6. maí 2012

Skáld heimilisins

Tveir heimspekingarÉg renndi yfir helstu fréttir og blogg og datt ekkert í hug sem hægt væri að blogga um, ekkert merkilegt að ske, greinilega. En þótt ég sé svona skoðanalaus er skáld heimilisins, Fr. Jósefína Dietrich, mjög pólitísk og afdráttarlaus í skoðunum á mannlífinu og ýmsu öðru. Hún styttir sér stundir með yrkingum, milli sinna miklu mannfræðistúdía og tvíblindra atferlismeðferðarrannsókna. Það er því handhægt fyrir andlausan bloggara að blogga bókmenntafræðilega færslu um skáldmæringinn Jósefínu Dietrich. (Myndin sýnir tvo heimspekinga heimilisins … ætti að blasa við hvor er hærra settur.)

Jósefína orti í gær um Núbó nokkurn sem hún dáir mjög enda er sá gulur … og lét á sinni Facebook fylgja háðsglósu um ráðherra sem hún hefur nákvæmlega ekkert álit á (sá er hvorki gulur né duglegur að merkja):

Mín vegna má skömmin hann Ömmi vera á bömmer. Við þessi gulu stöndum saman:

Kominn upp á Núbós náð!
Nú fá gulir völdin hér!
Kátir eins’og kisa’að bráð
Kínverjarnir leika sér.

Jósefína deilir ekki skoðunum á forsetaframbjóðendum með neinum á þessu heimili enda grundvallar hún þær á öðru en við fávíst fólkið: “Mjá, mjá, mjá … búinn að mjálma meira en allir hinir til samans .. en það gildir ekki bara að mjálma … það þarf að merkja” segir hún um ákveðinn frambjóðanda sem henni er svona heldur í nöp við.  Í þessu eins og öðru ráðast skoðanir hennar af þeirri vissu að gulir séu bestir og að það fressið sem er duglegast að merkja sé réttborið yfirfress. Aðdáun sína greipir dýrið litla svo í kveðskap:

Einhver var að hlæja þegar ég kom inn
kannski að það hafi verið fressinn minn.
Jæja, nú jæja og látum hann hlæja
á Bessastaði fer hann nú í fimmta sinn.

Annað dæmi:

Fressið Dalai dásama ég daga’og nætur,
hversu langt það gengið getur,
geri aðrir lamar betur.

Bessastaða fagurt fressið frægast er,
mjög á staði marga fer
og merkir sér.

Þá sjaldan Fr. Dietrich nennir að tjá sig um trúmál sést að hún hugsar dýpra og er í sterkari tengslum við alheimsköttinn en nokkur af alþýðu heimilisins. T.d. þessi tilvitnun um daginn: „Og ég sá hundtík sitja á skarlatsrauðri ryksugu og hafði hún lafandi tungu og tíu skott.“ (Úr Opinberunarbók Jósefínu)”. Til að gleðja vissan lesendahóp bloggsins míns má og nefna að Jósefína tjáði sig auðvitað um hjálækningar og hindurvitni: “Mjá, mjá, mjá - sjálf hef ég gert tvö kraftaverk - annað með vísikló á vinstri loppu og hitt með rófunni - en það voru nú ekki gerðar heimildamyndir um það” og fékk þessa lýsandi athugasemd frá aðdáanda: “Þér eruð sjálf eitt gangandi kraftaverk mjá mjáhhhhhh.” Sem er vissulega rétt.

Jósefína er femínisti eins og sést á þessu ljóði:

Ég er fagur femínisti og fer á kostum,
malandi læt rímið renna,
raula fyrir málstað kvenna.

Og hefur raunsætt sjálfsmat ólíkt mörgum tvífættum femínistanum:

Kattþrifin með kattartungu kattarrófu
þvær og snyrtir loðna loppu
læða gul með fríða snoppu.

Áhugasömum unnendum góðra ljóða er bent á Nokkur gullfalleg ljóð sem Jósefínan sjálf hefur frumort (2. útgáfa aukin mjög og endurbætt). Ljóðabókin er myndskreytt af og með skáldinu sjálfu. Þar má finna kaflana Tregróf, Breiðfjörð, Jólasálma, Nokkur pólitísk ljóð o.fl.

