur Vantrú áður en námskeiðið hófst þótt hann sé ekki sammála félaginu um allt, en sammála sumu, s.s. baráttu félagsins Vantrúar fyrir aðskilnaði ríkis og kirkju. Þessi nemandi segir, í maí 2011:

 Ég fyrir mitt leyti má til með að segja að ég var búin að kynna mér Vantrú löngu áður en ég sat þennan kúrs og þótti mér umfjöllunin í kúrsinum ekki sverta álit mitt á félaginu að neinu leyti. Ég man sérstaklega eftir því að Bjarni benti á heimasíðu Vantrúar, eins og hann gerði yfirleitt þegar hann vissi af aðgengilegum heimasíðum þeirra hópa sem fjallað var um í námskeiðinu. Ég man þetta vegna þess að [ég] hafði ekki farið inná vef Vantrúar þá í nokkurn tíma og smellti mér einmitt inná vefinn annað hvort í þessum sama tíma eða eftir tímann.

 Ég má einnig til með að benda á að ég veit lítið hverjir af kennurum mínir tengjast Þjóðkirkjunni og hverjir ekki. Ég þekkti heldur ekki neitt til Bjarna áður en ég sat kúrsinn, hef aldrei spjallað við hann einan eða kynnt mér hans skoðanir persónulega. T.d. þykir mér mjög athugaverð gagnrýni sem snýr að því að Bjarni sé með einhversskonar trúvörn fyrir Þjóðkirkjuna. Það vill nefnilega svo skemmtilega til að alla önnina sat ég og velti því fyrir mér í hvaða trúfélagi Bjarni væri eigilega í, ef einhverju, því ég var sannfærð um að hann gæti allavega ekki verið í Þjóðkirkjunni. Líklega var það vegna þess hve gagnrýninn kennari Bjarni er. Aldrei komst ég að neinni niðurstöðu, og ekki spurði ég hann, en þóttist ég nú aldeilis viss að hann væri allavega ekki kristinn og líklega guðleysingi eins og ég!

Sami nemandi lýsti glærunotkun í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar:

 Bjarni er einn af þeim fjölmörgu kennurum sem nota glærur mikið til hliðsjónar og raunar hefur oft komið til að ekki hefur náðst að fara í gegnum allar glærurnar í tíma hjá Bjarna þar sem hann er frekar langorður og mjög duglegur að svara spurningum nemanda. Það má alveg geta þess að Bjarni eins og margir kennarar sem ég hef haft getur stundum talað á bilinu 5-35 mínútur á meðan ein og sama glæran er fyrir aftan hann, og farið um víðan völl án þess að viðkomandi glæra sé endilega einhver samantekt á því sem hann er að kenna hverju sinni. Auðvitað eru oft svoleiðis glærur inn á milli, ekki síst þegar kemur að kenningum og fræðilegum hugtökum og skilgreiningum sem þarfnast stuttrar hnitmiðaðrar útskýringar. Það eru ekki allir kennarar sem mata nemendur með þurri samantekt af fyrirlestrinum sem fólk ætti að geta hlustað á. Bjarni er einmitt einn þeirra sem hafa glærur sem eru ekki endilega með meginatriðum, heldur kannski bara til þess að benda á eitthvað áhugavert, eða t.d. myndir, bókarkápur eða eitthvað sem kann að vera til vitnis um það sem fjallað er um, eða jafnvel glærur sem innihalda alger aukaatriði, annað hvort á undan langri ræðu eða á eftir. Því má segja að ég skilji áhyggjur Vantrúar varðandi þetta því ég sé hvernig sumar glærurnar geta virst utanaðkomandi aðila sem ekki sat námskeiðið skringilegar. En það ætti vonandi nú að vera orðið ljóst að það að skoða glærurnar sem koma fram í tímum er ekki besta leiðin til þess að komast að því hvað fram fór í tímum. Að skoða glærurnar eru [svo] þannig í raun svipað eins og að lesa bók og skoða bara myndirnar.

 


Tíu háskólakennarar skrifuðu greinargerðir sem tengdust kærum Vantrúar gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni, í september og október 2010. Þær voru afhentar siðanefnd HÍ þann 7. desember 2010. Í þessum greinargerðum reyndu háskólakennarnir að meta hvort hin kærðu atriði ættu við rök að styðjast, þ.e.a.s. hvort eitthvað væri athugavert við þessar glærur og kennslu í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar. Auðvitað kynntu háskólakennararnir sér einnig í hvaða samhengi glærurnar voru notaðar. Niðurstaða allra er að kæra Vantrúar sé byggð á vanþekkingu og misskilningi, að glærurnar passi ágætlega inn í kennsluefnið og hvorki glærur né kennsluefni brjóti gegn siðareglum Háskóla Íslands. Þeir sem finna að glærunum nefna að þær séu full margar og of mikið efni á þeim sumum, til dæmis að Bjarni Randver hefði mátt stytta tilvitnanir að mun. Skýrt er tekið fram að gagnrýnin „of margar glærur og of mikið efni“ lúti að kennslufræði, kæra Vantrúar hafi ekki snúist um kennslufræði og auk þess séu úrskurðir um kennslufræðilegar aðferðir ekki á könnu siðanefndar Háskóla Íslands.Hér verður gripið niður í nokkrar klausur í örfáum greinargerðum háskólakennaranna en enginn vegur er að gera grein fyrir öllu sem í þeim kemur fram eða vitna í allar greinargerðir. Það er líka óþarfi því í þeim kemur yfirleitt fram hið sama þótt hver skrifi óháð öðrum. Menn nefna gjarna í greinargerðunum hvað felst í akademískum vinnubrögðum og rökstyðja að slík vinnubrögð séu æskileg í háskólakennslu (alveg eins og nemendur gera, t.d. þessi sem spurði hvort ætti að fórna akademískum vinnubrögðum fyrir pópúlisma).

