Færslur frá 17. febrúar 2012

17. febrúar 2012

Meðferð kæru Vantrúar í höndum Þórðar Harðarsonar o.fl. í siðanefnd HÍ

Aths. 27. febrúar: Ég hef tekið saman allar bloggfærslurnar um kæru Vantrúar gegn Bjarna Randver og störf siðanefndar HÍ í eitt pdf-skjal, sem hér er krækt í. 

Í stuttu máli má segja að málsmeðferð siðanefndar undir stjórn Þórðar Harðarsonar hafi einkennst af því að sniðganga hinn kærða, Bjarna Randver Sigurvinsson, með öllu en reyna að neyða guðfræði- og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands til að sakfella Bjarna opinberlega. Allt var þetta unnið undir yfirskini sáttfýsi og sáttaumleitana.Guðfræði- og trúarbragðafræðideild hafði lokið sinni umfjöllun um kæru Vantrúar til deildarinnar með bréfi til Vantrúar þann 9. mars 2010, þess óvitandi að Vantrú hefði einnig kært Bjarna Randver fyrir siðanefnd. En svo virðist sem formaður siðanefndar HÍ hafi reynt að þvinga guðfræði- og trúarbragðardeildtil frekari þátttöku í málinu með því hóta að ella myndi siðanefndin úrskurða að Bjarni Randver hefði brotið siðareglur HÍ. Það hefði haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir frama Bjarna Randvers sem fræðimanns og kennara. Til þessa hefur Þórður Harðarson líklega haft fulltingi Þorsteins Vilhjálmssonar, sbr. tilvitnun í Þorstein neðst í þessari færslu, en erfitt er að vita hvort þriðji fulltrúinn í siðanefnd fylgdi þeim að málum eða lögfræðingarnir sem sátu fundi siðanefndar.

Um þetta segir Pétur Pétursson í greininni Rangfærslur Þórðar Harðarsonar formanns siðanefndar H.Í. í Morgunblaðinu 9. desember 2011 (hér er krækt í greinina á mbl.is en hún er einungis aðgengileg kaupendum Morgunblaðsins):
 

Það er rétt sem Þórður segir í greinargerð sinni að ég vonaðist eftir sáttum en sáttaviljinn hjá honum var yfirskin eitt. Þetta var mér fljótt ljóst. Ég sagði mig þá frá þessum skrípaleik með eftirfarandi bréfi til næsta yfirmanns míns, Ástráðs Eysteinssonar forseta Hugvísindasviðs. Bréfið er stílað 27. apríl 2010. Á þeim tíma sátu með Þórði í siðanefnd prófessorarnir Sigríður Þorgeirsdóttir og Þorsteinn Vilhjálmsson.

„Með þessu bréfi tel ég beinni eða formlegri aðild minni að málinu lokið. Ég beitti mér mjög fyrir sáttamöguleikanum vegna þess að Þórður og aðrir nefndarmenn gerðu mér það alveg skýrt að nefndin mundi gera athugasemdir við glærur Bjarna. Þórður staðfesti það enn og aftur við mig í símtali í gær. Ég vildi ganga langt til að forðast það því það mundi skaða stöðu Bjarna sem fræðimanns og kennara og um leið vera áfellisdómur yfir þeirri stefnu og starfi sem ég hef staðið fyrir í uppbyggingu trúarbragðafræða við deildina frá því að mér var falin forstaða þeirra af deildarfundi fyrir tæpum áratug. Hvað eftir annað hef ég reynt að koma sjónarmiðum Bjarna að t.d. með því að fara á heimili formannsins með leiðbeiningarbréf Bjarna til nemenda í umræddu námskeiði þar sem hann útskýrir hvernig nemendur eigi vinna með þessar glærur og skoða þær á gagnrýninn hátt. Ég lét einnig senda þetta sama bréf til annars nefndarmanna. Í símtali í gær staðfestir Sigríður að hún viti ekkert af þessu bréfi. Það virðist ekki enn vera meðal þeirra gagna sem nefndin vinnur með í þessu máli. Ég hef einnig fundið fyrir því að nefndarmenn virðast líta á þetta mál eins og einhverskonar uppgjör milli félagsins Vantrúar og „guðfræðideildar“ sem mér finnst vera út í hött. Ég er í raun furðu lostinn yfir þessum vinnubrögðum.“

Þórður Harðarson telur sig ekki hafa neitt vald sem formaður siðanefndar og starfa eingöngu í sáttahug. Hvorugt er rétt. Áminning af hálfu siðanefndar gerir út um frama viðkomandi einstaklings innan háskólasamfélagsins.

 

 
 

Samskipti Þórðar Harðarsonar, formanns siðanefndar HÍ og Reynis Harðarsonar sálfræðings, formanns Vantrúar

Þótt Þórður Harðarson formaður siðanefndar HÍ hefði ekkert samband við hinn kærða, Bjarna Randver Sigurvinsson, hafði hann töluverð samskipti við fulltrúa kæranda, Reyni Harðarson sálfræðing. Heimild mín fyrir samskiptum þeirra er Tímatafla í kærumáli Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (nr. 1/2010), óopinbert skjal í vinnslu sem ég hef heimild Bjarna Randvers til að vitna í. Hér eftir verður vísað til þess sem Tímatöflu Bjarna Randvers. Heimild Bjarna Randvers fyrir samskiptum Þórðar Harðarsonar og Reynis Harðarsonar eru ummæli hins síðarnefnda á spjallþræðinum „Söguskoðun Bjarna Randvers“. Ég auðkenni beinar tilvitnanir Bjarna Randvers í þennan spjallþráð með rauðum lit.

