14. febrúar 2012

Fyrstu viðbrögð siðanefndar HÍ við kæru Vantrúar

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Vantrú afhenti kærur vegna glæra í námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar á haustönn 2009 til þriggja aðila innan Háskóla Íslands þann 4. febrúar 2010. Þar vó þyngst kæra Vantrúar til siðanefndar HÍ. Kærubréfin voru að miklu leyti samhljóða. Í bréfinu til siðanefndar HÍ er Bjarni Randver Sigurvinsson kennari beinlínis kærður fyrir:

* meðferð á tilvitnunum í félagsmenn, og uppsetningu [væntanlega á glærunum]; hvort tveggja taldi félagið Vantrú vera hreinan áróður og skrumskælingu á afstöðu félagsins og brot á siðareglum HÍ;

* siðlaust efnisval og efnistök. Má ætla af kærubréfinu að siðlausa efnisvalið sé m.a. að mati Vantrúar að aðaláherslan er lögð á persónuleg skrif félagsmanna Vantrúar en ekki greinar sem birst hafa á vantru.is;

* birtingu mynda af félagsmönnum án þess að geta myndhöfunda.

Annað í bréfinu sjálfu fellur ekki undir að vera beinar kærur en félagið Vantrú setur fram þá túlkun sína að umfjöllun um Vantrú hafi e.t.v. litast af tengslum kennarans við Þjóðkirkjuna; tekur fram að kennarinn hafi aldrei haft samband við félagið Vantrú og fer fram á að siðferði kennsluefnisins um Vantrú verði metið. (Í bréfinu til deildarstjóra guðfræði- og trúarbragðafræðideildar var ekki farið fram á þetta heldur að kennsluefnið og hæfni Bjarna Randvers sem kennara væri metið.) Jafnframt lýsir félagið Vantrú þeirri skoðun sinni að eigi guðfræði- og trúarbragðafræðideild að vera eittthvað annað en „guðfræðideild eða prestaskóli ríkiskirkjunnar“ sé „þörf á gagngerri endurskoðun þessa áfanga Bjarna Randvers.“ Vantrú lét fylgja afrit af nokkrum siðareglum HÍ, þar sem einstök orð eða setningar eru feitletaðar og sumt einnig undirstrikað. Fylgiskjöl voru glærur um Deista o.fl. og Vantrú, ásamt sömu greinargerð og fylgdi hinum kærunum. (Sjá má þessa greinargerð í bréfinu til deildarforseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar á vef Vantrúar.) Vantrú tengir hvergi klögumál um einstakar glærur í greinargerðinni við einstakar siðareglur HÍ. Kærubréf Vantrúar til siðanefndar HÍ er birt í heild neðst í þessari færslu.

Í siðanefnd sátu og höfðu setið frá 2007 þau Þórður Harðarson prófessor í læknisfræði, Þorsteinn Vilhjálmsson prófessor í eðlisfræði og Sigríður Þorgeirsdóttir prófessor í heimspeki. Þegar kæra Vantrúar var afhent þann 4. febrúar 2010 var formaður siðanefndar staddur erlendis en væntanlegur til landsins um miðjan mars. Ritari siðanefndar, Amalía Skúladóttir, sendi hinum tveimur fulltrúunum í siðanefnd tölvupóst þann 16. febrúar og fól þeim „að skoða málið fram að þeim tíma og hvernig á því skuli tekið með Jónatani Þórmundssyni.“ (Lögfræðingurinn Jónatan hefur líklega tekið þátt í umboði háskólarektors sem hafði vísað bréfi Vantrúar til sín til áfram til siðanefndar.) Fyrsti fundur siðanefndar um málið var síðar boðaður og skyldi hann haldinn þann 25. mars 2010. (Sjá Skýrslu óháðrar nefndar um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð. September 2011, s. 32. Hér eftir er vísað í þetta plagg sem Skýrslu óháðu nefndarinnar.)
 
 

Einleikur Þórðar Harðarsonar formanns siðanefndar Háskóla Íslands
 

Fyrir fyrsta fund siðanefndar hafði Þórður Harðarson formaður nefndarinnar þó einhent sér í þetta mál. Erfitt er að meta hvort hann gerði það með vitund og vilja hinna í siðanefndinni en samtal hans við Pétur Pétursson bendir til þess að hann hafi þá þegar rætt málin við þau Þorstein Vilhjálmsson og Sigríði Þorgeirsdóttur, a.m.k. lét Þórður í veðri vaka að hann deildi áliti siðanefndar, sem þó hafði ekki fundað um málið. Þann 18. mars 2010 hafði Þórður nefnilega samband við Hjalta Hugason prófessor við guðfræði- og trúarbragðadeild, sem Þórður hélt að væri deildarforseti en Hjalti var í leyfi. Hjalti lét Pétur Pétursson deildarforseta vita og Pétur hafði strax samband við Þórð. Þórður tilkynnti bæði Hjalta og Pétri að Bjarni Randver Sigurvinsson hefði verið kærður fyrir siðanefnd HÍ og að nefndin liti kæruna og meðfylgjandi glærur úr námskeiðinu Nýtrúarhreyfingar grafalvarlegum augum. (Bjarni Randver Sigurvinsson. Tímatafla í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (nr. 1/2010). Þetta er óopinbert skjal í vinnslu en ég hef leyfi Bjarna Randvers til að vitna í það. Hér eftir verður vitnað til þess sem Tímatöflu Bjarna Randvers.)

Um samtal þeirra Þórðar og Péturs segir Þórður að Pétur hafi þegið heimboð sitt til viðræðna um kæruna fáum dögum fyrir fyrsta fund siðanefndar. Þar hafi Þórður reifað möguleika á sáttum „eins og gert er ráð fyrir í 7. gr. starfsreglna siðanefndar.“ (Þórður Harðarson. Greinargerð í siðanefndarmáli. Morgunblaðið 8. desember 2011. Hér er krækt í greinina á vef Vantrúar þar sem þess er getið að Þórður hafi leyft birtingu greinargerðar sinnar.)

Þórður lætur þess ógetið í sinni greinargerð að skv. starfsreglum siðanefndar HÍ á nefndin fyrst að ákvarða hvort kæra heyri undir siðareglur Háskóla Íslands áður en siðanefnd kannar hvernig afgreiða eigi málið. Og vel að merkja hafði siðanefnd ekki einu sinni fundað um málið þegar Þórður brá sér í þetta sáttasemjarahlutverk. Gerðist hann sáttasemjari upp á eigið eindæmi? Og hvernig samrýmist svoleiðis einleikur starfsreglum siðanefndar HÍ?