 Af gögnum þeim sem Bjarni Randver leggur fram má ráða að hann er einkar samviskusamur kennari. Hann horfist í augu við að hann hefur sérhæft sig í efni sem menn hafa afar skiptar skoðanir á og leitast við að vinna í samræmi við það. Hann setur viðfangsefnið í sögulegt og félagslegt samhengi; vísar nemendum á margvíslegt fræðiefni og kynnir ekki aðeins þær kenningar og þau hugtök sem hann nýtir frekast heldur greinir frá gagnrýni á hvorttveggja. Þar með sinnir hann einni meginskyldu hákólakennara: Hann skapar í upphafi námskeiðs grundvöll sem nemendur geta unnið á – burtséð frá þeirri leið sem hann velur sjálfur að fara í kennslunni – og ýtir undir að þeir tileinki sér námsefnið sem sjálfstæðar, hugsandi og gagnrýnar manneskjur. Til fyrirmyndar má kallast að þessu fylgir hann eftir í lok námskeiðs þegar hann vekur nemendur með formlegu bréfi sérstaklega til umhugsunar um hlutlægni og bendir á að „félagslegur bakgrunnur […], umhverfi og skoðanir setja óhjákvæmilega mark sitt á framsetningu […] og áherslur“ manna (Svar við kæru Vantrúar, bls. 19). Eftirtektarvert er að í kæru Vantrúar er hvergi vikið að grundvelli námskeiðsins og þeim ramma sem því er settur heldur einvörðungu fjallað um glæruhópa og stakar glærur.

 Glærur Bjarna vitna meðal annars um hve einlægan áhuga hann hefur á viðfangsefni sínu, hversu miklu efni hann hefur safnað og hve óspart hann miðlar þekkingu sinni til nemenda. Á mörgum glæranna er greining á atriðum sem hann hefur fyrr vikið að – t.d. dæmastiklur um viss einkenni á verkum ákveðinna manna/hreyfinga eða tengsl hugmynda tiltekinna manna – og því eru þær harla fánýtt umræðuefni séu þær slitnar úr samhengi eins og gert er í kæru Vantrúar. En þar eð kæran byggist ekki síst á túlkun á glærum slitnum úr samhengi er vert að taka dæmi um hvernig túlkunin er:

 [- - -]

 […] Vantrú vekur sérstaka athygli á ákveðnum glærum t.d. þeirri sem heitir Orðbragð. Á henni setur Bjarni upp lista yfir orð sem ýmsir vantrúarfélagar hafa notað um þá sem þeir hafa litlar mætur á. Vantrúarmenn telja þetta vera „lista af dónaskap“ sem Bjarni hafi „dundað sér við að safna“ […], og finna að því að orðin séu slitin úr samhengi. Aftur er höfðað til tepruskapar lesenda og í sömu mund reynt að draga upp mynd af Bjarna sem manni er unir sér við „dónaskap“. Þegar menn fást við að greina orðræðu er það nauðaalgengt að þeir dragi fram ákveðin einkenni hennar, hvort sem það eru sértæk lýsingarorð, samtengingar af ákveðnu tagi, stóryrði eða útdráttur. Athugasemd Vantrúarmanna er því gagnrýni á hversdagsvinnubrögð við textagreiningu – svo ekki sé minnst á hve ósannfærandi það er að þeir telja „óhæfu að birta svona lista án samhengis“ […]  – í sömu mund og kæra þeirra byggir á efni slitnu úr samhengi.
 [- - -]
 Vantrúarmenn gagnrýna Bjarna Randver einkum fyrir beinar tilvitnanir sem hann tekur og þeir telja m.a. að ættu að vera aðrar en þær eru eða þeir geta sér til um að hann setji í þetta eða hitt samhengið – sem þeim líkar ekki. Eftir að hafa lesið svar Bjarna kemst ég sem trúleysingi að annarri niðurstöðu en Vantrú. Mér finnst Bjarni hafa lagt mér í hendur kenningar, skilgreiningar og hugtök sem ég get farið í samræðu við og dregið af þær ályktanir sem mér og trúleysi mínu henta. Og einmitt þannig á háskólakennari að standa að verki. Eins og ég vék að fyrr, þarf hann að gera viðfangsefni sínu þau skil að aðrir geti nýtt sér það á annan veg en hann; þá gerir hann sitt til að kveikja nýjar hugmyndir og nýja sýn.

 Ég fæ í stystu máli ekki betur séð en Bjarni Randver sé grandvar kennari sem hafi vandað sig mjög við kennslu sína og eigi síst af öllu skilið áminningu fyrir hana.
 

 (Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, prófessor í íslenskum bókmenntum Íslensku- og menningardeild, Háskóla Íslands.)

Í sama streng tekur annar kennari og vísar sérstaklega í gagnrýni félagsins Vantrúar sem kemur fram í kæru félagsins til siðanefndar HÍ og fleiri aðila:

 Málatilbúnaður þessi vekur nokkra furðu, svo ekki sé minna sagt, og virðist kærandi ekki gera sér alveg ljóst hvað opinbert rými er og hvað opinber umræða felur í sér. Ekkert siðleysi getur falist í því að taka til umræðu opinber skrif félagsmanna eða annarra um trúmál þótt ekki séu þau birt á vef félagsins eingöngu. Ef forsvarmaður félags tjáir sig um meginmarkmið þess á öðrum vettvangi, t.d. í blaðagrein, á bloggsíðu eða tímariti, þá telst það til opinberrar umræðu og það væri meira en umtalsverð skerðing á rannsóknarfrelsi fræðimanna og háskóla yfirleitt að mega ekki taka það til umfjöllunar í fræðum sínum og kennslu. Hlutverk fræðimanna og háskóla er m.a. að greina slíka hluti í opinberri umræðu.