 

Eins og getið var í fyrri færslu samþykkti siðanefnd HÍ umboð handa Þórði Harðarsyni formanni til þess að hafa samband við Reyni Harðarson formann Vantrúar, á sínum fyrsta fundi um kærumálið gegn Bjarna Randver Sigurvinssyni, þann 25. mars 2010. Þórður hringdi í Reyni þann 6. apríl 2010 og bauð honum að koma á óformlegan fund heim til sín daginn eftir þar sem þeir gætu rætt málin einslega.

   

* Eftir þennan klukkutíma langa fund sagði Reynir Harðarson félögum sínum af honum á spjallþræðinum „Söguskoðun Bjarna Randvers“. Að sögn Reynis tilkynnti Þórður að siðanefndarmönnum væri verulega brugðið yfir kennsluefninu og líkleg niðurstaða nefndarinnar verði að um brot sé að ræða. Siðanefnd vilji samt að Guðfræði- og trúarbragðafræðideild sættist við Vantrú með því að lýsa yfir að kennsluefnið gefi „ranga og villandi mynd af félaginu Vantrú, trúleysi og einstaklingum tengdum hvoru tveggja“ og muni Þórður skrifa uppkastið að slíkri sátt. Jafnframt hafi Þórður tekið undir þau orð Reynis að það sé „lélegt“ að Vantrú sé ekki þegar búin að fá þau skilaboð frá Guðfræði- og trúarbragðafræðideild. Loks tilkynnti Þórður Reyni að „það væri í raun stærri sigur fyrir [Vantrú] að fá viðurkenningu á því að illa hafi verið staðið að verki frá guðfræðideild í stað þess að einn stundakennari fengi ákúrur fyrir að hafa ekki staðið sig“. Það sem Guðfræði- og trúarbragðafræðideild þyrfti að gera væri að „fórna bara BR“.

Reynir Harðarson mat þetta svo í endursögn sinni á fundinum að þetta væru bara vopn í vopnabúr félagsins þar sem vantrúarfélagar gætu þá „hæðst að þeirri afgreiðslu deildarinnar“. Í framhaldi af greinargerð sinni um samtalið við Þórð Harðarson segir Reynir að afgreiðsla nefndarinnar yrði líklega sigur en sættir yrðu mikið til á forsendu Vantrúar og yrðu þær þá ekki leynisættir heldur gætu vantrúarfélagar „flaggað játningu deildarinnar hvar og hvernig“ sem þeir vilja. Að lokum segir Reynir að Þórður Harðarson virðist alfarið á skoðun Vantrúar í málinu. 

Um þennan fund segir Þórður Harðarson formaður siðanefndar HÍ:
 

Í byrjun apríl þá Reynir Harðarson (RH) heimboð formanns. Hann tók ekki ólíklega í sættir, þótt síðar kæmi í ljós, að ekki voru allir samherjar hans fylgjandi þeim. Bæði PP og RH skildu, að einhvers konar tilslökun hlyti að koma til sögunnar hjá guðfræðideild eða BRS í skiptum fyrir, að Vantrú drægi kæruna til baka. Hinn 14. apríl var kæra Vantrúar til umræðu á deildarfundi guðfræðideildar. Þar mun hafa verið rætt um möguleika á sáttum.
(Þórður Harðarson. Greinargerð í siðanefndarmáli. Morgunblaðinu 8. desember 2011. Hér er krækt í greinargerðina á vef Vantrúar.)

   

Þegar hér var komið sögu hafði Þórður Harðarson ekki fengið nein gögn frá hinum kærða í málinu ef undan er skilið bréf Bjarna Randvers til nemenda sinna í desember 2009, sem Pétur Pétursson afhenti honum að eigin frumkvæði. Það er merkilegt að siðanefndin skuli hafa ákveðið eftir einn fund (og án þess að bóka það í fundargerð) að guðfræði- og trúarbragðafræðideild skyldi sættast við félagið Vantrú, sérstaklega í ljósi þess að Vantrú kærði ekki þessa deild fyrir siðanefnd HÍ. Þórður virðist strax hafa haft mjög mótaða skoðun á málinu án þess að hafa kynnt sér málsgögn sem gengur auðvitað þvert á starfsreglur siðanefndar HÍ, hafi Reynir Harðarson rétt eftir honum.

 

* Þann 13. apríl 2010 hringdi Reynir Harðarson formaður Vantrúar í Þórð Harðarson formann siðanefndar HÍ til að kvarta undan því að Pétur Pétursson deildarforseti guðfræði- og trúarbragðadeildar hafi ekki svarað bréfum hans.