Raunar ber Pétur Pétursson þessa frásögn af heimboði Þórðar og sáttavilja Þórðar til baka. Pétur segir:
 

Á þessum tíma hafði formaðurinn ekki haft fyrir því að kynna mér það að einnig siðanefnd hefði borist kæra frá félaginu Vantrú. Ég frétti það hjá Hjalta Hugasyni prófessor sem hann hafði haft samband við og upplifun Hjalta var sú að málið væri mjög alvarlegt og ljóst væri að ef ekki næðust sættir þá myndi Bjarni verða áminntur af siðanefnd. Ég set mig því að sjálfsögðu strax í samband við Þórð og fæ þessa túlkun Hjalta staðfesta. Stuttu seinna banka ég svo óboðinn á dyr hjá formanninum með gögn frá Bjarna, bréf sem hann sendi nemendum í umræddu námskeiði, leiðbeiningar um það hvernig þeim bæri að túlka umræddar glærur og taldi ég og samstarfsfólk mitt í deildinni að það væri mjög mikilvægt að formanninum bærust þessi gögn sem fyrst og það fyrir næsta fund nefndarinnar. Formaðurinn hafði engan áhuga á þessu efni sem þó er hluti af kennslugögnunum. Seinna komst ég að raun um að hann hafði stungið þessu bréfi undir stól. Hann hafði heldur engan áhuga á afgreiðslu Guðfræðideildar frá 9. mars 2010.
Pétur Pétursson. Rangfærslur Þórðar Harðarsonar formanns siðanefndar H.Í. Morgunblaðið 9. desember 2011. Krækt er í grein Péturs á mbl.is en hún er einungis aðgengileg kaupendum Morgunblaðsins. Feitletrun mín.)
 

Hvað taldi Þórður Harðarson formaður siðanefndar HÍ að Vantrú hefði kært?

Þórður Harðarson segir í sinni greinargerð í Morgunblaðinu í des. 2011: 

Þegar formaður [þ.e. Þórður] sýndi Pétri kennslugögn BRS virtist hann sleginn, en þar var m.a. að finna afar klámfengna vísu um mikils metinn biskup, föður hans. Þessi vísa var ekki einsdæmi. Formaður og Pétur skildu í miklu bróðerni og lýsti Pétur því yfir, að sér væri mjög létt við finna, að e.t.v. væri kostur á sáttum.

Pétur Pétursson var auðvitað fyrir löngu búinn að skoða þessar glærur því kæra Vantrúar til hans, sem deildarforseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, var afhent þann 4. febrúar 2010 og höfðu þeir Pétur og Bjarni Randver fundað um hana, alls óvitandi um að Bjarni Randver hefði einnig verið kærður fyrir siðanefnd. Svo lýsing Þórðar Harðarsonar á því hve Pétur var „sleginn“ þegar Þórður sýndi honum „kennslugögn BRS“ er í hæsta máta ótrúverðug. Upplifun Péturs Péturssonar af fundi þeirra Þórðar og afstöðu Þórðar var allt önnur:
 

Hann [Þórður] sagði við mig fyrst þegar við töluðum um glærur Bjarna: “Svona efni á ekki að nota í kennslu við H.Í. og allra síst í Guðfræðideild.” Þórður ávarpaði mig alltaf sem “séra Pétur” eins og hann gengi út frá því að kennarar við Guðfræði- og trúarbragðafræðideild væru vígðir prestar í Þjóðkirkjunni og að full ástæða væri fyrir því að biðja félagið Vantrú afsökunar á því. Hann gerði sér ekki grein fyrir því að ég er félagsfræðingur og að Nýtrúarhreyfinganámskeiðið sem ég hef umsjón með er kennt á forsendum trúarbragðafélagsfræði. Hvorki kennarar eða nemendur í Guðfræði- og trúarbragðafræðideild eru játningabundnir og geta verið í hvaða trúfélagi sem er eða utan allra. Af greinargerðinni sem formaður Siðanefndar lét birta í Mbl þá er hann við sama heygarðshornið í þessum efnum. Ég sé ekki betur en að hann hafi 18. aldar sýn á guðfræði og guðfræðikennslu og viti ekkert um það og vilji ekki vita að þýski heimspekingurinn og guðfræðingurinn Friedrich Schleiermacher upphafsmaður nútíma túlkunarvísinda endurskilgreindi hlutverk guðfræðinnar innan evrópskra háskóla í löndum mótmælenda fyrir tveimur öldum. Túlkunarfræði guðfræði- og trúarbragðafræða byggir á sömu forsendum og bókmenntafræði yfirleitt og menningarfræði almennt.” (Pétur Pétursson. 19. janúar 2012. Athugasemd nr. 5 við bloggfærsluna Stóra glærumálið og móðgelsi Vantrúar, I. hluti.)

Um málflutning Þórðar Harðarsonar á þessum fundi þeirra Péturs Péturssonar segir í Tímatöflu Bjarna Randvers - hvað varðar akkúrat þessa tilvitnun þá hefur Pétur Pétursson staðfest í símtali að rétt sé eftir haft:

18. mars 2010 [ - - -] Meðal athugasemda Þórðar er að Bjarni Randver skuli tilgreina biblíuritskýringar Níelsar Dungals prófessors (sem reynist kennari Þórðar) og vitna í bók hans Blekkingu og þekkingu. Hann megi ekki heldur nefna Helga Hóseasson á nafn (enda veikur á geði) og vitna í kveðskap hans. Síðast en ekki síst hafi Bjarni Randver brotið af sér með því að vitna í forystumenn Vantrúar (því að bloggskrif hafi ekkert með akademísk fræði að gera), birta myndir af þeim í láréttri röð (svonefnd sakamannauppstilling að mati Þórðar) og sérstaklega eina af vantrúarfélaganum Vésteini Valgarðssyni í kristsgervi, fjalla um mögulegar afleiðingar neikvæðrar orðræðu um trúarbrögð, trúarhópa og trúaða einstaklinga og birta grein með neikvæðum myndum af Múhameð spámanni sem dæmi um neikvæðan málflutning utan félagsins. Ekkert af þessu sé sæmandi Háskóla Íslands „og allra síst í guðfræðideild“. Svipuð viðhorf koma fram hjá öðrum siðanefndarfulltrúum þegar Pétur ræðir við þá næstu daga. Þórður kallar Pétur eftirleiðis „séra“ þótt Pétur sé óvígður og fyrst og fremst félagsfræðingur og kirkjusagnfræðingur. Margar af athugasemdum Þórðar koma ekki fyrir í kæru Vantrúar [- - -].  (Tímatafla í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (nr. 1/2010). Þetta er óopinbert skjal í vinnslu en ég hef leyfi Bjarna Randvers til að vitna í það.)

Í fyrrnefndri Greinargerð Þórðar Harðarsonar um siðanefndarmál, frá 8. desember 2011, túlkar Þórður hver sé „þungamiðja kærunnar“:

Kannski er þungmiðjan í kærunni röð af glærum, þar sem BRS birtir óviðfelldnar og klámfengnar vísur um þekkt fólk: Forseta, tvo ráðherra, tvo biskupa og a.m.k einn prest. Kveðskapurinn er eftir látinn mann, sem ekki mun hafa gengið heill til skógar, en tengdist Vantrú. Töldu vantrúarmenn, að BRS vildi með þessu sýna nemendum sínum dæmigerðan málflutning Vantrúar.