9 ummæli við “Skáld heimilisins”

 1. Helgi Ingólfsson ritar:

  Skemmtilegt að lesa um listrænasta og heimspekilegasta kött norðan Múndíufjalla og vestan Akrafjalls.

  Skyldleikinn kattarins við Kína er nokkuð augljós, þótt þetta sé ekki Peking-köttur. Hét ekki Kína upphaflega “Cathay” á tungur evrópskra? Komið frá Marco Polo, minnir mig. Og Fína rímar við Kína. Og ekki er mikill munur á orðunum “Kína” og “kisa”. Og þó. Jamm, jæja, þessir gulu standa þó alltaf saman:

  Gulir munu grípa völd,
  greina má þá nýja slíka:
  Kínverjann með krónufjöld,
  köttinn fína’ og Í.A. líka.

  En ég vona að Fr. Jósefína kunni að fara sér gætilega í nánd við Bessastaði:

  Varkár sértu, Fín, á flakki,
  fjörráð hrella læður.
  Á Bessastöðum býr einn rakki,
  býsna köttum skæður.

  Ég sé þennan hund stundum í sjónvarpi. Við hliðina á forsetanum.

  P.S. Ef til er Fr. Jósefína Dietrich, leynist þá m’elle Marlene Baker einhvers staðar?

 2. Helgi Ingólfsson ritar:

  Sæl aftur, Harpa.

  Á árum áður voru læður á mínu heimili, þar sem nú hefur verið kattarlaust um árabil. En eftir að hafa kynnt mér rækilega hvaða hremmingum kvenpeningur getur lent í, þá hef ég ákveðið að næsti köttur, sem ég eignast, verði högni og ég hef einnig ákveðið nafnið á hann:

  Espar læður eftir vonum,
  eitthvað rekur hann til þess.
  Heldur illa hentar konum
  Hallgrímur, það volga fress.

 3. Jósefína ritar:

  Mér bregður ei þó búrtík ein á Bessastöðum
  belgi sig og byrsti róminn -
  berja hundar víða lóminn.

 4. Jóhann Bogason ritar:

  Harpan hátt nú aftur fer að hljóma
  hafði áður annan dróma
  áður nefndan fróma

  smá stýfð…

 5. Jóhann Bogason ritar:

  og hérna færðu afhendingu:

  Áður fyrr ég átti mér þa einu ósk
  að fara senn á fleyi
  en fékk það aldregi

  :)

 6. Helgi Ingólfsson ritar:

  Bóndinn einn með búrtík sinni beið á hlaði.
  Biðröð var við Bessastaði,
  boðið upp á súkkulaði.

 7. Jósefína Dietrich ritar:

  Engin læða með snefil af sjálfsvirðingu dansar feldslaus einungis íklædd bönunum! Þ.a.l. er ekki til nein Marlene Baker.

 8. Helgi Ingólfsson ritar:

  Marlene Baker vildi menn frá Ghana mana.
  Þó héldu sumir hana Kana,
  helst þá fyrir bananana.

  P.S. Ef þgf.ft. af “bananar” er “bönunum”, hví er þá ekki þgf.ft. af “Arabar” “örubum”?

 9. Harpa Hreinsdóttir ritar:

  Hvað varðar pé-essið, Helgi, þá minnir mig að helftin úr heilum BA-kúrsi fyrir margt löngu hafi farið í umræður um banana í þgf. ft. og hversu virkt u-hljóðvarp væri í málkennd landsmanna; Ýmsar varísjónir voru ræddar í hroðalegum þaula (bananum, bönunum, bönönum o.s.fr.) Sem betur fer mætti ég það illa að ég hafði áfram lyst á bönunum (?), varð ákveðnari í að koma mér af málfræðistígnum og mér vitanlega fékkst aldrei nokkur botn í málið. Mér finnst “örubum” í fínu lagi … “öröbum” líka … kannski eins gott að ég starfa ekki lengur sem íslenskukennari, verandi þetta kærulaus um u-hljóðvarp …