 

* Þremur dögum síðar, 16. apríl 2010, hringdi Þórður svo í Reyni. Í lýsingu Reynis á samtalinu við Þórð á innri vefnum segir m.a.: „Staða BR er orðin afar þröng og slæm - sama má segja um Pétur (og Hjalta). Þessar hugmyndir um fund um einstakar glærur virðist frá BR komin - og það er erfitt fyrir Pétur að standa gegn því að BR fái að sprikla. BR er með einhverjar hugmyndir um málþing mikilsmetandi manna um Vantrú - veit svo sem ekki mikið meira um það. Þórður sagði Pétri að hann hefði miklar efasemdir um að mikið kæmi út úr fundi okkar með BR (og Pétri) og hann óttaðist að allt færi í hund og kött. [- - -] Þórður sagði að hann og nefndin gæti auðvitað ekki lagst gegn því að menn töluðu saman og ef menn næðu sáttum fyrir utan nefndina væri það auðvitað hið besta mál. Hann leggur til að við förum til fundar við þessa menn, án aðkomu nefndarinnar - og heyrum hvað þeir hafa að segja án þess að fara út í miklar samræður við BR og alls ekki deilur. Ef okkur finnst lítið til hugmyndanna koma lítum við og Þórður svo á að sáttaferlið sé ennþá í gangi í nefndinni.

   

* Þórður Harðarson hringdi svo aftur í Reyni Harðarson sama dag og fagnaði því að Pétur Pétursson hefði hætt við að halda fund með Bjarna Randveri Sigurvinssyni og vantrúarfélögum. Jafnframt benti Þórður Reyni á að „sáttatillaga“ siðanefndar HÍ (þar sem guðfræði- og trúarbragðafræðideild HÍ væri neydd til að sættast við Vantrú) yrði birt á vef háskólans þar sem fjölmiðlar hefðu aðgang að henni og geti vantrúarfélagar gætu notað hana eins og þá lysti.

   

*  19. apríl 2010 kemur fram á spjallþræði Vantrúar, „Söguskoðun Bjarna Randvers“ að  Þórður Harðarson hafi „óvart“ framsent bréfaskipti Péturs Péturssonar og sín til Vantrúar þar sem Pétur var að upplýsa Þórð um hvernig Bjarni Randver sæi fyrir sér möguleika til að koma til móts við félagið Vantrú.

   

26. apríl 2010 tilkynnti Reynir Harðarson formaður Vantrúar að hann hafi fengið hringingu frá Þórði Harðarsyni. Þar segist Reynir hafa hafnað hugmyndinni um „málþing og bla bla“ og hafa áréttað „að hugmyndir um samstarf með BR, útgáfu rits með hans hugmyndum (auk okkar að vísu) væri ekki mjög traustvekjandi“. Jafnframt lætur hann vantrúarfélaga vita að „eftir niðurstöðu nefndarinnar getum við auðvitað frábeðið nokkra aðkomu BR“ í tengslum við hugsanlega „ráðstefnu og rit“. Að sögn Reynis sagði Þórður að Guðni Elísson prófessor „færi nú mikinn og væri afar umhugað um akademískt frelsi kennara“ en sjálfur liti hann svo á að frelsið væri ekki ótakmarkað. Reynir áréttar að afstaða Þórðar sé „jafnskýr og áður“.

   

* 29. apríl 2010 svaraði Þórður Harðarson  netbréfi Reynis Harðarsonar formanns Vantrúar með því að tilkynna að „sáttatilraunum“ hennar sé lokið og verði málið tekið til efnislegrar meðferðar á næstu dögum. Jafnframt minnti Þórður á það þegar hann hringdi í Reyni „til að útskýra mína sýn á stöðu mála í kjölfar fundarins í guðfræðideild“. Loks þakkaði Þórður Reyni fyrir „hnökralaus samskipti“ og sagðist vona að siðanefndin kæmist að farsælli niðurstöðu.

   

* 18. maí 2010 trúði Þórður Harðarson Reyni Harðarsyni formanni Vantrúar fyrir því bréfleiðis að hann mundi kannski segja sig frá málinu í vikulok en hann ætti eftir að tilkynna siðanefnd það og heyra aftur í rektor.

   

* 8. júní 2010 hringdi Reynir Harðarson í Þórð Harðarson sem trúði honum fyrir því að ef Guðni Elísson prófessor drægi ekki „kvörtun sína skilyrðislaust og að fullu til baka“ myndi hann segja af sér sem formaður siðanefndar daginn eftir.
 
 
 

Óháða nefndin sem skipuð var að frumkvæði Háskólaráðs segir um háttalag Þórðar Harðarsonar og fleiri í siðanefndinni:

Samskipti einstakra nefndarmanna við málsaðila áttu sér stað utan formlegra funda nefndarinnar. Formleysi af þessum toga dregur úr gagnsæi og er til þess fallið að veikja nauðsynlegt traust aðila til siðanefndarinnar. Nefndin gerir alvarlegar athugasemdir við þetta verklag siðanefndarinnar.

(Sjá Skýrslu óháðrar nefndar um mál siðanefndar Háskóla Íslands nr. 1/2010, aðdraganda þess og málsmeðferð. September 2011, s. 40-41. Hér eftir verður vísað í þetta plagg sem Skýrslu óháðu nefndarinnar.)