Miðað við kærubréf félagsins Vantrúar til siðanefndar HÍ er ómögulegt að sjá að þetta sé þungamiðjan í kæru þeirra. Vissulega er kvartað undan þessum glærum í greinargerðinni sem fylgdi bréfinu (sjá s. 4 í sömu greinargerð sem fylgdi bréfinu til forseta guðfræði-og trúarbragðadeildar) en Vantrú kvartar undan ótal atriðum í glærunum og getur þessara tilteknu glæra ekki sérstaklega í kærubréfinu sjálfu. Það hlýtur því alfarið að vera túlkun Þórðar Harðarsonar að akkúrat þessar glærur séu þungamiðjan í kæru Vantrúar. Má ætla að sú túlkun byggist fyrst og fremst á tepruskap hans sjálfs? Og einhverjum furðulegum misskilningi Þórðar að ekki megi vitna í útgefin rit fólks sem „ekki gengur heilt til skógar“?
 

Sé rétt eftir Þórði Harðarsyni haft þá hefur hann litla hugmynd haft um kæruefni Vantrúar þegar hann dreif sig í „sáttaumleitanir“ í persónulegum samtölum. Það er kristaltært af kærubréfi Vantrúar að kæra þeirra beinist ekki sérstaklega að þeim atriðum sem hann telur vera þungamiðju í kærunni og sum atriðin sem hann telur upp í samtali við Pétur Pétursson, s.s. „sakamannauppstilling“ var ekki einu sinni kærð heldur er einungis túlkun Þórðar sjálfs á sömu glærum. Harka Þórðar í málinu og lítill sáttahugur (að mínu mati, byggðu á skoðuðum heimildum) gæti verið sprottin af því að hann sýndi engan lit á að setja sig inn í efni námskeiðsins, ekki einu sinni námskeiðslýsinguna, hann var gamall nemandi Níelsar Dungal og þótti kannski ómaklega vegið að Níelsi með því að bregða upp beinum tilvitnunum í Blekkingu og þekkingu (þótt það tengist raunar óumdeildum heiðri Níelsar Dungal sem vísindamanns ekki nokkurn skapaðan hlut) og mögulega hefur Þórður einhverjar gamaldags og úreltar skoðanir á þeim sem haldnir eru geðrænum sjúkdómum. „Sakamannauppstillingin“ er væntanlega einhver grilla í Þórði því með sömu rökum hafði Bjarni sýnt fjölda annarra forkólfa nýtrúarhreyfinga sem „sakamenn“ á öðrum glærum og höfundar margra kennslubóka væru illa staddir ef mannamyndaraðir væru almennt túlkaðar sem „sakmannauppstilling“, svo ekki sé minnst á þá sem kynna í fjölmiðlum efstu menn í prófkjöri eða þingmenn ákveðins kjördæmis eða íþróttakeppendur … í láréttri röð.

Ég er sammála Pétri Péturssyni um að sýn Þórðar Harðarsonar á guðfræði og guðfræðikennslu sé 18. aldar manns, miðað við greinargerð Þórðar í Morgunblaðinu, sem fyrr var vitnað til, sem gæti einnig skýrt hinn skrítna málflutning Þórðar í samtölum við Hjalta Hugason og Pétur. En þess utan var kúrsinn Nýtrúarhreyfingar miklu frekar á sviði félagsfræði en guðfræði, sem Þórður Harðarson hefði auðveldlega getað séð hefði hann gefið sér tíma til að lesa námskeiðslýsinguna. Í símtali mínu við Pétur Pétursson þann 11. febrúar 2012 kom fram að siðanefndin hafði ekki lagt á sig að fara inn á Uglu, innri vef HÍ, og skoða námskeiðslýsinguna, þegar Pétur hafði fyrst samband við Þórð þann 18. mars 2010.
 

Hvernig átti siðanefnd HÍ að starfa skv. skilningi Þórðar Harðarsonar og e.t.v. hinna siðanefndarfulltrúanna?

Á fyrsta nefndarfundinum 25. mars [2010] var staðfestur áhugi siðanefndarmanna á sáttum. Þá lá fyrir nefndinni bréf til formanns frá PP, þar sem sagði meðal annars: “Heill og sæll. Varðandi kæru félagsins Vantrúar út af kennsluefni í námskeiði um nýtrúarhreyfingar. Ég átti fund með Bjarna Randver, Hjalta Hugasyni og Einari Sigurbjörnssyni í dag og við erum sammála um að ræða við siðanefndina á þeim forsendum að ná sáttum eða samkomulagi […]
Við urðum [einnig] ásáttir um að það heyrði helst undir mig að ræða við nefndina (mín auðkenning), þar sem ég er nú starfandi deildarforseti, var umsjónarmaður með umræddu námskeiði og er leiðbeinandi Bjarna Randvers sem er í doktorsnámi í trúarbragðafræði…”

Siðanefndin hlaut að sjálfsögðu að starfa í samræmi við þetta bréf og leit á PP, en ekki BRS sem nánasta aðila að sáttaviðleitninni. Sú kvörtun BRS, að hafa ekki verið kvaddur á fund nefndarinnar á þessu stigi er því ástæðulaus. Sú skoðun kom raunar líka fram á siðanefndarfundinum, að kæran beindist ekki aðeins að BRS, heldur einnig guðfræðideild. Engin efnisleg umræða fór fram um kennsluefnið, enda vildi nefndin gæta hlutleysis meðan sáttatilraunir stæðu yfir. Sagt er í nýlegri Mbl-grein að Einar kannist ekki við, að fundurinn, sem PP sagði frá, hafi verið haldinn. Einnig er sagt að bréfið hafi týnst.
(Greinargerð Þórðar Harðarsonar um siðanefndarmál, frá 8. desember 2011, krækt er í greinargerðina á vef Vantrúar. Feitletrun mín.)
 

Þessu hefur Þórður Harðarson haldið fram víðar. En bréf Péturs Péturssonar þjónaði raunar einungis þeim tilgangi að gera Þórði Harðarsyni ljóst hver væri deildarforseti guðfræði- og trúarbragðafræðideildar enda hafði Þórður verið óklár á því. Þannig að ef Þórður eða siðanefndin hefði eitthvað hugsað sér að ræða við guðfræði- og trúarbragðafræðideild um kæruna gegn Bjarna Randver ætti að snúa sér til Péturs Péturssonar.

Bréfritarinn Pétur Pétursson staðfestir þetta, þ.e. að fyrst og fremst hafi hann viljað leiðrétta hugmynd Þórðar Harðarsonar um það hver væri forseti guðfræði- og trúarbragðafræðideildar og hefði einnig minnst á við hverja hann hefði talað um málið (hvern í sínu lagi þótt Þórður hafi misskilið orð hans um það):

Í þessu ljósi ber að skilja það bréf sem ég sendi honum 23. mars 2010 þar sem ég vil leggja áherslu á að ég en ekki Hjalti Hugason komi fram fyrir hönd deildarinnar. Áður en ég sendi þetta bréf átti ég einnig fundi með Einari Sigurbjörnssyni prófessor og fleirum og þeir voru mér sammála um að ég kæmi fram fyrir hönd deildarinnar.
Pétur Pétursson. Rangfærslur Þórðar Harðarsonar formanns siðanefndar H.Í. Morgunblaðið 9. desember 2011. Krækt er í grein Péturs á mbl.is en hún er einungis aðgengileg kaupendum Morgunblaðsins. Feitletrun mín.)