 Gagnrýnin er einnig afar mótsagnakennd, þar sem gefið er í skyn að upplýsingar um félagsskapinn séu slitnar úr samhengi, en um leið er kæruefnið nokkrar glærur úr kennsluefni heils námskeiðs, án nokkurs frekara samhengis, hvorki annarra glæra í námskeiðinu og það sem mikilvægara er, kennslunnar sjálfrar. Með þessum aðferðum mætti taka nokkra tilvitnanir fræðimanns í aðra og saka viðkomandi síðan um siðleysi fyrir að nota þær.
 [- - -]
 Ekki verður heldur ráðið af glærunum að um skrumskælingu sé að ræða, enda má sjá á greinargerð Bjarna Randvers að þá hefði hann haft úr verra efni frá forystumönnum Vantrúar að moða og sýnist mér lítil innistæða fyrir siðferðilegri vandlætingu þeirra.

 Sú athugasemd að Bjarni Randver hafi ekki „haft samband við Vantrú“ er í besta falli kjánaleg; fræðimenn vinna út frá þeim opinberu gögnum sem fyrir liggja en eru ekkert skyldir til að leita til einstaklinga til „útskýringar“ á þeim. Fræðimenn eru ekki dómarar í rétti sem fella einhverja lokadóma eftir vitnaleiðslu, heldur standa fyrir opinberri og gagnrýninni umræðu. Bókmenntafræðingar hringja til dæmis ekki í lifandi höfunda lon og don í þeim tilgangi að fá að vita hvað þeir voru að hugsa, heldur greina verkin sjálf sem þeir eru að rannsaka og þeir geta og eiga að skoða allt sem máli skiptir í því samhengi, einnig t.d. önnur skrif höfundar. Sama á við í mörgum greinum hug- og félagsvísinda.
 [ - - -]
 Eftir nákvæma skoðun á glærunum öllum fæ ég engan veginn séð að hægt sé að túlka þær á nokkurn hátt sem siðlausar. Sá samanburður sem þar er gerður er fullkomlega réttlætanlegur og í fullu samræmi við vísindalegar aðferðir. Sem menntaður þýðinga- og menningarfélagsfræðingur get ég fullyrt að greiningin á mismuninum á trú- og guðleysi og þau þýðingavandamál sem fylgja orðinu atheism eru mjög athyglisverð.
 [- - -]
 Hvar sem litið er á þetta mál ber allt að sama brunni. Það virðist sem svo að Vantrúarmenn, sem vissulega mega  gagnrýna Þjóðkirkjuna og Háskóla Íslands hart, hafi kosið að ráðast að einum einstaklingi sem vogaði sér að skoða aðferðir þeirra í fræðilegu samhengi. Kannski er það til að koma höggi á stofnanirnar. Hvort sem það er rétt eða ekki, er enginn vafi í mínum huga að kæra þessi er algjörlega tilefnislaus og órökstudd. Það sem verra er, hún er aðför að rannsóknarfrelsi fræðimanna sem er þeim nákvæmlega jafn dýrmætt og málfrelsið.

 (Gauti Kristmannsson, dr. phil., dósent í þýðingafræði við Háskóla Íslands.)
 

Um glærugerðina sérstaklega segir hér í enn einni greinargerðinni:
 

 Glærugerð Bjarna er þó mjög einföld. Hann nýtir eitt af algengari skapalónum glæruforritsins sem gefur efninu ofurlítið hversdagslegt yfirbragð. Hann nýtir myndefni eða grafík hvergi þannig að halda megi því fram að framsetningin feli á einhvern hátt í sér skrumskælingu eða fordæmingu. Myndir eru birtar á lóðréttum eða láréttum röðum eftir því sem forritið leyfir og texti ýmist inni í þar til gerðum gluggum eða sem myndir sem kóperaðar eru inn í forritið. Textar eru ekki birtir í heild, þó að Bjarni hafi tilhneigingu til að setja of mikinn texta og of miklar upplýsingar á hverja glæru. Það mætti jafnvel benda á að glærurnar séu alltof margar og alltof efnismiklar. En það er kennslufræðileg athugasemd hefur ekkert með kæruna að gera og er raunar í andstöðu við hana.
 [- - -]
 Kærendur virðast því í raun ætlast til þess af honum að hann líti framhjá öllu því efni sem þeim finnst að kunni að skaða málstað þeirra. Augljóslega væri hann hinsvegar að bregðast nemendum sínum ef slík sjónarmið stjórnuðu vali hans á tilvitnunum og textum. Mér virðist miklu nærtækara að gagnrýna Bjarna fyrir að vinsa of lítið úr, taka of mikið efni til umfjöllunar í tíma frekar en hitt að hann velji úr því á óeðlilegan hátt. En það er, sem fyrr segir, kennslufræðileg athugasemd, ekki ásökun um misferli eða siðferðilega ámælisvert athæfi.

 (Jón Ólafsson, prófessor og forseti félagsvísindadeildar Háskólans á Bifröst)

 


   Ég ítreka að í greinargerðum háskólakennara koma fram sömu aðalatriði, þ.e.a.s. að kennarinn er ákaflega vel að sér um efnið, að glærurnar séu í fullu samræmi við efnistök í námskeiðinu, að efni námskeiðsins sé afar áhugavert og stundum er látið að því liggja að kæra félagsins Vantrúar „virðist borin fram af umhyggju fyrir einhverju öðru en heiðri akademíunnar“ (eins og Sigurður Pálsson guðfræðingur og dr. í menntunarfræði orðaði svo).