   

Ég veit ekki að hve miklu leyti óháða nefndin er að vísa til þessara samskipta Þórðar Harðarsonar og Reynis Harðarsonar. Þar sem ólíklegt verður að teljast að guðfræði-og trúarbragðafræðdeild hafi verið málsaðili í kærumálinu sem siðanefndin vann í er efitt að meta hvort óháða nefndin taldi samskipti við Hjalta Hugason og Pétur Pétursson hér með. Samskiptin við sakborninginn Bjarna Randver voru eitt símtal, þ.e. Bjarni Randver hringdi í Þórð Harðarson 14. apríl 2010, að ráði Péturs Péturssonar. 
  
 

  
 
Stefna siðanefndar og störf hennar í formannstíð Þórðar Harðarsonar
 

Þann 31. mars 2010 ræddi Pétur Pétursson deildarforseti guðfræði- og trúarbragðafræðideildar við Þorstein Vilhjálmsson siðanefndarfulltrúa í síma. Pétur mat út frá því samtali að Bjarni Randver Sigurvinsson yrði dæmdur af siðanefndinni. T.d. gerði Þorsteinn honum grein fyrir alvarleika þess að vitna í biblíuritskýringar Níelsar Dungals prófessors. (Tímatafla Bjarna Randvers.)
 

Á öðrum fundi siðanefndar HÍ þann 15. apríl 2010 segir skv. fundargerð að rædd hafi verið sáttaleið sem fæli í sér yfirlýsingu frá Guðfræði og trúarbragðafræðideild, gegn því málið yrði dregið til baka. „Starfandi forseti Guðfræði- og trúarbragðafræðideildar sem kemur fram í þessu máli f.h. Bjarna“, hafi fallist á óformlega á þessa leið. Síðan muni siðanefnd birta fréttatilkynningu á vef Háskóla Íslands um að sátt hafi náðst í málinu og skuli guðfræði-og trúarbragaðdeild og siðanefnd HÍ koma sér saman um orðalag tilkynningarinnar.

   

Daginn áður hafði Þórður Harðarson hringt í Pétur Pétursson forseta guðfræði-og trúarbragðafræðideildar og tilkynnt honum hvernig siðanefndin muni afgreiða málið og lesið fyrir hann drög að sáttatillögunni. Pétur Pétursson kom alls ekki fram í þessu máli „fyrir hönd Bjarna Randvers“ og Pétri hefur líklega ekki dottið sú túlkun Þórðar Harðarsonar í hug, sem var byggð á ónákvæmu minnisbréfi til að leiðrétta hugmynd Þórðar um hver væri í forsæti deildarinnar. Pétur hefur líklega talið að Þórður hringdi í sig sem forseta deildarinnar. Honum brá mjög við tíðindin, hringdi tafarlaust í Bjarna Randver Sigurvinsson og hvatti hann til að hafa strax samband við Þórð Harðarson, gera honum grein fyrir sjónarmiðum sínum og fá hann til að hætta við þessa afgreiðslu málsins. Það gerði Bjarni Randver, snemma kvölds fyrir þennan fund siðanefndar. Bjarni skrifaði minnispunkta um símtalið strax að því loknu og í þeim segir:

Þórður Harðarson reyndist kurteis í viðmóti á yfirborðinu en afdráttarlaus. Hann hafði engan áhuga á að hitta mig og ræða málin við mig. Þess í stað sagði hann að ég ætti eingöngu að ræða við Pétur Pétursson um málið og láta í ljós afstöðu mína við hann. Í raun hefði ég þó ekkert um málið að segja því að það væri í höndum deildarinnar að skera úr um tilhögun kennslu minnar með þeirri yfirlýsingu sem siðanefndin legði fram. Hann játti því að yfirlýsingin fæli í sér áfellisdóm yfir mér og kennslu minni og sagði mér að þessi niðurstaða væri mér fyrir bestu því að siðanefndin liti glærurnar frá mér svo alvarlegum eða illum augum að það gæti komið mér verulega illa ef málið yrði tekið fyrir með formlegum hætti hjá siðanefndinni. Ég mótmælti því (eins kurteislega og mér var unnt) að ég hefði dregið upp ósanngjarna mynd af Vantrú og sagðist ekki sætta mig við það að deildin myndi gefa út yfirlýsingu þess efnis. Jafnframt lýsti ég því yfir að ég stæði við glærurnar og teldi í versta falli hægt að tala um örfá atriði sem álitamál eða smekksatriði. Ég hefði hins vegar á engan hátt brotið siðareglur HÍ. Þegar ég greindi Þórði frá því að ég væri að vinna ítarlega greinargerð til að svara gagnrýni vantrúarmanna á mig og væri svo til búinn með kaflann um Helga Hóseasson sem ég myndi gjarnan vilja fá að senda á hann reyndist hann með öllu áhugalaus, sagði að það ritverk gæti gagnast ef málið yrði tekið formlega fyrir og yrði þá mögulega birt á vettvangi háskólans en eins og staðan væri núna væri ekki þörf á því.
[- - -]
Ég reyndi að gera Þórði grein fyrir þeirri sáttaleið sem ég hef ávallt haldið á lofti gagnvart Pétri Péturssyni og öðrum kennurum deildarinnar þess efnis að hafa m.a. samvinnu við Vantrú um tilhögun kennsluefnisins en kom aðeins hluta þess til skila með herkjum því að hann sýndi engan áhuga á því sem ég hafði að segja. Hann sagði aðeins að ef deildin kæmist að einhvers konar samkomulagi við Vantrú sem fæli í sér að kæran yrði dregin til baka væri málið komið út af borði hans. Símtalið við Þórð Harðarson var mér mikil og sár vonbrigði. Augljóst var af máli hans að hann og aðrir nefndarmenn höfðu þegar gert upp huga sinn hvað varðar kæruna á hendur mér og metið stöðuna þannig að ég hafi klárlega brotið af mér. Hann hafði þegar rætt við Reyni Harðarson en sýndi engan áhuga á að ræða við mig eða kynna sér málflutning minn og hafnaði því raunar alfarið að funda með mér. Þvert á móti væri ætlast til þess að Guðfræði- og trúarbragðafræðideildin myndi hlýta fyrirmælum siðarnefndarinnar um svo kallaðar „sættir“ sem fælu það í sér að mér yrði veitt efnisleg áminning fyrir kennsluna opinberlega, þ.e. að deildin felli yfir mér áfellisdóm eins og það var orðað. Það væri mér fyrir bestu því að ella gæti ég og jafnvel deildin líka hlotið verra af.
(Minnispunktar! Símtal við Þórð Harðarson, formann Siðanefndar HÍ, skömmu fyrir kvöldmat miðvikudaginn 14. apríl 2010. Þeir eru í skjalinu Ýmis skjöl frá hinum kærða. Vegna kæru Vantrúar á hendur Bjarna Randveri Sigurvinssyni stundakennara fyrir Siðanefnd HÍ (kærumál nr. 1/2010) sem er óopinbert skjal í vinnslu en ég hef leyfi Bjarna Randvers til að vitna í.)