Seinna hefur Þórður Harðarson (og e.t.v. fleiri í siðanefnd HÍ) kosið að túlka þetta stutta ónákvæma bréf (hér er krækt í ljósmynd af bréfinu á vef Vantrúar) sem eitthvert ægilega mikilvægt plagg þar sem Pétur lýsi því yfir að Bjarni Randver sé umbjóðandi sinn og Pétur fulltrúi hans í viðræðum við siðanefnd. Við þessa túlkun er það að athuga að Pétur Pétursson hafði ekkert umboð til að koma fram fyrir hönd Bjarna Randvers Sigurvinssonar. Siðanefndinni hefði átt að vera ljóst að skriflegt umboð Bjarna Randvers, hins kærða, sent til siðanefndar hefði verið eina tæka ástæðan til að blanda Pétri Péturssyni í málsmeðferð sína. Með siðanefnd HÍ starfaði lögfræðingur HÍ og það er ótrúlegt að hann skuli ekki hafa bent á þetta augljósa atriði. Vantrú kærði aldrei guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ til siðanefndar heldur einstakling, kennara sem sýndi glærur sem Vantrú voru ekki að skapi. Siðanefnd HÍ ber að starfa sjálfstætt og ákvörðun nefndarinnar að blanda deild í Háskóla Íslands í málið er mjög vafasöm, jafnvel þótt siðanefndinni hafi verið kunnugt um að félagið Vantrú hefði einnig kært Bjarna Randver til forseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar (sem er raunar óvíst að siðanefnd hafi vitað áður en Þórður Harðarson hafði tal af Hjalta Hugasyni).  

Eftir að Þórður Harðarson hefur tíundað mikilvægi þessa stutta og ónákvæma bréfs Péturs Péturssonar í fréttaskýringu Morgunblaðsins í desember 2011 bætir hann við:
 

Ég vil taka það fram að það er vinnuvenja í nefndinni að leita sátta, ég hafði starfað í henni í þónokkurn tíma og Þorsteinn Vilhjálmsson er líka með mikla reynslu af störfum í nefndinni. Þessi nefnd okkar hafði afgreitt 7 mál án þess að verða fyrir gagnrýni og helmingi þeirra mála hafði lokið með sáttum.
(Heilagt stríð Vantrúar. Morgunblaðið 4. des. 2011. Hér er krækt í fréttaskýringuna á mbl.is. Feitletrun mín.)

Þetta er einfaldlega rangt hjá Þórði Harðarsyni. Af þeim 7 málum sem siðanefnd skipuð honum, Þorsteini og Sigríði Þorgeirsdóttur, hafði haft til umfjöllunar áður en kæra Vantrúar barst hafði meirihluta verið vísað frá, þ.e. 4 málum, 2 málum lauk með sátt og brot var staðfest í 1 máli. (Sjá Skýrslu óháðu nefndarinnar, s. 26. Feitletrun mín.)
 
 

Hver var kærður?

Þegar Þórður Harðarson formaður siðanefndar HÍ gerðist sáttasemjari upp á eigin spýtur, þann 18. mars 2010, með misskilin kæruefni í farteskinu, var honum einnig ekki ljóst hver var kærður fyrir siðanefnd. Af kærubréfi félagsins Vantrúar til siðanefndar HÍ virðist nokkuð ljóst að félagið Vantrú er að kæra kennarann Bjarna Randver, í stutta kærubréfinu sjálfu er hann nefndur átta sinnum á nafn. En Þórður talaði ekkert við Bjarna Randver heldur fyrst við Hjalta Hugason prófessor, í misgripum, og í kjölfarið hafði Pétur Pétursson, deildarforseti guðfræði- og trúarbragðadeildar samband við Þórð. Í fréttaskýringu Barkar Gunnarssonar í Morgunblaðinu 4. desember segir:
 

Þegar Þórður er spurður hvers vegna ekki hafi verið haft samband við Bjarna Randver svarar hann því þannig til: „Sumir nefndarmenn töldu að kæra Vantrúar beindist að einhverju leyti að guðfræðideildinni auk Bjarna,“ segir Þórður. (Börkur Gunnarsson. Heilagt stríð Vantrúar. Morgunblaðið 4. des. 2011. Hér er krækt í fréttaskýringuna á mbl.is. Feitletrun mín.)

Þetta bendir til þess að annað hvort Þorsteinn Vilhjálmsson eða Sigríður Þorgeirsdóttir hafi verið sammála Þórði um að Vantrú hafi kært þessa háskóladeild auk Bjarna Randvers áður en fyrsti fundur siðanefndar um málið var haldinn. (Þau voru bara þrjú í siðanefndinni.) Mögulega hefur lögfræðingur HÍ, Jónatan Þórmundsson, tekið undir þá skoðun því honum var einnig falið að skoða kæruna áður en fyrsti fundur var haldinn. Hvernig þeir eða þau túlkuðu slíkt af kærubréfi Vantrúar (sjá neðst í þessari færslu) er mér óskiljanlegt.

Í fréttaskýringu Barkar Gunnarssonar segir og:
 

Það ber að taka fram að nefndarmenn hafa orðið margsaga um hvort þeir hafi skilið það þannig að Bjarni hafi verið kærður eða hvort það hafi verið deildin. Þetta skiptir máli, því ef deildin var kærð en ekki Bjarni mætti réttlæta það að nefndin hefði ekki haft samband við Bjarna. En þetta virðist þó ekki liggja alveg skýrt fyrir ef marka má orð nefndarmanna sjálfra. Þorsteinn Vilhjálmsson segir í tölvupósti til blaðamanns Morgunblaðsins núna á fimmtudaginn: „Kæra Vantrúar til siðanefndar er vissulega skýr að því leyti að það er Bjarni Randver sem er kærður, vegna tiltekins kennsluefnis.“ Hann skrifaði hinsvegar annað í bréfi til rektors í haust, eftir að hafa haft málið á borði sínu í yfir 20 mánuði: „Einnig tel ég ótímabært að fullyrða fyrirfram, án efnismeðferðar málsins, hver eða hverjir séu raunverulega kærðir í málinu.“ Þegar honum er bent á þetta misræmi svarar hann: „Þegar ég segi þarna „hverjir séu raunverulega kærðir“ meina ég í rauninni „hverjir beri ábyrgð“.“ (Börkur Gunnarsson. Heilagt stríð Vantrúar. Morgunblaðið 4. des. 2011. Hér er krækt í fréttaskýringuna á mbl.is. Feitletrun mín.)
 