Mér fannst mjög gaman að lesa í gegnum þessar greinargerðir ýmissa háskólakennara úr ólíkum deildum og nemenda sem sátu undir þessari „kærðu“ kennslu. Kannski var sérstaklega áhugavert að sjá að þetta fólk virtist hafa komist að nákvæmlega sömu niðurstöðu og ég gerði sjálf, þá nýbyrjuð að skoða málið og blogga um það. Niðurstöðu mína þá byggði ég nær eingöngu á eigin reynslu sem framhaldsskólakennari og nemandi í til nokkuð langs tíma í þeirri deild sem nú heitir íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands, auk þess sem ég las Svar við kæru Vantrúar. Greinargerð lögð fyrir siðanefnd HÍ 2010, óopinbert skjal í vinnslu eftir Bjarna Randver Sigurðsson, til að glöggva mig á samhengi einstakra glæra við kennsluna og námskeiðið. Ég las ekki þessar greinargerðir nemenda og kennara fyrr en í gær.

 

 

29 ummæli við “Hvað sögðu nemendur og kennarar um kennslu og glærur Bjarna Randvers?”

 1. Jóhann Sigurfinnur B ritar:

  Nú held ég að þú farir framúr þér , Harpa.

  Og gerir þig seka um ofhvörf.

  Ég er sammála þér í því að þessi atlaga Vantrúarmanna hafi gersamlega geigað.
  Þetta vita þeir sjálfir.
  Það má m.a. lesa úr undraverðri þögn leiðtoganna.
  Satt að segja vorkenni ég Mattíasi að standa í þessu volki.

  Öðru fremur stafa misktök þeirra í því að þeir ætluðu sig handhafa sannleika. Og þeir trúðu því sjálfir.

  En það er ekki minnsta ástæða til að hefja Bjarna Randver upp til skýjanna.
  Þetta virðist mér vera maður sem bíður eftir því að Jésús komi af himnum til að dæma lifendur og dauða.

  Varla ertu sammála slíkum fabúleringum, þó þú hafir gengið til liðs við Þjóðkirkjuna að nýju?

  Samtök eins og Vantrú geta haft mikilvægu hlutverki að gegna; nefnilega því að efast.

  En þegar þau eru farin að efast sameiginlega í hjarðmennsku, þá er leiðin greið til STASI.

  Á endanum verða slík samtök viðsnúnir Jésúhopparar.

  QED

 2. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Só sorrí, Jóhann, en greinargerðirnar eru allar á einn veg. Ég get ekki breytt þeim. Ég tíni meira að segja sérstaklega út þær örfáu klausur þar sem fundið var að einhverju, sem var aðallega að það væru of margar glærur og of mikið efni á hverri.

  Við Bjarni Randver höfum aldrei hist. En mér finnst afar fátt benda til að hann sé maður sem “bíður eftir því að Jésús komi af himnum til að dæma lifendur og dauða.” Satt best að segja hef ég ekkert séð eftir hann þar sem Jésús er yfirleitt nefndur á nafn, hvað þá faðir Jésúsar (hvor sem það nú var).

  Þetta var nauðsynleg færsla inn á milli, þ.e. áður en ég fer að fjalla um siðanefndina. Allt upp á samhengið, skilurðu, ekki vill maður styggja fólk sem er mjög samhengissinnað.

  Af því greinargerðirnar eru svona samhljóða varð þetta auðvitað frekar “leim” færsla. (Voru þær þó skrifaðar hver í sínu horni, jafnvel í ólíkum löndum.) Aftur á móti gæti umfjöllun um siðanefndarstörfin orðið soldið spennandi, a.m.k. álít ég að það sé spennandi að glöggva sig á því efni. Það er miklu áhugaverðara að velta fyrir sér af hverju siðanefnd HÍ kaus að afgreiða þessa kæru sem alvörukæru og lagði æ meir undir í sínum störfum, sem urðu æ undarlegri. Miklu meira spennandi en félagið Vantrú eða kæran þeirra, finnst mér.

 3. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Ég vorkenni Matthíasi ekki tiltakanlega. Eftir talsverðan lestur á Örvitanum sýnist mér að Matthíasi finnist hlutverk píslarvottar eftirsóknarvert og uni sér prýðilega í því hlutverki. Svo hann ætti einmitt að vera ánægður núna. (Og ég veðja tíu á móti einum að hann kóperar þessa athugasemd inn á Örvitann til að sýna hvað ég er vond, sturluð og illa innrætt kona. Viltu veðja, Jóhann?) ;)

 4. Jóhann Sigurfinnur B ritar:

  Tja, ég heiti Jóhann. Ekki Jóhannes. En það má einu gilda.

  Það þarf ekkert mikið gúgl til að sjá að margtéður Bjarni er innmúraður í kristnu dogma.

  Það má líka einu gilda.

  Enda snýst þetta má alls ekki um trúarskoðanir.

  Það snýst um háttvísi, og mennsku.

 5. Jóhann Sigurfinnur B ritar:

  mál*

 6. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Úbbs … kvöldlesblindan (H.F.F.!) Laga þetta og fyrirgefðu Jóhann.

 7. Helgi Ingólfsson ritar:

  Sæl og blessð, Harpa.

  Kærar þakkir fyrir mergjaðar (og jafnvel á köflum hrollvekjandi) greinar. Ekki verður vart við að ábyrgir málsvarar frá félaginu Vantrú geri mikið til að hrekja staðhæfingar þínar.