Um þetta símtal og fleira segir Þórður Harðarson: 

Hinn 14. apríl var kæra Vantrúar til umræðu á deildarfundi guðfræðideildar. Þar mun hafa verið rætt um möguleika á sáttum.

Sama dag eða daginn eftir ræddi formaður við PP um sáttatexta og féllst hann efnislega á tillögu að inntaki textans. BRS hringdi í formann, sem sagði honum, að hann ætti að sjálfsögðu óskoraðan andmælarétt, en ekki væri tímabært að nefndin fjallaði efnislega um málið meðan fulltrúar guðfræðideildar og Vantrúar reyndu að ná sáttum. BRS virðist síðar hafa misskilið þetta þannig, að formaður hafi neitað að ræða við hann yfirleitt.
 (Þórður Harðarson. Greinargerð í siðanefndarmáli. Morgunblaðið 8. desember 2011. Hér er krækt í greinargerðina á vef Vantrúar.)

 

Um afgreiðslu guðfræði- og trúarbragðafræðideildar á málinu, þ.á.m. þessum sáttatexta sem Þórður minnist á, segir í Skýrslu óháðu nefndarinnar:

Í fundargerð deildarfundar í guðfræði- og trúarbragðafræðideild sem haldinn var 14. apríl 2010 kemur fram undir dagskrárliðnum „bókuð bréf og erindi“ að erindi Vantrúar og svar Péturs til þeirra hafi verið lagt fram og að deildarforseti hafi gert grein fyrir málinu. Fundarmönnum var boðið að ræða málið undir liðnum „önnur mál“ en ekkert var skráð í fundargerð um innihald þeirra. (Skýrsla óháðu nefndarinnar s. 52.) [ - - - ] Að mati [óháðu] nefndarinnar var erindi Vantrúar til guðfræði- og trúarbragðafræðideildar, dags. 4. febrúar 2010, svarað með tölvupósti deildarforseta deildarinnar 9. mars 2010. Aðkoma starfsmanna guðfræði- og trúarbragðafræðideildar síðar hafi fyrst og fremst verið einstaklingsbundin í tengslum við beiðnir frá þv. formanni siðanefndar deildarinnar. Verður ráðið að áform þeirra hafi verið að leita sátta í málinu í þeirri trú að þannig yrði gætt hagsmuna hins kærða. (Skýrsla óháðu nefndarinnar, s. 55.)

Þannig að Þórður Harðarson virðist hafa oftúlkað afgreiðslu guðfræði- og trúarbragðafræðideildar á tillögum hans að sáttatexta. Væntanlega er bókunin á öðrum fundi siðanefndar um málið, þann 15. apríl, byggð á upplýsingum Þórðar enda endurtekur hann sömu staðhæfingar í greinargerðinni sem hann birti í desember 2011:
 

Annar fundur siðanefndar var haldinn 15. apríl. Formaður kynnti, að PP hefði fallist óformlega á sáttaleið, sem fæli í sér yfirlýsingu frá GT, gegn því að málið yrði dregið til baka. Lögfræðingur háskólans benti á andmælarétt Bjarna sem guðfræðideild þyrfti að veita honum áður en málið væri afgreitt í siðanefnd og yfirlýsing birt.
(Þórður Harðarson. Greinargerð í siðanefndarmáli. Morgunblaðið 8. desember 2011. Hér er krækt í greinargerðina á vef Vantrúar.)

 
Til þessa hafði siðanefnd HÍ ekki hugkvæmst að hafa samband við hinn kærða en á þessum öðrum fundi hennar þann 15. apríl 2010 voru viðstaddir tveir lögfræðingar, Jónatan Þórmundsson og Ingibjörg Halldórsdóttir, og benti sá síðarnefndi á að „Guðfræðideild“ þyrfti að veita Bjarna Randveri andmælarétt áður en málið yrði afgreitt í siðanefnd og og yfirlýsing birt. (Þetta var svo gert með bréfi siðanefndar HÍ dagsettu 29. apríl 2010, sem fyrir handvömm barst Bjarna Randveri ekki fyrr en þann 10. maí 2010).