Fyrsti fundur siðanefndar og ákvarðanir hennar um málsmeðferð
 

Á fyrsta fundi siðanefndar þann 25. mars 2010, var ákveðið að fyrir næsta fund hennar myndi Þorsteinn Vilhjálmsson skoða heimasíðu Vantrúar og Sigríður athuga fordæmi. (Skýrsla óháðu nefndarinnar, s. 35. Raunar er búið að afmá þessa klausu í þeirri útgáfu fundargerðar siðanefndar sem afhent var lögmanni Bjarna Randvers.) Það hefur eflaust verið fróðlegt fyrir Þorstein Vilhjálmsson að skoða heimasíðu Vantrúar því frá því um miðjan febrúar 2010 og fram í byrjun mars hafði félagið Vantrú birt ellefu greinar um glærurnar sem félagið kærði og fylgir löng athugasemdaromsa hverri umfjöllun. (Sjá greinar I-XI í efnisflokknum Háskólinn á vef Vantrúar.) Að auki hafði félagið Vantrú og nokkrir félagsmenn í Vantrú vísað dyggilega í þessar greinar, af athugasemdum á Vantrú og í eigin bloggum. Má sem dæmi taka athugasemd formanns Vantrúar, Reynis Harðarsonar sálfræðings, við greinina Prestalógík á vef Vantrúar en hann skrifar þann 21. mars 2010: „Magnús, það er hefð að drulla yfir trúleysingja og sú íþrótt er kennd í Háskóla Íslands.“ Síðari krækjan er krækja í síðustu grein Vantrúar um glærurnar.

Mig rekur ekki minni til þess að Þórður Harðarson formaður siðanefndar á þessum tíma eða einstakir siðanefndarmenn hafi nokkru sinni ýjað að því að siðanefnd hefði ekki fengið frið til að sinna störfum sínum af hálfu Vantrúar. E.t.v. hefur Þorsteini Vilhjálmssyni yfirsést þessi ellefu greina flokkur á vef Vantrúar, Háskólinn, og margar aðrar greinar og athugasemdir þegar hann fór að skoða heimasíðu Vantrúar seint í mars 2010? Eða honum hafi fundist fullkomlega eðlilegt að kærandinn, félagið Vantrú, fjallaði ítarlega um sína hlið á málinu áður en siðanefnd var svo mikið sem búin að halda sinn fyrsta fund um kæru Vantrúar?

Um annað sem ákveðið var á þessum fyrsta fundi siðanefndar HÍ um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni segir í Skýrslu óháðu nefndarinnar, s. 33:

Í fundargerð kemur fram að nefndarmenn hafi farið yfir athugasemdir formanns Vantrúar með hliðsjón af glærunum og voru á einu máli að fjalla ætti um málið út frá faglegu sjónarmiði í guðfræði- og trúarbragðafræðideild, samhliða athugun siðanefndar á því hvort siðareglur háskólans hafi verið brotnar. Formaður kvaðst hafa rætt við starfandi forseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar um að reynt yrði að leita sátta í málinu. Ákveðið var að fulltrúar deildarinnar kæmu á fund siðanefndarinnar. Þá var eftirfarandi bókað í fundargerðinni: „Samþykkt var að veita formanni umboð til að boða kærandann, Reynir Harðarson, á sinn fund til að leita leiða til sátta. Takist það ekki verði að kalla alla málsaðila fyrir siðanefnd, fyrst kærandann“. (Feitletrun mín.)

Þetta er áhugaverð fundargerð. Í henni kemur fram að siðanefnd telur sig þess umkomna að ákveða hvað guðfræði- og trúarbragðafræðideild eigi að gera og vill fulltrúa þeirrar deildar á sinn fund. Siðanefnd samþykkir að formaður hennar, Þórður Harðarson, tali einslega við fulltrúa kæranda, Reyni Harðarson sálfræðing, formann Vantrúar. Loks kemur fram forgangsröðunin hjá siðanefnd komi til formlegra viðtala við nefndina: Þar er kærandinn fyrstur.

Ekkert í fundargerð fyrsta fundar siðanefndar bendir til þess að siðanefndarfulltrúar ætli sér að skoða námskeiðslýsingu (nema það sé innifalið í „athugun siðanefndar á því hvort siðareglur háskólans hafi verið brotnar“ - vel að merkja fór sú athugun aldrei fram í þau rúmu tvö ár sem siðanefnd HÍ var að væflast með þetta mál). Þau gögn sem Pétur Pétursson hafði afhent Þórði Harðarsyni þann 23. mars 2010 og vörðuðu beint hin kærðu atriði, þ.e. bréf Bjarna Randvers til nemenda sinna sent fyrir prófið í desember 2009 þar sem tilgangur glæranna og gildi í námsefni til prófs var ítrekað, voru ekki lögð fram.

Síðasta dag marsmánaðar 2010 kom fram í símtali Péturs Péturssonar við Þorstein Vilhjálmsson siðanefndarfulltrúa að Þorsteini var ókunnugt um þetta bréf Bjarna Randvers til nemenda í Nýtrúarhreyfingum. Þriðji fulltrúinn í siðanefnd, Sigríður Þorgeirsdóttir, frétti ekki af bréfinu fyrr en talsvert löngu seinna.

Siðanefnd HÍ virðist ekki hafa komið til hugar að ræða við þann kærða í málinu, þ.e. Bjarna Randver Sigurvinsson.
 
 
 Kæra Vantrúar til siðanefndar HÍ
 

Garðabæ 4. febrúar 2010

Reynir Harðarson
formaður Vantrúar
Holtsbúð 14
201 GarðabæSiðanefnd Háskóla Íslands
Sæmundargötu 2
101 Reykjavík.

Félagsmenn í Vantrú hafa undir höndum glærur úr kúrsinum „Nýtrúarhreyfingar“ sem  Bjarni Randver Sigurvinsson guðfræðingur kennir við HÍ í guðfræði- og trúarbragðadeild. Að okkar mati hefur Bjarni Randver orðið guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands til minnkunar í umfjöllun sinni um  trúlausa og félagið Vantrú þar sem meðferð hans á tilvitnunum í félagsmenn, uppsetning o.fl. er hreinn áróður og skrumskæling á afstöðu okkar.

Við teljum að efnisval Bjarna Randvers siðlaus [svo] og aðaláherslan er lögð á persónuleg skrif félagsmanna Vantrúar þó enginn skortur sé á efni sem hefur verið  skrifað í nafni félagsins sjálfs. Á vef Vantrúar, www.vantru.is, eru hundruð greina sem vitna má í.

Við gerum einnig athugasemdir við að Bjarni Randver noti myndir af félagsmönnum án þess að geta myndhöfunda.

Við bendum á að Bjarni Randver Sigurvinsson hefur slík tengsl við Þjóðkirkjuna að ætla má að þau hafi litað málflutning hans í garð Vantrúar, sem hefur haldið uppi harðri gagnrýni á þá stofnun.  Bjarni Randver er guðfræðingur og formaður starfshóps Þjóðkirkjunnar um samskipti við önnur trúarbrögð. (Sjá: http://www.tru.is/sida/hofundar/bjarni_randver_sigurvinsson )

Bjarni Randver hefur aldrei haft samband við Vantrú til að fá upplýsingar um félagið sem hefðu verið auðsóttar. Kynningu á félagsskapnum fögnum við en afskræmingu frábiðjum við okkur. Við förum fram á að siðferði þessa kennsluefnis verði metið í ljósi þeirra athugasemda sem við komum hér á framfæri. Niðurstaða þess mats endurspeglar vonandi faglegan og fræðilegan metnað Háskóla Íslands.