  Núna, þegar þú ert komin nær lokum á umfjöllun þinni og skilur sennilega betur en nokkur annar þetta undarlega og flókna mál, með hvaða orðum mundirðu þá helst lýsa framgöngu félagsins Vantrúar í málinu frá upphafi: Sem eðlilegu kæruferli, aðför, einelti eða einhverju öðru?
  —–

  Jóhann (aths. 1): Ég er þér hjartanlega sammála (og ég held að flestir þenkjandi Íslendingar séu það) um að nauðsyn sé á tilvist samtaka um efann. Hins vegar tel ég að slík samtök verði að starfa innan marka almennrar skynsemi, auk þess sem ég fæ ekki séð að félagið Vantrú hafi farið fram með miklum efa í því máli sem hér um ræðir. Þá hefði félagið sennilega farið hægar í sakirnar og komið athugasemdum sínum á framfæri eftir hógværari leiðum.

 8. Andrés B. Böðvarsson ritar:

  Þetta er afar mikilvæg grein, sérstaklega greinagerðir „brotaþolanna“, þ.e. nemendanna - enda má ætla að „siðlaus“ kennsla, eins og Vantrú sakar Bjarna um, hlýtur fyrst og fremst að bitna á nemendunum. Annað hvort þýða þessar greinargerðir að Bjarni hafi framið hinn fullkomna akademíska glæp: Fóðrað nemendur sína, trúaða sem trúlausa, á ranghugmyndum um efnið en á sama tíma sannfært þá um að hann hafi hvatt til og byggt á gagnrýnni hugsun; eða að Bjarni er ýmist alsaklaus af ásökunum Vantrúar eða aðeins „sekur“ um eitthvað sem ekki er saknæmt.

  Jóhann: Mér finnst leiðinleg þessi árátta að finna fólki það til hnjóðs að vera annarrar skoðunar en maður sjálfur um almættið, eða skort á því. Kristna menn hefur, því miður mátt saka um það gegnum aldirnar, og má að töluverðu leyti enn; en herskáir guðleysingjar hafa með glöðu geði bætt sér í þann hóp. Ég vona a.m.k. að Harpa tilheyri ekki þeim hópi. Sé Bjarni Randver hafinn upp til skýjanna í þessari grein þá er það ekki fyrir trú hans (nema þá hvað hann virðist góður í að fela hana) heldur fyrir framúrskarandi akademísk vinnubrögð - en gæði þeirra þurfa ekki að skerðast þó maður trúi á Jahve, Jesús, Xenu eða Seif.

 9. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Ég verð því miður að hryggja menn með því að þótt ég sé gengin í þjóðkirkjuna er ég enn frekar skoðanalaus um trú, sérstaklega trú annarra, finnst hún ekki beinlínis koma mér við. Einu málin sem ég get virkilega einhent mér í að rífast um eru skólamál ;) Það er alltaf jafn gaman að taka góða rispu um þau.

  Helgi: Ég get a.m.k. staðhæft að framganga Vantrúar í þessu máli var ekki eðlilegt kæruferli eða kvörtunarferli. Læt lesendum eftir að túlka og nefna það þegar hópur fólks ræðst á öllum tiltækum vígstöðvum fram gegn einum manni.

  Siðanefndarmálin eru flókin og ekki víst nema þurfi nokkrar bloggfærslur um þau. Skýrsla óháðu nefndarinnar er náttúrlega ómetanlegt plagg en útskýrir samt ekki AF HVERJU siðanefnd tók þessa kæru fyrir sem alvöru kæru og AF HVERJU siðanefnd kaus að brjóta eigin starfsreglur og AF HVERJU sömu mennirnir (Þórður og Þorsteinn) voru skipaðir aftur í siðanefnd HÍ þrátt fyrir þetta klúður í formannstíð Þórðar og AF HVERJU Ingvari ad hoc formanni og hans aukaliði datt í hug ýmis vitleysa o.s.fr. Mig langar að skoða þær hliðar betur.

 10. Sveinn Þórhallsson ritar:

  3 athugsemdir:

  Við höfum ekki fengið að sjá prófaúrlausnir og einkunnagjöf, sem eru þó þrátt fyrir allt betri heimild um skilning og skoðanir þeirra sem og BRS sjálfs á efninu en greinargerðir sem kallað er eftir mánuðum saman eftir kúrsinn.

  Það er staðreynd að a.m.k. einn fyrrum nemandi BRS hafi farið um netið með ranga og afar neikvæða mynd af félaginu Vantrú sem er svo til samhljóma kennsluefni hans.

  A.m.k. einn títtnefndra háskólamanna hefur viðurkennt í viðtali að hann hafði ekki kynnt sér málið áður en hann skrifaði undir þennan lista. Sá hinn sami fullyrti síðan að hann þyrfti ekki að gera það - á honum mátti skilja að hið margnefnda “akademíska frelsi” væri ótakmarkað; því fylgdi engin ábyrgð og engar kröfur.

 11. Helgi Ingólfsson ritar:

  Sveinn Þórhallsson (aths. 10):

  1) Hvers vegna talar þú í fleirtölu og segir “við”? Þú hefur lagt áherslu á það áður að þú sért ekki félagi í félaginu Vantrú. Hvernig er þér þá málið skylt? Hvers vegna koma ekki fram einhverjir ábyrgir fulltrúar félagsins til að ræða málin?

  1b) Þú segir: “Við höfum ekki fengið að sjá prófaúrlausnir og einkunnagjöf…” Hvað getur mögulega réttlætt að félagsskapur úti í bæ fái að sjá prófúrlausnir og einkunnagjöf við Háskóla Íslands? Slíkt gæti aldrei verið skoðað nema innan háskólans sjálfs, enda um trúnaðarupplýsingar að ræða.

  2) Er útilokað að ónafngreindur nemandi, sem þú vitnar í, hafi komist að sjálfstæðri niðurstöðu um Vantrú eftir að hafa kynnt sér félagið upp á eigin spýtur? Og hvað þýðir “að fara um netið”? Skrifaði viðkomandi fjöldapóst um efnið? Skrifaði viðkomandi bloggfærslur á mörgum vígstöðvum? Gerði viðkomandi athugasemd(-ir) eingöngu inni á tiltölulega afmörkuðu vefsvæði?