Daginn eftir þennan fund, þann 16. apríl 2010, lagði Þórður Harðarson fram tillögu að sáttayfirlýsingu í bréfi, þeirri sömu og hann hafði lesið drög að fyrir Pétur Pétursson daginn fyrir fundinn og kynnt Reyni Harðarsyni formanni Vantrúar þann 13. apríl 2010. Bréf Þórðar var svona:

Sæl öll, (sendi þennan póst til nefndarmanna, málsaðila og lögfræðinganna Ingibjargar og Jónatans).

Vísa til síðasta bréfs Péturs Péturssonar. Þar kemur fram, að kennarafundur verði haldinn í guðfræðideild á miðvikudaginn [21. apríl] m.a. til að fjalla um hugmynd siðanefndar að sáttum. Farið er fram á drög á sáttabréfi.

Eftirfarandi tillögu að sáttabréfi hef ég nú borið óformlega undir Pétur Pétursson og Reyni Harðarson og hafa báðir lýst jákvæðri afstöðu til þess. Siðanefnd er ekki tilbúin að gera róttækar breytingar á tillögunni, nema ljóst sé að báðir aðilar telji þær til bóta. Hins vegar gætu minni háttar orðalagsbreytingar verið til skoðunar, ef brýna nauðsyn ber til slíkra breytinga.
 

 Reykjavík ————

Meðal kennsluefnis guðfræðideildar Háskóla Íslands er námskeiðið Nýtrúarhreyfingar. Bjarni Randver Sigurvinsson hefur annast kennslu á námskeiðinu.Með bréfi dagsettu 4. febrúar 2010 barst siðanefnd Háskóla Íslands erindi frá Reyni Harðasyni sálfræðingi fyrir hönd félagsins Vantrúar, þar sem kennsluefni, sem snerti félagið var gagnrýnt með ýmsum hætti.

Að beiðni siðanefndarinnar hafa deildarforseti og varadeildarforseti guðfræðideildar farið yfir umrætt kennsluefni.

Þeir viðurkenna og harma, að kennsluefnið felur ekki í sér hlutlæga og sanngjarna umfjöllun um félagið Vantrú, málstað þess og einstaka félagsmenn. Athugasemdir Reynir [svo] Harðarsonar og samtaka hans verða teknar til jákvæðar skoðunar, þegar og ef til þess kemur, að námskeiðið verði endurtekið.
 

 Pétur Pétursson (og Hjalti Hugason?)

Jafnframt og samtímis þessari yfirlýsingu gerir siðanefnd ráð fyrir yfirlýsingu frá Reyni Harðasyni (formaður hefur rætt það við Reyni), þar sem erindi hans til siðanefndar er dregið til baka.

Í ljósi ofangreindrar yfirlýsingar frá guðfræðideil [svo]  Háskóla Íslands dreg ég til baka erindi mitt til siðanefndar Háskóla Íslands dags 4 [svo] febrúar 2010.

 Reynir Harðarson.

 (Skýrsla óháðu nefndarinnar, s. 37-38. Feitletrun mín. Ég veit ekki hvort stafsetningar- og innsláttarvillur eru í frumritum eða hvort þær eru á ábyrgð óháðu nefndarinnar.)
 
 

 
Kennararfundur í guðfræði- og trúarbragðafræðideild hafnaði því að þessi sakfellandi sáttatillaga væri afgreidd í nafni deildarinnar. Í bréfi til Þórðar Harðarsonar þann 21. apríl 2010 lýsti Pétur Pétursson þessu og ítrekaði að Bjarni Randver sé tilbúinn að funda með Vantrú um glærurnar sem félagið kvartaði yfir og að bæði hann og Pétur séu tilbúnir í samstarf við Vantrú um umræðu á akademískum vettvangi. Að öðru leyti vísaði Pétur í afgreiðslu deildarinnar á kæru Vantrúar frá 9. mars 2010.

   

Þórður svaraði Pétri þann 26. apríl 2010 og sagði m.a.: „Siðanefnd virðist, að með því sé hafnað þeim drögum að yfirlýsingu, sem nefndin taldi að aðilar væru sáttir við. Þar með er ekki sagt, að sættir komi ekki til greina.“ (Skýrsla óháðu nefndarinnar, s. 38.)
 

Þriðji fundur siðanefndar HÍ var haldinn 6. maí 2010. Á honum voru samþykktar fundargerðir fyrsta og annars fundar „með orðalagsbreytingum“. Þess ber að geta að þegar lögmaður Bjarna Randvers Sigurvinssonar fékk fundargerðir fyrsta og annars fundar loksins afhentar fékk hann þessar samþykktu fundargerðir „með orðalagsbreytingum“ en aftur á móti hefur óháða nefndin sem skipuð var af Háskólaráði fengið frumgögn. Þ.a.l. er ljóst að málsgrein sem bókuð var upphaflega í fundargerð fyrsta fundar siðaefndar 28. mars, um „að fyrir næsta fund hennar myndi Þorsteinn Vilhjálmsson skoða heimasíðu Vantrúar og Sigríður athuga fordæmi“ hefur verið felld út. (Sjá Skýrslu óháðu nefndarinnar, s. 35.) Svoleiðis ritskoðun kalla ég, sem íslenskufræðingur, ekki „orðalagsbreytingu“. Væri gaman að vita hvort fleiri heilar málsgreinar hafi verið felldar úr fundargerðunum.