Á vef H.Í. segir: „Auk þess að leggja stund á hefðbundnar greinar guðfræðinnar kosta  starfsmenn deildarinnar kapps um að mæta þörfum fjölmenningarlegs samfélags. Árið 2000 var í því skyni sett á laggirnar þverfaglegt nám í almennum trúarbragðafræðum.“ Þarfir fjölmenningarlegs samfélags eru tvímælalaust þær að afstaða ólíkra hópa sé kynnt af sanngirni og hlutleysi. Ef guðfræði- og trúarbragðafræðideild á að vera eitthvað annað en guðfræðideild eða prestaskóli ríkiskirkjunnar er þörf á gagngerri endurskoðun þessa áfanga  Bjarna Randvers.

Við teljum ástæðu til að huga sérstaklega að eftirfarandi greinum siðareglna H.Í::
 

1.2.1 Starfsfólk Háskólans sinnir störfum sínum af kostgæfni.2.1.1 Kennarar, sérfræðingar og nemendur vinna í anda þeirra almennu sanninda að þekking hafi gildi í sjálfu sér auk gildis hennar fyrir einstaklinga og samfélag. Þeim ber umfram allt að ástunda fræðileg vinnubrögð, leita sannleikans og setja hann fram samkvæmt bestu vitund.

2.1.2 Kennarar, sérfræðingar og nemendur leitast við að varðveita og efla faglega hæfni sína. Störf þeirra skulu sýna að þeim er umhugað um góða starfshætti á eigin fræðasviði.

2.1.3 Kennarar, sérfræðingar og nemendur eru gagnrýnir á sjálfa sig og vanda dóma sína. Þeir falsa ekki eða afbaka upplýsingar, gögn eða niðurstöður rannsókna. Þeir gæta þess að birtar niðurstöður veiti ekki einhliða og villandi mynd af viðfangsefninu. Þeir forðast hvers kyns mistök og villur í rannsóknarstarfinu. Verði þeim á mistök viðurkenna þeir þau og gera það sem þeir geta til að bæta fyrir þau.

2.1.4 Kennarar, sérfræðingar og nemendur setja ekki fram hugverk annarra sem sín eigin. Þegar þeir nýta sér hugverk annarra geta þeir ávallt heimilda í samræmi við viðurkennd fræðileg vinnubrögð.

2.1.5 Kennarar, sérfræðingar og nemendur forðast að hagsmunatengsl hefti rannsóknafrelsi og hamli viðurkenndum fræðilegum vinnubrögðum. Þeir upplýsa um þau hagsmunatengsl sem til staðar eru.

2.2.1 Kennarar stuðla að menntun nemenda með vandaðri leiðsögn, viðeigandi kröfum, hvatningu og góðu fordæmi.

2.2.3 Kennarar temja nemendum sínum heilindi í ræðu og riti. Þeir haga kennslu, leiðsögn og þjálfun samkvæmt ýtrustu kröfum fræðigreinar sinnar um vönduð vinnubrögð. Þeir taka jafnframt mið af þeim starfsháttum við kennslu og próf sem Háskólinn viðurkennir.

2.4.3 Kennarar, sérfræðingar og nemendur huga á ábyrgan hátt að afleiðingum kennslu sinnar og rannsókna fyrir samfélag, umhverfi og náttúru.

Við gerum athugasemdir við tvær glæruraðir.:
A: Deistar o.fl. 37 glærur.
B: Vantrú. 37 glærur.
Glærur þessar auk nokkurra athugasemda eru í fylgiriti
 

Virðingarfyllst:
                                       _____________________________________
                                                   Reynir Harðarson, formaður
                                                        fyrir hönd Vantrúar 
  

18 ummæli við “Fyrstu viðbrögð siðanefndar HÍ við kæru Vantrúar”

 1. Jóhanna Agnarsdóttir ritar:

  Ellefta heillanga færslan um Vantrú. Ég sting upp á að þú látir prenta og binda í bók. Titillinn er auðvitað gefinn; Heilagt stríð Vantrúar. Hvet þig til þess.

  Ertu annars ekkert orðin leið á þessu máli. Ég dáist að þrautseigjunni en get ekki lesið þetta allt, mér finnst þetta svo leiðinlegt mál.

 2. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Er þetta ellefta færslan? Hef ekki talið … Þessi færsla fjallar raunar ekki um Vantrú heldur siðanefnd HÍ.

  Nei, ég er ekki leið á þessu máli - finnst þetta mjög áhugavert og spennandi mál. Ekki hvað síst sá hluti sem ég er að byrja á núna, þ.e.a.s. þáttur siðanefndar Háskóla Íslands og hvernig hún klúðraði nánast öllu sem hægt var að klúðra í þessu máli. En ég geri mér auðvitað grein fyrir að áhugi á málinu er takmarkaður, takmarkast kannski helst við þá sem hafa áhuga á akademísku frelsi og svo náttúrlega hina dyggu lesendur úr hópi Vantrúarfélaga sem ég virðist hafa eignast.

  Já, þetta eru ansi langar færslur en hjá því verður ekki komist vilji maður vinna þær almennilega. Ég hef aldrei verið höll undir svokölluð “hamfarablogg” eða “jedúddamía” blogg, þ.e. stuttar bloggfærslur bloggaðar af fingrum fram án þess að viðkomandi hafi sett sig neitt inn í það sem hann / hún er að blogga um. Er líka lítið fyrir að skrifa illa unnar leiðbeinandi færslur um hvernig annað fólk má hugsa eða má ekki hugsa. Þeir sem eru að leita að svoleiðis bloggum ættu að lesa önnur en mitt blogg ;)

  Kosturinn við langlokufærslur og takmarkaðan lesendahóp er hins vegar stór: Ég losna við megnið af því liði sem les bara fyrirsagnir og tjáir sig út frá þeim. Mínir lesendur eru vellæst fólk og ég horfi fremur á gæðin en magnið, skilurðu.

  Ég tek umfjöllunina að sjálfsögðu saman í pdf-skjal þegar henni lýkur, alveg eins og Sögu Sögu Akraness (sem vel að merkja átti sér einnig takmarkaðan lesendahóp nema einstaka færsla sem netmiðlar linkuðu í og slógu upp sem “jedúddamía”-frétt … var allur gangur á því hve rétt var haft eftir og allur gangur á hvort þeir sem tjáðu sig út og suður höfðu meikað að lesa nema fyrstu efnisgreinina í þeim færslum).

 3. Helgi Ingólfsson ritar:

  Mergjuð færsla, Harpa. Rassskelling, myndi einhver kalla hana. Sá sem á dagblað, yrði ekki svikinn af að ráða þig í vinnu.

  Félagsmenn úr Vantrú hafa lítt treyst sér til að hrekja málflutning þinn í öllum þessum færslum. Skyldu siðanefndarmenn aðrir en formaðurinn tjá sig um málið?