  3) Hver umræddra 10 háskólamanna á ekki að hafa kynnt sér málið? Sýnist þér á orðum þeirra þriggja háskólamanna, sem vitnað er til hér að ofan, að þeir hafi ekki kynnt sér málið?

 12. Andrés B. Böðvarsson ritar:

  Það er svolítið erfitt, Sveinn, að meta réttmæti athugasemda þinna nema að fá nöfn þeirra sem þú talar um eða a.m.k. einhverja vísun í heimildir.

  Eru prófúrlausnir í HÍ ekki almennt séð trúnaðarmál? Sé svo þá er það skiljanlegt að Bjarni hafi ekki verið hrifinn af því að koma með þær fram fyrir Siðanefnd sem hann taldi vanhæfa - og raunar spurning hvort hann hefði ekki þurft að fá leyfi hvers og eins nemanda fyrir afhendingu úrlausna.

  Vissulega geta prófúrlausnir verið góð heimild um skilning og skoðanir nemenda á því tiltekna efni sem spurt er um. Raunar veit ég ekki hvernig spurningin hljóðaði þannig að það er erfitt að meta hvort spurningin sé góð heimild um kennsluna um Vantrú í heild sinni eða ekki. Hvað geta prófúrlausnirnar svo sagt umfram umsagnir nemenda? Úrlausnirnar geta sagt heilmikið um skoðanir viðkomandi nemanda á Vantrú, en segja manni ekki endilega hvort þær skoðanir byggist á kennslunni eða fyrirfram mótuðum skoðunum nemandans. Komi fram fordómar í svari nemandans þá er illa hægt að segja til um það hvort þeir séu upprunnir frá kennaranum eða nemandanum sjálfum. Umsagnir nemenda hljóta að gefa betri mynd af kennslunni sjálfri jafnvel þó margir mánuðir hafi liðið á milli kennslu og umsagnar. Hlutdræg kennsla er eitthvað sem ekki ætti að fara fram hjá neinum háskólanemanda enda er gagnrýnin hugsun eitthvað sem allar deildir HÍ leggja, eða ættu að leggja áherslu á. Samkvæmt minni reynslu eru gagnrýniverð atriði í kennslu ekki eitthvað sem gleymist fljótt. Samhljómurinn sem er að finna í umsögnum nemenda um kennslu Bjarna, auk þeirrar staðreyndar að enginn úr nemendahópnum hefur enn komið fram sem tekur undir sjónarmið Vantrúar, bendir sterklega til þess að lítið sem ekkert sé hæft í ásökunum Vantrúar.

  Það að einhver fyrrum nemandi Bjarna hafi ranga mynd af Vantrú segir ekkert um kennsluna. Gagnrýnin hugsun er engin trygging fyrir því að maður komist að réttri niðurstöðu. Að auki tryggja kröfur um gagnrýna hugsun, og umfjöllun um og þjálfun í gagnrýninni hugsun, ekki að henni sé beitt. Nemandinn gæti hæglega hafa myndað sér sína röngu skoðun sjálfstætt, fyrir eða eftir kennslu Bjarna.

 13. Sveinn Þórhallsson ritar:

  Helgi:

  1. a) - Óheppilega orðað (ég átti að vísu við okkur hér, ekki okkur Vantrú) - síðast þegar ég nefndi þetta sagði ég að Siðanefnd hafði verið neitað um þessar upplýsingar og því stendur þessi gagnrýni enn.

  1. b) - Sem fyrr sagði fékk Siðanefnd ekki þessar upplýsingar.

  2. Það er svo til útilokað já, þar sem skilningur viðkomandi var, sem fyrr segir, nánast samhljóða því sem svo birtist í kennsluefni BRS. Þó hann hafi ekki skrifað fjöldapóst eða hvað það nú er sem þér finnst uppfylla það að “fara um netið” þá er gagnrýnin samt sem áður sú að viðkomandi hafði skakka mynd af félaginu sökum kennslu BRS.

  3. Ég tek þetta aftur, ég hoppaði yfir þennan hluta og hélt að um aðra háskólamenn væri að ræða (þ.e. þessa 109 sem skrifuðu grein í Fréttablaðið á sínum tíma).

 14. Sveinn Þórhallsson ritar:

  Andrés

  Prófaúrlausnir og einkunnagjöf og/eða umsögn BRS um viðkomandi svör eru ekki bara góð heimild um skilning og skoðanir nemandans (og þar með upp að vissu marki hversu vel viðkomandi kennari kom efninu til skila, sérstaklega ef svörin eru lík) heldur líka um skilning og skoðun kennarans.

  Segjum t.d. að nemandi svaraði 30 stiga spurningu á þá leið að í Vantrú séu kjaftforir dónar sem vilja ekkert frekar en að troða sínum skoðunum upp á aðra, banna aðrar skoðanir og tekst að tengja félagið við allskonar hatursboðskap. Okei það segir okkur ekki mikið. Kannski var kennslan svona full af fordómum. Kannski tók þessi nemandi ekki nógu vel eftir. Kannski var hann fjarstaddur kennslustundina og þurfti að sætta sig við að skoða aðeins glærurnar fyrir próf.

  Segjum að fleiri nemendur svari í þessum dúr. Þá fara spjótin svolítið að beinast að kennaranum. Eitthvað í kennslunni hlýtur að hafa haft þessi áhrif. Hvort sem það er vegna slæmrar kennslu eða skoðana kennarans er erfitt að segja.

  Segjum svo að lokum að kennarinn gefi slíkum svörum 26-28 stig. Það hlýtur jú að segja eitthvað um skoðanir og skilning hans, ekki satt?