Á þessum þriðja fundi var annars fjallað um bréf Péturs Péturssonar um umfjöllun málsins í guðfræði- og trúarbragðafræðideild og núna loksins lagt fram bréf Bjarna Randvers Sigurvinssonar til nemenda sinna, bréfið sem Pétur Pétursson afhenti Þórði Harðarsyni þann 23. mars 2010. Lagt var fram bréf frá Guðna Elíssyni sem hann skrifaði fyrir hönd 22 kennara og doktorsnema við Hugvísindasvið HÍ til siðanefndar. Að því búnu er bókað: „Málið var rætt og áhersla lögð á að farið sé að formreglum stjórnsýslulaga um meðferð þess. Áréttað var að öðrum en málsaðilum verði haldið utan við málið á vettvangi siðanefndar.“ Loks var bent á að frestur Bjarna Randvers til andmæla væri liðinn og ekkert hefði frá honum heyrst. [Skýringin var sú að Bjarna Randveri hafði ekki borist bréf siðanefndar því það var sett í rangt pósthólf.] Ákveðið var að hafa aftur samband við Bjarna Randver, að siðanefnd „fari fyrir [svo] andmælin“ og síðan verði málsaðilar kallaðir á fund siðanefndar, fyrst kærandi. Þessi fundargerð var samþykkt á næsta fundi siðanefndar, þann 1. júní 2010.

   

Þann 17. maí 2010 skilaði Bjarni Randver Sigurvinsson skýrslunni Svar við kæru Vantrúar til Amalíu Skúladóttur ritara siðanefndar HÍ (sömu skýrslunni og hann hafði boðið Þórði Harðarsyni formanni siðanefndar rúmum mánuði áður en Þórður hafði engan áhuga á). Málsmeðferð siðanefndar spurðist æ víðar út innan Háskóla Íslands.

Þann 12. maí fór Þórður Harðarson formaður Siðanefndar HÍ á fund Kristínar Ingólfsdóttur rektors HÍ og gerði henni grein fyrir þeim möguleika að hann segði af sér í kærumálinu.

Þann 14. maí 2010 sendi formaður Vantrúar tölvuskeyti til siðanefndar þar sem eftirfarandi kom fram:

Okkur í Vantrú þætti vænt um að fá formlegar upplýsingar um stöðu málsins.

Við höfum heyrt af upphlaupi nokkurra kennara í Hugvísindadeild, sem eru ekki aðilar að málinu. Okkur skilst að þeir hafi sent frá sér ályktun þar sem talað er um „úrskurð „ eða“ niðurstöðu“ siðanefndar, þótt hún hafi engan úrskurð kveðið eða komist að niðurstöðu.

Siðanefnd reyndi sættir og sættir hljóta að fela í sér að komið sé til móts við þann sem telur á sér brotið, annað er frávísun eða hunsun. Ekki hefði verið látið reyna á þessari sættir án þess að forseti guðfræði- og trúarbragðafræðideildar teldi þær réttan leik [í] stöðunni.

Við hörmum ef bornar voru brigður á heilindi nefndarmanna í þessu máli af óviðkomandi aðilum, algjörlega að ósekju. Við vonum að nefndin fái að sinna störfum sínum óáreitt og að enginn dómur verði kveðinn upp um störf hennar fyrr en hún hefur lokið þeim störfum.

Aðfinnslur og athugasemdir einhvers þrýstihóps innan háskólans eru í hæsta máta óeðlilegar á þessu stigi málsins og afar sérkennilegt ef reyna á með þessu hætti að hafa áhrif á niðurstöðu nefndarinnar, vægast sagt. Takist það er allt málið í uppnámi frá upphafi til enda.

Á Vantrú að treysta niðurstöðu siðanefndar sem er sérskipuð með tilliti til kvörtunar manna sem telja sig máið [svo] varða innan Háskóla Íslands?. [svo] 
 (Skýrsla óháðu nefndarinnar s. 39-40.)

Fjórði fundur Siðanefndar HÍ var haldinn þann 1. júní 2010. Ingibjörg Halldórsdóttir lögfræðingur HÍ var viðstödd. Þórður Harðarson formaður nefndarinnar féllst á að fresta afsögn sinni og hugleiða málið frekar. Ingibjörgu var falið að hafa samband við Bjarna Randver Sigurvinsson áður en greinargerðin Svar við kæru Vantrúar væri send til Vantrúar til umsagnar. (Þessi fundargerð var ekki afhent Bjarna Randveri Sigurvinssyni fyrr en 10. nóvember 2011 þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir. Sú skýring var gefin að fundargerðin hafi aldrei verið samþykkt af Siðanefnd HÍ. Á næsta fundi nefndarinnar var nefnilega frestað að samþykkja þessa fundargerð og svo virðist hún hreinlega hafa gleymst.)