 4. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Ég var að reka augun í að Matthías Ásgeirsson furðar sig á því að ég vísi ekki mynd af bréfi Péturs Péturssonar til Þórðar Harðarsonar, sem Pétur sendi Þórði þann 23. mars 2010. Ástæðan er aðallega sú að ég hafði ekki hugmynd um að þetta bréfi lægi frammi á vef Vantrúar, sjá http://www.vantru.is/myndir/2011/pp_bref_til_sidanefndar.png. Ég þakka Matthíasi kærlega fyrir ábendinguna. En nú vaknar spurningin: Hvaðan fengu Vantrúarfélagar mynd af málsskjali, þ.e.a.s. bréf frá deildarforseta guðfræði- og trúarbragðafræðideildar til formanns siðanefndar HÍ? Þetta bréf hefur lengstum verið flokkað sem vinnuskjal, er það jafnvel enn. Afhenti Þórður Harðarson formaður siðanefndar Vantrú bréfið og leyfði félagsmanni í Vantrú að ljósmynda það? (Ég sé ekki betur en þarna sé ljósmynd af bréfinu en ekki skannað eintak.)

 5. Böðvar Björgvinsson ritar:

  Kærar þakkir, Harpa, fyrir þinn hlut í að Bjarni hefur nú haft sigur í þessu máli. Ég veit ekki hversu stór sá hlutur er, en það kæmi mér ekki á óvart að hann hafi vegið allþungt, svo frábær eru þessi blogg þín.

  Guð blessi þig.

 6. Helgi Ingólfsson ritar:

  Harpa (aths. 4): Samkvæmt orvitinn.com í dag fengu Vantrúarmenn umrætt skjal - bréf PP til ÞH 23.3.2010 - í hendur frá lögmönnum Bjarna Randvers. Veist þú hvort það standist? (Þess utan veigruðu Vantrúarmenn sér ekki við því að birta umrætt bréf, frá einum manni innan HÍ til annars innan HÍ, á vef sínum og mega menn velta fyrir sér hve siðferðilega rétt sú birting kann að vera.)

 7. Andrés B. Böðvarsson ritar:

  Vantrúarmenn virðast ekki hafa mikið verið að setja það fyrir sig hvort þeir hafi leyfi til birtingar á annarra manna efni, sbr. umræddar glærur.

 8. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Böðvar: Ég á engan hlut í sigri Bjarna Randvers í þessu máli, þann hlut eiga mjög margir háskólakennarar sem studdu hann drengilega og ekki hvað síst Guðni Elíasson sem gekk í málið af miklum dugnaði. Raunar er þetta ekki einu sinni sigur heldur frekar að réttlætið hafi náð fram að ganga - það stefndi í verulegt ranglæti áður. Þetta sem ég er að skrifa hefur í raun flest komið fram áður … ég reyni að fara aðeins dýpra í einstök atriði en gert hefur verið á opinberum vettvangi áður.

  Helgi: Nei, ég veit ekki hvernig bréf Péturs Péturssonar barst Vantrúarfélögum. Það er rétt sem Matthías Ásgeirsson segir, að bréfið kom ekki í leitirnar fyrr en eftir dúk og disk, þegar lögmaður Bjarna Randvers hafði ítrekað óskað eftir því. Pétur Pétursson vistaði nefnilega ekki bréfið enda var það aldrei hugsað annað en sem “memo” handa Þórði Harðarsyni svo Þórður vissi hver væri deildarforseti guðfræði- og trúarbragaðfræðideildar, eftir að í ljós hafði komið að Þórður vissi það ekki. Jafnframt er þess getið í bréfinu að Pétur hafi rætt við nokkra innan deildarinnar um hvort ekki væri rétt að hann kæmi fram fyrir hönd deildarinnar í þessu máli, vildi siðanefnd hafa samband við þessa deild (eins og Þórður hafði gert en við rangan mann).

  Fyrir óinnvígða: Matthías Ásgeirsson rekur sérstakan umræðuþráð um þetta blogg. Í seinni tíð notar hann þráðinn sinn m.a. til að svara athugasemdum á mínu bloggi (!) sem er dálítið óvenjulegt. Vera kann að Matthíasi finnist hann öruggari á “sínu svæði” og kjósi að svara t.d. því sem Helgi Ingólfsson skrifar á mitt blogg á sínu bloggi. Sjá umræðudræsu við Punktar um umfjöllun á Örvitanum, bloggi Matthíasar.

 9. Guðbergur Ísleifsson ritar:

  Viðbrögð Matta og félaga koma engum á óvart sem þekkja til í hugarheimi þessara pilta. Þau eru í sjálfu sér efni í rannsókn fagfólks í sið- og sálfræði myndi ég ætla. Fyrir mér, ófaglærðum, eru þessir kumpánar einfaldlega ekki með öllum mjalla og virðast fara versnandi ef eitthvað.

  En ég tek undir með þeim sem vilja hvetja þig Harpa til að halda áfram og ljúka þessari umfjöllun. Hún er rannsóknarmennska af bestu gerð og varpar afar skýru ljósi á málið. Látum það gilda einu þótt þeir Matti, Hjalti, Þórður og einhverjir aðdáendur þeirra vilji ekki viðurkenna það, enda stóðu þeir fyrir hinni upphaflegu árás og/eða studdu hana með ráðum og dáð og fitnuðu af henni eins og púkinn á fjósbitanum. Enginn er dómari í eigin sök og þeim félögum er í raun vorkunn.

  Ég vona svo að þú takir þetta allt saman í eina skýrslu, eins og þú segist ætla að gera, og að sú skýrsla geti gagnast Bjarna til að sækja bætur vegna þess kostnaðar sem hann varð fyrir og má óhikað skrifa á algjörlega fáránleg vinnubrögð siðanefndar Háskólans sem bersýnilega brást hlutverki sínu gjörsamlega frá upphafi til enda.

  Hins vegar er mín helsta von sú að persónuárásum og óhróðri Matta og félaga, hvort sem er í eigin nafni eða undir merkjum Vantrúar, linni nú eitthvað í kjölfarið á þessu máli og að Vantrúarfólk láti ekki þessa rugludalla sem stýrt hafa félaginu draga sig aftur á asnaeyrum út í svona svað. Hræddur er ég um að þetta sé óskhyggja af minni hálfu, svo mikil virðist heiftin, en við sjáum hvað setur.

 10. Andrés B. Böðvarsson ritar:

  Matthíasi Ásgeirssyni er umhugað um það að lesendur þessa bloggs skoði ljósmynd af bréfi Péturs Péturssonar til formanns Siðanefndar í gegnum þá grein þar sem fjallað er um bréfið og telur það sjálfsagða kurteisi að hlekkja á greinina en ekki beint á myndina. Netsóðinn ég skilur raunar ekki hvers vegna það ætti að vera einhver ókurteisi að vísa beint í það sem maður vill benda á í stað þess að vísa óbeint í það í gegnum umfjöllun annarra um það sem maður vill benda á. En gott og vel, hér er umfjöllun Vantrúar: http://www.vantru.is/2011/12/06/10.00/

  Raunar hefði Harpa getað sneitt framhjá kurteisisvenjum Matta með því að vísa í sömu ummæli í skýrslu óháðu nefndarinnar — en þar eru þau raunar stytt nokkuð og ekki afrit af afriti af frumriti eins og á vef Vantrúar:
  http://www.hi.is/files/skjol/stjornsysla/haskolarad/Skyrsla_um_mal_sidanefndar_HI_nr1_2010.pdf (bls.33)

 11. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Já, ég sá orð Matthíasar um þessa kurteisisvenju sem hann telur að ríki á Vefnum. Ég hef aldrei heyrt þetta áður en hef þó notað internetið síðan 1991 og er einn af frumkvöðlum í vefsíðugerð á Íslandi. Minnist þess að hafa pælt talsvert í svokölluðum “djúpkrækjum” og tekið þátt í umræðu um slíkt, t.d. lagalegri stöðu djúpkrækja, fyrir mörgum árum. Þar virtust menn sammála um að rétt væri að forðaðst djúpkrækjur af kurteisissjónarmiðum þótt lagalega væru þær líklega í lagi. En krækjan í myndina á vef Vantrúar er alls ekki djúpkrækja og heimildar er getið. Kannski er Matthías að rugla saman við umræðu um djúpkrækjur (er samt ekki viss um að hann hafi verið farinn að nota Vefinn þegar sú umræða fór fram) eða þetta er eitthvert nýtilkomið skikk sem miðaldra konur eins og ég hafa bara ekki heyrt af; Til vara að þetta sé einhver venja í mjög fámennum hópi bloggenda.

