15. apríl 2012

Hráefni í lyfjakokteil

Ég gerði lista yfir þau lyf sem ég hef tekið frá árinu 2000 til dagsins í dag. Mögulega vantar eitthvað á þann lista. Lyfin eru (raðað í stafrófsröð):

Amilín, Anafranil, Buspiron Mylan, Cipralex, Efexor, Imovane, Lamictal, Litarex, Lyrica, Marplan, Míron (Remeron), Neurontin, Noritren, Nozinan, Ritalín, Rivotril, Seroquel, Seroxat, Solian, Truxal, Valdoxan, Wellbutrin.

Þetta eru ýmiss konar þunglyndislyf, úr SSRI-lyfjaflokknum, þríhringlaga þunglyndislyf og eitt MAO-lyf. En að auki er þarna að finna mörg lyf sem eru fyrst og fremst ætluð við flogaveiki, úttaugabólgu, geðrofi, geðhvarfasýki eða geðklofa. Eitt svefnlyf er í flórunni.

Úr þessu lyfjahráefni hafa verið hristir mismunandi kokteilar í gegnum tíðina. Enginn þeirra hefur gert verulegt gagn. Eina lyfið sem ég er viss um að hafi raunverulega virkað á þunglyndið er Valdoxan. Það virkaði í rúma þrjá mánuði en svo var sá draumurinn búinn og lyfið hefur ekki virkað síðan.

Mér hefur auðvitað oftast batnað á milli, fyrstu árin komu dýfurnar með löngu millibili og stóðu ekkert sérlega lengi. Eftir á séð er ég hreint ekki viss hvort lyfin sem ég tók hverju sinni skiptu nokkru máli til bata. Líklega hefði mér batnað jafn vel lyfjalausri. A.m.k. sýnist mér öruggt að lyfin hafi ekki virkað fyrirbyggjandi og þar sem ég hef ekki náð almennilegum bata síðan sumarið 2010 get ég ekki séð að það sé mikið gagn í þeim. Aftur á móti er heilmikið ógagn í þeim mörgum sem ég blogga betur um síðar.

2 ummæli við “Hráefni í lyfjakokteil”

  1. Theodór Gunnarsson ritar:

    Ég hef nokkrum sinnum verið settur á þuglyndislyf, en miðað við þína reynslu er ég auðvitað reynslulaus. Mínar geðlægðir hafa alltaf átt sér eðlilega utanaðkomandi skýringu. Ég hef einmitt komist að þeirri niðurstöðu að lyfin hafi ekki gert mér gang, heldur hafi ég einfaldlega bara jafnað mig. Seinast þegar ég var settur á Zoloft, eða eitthvað viðlíka, fann ég að lyfið orsakaði svo sterkar sjálfsmorðshugsanir, að ég hætti hið snarasta og hef ekki tekið neitt svona lagað síðan.

    Satt að segja er ég líka nokkuð viss um að þetta á við um svo margt annað sem fólk er að taka lyf við, og eins þegar fólk er að þakka alls konar kukli bata sinn. Það jafnar sig bara.

    Ég hef trú á að það geti gagnast bæði þér og öðrum að blogga um þetta. Gangi þér allt í haginn.

  2. Harpa Hreinsdóttir ritar:

    Takk Theodór :)