  Að sama skapi myndi það líka segja eitthvað um skoðanir og skilning hans ef hann gæfi slíkum svörum falleinkunn. Jafnvel þó margir nemendur hefðu svarað í þessum dúr væri þá í besta falli hægt að saka hann um að hafa ekki komið því vel til skila sem hann vildi - en ekki um þessa sömu fordóma.

 15. Þorvaldur Sigurðsson ritar:

  Almennt séð er þessi umræða um prófúrlausnir á villigötum. Prófúrlausnir eru algert trúnaðarmál, sem enginn má hnýsast í hversu forvitnilegar sem þær kunna að virðast og þá alls ekki einhver félagsskapur úti í bæ. Sé nemandi óánægður með mat kennara á úrlausninni hefur hann almennt rétt til að fá hana endurmetna af prófdómara og gilda um þetta ýmsar reglur. Að liðnum hæfilegum tíma, í framhaldsskólum eftir eitt ár, er úrlausnunum síðan eytt.
  Hins vegar sé ég ekki hvernig ætti að nota prófúrlausnir sem sönnunargögn í málum almennt. Einu tilvikin sem virðast heimila skoðun utanaðkomandi aðila er, eins og fram er komið, sé stúdent óánægður með endurgjöf, og þá skoðar prófdómari og enginn annar prófið og metur það að nýju, og ekki hefi ég séð því haldið fram í þessu máli. Ergo; sagen slut.
  Kv Lyftustjórinn

 16. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Tek undir orð Þorvaldar Sigurðssonar o.fl.: Prófúrlausnir eru trúnaðarmál. Má ætla að einhverjir nemendur hefðu kært siðanefnd HÍ til Persónuverndar hefði siðanefndin fengið úrlausnirnar í hendur. Í rauninni er óskiljanlegt að siðanefnd skuli hafa dottið í hug að fara fram á þetta, sérstaklega í ljósi þess að formaðurinn er prófessor á Menntavísindasviði og tveimur fulltrúum hafði verið bætt í siðanefndina, sem sinna menntun kennara og ættu því að vita eitthvað pínulítið um hvaða lög gilda um t.d. prófúrlausnir.

  Sveinn Þórhallsson hefur misskilið færsluna. Í henni er ég að tala um greinargerðir 10 kennara, misítarlegar, frá rúmlega einni síðu upp í fjórar-fimm síður. Raunar skrifuðu ellefu kennarar greinargerð en ég sleppti þeirri sem barst síðar en hinar. Í henni kemur það sama fram og í þessum sem ég vitna í. Allir þessir kennarar taka fram að þeir hafi lesið kæru Vantrúar, skoðað glærurnar og lesið Greinargerð Bjarna Randvers.

  Sveinn er að vísa til ýmissa undirskriftalista til stuðnings Bjarna Randveri. Þeir eru nokkrir. Ég minnist e.t.v. á þá síðar, í tengslum við umfjöllun um siðanefnd.

  Hvort sem siðanefnd hefði fengið eða ekki fengið prófúrlausnir nemenda værum “við” engu nær því þær hefðu örugglega verið alger trúnaðargögn. Siðanefnd fékk eintak af prófinu, frá Bjarna Randver, og óopinber gögn eins og kennslukönnun sem nemendur höfðu svarað í desember, áður en kærur Vantrúar voru afhentar siðanefnd og tveimur öðrum aðilum innan HÍ. Þannig að siðanefnd hafði nægar forsendur til að meta kennslu og námsmat og þurfti aldrei prófúrlausnir nemenda til þess.

  Hefði einhver nemandi verið ósáttur við mat á sínu prófi hefði verið í lófa lagið að leita til umsjónarmanns námskeiðsins, Péturs Péturssonar deildarforseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og biðja um endurmat. Bjarni Randver var stundakennari og þess vegna bar annar aðili ábyrgð á umsjón með námskeiðinu. Mér vitanlega gerði enginn nemandi athugasemd við neitt.

  Raunar er einnig á huldu hvaða gögn siðanefndar teljast opinber, t.d. samþykktar fundargerðir. Skv. upplýsingum sem ég fékk í dag telst siðanefnd ekki hafa lokið málinu af því hún tók það aldrei til efnislegrar meðferðar (og þá er náttúrlega spurning um hvað siðanefnd var að dúlla sér við í þessi rúmu tvö ár, á mörgum fundum); málinu telst samt lokið hjá siðanefnd af því Vantrú dró kæruna til siðanefndar til baka; málinu telst ekki lokið af því háskólayfirvöld, sem í skýrslu óháðu nefndarinnar eru skilgreind sem Háskólaráð og rektor HÍ, hafa ekki svarað kæru Vantrúar formlega; af því rektor HÍ vísaði kærunni sem henni barst til siðanefndar hefur siðanefnd ekki lokið málinu fyrir hönd rektors HÍ.

  Fáið þið eitthvert vit í þetta?

 17. Jóhann Sigurfinnur B ritar:

  Tja, mér virðist þessu máli líða líkt og ketti Schrödingers…

  :)

 18. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Kötturinn sem er bæði dauður og ekki dauður? Já, staða þessa máls hjá siðanefnd HÍ er óneitanlega svolítið svipuð ;)

 19. Sveinn Þórhallsson ritar:

  Ég misskildi ekki færsluna, ég las ekki þennan hluta hennar - ábending mín átti ekki við og því dró ég hana til baka.

  Það sem ég hef sagt um prófaúrlausnir stendur hins vegar.

 20. Þorvaldur Sigurðsson ritar:

  Sveinn! Það skiptir engu máli hversu yfirferð og skoðun utanaðkomandi aðila á prófúrlausnum væri upplýsandi, og vitaskuld hefurðu nokkuð til þíns máls um það, til slíks gæti aldrei komið. Ekki vegna þess að einhver teldi sig hafa eitthvað að fela heldur vegna þess að þetta er einfaldlega trúnaðarmál.