  Hvað varðar krækjur í síður Vantrúar þá hef ég lagt mig í líma við að krækja í þeirra efni, svo þeir þættust ekki vanhaldnir af umfjölluninni. Má nefna að í færslunni Einelti Vantrúar er nánast eingöngu stuðst við efni frá Vantrú, meira að segja er Matthías Ásgeirsson sjálfur þar meðal mikilvægustu heimilda.

 12. Guðbergur Ísleifsson ritar:

  Aldrei hef ég heldur heyrt um þessa “kurteisisvenju” hans Matta á mínum 15 ára netferli, enda er hann sennilega bara að búa þetta til - notar allt til að æmta og skræmta eins og lítill óþekktarormur með rassinn rasskelltann og rauðann, veit mætavel upp á sig sökina en vill ekki viðurkenna neitt.

  Það er ekkert að marka orð eða gerðir manns í hans stöðu, hvorki nú, né fyrr, enda virðist hann rekinn áfram af ótrúlegum hefndarhug og hefnigirnd sem virðist ekki eiga sér nein takmörk. Svo vænir hann aðra óhikað um allt sem hann gerist stöðugt sjálfur sekur um, óheiðarlegan og ómálefnanlegan málflutning, óhróður, útúrsnúninga og bein ósannindi. Allt sem honum finnst henta. Enginn fellur oftar í Ad Hominem-rökvillupyttinn en Matthías Ásgeirsson, nema ef vera skyldi Þórður Ingvarsson, félagi hans í Vantrú.

  Allir sem fara yfir og lesa þessa umfjöllun Hörpu sjá að hún krækir ótt og títt um víðan völl, í vantru.is ekkert síður en aðrar heimildir fyrir rannsókn sinni og gætir þess að hafa allt með til að gæta sannmælis og hlutleysis, líka ábendingar lesenda sem gera athugasemdir, hvort sem þær kunna að vera réttmætar eða ekki.

  Öllum er því í lófa lagið að skoða málið í heild út frá þessum krækjum og meta þannig samantektina og sannanleik hennar. Hér er hvorki bætt í né dregið undan heldur er málið útskýrt frá eins víðum sjónarhóli og hægt er að gera í jafnviðamiklu máli og þetta glærumál er orðið, að meðtöldu því dæmalausa moldviðri sem Matti og félagar hans hafa reynt að þyrla upp í kringum það til að blekkja og byrgja mönnum sýn á staðreyndir málsins.

  Sem betur fer blindar það moldviðri ekki greinarhöfund. Það er trú mín að samantektin í heild eigi eftir að opna augu margra sem hafa e.t.v. látið blekkjast en vilja að lokum hafa það eftir sem satt er í þessu máli.

 13. Jóhann Sigurfinnur B ritar:

  Það er reyndar kostulegt að sjá Matthías svara fyrir sig jafnharðan á sinni síðu, þar sem já-bræður hans flykkjast að til að klappa honum á bakið. Blessuð fórnarlömbin.

  Þetta eru jú sömu menn sem hafa ekki kinokað sér við að svara örgustu bókstafstrúarmönnum með nærri hraða ljóssins í bloggheimum.

  Auk þess er sérstaklega fyndið að ekki sé hægt að sækja svör Matthíasar í gegnum krækjur á þessari síðu.

  Öðru fremur er þessi pistill þó áfellisdómur yfir formanni Siðanefndar HÍ, enda er hann stútfullur af hubris.

  En þú hefðir þó mátt vefja gaddavírnum af höndinni, Harpa, áður en þú rassskelltir liðið…

  :)

 14. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Já, ég tók eftir að Matthías lokaði áðan á aðgang að athugasemdaþræðinum sínum af einmitt þessari bloggsíðu minni. Við því má bregðast með því að afrita slóðina á athugasemdaþráðinn í nýjan glugga í vefskoðara. Slóðin er http://www.orvitinn.com/2012/01/24/20.45/

 15. Andrés B. Böðvarsson ritar:

  Hjá mér nægir að ýta á command þegar ég klikka til að opna þetta í nýjum flipa. Kjánalegar svona kúnstir.

 16. Guðbergur Ísleifsson ritar:

  Matthías stærir sig nú af því á sinni eigin bloggsíðu að vita “meira um internetið og veraldarvefinn en allt þetta fólk.” Tekur fram að þetta sé hrokalaus fullyrðing af sinni hálfu. Svo notar hann þessa “yfirburðaþekkingu” sína til að loka fyrir krækjur af þessu bloggi yfir á sitt og misnotar að sjálfsögðu aðstöðu sína hjá Vantrú til að loka líka á krækjur héðan á vantru.is.

  Hann lokar semsagt á að fólk sem vill kynna sér málið í gegnum krækjurnar hér geti gert það með því að smella á þær beint. Sé það gert kemur upp “Forbidden-síða”. Þetta sýnir afar ljóslega hvað Matti hefur óskaplega mikið að fela, garmurinn, og hversu grímulaust óheiðarlegur hann er. Maðurinn sem kvartar og kveinar undan umfjölluninni og að Harpa vísi ekki á “réttar” heimildir reynir svo sjálfur að loka á heimildirnar sem vísað er í. Það myndi heldur betur hrína í honum og Vantrúarhjörðinni ef umsjónarmenn vefsíðna sem vísað er á frá vantru.is myndu gera þetta.

  En auðvitað segir enginn í Vantrú neitt um að Vantrúarvefurinn sé misnotaður svona. Ekki í fyrsta skipti sem Matthíasi gerir sig sekan - orða- og athugasemdalaust frá öðrum meðlimum Vantrúar - um það sem hann og þeir saka aðra um: Óheiðarleika.

  Tvískinnungurinn nær varla hærri hæðum.

 17. Andrés B. Böðvarsson ritar:

  Eigum við samt nokkuð að fara að láta þessa umræðu fara að snúast um einhverja fýlu út í Matthías? Mér finnst engin ástæða til þess.

 18. Guðbergur Ísleifsson ritar:

  Nei, að sjálfsögðu ekki … maður verður bara bit stundum á viðbrögðunum og getur ekki á sér setið. En þetta er auðvitað eins og að pissa upp í vindinn.

  Nú bíður maður bara eftir að samantekt Hörpu haldi áfram.