Þann 9. júní 2010 sagði Þórður Harðarson af sér sem formaður siðanefndar HÍ.

Í tengslum við afsögn sína afhenti formaður siðanefndar rektor minnisblað í tengslum við ákvörðun sína, en þar segir m.a.:

„Miklu moldvirði [svo] hefur verið þyrlað upp í tengslum við umfjöllun og vinnubrögð siðanefndar í þessu máli. Einkum hefur verið veist að formanni siðanefndar, þar sem hann hafði tekið að sér hið viðkvæma hlutverk sáttasemjarans. Formaður telur sig hafa hreinan skjöld, en það virðist ekki álit stórs hóps kennara á hugvísindasviði, sem hafði raunar ekki talið nauðsynlegt að leita sjónarmiða formannsins. Formaður er sakaður um að hafa tekið afstöðu í kærumálinu án þess að kynna sér nauðsynleg gögn. Svör formanns að verkefni hans hafi í upphafi einungis verið hefðbundið sáttasemjarahlutverk og að málið hafi alls ekki verið tekið enn til efnislegrar umfjöllunar taka umræddir kennarar ekki gild.

Miklu skiptir, að siðanefnd njóti óskoraðs trausts í háskólasamfélaginu. Ekki er það síst mikilsvert í nánasta starfsumhverfi deiluaðila. Slíkt traust virðist ekki fyrir hendi á hugvísindasviði.

Hætt er við, að niðurstaða núverandi siðanefndar verði tortryggð, hvernig sem henni verður háttað. Verði umrædd kennslugögn talin fela í sér brot á siðareglum, getur það túlkast sem staðfesting á því að siðanefnd hafi snemma tekið ótímabæra afstöðu á ónógum forsendum og geti ekki snúið við blaðinu.

Verði kennslugögnin hins vegar talin samrýmast siðareglum, má túlka það svo, að siðanefnd hafi látið undan ytri þrýstingsaðgerðum.

Formaður siðanefnda [svo] telur því affarasælast fyrir siðanefndina og háskólann, að hann segi sig frá málinu eða ný nefnd, sem skipuð verður í sumar taki málið til umfjöllunar.

Má eitthvað læra af þessu máli?

Kannski ætti sá boðskapur erindi við háskólasamfélagið, að siðanefnd Háskóla Íslands fái í framtíðinni frið til að fjalla um kærumál án ytri þrýstings og að menn geymi sér gagnrýni á störf nefndarinnar, þar til hún hefur lokið umfjöllun sinni. …„ [svo]
 (Skýrsla óháðu nefndarinnar, s. 40-41. Feitletrun mín.)

Afsögn Þórðar þurfti svo sem ekki að koma á óvart því félagið Vantrú hafði sent fimm síðna greinargerð til fjölda fjölmiðla skömmu áður en einungis Smugan birti eitthvað úr henni. Daginn áður en Þórður sagði af sér hafði yfirvofandi afsögn hans komið fram í þeirri frétt. Ennfremur kom fram í fréttinni að Þorsteinn Vilhjálmsson kenndi guðfræði- og trúarbragðafræðideild um að siðanefnd hafi ekki getað lokið málinu: 

Siðanefnd Háskólans reyndi sættir í málinu og samþykktu Reynir Harðarson, formaður Vantrúar, og Pétur Pétursson, forseti guðfræði- og trúarbragðadeildar að bera sáttatillögu undir sína menn. [- - -]

Sáttatillagan var hins vegar felld á kennarafundi guðfræði- og trúarbragðadeildar og samkvæmt heimildum Vantrúarmanna hefur Þórður Harðarson, formaður siðanefndar, íhugað afsögn nefndarinnar í kjölfar málsins – en Þórir [svo] var ekki tilbúinn til þess að tala við blaðamann um málið. [- - -]

Í augnablikinu er málið því í höndum siðanefndar – og eru bæði Vantrú og Bjarni Randver sammála um að þetta ferli hafi tekið óvenju langan tíma, en Reynir Harðarson, formaður Vantrúar, lýsir þessu svona: „Formaður siðanefndar, Þórður Harðarson, má ekki vamm sitt vita og vegna þessa hefur hann íhugað afsögn nefndarinnar vikum saman, en á meðan hefur nefndin auðvitað verið lömuð og ekkert gerist í málinu.“

Þetta telur Þorsteinn Vilhjálmsson, einn þriggja meðlima í Siðanefndinni, að sé misskilningur. „Vantrú  sendi kæru til siðanefndar og jafnframt til guðfræði- og trúarbragðadeildar. Það þurfti eiginlega að ljúka síðarnefnda málinu fyrst, og það er aðalástæðan fyrir töfum á störfum siðanefndar. En það er ekki alveg ljóst á þessari stundu hvernig framhaldið verður. Það er bréf á leiðinni til Reynis um þetta.“
(Vantrú deilir við guðfræðiprófessor í HÍ. Smugan 8. júní 2010. Hér er krækt í fréttina á Vefsafninu. Feitletrun mín.)

 

 

Vert er að minna á að guðfræði- og trúarbragðafræðideild afgreiddi kæru Vantrúar til deildarinnar með bréfi til Vantrúar þann 9. mars 2010.
 
 
 
 
 
 
 
 

Ummæli (38) | Óflokkað, Vantrú og siðanefnd HÍ