 21. Jóhann Sigurfinnur B ritar:

  Sveinn skrifar: “Það sem ég hef sagt um prófaúrlausnir stendur hins vegar. ” Sem er furðulegt.
  Svo ég vitni í einn þingmann, þá ertu að stinga höfðinu í steininn, Sveinn.

  En það er ánægjulegt að sjá nokkurt lífsmark með þeim Vantrúarmönnum, sem hópast nú inná bloggsíður til varnar Snorra í Betel.
  Þar má m.a. sjá sjálfan Óla Gneista með merka fyrirspurn um erindi Biflíunnar til manna.

  Svona er nú tilveran skemmtileg.

  :)

 22. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Áhugavert að Óli Gneisti Sóleyjarson skuli sýna lífsmark í Vantrúarumræðu. Hann hefur nefnilega þagað þunnu hljóði síðan í desemberbyrjun og gengið í að hvítskúra bloggið sitt af vafasömum færslum. Ég á allt eins von á að hann afneiti Vantrú einhvern daginn …

  Þorvaldur: Ég leiðrétti ranga leiðréttingu mína á eftir :)

 23. Sveinn Þórhallsson ritar:

  Ég hef ekkert séð, hvorki í lögum né siðareglum HÍ, sem bannar það að siðanefnd HÍ fái gögn á borð við prófaúrlausnir og einkunnagjöf þegar hún fer fram á það. Þvert á móti gera starfsreglur hennar ráð fyrir að hún hafi óheftan aðgang að gögnum er varða kæruna í skjalasafni HÍ og skjalasöfnum einstakra deilda.

  Ef það er eitthvað sem bannar nefndinni það að sjá téð gögn, eins og margir halda hér fram, vil ég endilega sjá það.

 24. Þórður Ingvarsson ritar:

  Áhugavert að vita til þess hvað Harpa er dugleg að vakta alla í Vantrú. Ertu bara orðinn verri en STASI? Eða ætli þetta teljist móðgun gagnvart orðspori STASI?

  Og alls ekki gleyma að taka þessu alvarlega.

 25. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Sveinn: Ég ráðlegg þér að hringja í lögfræðing HÍ til að fá þetta á hreint. En í fljótu bragði hugsa ég að aðgangur að prófúrlausnum nemenda falli undir II. kafla laga um persónuvernd og skilyrði fyrir eyðingu slíkra gagna séu þau sem tiltekin eru í IV. kafla 26. grein. Það er erfitt að finna upplýsingar á vef HÍ, leitarmöguleikinn er nánast ónýtur (google site-leit virkar faktískt miklu betur) og ég er ekki lögfræðingur. En ég reikna með að fyrirmæli Mennta-og menningarmálaráðuneytisins í námskrá framhaldsskóla, um gagnaeyðingu prófúrlausna eftir eitt ár, byggist á þessum lögum og þau gilda þá auðvitað líka um háskóla og aðra skóla. Ef einhver mér lögfróðari skyldi vita nánari skil á þessu væri ágætt að fá ábendingu um slíkt.

  Hér eru Lög um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga.

 26. Sveinn Þórhallsson ritar:

  Var nógu langur tími liðinn fyrir þessi lög að eiga við þegar BRS neitaði siðanefnd um þessi gögn?

 27. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Já, Sveinn, lögin um persónuvernd eru frá því í maí 2000. En ég ítreka að ég held að HÍ og aðrir skólar verði að byggja á þeim, ég veit það ekki fyrir víst. Ég gáði í líka á vef HÍ og fann ekki snitti um þetta þar.

 28. Sveinn Þórhallsson ritar:

  Ég átti nú reyndar ekki við það, heldur annað sem þegar betur að er gáð á ekki við.

  Hins vegar veit ég ekki til þess að það að láta siðanefn í hendur téð gögn myndi á nokkurn hátt brjóta gegn lögum um persónuvernd. Ég ætla ekki að kanna það. Það er ykkar fullyrðing og ykkar að bakka það upp.

  Skv. starfsreglum Háskólans á siðanefnd að hafa óheftan aðgang að gögnum er varða kærur sem til hennar berast. BRS neitaði henni um það. Það er það sem ég sé. Það er ekki þar með sagt að téð gögn yrðu þá sjálfkrafa gerð opinber, í starfsreglunum er líka gert ráð fyrir trúnaði þar sem það á við og því fæ ég ekki séð, sem fyrr segir, hvernig það að afhenda nefndinni þessi gögn myndu brjóta gegn persónuverndarlögum.

  Enda var það ekki ástæðan sem BRS gaf fyrir neitun sinni. En það er verið að draga þetta fram núna sem einhvers konar afsökun - sem er ekkert annað en ad hoc skýring.

  Það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt að rekast á slíkt hér, enda hefur þessi umfjöllun þín öll verið á einn veg.

 29. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Sveinn: Ég mun fjalla um þessa beiðni siðanefndar um prófúrlausnir síðar, þegar ég fjalla um siðanefnd undir forsæti Ingvars Sigurgeirssonar. Þar munu koma fram upplýsingar um þessa spurningu á prófinu og forsendur fyrir að hafna ósk siðanefndar um aðgang að prófúrlausnum nemenda. Þetta er ekki veigamikið atriði í málinu öllu en af því þú hefur gert fjölda athugasemda sem varða þessa ósk siðanefndar og velt fyrir þér mikilvægi prófúrlausna í þessu máli tek ég það inn í umfjöllun síðar. Verð bara að biðja þig að sýna smá biðlund, mér vinnst hægt þessa dagana og þetta verður ekki í næstu færslu.